Að saga í sundur greinina

Steingrímur Jóhann Sigfússon virðist alls ekki vera með öllum mjalla.  Allt, sem fá honum kemur um stjórnmál, eru fullkomin öfugmæli.  Hjá honum er hvítt svart og öfugt.  Hann virðist algerlega skorta sjálfsgagnrýni og ekki hafa snefil af tilfinningu eða þekkingu á því, hvað megi helzt verða til að efla landsins hag og að bæta hag heimilanna.  Hann virðist verðskulda titilinn "mesti niðurrifsmaður Íslands 2009-2013".

Því miður er þessi maður á launaskrá ríkisins með starfsstöð í Stjórnarráði Íslands.  Um það má segja, að Íslands óhamingju verði allt að vopni.  Þegar mest reið á, að töggur væri í ráðherrum og tekið væri duglega til hendinni, þá settust lufsur einar og lyddur í ráðherrastólana 1. febrúar 2009 og í kjölfar kosninga í apríl 2009.  Nú um stundir er erfitt að gera greinarmun á ládeyðum í forinni, en þó verður formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hér gefin einkunnin "skaðlegasti ráðherrann 2009-2013".

Steingrímur hefur af alkunnu lítillæti sínu spurt, hver það sé, sem umfram aðra menn hafi tekið að sér erfitt hlutverk árið 2009.  Þar á í hlut hans stóra egó, og afrekið kveður hann hafa verið að forða ríkisgjaldþroti.  Þetta eru hrikaleg öfugmæli.  Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde hafði þegar fært þjóðina af gjaldþrotsbarmi með neyðarlögum og samningum við AGS, en í ráðherratíð SJS hefur hún færzt nær þessari bjargbrún aftur.  Nægir að nefna Icesave, afhendingu bankanna til vogunarsjóða, sem á eftir að útskýra, drápsklyfjar á almenning og fyrirtæki, sem keyrt hafa hagkerfið í þrot og hindrað hagvöxt, og 400 milljarða skuldaaukningu ríkissjóðs á valdaskeiði Steingríms.

Þessum endemis ráðherra eru svo mislagðar hendur, að allt, sem hann kemur nálægt, verður klúður eitt.  Hann virðist ekki hafa aðra framtíðarsýn er Sovét-Ísland.  Ef bent er á, að ástandið sé miklu verra en þörf er á, er eina svarið "hér varð hrun".  Þetta sýnir, að téður ráðherra horfir aðeins í baksýnisspegilinn.

Illu heilli er þessi Þistilfirðingur nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Íslands.  Sem slíkur hefur hann á hendi útfærslu ríkisstjórnarflokkanna á sjávarútvegsstefnunni.  Skemmst er frá því að segja, að útfærslunni er bezt lýst með því, að ráðherrann sagar í sundur greinina, sem þjóðin situr á.  Ef lögin um skattlagningu sjávarútvegsins, sem ráðherrann fékk samþykkt á Alþingi vorið 2012, verða ekki afnumin þegar í ár, þá mun þessi grein, sem einnig er nefnd með réttu undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, brotna.  Hún hefur þegar veikzt og mun brotna við 15 milljarða kr blóðtöku.  Til að efla styrk og mótlætaþol þessarar greinar, sem þannig virkar til gengisstyrkingar, ber að hlífa henni algerlega við blóðtöku af þessu tagi.  

Ráðherrann hefur gerzt sekur um fádæma þekkingarleysi með því að blanda saman framlegð og hagnaði.  Framlegð sjávarútvegsins árið 2011 var um 80 milljarðar kr, en þá er eftir að greiða allan fastan kostnað, sem á sama tíma nam um 24 milljörðum kr, vexti og afskriftir, og að leggja fé í endurnýjun og framleiðniaukningu, þ.e. fjárfestingar. 

Það er engu líkara en óvitar hafi hannað þetta endemis veiðigjald, óvitar eða skemmdarvargar.  Hvorir tveggja virka sem niðurrifsafl fyrir atvinnugreinina og þar með afkomu almennings í þessu landi.  Það, sem er vont fyrir sjávarútveginn á Íslandi, það er vont fyrir afkomu almennings í landinu.  Þess vegna er sjávarútvegur kallaður undirstöðuatvinnuvegur landsins. Þessi niðurrifsöfl verðum við, ekki einvörðungu Sjálfstæðismenn, heldur meirihluti þjóðarinnar,  að taka föstum tökum, gera þau óvirk með ráðum, sem duga, og hefja síðan skefjalausa uppbyggingu allra atvinnugreina í landinu með það að markmiði að tvöfalda raunvirði landsframleiðslu á 15 árum til að geta vandræðalaust staðið í skilum, eflt innviðina og hag almennings.

  1. Veiðigjald er skattur, sem lagður er á hvert kg fiskjar, sem íslenzk skip draga úr sjó innan eða utan íslenzkrar landhelgi.  Það gefur auga leið, að veiðigjaldið dregur stórlega úr samkeppnihæfni íslenzkra útgerða við erlendar, t.d. við norskar, útgerðir.  Nú á sér stað mikil endurnýjun norsks fiskiskipastóls, en íslenzkar útgerðir treysta sér aðeins til að kaupa notuð skip, m.a. frá Noregi.  Við svo búið má ekki standa.  Það verður að afnema þetta óréttláta og eyðileggjandi veiðigjald hið snarasta til að íslenzkar útgerðir geti áfram verið í fararbroddi.  Stjórnvöld eru að saga í sundur greinina, sem þjóðfélagið treystir á.
  2. Veiðigjaldið er afturvirkt um 1-2 ár, ekkert tillit er tekið til veiðikostnaðar eða til þess, hvort tegund er landað ferskri til framhaldsvinnslu eða sem frosinni afurð til útflutnings.  Nefna má, að veiðigjald grálúðu er 982 milljónir kr, en útflutningsverðmætið er um 8 milljarðar.  Veiðigjaldið er þarna 12 %, en af loðnu nam það 977 milljónum af 18,3 milljarða útflutningsverðmæti eða 5 % skattur.  Þessi arfavitlausa og viðvaningslega skattlagning, sem greinilega er hönnuð af algerlega óhæfu fólki á sviði útgerðar og skattlagningar almennt, hefur þegar leitt til þess, að veiðar á ákveðnum tegundum eru að leggjast af, af því að þær bera sig ekki, þó að þær hafi skilað arði á undan þessu ráni að ríkisins hálfu.  Dæmi er gulllaxinn.  Ríkið tekur til sín 55,2 kr/kg, þar af 18,6 kr/kg í veiðigjald.  Tap útgerðar nemur nú 18 kr/kg.  Þetta er skemmdarverk Steingríms Jóhanns Sigfússonar og sýnir í hnotskurn, hversu alvarleg áhrif á atvinnustarfsemi inngrip ríkisvaldsins geta haft.  Þegar ríkisvaldið kemst í hendur óhæfs fólks, er voðinn vís. Þess vegna má alls ekki setja fólk á borð við Steingrím og Jóhönnu til valda, því að þau sýna atvinnuvegunum fullkomna óvirðingu og tillitsleysi, sem dregur úr atvinnu og lækkar tekjur þjóðfélagsins.  Það er engan veginn sami botninn undir öllum stjórnmálamönnum, eins og þó er stundum haldið fram með grófara orðalagi.  Af þessari blindgötu verður að snúa hið fyrsta og leyfa starfsfólki í sjávarútvegi að njóta sín.
  3. Sókn á erlend mið mun minnka.  Íslendingar munu ekki lengur eiga stór og öflug frystiskip, sem sótt geta á fjarlæg mið.  Til að veiða t.d. eina milljón tonna af fiski og vinna aflann í verðmætar afurðir þarf fjárfestingu, skip, vélbúnað, rafbúnað og fiskvinnsluhús.  Framlegð fyrirtækjanna er notuð til að fjárfesta í skipum, vélbúnaði, rafbúnaði o.s.frv.  Þetta afdæmingarlega veiðigjald er aðeins lagt á útgerð á Íslandi, en helmingur framlegðar í íslenzkum sjávarútvegi myndast engu að síður í fiskvinnslunni.  Þess vegna eru þessi veiðigjöld snardrepandi fyrir fyrirtæki, sem eru aðeins í útgerð.  Þorskígildisstuðullinn er fullkomlega ónothæfur sem grunnur að gjaldstofni fyrir veiðigjald.  Það er með algerum ólíkindum, hversu ófaglega og þess vegna stórskaðlega er staðið að álagningu þessa veiðigjalds.  Veiðigjaldið er skemmdarverk á sjávarútveginum og á þjóðfélaginu í heild.  Steingrímur og skósveinar hans hafa með þessum bastarði algerlega bitið hausinn af skömminni.  Forystumenn sjómanna munu senn vakna upp við vondan draum um, að hér er freklega vegið að afkomu skjólstæðinga þeirra og atvinnuöryggi, svo og ættu aðrir verkalýðsforingjar að sjá skriftina á veggnum.  Verk fræðasnata í háskólasamfélaginu, sem mælt hafa með veiðigjaldi, eru ekki pappírsins virði.  Faglegur heiður þeirra hefur beðið hnekki, og þeir verða aldrei teknir alvarlega meir.  Sumir fjölmiðlar hafa fullkomlega brugðizt og sannað getuleysi sitt.  Forystumenn atvinnulífs og stjórnmála verða að bíta í skjaldarrendurnar og leiðrétta rækilega þessi hrappallegu mistök vinstri flokkanna á Alþingi.  Til þess þarf viðsnúning í kosningum.  Landsbyggðin þarf að svara hraustlega fyrir sig, því að Steingrímur er með veiðigjaldinu að soga stórfé úr byggðum landsins suður til Reykjavíkur.  Af hverju ætti landsbyggðin að kjósa ESB-snata Samfylkingar á þing eða hið hjárænulega og svikula skattpíningarlið VG ? 

Til gamans er birt hér að neðan mynd af kræfum landkrabba, kunningja höfundar, svissneskum rafmagnsverkfræðingi, ofan í finnskri vök.  Ekki er vert að draga of víðtækar ályktanir af þessari myndbirtingu, en margt má af Svisslendingum læra.       

 Max Wiestner í Finnlandi í janúar 2013  

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér Bjarni Jónsson.  Óþokkar eru ekki heppilegir stjórnmálamenn, en þegar viðkomandi er siðblindur sjálfumglaur óþokki þá er stutt í glæpinn.

Hrólfur Þ Hraundal, 17.1.2013 kl. 22:38

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hrólfur Hraundal;

Ríkisstjórnin hefur enga framtíðarsýn, hún er verklítil og hroðvirk.  Af verkunum skuluð þér dæma þá.  Samantekt eftir kjörtímabilið gefur stjórnarflokkunum falleinkunn.  Þeir hafa engu fólki á að skipa, sem veldur ráðherraembætti.  Þar að auki koma persónuleikabrestir, sem þú nefnir, en ég get ekki tíundað frekar. 

Aldrei aftur vinstri stjórn !

Bjarni Jónsson, 18.1.2013 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband