Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Fúsk og sleifarlag gagnvart atvinnuvegum

Ríkisstjórnin er úti að aka.  Hún heldur ótrauð áfram pólitískum aðgerðum sínum gagnvart sjávarútvegi og ferðaþjónustu, sem hafa alltaf orkað tvímælis, en eru hættulegri en áður vegna gjörbreyttra efnahagsaðstæðna frá og með 2. apríl 2025, þegar Donald Trump sagði heiminum tollastríð á hendur með þeim afleiðingum, að heimshagkerfið stefndi í samdrátt og jafnvel efnahagskreppu og Bandaríkin stefndu í fjármálakreppu, og Bandaríkjadalur heldur áfram að falla, enda viðskiptastríð í gangi við Kína, sem horfir illa fyrir Bandaríkin. 

Ísland er eyja, en í fjárhagslegum efnum mjög háð heimshagkerfinu.  Á sama tíma og búið er að raska jafnvægi heimshagkerfisins og setja það í niðursveiflu með ótrúlega klunnalegum og gamaldags vinnubrögðum Hvíta hússins (hver verða viðbrögð Capitol Hill ?), þá ætlar ríkisstjórn Íslands að bæta gráu ofan á svart með því að auka álögur á sjávarútveg og ferðaþjónustu tilfinnanlega.  Með því að hella olíu á eldinn, sem brennur á útflutningsatvinnuvegunum hættir ríkisstjórnin á harðan efnahagslegan samdrátt hérlendis vegna minni fjárfestinga og minnkandi útflutningstekna.  

Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, fékk birta skelegga grein um áhrif hærri skattheimtu á sjávarútveginn og starfsumhverfi hans í Morgunblaðinu 3. apríl 2025 undir fyrirsögninni:

"Aukið veiðigjald - minni verðmætasköpun ?"

Hún hófst þannig:

"Áform stjórnvalda um stórfellda hækkun veiðigjalda eru ekki bara árás á íslenzkan sjávarútveg - þau eru árás á byggðarlög, fjölskyldur, framtíðarsýn og efnahagslegan stöðugleika um land allt.  Fyrir sjávarútvegssveitarfélög, eins og Fjarðabyggð, eru þessi áform einfaldlega ólíðandi.

Fjarðabyggð hefur um áratugaskeið verið burðarás í íslenzkum sjávarútvegi.  Hér eru rótgróin fyrirtæki, bæði stór og lítil - fjölskyldufyrirtæki og afurðastöðvar - sem veita fólki atvinnu, greiða skatta, byggja samfélagið og halda uppi lífi í fjölda byggðakjarna."

Með einu pennastriki í Reykjavík er ætlunin að draga úr umsvifum fjölda manns á landsbyggðinni og draga féð að höfuðborginni.  Þetta nær engri átt og eru hrein svik við kosningaloforð allra stjórnarflokkanna.  Annaðhvort eru forysturollurnar purkunarlausar í umgengni sinn við sannleikann, eða þær eru skyni skroppnar um þjóðhagslegar afleiðingar gerða sinna. Það er ekkert vit í því að leiða fólk af þessu tagi til valda.  Svona sértæk skattheimta á sér aðra hlið: fjárfestar, sem keypt hafa hlutabréf í sjávarútvegsfélögum, standa frammi fyrir lækkandi gengi hlutabréfanna og þess vegna meira peningalegu tapi en aðrir á hlutabréfamarkaði hérlendis á þessum tollastríðstímum Bandaríkjanna.

Grein sinni lauk Ragnar þannig:

"Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og sveitarfélög, eins og Fjarðabyggð, skora á ríkisstjórnina að staldra við.  Að hefja gagnsætt samtal við hagaðila, útbúa greiningar, sem byggja á staðreyndum, og leggja fram raunhæfa, sanngjarna og rökstudda nálgun í framhaldinu."

Skattspor sjávarútvegsins er nú um 50 mrdISK/ár og hefur líklega náð hámarki að raunvirði að óbreyttri fiskgengd á Íslandsmið.  Þetta má sannreyna með útreikningum.  Skattagríð vinstri manna er svo mikil, að þeir skjóta sig í fótinn í bægslaganginum og grafa undan sveitarfélögum, sem háð eru sjávarútvegi, og grafa undan blómlegri byggð við sjávarsíðuna. Fyrir þetta þarf að refsa forysturollunum þremur í næstu kosningum.  Hugmyndaleysið og einstrengingshátturinn við stjórn landsins mun koma landsmönnum í koll. 

 

 

 

 


Vitlaus viðmið Viðreisnar

Ekki skal efa, að samstaða sé innan ríkisstjórnar K. Frost. um breyttar forsendur við útreikninga s.k. veiðigjalda, en það eru Viðreisnarráðherrarnir í atvinnuvegaráðuneytinu, Hanna Katrín Friðriksson, og fjármála-og efnahagsráðuneytinu, Daði Már Kristófersson, sem forgönguna hafa.  Það eru engar traustar atvinnulegar, fjárhagslegar eða langframa skattalegar forsendur fyrir s.k. "leiðréttingu", heldur eru þær af pólitískum toga, sem er slæmt vegarnesti fyrir auknar álögur á undirstöðuatvinnugrein, sem fætt hefur af sér margvíslega sprota í atvinnulífinu, sem styrkt hafa allt atvinnulíf í landinu og er fagnaðarefni.

Gripnar eru á lofti gamlar lýðskrumsfullyrðingar til að "leiðrétta" gjaldskrána, en að manni læðist sá grunur, að "leiðréttingin" sé til þess ætluð að færa íslenzkan sjávarútveg niður á plan sjávarútvegs í Evrópusambandinu - ESB, sem er á þurfalingsplani, enda er ESB hið fyrirheitna land Viðreisnarfólks.  Ef þetta er ekki rétt, er hreinni fáfræði um íslenzkan sjávarútveg um að kenna, og er hvorugt beysið. Vinnubrögð Viðreisnarráðherranna eru frumstæð og benda til, að þeir séu að fullnægja djúpstæðum pólitískum hvötum sínum.  

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, þekkir hins vegar íslenzkan sjávarútveg, eins og handarbakið á sér.  Um það ber Morgunblaðsgrein hans 12. apríl 2025 glöggt vitni:

"Tvöföld verðlagning - tvöfaldir skattar".

Hún hófst þannig:

 "Meira en hálfri öld áður en kvótakerfi í fiskveiðum var innleitt hér á landi, var samtenging veiða og vinnslu orðin regla á Íslandi frekar en undantekning.  Eflaust á það rætur að rekja til legu landsins og möguleika þess tíma til verðmætasköpunar.  Í hundrað ár hefur þetta form verið hornsteinn í íslenzkum sjávarútvegi, og höfðum við það fram yfir Norðmenn, þegar kvótasetning fisktegunda varð ekki umflúin.  Þetta er ástæðan fyrir því, að stærstur hluti aflans í Noregi hefur verið fluttur óunninn úr landi, en á Íslandi er stærstur hluti aflans unninn á heimaslóð."

Vafasamir pappírar, sem eru ötulir við að sá fræjum tortryggni um kvótasettan íslenzkan sjávarútveg, hafa látið í veðri vaka, að samtvinnun veiða og vinnslu hafi verið fylgifiskur kvótasetningarinnar.  Þeim væri nær að kynna sér söguna áður en þeir fara á flot með fimbulfamb sitt um kvótakerfið og sjávarútveginn.  

Forsendubreytingar Viðreisnar á útreikningum veiðigjaldanna, s.k. "leiðrétting", er svo órökrétt og ósanngjörn, að segja má, að hún sé "út úr kú".  Hún tekur mið af uppboðsverði, sem erlendar, niðurgreiddar fiskvinnslur móta. Íslenzk stjórnvöld eru vísvitandi eða í fáfræði að skekkja stórlega eða eyðileggja samkeppnigrundvöll íslenzkra fyrirtækja með þessu uppátæki, sem ætla má, að stríði gegn íslenzkum lögum og jafnvel stjórnarskrá um atvinnufrelsi. 

"Um 20 % bolfiskaflans eru seld á íslenzkum fiskmörkuðum, og þar geta öll fyrirtæki keypt fisk, bæði þau, sem vinna aflann hér á landi og þau, sem flytja hann óunninn til útlanda.  Þarna komast erlendar fiskvinnslur í beina samkeppni við þær íslenzku um aflann.  Þær vinnslur eru niðurgreiddar, og laun, sem þar eru greidd, eru langtum lægri en gerist og gengur á Íslandi. Þar af leiðandi hafa þær í auknum mæli haft yfirhöndina í samkeppninni við Íslendinga um hráefnið, og í dag fara um 40 % af því til erlendrar fiskvinnslu, á meðan allur aflinn, sem fer í eigin vinnslur, er unninn hér á landi."

Þetta er ástæðan fyrir því, að með öllu er ótækt og felur í sér mikla skekkingu á samkeppnisstöðu íslenzkum fiskvinnslum í óhag að leggja þetta "íslenzka" uppboðsverð til grundvallar gjaldtöku af íslenzkri útgerð.  Verðið á ekki við íslenzkar aðstæður, því að það er mótað af greiðslugetu niðurgreiddra fiskvinnslufyrirtækja, þar sem er allt öðruvísi launamarkaður en hér.  Þarna er um það að ræða, að verðmyndun á 8 % bolfiskaflans er lögð til grundvallar útreikningum á veiðigjaldi, sem nær engri átt.  Ætlar atvinnuvegaráðherra að vaða út í fenið og bera ábyrgð á að rústa fyrirtækjum á landsbyggðinni ?  Kjósendur í næstu sveitarstjórnar- og Alþingiskosningum munu kunna ríkisstjórnarflokkunum litlar þakkir fyrir, enda kom þessi vitleysa, eins og skrattinn úr sauðarleggnum.  

Ekki tekur betra við, þegar velja á verðviðmiðun fyrir uppsjávarafla. Atvinnuvegavegaráðherra hefur væntanlega leitað logandi ljósi að uppboðsverði slíks afla á Íslandi án árangurs, því að hún leitaði út fyrir landsteinana eftir uppboðsverði og fann það í Noregi.  Sú aðferðarfræði að leggja til grundvallar skattlagningu á Íslandi verð, sem myndað er í útlöndum við allt aðrar aðstæður en hér ríkja, er ábyrgðarlaust og forkastanlegt fúsk og vafasamt, að standist íslenzk lög um skattheimtu. 

   "Samið er við sjómenn um tvenns konar  verðlagningu á afla upp úr skipi, og er það grunnurinn að launum sjómanna. Annars vegar er það hæsta verð, sem selt er á til þriðja aðila, gegnum fiskmarkaði eða með öðrum leiðum, og hins vegar hlutfall af afurðaverðmætinu, sem verður til, þegar unnið er úr aflanum í eigin vinnslum.  Samkvæmt lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs frá árinu 1998 funda sjómenn og útgerðarmenn mánaðarlega um fiskverð til eigin vinnslu.  Samkvæmt samningum á milli þeirra skal það vera 80 % af skilaverði uppboðsmarkaðarins, sem að jafnaði skilar útgerðinni 55 % af útflutningsverðmæti afurðanna, en fiskvinnslan heldur eftir 45 %."

 Það er svo góð sátt um þessa skiptingu á milli sjómanna og útgerðarmanna, að þeir sömdu til 10 ára við gerð síðustu kjarasamninga sinna.  Þetta sýnir, að engin þörf er á að brjóta upp samtengingarkerfi útgerðar og vinnslu sjómanna vegna, en stundum láta lýðskrumarar að því liggja, að kerfið leiði til þess, að sjómenn séu hlunnfarnir. Kvótakerfið og þetta skiptakerfi hafa þvert á móti aukið öryggi á sjó (veiðar skipulagðar á grundvelli markaðarins, en ekki í neins konar kapphlaupi), aukið atvinnuöryggi sjómanna og jafnað vinnuálagið og bætt hag þeirra. Inngrip stjórnvalda í atvinnugrein með þeim hætti, að afkoma greinarinnar sem heildar rýrnar, eins og "leiðrétting" núverandi ríkisstjórnar er dæmi um, eru skaðleg og í þessu tilviki grunnatvinnuvegar stórskaðleg.  Þróunarstarfsemi sjávarútvegsins, sem leitt hefur til sprotafyrirtækja, sem mörgum hverjum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg, veikist og verður vart nema svipur hjá sjón.  Markaðsvirði fyrirtækjanna minnkar vegna lægri arðsemi.  Þetta leiðir til hærri fjármagnskostnaðar og meiri skuldsetningar.  

"Nú ber svo við, að stjórnvöld horfa til kaupgetu erlendu fyrirtækjanna, þegar viðmið á skattstofni útgerða á Íslandi er ákveðið.  Verði sú raunin, verða skattar og gjöld á íslenzkar útgerðir grundvölluð á getu niðurgreiddrar fiskvinnslu í Evrópu, en ekki á þeim verðmætum, sem verða til á Íslandi.  Hættan við þessa nálgun stjórnvalda er þríþætt.  

Í fyrsta lagi: ef eingöngu verður um skattahækkun upp á milljarðatug að ræða, dregur það úr samkeppnishæfninni, stuðlar að samþjöppun og minnkar fjárfestingagetu fyrirtækjanna.

Í öðru lagi: ef fiskvinnslunni er gert með lögum að greiða það, sem erlendar niðurgreiddar fiskvinnslur geta borgað, fer öll afkoman yfir á útgerðina, og hvatinn til fjárfestinga í fiskvinnslu í landi hverfur.  

Í þriðja lagi: ef þetta leiðir til norsku leiðarinnar, og samtenging veiða og vinnslu verður rofin, fáum við norsku afleiðingarnar með í kaupbæti, og íslenzk fiskvinnsla, eins og við þekkjum hana, heyrir sögunni til."

Þetta mál er lýsandi dæmi um það, sem stjórnmálamenn eiga að forðast eins og heitan eldinn, þ.e. pólitísk inngrip í atvinnugrein, sem gengur vel og skilar mjög miklu til samfélagsins, án áhættugreiningar á inngripunum fyrir starfsemi greinarinnar og þróun skattspors starfseminnar. 


Ranghugmyndir ríkisstjórnar um skattheimtu

Sjávarútveginum er stjórnað af ríkisvaldinu með árlegri úthlutun aflaheimilda á skip, aflahlutdeild, í samræmi við ákvarðað heildaraflamark á tegund, sem er reist á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og langoftast samhljóða henni. Aðeins útgerðarmenn, sem eiga aflahlutdeild á skip, og þeir hafa yfirleitt keypt hana á frjálsum markaði, fá úthlutað veiðileyfi. Þeir hafa þannig keypt sér aðgang að þessari takmörkuðu auðlind, sem er í umsjón ríkisvaldsins. Þeir áttu ekki von á að þurfa að borga meira fyrir veiðiheimildir. Þessi ríkisafskipti eru mjög mikil af þessari tilteknu atvinnugrein , sem fyrir 1983 var opin öllum, og hún var rekin með bullandi tapi á tímum minnkandi fiskgengdar og allt of margra veiðiskipa.  Ríkisafskiptin og lokunin voru réttlætt með nauðsynlegri verndun nytjastofnanna gegn ofveiði, og að þannig væri verið að verja hagsmuni þjóðarinnar, enda hefðu miðin löngum verið almenningur, þ.e. öllum opin.  Miðin eru augljóslega ekki almenningur lengur, heldur hafa þeir einir rétt til nytja, sem kaupa sér aðgang.  Um þetta eru nokkrar undantekningar, t.d. strandveiðarnar. Engin ákvæði eru um fjölda veiðiskipa, en með fjárfestingum í nýrri tækni hefur framleiðni þeirra aukizt.  Auðvitað á fjárfestirinn að njóta góðs af því, en ekki ríkið sérstaklega. 

Útgerðarmenn báðu ekki um þetta kvótakerfi, heldur var það stjórnvaldsákvörðun, en ekkert var á sínum tíma rætt um greiðslu fyrir aðgang að miðunum á grundvelli auðlindarentu eða annars. Með frjálsu framsali aflaheimilda frá 1989 jukust mjög viðskipti með kvóta, og kaupendur voru í góðri trú um, að kvótinn væri eign þeirra og jafngilti veiðileyfi á ótilgreindu magni.  Þegar hagur strympu (útgerðanna) tók að vænkast, komu upp öfundarraddir um, að þetta lokaða kerfi byði upp á meiri hlutfallslegan hagnað en aðrar atvinnugreinar. Var þessi umframarðsemi nefnd auðlindarenta, en þarna voru menn of fljótir á sér, því að engum hefur tekizt að sýna fram á með gildum rökum auðlindarentu í sjávarútvegi á Íslandi, enda reksturinn háður duttlungum náttúrunnar, sem takmörkuð þekking er á. Samt hafa stjórnvöld hérlendis um hríð  lagt á s.k. veiðileyfagjald, sem er viðbótar tekjuskattur á útgerðirnar á grundvelli einhverrar meintrar auðlindarentu.  Þarna er vitlaust gefið. 

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifaði grein um verðmætasköpun og skattheimtu á sjávarútveginn í Morgunblaðið 1. apríl 2025 undir fyrirsögninni:

"Íslenskur sjávarútvegur er óvinurinn".

Eins og fyrirsögnin gefur til kynna, er þessi skattheimta af pólitískum toga að mati framkvæmdastjórans, og engin efnahagsleg rök hníga að henni, því að hún er dæmd til að draga úr verðmætasköpun og þar með heildarskattspori sjávarútvegsins til ríkis og sveitarfélaga. Ríkið er nú að undirbúa alvarleg mistök við tekjuöflun.  Eftirfarandi tilvitnun í Sigríði Margréti ætti að færa mönnum heim sanninn um það:

"Virkur tekjuskattur [þ.e. raun tekjuskattur - innsk. BJo] fyrirtækja er í dag tæp 38 %.  Virkur tekjuskattur þeirra fyrirtækja, sem stunda fiskveiðar, er 58 %.  Nýtt frumvarp atvinnuvegaráðherra mun hækka virkan tekjuskatt þeirra, sem stunda fiskveiðar, í 76 %."  

Af þessu er ljóst, að um skemmdarverk stjórnvalda á heilli atvinnugrein er að ræða, sem lama mun starfsemina, valda fjármagnsflótta úr greininni og fjárfestingar og eiginfjárstaða munu ekki verða svipur hjá sjón.  Þessar tölur sýna svart á hvítu, að verðmætasköpun og skattspor munu dragast saman vegna glórulausrar skattheimtu samkvæmt lögmáli Lafflers, og sveitarfélög og ríkissjóður munu tapa á þessu.  Með flumbruhætti og pólitískum einstrengingshætti er þessi vinstri stjórn að skjóta sig í fótinn. Ekki kæmi á óvart, að slík ofurskattheimta, sem gera mun út af við sum minni útgerðarfélögin og þrýsta á samþjöppun, væri brot á stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi. Það þarf mjög sterk rök til þess að réttlæta mismunandi tekjuskattsheimtu af atvinnugreinum, því að hún skekkir samkeppnisstöðu og jafngildir mismunun ríkisvalds gagnvart borgurunum.

Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, skrifaði um málefni sjávarútvegsins af reynslu sinni og þekkingu í Morgunblaðið 18.02.2025 undir fyrirsögninni:

"Hvað er raunverulegt gagnsæi í sjávarútvegi ?"

"Ein stærsta breytingin, sem ríkisstjórnin boðar í sjávarútvegsmálum, er aukin skattheimta á greinina í formi s.k. auðlindaskatta.  En hvers vegna er verið að herða skattheimtu á grein, sem hefur þegar skilað ríkinu verulegum tekjum ?  Íslenzkur sjávarútvegur greiðir bæði veiðigjöld og tekjuskatta og stendur ekki undir neinum ríkisstyrkjum, ólíkt mörgum öðrum atvinnugreinum.  Í raun er Ísland eina landið innan OECD, þar sem sjávarútvegur greiðir meira til ríkisins en hann fær í stuðning."

Auðlindagjald þetta er reist á falsrökum, enda hefur Hæstiréttur jafnan nefnt fyrirbærið skatt, þegar hann hefur fjallað um mál af þessu tagi.  Sjávarútvegurinn hefur mun meira  vægi í byggðarlögum úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu, og þess vegna má nefna þessa skattheimtu byggðaskattheimtu.  Þingmenn dreifbýlisins hljóta að beita sér gegn þessum fjármagnsflutningi. 

"Ef útgerðum verður gert að greiða enn hærri auðlindaskatta, þarf að svara þeirri spurningu, hvernig tryggja á áframhaldandi samkeppnishæfni greinarinnar.  Sjávarútvegsfyrirtæki í samkeppnislöndum okkar njóta opinbers stuðnings, en hér er greinin stöðugt skotmark pólitískra ákvarðana, sem draga úr rekstraröryggi. Í stað þess að styrkja greinina og tryggja stöðugleika er ríkisstjórnin að leggja grunn að óvissu, sem gæti grafið undan fjárfestingum og nýsköpun í greininni."  

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru handahófskennd.  Það er engin tilraun gerð til að grafast fyrir um auðlindarentuna, heldur er fyrri skattheimtuformúla notuð með uppboðsmarkaðsverðum, sem eru ómarktæk til þessara nota, því að tiltölulega mjög lítið magn fer um þá, og fyrir uppsjávarfiskinn er leitað til norskra uppboðsmarkaða, þar sem  gjörólíkar markaðsaðstæður ríkja. Þetta eru óviðunandi vinnubrögð.  Það dettur engum heilvita manni í hug, að tvöfalt arðsamara sé að gera út fiskiskip í íslenzkri lokaðri landhelgi en að meðaltali að reka annars konar fyrirtæki á Íslandi, en þetta verður hlutfall virks tekjuskatts útgerða og annars konar fyrirtækja á landinu (76 %/38 %).  Þessi fyrirhugaða skattheimta er glórulaus.  Auðvitað á aðeins eitt virkt tekjuskattshlutfall að vera á fyrirtækjum landsins.  

"Ef raunverulegt gagnsæi á að vera markmið, ætti umræðan ekki að snúast um eignatengsl, heldur um skýra stefnu í auðlindastýringu, betri greiningu og langtímaáætlun um aflaheimildir.  Það þarf að tryggja rekstrarlegan fyrirsjáanleika og koma á skilvirkum aðgerðum, sem styðja við byggðaþróun og atvinnu.  Þetta snýst ekki um aukið eftirlit og reglugerðir, sem kæfa greinina, heldur um að tryggja, að hún geti starfað áfram á sjálfbærum og arðbærum grunni."

Núverandi stjórnvöld á Íslandi fara þveröfuga leið við auðlindastýringu m.v. ofangreint.  Það er engin tilraun gerð til að greina auðlindarentuna og ákveða, hversu stór hluti hennar skuli ganga til ríkisins.  Þvert á móti er að hætti lýðskrumara ákveðið að reikna veiðigjaldið á bolfiski út frá innlendum uppboðsmarkaði, sem kippa mundi grundvellinum undan innlendri fiskvinnslu, væri hann lagður til grundvallar, og að þessari dæmalausu lýðskrumsákvörðun tekinni, eru engir tilburðir hafðir uppi um að  áhættugreina þessa ákvörðun m.t.t. samkeppnishæfni, sjálfbærni, atvinnuöryggis, og tekna ríkissjóðs og sveitarfélaga. Varðandi veiðigjöld á uppsjávarfiski datt búrókrötunum það snjallræði í hug að miða við uppboðsverð í Noregi.  Allt er þetta svo óvandað, að til stórskammar er, þegar haft er í huga, hversu mikið er í húfi. Flaustur og flumbrugangur ríkisstjórnar K. Frost. er slíkt, að halda mætti, að náungi að nafni Donald Trump hafi haft hönd í bagga.   

 

 

 

  

 


Staðsetning virkjana skiptir máli

Það eru margir þættir, sem gera staðsetningu virkjana mikilvæga. Þar má nefna orkutöp frá virkjun til notenda, hættu af völdum náttúruhamfara, rekstrarstöðugleika vegna náttúrufars, hvort raforkuinnflutningur eða -útflutningur er af svæði virkjunar, og kostnað íbúa á svæðinu vegna truflana á raforkuafhendingu til þeirra.  Út frá þessum atriðum má segja, að eitt landsvæði beinlínis hrópi á nýjar virkjanir inn á svæðið.  Þetta eru Vestfirðir, en einnig má benda á öra uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum sem viðbótar rök fyrir því, að landsfeður og -mæður veiti nýjum Vestfjarðavirkjunum vissan forgang á framkvæmdalista. Tala ekki málpípur nýrrar ríkisstjórnar fjálglega um að styðja við verðmætasköpun í landinu ?  Eru það bara orðin tóm ?

Elías Jónatansson, orkubússtjóri, reit dágóða grein um þetta málefni í Morgunblaðið 14.01.2025, sem hann nefndi: 

"Skipta virkjanir og staðsetning þeirra máli ?"

Þar mátti m.a. lesa:

"Orkubú Vestfjarða hefur sýnt fram á, að bæta má afhendingaröryggi á Vestfjörðum um 90 % með byggingu tveggja virkjana.  Annars vegar Kvíslatunguvirkjunar í Selárdal í Steingrímsfirði, 9,9 MW, sem vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við á þessu ári [2025] og gangsetja á árinu 2027.  Virkjunin er sérlega mikilvæg fyrir 10 % Vestfirðinga, sem búa í grennd við virkjunina. 

Þá hefur Orkubúið lagt til, að skilmálum friðlands í Vatnsfirði við Breiðafjörð, sem er í eigu ríkisins, verði breytt til að hægt verði að taka 20-30 MW virkjunarkost þar til skoðunar í rammaáætlun.  Þar er um að ræða kost, sem hefði afgerandi jákvæð áhrif á raforkukerfið hjá 90 % Vestfirðinga.  Virkjunin getur orðið hryggjarstykkið í vestfirzka raforkukerfinu, og 2 fyrr nefndar virkjanir gætu, ásamt Mjólkárvirkjun, sem er 11 MW, tryggt Vestfirðingum raforku, þótt tenging við meginflutningskerfið væri rofin, jafnvel vikum saman. Virkjanirnar 3 væru samtals 51 MW í uppsettu afli og með mjög góða miðlunargetu.  Um leið og virkjanirnar styrkja raforkukerfi svæðisins verða þær grænt varaafl fyrir Vestfirði, þegar Vesturlína er straumlaus."  

Hér er um skynsamlega tillögugerð að ræða, sem nýr loftslags-, orku- og umhverfisráðherra ætti að taka upp á arma sér og flytja lagafrumvörp um á Alþingi, eins og margir Vestfirðingar ætlast til af honum.  Þar með slægi hann forvera sínum í embætti við, en nokkur metingur hefur verið á milli þeirra undanfarið.  Verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, gagnast afhendingaröryggi í landinu öllu sem nemur framleiðslugetu þessara tveggja virkjana og dregur talsvert úr olíubrennslu. Það, sem Orkubússtjórinn kynnir þarna til sögunnar, er framfaramál fyrir Vestfirði og landið allt, og nú reynir á nýja ríkisstjórn "að láta verkin tala".   


Vatnshlot og þvíumlíkt frá ESB

Það kennir margra grasa í reglugerða- og tilskipanafargani ESB, sem hér er innleitt vegna EES-aðildar Íslands.  Gagnrýnileysi og flaustur við þessa innleiðingu og jafnvel blýhúðun getur og hefur þegar orðið Íslandi afar dýrkeypt.  

Það vantar í umræðuna um þetta mál, hvað átti raunverulega að verja með þessari lagasetningu um "vatnshlot".  Á hún yfirleitt við á Íslandi ?  Það virðist sem öll inngrip í árfarvegi séu óleyfileg, þ.m.t. brúargerð.  Hvaða aðstæður voru það í ESB, sem kölluðu á þessa lagasetningu ?  Þegar svona mikil óvissa ríkir um tilurð og hlutverk lagasetningar frá ESB, er það skylda stjórnvalda og Alþingis að taka af lagaleg tvímæli um túlkunina. 

Fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra brást þar bogalistin og sama má segja um þingnefndina, sem um málið fjallaði.  Þetta verður vonandi víti til varnaðar, því að óvönduð lagasetning hefur oft kostnaðarsamar afleiðingar í för með sér. 

Þann 16. janúar 2025 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í uppnámi"

Þar kom m.a. fram:

"Samkvæmt dómnum gerði löggjafinn Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins.  Tilskipunin var sett í lög árið 2022, en sótt var um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021.

Breyting á vatnshloti þýðir, að verið er að breyta t.d. rennsli, sem gerist, þegar vatnsaflsvirkjanir eru byggðar.  Heimild til breytingar á vatnshloti er forsenda þess að fá virkjunarleyfi frá Orkustofnun. 

"Hann túlkar lagasetninguna þannig, að Umhverfisstofnun sé ekki heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti fyrir vatnsaflsvirkjun, sem þýðir bara, að það er óheimilt að virkja vatnsafl á Íslandi samkvæmt þessari túlkun", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við Morgunblaðið, en tekur fram, að þetta sé mat lögmanna Landsvirkjunar á dómnum við fyrstu sýn."

Það er ástæða til að spyrja um erindi þessarar ESB-löggjafar til Íslands. Streymisstjórnun margra Evrópuþjóða á ám sínum er ekki til fyrirmyndar.  Víða hefur verið þrengt svo að ánum, að við miklar rigningar flæða þær yfir bakka sína og valda tjóni og stundum dauða fólks og dýra.  Á þessi löggjöf yfirleitt við á Íslandi, þar sem streymi áa hefur í langflestum tilvikum verið breytt með ábyrgum hætti á afmörkuðum stöðum til að nýta fallorkuna til raforkuvinnslu og til að brúa  ána ?  Áttuðu þingmenn sig á því, hvað þeir gerðu með þessari innleiðingu ?  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar bendir ekki til þess.  Það verður að gera þessa evrópsku lagasetningu óskaðlega hérlendis.

""Ef túlkunin er svona, þá setur það allar vatnsaflsvirkjanir í uppnám", segir Hörður. Hann segir ljóst, að lögunum sé ekki ætlað að vinna gegn vatnsaflsvirkjunum, en dómurinn sé frekar að segja, að annmarkar hafi verið á meðferð málsins á Alþingi.  Nefndin, sem var með málið til umfjöllunar, hafi að mati dómsins ekki gert það nógu skýrt, hver vilji stjórnvalda væri - að heimila vatnsaflsvirkjanir.  Spurður, hvort ríkisstjórnin þurfi að leggja fram nýtt frumvarp, segir Hörður:

"Ef þau [stjórnvöld] eru sammála þessari túlkun dómarans, að það séu ágallar á frumvarpinu, sem séu þannig, að vilji stjórnvalda sé ekki að koma þar fram, þá held ég, að það sé einboðið, að það þurfi að skoða það", svarar Hörður."

Dómurinn er hæpinn.  Að dæma vatnsaflsvirkjunina af á þeim forsendum, að ekki sé í lögunum sérstaklega heimilað að virkja vatnsföll, stangast á við hina hefðbundnu lagatúlkun um, að það, sem ekki er bannað, sé leyfilegt.  Að dómaranum detti í hug, að ESB-rétturinn setji hömlur á breytingu streymisþátta til að virkja endurnýjanlega orku eða að Alþingi hafi umræðulaust söðlað um og ákveðið að hverfa af braut vatnsaflsvirkjana, er sérkennilegt.  Svona lögfræðilegir loftfimleikar eru óverjandi í ljósi þeirra þjóðarhagsmuna, sem í húfi eru. 

 

 

  

 


Sólhvarfastjórnin lömuð ?

Þing er ekki enn komið saman eftir kosningar og kemur ekki saman fyrr en í byrjun febrúar 2025, og sólhvarfastjórnin 2024 hefur setið í mánuð, en stefnuyfirlýsingin er þunnur þrettándi og lítt hjálplegur, og fyrstu tilburðir stjórnarinnar fálmkenndir, eins og t.d. að leita eftir hugmyndum almennings um sparnað í ríkisrekstri, þótt fyrir hendi séu tillögur um slíkt, t.d. nýlegar frá Viðskiptaráði.  Nokkur embætti ríkisins í heilbrigðisgeiranum, sem þó sinna ekki sjúklingum beint, hafa vaxið ótæpilega og eru með ótrúlega mörg stöðugildi.  Nægir að nefna Landlæknisembættið, Sjúkratryggingar Íslands og Lyfjastofnun.  Eru þessi embætti að búa til óþörf verkefni í von um að réttlæta stærð sína ?

Utanríkisráðherra hefur byrjað ferilinn á því að undirbúa nýtt bjölluat í Brüssel, og er það hið versta mál og gæti orðið banabiti ríkisstjórnarinnar. Að öðru leyti hefur hún farið þokkalega að ráði sínu, og er sérstök ástæða að fagna framtaki Þorgerðar Katrínar að heimsækja stjórnvöld í Kænugarði og undirstrika stuðning Íslands við baráttu Úkraínumanna fyrir land sitt og fullveldi.  Þann 24. febrúar 2025 verða 3 ár liðin frá upphafi þess hryllings, sem stríðsóður einræðisherra í Kreml leiddi yfir friðsama nágrannaþjóð, sem ekki þýðist ógnarstjórn hans og heimsvaldastefnu.  Nú er góðu heilli tekið að fjara undan hernaðarvél illmennisins, og efnahagur Rússlands stendur á brauðfótum.  Á árinu 2025 munu sögulegir atburðir gerast, sem marka munu framhald aldarinnar.

Elías Elíasson, verkfræðingur, velti fyrir sér hugmyndum, sem frá stjórnarflokkum sólhvarfastjórnarinnar hafa komið, en uppnámi geta valdið á þingi og eru ekki líkleg til að styrkja ríkisbúskapinn til lengdar eða vekja hrifningu á Svörtuloftum.  Hann ritaði grein, sem birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2024 undir fyrirsögninni:

"Á að skattleggja fjárfesta til að auka fjárfestingar ?"

Fjárfestingar eru undirstaða hagvaxtar og atvinnusköpunar, og sparnaður er undirstaða fjárfestinga. Stjórnarflokkarnir hafa rekið hornin í sparendur með tali um hækkun fjármagnstekjuskatts, sem þegar er í hæstu hæðum vegna skattlagningar verðbóta, sem er mjög óréttlát skattheimta. 

Auðlindarenta er stjórnarflokkunum hugleikin, en benda má þeim á, að með gildum rökum hefur enn ekki verið bent á hana í sjávarútveginum.  Megnið af innviðum landsins fyrir innlenda orku er á höndum opinberra aðila, og það er mótsögn fólgin í því að eltast við auðlindarentu í slíkum fyrirtækjum, því að auðlindarenta, þar sem hún er raunveruleg, hlýtur alltaf að lenda hjá eigandanum.

Grein Elíasar hófst þannig:

"Stærsti valkyrjuflokkurinn á þingi vill setja auðlindagjald á sjávarútveginn til að fjárfesta í heilbrigðisgeiranum.  Sá næststærsti vill líka setja auðlindagjald á orkuna, væntanlega til að auka fjárfestingu í þeim geira, enda vantar orku, og orkuskipti standa yfir.  Þriðja valkyrjan virðist líta á lífeyrissjóðina sem sjálfbæra auðlind á við hinar.  "Ekki er öll vitleysan eins" var stundum haft á orði fyrir vestan.  Er ekki betra að ræða, hvernig samfélög virka saman áður en svona tilraunastarfsemi er hafin ?"

Téð þríeyki er í háskaleiðangri með grundvallarstarfsemi í landinu með þessum hugmyndum sínum.  Það getur valdið því, að þessir tekjuskattsstofnar rýrni, og hver er bættari með það ?  Núverandi veiðigjald er innheimt með mjög harðri skattheimtu eða þriþjungi af nettótekjum.  Þar á ofan kemur tekjuskatturinn, og er þá þessi skattheimta komin yfir 50 %, sem er glórulaust.  Norskur sjávarútvegur, sem sá íslenzki á í samkeppni við, greiðir ekkert veiðigjald, en fær styrk úr ríkissjóði, hinum geisiöfluga norska ríkissjóði.   Hver hefur einhvern tímann sýnt fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi með haldbærum rökum ?  

Það er líklegra, að auðlindarenta hafi fundizt hjá framleiðendum raforku á Íslandi, en þeir eru flestir í eigu opinberra aðila, svo að það er rökleysa að leggja auðlindagjald á þessi fyrirtæki.  

Málflutningur þriðja formannsins um skattlagningu á lífeyrissparnaðinn við inngreiðslu í lífeyrissjóð hljómaði í kosningabaráttunni eins og púkablístra.  Púkanum á fjósbitanum var skemmt, þegar minnka átti lífeyriseign landsmanna vegna tortryggni í garð lífeyrissjóða og bábilja um, að þeir kynnu ekki með fé að fara.  Efnahagsstefna sólhvarfa stjórnarinnar er ekki upp á marga fiska.  Þar rekur hvað sig á annars horn, svo að fæðingin verður erfið. 

"Auðlindarenta er sögð koma fram í vatnsorkunni, þegar upphaflegi fjárfestirinn hefur fengið fé sitt endurgreitt með hæfilegri ávöxtun.  Hér sést fyrirbrigðið t.d. í vaxandi arðgreiðslum Landsvirkjunar til eiganda síns, sem er ríkið, [á] meðan framkvæmdir eru litlar.  Það er þó ekki svo, að auðlindarenta jafnist á við afskriftir og vexti, þegar þeim lýkur; við taka viðhaldsfjárfestingar, sem oft jafnast á við 70 ára afskriftir." 

Ef Landsvirkjun fengi nú á sig auðlindagjaldtöku vegna auðlindarentu, mundi arðgreiðslan minnka að sama skapi.  Á tímum sem þessum, þegar brýnt er fyrir almannahag, að virkjanafyrirtækin fjárfesti eftir fremsta megni í aukinni raforkuvinnslugetu, væri það glórulaus ráðstöfun af hálfu nýs þingmeirihluta að íþyngja orkufyrirtækjunum með auðlindagjaldi. Hvernig ríkisstjórnin hagar fjáröflun fyrir ríkissjóð, verður ákveðinn prófsteinn á hana. Annar prófsteinn er auðvitað virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi í janúar 2025, og hann gekk lengra.  Hann felldi úr gildi leyfi Umhverfisstofnunar til breytingar á stuttu  vatnshloti árinnar á grundvelli innleiddrar ESB-löggjafar. Þessi túlkun jafngildir banni við öllum vatnsaflsvirkjunum yfir ákveðnum stærðarmörkum, sem óljóst er, hver eru.  Þetta er fráleit túlkun ESB-löggjafar og á vilja Alþingis, en er rakin til blýhúðunar 2011.  Ef veigur hefði verið í nýja orkumálaráðherranum, hefði hann lagt fyrir ríkisstjórnina drög að bráðabirgða lögum til að setja framkvæmdir á beinu brautina, en þess í stað leikur hann tafaleik með frumvarpi fyrir Alþingi.  Ef frumvarpið verður vel heppnað og verður að lögum fyrir miðjan febrúar 2025, fær ráðherrann einkunnina "Staðizt", en ella er hann fallinn. 

"Hér á landi standa yfir orkuskipti, sem eru afar mikilvægt verkefni.  [Þau] tryggja aukna hagkvæmni í orkunotkun, bætt orkuöryggi og þjóðaröryggi, auk þess sem þetta er ein öflugasta loftslagsráðstöfun, sem við getum ráðizt í hér á landi. En orkuverin, sem við þurfum að reisa, verða dýrari en þau, sem við höfum þegar á hendi, auk þess sem eitthvað kann að þurfa af vindorku. Vindorkan er óstöðug, og eina hagkvæma orkugeymslan, sem tiltæk er til að geta sett hana á markað í samræmi við eftirspurn eru lón vatnsorkuveranna.  Til að nýta þau þannig þurfum við jafnmikið umframafl í vatnsorkuverunum og vindorkan býður fram.  Aðeins takmarkað slíkt umframafl er fyrir hendi, þannig að þegar frá líður þurfum við að byggja jafnstórt vatnsorkuver á móti hverjum nýjum vindlundi.  Það getur orðið dýr orka.  Auðlindagjöld til viðbótar þessum fjárfestingum munu óhjákvæmilega hækka orkuverð.

Þetta segir okkur, að nú sé ekki rétti tíminn til að draga fjármagn úr þessum geira fyrir gæluverkefni stjórnvalda.  Nú þarf að athuga, hvernig þessu fjármagni, sem fólgið er í auðlindarentunni, verði bezt varið. Er ríkissjóður endilega heppilegur milliáfangi fyrir þetta fjármagn ?  Hvernig væri, að orkufyrirtækin ráðstöfuðu því bara sjálf ?" 

Í landi takmarkaðra náttúrulegra orkulinda nær engri átt að reisa vatnsorkuver til að ganga 60 % af árinu sem varaafl fyrir vindorkuver.  Við þurfum á hámarksnýtingu að halda.  Vindrafstöðvagreifar eru með annað í huga.  Þeir vilja nýta vindrafstöðvar fyrir álag, sem þolir sveiflukennt framboð.  Þeir hafa nefnt rafeldsneyti, en afar léleg heildarnýtni fylgir slíkri framleiðslu, og fórnarkostnaðurinn er gríðarlegur, ef mannvirkin er sjánleg og heyranleg langar leiðir (tugi km), og þau spanna mikið flæmi m.v. orkuvinnslugetu.  Þess vegna er þetta ekki góð leið til að samræma sjónarmið um náttúruvernd og orkuvirkjanir. 

Mjög lítil orkuskipti eiga sér stað í landinu um þessar mundir vegna þess, að raforkan er uppseld, og hvatinn til rafbílakaupa var rýrður mjög í lok valdatíma síðustu ríkisstjórnar.  Raforkuleysið hefur valdið því, að fjöldi álitlegra viðskiptatækifæra hefur farið í súginn.  Nú er verið að endurræsa kjarnorkuverið Three Mile Island í Bandaríkjunum og búið að gera samning um sölu allrar raforkunnar þaðan til gagnavera, sem sinna gervigreind.  Orkuverðið verður 110 USD/MWh.  Ekki er að efa, að hægt hefði verið að laða hingað nokkur slík gagnaver, ef orkuframboð væri fyrir hendi, svo að dæmi sé tekið af viðskiptavini, loðnum um lófana. 

"Sjávarútvegurinn hefur síðan kvótakerfið var tekið upp og styrkjakerfið var aflagt, hagrætt gífurlega.  Þessi hagræðing var m.a. möguleg vegna stórbætts vegakerfis, sem gerði hagkvæmara að flytja afla landleiðina [á] milli afurðastöðva í stað þess að sigla með hann, og þar með urðu fiskmarkaðir skyndilega vel virkir, og bætti það um betur.  Aukinn hagnaður var nýttur til að fjárfesta í skipum með betri orkunýtni, sem er mikið framlag til umhverfismála.  Einnig var ríkulega fjárfest í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmálum, sem allt bar ávöxt.  Upp risu alþjóðlega viðurkennd fyrirtæki, eins og Marel og Kerecis.  Enn eitt fyrirtækið, Bláa hagkerfið, vinnur nú að nýju kerfi til stjórnunar fiskveiða á grundvelli gervigreindar, sem hefur ótæpilega möguleika í för með sér til hagræðingar og verndunar stofna. 

Þessu framfaraskeiði í sjávarútvegi er ekki lokið og því ekki hægt að segja, að ekki sé full þörf fyrir fjármagn í greininni.  Fjármagn í fiskveiðum og -vinnslu er hins vegar ekki bundið, og opið er fyrir fjárfestingar þeirra fyrirtækja í öðrum greinum.  Er ekki einfaldast, sé vilji fyrir hendi að auka fjárfestingar í heilbrigðisgeiranum, að opna rækilega fyrir einkaframtakið í þeim geira ?"

 Íslenzkur sjávarútvegur býr við skökk samkeppnisskilyrði, sem stjórnmálamenn hafa búið honum, þar sem eru há veiðigjöld, á meðan sjávarútvegur, sem sá íslenzki keppir við á mörkuðum, t.d. sá norski, býr við opinberan stuðning.  Sjávarútvegurinn verður að fá að safna í sjóði, því að sveiflur lífríkisins eru miklar og nægir að nefna loðnuna í því sambandi.  Enginn veit, hvert kólnun hafsins af völdum bráðnunar Grænlandsjökuls leiðir. Það er því óráðshjal af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka að auka enn álögur á sjávarúrveginn.  

 

   

 


Hlutverk vindorkuvera á Íslandi

Uppsetning vindorkuvera á Íslandi er afturför í virkjanasögu landsins.  Vel hefur tekizt til með að fella núverandi vatnsafls- og jarðgufuver að náttúru landsins, og þótt tekið sé tillit til lands, sem farið hefur undir vatnsmiðlanir virkjana, þá er landþörf þessara virkjana m.v. raforkuvinnslugetu þeirra, GWh/ár, lítil m.v. vindorkuver.  Í ofanálag er mesta hæð og fyrirferð spaðanna, sem fanga vindinn og knýja rafalana (>200 m), slík, að mannvirkin verða áberandi í landslaginu langar leiðir.  Vindorkustöðvar eru þess vegna neyðarbrauð í íslenzku umhverfi. Uppsetning þeirra er vart réttlætanleg, nema í alvarlegum afl- og orkuskorti, eins og nú hrjáir landsmenn, en allt of hár fórnarkostnaður fylgir þeim, til að uppsetning vindorkustöðva til rafmagnsframleiðslu fyrir rafeldsneytisframleiðslu sé réttlætanleg. 

 Ástæðan er fyrirferð vindorkuvera og afspyrnu léleg orkunýtni við að framleiða rafeldsneyti með raforku úr vindorku.  Sem kunnugt er þá er rekstur vindorkuvera svo slitróttur að líkja má við full afköst í 18 vikur og kyrrstöðu í 34 vikur á ári.  Orkuverið stendur á fjallinu eða á heiðinni eða annars staðar gagnslaust og öllum til ama í 65 % af árinu.  Nýtni við að breyta raforkunni í hreyfiorku með bruna rafolíu er 16 %, með bruna metanóls 16 %, með bruna ammóníaks 19 %, og til samanburðar með bruna vetnis í efnarafala 48 %.  

Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti er verið að breyta háu orkustigi í lágt orkustig, sem segir til um nýtanleika raforkunnar.  Raforka er á hæsta orkustiginu, enda er hún notuð til að knýja rafbúnað með litlum töpum í flestum tilvikum (lýsingarbúnaður hefur tekið stórstígum framförum varðandi nýtni (birta á afleiningu).  Eldsneyti framleitt með raforku felur í sér lækkun orkustigs, sem að jafnaði ber að forðast, því að stefna ber að beztu mögulegu hagkvæmu nýtni. 

Vetni er í öllu rafeldsneyti, og rafgreining þess útheimtir um 23 kWh/kg, sem er um 77 % meira rafmagn  en þarf  til rafgreiningar súráls, og úr álinu eru smíðaðir nytjahlutir, sem suma má nota í stað annarra málma til að draga úr orkunotkun.  Þarna er því ólíku saman að jafna.  Til að framleiða rafeldsneyti fyrir einn eldsneytisbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 5 rafmagnsbíla.  Sú notkun rafeldsneytis er þess vegna glórulaus. Meira er horft til notkunar rafeldsneytis í vinnuvélum, skipum og flugvélum.  Það er ótímabært fyrir Íslendinga að fórna stórum landsvæðum undir vindorkuver til að framleiða rafeldsneyti fyrir þessi tæki, því að ódýrara og umhverfisvænna er að rækta jurtir, t.d. repju, til að vinna olíu úr, og síðan er tækniþróunin í þá átt að nota rafmagn til að knýja æ stærri vélar í framtíðinni. 

 

Íslendingar eru bundnir á klafa Parísarsamkomulagsins frá 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim mæli, að hækkun hitastigs jarðar frá um 1800 haldizt innan við 1,5°C.  Þetta er mjög loðin stefnumörkun, sem mun fyrirsjáanlega fara í vaskinn innan tíðar samkvæmt mælingum Sþ.  Á grundvelli þessa var Íslendingum úthlutaður losunarkvóti frá árinu 2020, sem þýðir, að f.o.m. því ári og fram t.o.m. 2030 skulu þeir draga jafnt og þétt úr losun, svo að á árinu 2030 nemi hún 29 % lægra gildi en árið 2005.  "Metnaðarfullir" og sanntrúaðir stjórnmálamenn í Evrópusambandinu, ESB, og EFTA-ríkjunum í EES, Noregi og Íslandi (óljóst með Liechtenstein) hækkuðu þetta markmið síðan upp í 41 %, sem gerir markmiðið erfitt viðureignar að óbreyttu.  Að jafnaði þarf að draga úr losun hérlendis um 120 kt/ár til að ná þessu stranga markmiði.  Það jafngildir 35 k eldsneytisbílar/ár úr umferð, sem er óraunhæft m.v. eðlilega endurnýjun.  Aðrir notendur, t.d. fiskiskipin, gætu líklega mörg hver blandað eldsneyti sitt með lífdísilolíu, ef hún verður fáanleg á samkeppnishæfu verði, og landbúnaðurinn og sorphirðan gætu líklega dregið úr losun sinni, svo að í heild mætti sennilega með átaki ná þessum 120 kt/ár CO2. 

Í grein Egils Þ. Einarssonar, efnaverkfræðings, sem birtist í Bændablaðinu 19. desember 2024 undir fyrirsögninni: 

"Loftslagsmál og orka",

er m.a. fjallað um orkuskipti:

"Í marz 2022 var gefin út skýrsla á vegum Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins með heitinu "Staða og áskoranir orkumálum".  Meginniðurstöður skýrslunnar eru nokkrar sviðsmyndir fyrir orkuöflun til áranna 2040-2050 og er metið fyrir hvert tilvik, hver aukningin þarf að vera í raforkuframleiðslu.

Grunnsviðsmyndin krefst 13 % aukningar raforkuframleiðslu [2600 GWh/ár - innsk. BJo] og miðast við að uppfylla grunnþarfir íslenzks samfélags og orkuskipti að hluta.  Sú stærsta m.v. grunnþarfir samfélagsins, full orkuskipti á landi, sjó og lofti og þarfir stórnotenda á raforku og orkusækins iðnaðar og krefst 124 % aukningar [25 TWh/ár - innsk. BJo]. Skýrsluhöfundar taka ekki afstöðu til þessara tillagna, en fram kemur, að ef stefnt er að áframhaldandi hagvexti og sókn í útflutningi sé nauðsynlegt að auka raforkuframleiðslu [?!] um 100 MW/ár næstu 20-30 árin."

Þarna er í lokin ruglað saman hugtökum.  Uppsett afl 100 MW/ár getur framleitt um 700 GWh/ár af raforku, sem eru 17,5 TWh/ár á 25 árum.    Í 124 % sviðsmyndinni er reiknað með talsverðri framleiðslu á rafeldsneyti, sem felur í sér orkusóun og er þess vegna neyðarbrauð.  Aðrar leiðir eru færar, og tækniþróunin mun geta af sér lausnir, sem fela í sér minni orkusóun. 

Ný ríkisstjórn styðst við loðinn stjórnarsáttmála og "selvfölgeligheder", en samt virðist mega telja, að þessi sólhvarfaríkisstjórn vilji fremur hagvöxt en hitt.  Hins vegar virðist henni ekki annt um útflutningsatvinnuvegina, því að í loðbrókinni er gælt við að grafa undan samkeppnishæfni þeirra, sem er grafalvarlegt mál fyrir lífskjör þjóðarinnar. Þjóðinni fjölgar og einvörðungu 3 % hagvöxtur á ári mun krefjast tvöföldunar raforkuvinnslunnar á 30 árum, þótt tekið sé tillit til bættrar orkunýtni með tækniframförum.  Það þarf að velja orkuvinnslukosti á grundvelli þessarar þarfar og finna út, hvort hægt er að finna virkjunarlausnir, sem eru viðunandi út frá hófstilltum umhverfisverndarsjónarmiðum.  Vonandi þarf að grípa til sem fæstra vindvirkjana. 

Um "grænt eldsneyti" hefur Egill Þ. Einarsson m.a.  eftirfarandi að segja: 

"Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti ber að hafa í huga, að verið er að umbreyta hærra orkustigi í lægra.  Raforka er hæsta stig orku, og hægt er að nýta hana til að knýja vélar og rafbúnað beint að mestu án taps.  Eldsneyti, sem framleitt er með raforku, inniheldur efnaorku, sem er lægra orkustig. Við bruna eldsneytis myndast varmi, sem notaður er til að knýja aflvélar.  Aðeins um fjórðungur upprunalegu orkunnar nýtist í þessu ferli, en afgangurinn breytist í glatvarma.  Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er mjög orkufrek, og fyrir 1 kg af rafolíu þarf 22-24 kWh raforku.  Til þess að framleiða eldsneyti fyrir 1 bensínbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 4-5 rafbíla. ..... Þess ber að geta, að ef vetni er notað á efnarafal, er nýtni tvöfalt meiri en fyrir annað rafeldsneyti." 

Af þessu sést, hversu gríðarleg orkusóun felst í framleiðslu rafeldsneytis.  Það er ekki verjanlegt að nota takmarkaðar orkulindir Íslands til framleiðslu rafeldsneytis í miklum mæli og alls ekki til útflutnings.  Þetta ber að hafa í huga við veitingu virkjanaleyfa.  Takmörkuðum orkulindum landsins ber að ráðstafa með skilvirkum hætti til orkuskipta og innlendrar atvinnuþróunar.  Hvort tveggja leiðir til hagvaxtar, ef vel er á spilunum haldið.  

 

  

 


Eldsneytisframleiðsla á Íslandi

Samkvæmt Orkustefnu Íslands á öll orka, sem Íslendingar nota hérlendis til að knýja framleiðslutæki sín og til einkanota, að koma úr íslenzkum orkulindum eða jarðvegi.  Hægt er að stórauka t.d. repjuframleiðslu og vinna repjuolíu sem eldsneyti.  Framtaksmenn virðast þó um þessar mundir hafa meiri hug á framleiðslu rafeldsneytis, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi nýlega látið í ljós þá skoðun, að slík framleiðsla yrði of smá í sniðum til að geta keppt við erlenda framleiðslu á eldsneytismarkaðinum.  Þetta rökstuddi hann ekki nánar, og það stingur illilega í stúf við áform Fjarðarorku, sem mun vera í eigu fjárfestingarsjóðsins CI EFT I.

Fjarðarorka hefur kynnt til sögunnar stórkarlaleg áform um vindorkuver í Fljótsdal og á Fljótsdalsheiði, þar sem uppsett afl á að verða 350 MW. Verður athyglisvert að fylgjast með, hvaða sýnileika þessara mannvirkja frá byggð menn telja ásættanlegan.  Þetta afl er tæplega 80 % af aflinu, sem Landsnet áætlar í nýlegri orkuspá sinni, að þurfi fyrir rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi árið 2050, sem er 450 MW.  Það er ekki þar með sagt, að Fjarðarorka muni framleiða tæplega 80 % af íslenzku rafeldsneyti, því að nýtingartími vindorkuvera er innan við helmingur af nýtingartíma hefðbundinna íslenzkra virkjana.  Getur það verið hagkvæmt að fjárfesta í öllum þeim búnaði, sem þarf til að framleiða rafeldsneyti, ef aðeins er hægt að reka hann á fullum afköstum u.þ.b. 3500 klst/ár ? Markaður verður fyrir hendi á Íslandi fyrir rafeldsneyti, en sá markaður mun einnig hafa aðgang að innfluttu rafeldsneyti, sem verður væntanlega framleitt með meiri framleiðni en innlenda rafeldsneytið (hagkvæmni stærðarinnar).  


Vestfirðingar í orkusvelti

Aflþörf Vestfirðinga um þessar mundir er um 50 MW og fer enn vaxandi vegna atvinnulífs, mannfjölgunar og orkuskipta. Uppsett afl vatnsaflsvirkjana Vestfjarða er innan við helmingur af núverandi þörf landshlutans, og sér Vesturlína og stofnkerfi landsins fyrir því, sem upp á vantar og jafnvel olíukynt raforkuver.  Vestfirðir eru þannig eini landshlutinn, sem ekki nýtur hringtengingar við stofnkerfið.  Þess vegna er afhendingaröryggi raforku minnst á Vestfjörðum allra landshluta (að Vestmannaeyjum undanskildum) og olíubrennsla til raforkuvinnslu mest.  

Hvernig er þjóðhagslega hagkvæmast að leysa úr þessum vanda ? Það er áreiðanlega ekki með því að bæta við olíukyntum búnaði, eins og tilhneigingin hefur verið undanfarið (á afneitunarskeiði vinstri grænna), heldur með því að hefja sókn á vatnsvirkjunarsviðinu, en þar hefur skort á atbeina orkuráðherrans, sem Vestfirðingar hafa þó leitað til. Með myndarlegri orkuverauppbyggingu þarf jafnvel ekki tvær Vesturlínur.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, telur, að uppsett afl virkjana á Vestfjörðum gæti í framtíðinni numið 150 MW.  Slíkt fæli ekki aðeins í sér búbót fyrir Vestfirði, heldur yrði af slíkri raforkuvinnslu mikill léttir fyrir landskerfið. 

Með viðtölum við Vestfirðinga gerði Ásgeir Ingvarsson grein fyrir orkumálum Vestfirðinga í Morgunblaðinu 14. október 2024 undir fyrirsögninni:

"Hafa mikinn kraft, en skortir orku".

""Undanfarna 12 mánuði hefur þurft að ræsa varaaflstöðvar Landsnets 26 sinnum eða 2 skipti/mán að meðaltali, og þá er eftir að bæta við, hversu oft Orkubú Vestfjarða hefur þurft að kveikja á sínum stöðvum", segir Þorsteinn Másson.  "Fólk bjóst við því, að þessar varaaflsstöðvar yrðu notaðar sjaldan og kæmu kannski til bjargar í verstu vetrarveðrum, ef flutningskerfið skyldi bila, en reyndin hefur verið að ræsa þarf stöðvarnar í tíma og ótíma allan ársins hring.  Ég held t.d., að varaaflstöðin í Bolungarvík hafi núna verið í gangi nokkra daga í röð vegna viðhalds á gamalli línu hjá Landsneti."  

Þorsteinn er framkvæmdastjóri orkuverkefnisins Bláma í Bolungarvík, en um er að ræða samstarfsverkefni Orkubús Vestfjarða, Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis."

Þarna hefði verið gagnlegt að upplýsa um gangtíma hverrar varaaflsstöðvar og heildar raforkuvinnslu þeirra á s.l. 12 mánuðum.  Það skiptir máli, hvort keyrslan er vegna brottfalls Vesturlínu, flutningskerfis innan Vestfjarða, dreifikerfis, eða hvort verið er að "keyra niður toppa".  Þó er ljóst, að aðgerða er þörf strax.  Það þarf að setja 60 kV flutningskerfið í jörðu og dreifikerfið líka.  Þá þarf þegar að hefjast handa við tvöföldun uppsetts afls á Vestfjörðum í vatnsaflsvirkjunum.  Satt að segja hefur atbeini ríkisvaldsins verið þar skammarlega dauðyflislegur.  

""Við þurfum að komast út úr þessari dísilbrennslu, sem er bæði dýr og óumhverfisvæn og ljóst, að fyrirtæki munu eiga erfitt með að byggja upp starfsemi á svæðinu.  Þetta er í sjálfu sér ekki flókið: samfélög, sem hafa ekki aðgengi að nægilegri orku á eðlilegu verði, eiga erfitt með að vaxa og dafna, og helzt hagvöxtur í hendur við orkuframboð og orkuverð.""

Hvað er eðlilegt raforkuverð ?  Það er reiknað verð, sem fyrir vatnsorkuvirkjanir fæst m.v. 40 ára fjárhagslegan afskriftatíma og 7 %/ár ávöxtunarkröfu og 1 %/ár rekstrarkostnað af stofnkostnaði.  Virkjanirnar, sem Vestfirðingar hafa áhuga á núna að hrinda í framkvæmd, eru allar samkeppnishæfar.  

"Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, tekur í sama streng og segir, að orkuskortur og vöntun á afhendingaröryggi skapi flöskuháls fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum.  "Vestfirðingar þurfa á meiri orku að halda og eðlilegast er, að orkan verði þá til í fjórðunginum, og ekki er hægt að velta ábyrgðinni yfir á aðra landshluta á að búa til raforkuna, sem Vestfirðir þurfa. Við þurfum að búa til okkar orku sjálf, og til skamms tíma litið er t.d. hægt að stækka Mjólkárvirkjun og hefja framkvæmdir við Vatnsfjarðarvirkjun og Hvalárvirkjun.  Til lengri tíma mætti síðan styrkja orkuframleiðslu enn meira með vindorkuverum og sjávarfallsvirkjunum", segir Guðmundur og bendir á, að með fjölgun orkuvera skapist forsendur fyrir eflingu og stækkun dreifikerfisins.   Hann segir sóknarhug í Vestfirðingum, en ef [á] orkuna skorti, sé hætt við, að samfélagið standi í stað: "Það er vöxtur hjá Kerecis, í fiskeldinu, í ferðaþjónustunni og aukin fjárfesting í sjávarútveginum, og hefur hlutur Vestfjarða í útflutningstekjum þjóðarinnar aukizt gríðarlega undanfarin ár. Ef við leggjum saman útflutningstekjur Kerecis og fiskeldisins á síðasta ári, þá munu þær slaga hátt upp í heildarverðmæti alls þorskútflutnings landsins, og það er óhætt að segja, að efnahagslegt ævintýri sé hafið á Vestfjörðum." 

Af þessum sökum er fyrir neðan allar hellur, að ríkisvaldið skuli ekki reyna að koma Vestfirðingum til aðstoðar við úrlausn orkumálanna, eins og þeir hafa farið fram á, t.d. varðandi Vatnsfjarðarvirkjun. Líklega refsa kjósendur fyrir sleifarlag, og þess vegna skýtur skökku við, að orkuráðherranum sé umbunað með 1. sæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Hefur hann unnið fyrir því ?    

 


Beturviti (Besserwisser) afhjúpaður

Kristrún Frostadóttir er óttalega regingslegur formaður "Skattafylkingarinnar".  Hún gerir sér far um að setja sig á stall sem vel undirbúinn formann til að taka við stjórn landsins.  Þetta eru þó einvörðungu umbúðir utan um flaustur, fávísi og yfirborðsmennsku, eins og komið hefur fram í formannaumræðum í Sjónvarpssal um ríkisfjármálin, og nú hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, flett ofan af fávísi téðrar Kristrúnar um gjaldtöku fyrir auðlindaafnot.  Kristrún þessi hefur látið í veðri vaka, að "Skattafylkingin" hafi "Plan" um stóraukna gjaldtöku með samræmdu aðlindagjaldi að hætti hinna Norðurlandaþjóðanna, en þar stendur ekki steinn yfir steini hjá henni, því að á Íslandi er greitt miklu meira fyrir afnot sjávarauðlindarinnar en þar. 

Þann 7. nóvember 2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg afjúpunargrein eftir Heiðrúnu, sem hún nefndi: 

"Norska leiðin í auðlindagjaldtöku".

Hún hófst þannig:

""Við erum að tala um sanngjörn, réttlát auðlindagjöld á sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu og orku.  Þetta eru leiðir, sem nágrannar okkar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, hafa farið og samfélagsleg sátt er um."  

Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Heimi Má Pétursson á Stöð 2.  Hún ítrekaði þetta svo í leiðtogakappræðum á RÚV á föstudagskvöldið [01.11.2024]."

Guð forði okkur frá sanngirni og réttlæti Samfylkingarinnar.  Dómgreindarleysi téðrar Kristrúnar, þ.e. vandkvæði við að skilja á milli rétts og rangs, opinberaðist, þegar í ljós kom, að hún hugðist skjóta tugum milljóna ISK undan skatti af bónusi, sem hún þáði ofan á laun sín hjá fyrrverandi vinnuveitanda.  

Heiðrún Lind rekur síðan, hvernig auðlindagjaldtöku er háttað í Noregi af nýtingu sjávarauðlindarinnar.  Af þeirri lýsingu að dæma, hafði téð Kristrún ekki hugmynd um, hvernig þeim málum er háttað, sem hún þó kvað til fyrirmyndar fyrir flokkinn sinn. Kristrún þessi siglir undir fölsku flaggi.  Hún er ekki bara krati; hún er "hippókrati". 

"Í Noregi er ekkert auðlindagjald í sjávarútvegi.  Það, sem kannski meira er um vert; Norðmenn flytja nánast allan fisk úr landi óunninn, mest til láglaunalanda, eins og Póllands.  Þeir skapa því fá störf í landi, ólíkt því sem tíðkast hér á landi, og laun við veiðar og vinnslu eru mun lægri en á Íslandi.  Verðmætasköpun - og þar með framlag til hagvaxtar og lífskjara - er því til muna minni en á Íslandi." 

Af þessari lýsingu sést, að sjávarútvegur á Íslandi er ósambærilegur við sjávarútveg í Noregi.  Norski sjávarútvegurinn er að vissu leyti á opinberu framfæri, en íslenzki sjávarútvegurinn, þar sem veiðar og vinnsla eru tengd, verður að keppa á mörkuðum við norskan fisk, sem ríkið styður við og unninn er í láglaunalöndum.  Það er ekki víst, að "Besserwisserinn" skilji, hvað þetta þýði.  Það þýðir, að íslenzk yfirvöld verða að fara mjög varlega í sérskattheimtu á sjávarútveginn, ef þau ætla ekki að stórskaða þjóðarbúið með því að grafa undan honum til langs tíma litið (draga óhóflega úr fjárfestingargetu hans og launagreiðslugetu).  Nú er langt gengið í þessum efnum. 

"Í sjókvíaeldi í Noregi var nýlega lagt á auðlindagjald, sem er 25 % skattur af hagnaði.  Ekkert gjald er þó greitt af tæplega fyrsta milljarðinum, sem félög hagnast um.  Það gerir það að verkum, að áætlað er, að um 70 % fiskeldisfyrirtækja í Noregi greiði engan auðlindaskatt.  Að auki miðast þessi skattur eingöngu við þann virðisauka, þegar fiskurinn er í sjónum.  Stór hluti starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna er því undanþeginn skattheimtunni, eins og fóðurframleiðsla, seiðaeldi, vinnsla, sala og flutningar. Vegna þessara víðtæku undanþága þá hefur verið áætlað, að skattheimtan sé nær 10 % af hagnaði stærri fyrirtækjanna. Þá eru dæmi um stór fyrirtæki, sem hafa ekki þurft að greiða neinn skatt og áunnið sér yfirfæranlegt rekstrartap vegna takmarkaðs hagnaðar á framleiðslu í sjó.  Þetta er þá væntanlega norska leiðin, sem Samfylkingin vill fara."  

Kratar og fylgifiskar þeirra í vinstri villunni hafa tamið sér að tala niður til atvinnuveganna og sá tortryggni í þeirra garð.  Þannig hefur viðkvæðið verið, að ríkið geti og eigi að láta greipar sópa um eigur sjávarútvegs og fiskeldis, því að erlendis, þ.m.t. á hinum Norðurlöndunum, sé auðlindagjaldið hærra en hér.  Þetta er bull og vitleysa, eins og þessi upptalning Heiðrúnar sýnir.  Kristrún Frostadóttir er algerlega úti að aka í auðlindamálum og að því er virðist í skattamálum yfirleitt. 

"Fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi greiða auðlindagjald, sem er 33 % af reiknuðum hagnaði við veiðar.  Á meðan íslenzka ríkið tekur þriðjung af hagnaði í auðlindagjald af sjávarútvegi, þá tekur norska ríkið ekkert. 

Þegar kemur að sjókvíaeldinu, greiða íslenzku fyrirtækin auðlindagjald, sem kallað er fiskeldisgjald.  Gjaldið er tekið af alþjóðlegu markaðsverði á laxi og er þannig hlutfall af áætluðum tekjum án nokkurs tillits til raunkostnaðar. Þetta gjald hefur 20 faldazt undanfarin 4 ár og á eftir að hækka meira.  Íslenzku fyrirtækin greiða einnig umhverfisgjald, sem er ætlað að greiða kostnað við rannsóknir, vöktun og önnur verkefni, sem hafa það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif.  Svo greiða íslenzk fyrirtæki hafnargjöld, sem eru mun víðtækari og hærri en þau, sem greiða þarf í Noregi. 

Þegar aðeins þetta er lagt saman, greiddu íslenzku fyrirtækin yfir mrdISK 1,2 í fyrra [2023], og þessi upphæð nær líklega mrd 2,0 í ár.  Við þetta bætist svo að sjálfsögðu kolefnisgjald, tryggingargjald, tekjuskattur og sitthvað fleira.

Stóri munurinn á íslenzku og norsku leiðinni í auðlindagjaldtöku af fiskeldi er þó sá, að íslenzku fyrirtækin þurfa að greiða þessa skatta óháð afkomu.  Í Noregi er aðeins greitt af hagnaði.  Í raun er staðan sú, að íslenzk fiskeldisfyrirtæki greiddu 8 sinnum hærri fjárhæð í auðlindagjald á árinu 2023 en þau hefðu greitt samkvæmt norsku leiðinni !

Það þarf líka að hafa í huga, að fiskeldi á íslandi er ung grein.  Eftir erfið ár erum við farin að sjá til sólar.  Ef greinin fær að vaxa og dafna, mun hún skila miklum útflutningstekjum komandi ár og vissulega ríkulegum skatttekjum.  En þá þarf að gæta hófs og sanngirni í skattheimtunni.  Fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika í rekstri og svigrúm til víðtækra fjárfestinga til þess að leggja grunn að þessari verðmætasköpun."

Á Íslandi hefur verið gengið lengra í sértækri skattheimtu undir merkjum auðlindagjalds en góðu hófu gegnir, því að hún er svo miklu hærri en í samkeppnilöndunum, að samkeppnistöðunni og þar með undirstöðu gjaldeyrisöflunar er ógnað. Þetta skilur Kristrún Frostadóttir ekki, því að hún heldur, að hún geti í næstu ríkisstjórn hækkað s.k. auðlindagjöld mikið með vísun til þess, sem tíðkast annars staðar í Evrópu.  Hér gerir hún sig seka um að bulla út í eitt.  Að taka upp á að blaðra um málefni, sem varða afkomu fyrirtækja miklu og atvinnuöryggi og vaxtarmöguleika á mörgum stöðum á landinu, áður en hún hefur kynnt sér málin, er algert ábyrgðarleysi. Hún gortar mikið af, að Samfylkingin hafi unnið heimavinnuna sína fyrir þessar kosningar og sé eini flokkurinn "með Plan", en á fyrstu beygju keyrir hún beint út í skurð, gjörsamlega óundirbúin og fávís um málefnið, sem hún gasprar um.    

  

  

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband