Sóttvarnir lúta geðþóttastjórn

Það vantar öll viðmið við framkvæmd sóttvarnanna á Íslandi.  Leiðarljósið er fyrir hendi.  Það er veirulaust Ísland.  Sú leið er grýtt og þyrnum stráð, því að samkomutakmarkanir og höft á alls konar starfsemi hefur mikinn og margvíslegan kostnað í för með.  Mannlegur harmleikur af völdum slíkra stjórnvaldsaðgerða getur hæglega orðið meiri en af völdum sýkinga af veirunni, SARS-CoV-2. 

Ef veiran væri hættulegri, t.d. eins og ebóluveiran, mundi málið horfa allt öðruvísi við. Þess vegna eru töluleg viðmið svo mikilvæg, og lagaleg hlið málsins, þ.e. heimildir yfirvalda, eru ekki síður mikilvægar. Nýlega hafa 2 lögfræðingar tjáð sig opinberlega um þessi mál með afar athyglisverðum og lofsverðum hætti.

Annar er Jón Magnússon.  Hann skrifaði í Morgunblaðið 25. febrúar 2021 undir fyrirsögninni:

"Lögmæti eða valdníðsla".

Greinin hófst þannig:

"Frjálst lýðræðisþjóðfélag byggist m.a. á þeirri von, að fólk muni haga sér vel, þegar það hefur valkosti, og betra þjóðfélag verði að veruleika, þegar hugmyndafræði frelsisins ræður. 

Byggt er á því, að fara verði að lögum og stjórnvöld geti ekki gripið til íþyngjandi ráðstafana gagnvart borgurunum, nema fylgt sé svonefndri lögmætisreglu, sem felur það í sér, að ákvörðun ríkisvaldsins og annarra stjórnvalda þurfi að vera í samræmi við lög og málefnaleg sjónarmið." 

Ennfremur gilda hér stjórnsýslulög, t.d. um meðalhófsregluna.  Í lögum nr 37/1993, 12. gr., segir svo:

"Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun, þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt, að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til."

Höfundur þessa vefpistils telur sóttvarnaryfirvöld með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar hafa farið offari í Kófinu og valdið þar með einstaklingunum og þjóðfélaginu meira tjóni en efni stóðu til. Þetta á t.d. við um skólakerfið.  Það var ástæðulaust að valda jafnmiklum truflunum á skólastarfinu og reyndin var.  Það átti að reyna vægari úrræði fyrst, t.d. grímuskyldu í framhaldsskólum, en eftirláta hverjum skóla fyrir sig að öðru leyti persónulegar og sameiginlegar sóttvarnir. 

Mjög orkaði tvímælis að banna íþróttaiðkun og kappleiki, loka þrekstöðvum og sundlaugum.  Þessi iðkun gegnir mikilvægu hlutverki fyrir lýðheilsuna og vitað er, að strangar frelsistakmarkanir og atvinnuhömlur hafa slæm áhrif á heilsufar þeirra, sem fyrir barðinu verða.  Það virðist hafa vantað við ákvarðanatökuna að vega og meta gagnsemi og galla við sóttvarnaraðgerðir.  Tillögur um sóttvarnaraðgerðir þurfa að koma frá fjölbreytilegu teymi. 

Þá eru landamærin kapítuli út af fyrir sig.  Það verður ekki annað séð en yfirvöldin hafi farið offari þar t.d. í febrúar 2021, þegar smitstuðullinn var orðinn mjög lágur á Íslandi (fá ný smit og öll innan sóttkvíar), að bæta þá enn einu skilyrðinu við fyrir landgönguleyfi hér, þ.e. ónæmisvottorði eða neikvæðu PCR-skimunarvottorði.  Þarna áttu yfirvöldin að grípa tækifærið til að létta undir með ferðageira og gjaldeyrisöflun á Íslandi; innleiða vottorðin (að sjálfsögðu með kurteislegum fyrirvara í stað þess ruddaháttar, sem sýndur var) og afnema um leið seinni skimun og sóttkvína, ef vottorð og komuskimun voru í lagi.  

"Í 12. gr. sóttvarnalaga nr 19/1997, með áorðnum breytingum, segir nú: "opinberum sóttvarnaráðstöfunum skal aflétta svo fljótt sem verða má". Í því sambandi er eðlilegt að velta því fyrir sér, hvort farið hafi verið að lögum m.v. lögmætisreglu og meðalhóf, að beita sérstökum ráðstöfunum innanlands eftir mánaðamótin janúar-febrúar sl., þar sem þá hafði ekki greinzt smit utan sóttkvíar í 11 daga.

Hvað sem öðru líður, þá virðist farið umfram meðalhóf, þegar sérstakar samkomutakmarkanir, lokunarreglur og grímuskylda gilda, svo [að] nokkur atriði séu tekin, eftir að fyrir liggur, að tíðni sjúkdómsins er ekki umfram það, sem skýra má með því, að um tilviljun sé að ræða, svo [að] gripið sé niður í skilgreiningu sóttvarnalaganna á hugtakinu "farsótt", eins fátækleg og hún nú er. 

Þá ber einnig að skoða nýtt ákvæði 3. mgr., 12. gr. sóttvarnalaga, þar sem segir með tilvísun í 2. mgr., að opinberum sóttvörnum skuli ekki beita, nema brýn nauðsyn krefji til verndar heilsu og lífi manna, og við beitingu ráðstafana sem og við afléttingu skuli gæta meðalhófs og jafnræðis ... , og ekki skuli stöðva atvinnurekstur, nema að því marki, sem starfsemin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar ...  . 

Ekki verður séð, að ráðstafanir heilbrigðisyfirvalda hafi verið í samræmi við þessi ákvæði sóttvarnalaga undanfarnar vikur, þannig að hvorki hefur verið gætt meðalhófs né lögmætisreglu. 

Hvorki ríkisstjórn né heilbrigðisyfirvöld hafa markað ákveðna stefnu til lengri tíma varðandi viðbrögð við Covid-19 farsóttinni.  Þannig eru engin viðmið um ráðstafanir, sem eðlilegt er að grípa til m.v. tíðni smita eða annars.  Heilbrigðisyfirvöld freistast því til að mæla fyrir um sem harðastar reglur, og ráðherra samþykkir þær allar án athugasemda og virðist ekki skeyta um lögmætisregluna, reglu um meðalhóf og jafnvel ekki ótvíræðan lagatexta sóttvarnalaga og hefur því, ef rétt er, gerzt sek um valdníðslu gagnvart borgurunum." [Undirstr. BJo.]

Höfundur þessa pistils getur með leikmannsaugum ekki séð annað en þessi röksemdafærsla og aðfinnslur hæstaréttarlögmannsins séu hárréttar og eigi fullan rétt á sér. Það er ekki að ófyrirsynju, að löggjafinn hefur takmarkað heimildir sóttvarnaryfirvalda til frelsisskerðandi aðgerða undir merkjum sóttvarna.  Það er m.a. vegna þess, að honum, eins og ýmsum öðrum, er ljóst, að slíkar aðgerðir og afleiðingar þeirra, t.d. atvinnuleysi, hafa mjög slæm áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar fólks. Nýlega áætlaði "The National Bureau of Economic Research" í Bandaríkjunum, að 1,0 M dauðsföll yrðu þar vegna atvinnuleysis af völdum opinberra sóttvarnaráðstafana. Um 0,5 M manns eru nú skráðir látnir af völdum C-19 í BNA. Hérlendis er meira hlutfallslegt atvinnuleysi en í BNA, og er það að mestu leyti af völdum  sóttvarnaráðstafana hérlendis og erlendis. Ef þetta atvinnuleysi hérlendis varir út árið 2021 að mestu óbreytt, verða heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar hrikalegar og má ætla fjöldi þeirra, sem í valinn falla vegna sóttvarnaráðstafana, verði a.m.k. tífaldur fjöldi látinna vegna sjúkdómsins. 

Nú er nýgengið innanlands aðeins um 0,3, og við þær aðstæður ber að aflétta þegar í stað öllum stjórnvaldshömlum sóttvarnayfirvalda samkvæmt laganna bókstaf.  Jafnframt stingur "þrefalt öryggi" á landamærunum í stúf við varúðarráðstafanir annars staðar í Evrópu, þar sem víðast hvar er látið duga að krefjast sóttvarnarskírteinis.  Hér á landi er þess krafizt auk tvöfaldrar skimunar með sóttkví á milli.  Þetta er brot á lögmætisreglunni og meðalhófsreglunni.  Seinni skimuninni og sóttkvínni ætti að sleppa, og er þá tvöfalt öryggi áfram. 

Í lokin skrifaði Jón Magnússon:

 "Nú er spurningin, fyrst reglurnar, sem hafa verið í gildi, ná markmiði sínu, hvort það sé ekki umfram meðalhóf að gera þessa kröfu um, að ferðamaður framvísi sérstöku PCR-prófi.  Ekki verður annað séð en það sé umfram það, sem málefnaleg sjónarmið geta réttlætt, að gert sé. 

Við beitingu valdheimilda verður að fara að lögum og í samræmi við staðreyndir.  Sé það ekki gert, eru yfirvöld að níðast á borgurunum og geta bakað sér bótaskyldu gagnvart þeim. Mikilvægast er þó, að yfirvöld beri virðingu fyrir þeim lögum og lýðréttindum, sem gilda í landinu, og taki ákvarðanir í samræmi við þau."

 Heilbrigðisráðherranum brást í upphafi bogalistin við að skilgreina viðfangsefnið, sem kórónuveiran SARS-CoV-2 færði Íslendingum.  Í stað þess að ákveða, að hámarkssóttvarnir skyldi leggja til grundvallar ákvarðanatöku hefði átt að leggja lágmörkun heildartjóns samfélagsins til grundvallar.  Sú aðferðarfræði er stærðfræðingum vel kunn og kallast beztun (optimisation). Í stað þess, að einn læknir geri tillögu til ráðherra, ætti sóttvarnarráð, sem skipað væri sóttvarnalækni, lögmanni, fulltrúa frá SA og frá ASÍ og Landlækni að gera tillögu til ráðherra. Landlæknir væri formaður sóttvarnaráðs og atkvæði væru greidd um hvern lið tillögunnar. Ráðherra ætti a.m.k. á 60 daga fresti að gefa Alþingi skýrslu um framkvæmdina, stöðu og horfur, og Alþingi að fjalla um stefnumarkandi þingsályktunartillögur, eins og þurfa þykir.  

  

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Stefnan um veirulaust land er það sem á mesta sök á ógöngum okkar. Þetta er sama stefna og er viðhöfð á Nýja-Sjálandi. Þar er nú verið að setja á útgöngubann eina ferðina enn vegna fáeinna smita.

Ég velti fyrir mér hvað gerist hér þegar 5-10 smit greinast á einum degi. Grunar sterklega að þá verði öllu skellt í lás enn og aftur. Og viðbrögð sóttvarnalæknis við sjálfsagðri ábendingu Jóns Ívars Einarssonar um að láta eina sprautu, sem skilar 90% vernd duga (60% hefur nú hingað til þótt góður árangur með bóluefni), svo hægt sé að bólusetja sem flesta, sýna glöggt veruleikafirringu og ábyrgðarleysi af hæstu gráðu.

Þorsteinn Siglaugsson, 1.3.2021 kl. 22:21

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hvað hættu varðar, gekk svipuð kórónuveira a.m.k. tvisvar sinnum á síðari hluta 20. aldar á Íslandi.  Engum datt í hug, að skynsamlegt væri að skerða atvinnufrelsi, ferðafrelsi, fundafrelsi eða beita öðrum opinberum höftum í sóttvarnaskyni þá.  Stefnan um veirulaust Ísland lágmarkar áreiðanlega ekki heildarkostnað samfélagsins vegna SARS-CoV-2. Hún er þess vegna óskynsamleg, og framkvæmd stefnunnar krefst brota á sóttvarnalögum og stjórnsýslulögum.  

Þrælslund sóttvarnarlæknis gagnvart ESB gengur ótrúlega langt.  Í forystugrein Morgunblaðsins í dag er undrazt yfir meðvirkni hans með ESB gagnvart AstraZeneca.  Úr því að ESB lætur einn bóluefnisskammt um 3 mánaða skeið ekki duga, þá getur íslenzki sóttvarnalæknirinn ekki gert það heldur.  Hann dansar ýmist eftir hljóðpípu WHO eða ESB.  Það gengur ekki að láta einn lækni, með kostum sínum og göllum, vera einráðan um framkvæmd beinna og óbeinna sóttvarna á Íslandi.  Það hefur reynslan nú kennt okkur.  

Bjarni Jónsson, 2.3.2021 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband