Ekkert er nýtt undir sólunni

Því er gjarna haldið fram, að Evrópusambandið (ESB) hafi verið reist á rústum Evrópu eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar runnið hafi upp fyrir mönnum, að feta yrði nýjar slóðir í samskiptum Evrópuríkja.

Þeir, sem leggja trúnað á, að hér sé nýtt fyrirbæri á ferð, hafa sofið í mannkynssögutímunum sínum.  Maður var nefndur Karl og kallaður hinn mikli, Karlamagnus eða Charlemagne, af því að hann vann það afrek að sameina ríki Germana, að nokkru leyti Galla og Langbarða á Ítalíu.  Hann gerði þetta með fádæma grimmd og var kallaður afhausarinn fyrir vikið.  Karl mikli stjórnaði ríki sínu frá Aachen í Þýzkalandi, þegar hann lá ekki í hernaði.  Þetta ríki liðaðist í sundur strax eftir hans dag.

Um aldamótin 1500 kemur til skjalanna svissnesk höfðingjaætt, Habsborgarar, sem voru illa séðir í sínu heimalandi fyrir grimmd og fégræðgi.  Þeir náðu völdum í hinu heilaga rómverska ríki þýzkrar þjóðar með höfuðstöðvar í Vínarborg.  Þetta ríki náði yfir svipað landsvæði og ríki Karls, mikla, og var í raun og veru forveri ESB.  Það náði þó ekki að tryggja frið í Evrópu. 

Þrjátíu ára stríðið, 1618-1648, lék sumar Evrópuþjóðir mjög grátt og fækkaði fólki í heild um 30 %, en t.d. Prússum fækkaði um 80 %.  Eftir Þrjátíu ára stríðið var haldinn Reichstag, ríkjaráðstefna, í Regensburg, hinni fögru borg Bæjaralands, og þar komu menn sér saman um samskiptareglur, sem dugðu til að hindra aðra stórstyrjöld.  Habsborgararíkið í þessari mynd stóð til 1806, þegar Frakkar, undir forystu Napóleóns Bonaparte frá Korsíku, tóku völdin í Evrópu tiltölulega mótstöðulítið og héldu þeim til 1812, er þeir fóru feigðarför til Moskvu, og voru síðar gjörsigraðir við Waterloo árið 1814 af enska hernum, undir forystu Wellingtons, og prússneska hernum, undir forystu von Blüchers.

Habsborgararíkið sveiflaðist allan tímann á milli sterkrar miðstjórnar og valddreifingar til prinsa og baróna.  Sérstaklega beittu Prússar sér fyrir valddreifingu, þegar þeim tók að vaxa fiskur um hrygg eftir hildarleik Þrjátíu ára stríðsins.  Nú gæti hið sama verið að gerast með ESB.  Tímabil æ meiri sameiningar, "an ever closer union", gæti nú verið komið á leiðarenda.  Evran hefur misheppnazt, og Bretar o.fl. eru í uppreisn gegn Brüsselvaldinu.  Tíminn virðist vinna með Bretum, því að árangur miðstýringar er langt undir væntingum, og æ fleiri verður ljóst, að miðstýring stenzt valddreifingu ekki snúning.  Einfaldast er í því sambandi að bera saman árangur Þýzkalands og Frakklands á seinni árum.  Í Þýzkalandi ríkir valddreifing, en ekkert ríki Evrópu er svo miðstýrt sem Frakkland. 

Nú er í Evrópu hugað að stefnubreytingu fyrir ESB, því að allir, nema Samfylkingarforkólfar, sjá, að fara verður nýjar leiðir til að finna lífvænlegar lausnir.  Habsborgararíkið var nefnt sem forveri ESB.  Þar voru tvær myntir, ein í norðri og önnur í suðri.  Hér skal gera því skóna, að E-mark verði stofnað af lánadrottnum á núverandi evru-svæði, sem láti skuldunautana róa með evruna, sem geti þá fellt hana að vild.  Lánadrottnar evru-svæðisins eru Þýzkaland, Austurríki, Holland, Lúxemburg og Finnland.

Aðalmunurinn á samsetningu Habsborgararíkisins og ESB felst í því, að Stóra-Bretland, þrátt fyrir Brezka samveldið, er í ESB, en var alltaf utan við ríkjasambönd Evrópu áður fyrr.  Bretar munu af hagfræðilegum og sálfræðilegum ástæðum aldrei fleygja sterlingspundinu og taka upp evru.  Eftir því sem ESB nálgast meira að verða sambandsríki ("an ever closer union"), verða Bretar órólegri sem aðildarríki.  Meirihluti brezku þjóðarinnar vill segja skilið við ESB, og þess vegna eykst þrýstingur brezka þingsins á ríkisstjórnina að finna framtíðarlausn á sambandinu við ESB, sem ekki felur í sér aðild.

Bretar vilja láta sitja við fríverzlunarbandalag Evrópu, þ.e.a.s. þeir vilja vera á Innri markaðinum og njóta frelsanna fjögurra, en sleppa stjórnmálalegum sameiningartilraunum með viðeigandi fullveldisframsali til embættismanna, sem aldrei þurfa að standa brezkum kjósendum reikningsskap gjörða sinna.  Bretar eru eðlilega mjög viðkvæmir fyrir þeim lýðræðishalla, sem þeir verða fyrir með framsali fullveldis brezka þingsins til ókjörinna embættismanna og þings í Brüssel, þar sem sjónarmið Breta verða yfirleitt undir. Það getur vel verið, að Brüssel muni sjá ákveðin tækifæri fólgin í aukaaðildarfyrirkomulagi fyrir Breta og aðra líkt þenkjandi.  Brüssel gæti þá samið við Tyrki um slíka aukaaðild, en langdregið inngönguferli Tyrkja er orðinn stjórnmálalegur baggi á ESB.

Berlaymont vill staðla samninga sína við EES-ríkin og ríki með tvíhliða samninga við ESB. Berlaymont mundi sjá aukna skilvirkni og einföldun felast í sams konar aukaaðild allra þessara ríkja.  Það getur vel verið, að slík aukaaðild í hópi m.a. Noregs, Svisslands og Bretlands geti þjónað hagsmunum Íslands betur en núverandi EES-fyrirkomulag, ef aukaaðildin væri aðeins viðskiptalegs eðlis.  Slíkt mundi sennilega falla að núverandi Stjórnarskrá Íslands, og vangaveltur um að heimila fullveldisframsal í Stjórnarskrá yrðu óþarfar, eins og reyndar allt þetta stjórnarskráarhjal, sem ríkisstjórn vinstri flokkanna notar í vafasömu augnamiði.  Hún er ekki heiðarleg í nokkru máli.

ESB væri þá þrígreint, þ.e. ESB-Berlín, ESB-París og ESB-London.  Það er alveg til í dæminu, að Austur-Evrópa mundi leita aukaaðildar með ESB-London.  Samkeppni mundi líklega skapast á milli þessara þriggja stoða ESB, og slíkt yrði Evrópu hollt.  Þetta eru framtíðar vangaveltur, sem eru ekki að ófyrirsynju, því að núverandi fyrirkomulag ESB gengur ekki upp.  Þróun ESB í átt fjölbreytilegs stjórnarfyrirkomulags er í anda fjölbreytni Evrópu.  Það er borin von, ef horft er til sögunnar, að unnt verði að sameina Evrópu í sambandsríki.  Það gæti gagnast alþýðu manna í Evrópu mun betur að hafa fjölbreytni, þar sem allir keppa á Innri markaðinum, sumir í myntsambandi og aðrir með eigin mynt, sumir í sambandsríki, aðrir í ríkjasambandi og enn aðrir í sínu gamla þjóðríki.  Þetta væri áhugaverð deigla, þar sem þróun væri tryggð með innbyrðis samkeppni og með samkeppni út á við.     

 

 

  

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Sæll Bjarni. Þetta er góð grein hjá þér og gott innlegg í mannkynssögunni. Ég vona bara að Bretar komi sér út úr ESB og þessi ESB þrítenging verði aldrei ð veruleika. Bretland með okkur hinum í Norður atlantshafinu værum veldið sem þarf til a koma jafnvægi á Evrópu. Við ættum fiskin og aðgengi að Norðurskautinu en þá höfum við trompið í höndunum. Já þetta er Valdatafl og engin vill vera peð en málið er bara við eru peð í augum ESB..  

Valdimar Samúelsson, 12.1.2013 kl. 12:25

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir athugasemdina, Valdimar;

Bretar þrífast ekki innan ESB.  Þeir eiga sér ríka lýðræðishefð og hafa fengið sig fullsadda á að verða að taka upp alls konar íþyngjandi boð og bönn gegn vilja sínum og geta ekki refsað "apparatinu" í kosningum, því að ekkert hefðbundið lýðræðislegt aðhald hafa Brüsselbúrókratar.  Svo eru einfeldningar hér blaðrandi út um borg bý, að við þurfum að komast að borðinu, þar sem ákvarðanirnar eru teknar.  Hvílík heimska !

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 12.1.2013 kl. 14:36

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bretar færðu miklar fórnir á síðustu öld, tvisvar, til þess að sporna við einræðistilburðum ýmissa afla á meginlandinu.

Að því leytinu til er það íhugunarvert að ESB apparatið skuli ekki hafa verið mótað af breskum jafnt og þýskum og frönskum.

Kolbrún Hilmars, 12.1.2013 kl. 14:52

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Bjarni. Ég get lítið annað sagt nema þvílík heimska í þessari litlu þjóð að vilja innlima sig inn í ESB batteríið. Þegar þetta fólk skilur ekki að gangast undir lög annarra ríkja vita ekki að það þýðir að þeir eru ekki sjálfstæðir. Trúandi því líka að sjálfstæði felist í að mega stjórna sér sjálfur með annarra lögum sé sjálfstæði er algjör ''gróss'' heimska.

Valdimar Samúelsson, 12.1.2013 kl. 15:18

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er hárrétt athugað hjá þér, Kolbrún, að furðu kann að gegna, að Bretar skuli ekki hafa látið meira að sér kveða í upphafi Kola-og stálbandalagsins o. s. frv.  Enn held ég, að sagan geti hjálpað okkur við útskýringarnar.  Í fyrsta lagi var verið að hugsa um að spyrða saman Germani og Galla, sem alltaf og alls staðar hefur komið illa saman, og hins vegar var engin söguleg hefð fyrir slíkri þátttöku Breta.  Þróunin hefði orðið önnur með Breta þarna innanborðs.  Full ástæða var líka til að spyrða saman Frakka og Breta, því að mjög ófriðvænlegt hefur alltaf horft á milli þessara tveggja þjóða.

Valdimar: við skulum  hafa í huga, að fullveldi smáþjóðar er ekki sjálfsagt og sumir landsmenn okkar hafa verið á móti því allt frá því, að farið var að berjast fyrir því "með einum eða öðrum hætti" á 19. öld.  Afstaða taglhnýtinga ESB-fársins kemur mér þess vegna ekki á óvart, en það gleður mig, að fylgið við taglhnýtingana fer nú óðum minnkandi eftir því, sem mál ESB skýrast betur.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 12.1.2013 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband