Þveræingar og Nefjólfssynir

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, ritaði skemmtilega grein í Morgunblaðið 17. janúar 2023 í tilefni af 75 ára afmæli ritstjórans, Davíðs Oddssonar.  Hann lagði þar út af kenningu sinni um rauðan þráð, sem lægi um nánast alla Íslandssöguna, varðandi viðhorf þjóðarinnar til æskilegra samskipta við erlend ríki. Kenningin er einföld og rökstudd af Hannesi með fjölda dæma af íslenzkum höfðingjum.  Má ekki ætla, að alþýðunni hafi verið svipað farið og höfðingjunum að þessu leyti ?

Fyrirsögn greinarinnar gefur til kynna meginstef hennar:

"Sérstaða og samstaða: Tveir ásar Íslandssögunnar".

Hún hófst þannig:

"Landnemarnir frá Noregi höfðu ekki búið lengi í þessu landi, þegar þeir tóku að líta á sig sem sérstaka þjóð.  Sighvatur, skáld, Þórðarson orti í Austurfararvísum um hin "íslenzku augu", sem hefðu dugað sér vel.  Um svipað leyti, árið 1022, gerðu Íslendingar sinn fyrsta milliríkjasamning, og var hann við Norðmenn um gagnkvæman rétt þjóðanna [í hvoru landi].  Segja má, að eftir það hafi 2 ásar Íslandssögunnar verið sérstaða þjóðarinnar annars vegar og samstaða með öðrum þjóðum hins vegar."

 

 Landnemarnir voru alls ekki allir frá Noregi, heldur hafa erfðafræðirannsóknir sýnt fram á, að umtalsvert hlutfall landnámsmanna var ættaður af Skotlandi og skozku eyjunum og víðar.  Margir þeirra voru kristnir og höfðu tileinkað sér bóklist (lestur og skrift).  Vestmenn þessir voru margir hverjir skáldskaparmenn, og höfðu lært til skáldskapar í skólum. Þeir urðu sérfræðingar í skáldskap, og Íslendingar héldu þessari hefð við.  Slíkir menn frá Íslandi urðu eftirsótt skáld hjá norskum höfðingjum, m.a. við hirð Noregskonungs, og má nefna Ólaf, Kolbrúnarskáld, sem var í vist hjá Ólafi, digra, barðist með honum á Stiklastöðum í Þrændalögum og mælti hin ódauðlegu orð á banastundinni, er ör var dregin úr brjósti hans í sjúkratjaldi þar, og hvítar tæjur hengu á örvaroddinum: "Vel hefur konungur alið oss", en að svo búnu féll hann dauður niður. 

Vegna blandaðs og sérstaks uppruna landnámsmanna, sem hefur leitt af sér a.m.k. 2 tungumál í landinu á 10. öld eða öllu heldur nokkrar mállýzkur af norsku og gelísku, er eðlilegt, að Íslendingar hafi frá öndverðu hvorki getað litið á sig sem Norðmenn né Skota, heldur sérstaka og sjálfstæða þjóð, Íslendinga.  Afkomendur hinna heiðnu norsku landnema voru að ýmsu leyti öflugastir, og það er athyglisvert, að þeir virðast móta söguna, og sérstaklega þó, hvernig hún er rituð, með fyrstu landnámsmennina úr Norðurvegi, og Gulaþingslögin til grundvallar fyrstu íslenzku lögbókinni, en ekki var þó dregin dul á hlut skozkra höfðingja í landnáminu, t.d. Auðar, djúpúðgu, sem nam Dalina, og höfðingjar á hennar skipum námu víða land, t.d. á Norðurlandi.

"Hér á landi voru engir konungar til að spilla friðnum. [Enginn konungur stjórnaði landnáminu, heldur var það einstaklingsframtak skipstjórnarmanna víða að, sem höfðu enga þörf fyrir konung og höfðu margir hverjir orðið fyrir barðinu á konungum.  Þetta var önnur sérstaða Íslendinga, sem átti eftir að móta söguna. Innsk.-BJo.]  Í því var sérstaða landsins ekki sízt fólgin að sögn goðans á Ljósavatni.  En Þorgeir lagði þó til í sömu ræðu, að Íslendingar tækju upp sömu trúarbrögð og grannþjóðirnar.  Samstaðan með öðrum þjóðum væri ekki síður mikilvæg en sérstaðan."

Kristnitakan hefði ekki getað farið fram með pólitísku samkomulagi á Alþingi 999-1000, nema kristnir og heiðnir hefðu búið saman í landinu, blandað geði saman, bundizt blóðböndum og hagsmunaböndum í 4-5 kynslóðir og unnið saman á héraðsþingum og á Alþingi í 3-4 kynslóðir, farið í göngur og réttir og stundað viðskipti innbyrðis og við erlenda kaupmenn. Þingheimi var gert ljóst með sendiboða frá Noregskonungi, Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gætu ekki vænzt friðsamlegrar sambúðar við Noreg og norska kaupmenn, nema þeir köstuðu heiðninni fyrir róða og létu skírast til kristni. Slíkar sögur fóru af víkingakónginum Ólafi Tryggvasyni, að landsmenn gerðu sér grein fyrir, að kóngsi hefði bæði vilja og getu til að standa við orð sín. Þar með stóðu öll spjót á heiðna hópinum á Alþingi, og var Þorgeiri, goða á Ljósavatni, falið að semja málamiðlun, sem hann gerði með snilldarlegum hætti á 2-3 sólarhringum. Síðan er talað um leggjast undir feld, þegar leysa þarf erfið úrlausnarefni.     

 "Einni öld síðar gat að líta svipaðan samleik sérstöðu og samstöðu í frásögn annars sagnaritara [en Ara, fróða, Þorgilssonar - innsk.BJo], Snorra Sturlusonar, frá umræðum á Alþingi árið 1024.  Íslenzkur hirðmaður Ólafs, digra, Noregskonungs, Þórarinn Nefjólfsson, hafði boðið Íslendingum að ganga honum á hönd.  Einar Þveræingur flutti þá um það ræðu, sem Snorri hefur eflaust samið sjálfur, að Íslendingar ættu að vera vinir konungs, en ekki þegnar.  Þótt Einar efaðist ekki um, að Ólafur, digri, væri ágætur, væru konungar misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því bezt að hafa engan konung." 

Þetta var viturlega mælt hjá Einari, Þveræingi, úr fjaðurstaf Snorra Sturlusonar.  Þessi sagnameistari og höfðingi í flóknum stjórnmálaheimi Sturlungaaldar var að sönnu ekki hallur undir þann konung, sem var honum samtíða í Noregi, Hákon, gamla, en hann var heldur enginn vinur hans, eins og Einar boðaði, að Íslendingar skyldu kappkosta, enda var slíkt sennilega ógjörningur fyrir Íslendinga, þ.e. að njóta vinfengis  konungs án þess að ganga erinda hans á Íslandi.

Snorri var prestur og enginn hermaður, eins og Bæjarbardagi var til vitnis um, og hann beitti aldrei miklum áhrifum sínum á Alþingi í þágu konungs. Hann var trúr kenningu sinni, þótt margræður persónuleiki væri.  Aftur á móti var hann í vinfengi við Skúla, jarl, sem gerðist keppinautur Hákonar um æðstu völd í Noregi,en laut í lægra haldi. 

Refsivald konungs náði þá þegar til Íslands 1241, 21 ári fyrir gerð Gamla sáttmála, sem sýnir pólitíska ástandið í landinu, og mun fyrrverandi tengdasonur Snorra, Gissur Þorvaldsson í Hruna, sem var handgenginn maður konungi, hafa fengið skipun um að taka Snorra Sturluson af lífi.  Er það eitt mesta níðingsverk Íslandssögunnar, enda var þess grimmilega hefnt með Flugumýrarbrennu, þótt Gissur bjargaði sér þar naumlega ofan í sýrukeraldi. Fyrir undirgefni Haukdælahöfðingjans fékk hann jarlsnafnbót frá feigum kóngi.  

"Æ síðan hafa málsmetandi Íslendingar skipzt í 2 flokka.  Þveræinga, sem vilja vinfengi við aðrar þjóðir án undirgefni, í senn sérstöðu og samstöðu, og Nefjólfssyni, sem eiga þá ósk heitasta að herma allt eftir öðrum þjóðum, vilja fórna allri sérstöðu fyrir samstöðu."

 Höfundur þessa vefpistils hefur alla tíð talið það liggja í augum uppi, að ekkert vit sé í því fyrir smáþjóð langt norður í Atlantshafi að taka allt gagnrýnilaust upp eftir öðrum þjóðum, sem búa við allt aðrar aðstæður.  Það hefur alla tíð verið aðall Íslendinga að hirða það úr menningu, tækni og siðum annarra, sem nytsamlegt getur talizt hérlendis, og laga það að aðstæðum okkar, laga það að siðum okkar, tungunni og lagaumhverfi. Hér var t.d. engin þörf á sameiningartákni, konungi, til að sameina höfðingjana í baráttu við erlend árásaröfl. Íslenzka kirkjan sameinaði væntanlega gelíska og germanska kirkjusiði.  Íslendingar höfnuðu Járnsíðu Magnúsar, konungs, lagabætis, og fengu í staðinn Jónsbók, sem studdist við Grágás. Heilbrigð íhaldssemi hefur reynzt Íslendingum vel.  Þeir hafa ekki verið byltingarmenn, þótt þeir hafi verið fljótir að tileinka sér nýjungar, sem þeir sáu, að gagn væri hægt að hafa af.  

Íslendingar fengu sína stjórnarskrá úr hendi Danakonungs 1874, og varð ekki verulegur ágreiningur um hana, enda var hún eiginlega samevrópsk þá og síðan hverja bragarbótina á fætur annarri á stjórnskipuninni, þar til sambandið við Danakóng var rofið með nánast einróma stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júni 1944 á afmælisdegi sjálfstæðishetjunnar, Jóns Sigurðssonar.

Það gekk hins vegar mikið á, þegar framsýnir og víðsýnir menn beittu sér fyrir stofnaðild landsins að varnarsamtökum lýðræðisþjóða Evrópu og Norður-Ameríku, NATO.  Andstæðingar aðildar voru af ólíku tagi, bæði einlægir Þveræingar og harðsvíraðir kommúnistar, dæmigerðir Nefjólfssynir, sem sáu Sovét-Ísland í hillingum.

Hin mikla þversögn nútímans á Íslandi, þegar stríð geisar í Evrópu, er, að forsætisráðherrann er formaður stjórnmálaflokks, sem hangir á nauðsyn varnarleysis, eins og hundur á roði eða steingervingur í Evrópu.  Slík afstaða er ekki í anda Þveræinga, sem vilja samstöðu með lýðræðisþjóðum gegn einræðisþjóðum, sem sýnt hafa glæpsamlegt eðli sitt með hryðjuverkum gagnvart varnarlausum íbúum í Úkraínu. Slík samstaða tryggir Þveræingum eftirsótt frelsi.

Slíka villimenn á valdastóli í Rússlandi verður að kveða niður, og eymdarkveinstafir þeirra um, að Úkraínumenn megi ekki skjóta á þau skotmörk í Rússlandi, þaðan sem eldflaugar og drónar eru send til að valda manntjóni og eignatjóni í Úkraínu, eru ekki svaraverðir, enda siðblindingjar, sem þar væla. Þjóðarmorð er nú framið í Úkraínu fyrir opnum tjöldum.  Hvílíkur viðbjóður !

Hótanir glæpagengis Kremlar, s.s. trúðsins Medvedevs,  um að beita í refsingarskyni kjarnorkuvopnum eru hlálegar, því að yfirburðir Vesturveldanna á sviði hernaðar eru slíkir, að þeir munu ekki komast upp með neitt slíkt, en munu kalla yfir sig slíkan eyðingarmátt, að rússneska sambandsríkið verði úr sögunni að eilífu.   

"Þegar Íslendingar urðu nauðugir að ganga á hönd Noregskonungi árið 1262, skildu þeir það til í sáttmála, að þeir fengju haldið íslenzkum lögum og að opinberir sýslunarmenn skyldu íslenzkir vera. Leiðtogi þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, vísaði óspart til þessa sáttmála, þegar hann rökstuddi tilkall hennar til sjálfsforræðis. En um leið var Jón eindreginn stuðningsmaður verzlunarfrelsis.  "Þú heldur, að einhver svelgi okkur.  Látum þá alla svelgja okkur í þeim skilningi, að þeir eigi við okkur kaup og viðskipti", sagði hann í bréfi til bróður síns árið 1866.  "Frelsið kemur að vísu mest frá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram, nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.""

Nefjólfssynir í landinu 1262 hafa ekki samþykkt Gamla sáttmála nauðugir, heldur fúsir, enda höfðu sumir þeirra unnið að innlimum Íslands í norska konungsríkið um áratuga skeið.  Í nútímanum barðist einn kúnstugur fýr fyrir því, áður en hann umturnaðist í byltingarkenndan sósíalista, sem er önnur furðuleg hugdetta, að Ísland yrði fylki í Noregi, þótt þáverandi stjórnvöld Noregs hafi verið því algerlega afhuga, enda hugmyndin fráleit og reist á nauðhyggju Nefjólfssona um, að Íslendingar geti ekki séð sér farborða á eigin spýtum.  Þeir hafa þó rækilega sannað mátt sjálfstæðis til að knýja hér framfarir og að tryggja hér efnalega hagsæld.  

Það var áreiðanlega raunhæft og rétt viðhorf Jóns Sigurðssonar, forseta, að frelsið kemur mest frá einstaklinginum sjálfum og að verzlunarfrelsi er undirstaða frelsis samfélagsins.  Frjáls verzlun og viðskipti hafa reynzt undirstaða efnalegra framfara á Íslandi, sem hvergi í Evrópu urðu meiri en á Íslandi á 20. öldinni. Frjáls viðskipti Íslands við lönd Evrópusambandsins, ESB, eru nú bundin á klafa þvingaðrar samræmingar við löggjöf ESB, sem augljóslega átti að vera undanfari inngöngu í ESB.  Ekki er víst, að Jóni Sigurðssyni, forseta, hefði hugnazt þetta fyrirkomulag, enda varla hægt að kalla þetta frjáls viðskipti, þótt þau séu að mestu leyti tollfrjáls. Nefjólfssonum finnst, að stíga þurfi skrefið til fulls, en Þveræingar eru beggja blands í þessu máli.

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband