Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ný skattheimta veldur kollsteypu í strandbyggðum Noregs

Nýlega bárust fregnir af fáheyrðri fyrirhugaðri viðbótar skattheimtu norsku ríkisstjórnarinnar undir forsæti forríks krata, Jonasar Gahr Störe, af atvinnustarfsemi, sem hefur verið hryggjarstykkið í byggðum meðfram endilangri strandlengju Noregs. Fyrir vikið varð strax fjármagnsflótti úr greininni, fyrirtæki lögðu fjárfestingar á ís og gerðu áætlanir um að draga úr starfsemi og fækka starfsfólki. Þetta mun valda atvinnuleysi í byggðunum, ef úr verður, og fólksflótta.  Þannig er þetta skólabókardæmi um skaðleg áhrif ríkisvaldsins, þegar það verður of gírugt og gengur of hart að fyrirtækjunum. 

Þetta sýnir líka vanþekkingu embættismanna og stjórnmálamanna á atvinnustarfseminni, samkeppnishæfni hennar og burði til að bera miklu meiri skattheimtu en fyrirtæki í annars konar starfsemi þurfa að búa við. Hið opinbera verður að gæta jafnræðis og meðalhófs. Ef kýrin er ofmjólkuð, eyðileggst júgrið strax, kýrin veikist og hættir að gefa nokkuð af sér, og fólkið á bænum lepur fyrir vikið dauðann úr skel.  Vönduð greining verður að vera undanfari nýrrar skattheimtu.  

Gunnlaugur Snær Ólafsson, blaðamaður, tók saman  fróðlega fréttaskýringu í 200 mílum Morgunblaðsins 1. desember 2022 um það, hvernig ríkisstjórn Noregs virðist fara offari í skattheimtu á sjókvíaeldi við Noregsstrendur. Ofurskattheimta á aldrei við og sízt, þegar samkeppnisgreinar á alþjóðlegum mörkuðum eiga í hlut, og tímasetningin er alslæm, því að nú harðnar á dalnum á matvælamörkuðum Evrópu og víðar. Það gæti leitt til lækkunar á dýrum matvælum, ef ódýrari staðgönguvara er fyrir hendi.  Fréttaskýring Gunnlaugs bar fyrirsögnina:

"Ringulreið vegna auðlindagjalds".

Hún hófst þannig:

"Óhætt er að segja, að tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að innleiða nýjan auðlindaskatt, s.k. grunnleigu, á sjókvíaeldi hafi fallið í grýttan jarðveg í samfélögunum meðfram strandlengju landsins.  Skattahækkunin, sem lögð er til, hefur haft ýmsar hliðarverkanir, sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir við mótun tillögunnar.  Fyrirtæki hafa hætt við fjárfestingar, gripið til uppsagna, og norska ríkisstjórnin hefur þurft að minnka gjaldstofn nýs auðlegðarskatts sem og [að] bæta upp hundruða milljóna tap norska fiskeldissjóðsins, "Havbruksfondet"." 

Hér er hrapað ótrúlega að viðbótar gjaldtöku, og jafnvel vafamál, hvort nokkur þörf var á einhverri viðbótar gjaldtöku.  Fyrir vikið og vegna orkumálanna koma nú norsku stjórnarflokkarnir afar illa út í fylgisathugunum á landsvísu, og má segja, að Miðflokkurinn hafi beðið afhroð, en hann er dæmigerður dreifbýlisflokkur, og fjármálaráðherrann er formaður hans.  Fylgi Verkamannaflokksins hefur rýrnað minna, en tæp 3 ár eru í næstu Stórþingskosningar, og stjórnarflokkarnir gætu náð vopnum sínum á kjörtímabilinu. 

"Norska ríkið gerir ráð fyrir, að grunnleigan, ásamt tekjuskatti lögaðila, geri það að verkum, að jaðarskattar fiskeldisfyrirtækja verði 62 %, en að skatthlutfallið verði 51,3 %.  Á móti benda fiskeldis- og vinnslufyrirtækin á, að grunnleigan, sem lögð er til, bætist við hækkun auðlegðarskatts á framleiðsluleyfi, sem hafa verið út gefin, hækkun tekjuskatts lögaðila, hærra framleiðslugjald og hærri auðlindaskatt.  Það sé því í raun verið að leggja 80 % skatt á sjókvíaeldið."

Hér hefur norsku ríkisstjórninni orðið alvarlega á í messunni.  Enginn heiðarlegur atvinnuvegur getur staðið undir þvílíkri ofurskattheimtu, og þess vegna er ríkisstjórnin í raun að kippa fótunum undan blómlegri atvinnugrein, og um leið munu sjávarbyggðir víða hrynja.  Þetta eru ótrúlegar aðfarir Trygve Magnus Slagsvold Vedum, sem verið hefur fjármálaráðherra síðan í október 2021 og formaður Miðflokksins síðan 2014.  Vedum er garðyrkjumaður frá Stange í Innlandet og hefur setið á Stórþinginu síðan 2005. 

Fylgi Miðflokksins hefur nú hrunið niður í "bjórstyrk".  Vedum verður að leiðrétta mistök sín. Fyrirtæki eru ekki mjólkurkýr fyrir hið opinbera.  Þau eru til að skapa verðmæti og atvinnu.  Ef þau hagnast og geta þar af leiðandi borgað tekjuskatt, er það jákvætt.  Gjaldheimta af auðlindanotkun og framleiðslu er vandmeðfarin, og þar verður að gæta sanngirni og  jafnræðis, svo að stjórnvöld skekki ekki samkeppnishæfni um fjármagn, starfsfólk og markaði. 

"Í kjölfar tilkynningar norsku ríkisstjórnarinnar um nýja grunnleigu af sjókvíaeldi hófu hlutabréf fiskeldisfyrirtækjanna, sem skráð eru í kauphöllina í Ósló, að falla.  Verðmæti þeirra dróst á einum degi saman um mrdNOK 44, um mrdISK 632, eins og gengið er nú.  Samhliða hafa fyrirtækin sett fjárfestingar fyrir um mrdNOK 24 á ís."  

Þetta sýnir, hvað tilkynningar ráðherra um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar geta verið afdrifaríkar fyrir fjárhagsstöðu fyrirtækja og atvinnuöryggi launþega.  Þetta á alveg sérstaklega við, þegar fyrirætlun ráðherra er íþyngjandi fyrir fyrirtæki, sem skráð eru í kauphöll.  Þau verða að stíga varlega til jarðar, og það verða líka viðkomandi stjórnvöld og gagnrýnendur þessara fyrirtækja að gera. Hérlendis hafa fyrirtæki ekki þurft að þola kollsteypur af þessu tagi af hendi fjármálaráðherra frá dögum "einu hreinu vinstri stjórnarinnar" 2009-2013, en sum hafa mátt þola miklar ágjafir og jafnvel herferðir í fjölmiðlum og af hendi fjölmiðla. Er þar oft hátt reitt til höggs af mismikilli fyrirhyggju og ígrundun.

"Um miðjan nóvember [2022] sagði fiskeldisfyrirtækið Salmar upp 851 starfsmanni í vinnslustöðvum félagsins á Fröya og Senja.  Ástæða uppsagnanna var í fréttatilkynningu sögð tillaga ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á greinina, "sem hefur eyðilagt markaðinn fyrir langtíma samninga á föstu verði. [...] Slíkir samningar eru venjulega gerðir löngu fyrir afhendingu, og eru þeir algjörlega nauðsynlegir til að fylla aðstöðuna af nægri vinnslustarfsemi", sagði í fréttatilkynningunni." 

Axarskapt norsku ríkisstjórnarinnar hefur haft hrapallegar afleiðingar fyrir atvinnuöryggi starfsmanna fiskeldisfyrirtækjanna á strönd Noregs.  Áður en einhverjum hérlendum stjórnmálamanni dettur næst í hug að fara fram með vanhugsaðar tillögur um auðlindagjald, framleiðslugjald eða hvaða nöfnum, sem tjáir að nefna gjaldtökuhugmyndir þeirra, ættu þeir að leiða hugann að alvarlegum afleiðingum slíkra gjörða hjá frændum vorum, Austmönnunum.   

 


Fyrsti innlendi ráðherrann

Heimastjórnin 1904 markaði meiri þáttaskil en sú stjórnkerfisbreyting í Danaveldi ein og sér gaf tilefni til að ætla, að verða mundi.  Ástæða þess var einfaldlega sá mannkostamaður af íslenzku bergi brotinn, sem til starfans valdist.  Hetjuljómi hefur leikið um manninn Hannes Hafstein, fyrsta ráðherrann með skrifstofu í gamla og íburðarlausa stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, í huga höfundar þessa vefpistils, síðan hann á æskuárum sínum réðist í að lesa viðamikið nýútkomið ævisögurit þessa manns, sem hann hafði kynnzt örlítið við að vera látinn læra nokkur kvæða hans utanbókar í barnaskóla.

Við lestur ágætrar yfirlitsgreinar nafna hans, Hólmsteins Gissurarsonar og frænda þessa höfundar um ættir Vatnsdælinga í A-Húnavatnssýslu, í Morgunblaðinu 13. desember 2022, rifjuðust upp kynnin af þessu glæsi- og gáfumenni.

Hannes Hafstein skildi vel, hvað þjóð hans þurfti mest á að halda, og með skáldlegu innsæi sínu hefur hann vafalaust skynjað, hvílíka ofurkrafta yrði hægt að beizla með þjóðinni, ef hún aðeins fengi þau tækifæri, sem dygðu til atvinnuuppbyggingar.  Tvennt þurfti til að virkja þessa krafta: erlent fjármagn (innlent var ekki til í teljandi mæli) og verktæknilega þekkingu. Hann lagði grunn að hvoru tveggja með því að laða erlent fjárfestingarfjármagn til landsins, og hann lagði grunn að verklegum framförum í landinu á sviði veitna, vega- og brúargerðar með því að skipa Jón Þorláksson, Landsverkfræðing, 1905. 

Jón Þorláksson fæddist á Vesturhólum í V-Húnavatnssýslu.  Hann var einn nánasti og eindregnasti stuðningsmaður Hannesar Hafstein á Heimastjórnarárunum, 1904-1918.  Nú verður vitnað í téða grein Hannesar Hólmsteins:

  "Stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein":

"En það var eins og ný tíð gengi í garð árið 1904, þegar það gerðist hvort tveggja, að Íslendingar fengu heimastjórn og að nýr banki tók til starfa, Íslandsbanki, sem átti ásamt Landsbankanum eftir að fjármagna vélvæðingu fiskiskipaflotans. 

Fyrir einstaka tilviljun varð nú fyrsti íslenzki ráðherrann skáldið, sem hafði ort hvað bezt um framfaraþrá þjóðarinnar, Hannes Hafstein.  Í dag er þess minnzt, að 100 ár eru liðin frá láti hans.  Jafnvel heitir andstæðingar Hannesar viðurkenndu á sinni tíð, að hann væri ekki aðeins snjallt og rismikið skáld, heldur líka glæsimenni, sem væri geðfelldur í viðkynningu, vinmargur og vinsæll og kynni að koma virðulega fram fyrir Íslands hönd.  

Honum var hins vegar stundum brugðið um að hafa ekki aðra hugsjón en eigin frama.  Því fór þó fjarri.  Hannes stóð traustum fótum í íslenzkri stjórnmálaarfleifð og hafði til að bera sterka sannfæringu, þótt vissulega væri hún milduð af eðlislægri sáttfýsi og langri reynslu."

Vissulega var Hannes Hafstein hugsjónamaður og meginhugsjón hans var sú að bæta hag íslenzku þjóðarinnar með hjálp nútíma tækni og erlends fjármagns.  Þetta varð síðan meginþema framfarasinna hérlendis alla 20. öldina, og auðvitað mátti hann kljást við ýmiss konar dragbíta, en hann áorkaði samt viðamiklu verki í samstarfi við Landsverkfræðing sinn og marga aðra, sem sáu, hvað þurfti að gera og fundu út, hvernig ætti að gera það.  Ekki vantar heldur dragbíta á framfarir 21. aldarinnar, og þeir klæðast margir dulargervi landverndar og heimsendaspámennsku á grundvelli rangs mats á hlýnun andrúmslofts, eins og menn geta séð, ef þeir fletta upp á "Dr John Christy, director of the University of Alabama/Huntsville´s Earth System Science Centre, ESSC". 

"Hannes Hafstein var umfram allt þjóðrækinn og frjálslyndur framfarasinni.  Í minningargrein sagði einn nánasti samstarfsmaður hans, Jón Þorláksson, forsætisráðherra:

"Grundvallarhugsun Hannesar Hafstein í sambandsmálinu hygg ég hafa verið þá, að hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga hjá þeim fyrir því að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni."" 

Þarna er vel að orði komizt, og Jón Þorláksson mátti trútt um vita hugarþel síns nána samverkamanns.  Þarna kemur vel fram, hversu raunsær og mikill raunhyggjumaður Hannes Hafstein var.  Hann notaði þó  skáldlega andagift sína til að vísa sér leið, en síðan raunsæið til að komast sem hraðast áfram og sem lengst.  Hann vildi ekki ganga svo langt í sjálfstæðismálinu, að Danir gæfu Íslendinga upp á bátinn.  Hann vildi einfaldlega nýta verkþekkingu þeirra og markaðsþekkingu til hagsbóta fyrir landslýð, á meðan honum yxi fiskur um hrygg í efnalegu tilliti.

  Þetta minnir dálítið á þróun virkjanatækninnar í landinu á 20. öldinni.  Fyrir utan virkjanir bæjarlækjanna var hönnun og verkstjórn að mestu í höndum fyrirtækja á Norðurlöndunum og annars staðar fram að og með Búrfellsvirkjun, en með henni urðu umskipti í verklegum efnum á þessu sviði, og verksmiðjan, sem hún knúði, ISAL í Straumsvík, markaði líka þáttaskil í tæknilegum efnum á iðnaðarsviðinu.

  Hannes Hafstein var tvímælalaust frumkvöðull í hópi stjórnmálamanna um þróun íslenzkra atvinnuvega inn í nútímann. Það, sem gerðist í þeim efnum á 20. öldinni, var afrek á evrópskan mælikvarða og þótt víðar væri leitað. 

"Hannes vildi, að Íslendingar væru vinir annarra þjóða, ekki sízt viðskiptavinir þeirra, en hann vildi ekki, að þeir væru þegnar þessara þjóða, heldur skyldu þeir ráða eigin málum, vera fullvalda þjóð.  En sú fullvalda þjóð gat ekki lifað á munnvatni og fjallagrösum, heldur þurfti hún erlent fjármagn til að nýta kosti lands og sjávar.  Haga varð því málum hyggilega, laða útlendinga að í stað þess að fæla þá frá."

Þetta er hverju orði sannara, og þetta varð pólitísk arfleifð þeirra baráttufélaganna, Hannesar Hafstein og Jóns Þorlákssonar.  Jón Þorláksson varð árið 1929 formaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá var stofnaður við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan tímann staðið vörð um þetta grundvallarstef í framfarasókn þjóðarinnar. Framfarasóknin tafðist mikið í Kreppunni miklu á 4. áratugi 20. aldarinnar, þegar Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur komu á haftabúskap, sem varði hér lengur en í nokkru öðru lýðræðisríki Evrópu, og þjóðin var ekki leyst úr viðjum viðskiptahaftanna fyrr en Viðreisnarstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins komst hér til valda 1959. 

Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, forveri vinstri grænna og Samfylkingar, börðust t.d. hatrammlega gegn Búrfellsvirkjun og ISAL á sinni tíð, en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur voru þá í raun að framfylgja stefnu fyrsta ráðherrans og fyrsta formanns Sjálfstæðisflokksins. Nú hafa afturhaldsöflin tekið á sig aðra mynd, dulargervi, reynt að aðlaga sig aðstæðum. 

"Þessa hugsun um afstöðu Íslendinga til annarra þjóða má rekja allt til Snorra Sturlusonar [Reykholtshöfðingja], en hann samdi ræðu Einars Þveræings, sem átti að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, þá er Þórarinn Nefjólfsson bar Íslendingum boð Ólafs digra um, að þeir gerðust honum handgengnir.  Snorri lætur Einar segja, að víst sé þessi konungur góður, en hitt sé ljóst, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því Íslendingum bezt að hafa engan konung.  Íslendingar skuli hins vegar vera vinir Ólafs konungs og gefa honum gjafir.  Í Heimskringlu Snorra er eitt meginstefið, að öðru hverju komist til valda konungar, sem heyi stríð og leggi á þunga skatta landslýð til óþurftar."

Að játa konungi hollustu gat auk skattskyldunnar vafalítið leitt til herskyldu ungra Íslendinga, ef konungur framkvæmdi herútboð.  Þá var ákjósanlegra fyrir Íslendinga að geta valið sér flokk stríðandi fylkinga í Noregi, eins og Snorri gerði í átökum Skúla jarls og Hákonar gamla, en þar veðjaði Snorri á rangan hest, sem varð honum dýrkeypt.

Þormóður Kolbrúnarskáld gekk í lið Ólafs digra, varð hjá honum hirðskáld og féll með honum á Stiklastöðum 1030.  Þegar ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi konungsmanna, fylgdu hvítleitar trefjar með, sem líktust fitu. Skáldið brást við með því að lofa konung sínn með orðunum "og vel hefur konungur vor alið oss", og féll hann síðan dauður niður.  Skáldið brá sér hvorki við sár né dauða.  Þessi forni andi var með öllu horfinn í Kófsfárinu, sem hér geisaði 2020-2021, þar sem viðbrögð stjórnvalda urðu ríkissjóði hrottalega dýr og ollu meira heilsufarstjóni en veiran (SARS-CoV-2) sjálf. Eins og yfirvöld í kommúnistaríkinu Kína valda samfélagslegar lokanir gríðarlegu tjóni og gera heilsufarlega minna en nokkurt gagn, tefja aðeins framrás veirunnar, því að bóluefnin eru mjög gagnslítil og gera í sumum tilvikum illt verra.    

Það, sem lá í orðum Snorra í Reykholti var, að allt of áhættusamt væri fyrir Íslendinga að játast undir erlent vald, því að það gæti fyrr en síðar sölsað undir sig úrslitavald um íslenzk málefni.  Þetta á í hæsta máta við um það, ef innlendir glópar við einhverjar annarlegar aðstæður ná að véla landsmenn til að ganga í Evrópusambandið.  Auðlindir landsins yrðu þá þegar í uppnámi, og við yrðum færð aftur á reit, sem er handan Heimastjórnar. Öll hin mikla barátta yrði unnin fyrir gýg. 

"Í innanlandsmálum fylgdi Hannes Hafstein þeirri frjálslyndu stefnu, sem hann hafði kynnzt á námsárum sínum í Kaupmannahöfn.  Voru fyrri ráðherraár hans frá 1904-1909 eitt mesta framfaraskeið Íslandssögunnar, eins og alkunna er.  Þjóðin brauzt úr fátækt í bjargálnir, fólk flykktist úr kotunum í þéttbýlið, innlendir kaupmenn leystu erlenda af hólmi, íslenzkir vélbátar og togarar drógu björg í bú, nýtt fjármagn skapaðist [við aukinn útflutning-innsk. BJo].  Ólíkt því, sem gerðist í mörgum öðrum Evrópulöndum á þeim árum, dró úr fólksflutningum vestur um haf.  Þetta var öld hinnar frjálsu samkeppni, en henni mátti lýsa með fleygum orðum Hannesar árið 1882:

Ég elska þig stormur, sem geisar um grund

og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,

en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur

og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.  

Keppnislundin kallar einmitt oft og tíðum fram beztu hæfileika fólks til að ná árangri á tilteknu sviði, og samkeppni fyrirtækja leiðir iðulega til aukinnar framleiðni og vöru- eða þjónustuþróunar, hin bezt reknu eflast og hin lakari leggja upp laupana. Heilbrigð samkeppni er grundvöllur frjálsra samfélaga og frjálsra hagkerfa.  Með þeim hefur manninum tekizt að hámarka lífskjör sín, og þetta kerfi, sem stundum er kennt við auðhyggju (kapítalisma) Adams Smith, hefur leyst fleira fólk úr viðjum örbirgðar en nokkurt annað kerfi.  Líklegt er, að Hannesi Hafstein hafi verið ljóst, að þetta kerfi yrði fljótfarnasta leiðin fyrir Íslendinga til að ná öðrum þjóðum í lífskjörum. 

Á dögum Hannesar voru annars konar viðhorf líka uppi, sem afvegaleiddu fólk, og þó í enn meiri mæli síðar, þegar villutrúarmenn kommúnismans fóru að boða fagnaðarerindi kommúnismans, sem er reist á draumórum og efnahagslegum bábiljum.  Það hefur alltaf verið markaður fyrir hjátrú og hindurvitni.  

 

  

 


Vestfirðinga vantar virkjun

Staðarval virkjana landsins er mikilvægt til að lágmarka orkutöp, spennusveiflur og til að hámarka afhendingaröryggi raforku til notenda hennar.  Þungamiðja virkjana landsins er á Þjórsár/Tungnaár-svæðinu, sem er tengt Hvalfirði, Straumsvík og þéttbýlinu suðvestanlands með öflugum hætti. Suðurland nýtur góðs af tengingu við Búrfellsvirkjun, en styrkja má enn raforkukerfi Sunnlendinga með tengingu við væntanlegar aðveitustöðvar við virkjanir í Neðri-Þjórsá. 

Raforkukerfi Austurlands býr að öflugustu virkjun landsins, Fljótsdalsstöð. Á Vesturlandi er engin  stórvirkjun, en öflug aðveitustöð á Brennimel og önnur á Vatnshömrum, en einkum og sér í lagi vantar Vestfirðinga trausta virkjun, sem styrkt geti raforkukerfi þeirra. Þar er nauðsyn á auknu skammhlaupsafli, svo að setja megi 60 kV flutningskerfi LN í jörðu, og spennustöðugleika. Með þessu tvennu væri Vestfirðingum komið í flokk flestra annarra landsmanna gagnvart afhendingaröryggi rafmagns og lítilli losun koltvíildis við raforkuvinnslu.  

Ein gleggsta grein, sem um árabil hefur sézt á prenti hérlendis um virkjanamál, birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2022.  Höfundur hennar er Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, og bar hún fyrirsögnina:

"Að virkja og vernda loftslag - hvar á að virkja".

Hann gerði hnitmiðaða grein fyrir stöðu Vestfirðinga í orkumálum:

"Vestfirðingar fá helming raforku sinnar eftir einni 160 km langri Vesturlínu frá tengivirki Landsnets (LN) fyrir botni Hrútafjarðar [aðveitustöð Hrútatungu] í tengivirkið í Mjólká við Mjólkárvirkjun.  Orkan á líklega oftast upptök sín í Blönduvirkjun í 100 km fjarlægð frá Hrútafirði [orkubússtjórinn getur vafalaust vísað til kerfishermana um þetta]. Orkan er því flutt 260 km leið  frá orkustöð í tengivirkið í Mjólká með tilheyrandi töpum.

Hinn helmingurinn er framleiddur innan Vestfjarða, og er Orkubú Vestfjarða (OV) þar stærsti orkuframleiðandinn og eini framleiðandinn, sem hefur einhvern varaforða [miðlunargetu], sem heitið getur í lónum við sínar virkjanir.  Stærsta virkjun OV er Mjólkárvirkjun, 11 MW, en samtals eru virkjanir í eigu OV og einkaaðila á Vestfjörðum 21 MW." 

Það er fljótlegt að reikna út árlegu orkutöpin á þessari 260 km löngu leið frá Blöndu til Mjólkár og kostnað þeirra og kostnaðinn fyrir vestfirzka notendur af völdum truflana, sem valda spennusveiflum og straumleysi hjá þeim.  Þar að auki er fyrirsjánlega á næstu árum þörf fyrir aflið, sem nú er flutt til Vestfjarða, nær Bönduvirkjun. Af þessum sökum leikur ekki á tveimur tungum, að um 30 MW virkjun, vel staðsett á Vestfjörðum, er þjóðhagslega hagkvæm.  Vert væri, að þingmenn NV-kjördæmis kæmu nú auga á þetta og styddu við bakið á ríkisfyrirtækinu Orkubúi Vestfjarða í viðleitni fyrirtækisins til að hrinda af stað góðum hugmyndum fyrirtækisins um næstu þokkalegu vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum.

"Til að tryggja afhendingaröryggi á Vestfjörðum, þegar flutningslínur eru straumlausar, hefur verið komið upp neti varaaflsvéla víða um Vestfirði.  Stærsta varaaflsstöðin er í Bolungarvík, 11 MW dísilstöð í eigu LN, byggð árið 2015.  Varaaflsstöðin er jafnstór Mjólkárvirkjun. Á Patreksfirði er 4,7 MW dísilstöð OV (mikið endurnýjuð 2018), en OV er með 11 varaaflsstöðvar um alla Vestfirði, alls 18 MW.  Varaaflsstöð LN og nokkrar varaaflsstöðvar OV eru búnar sjálfvirkni og ræsa inn á net á innan við 90 s, ef raforkunetið verður straumlaust vegna bilana eða viðhalds.  

Það hefur sýnt sig, að Vestfirðir þurfa í dag að vera með 100 % (dísil-) varaafl fyrir raforku til heimilisnota og til þeirra fyrirtækja, sem nota forgangsorku, til að tryggja ásættanlegt afhendingaröryggi.  Þá þarf 100 % varaafl í formi olíukatla við straumleysi í stað rafkyntu hitaveitnanna.  Varaafl á Vestfjörðum í formi dísilvéla og olíukatla er um 50 MW í dag."

Þetta er fróðleg lesning, sem sýnir stöðu raforkumála á Vestfjörðum, sem er frábrugðin því, sem aðrir landsmenn búa við.  Svo þakkarvert sem það er að búa við tiltækt varaafl, er engu líkara, en þróun raforkumála Vestfirðinga hafi að sumu leyti stöðvazt með tilkomu Vesturlínu.  Það er ekki vegna þess, að slæmt hafi verið fyrir Vestfirðinga að tengjast stofnkerfi landsins, heldur hins, að hún er langur leggur, en ekki hringtenging Vestfjarða við landskerfið í líkingu við það, sem aðrir landsmenn búa við.  Að hringtengja Vestfirði við landskerfið er dýrt og tekur sinn toll af landinu.  Hagkvæmara og meiri landvernd er í því fólgin að virkja vatnsfall eða vatnsföll á vel völdum stöðum á Vestfjörðum m.t.t. stöðugleika kerfisins og afhendingaröryggis raforku.  Til þess að losna að mestu við að brenna olíu í varaaflsstöðvum þurfa Vestfirðir að verða sjálfum sér nógir um rafmagn frá virkjunum sjálfbærra orkulinda, og 60 kV flutningskerfi LN þarf að setja í jörðu svo fljótt sem auðið er til að draga úr bilanatíðni og neikvæðum áhrifum á ásýnd lands.

OV mundi þá einvörðungu flytja inn raforku um Vesturlínu, á meðan viðhald eða viðgerðir fara fram í virkjunum fyrirtækisins, og gæti jafnvel flutt raforku til landskerfisins á sumrin, þegar hitunarálagið hefur minnkað, og slíkur flutningur gæti bætt stöðu miðlunarlóna Landsvirkjunar.  Allt virðist þetta vera þjóðhagslega hagkvæmt, enda kostar varaaflvélaorkan 70 ISK/kWh, sem er 13-falt heildsöluverð til almenningsveitna um þessar mundir. 

"Það er hægt að koma upp virkjun innan svæðisins í seilingarfjarlægð frá mestu notkuninni, sem hefur nægilegt afl og nægilegt vatn í lónum til að mæta orkuþörf innan Vestfjarða, þegar flutningslínur inn á Vestfirði verða straumlausar.  Með því að slík virkjun sé nægilega aflmikil til að mæta aflþörfinni innan Vestfjarða ásamt öðrum virkjunum, þá þarf í flestum tilvikum ekki að ræsa dísilknúið varaafl.  Þar sem aflið í virkjuninni er auðvitað ekki dísilknúið, heldur vatnsafl, er í raun búið að tryggja afhendingu með vatnsafli og varaaflið þá orðið grænt.

Með byggingu virkjunar er ekki einungis verið að snúa við þeirri stefnu að auka sífellt við varaaflið í formi dísilvéla, heldur mun draga stórkostlega úr notkun þess varaafls, sem fyrir er, eða um 90 %. 

 

Nærtækasta dæmið um slíka virkjun er 20-30 MW virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en með tilkomu virkjunarinnar, sem er einungis í 20 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun, gæti straumleysistilvikum hjá 90 % Vestfirðinga fækkað um 90 % og olíunotkun vegna varaafls einnig minnkað um 90 %."   

Hér er um mjög mikið hagsmunamál Vestfirðinga og landsmanna allra að ræða, eins og Elías Jónatansson útskýrir þarna vel.  Það er kominn tími til að rétta hlut Vestfirðinga í orkulegum efnum, og þess vegna ættu þingmenn og orkuráðuneyti að taka vel í þessa hugmynd OV.  Vonandi verða ekki búnar til óþarfa blýantsnagaratafir á þetta verkefni, en vegna staðsetningarinnar þarf líklega sérstakan atbeina umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og mun þá reyna á hann að láta nú nú meiri hagsmuni víkja minni hagsmunum úr vegi.  

    

 


Dulin skýring á lágu raforkuverði frá íslenzkum virkjunum

Auk opinberra gjalda má skipta orkureikningi landsmanna í þrennt: orkuverð frá virkjun, flutningsgjald frá virkjun til dreifiveitu og dreifingargjald dreifiveitu til notanda.  Tveir síðari liðirnir eru tiltölulega háir á Íslandi m.v. önnur lönd, en fyrsti liðurinn af þremur er lágur, mjög lágur nú um stundir m.v. önnur lönd.

Margir halda, að skýringarinnar á hinu síðast nefnda sé að leita í verðinu á því, sem knýr virkjanir landsmanna, þ.e. í vatnsaflinu og jarðgufunni. Þeir, sem láta sér þessar skýringar lynda, komast aldrei til botns í málinu, og það er hætt við, að samtökin Landvernd, sem gert hafa tillögu um virkjanastopp og í staðinn að draga úr þeirri orku, sem seld er samkvæmt langtímasamningum til stóriðju, hafi ekki skilið til fulls, hvers vegna landsmenn njóta lágs raforkuverðs.  Í stuttu máli er það vegna nýtingar á auðfengnum endurnýjanlegum orkulindum og vegna tiltölulega jafns álags á kerfið innan sólarhrings, viku og árs.  Það er jafnara álag hér en annars staðar þekkist og nauðsynlegt að viðhalda því með almannahag í huga.   

Það er hverjum manni skiljanlegt, að til að borga upp vél, sem aðeins framleiðir með hálfum hámarksafköstum yfir árið, þarf að selja vöruna frá vélinni á hærra verði en væri hún keyrð á 95 % af hámarksafköstum.  Það er meira álag á raforkukerfið á köldum vetrardegi en á hlýjum sumardegi, en sá munur er t.d. miklu meiri í Noregi en á Íslandi, af því að norskt húsnæði er yfirleitt hitað upp með rafmagni, en íslenzkt húsnæði í flestum tilvikum með jarðhitaveitu eða varmadælum. Það, sem þó munar langmest um til jöfnunar heildarálags, er verksmiðjuálag, þar sem unnið er allan sólarhringinn allan ársins hring í verksmiðjunum og leitzt við að viðhalda framleiðsluafköstunum.  Þessi stöðugleikaorka til verksmiðjanna nemur nú um 3/4 af heild. 

    Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, varpaði sögulegu ljósi á þessa skýringu lágs orkuverðs, sem vafizt hefur fyrir ýmsum, einkum þeim, sem fjargviðrast yfir lágu raforkuverði til þessara verksmiðja, í Morgunblaðsgrein 12.11.2022.  Það er hægt að sýna fram á, að verksmiðjurafmagnið stendur fyllilega undir sinni kostnaðarhlutdeild raforkugeirans og skapar skilyrðin, sem gera raforkugeiranum kleift að bjóða heimilum og almennum fyrirtækjum rafmagn á miklu betri kjörum en ella. Það má orða þetta þannig, í stéttastríðsanda, að verksmiðjurnar greiði niður raforkuverð til heimilanna, en afturhaldið í landinu hefur alla tíð snúið þessari staðreynd algerlega á haus. Fyrirsögn téðrar greinar var: 

"Lágt raforkuverð ekki sjálfgefið".

Hún hófst þannig:

"Hér á Fróni prísum við okkur sæl að vera ótengd evrópska raforkukerfinu, enda orðin vön ódýru rafmagni.  Hverju megum við þakka lágt raforkuverð, og getum við tekið því sem gefnu í framtíðinni ?"

Tækniframfarir, bætt stjórnun og þekking geta unnið upp á móti óhagstæðari virkjunarkostum frá náttúrunnar hendi, svo að stofnkostnaður MUSD/MW, fari aðeins hægt hækkandi í rauntölum (að teknu tilliti til verðbólgu í US).  Af árlegum kostnaði vegna vatnsaflsvirkjunar er  hlutdeild stofnkostnaðar yfirgnæfandi eða um 96 %, og rekstrarkostnaður er um 4 % af árlegum heildarkostnaði. 

Þótt orkuvinnslukostnaður jarðgufuvirkjana og vatnsaflsvirkjana sé um þessar mundir svipaður, eru innbyrðis kostnaðarhlutföll ólík.  Árleg hlutdeild stofnkostnaðar jarðgufuvirkjana er um 68 % og rekstrarkostnaðar 32 %, enda þarf að kljást við tæringu og niðurdrátt í gufuforðabúrinu, svo að 2 viðhaldsþættir séu nefndir.   

Það er engum blöðum um það að fletta, að innleiðing vindorkuþyrpinga hérlendis mun valda raforkuverðshækkun til almennings.  Búast má við, að vinnslukostnaður sé allt að 50 % hærri en í nýjum  hefðbundnum íslenzkum virkjunum, og gætu árleg kostnaðarhlutföll stofnkostnaðar og rekstrar verið um 93 % og 7 %. Ef hér verður innleitt uppboðskerfi raforku að hætti ESB, þótt Ursula von der Leyen hafi lýst það óbrúklegt, munu vindmylluþyrpingar verða ráðandi um verð á raforkumarkaðinum, því að hæsta samþykkta verð gildir.  Þetta síðast nefnda taldi von der Leyen óboðlegt neytendum í skortástandi á markaði, og hið sama á við á Íslandi.  

Til þess að varðveita lágt raforkuverð til almennings á Íslandi þarf að hafna umsóknum um uppsetningu og tengingu vindmylluþyrpinga, og það þarf að koma í veg fyrir umtalsvert lægra nýtingarhlutfall orkumannvirkja í rekstri en nú er.  Það er hægt með tvennu móti; annars vegar að bæta við jöfnu álagi og hins vegar að dreifa álagi almennings yfir sólarhringinn og vikuna.  Þetta verður unnt eftir uppsetningu snjallorkumæla með verðstýringu, þ.e. að einingarverð orkunnar verði lægra til almennings á nóttunni og um helgar en á öðrum tímum. Þá er hægt að forrita hleðslu bílsins eða gang þvottavélarinnar að hefjast, þegar álagið og þar með verðið hefur lækkað nægilega að mati viðskiptavinar.  

"Þetta tímabil [1937-1965] einkenndist af rafmagnsóöryggi og skammtímalausnum.  Raforkukerfið þjónaði nánast eingöngu almennum notendum, og aflskortur blasti við, þegar árleg nýting vélarafls náði 60 %." 

Þessi þrönga staða blasti við Íslendingum á téðu tímabili.  Hún hefði dæmt landsmenn til að búa við veikt og dýrt raforkukerfi mjög lengi að óbreyttu, en þá varð það þeim til happs, að Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks komst til valda síðla árs 1959.  Í henni sátu hæfileikaríkir stjórnendur og hugsjónamenn að auki, sem höfðu kraft og þor til að brjóta forstokkað haftaafturhald og einangrunarsinna vinstri kants stjórnmálanna á bak aftur.

Viðreisnarstjórnin ásamt ráðgjöfum sínum, t.d. formanni Stóriðjunefndar, dr Jóhannesi Nordal, Seðlabankastjóra, braut Íslendingum leið út úr sjálfheldu veiks raforkukerfis og hás orkuvinnslukostnaðar. Hún fékk til landsins öflugan fjárfesti, svissneska verksmiðjueigandann Alusuisse, sem hóf mikla uppbyggingu í Straumsvík við Hafnarfjörð 1967 og var stærsti raforkukaupandi landsins frá 1969 í yfir 30 ár. 

Þar með gafst einnig kostur á að reisa öflugt flutningskerfi á 220 kV spennu, svo að  raforkuöryggi landsmanna batnaði stórum með stórum virkjunum í Þjórsá/Tungnaá, hringtengingu 220 kV kerfisins og í kjölfarið lækkaði raunorkuverðið.  Ástæður hins síðar nefnda voru nokkrar, t.d. hagkvæmni stærðar, hag virkjana og lína, hagstæð lán til framkvæmdanna vegna tryggrar orkusölu langt fram í tímann og tiltölulega jafns álags í Straumsvík, sem gaf góða nýtingu á fjárfestingunum, því að sveiflur almenns álags heimila og fyrirtækja vógu lítið m.v. meðalálagið.

Ástandinu fyrir stóriðjutímabilið lýsir Steinar Ingimar þannig: 

"Eftir gangsetningu [Ljósafossstöðvar 04.10.1937] féll heildarnýting vatnsafls í raforkukerfinu niður í 12 %.  Til að auka eftirspurn voru íbúar á höfuðborgarsvæðinu hvattir til að fá sér fleiri heimilistæki.  T.d. veitti Rafmagnsveita Reykjavíkur afslátt af rafmagnsverði fyrir heimili, sem keyptu sér rafmagnseldavél.  En á augabragði breyttist eftirspurnin við komu brezka hersins." 

Téður afsláttur rafmagnsverðs hefur verið öllum hagfelldur, þar til toppálagið náði aflgetu kerfisins. Þar sem heimilisálag og álag fyrirtækja í u.þ.b. 10 klst á virkum dögum er ríkjandi, er þessi nýting aðeins um 60 %, þ.e. þar til toppálag stangar aflgetu kerfisins.  Til samanburðar er meðalnýting Búrfellsvirkjunar (270 MW, 2300 GWh/ár) yfir árið 97 % vegna ríkjandi álags verksmiðja, sem starfa allan sólarhringinn árið um kring.  Virkjanir Landsvirkjunar mala af þessum sökum landsmönnum gull, enda hafa elztu virkjanirnar verið að mestu bókhaldslega afskrifaðar núna. 

"Á meðan Írafossstöð var í undirbúningi, var 7,5 MW gufuaflsstöð reist við Elliðaár (Toppstöðin), sem brenndi olíu og kolum.  Hún var dýr í rekstri.  Árið 1953 komst Írafossstöð (48 MW) í gagnið, þökk sé Marshallaðstoðinni.  Árið eftir hóf Áburðarverksmiðja ríkisins rekstur og með henni fékkst fljótt góð nýting virkjunar.  Ekki löngu síðar hófst bygging Steingrímsstöðvar (27 MW), sem hóf rekstur 1959.  Hún varð að veruleika vegna orkusölusamnings við bandaríska varnarliðið, en samningurinn stóð að miklu leyti undir afborgunum af lánum.  Segja má, að útlenzkir herir og Áburðarverksmiðjan hafi verið fyrstu stórnotendur rafmagns á Íslandi. Þeir gerðu Sogsvirkjunum kleift að bjóða höfuðborgarbúum rafmagn á hagstæðara verði en ella.  Orkuöryggið var þó áfram misjafnt."

 Á þessum árum var efnahagslífið í viðjum innflutnings- og fjárhagshafta, sem áreiðanlega hefur haft hamlandi áhrif á hagvöxtinn og þróun atvinnulífsins.  Efnahagslífið var miðstýrt í anda Ráðstjórnar og veikt, svo að innviðauppbygging gekk brösuglega, eins og dæmin um fjármögnun Sogsvirkjana með tekjum af orkusölu til setuliðsins; með Marshall-aðstoð og með raforkusölu til herstöðvarinnar í Keflavík, sýna.  Þess ber að geta, að á sama tíma stóð yfir hitaveituvæðing í Reykjavík, svo að orkunotkun þar dreifðist á tvenns konar orkulindir.  Í stuttu máli var það yfirleitt einn "stórnotandi" raforku, sem gerði nýja virkjun mögulega á Íslandi. Nú hefur raforkukerfi landsmanna vaxið svo fiskur um hrygg, að ekki þarf að bíða eftir nýjum notanda, þótt virkjað sé meðalstórt (u.þ.b. 100 MW), enda bíða orkunotendur í landinu eftir meiri orku.  Það er raforkuskortur.

Í Noregi fór rafvæðing landsins líka fram með verksmiðjuuppbyggingu vítt og breytt um landið.  Í Noregi var húsnæðið rafkynt samhliða rafvæðingunni, sem olli miklu meiri raforkuþörf en hér og betri nýtingu orkumannvirkja, en fyrir vikið var löngum skortur á toppafli. Það var leyst með tvöföldum orkumæli.  Mældi annar heildarorkunotkun og hinn orkunotkun, þegar aflþörfin fór yfir umsamin mörk, og var sú orka afar dýr, þannig að slökkt var á ofnum, þegar eldað var.

"Þetta tímabil [1965-2020] er kennt við stórvirkjanir og stóriðnað.  Þegar Sogið var fullvirkjað, voru aðeins 2 kostir í boði til að afla rafmagns fyrir höfuðborgarsvæðið; annars vegar virkjun Hvítár á Suðurlandi og hins vegar virkjun Þjórsár.  Seinni kosturinn var utan seilingar, nema stóriðja tæki til starfa á Íslandi. Allir vita, hver niðurstaðan varð: bygging Búrfellsstöðvar og álvers í Straumsvík.  Bygging Hrauneyjafossstöðvar og Sigöldustöðvar ásamt lagningu Byggðalínunnar varð svo grunnurinn að góðu aðgengi að rafmagni fyrir fyrir flesta landsmenn.  Þessar stórframkvæmdir voru lykillinn að því, að landsmenn fengu rafmagnið á enn hagstæðari kjörum en áður þekktist."

Þetta er rétt ályktað, en samt barðist minnihlutinn á Alþingi, sem þá samanstóð aðallega af þingmönnum Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins, á hæl og hnakka gegn þessum framfaramálum, sem áttu eftir að bylta lífskjörum í landinu til hins betra. Þá, eins og nú, voru margir þingmenn glámskyggnir á raunverulegan hag umbjóðenda sinna, en hengdu hatt sinn á tittlingaskít, sem engu máli skipti, er frá leið. Það er einfaldlega þannig með aðgerðir og framkvæmdir, að allt orkar tvímælis, þá gert er, en það eru meginlínurnar í málatilbúnaðinum, sem skipta sköpum.  Þetta er ofvaxið skilningi þröngsýnispúka á þingi og annars staðar, sem hafa asklok fyrir himin og kunna alls ekki að greina hismið frá kjarnanum.  Hvernig halda menn, að komið væri málum Íslendinga núna, ef tekið hefði verið mark á úrtöluröddum ofangreinds uppbyggingarskeiðs og t.d. unnið eftir hinum fjallheimskulega frasa: "náttúran verður að njóta vafans", sem reyndar hafði ekki séð dagsins ljós í þá daga. 

Reykjavík og stjórnun hennar er svo kapítuli út af fyrir sig.  Sogsframkvæmdir, sem raktar voru hér að ofan, voru að frumkvæði þáverandi bæjarstjórnar Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn réði lögum og lofum um áratugaskeið.  Hvernig halda menn, að komið væri málum Reykvíkinga nú og raunar landsmanna allra, ef rugludallarnir, sem nú mynda meirihluta borgarstjórnar, hefðu verið við völd í Reykjavík á tímabilinu 1937-1965 ?   Bókstaflega ekkert framkvæmdamál í Reykjavík, sem til heilla horfir fyrir framtíðina, þokast nú hænufet, heldur þvælast afturhaldssinnar, nú í valdastólum, fyrir þeim öllum, og borgarskipulagið sjálft er algerlega í skötulíki, svo að ekki sé nú minnzt á hörmungina miklu, fjármálaóreiðu Reykjavíkurborgar. Að kjósa gapuxa, draumóramenn og sérvitringa til valda yfir málefnum almennings, endar sem voveiflegur bjúgverpill.   


Sitt sýnist hverjum um vindmyllur

Framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun reit grein í Morgunblaðið þann 3. nóvember 2022 og upplýsti þar lesendur blaðsins um, að "á dögunum" hefði Landsvirkjun sent Orkustofnun umsókn sína um  virkjunarleyfi vinds með vindmylluþyrpingu, sem fyrirtækið nefnir Búrfellslund og á að verða 120 MW að uppsettu afli (á að gizka 30 vindmyllur). Það er ankannalegt, að þetta ríkisfyrirtæki skuli ríða á vaðið með þrýsting á yfirvöld orkumála um leyfi til að reisa og reka vindmylluþyrpingu á landinu áður en boðuð löggjöf um slík mannvirki lítur dagsins ljós.

Landsvirkjun beitir fyrir sig röksemdum um, að afl- og orkuskortur hrjái landsmenn nú þegar, sem er alveg rétt, og hann mun fara versnandi með hverju árinu, sem líður án nýrrar, áreiðanlegrar virkjunar, eins og Hvammsvirkjunar í Neðri-Þjórsá, inn á netið.  Landsvirkjun segir þó ekki alla söguna í þessum efnum, því að mest knýjandi þáttur vandans er aflskorturinn, og það er ekki hægt að reiða sig á vindmylluþyrpingu til að standa undir toppálagi stofnkerfisins.  

Að ríkisfyrirtækið skuli réttlæta hæsta fórnarkostnað á MWh á formi landspjalla í samanburði við þá kosti jarðgufu- og vatnsaflsvirkjana, sem fyrirtækið hefur úr að spila, er óverjandi. Ríkisfyrirtækið bítur síðan hausinn af skömminni með því að setja virkjanakost með hæsta vinnslukostnað raforku í ISK/kWh á oddinn.  Allt þetta brölt Landsvirkjunar er ógæfulegt, því að það rýrir orðspor þess sem vistvæns orkufyrirtækis og rýrir arðsemi þess eða veldur aukinni hækkunarþörf á heildsöluverði raforku til almenningsveitna. 

Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, fékk birta grein eftir sig í Morgunblaðinu 3. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

 "Við þurfum vind fyrir orkuskiptin".

  Þar fór hann m.a. nokkrum orðum um rafmagnsskortinn í landinu, sem er í sjálfum sér þungur áfellisdómur yfir orkuyfirvöldum og orkustefnu landsins.  Orkustofnun sefur á 17 mánaða gamalli virkjunarumsókn  Landsvirkunar vegna Hvammsvirkjunar, en þess verður ekki vart, að orkuráðherrann ýti við orkumálastýrunni, svo að hún vakni til raunveruleikans.  Skyldu fundir hennar með ACER (Orkustofu ESB) nokkuð fjalla um afköst Orkustofnunar við afgreiðslu virkjanaleyfa á tíma, þegar Evrópa er í orkusvelti ?:

 "Skortur á raforku er orðinn hamlandi þáttur fyrir eðlilega atvinnustarfsemi í landinu, jafnvel þótt þörfin vegna orkuskipta sé ekki tekin með í reikninginn.  Skerða þurfti orkusölu til fjölmargra notenda síðasta vetur [2021-2022], þar sem ekki var til nægileg orka í samfélaginu til að uppfylla þarfir þeirra."

Vatnshæð Þórisvatns er nú um 3 m hærri en á sama tíma í fyrra, en samt undir meðaltali.  Vatnshæð Hálslóns er svipuð og að meðaltali.  Það er líklegt, að atvinnuvegirnir og fjarvarmaveiturnar losni við álagsskerðingar næsta vetur, en það er þó ekki öruggt, af því að það vantar aflgetu í kerfið.  Það er villandi af Landsvirkjun að láta í það skína, að vindmylluþyrpingar séu lausn á þessari knöppu stöðu, einfaldlega af því að það er ekki á vísan að róa með aflgetu vindmylla.  Það er ekki hægt að selja afl frá vindmylluþyrpingu fram í tímann, nema sem ótryggt afl með skerðingarheimild. Þess vegna er alvarlegt afl- og orkuástand í landinu núna engin röksemd fyrir yfirvöld til að þjófstarta vindmylluverkefnum.  Yfirvöldin eiga hins vegar að hrista af sér slenið og greiða leið annarra umsókna um virkjanaleyfi. 

Í lokin skrifaði Einar:

"Ef við ætlum að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti fyrir árið 2030, er okkur ekki til setunnar boðið.  Í orkugeiranum verður að hugsa til langs tíma, enda er undirbúningur og bygging virkjana tímafrekt verkefni, sem talið er í árum.  Ef allt gengur að óskum, verður í fyrsta lagi mögulegt að tengja Búrfellslund við raforkukerfið í árslok 2025."

Markmið íslenzkra yfirvalda um minnkun losunar koltvíildis hefur alla tíð skort raunsæi, og nú er nokkuð ljóst, að engri þjóð mun takast að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu 2015, og fáir taka þetta orðagjálfur stjórnmálamanna alvarlega lengur.  Nú er viðfangsefni margra að lifa veturinn af með góðu eða illu, og margir grípa þá til óhollrar viðarkyndingar.  Hérlendis ætti ríkisfyrirtæki ekki að ganga á undan með illu fordæmi um að spilla víðernum með miklum fórnarkostnaði í samanburði við ávinninginn með þeim rökum að ná þurfi loftslagsmarkmiðum, sem þegar eru komin í vaskinn.  


ACER herðir tökin á Noregi

Það var gæfa fyrir Ísland, að aflsæstrengurinn, sem búið var að setja á forgangslista orkuverkefna ESB-ACER, var tekinn út af þeim lista að ósk íslenzkra stjórnvalda í aðdraganda lokaumfjöllunar Alþingis á OP3 (þágildandi orkulöggjöf ESB, OP4 er núgildandi) sumarið 2019.  Annars gæti farið að styttast í svipaðar orkuhremmingar á Íslandi og gengið hafa yfir Norðmenn og valdið þeim gríðarlegum kostnaðarauka og aukið hjá þeim verðbólguna.  Þess vegna er fróðlegt fyrir áhugasama hérlendis að kynna sér, hver þróun samskipta Norðurlandanna við ESB-ACER er á orkusviðinu.

Hjá ACER er nú til athugunar tillaga frá kerfisstjórum aðildarlanda EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þ.á.m. Statnett í Noregi, um að fella þann hluta Noregs, sem er á áhrifasvæði millilandatenginga fyrir raforku, þ.e. Suður-og Austurlandið, inn í stórt fjölþjóðlegt orkuflutningssvæði, sem ætlað er að einfalda útreikninga með samræmdri aðferðarfræði á orkugetu og orkuflutningsgetu stórsvæðisins. Jöfnunarorkumarkaður verður þá sameiginlegur fyrir stórvæðið. Samhliða þessu vinnur ACER með tillögu að nýjum reglum um orku og flutningsgetu til ráðstöfunar samkvæmt langtíma orkusamningum, en tilhneigingin hefur verið að draga úr umfangi þeirra.  Slíkt hentar Íslandi og Noregi illa. 

Áfangaskipt samræming orkumarkaða Orkusambandsins felur í sér svæðisbundnar lausnir sem bráðabirgða skref í átt að fyrirætluninni um heildarsamræmingu, eins og getið er um í viðkomandi reglugerð í OP4 (Orkupakka 4). Það hlýtur að vera kaldranalegt fyrir Norðmenn að vinna að þessu í ljósi þess, að OP4 hefur ekki lagagildi í Noregi, og flestir gera sér ljóst, til hvers refirnir eru skornir, og ófæran blasir nú þegar við í Noregi. 

Noregi mun verða gert að ráðstafa enn meiri orku- og flutningsgetu til þessa sameiginlega orkumarkaðar.

Núna eru 8 orkuviðskiptasvæði í ESB.  Hjá ACER stendur vilji til, að norsku uppboðs- og verðsvæðin verði á norræna og Hansa-svæðinu, þ.e.a.s. með Þýzkalandi, Hollandi, Póllandi og Lúxemborg auk Svíþjóðar og Danmerkur.  Hjá ACER er því haldið fram, að þessi sameining markaðssvæða Noregs við Hansa-sambandið muni leiða til aukinnar "velferðarþróunar", sem er kaldhæðnisleg ályktun frá norsku sjónarhorni.

Í raun þýðir þessi skipulagsbreyting, að Noregur verður skyldaður til að ráðstafa enn stærri hluta flutningsgetu raforku til útlanda til Innri markaðar ESB og þeirra reglna, sem þar eiga við.  Aðferðarfræðin þar er s.k. flot.  Það þýðir, að þar ræður markaðurinn alfarið ferðinni, en stjórnvöld mega engin afskipti hafa af þeim viðskiptum. 

Að Noregur skuli sogast sífellt sterkar inn á Innri markaðinn, er bein afleiðing af, að sumarið 2021 samþykkti Stórþingið 4 reglugerðir, sem boðaðar voru í OP3 og koma í rökréttu framhaldi af honum.  Þær eru í samræmi við ákvæði í OP4. Alþingi hlýtur að hafa samþykkt þessa nálgun að OP4, úr því að reglugerðirnar hafa tekið gildi í EES.  Um þetta hefur verið undarlega hljótt.  Hvað gengur íslenzkum stjórnvöldum til að hlaupa umsvifalaust til, þegar norskur ráðherra hringir ?  Er þetta eitthvert Gamla sáttmála heilkenni ?

Ein þessara reglugerða er um ráðstöfun flutningsgetu fyrir orku, í orkuflutnings mannvirkjunum, sem samið er um til langs tíma (FCA).  Önnur er reglugerð um ákvörðun flutningsgetu og meðferð flöskuhálsa í flutningskerfinu (CACM).  Það er einkum þessi síðar nefnda reglugerð, sem kerfisstjórarnir og ACER nota sem röksemd fyrir því að samþætta Noreg stærra markaðssvæði. Í einföldu máli inniheldur CACM nákvæmar reglur, sem eiga að tryggja, að markaðurinn, en ekki þörf viðkomandi lands að mati stjórnvalda þess, stjórni aðgengi að millilandatengingunum og flutningum eftir þeim. 

Svíþjóð er skylduð til að ráðstafa 70 % af flutningsgetu sinni á raforku til útlanda til markaðarins.

Rafmagnsverðhækkanirnar hafa valdið örvæntingu í Svíþjóð eins og í Noregi.  Mikill verðmunur hefur verið á milli norður- og suðurhlutans, og kerfisstjórinn, Svenska Kraftnät, hefur átt í vandræðum með yfirálag á flutningskerfinu.  Þess vegna sótti Svenska Kraftnät um leyfi orkulandsreglarans, Energimarknadsinspektionen (EI samsvarar RME í Noregi og Orkumálastjóra á Íslandi), til að takmarka útflutninginn.  EI neitaði kerfisstjóranum um almennt leyfi til útflutningstakmarkana og vísaði til þess, að Svíþjóð er skuldbundin til að ráðstafa 70 % flutningsgetunnar til markaðarins samkvæmt ákvæði í endurskoðuðu rafmagnstilskipuninni í ESB OP4.

Aftur á móti veitti EI bráðabirgða undanþágu fyrir ákveðinni útflutningstakmörkun á flutningslínum og -strengjum til Finnlands og Danmerkur (en ekki til Noregs, Þýzkalands og Póllands) með vísun til afhendingaröryggisins.  Dönsku og finnsku orkulandsreglararnir mótmæltu og kærðu til ACER, sem nú hefur hafnað því, að Svíþjóð geti vikizt undan 70 % reglunni.      

ACER lagði mat á afstöðu sænska kerfisstjórans og orkulandsreglarans og rökstuddi höfnunina þannig:

  1. Undanþágan er ekki nauðsynleg til að viðhalda rekstraröryggi sænska raforkukerfisins.
  2. Í umsókninni var ekki tilgreind hámarkslækkun, sem fyrirhuguð væri.
  3. Í umsókninni var ekki tilgreind sú aðferðarfræði, sem fyrirhugað væri að beita til að koma í veg fyrir mismunun á milli orkuviðskipta innanlands og til útlanda.  

Af þessu má ráða, að ACER væni téð orkuyfirvöld í Svíþjóð óbeint um að ætla að veita notendum innanlands forgang að tiltækri orku. Ef t.d. ætti að helminga flutningana til útlanda, þá yrði að skerða orku til a.m.k. ákveðinna notenda í Svíþjóð um helming.  Þetta er algerlega óviðunandi fyrir sjálfstæðar þjóðir.  Ef Stórþingið og Alþingi ásamt Liechteinsteinum samþykkja OP4, lendir Noregur strax í sömu ófæru og Svíar.  Hið sama varður uppi á teninginum hérlendis, ef Alþingi samþykkir tengingu íslenzka raforkukerfisins við Innri markaðinn, sem yrði fullkomið glapræði. 

Í ESB er ekki sama, hvort í hlut á Jón eða séra Jón.  Í vor bannaði franska ríkisstjórnin tímabundið útflutning á raforku frá Frakklandi til að draga úr verðhækkunum í kjölfar stöðvunar líklega um þriðjungs 56 kjarnakljúfa í frönskum kjarnorkuverum og virtist komast upp með það.   

OP3 er dauður bókstafur á Innri markaði ESB síðan OP4 tók þar við.  OP4 hefur hins vegar ekkert lagagildi í EFTA-löndunum.  Þess vegna verður ekki annað séð en orkulandsreglarar Íslands og Noregs framkvæmi fyrirmæli ESA (frá ACER) í heimildarleysi, og embættismenn og ráðherrar kæra sig kollótta.     

 

 


Meira um þróun orkupakkanna OP3 og OP4

Í Noregi er nú tekizt á um það í dómsölum, hvort OP3 frá ESB sé "lítið inngrípandi" eða ekki, þ.e. hvort sú orkulöggjöf ESB hafi lítil áhrif á líf almennings í Noregi eða ekki.  Þróun orkumálanna í Evrópu frá innleiðingu OP3 í EFTA-löndum EES-samstarfsins er öll í átt til mikilla áhrifa á líf fólks og rekstur fyrirtækjanna í Noregi.  Þar nægir að benda á ofurhátt innflutt raforkuverð til Noregs um millilandatengingarnar. Á Íslandi áskildi Alþingi sér rétt til að samþykkja eða hafna tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við íslenzkt raforkukerfi, en þetta skilyrði kann að brjóta í bága við EES-samninginn og er þess vegna veik vörn.

Vegna OP3 er það ekki á færi lýðræðislegra yfirvalda í Noregi að hamla gegn margföldun raforkuverðs á áhrifasvæði sæstrengjanna þar með því að draga úr eða stöðva útflutning raforku og safna þar með vatni í miðlunarlón vatnsaflsvirkjana sunnan Dofrafjalla (í Suður- og Austur-Noregi), eins og norska ríkisstjórnin hafði áform um í sumar áður en Eftirlitsstofnun EFTA-ESA barði á fingurgóma hennar með reglustriku.  

Nú verður haldið áfram með frásögn Mortens Harper, lögfræðings Nei til EU, NtEU, í Klassekampen 5. nóvember 2022, með ívafi höfundar þessa vefseturs:

OP3 er nú aðeins í gildi í EFTA-löndum EES (Noregi, Íslandi og Liechtenstein).  Í ESB hefur OP4 leyst OP3 af hólmi.  Þetta er lagagrunnurinn, sem ACER (Orkustofa ESB) reisir ákvarðanir sínar á, ákvarðanir, sem hafa mikil áhrif á innri markaðinn fyrir orku, sem Noregur er nú samþættur, en Ísland ekki í raun, því að raforkukerfi Íslands er ótengt raforkukerfum annarra landa.

Hvernig ACER beitir ákvörðunarvaldi sínu sást nýlega, þegar ACER fjallaði um tilraun Svía til að hafa stjórn á raforkuútflutninginum (ákvörðun 26.10.2022).  Hin endurskoðaða rafmagnstilskipun frá ESB í OP4 skyldar aðildarþjóðirnar (að innri markaði orku) til að ráðstafa 70 % af flutningsgetunni til útlanda til frjálsra afnota markaðarins.  Sænska Orkumarkaðseftirlitið, þ.e. Orkulandsreglarinn (Orkumálastjóri hérlendis) hafði samþykkt bráðabirgða undanþágu með vísun til afhendingaröryggis raforku í Svíþjóð og heimilað nokkra takmörkun útflutnings.  Þessu mótmæltu orkulandsreglarar Danmerkur og Finnlands, svo að málið barst ACER til úrskurðar.  Niðurstaðan varð sú, að sænsku röksemdirnar lutu í lægra haldi fyrir óheftu orkuflæði á markaðinum innan 70 % markanna. 

Statnett (norska Landsnet) er í norrænum hópi kerfisstjóra, þar sem 3 af 4 (í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku) eru formlega undir gildandi ESB-regluverki (OP4).  Í raunveruleikanum sést, að Statnett fylgir líka reglum ESB OP4.  Fyrir fáeinum árum náðu norrænu kerfisstjórarnir 4 ekki samkomulagi um aðferðarfræði til að stjórna langtíma flutningsgetu kerfisins, og ACER var falið að kveða upp bindandi úrskurð.  Samþykkt ACER 30.10.2019 er formlega beint til kerfisstjóranna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en úrskurðurinn verður að gilda líka í Noregi fyrir milligöngu ESA og RME (norska orkulandsreglarans). Annað svipað dæmi er ACER-ákvörðun frá 05.08.2020 um jöfnunarorku.  Í báðum málunum er m.a. vísað til nýju ACER-reglugerðarinnar í OP4, sem ekki hefur hlotið samþykki Noregs í EES (og þess vegna ekki Íslands heldur). 

Þetta vekur spurningar um raunverulega vídd orkuskuldbindinga Noregs og Íslands samkvæmt EES-samninginum. Geta þær spannað reglur, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ? Regluverkið, sem farið er eftir á Innri markaði ESB, einnig í löndunum, sem tengjast Noregi með raforkuflutningsmannvirkjum og náinni kerfisstjórnunarsamvinnu, er enn meira inngrípandi en regluverkið, sem Stórþingið og Alþingi hafa innleitt í EES-samninginn. 

ACER vinnur samkvæmt OP4.  Hvernig á Eftirlitsstofnun EFTA ESA og orkulandsreglarinn að gera eitthvað annað gagnvart Noregi, Íslandi og Liechtenstein ?  Er nokkuð raunverulegt í þessu sambandi í formlegri aðgreiningu Noregs og norrænu ESB-landanna ?  Hér mætti bæta Íslandi við í öðrum málum en þeim, sem varða orkuflutninga á milli landa. Sönnunarbyrðin í þessu máli hlýtur að vera hjá þeim, sem enn telja fullveldisframsalið til ESB-ACER vera "lítið inngrípandi". Þetta verður að fást á hreint á Íslandi líka.  Er það í lagi, að veigamiklum þáttum raforkumálanna sé stjórnað á grundvelli reglna ESB, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ?  Frá leikmannssjónarhorni í lögum er slíkt klárt  stjórnarskrárbrot. Öll verk orkulandsreglarans frá gildistöku OP4 sumarið 2019 eru líklega ólögleg í Noregi og á Íslandi.  Það þýðir, að embætti hans og gjörðir frá gildistöku OP3 haustið 2019 á Íslandi eru sennilega ólögleg.  Hvernig stendur á því, að enginn úr fjölmennum hérlendum lögfræðingahópi hefur vakið athygli á þessari alvarlegu lagaóvissu ?  Sú lagaóvissa er alls ekki á förum, á meðan norski Miðflokkurinn situr við "kongens bord" í Ósló. 

Raforkuverðskreppan veldur því, að ekki getur lengur ríkt mikill vafi á því, að ESB OP3 hefur áhrif á atriði með mikla þýðingu fyrir norska þjóðfélagið - afhendingu raforku og raforkuverðið.  Meirihluti Stórþingsins veturinn 2018 vanmat þjóðfélagslegar afleiðingar þessa regluverks, sem hefur slíkan umbúnað, að norsk yfirvöld hafa ekki möguleika á  nauðsynlegum áhrifum á framkvæmd og þróun regluverksins. Hvorki Noregur né Ísland hafa t.d. atkvæðisrétt í ACER. 

Í Stórþingsfrumvarpi nr 100 (1991-92), sem lá til grundvallar samþykktar EES-samningsins, stóð, að með því að ráða síðasta skrefinu, sem taka yrði til að skapa borgurum landsins nýjar skuldbindingar, fælist grundvallarmunur m.v. það að sleppa þessum stjórnunarmöguleika. 

Á orkusviðinu verða til ákvarðanir hjá ACER, sem ESA á síðan að samþykkja óbreyttar að efni til, og orkulandsreglarinn (RME í Noregi og Orkumálastjóri á Íslandi) á síðan að koma á framfæri gagnvart aðilum á orkumarkaði í Noregi og á Íslandi og fylgja því eftir, að þær séu framkvæmdar.  Þessi ákvarðanatökukeðja veldur því, að Noregur og Ísland hafa enga stjórnun á þessum þáttum.  Í álitsgerð sinni um ACER-málið (OP3) skrifaði lagaprófessor Hans Graver, að það "... hafi verið búin til valdastaða í innanlandsrétti fyrir alþjóðlega stofnun til að taka ákvarðanir..." (september 2018).  Síðasta skrefið er í raun ACER.

  Mun lögmannsrétturinn stíga nauðsynleg skref til baka ?  Hvenær skyldi reyna á lagalegan grundvöll OP3 á Íslandi og á lagalegan grundvöll orkulandsreglarans (Orkumálastjóra), sem starfar ekki eftir OP3, heldur eftir OP4, sem hefur ekkert lagalegt gildi á Íslandi. 

 

 

 


Orkupakki 3 í lausu lofti ?

Eins og Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fv. Alþingismaður, vakti athygli á í Morgunblaðsgrein 05.11.2022, féll Orkupakki 3 (OP3) úr gildi innan Evrópusambandsins (ESB) fyrir nokkrum árum, þegar OP4 tók þar gildi.  Ef OP3 hefur ekkert lagalegt gildi lengur í ESB, hvernig er þá háttað lagalegu gildi hans í EFTA-löndum EES-samstarfsins ? Þessu velta menn líka vöngum yfir í Noregi, og Morten Harper, lögfræðingur Nei til EU í Noregi, birti 5. nóvember 2022 grein í Klassekampen um stöðu OP3 og OP4 í Noregi um þessar mundir.  Þessi vefpistill er með hans leyfi reistur á téðri grein:

Lögmannsréttur Borgarþings var 31. október 2022 settur með 5 dómurum til að fjalla um kæru Nei til EU (NtEU) á hendur ríkinu fyrir það, að Stórþingið beitti ekki grein 115 í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðsluna um OP3 í marz 2018. NtEU staðhæfir, að innleiðing OP3 ein og sér eða í samhengi við aðra lagasetningu frá ESB um orkumál feli í sér fullveldisafsal, sem Stórþinginu sé óheimilt með einföldum meirihluta.  Af því að fullveldisafsalið er meira en "lítið inngrípandi", hefði Stórþingið átt að fylgja Stjórnarskrárgrein 115, sem krefst 3/4 meirihluta og að 2/3 hlutar þingheims mæti til fundar. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út allmargar reglugerðir til skýringa og áherzluauka við OP3.  Árið 2021 samþykkti Stórþingið 4 þeirra.  Samþykktir ACER á grundvelli þessara reglugerða eiga einnig að fara um Eftirlitsstofnun EFTA-ESA til framkvæmdar hjá Orkumálastjóra, sem gegnir stöðu fulltrúa ACER-Orkustofu ESB á Íslandi (Landsorkureglari).  Framkvæmdir þar á bæ hafa ekki verið áberandi. 

Landsorkureglarinn er óháður innlendum yfirvöldum í gjörðum sínum og ber að fylgja eftir framkvæmd reglna EES-samningsins á orkusviðinu á Íslandi. 

Ennfremur hefur ESB samþykkt OP4  (einnig kallaður "hreinorku" pakkinn), og aðildarlöndin hafa innleitt OP4 í lagasöfn sín.  Hann veitir ACER meiri völd en OP3.  Efni OP4 var þekkt, þegar Stórþingið samþykkti OP3.  Reglugerðirnar 4 í OP4 hafði ESB þegar samþykkt, og Framkvæmdastjórnin hafði  gert tillögu um OP4 til þings og ráðs.  

Hæstiréttur Noregs sagði í greinargerð sinni um 4. járnbrautarlagapakkann frá ESB í marz 2021, að Stórþinginu beri að meta uppsafnað fullveldisframsal, þannig að ekki verði unnt að sniðganga grein 115 með því að búta innleiðingu laga niður.  Þetta sjónarmið hlýtur einnig að ráða hjá ríkisstjórn Íslands og Alþingi.  Munurinn er sá, að aukinn meirihluti er ekki heimilaður í Stjórnarskrá Íslands til að samþykkja meira en "lítið inngrípandi" fullveldisframsal.  Alþingi er einfaldlega slíkt framsal með öllu óheimilt.  Hér er komið að því, sem lagafræðimennirnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson vöruðu þáverandi utanríkisráðherra og Alþingi við í skýrslu sinni í aðdraganda innleiðingar Alþingis á OP3, 02.09.2019.  Grasrót Sjálfstæðisflokksins varaði sumarið 2019 eindregið við þessari innleiðingu, og áhyggjur Landsfundar Sjálfstæðisflokksins komu ljóslega fram í ályktun hans veturinn áður.  Þáverandi utanríkisráðherra hundsaði þá gjörsamlega þessa grasrót, sem hann svo smjaðraði ótæpilega fyrir í aðdraganda og á Landsfundi í nóvemberbyrjun 2022 í ótímabærri tilraun sinni til að velta sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins úr sessi, sem þó ber höfuð og herðar yfir hann, hvernig sem á þá er litið. 

Í Noregi verður sem sagt að líta til alls orkuregluverks ESB á orkusviði, þegar lagt er mat á, hversu inngrípandi fullveldisframsalið er.  Virkni orkuregluverksins og réttarfarið á Innri markaðinum veldur því, að ekki aðeins þarf að taka tillit til lagasetningar fram að samþykktardegi, heldur einnig þekktra og væntra reglugerða og 4. orkupakka. Þetta hefur mikla þýðingu í Noregi vegna umrædds dómsmáls, en einnig þýðingu á Íslandi, ef/þegar ný orkulagasetning frá ESB verður þar til umræðu.   

Hér með lýkur fyrri hluta þessarar umfjöllunar, en síðari hlutinn verður birtur í næsta vefpistli á þessu vefsetri.  


Vindmyllur leysa engan vanda

Danmörk er langmesta vindmylluland Norðurlandanna, og þar er raforkuverðið langhæst.  Danir hafa fjárfest gríðarlega í vindmyllum og auðvitað framleitt þær og selt út um allar jarðir. Hár fjárfestingarkostnaður, stuttur endingartími, tiltölulega hár rekstrarkostnaður og slitróttur rekstur veldur því, að vinnslukostnaður rafmagns er hár með vindmyllum, og á sama má segja, að aflið frá þeim sé annars flokks vegna óvissunnar, sem gætir um afhendingu þess.  Viðskiptavinur getur ekki reitt sig á þetta afl, og þess vegna hefur vindmylluaflið afar lítið gildi hjá viðskiptavini, sem verður fyrir tilfinnanlegu tjóni, ef hann fær ekki umsamið afl. 

 

 

Erlendis er þetta leyst með því, að seljandi vindmylluorku semur við seljanda orku frá annars konar orkuveri, yfirleitt gaskyntu orkuveri, um að hlaupa fyrir sig í skarðið.  Hérlendis vill varla nokkur borga forgangsorkuverð fyrir vindmylluorku, nema seljandi vindorkunnar geti tryggt umsamda afhendingu.  Þannig nemur verðmæti einangraðrar vindmylluorku hérlendis aðeins verðmæti ótryggðrar raforku, sem er e.t.v. þriðjungur af verðmæti forgangsorkunnar. Þannig er vandkvæðum háð að gera samning við seljanda vindmylluorku til lengri tíma en nemur sæmilega öruggri veðurspá. 

Hins vegar gætu vindmyllur orðið verðráðandi hér á væntanlegum uppboðsmarkaði til eins sólarhrings, því að þar mun gilda, að fyrir öll viðskiptin ráði hæsta verðtilboð, sem tekið er.  Þetta fyrirkomulag Evrópusambandsins og annarra hefur nú komið Evrópumönnum hrottalega í koll á orkuskortstímum, og hefur forseti framkvæmdastjórnar ESB sagt fyrirkomulagið ekki vera á vetur setjandi. 

Nú væri hægt að láta alla þessa ókosti vindmylluraforkunnar liggja á milli hluta í nafni endurnýjanlegrar orkulindar og athafnafrelsis í landinu innan marka laganna, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að vindmyllur eru landfrekar, uppsetning þeirra kallar á tiltölulega umfangsmikil landspjöll og af þeim stafar ýmiss konar mengun. 

Haukur Ágústsson hefur skrifað greinar í Morgunblaðið, sem veigur er í.  Ein birtist 26. október 2022 undir fyrirsögninni:

   "Viðbrögð við vindmyllum":

"Samkvæm vorut samtökunum "StopTheseThings" (Stöðvið þetta) voru yfir 30 k vindmyllur í Þýzkalandi árið 2019.  [M.v. höfðatölu svarar þetta þó aðeins til 140 stk á Íslandi, en hérlendis hafa verið birt áform um mörg hundruð vindmyllur-innsk. BJo.] Margar þeirra eru svo bærri byggðu bóli, að mikið ónæði hlýzt af.  Því hafa fasteignir í nágrenni þeirra lækkað í verði og jafnvel orðið óseljanlegar, auk þess sem almenn andúð á þeim hefur vaxið.  Nú er svo komið, að sem næst engar nýjar vindmyllur eru reistar í Þýzkalandi, heldur horfa þýzkir fjárfestar til annarra landa og þá einkum Noregs."

Þýzkaland er 62 sinnum þéttbýlla en Ísland og þess vegna engin furða, þótt fórnarkostnaður af uppsetningu og rekstri vindmylla sé hár.  Þjóðverjar hafa á seinni árum verið afar seinheppnir með orkustefnu sína, sem nú á ófriðartímum hefur leitt þá í algerar ógöngur, eins og kunnugt er.  Höfuðsök þar ber fyrrverandi formaður CDU og kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem árið 2011 beitti sér fyrir lokun kjarnorkuvera og um 2015 fyrir banni við vökvaknúinni gasvinnslu úr jarðlögum (e. fracking) ásamt niðurgreiðslum á raforkukostnaði frá vindmyllum.  Afleiðingin er sú, að Þjóðverjar eru ósjálfbjarga, þegar kemur að öflun orku, og færðu Rússum lykilstöðu um orkuútvegun.  Þetta var svo mikill barnaskapur, ef ekki eitthvað verra, að engu tali tekur.

  "Samkvæmt vefsíðunni "The Local (Nágrennið) berjast menn víða gegn þessum framkvæmdum, t.d. í Norður-Noregi og Svíþjóð, þar sem Samar búa með hreindýra hjarðir sínar og segja dýrin fælast myllurnar, ef þær hafa verið byggðar [reistar] á haglendi þeirra.

Að sögn Energifakta Norge (Orkutölur Noregs) voru 53 vindmyllugarðar í Noregi í upphafi ársins 2021.  Árið 2019 voru stofnuð þar í landi samtök, sem fengu heitið "MotVind (Gegn vindorku).  Hliðstæð samtök eru til víðar, s.s. í Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum.  Öll berjast þau gegn útbreiðslu vindmylla og telja þær skaðlegar náttúrulegu umhverfi og dýra- og mannlífi, auk þess sem þær dugi alls ekki til þess að koma í veg fyrir þær loftslagsbreytingar, sem ætlað er, að maðurinn valdi.  Barátta þessara samtaka hefur víða borið verulegan árangur og hefur í ýmsum tilvikum komið í veg fyrir uppsetningu vindmyllugarða."

Þess er skemmst að minnast, að fumbyggjar í Norður-Noregi unnu dómsmál í réttarkerfi Noregs gegn vindmyllueigendum og yfirvöldum, sem veitt höfðu framkvæmdaleyfi á hefðbundnum beitarsvæðum hreindýra. Þessi dómur gefur til kynna, að yfirvöldum sé að norskum rétti óheimilt að leyfa framkvæmdar, sem rýra umtalsvert hefðbundin lífsskilyrði íbúanna á svæðin.  Dómurinn kann að verða leiðbeinandi um meðferð dómsmála, ef sveitarstjórnir, t.d. á Vesturlandi, leyfa, að reistar verði vindmyllur í grennd (í áberandi sjónlínu) við íbúa eða jafnvel frístundabyggð, sem fallnar séu til að rýra lífsgæði íbúanna með einhverjum þeim hætti, sem hægt sé að færa sönnur á fyrir rétti.

Það er illskiljanlegt, að yfirvöld hérlendis skuli ljá vindmyllufyrirtækjum eyra í ljósi þess, að hérlendis verður alls engin þörf fyrir þessa dýru raforku, ef yfirvöld á borð við Orkustofnun og útgefendur framkvæmdaleyfa í héraði slá nú í nára truntunnar og keyra hana úr sporunum til að flýta virkjanaleyfum fyrir hefðbundnar íslenzkar virkjanir, sem almennt eru taldar sjálfbærar, og er þar auðvitað átt við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir.

Að lokum skrifaði Haukur Ágústsson:

"Þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu, voru umhverfissinnar ötulir við að mótmæla virkjuninni.  Menn komu meira að segja erlendis frá til þátttöku í aðgerðunum, sem fólust m.a. í því að stöðva verk með því að setjast niður fyrir framan vinnuvélar.  Nú er rætt um yfir 30 vindmyllugarða á Íslandi.  Afar lítið, ef nokkuð, ber á mótmælum vegna þessara áætlana.  Þó eru umhverfisáhrifin sízt minni en af vatnsvirkjunum og miklu meira áberandi vegna afar hárra, gnæfandi turna og víðfeðmra spaða.  Ekki er heldur minnzt á áhrifin í högum sauðfjár og hreindýra [sbr téð norsk dómsniðurstaða - innsk. BJo] eða á þann skaða, sem áreiðanlega verður á fuglum og smærri flugdýrum [skordýrum - innsk. BJo] - hvað þá áhrifin á ferðamannageirann.  

Við Íslendingar búum enn við sæmilega óspillta náttúru.  Er mikið vit í því að skaða hana í þágu gróðafíknar fáeinna manna, sem hyggjast græða á því að fordjarfa hana - og virðast ýmsir auk þess vera á mála erlendra aðila, eins og í Noregi."

Þetta er vel skrifuð grein hjá kennaranum fyrrverandi með þörfum ábendingum og viðvörunum.  Án þess að gera vindmylluforkólfum upp hvatir (þeir ofmeta einfaldlega ávinninginn m.v. fórnarkostnaðinn) þá ber að beita sér einarðlega gegn leyfisveitingum fyrir vindmyllum á Íslandi um leið og yfirvöld eru hvött til að beita sér gegn þeirri vá, sem yfirvofandi raforkuskortur í landinu er fyrir hag landsmanna, með því að ýta undir nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Þær eru bæði nauðsynlegar og þjóðhagslega hagkvæmar, en vindmylluþyrpingar eru hvorugt.  

Ímynd vatnsorkuvera erlendis er dálítið lituð af því, að víða hefur þurft að beita fólk nauðungarflutningum af athafnasvæðum slíkra virkjana.  Það hefur ekki þurft í seinni tíð á Íslandi.  Þá er beizlun vindorkunnar erlendis einn af fáum endurnýjanlegum virkjanakostum víða.  Þetta hefur kallað fram ofstæki gegn vatnsaflsvirkjunum og doða gagnvart vindorkuverum, sem kann að hafa smitazt hingað. Þannig gera hvorki vindmylluforkólfar né virkjanaandstæðingar á Íslandi sér grein fyrir raunverulegum aðstæðum í landinu.  

 

    

 


Gjaldþrota kratísk hugmyndafræði á fjármálamarkaði

Um 20. október 2022 beindust sjónir manna að herfilegum kratískum fjármálagjörningum Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra 1998, og síðan töfrabrögðum Framsóknarmanna á borð við Guðmund Bjarnason, sem annar Framsóknarmaður seldi fjölmiðlum undir heitinu "allir græða".  Hér er auðvitað átt við Íbúðalánasjóð, sem um tíma var umsvifamikið ríkisapparat á fjármálamarkaði. 

Raunar eru persónur og leikendur aukaatriði í þessu máli.  Aðalatriðið er að draga þann lærdóm af því, að ríkisvaldið er ófært um að reka fjármálastarfsemi á heilbrigðan hátt á samkeppnismarkaði og ætti að draga sig að mestu út af þeim markaði, þótt fallast megi á til málamiðlunar að halda 35 % - 55 % eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, ef ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, samþykkir slíka þátttöku ríkisins á samkeppnismarkaði.  M.ö.o. á að selja Íslandsbanka allan, þegar aðstæður þykja heppilegar, enda hefur ríkissjóður hagnazt á þeim sölum, sem þegar hafa farið fram á hlutum í bankanum, og ríkissjóð bráðvantar fé til að fjárfesta í innviðum landsins, sem gefa meiri arðsemi en ríkisbankar að jafnaði. 

Íbúðalánasjóður kom í heiminn sem kosningaloforð, yfirboð, og er það afleit byrjun fyrir fjármálastofnun.  Stjórnendur og ráðgjafar þar á bæ litu stórt á sig, en voru raunverulega algerlega utan gátta um hlutverk og stöðu þessarar fjármálastofnunar ríkisins, eins og eftirfarandi bútur úr bréfi (alger steypa) Íbúðalánasjóðs til Ríkisendurskoðunar sýnir:

"Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu, og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans.  Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa.  Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán.  Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða.  Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmdastjóra og óhugsandi út frá því hlutverki, sem sjóðnum er að lögum falið."

Stjórnendur sjóðsins reiddu ekki fjármálavitið í þverpokum, og þarna er óhönduglega farið með lögin.  Á markaði ber engum aðila skylda til þess að lögum að stjórna "langtímavaxtastigi" í landinu. Þarna á sér stað "skapandi lagatúlkun" á ábyrgð forstjóra Íbúðalánasjóðs í samkeppni við bankana.  Bæði fjármálaþekkingu og lagaþekkingu var ábótavant hjá þessari ríkisstofnun, og það er dæmigert, þegar um gæluverkefni stjórnmálamanna er að ræða. Þeir eiga ekki að koma nálægt samkeppnisrekstri á neinu sviði í samfélaginu.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband