Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Eldsneytisframleiðsla á Íslandi

Samkvæmt Orkustefnu Íslands á öll orka, sem Íslendingar nota hérlendis til að knýja framleiðslutæki sín og til einkanota, að koma úr íslenzkum orkulindum eða jarðvegi.  Hægt er að stórauka t.d. repjuframleiðslu og vinna repjuolíu sem eldsneyti.  Framtaksmenn virðast þó um þessar mundir hafa meiri hug á framleiðslu rafeldsneytis, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi nýlega látið í ljós þá skoðun, að slík framleiðsla yrði of smá í sniðum til að geta keppt við erlenda framleiðslu á eldsneytismarkaðinum.  Þetta rökstuddi hann ekki nánar, og það stingur illilega í stúf við áform Fjarðarorku, sem mun vera í eigu fjárfestingarsjóðsins CI EFT I.

Fjarðarorka hefur kynnt til sögunnar stórkarlaleg áform um vindorkuver í Fljótsdal og á Fljótsdalsheiði, þar sem uppsett afl á að verða 350 MW. Verður athyglisvert að fylgjast með, hvaða sýnileika þessara mannvirkja frá byggð menn telja ásættanlegan.  Þetta afl er tæplega 80 % af aflinu, sem Landsnet áætlar í nýlegri orkuspá sinni, að þurfi fyrir rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi árið 2050, sem er 450 MW.  Það er ekki þar með sagt, að Fjarðarorka muni framleiða tæplega 80 % af íslenzku rafeldsneyti, því að nýtingartími vindorkuvera er innan við helmingur af nýtingartíma hefðbundinna íslenzkra virkjana.  Getur það verið hagkvæmt að fjárfesta í öllum þeim búnaði, sem þarf til að framleiða rafeldsneyti, ef aðeins er hægt að reka hann á fullum afköstum u.þ.b. 3500 klst/ár ? Markaður verður fyrir hendi á Íslandi fyrir rafeldsneyti, en sá markaður mun einnig hafa aðgang að innfluttu rafeldsneyti, sem verður væntanlega framleitt með meiri framleiðni en innlenda rafeldsneytið (hagkvæmni stærðarinnar).  


Vestfirðingar í orkusvelti

Aflþörf Vestfirðinga um þessar mundir er um 50 MW og fer enn vaxandi vegna atvinnulífs, mannfjölgunar og orkuskipta. Uppsett afl vatnsaflsvirkjana Vestfjarða er innan við helmingur af núverandi þörf landshlutans, og sér Vesturlína og stofnkerfi landsins fyrir því, sem upp á vantar og jafnvel olíukynt raforkuver.  Vestfirðir eru þannig eini landshlutinn, sem ekki nýtur hringtengingar við stofnkerfið.  Þess vegna er afhendingaröryggi raforku minnst á Vestfjörðum allra landshluta (að Vestmannaeyjum undanskildum) og olíubrennsla til raforkuvinnslu mest.  

Hvernig er þjóðhagslega hagkvæmast að leysa úr þessum vanda ? Það er áreiðanlega ekki með því að bæta við olíukyntum búnaði, eins og tilhneigingin hefur verið undanfarið (á afneitunarskeiði vinstri grænna), heldur með því að hefja sókn á vatnsvirkjunarsviðinu, en þar hefur skort á atbeina orkuráðherrans, sem Vestfirðingar hafa þó leitað til. Með myndarlegri orkuverauppbyggingu þarf jafnvel ekki tvær Vesturlínur.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, telur, að uppsett afl virkjana á Vestfjörðum gæti í framtíðinni numið 150 MW.  Slíkt fæli ekki aðeins í sér búbót fyrir Vestfirði, heldur yrði af slíkri raforkuvinnslu mikill léttir fyrir landskerfið. 

Með viðtölum við Vestfirðinga gerði Ásgeir Ingvarsson grein fyrir orkumálum Vestfirðinga í Morgunblaðinu 14. október 2024 undir fyrirsögninni:

"Hafa mikinn kraft, en skortir orku".

""Undanfarna 12 mánuði hefur þurft að ræsa varaaflstöðvar Landsnets 26 sinnum eða 2 skipti/mán að meðaltali, og þá er eftir að bæta við, hversu oft Orkubú Vestfjarða hefur þurft að kveikja á sínum stöðvum", segir Þorsteinn Másson.  "Fólk bjóst við því, að þessar varaaflsstöðvar yrðu notaðar sjaldan og kæmu kannski til bjargar í verstu vetrarveðrum, ef flutningskerfið skyldi bila, en reyndin hefur verið að ræsa þarf stöðvarnar í tíma og ótíma allan ársins hring.  Ég held t.d., að varaaflstöðin í Bolungarvík hafi núna verið í gangi nokkra daga í röð vegna viðhalds á gamalli línu hjá Landsneti."  

Þorsteinn er framkvæmdastjóri orkuverkefnisins Bláma í Bolungarvík, en um er að ræða samstarfsverkefni Orkubús Vestfjarða, Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis."

Þarna hefði verið gagnlegt að upplýsa um gangtíma hverrar varaaflsstöðvar og heildar raforkuvinnslu þeirra á s.l. 12 mánuðum.  Það skiptir máli, hvort keyrslan er vegna brottfalls Vesturlínu, flutningskerfis innan Vestfjarða, dreifikerfis, eða hvort verið er að "keyra niður toppa".  Þó er ljóst, að aðgerða er þörf strax.  Það þarf að setja 60 kV flutningskerfið í jörðu og dreifikerfið líka.  Þá þarf þegar að hefjast handa við tvöföldun uppsetts afls á Vestfjörðum í vatnsaflsvirkjunum.  Satt að segja hefur atbeini ríkisvaldsins verið þar skammarlega dauðyflislegur.  

""Við þurfum að komast út úr þessari dísilbrennslu, sem er bæði dýr og óumhverfisvæn og ljóst, að fyrirtæki munu eiga erfitt með að byggja upp starfsemi á svæðinu.  Þetta er í sjálfu sér ekki flókið: samfélög, sem hafa ekki aðgengi að nægilegri orku á eðlilegu verði, eiga erfitt með að vaxa og dafna, og helzt hagvöxtur í hendur við orkuframboð og orkuverð.""

Hvað er eðlilegt raforkuverð ?  Það er reiknað verð, sem fyrir vatnsorkuvirkjanir fæst m.v. 40 ára fjárhagslegan afskriftatíma og 7 %/ár ávöxtunarkröfu og 1 %/ár rekstrarkostnað af stofnkostnaði.  Virkjanirnar, sem Vestfirðingar hafa áhuga á núna að hrinda í framkvæmd, eru allar samkeppnishæfar.  

"Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, tekur í sama streng og segir, að orkuskortur og vöntun á afhendingaröryggi skapi flöskuháls fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum.  "Vestfirðingar þurfa á meiri orku að halda og eðlilegast er, að orkan verði þá til í fjórðunginum, og ekki er hægt að velta ábyrgðinni yfir á aðra landshluta á að búa til raforkuna, sem Vestfirðir þurfa. Við þurfum að búa til okkar orku sjálf, og til skamms tíma litið er t.d. hægt að stækka Mjólkárvirkjun og hefja framkvæmdir við Vatnsfjarðarvirkjun og Hvalárvirkjun.  Til lengri tíma mætti síðan styrkja orkuframleiðslu enn meira með vindorkuverum og sjávarfallsvirkjunum", segir Guðmundur og bendir á, að með fjölgun orkuvera skapist forsendur fyrir eflingu og stækkun dreifikerfisins.   Hann segir sóknarhug í Vestfirðingum, en ef [á] orkuna skorti, sé hætt við, að samfélagið standi í stað: "Það er vöxtur hjá Kerecis, í fiskeldinu, í ferðaþjónustunni og aukin fjárfesting í sjávarútveginum, og hefur hlutur Vestfjarða í útflutningstekjum þjóðarinnar aukizt gríðarlega undanfarin ár. Ef við leggjum saman útflutningstekjur Kerecis og fiskeldisins á síðasta ári, þá munu þær slaga hátt upp í heildarverðmæti alls þorskútflutnings landsins, og það er óhætt að segja, að efnahagslegt ævintýri sé hafið á Vestfjörðum." 

Af þessum sökum er fyrir neðan allar hellur, að ríkisvaldið skuli ekki reyna að koma Vestfirðingum til aðstoðar við úrlausn orkumálanna, eins og þeir hafa farið fram á, t.d. varðandi Vatnsfjarðarvirkjun. Líklega refsa kjósendur fyrir sleifarlag, og þess vegna skýtur skökku við, að orkuráðherranum sé umbunað með 1. sæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Hefur hann unnið fyrir því ?    

 


Beturviti (Besserwisser) afhjúpaður

Kristrún Frostadóttir er óttalega regingslegur formaður "Skattafylkingarinnar".  Hún gerir sér far um að setja sig á stall sem vel undirbúinn formann til að taka við stjórn landsins.  Þetta eru þó einvörðungu umbúðir utan um flaustur, fávísi og yfirborðsmennsku, eins og komið hefur fram í formannaumræðum í Sjónvarpssal um ríkisfjármálin, og nú hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, flett ofan af fávísi téðrar Kristrúnar um gjaldtöku fyrir auðlindaafnot.  Kristrún þessi hefur látið í veðri vaka, að "Skattafylkingin" hafi "Plan" um stóraukna gjaldtöku með samræmdu aðlindagjaldi að hætti hinna Norðurlandaþjóðanna, en þar stendur ekki steinn yfir steini hjá henni, því að á Íslandi er greitt miklu meira fyrir afnot sjávarauðlindarinnar en þar. 

Þann 7. nóvember 2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg afjúpunargrein eftir Heiðrúnu, sem hún nefndi: 

"Norska leiðin í auðlindagjaldtöku".

Hún hófst þannig:

""Við erum að tala um sanngjörn, réttlát auðlindagjöld á sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu og orku.  Þetta eru leiðir, sem nágrannar okkar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, hafa farið og samfélagsleg sátt er um."  

Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Heimi Má Pétursson á Stöð 2.  Hún ítrekaði þetta svo í leiðtogakappræðum á RÚV á föstudagskvöldið [01.11.2024]."

Guð forði okkur frá sanngirni og réttlæti Samfylkingarinnar.  Dómgreindarleysi téðrar Kristrúnar, þ.e. vandkvæði við að skilja á milli rétts og rangs, opinberaðist, þegar í ljós kom, að hún hugðist skjóta tugum milljóna ISK undan skatti af bónusi, sem hún þáði ofan á laun sín hjá fyrrverandi vinnuveitanda.  

Heiðrún Lind rekur síðan, hvernig auðlindagjaldtöku er háttað í Noregi af nýtingu sjávarauðlindarinnar.  Af þeirri lýsingu að dæma, hafði téð Kristrún ekki hugmynd um, hvernig þeim málum er háttað, sem hún þó kvað til fyrirmyndar fyrir flokkinn sinn. Kristrún þessi siglir undir fölsku flaggi.  Hún er ekki bara krati; hún er "hippókrati". 

"Í Noregi er ekkert auðlindagjald í sjávarútvegi.  Það, sem kannski meira er um vert; Norðmenn flytja nánast allan fisk úr landi óunninn, mest til láglaunalanda, eins og Póllands.  Þeir skapa því fá störf í landi, ólíkt því sem tíðkast hér á landi, og laun við veiðar og vinnslu eru mun lægri en á Íslandi.  Verðmætasköpun - og þar með framlag til hagvaxtar og lífskjara - er því til muna minni en á Íslandi." 

Af þessari lýsingu sést, að sjávarútvegur á Íslandi er ósambærilegur við sjávarútveg í Noregi.  Norski sjávarútvegurinn er að vissu leyti á opinberu framfæri, en íslenzki sjávarútvegurinn, þar sem veiðar og vinnsla eru tengd, verður að keppa á mörkuðum við norskan fisk, sem ríkið styður við og unninn er í láglaunalöndum.  Það er ekki víst, að "Besserwisserinn" skilji, hvað þetta þýði.  Það þýðir, að íslenzk yfirvöld verða að fara mjög varlega í sérskattheimtu á sjávarútveginn, ef þau ætla ekki að stórskaða þjóðarbúið með því að grafa undan honum til langs tíma litið (draga óhóflega úr fjárfestingargetu hans og launagreiðslugetu).  Nú er langt gengið í þessum efnum. 

"Í sjókvíaeldi í Noregi var nýlega lagt á auðlindagjald, sem er 25 % skattur af hagnaði.  Ekkert gjald er þó greitt af tæplega fyrsta milljarðinum, sem félög hagnast um.  Það gerir það að verkum, að áætlað er, að um 70 % fiskeldisfyrirtækja í Noregi greiði engan auðlindaskatt.  Að auki miðast þessi skattur eingöngu við þann virðisauka, þegar fiskurinn er í sjónum.  Stór hluti starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna er því undanþeginn skattheimtunni, eins og fóðurframleiðsla, seiðaeldi, vinnsla, sala og flutningar. Vegna þessara víðtæku undanþága þá hefur verið áætlað, að skattheimtan sé nær 10 % af hagnaði stærri fyrirtækjanna. Þá eru dæmi um stór fyrirtæki, sem hafa ekki þurft að greiða neinn skatt og áunnið sér yfirfæranlegt rekstrartap vegna takmarkaðs hagnaðar á framleiðslu í sjó.  Þetta er þá væntanlega norska leiðin, sem Samfylkingin vill fara."  

Kratar og fylgifiskar þeirra í vinstri villunni hafa tamið sér að tala niður til atvinnuveganna og sá tortryggni í þeirra garð.  Þannig hefur viðkvæðið verið, að ríkið geti og eigi að láta greipar sópa um eigur sjávarútvegs og fiskeldis, því að erlendis, þ.m.t. á hinum Norðurlöndunum, sé auðlindagjaldið hærra en hér.  Þetta er bull og vitleysa, eins og þessi upptalning Heiðrúnar sýnir.  Kristrún Frostadóttir er algerlega úti að aka í auðlindamálum og að því er virðist í skattamálum yfirleitt. 

"Fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi greiða auðlindagjald, sem er 33 % af reiknuðum hagnaði við veiðar.  Á meðan íslenzka ríkið tekur þriðjung af hagnaði í auðlindagjald af sjávarútvegi, þá tekur norska ríkið ekkert. 

Þegar kemur að sjókvíaeldinu, greiða íslenzku fyrirtækin auðlindagjald, sem kallað er fiskeldisgjald.  Gjaldið er tekið af alþjóðlegu markaðsverði á laxi og er þannig hlutfall af áætluðum tekjum án nokkurs tillits til raunkostnaðar. Þetta gjald hefur 20 faldazt undanfarin 4 ár og á eftir að hækka meira.  Íslenzku fyrirtækin greiða einnig umhverfisgjald, sem er ætlað að greiða kostnað við rannsóknir, vöktun og önnur verkefni, sem hafa það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif.  Svo greiða íslenzk fyrirtæki hafnargjöld, sem eru mun víðtækari og hærri en þau, sem greiða þarf í Noregi. 

Þegar aðeins þetta er lagt saman, greiddu íslenzku fyrirtækin yfir mrdISK 1,2 í fyrra [2023], og þessi upphæð nær líklega mrd 2,0 í ár.  Við þetta bætist svo að sjálfsögðu kolefnisgjald, tryggingargjald, tekjuskattur og sitthvað fleira.

Stóri munurinn á íslenzku og norsku leiðinni í auðlindagjaldtöku af fiskeldi er þó sá, að íslenzku fyrirtækin þurfa að greiða þessa skatta óháð afkomu.  Í Noregi er aðeins greitt af hagnaði.  Í raun er staðan sú, að íslenzk fiskeldisfyrirtæki greiddu 8 sinnum hærri fjárhæð í auðlindagjald á árinu 2023 en þau hefðu greitt samkvæmt norsku leiðinni !

Það þarf líka að hafa í huga, að fiskeldi á íslandi er ung grein.  Eftir erfið ár erum við farin að sjá til sólar.  Ef greinin fær að vaxa og dafna, mun hún skila miklum útflutningstekjum komandi ár og vissulega ríkulegum skatttekjum.  En þá þarf að gæta hófs og sanngirni í skattheimtunni.  Fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika í rekstri og svigrúm til víðtækra fjárfestinga til þess að leggja grunn að þessari verðmætasköpun."

Á Íslandi hefur verið gengið lengra í sértækri skattheimtu undir merkjum auðlindagjalds en góðu hófu gegnir, því að hún er svo miklu hærri en í samkeppnilöndunum, að samkeppnistöðunni og þar með undirstöðu gjaldeyrisöflunar er ógnað. Þetta skilur Kristrún Frostadóttir ekki, því að hún heldur, að hún geti í næstu ríkisstjórn hækkað s.k. auðlindagjöld mikið með vísun til þess, sem tíðkast annars staðar í Evrópu.  Hér gerir hún sig seka um að bulla út í eitt.  Að taka upp á að blaðra um málefni, sem varða afkomu fyrirtækja miklu og atvinnuöryggi og vaxtarmöguleika á mörgum stöðum á landinu, áður en hún hefur kynnt sér málin, er algert ábyrgðarleysi. Hún gortar mikið af, að Samfylkingin hafi unnið heimavinnuna sína fyrir þessar kosningar og sé eini flokkurinn "með Plan", en á fyrstu beygju keyrir hún beint út í skurð, gjörsamlega óundirbúin og fávís um málefnið, sem hún gasprar um.    

  

  

   


Til varnar kapítalisma - auðhyggju

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við HÍ, reit grein í Morgunblaðið 11. október 2024 um áhugaverð grundvallarmál, a.m.k. fyrir íbúa í lýðræðisríkjum heimsins. 

 

Greinina nefndi Hannes:

"Markaðir og frumkvöðlar",

og hófst hún þannig:

"Er auður Vesturlanda sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi ?  Spillir kapítalisminn umhverfinu og sóar auðlindum ?  Er kapítalisminn andlaust kapphlaup um efnisleg gæði, þar sem menn týna sálu sinni ?"

Þetta eru allt mikils verðar spurningar, sem leitazt var við að svara á ráðstefnu Evrópskra frjálshyggjustúdenta, Rannsóknarmiðstöðvar í samfélags og efnahagsmálum o.fl. í Reykjavík 12.10.2024.

Það er ótrúlegu andófi gegn vestrænni menningu, lýðræðisskipulagi og markaðshagkerfi, haldið uppi á Vesturlöndum, og eru íslenzkir furðufuglar þar engin undantekning. Þeir, sem hagsmuna hafa að gæta í því, að þessar moldvörpur nái að grafa undan vestrænum samfélögum, eru Kremlverjar.  Þessir heimsvaldasinnar kosta miklu til að koma ár sinni fyrir borð, og einna bezt virðist þeim hafa tekizt til í Bandaríkjunum, þar sem forsetaefni Repúblikanaflokksins virðist með eindæmum hallur undir blóði drifinn einræðisherra Rússlands.  Að slíkur siðlaus frambjóðandi skuli samkvæmt mælingum geta náð meirihluta kjörmanna í kosningunum 05.11.2024, er með algerum ólíkindum. 

"Einn ræðumaðurinn er dr Kristian Niemietz, aðalhagfræðingur hinnar áhrifamiklu stofnunar Institute of Economic Affairs í Lundúnum. Hann gaf fyrr á þessu ári [2024] út fróðlega bók: "Imperial Measurement: A Cost-Benefit Analysis of Western Colonialism" - Mælingar á nýlenduveldum: kostnaðar- og nytjagreining á vestrænni nýlendustefnu. Tilefnið var, að í afturköllunarfári (e. cancel culture) síðustu ára er því iðulega haldið fram, að auður Vesturlanda sé sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi.  Niemietz minnir hins vegar á, að Adam Smith taldi nýlendur leiða af sér meira tap en gróða.  En ef Smith hafði rétt fyrir sér, hvernig stóð þá á nýlendukapphlaupinu á 19. öld ?  Skýringin er, að tapið dreifðist á alla [ríkið - innsk. BJo], en gróðann hirti tiltölulega fámennur hópur valdamanna [og ævintýramanna - innsk. BJo].  Jafnframt varð það metnaðarmál stærstu ríkjanna í Evrópu að eignast nýlendur." 

 Skyld þessari nýlenduskýringu á auði Vesturlanda er kenningin um auðsöfnun standandi á öxlum kúgaðs verkalýðs.  Skýringin í auðsöfnun 19. og 20. aldar voru miklu fremur vel heppnaðar fjárfestingar frumkvöðla, iðn- og tæknibylting þessa tíma.

"Annar ræðumaður er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, en hann nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur um auðlindanýtingu.  Er í næsta mánuði væntanlegt greinasafn eftir hann, "Fish, Wealth and Welfare - Fiskur, fé og farsæld, sem Almenna bókafélagið gefur út.  Ragnar ætlar að segja frá tiltölulega nýjum skóla innan hagfræðinnar, "free market environmentalism" - umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis.  Frumforsenda þessa skóla er, að vernd krefjist verndara.  Ef við viljum vernda gæði náttúrunnar, þá verðum við að finna þeim verndara.  Hver er t.d. skýringin á því, að fílar og nashyrningar í Afríku eru í útrýmingarhættu, en ekki sauðfé á Íslandi ?  Hún er, að sauðféð er í einkaeign, merkt og girt af. Eigendur þess gæta þess.  Aristoteles benti einmitt á það forðum í gagnrýni sinni á sameignarbúskap Platóns, að það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Einkaeignarréttur stuðlar að hagkvæmri nýtingu auðlinda og raunar líka mannlega hæfileika.   Fái menn ekki að uppskera sjálfir, þá hætta þeir að sá.  Þessi hugsun birtist í þeirri íslenzku alþýðuspeki, að sjaldan grói gras á almenningsgötu."  

Það hefur ekki verið hrakið, að forsenda raunhæfrar verndar verðmæta sé einkaeignarhald verðmætanna, sem í hlut eiga, hvort sem um náttúruauðlindir er að ræða eða ekki.  Þessi óhrakta kenning er vissulega vatn á myllu frjálslyndisafla í þjóðfélaginu, sem aðhyllast öflugt einkaeignarfyrirkomulag, sem varið sé af traustri lagaumgjörð.  Reynslan sýnir, að slíkum samfélögum vegnar bezt í tímans rás. 

"Hliðstætt dæmi eru íslenzku fiskimiðin.  Á meðan aðgangur var ótakmarkaður að þessum takmörkuðu gæðum, freistaðist hver útgerðarmaður til að auka sóknina, því [að] hann hirti ávinninginn af aukningunni, en allir báru í sameiningu tapið, sem fólst í sífellt stærri fiskiskipaflota að eltast við sífellt minnkandi fiskistofna.  Í rauninni varð sama lausn fyrir valinu á Íslandi og um grasnytjar að fornu, nema hvað í stað ítölu, sem fylgdi jörðum, kom kvóti, sem fylgdi skipum. Hver útgerðarmaður mátti aðeins veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum heildarafla.  Hann (eða hún) fékk aflaheimildir, kvóta, sem gekk kaupum og sölum, svo að þeir, sem veiddu með lægstum tilkostnaði og því mestum arði, gátu keypt út þá, sem síður voru fallnir til veiða. Þetta kerfi myndaðist fyrst í veiðum á uppsjávarfiski á 8. áratug [20. aldar], en var síðan tekið upp í veiðum á botnfiski og varð heildstætt árið 1990. Er óhætt að segja, að vel hafi tekizt til.  Ólíkt öðrum þjóðum, stunda Íslendingar sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar.  

Við upphaflega úthlutun aflaheimilda eða kvóta var fylgt s.k. afareglu (e. grandfathering), þar sem miðað var við aflareynslu.  Ef útgerðarmaður hafði veitt 5 % af heildarafla í fiskistofni árin áður en kvóti var settur á, þá fékk hann (eða hún) 5 % aflaheimildanna í þeim fiskistofni.  Þannig varð lágmarks röskun á hag útgerðarmanna, eftir að óhjákvæmilegt varð að takmarka aðgang að fiskimiðunum." 

Þarna eru dregnar upp útlínur árangursríkasta fiskveiðistjórnunarkerfis á jörðunni.  Kerfið var sett á út úr neyð til að bjarga sjávarútveginum og sjávarauðlindinni frá algeru hruni af völdum offjölgunar fiskiskipa og fækkunar í hrygningarstofnum af völdum ofveiði.  Kerfinu var ekki snýtt út úr nösum ráðuneytissnata, heldur var það afrakstur ráðgjafar aðallega íslenzkra vísindamanna á sviði auðlindanýtingar.

Það er enn verið hérlendis að sá öfundsjúkri tortryggni út í þetta kerfi, svo að vinstri sinnaðir stjórnmálamenn, sem aldrei geta látið vel heppnaða dugnaðarforka í friði við atvinnustarfsemi sína, hafa rembst við að kokka upp niðurrifsaðferðir, sem fela í sér ólöglega þjóðnýtingu í áföngum. Matvælaráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs reyndu að ná fram himinháum álögum á greinina ásamt fiskeldið, en gáfust upp á limminu, þegar nýr formaður VG tók þann vitlausa pól í hæðina, að til þess að komast inn á þing í kosningunum 30.11.2024 væri bezt að höggva stanzlaust í Sjálfstæðisflokkinn. Þetta grunnhyggna viðhorf snerist auðvitað algerlega í höndum Svandísar, sem undirbjó andvana fæddan starfsstjórnar sirkus, og verður  vonandi utan þings sem lengst ásamt pakki sínu.        

 


Skattheimta í refsingarskyni

Skattheimtuárátta vinstri grænna er ofstækisfull og efnahagslega fullkomlega glórulaus.  Þeim dettur ekki í hug að gaumgæfa, hvaða skattheimtustig er þjóðhagslega hagkvæmast, þ.e. gefur stærstu kökuna til skiptanna.  Þá virðist skorta þroska til að hugsa á slíkum rökréttum brautum, en bleyta í þess stað vinstri þumalinn og stinga honum upp í loftið til að finna út, hvers konar lýðskrum hentar þeim bezt í hvert skiptið.  Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaus hegðun gagnvart launþegum, sem eiga atvinnuöryggi sitt undir fjárfestingum í fyrirtækjunum, en þegar jafna má skattheimtunni við eignaupptöku, en það eru hreðjatökin, sem VG leggur til, að sjávarútvegurinn verði tekinn, er skörin tekin að færast upp í bekkinn.  Hingað og ekki lengra !

 

Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hefur hækkað úr hófi fram og heldur enn áfram að hækka.  Þessari skattheimtu verður auðvitað að stilla í hóf á útflutningsatvinnugreinar og taka mið af því, sem lagt er á samkeppnisfyrirtækin erlendis.  Það er ekki gert hérlendis og vitnar um ruddalegar aðfarir skilningslítilla embættis- og stjórnmálamanna.  ESB hóf þessa skattheimtu til að beina fyrirtækjum í umhverfisvænni kosti, en á tímum raforkuskorts í boði stjórnvalda geta vinnuvélaeigendur og útgerðarmenn ekki keypt rafeldsneyti í stað jarðefnaolíu. Kerfið setur undir sig hausinn og lemur honum við steininn, enda breytir það engu um stjórnvizku hins opinbera.

Þann 19. september 2024 birtist fróðleiksgrein eftir kunnáttukonurnar Birtu Karen Tryggvadóttur, hagfræðing hjá SFS, og Hildi Hauksdóttur, sérfræðing í umhverfismálum hjá SFS, undir fyrirsögninni:

"En að létta róðurinn ?"

"Kolefnisgjald er eitt þeirra gjalda, sem stjórnvöld leggja á íslenzkan sjávarútveg.  Engar undanþágur eru veittar frá gjaldinu, en þar sker Ísland sig frá öðrum Evrópuþjóðum.  Kolefnisgjaldinu er ætlað að hvetja til orkusparnaðar, notkunar á vistvænni ökutækjum, samdráttar losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum, sem í dag eru af skornum skammti.  

Olíukostnaður hefur að jafnaði verið annar stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launum. Allar breytingar á olíuverði hafa því mikil áhrif á rekstrarskilyrði sjávarútvegs - líka, ef þær verða til með hækkun kolefnisgjalds. 

Kolefnisgjaldið stendur nú í 13,45 ISK/l ol, en það hefur hækkað um 364 %, síðan það var fyrst lagt á árið 2010.  Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 70 %.  Kolefnisgjaldið hefur þannig hækkað langt umfram verðlagsbreytingar, og það hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á rekstrarskilyrði í sjávarútvegi. Í liðinni viku [v.37/2024] kynnti ríkisstjórn Íslands svo enn frekari hækkanir á kolefnisgjaldi. 

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa greitt tæpa mrdISK 19 í kolefnisgjald á árunum 2011-2023. Heildartekjur ríkissjóðs vegna gjaldsins námu tæpum mrdISK 60 á sama tímabili. Sjávarútvegurinn hefur þannig staðið undir greiðslu á á um þriðjungi kolefnisgjaldsins á Íslandi."   

 Þetta er dæmi um tillitslausa og skattheimtugríð íslenzkra embættismanna og stjórnmálamanna, því að yfirleitt er sjávarútvegi hlíft við henni.  Þarna er um þjóðhagslega óhagkvæma skattheimtu að ræða, því að hún skekkir samkeppnishæfnina.  Þarna er verið að gera íslenzkum atvinnuvegi erfitt fyrir með svipuðum hætti og með s.k. blýhúðun ESB-reglugerða og tilskipana. 

"Íslenzkur sjávarútvegur er í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu, og það stendur ekki á atvinnugreininni að ná enn frekari árangri í þeim efnum.  En næstu skref í átt að markinu eru snúin.  Þegar miklum samdrætti í olíunotkun hefur verið náð, verða frekari skref fram á við bæði vandasamari og kostnaðarsamari. Af þeim sökum skiptir sköpum, að stjórnvöld tryggi svigrúm til verulegra fjárfestinga í greininni næstu árin, m.a. með hóflegri gjaldtöku og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi." 

Þetta skilja ekki vinstri grænir, og þess vegna er í meira lagi umdeilanlegt að fela þeim forsjá atvinnuvegaráðuneytis.  Þeir skilja ekki, að í atvinnugrein, hverrar velgengni er reist á miklum fjárfestingum í framleiðniaukandi og gæðaaukandi búnaði ásamt nýsköpun til að skáka samkeppnisaðilum, þarf framlegðin frá rekstri að vera há. Núna er sérstök skattheimta á útgerðir 33 % af hagnaði og almenni tekjuskatturinn leggst ofan á þetta.  Þarna er augljóslega teflt á tæpasta vað, enda einsdæmi í heiminum. Nei, vinstri græna ofstækið ætlar ekki að láta þar við sitja, heldur hækka sértæku skattheimtuna verulega. Það er ótækt, enda setur slíkt fjölda fyrirtækja í uppnám og þar með lífsafkomu fjölda fólks.  Ábyrgðarleysið er algert, og sjálfstæðismenn geta ekki fallizt á þessi vinnubrögð. 

"Hafa verður í huga, að kolefnisgjald úr hófi stendur í vegi fyrir því, að ná megi háleitum markmiðum um aukinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og veikir sömuleiðis samkeppnisstöðu sjávarafurða á erlendri grundu.

Ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum mætir því miður ekki þeim áskorunum, sem sjávarútvegur stendur frammi fyrir og varðar ekki leið að frekari samdrætti í olíunotkun.  Áherzlan er enn á óraunhæfar og íþyngjandi aðgerðir tengdar sjávarútvegi í stað þess að treysta betur fjárhagslegt svigrúm  til fjárfestinga og aukinnar verðmætasköpunar með hóflegri gjaldtöku ýmiss konar og traustari innviðum.  Markmiði um 55 % samdrátt í losun frá sjávaútvegi verður ekki náð, nema stjórnvöld og atvinnulífið hafi sameiginlegan skilning á verkefninu."

Það er ekki nóg með, að stjórnmálamenn, svífandi í lausu lofti, setji landsmönnum óraunhæf markmið í loftslagsmálum, heldur hafa embættismenn svo lítið vit á að smíða aðgerðaáætlun, að hún hjálpar heilli atvinnugrein ekkert við að ná markmiðinu, heldur torveldar það fremur. Hrokinn og minnimáttarkenndin er svo ríkur í þessu slekti, sbr "vér einir vitum", að ekki er borið við að ráðfæra sig við samtök atvinnugreinarinnar um það, hvernig bezt má verða að liði við að leysa verkefnið.  Niðurstaðan er fyrirsjáanleg: það eru bara lagðir steinar í götu atvinnugreinarinnar. 

Fyrir hvað er þá verið að refsa þessari öflugustu atvinnugrein landsins ? Jú, það er verið að refsa útgerðarmönnum fyrir að eiga aflahlutdeildirnar, sem ríkið úthlutar þeim árlega á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar um heildarveiði úr mismunandi nytjastofnum við Ísland.  Þetta einkaeignarréttarlega fyrirkomulag er grundvöllurinn að góðum árangri fiskveiðistjórnunarkerfisins íslenzka, hvort sem litið er til framleiðni og hagræðingar kerfisins, sótspors sjávarútvegsins eða ábyrgrar  umgengni hans við auðlindina.  Einkaeignarréttarlega fyrirkomulagið hámarkar stöðugleikann, sem greinin getur búið við, og fjárfestingargetu hans, en sameignarsinnar o.fl. hafa mikið reynt til að gera þetta fyrirkomulag tortryggilegt í augum almennings.  Kerfið er uppnefnt gjafakvótakerfi.  Hvílíkur uppspuni.  Þeir, sem stunduðu útgerð, þegar kerfið var sett á, og gátu sýnt fram á 3 ára aflareynslu, fengu úthlutað aflahlutdeild í byrjun.  Hverjir aðrir áttu meiri rétt á þessu ?  Kerfið er nefnt "grandfathering" á ensku og er vel þekkt erlendis.  Síðan hafa aflahlutdeildir gengið kaupum og sölum, svo að yfir 90 % þeirra hafa verið keyptar.  Auðvitað fellur þetta kerfi ekki að afdankaðri og vonlausri sameignarhugmyndafræði vinstri grænna, og það hefur komið vel fram hjá ráðherrum þeirra í matvælaráðuneytinu.  Þar hefur greinilega verið efst á dagskrá að bregða fæti fyrir útgerðirnar, enda stendur góður árangur þeirra undir þessu markaðsdrifna kerfi eins og fleinn í holdi vinstri manna (Samfylkingin meðtalin.).  Nú ætla þessir sjálfskipuðu alþýðuleiðtogar með hugmyndafræði, sem alls staðar leiðir til ófara, þar sem hún er reynd, að jafna hlut alþýðunnar.  Hvílík sjálfsblekking, fáfræði og grunnhyggni.  Þetta ofstjórnar- og ríkisbákns fyrirbrigði, sem vinstri grænir eru, verður að stöðva í skemmdarverkum þess á hagkerfi landsins.    

    

 

   


Stungið á kýlum

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, stakk á nokkrum kýlum, sem kalla má þjóðfélagsmeinsemdir, í merkri grein í Morgunblaðinu 20. september 2024.  Það má velta fyrir sér, hvers vegna vitleysa og augljós fíflagangur virðast orðin svo algeng í þjóðfélaginu núna.  Líklegt er, að gæði stjórnunar verkefna og stefnumótunar haldist í hendur við gæði skólakerfisins.  Það einkennist nú um stundir af metnaðarleysi og einhvers konar útþynningu á raunverulegri menntun, eins og ömurlegur árangur 15 ára nemenda á samræmdum prófum OECD, s.k. PISA-prófum, gefur til kynna.  Það er ekkert gamanmál eða einkamál barnamálaráðherra, að menntunarstig grunnskólans hefur hrapað á nokkrum áratugum, þótt keyrt hafi um þverbak, eftir að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, læsti klónum í ágæta námsskrá frá 1999 og gaf út aðra, sem einkennist af metnaðarleysi. 

Téð gagnrýnigrein Jóhannesar bar yfirskriftina:

"Þjóð á rangri leið".

Hún hófst þannig:

"Það er eitthvað skrítið í gangi í íslenzkum stjórnmálum. Tökum umhverfisstefnuna sem dæmi.  Eftir að hafa barizt sérstaklega fyrir því að bæta kolefniskvótaviðskiptakerfi ESB inn í EES-samninginn, eru íslenzk yfirvöld nú allt í einu hissa á, að Ísland sé eyja í miðju Atlantshafi og því eina þjóðin, sem borgar slíkan skatt fyrir flug yfir Atlantshafið, og sú þjóð, sem borgar mest fyrir skipaflutninga. Þetta frumkvæði hefur stórskaðað samkeppnishæfni landsins og lífskjör almennings." 

Téð kerfi ESB er til að beina stórflutningum til járnbrautalesta, sem búrókratar hafa fundið út, að sé með minnst sótspor.  Þetta er þó hæpið, þegar vistvæn raforka er aðeins um þriðjungur heildarraforkunotkunar og þegar allur ferill flutningatækjanna er krufinn til mergjar. Að láta þetta gilda um eyjarskeggja lengst norður í ballarhafi er óréttlátt, því að þeir eiga enga valkosti aðra en flugvélar og skip.  Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn, sem um þetta véluðu, annaðhvort sváfu á verðinum eða eru liðleskjur, þegar standa þarf fast í lappirnar, til að verjast ósanngirni eða hagsmunaátroðslu. 

"Í "land og líf"-stefnu yfirvalda á að breyta 13 % af ræktarlandi (156 km2) í mýrar og 12 % (150 km2) í skóga. Þó að þetta hljómi mikið, eru áhrif skógræktarinnar ekki nema rétt á pari við þá útblástursminnkun, sem ein 10 MW vatnsaflsvirkjun á Íslandi býr til með því að flytja álframleiðslu frá kolaorku-Kína til hreinorku-Íslands.  En í stað þess að líta slíkt jákvæðum augum, hefur hér ríkt virkjanastopp síðustu 2 áratugi, og nú er komin orkukreppa.  Stórir 100 MW virkjanakostir voru settir á bið í 2 áratugi (Hvammsvirkjun) eða friðaðir í pólitískum skollaleik (Norðlingaölduveita).  Það má ekki einu sinni tengja orkuframleiðslu milli landshluta, og allt að ígildi 200 MW frá Kárahnjúkavirkjun sóað, því [að] notandinn fær ekki orkuna. 

 

Skyndilega eiga vindmyllur að leysa allt.  Þær snúast þó ekki í logni og þurfa helzt að vera staðsettar við hlið vatnsorkuvers (sem yfirvöld hata) til að forðast risafjárfestingu í dreifikerfi og varaafli.  Fyrir vikið er hætt við, að rafmagnsreikningur allra rjúki upp, þegar borga þarf brúsann." 

Þetta er þörf ádrepa. Það er engin glóra í því að moka ofan í skurði til að endurskapa mýrar, sem undir hælinn er lagt, hvort draga úr losun koltvíildis, eða hvort meint minnkun verði viðurkennd alþjóðlega.  13 % af ræktarlandi er tífalt það, sem verjandi er að leggja undir þessa vafasömu hugdettu. 

 

Að taka ræktarland undir skógrækt í stórum stíl orkar líka tvímælis.  Skógrækt ætti að vera þáttur í landgræðslu, að koma upp skjólbeltum og að skapa störf við hirðingu og nýtingu skóganna. 

Stærsta meinlokan í þjóðfélaginu um þessar mundir er andstaðan við nýjar virkjanir, þótt þær séu umhverfisvænstu fjárfestingar, sem í boði eru á Íslandi vegna náttúru landsins.  Hér er átt við hinar hefðbundnu virkjanir. 

Andstæðingar nýrra vatnsafls- og jarðgufuvirkjana hafa gripið þau falsrök algerlega úr lausu lofti, að enginn orkuskortur sé í landinu.  Nýlega heyrðist í Vikulokunum á Gufunni frá einum þingmanni, sem að vísu er á þingi fyrir pírata, sem eru hreinir ratar í málflutningi sínum, að ekki skipti máli fyrir þjóðarbúið, hvort lokað væri einu álveri með öllu því tekjutapi og kostnaði, sem því fylgir, því að það væri líka dýrt að virkja.  Sá aumkvunarverði maður, sem þarna átti í hlut, skilur ekki muninn á fjárfestingu og rekstrarkostnaði.  Þegar fólk af þessu "kalíberi" slæðist inn á Alþingi, er ekki von á góðu.  Það leiðinlega er, að margt þekkingarsnautt og dómgreindarlaust fólk telur sig vel í stakkinn búið til að hafa vit fyrir öðrum og setja lýðnum lög. 

Nýlega lagði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, orð í belg út af því, að honum þótti of mikið gert úr orkuskortinum.  Það er furðuhjal hjá þessum forstjóra, sem hefur ekki getað orðið við neinum umtalsverðum óskum um forgangsorku í a.m.k. hálfan áratug nú.  Rökstuðningur hans lýsti ekki djúpri þekkingu á sögu afgangsorkunnar ("secondary energy"), sem nú kallast ótryggð orka.  Það var alls ekki reiknað með, að þyrfti að skerða hana til kaupenda á hverju ári, heldur var reiknað með vatnsskorti í lónum í u.þ.b. 3 árum af 30.  Ef þarf að skerða nokkur ár í röð, minnka skerðingarheimildir Landsvirkjunar á hverju ári eftir fyrsta ár skerðingarlotu.  Nú um stundir fyllist Þórislón ekki ár eftir ár vegna mikils álags, sem á kerfinu er.  Sem betur fer fylltist Hálslón á þessu hausti, en lítil flutningsgeta Byggðalínu hamlar orkuflutningum á milli landshluta, eins og Jóhannes Loftsson drepur á. Forstjóri Landsvirkjunar setti sig á háan hest og ætlaði að áminna "krakkana", m.a. hjá Landsneti, en datt strax af baki. 

"Hitaveitureikningurinn gæti farið sömu leið, því [að] samkvæmt fjárhagsspá OR 2024-2028 á að fjárfesta fyrir mrdISK 68 í kolefniskvótasprotaverkefni, þar sem mengun er dælt niður í jörðina.  Varhugavert er, að opinber fyrirtæki standi í slíkri áhættufjárfestingu, því [að] þá er almenningur ábyrgur, og hitaveitureikningurinn mun hækka, ef tilraunin misferst og allt tapast."

Það er hægt að taka heils hugar undir þetta með Jóhannesi Loftssyni, því að verkefnið, sem um ræðir, er afar varhugaverð viðskiptahugmynd og felst í að dæla uppleystu koltvíildi, bæði erlendu og innlendu, niður í jörðina.  Ferlið er orku- og vatnsfrekt, og undir hælinn verður lagt, hvaða verð þarf að greiða fyrir koltvíildið, því að einangrað er það verðmæt vara, t.d. til að hraða vexti í gróðurhúsum og sem hráefni í s.k. rafeldsneyti, sem koma á í stað jarðefnaeldsneytis og unnið er úr vetni og koltvíildi með rafmagni.  Það er fífldirfska að leggja almannafé undir af þessu tilefni, og ætti stjórn OR, þar sem Samfylkingin lengi hefur ráðið miklu, að hætta við þessi áhættusömu áform.  Þetta er langt fyrir utan það, sem OR er ætlað að fást við. 

Forstjóri Landsvirkjunar lagði líka orð í belg um rafeldsneytið.  Hann taldi, að erlendis yrði rafeldsneyti framleitt með rafmagni á verði, sem Íslendingar gætu ekki keppt við.  Það er með ólíkindum og sýnir einvörðungu, að búið er að spenna raforkuverð til iðnaðarverkefna allt of hátt hér, og hann á mesta sök á því.  Þá taldi hann markaðinn hér vera of lítinn fyrir þessa framleiðslu.  Það er harla ólíklegt, ef vinnuvélar, skip og flugvélar eru teknar með í reikninginn. Landsnet hefur í orkuspá sinni reiknað með raforkuþörf fyrir rafeldsneytisframleiðslu hérlendis. Hörður Arnarson er ekki beint uppörvandi og genginn í björg með afturhaldinu, sem viðurkennir engan orkuskort á Íslandi. 

"Það er að fjara undan frelsinu. Rétttrúnaðurinn hefur tekið yfir stjórnmálin, og sýndarmennska gervilausna er látin draga athyglina frá raunverulegu vandamálunum.  Slíkur veruleikaflótti gengur þó aldrei til lengdar, og á síðustu 2 áratugum hafa vandamálin hrannazt upp og skert lífsgæði okkar til frambúðar.  En vont getur lengi versnað, og hnignunin mun því halda áfram, og nýtt lífsgæðahrun blasir við.  Eina leiðin út er,  að þjóðin finni aftur jarðtenginguna, sem var áður en ábyrgðarlausu stjórnmálin tóku yfir."  

Þetta virðist vera dómsdagsspádómur, en Jóhannes hefur greint stöðuna nú rétt.  Stjórnmálin eru látbragðsleikur, þar sem hæfileikarýrt fólk án leiðtogahæfni er allt of áberandi, og metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sem kynti gömlu foringjana, er vart nema svipur hjá sjón.  Menntakerfið getur ekki framleitt afburðafólk, þegar allt er steypt í mót lítillar getu og metnaðarleysis. 

"Íslenzk yfirvöld eiga ekki að borga skatta til útlanda.  Íslenzk yfirvöld eiga ekki að búa til orkuskort.  Íslenzk yfirvöld eru ekki sprotafjárfestar, og rafbílavæðing er ekkert nema rándýr, gagnslaus dyggðaflöggun.  Umferðarvandi verður ekki leystur með draumórum, og fara þarf aftur í hagkvæmar, raunhæfar lausnir, eins og t.d. mislæg gatnamót.  Það leysir heldur enginn húsnæðisvanda með því að byggja bara dýrt fyrir borgarlínu, sem enginn tímir að borga fyrir.  

Er ekki kominn tími á að fá aftur ábyrgð í stjórnmál á Íslandi ?  Gerum Ísland ábyrgt aftur."

Það er grundvallaratriði að koma böndum á vöxt opinbera báknsins, því að innan þess eru sterkir kraftar til fjölgunar starfsfólks og nýrra viðfangsefna (lögmál Murphys).  Við getum vel verið án sumra þeirra og önnur væru betur komin hjá einkageiranum, því að opinber rekstur og góð og skilvirk þjónusta fara einfaldlega ekki saman.  Um það vitna mýmörg dæmi og koma mörg hver fram í fréttum hverrar viku. 

Þá þarf meðferð opinbers fjár að batna stórlega, og er þar s.k. samgöngusáttmáli hrópandi dæmi.  Sérvizkuhópar á vinstri vængnum hafa náð allt of miklum áhrifum m.v. fylgi í þjóðfélaginu, og má þar nefna bílaandstæðinga, sem móta afspyrnu þröngsýna, dýra og óhagkvæma stefnu Reykjavíkurborgar í umferðarmálum og virkjanaandstæðinga, sem samkvæmt nýlegri skoðanakönnun njóta stuðnings 3 % þjóðarinnar. Haldið er dauðahaldi í vonlaust og niðurdrepandi kennslufyrirkomulag skóla án aðgreiningar, sem engum nemendum hentar, og hælisleitendalöggjöfin og framkvæmd hennar hefur valdið miklu meiri kostnaði og vandræðum innanlands en þetta litla samfélag getur afborið.  

 

 

 

  

 

 


Koltvíildi er auðlind, ekki úrgangur

Nú er í undirbúningi hjá fyrirtækinu Carbfix, sem er eitt dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur, OR, heldur betur að færa út kvíarnar frá því að vinna CO2 úr losunargufum Hellisheiðarvirkjunar, blanda þær vatni og dæla niður í bergið á Hellisheiði, yfir í að starfrækja nýtt fyrirtæki, CODA-terminal í Straumsvík, sem ætlað er að flytja inn milljónir tonna af CO2 frá iðjuverum í Evrópu og taka við CO2 frá innlendum fyrirtækjum gegn gjaldi, blanda þessu við gríðarlegt magn vatns, líklega úr Kaldánni, sem rennur þarna til sjávar á um 25 m dýpi undir hrauni, og dæla vökvanum niður í jarðlögin við Straumsvík í von um, að vökvinn krystallist þar. Þessi viðskiptahugmynd er líklega andvana fædd.   

Hér á þessu vefsetri hefur verið efazt um þessa viðskiptahugmynd vegna þess, að hún er í samkeppni við nýtingu á CO2 á meginlandi Evrópu og hérlendis í framtíðinni.  Hætt er við, að þetta ævintýri verði þungur fjárhagsbaggi á OR, og við hefur bætzt megn óánægja Hafnfirðinga, einkum íbúa á Völlunum, með þessar fyrirhuguðu framkvæmdir og mögulega fjárbindingu Hafnarfjarðarbæjar í gagnsleysi. 

Nú er Straumsvík og ströndin úti fyrir ISAL lóðinni hrein og náttúruleg, en er hættandi á að fá aðskotaefni með unnu koltvíildi út í sjóinn ?

Þann 17. júlí 2024 birtist Sjónarhólsgrein í Morgunblaðinu eftir hagfræðinginn Þórð Gunnarsson, sem beinlínis bendir á rísandi stórmarkað fyrir koltvíildið.  CODA terminal getur varla keppt við þann iðnað, sem þörf hefur fyrir CO2.  Fyrirsögn greinarinnar var:

"Auðlind eða úrgangur".

"Hækkandi koltvísýringsmagn hefur haft áhrif á hitastig jarðar og hefur alltaf gert (á síðast liðnum 100 árum hefur hlutfall koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hækkað úr 0,03 % í 0,04 %). Stórbýlið Brattahlíð á Suður-Grænlandi hefði ekki risið fyrir tilstilli Eiríks, rauða, nema því að þá var jökullinn nokkrum km innar í firðinum en hann er í dag - og veðurfar talsvert mildara.  Enda var þá loftslag jarðar miklu hlýrra en það er [núna], og var það hundruðum milljóna ára þar á undan [en téð hlýskeið stafaði einmitt ekki af hærri styrk koltvíildis í andrúmslofti en nú er.  Það eru deilur um, hversu mikilli hlýnun CO2 veldur.]

Boranir í Grænlandsjökul sýna, að hlýskeið landnámsaldar var af öðrum orsökum en háum CO2 styrk. CO2-kenningin er ofeinföldun á núverandi hlýnun. 

"Sú siðmenning og lífsgæði, sem heimsbyggðin er orðin vön og krefst, byggist öðru fremur á orkunotkun.  Í hinu hnattræna samhengi hefur sú orkunotkun fyrst og fremst verið byggð á notkun jarðefnaeldsneytis allt frá dögum iðnbyltingarinnar.  Vart er raunhæft, að látið verði af notkun kolefniseldsneytis á næstu áratugum. 

Stefnumótun stjórnvalda í hinum vestræna heimi hefur öðrum þræði snúið að lágmörkun á óhindraðri losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.  Tækni við föngun koltvísýrings hefur tekið hröðum framförum á undanförnum árum.  Því er vert að spyrja í nafni hringrásarhagkerfisins - hvað gerum við við allar þessar koltvísýringssameindir ?  Er um að ræða úrgang eða auðlind ?" 

Það er líklega ofmælt, að aðferðarfræðin og búnaðurinn til að draga CO2 úr t.d. kerreyk álvera hafi þróazt hratt á undanförnum árum, því að kostnaðurinn er gríðarlegur.  Kostnaður við að fjarlægja CO2 úr kerreyk nemur um þessar mundir um 500 USD/t með búnaði til þess með aðeins 1000 t/ár CO2 afkastagetu.  M.v. núverandi losunargjald á CO2 er mun ódýrara að losa út í andrúmsloftið en að rembast við að dæla því niður í jörðina sem úrgangi.

Allt annað er uppi á teninginum, ef þetta unna koltvíildi er meðhöndlað sem auðlind, sem unnt er að skapa verðmæti úr. CO2 er auðvitað notað í gróðurhúsum til að örva vöxt, en ekki er víst að kerreykstvíildi sé nægilega hreint til þess.  Það er hins vegar væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að fara inn í framleiðsluferli eldsneytis fyrir skip og flugvélar. 

"Kröfur eru uppi um aukið hlutfall svo kallaðs sjálfbærs eldsneytis (SAF) í rekstri skipa- og einkum flugsamgangna.  Evrópusambandið hefur ákveðið að stefna að 65 % hlutfalli sjálfbærs flugvélaeldsneytis árið 2025.

Óháð umræðu um gullhúðun Evrópureglugerða hér á landi munu mörg evrópsk flugfélög, sem halda úti áætlunarflugi hingað til lands, gera kröfu um aðgengi að téðu eldsneyti hér á landi. 

Að óbreyttu mun Ísland því þurfa að flytja það inn, en sökum hás orkuverðs og þar af leiðandi hás framleiðslukostnaðar er SAF töluvert dýrari en steinolían, sem í dag er nýtt á flestar gerðir þotna.  Framleiðsluferill SAF krefst bæði mikils magns koltvísýrings sem og orku, en í sem stytztu máli snýst það um að vetnismetta lífrænar olíur á borð við repjuolíu eða notaða djúpsteikingarolíu, og breyta þeim þannig í kolefnisvökva, sem nothæfur er til eldsneytisframleiðslu. 

Nokkuð fellur til af koltvísýringi hér á landi við rekstur jarðhitavirkjana, en ekki í nægu magni, svo að byggja megi upp iðnað í kringum framleiðslu eldsneytis.  Því mun Ísland þurfa að flytja inn koltvísýring í miklu magni, ef ákveðið verður að ráðast í eldsneytisframleiðslu hér á landi."

  Hér er um ótrúlega metnaðarfulla markmiðssetningu ESB að ræða, sem kemur sér illa fyrir Íslendinga, sem eiga enga raforku til nýsköpunar af þessu tagi vegna óskiljanlegrar þvermóðsku afturhaldsins í landinu. Það væri þó alveg kjörið að framleiða sjálfbært eldsneyti á Íslandi vegna gnóttar endurnýjanlegra orkulinda. 

Það er villandi að halda því fram, að koltvíildi falli til í jarðhitavirkjunum, því að það þarf að vinna úr gufunum, sem losna úr læðingi í þessum jarðgufuvirkjunum, og það er dýrt og orkukræft.  Höfundurinn nefnir ekki CO2-losun þungaiðnaðarins hérlendis, en hann nemur yfir 2,0 Mt/ár.  Þessi iðnaður gæti látið CO2 í té á verði, sem jafngildir kostnaðinum, því að í staðinn losnar hann við að kaupa losunarheimildir, sem búið er að skylda hann til.  Nú er spurningin, hvort eldsneytisiðnaður á Íslandi yrði samkeppnishæfur með koltvíildi í framleiðsluferlinu, sem kostar um 500 USD/t ?

"Ísland hefur mikla hagsmuni af því að framleiða sitt eigið eldsneyti fremur en að flytja það inn.  Í eðlilegu árferði flytur Ísland inn þotueldsneyti fyrir tugi mrdISK/ár.  Ef fram heldur sem horfir, verður þessi dýri innflutningur enn þá dýrari á næstu árum og áratugum.  Því er til mikils að vinna að koma upp framleiðslu á flugvéla- og skipaeldsneyti hér á landi með framleiðsluaðferðum, sem eru vel þekktar og þrautreyndar.

Ísland ætti að geta náð samkeppnisforskoti við framleiðslu eldsneytis til stórflutninga, ef orkumálum verður hagað með skynsamlegri hætti en verið hefur á undanförnum árum.  Það eina, sem vantar hér á landi er meiri koltvísýringur - efnasamband, sem er hreinlega auðlind, ef ætlunin er að framleiða eldsneyti með öðru en vinnslu á nýrri hráolíu." 

 Annað hráefni inn í þessa framleiðslurás er vetni.  Þess vegna þarf vetnisverksmiðju, og hún notar talsvert rafmagn.  Iðnaðarráðherra, sem jafnframt er ráðherra nýsköpunar, ætti að láta setja saman framkvæmdaáætlun um þetta verkefni, sem þá verður hægt að kynna fyrir fjárfestum og notendunum, aðallega flugfélögum og skipafélögum.  Orkuráðherrann, sem vanalega sefur sitjandi, ætti nú að hrista af sér slenið og láta gera áætlun um virkjanir, aðveitustöðvar og flutningslínur fyrir þetta verkefni, og síðan yrði sett sérlöggjöf um heildarmálið, enda er hér málefni, sem varðar atvinnulíf og efnahagslíf landsins miklu.  Ríkissjóður mundi ekki standa í neinum fjárhagsskuldbindingum út af þessari atvinnustarfsemi, enda hefur hann meira en nóg á sinni könnu með sinn hallarekstur og skuldasöfnun.  

 

 

    

 

 


Misráðin loftslagsstefna

Forsendur ESB/EES í losunarmálum CO2, nema þá helzt Noregs, og Íslands eru svo ólíkar, að það var vanhugsað að hengja landið aftan í losunarvagn ESB/EES með sömu hlutfallslegu losunarmarkmið.  Þetta sést greinilega, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun Íslands og Evrópusambandsins er borið saman.  Á Íslandi er það um 15 %, en í ESB yfir 80 %.  Hér hefur stjórnmálamönnum hérlendum og embættismönnum þeirra enn einu sinni orðið á í messunni að átta sig ekki á, að eftir því, sem losunin er minni, verður dýrara og erfiðara á hvert tonn að draga úr henni. Ráðamenn sjá ekki að sér, heldur þvert á móti.  Þeir halda lengra út á foraðið.   

Það er mjög ánægjulegt að sjá, að a.m.k. einn Alþingismaður hefur nú komið auga á þetta og tjáð sig með róttækum hætti um málið.  Það er Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV, sem reit pistil um málið 20. júlí 2024 í Morgunblaðið, og hafi hann þökk fyrir, undir fyrirsögninni: 

"Jarðtengja þarf loftslagsstefnu Íslands".

Hann hófst þannig:

"Íslenzk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Stefnan er reyndar sú að fylgja ESB í tölulegum markmiðum um minnkun losunar kolefna í samræmi við Parísarsamkomulagið frá 2015 og gott betur.  Markmiðið er, að árið 2030 verði losun 55 % minni en árið 2005 og árið 2040 verði Ísland kolefnishlutlaust, 10 árum á undan ESB.

Ísland hefur á síðustu áratugum náð verulegum árangri í orku- og loftslagsmálum með rafvæðingu og uppbyggingu hitaveitukerfa.  Hlutfall grænnar orku á Íslandi er mjög hátt eða um 85 %.  Þessi 15 %, sem út af standa, er innflutt olía, sem er aðallega sett á ýmis farartæki.  Til samanburðar er hlutfall grænnar orku í löndum ESB að meðaltali undir 20 %."

Þessi gríðarlegi munur á hlutfallslegri jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga og íbúa ESB veldur því, að það er lítið vit í því fyrir Íslendinga að undirgangast sömu hlutfallslegu markmið og gert er í ESB.  Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn sinntu þessu ekkert, heldur hikuðu ekki við að leggja á herðar landsmönnum erfiðari og þungbærari skuldbindingar en aðrir tóku á sig.  Katrín Jakobsdóttir og umhverfisráðherra VG bitu síðan höfuðið af skömminni með því að lofa kolefnishlutleysi hér áratugi á undan ESB.  Fyrir stjórnmálamenn af þessu tagi er hégómaskapur, sýndarmennska og hanastélsboð aðalatriðið, en kostnaður og heilbrigð skynsemi eru aukaatriði.  Stjórnsýsla vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er skussa stjórnsýsla, sem hefur orðið og mun verða landsmönnum dýr, enda er ekki heil brú í stefnu flokksins.  

"Parísarsamkomulagið kveður á um, að aðildarríki skulu hafa markmið um að minnka losun og veita upplýsingar þar að lútandi.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað þegar árið 2009 að hætta að halda til haga sérstöðu landsins, og ríkisstjórn Sigmundar Gunnlaugssonar gaf frá sér sjálfstæði í málaflokkinum til að fylgja ESB að málum árið 2015. 

Réttast er að vinda ofan af þessum ákvörðunum og taka upp loftslagsstefnu í samræmi við Parísarsamkomulagið, sem sett er á réttum forsendum og byggð er á sérstöðu Íslands og íslenzkum hagsmunum.  Stefnan verður að hvíla á raunhæfum grunni, þ.e. efnahagslegum, samfélagslegum og tæknilegum forsendum, sem samstaða ríkir um."   

Fyrsta hreina vinstri stjórnin, en svo er téð ríkisstjórn Jóhönnu, 2009-2013, stundum nefnd, var ógæfustjórn.  Menntamálaráðherrann, Katrín, eyðilagði aðalnámskrána, lagði af samræmd próf, gerði skóla án aðgreiningar að reglu og lagði grunn að hnignun grunnskólans, sem öllum má nú ljós vera.  Þar sem áður var stoltur grunnskóli, sem útskrifaði nemendur með staðgóðan þekkingargrunn fyrir lífið, er nú eitthvað, sem enginn veit, hvað er, enda hulið í sósíalískum moðreyk.  Tilraunastarfsemi af þessum toga með fjöregg æskunnar er algerlega ábyrgðarlaus. 

Þegar þessi vinstri stjórn leitaði inngöngu fyrir Ísland í ESB, hefur auðvitað verið "tabú" að halda á lofti sérstöðu og hagsmunum Íslands.  Þetta metnaðarleysi er til skammar. 

"Sem dæmi þá þarf tafarlaust að virkja meiri græna orku hér á landi, til að markmið um orkuskipti í samgöngum náist.  Ef ekki næst samstaða um að virkja meira, verður að endurskoða markmið um orkuskipti til samræmis við þann veruleika.

Að sama skapi verður þátttaka Íslands í alþjóðastarfi á sviði loftslagsmála að byggjast á sameiginlegum forsendum og hagsmunum.  Eins og sakir standa, er Ísland í slíkum afreksflokki, að ESB er varla réttur samstarfsaðili."

  Þarna kveður við nýjan tón í orku- og loftslagsmálum.  Aldrei heyrist neitt frumlegt í þessum anda frá ráðherranum, sem með þessi mál fer, enda ríkir þar alger kyrrstaða.  Vonandi er, að fyrir næstu Alþingiskosningar myndi Sjálfstæðisflokkurinn stefnu fyrir næsta kjörtímabil og lengur í þessum anda.  Það er óboðlegt að hjakka svona í sama farinu og fljóta sofandi að feigðarósi.  

 


Vegakerfi í molum

Vegagerðin stendur frammi fyrir gríðarlegri endurbóta- og viðhaldsþörf á megninu af þjóðvegum landsins.  Ástæðurnar eru 2:  Umferðin, sérstaklega þungaumferðin, er meiri en vegirnir þola, og þeir eru of þröngir.  Hvort tveggja gerir vegakerfið hættulegra en ásættanlegt er, og þess vegna þarf þjóðarátak til að endurbæta vegakerfi landsins.  Á sama tíma er ekki hægt að ráðast í gagnslaust gæluverkefni Samfylkingar og pírata í Reykjavík, sem kallað er Borgarlína og er í raun stalínísk byltingartilraun samgönguhátta á höfuðborgarsvæðinu frá einkabílnum til almenningsvagna, sem ætlunin er að staðsetja á sérakreinum miðlægt á núverandi vegstæði.  Engin spurn er eftir þessari rándýru þvingunartilraun á meðal í íbúa höfuðborgarsvæðisins, og hæpið er að halda því fram, að stjórnmálaflokkar í meirihluta sveitarstjórna hafi í sveitarstjórnarkosningum fengið umboð kjósenda til að standa að þessari hönnun og framkvæmdum. Þetta er nægilega stórt (dýrt) og afdrifaríkt mál til að réttlætanlegt sé að fara út í íbúakosningu um málið í hverju sveitarfélaganna.  Verður þá að ganga tryggilega frá því, hversu mikil þátttakan þarf að vera, til að niðurstaðan verði bindandi fyrir stjórnmálamennina.  Kjósa mætti um 3 kosti: 

a) miðjusettar sérreinar, ein í hvora átt

b) hliðsettar sérreinar til hægri 

c) hvorugur ofangreindra kosta

 Þann 2. júlí 2024 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu um þessi mál eftir Bjarka Jóhannesson, skipulagsfræðing, verkfræðing og arkitekt:

 "Þjóðvegir eða borgarlína".

Hún hófst þannig:

"Banaslys á þjóðvegum landsins eru of mörg, og nýverið voru á þeim 2 alvarleg rútuslys.  Framkvæmdastjóri Vörumiðlunar, sem rekur flutningabíla á Sauðárkróki, segir í viðtali við Morgunblaðið 22. júní [2024], að "ástand þjóðveganna sé mjög slæmt.  Undirlag fjölförnustu leiða sé mjög veikt, og í sumum tilvikum sé aðeins mulningur ofan á moldinni.  Hringvegurinn sé ónýtur að stórum hluta, alveg frá Hvalfjarðargöngum.  Vegir séu að gefa sig undan þunga, og grjótkast sé víða vandamál."

Orsök lélegs vegundirlags liggur í því, að að klæðning er notuð sem bundið slitlag á 90 % af íslenzkum þjóðvegum í stað malbiks.  Klæðningin er malarslitlag með olíublönduðu asfalti.  Umferðin er látin þjappa niður lausamölina með tilheyrandi steinkasti."

Undirlag mikils hluta veganna er of veikt m.v. við núverandi og framtíðar umferðarálag, þar sem tekið er tillit til fjölda öxla og öxulþunga, en álagið fylgir öxulþunga í 4. veldi.  Þess vegna munar um alla þungaflutninga, sem fara sjóleiðina, til að létta á þjóðvegunum.  M.v. útlit veganna er líklegt, að álagið á þá sé víða komið yfir hönnunarmörk, og breiddin er víða undir mörkum, sem Evrópustaðlar gefa.  

"Þrátt fyrir þetta er í tillögu að samgönguáætlun 2024-2040 gert ráð fyrir kostnaði ríkisins við svo nefnda borgarlínu upp á mrdISK 80 á næstu 10 árum.  Með upp gefnum óvissustuðli allt að 70 % fer upphæðin í tæpa mrdISK 130.  

Ég hef áður skrifað, að hér er verið að kasta peningum út um gluggann, og sýndar hafa verið mun ódýrari lausnir á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins. Þá á eftir að telja þann kostnað, sem fellur á sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, m.a. við undirbúningsvinnu á hæpnum forsendum og fjáraustur í skrautsamkeppnir um byggð við borgarlínuna."

Það er hægt að taka fyllilega undir þessa hörðu gagnrýni höfundarins, að með opinberum fjáraustri til Borgarlínu er verið að kasta fé út um gluggann, því að engin spurn er eftir verkefninu frá öðrum en stjórnmálamönnum forsjárhyggjunnar undir bumbuslætti Samfylkingarinnar, sem hefur lengi borið þetta gæluverkefni fyrir brjósti.  Gallinn er hins vegar sá, að það leysir ekki umferðarvandann, heldur magnar hann.  Þetta er algerlega óábyrg forgangsröðun fjármuna, sem Kristrún Frostadóttir virðist leggja blessun sína yfir. 

 

 

"Þau rök, sem færð hafa verið fyrir borgarlínunni, eru, að hún muni draga úr notkun einkabílsins og þar með hafa jákvæð umhverfisáhrif.  Hvort tveggja er mjög hæpið.  Þar sem allir armar borgarlínu liggja að miðborginni, er líklegt, að notkun hennar miðist að langmestu við ferðir þangað til og frá vinnu og skóla kringum kl. 9 og 16."

Með núverandi vali á legu Borgarlínunnar er líklegt, að hana dagi uppi sem eins konar steintröll, því að svo getur farið, að ferðum í og úr vinnu í miðborginni muni fækka í framtíðinni vegna þróunar á vinnumarkaði.  

 

 

"Forsvarsmenn borgarlínu gera ráð fyrir, að 12 % samgangna á höfuðborgarsvæðinu fari um borgarlínuna.  Það er ofmetið, og með mikilli bjartsýni má kannski hugsa sér, að 12 % ferða til og frá sjálfri miðborginni yrði með borgarlínunni og heildarhlutur allra ferða á höfuðborgarsvæðinu í mesta lagi um 2 %."

  Höfundur þessa vefseturs telur líklegra, að heildarhlutur borgarlínu í ferðum höfuðborgarsvæðisins verði nær 2 % en 12 % m.v. ferðahegðun Íslendinga og íbúa í sambærilegum borgum erlendis, ef farið verður í nokkrar framkvæmdir til að liðka fyrir almennri bílaumferð, sem líklegt er, að ákall verði senn um frá íbúunum.  Þá liggur í augum uppi, að fjárfestingar fyrir borgarlínu Samfylkingarinnar eru fásinna og elgerlega út úr korti á tímum æpandi fjárþurrðar til framkvæmda og viðhalds stofnvega landsins, þar sem s.k. "innviðaskuld" gæti numið allt að mrdISK 300. 


Dýr misskilningur íslenzkra embættismanna

Þegar Evrópusambandið (ESB) setur í reglugerðir sínar og tilskipanir, að þær skuli ekki gilda eða gilda í vægari mæli um fyrirtæki undir ákveðinni stærð, t.d. m.v. veltu í EUR/ár eða ársverkum, þá halda íslenzkir embættismenn, sem véla um innleiðingu þess, sem frá Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel kemur til viðkomandi ráðuneytis, að þeir eigi að staðfæra fyrirtækjastærðina með einhverju ótilgreindu hlutfalli af íbúafjölda Íslands og meðalíbúafjölda í aðildarlöndum ESB.  Hér er grundvallar misskilningur á inntaki gerðanna á ferðinni.  Stærð fyrirtækja er ekki afstæð eftir löndum.  Hún er algild, því að alls staðar gilda sömu lögmál um hagkvæmni stærðarinnar.  Búrókratar í Brüssel hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir, að það er hægt að leggja meiri skriffinnsku byrðar á stór fyrirtæki en smá án þess að skekkja samkeppnisstöðuna verulega við lönd utan við "Festung Europa".  

Íslenzkir embættismenn lifa margir hverjir í tómarúmi við sitt skrifborð og bera ekki skynbragð á það, sem að atvinnurekstri í samkeppni snýr, enda er samkeppnisstaða íslenzkra fyrirtækja sú lakasta á Norðurlöndunum og þó víðar væri leitað.  Brýnt er að snúa þessu við m.a. með endurhæfingu embættismannageirans hjá ríki og sveitarfélögum í þá veru að styrkja fremur samkeppnisstöðu fyrirtækjanna en hitt.  Auðvitað þyrftu verkalýðsforkólfar og stjórnmálamenn á slíkri endurhæfingu að halda líka.  

Dóra Ósk Halldórsdóttir birti Sviðsljóssgrein í Morgunblaðinu 19. júní 2024 um efnið undir fyrirsögninni:

"Gullhúðun beitt án eðlilegs rökstuðnings".

Hún hófst þannig:

""Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, að það sé ekki verið að gullhúða EES-gerðir, nema til þess beri brýna nauðsyn", segir Brynjar Níelsson, lögmaður og formaður starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, en skýrsla á vegum hópsins var birt í gær á vef utanríkisráðuneytisins.  Auk Brynjars voru í starfshópnum dr Margrét Einarsdóttir, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.  

Ástæða þess, að starfshópurinn var stofnaður, var langvarandi umræða og gagnrýni á s.k. gullhúðun, þegar EES-gerðir voru staðfestar í landsrétt og gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerðu ráð fyrir.  

"Það þurfti að fara yfir þetta, því [að] í mörgum tilvikum virtust hvorki hagsmunaaðilar né þingmenn hafa nægar upplýsingar um það, þegar verið var að gera löggjöfina meira íþyngjandi en hún þyrfti að vera", segir Brynjar."

Það er algerlega forkastanlegt, að einhverjir embættismenn smygli sérskoðunum sínum og túlkunum inn í lagatexta. Þetta er svo ólýðræðislegt atferli, að það getur varla verið löglegt.  Þetta sýnir í hnotskurn, hvers konar vinnubrögð viðgangast í ráðuneytunum og stofnunum ríkisins.  Er þar smákóngaveldið ríkjandi ? Það eru víða vargarnir, sem gera sér leik að því að leggja stein í götu atvinnurekstrar, hvenær sem þeir fá tækifæri til. 

Til að komast að rótum vandans, þarf að grafast fyrir um, hverjir hafa gert þetta og taka þessi verkefni af þeim.  Annars er hætt við, að ósóminn haldi áfram, því að hvorki þingmenn né ráðuneytisstjórnendur virðast gera nokkra gangskör að því að bera saman frumtextann og þann, sem hér er leiddur í lög. 

""Þetta er umfangsmeira en menn átta sig á, og rökstuðningur ásamt mati á áhrifum gullhúðunar er mjög takmarkaður og stundum enginn", segir Brynjar og bætir við, að það sé lágmarkskrafa, að fyrir liggi góður rökstuðningur, ef EES-gerðir eigi að vera meira íþyngjandi en þær þurfi að vera. 

"Ef við ætlum að gullhúða á annað borð, þarf að vera tilgangur með því, sem er til góðs, en ekki að setja íþyngjandi reglur og tilheyrandi kostnað á fyrirtæki, sem hefur íþyngjandi áhrif á markaðsstöðu þeirra í samkeppni við fyrirtæki í Evrópu." 

Í því sambandi segir Brynjar, að sumar innleiðingarnar vísi til mjög stórra fyrirtækja, en í mörgum tilvikum hafi þær verið færðar á smærri fyrirtæki hérlendis.  "Við getum ekki verið að gera strangari kröfur til okkar fyrirtækja en þörf krefur.  Það veikir samkeppnisstöðu okkar að láta lítil og meðalstór fyrirtæki sæta reglum, sem sambærileg fyrirtæki í Evrópu búa ekki við.  En það er eins og okkur þyki eitthvað göfugt við að gera enn strangari kröfur til okkar fyrirtækja og okkar atvinnulífs." 

Hann bætir við, að til samanburðar hafi Bretar haft það sem meginreglu, þegar þeir voru í ESB, að það sé ekki heimilt að gullhúða, nema alveg sérstakar aðstæður krefjist þess."

Það er fullkominn barnaskapur, ef ekki heimska, af íslenzkum embættismönnum og/eða stjórnmálamönnum að láta sér detta í hug að breyta inntaki gerða ESB til að leggja ósanngjarnar sérkröfur á íslenzkt atvinnulíf og þar með á íslenzkan almenning.  Auðvitað hefst vitleysan hjá íslenzku fulltrúunum í Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel.  Ef þeir hefðu staðið í stykkinu, hefðu þeir bókað, að viðkomandi gerð ætti ekki við að svo stöddu á Íslandi, eða ætti aðeins við tiltekinn lítinn fjölda fyrirtækja.  Þar með hefðu illa áttaðir ráðuneytismenn hér síður dottið í þá gryfju að breyta inntakinu til að aðlaga gerðina að íslenzkum aðstæðum.  Hvernig háttar þessu til í öðrum fámennum löndum EES ?  Hefur nokkrum embættismanni/stjórnmálamanni þar dottið í hug að fara "íslenzku leiðina" í þessu máli ?  Þegar mál af þessum toga koma upp, renna á mann 2 grímur um það, hvort íslenzka stjórnkerfið sé nægum hæfileikum búið til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi.  Í þeim efnum reynir jafnan mest á utanríkisráðuneytið. 

 "Starfshópurinn leggur til, að allur ramminn í kringum innleiðingu EES-skipana verði gerður skýrari og að krafizt sé rökstuðnings og mats á áhrifum [breyttrar] innleiðingar á samkeppnisumhverfi landsins, þannig að gullhúðun gerist ekki án þess, að fjallað hafi verið sérstaklega um hana á öllum stigum og upplýst ákvörðun hafi verið tekin í hverju tilviki, byggð á því, að gullhúðunin sé til bóta, en ekki íþyngjandi.

Brynjar segir, að í ljósi þess, að gullhúðun fer frekar vaxandi en hitt, sé mikilvægt, að það sé öllum ljóst, hvers vegna henni sé beitt, og þess vegna þurfi öll umgjörð að vera mjög skýr og einföld.  "Við höfum skilað af okkur þessari skýrslu með tillögum um, hvernig hægt sé að gera þetta ferli skýrara, en núna er boltinn hjá Alþingi.""

Það er svo mikið í húfi hér fyrir lífskjör þjóðarinnar, að réttast væri að setja refsiákvæði í væntanleg lög um innleiðingar gagnvart því, að einhverjir pótintátar smygli gullhúðun inn umræðulaust.  Í raun er það sálfræðilegt viðfangsefni að komast að því, hvers vegna menn finna hjá sér þörf til að leika landa sína grátt.  Það er síðan með eindæmum og falleinkunn fyrir viðkomandi ráðuneytisstarfsmenn, að gullhúðun skuli fara vaxandi.  Starfsmenn, sem að þessu vinna, þarfnast endurhæfingar. Það hefur komið fram opinberlega sjónarmið um, að málið sé stórt og knýjandi og réttast væri, að forsætisráðherra gerði að því gangskör, að þegar á haustþingi 2024 verði gerðar stjórnsýslulegar endurbætur til leiðrétta mistök fortíðar og girða fyrir frekari mistök á þessu sviði. Undir það skal taka.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband