Færsluflokkur: Menning og listir

Þveræingar og Nefjólfssynir

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, ritaði skemmtilega grein í Morgunblaðið 17. janúar 2023 í tilefni af 75 ára afmæli ritstjórans, Davíðs Oddssonar.  Hann lagði þar út af kenningu sinni um rauðan þráð, sem lægi um nánast alla Íslandssöguna, varðandi viðhorf þjóðarinnar til æskilegra samskipta við erlend ríki. Kenningin er einföld og rökstudd af Hannesi með fjölda dæma af íslenzkum höfðingjum.  Má ekki ætla, að alþýðunni hafi verið svipað farið og höfðingjunum að þessu leyti ?

Fyrirsögn greinarinnar gefur til kynna meginstef hennar:

"Sérstaða og samstaða: Tveir ásar Íslandssögunnar".

Hún hófst þannig:

"Landnemarnir frá Noregi höfðu ekki búið lengi í þessu landi, þegar þeir tóku að líta á sig sem sérstaka þjóð.  Sighvatur, skáld, Þórðarson orti í Austurfararvísum um hin "íslenzku augu", sem hefðu dugað sér vel.  Um svipað leyti, árið 1022, gerðu Íslendingar sinn fyrsta milliríkjasamning, og var hann við Norðmenn um gagnkvæman rétt þjóðanna [í hvoru landi].  Segja má, að eftir það hafi 2 ásar Íslandssögunnar verið sérstaða þjóðarinnar annars vegar og samstaða með öðrum þjóðum hins vegar."

 

 Landnemarnir voru alls ekki allir frá Noregi, heldur hafa erfðafræðirannsóknir sýnt fram á, að umtalsvert hlutfall landnámsmanna var ættaður af Skotlandi og skozku eyjunum og víðar.  Margir þeirra voru kristnir og höfðu tileinkað sér bóklist (lestur og skrift).  Vestmenn þessir voru margir hverjir skáldskaparmenn, og höfðu lært til skáldskapar í skólum. Þeir urðu sérfræðingar í skáldskap, og Íslendingar héldu þessari hefð við.  Slíkir menn frá Íslandi urðu eftirsótt skáld hjá norskum höfðingjum, m.a. við hirð Noregskonungs, og má nefna Ólaf, Kolbrúnarskáld, sem var í vist hjá Ólafi, digra, barðist með honum á Stiklastöðum í Þrændalögum og mælti hin ódauðlegu orð á banastundinni, er ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi þar, og hvítar tæjur hengu á örvaroddinum: "Vel hefur konungur alið oss", en að svo búnu féll hann dauður niður. 

Vegna blandaðs og sérstaks uppruna landnámsmanna, sem hefur leitt af sér a.m.k. 2 tungumál í landinu á 10. öld eða öllu heldur nokkrar mállýzkur af norsku og gelísku, er eðlilegt, að Íslendingar hafi frá öndverðu hvorki getað litið á sig sem Norðmenn né Skota, heldur sérstaka og sjálfstæða þjóð, Íslendinga.  Afkomendur hinna heiðnu norsku landnema voru að ýmsu leyti öflugastir, og það er athyglisvert, að þeir virðast móta söguna, og sérstaklega þó, hvernig hún er rituð, með fyrstu landnámsmennina úr Norðurvegi, og Gulaþingslögin til grundvallar fyrstu íslenzku lögbókinni, en ekki var þó dregin dul á hlut skozkra höfðingja í landnáminu, t.d. Auðar, djúpúðgu, sem nam Dalina, og höfðingjar á hennar skipum námu víða land, t.d. á Norðurlandi.

"Hér á landi voru engir konungar til að spilla friðnum. [Enginn konungur stjórnaði landnáminu, heldur var það einstaklingsframtak skipstjórnarmanna víða að, sem höfðu enga þörf fyrir konung og höfðu margir hverjir orðið fyrir barðinu á konungum.  Þetta var önnur sérstaða Íslendinga, sem átti eftir að móta söguna. Innsk.-BJo.]  Í því var sérstaða landsins ekki sízt fólgin að sögn goðans á Ljósavatni.  En Þorgeir lagði þó til í sömu ræðu, að Íslendingar tækju upp sömu trúarbrögð og grannþjóðirnar.  Samstaðan með öðrum þjóðum væri ekki síður mikilvæg en sérstaðan."

Kristnitakan hefði ekki getað farið fram með pólitísku samkomulagi á Alþingi 999-1000, nema kristnir og heiðnir hefðu búið saman í landinu, blandað geði saman, bundizt blóðböndum og hagsmunaböndum í 4-5 kynslóðir og unnið saman á héraðsþingum og á Alþingi í 3-4 kynslóðir, farið í göngur og réttir og stundað viðskipti innbyrðis og við erlenda kaupmenn. Þingheimi var gert ljóst með sendiboða frá Noregskonungi, Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gætu ekki vænzt friðsamlegrar sambúðar við Noreg og norska kaupmenn, nema þeir köstuðu heiðninni fyrir róða og létu skírast til kristni. Slíkar sögur fóru af víkingakónginum Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gerðu sér grein fyrir, að kóngsi hefði bæði vilja og getu til að standa við orð sín. Þar með stóðu öll spjót á heiðna hópinum á Alþingi, og var Þorgeiri, goða á Ljósavatni, falið að semja málamiðlun, sem hann gerði með snilldarlegum hætti á 2-3 sólarhringum. Síðan er talað um leggjast undir feld, þegar leysa þarf erfið úrlausnarefni.     

 "Einni öld síðar gat að líta svipaðan samleik sérstöðu og samstöðu í frásögn annars sagnaritara [en Ara, fróða, Þorgilssonar - innsk.BJo], Snorra Sturlusonar, frá umræðum á Alþingi árið 1024.  Íslenzkur hirðmaður Ólafs, digra, Noregskonungs, Þórarinn Nefjólfsson, hafði boðið Íslendingum að ganga honum á hönd.  Einar Þveræingur flutti þá um það ræðu, sem Snorri hefur eflaust samið sjálfur, að Íslendingar ættu að vera vinir konungs, en ekki þegnar.  Þótt Einar efaðist ekki um, að Ólafur, digri, væri ágætur, væru konungar misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því bezt að hafa engan konung." 

Þetta var viturlega mælt hjá Einari, Þveræingi, úr fjaðurstaf Snorra Sturlusonar.  Þessi sagnameistari og höfðingi í flóknum stjórnmálaheimi Sturlungaaldar var að sönnu ekki hallur undir þann konung, sem var honum samtíða í Noregi, Hákon, gamla, en hann var heldur enginn vinur hans, eins og Einar boðaði, að Íslendingar skyldu kappkosta, enda var slíkt sennilega ógjörningur fyrir Íslendinga, þ.e. að njóta vinfengis  konungs án þess að ganga erinda hans á Íslandi.

Snorri var prestur og enginn hermaður, eins og Bæjarbardagi var til vitnis um, og hann beitti aldrei miklum áhrifum sínum á Alþingi í þágu konungs. Hann var trúr kenningu sinni, þótt margræður persónuleiki væri.  Aftur á móti var hann í vinfengi við Skúla, jarl, sem gerðist keppinautur Hákonar um æðstu völd í Noregi,en laut í lægra haldi. 

Refsivald konungs náði þá þegar til Íslands 1241, 21 ári fyrir gerð Gamla sáttmála, sem sýnir pólitíska ástandið í landinu, og mun fyrrverandi tengdasonur Snorra, Gissur Þorvaldsson í Hruna, sem var handgenginn maður konungi, hafa fengið skipun um að taka Snorra Sturluson af lífi.  Er það eitt mesta níðingsverk Íslandssögunnar, enda var þess grimmilega hefnt með Flugumýrarbrennu, þótt Gissur bjargaði sér þar naumlega ofan í sýrukeraldi. Fyrir undirgefni Haukdælahöfðingjans fékk hann jarlsnafnbót frá feigum kóngi.  

"Æ síðan hafa málsmetandi Íslendingar skipzt í 2 flokka.  Þveræinga, sem vilja vinfengi við aðrar þjóðir án undirgefni, í senn sérstöðu og samstöðu, og Nefjólfssyni, sem eiga þá ósk heitasta að herma allt eftir öðrum þjóðum, vilja fórna allri sérstöðu fyrir samstöðu."

 Höfundur þessa vefpistils hefur alla tíð talið það liggja í augum uppi, að ekkert vit sé í því fyrir smáþjóð langt norður í Atlantshafi að taka allt gagnrýnilaust upp eftir öðrum þjóðum, sem búa við allt aðrar aðstæður.  Það hefur alla tíð verið aðall Íslendinga að hirða það úr menningu, tækni og siðum annarra, sem nytsamlegt getur talizt hérlendis, og laga það að aðstæðum okkar, laga það að siðum okkar, tungunni og lagaumhverfi. Hér var t.d. engin þörf á sameiningartákni, konungi, til að sameina höfðingjana í baráttu við erlend árásaröfl. Íslenzka kirkjan sameinaði væntanlega gelíska og germanska kirkjusiði.  Íslendingar höfnuðu Járnsíðu Magnúsar, konungs, lagabætis, og fengu í staðinn Jónsbók, sem studdist við Grágás. Heilbrigð íhaldssemi hefur reynzt Íslendingum vel.  Þeir hafa ekki verið byltingarmenn, þótt þeir hafi verið fljótir að tileinka sér nýjungar, sem þeir sáu, að gagn væri hægt að hafa af.  

Íslendingar fengu sína stjórnarskrá úr hendi Danakonungs 1874, og varð ekki verulegur ágreiningur um hana, enda var hún eiginlega samevrópsk þá og síðan hverja bragarbótina á fætur annarri á stjórnskipuninni, þar til sambandið við Danakóng var rofið með nánast einróma stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júni 1944 á afmælisdegi sjálfstæðishetjunnar, Jóns Sigurðssonar.

Það gekk hins vegar mikið á, þegar framsýnir og víðsýnir menn beittu sér fyrir stofnaðild landsins að varnarsamtökum lýðræðisþjóða Evrópu og Norður-Ameríku, NATO.  Andstæðingar aðildar voru af ólíku tagi, bæði einlægir Þveræingar og harðsvíraðir kommúnistar, dæmigerðir Nefjólfssynir, sem sáu Sovét-Ísland í hillingum.

Hin mikla þversögn nútímans á Íslandi, þegar stríð geisar í Evrópu, er, að forsætisráðherrann er formaður stjórnmálaflokks, sem hangir á nauðsyn varnarleysis, eins og hundur á roði eða steingervingur í Evrópu.  Slík afstaða er ekki í anda Þveræinga, sem vilja samstöðu með lýðræðisþjóðum gegn einræðisþjóðum, sem sýnt hafa glæpsamlegt eðli sitt með hryðjuverkum gagnvart varnarlausum íbúum í Úkraínu. Slík samstaða tryggir Þveræingum eftirsótt frelsi.

Slíka villimenn á valdastóli í Rússlandi verður að kveða niður, og eymdarkveinstafir þeirra um, að Úkraínumenn megi ekki skjóta á þau skotmörk í Rússlandi, þaðan sem eldflaugar og drónar eru send til að valda manntjóni og eignatjóni í Úkraínu, eru ekki svaraverðir, enda siðblindingjar, sem þar væla. Þjóðarmorð er nú framið í Úkraínu fyrir opnum tjöldum.  Hvílíkur viðbjóður !

Hótanir glæpagengis Kremlar, s.s. trúðsins Medvedevs,  um að beita í refsingarskyni kjarnorkuvopnum eru hlálegar, því að yfirburðir Vesturveldanna á sviði hernaðar eru slíkir, að þeir munu ekki komast upp með neitt slíkt, en munu kalla yfir sig slíkan eyðingarmátt, að rússneska sambandsríkið verði úr sögunni að eilífu.   

"Þegar Íslendingar urðu nauðugir að ganga á hönd Noregskonungi árið 1262, skildu þeir það til í sáttmála, að þeir fengju haldið íslenzkum lögum og að opinberir sýslunarmenn skyldu íslenzkir vera. Leiðtogi þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, vísaði óspart til þessa sáttmála, þegar hann rökstuddi tilkall hennar til sjálfsforræðis. En um leið var Jón eindreginn stuðningsmaður verzlunarfrelsis.  "Þú heldur, að einhver svelgi okkur.  Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti", sagði hann í bréfi til bróður síns árið 1866.  "Frelsið kemur að vísu mest frá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram, nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.""

Nefjólfssynir í landinu 1262 hafa ekki samþykkt Gamla sáttmála nauðugir, heldur fúsir, enda höfðu sumir þeirra unnið að innlimum Íslands í norska konungsríkið um áratuga skeið.  Í nútímanum barðist einn kúnstugur fýr fyrir því, áður en hann umturnaðist í byltingarkenndan sósíalista, sem er önnur furðuleg hugdetta, að Ísland yrði fylki í Noregi, þótt þáverandi stjórnvöld Noregs hafi verið því algerlega afhuga, enda hugmyndin fráleit og reist á nauðhyggju Nefjólfssona um, að Íslendingar geti ekki séð sér farborða á eigin spýtum.  Þeir hafa þó rækilega sannað mátt sjálfstæðis til að knýja hér framfarir og að tryggja hér efnalega hagsæld.  

Það var áreiðanlega raunhæft og rétt viðhorf Jóns Sigurðssonar, forseta, að frelsið kemur mest frá einstaklinginum sjálfum og að verzlunarfrelsi er undirstaða frelsis samfélagsins.  Frjáls verzlun og viðskipti hafa reynzt undirstaða efnalegra framfara á Íslandi, sem hvergi í Evrópu urðu meiri en á Íslandi á 20. öldinni. Frjáls viðskipti Íslands við lönd Evrópusambandsins, ESB, eru nú bundin á klafa þvingaðrar samræmingar við löggjöf ESB, sem augljóslega átti að vera undanfari inngöngu í ESB.  Ekki er víst, að Jóni Sigurðssyni, forseta, hefði hugnazt þetta fyrirkomulag, enda varla hægt að kalla þetta frjáls viðskipti, þótt þau séu að mestu leyti tollfrjáls. Nefjólfssonum finnst, að stíga þurfi skrefið til fulls, en Þveræingar eru beggja blands í þessu máli.

 

  


Skref aftur á bak - Járnsíða og vindmylluþyrpingar

Að kvöldi 12. október 2022 var haldinn fundur í glæsilegum sal Tónlistarskóla Akraness undir yfirskriftinni: Vindmyllur - fyrir hverja [og] til hvers ?  Fundarstjóri var Jón Magnússon, hrl., og fórst honum það vel úr hendi, eins og hans var von og vísa. 

Höfundur þessa vefpistils flutti þarna erindið, sem sjá má í viðhengi þessa pistils.  Aðrir frummælendur þessa fundar voru Arnar Þór Jónsson, sem kveikti neista baráttuanda í brjósti fundarmanna í nafni sjálfstæðrar hugsunar og leyfis til gagnrýninnar tjáningar með haldföstum rökum, Kristín Helga Gunnarsdóttir, sem sýndi með fjölmörgum fallegum náttúrumyndum úr sveitum Vesturlands, hversu gróft og yfirþyrmandi inngrip í náttúruna um 200 m háar (spaðar í hæstu stöðu) vindmyllur yrðu í náttúru Íslands.  Ólafur Ísleifsson rifjaði upp umræðuna, sem varð í landinu í aðdraganda innleiðingar Alþingis á s.k. Orkupakka 3-OP3, lagabálki Evrópusambandsins (ESB) um orkumál, sem hann o.fl. telja á meðal lágpunktanna í sögu Alþingis.  

Nú er spurningin sú, hvort, samkvæmt OP3, Íslendingum beri að verða við óskum fyrirtækja af EES-svæðinu um leyfi til uppsetningar vindmylluþyrpinga í landi sínu á forsendum atvinnufrelsis á EES-svæðinu og jafnræðis á milli orkufyrirtækja á Innri markaði EES, enda sé raforkan frá vindmylluþyrpingunum "græn" samkvæmt skilgreiningu ESB. Íslendingum finnst mörgum hverjum lítið til koma þeirrar grænku.

Á þetta kann að reyna fyrir dómstólum, enda mætast í þessu máli stálin stinn. Þetta minnir okkur á, að Íslendingar hafa ekki ætíð talið sér henta að starfa eftir erlendum lagabálkum. Magnús, konungur lagabætir, vildi samræma löggjöf í gjörvöllu norska konungsríkinu, sem var víðfemt og spannaði eyjar úti fyrir Skotlandi, Færeyjar og Ísland, og e.t.v. Dublin og héruðin í kring á Írlandi, en um þetta leyti hafði Skotakonungur líklega náð tökum á fastlandi Skotlands. 

Magnús, konungur, lét leggja lögbók sína, Járnsíðu, fyrir Alþingi 1271, en Íslendingar sáu meinbugi við að umturna lagaumhverfi sínu og laga það að norskum rétti.  Þá fékk konungur lögfróðan Íslending, Jón Einarsson, til að sníða vankantana af Járnsíðu fyrir Íslendinga, og smíðaði hann nýja lögbók upp úr Grágás og Járnsíðu, sem kölluð var Jónsbók og hlaut samþykki Alþingis 1281 og var lögbók landsins, þar til Íslendingar sóru einvaldskonunginum, danska, hollustueið á Kópavogsfundi 1661. Eftir það breyttist Alþingi að mestu í dómstól.

Hvað sem þessu líður, þá ber Íslendingum nútíðarinnar að vega og meta gaumgæfilega kosti og galla vindmyllanna í íslenzkri náttúru og á íslenzka raforkumarkaðinum. Tilraun til þess er gerð í téðu viðhengi með pistli þessum. Hættan er sú, að þessi óskilvirka og ágenga leið til raforkuvinnslu komi óorði á íslenzkan orkuiðnað og jafnvel orkunotkunina, af því að raforkuvinnslan gangi of nærri landinu og gíni hvarvetna yfir landsmönnum og erlendum gestum þeirra. Það yrði afleit staða fyrir landsmenn að sitja uppi með, og ekkert var fjær forgöngumönnum rafvæðingar Íslands en slíkt. Vindmylluforkólfar eru af öðru sauðahúsi.

Raforkunotkun landsmanna er sú mesta í heimi, og er höfundur þessa vefpistils fyrir sína parta stoltur af því, enda er þessi mikla orkunotkun ásamt sjávarútvegi og ferðaútvegi undirstaða íslenzka velferðarþjóðfélagsins.  Varla hefur farið fram hjá nokkrum manni, að hrópað er úr öllum áttum á meira fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Við slíkum óskum er ómögulegt að verða án hagvaxtar í landinu. Stækkun hagkerfisins er nátengd aukinni orkunotkun í samfélaginu.  Því er tómt mál að stöðva allar nývirkjanir í landinu, þótt sú óskilvirkasta og fórnfrekasta sé látin eiga sig.    

Áður var drepið á vindmyllufund á Akranesi.  Akraneskaupstaður er velferðarsamfélag, sem stendur traustum fótum í sjávarútvegi og iðnaði á Grundartanga, þar sem öflug útflutningsfyrirtæki nýta mikla raforku.  Sjávarútvegurinn íslenzki hefur getið sér gott orð fyrir sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og gjörnýtingu hráefnisins við framleiðslu á útflutningsvörum. 

Nýting íslenzkra orkulinda hefur verið sjálfbær fram að þessu og hófsemi og aðgátar verið gætt, þar sem kappkostað er að fella mannvirkin sem bezt að landinu. Notkun orkunnar hefur verið með glæsilegum hætti, eins og framsæknir auðlindagarðar og tækniþróuð iðnfyrirtæki, þar sem mest munar um álverin þrjú, bera glögglega vitni um. 

 Hvers vegna jafngilda vindmyllur afturför í þessum efnum ?  Það er vegna þess, að vindmyllur eru afkastalítil framleiðslutæki m.v. allan efniviðinn, sem þarf til að fá fram afleininguna MW.  Við nýtingu vindorkunnar myndast óhjákvæmilega lofthvirflar.  Ef þeir ná til næstu vindmyllu, hraðfellur vinnslugeta hennar, hávaði frá henni eykst og titringur myndast, sem eykur bilanatíðnina umtalsvert.  Þess vegna þurfa vindmylluþyrpingar að flæmast yfir margfalt landsvæði á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir m.v. sambærilega orkuvinnslugetu, eins og rakið er hér í viðhenginu.

  Þessi frumstæða aðferð við raforkuvinnslu er einfaldlega fjarri því að geta réttlætt þær miklu landfórnir, sem háar vindmylluþyrpingar fela í sér.  Þjóðhagslegt gildi þeirra er ekkert, af því að aðrir endurnýjanlegir orkukostir í landinu eru miklu hagkvæmari, fjárhagslega. 

Það, sem nú eykur ásókn orkufyrirtækja, innlendra og erlendra, í að leggja "ósnortin" íslenzk víðerni undir ferlíki, sem gjörbreyta mundu ásýnd landsins, er ekki sæstrengur, enda styrkir ESB ekki lengur slíkan til Bretlands, heldur uppboðsmarkaður raforku í skortástandi á Íslandi, þar sem eigendur vindorkuþyrpinga munu verða ráðandi fyrir endanlegt verð á markaðinum samkvæmt jaðarkostnaðarreglu OP3.  Hér er rétt að hafa í huga, að þrátt fyrir eindregin tilmæli í þá veru í OP3 að innleiða slíkan uppboðsmarkað raforku, er það ekki skylda aðildarlandanna. 

Forseti framkvæmdastjórnar ESB hefur nú gefið þetta kerfi upp á bátinn, því að framboðshliðin brást niðri í Evrópu.  Á Íslandi er framboðshliðin háð duttlungum náttúrunnar, og þess vegna er innleiðing þessa kerfis reist á misskilningi um áhrif þess á hagsmuni neytenda.  Að segjast ætla að innleiða þetta uppboðskerfi raforku í nafni hagsmuna almennings er léleg öfugmælavísa í ljósi skortstöðunnar á markaði.

  Þegar í stað á að hætta við afritun úrelts ESB-markaðar hjá dótturfélagi Landsnets og hefja þess í stað þróun á markaðskerfi raforku, sem sérsniðið sé við íslenzkar aðstæður.  Hugmynd að slíkri hönnun er þegar fyrir hendi í riti eftir íslenzkan verkfræðing, sérfræðing í orkumálum.    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávirkjanir

Sú var tíðin, að landsmenn fögnuðu hverri nýrri virkjun, sem framleiddi rafmagn, enda var löngum meiri eftirspurn en framboð af því í landinu.  Þótt meiri fjölbreytni sé í notkun rafmagns nú á dögum, var nýting þess býsna fjölbreytileg þegar í upphafi.  Það var nýtt til að lýsa upp híbýli og götur, til að knýja mismunandi hreyfla og í litlum mæli til upphitunar.  

Hafnfirðingurinn Jóhannes Reykdal hóf ævintýrið sama ár og fyrsti íslenzki ráðherrann, Hannes Hafstein, lögfræðingur og ljóðskáld, hóf störf í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu, 1904.  Fyrsta vatnsaflsvirkjunin, sem sögur fara af á Íslandi, var í Hamarskotslæk í Hafnarfirði, og er hægt að virða búnað hennar fyrir sér á upprunalega staðnum.  Hún sá 15 húsum og 4 götuljósum fyrir rafmagni. Í þá daga tók fólk peruna með sér, þegar það fór úr einu herbergi í annað.  Virkjunin mun síðar hafa knúið tæki á verkstæði Jóhannesar.  Virkjun þessi framleiddi jafnstraum, og dreifingin var á jafnstraumi, svo að ekki var hægt að senda raforkuna langt vegna spennufalls og orkutapa. 

Fjarðarselsvirkjun í Seyðisfirði er fyrsta riðstraumsvirkjunin hérlendis, og þaðan var fyrsti háspennustrengurinn á landinu lagður til að sjá hinum grózkumikla, brautryðjandi og fagra austfirzka kaupstað fyrir orku.  Þar var jafnframt fyrsta raunverulega dreifikerfið lagt.  Virkjunin er enn í rekstri, en er líka stórmerkilegt tækniminjasafn. Það varð snemma ljóst, að riðstraumstæknin hefði yfirburði umfram jafnstraumstæknina, t.d. varðandi möguleika til spennubreytinga, enda varð Fjarðarselsveitan fyrsta bæjarveita landsins. Jafnstraumurinn leikur þó mjög stórt hlutverk í iðnaði nú á dögum, t.d. við rafgreiningu súráls og vatns, og rafmagn er sums staðar flutt langar leiðir sem háspenntur jafnstraumur, ýmist eftir loftlínum eða jarðstrengjum.  Vel þekktir úr umræðunni hérlendis eru jafnstraumssæstrengir. 

Virkjanauppbygging í landinu gekk því miður hægt og uppbygging dreifikerfis einnig, og flutningskerfi í eiginlegum skilningi varð ekki til fyrr en með Sogsvirkjunum fyrir Reykjavík og nærsveitir, en fyrsta virkjunin þar Ljósafossstöð, 2x4,4 MW, var tekin í notkun 1937.  Þá fjórfaldaðist aflframboðið í Reykjavík, sem gerði íbúunum kleift að leggja kolaeldavélum sínum og setja upp rafmagnseldavélar og rafmagnsofna.  Virkjunin var stækkuð 1944 með 1x6,5 MW aflsamstæðu, svo að heildaraflgetan varð 15,3 MW og orkuvinnslugeta 105 GWh/ár. Írafossvirkjun var svo tekin í notkun árið 1953, svo að ótrúlega hægt gekk að virkja, og línulagnir sóttust jafnvel enn hægar. 

Svar landsmanna við þessum hægagangi yfirvaldanna við raforkuvæðingu landsins var að reisa smávirkjanir upp á eigin spýtur.  Árið 1950 var búið að reisa 530 smávirkjanir á landinu.  Hætt var rekstri þeirra flestra, þegar eigendum þeirra stóð til boða aðgangur að landskerfinu.  Nú er hægt að reisa smávirkjanir og selja orku frá þeim inn á dreifikerfin.  Í flestum tilvikum er þar um að ræða vatnsaflsvirkjanir á bilinu 1-10 MW.  Endurgreiðslutími hagkvæmra vatnsaflsvirkjunarkosta er í sumum tilvikum innan við 10 ár, og tæknilegur afskriftatími með hóflegum viðhaldskostnaði er yfir 40 ár. Fjárfesting í slíkum virkjunum er þess vegna arðsamari en margt annað.

Vestfirðingar búa við þá annmarka að vera ekki hringtengdir rafmagnslega, sem langflestir aðrir landsmenn þó eru.  Landskerfistenging þeirra er um Vesturlínu frá aðveitustöð í Glerárskógum í Dölum, sem er tengd Byggðalínu í aðveitustöð Hrútatungu í Hrútafirði.  Vesturlína frá Glerárskógum að Mjólká er líklega  bilanagjarnasta 132 kV flutningslína landsins, og þar sem virkjanir á Vestfjörðum geta aðeins staðið undir um 60 % orkuþarfarinnar, skellur straumleysi á Vestfirðingum á hverju ári svo að segja.  Tekizt hefur að stytta straumleysistímann hjá flestum notendum þar verulega með olíukyntri vararafstöð á Bolungarvík að uppsettu afli 10,8 MW.  Þetta er þó ófullnægjandi afhendingaröryggi raforku, sem veldur miklu tjóni nútíma atvinnulífs og heimila, og kostnaðarlega og umhverfislega aðeins bráðabirgðalausn, þegar þess er gætt, að Vesturlína getur verið straumlaus sólarhringunum saman.  

Fyrir utan tvöföldun Vesturlínu, sem er kostnaðarlega og tæknilega ófýsilegur kostur, eru 2 meginúrbætur nauðsynlegar á Vestfjörðum. Annar er sá að færa 60 kV flutningskerfið ásamt öllu dreifikerfinu af loftlínustaurum og í jarðstrengi.  Hinn er sá að gera íbúa Vestfjarða sjálfum sér nóga um raforku, þ.e. að raforkuvinnsla á Vestfjörðum dugi til að anna meðalraforkuþörf Vestfirðinga hið minnsta. Raforkuþörf Vestfirðinga fer ört vaxandi með aukinni mannaflaþörf af öllu tagi vegna vaxtarsprotans laxeldis, sem kemur nú sem himnasending á krepputíma og eykur mjög umsvif sín. Það er þó fleira á döfinni þar og auk ferðaþjónustunnar má nefna Kalkþörungaverksmiðjuna á Súðavík, sem mun þurfa um 10 MW afl. 

Á Vestfjörðum hefur verið kortlagður mikill fjöldi smávirkjanakosta undir 10 MW, sem gæti þjónað þörfum landshlutans vel.  Árið 2020 vann Verkfræðistofan Verkís skýrslu fyrir Vestfjarðastofu um smávirkjanakosti og kortlagði alls 68 virkjanakosti að uppsettu afli 79 MW.  Þar af eru 18 hagkvæmir m.v. núverandi orkuverð, og er uppsett afl þeirra alls áætlað 43 MW og orkugeta 202 GWh/ár, sem með núverandi virkjunum á Vestfjörðum mundu duga Vestfirðingum vel a.m.k. næsta áratuginn í orkuskiptunum. 

Með þeim umbótum, sem hér hafa verið nefndar, væri vel séð fyrir raforkuöryggi og raforkuþörf Vestfirðinga, án þess að þeir þurfi nema örsjaldan að grípa til neyðarrafstöðvarinnar á Bolungarvík.  Þessar framkvæmdir er vafalítið hægt að skipuleggja og hanna með lágmarksáhrifum á náttúruna og þeim öllum afturkræfum.  Þannig er ólíku saman að jafna við vindmyllur, sem eru mjög áberandi í umhverfinu, hávaðasamar og skaðræði fyrir fugla. Athafnasvæði vindmylla er stórt m.v. við framleiðslugetu þeirra, og mikið umrót verður á öllu athafnasvæðinu vegna djúpra grunna fyrir stórar steyptar undirstöður og rafstrengi frá hverri vindmyllu. Það er afar einkennilegt, að nokkrum skuli detta í hug, að það sé fýsilegur kostur að reisa vindmyllur í landi, þar sem nóg er af öðrum hagkvæmari og umhverfisvænni virkjunarkostum. Það er til vitnis um þær villigötur, sem umræða um orkumál á Íslandi hefur ratað í og fráfarandi orkumálastjóri gerði að umræðuefni í jólaávarpi sínu 2020.    

 Varmaorka

 

  


Heilsustofnun og gelísk áhrif

Um páskana dvaldi blekbóndi í góðu yfirlæti á HNLFÍ-Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í hressingarskyni.  Þar var viðamikil sameiginleg dagskrá, sem hver og einn gat spunnið við að vild.  Árangur af slíkri vist næst aðeins með góðum vilja til virkrar þátttöku í því, sem er á boðstólum.  Þá er þar sannarlega ekkert letilíf.

Mataræðið er reist á grænmetishráfæði og baunum, en fiski bregður þó einnig fyrir. Þá eru margs konar grænmetissúpur, grjónagrautur og jafnvel brauðsúpa með þeyttum rjóma á boðstólum.  Á morgnana er boðið upp á frábæran hafragraut ásamt ab-súrmjólk og ávöxtum og alls konar korni og kryddi. 

Ekki er félagslegi þátturinn minnsts virði, en dvalargestur getur kynnzt fjölda manns við matborðið, í dagskráratriðunum og á kvöldvökum, ef hann leggur sig eftir því.  Blekbóndi er þakklátur fyrir góð kynni við alls konar fólk á HNLFÍ, m.a. við samstúdent úr MR, sem hann hefur varla séð í tæpa hálfa öld. 

Fyrsta kvöldvakan, eftir að blekbóndi mætti á svæðið, fólst í átakamiklum sópransöng Bjargar Þórhallsdóttur við píanóundirleik Hilmars Arnar Agnarssonar og fyrirlestri Þorvaldar Friðrikssonar, fornleifafræðings og útvarpsmanns, um gelísk áhrif í íslenzku. 

Þar er fyrst til að taka, að af hálfu Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið sýnt fram á, að rúmlega 60 % af kvenfólki í hópi landnámsmanna hefur verið af keltneskum (gelískum) uppruna.  Sagnir eru til um stórhöfðingja í hópi landnámsmanna frá Suðureyjum, og má þar nefna Auði, djúpúðgu, og fjölda höfðingja, sem með henni komu, dreifðust um landið og tóku sér mannaforráð, en hún settist að í Hvammi í Dölum og er ættmóðir Sturlunga. Þannig verður bókmenntaáhugi og snilldartök Sturlunga auðskilinn.   

Fólkið frá Suðureyjum og annars staðar frá Skotlandi var kristið að keltneskum hætti, en kristin trú Kelta var með öðru sniði en rómversk-katólska kristnin, og Keltar viðurkenndu ekki páfann í Róm.  Biskupar Kelta höfðu lítil völd, en valdamest voru ábótar og abbadísir, enda hámenning stunduð í klaustrum Kelta, t.d. á sviði ritlistar.  Fjölmenni frá Skotlandi og Írlandi á Íslandi er skýringin á því, að hérlendis varð ekki borgarastyrjöld við kristnitökuna, eins og á hinum Norðurlöndunum, þar sem lítill minnihluti tróð trú sinni upp á alla hina.  Hérlendis gæti meirihluti íbúanna hafa verið kristinnar trúar eða velviljaður þeim trúarbrögðum áður en kristnitakan var formlega samþykkt á Alþingi vegna offors, hótana og ofbeldis Ólafs, Noregskonungs, Tryggvasonar. 

Ríkur gelískur arfur hérlendis er skýringin á einstæðri bókmenningu, sem hér reis hæst á árunum 1100-1300. Hvers vegna hefði bókmenning átt að rísa hátt á Íslandi afkomenda Norðmanna, þótt engin bókmenntahefð væri þá í Noregi ?  Slíkt er óhugsandi, nema fólk hefði tekið með sér bókmenntaarf.  Það er hins vegar einkennandi fyrir sagnaritarana, t.d. Ara, fróða, að þeir draga fjöður yfir eða gera lítið úr hinum gelíska uppruna þjóðarinnar, þætti Vestmanna, en gera sem mest úr landnámi Austmanna (Norðmanna) og nánum tengslum við Noreg.  Þetta kann að hafa verið gert að undirlagi rómversk-katólsku kirkjunnar, sem stóð þá að því að brjóta fornkirkju Keltanna á bak aftur og innleiða rétttrúnaðinn frá Róm á gelískum áhrifasvæðum. 

Það eru auðvitað mörg spor gelísku í íslenzku og fjöldi orða, sem engar rætur eiga í hinum norrænu málunum, en finna má í gelísku. Þorvaldur Friðriksson gaf mörg dæmi í fyrirlestri sínum á HNLFÍ í dymbilviku 2017 um orð í íslenzku af gelískum uppruna og fjöldamörg örnefni eru af gelískum stofni. T.d. bæjarheitið Saurbær hefur verið reynt að kenna við mýri, en með gelískri skírskotun þýðir það "miklibær", og það er mun nærtækari skýring, því að flestir Saurbæir eru kostajarðir, en mýri einkennir þá ekki umfram aðrar jarðir. 

Þá eru fjöldamörg örnefni kennd við tröllkarla, skessur eða annars óþekkta landnámsmenn.  Mest er það tilbúningur sagnaritara, sem annaðhvort hafa ekki skilið merkingu orða af gelískum uppruna eða viljað breiða yfir hana með skáldskap. 

Verður mikill fengur að bók Þorvaldar um þessi efni, og er löngu tímabært að draga huluna af hinum gelíska þætti í uppruna og menningu Íslendinga. Frá hefðbundnum fræðimönnum á þessu sviði hefur hann ekki hlotið gegnrýni, þegar hann hefur kynnt kenningar sínar, enda eru þær studdar sterkari rökum en þeir sjálfir eru í færum til að styðja sitt mál. 

Í Íslendingabók skrifar Ari Þorgilsson, að hann hafi viljað varpa ljósi á uppruna Íslendinga til að kveða niður illmælgi útlendinga um, að Íslendingar væru af þrælum komnir, og er þá aðallega átt við fólk af gelískum uppruna.  Þetta er fásinna.  Í fyrsta lagi voru fjölmargir frjálsir menn í þeim hópi, sem kaus af pólitískum og öðrum ástæðum að flýja til Íslands eða leita þar betra lífs.  Í öðru lagi var vænn hópur, sem Austmenn hnepptu í þrældóm og höfðu með sér til Íslands sem nauðsynlegt vinnuafl og eru á engan hátt verri fyrir það.  Í þriðja lagi höfðu Austmenn búið á Skotlandi og á skozku eyjunum í eina öld og blandazt Keltunum, er Ísland byggðist.  Það var þannig mestmegnis blandað fólk, sem bjó við kraftmikla menningu, sem hingað kom frá gelískum áhrifasvæðum, og engin skömm að því. Einhvers staðar liggur hér fiskur undir steini. Það er líklegt, að trúarbragðadeilur og yfirgangur Rómarkirkjunnar gagnvart Keltakirkjunni hafi byrgt hérlendum mönnum sýn. 

Blekbóndi óskar lesendum gleðilegs sumars. 


Nýtt upphaf

Jólahátíðin markar nýtt upphaf.  Hún er haldin á árstíma stytzta sólargangs.  Héðan í frá mun sól hækka á lofti, sem að lokum mun duga til að kveikja nýtt líf; náttúran mun lifna við enn á ný.  Þetta er guðdómleg endurnýjun og hringrás. 

Jólasaga kristinna manna snýst um þetta; fæðingu barns, sem reyndar hafði orðið til með yfirskilvitlegum hætti í móðurkviði.  Barn þetta óx og dafnaði og tók út mikinn andlegan þroska, eins og sögur herma.

Eðlilega hefur boðskapur Jesú, Krists, haft mikil áhrif í mannheimi, en hann hefur samt ekki breytt eðli mannsins.  Það eru þó fjölmörg dæmi um breytta hegðun vegna kristins boðskapar, en mikil illska er þó í kristnum samfélögum, eins og öðrum, og ókristileg hegðun.

Kristnir menn verða líka að viðurkenna, að sterkar siðferðiskenningar eru boðaðar af fleirum en kristnum mönnum, og ekki má fordæma guðleysingja.  Þeir geta verið siðavandir, tillitssamir við meðborgara sína og hinir mætustu menn ekki síður en kristnir.  "Homo sapiens", hinn viti borni maður, hefur náð þroskastigi siðvædds dýrs, þó að siðmenning hans sé brotakennd á köflum. 

Út af fyrir sig ættu allir að geta sameinazt um fegurð jólaboðskapar kristinna manna.  Sannleiksgildi sögunnar er aðalatriði fyrir trúaða, en boðskapurinn getur orðið hinum aðalatriði.  Fólk á að geta tekið sér til fyrirmyndar kristilegan boðskap um umburðarlyndi, miskunnsemi, tillitssemi og stuðning við sína minnstu bræður, þó að það trúi ekki biblíunni.  Það er vegna þess, að slík hegðun höfðar til þess í manninum, sem honum þykir vera gott og rétt.

Þetta er út af því, að maðurinn hefur samvizku.  Hann getur greint á milli góðs og ills, þó að hann geri það ekki alltaf.  Þess vegna getur maðurinn tileinkað sér góða siði og lifað í siðuðu samfélagi.

Annað mjög athyglivert við manninn er, að samfélög hans geta auðveldlega lent í höndum kúgara, en hann virðist að lokum alltaf ná að slíta af sér heljarfjötrana.  Þetta upplifðum við í ríkum mæli á 20. öldinni, sem var öld öfganna.  Lénsskipulagið, sem verið hafði við lýði frá upphafi fastrar búsetu, leið undir lok í Evrópu í heimsstyrjöldinni fyrri, 1914-1918, og eðlilega tóku þá við umbrotatímar eftir slík Ragnarök.  Einræði skólagenginna kaffihúsasnata, sem smjöðruðu fyrir verkalýðnum, tók við í Rússlandi, sem leiddi af sér hræðilegar hörmungar fyrir rússnesku þjóðina og allar þjóðir Ráðstjórnarríkjanna. 

Í öðru höfuðríki Evrópu, Þýzkalandi, var keisaranum steypt af stóli, og við tók lýðræði með miklu frelsi einstaklinganna í Weimarlýðveldinu, tækniþróun og þjóðfélagslegri gerjun, þar sem borgarastéttin náði þjóðfélagslegum undirtökum af aðlinum.  Versalasamningurinn 1919 batt þó Þjóðverjum slíka skuldaklafa, að ríkið átti sér ekki viðreisnar von.  Saman fór geigvænlegt atvinnuleysi og óðaverðbólga, sem varð Weimarlýðveldinu að falli í lok janúar árið 1933.

Upp úr þessum jarðvegi spratt þjóðernisjafnaðarstefnan.  Adolf Hitler, formaður þjóðernisjafnaðarmanna, lofaði Þjóðverjum hefnd eftir ófarir heimsstyrjaldarinnar fyrri og hefnd fyrir Versalasamningana.  Þjóðernisjafnaðarmenn kyntu undir ólgu með svikabrigzlum í garð Reichswehr, hers keisaradæmisins, og í garð samningamanna Þjóðverja, sem voru þvingaðir til að skrifa undir Versalasamningana. Þjóðernisjafnaðarmenn náðu um þriðjungi atkvæða, sem dugði þeim til að hrifsa til sín völdin árið 1933 vegna veiks forseta, Hindenburgs, hershöfðingja.  Reichstag undir stjórn þjóðernisjafnaðarmanna hætti strax að greiða stríðsskaðabætur, og ríkisstjórn þeirra sett alla menn til verka.  Þjóðverjar hófu framleiðslu Volkswagen, alþýðuvagnsins,  handa verkamönnum Þýzkalands, og reistir voru verkamannabústaðir.

Í stefnu þjóðernisjafnaðarmanna voru hins vegar efnisatriði, sem áttu eftir að leiða til tortímingar og óþarft er að rekja hér. Þriðja ríkið, sem stundum var kallað þúsund ára ríkið, stóð aðeins í 12 ár.  Því var tortímt.  Í grundvöll ríkisins vantaði algerlega hin kristnu gildi, sem tíunduð eru hér að ofan og eru nauðsynleg í hverju siðuðu samfélagi.  Þau geta heitið eitthvað annað en kristni, en innihaldið er ætíð hið sama.  Þau eru hverjum manni nauðsyn, ef hann og hans fjölskylda á að eiga möguleika á að ná nokkrum þroska og að lifa hamingjusömu lífi.  Við þurfum ætíð að huga að hinu siðræna, þegar við hrífumst af einhverjum boðskap, og setja frelsi einstaklingsins ofar réttindum ríkisins í nafni einhverja stjórnmálakenninga.   

     Íslenzki þjóðfáninn

  

    

 


Finnsku hrossin og markaðirnir

Á fjölum Þjóðleikhússins er nú finnska verkið, "Finnski hesturinn".  Þar greinir frá örlögum finnskrar bændafjölskyldu eftir inngöngu Finnlands í Evrópusambandið, ESB.  Er þar skemmst frá að segja, að allri framleiðslu á búinu hefur verið hætt, en gert er út á styrkveitingar ESB til finnskra bænda til aðgerðarleysis.  Þetta leiðir auðvitað til siðferðisupplausnar í rótgrónu bændasamfélagi og endar með gjaldþroti og því, að bændurnir flosna upp af jörðum sínum.

Kveður hér við töluvert annan tón en Finnar láta uppi opinberlega, en þó er þetta í samræmi við málflutning íslenzku bændasamtakanna, sem kynnt hafa sér stöðu landbúnaðar á Norðurlöndum út í hörgul.  Er einboðið, að innganga Íslands í ESB væri líkleg til að leiða svipuð örlög yfir íslenzka bændur og þá finnsku.  Slíkt viljum við alls ekki hafa, heldur kaupa innlendar landbúnaðarafurðir sem einhverja þá mestu gæðavöru á sviði matvæla, sem fáanleg er.  Með útflutningi til þjóða, sem komnar eru í álnir, en anna þörf sinni á sviði matvæla ekki lengur, má auka framleiðni og lækka framleiðslukostnað íslenzks landbúnaðar á hverja framleidda einingu.

Nei við ESBFeðgarnir í téðu leikverki reyna fyrir sér með hrossaprangi innan Evrópu, langt suður í álfu, með hrapallegum afleiðingum.  Nú hefur forstjóri Landsvirkjunar tjáð áhuga sinn á, að Landsvirkjun reyni fyrir sér með orkuviðskiptum á meginlandi Evrópu eða á Stóra-Bretlandi.  Hér verður sýnt fram á, að sæstrengur þangað yrði skelfilegt útrásarævintýri, þ.e. þetta er hugmynd, sem tiltölulega auðvelt er að reikna út, að hæglega getur orðið að martröð gríðarlegs taps, verði hún að veruleika.  Er ömurlegt til þess að vita, að Landsvirkjun skuli nú vera á braut spákaupmennsku með orkulindir landsins í stað þess að nýta þær með öruggum og traustum hætti innanlands til framleiðslu á útflutningsvörum eða gjaldeyrissparandi vörum til eflingar íslenzku athafnalífi og hagkerfi. 

Af þessu tilefni er rétt að rifja upp, það sem ritað var um þennan forstjóra í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 19.11.2010, "Draugurinn vakinn upp":  "Steingrímur J. er aftur tekinn til við að panta yfirlýsingar frá stórforstjórum, þ.á.m. frá ríkisforstjóranum í Landsvirkjun.  Sá setti ofan með undirlægjuhætti sínum.  Forstjórinn vildi, að þjóðin tæki á sig tugi eða hundruð milljarða, svo að hann gæti átt þægilegra spjall við erlenda bankamenn.  Yfirlæti stórforstjóra í garð íslensku þjóðarinnar hefur lítið breyst frá 2007.  Og kanski hafa slíkir ekki áttað sig á, að virðing hennar fyrir slíkum er minni en hún var." 

Hér er vitaskuld Icesave umræðuefnið, en það er margt fleira skrýtið í kýrhausnum.  Eitt er undirbúningur Landsvirkjunar að uppsetningu vindmylla á Íslandi, en hitt eru gælur forstjórans við hugmyndina um sæstreng til meginlands Evrópu eða Stóra-Bretlands.  Það skýtur skökku við, að ríkisfyrirtæki á Íslandi sé að eyða fé í andvana fæddar hugmyndir fyrir íslenzkt umhverfi.

Engin þjóð, með alla sína raforkuvinnslu úr afar samkeppnihæfum og sjálfbærum orkulindum, lætur sér til hugar koma að setja upp vindmyllur, sem eru svo óhagkvæmar, að orkan frá þeim er alls staðar niðurgreidd, þó að þar sé að stofni til um að ræða eldsneytisknúin raforkuver og þar af leiðandi hærra raforkuverð en á Íslandi.  Vindmyllur á Íslandi, þar sem raforkuverð er nú einna lægst í heiminum, mundu einvörðungu leiða til hækkunar raforkuverðs til notenda eða útgjalda úr ríkissjóði.  Rætt er um, að vindmyllur gætu sparað vatn í miðlunarlónum, en þá er hinn kosturinn ólíkt hagkvæmari og umhverfisvænni að auka miðlunargetu safnlónanna. Vindmyllur mundu verða til mikilla lýta, þær valda fugladauða og eru hávaðasamar í grennd.  Fyrir ferðamennskuna væru þær fráhrindandi, en ekki aðdráttarafl, eins og vatnsafls-og jarðvarmavirkjanir þó klárlega eru.

norned_hvdc-cable-work-3Á vegum Pöyry Management Consulting (Norway) AS og Thema Consulting Group í Noregi hefur verið gerð mjög ítarleg skýrsla um viðskipti á milli norræna og evrópska raforkumarkaðarins á meginlandinu, sem heitir: Challenges for Nordic Power: How to handle the renewable electricity surplus. 

Þar eru leidd rök að því, að 20-20-20 markmið ESB, þ.e. lækkun orkunotkunar um 20 %, aukning orkunýtni um 20 % og minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu um 20 %, allt á árinu 2020, muni leiða til virkjunarátaks á Norðurlöndunum og umframorku þar af þeim sökum um allt að 46 TWh/a, sem er 2,7 sinnum núverandi raforkuvinnsla Íslands.  Verðið, sem skýrsluhöfundar telja, að fengist á hinum evrópska markaði meginlandsins árið 2020 er afar breytilegt eða á bilinu 29 evrur/MWh - 76 evrur/MWh, allt eftir árferði. 

Við þessar markaðsaðstæður mundi Landsvirkjun þurfa að keppa, ef hún sendir orku um sæstreng niður til Evrópu.  Sæstrengur er feiknadýr, á öðrum enda hans þarf að reisa afriðlavirki og á hinum áriðlavirki.  Auk virkjana að afli á borð við Kárahnjúkavirkjun þarf að styrkja stofnkerfið, þ.e. meginflutningskerfi raforkunnar, umtalsvert.  Gríðarleg orkutöp, í heild e.t.v. um 20 %, verða í öllum þessum mannvirkjum.  Bilunum má búast við í búnaði, sem er í raun í þróun og á mörkum tæknigetunnar.  Af öllum þessum ástæðum mundi Landsvirkjun þurfa 130 - 150 evrur/MWh, eða tvöfalt til fimmfalt verðið, sem í boði verður. 

Landsvirkjun hefur gert ofurbjartsýnilega frumkostnaðaráætlun um sæstreng til Skotlands, 1170 km að lengd.  Við gerð þessarar áætlunar er teflt á tæpasta vað, reiknað með 700 MW flutningsgetu og orkusölu 5200 GWh/a, sem jafngildir 7430 klst (85 %) nýtingartíma á ári, töpum í streng 6 %, strengendingu 30 árum og raforkuverði 60 EUR/MWh.  Telja verður hæpið að reisa arðsemiútreikninga á rauðlituðu tölunum.  Jafnvel að þeim forsendum gefnum fær höfundur þessa pistils, að verð raforkunnar við móttökuenda verði að ná 130 EUR/MWh.  Græna talan hér að ofan, sem Landsvirkjun gefur sér sem fáanlegt verð, er alveg út í hött árið 2020 m.v. niðurstöður téðrar norsku skýrslu um fáanlegt orkuverð á meginlandinu 2020, sem er þó mun hærra en verðlag orku á Skotlandi. 

Það er erfiðleikum háð að senda orkuna áfram suður frá Skotlandi vegna takmarkaðrar flutningsgetu.  Landsvirkjun virðist ekki hafa reiknað með neinum kostnaði við styrkingu flutningskerfisins á Skotlandi vegna þessara 700 MW.  Einfaldir útreikningar sýna, að enginn viðskiptalegur grundvöllur er fyrir sæstreng frá Íslandi, hvorki til Noregs, Skotlands né meginlands Evrópu.  Norska skýrslan gerir ráð fyrir orkuverði 60-89 EUR/MWh á meginlandinu árið 2030, og það er langt undir lágmarksverðinu, sem Landsvirkjun þyrfti. Landsvirkjun undir nýrri stjórn virðist ekki þekkja sinn vitjunartíma.  

norned_hvdc_europeRíkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á aðeins að fást við þjóðhagslega hagkvæm verkefni.  Það gefur t.d. auga leið, að miklu hagkvæmara er að framleiða ál á Íslandi og að flytja það með skipi til meginlandsins en að flytja orku um streng til Evrópu og framleiða þar ál með "sömu" orku.  Ástæðan er sú, að flutningskostnaður raforku um sæstreng er margfaldur á við flutningskostnað áls með skipi. 

Hér hefur verið sýnt fram á, að stórkostlegt þjóðhagslegt tap yrði af raforkuútflutningi um sæstreng, en að sama skapi er verulegur þjóðhagslegur gróði af sölu raforku til álvera og af starfsemi þessara sömu álvera á Íslandi.  Ástæðan er sú, að féð, sem eftir verður af veltu álvers innanlands, nemur a.m.k. tvöföldun þess fjár, sem einvörðungu fæst fyrir orkuna.  Frá sjónarmiði samfélagshagkvæmni er þess vegna einboðið, að Landsvirkjun á að einhenda sér í að virkja og selja meiri orku til álvera, og landsmenn að styrkja viðskiptastöðu sína gagnvart Evrópu með því að selja þangað meira af áli í takti við samdrátt álframleiðslu annars staðar í Evrópu vegna skorts þar á sjálfbærum og hagkvæmum orkulindum. 

Landsvirkjun virðist nú um stundir vera sama markinu brennd og ríkisstjórnin.  Forgangsröðunin er óskiljanleg og áherzlurnar virðast vera á gæluverkefnum, sem eiga hvergi annars staðar heima en í ruslafötunni.

 

 

 

 

 

 

 

 

       


Ísland er land þitt

Við áramót er við hæfi að líta fram á veginn og einnig að horfa til baka.  Horft er til baka til að draga lærdóma af hinu liðna til gagns fyrir stefnumörkunina á þessari vegferð.  Augljóslega mun ársins 2008 verða getið í Íslandssögunni og í mannkynssögunni vegna þess, að atburðir þess munu hafa langvarandi áhrif á þróun samfélagsins á Íslandi og um allan heim. 

Í þessu sambandi er vert að minnast afmælis Þróunarkenningarinnar, en á árinu 2009 verða 150 ár liðin frá útgáfu ritverks Charles Darwins, "Um uppruna tegundanna".  Er furðulegt til þess að hugsa, að fyrir 5 kynslóðum var Sköpunarsaga Gamla testamentisins, "Genesis", enn viðtekin skýring á lífríki jarðar.   

En þróunarkenningin hefur verið mistúlkuð og misnotuð herfilega, t.d. af stjórnmálaöflum, sem gerðu út á kynþáttafordóma með áróðri um yfirburði eiginn kynstofns.  Átti m.a. að sanna þessar kenningar á Olympíuleikunum í Berlín 1936, en það mistókst, eins og kunnugt er.  Þróunarkenningin sýnir ekki fram á yfirburði neins kynstofns, hvað þá þjóðar, en hún sýnir okkur, hvaða öfl eru að verki í sífelldri lífsbaráttu tegunda og einstaklinga. 

Enn vinna vísindamenn með þróunarkenninguna, þróa hana og skýra margt í mannlegu eðli og hegðun með henni.  Samkvæmt þróunarkenningunni knýja tveir frumkraftar þróunina áfram, þ.e. baráttan um að komast af, lífsbaráttan, og baráttan um að dreifa erfðamengi sínu, genum, með öruggum hætti fyrir framtíðina, eignast afkomendur.  Af þessu tvennu er hið síðar nefnda sterkara. 

Darwinistar hafa sýnt fram á, að sameignarstefnan stríðir gegn þróunarkenningunni, þ.e. ofangreindir tveir frumkraftar í manneðlinu grafa undan miðstjórnarvaldi, sem reynir að gera alla jafnfátæka.  Jafnaðarstefna, sem ekki leysir úr læðingi öfl frjálsrar samkeppni, skilar þjóðfélaginu lægri hagvexti en frjáls markaðsbúskapur.  Það liggur hins vegar í mannlegu eðli að leitast við að losa sig við samkeppni.  Verði sú raunin á í viðskiptalífinu, dregur líka úr æskilegri valddreifingu, sem endar með óþolandi spillingu.  Hlutverk valdhafa í lýðræðis þjóðfélagi er þess vegna að hlúa að heilbrigðri samkeppni á öllum sviðum. 

Samkvæmt þróunarkenningunni er "homo sapiens", hinn vitiborni maður, reistur api.  Til að hámarka afkomumöguleika sína héldu menn saman í hópum, en þessir hópar elduðu iðulega grátt silfur saman í baráttunni um lífsgæðin, t.d. veiðilendur og síðar ræktarland.  Hugarfarið "við og hinir" er mjög ríkt í manninum.  Það er mjög lítill munur á mönnum, sem hundstungan finnur ekki.  T.d. sá enginn mun á Króata og Serba.  Eini munurinn voru rómversk og grísk katólsk trúarbrögð, þ.e.a.s. munur var á menningunni.  Það dugði til að hleypa öllu í bál og brand á milli þeirra.  Tungumál er annað, sem nægir til að skilja á milli hópa, að ekki sé nú minnzt á hörundslitinn.  

Viðvarandi ófriðarástand máttu þjóðir Evrópu lengi vel búa við og eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar Evrópa var í efnislegum og siðferðislegum rústum, var svo komið, að flestir sáu, að við svo búið mátti ekki standa.  Guðfeður forvera Evrópusambandsins, ESB, Frakkarnir Schuman og Monét, beittu sér fyrir því, að hagsmunir Frakka og Þjóðverja yrðu svo samtvinnaðir, að báðum yrði hagfelldast að halda friðinn. Þetta stendur enn, en vandinn við ESB er sá, að enginn veit, hvaða stefnu sambandið tekur, þó að mantran í Brüssel sé "an ever closer union". 

Rauði þráðurinn í ESB, nú síðast evran, er ótti við mátt Þýzkalands og tilraunir til að halda Þýzkalandi í skefjum.  Stjórnvöldin í Berlín eru hins vegar nú um stundir hörðustu talsmenn þess að breyta ríkjasambandinu, ESB, í sambandsríki Evrópu með stjórnarskrá Sambandsríkisins Þýzkalands að fyrirmynd.  Hörðustu andstæðingar þessa fyrirkomulags eru Bretar, sem vilja hvorki fórna sjálfstæði "The Parliament" né sterlingspundinu.  Bretar kjósa helzt, að ESB starfi sem tollabandalag, og vilja þeir geta ræktað samband sitt við Brezka heimsveldið og Norður-Ameríku óháðir afskiptum Berlínar, Parísar, Madrídar eða Rómar.   

Nýja Sjáland 2008-001Það er fagnaðarefni, að friður skuli hafa haldizt í Evrópu frá lokum Ragnarakanna 1939-1945, ef undan er skilinn ófriðurinn á Balkanskaga, þegar Júgóslavía leystist upp.  Við Íslendingar eigum mikið undir því, að Evrópu vegni vel og viljum taka þátt í samstarfi Evrópu ríkjanna á viðskipta sviðinu.  Á hernaðarsviðinu í samstarfi Evrópu höfum við ekkert fram að færa og verðum að láta aðildina að NATO duga, sem er nauðsynlegt og nægjanlegt fyrir okkur á því sviði.  Ágreiningurinn innanlands snýst aðallega um samstarfið við ESB á stjórnmálasviðinu. 

Andleg uppgjöf hérlendis nú um stundir lýsir sér m.a. í skoðunum af því tagi, að óstjórn og spilling geti ekki versnað við að færa völdin til Brüssel.  Það er þó næsta víst, að með slíku ráðslagi væri farið úr öskunni í eldinn.  Spillingin grasserar í Brüssel.  Hundruðir milljóna evra týnast á hverju ári í meðförum embættismanna sambandsins.  Hrossakaup og klíkuskapur einkenna fjárveitingar og styrki af öllu mögulegu og ómögulegu tagi innan ESB.  Bullandi óánægja ríkir með fjárreiðurnar.  Bókhald rekstrarreiknings ESB hefur ekki hlotið samþykki lögformlegra staðfestingaraðila um árabil.  Í Brüssel ríkir sem sagt sukk og svínarí, enda er skortur á lýðræðislegu aðhaldi þar á bæ.  

Það er alrangt, sem sagt er, að þeir, sem gjalda vilja varhug við fullri aðild að ESB, séu einangrunarsinnar.  Þetta eru í raun örgustu öfugmæli um marga þeirra, sem kenna vilja sig við alþjóðahyggju og frelsi í viðskiptum heimshorna á milli. Á þetta bæði við um hægri-og vinstri menn í hópi fullveldissinna.  Sumir vinstri menn eru á móti ESB af því, að þeir telja það vera brimbrjót auðvaldsins, sem leiði til valdaójafnvægis verkalýð hvarvetna í óhag, og að það sé verkæri til að svæla undir sig nýja markaði, t.d. í Austur-Evrópu.  Hægri menn óttast á hinn bóginn aukna miðstýringu, háskattasamræmingu  og reglugerðafargan, sem leiði til minni hagvaxtar en ella.  Fullveldissinnar, bæði í hópum hægri-og vinstri manna, óttast jafnframt ólýðræðislega uppbyggingu ESB, þar sem stefnumótun og dagleg vinna fer fram á vegum framkvæmdastjórnar ESB, sem skipuð er til 5 ára í senn og þarf ekki að standa neinum kjósendum reikningsskap gerða sinna.  Þing ESB er sundurleitt og valdalítið og getur ekki veitt framkvæmdastjórninni aðhald í sama mæli og þjóðkjörin þing veita ríkisstjórnum aðhald. 

Sú klisja gengur, að með ESB sé loksins kominn vettvangur fyrir smáríki Evrópu til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópu.  Stóru ríkin eru orðin þreytt á möguleikum minni ríkja til að "þvælast fyrir ákvarðanatöku" og vilja formleg völd í hlutfalli við mannfjölda.  Þetta var megininntak stjórnarskráarinnar, sem felld var í kosningum af Frökkum og Hollendingum, og er megininntak arftaka hennar, Lissabon sáttmálans, sem nú er í staðfestingarferli og Írar felldu, en verða látnir greiða atkvæði um að nýju árið 2009.

Sagt er, að andstaða við fullveldisframsal sé tímaskekkja á tímum alþjóðavæðingar.  Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni.  Með fullri aðild að ESB fórnum við fullveldinu á altari "Evrópuhugsjónar", sem enginn getur lengur skilgreint, hvað er, en getur hæglega leitt til myndunar stórríkis Evrópu.  Við getum ekki gert okkur neinar vonir um áhrif á stefnumörkun í mannhafi 400-500 milljóna manna.  Við mundum við inngöngu kasta frá okkur stjórntækjum eigin ríkis í gin þessa tæpa hálfa milljarðs.  Um mótun utanríkisstefnu og gerð viðskiptasamninga væri íslenzka ríkið gjörsamlega háð fulltrúum þessara tæplega 500 milljóna íbúa.

Síðast en ekki sízt felst mikil áhætta í því fyrir auðlindastjórnun og frelsi Alþingis á öðrum sviðum, t.d. til að ákveða skattlagningu þegnanna, að deila fullveldi örþjóðar með risaríki. 

Alþingishúsið Sagt hefur verið, að sameining Evrópu sé söguleg þróun og Ísland fái ekki staðizt utan hennar og sé núverandi staða landsins til marks um þetta.  Hér er hættuleg nauðhyggja á ferð, fordómar og þröngsýni.  Með þetta sjónarmið að leiðarljósi værum við enn í ríkjasambandi við Dani.  Það er grundvallar atriði fyrir óhefta þróun íslenzks efnahags-og menningarlífs að hafa fullt svigrúm til samstarfs í allar áttir, t.d. við Bandaríkin, sem léku lykilhlutverk hér við lýðveldisstofnunina 1944 og við varnir landsins í heimsstyrjöldinni síðari og á dögum Kalda stríðsins.  Enn höfum við varnarsamning við BNA, sem er eina ríkið í NATO, sem veitt getur okkur raunhæfa hervernd, ef í harðbakka slær. Þá eru okkur og mikils um verð samböndin við Kanada, þar sem fjölmargir frændur okkar og frænkur flestra búa.  Ekki má gleyma Rússum, feiknaauðugum að auðlindum, sem brugðizt hafa vel við hjálparbeiðni okkar oftar en einu sinni, þegar Vesturveldin brugðust, enda minnast þeir enn skipalestanna til Murmansk, á tímum heljarátaka Þýzkalands og Rússlands, sem viðdvöl höfðu í Hvalfirði.  

Mörgum er staða gjaldmiðils okkar hugleikin og velta fyrir sér, hvaða stefnumörkun muni verða affarasælust í gjaldmiðilsmálum.  Höfundur þessarar vefsíðu hefur ekki komizt að niðurstöðu í þeim efnum, en telur, að unnt eigi að vera að nálgast hagkvæmustu lausn með því að reikna út, hver gjaldmiðlanna, ISK, evru, bandaríkjadals, CHF, NOK, jafnvel sterlingspunds, hefðu gefið okkur hæstan hagvöxt síðast liðinn áratug.  Ljóst er, að í fjármálaumróti undanfarinna mánaða hefur evran veitt skjól, sem minni ríki evrusvæðisins hefur munað mest um.  Hins vegar hefur evran ekki staðið undir hagvaxtarvæntingum höfunda sinna.  Þeir reiknuðu með skarpari samkeppni í kjölfar evru, sem knýja mundi hagvöxt.  Hagvöxtur á evrusvæðinu hefur hins vegar helmingazt frá upptöku hennar og verið aðeins 0,8 % að meðaltali.  Þetta er sumpart skýrt með því, að evran veiti skjól og sé þess vegna letjandi fyrir umbætur. Tekjur á mann eru á evrusvæðinu enn aðeins 70 % af því, sem þær eru í Bandaríkjunum, BNA. 

Hækkun launa á evru svæðinu 1999-2007

Gjaldmiðillinn er mikilvægasti stiki (e."parameter") efnahagskerfisins.  Þetta fá nú þjóðir innan og utan evru svæðisins glögglega að reyna.  Súluritið hér til hliðar sýnir launaþróun á evru svæðinu. Efstu löndin eiga nú í stórfelldum útflutningserfiðleikum, því að framleiðniaukning hélzt ekki í hendur við launahækkun.  Þýzkaland er þarna neðst og stendur nú með pálmann í höndunum.  Bretland lenti í verri þrengingum en flest löndin á evru svæðinu.  Nú lagar sterlingspundið sig hins vegar að erfiðri stöðu Breta, gengi þess fellur og léttir þar með Bretum róðurinn. 

Það er algert ábyrgðarleysi að kasta krónunni að óathuguðu máli. Það þarf að fara í vandaðar áhættugreiningar áður en við veljum okkur framtíðar mynt.  Enginn veit, hvað framtíðin ber í skauti sér, og þess vegna er ekki hægt að yfirfæra niðurstöðu úr fortíðarútreikningum yfir á framtíðina óvissulaust. Menn draga úr óvissunni með næmnigreiningu á mismunandi valkostum.  Niðurstaðan ræðst líka í viðtölum við viðkomandi seðlabanka og ríkisstjórnir.  Gjaldmiðilsval er flókið hagfræðilegt og stjórnmálalegt úrlausnarefni, og beita verður beztu þekktu aðferðum við undirbúning slíkrar ákvörðunar.  Undirbúningur ætti að hefjast strax, ef gagnasöfnun er ekki þegar hafin.

Undirrót fjármálakreppunnar nú og áður telja sumir menn megi rekja til rangrar peningamagnsstefnu flestra seðlabanka heimsins.  Of mikið peningamagn í umferð miðað við þróun sparnaðar blási út verðlagsbólur, sem springi með voveiflegum afleiðingum.  Þessi skoðun styðst við kenningar austurrísku hagfræðinganna Ludwig von Mises og Friedrich Hayeks.  Af þessari kenningu má draga þá ályktun, að réttast sé að einkavæða peningaútgáfuna, gefa hana frjálsa.  Er e.t.v. unnt fyrir Ísland að komast hjá notkun ríkisgjaldmiðils ?  Myndin hér að neðan sýnir, að evran er engin trygging fyrir sama vaxtastigi á evru svæðinu.

Ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa

Hér að neðan er tengill að undurfagurri myndasýningu frá Íslandi, sem gæti borið heiti þessarar greinar, en er Ísland séð með augum Svisslendingsins Ursulu Riesen, sem hér hefur ferðazt um á reiðhjóli.  Undir þessari sýningu er tilvalið að leika hið tilfinningaþrungna "Tearing and Breaking" með Phil Collins, sem er þarna einnig undir tengli. Undir þriðja tenglinum er sama myndasýning með fyrrgreindri tónlist samfléttaðri.

 

  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrirheitna landið

Nú er jólamánuðurinn genginn í garð.  Mjög snögg umskipti til hins verra hafa orðið á flestum heimilum landsins, margir verða að breyta háttum sínum, sumir Íslendingar upplifa nú skort í fyrsta sinn.  Orsök þessa hörmulega ástands má rekja til fjármálakreppu um allan heim af völdum óhóflegrar skuldsetningar víða með Japan og Þýzkaland sem undantekningar.   Efnahagskreppan fer samt ekki framhjá þessum löndum, sem sýnir glögglega, að hér er um heimskreppu að ræða. Feiknarleg skuldsetning íslenzkra banka, margra annarra innlendra fyrirtækja og einstaklinga er meginorsök þess, að "íslenzka efnahagsundrið" hrundi eins og spilaborg. 

FViðskiptajöfnuður og neyzla í Þýzkalandi og Japanyrir um 2500 árum leiddi Móses þjóð sína úr ánauð Faraóa Egyptalands.  Fyrir neðan þessa vefgrein er tengill að stórkostlegri myndasýningu frá Egyptalandi, sem mér barst nýlega frá Svisslendinginum Ursulu Riesen.  Eru lesendur hvattir til að koma sér vel fyrir og hverfa í huganum til Egyptalands á meðan þeir njóta einstakra mynda og gullkorna frá Ursulu Riesen. 

Nú þurfa Íslendingar á því að halda að verða leiddir út úr eyðimörk efnahagsófara.  Eftir er að sjá, hvort einhver nýr foringi stígur fram á sviðið til að veita þjóð sinni leiðsögn út úr þessari eyðimörk.  Móses er aðeins eitt af mörgum dæmum um mikilhæfa forystumenn, sem komið hafa fram á örlagastundu. 

Dansinn í kringum gullkálfinn gekk hér út í öfgar.  Nýtt gildismat þarf að eiga sér stað.  Hins vegar er efnaleg velferð íslenzka þjóðfélaginu nauðsyn, ef það á að standast öðrum snúning.  Eiga Íslendingar enn möguleika í samkeppni við önnur efnahagskerfi ? Svarið er, að með dugnaði og ráðdeild, góðu skipulagi, hugkvæmni, jöfnun tækifæra, umbun eftir framlagi og öflugum stuðningi við þá, sem minna mega sín, eru góðir möguleikar á, að lífskjör hérlendis verði aftur á meðal þess bezta, sem þekkist. 

Hvernig á að fjármagna þessar framfarir ?  Auðlindir Íslendinga eiga að verða undirstaða sóknar til bættra lífskjara.  Fiskimið, ár og vötn, ræktarland, úthagi og lindarvatn eru lítt eða jafnvel ómengaðar matarkistur hverra verðmæti fara vaxandi í heimi sívaxandi fólksfjölda, þar sem mengun og veðurfarsbreytingar gera manninum æ erfiðara fyrir.  Skógrækt og landgræðsla eru stórverkefni, sem unnt verður að fjármagna með sölu koltvíildiskvóta. 

Mikið verðfall afurða og eigna, fasteigna og hlutafjár, ofan í mikla skuldsetningu, hefur þrengt stöðu margra fjárfesta til muna.  Þegar þeir rétta úr kútnum, munu þeir hyggja fljótt á fjárfestingar til að verða tilbúnir í næstu uppsveiflu.  Við Íslendingar búum að orkulindum, sem heiminn þyrstir í.  Við eigum að grípa tækifærin strax og þau gefast og virkja vatnsföll og jarðgufu til að knýja iðjuver af því tagi, sem fáanleg eru hingað til lands.  Þannig breytum við orku í gjaldeyri, sem knýr efnahagslífið áfram.  Innlend orka mun einnig knýja fiskiskipaflotann, er fram líða stundir, og Íslendingar geta innan tveggja áratuga orðið sjálfum sér nægir með orku.  Þeir geta orðið fyrsta iðnaðarþjóð heims, sem alfarið losnar úr viðjum jarðefnaeldsneytisins. 

Við getum reyndar einnig á sama árabili orðið olíu-og gasvinnsluþjóð með gríðarlegar útflutningstekjur af slíkri vinnslu, eins og frændur okkar Norðmenn.  Við verðum að halda vel á spilunum til að okkur nýtist allar þessar auðlindir.  Til þess þurfum við að leggja áherzlu á góða verkkunnáttu, góða efnahagsstjórnun, markaðskerfi með dreifðri eignaraðild og samfélagslegri ábyrgðarkennd með langtíma árangur heildarinnar að markmiði í stað skammtíma ávinnings fárra.  Hugarfar "Casino" hagkerfisins verður að víkja fyrir sköpun handfastra verðmæta.  Bréfaleikrit og launatengingar við einkennileg skammtímamarkmið eru liðin tíð.  Hégómleikinn víki fyrir ábyrgum stjórnum hlutafélaga, sem geri ráðningarsamninga á grundvelli fastra launa eða langtímaárangurs, sem mælanlegur sé með áþreifanlegum hætti, en ekki sem þrýstingur ímyndaðrar bólu.  Lykilorð eru valddreifing og dreifð eignaraðild í anda Sambandslýðveldisins Þýzkalands á dögum Konrads Adenauers og Ludwig Erhards, feðra þýzka efnahagsundursins.

Við þurfum snjalla samningamenn, sem standast erlendri ásælni snúning, þannig að forræði auðlindanna og efnahagsstjórn og dreifing arðsins af vinnu Litlu-Gunnu og Litla-Jóns lendi ekki í hundskjafti. 

Aðild að ESB er stóráhættusöm og má hvorki flana að né ráðast í á röngum forsendum eins og gjaldmiðilsmálum.  Samþykkt Evrópubankans og ESB á evru sem ríkisgjaldmiðli Íslands er ekki handan við hornið, því að uppfylling allra Maastricht krafnanna er algert skilyrði og vegna skuldabagganna, sem virðast verða hnýttir ríkissjóði, er evran óraunhæfur kostur fyrr en um 2020.  Allar þjóðir eru nú uppteknar við að bjarga eigin skinni og samningaviðræður um myntsamstarf, t.d. við Bandaríkjamenn, þess vegna ótímabært.  Hvað sem draumórum líður, er enginn annar kostur fyrir okkur en að reyna að koma efnahagslífinu á réttan kjöl með okkar gamla gjaldmiðli, með kostum hans og göllum.  

Það verður að gera þá kröfu til Alþingis, að það kryfji afleiðingar aðildar til mergjar og miði þá við, að ESB er breytingum undirorpið, getur sundrazt, getur þrózt á mismunandi brautum fyrir mismunandi lönd, en sterk öfl vinna hins vegar að þróun þess í átt að sambandsríki í ætt við Sambandslýðveldið Þýzkaland.  Hvaða rök hníga að því, að örlögum Íslands verði betur borgið við Kurfürstendamm og Brandenburger Tor en við Austurvöll og Lækjartorg ? Íslendingar eiga ágæta vini í Berlín, og aðild Íslands mundi fremur styrkja norðurvæng ESB en hitt, en vandséð er, að fjarbúðarstjórnsýsla geti orðið vandaðri en umsýslan á landinu sjálfu, þó að brokkgeng sé á köflum, enda ekki allt jafnvakurt hér á vegum hins opinbera.  Með öðrum orðum þarf að vera skýr og augljós ávinningur fyrir landið sem heild til langrar framtíðar af inngöngu til að rétt sé að hætta á færa ákvarðanatöku um lykilmál til skrifræðisbákns Evrópusambandsins.  Slík rök fyrir inngöngu hafa ekki komið og höfundi þessara hugleiðinga er til efs, að þau séu til.  Norska þjóðin fann þau ekki fyrir sitt leyti, þar sameinuðust reyndar Hægri flokkurinn og Verkamannaflokkurinn um að styðja aðild á sinni tíð, þó að mikils klofnings gætti.  Margt er líkt með hagsmunum Íslendinga og Norðmanna, vatnsorkulindir, áliðnaður, auðug og víðfeðm fiskimið og olíulindir.  ESB þyrstir í þetta allt og þeim yrði vel tekið sem fjárfestum, en forræðið, lagasetningarvaldið, fullveldisrétturinn verður að vera í Reykjavík til að landið breytist ekki í verstöð, hverrar ráðum er ráðið í Brussel, Berlín, París og London. 

Spilling og hrikaleg hrossakaup tröllríða húsum á stjórnarskrifstofum ESB.  Í þeim vargahópi mætti rödd okkar lítils. Á hinn bóginn yrðum við krafin um hæstu gjöld á mann til sambandsins, þegar við náum efnahagskerfinu aftur á snúning.  Það eru blóðpeningar, sem fara í niðurgreiðslu-og fyrirgreiðsluhít blýantsnagaranna í Brussel.  Göngum við á mála hjá ESB, verður vart aftur snúið, og landið getur hafnað sem afkími Stór-Evrópu, án nokkurra umtalsverðra áhrifa, hvorki innan né utan ESB.  Það hlýtur að koma betur út fyrir smáþjóð að semja sjálf um hagsmuni sína en að fela öðrum það hlutverk. 

Áhugi Austur-Evrópu þjóða á inngöngu í ESB á sér rætur í þáttum, sem eru óskyldir hagsmunum Íslendinga.  Þær sjá fyrir sér bætt lífskjör við inngöngu, því að meðaltekjur á mann eru mun lægri en að jafnaði í ESB.  Þessu er öfugt farið með okkur.  Þá telja þessar þjóðir sér vera vörn í aðild gegn hugsanlegri ásælni og ítökum Rússa. 

Tiltölulega margir starfa í landbúnaði í þessum löndum, og bændur þar hafa mjög horft til framlaga úr sjóðum ESB til landbúnaðar.  Hætt er við, að hinn mjög svo niðurgreiddi landbúnaður ESB mundi ganga af íslenzkum landbúnaði dauðum í samkeppninni af náttúrufarslegum ástæðum.  Sjávarútvegur ESB er líka stórlega ríkisstyrktur, og þess vegna er fiskiskipaflotinn þar allt of stór miðað við veiðiheimildir.  Þetta er með eindæmum ógæfuleg blanda fyrir íslenzkan sjávarútveg, sem er mun betur rekinn en sá evrópski og gengur líklega einnig mun betur um miðin.  Hvort iðnaðurinn verður betur settur innan ESB en utan er óvíst, því að hann hefur nú þegar fullt aðgengi að mörkuðum ESB. 

Hverra hagsmunum væri þá verið að þjóna með inngöngu í ESB ?  Tæpast hagsmunum höfuðatvinnuveganna, en e.t.v. einhverjum sérhagsmunum.

 

    

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband