Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Vestfirðingar hart leiknir

Vestfirðingar verða illa úti í núverandi ófremdarástandi raforkumálanna. Þeim hefur stjórnvöldum með Vinstri hreyfinguna grænt framboð í fararbroddi tekizt að klúðra svo illilega, að stórfelldum kostnaðarauka veldur í samfélaginu, og vegna álagsaukningar stefnir í þjóðarvoða með straumleysi/og eða skömmtun á forgangsorku. Það er við þingið og stjórnarráðið að sakast, sem í hugsunarleysi og/eða af ráðnum hug hafa sett upp slíkar hindranir fyrir leyfisveitingum nýrra virkjana og flutningslína, að segja má, að flest hafi gengið á afturfótunum hjá virkjanafyrirtækjunum og Landsneti á undanförnum árum.  Að grípa ekki inn í þessa óheillavænlegu rás viðburða er afar ámælisvert m.v. þá almannahagsmuni, sem í húfi eru. 

Það gefur auga leið, að íbúar "kaldra svæða", þ.e. þar sem nýtanlegs jarðvarma nýtur ekki við,eða aðeins í litlu mæli, eiga sérstaklega undir högg að sækja, því að þeir hafa samið um kaup á ótryggðri raforku fyrir hitaveitur sínar og verða nú að kynda þær með olíu.  Dæmi um orkufyrirtæki í þessari stöðu er Orkubú Vestfjarða.  Orkubússtjórinn, Elías Jónatansson, hefur ritað afar fróðlegar og vel samdar greinar í Morgunblaðið um orkumál Vestfirðinga, og ein þeirra birtist 2. janúar 2024.  Áður en gripið verður ofan í hana er rétt að minnast á frétt, sem birtist 4. janúar 2024 og sýnir aðra hlið á kostnaðarauka orkuskortsins.  Hún er frá Vestmannaeyjum, en þar hækkaði raforkuverð til hitaveitunnar um 20 % um áramótin síðustu, og var upp gefin skýringin orkuskortur.  Þarna er lögmál framboðs og eftirspurnar að verki, en niðurgreiðslur munu koma til mótvægis úr ríkissjóði, að lofað er.  Orkuskortur er tvímælalaus verðbólguvaldur og gerir markmið Íslands í losunarmálum koltvíildis grátbrosleg.  Hvers konar stjórnvöld eru hér eiginlega og hafa verið við völd í 6 ár ? Tvískinningurinn er yfirþyrmandi. 

Grein Elíasar bar yfirskriftina:

"Orkuskortur kostar 520 milljónir".

Hún hófst þannig:

"Engum dylst, að raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi [skortur á þegar umsaminni forgangsorku er yfirvofandi, nú þegar vantar um 500 GWh/ár af ótryggðri orku, glataðir nýir samningar á að gizka 1000 GWh/ár -innsk. BJo.].  Ekki eru þó öll sund lokuð, því [að] við getum áfram treyst á jarðefnaeldsneyti til að þreyja þorrann og góuna og flytjum inn eina milljón tonna ár hvert [auk eldsneytis á flugvélar og millilandaskip-innsk. BJo].  

Því miður stefnir í það, að á árinu 2024 15-faldist olíunotkun Orkubús Vestfjarða (OV) frá árinu 2023, fari úr 220 kl í 3,4 Ml.  Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9,2 kt.  Hægt er að vinna bug á þessu vandamáli og sóun fjármuna með virkjun innlendrar orku."

Útflutningstap og viðbótar innflutningskostnaður vegna þeirra hræðilegu stjórnvaldsmistaka, sem landsmenn súpa nú seyðið af, gæti farið yfir mrdISK 10 frá áramótum til vors 2024, og nákvæmlega engum náttúrugæðum hefur verið bjargað fyrir vikið. Hér er aðeins verið að draga úr hagvexti og tefja fyrir raunverulegum kjarabótum til launþega.  Hvenær verður komið nóg af vitleysu vinstri grænna ? 

"Vonandi verður hægt að fasa út stórum hluta af rafmagni til rafkyntra hitaveitna á Vestfjörðum með jarðhita og forgangsaforku til að knýja varmadælur.  Markmið Orkubúsins hefur verið að fasa úr 12 MW af 16 MW afltoppi rafkyntu veitnanna.  Ef ekki finnst meira en 30°C heitt vatn á Ísafirði, þá væri hugsanlegt að fasa út helmingi eða 8 MW af 16 MW. 

Nauðsynlegt er að auka afltopp forgangsorku á Vestfjörðum , m.a. til að knýja varmadælur á kostnað skerðanlegrar orku.  Í dag er það afl ekki til innan Vestfjarða, og ef ætlunin er að streyma aukinni orku um Vesturlínu, þá er augljóst, að byggja þarf upp samsvarandi olíuknúið varaafl innan Vestfjarða, þótt ekki sé nema til að tryggja óbreytt afhendingaöryggi, þegar línan er úti." 

Það er knýjandi fyrir Vestfirðinga og raforkukerfi landsins að auka verulega framleiðslugetu á raforku innan Vestfjarða úr vatnsafli, og virkjunarkostirnir eru fyrir hendi.  Einn var stöðvaður í Ófeigsfirði með ofstæki nokkurra aðvífandi umhverfisöfgamanna fyrir fáeinum árum, og nú hefur OV lagt til við orku-, umhverfis og loftslagsráðherra að ryðja hindrunum ríkisins á því úr vegi fyrir virkjun í Vatnsfirði.  Hvað hefur hann gert í því máli ?  Ekkert hefur heyrzt af því.  Er það enn eitt merkið um dauðyflishátt þessa sjálfhælna ráðherra ? 

Á Vestfjörðum, eins og annars staðar á landinu, eru orkuskiptin hafin, og þar er auk þess ein mesta aukningin í umsvifum athafnalífsins á landinu með talsverðri fólksfjölgun.  Allt ýtir þetta undir þörfina á því, að orkuöflun Vestfirðinga verði sjálfbær.  

"Að teknu tilliti til aukningar í eftirspurn, afhendingaröryggis og stöðuleika raforkukerfisins auk raunhæfra áætlana um uppbyggingu flutningskerfisins og uppbyggingartíma virkjana, þá er það alveg ljóst, að taka þarf ákvarðanir um framhaldið fljótlega. MISK 200-500 í olíubrennslu kyndistöðva annað hvert ár er fórnarkostnaður, sem er óásættanlegur auk þess að vera algjörlega úr takti við orkustefnu stjórnvalda og við stefnu Íslands í loftslagsmálum."

Þetta er hverju orði sannara hjá Orkubússtjóranum.  100-250 MISK/ár í olíukostnað við að framleiða rafmagn á Vestfjörðum til hitunar húsnæðis er ástand, sem sýnir í hnotskurn í hvert óefni orkumál landsins undir núverandi ríkisstjórn eru komin. Að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann skuli ekki hafa brugðizt skjótlega við til að greiða veg þeirra lausna, sem Vestfirðingar hafa lagt til, sýnir, að hann er ekki vandanum vaxinn. 

 

Það  er hárrétt stefna, sem Vestfirðingar hafa markað, að færa húsnæðisupphitun sína yfir í hitaveitu með jarðvarma, þar sem það er hægt, og annars staðar yfir í forgangsrafmagn inn á varmadælur.  Samfara þessu þarf að virkja vatnsföll á Vestfjörðum, svo að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir um raforku, en Vesturlína þjóni sem varaleið í bilunar- og viðhaldstilvikum ásamt innmötun á landskerfið til að auka nýtingartíma virkjana Vestfirðinga.   

 

  

 


Adam Smith stendur keikur á stöpli með sínar kenningar

Adam Smith, 1723-1790, er nefndur "faðir hagfræðinnar".  Með riti sínu "The Theory of Moral Sentiments", 1759, lagði hann grunn að síðari höfundarverkum sínum á borð við "Wealth of Nations, 1776, - Auðlegð þjóða, sem oft er vitnað til sem þess hagfræðirits, sem lagði grunn að því, hvernig er auðveldast að sækja fram í efnalegu tilliti, bæði fyrir einstaklinga og samfélög.  Smith var enginn sérstakur auðjöfravinur, heldur bar hann hag almennings fyrir brjósti, og kenningar hans um það hafa gefizt vel.  Öðru máli gegnir um hagfræði- og þjóðfélagskenningar Karls Marx og Friedrichs Engels, sem fram komu um miðja öldina á eftir öld Adams Smith í Kommúnistaávarpinu, en þar var heilbrigðri skynsemi úthýst, hatursfull bylting boðuð og einokun ríkisvaldsins á öllum sviðum, kölluð "alræði öreiganna", skyldi taka við.  Í stuttu máli sagt er hvaða alræði sem er hættulegt og skaðlegt.  Enn sýpur heimurinn soðið af alræðiskenningunum, og þær valda ófriði og óheilbrigðri spennu í heiminum. 

Hannes Hólmsteinn Gissurarson minntist 300 ára afmælis Adams með grein í Morgunblaðinu 5. desember 2023 undir fyrirsögninni:

"Adam Smith enn í fullu fjöri".

Hún hófst þannig:

"Þótt á þessu ári séu liðin rétt 300 ár, frá því að Adam Smith, faðir hagfræðinnar, fæddist, eru hugmyndir hans enn sprelllifandi."

Adam Smith setti hagfræðihugmyndir sínar fram að vandlega íhuguðu máli.  Heimsspeki hans varð grunnurinn að hugmyndafræði Vesturlanda um einkaframtakið, framleiðniaukningu og dreifingu auðsins um samfélagið, sem af henni leiddi.  Hugmyndafræði hans dró ekki sérstaklega taum auðjöfra, en af sjálfu leiddi, að þeim, sem stóðu sig vel í frjálsri samkeppni, gat vaxið fiskur um hrygg. Það þekkjum við æ síðan og er ekki hið minnsta aðfinnsluvert, nema í huga marxistanna, sem alltaf ala á öfund og hafa horn í síðu velgengninnar. Adam Smith rökstuddi réttmæti gróða á frjálsum markaði með því, að eins gróði þyrfi ekki að vera annars tap.  

"Í Auðlegð þjóðanna, sem kom út árið 1776, varpaði Smith fram skýringu á því, hvernig einstaklingar og þjóðir gætu brotizt úr fátækt í bjargálnir.  Hún var fólgin í verkaskiptingunni.  Í frjálsum viðskiptum fá menn það frá öðrum, sem þá vantar og aðrir hafa, og láta aðra fá það, sem aðra vantar og þeir hafa.  Báðir græða, hvorugur tapar."   

Reynslan hefur sannað þessa kenningu.  Hún hefur bætt hag jarðarbúa gríðarlega frá því að heimsviðskiptin efldust í kjölfar loka kalda stríðsins.  Við þau umskipti dró að vísu úr iðnaðarframleiðslu Vesturlanda, um leið og hún hófst og efldist í þróunarlöndunum.  Aukin velmegun í einræðislöndunum, t.d. Kína og Rússlandi, hefur ekki ýtt undir lýðræðisþróun þar og aukna tilhneigingu til friðsamlegrar sambúðar við lýðræðislönd, nema síður sé, því að aukinni verðmætasköpun var þar beint til hernaðarþarfa, og öflugri her leiddi til hótana í garð nágranna, eins og Taiwan, og jafnvel blóðugrar innrásar í nafni heimsvaldastefnu, eins og Rússar eru dæmi um.  Öryggi Vesturlanda er um þessar mundir ógnað af þessum orsökum, og þá þarf að velja á milli öryggissjónarmiða og samkeppnishæfra vara frá þessum löndum.  Öryggið verður að vera í forgrunni á kostnað reglunnar um hagstæðustu verkaskiptinguna. 

"Náttúran hefur dreift mannlegum hæfileikum og landgæðum ójafnt, en frjáls viðskipti jafna metin, gera mönnum kleift að nýta hæfileika annarra og ólík gæði landa.  Saga síðustu 200 ára hefur staðfest kenningu Smiths, svo að um munar.  Þær þjóðir, sem auðvelda frjálsa samkeppni og stunda frjáls viðskipti, hafa stiklað á 7 mílna skóm inn í ótrúlega velsæld samanborið við fyrri tíma. Hinar sitja fastar í fátækt. 

Árlega er reiknuð út vísitala atvinnufrelsis fyrir langflest lönd heims á vegum Fraser-stofnunarinnar í Kanada.  Ef löndunum er skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, þá eru meðaltekjur 10 % tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðunginum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðunginum.  Með öðrum orðum eru lífskjör fátækasta fólksins í frjálsustu löndunum betri en almenn lífskjör í ófrjálsustu löndunum."

 Þessi tölfræði segir mikla sögu, og væri forystufólki vinstri flokkanna á Alþingi nær að kynna sér og tileinka sér staðeyndir á borð við þessar áður en þeir setja á blað þvílíkt aumkvunarvert blaður og lýðskrum, eins og sjá mátti í áramótagreinum þeirra.  Þar réði fávísi og þröngsýni ferðinni og sá reginmisskilningur, að ríkissjóð megi nota í miklu meiri mæli en nú til að efla hag lægstu tíundarinnar.  Lausnin er að efla atvinnufrelsið í landinu og þar með að draga úr skattheimtu, sem á sumum sviðum jaðrar nú þegar við eignaupptöku, t.d. í sjávarútvegi (1/3 framlegðar í veiðigjöld, sem sósíalistinn á viðkomandi ráðherrastóli vill þó hækka enn meira í glóruleysi). 

"Í verkum sínum kom Adam Smith einnig orðum að þeirri merkilegu hugmynd, að skipulag krefjist ekki alltaf skipuleggjanda.  Það gæti sprottið upp úr frjálsum samskiptum, gagnkvæmri aðlögun einstaklinga.  Markaðurinn er sá vettvangur, sem menn hafa til að skiptast á vöru og þjónustu.  Þar hækka menn eða lækka verð á vöru sinni og þjónustu, uns jafnvægi hefur náðst [á] milli framboðs og eftirspurnar, innflutnings og útflutnings, sparnaðar og fjárfestingar.  Þetta jafnvægi er sjálfsprottið, ekki valdboðið. Það fæst með verðlagningu, ekki skipulagningu.  Atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.  Auðvitað er það jafnvægi, sem þar getur náðst, ekki fullkomið, en það er þó sífellt að leiðrétta sig sjálft eftir þeim upplýsingum, sem berast með gróða eða tapi.  Menn græða, ef þeim tekst að fullnægja þörfum viðskiptavinanna betur en keppinautarnir.  Þeir tapa, ef þeir gera þrálát mistök og skeyta ekki um breytilegan smekk og áhugamál viðskiptavinanna." 

 Þarna gerði Adam Smith grein fyrir lykilatriði, sem var ekki nýtt fyrirbrigði þá, heldur ævagamalt.  Kóngurinn, hertoginn, yfirvöldin, þurftu ekki að skipulegja allt, til að það virkaði, eins og bezt varð á kosið.  Þetta var meginstyrkur lýðræðisþjóðfélaganna umfram þjóðfélög kommúnista, þótt kommúnistar hafi haldið, að skipulagning ráðuneytanna á framleiðsluöflunum gæfi þeim forskot á auðræðið.  Kommúnisminn gat aldrei svarað þörfum neytenda, því að kommúnistar tóku hreinlega markaðinn úr sambandi.  Ef hægt er að koma því við, er bezt að láta markaðinn um að finna beztu lausnina. Í nútíma þjóðfélögum finnst þó alltaf fyrir stjórnvaldsaðgerðum, sem áhrif hafa á markaðina.  Nægir að nefna verðlagningu seðlabankanna á fjármagni.  Fjármagnskostnaður hefur mismikil áhrif á hegðun manna á markaði, því meiri þeim mun lengra frá langtíma jafnvægisástandi vextirnir eru í aðra hvora áttina, eins og Íslendingar hafa kynnzt á eigin skinni á tímabilinu 2020-2024.  

 Nú er orkuskortur á Íslandi.  Það er vegna þess, að yfirvöld hafa lamað framboðshlið þessa markaðar með því að gera pólitískum furðudýrum það kleift að tefja virkjunar- og flutningslínuframkvæmdir endalaust. Á sama tíma er dótturfélag Landsnets að undirbúa að koma á koppinn uppboðsmarkaði fyrir raforku að hætti Evrópusambandsins (ESB), sem gafst upp á þessum markaði, þegar markaðsbrestur varð á framboðshlið, eins og hér er, þegar Rússar skrúfuðu fyrir jarðgas til ESB, og síðar, þegar viðskiptabann var sett á jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi.  Við núverandi ójafnvægi á raforkumarkaði, sem stjórnvöld hafa  valdið með aðgerðarleysi gagnvart þjóðhættulegum töfum, væri fráleitt, að sömu stjórnvöld settu á laggirnar nýjan markað fyrir raforku. Markaðsbresturinn mun halda áfram til 2027 eða lengur. Hefur orkuráðherrann tjáð sig um þetta ? Hann virðist vera dálítið utanveltu.  

 "Hann [AS] taldi ríkið gegna þremur mikilvægum hlutverkum: að tryggja landvarnir, halda uppi lögum og reglu og sjá um, að nóg yrði framleitt af s.k. samgæðum (public goods).  M.a. hafði hann áhyggjur af því, að verkaskiptingin gæti þrengt óhóflega sjónarhorn einstaklinganna, og þess vegna þyrfti ríkið að víkka það út með öflugi alþýðumenntun."

 Hér háttar þannig til, að ríkisvaldið hefur stórskaðað menntakerfið með handónýtri og nánast grátbroslegri aðalnámsská grunnskóla, sem Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, ber höfuðsökina á.  Ríkinu er sem sagt ekki treystandi fyrir menntamálunum.  Þá er spurningin, hvort skipulegt nám getur orðið á leik- og grunnskólastigi án aðalnámskrár ?  Hvernig hefði Adam Smith svarað þeirri spurningu ?  Skólarnir þurfa einhverja leiðisnúru, og það gætu t.d. verið kröfur um kunnáttu eftir 3. 6. og 9. bekk, sem metin væri á samræmdum prófum. 

 "Því er líka haldið fram, að hugmyndin um hagvöxt standist ekki, þega til langs tíma er litið.  Kapítalisminn, hugarfóstur Adams Smiths, sé ekki sjálfbær.  Nú var Smith sjálfur enginn sérstakur stuðningsmaður kapítalista.  Hann studdi frjálsa samkeppni, af því að hún er neytendum í hag, og hann taldi með sterkum rökum verkaskiptinguna greiðfærustu leiðina til almennrar hagsældar. En í raun og veru er hagvöxtur sjaldnast fólginn í að framleiða meira, heldur miklu frekar í að framleiða minna, minnka fyrirhöfnina, finna ódýrari leiðir að gefnu marki, spara sér tíma og orku.  Auk þess er hagvöxturinn afkastamesti sáttasemjarinn.  Í stað þess að auka eigin hlut með því að hrifsa frá öðrum geta menn reynt að auka hann með því að nýta betur það, sem þeir hafa, og bæta það síðan, hlúa að því, svo að það vaxi og dafni í höndum þeirra.  Og þegar að er gáð, eru mengun og rányrkja vegna þess, að enginn á og gætir auðlinda.  Umhverfisvernd krefst umhverfisverndara, einkaeignarréttar eða einkaafnotaréttar á auðlindum." 

Þegar kommúnisminn lognaðist út af, varð sjálfdauður í eigin viðjum kúgunar, ófrelsis og forræðishyggju, þá tóku fylgjendur hans á Vesturlöndum, sem aldrei höfðu fundið fyrir honum á eigin skinni og ætluðu að fljóta ofan á, eins og hrossataðskögglarnir, þegar hann ýtti markaðshyggjunni af stalli, að leggja til atlögu við kenningar Adams Smith, og höfðu þær atlögur raunar hafizt fyrr, t.d. með bókinni "Limits to Growth" - Endimörk vaxtar, þar sem hagvöxturinn var skotspónninn.  Þessar atlögur reyndust aumkvunarvert vindhögg, og allir spádómarnir um þurrð hráefna hafa reynzt ímyndun ein, því að markaðurinn finnur alltaf lausn, ef hinni ósýnilegu hönd hans er leyft að virka.  Þetta er eitur í beinum þeirra, sem eru illa haldnir af forræðishyggju, og þeir eru reyndar líka oft haldnir messíasarkomplexum.  Nú er fjöldi fólks að reyna að bjarga heiminum frá "hamfarahlýnun" og fjölmenna af því tilefni á alls konar ráðstefnur, en samkvæmt tölfræðilegri greiningu á langri röð hitamælinga, beinna og óbeinna, er engin hamfarahlýnun í gangi. Samnefnari loftslagssafnaðarins er einmitt, að snúa þurfi hagvextinum við og framleiða minna af vörum og þjónustu.  Þetta gengur þvert á baráttu verkalýðshreyfingarinnar um stöðugar kjarabætur og fulla atvinnu. Hvers vegna umber verkalýðshreyfingin kjánalegan hræðsluáróðurinn ?  

                                                                     

Ramminn - misheppnað fyrirkomulag

Nú standa menn frammi fyrir gjaldþroti þess fyrrirkomulags að draga úr aðkomu stjórnmálamanna að vali á næstu virkjunum og að færa þetta að mestu leyti í hendur embættismanna með alls konar mótvægi á formi víðtæks kæruréttar framkvæmda.  Allt of víðtækur réttur til að kæra ákvarðanatökur í öllu ferlinu hefur kyrkt það með þeim afleiðingum, að á undanförnum 10 árum hefur ekkert virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi verið veitt fyrir nýjum virkjunum yfir 10 MW, þótt stækkanir eldri virkjana hafi átt sér stað, t.d. hjá HS Orku.  Skemmst er að minnast ofstækisláta aðallega aðkomumanna á Vestfjörðum út af fyrirætlunum um 50 MW virkjun þar, sem Vestfirðingar  studdu, en kæfð var í fæðingu.  Nú brenna Vestfirðingar dísilolíu í rafstöðvum til að anna spurn eftir raforku.  Vitleysan ríður ekki við einteyming.  

Vegna orku- og aflskorts þarf að brjóta kerfið upp.  Orkustofnun veiti virkjunarleyfi fyrir verkefni, sem virkjunarfyrirtækin hafa rannsakað, sett í umhverfismat, hannað og sætt hefur afgreiðslu sveitarstjórnar.  Orkuráðherra leggi það í hendur Alþingis að forgangsraða verkefnum og setja um þau framkvæmdalög.  Eftir það sé ekki unnt að tefja málið með kærum, nema með lögbannskröfu fyrir dómstólum.  Aðilar, sem hafa tjáð opinberlega fjandsemi sína gegn aukningu á framboði raforku í landinu verði úrskurðaðir vanhæfir til að standa að kærum gegn virkjana- og línuframkvæmdum.  

Í Morgunblaðinu 28. desember 2023 birtist forystugrein undir heitinu:

"Orkan er okkur lífsnauðsyn".

Þar gerir höfundurinn að umtalsefni, hversu utan gátta sumir stjórnmálamenn eru í orkumálunum.  Það má líklega að einhverju leyti rekja til þess, að hlutur Alþingis er minni en áður var í þessum málaflokki.  Sú breyting reyndist ekki verða til góðs.  Með því að þjóðkjörnir fjalli meir um þessi mál, má afnema áfrýjunarferli á gjörðum stjórnsýslunnar á þessu sviði.

Hvað sagði Morgunblaðið ?:

"Það var því ekki lítið undrunarefni, þegar orkuskorturinn var gerður opinber fyrir mánuði, að stjórnmálamenn létu margir sem hann kæmi þeim öldungis á óvart, þó að margoft hafi verið við því varað og um langt skeið, að í óefni stefndi.  

Værukærðin um það er í raun óskiljanleg.  Öllum hefur mátt ljóst vera, að fjölgun þjóðarinnar, mikill hagvöxtur, aukin orkunotkun, orkuskipti og öll önnur skilyrði leiddu til hins sama, að aukinnar orkuöflunar er þörf. 

Það eru engar ýkjur að segja, að sú orkunýting sé ein helzta forsenda þess velmegunarþjóðfélags, sem Íslendingum hefur auðnazt að skapa í köldu og harðbýlu landi; forsenda hagvaxtar og hagsældar, fólksfjölgunar og lífskjara í fremstu röð þjóða heims. 

Orkuöryggi er þjóðaröryggismál fyrir Íslendinga engu síður en aðrar þjóðir.  Það er ein af frumskyldum stjórnvalda að sjá til þess, að því sé ekki ógnað og enn frekar, að það sé ekki vanrækt, eins og nú blasir við, að hefur gerzt."

Allt er þetta satt og rétt hjá Morgunblaðinu.  Nú hefur þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Kragann, Jón Gunnarsson, fitjað opinberlega upp á því að mynda nýjan þingmeirihluta um nýjar virkjanir, því að VG þvælist fyrir þeim sjálfsögðu framfaramálum. Forsætisráðherra og formaður þessa óstjórntæka flokks staðfesti afturhaldssemi þessa flokks á tröppum Bessastaða á leið á Ríkisráðsfund 31.12.2023 með því að segjast ekki trúa því, að meirihluti gæti myndazt um að slá af faglegum kröfum við virkjanaundirbúning.  Að valda töfum á því, að landið verði að nýju sjálfbært um raforku heitir í munni þess, sem alltaf leikur tveimur skjöldum, að uppfylla faglegar kröfur.  Þetta eru alger öfugmæli.  Ekki þarf að slá af verkfræðilegum kröfum né eðlilegum umhverfisverndarkröfum um að við hönnun verði beitt beztu tækni við að lágmarka inngrip í náttúruna.    

 


Virkjanir fallvatna og jarðgufu eru í þágu almannahags

Það eru viðtekin sannindi í hagfræðinni, að vaxandi orkunotkun, sérstaklega á orku úr innlendum orkulindum (sparar innflutning eldsneytis), eykur hagvöxt, og hið öndverða gildir einnig, að orkuskortur dregur úr hagvexti og getur valdið samdrætti í efnahagslífinu, ef hann er stækur. Þess vegna mun núverandi og fyrirsjáanleg ömurleg staða virkjana og flutningsmála raforku til 2028 hafa mikil áhrif á getu atvinnulífsins til að standa undir launahækkunum í komandi kjarasamningum.  Þess vegna er það undarlegt, en eftir öðru þar á bæ, að verkalýðshreyfingin skuli ekki hafa mótmælt núverandi stöðnun og óstjórn orkumálanna harðlega.  Hvað dvelur orminn langa ?

Morgunblaðið ræddi 9.12.2023 samhengi orkunotkunar á mann við hagvöxt og lífskjör við þekktan hagfræðing undir fyrirsögninni:

"Skerðir svigrúm til launahækkana":

"Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir orkuskort geta skert svigrúm til launahækkana.  Nýir kjarasamningar gilda frá 1. febrúar [2024].  Spurður í hvaða atvinnugreinum helzt, ef þá nokrum, svigrúm sé til launahækkana í komandi kjarasamningum, segir Jón Bjarki, að almennt sé svigrúm til hækkana nú takmarkað eftir umtalsverða hækkun kostnaðar í rekstri fyrirtækja að jafnaði.  

"Mér sýnist t.d. blasa við, að ekki hafi verið innistæða fyrir þeim ríflegu launahækkunum, sem samið var um fyrir ári og þær hafi átt sinn þátt í, hversu verðbólga er þrálát hér á landi", segir Jón Bjarki."

Þegar farið er fram með kröfugerð í kjarasamningalotu að óathuguðu máli um afleiðingar slíkra launakrafna á hagkerfið, þá væri það slembilukka, ef ekki hrikti í stoðum hagkerfisins, t.d. undan verðbólguþrýstingi.  Það urðu talsverðar verðhækkanir erlendis á árinu líka, en það er áreiðanlegt, að hluti vaxtahækkana ársins 2023 stafar af afleitu vinnulagi verkalýðsleiðtoga við samningaborðið með vinnuveitendum, sem kenna má við gösslaragang. 

Nú ætla þeir í orði að söðla um, en koma þá með fáranlega kröfugerð á hið opinbera, sem er ekki viðsemjandi þeirra, sem talin er munu kosta ríkissjóð allt að 30 mrdISK/ár.  Það er einfeldningsháttur að halda, að þessum kostnaði verði sópað undir teppið. Aukinn hallarekstur ríkissjóðs (þessi ríkisstjórn mun ekki lækka önnur útgjöld á móti) mun valda efnahagsþenslu, og aftur eru þá verkalýðsrekendur valdir að hertri þumalskrúfu peningastefnunefndar Seðlabankans.  Skattahækkun er hin leiðin til að mæta þessum fíflagangi verkalýðsrekenda.  Lendi hún á fyrirtækjunum, mun hún við núverandi aðstæður fara út í verðlagið.  Lendi hún á launþegum, eru skjólstæðingar verkalýðsrekenda engu bættari.  Þessi skollaleikur verkalýðsrekenda með ríkisútgjöld, sem eru alls ekki á þeirra könnu, heldur þjóðkjörins Alþingis, minnir á sögu Münchausen, þegar hann skrökvaði því að lýðnum, að sér hefði tekizt hið ómögulega; að toga sig upp á hárinu.   

""Það er held ég borðleggjandi, að ört vaxandi orkuframboð hér á landi síðustu öldina eða svo á stóran þátt í myndarlegum hagvexti og vaxandi velmegun á tímabilinu.  Þetta samband er líka vel þekkt í fræðunum á alþjóðavísu, og sér í lagi hefur verið sýnt fram á, að aukin notkun endurnýjanlegrar orku tengist hagvexti.  

Góðu heilli hefur undanfarin ár áherzlan farið vaxandi á betri nýtingu orku, ekki síður en aukna framleiðslu. Við stöndum hins vegar fammi fyrir því að reiða okkur í mun ríkari mæli á endurnýjanlega orku í geirum á borð við samgöngur og sjávarútveg en verið hefur, og tíminn fyrir þá umbreytingu er knappur.  Það dugar því ekki til að nýta fyrirliggjandi orku betur, heldur þarf að mínu mati að auka framboð endurnýjanlegrar orku hér á landi umtalsvert, ef bæði markmiðin eiga að nást: að viðhalda og bæta lífskjör í landinu og ná fam kolefnishlutleysi á komandi áratugum"."

Þetta er í aðalatriðum rétt, en ekki er öll sagan sögð.  Orka úr endurnýjanlegum orkulindum veldur ekki meiri hagvexti en hin, nema hún sé ódýrari á orkueiningu að teknu tilliti til nýtni, nema hún spari innflutning á jarðefnaeldsneyti.  Á móti kemur tímabundinn erlendur kostnaður vegna tækjakaupa og lántöku. 

Áherzla á minni orkutöp er meiri í orði en á borði á rafmagnssviðinu.  Þar er þó eftir miklu að slægjast, en regluverkið í landinu fyrir flutningslínur færir sérlunduðum minnihlutahópum tækifæri upp í hendurnar til að þvælast fyrir nýjum 220 kV línum á milli landshluta út í það óendanlega. Ef nú væri 220 kV lína í rekstri á milli Austurlands og Vesturlands, þá væri enginn orkuskortur á landinu um þessar mundir og gruggugt vatn hefði ekki truflað laxveiðimenn við veiðar í bergvatnsánni, sem nú rennur í farvegi foraðsins Jöklu. 

""Getur atvinnulífið farið betur með orkuna og þannig skilað sömu arðsemi og þar með skilað því til launþega [spyr Morgunblaðið] ?"

"Til lengri tíma er það bæði ákjósanlegt og nauðsynlegt að ná fram sífellt betri nýtingu orku, þ.e. meiri verðmætasköpun fyrir hverja einingu orkunotkunar.  Það er hins vegar varla raunhæft að gera ráð fyrir, að slík þróun dugi til að viðhlda þeim hagvexti og þar með bættum lífskjörum í landinu, sem verið hefur undanfarna áratugi og flestir vilja trúlega stefna að áfram.""

 

Spurningin er skrýtin (röng).  Ef atvinnulífið bætir orkunýtni sína, eykst arðsemin venjulega, en það er þó ekki fyrirfram gefið vegna fjárfestinganna, sem bætt orkunýtni útheimtir að jafnaði.  Það er svo síður en svo sjálfgefið, að launþegar eigi að hirða allan ávinninginn.  Fjármagnseigandinn á rétt á umbuninni fyir að leggja í fjárfestinguna, en hafi launþegarnir lagt eitthvað að mörkum, eiga þeir rétt á umbun líka.

   

 


Orkumálin hér og þar

Ef mannkynið ætlar að losa sig af klafa jarðefnaeldsneytis og alls konar áhættu, sem viðskiptum með það og notkun þess (bruna) fylgir, þá er þörf á meiri endurnýjanlegri orku fljótlega.  Þetta virtust trúðarnir frá 118 löndum á furðuráðstefnunni í Dubai í vetur langflestir vera sammála um, en þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.  Núverandi tæknistig mannsins leyfir þetta ekki, og þess vegna er tómt mál að gaspra, eins og þetta geti stjórnmálamenn einfaldlega ákveðið.  Þetta er ekki hægt að svo komnu, en því fer fjarri, að dómsdægur vofi yfir lífinu á jörðunni þess vegna. 

Áróðurinn um óvenjulega og mikla hlýnun andrúmslofts jarðar er úr lausu lofti gripinn.  Það þarf ekki annað en að hlýða á góða tölfræðinga, sem kunna að beita tölfræðilegri greiningu á langar tímaraðir gagna, til að sannfærast um, að óvenjuleg hlýnun er ekki í gangi, heldur frávik, sem oft hefur orðið áður frá lokum síðustu ísaldar fyrir um 10 k árum.  Ísaldarskeið virðist vera hið venjulega ástand jarðar, svo að rétt er oss á breiddargráðum nærri pólunum "að njóta á meðan á nefinu stendur". 

Trúðarnir á stóra fundinum í Dubai, bæði þeir á náttfötunum og í jakkafötunum, hétu því þar að hafa aukið við uppsett afl virkjana orku endurnýjanlegra orkulinda upp í 11,0 TW (terawött) árið 2030 úr núverandi 3,4 TW eða nálægt 1,1 TW/ár.  Til samanburðar er allt uppsett afl í Bandaríkjunum (BNA) 1,3 TW.  Spyrja má á hverju trúðar eru, sem lofa öðru eins og þessu ? 

Þrátt fyrir metfjárfestingar í búnaði til að framleiða rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum á fyrri hluta árs 2023 á sá iðnaður erfitt uppdráttar um þessar mundir þrátt fyrir gósentíma í lágvaxtaskeiðinu).  Undirbirgjar íhluta vindknúinna rafala hafa átt í vandræðum vegna aukningar á afköstum rafalanna, sem ákveðin hefur verið af sölufyrirtækjunum.  Í nóvember 2023 var Siemens Energy, sem er móðurfélag hönnunar- og samsetningarfélags fyrir vindorkubúnað, bjargað með láni, sem þýzka ríkið gekk í ábyrgð fyrir.  Kostnaðarhækkanir, sumpart vegna hærri vaxta, hafa knúið fyrirtæki á sviði virkjanaframkvæmda fyrir hreinorku til að hætta við verkefni, sem áður voru arðsöm.  Fimm vindrafalaverkefni undan ströndum Bandaríkjanna (BNA) hefur verið hætt við á árinu 2023 vegna 20 % kostnaðarhækkunar.  

Meðaltalsarðsemi vind- og sólarverkefna hefur numið aðeins 6 %/ár á undanförnum árum.  Þetta er ekki nægt aðdráttarafl fyrir þær TriUSD 8, sem þarf til að uppfylla loforð trúðanna á loftslagsráðstefnunni í Dubai í nóvember-desember 2023 um, að uppsett afl hreinorku verði 11 TW árið 2030.  Erlendis er hæggengt samþykktarferli verkefna hindrun, þótt agaleysi embættismanna sé ekki jafnalvarlegt og hérlendis.

  Evrópuþingið reyndi síðari hluta árs 2023 að berja í brestina með þingsályktun um, að virkjanir endurnýjanlegra orkulinda væru "forgangsalmannahagsmunir" ("overriding public interest").  Þetta er þó ekki talið líklegt til árangurs, og Evrópusambandið hefur þegar í gildi kröfu um, að leyfisveitingaferlið taki að hámarki 2 ár.  Vita værukærir og/eða öfugsnúnir íslenzkir embættismenn af þessu ? Tillaga hefur komið um umbætur á leyfisveitingaferli alríkisins í BNA, en samþykkt hennar hefði takmarkaðar afleiðingar, nema ríkin 50 fylgi slíkum umbótum eftir.  Þótt afturhaldið sé óvíða jafnsvæsið og á Íslandi, er víða pottur brotinn, og hægri höndin veit ekki, hvað sú vinstri gerir á sviði orkuskiptanna.  Þau ganga þess vegna á afturfótunum, og stjórnmálamenn þvælast bara fyrir með kjánalegum vinnubrögðum. 

Morgunblaðið hefur fylgzt náið með þróun orkumálanna heima og erlendis og hefur líklega frá stofnun sinni stutt hugmyndir um virkjanir fallvatna og jarðhita, sem til heilla horfðu í landinu.  Blaðið hefur á stundum staðið í mikilli orrahríð við úrtölumenn framfara, t.d. vegna Búrfellsvirkjunar.  Núverandi ritstjórn veit nákvæmlega, hvar skórinn kreppir pólitískt og í embættismannakerfinu.  Um þetta vitnaði forystugrein blaðsins 8. desember 2023 undir fyrirsögninni:

 "Raforkumálin þarf að hugsa út fyrir rammann".

Hún hófst þannig:

"Viðvarandi raforkuskortur hefur verið á Íslandi undanfarin ár, en nú blasir við neyðarástand í orkumálum, og stjórnvöld leggja í fáti á ráðin um orkuskömmtun.  

Það er í flestra huga óskiljanlegt, að í okkar orkuríka landi sé skollin á orkukreppa.  Hitt er þó ekki með minni ólíkindum, að ríkisstjórninni hugkvæmist engin önnur bjargráð en skömmtunarstefna með gamla laginu."

Í hálfa öld frá upphafi umtalsverðrar rafvæðingar á Íslandi var viðvarandi raforkuskortur á Íslandi, sem skrifa mátti á reikning fátæktar og umkomuleysis landsmanna.  Í þessum efnum varð fyrst róttæk breyting með tilkomu Viðreisnarstjórnarinnar, en fyrsti dómsmála- og iðnaðarráðherra hennar var hinn stórhuga og víðsýni stjórnmálamaður dr Bjarni Benediktsson, sem síðar varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.  Á hans könnu voru líka raforkumálin, og hann beitti sér strax fyrir undirbúningi samninga um mikil raforkukaup, sem mundu gera fjárhagslega kleift að ráðast í fyrstu stórvirkjun landsins í jökulfljótinu Þjórsá við Búrfell.  Í ljósi þessarar framsýnu stefnumörkunar  sjálfstæðismanna á sinni tíð er það þyngra en tárum taki, að á vakt Sjálfstæðisflokksins hefur undanfarið  verið flotið sofandi að feigðarósi í orkumálum landsins. Núverandi orkuráðherra flokksins nær botninum með því að fela embættismönnum skömmtunarvald til að fela vandamálið fyrir almenningi. Sá tilgangur er undirstrikaður með orðaleppinum "umframeftirspurn" í stað orku- og aflskorts. 

Umframeftirspurnin er auðvitað miðuð við stöðnun, sem eru ær og kýr afturhaldsins, en helber vitleysa í landi öflugs hagvaxtar og mikillar fólksfjölgunar.  Hagvöxturinn væri reyndar talsvert meiri, ef hægt hefði verið að verða við áhugaverðri og arðsamri spurn eftir raforku.  Þar liggur hundurinn grafinn: afturhaldið með VG í broddi fylkingar vill hagvöxtinn feigan af nostalgíu og sérvizku einni saman.

"Það er því einkennilegt að lesa í greinargerð frumvarpsins, að Orkustofnun, sem gleggsta yfirsýn á að hafa á orkumál, hafi fyrst orðið áskynja um ástandið, þegar Landsvirkjun sendi henni bréf í október [2023].  Í ljósi annarrar embættisfærslu þar kemur það því miður ekki á óvart." 

Undir núverandi forystu er Orkustofnun afar gagnslítill ráðgjafi um heillavænlega og raunhæfa stefnumörkun , eins og varað var við á þessu vefsetri við ráðningu núverandi Orkumálastjóra.  Það tekur þó steininn úr, að nokkurra ára raforkuskortur í landinu skyldi hafa farið fram hjá henni og hún ekki áttað sig á grafalvarlegri stöðu fyrr en Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, bar sig illa yfir að verða að hafna góðum viðskiptum með raforku. Nú hefur verið ákveðið að sameina Orkustofnun og Umhverfisstofnun, og verður þá niðurlægingin fullkomnuð. 

"Enn skrýtnara er því, að það sé einmitt orkumálastjóri, yfirmaður Orkustofnunar, sem færa á þessi fáheyrðu völd og gera að skömmtunarstjóra orkunnar í landinu.  Enn frekar í ljósi vanhæfis hans vegna margvíslegra umræðna, sem  Samtök iðnaðarins benda á í ítarlegri umsögn sinni. 

Með frumvarpinu á að taka markaðslögmálin úr sambandi, andstætt EES-samninginum, en til þess að fara í kringum það er látið sem lögin eigi að vera tímabundin til tveggja ára. 

 

En ástandið verður engu skárra þá; það verður verra: orkuþörfin mun meiri, en tiltæk orka engu meiri."

 Hingað til hefur Stjórnstöð Landsnets annazt framkvæmd forgangsorkuskömmtunar í neyð.  Það hefur verið gert samkvæmt reglum, sem ekki hefur verið ágreiningur um og njörvaðar eru niður í langtímasamningum stærstu orkunotenda landsins. Ef ríkisvaldið ætlar nú að ganga í bág við þessa samninga, sem sumir eru 55 ára gamlir og hafa staðizt tímans tönn, mun það jafngilda hruni á trausti þessara fjárfesta og annarra svipaðra í garð íslenzka ríkisins og ríkisfyrirtækja á borð við Landsvirkjun.  Það má búast við lögsóknum fyrir samningssvik og jafnvel krröfu um ógildingu þeirra.  Þarna er um að ræða frumhlaup viðvaninga í fílabeinsturni embættismennsku, sem getur orðið þjóðinni dýrkeypt.  Allt er þetta vegna óhæfni Orkumálastjóra við að lesa í aðstæður áður en allt er komið í óefni.  

Hlutur orkuráðherrans er slæmur.  Hann átti að hotta á eftir Orkustofnun um útgáfu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun, strax eftir að lögboðinn frestur var liðinn (í ESB má allt umsóknarferlið með umhverfismati taka mest 2 ár), og þegar fyrri ógilding virkjunarleyfisins kom á grundvelli ófullnægjandi umfjöllunar um "vatnshlot", sem er furðuorð og fáir skilja, að blása til sóknar með sérlögum um Hvammsvirkjun.  Hann skorti þrekið, þótt sjálfhælinn sé.  

    


Leki eða ekki leki ?

Hörður Arnarson fékk 27.12.2023 birta í Morgunblaðinu grein eftir sig, sem greinilega er ætlað að hræða fleiri Alþingismenn til fylgilags við haftastefnu Orkumálastjóra og orkuráðherra í raforkumálunum. Orkuráðherra skilur líklega ekki, hvað hann er að gera.

Það er mjög mikil hætta á misnotkun valds skömmtunarstjóra raforku.  Hver vill t.d. færa Herði Arnarsyni þau völd að neita viðskiptavini um afhendingu á grunnorku (ársorku) og þvinga hann til að kaupa breytilega orku, sem er 40 % dýrari en hin fyrr nefnda ?  Haftalöggjöf í anda Harðar Arnarsonar breytir jafnvæginu á milli kaupenda og seljenda svo mikið að kalla má eyðileggingu á markaðinum.  Fyrirkomulagið verður eins og hjá Ráðstjórninni í Rússlandi á sinni tíð: ef þú vilt ekki, það sem er á boðstólum, getur þú étið, það sem úti frýs.  Hjá okkur er ekkert val.  Hverjum halda menn, að ráðstjórnarfyrirkomulagið henti ?  Örugglega ekki neytendum, sem í þessu tilviki eru heimili og fyrirtæki án langtímasamninga um afhendingu á forgangsorku. Hentar sennilega fílnum í postulínsbúðinni bezt.  

Það er nauðsynlegt að vekja athygli á krúsídúllunni, sem Hörður heldur, að dugi sem röksemd fyrir höftunum, sem fer fjarri.  Hún var í téðri Morgunblaðsgrein undir fyrirsögn, sem átti að fá hárin til að rísa á Alþingismönnum:

"Rándýr leki fyrir (næstum) alla":

 

"Við [Landsvirkjun] tilkynntum Orkustofnun í október síðast liðnum, að pantanir á orku fyrir heildsölumarkaðinn, þ.e. fyrir heimili og smærri fyrirtæki á næsta ári [2024] hefðu verið 25 % meiri en sem nemur almennum vexti í samfélaginu.  Það eitt staðfestir málflutning okkar um, að orkan, sem þangað fer og er ætluð heimilum og smærri fyrirtækjum, hlýtur að einhverju leyti að vera á leið eitthvað annað.  Það er þess vegna aðkallandi að lögfesta forgangsröðun í þágu heimila og smærri fyrirtækja og um leið, hvaða stjórnvald eða stofnun beri ábyrgð á því að tryggja, að orkan rati til þessa forgangshóps."

Landsvirkjun hefur undanfarið afhent um helming orkunnar, sem inn á þennan heildsölumarkað fer.  Upplýsingar um, að eftirspurnin hjá Landsvirkjun hafi vaxið um 25 % 2024 m.v. 2023 er engan veginn jafngild því, að heildareftirspurnin hafi vaxið um 25 %, heldur gæti Landsvirkjun verið að auka við markaðshlutdeild sína.  Vísbendingar um það koma einmitt fram í viðtali við Tómas Má Sigurðsson í Morgunblaðinu 28.12.2023 undir fyrirsögninni:

"Enginn leki á raforkumörkuðum".

"Meintan leka á milli raforkumarkaða er ekki að sjá í neinum gögnum, segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, í samtali við Morgunblaðið.  Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ýjaði að því í skrifum sínum í Morgunblaðið í gær, að raforka, ætluð heimilum og smærri fyrirtækjum (almennur markaður), rynni til stórnotenda raforku.  Óvenjumiklar pantanir á grunnorku [á heildsölumarkaðinum] staðfestu það.

Tómas segir, að útskýringuna á því, að pantanir á grunnorku [á heildsölumarkaðinum] séu 25 % meiri en sem nemur almennum vexti í samfélaginu, megi m.a. finna í því, að verðið á breytilegri orku til afhendingar árið 2024 er 40 % hærra en verð á grunnorku [ársorku].  [Spurn] eftir ódýrari raforku sé því að aukast.  Þar að auki hafi afhending á orku af hálfu HS orku og Orku náttúrunnar (ON) til stórnotenda minnkað á árunum 2019-2022 um sem nemi 200-300 GWh/ár.  Á sama tíma hafi afhending á orku af hálfu Landsvirkjunar til stórnotenda aukizt um u.þ.b. 800 GWh/ár, ef marka megi tölur Orkustofnunar og Landsvirkjunar."

Þetta eru athyglisverðar upplýsingar.  Hvers vegna hefur Landsvirkjun aukið afhendingu sína á raforku um 800 GWh/ár til stórnotenda í orkuskortsástandi, á meðan afhending hinna tveggja meginvirkjunarfyrirtækjanna hefur minnkað um u.þ.b. 250 GWh/ár ?  Væntanlega hefur Landsvirkjun hlaupið í skarðið fyrir hin fyrirtækin með u.þ.b. 250 GWh/ár, en þá er nettóaukning um 550 GWh/ár þangað óútskýrð.  Núna blasir við, að blóraböggullinn, sem stendur að vaxandi orkuafhendingu af almenna markaðinum og til stórnotenda, sé fyrirtækið, sem nú hrópar úlfur, úlfur í eyru Alþingis.  Færið okkur tól til að stöðva leka annarra af almenna markaðinum yfir til þeirra, sem eru með langtíma samninga.  

Það er maðkur í mysu þessa dæmalausa upphlaups forstjóra Landsvirkjunar, og öll kurl virðast enn ekki komin til grafar.  Hér skal vara við því að setja á laggirnar haftakerfi á raforkumarkaðinum.  Slíkt getur snúizt algerlega í höndum Alþingis, orðið til að skekkja samkeppnisstöðu og markaðshlutdeild enn meir en nú er og hækka verð til almennings. Þeir, sem nú skera upp herör í nafni hagsmuna almennings, ættu að kynna sér örlítið, hvernig viðskiptahöft hafa virkað á Íslandi, t.d. á 20. öldinni fram að því, er Viðreisnarstjórnin afnam mörg viðskiptahöft.  Alltaf skulu það vera stjórnmálamennirnir lengst til vinstri úr forræðishyggjuflokkunum, sem berjast með oddi og egg fyrir viðskiptahöftum, og Famsókn er veik fyrir vitleysunni.    


Hemja verður ríkisvald og ríkisrekstur

Ríkisvald og ríkisrekstur hefur innbyggða sterka tilhneigingu til að þenjast út með hverju árinu.  Þetta er jafnvel meira áberandi hérlendis en annars staðar í lýðræðisríkjum Evrópu, enda eru ríkisumsvifin sem hlutfall af þjóðarbúskapinum með því mesta, sem þekkist.  Stærsti þáttur þessara umsvifa er s.k. heilbrigðisgeiri. Hann fæst við sjúklinga í misömurlegu ástandi. Sameining sjúkrahúsa undir hatt Landsspítalans - Háskólasjúkrahúss hefur væntanlega leitt til nokkurrar hagræðingar, en svona stór stofnun er eðlilega þung í vöfum. 

Hratt vaxandi kostnaður ríkissjóðs við rekstur heilbrigðisgeirans er erfitt viðfangsefni, þegar glímt er við að koma böndum á heildarútgjöldin til að stöðva hallarekstur ríkissjóðs, sem í þensluástandi efnahagslífsins er verðbólguhvetjandi. Heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra eiga þann kost í stöðunni að stokka upp verkaskiptinguna á milli ríkisspítalanna í landinu og einkageirans.  Það hefur komið í ljós, sem margir töldu sig hafa vissu fyrir, að spara má ríkissjóði háar fjárhæðir með því að fela einkageiranum mun fleiri verkefni.  Í verkaskiptingunni verður lausnin fundin. 

Sviðsljósgrein Morgunblaðsins 12. desember 2023 kastaði birtu yfir þetta málefni.  Hún hafði lýsandi fyrirsögn:

"Þjónusta einkaaðila mun hagkvæmari".

  Hún hófst þannig:

"Kostnaður við liðskiptaaðgerðir er töluvert minni hjá einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum en hjá Landspítalanum.  Verðmunurinn er á bilinu kISK 700 - kISK 845.  Tæplega 2 k manns eru á biðlista eftir liðskiptaaðgerð."

Þessar upplýsingar benda eindregið til, að skynsamleg verkaskipting felist í því, að fela einkageiranum alfarið að annast liðskiptaaðgerðir á hné og mjöðm.  Beinn sparnaður ríkissjóðs við það eitt að bjóða út afgreiðslu á þessum biðlista, gæti numið mrdISK 1,6.  Mjór er mikils vísir, og kerfisbundið ætti að leita uppi fleiri svið í heilbrigðisgeiranum  til að spara ríkissjóði fé og stytta biðlista.  Líklega mætti fljótlega spara um 20 mrdISK/ár með skynsamlegri verkaskiptingu, og Háskólasjúkrahúsið gæti þá sinnt hlutverki sínu enn betur.  Setja má í útboðsskilmála kvöð um að taka við tilteknum fjölda læknanema á ári í starfsþjálfun. 

"Verðlagningin byggist á niðurstöðu útboðs, sem fram fór í marz [2023] og var undanfari samninga við þjónustuveitendur um framkvæmd liðskiptaaðgerða í ár.  Kostnaður við aðgerð er mismunandi [á] milli sjúklinga hjá öllum þjónustuveitendum.  Í samningum um liðskiptaaðgerðir er því samið um ákveðið meðaltalsverð, sem ætlað er að endurspegla kostnaðinn, sem liggur að baki hjá hverjum og einum." 

Þegar reynsla kemst á þetta fyrirkomulag og samningar stækka, mun einkageirinn finna leiðir til hagræðingar án þess að slá af gæðakröfum.  Við þetta mun sparnaður ríkissjóðs vaxa og arðsemi starfsemi verktakanna líka, og allt er það hið bezta mál.  Fyrrverandi heilbrigðisráðherra (SS), forstokkaður kommúnisti, talaði um arðsemi í þessari grein sem glæp gegn ríkinu.  Þar með opinberaði hún fullkomna vanþekkingu sína á fyrirtækjarekstri.  Það er mikið fé bundið í skurðstofum og allri hliðarstarfsemi við þær.  Til að einhver vilji fjárfesta í slíkri starfsemi, þarf hún að vera arðbær.  Með því að blása arðsemi í þessari grein út af borðinu sem sé hún af hinu vonda, reynir þessi ofstækismanneskja að kæfa þessa starfsemi í fæðingunni. 

"Í svari heilbrigðisráðherra segir, að verðmunurinn skýrist fyrst og fremst [óþarflega dönskulegt orðalag - BJo] af því, að Landspítali sé þriðja stigs faggreinasjúkrahús með uppsett afl til að standa undir fjölbeyttri þjónustu á nóttu sem degi allan ársins hring. Rekstrarkostnaður aðgerðarstofu, sem sinnir afmarkaðri þjónustu á dagvinnutíma á virkum dögum, sé því töluvert lægri en á sjúkrahúsi.  Almennt séð séu það því veikari sjúklingar með meiri sjúkdómsbyrði, sem veljist til aðgerða á Landspítala frekar en á aðgerðarstofu." 

Höfundur er ekki í neinum færum til að meta, hvort sú verkaskipting er réttmæt og sú hagkvæmasta, sem ráðherrann ýjar að, að sé við lýði.  Hins vegar er áreiðanlegt, að verði umsvif einkageirans á þessu sviði aukin, verður líklega grundvöllur fyrir tvískiptum vöktum 5-6 daga vikunnar.  Þar með a.m.k. tvöfaldast nýting fjárfestinganna á aðgerðarstofunni, sem eykur svigrúm til að bjóða ríkisvaldinu hagstæðari einingarverð.  Sérhæfing er önnur aðferð til verðlækkana, og henni verður auðveldlegar við komið með vaxandi aðgerðarfjölda. Heilbrigðisráðherra þarf að gæta að því, að í hinu opinbera kerfi er tregða og fyrirstaða gegn því að láta verkefni frá ríkisstofnun til einkageirans án nokkurs tillits til sparnaðar fyrir skattgreiðendur.  Ríkissjóður á sér fáa vini í ríkisgeiranum sjálfum.  Ráðherrar þessa málaflokks og annarra, sem eru á þessum buxunum, verða því að vera tilbúnir í hlutverk brimbrjótsins.  Því munu þeir ekki nenna, nema þeir séu hugsjónamenn réttrar gerðar.  

"Berglind Harpa [Svavarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins] segir tölurnar ekki koma sér á óvart. Hún telur einboðið að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki um veitingu annarrar heilbrigðisþjónustu.

"Ég er ánægð með þessi svör, því [að] þau sýna, hversu mikilvægt það er að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki", segir Berglind Harpa í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir óásættanlegt, hversu langir biðlistar fyrir hina ýmsu heilbrigðisþjónustu hér á landi séu.  

"Það á ekki að líðast, að við séum með þúsundir manna á biðlistum árum saman, þegar við erum með öflug heilbrigðisfyrirtæki á einkamarkaði, sem hægt er að semja við, og vinna þannig á listunum", segir hún og bætir við:

"Ríkið eitt getur ekki staðið undir öflugri heilbrigðisþjónustu.  Við erum eina Norðurlandaþjóðin, sem þráast við að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki."

Fylgifiskur ríkiseinokunar eru biðraðir.  Tregðan við að virkja einkaframtskið á þessu sviði er líka á Alþingi.  Alræmd er framganga fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sem í forstokkuðum sósíalisma sínum lét Sjúkratryggingar Íslands fremur fljúga með sjúklingana til Svíþjóðar í aðgerð á Karolínska eða öðru sambærilegu sjúkrahúsi en að semja við lækna einkarekinna innlendra heilbrigðisfyrirtækja.  Þessi hegðun ráðherrans er óskiljanleg, óafsakanleg og hefði átt að leiða til ákæru fyrir afglöp í starfi.                    

 


"Þetta frumvarp boðar ekki lausn neins vanda"

Málsgreinina í fyrirsögn þessa pistils hefur Morgunblaðið (Ólafur E. Jóhannsson) eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).  Á hún við frumvarp matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um opinber afskipti af sjávarútveginum, sem enginn hefur beðið hana um, en það er árátta hennar sem ráðherra að reyna að setja klóför sín og hins óstjórntæka flokks hennar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, á þá málaflokka, sem henni hefur illu heilli hverju sinni verið falin ráðsmennska yfir í ráðuneyti. 

Þessi sósíalistíski stjórnmálamaður hefur um árabil baknagað þessa atvinnugrein og með aumkvunarverðum hætti reynt að níða skóinn ofan af þessari myndarlegu grundvallar atvinnugrein landsmanna, og nú heldur hún því ranglega fram, að óánægja landsmanna sé orðin svo mikil með sjávarútveginn, að hún sem ráðherra sjái sig knúna í nafni þjóðarinnar til að hefjast handa gegn honum.  Þetta er dæmigert fleipur sósíalistísks loddara.  Stjórnlyndir stjórnmálamenn nota þessa sjúklegu aðferð, þegar réttlæta þarf skemmdarverk ríkisvaldsins á atveinnugreinum, innviðum og jafnvel lýðræðislegum grunnstoðum samfélagsins.

Loddarinn Svandís Svavarsdóttir hóf þessa vegferð sína með því að beita Samkeppniseftirlitinu fyrir vagn ráðuneytisins við umfangsmikla upplýsingasöfnun um hluthafa sjávarútvegsfyrirtækja, samþykktir hluthafafunda, og hvernig hluthafar vörðu atkvæði sínu á hluthafafundum.  Þetta var fáheyrð hnýsni ríkisvaldsins í málefni, sem því kemur ekki við, enda var þessi dæmalausa yfirtroðsla kærð og sósíalistinn gerð afturreka með ólögmætan gjörning sinn.  Þessi ráðherra virðir ekki sjálfsögð valdmörk sín og opinberar sig þannig sem dómgeindarlausa.

Ráðherrann skipaði fjölmennar nefndir til undirbúnings frumvarpssmíði og þóttist vera að efna til víðtæks samráðs, en þetta var hrein sýndarmennska af hálfu sósíalistans til að ljá óþörfum og skaðlegum fyrirætlunum sínum réttmætisstimpil.  Frumvarpinu má líkja við ljótar umbúðir utan um skattahækkanir, sem hvergi sér stað í stjórnarsáttmálanum.  Óheilindi þessa sósíalista eru legíó.

Ólafur E. Jóhannsson setti þetta ógæfuspor ríkisvaldsins í sviðsljós Morgunblaðsins 5. desember 2023 undir fyrirsögninni:

"Treystir hvorki sátt né samkeppnishæfni".

Umfjöllunin hófst þannig:

""Ef markmið ráðherra og stjórnvalda var það að teysta samkeppnishæfni sjávarútvegs og stuðla að aukinni sátt um atvinnugreinina, þá held ég, að það frumvarp, sem nú er fram komið, treysti hvorugt".

Þetta segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í samtali við Morgunblaðið, en hún var spurð álits á fram komnu frumvarpi matvælaráðherra um sjávarútveg.  Þar er safnað saman í einn bálk þeim lögum, sem gilda um sjávarútveg og ýmsar breytingar lagðar til frá gildandi regluverki." 

Þetta er einn af fjölmörgum göllum við að hleypa forræðishyggjufólki inn í stjórnarráðið.  Það vill stöðugt vera að fikta í atvinnuvegunum, þótt það hafi ekki gripsvit á því, sem þar fer fram.  Sósíalistar líta reyndar á atvinnuvegi sem mjólkurkýr fyrir hið opinbera.  Aðgerðir þeirra draga óhjákvæmilega kraftinn úr atvinnulífinu til fjárfestinga, til að laða til sín fjármagn,  til að borga laun og til að stunda markaðssetningu.  Undantekningarlaust leitast Svandís Svavarsdóttir við að kasta sandi í tannhjólin í algjörum skorti á yfirsýn um afleiðingarnar. Það er hið versta mál fyrir þjóðina, sem vonandi hleypir þingmannsefnum VG ekki oftar inn á þing. 

 "Ástæður þess eru fyrst og síðast þær, að fæstar þeirra tillagna, sem gerðar eru til breytinga á lagaumhverfi sjávarútvegs, eru til þess fallnar að treysta samkeppnishæfni eða ná fram varanlegum útflutningsvexti, sem hlýtur að vera grundvöllur sjálfbærs hagvaxtar og lífskjarabóta til ábata fyrir alla landsmenn.  Frumvarpið leggur fátt til þar, og síðan liggur nú þegar fyrir, að öll samtök hagsmunaaðila í sjávarútvegi ásamt öllum stéttarfélögum félagsmanna, sem starfa í greininni, hafa lýst yfir vonbrigðum með þá vinnu, sem unnin var í aðdraganda þessa frumvarps. Því vænti ég þess, að allir þeir aðilar hafi efasemdir um þær tillögur, sem fram eru komnar", segir Heiðrún Lind."

  Brambolt matvælaráðherra er ekki í þágu lands og þjóðar, og útgerðirnar lenda í ofsköttunarkrumlu sósíalismans, jafnvel tvísköttun, ef frumvarp giftusnauðs sósíalistans verður að lögum.  Hún siglir undir fölsku flaggi, eins og eru ær og kýr þessa öfgahóps.  Það á að heita, að efnt sé til víðtæks samráðs, en á endanum er bara um að ræða atlögu sósíalistans að vel rekinni atvinnugrein, sem gengið hefur vel, síðan hún losnaði úr klóm ríkisins.  Sósíalistinn ætlar að koma henni á kné.  Það má heita hneyksli, ef þetta er ríkisstjórnarfrumvarp.  

""Það var farið af stað með mikið og stórt verkefni og miklar yfirlýsingar gefnar um að leggja af stað í mikla vinnu, mikið samráð og samtal í aðdraganda þess að smíða heildarfrumvarp um sjávarútveg, og allir þessir aðilar eru sammála um, að þar hafi ekki vel tekizt til, því [að] samráðið var lítið sem ekkert", segir Heiðrún Lind.

Spurð um, hvaða atriði það séu í frumvarpinu, sem samtökin finni helzt að, segir hún, að mestu efasemdirnar lúti að 4 þáttum:

Þannig hafi verið niðurstaða vinnuhópsins, sem starfaði undir formerkjunum "Auðlindin okkar", að aflamarkskerfið væri það kerfi, sem styðjast ætti við, enda hefði almennt farnazt vel í því kerfi.  Eigi að síður sé í frumvarpinu farin sú leið að leggja ýmsar lykkjur í því kerfi undir yfirskini einhvers konar umhverfisverndarsjónarmiða." .... 

Það er alvarlegt mál, að við völd á Íslandi skuli vera ráðherra með slíka persónuleikabresti, að hún ástundar fullkomin óheilindi og blekkingahjúp í störfum sínum og er að róta í lagaumgjörð atvinnugreinar, sem stendur sig vel á heimsmælikvarða og hún þekkir hvorki haus né sporð á. 

Að beita fyrir sig umhverfissjónarmiðum til að valda tjóni á grein, sem er þekkt af góðri umgengni við fiskveiðiauðlindina (með fáum undantekningum) sýnir svikult eðlið, þegar efla á sósíalismann í sessi. 

""Sjálfbær nýting auðlindarinnar er því ekki lengur í forgrunni, en verið að þvæla inn í frumvarpið meiri verndarsjónarmiðum, sem hafa má áhyggjur af.  Það er ekki útskýrt, hvaða efnislegu þýðingu það hefur, og hvort það hafi einhver áhrif á sjávarútveginn, eins og hann er í dag", segir Heiðrún Lind."  

Þetta er alveg dæmigerð lýsing á afleitum og óskynsamlegum vinnubrögðum stjórnlyndra stjórnmálamanna við lagasetningu.  Að þvæla inn einhverjum hugðarefnum þekkingarlauss fólks á viðkomandi atvinnugrein, sem eru aðeins til þess fallin að flækja lögin og gera þeim, sem við greinina  starfa, lífið leitt.  Það er engin vitglóra í vinnubrögðum Svandísar Svavarsdóttur og hafa aldrei verið.  Áfram heldur hún þó við að draga lífskjörin í landinu niður.  

 

                                     

 

    

 


Loftslagsráðstefnan er dæmd til að missa marks

Hvers vegna eru allar loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna dæmdar til áhrifaleysis, þ.e. að verða orðin tóm ?  Það eru nokkrar ástæður fyrir því, en nefna má, að skuldbindingar þar eru ekki lagalega bindandi, og þeir, sem mest tala þar, hafa ekki nægilega góða yfirsýn og skilning á þeim tæknilegu og efnahagslegu viðfangsefnum, sem úrlausna krefjast, ef árangur á að nást við að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

  Fullyrða má, að blaður þjóðarleiðtoga breytir engu fyrir loftslagið.  Að fjöldi ráðstefnugestanna á 28. loftslagsráðstefnunni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum (Dubai) frá Íslandi skuli nema 0,1 % af heildarfjölda segir meira um ferðagleði og hégómagirni landsmanna en gagn, sem Ísland eða aðrir nokkru sinni geta haft af að hafa þarna fleiri en 0,01 % þátttakenda. 

Meginástæða árangursleysis þessara fjöldasamkoma (80-90 k viðstaddir) er þó líklega sú, að enginn þar virðist hafa velt fyrir sér kostnaðinum af áætlaðri hlýnun umfram 1,5°C og borið hann saman við kostnaðinn við að halda hlýnun í skefjum við 1,5°C.  Í staðinn fljúga orðaleppar um salina, sem eiga að hræða fólk til fylgilags við loftslagstrúboðið.  Það dytti sennilega dautt niður, ef kostnaðarupplýsingar frá Copenhagen Consensus fengju einhverja athygli á þessum dæmalausu blaðurskjóðu fundum stjórnmálamanna og embættismanna. 

Björn Lomborg, stofnandi téðrar hugveitu, skrifaði nýlega grein um þetta, og birtist hún í Morgunblaðinu 4. desember 2023.  Þar kemur nefnilega fram, að kostnaðurinn af baráttunni við hlýnun er margfaldur á við kostnaðinn af afleiðingunum.  Opinberu fé verður bezt varið til mótvægisaðgerða, nema viðskiptalega hagkvæmar lausnir séu fyrir hendi.  Þegar kemur að orkuöflun, eru þær fyrir hendi með jarðgufu og fallvatni hérlendis, en það á varla við um vindinn vegna lágs nýtingartíma, lítilla eininga og mikils umhverfiskostnaðar við að nýta hann til raforkuvinnslu. 

Nú skal grípa niður í grein Björns Lomborg, sem bar fyrirsögnina:

"Þegar loftslagspáfar vilja ekki hlusta á vísindin".

"Næstum öll ríku löndin prédika mun meira en þau standa síðan við.  Dæmi um þetta er Evrópusambandið, sem hefur lofað meiru en nokkur annar, en fór þó að leita að meiri olíu, gasi og kolum í Afríku, þegar það var nauðbeygt til að stöðva gasinnflutning frá Rússum í kjölfar villimannslegrar innrásar þeirra í Úkraínu.  Á sama tíma setja næstum öll fátæk ríki skiljanlega eigin velmegun í forgang, sem þýðir næga ódýra og áreiðanleg orku - sem þýðir enn sem komið er jarðefnaeldsneyti [þar á bæ - innsk. BJo]."   

Þetta þýðir, að ráðstefnublaðrið um, að nú sé ekki eftir neinu að bíða, mundi hafa afar neikvæðar afleiðingar á lífskjör í heiminum, sérstaklega á meðal þjóða, sem verst eru settar, ef úr yrði.  Jarðarkringlan og allt, sem á henni er, yrði miklu betur sett, ef SÞ mundu hætta að boða til þessara árlegu funda.  Fjarfundir hljóta að duga á milli staðfunda á 10 ára fresti til að bera saman bækur.

Það er vita vonlaus aðferðarfræði að setja einhver markmið án skuldbindinga.  Miklum hræðsluáróðri er dembt yfir heiminn, en hann hrín ekki á olíuvinnslulöndunum og stærstu notendunum í fjölmennustu löndunum, Indlandi og Kína.  Vesturlönd geta ekki dregið þennan vagn ein og verða að gæta að sér að missa ekki kostnað atvinnuvega sinna úr böndunum fyrir vikið. 

"Undirstaða skrípaleiks loftslagsráðstefnunnar er lygi, sem er endurtekin aftur og aftur: að græn orka sé alveg við það að koma í stað jarðefnaeldsneytis á öllum sviðum lífs okkar.  Þessum ýkjum er [núna] haldið á lofti af Alþjóðaorkumálastofnuninni, sem hefur snúið sér frá hlutverki hlutlauss úrskurðaraðila um orkugögn yfir í talsmann þeirrar langsóttu spár, að notkun jarðefnaeldsneytis muni ná hámarki innan aðeins 7 ára."   

Þarna er um einfaldan blekkingarleik að ræða, sem stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa margþvælt um, en þegar til á að taka, er gripið í tómt.  Þetta er meginskýringin á því, að framkvæmd orkuskipta er langt á eftir áætlun alls staðar.  Katrín Jakobsdóttir talar, eins og lausnir séu "hilluvara", en hvernig eiga útgerðarfélög og flugfélög og verktakar að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi ?  Það vantar jarðtengingu tækninnar inn í þessa umræðu. Glæpasagnahöfundur hrekkur skammt. Almenningur hefur áttað sig á innihaldsleysi orðaflaums og ósvífins hræðsluáróðurs. 

"Það, sem verður ekki viðurkennt í Sameinuðu arabísku furstadæmunum - vegna þess að það hefur aldrei verið viðurkennt á alþjóðlegum loftslagsráðstefnum - er hinn óþægilegi veruleiki, að þótt loftslagsbreytingar hafi raunverulegan kostnað í för með sér, þá hefur loftslagsstefnan það líka."   

Það hefur aldrei gagnrýnin og fræðileg umræða farið fram í miðlum fyrir almenning um raunverulegar afleiðingar af hækkandi styrk koltvíildis í andrúmslofti af mannavöldum, kostnaðinn af að stemma stigu við þessari losun, kostnaðinn af tiltækum mótvægisaðgerðum og kostnaðinn af aðgerðaleysi.  Það hefur bara verið hamrað á nauðsyn orkuskipta í samgöngum og iðnaði og landbúnaði og þá litið fram hjá því, að tæknin fyrir stórfelld orkuskipti er enn ekki fyrir hendi, enda fer notkun jarðefnaeldsneytis vaxandi víðast hvar í heiminum og toppinum á brennslu jarðefnaeldsneytis verður líklega ekki náð fyrr en á næsta áratugi.  Loftslagspostular hafa skotið sig í fótinn með árlegum dómsdagsspádómum, og er formaður Loftslagsráðs Íslands dæmi um slíkan hamfarapostula, sem hefur gert sig að ómerkingi.  Hver lofslagsráðstefna (COP) er sögð sú síðasta fyrir mannkynið til að bjarga sér.  Ef raunveruleg hætta væri á ferðum, hefði ekki þótt verjanlegt að setja þessum ráðstefnum algerlega ófaglega og óskilvirka umgjörð. 

"Loftslagsaðgerðasinnar, sem krefjast þess, að við hlustum á vísindin, hafa sjálfir stöðugt hundsað þessar rannsóknir og hvatt ríka leiðtoga heimsins  til að gefa sífellt meiri loftslagsslagorð.  Margir leiðtogar heimsins hafa jafnvel gengið svo langt að lofa núll-marki í kolefnislosun fyrir árið 2050. [Katrín Jakobsdóttir stökk snemma á þann vagn, en hún gösslast áfram án þess að kynna sér málin út í hörgul, þegar kemur að því, að skuldbinda Ísland og ríkiskassann, þótt enginn sé hún heimsleiðtoginn - innsk. BJo.]

Þrátt fyrir að þetta sé líklega dýrasta stefnan, sem leiðtogar heimsins hafa lofað, var hún sett fram án þess að gera nokkurt ritrýnt mat á heildarkostnaðinum.  Fyrr á þessu ári fjallaði sérútgáfa Climate Change Economics um fyrstu slíkar greiningar. 

Þetta undraverða verk hefur nánast hvergi verið kynnt af neinum stórum fréttamiðlum.  Það sýnir, að jafnvel með mjög rausnarlegum forsendum muni ávinningurinn af því að sækjast eftir hreinu núlli aðeins mjakast upp mjög hægt og rólega á öldinni.  Um miðja öld gæti ávinningurinn  - þ.e. kostnaður vegna loftslagsbreytinga, sem verður forðað - orðið um 1 TriUSD/ár.

En kostnaðurinn yrði miklu, miklu hærri.  Þrjú mismunandi líkön sýna sýna öll kostnað langt umfram ávinning hvert einasta ár alla 21. öldina og langt inn í þá næstu.  

Þetta hafa menn upp úr því að láta hjarðeðlið leiða sig í gönur.  Í upphafi skyldi endinn skoða.  Ef menn hefðu setzt niður um 1990 og gert kostnaðarútreikninga, eins og Climate Change Economics hefur nú birt, í stað þess að reka hræðsluáróður um óafturkræfa ofurhlýnun jarðar, þá hefði mátt frelsa mannkynið undan miklu fári falsspámanna og loddara. 

 "Alla öldina er ávinningurinn [árlega - innsk. BJo] 1,4 % af VLF, á meðan kostnaðurinn er að meðaltali 8,6 % af VLF.  Hver króna í kostnaði [við að ná 0 nettó losun CO2 - innsk. BJo] skilar kannski 16 aurum af lofslagsávinningi.  Ljóst er, að þetta er skelfilega illa farið með fé.

Það eina, sem getur komið í veg fyrir, að þessi leiðtogafundur verði endurtekning á 27 öðrum mistökum er, að stjórnmálamenn viðurkenni rauverulegan kostnað af hreinni núllstefnu og í stað þess að lofa meiri kolefnisskerðingu [að] heita því frekar að stórauka rannsóknir og þróun á grænni orku."

Varðandi hið síðast nefnda er brýnt að þróa raunverulega valkosti við jarðefnaeldsneytið, t.d. þóríum-kjarnorkuver, sem skrýtið er, að ekki skuli vera tekið að hilla í. Þess má geta, að þýzkir stjórnmálamenn ræða nú enduropnun úraníum-kjarnorkuvera í Þýzkalandi.  Ef Græningjar samþykkja það, hafa þeir snúizt í hring. 

Hræðsluáróður loftslagspostula er reistur á spá um þróun hitastigs á jörðunni.  Loftslagsfræðingurinn dr John Christy o.fl. hafa sýnt fram á með hitastigsmælingum gervihnatta og loftbelgja, sjá Earth and Space Science við The University of Alabama  á tímabilinu 1979-2014, að líkan IPCC er rangt, sem leiðir til allt of mikillar framreiknaðrar hlýnunar.  Villan er fólgin í endurgeislun frá jörðu og út í geiminn, sem í líkaninu er aðeins helmingur af raunverulegu hitatapi.   

 

                                   

 

                                                                                                      

  


Eftirlitsstofnanir leika lausum hala

Stjórnendur eftirlitsstofnana eru margir hverjir með ranghugmyndir um hlutverk stofnana sinna í samfélaginu.  Þeir virðast ekki telja, að stofnunum sínum sé skylt að hlýða lögum frá Alþingi, nema þeim bjóði svo við að horfa sjálfum.  Þeir láta starfsmenn sína fínkemba umsóknir með mikilli tímanotkun, en sáralitlum afrakstri, enda standa starfsmenn eftirlitsstofnananna höfundum umsóknanna iðulega talsvert að baki sem sérfræðingar í viðkomandi grein, sem er skiljanlegt.  Þess vegna á rýnirinn að einbeita sér að aðalatriðum, innbyrðis samræmi og samræmi við lög og reglugerðir. Stofnanir mega ekki undir neinum kringumstæðum draga afgreiðsluna fram yfir lögboðinn frest.  Yfirmaður stofnunarinnar á að ganga úr skugga um það í upphafi verks, að starfsmenn anni verkefninu innan setts tímaramma. Að öðrum kosti þarf að leigja inn sérfræðinga til aðstoðar við verkið.  Með einum eða öðrum hætti verður stofnunin að afgreiða málið innan tímamarka, enda skal það vera fest í starfslýsingu forstjórans og hafa neikvæð áhrif á árslaun hans, ef út af bregður. 

 

Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við íslenzka eftirlitsiðnaðinn, sem með óheyrilegu hangsi hefur haft veruleg áhrif á viðskiptaáætlanir fyrirtækisins.  Tafir af völdum eftirlitsstofnana eru óheyrilegar, hafa bakað mikið tekjutap og aukakostnað, sem gera ætti stjórnir viðkomandi stofnana ábyrgar fyrir.  Svona stór frávik, eins og Halldór lýsir í viðtalinu við Kristján Jónsson, má alls ekki líða.  Losarabragurinn hjá ríkisvaldinu er til skammar.  

Fyrirsögn fréttarinnar var:

"Starfsemin gæti hafist 2027 eða ´28"

Þar gat m.a. að líta þetta:

"Framkvæmdirnar eru mun seinna á ferðinni en forráðamenn fyrirtækisins höfðu vonazt eftir, og Halldór er óhress með, hversu lengi mál, eins og leyfismál, eru til meðferðar í stjórnsýslunni.

"Þetta hefur tekið miklu lengri tíma en nokkurn tíma var reiknað með.  Þetta átti að vera tilbúið í Súðavík árið 2018 og hefði getað verið, ef opinberar stofnanir hefðu farið eftir laganna bókstaf.  Þegar pressan var farin að aukast á okkur, þá fórum við í að stækka á Bíldudal, enda þurftum við að sinna mörkuðunum", segir Halldór, en ákveðið var að stækka verksmiðjuna á Bíldudal í Arnarfirði, þegar tafir urðu á uppbyggingu í Súðavík."

Hér er um að ræða eins áratugs seinkun á fremur litlu og alveg sjálfsögðu verkefni á Súðavík, þ.e.a.s. verksmiðju, sem nýtir hráefni úr Ísafjarðardjúpi og vinnur úr því fæðubótarefni til útflutnings. 

"Frá 2007 hefur verið rekin verksmiðja á Bíldudal, og hún er nærri hámarksafköstum.  Við höfum alltaf hugsað okkur, að verksmiðja í Súðavík gæti komið inn sem viðbót, en það tók svo rosalega langan tíma fyrir opinberar stofnanir að afgreiða leyfismál, umhverfismál og slíkt.  Við urðum því að fara í stækkun á Bíldudal, eins og við gerðum.  Hægði það á öllu varðandi uppbyggingu í Súðavík, en vonandi getum við byrjað að byggja þar eftir 2-3 ár. Eins og staðan er núna, reiknum við með að vera með verksmiðjur á báðum stöðum.  Við munum fara rólega af stað í Súðavík, en auðvitað veltur þetta einnig á eftirspurninni", segir Halldór, en mesta samkeppnin kemur frá Brasilíu.  Íslenska kalkþörungafélagið [ÍKF] er með starfsleyfi í Arnarfirði til 01.12.2033, en með leyfi í Ísafjarðardjúpi til 2051."

Með sleifarlagi sínu kollvörpuðu íslenzkar eftirlitsstofnanir viðskiptaáætlunum þessa félags (ÍKF).  Það er fullkomlega óboðleg framkoma hins opinbera.  Gallinn er sá, að engar refsingar virðast vera við þessum lögbrotum (að hundsa afgreiðslufresti).  Þá ættu viðkomandi ráðuneyti að koma til skjalanna og að láta hina ábyrgu sæta ábyrgð.  Hvað hafa stjórnir og forstjórar þessara stofnana gert til að kippa þessum málum í liðinn ?  Að bera við manneklu er ekki gjaldgengt.  Hverri stofnun ber að sníða sér stakk eftir vexti og halda sig innan laganna, þ.m.t. fjárlaganna. Annað verður að skrifa á reikning æðstu stjórnenda, en þeim virðist gæðastjórnun vera ærið framandi hugtak mörgum hverjum.  

 

                                                                                                                                                                                      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband