Frá fjölbreytni og skilvirkni til einokunar

Það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum að hefja skuli atlögu að því að draga nú hlutfallslega úr þjónustu sérfræðilækna á einkareknum læknastofum og færa þjónustu þeirra ýmist til útlanda eða til ríkisins, enda er engin heilbrigð skynsemi á bak við slíka stefnumörkun; ekki umhyggja fyrir sjúklingum eða skattgreiðendum, heldur einvörðungu forstokkuð og steinrunnin pólitísk hugmyndafræði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og vinstri sósíalista í öðrum löndum, sem alls staðar hefur gefizt illa.

Hvers vegna fer þá ríkisstjórnin fram með þessum hætti í stærsta málaflokki ríkisins ?  Það er vegna þess, að heilbrigðisráðherrann er vinstri grænn og gerir það, sem henni sýnist, enda er  forsætisráðherrann af sama sauðahúsi. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gefa skýrt til kynna í komandi kosningabaráttu, að hann vilji berjast fyrir eflingu á starfsemi sjálfstæðra lækna innan heilbrigðiskerfisins, þ.e. að auka hlutfallslega hlutdeild þess þáttar heilbrigðiskerfisins í stað þess að eyða honum, eins og Svandís mundar sig til undir merkjum hamars og sigðar.  Til þess liggja 3 meginástæður:

(1) Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja sjúklingum og starfsfólki í heilbrigðiskerfinu valfrelsi og skapa þannig umgjörð um beztu fáanlegu þjónustu, sem sjúklingum stendur yfirleitt til boða. Þetta er í samræmi við grunnstefnu flokksins.

(2) Efling einkarekstrar felur í sér sparnað fyrir ríkissjóð, því að skilvirkni viðtala og aðgerða er meiri í einkageiranum en hjá hinu opinbera, þ.e. einingarkostnaðurinn er lægri, þótt hagnaður sé af starfseminni, enda fer hann mestmegnis til fjárfestinga í dýrum lækningatækjum. Hvort er betra að veita þjóðhagslega hagkvæma þjónustu með jákvæðri framlegð eða að senda sjúklinga á kvalafulla biðlista ?

(3) Til að tryggja nauðsynlega endurnýjun í læknastéttinni er öflug læknastofustarfsemi nauðsynleg.  Hár meðalaldur þar, um 60 ár, veldur endurnýjunarþörf um 25-30 lækna á ári.  Það verður miklu erfiðara að fá fullnuma sérfræðinga heim, ef þessi hluti heilbrigðiskerfisins verður látinn grotna niður. Afleiðingar dauðrar handar róttæks sósíalisma eru alræmdar.  

Stefán E. Matthíasson, læknir, skrifaði grein í Morgunblaðið 12. apríl 2021, sem hann nefndi:

"Í miðjum heimsfaraldri ...".

Með fyrirsögninni vísar hann til þeirrar ömurlegu staðreyndar, að heilbrigðisráðherra landsins skuli hafa valið tíma heimsfaraldurs til að kasta stríðshanzka kommúnismans að sjálfstætt starfandi læknum.  Skemmdarverk þessa VG-ráðherra á heilbrigðiskerfinu verður að stöðva.  Ráðherrann fer sínu fram í skjóli forsætisráðherra, og aðrir ráðherrar geta ekki stöðvað framferðið, því að atkvæði eru yfirleitt ekki greidd í ríkisstjórn (einskipað stjórnvald).

"Þjónustan hefur byggzt á þrem meginstoðum um langan aldur.  Heilsugæzla, sjúkrahús og sérfræðilæknisþjónusta, sem rekin er af læknum og fyrirtækjum þeirra.  Skipulag, sem nágrannar okkar hafa öfundað okkur af.  Um þetta hefur verið víðtæk sátt.  Undanfarna 2 áratugi hefur sjúkrahúsþjónustan færzt á eina hendi.  Hér voru á höfuðborgarsvæðinu 4 spítalar; í Hafnarfirði, Landakot, Borgarspítali og Landsspítali.  Nú er einn spítali og merki fákeppni á þessum markaði æ ljósari.

Núverandi ríkisstjórn hefur aukið framlög til heilbrigðismála umtalsvert, en undir forystu sitjandi heilbrigðisráðherra hefur þess verið gætt, að þessir fjármunir renni að meginhluta til þjónustu, sem rekin er af opinberum aðilum.  Fyrir nokkrum árum voru heildarframlög til sérfræðilæknisþjónustu um 6-7 % af heilbrigðisútgjöldum, en árið 2019 aðeins 4,7 %, og margt bendir til, að sama tala fyrir 2020 sé 4 %.  Komur til sérfræðilækna eru á pari við komur á  Landsspítala og heilsugæzluna [til samans - innsk. BJo], en að auki eru þar allt að 20 þúsund skurðaðgerðir, þúsundir speglana, myndgreiningarannsókna, blóðrannsókna auk ýmissa annarra."   [Undirstr. BJo.]

Það er auðséð, að ráðherrann beinir viðbótarfénu úr ríkissjóði að langmestu leyti framhjá einkageiranum á sínum hugmyndafræðilegu forsendum, en ekki faglegum.  Með því grefur hún undan stöðu sjúklinga, lækna, heilbrigðiskerfisins og ríkissjóðs, því að auðvitað á ekki að svelta þann bezta, þ.e. þann skilvirkasta, þann, sem fer bezt með fé skattborgaranna.  Þvert á móti mætti gjarna auka hlutdeild einkageirans í 10 %.  Vinnubrögð þessa ráðherra eru óþolandi á öllum sviðum. 

"En svo er það rúsínan í pylsuendanum.  Með tilkynningu ráðherrans fylgir, að hún hafi sent SÍ bréf, þar sem hún feli stofnuninni [Sjúkratryggingum-innsk. BJo] að meta á einhvern ónefndan hátt, hvaða verk sérfræðilækna verði tilvísanaskyld til framtíðar, en að auki að grisja gjaldskrá þeirra og fella brott verk, sem betur væru sett innan "opinberra stofnana"." 

Þetta er ekki einvörðungu aðför að sjálfstæðum sérfræðilæknum, heldur að heilbrigðiskerfinu í heild, því að það sem fært verður til hins opinbera mun týnast þar í hítinni og sjúklingar, sem áður nutu lipurrar og snöggrar þjónustu á læknastofum, munu eftirleiðis lenda á biðlistum hins opinbera, eða því, sem nýjast er til að stytta biðlista, á biðlista eftir að komast á biðlista.  Þetta byltingarkennda framferði heilbrigðisráðherrans er geggjun af verstu sort. 

Þann 15. apríl 2021 birtist viðtal við Dagnýju Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Orkuhússins í Urðarhvarfi undir fyrirsögninni:

"Bitnar á þeim sem sízt skyldi".

Heilbrigðisráðherrann sólundar dýrmætum tíma fólks í helbera vitleysu og breytir heilbrigðiskerfinu að vissu marki í leikhús fáránleikans, þar sem hin kommúnístíska hugmyndafræði hennar svífur yfir vötnunum:

""Það er verið að stilla okkur upp við vegg", segir Dagný, sem lýsir Orkuhúsinu sem rótgrónu fyrirtæki; það hefur verið rekið í 23 ár og hefur um 50 starfsmenn í vinnu.

"Hér er framkvæmdur stærstur hluti allra bæklunaraðgerða á landinu.  Við fáum 20 þúsund heimsóknir ár hvert og gerum 5 þúsund aðgerðir.  Þessi starfsemi er háð því, að samið sé við lækna, og það er ótækt, að menn geti ekki einfaldlega setzt niður og náð samningum.  Mér finnst undarlegt, að stoppa eigi allt kerfið, sem gengið hefur eins og smurð vél í ár og áratugi", segir hún. 

Framkvæmdastjórinn bætir því við, að allt verði gert, til að sjúklingar fái þá þjónustu, sem þeir þurfi á að halda.  Ekki sé mikil sanngirni í því, að ráðherra ætli að stöðva greiðslur til lækna, þótt læknastöðin rukki gjöld til að mæta launahækkunum og gengisbreytingum síðustu ára.

"Þetta bitnar á þeim, sem sízt skyldi.  Sjúklingar hafa vissulega sinn tryggingarétt, en að ætla að gera þeim erfitt fyrir að sækja hann með þessum hætti, sem boðað hefur verið, er mjög skrýtið.""

Þetta viðtal varpar ljósi á dæmalausan heilbrigðisráðherra, sem orðinn er alræmdur fyrir flumbrugang og vanhugsaðar aðgerðir.  Hversu lengi ætlar Alþingi að umbera þennan óhæfa ráðherra ?  Hún er að störfum í umboði þingsins, en rekur stefnu, sem hvorki er getið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá myndun hennar né nýtur bakhjarls frá þingsályktun.  Ráðherrann er umboðslaus, þegar hún rífur niður heilbrigðiskerfið. Forsætisráðherra hefur þó blessað yfir gjörninginn, sem sýnir ólýðræðislegt eðli VG í hnotskurn.  

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, rifjaði upp mistakaferil heilbrigðisráðherrans á þessu kjörtímabili, þótt aðeins væri þar stiklað á stóru í pistli á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 9. apríl 2021:

"Mistökin eru hennar":

(a) Flutningur liðskiptiaðgerða til útlanda með ærnum tilkostnaði (þreföldun innanlandskostnaðar) og pínu kvalinna sjúklinga í stað þess að leyfa þessar aðgerðir innanlands.  Þetta er stríðsyfirlýsing gagnvart sjúklingum, innlendum læknamiðstöðvum og heilbrigðri skynsemi.

(b) Sýnataka og greining á krabbameini í leghálsi kvenna var færð frá einkaaðila til ríkisins, sem varð að senda sýnin til Danmerkur með aukinni óvissu og töfum fyrir skjólstæðingana.  

(c) Hraksmánarleg stjórnun bóluefnaútvegunar við C-19, þar sem allt traust var sett á búrókrata í Brüssel, sem voru algerir viðvaningar á þessu sviði og reyndust ekkert kunna til verka í samanburði við innkaupafólk brezku ríkisstjórnarinnar, þeirrar ísraelsku o.fl.  Hvers vegna í ósköpunum var ekki reynt að standa í lappirnar og semja upp á eigin spýtur ? 

Eftir að hafa fjallað um þetta, skrifaði Bergþór:

"En heilbrigðisráðherra lét ekki þar staðar numið, heldur bætti um betur nú á dögunum og ákvað, að hneppa skyldi íslenzka ríkisborgara í ólögmætt varðhald við komuna til landsins; fólk, sem aðeins hafði unnið sér það til saka að koma heim til sín erlendis frá.  Allt í nafni sóttvarna - þar sem stjórnarskrárvarin mannréttindi mega sín lítils."

Annan eins heilbrigðisráðherra höfum við aldrei haft og munum vonandi aldrei þurfa að horfa upp á slíka hörmung.  Þetta er lágpunktur í embættisfærslu, hvað sem öfugsnúinni einkunnagjöf viðhlæjandans, forsætisráðherrans, líður.  

Að lokum reit Bergþór:

"Sem betur fer birtir þó sífellt til hér innanlands, þegar litið er á tölur um smit, spítalainnlagnir og annað vegna heimsfaraldurs Covid-19. Hálfum mánuði eftir að skellt var aftur í lás, þegar aðeins 3 smit greindust utan sóttkvíar, er enginn á spítala.  Ekki einn. Hamfaraspá margra hefur því ekki rætzt. 

Það þarf hver og einn að bera ábyrgð á sjálfum sér.  Persónulegar sóttvarnir og varúð er það, sem hefur mesta þýðingu í viðbrögðum við heimsfaraldrinum og áframhaldandi bólusetning, sem ver viðkvæmustu hópana og raunar okkur öll.  Stjórnvöld þurfa að gæta að meðalhófi í aðgerðum sínum, og lágmarkskrafan er þó og verður alltaf, að aðgerðirnar þurfa að standast lög.  Stjórnarskrárvarin mannréttindi eru ekki bara upp á punt."

Allt er þetta satt og rétt, en órafjarri hugarheimi heilbrigðisráðherrans.  Spilar sóttvarnarlæknir á veikleika hennar ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband