Óttinn við loftslagsbreytingar að dvína ?

Loftslagstrúboðið hefur horn í síðu sjálfstæðs predikara heilbrigðrar skynsemi í þeim efnum, Danans Björns Lomborg, forseta Copenhagen Consensus og gestafyrirlesara við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Morgunblaðið hefur verið iðið við að kynna lesendum sínum skrif þessa sjálfstæða fræðimanns, sem hefur gagnrýnt viðhorf vestrænna stjórnmálamanna og ýmissa sérfræðinga um það, hvernig barizt skuli við hlýnun jarðar, enda hefur sá skortur á kerfisbundinni aðferðarfræði, sem þar ríkir, valdið öngþveiti og árangursleysi. Björn Lomborg hefur bent á, að brýnna sé að verja fé í baráttu við hungur og sjúkdóma í þriðja heiminum.

Þann 29. júlí 2024 birtist enn ein ádeilugreinin á vestræn stjórnvöld undir tvíræðri fyrirsögn þýðandans: 

"Þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá".

Hún hófst þannig:

"Frá 10. áratuginum hafa loftslagsbreytingar orðið þráhyggja stjórnmálamanna og yfirstétta ríkra landa.  Hún fæddist og dafnaði í jarðvegi, þar sem heimurinn hafði rétt naumlega séð fyrir endann á Kalda stríðinu [sem eins og kunnugt er lauk með ósigri kommúnismans - innsk. BJo].  Í sögulegu ljósi var friðsælt, traust ríkti um allan heim, víðtækur hagvöxtur og örar framfarir gegn fátækt.  Sérstaklega leið íbúum höfuðborga Evrópu, eins og stærstu vandamál plánetunnar væru leyst. Loftslagsbreytingar væru síðasta víglínan. 

Þessir talsmenn loftslagsaðgerða hafa beitt sér af miklum ákafa og sannfæringu fyrir því, að við hættum að nota jarðefnaeldsneyti.  Einmitt þann orkugjafa, sem hafði knúið áfram tveggja alda undraverðan vöxt.  Vissulega myndi þetta kosta hundruð billjóna [trilljóna-1 trilljón=1000 milljarðar] dala, en það yrði alltaf meiri hagvöxtur.

Þvílík þröngsýn og barnaleg sýn á heiminn.  Tíminn hefur leikið grátt þá heimskulegu hugmynd, að loftslagsbreytingar væru síðasta víglína mannkyns, sem eftir væri, eða að íbúar jarðar myndu sameinast um að leysa vandann.  Geopólitískir árekstrar og viðskiptahagsmunir valda því, að hröð alþjóðleg umskipti frá jarðefnaeldsneyti eru óhugsandi."

Þetta er hinn bitri sannleikur, og þess vegna stendur hin opinbera loftslagsstefna Vestursins á brauðfótum.  Orkuskipti á heimsvísu í anda loftslagspostula eru ómöguleg fyrr en tækniþróunin hefur fært manninum raunhæfan orkugjafa til að taka við kolum, olíu og gasi.  Þjóðir á borð við Íslendinga, sem búa við mikið af s.k. endurnýjanlegum stöðugum orkulindum, s.s. vatnsföll og jarðgufu, og geta þannig framleitt næga raforku til að rafvæða eldsneytisferla og framleiða lífeldsneyti, sem leyst getur jarðefnaeldsneyti af hólmi, komast næst því að leysa þau verkefni, sem þarf til að uppfylla draumóra stjórnmálamanna.  Vinstri stjórnin 2009-2013 kom hins vegar á fót slíku skrifræðisbákni í kringum leyfisveitingaferli virkjana, að stöðnun hefur orðið á sviði nýrra virkjana yfir 10 MW.  S.k. Rammaáætlun er eitt af því, sem kasta þarf á haugana og hefur reynzt verri en gagnslaus.  Afleiðingin af vitleysunni, sem viðgengst, er, að upp spretta vindorkuver, eins og gorkúlur á haugi, sem eru miklu dýrari og umhverfisverndarlega verri kostur en vel hannaðar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir, reiknað á einingu framleiddrar raforku.  

"Leiðtogar frá Evrópu og Bandaríkjunum tala um "núllmarkmið", eins og það hafi alþjóðlegan stuðning.  En fljótt var ljóst, að þessi alheimska samstaða var aðeins tíbrá.  Fyrir það fyrsta er hinn óstöðugi möndull Rússlands, Írans og Norður-Kóreu ekkert á því að styðja viðleitni vestrænna ríkja við að draga úr loftslagsbreytingum.  Reyndar, samkvæmt McKinsey, myndi núllmarkmiðið krefja Rússa um mrdUSD 273 til loftslagsaðgerða á hverju ári.  U.þ.b. þrefalt það, sem þeir eyddu til hermála á síðasta ári.  Það mun ekki gerast. 

Geopólitískar hindranir rista enn dýpra.  Vöxtur Kína hefur þarfnazt þess að brenna sífellt meira af kolum.  Þaðan kemur yfirgnæfandi mesta magn gróðurhúsalofttegunda í heiminum auk þess að vera með mestu aukningu allra þjóða á síðasta ári.  Endurnýjanleg orka var 40 % af orkuframleiðslu Kína árið 1971, en minnkaði niður í 7 % árið 2011 með stigvaxandi kolabrennslu.  Síðan þá hefur endurnýjanleg orka aukizt aftur í 10 %.  Öflugar loftslagsaðgerðir gætu kostað Kína næstum 1,0 trnUSD/ár [1000 mrdUSD/ár] og hamlað vegferð þess í átt að því að verða rík þjóð." 

 Evrópusambandið (ESB) hefur í hyggju að leggja innflutningstolla á vörur, sem framleiddar eru með stóru kolefnisspori, en gæti verið að skjóta sig í fótinn með svo sértækum aðgerðum.  Tíminn einn vinnur þessa baráttu, þ.e. það verður að gefa tækninni hvata til að þróa lausnir.  Vind-og sólarorka geta ekki varðað veginn að lokalausninni, en kjarnorkan getur það, en er ekki síður áhættusöm en aukinn koltvíildisstyrkur í andrúmslofti enn sem komið er.  Þetta sýnir ótti Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar um öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu, sem rússneski herinn hertók og hefur nú hætt framleiðslu rafmagns í, en frá kjarnakljúfunum stafar enn mikil hætta, ef kælikerfi versins laskast eða byggingar þess verða fyrir eldflaug eða stórri sprengju. 

"Á sama tíma, þrátt fyrir allt málskrúðið, eiga auðug lönd sífellt minna fé handbært fyrir loftslagsbaráttuna.  Árlegur hagvöxtur á mann [á] meðal ríkra landa dróst saman úr 4 % á 7. áratuginum [20. aldar] í 2 % á 10. áratuginum.  Núna erum við rétt yfir 1,0 %.  Mörg þessara landa standa frammi fyrir þrýstingi á að eyða meira í varnarmál, heilbrigðisþjónustu og innviði á sama tíma og pólitískur þrýstingur og breyttar þjóðfélags- og aldurssamsetningar gera leiðir þeirra til stöðugleika og vaxtar mun óvissari.

Samt sem áður heldur fólk um alla Evrópu og Norður-Ameríku, sem fæddist í tiltölulega rólegum heimi 10. áratugarins, áfram í einstrengingslegum ákafa að þrýsta á afiðnvæðingu og samdrátt til að takast á við loftslagsbreytingar.  Þ.á.m. í vaxandi hagkerfum heimsins.  Öllum skal líða jafnilla."  

Í ESB er staðnað hagkerfi, sumpart vegna evrunnar, sem hentar ekki öllum þjóðunum alltaf á evrusvæðinu.  Vaxtastig evrubankans er jafnvel of hátt um þessar mundir fyrir þýzka hagkerfið, sem hefur glímt við miklar orkuverðshækkanir vegna kúgunartilburða Rússa.  Loftslagsstefna ESB er að sama skapi að verða afar íþyngjandi fyrir hagkerfin þar og rýrir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðamörkuðum.  Hér innanlands hefur einmitt borið á innflutningi á þeim veruleikafirrtu kenningum róttækra græningja, sem Lomborg gerir að umræðuefni, þ.e. að alls ekki skuli virkja meira, en skapa svigrúm fyrir orkuskipti með því að loka iðjuverum landsins.  Þessi stefna, t.d. Landverndar, ber feigðina í sér og er dauðadómur yfir góðum lífskjörum á Íslandi.  Slíkar kenningar eru illa ígrundaðar, eiginlega bara kaffihúsasnakk, enda varða þær leiðina til fátæktaránauðar.  

"Nú þegar eru kjósendur í Evrópu að snúa baki við stjórnmálamönnum, sem hafa talað fyrir minni hagvexti og hagsæld í nafni loftslagsbreytinga.  6-7 kosningalotur eru framundan fyrir miðja öld, og hörð loftslagsstefna, sem getur kostað hvern mann í ríka heiminum meira en 10 kUSD/ár [1,4 MISK/ár] er dauðadæmd.  Þessar stefnur munu gera það líklegra, að kjósendur snúi sér að popúlískum [lýðskrums] þjóðernissinnuðum leiðtogum, sem munu alfarið hverfa frá rándýrum núllmarkmiðum.  Þá verður loftslagsstefnan í molum."

Kostnaður við "núllstefnuna" er svo hár, að lífskjörin verða rekin aftur um 40 ár, ef henni verður haldið til streitu, og það er engin glóra í því að keyra lífskjörin á Vesturlöndum niður, á meðan aðalmengunarvaldarnir þeysa fram í lífskjarasókn.  Allt sýnir þetta, hvað loftslagsstefna ESB, sem er sú stefna, sem rekin er blint hérlendis, er illa ígrunduð.  

"Heimurinn þarf betri leið fram á við.  Bezta lausnin er ekki sú að þrýsta á fólk til að hafa það verra með því að þvinga fram ótímabær umskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í ófullnægjandi græna valkosti.  Þess í stað ættum við að auka fjárfestingar í grænni nýsköpun í því [augnamiði] að draga úr kostnaði við hreina orku, þar til [að] hún verði orðin hagkvæmari en jarðefnaeldsneyti.  Þetta er miklu kostnaðarminna og mun hvetja alla, þ.á.m. Indland og önnur vaxandi hagkerfi, til að vilja breyta sínum orkugjöfum."

Þetta er hárrétt stefnumörkun af hálfu Lomborg að mati þessa skrifara og sú eina sjálfbæra, sem í augsýn er.  Jarðefnaeldsneytisforðinn fer minnkandi, sem mun valda hækkandi verði, svo að ekki mun líða á löngu, þar til að vestræn tækni getur boðið upp á eitthvað skárra en kjarnorku úr afar geislavirkum úranísótópi, hráefnisfrekar sólarhlöður eða hrottalega landfrekar vindmyllur.  

 

  

  

 


Stríð í Austur-Evrópu

Grimmdarlegt árásarstríð rússneska sambandsríkisins á hendur sjálfstæðu ríki nágranna þeirra, Úkraínumanna, hefur sýnt heimsbyggðinni fram á ömurlegt eðli rússneskra ráðamanna.  Eldflaugum hefur verið látið rigna yfir borgir Úkraínu og engu eirt, hvorki stærsta barnasjúkrahúsi landsins í Kænugarði né stíflu raforkuvers í suðurhluta landsins. Straumleysi hrjáir íbúa landsins á hverjum degi, og komandi vetur er verulegt áhyggjuefni. Kjarnorkuver í Zaphorizhzhia hefur verið í uppnámi, og hernámsliðið hefur stöðvað rekstur þess.  Á vígvöllunum hefur allt gengið á afturfótunum hjá rússneska hernum, herskipulagið verið lélegt, miklu herliði fórnað fyrir litla landvinninga, og í átökum við úkraínska herinn hefur óhemju magn rússneskra vígtóla verið eyðilagt.  

Vart er hægt að tala um úkraínskan flota, svo að sérstaka athygli hafa vakið ófarir rússneska Svartahafsflotans, en segja má, að hann hafi verið hrakinn frá Krímskaga og til hafna við Azovshaf.  Nýjasta dæmið, þegar þetta er ritað, er um kafbátinn Rostov við Don, sem var nýkominn úr þurrkví í Sevastopol, þegar hann varð fyrir úkraínskri Neptúnus eldflaug og sökk.  

Úkraínumenn hafa sýnt mikið baráttuþrek gegn ofureflinu, hugmyndaauðgi og herkænsku. Leiftursóknin inn í Kúrsk mun komast í sögubækurnar.  T.d. hafa þeir orðið frumkvöðlar í notkun dróna bæði til könnunarferða og árásarferða.  Er skemmst að minnast árásar á herflugvöll í Murmansk, um 1800 km leið frá víglínunni í Úkraínu, þar sem rússneskar sprengjuflugvélar, sem notaðar höfðu verið til árása á Úkraínu, voru eyðilagðar.  

Vestrænir bandamenn Úkraínumanna hafa í orði stutt þá á þeim forsendum, að einræðisherra mætti ekki enn einu sinni takast að leggja undir sig nágranna sinn og þar með að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi.  Í verki hefur þessi stuðningur verið mun minni en efni standa til, og þeir hafa af ótrúlegri ragmennsku bannað notkun vopnanna á rússnesku landi, þrátt fyrir þá staðreynd, að Rússar ráðast bæði á hernaðarleg og borgaraleg skotmörk í Úkraínu frá rússnesku landi. Undantekning frá þessu eru þó Kúrsk, Belgorod og Bryansk-héruð.  Ef þetta þetta bann væri ekki í gildi, og t.d. Þjóðverjar hefðu látið Úkraínumönnum í té hinar langdrægu Taurus flaugar, þá væri þessu stríði sennilega lokið núna, með því að aðdrættir Rússahers hefðu verið gerðir svo erfiðir, að þá hefði brostið örendið og hörfað yfir landamærin.  Þá hefði og verið unnt að lama rússneska flugherinn í enn meira mæli en gert hefur verið.

Gríðarleg eyðilegging blasir við í Úkraínu, og ríkið rambar á barmi greiðslufalls. 

Það hefur algerlega skort skelegga forystu að hálfu Vesturlanda í baráttunni við heimsvaldastefnu Rússa.  Stjórn Bidens er hálfvolg, Trump er eins og handbendi Pútíns og ólígarka hans, og í forystu öflugasta ríkis Evrópu reyndist vera gúmmíkarl, þar sem er kratinn Olaf Scholz.  Þjóðverjar hafa þó stutt hraustlega við bakið á Úkraínumönnum, og hafa nú látið á sér skilja, að þeir styðji Úkraínumenn til sigurs. Pólverjar eru að taka forystuna í bráttunni við rússneska hernaðarógn uppbyggingu eigin hers varðar, dyggilega studdir af Eystrasaltsríkjunum.

  Það, sem nú er mikilvægast, er að mynda "stálhjálm" yfir Úkraínu, eins og er yfir Ísrael, með fjölgun loftvarnakerfa og með því að hrekja rússneska flugherinn nógu langt frá landamærunum, m.a. með F16 orrustuþotum, svo að loftvarnarkerfin hafi meira svigrúm til að skjóta árásarflaugar niður í tæka tíð. 

Þann 24. júlí 2024 birtist merkileg forystugrein í Morgunblaðinu um þessi mál undir fyrirsögninni:

"Glataðir leiðtogar".

Hún hófst þannig:

"Í liðinni viku [viku 29/2024] komu 45 leiðtogar Evrópuríkja saman til að ræða vanda álfunnar.  Þeir hittust í Blenheim-höll á Englandi, glæstu ættaróðali Winstons Churchills, sem var vel til fundið í ljósi ófriðar í Evrópu og þess, að víðar eru blikur á lofti.  

Mönnum lærðist um síðir að taka mark á varnaðarorðum hans um alræðisöfl Evrópu og keyptu þann lærdóm dýru verði.  En þeir lærðu og á þeim lærdómi Churchills um, að lýðræðisríki yrðu að standa saman gegn ágangi einræðisríkja [og þannig] var Atlantshafsbandalagið stofnað og í raun má segja, að hugmyndin um "Vesturlönd" sé á honum reist. 

Úkraína á í langvinnu og hatrömmu stríði fyrir tilverurétti sínum, en fáum dylst, að lyktir þess verða afdrifaríkar fyrir Evrópu alla.  Ekki er því aðeins verið að rétta grönnum hjálparhönd, heldur verja menn einnig eigin hagsmuni, frið og frelsi.

Samt er stuðningur Evrópuríkjanna naumur, en Bandaríkin hafa borið hitann og þungann af hernaðarstuðningi við Úkraínu.  Í Evrópu tala nú aðeins Bretar og Pólverjar afdráttarlaust um stuðning við Úkraínu og standa við stóru orðin, svo [að] um muni."

Það er vel til fundið að minna á Sir Winston núna, þegar Evrópa horfir framan í blóðþyrstan forseta Sambandsríkisins Rússlands, sem er sambærileg ógn við lýðræðisríkin nú og ríkisleiðtogi Stór-Þýzkalands var á dögum Þriðja-ríkisins.  Sá rak skefjalausa útþenslustefnu og hugðist skipta heiminum á milli Berlínar og Tókýó.  Frá 2014 hefur forseti Rússlands sent rússneska hermenn til árása inn í Úkraínu og frá 24. febrúar 2022 rekið allsherjar stríð gegn Úkraínumönnum með það í hyggju að leggja land þeirra undir sig.  Rússar reka útrýmingarstríð í Úkraínu og fremja þar hvern stríðsglæpinn öðrum verri.  Pólverjar og þjóðir Eystrasaltsríkjanna vita mæta vel, að Rússar reka skefjalausa útþenslustefnu og hafa gert í 300 ár.  Núverandi forseti Rússlands gefur ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sjálfsákvörðunarrétt ríkja og landamærin, sem sigurvegarar Seinni Heimsstyrjaldarinnar sömdu um í Evrópu.  Hann hefur lýst vilja sínum til að endurreisa Ráðstjórnarríkin landfræðilega.  Þetta brjálæði verður að stöðva, og fyrsta skrefið er að kenna Rússum þá lexíu, að landamærum í Evrópu verður ekki lengur breytt með hervaldi. 

"Vestanhafs bendir margt til, að Donald Trump verði senn forseti á ný, en hann talar enga tæpitungu um, að Evrópuríkin verði sjálf að bera kostnaðinn af eigin vörnum.  Hann segist líka geta bundið enda á Úkraínustríðið á fyrsta degi í embætti, sem þá myndi eflaust kosta Úkraínu mestallt hernámssvæði Rússa.

 Það væri ömurlegt, ef Pútín auðnaðist þannig að semja sig til sigurs, réttlæta allar blóðsúthellingarnar, en auka um leið freistingu sína til frekari landvinninga."

Eins og nú horfa sakir (um miðjan ágúst 2024) er engan veginn víst, að monthananum og einangrunarsinnanum Trump takist að viðhalda forskoti, sem hann öðlaðist í skoðanakönnunum, á meðan hrumur Biden var enn í framboði.  Framboð Kamölu Harris hefur lánazt vel fram að þessu og hún náð forskoti á landsvísu, sem jafnvel dugar til meirihluta kjörmanna fylkjanna.  Vonir eru bundnar við, að Bandaríkjamenn bregðist ekki skyldum sínum gagnvart bandamönnum sínum í NATO og Úkraínumönnum, sem eðlilega dreymir um að tryggja öryggi sitt gegn uppivöðslusömum nágranna í austri með því að ganga í NATO.

Eftir þann stóratburð, sem innrás úkraínska hersins(ÚH) í Kúrsk 6. maí 2024 var, hafa orðið þær vendingar á meðal bandamanna, að Þýzkaland hefur tekið opinbera forystu í stuðninginum við Úkraínu, en Bandaríkin draga lappirnar.  Þýzkaland hefur lýst því yfir, að samkvæmt alþjóðalögum hafi Úkraína fulla heimild til að ráðast inn í Rússland.  Þar getur ÚH valdið rússneska hernum miklu tjóni og hefur þegar gert það.  Skömm Rússa er mikil, því að varnarlínan á landamærunum reyndist engin fyrirstaða, og er fjármálaspilling rússneska hersins líkleg skýring.  Pólitískur hnekkir blóðþyrsts einræðisherra í Kreml er mikill, þegar næstöflugasti er í Rússlandi reynist vera sá rússneski.

"Allt blasir það við Evrópuleiðtogunum.  Samt var ekkert um það rætt, að Evrópuríkin yrðu öll að auka eigin varnarútgjöld hraustlega og bæta í ofanálag verulega við aðstoðina til Úkraínu.  Og engum Evrópuleiðtoganna datt í hug, að rétt væri að eiga orð við Trump um lærdóma Churchills. 

Því [að] ef Úkraína verður látin sigla sinn sjó vegna stefnubreytingar vestra og sinnuleysis og sérgæzku í Vestur-Evrópu, þá missir hið pólitíska hugtak "Vesturlönd" merkingu, og heimurinn verður mun hættulegri."

Rússar vöktu mikla reiði í Þýzkalandi 2022, þegar þeir reyndu að ýta Þjóðverjum ofan í holu myrkurs og kulda (orkuleysis).  Nú gjalda Þjóðverjar gráan belg fyrir svartan með því að lýsa yfir stuðningi Þýzkalands við úkraínskan sigur, nokkuð, sem Bandaríkin hafa ekki gert enn þá.  Mun Kamala Harris taka af skarið ?

 

 

 


Koltvíildi er auðlind, ekki úrgangur

Nú er í undirbúningi hjá fyrirtækinu Carbfix, sem er eitt dótturfélaga Orkuveitu Reykjavíkur, OR, heldur betur að færa út kvíarnar frá því að vinna CO2 úr losunargufum Hellisheiðarvirkjunar, blanda þær vatni og dæla niður í bergið á Hellisheiði, yfir í að starfrækja nýtt fyrirtæki, CODA-terminal í Straumsvík, sem ætlað er að flytja inn milljónir tonna af CO2 frá iðjuverum í Evrópu og taka við CO2 frá innlendum fyrirtækjum gegn gjaldi, blanda þessu við gríðarlegt magn vatns, líklega úr Kaldánni, sem rennur þarna til sjávar á um 25 m dýpi undir hrauni, og dæla vökvanum niður í jarðlögin við Straumsvík í von um, að vökvinn krystallist þar. Þessi viðskiptahugmynd er líklega andvana fædd.   

Hér á þessu vefsetri hefur verið efazt um þessa viðskiptahugmynd vegna þess, að hún er í samkeppni við nýtingu á CO2 á meginlandi Evrópu og hérlendis í framtíðinni.  Hætt er við, að þetta ævintýri verði þungur fjárhagsbaggi á OR, og við hefur bætzt megn óánægja Hafnfirðinga, einkum íbúa á Völlunum, með þessar fyrirhuguðu framkvæmdir og mögulega fjárbindingu Hafnarfjarðarbæjar í gagnsleysi. 

Nú er Straumsvík og ströndin úti fyrir ISAL lóðinni hrein og náttúruleg, en er hættandi á að fá aðskotaefni með unnu koltvíildi út í sjóinn ?

Þann 17. júlí 2024 birtist Sjónarhólsgrein í Morgunblaðinu eftir hagfræðinginn Þórð Gunnarsson, sem beinlínis bendir á rísandi stórmarkað fyrir koltvíildið.  CODA terminal getur varla keppt við þann iðnað, sem þörf hefur fyrir CO2.  Fyrirsögn greinarinnar var:

"Auðlind eða úrgangur".

"Hækkandi koltvísýringsmagn hefur haft áhrif á hitastig jarðar og hefur alltaf gert (á síðast liðnum 100 árum hefur hlutfall koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hækkað úr 0,03 % í 0,04 %). Stórbýlið Brattahlíð á Suður-Grænlandi hefði ekki risið fyrir tilstilli Eiríks, rauða, nema því að þá var jökullinn nokkrum km innar í firðinum en hann er í dag - og veðurfar talsvert mildara.  Enda var þá loftslag jarðar miklu hlýrra en það er [núna], og var það hundruðum milljóna ára þar á undan [en téð hlýskeið stafaði einmitt ekki af hærri styrk koltvíildis í andrúmslofti en nú er.  Það eru deilur um, hversu mikilli hlýnun CO2 veldur.]

Boranir í Grænlandsjökul sýna, að hlýskeið landnámsaldar var af öðrum orsökum en háum CO2 styrk. CO2-kenningin er ofeinföldun á núverandi hlýnun. 

"Sú siðmenning og lífsgæði, sem heimsbyggðin er orðin vön og krefst, byggist öðru fremur á orkunotkun.  Í hinu hnattræna samhengi hefur sú orkunotkun fyrst og fremst verið byggð á notkun jarðefnaeldsneytis allt frá dögum iðnbyltingarinnar.  Vart er raunhæft, að látið verði af notkun kolefniseldsneytis á næstu áratugum. 

Stefnumótun stjórnvalda í hinum vestræna heimi hefur öðrum þræði snúið að lágmörkun á óhindraðri losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.  Tækni við föngun koltvísýrings hefur tekið hröðum framförum á undanförnum árum.  Því er vert að spyrja í nafni hringrásarhagkerfisins - hvað gerum við við allar þessar koltvísýringssameindir ?  Er um að ræða úrgang eða auðlind ?" 

Það er líklega ofmælt, að aðferðarfræðin og búnaðurinn til að draga CO2 úr t.d. kerreyk álvera hafi þróazt hratt á undanförnum árum, því að kostnaðurinn er gríðarlegur.  Kostnaður við að fjarlægja CO2 úr kerreyk nemur um þessar mundir um 500 USD/t með búnaði til þess með aðeins 1000 t/ár CO2 afkastagetu.  M.v. núverandi losunargjald á CO2 er mun ódýrara að losa út í andrúmsloftið en að rembast við að dæla því niður í jörðina sem úrgangi.

Allt annað er uppi á teninginum, ef þetta unna koltvíildi er meðhöndlað sem auðlind, sem unnt er að skapa verðmæti úr. CO2 er auðvitað notað í gróðurhúsum til að örva vöxt, en ekki er víst að kerreykstvíildi sé nægilega hreint til þess.  Það er hins vegar væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að fara inn í framleiðsluferli eldsneytis fyrir skip og flugvélar. 

"Kröfur eru uppi um aukið hlutfall svo kallaðs sjálfbærs eldsneytis (SAF) í rekstri skipa- og einkum flugsamgangna.  Evrópusambandið hefur ákveðið að stefna að 65 % hlutfalli sjálfbærs flugvélaeldsneytis árið 2025.

Óháð umræðu um gullhúðun Evrópureglugerða hér á landi munu mörg evrópsk flugfélög, sem halda úti áætlunarflugi hingað til lands, gera kröfu um aðgengi að téðu eldsneyti hér á landi. 

Að óbreyttu mun Ísland því þurfa að flytja það inn, en sökum hás orkuverðs og þar af leiðandi hás framleiðslukostnaðar er SAF töluvert dýrari en steinolían, sem í dag er nýtt á flestar gerðir þotna.  Framleiðsluferill SAF krefst bæði mikils magns koltvísýrings sem og orku, en í sem stytztu máli snýst það um að vetnismetta lífrænar olíur á borð við repjuolíu eða notaða djúpsteikingarolíu, og breyta þeim þannig í kolefnisvökva, sem nothæfur er til eldsneytisframleiðslu. 

Nokkuð fellur til af koltvísýringi hér á landi við rekstur jarðhitavirkjana, en ekki í nægu magni, svo að byggja megi upp iðnað í kringum framleiðslu eldsneytis.  Því mun Ísland þurfa að flytja inn koltvísýring í miklu magni, ef ákveðið verður að ráðast í eldsneytisframleiðslu hér á landi."

  Hér er um ótrúlega metnaðarfulla markmiðssetningu ESB að ræða, sem kemur sér illa fyrir Íslendinga, sem eiga enga raforku til nýsköpunar af þessu tagi vegna óskiljanlegrar þvermóðsku afturhaldsins í landinu. Það væri þó alveg kjörið að framleiða sjálfbært eldsneyti á Íslandi vegna gnóttar endurnýjanlegra orkulinda. 

Það er villandi að halda því fram, að koltvíildi falli til í jarðhitavirkjunum, því að það þarf að vinna úr gufunum, sem losna úr læðingi í þessum jarðgufuvirkjunum, og það er dýrt og orkukræft.  Höfundurinn nefnir ekki CO2-losun þungaiðnaðarins hérlendis, en hann nemur yfir 2,0 Mt/ár.  Þessi iðnaður gæti látið CO2 í té á verði, sem jafngildir kostnaðinum, því að í staðinn losnar hann við að kaupa losunarheimildir, sem búið er að skylda hann til.  Nú er spurningin, hvort eldsneytisiðnaður á Íslandi yrði samkeppnishæfur með koltvíildi í framleiðsluferlinu, sem kostar um 500 USD/t ?

"Ísland hefur mikla hagsmuni af því að framleiða sitt eigið eldsneyti fremur en að flytja það inn.  Í eðlilegu árferði flytur Ísland inn þotueldsneyti fyrir tugi mrdISK/ár.  Ef fram heldur sem horfir, verður þessi dýri innflutningur enn þá dýrari á næstu árum og áratugum.  Því er til mikils að vinna að koma upp framleiðslu á flugvéla- og skipaeldsneyti hér á landi með framleiðsluaðferðum, sem eru vel þekktar og þrautreyndar.

Ísland ætti að geta náð samkeppnisforskoti við framleiðslu eldsneytis til stórflutninga, ef orkumálum verður hagað með skynsamlegri hætti en verið hefur á undanförnum árum.  Það eina, sem vantar hér á landi er meiri koltvísýringur - efnasamband, sem er hreinlega auðlind, ef ætlunin er að framleiða eldsneyti með öðru en vinnslu á nýrri hráolíu." 

 Annað hráefni inn í þessa framleiðslurás er vetni.  Þess vegna þarf vetnisverksmiðju, og hún notar talsvert rafmagn.  Iðnaðarráðherra, sem jafnframt er ráðherra nýsköpunar, ætti að láta setja saman framkvæmdaáætlun um þetta verkefni, sem þá verður hægt að kynna fyrir fjárfestum og notendunum, aðallega flugfélögum og skipafélögum.  Orkuráðherrann, sem vanalega sefur sitjandi, ætti nú að hrista af sér slenið og láta gera áætlun um virkjanir, aðveitustöðvar og flutningslínur fyrir þetta verkefni, og síðan yrði sett sérlöggjöf um heildarmálið, enda er hér málefni, sem varðar atvinnulíf og efnahagslíf landsins miklu.  Ríkissjóður mundi ekki standa í neinum fjárhagsskuldbindingum út af þessari atvinnustarfsemi, enda hefur hann meira en nóg á sinni könnu með sinn hallarekstur og skuldasöfnun.  

 

 

    

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband