Smávirkjanir

Sú var tíðin, að landsmenn fögnuðu hverri nýrri virkjun, sem framleiddi rafmagn, enda var löngum meiri eftirspurn en framboð af því í landinu.  Þótt meiri fjölbreytni sé í notkun rafmagns nú á dögum, var nýting þess býsna fjölbreytileg þegar í upphafi.  Það var nýtt til að lýsa upp híbýli og götur, til að knýja mismunandi hreyfla og í litlum mæli til upphitunar.  

Hafnfirðingurinn Jóhannes Reykdal hóf ævintýrið sama ár og fyrsti íslenzki ráðherrann, Hannes Hafstein, lögfræðingur og ljóðskáld, hóf störf í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu, 1904.  Fyrsta vatnsaflsvirkjunin, sem sögur fara af á Íslandi, var í Hamarskotslæk í Hafnarfirði, og er hægt að virða búnað hennar fyrir sér á upprunalega staðnum.  Hún sá 15 húsum og 4 götuljósum fyrir rafmagni. Í þá daga tók fólk peruna með sér, þegar það fór úr einu herbergi í annað.  Virkjunin mun síðar hafa knúið tæki á verkstæði Jóhannesar.  Virkjun þessi framleiddi jafnstraum, og dreifingin var á jafnstraumi, svo að ekki var hægt að senda raforkuna langt vegna spennufalls og orkutapa. 

Fjarðarselsvirkjun í Seyðisfirði er fyrsta riðstraumsvirkjunin hérlendis, og þaðan var fyrsti háspennustrengurinn á landinu lagður til að sjá hinum grózkumikla, brautryðjandi og fagra austfirzka kaupstað fyrir orku.  Þar var jafnframt fyrsta raunverulega dreifikerfið lagt.  Virkjunin er enn í rekstri, en er líka stórmerkilegt tækniminjasafn. Það varð snemma ljóst, að riðstraumstæknin hefði yfirburði umfram jafnstraumstæknina, t.d. varðandi möguleika til spennubreytinga, enda varð Fjarðarselsveitan fyrsta bæjarveita landsins. Jafnstraumurinn leikur þó mjög stórt hlutverk í iðnaði nú á dögum, t.d. við rafgreiningu súráls og vatns, og rafmagn er sums staðar flutt langar leiðir sem háspenntur jafnstraumur, ýmist eftir loftlínum eða jarðstrengjum.  Vel þekktir úr umræðunni hérlendis eru jafnstraumssæstrengir. 

Virkjanauppbygging í landinu gekk því miður hægt og uppbygging dreifikerfis einnig, og flutningskerfi í eiginlegum skilningi varð ekki til fyrr en með Sogsvirkjunum fyrir Reykjavík og nærsveitir, en fyrsta virkjunin þar Ljósafossstöð, 2x4,4 MW, var tekin í notkun 1937.  Þá fjórfaldaðist aflframboðið í Reykjavík, sem gerði íbúunum kleift að leggja kolaeldavélum sínum og setja upp rafmagnseldavélar og rafmagnsofna.  Virkjunin var stækkuð 1944 með 1x6,5 MW aflsamstæðu, svo að heildaraflgetan varð 15,3 MW og orkuvinnslugeta 105 GWh/ár. Írafossvirkjun var svo tekin í notkun árið 1953, svo að ótrúlega hægt gekk að virkja, og línulagnir sóttust jafnvel enn hægar. 

Svar landsmanna við þessum hægagangi yfirvaldanna við raforkuvæðingu landsins var að reisa smávirkjanir upp á eigin spýtur.  Árið 1950 var búið að reisa 530 smávirkjanir á landinu.  Hætt var rekstri þeirra flestra, þegar eigendum þeirra stóð til boða aðgangur að landskerfinu.  Nú er hægt að reisa smávirkjanir og selja orku frá þeim inn á dreifikerfin.  Í flestum tilvikum er þar um að ræða vatnsaflsvirkjanir á bilinu 1-10 MW.  Endurgreiðslutími hagkvæmra vatnsaflsvirkjunarkosta er í sumum tilvikum innan við 10 ár, og tæknilegur afskriftatími með hóflegum viðhaldskostnaði er yfir 40 ár. Fjárfesting í slíkum virkjunum er þess vegna arðsamari en margt annað.

Vestfirðingar búa við þá annmarka að vera ekki hringtengdir rafmagnslega, sem langflestir aðrir landsmenn þó eru.  Landskerfistenging þeirra er um Vesturlínu frá aðveitustöð í Glerárskógum í Dölum, sem er tengd Byggðalínu í aðveitustöð Hrútatungu í Hrútafirði.  Vesturlína frá Glerárskógum að Mjólká er líklega  bilanagjarnasta 132 kV flutningslína landsins, og þar sem virkjanir á Vestfjörðum geta aðeins staðið undir um 60 % orkuþarfarinnar, skellur straumleysi á Vestfirðingum á hverju ári svo að segja.  Tekizt hefur að stytta straumleysistímann hjá flestum notendum þar verulega með olíukyntri vararafstöð á Bolungarvík að uppsettu afli 10,8 MW.  Þetta er þó ófullnægjandi afhendingaröryggi raforku, sem veldur miklu tjóni nútíma atvinnulífs og heimila, og kostnaðarlega og umhverfislega aðeins bráðabirgðalausn, þegar þess er gætt, að Vesturlína getur verið straumlaus sólarhringunum saman.  

Fyrir utan tvöföldun Vesturlínu, sem er kostnaðarlega og tæknilega ófýsilegur kostur, eru 2 meginúrbætur nauðsynlegar á Vestfjörðum. Annar er sá að færa 60 kV flutningskerfið ásamt öllu dreifikerfinu af loftlínustaurum og í jarðstrengi.  Hinn er sá að gera íbúa Vestfjarða sjálfum sér nóga um raforku, þ.e. að raforkuvinnsla á Vestfjörðum dugi til að anna meðalraforkuþörf Vestfirðinga hið minnsta. Raforkuþörf Vestfirðinga fer ört vaxandi með aukinni mannaflaþörf af öllu tagi vegna vaxtarsprotans laxeldis, sem kemur nú sem himnasending á krepputíma og eykur mjög umsvif sín. Það er þó fleira á döfinni þar og auk ferðaþjónustunnar má nefna Kalkþörungaverksmiðjuna á Súðavík, sem mun þurfa um 10 MW afl. 

Á Vestfjörðum hefur verið kortlagður mikill fjöldi smávirkjanakosta undir 10 MW, sem gæti þjónað þörfum landshlutans vel.  Árið 2020 vann Verkfræðistofan Verkís skýrslu fyrir Vestfjarðastofu um smávirkjanakosti og kortlagði alls 68 virkjanakosti að uppsettu afli 79 MW.  Þar af eru 18 hagkvæmir m.v. núverandi orkuverð, og er uppsett afl þeirra alls áætlað 43 MW og orkugeta 202 GWh/ár, sem með núverandi virkjunum á Vestfjörðum mundu duga Vestfirðingum vel a.m.k. næsta áratuginn í orkuskiptunum. 

Með þeim umbótum, sem hér hafa verið nefndar, væri vel séð fyrir raforkuöryggi og raforkuþörf Vestfirðinga, án þess að þeir þurfi nema örsjaldan að grípa til neyðarrafstöðvarinnar á Bolungarvík.  Þessar framkvæmdir er vafalítið hægt að skipuleggja og hanna með lágmarksáhrifum á náttúruna og þeim öllum afturkræfum.  Þannig er ólíku saman að jafna við vindmyllur, sem eru mjög áberandi í umhverfinu, hávaðasamar og skaðræði fyrir fugla. Athafnasvæði vindmylla er stórt m.v. við framleiðslugetu þeirra, og mikið umrót verður á öllu athafnasvæðinu vegna djúpra grunna fyrir stórar steyptar undirstöður og rafstrengi frá hverri vindmyllu. Það er afar einkennilegt, að nokkrum skuli detta í hug, að það sé fýsilegur kostur að reisa vindmyllur í landi, þar sem nóg er af öðrum hagkvæmari og umhverfisvænni virkjunarkostum. Það er til vitnis um þær villigötur, sem umræða um orkumál á Íslandi hefur ratað í og fráfarandi orkumálastjóri gerði að umræðuefni í jólaávarpi sínu 2020.    

 Varmaorka

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband