Loftslagsmálin og Kófið

Eldgosið við Fagradalsfjall á Reykjanesi, sem jarðfræðingar telja kunni að vera upphafið að langvinnri goshrinu á fleiri sprungusvæðum Reykjaness allt að Hengilssvæðinu,  hefur leitt hugann að smæð mannsins og tækni hans í samanburði við náttúruöflin. Jarðfræðingarnir hafa reyndar lýst yfir töluverðri undrun sinni atburðarásinni þarna.  Spádómsgáfa þeirra virðist fremur rýr í roðinu til skamms tíma, þótt hún sé viðunandi á löngu tímaskeiði. Slíkt gagnast lítið í núinu, en er fræðilega (akademískt) áhugavert.

Á meðal gosefnanna eru varasamar gastegundir fyrir lífríkið og gastegundir, sem virka á lofthjúp jarðar bæði til kælingar og hlýnunar. Um 150 virk eldfjöll munu nú vera á jörðinni, en áhrif þeirra á lofthjúpinn til hlýnunar eru sögð vera undir 1 % af núverandi áhrifum mannlegra athafna á lofthjúpinn til hlýnunar.  Áhrif Íslendinga, þótt allt sé tíundað (einnig frá jarðvegi) eru aðeins um 0,03 % af árlegri losun mannkyns af s.k. gróðurhúsalofttegundum, svo að áhrif Íslendinga á hlýnun lofthjúps má telja engin, því að þau eru innan óvissumarka þess, sem mannkynið er talið láta frá sér af gróðurhúsalofttegundum árlega. Allt flas til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis er tilgangslaust, nema til að slá pólitískar keilur í málefnaþröng.  

Samt er því haldið fram, að Íslendingar losi mikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið m.v. aðrar þjóðir, en þá er deilt í losunina með höfðatölu, og fást þá um 16 t CO2eq/mann, sem þykir hátt.  Þetta eru hins vegar reikniæfingar, sem breyta engu um þá staðreynd, að þjóðin hefur líklega engin áhrif á hlýnun jarðar vegna fámennis.  Sú staðreynd blasir enn skýrar við, þegar þess er gætt, að næstmesti losunarvaldurinn hérlendis á eftir brennurum jarðefnaeldsneytis, orkukræfur iðnaður, framleiðir efni, sem valda minni brennslu eldsneytis við notkun þess, ekki sízt álið, sem notað er aftur og aftur í hvers konar fartæki til að létta þau.  Endurvinnslan þarfnast tiltölulega lítillar orku á við frumvinnsluna (<5 %).  Eins og margoft hefur verið tönnlazt á, væri þetta ál framleitt annars staðar, ef ekki nyti við álveranna á Íslandi, með margfaldri, líklega áttfaldri, losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn.  Þeir, sem eru með mikla losun Íslendinga á heilanum, eru samt á móti þessari starfsemi hérlendis og mega ekki heyra minnzt á virkjanir í þágu málmframleiðsluiðnaðarins.  Það er ekki öll vitleysan eins.   

Það, sem skilur Íslendinga algerlega frá flestum öðrum þjóðum í þessu samhengi, er uppruni losunarinnar.  Hjá flestum öðrum þjóðum á hún rætur að rekja til raforkuvinnslu, en raforkuvinnsla Íslendinga veldur sáralítilli losun gróðurhúsalofttegunda.  Dálítið myndast af metani í nýjum miðlunarlónum og frá jarðgufuverum.  Frumorkunotkun Íslendinga er hins vegar yfir 80 % (83,3 %) úr "endurnýjanlegum" orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, en tæplega 17 % (16,7 %) úr jarðefnaeldsneyti að fluginu meðtöldu m.v. árið 2018. Flestar aðrar þjóðir glíma nú við að koma hlutfalli endurnýjanlegrar orkunotkunar upp í 20 %.  Þannig má ljóst vera, að staða Íslendinga í loftslagsmálum er allt önnur og betri en flestra annarra þjóða. 

Kosturinn við orkuskiptin á Íslandi eru bætt loftgæði og gjaldeyrissparnaður, en ekki minni hlýnun jarðar.  Þá er leið Íslendinga að orkuskiptum mun greiðfærari en flestra annarra, af því að í landinu er nóg af endurnýjanlegum orkulindum til að standa undir orkuskiptum á hagkvæman hátt. Er þá alls ekki átt við vindorkuna, sem tröllslegar vindmyllur nýta, eru til stórfelldra lýta, gefa frá sér óþægileg lágtíðnihljóð og dreifa hormónaruglandi örplasti og stærri plastögnum úr feiknarlöngum spöðum (130 m, 300 km/klst á enda).

Í þessu ljósi blasir við, hversu öfugsnúinn og andfélagslegur málflutningur fólks er, sem leggst gegn nánast öllum nýjum, hefðbundnum virkjunum á Íslandi, oft með vanstilltum fullyrðingaflaumi og gefur jafnvel vindorkunni undir fótinn. Að breyta miðhálendi Íslands í þjóðgarð ("National Park") er tilræði við hvers kyns nýtingu náttúruauðlinda í auðgunarskyni fyrir almenning, eins og sést af þessari alþjóðlegu skilgreiningu þjóðgarða:

"National Parks provide a safe home for native plants and animals." Beit, veiðar og jafnvel uppgræðsla samrýmast þessu ekki.  "... commercial exploitation of natural resources in a national park is illegal."

  Hvað sem líður tali umhverfisráðherra um, að flest geti verið eins og áður eftir ríkisvæðingu miðhálendisins, er ljóst, að hann getur stöðvað áform um virkjanir á miðhálendinu, þótt þær séu nú í nýtingarflokki samkvæmt Rammaáætlun, og jafnvel veiðiskap, eftir stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Sigríður Á. Andersen, Alþingismaður, ritaði stutta grein í Morgunblaðið 17. apríl 2021 um loftslagsmál frá óhefðbundnu sjónarhorni, sem ekki er vanþörf á, því að þessi málaflokkur, sem hérlendis er rekinn undir formerkjum Evrópusambandsins, sem er óviðeigandi og allt of dýrkeypt fyrir neytendur og skattborgara þessa lands (að mestu sami hópurinn), enda nefndi hún greinarstúfinn:

"Eytt út í loftið".

 Vinstri flokkarnir, sem misst hafa fótanna vegna sambandsleysis úr fílabeinsturnum sínum við alþýðu landsins, hafa í staðinn gert umhverfismál að sínum, og þau hafa sízt af öllu batnað við það, og er fótalaus loftslagsumræðan til marks um það.  Loftslagið er orðið andlag skattheimtu á Íslandi fyrir þrýsting þessa jarðtengingarlausa liðs, og áróður um skaðvænleg áhrif hlýnunar jarðar gellur í eyrum daglega, þótt Íslendingar geti ekkert hægt á henni, sama hvað Katrín Jakobsdóttir og umhverfisráðherra vinstri grænna gelta um nauðsynlegar skattahækkanir og útlát úr ríkissjóði til lækkunar hitastigs andrúmsloftsins, útlát, sem nú eru reyndar  fjármögnuð með lántökum, og einnig sama, hvað téð Katrín setur Íslendingum háleit markmið um losun gróðurhúsalofttegunda með tilheyrandi fjárhagslegum skuldbindingum. Leyfir Stjórnarskráin slíkt framferði ? Sigríður reit:

"Þvert á það, sem vinstriflokkarnir boða, eigum við [að] stefna að árangri á þessu sviði sem öðrum með sem lægstum sköttum og minnstum kostnaði. Vinstrimenn eru hins vegar staðráðnir í því að efna til loftslagsmála við almenning með sköttum, eyðslu, boðum og bönnum."

Vinstri flokkarnir hafa tekið ástfóstri við loftslagsmálin.  Í þeim eygja þeir stökkbretti til skattahækkana og útþenslu ríkisbáknsins, og varla nokkur maður mun spyrja þá um árangur af þeirri byrðaaukningu á almenning eða af þeim fjáraustri, sem til loftslagsmálanna fer, enda verða áhrifin á hlýnun lofthjúpsins engin.

Það er siðlaust að leggja sífellt þyngri byrðar á almenning á fölskum forsendum, eins og baráttu við hlýnun jarðar.  Það er lítið betra framferði að reyna að þvinga fólk úr eldsneytisknúnum bíl og yfir í bíl, sem knúinn er innlendum orkugjöfum með ofurgjöldum á eldsneytið.  Það er þó virðingarvert að nota jákvæða hvata til að fá fólk til orkuskipta á borð við það að sleppa virðisaukaskatti o.fl. við kaup á bifreiðum knúnum endurnýjanlegri orku, sérstaklega á meðan rafmagnsbílar eru dýrari, þótt einfaldari séu, á meðan framleiðslufjöldinn á ári er lítill. 

Vitlausast af öllu, sem stjórnvöldum hefur dottið í hug að styrkja í nafni samdráttar á losun gróðurhúsagasa, er þó mokstur ofan í skurði löngu uppþurrkaðra mýra, þar sem jafnvægi er komið á á milli losunar og bindingar koltvíildis.  Að endurskapa mýri úr móa án þess að auka losun gróðurhúsagasa er vandasamt, því að hætt er við rotnun gróðurs í vatni og myndun metans, sem er meira en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi.  Stjórnvöld ættu að hætta að verja skattfé í þessa endileysu, enda er engin umhverfisvá, sem knýr á um þetta, því að áhrifin á hlýnun jarðar eru sama og engin.  

Ávinningur Íslendinga af baráttunni við hlýnun jarðar verður aðallega mældur í auknum loftgæðum og gjaldeyrissparnaði.  Það er vissulega líka ávinningur í skógrækt fyrir landgæði, skjól, sölu koltvíildisbindingar og viðarnýtingu.  Að hefta uppblástur lands og hefja landvinninga á sviði landgræðslu er gríðarlegt hagsmunamál fyrir núlifandi og komandi kynslóðir í landinu.  Um leið er bundið koltvíildi í jarðvegi.  

"Við notum um 80 % endurnýjanlega orku, á meðan restin af veröldinni notar yfir 80 % jarðefnaeldsneyti.  Evrópusambandið er að basla við að koma sínu hlutfalli endurnýjanlegrar orku upp í 20 % og notar til þess alls kyns vafasamar aðferðir, eins og brennslu lífeldsneytis og lífmassa.  ESB stefnir að því að koma hlutfallinu upp í 32 % árið 2030.

Ef ekki koma fram hagkvæmar tækninýjungar í orkuframleiðslu, mun heimurinn áfram ganga að mestu leyti fyrir olíu, kolum og gasi.  Loftslagssamningar munu litlu breyta þar um."

Orkuskiptin eru knúin fram af loftslagsumræðunni vegna þess, að megnið af losun gróðurhúsagasa kemur frá orkuverum heimsins, sem knúin eru af jarðefnaeldsneyti.  Vinstri menn á Íslandi afneita þeirri staðreynd, að mikil raforkuvinnsla á Íslandi fyrir málmiðnaðinn veldur því, að heimslosun gróðurhúsagasa er a.m.k. 10 Mt/ár minni en ella, sem jafngildir um tvöfaldri losun af mannavöldum á Íslandi um þessar mundir.  Ef heil brú væri í krossferðinni gegn losun gróðurhúsalofttegunda, væri keppikeflið að auka þessa framleiðslu enn frekar, og það verður geðslegt fyrir þröngsýna og bölsýna vinstri menn að verja einstrengingslega afstöðu sína gegn nýjum virkjunum á Íslandi fyrir afkomendum sínum, ef/þegar hlýnun andrúmslofts hefur náð 3°C.  

Hér er iðnaðarstefna í skötulíki m.v. í Noregi.  Þar niðurgreiðir ríkið raforkuverðið um 20 % til orkukræfs iðnaðar og notar til þess koltvíildisgjaldið frá þessum sömu fyrirtækjum.  ESA viðurkennir þessa aðferð sem löglega að Evrópurétti, enda er þetta tíðkað innan ESB.  Engin slík hringrásun fjár til að styrkja samkeppnisstöðuna á sér stað hérlendis, enda ríkir illvíg stöðnun á þessu sviði hér, sem verður baráttunni við hlýnun jarðar ekki til framdráttar.  

"Sérstöðu Íslands ætti hins vegar að viðurkenna í alþjóðlegu samstarfi um þessi mál, eins og gert var fyrstu tvo áratugina [eftir Kyoto-samkomulagið-innsk. BJo]. Vegna sérstöðu okkar er ekki sjálfgefið, að við sætum sömu skilyrðum og þjóðir, sem búa við allt aðrar aðstæður.  Íslenzku ákvæðin svonefndu í loftslagssamningunum voru felld á brott í tíð vinstri stjórnarinnar 2009-2013."

Með íslenzku ákvæðunum var einmitt tillit tekið til sérstöðu íslenzka orkukerfisins og viðurkennt, að aukning stóriðju á Íslandi væri til þess fallin að draga úr aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  Ekkert slíkt er uppi á teninginum hjá núverandi ríkisstjórn undir forystu vinstri græningjans Katrínar Jakobsdóttur.  Nýlega fór hún þveröfuga leið og gaf í með því að auka enn skuldbindingar Íslands árið 2030, sem mun þýða enn meiri greiðslur íslenzkra fyrirtækja fyrir CO2-losunarheimildir.  Stefna íslenzkra vinstri manna er skammsýnt lýðskrum, sem þrýsta mun lífskjörum landsmanna niður vegna kostnaðar út í loftið. 

"Samkvæmt fjármálaáætlun, sem samþykkt var á Alþingi á dögunum, verður samtals mrdISK 60 varið til loftslagsmála á árunum 2020-2024.  Þessar miklu fjárhæðir verðskulda sérstaka athugun.  Ekki sízt nú, þegar ríkissjóður er rekinn með miklum halla.  Í hvað eru þessir fjármunir að fara, og skila þeir ásættanlegum árangri ?"

Að verja mrdISK 12 að meðaltali á ári til loftslagsmála, sem fjármagnaðir er með skuldsetningu ríkissjóðs, þarfnast athugunar við og gæti verið mjög ámælisvert. Við eigum ekki að rembast, eins og rjúpan við staurinn, heldur að gefa tækniþróuninni tíma til að koma á markaðinn með lausnir, sem okkur henta til orkuskipta.  Það mun gerast, og þetta flas verður engum til fagnaðar, heldur okkur til óþarfa kostnaðarauka.

Eitthvað af þessum kolefnisgjöldum  fer væntanlega í hít kolefnisgjalda Evrópusambandsins, sem stjórnmálamenn og embættismenn hafa flækt okkur í án þess að vita kostnaðinn, og það er Stjórnarskrárbrot.  Vonandi fer eitthvað af þessu fé í fjárfestingar í  arðbærum og gjaldeyrissparandi verkefnum, sem skapa vinnu í landinu, t.d. til repjuolíuframleiðslu.  Stilkar repjunnar og aðrir afgangar geta nýtzt til fóðurframleiðslu fyrir vaxandi fiskeldi við og á landinu.  

Aðeins 16,7 % frumorkunotkunar Íslendinga komu úr jarðefnaeldsneyti árið 2018.  Megnið af því voru olíuvörur eða 1,028 Mt.  5 stærstu notendaflokkarnir voru eftirfarandi:

  1. Flugsamgöngur innanlands og utan: 40,6 %.  Þessi notkun minnkaði gríðarlega árið 2020, en mun sennilega vaxa aftur í ár og á næstu árum, þangað til innanlandsflugið verður rafvætt seint á þessum áratugi, og á næsta áratugi mun endurnýjun millilandaflugflotans hefjast með hreyflum án koltvíildislosunar, e.t.v. vetnisknúnum.  Þangað til munu flugfélögin þurfa að kaupa losunarheimildir af ESB, sem farþegarnir borga í hærra miðaverði. Flugfélög, sem fjárfesta í sparneytnum vélum þangað til, munu standa sterkari að vígi í samkeppninni.
  2. Bifreiðar hvers konar og vinnuvélar: 29,8 %.  Þessi notkun mun nú fara minnkandi ár frá ári, af því að endurnýjun fólksbíla og jeppa er nú að u.þ.b. helmingshluta með rafbílum, alrafvæddum eða hlutarafvæddum.  Lengst munu vinnuvélarnar þurfa jarðefnaeldsneyti, en notkun þess má minnka með repjuolíu og öðru lífeldsneyti.
  3. Fiskiskip, stór og smá: 16,7 %.  Þessi notendahópur hefur staðið sig bezt í að minnka olíunotkun, og stefnir hún hraðbyri að því að verða innan markanna 2030. Þegar þannig er í pottinn búið, má heita ósanngjarnt, að útgerðirnar skuli þurfa að greiða olíuskatt, sem lagður var á til að draga úr notkun. Það er eðlilegt að umbuna þeim, sem leggja sig fram og ná árangri. Meginskýringin á þessum góða árangri er fækkun togara og endurnýjun með mjög skilvirkum vélbúnaði. Segja má, að fiskveiðistjórnunarkerfið hafi ekki einvörðungu lagzt á sveif með hagkerfinu, heldur einnig með loftslagsstefnunni.
  4. Sjósamgöngur: 8,7 %. Mikil þróunarvinna fer nú fram fyrir orkuskipti í skipum.  Sem millileik má vel nota repjuolíu til íblöndunar.
  5. Byggingariðnaður er skráður með ársnotkun 31,4 kt/ár af jarðefnaeldsneyti eða 3,1 %.  Væntanlega er auðveldara að losna við koltvíildislosun hans en t.d. sementsframleiðslunnar, sem er gríðarleg á heimsvísu.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Það er tvennt sem truflar svolítið minn hug í sambandi við loftlagsmálin.

Það fyrsta er hvers vegna mælingar um losun af mannavöldum eru ætíð miðaðar við hausatölu hvers lands. Við erum að tala um mengun jarðkúlunnar svo hvert land hlýtur þá að bera ábyrgð á sínu svæði, þannig fyrir mér væri eðlilegra að reikna losun út frá landsvæði.

Hitt er þáttur mannsins á losun gróðurhúsategunda. Eftir því sem ég kemst næst losar mannskepnan um 3-4% af gróðurhúsaloftegundum, þar með talið co2. Síðustu 60 ár hefur þessi mengun aukist um rúm 30%. Á sama tíma hefur magn co2 í andrúmslofti aukist um 30%, þannig að hlutfallið er enn það sama. En skoðum þetta aðeins.

1960 var talið að magn co2 í andrúmslofti væri um 300 ppm (hlutar af milljón), en eru nú taldir vera um 400 ppm. Þetta er aukning um ca. 30 prósent, eða 100 ppm. Ef maðurinn á sök á 3-4 prósentum af þessu, segir það okkur að 1960 var mengun af mannavöldum ca. 10,5 ppm, en dag sé þessi mengun af mannavöldum komin í 14 ppm. Aukning um 3,5 ppm. Hvaðan kemur þá aukningin um þau 96,5 ppm sem orðið hefur á sama tíma? Mér er fyrirmunað að skilja þetta.

Hitt er svo annað mál að mengun er ætíð slæm, í hvaða mynd sem hún er. Þar er af nægu að taka og virðist sem margt gleymist í dag vegna einblýnu stjórnmálamanna á einn þátt. Jafnvel vísvitandi horft framhjá miklum og hættulegum mengunarþáttum, í ímyndaðri baráttu gegn þessum eina, sem hefur heltekið stjórnmálamenn. Nefni þar t.d. mengun frá vindmillum, sem er svo fjölþætt að erfitt er að nefna einn stakan þátt, allt frá byggingu þeirra til endaloka. Þó verð ég að benda á örplastmengun þeirra, sem hefur verið lítið rætt um en sennilega sú sem er lífríki öllu hættulegust.  Þá er einnig fullkomleg rök að mæla með rafbílavæðingu hér á landi, þó einungis gjaldeyrissparnaður sé nefndur.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 2.5.2021 kl. 08:24

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það leiðir í blindgötu að reikna losun á íbúafjölda eða km2.  Betra er að skoða losunarferlana og meta skilvirkni þeirra m.t.t. lágmörkunar á losun gróðurhúsalofttegunda.  Þá kemur í ljós, að ef við lokum álverunum, mun losunin frá Íslandi að sönnu minnka um u.þ.b. 1,5 Mt, en annars staðar mun hún aukast um a.m.k. 12 Mt, svo að aukningin verður yfir 10 Mt/ár CO2, því að auðvitað minnkar ekki spurn eftir áli við þetta.  Sjávarútvegur landsins er annað dæmi.  Ég hygg, að hvergi sé kolefnisspor sjávarútvegs minna en þess íslenzka, þar sem framleiðslan er sambærileg eða meiri.  Nú stefnir í sömu átt með bílaumferðina, því að hvergi, nema í Noregi, hygg ég rafbílavæðingin valdi jafnörri minnkun koltvíildis og hér.  Það stafar af tiltölulega hraðri rafbílavæðingu og sjálfbæru raforkukerfi. 

Það er alltaf miðað við styrk koltvíildis í andrúmslofti fyrir iðnvæðingu og hann sagður hafa verið í jafnvægi fyrir þann tíma, þrátt fyrir margháttaða losun af öðrum völdum en manna.  Aukningin síðan þá um 48 % upp í um 415 ppm er öll sögð af mannavöldum, og ekki get ég borið brigður á það.

Bjarni Jónsson, 2.5.2021 kl. 10:35

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæl aftur Bjarni

Sé það rétt að öll aukningin sé af mannavöldum er ljóst að mengun af mannavöldum er um 30% af co2 losun heimsins. Hvergi hef ég þó fundið hærra hlutfall en 4%.
Þarnar skakkar miklu og nauðsynlegt að fá rétt svör. Allir alþjóðlegir sáttmálar miða við lægri töluna, svo þeir eru lítils virði ef um 30% aukning á losun co2 sé öll af mannavöldum.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 2.5.2021 kl. 12:06

5 Smámynd: Hörður Þormar

Þýski eðlisfræðiprófessorinn, Harald Lesch, hefur árum saman komið fram í sjónvarpi og verið með stutta þætti um margs konar vísindi.  Hér fjallar hann um loftslagsmál og færir rök fyrir því, með mælingum á C-ísótópum, að öll aukning CO2  í gufuhvolfinu, frá upphafi iðnaðaraldar, sé af mannlegum völdum. Ætla ég engu þar við að bæta en vona að einhverjir, sem hafa áhuga á, geti skilið það sem hann hefur fram að færa.                          Klimawandel &#150; der CO2-Beweis | Harald Lesch            

Hörður Þormar, 3.5.2021 kl. 17:57

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Prófessor Harald Lesch er góður kennari og útskýrir hlýnun andrúmslofts og jarðar ágætlega.  Þakka þér fyrir að vísa á þennan tengil, Hörður Þormar.  Afar áhugaverður fyrirlestur.

Bjarni Jónsson, 4.5.2021 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband