28.7.2024 | 14:47
Misráðin loftslagsstefna
Forsendur ESB/EES í losunarmálum CO2, nema þá helzt Noregs, og Íslands eru svo ólíkar, að það var vanhugsað að hengja landið aftan í losunarvagn ESB/EES með sömu hlutfallslegu losunarmarkmið. Þetta sést greinilega, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun Íslands og Evrópusambandsins er borið saman. Á Íslandi er það um 15 %, en í ESB yfir 80 %. Hér hefur stjórnmálamönnum hérlendum og embættismönnum þeirra enn einu sinni orðið á í messunni að átta sig ekki á, að eftir því, sem losunin er minni, verður dýrara og erfiðara á hvert tonn að draga úr henni. Ráðamenn sjá ekki að sér, heldur þvert á móti. Þeir halda lengra út á foraðið.
Það er mjög ánægjulegt að sjá, að a.m.k. einn Alþingismaður hefur nú komið auga á þetta og tjáð sig með róttækum hætti um málið. Það er Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV, sem reit pistil um málið 20. júlí 2024 í Morgunblaðið, og hafi hann þökk fyrir, undir fyrirsögninni:
"Jarðtengja þarf loftslagsstefnu Íslands".
Hann hófst þannig:
"Íslenzk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum. Stefnan er reyndar sú að fylgja ESB í tölulegum markmiðum um minnkun losunar kolefna í samræmi við Parísarsamkomulagið frá 2015 og gott betur. Markmiðið er, að árið 2030 verði losun 55 % minni en árið 2005 og árið 2040 verði Ísland kolefnishlutlaust, 10 árum á undan ESB.
Ísland hefur á síðustu áratugum náð verulegum árangri í orku- og loftslagsmálum með rafvæðingu og uppbyggingu hitaveitukerfa. Hlutfall grænnar orku á Íslandi er mjög hátt eða um 85 %. Þessi 15 %, sem út af standa, er innflutt olía, sem er aðallega sett á ýmis farartæki. Til samanburðar er hlutfall grænnar orku í löndum ESB að meðaltali undir 20 %."
Þessi gríðarlegi munur á hlutfallslegri jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga og íbúa ESB veldur því, að það er lítið vit í því fyrir Íslendinga að undirgangast sömu hlutfallslegu markmið og gert er í ESB. Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn sinntu þessu ekkert, heldur hikuðu ekki við að leggja á herðar landsmönnum erfiðari og þungbærari skuldbindingar en aðrir tóku á sig. Katrín Jakobsdóttir og umhverfisráðherra VG bitu síðan höfuðið af skömminni með því að lofa kolefnishlutleysi hér áratugi á undan ESB. Fyrir stjórnmálamenn af þessu tagi er hégómaskapur, sýndarmennska og hanastélsboð aðalatriðið, en kostnaður og heilbrigð skynsemi eru aukaatriði. Stjórnsýsla vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er skussa stjórnsýsla, sem hefur orðið og mun verða landsmönnum dýr, enda er ekki heil brú í stefnu flokksins.
"Parísarsamkomulagið kveður á um, að aðildarríki skulu hafa markmið um að minnka losun og veita upplýsingar þar að lútandi. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað þegar árið 2009 að hætta að halda til haga sérstöðu landsins, og ríkisstjórn Sigmundar Gunnlaugssonar gaf frá sér sjálfstæði í málaflokkinum til að fylgja ESB að málum árið 2015.
Réttast er að vinda ofan af þessum ákvörðunum og taka upp loftslagsstefnu í samræmi við Parísarsamkomulagið, sem sett er á réttum forsendum og byggð er á sérstöðu Íslands og íslenzkum hagsmunum. Stefnan verður að hvíla á raunhæfum grunni, þ.e. efnahagslegum, samfélagslegum og tæknilegum forsendum, sem samstaða ríkir um."
Fyrsta hreina vinstri stjórnin, en svo er téð ríkisstjórn Jóhönnu, 2009-2013, stundum nefnd, var ógæfustjórn. Menntamálaráðherrann, Katrín, eyðilagði aðalnámskrána, lagði af samræmd próf, gerði skóla án aðgreiningar að reglu og lagði grunn að hnignun grunnskólans, sem öllum má nú ljós vera. Þar sem áður var stoltur grunnskóli, sem útskrifaði nemendur með staðgóðan þekkingargrunn fyrir lífið, er nú eitthvað, sem enginn veit, hvað er, enda hulið í sósíalískum moðreyk. Tilraunastarfsemi af þessum toga með fjöregg æskunnar er algerlega ábyrgðarlaus.
Þegar þessi vinstri stjórn leitaði inngöngu fyrir Ísland í ESB, hefur auðvitað verið "tabú" að halda á lofti sérstöðu og hagsmunum Íslands. Þetta metnaðarleysi er til skammar.
"Sem dæmi þá þarf tafarlaust að virkja meiri græna orku hér á landi, til að markmið um orkuskipti í samgöngum náist. Ef ekki næst samstaða um að virkja meira, verður að endurskoða markmið um orkuskipti til samræmis við þann veruleika.
Að sama skapi verður þátttaka Íslands í alþjóðastarfi á sviði loftslagsmála að byggjast á sameiginlegum forsendum og hagsmunum. Eins og sakir standa, er Ísland í slíkum afreksflokki, að ESB er varla réttur samstarfsaðili."
Þarna kveður við nýjan tón í orku- og loftslagsmálum. Aldrei heyrist neitt frumlegt í þessum anda frá ráðherranum, sem með þessi mál fer, enda ríkir þar alger kyrrstaða. Vonandi er, að fyrir næstu Alþingiskosningar myndi Sjálfstæðisflokkurinn stefnu fyrir næsta kjörtímabil og lengur í þessum anda. Það er óboðlegt að hjakka svona í sama farinu og fljóta sofandi að feigðarósi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2024 | 16:26
Vegakerfi í molum
Vegagerðin stendur frammi fyrir gríðarlegri endurbóta- og viðhaldsþörf á megninu af þjóðvegum landsins. Ástæðurnar eru 2: Umferðin, sérstaklega þungaumferðin, er meiri en vegirnir þola, og þeir eru of þröngir. Hvort tveggja gerir vegakerfið hættulegra en ásættanlegt er, og þess vegna þarf þjóðarátak til að endurbæta vegakerfi landsins. Á sama tíma er ekki hægt að ráðast í gagnslaust gæluverkefni Samfylkingar og pírata í Reykjavík, sem kallað er Borgarlína og er í raun stalínísk byltingartilraun samgönguhátta á höfuðborgarsvæðinu frá einkabílnum til almenningsvagna, sem ætlunin er að staðsetja á sérakreinum miðlægt á núverandi vegstæði. Engin spurn er eftir þessari rándýru þvingunartilraun á meðal í íbúa höfuðborgarsvæðisins, og hæpið er að halda því fram, að stjórnmálaflokkar í meirihluta sveitarstjórna hafi í sveitarstjórnarkosningum fengið umboð kjósenda til að standa að þessari hönnun og framkvæmdum. Þetta er nægilega stórt (dýrt) og afdrifaríkt mál til að réttlætanlegt sé að fara út í íbúakosningu um málið í hverju sveitarfélaganna. Verður þá að ganga tryggilega frá því, hversu mikil þátttakan þarf að vera, til að niðurstaðan verði bindandi fyrir stjórnmálamennina. Kjósa mætti um 3 kosti:
a) miðjusettar sérreinar, ein í hvora átt
b) hliðsettar sérreinar til hægri
c) hvorugur ofangreindra kosta
Þann 2. júlí 2024 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu um þessi mál eftir Bjarka Jóhannesson, skipulagsfræðing, verkfræðing og arkitekt:
"Þjóðvegir eða borgarlína".
Hún hófst þannig:
"Banaslys á þjóðvegum landsins eru of mörg, og nýverið voru á þeim 2 alvarleg rútuslys. Framkvæmdastjóri Vörumiðlunar, sem rekur flutningabíla á Sauðárkróki, segir í viðtali við Morgunblaðið 22. júní [2024], að "ástand þjóðveganna sé mjög slæmt. Undirlag fjölförnustu leiða sé mjög veikt, og í sumum tilvikum sé aðeins mulningur ofan á moldinni. Hringvegurinn sé ónýtur að stórum hluta, alveg frá Hvalfjarðargöngum. Vegir séu að gefa sig undan þunga, og grjótkast sé víða vandamál."
Orsök lélegs vegundirlags liggur í því, að að klæðning er notuð sem bundið slitlag á 90 % af íslenzkum þjóðvegum í stað malbiks. Klæðningin er malarslitlag með olíublönduðu asfalti. Umferðin er látin þjappa niður lausamölina með tilheyrandi steinkasti."
Undirlag mikils hluta veganna er of veikt m.v. við núverandi og framtíðar umferðarálag, þar sem tekið er tillit til fjölda öxla og öxulþunga, en álagið fylgir öxulþunga í 4. veldi. Þess vegna munar um alla þungaflutninga, sem fara sjóleiðina, til að létta á þjóðvegunum. M.v. útlit veganna er líklegt, að álagið á þá sé víða komið yfir hönnunarmörk, og breiddin er víða undir mörkum, sem Evrópustaðlar gefa.
"Þrátt fyrir þetta er í tillögu að samgönguáætlun 2024-2040 gert ráð fyrir kostnaði ríkisins við svo nefnda borgarlínu upp á mrdISK 80 á næstu 10 árum. Með upp gefnum óvissustuðli allt að 70 % fer upphæðin í tæpa mrdISK 130.
Ég hef áður skrifað, að hér er verið að kasta peningum út um gluggann, og sýndar hafa verið mun ódýrari lausnir á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins. Þá á eftir að telja þann kostnað, sem fellur á sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, m.a. við undirbúningsvinnu á hæpnum forsendum og fjáraustur í skrautsamkeppnir um byggð við borgarlínuna."
Það er hægt að taka fyllilega undir þessa hörðu gagnrýni höfundarins, að með opinberum fjáraustri til Borgarlínu er verið að kasta fé út um gluggann, því að engin spurn er eftir verkefninu frá öðrum en stjórnmálamönnum forsjárhyggjunnar undir bumbuslætti Samfylkingarinnar, sem hefur lengi borið þetta gæluverkefni fyrir brjósti. Gallinn er hins vegar sá, að það leysir ekki umferðarvandann, heldur magnar hann. Þetta er algerlega óábyrg forgangsröðun fjármuna, sem Kristrún Frostadóttir virðist leggja blessun sína yfir.
"Þau rök, sem færð hafa verið fyrir borgarlínunni, eru, að hún muni draga úr notkun einkabílsins og þar með hafa jákvæð umhverfisáhrif. Hvort tveggja er mjög hæpið. Þar sem allir armar borgarlínu liggja að miðborginni, er líklegt, að notkun hennar miðist að langmestu við ferðir þangað til og frá vinnu og skóla kringum kl. 9 og 16."
Með núverandi vali á legu Borgarlínunnar er líklegt, að hana dagi uppi sem eins konar steintröll, því að svo getur farið, að ferðum í og úr vinnu í miðborginni muni fækka í framtíðinni vegna þróunar á vinnumarkaði.
"Forsvarsmenn borgarlínu gera ráð fyrir, að 12 % samgangna á höfuðborgarsvæðinu fari um borgarlínuna. Það er ofmetið, og með mikilli bjartsýni má kannski hugsa sér, að 12 % ferða til og frá sjálfri miðborginni yrði með borgarlínunni og heildarhlutur allra ferða á höfuðborgarsvæðinu í mesta lagi um 2 %."
Höfundur þessa vefseturs telur líklegra, að heildarhlutur borgarlínu í ferðum höfuðborgarsvæðisins verði nær 2 % en 12 % m.v. ferðahegðun Íslendinga og íbúa í sambærilegum borgum erlendis, ef farið verður í nokkrar framkvæmdir til að liðka fyrir almennri bílaumferð, sem líklegt er, að ákall verði senn um frá íbúunum. Þá liggur í augum uppi, að fjárfestingar fyrir borgarlínu Samfylkingarinnar eru fásinna og elgerlega út úr korti á tímum æpandi fjárþurrðar til framkvæmda og viðhalds stofnvega landsins, þar sem s.k. "innviðaskuld" gæti numið allt að mrdISK 300.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2024 | 10:08
Fleiri leiðir í boði en leið kollsteypu
Sjálfshól og drýldni Samfylkingarforystunnar er við brugðið. "Vér einir vitum" skín stundum úr þeim ranni, og það á við um skipulagsmál höfuðborgarinnar, sem búið er að keyra í algerar ógöngur, landsmönnum öllum til mikils kostnaðarauka. Þetta á ekki sízt við um umferðarmálin, en það eru til leiðir út úr þeim ógöngum, sem fela í sér raunverulegar lausnir á vandamálinu, sem meirihluti borgarstjórnar er búinn að keyra í harðan hnút. Tvímenningarnir Þórarinn Hjaltason og Þorkell Sigurlaugsson gerðu grein fyrir hugmyndum frá samtökunum "Samgöngur fyrir alla" í Morgunblaðinu 29. júní 2024 undir fyrirsögninni:
"Tillögur um bráðaaðgerðir í samgöngumálum":
"Hér á eftir eru 11 tillögur, sem áætlað er, að kosti alls um mrdISK 115 í framkvæmd, sem er umtalsvert lægri upphæð en þær, sem blasa við okkur samkvæmt fyrirhuguðum framkvæmdum. Miklubrautargöng og Sundagöng/braut ekki með talin, sem geta jafnvel orðið að mestu sjálfbær verkefni með hóflegri gjaldtöku."
"1. Taka í notkun nýtt leiðakerfi strætó, byggt að mestu á fyrirliggjandi drögum. Kostnaðaráætlun um mrdISK 35."
Hér er miðað við vagna á hliðsettum akreinum hægra megin við bifreiðaumferðina. Miklu ódýrara og truflar ekki bílaumferð að ráði, hvorki á framkvæmdatíma né rekstrartíma veganna, eins og stórborgardraumórar Samfylkingarinnar um s.k. Borgarlínu.
"2. Einföld mislæg gatnamót sem vegbrú yfir Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 3."
Þessi framkvæmd hefur dregizt úr hömlu í boði Samfylkingar og mun skapa viðunandi tengingu Bústaðavegar, þar sem íbúum hefur fjölgað talsvert, við stóra umferðaræð.
"3. Auka flutningsgetu Hafnarfjarðarvegar og Kringlumýrarbrautar. Kostnaðaráætlun um mrdISK 10." Þarna hafa í 20 ár mundazt sístækkandi biðraðir á umferðartímum. Að Samfylkingin skuli ekki hafa séð sóma sinn í að koma með frambærilega lausn á þessu umferðarviðfangsefni, heldur þvert á móti gert sér leik að því að auka umferðartafirnar með ljósastýrðri gangbraut við Hamrahlíð, sýnir, að þar á bæ er eigin sérvizka og falskar kennisetningar (það þýðir ekkert að fjölga akreinum, því að þær fyllast strax af bílum) settar ofar almannahagsmunum.
"4. Fjórar akreinar Kringlumýrarbrautar settar í göng undir Miklubraut. Kostnaðaráætlun um mrdISK 4."
Með þessari lausn verður beygjuumferð til austurs og vesturs af Kringlumýrarbraut fyrir miklum töfum af umferðarljósum. Hægri beygju mætti hafa án ljósa með beygjureinum.
"5. Reykjanesbraut verði breikkuð í 6 akreinar frá Breiðholtsbraut að Álftanesvegi. Kostnaðaráætlun um mrdISK 9."
Þessi aukning afkastagetu á fjölförnum vegarkafla mun fara langt með að eyða biðraðatöfum þar um hríð.
"6. Sæbraut við Skeiðarvog-Kleppsmýrarveg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 4. Fjórar akreinar Sæbrautar verða teknar í tiltölulega ódýr og einföld undirgöng undir Skeiðarvog-Kleppsmýrarbraut með svipuðum hætti og Kringlumýrarbraut undir Miklubraut."
Þarna framkvæmdu umferðaryfirvöld borgarinnar glapræði 2023 með því að afnema aðrar beygjureinina til vinstri inn á Sæbraut af Kleppsmýrarbraut. Þarna er þung umferð stórra flutningatækja og að gera þetta í nafni öryggis er yfirvarp eitt. Afnámið veldur miklum umferðartöfum, og það eru ær og kýr meirihluta Samfylkingar og meðreiðarsveina í borginni. Þetta sýnir vel fúsk og sérvizku, sem er einkennandi fyrir Samfylkinguna. Það er engin ástæða til að halda, að vinnubrögðin yrðu skárri í Stjórnarráðinu.
"7. Arnarnesvegur og mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut. Kostnaðaráætlun um mrdISK 8."
Þetta verk er í gangi, en án mislægra gatnamóta, en Samfylkingin má ekki heyra minnzt á þá lausn, sem þó er til að bæta umferðarflæði og auka öryggi. Það er algert ábyrgðarleysi að láta pólitíska fordild trompa velferð og öryggi almennings. Þótt Kristrún Frostadóttir þykist hafa breytt Samfylkingunni í orði, hefur hún ekkert breytzt á borði.
"8. Tvöföldun Suðurlandsvegar sunnan og austan við Bæjarháls í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um mrdISK 2."
Þetta er bráðnauðsynleg framkvæmd til að tengja höfuðborgarsvæðið Suðurlandi með sómasamlegum hætti. Þarna er allt of þröngt nú og þar af leiðandi óþarflega hættulegt og tafsamt.
"9. Fossvogsbrú (fyrir strætó, gangandi og hjólandi) í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun um mrdISK 10, og er þá miðað við núverandi hönnun."
Það er furðulegt af ríkisvaldinu að samþykkja þá fordild og útilokunarstefnu Samfylkingar að útiloka almennar bifreiðar, þ.m.t. einkabílinn, frá Fossvogsbrú. Snúa þyrfti ofan af þeirri vitleysu um leið og verkfræðingum væri falið að hanna nýja brú, þar sem tekið er tillit til lágmörkunar líftímakostnaðar, en að sleppa sérvizkulegum útlitskröfum Samfylkingarfólksins í borgarstjórn, sem kosta skattborgarana talsvert fé. Ekki verður logið á Samfylkinga, þegar kemur að meðferð opinbers fjár.
"10. Hafnarfjarðarvegur í stokk í Garðabæ í samræmi við samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun im mrdISK 10."
Þetta er í samræmi við vilja bæjaryfirvalda í Garðabæ og skipulag þar á bæ, enda er þar með leyst úr flæðisvanda innan bæjar og hættu á mótum Vifilsstaðavegar og gatnamóta þar sunnan og norðan við. Bráðabirgða lausnin við Vífilsstaðaveg bætti mjög úr skák.
"11. Reykjanesbraut [á] milli Lækjargötu og Álftanesvegar í Hafnarfirði í jarðgöng undir Setberg. Kostnaðaráætlun um mrdISK 20."
Þetta leysir umferðarvandann á hringtorgi Lækjargötu/Reykjanesbrautar/Setbergs og á gatnamótum í Kaplakrika og væntanlega einnig í láginni við Hafnarfjarðarveg.
Þeir félagar klykkja út með eftirfarandi, sem hægt er að taka undir um leið og þeim er þakkað mikilsvert framlag til málaflokks, sem Samfylkingin hefur notað krafta sína til að valda miklu tjóni á.
"Góðar samgöngur fyrir alla ferðamáta gera gera höfuðborgarsvæðið áfram samkeppnishæft og sveigjanlegt fyrir fólk, fyrirtæki og farartæki af öllum gerðum og fótgangandi."
Þetta mundi vera stefna heilbrigðrar skynsemi í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, en henni er alls ekki að heilsa, því að stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, býr við útúrborulegan hugsunarhátt meirihluta borgarstjórnar, sem er að úthýsa einkabílnum og reisa sjálfum sér bautastein, sem væri í raun algert skemmdarverk á samgöngumálum landsmanna, enda í boði amatöra og sérvitringa, sem fá að móta stefnu Samfylkingarinnar á þessu sviði. Ef þessi stjórnmálaflokkur fær byr í seglin í næstu Alþingiskosningum, mun í ljós koma, að þetta einkenni hennar á við um mun fleiri svið landsmálanna. Um það vitnar fortíðin, og ekki þarf annað en að nefna Reykjavíkurflugvöll til að styðja þá fullyrðingu rökum. Fjandskapur Samfylkingarinnar og fylgihnattarins pírata við hann er reginhneyksli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2024 | 10:23
Ábyrgð Samfylkingar á umferðaröngþveiti í Reykjavík er mikil
Samfylkingarfólk í borgarstjórn hefur mótað stefnuna í umferðarmálum borgarinnar, sem leitt hefur bílaumferðina inn í öngstræti, og það stefnir í botnlausa útgjaldahít án nokkurs árangurs fyrir umferðina. Þetta er vegna þeirrar áráttu jafnaðarmanna að hafa vit fyrir öðrum, "vér einir vitum". Í þessu tilviki hafa fúskarar í umferðarmálum og skipulagsmálum borga úr röðum Samfylkingar haldið á lofti þeirri utan að lærðu kenningu, að fjölgun akreina eða mislæg gatnamót séu þýðingarlaus á höfuðborgarsvæðinu, af því að ný mannvirki fyllist strax af bílum. Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, hefur í Morgunblaðsgrein sýnt fram á, að í borg á borð við höfuðborgarsvæðið sé þessi kenning firra. Samt hefur aðgerðarleysi í vegaframkvæmdum í Reykjavík verið reist á þessari fjarstæðukenndu kenningu á ábyrgð Samfylkingar.
Aðalleiðarstef Samfylkingar í málefnum umferðar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið borgarlína, sem eru hraðferðir á miðjusettum akreinum eftir aðallega tveimur ásum. Aðstæður á höfuðborgarsvæðinu, dreifð byggð og erfitt veðurfar, eru með þeim hætti, að hlutdeild Strætó í heildarumferð er aðeins um 4 %. Þetta er allt of lítið til að réttlæta fjárfestingar upp á mrdISK 130 eða meira (endurskoðun Samgöngusáttmálans er enn í burðarliðnum), og þess vegna hefur Samfylkingarfólkið, trútt sinni forræðishyggju, reynt að pína ökumenn bíla og farþega þeirra til að leggja bílnum og velja almenningssamgöngur í staðinn, og með bættri þjónustu borgarlínu dreymir þetta lið um þreföldun hlutdeildar, en ekkert bendir til, að það sé raunhæft. Þetta hefur verið gert með ýmsum aðgerðum til að tefja umferðina, og er það svínslegt ráðslag af þeim, sem trúað hefur verið fyrir að fara með völdin í þágu borgarinnar. Samfylkingin kann ekki að skammast sín, og hefur bitið höfuðið af skömminni með þéttingu byggðar meðfram ásum borgarlínu. Þetta hefur stórhækkað íbúðaverð og valdið lóðaskorti, sem er líklega stærsti verðbólguvaldurinn um þessar mundir. Þannig rekur hvað sig á annars horn í höfuðborginni, þar sem Samfylkingin hefur haft töglin og hagldirnar í á annan áratug. Ef kjósendur fela Samfylkingunni stjórn landsins í næstu Alþingiskosningum, munu þeir fara úr öskunni í eldinn, enda máttu þeir vita vegna óstjórnarinnar í Reykjavík, að þeir væru að kaupa köttinn í sekknum.
Tveir mætir menn eiga heiður skilinn fyrir að láta ekki umferðarmálin liggja í láginni. Það eru þeir Þorkell Sigurlaugsson og téður Þórarinn Hjaltason, sem í júní 2024 rituðu 2 greinar um málaflokkinn í Morgunblaðið. Birtist sú fyrri þann 21. undir fyrirsögninni:
"Bráðavandi í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu".
Hófst hún þannig:
"Svo kölluð endurskoðun samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 2019 hefur tekið meira en heilt ár, en er nú lofað á næstunni, jafnvel fyrir júnílok [2024]. Miklar væntingar byggðust upp í kjölfar undirritunar hans og nú endurskoðunarinnar. Strax í tengslum við borgarstjórnarkosningar 2022 bentu ýmsir á þörf fyrir róttæka endurskoðun, en þöggun var í gangi."
Þessi samgöngusáttmáli eru Pótemkíntjöld, sem Samfylkingunni þótti heppilegt að setja upp til að hylja eigin eymd, "framkvæmdastopp" vegaumbóta á höfuðborgarsvæðinu í áratug gegn 1 mrdISK/ár frá ríkinu til að halda gjaldþrota almenningssamgöngum á floti. Á meðan hafa umferðartafir aukizt, og hættan á fjölförnum gatnamótum og víðar magnazt. Þetta var furðuráðstöfun að frumkvæði Samfylkingarinnar, sem hefur reynzt vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu dýrkeypt. Kostnaðaráætlun þessara pótemkíntjalda var út í hött, og þegar þetta er birt 8. júlí 2024 hefur þessi óþarfa pólitíska sýndarmennska ekki litið dagsins ljós endurskoðuð.
Samfylkingin skákar gjarna í því skjólinu, að hún reki umhverfisvæna samgöngustefnu. Þetta er tóm vitleysa. Hvað halda menn að umferðartafirnar kosti mikla aukningu á bruna jarðefnaeldsneytis, og það er hrein hörmung að horfa upp á stóra "tóma" vagna á götunum megnið af deginum, valdandi miklu dekkja- og vegsliti auk eldsneytisbruna. Sú stefna Samfylkingar að beita borgarkerfinu til að tefja vegfarendur, svo að þeir hrökklist í strætisvagninn, ætti að valda almennri fordæmingu á þeim stjórnmálaflokki, en þess í stað sýna skoðanakannanir, að með sýndarveruleika og látbragðskúnstum hefur tekizt að villa um fyrir mörgum kjósendum, enda leitar klárinn þangað, sem hann er kvaldastur.
"Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu kosta íbúa, fyrirtæki og þjóðina vel yfir 30 mrdISK/ár vegna aukins kostnaðar fyrirtækja og einstaklinga í samgöngum, minni framleiðni, minni skatttekna ríkis og sveitarfélaga, auk meiri mengunar og skertra lífsgæða almennings. [Annar kostnaðarliður vegna illa ígrundaðrar stefnu Samfylkingar í umferðarmálum er aukinn slysakostnaður og bifreiðatjón.]
Stytting vinnuvikunnar er löngu farin í tímasóun í einkabílnum eða í strætó. Á næstu 10 árum mun kostnaður vegna umferðartafa á svæðinu aukast verulega."
Jafnaðarmenn við stjórn borgarinnar hafa rænt nýlegri vinnutímastyttingu af launamönnum með því meðvitað að þvinga þá í umferðarteppur - og -hnúta í þeirri bornu von, að þeir fari að ferðast með strætó. Hvernig má það vera, að verkalýðsforkólfar, sem annars láta sér fátt vera óviðkomandi, gagnrýni ekki aðgerðarleysi borgaryfirvalda, sem skert hafa verulega lífsgæði skjólstæðinga þeirra ? Sama má segja um landlæknisembættið. Þar á bæ eru oft uppi pólitískar hugmyndir um neyzlustýringu með gjaldtöku af óhollustu. Hvers vegna heyrist ekki bofs um lýðheilsumál Reykvíkinga í uppnámi vegna aukinnar hættu, streitu og mengunaráreitis í umferðinni af mannavöldum. Almennt má segja, að borgarstjóri og meðreiðarsveinar hans í borgarstjórn hafi komizt upp með stefnumörkun og stjórnarhætti, sem eru fyrir neðan allar hellur, furðu gagnrýnilítið.
"Fossvogsbrúin, eins mikilvæg og hún gæti verið, er orðin deila um kostnað, og hvort þetta eigi að vera listaverk. Sæbrautarstokkur er allt of dýr framkvæmd. Miklubrautarstokkur er rándýr og illframkvæmanlegur. Jarðgöng undir Miklubraut eru orðin álitlegri kostur að mati Vegagerðarinnar og fleiri fagaðila. Fækkun akreina úr tveimur í eina í hvora átt efst á Laugavegi og Suðurlandsbraut, lækkun umferðarhraða og miðjusetning borgarlínu mun umturna og tefja gífurlega alla bílaumferð.
Borgarlína mun skerða bílastæði við fyrirtækin og aðkomu að þeim við göturnar. Aðkoma að Laugardalsvelli og fyrirhugaðri Þjóðarhöll verður algjörlega óviðunandi fyrir mörg þúsund manns, sem koma þangað á viðburði á stuttum tíma. Heildarhönnun og framkvæmd borgarlínu mun taka mjög langan tíma, jafnvel 15-20 ár."
Þarna heyrist rödd heilbrigðrar skynsemi og fagmennsku á sviði umferðarmála höfuðborgarsvæðisins. Hvorugu er til að dreifa í ranni meirihluta borgarinnar, þar sem trippin eru rekin af Samfylkingunni, sem er endemis meinlokuflokkur, þar sem stefnan er mótuð af amatörum, sérvitringum og skýjaglópum. Að haldið skuli áfram út í borgarlínufenið í stað þess að gera sér grein fyrir, að um mikla fjárhagslega og tæknilega ófæru er að ræða, sem skynsamlegast er að læsa ofan í skúffu strax, sýnir, að pólitísk hugsun í Samfylkingunni er mótuð af kreddum og trúarkenningum. Þetta er ekkert nýtt, heldur hefur verið viðloðandi flokkinn frá stofnun hans og var áberandi í vinstri stjórninni 2009-2013. Verkin tala, og ekkert er að marka fagurgala núna. Þessi fagurgali hefur þó greitt götu óánægjufylgis frá stjórnarflokkunum, og sú óánægja með blöndu stjórnleysis og verkleysis ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er ekkert grín. Ef núverandi forystu ríkisstjórnarinnar tekst ekki að vinda ofan af verstu vitleysunni, t.d. í útlendingamálum og virkjanamálum, þá verður hér gallískt (franskt) ástand eftir næstu Alþingiskosningar, þ.e. enginn starfhæfur ríkisstjórnarkostur í boði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2024 | 09:38
Vanhugsuð loftslagsstefna íslenzkra yfirvalda
Á þessu vefsetri hefur rándýr og óskilvirk loftslagsstefna hérlendra yfirvalda verið gagnrýnd, enda er hún bara eftiröpun þess, sem Evrópuþjóðir, sem búa við ríkjandi jarðefnaeldsneytisbrennslu í sínum orkubúskapi, hafa smíðað sér til að verða minna háðar þessu orkuformi. Hér hvorki gengur né rekur við að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, enda hafa sömu yfirvöld hagað málum svo, að skortur er á sjálfbærri raforku til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Hefur vitleysan gengið svo langt síðustu misserin, að hlutur olíu við raforkuvinnslu hefur aukizt af illri nauðsyn. Er það reginhneyksli og hinn versti áfellisdómur yfir ríkjandi stjórnvöldum. Hins vegar gefa stjórnarandstöðuflokkarnir enga von um aukna skynsemi í þessum efnum, komist þeir til valda.
Nú hefur skynsamlegur mælikvarði verið kynntur til sögunnar, sem styður þann málflutning, sem hér á vefsetrinu hefur verið hafður uppi um einn anga þessa máls, sem er sá, að mesta framlag Íslands til loftslagsmálanna er að hýsa hér orkukræfan iðnað. Sú framleiðsla á Íslandi er með minna kolefnisspor en annars staðar þekkist. Þess vegna á ekki að stöðva þessa framleiðslu, eins og erkiafturhaldið í landinu hefur gert opinbera tillögu um, heldur að auka hana. Á öllum sviðum þjóðmálanna er erkiafturhaldið rödd óskynseminnar, sem réttara væri að nefna heimsku.
Sú rödd skynseminnar, sem hér er gerð að umræðuefni, kom frá Samtökum atvinnulífsins - SA, og var það aðstoðarframkvæmdastjórinn, sem þar tjáði sig. Sú tjáning féll ekki í grýttan jarðveg Staksteina Morgunblaðsins, sem 24. júní 2024 voru undir fyrirsögninni:
"Stórslys í uppsiglingu":
"Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, gerir óraunhæf markmið í loftslagsmálum að umræðuefni í pistli í Viðskiptablaðinu. Þar segir hún, að losun gróðurhúsalofttegunda í hlutfalli við verðmætasköpun sé nær hvergi minni en hér á landi."
Þetta er góður mælikvarði á gagnsemi losunarinnar í mismunandi löndum og sýnir viðleitni atvinnulífs viðkomandi þjóðar til að standa sig vel í umhverfismálum. Skrámar umræðunnar grípa hins vegar gjarna metnaðarlausan mælikvarða á lofti, sem er losun koltvíildis á mann. Það er erfitt að verða góður á þennan mælikvarða, nema halda að sér höndum, sem eru ær og kýr afturhaldsins.
"Hún segir:"Ætla mætti, að eftirsóknarvert væri, að hér væru framleiddar vörur með umhverfisvænni hætti en annars staðar. Er skynsamlegt út frá alþjóðlegum umhverfissjónarmiðum að refsa íslenzkum fyrirtækjum fyrir það að auka við slíka framleiðslu ?"
Þessari spurningu hafa íslenzk stjórnvöld svarað fyrir sitt leyti með því að setja þessi og öll önnur fyrirtæki í landinu í orkusvelti, og þau hafa stuðlað að kyndingu olíukatla til að kynda húsnæði. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að í landi gnægðar óbeizlaðrar endurnýjanlegrar orku er orkustefna íslenzkra yfirvalda í raun glórulaus. Það verður að söðla algjörlega um og stöðva fíflaganginn, sem er út um allt og setur orkuöflun landsmanna í kyrrstöðu. Ef menn halda, að stjórn Samfylkingarinnar á orkumálunum muni geti hrint kyrrstöðunni, þá fara menn í geitarhús að leita ullar. Öll stórmál, sem sá stjórnmálaflokkur hefur afskipti af, verða að klúðri og enda með öngþveiti. Dæmi um þetta eru lóðamál og umferðarmál og reyndar fjármál Reykjavíkur. Þegar kom að útlendingamálum á Alþingi í vor, sem gætu valdið heildarkostnaði í landinu um 50 mrdISK/ár, þá skilaði Samfylkingin auðu. Þetta er flokkur fagurgalans og hégómaskaparins, sem nú gerir hosur sínar grænar frammi fyrir kjósendum til Alþingis.
"Ef fram fer sem horfir, munu íslenzk fyrirtæki þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir umtalsverða fjármuni vegna skuldbindinga, sem ljóst mátti vera frá öndverðu, að væru óraunhæfar vegna forskots okkar í nýtingu grænnar orku. Sá kostnaður mun hamla getu fyrirtækjanna til að fjárfesta frekar í umhverfisvænum lausnum."
Það er með ólíkindum á hvers konar villigötur stjórnmálamenn og embættismenn geta ratað, þegar þeir leika lausum hala. Þarna fullyrðir aðstoðarframkvæmdastjóri SA, að þessi snilldarmenni hefðu mátt vita, að verið væri að hengja þunga kostnaðarbagga á íslenzka skattborgara með gersamlega óraunhæfum markmiðum um losun koltvíildis 2030. Aðalábyrgðina á því ber VG og fyrrverandi formaður hreyfingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, sem flúði frá borði. Fékk Katrín samþykki fjárveitingavaldsins, Alþingis, fyrir þessum gjörningi áður en hún hélt utan á montsamkomur í Evrópu af þessu tilefni ? Annað væri ólögmæt fjárhagsleg skuldbinding. Það er alveg makalaust, hversu gjörsamlega úti á túni stjórnmálamenn eru, þegar kemur að fýsileika loftslagsmarkmiða. Umhverfisvænsta land Evrópu sýpur nú seyðið af því, að hafa haft ábyrgðarlausan tækifærissinna á stóli forsætisráðherra 2017-2024.
"Anna Hrefna segir, að skynsamlegast væri að "breyta um kúrs, hampa sérstöðu Íslands og skilgreina okkar eigin raunhæfu langtímamarkmið í umhverfismálum. Að öðrum kosti er kostnaðarsamt stórslys í uppsiglingu.""
Þetta er róttækt sjónarmið, því að það jafngildir því að hætta að binda trúss sitt við EES í loftslagsmálum, en sú tenging á illa við Ísland, því að aðstæður hér eru ósambærilegar við EES að þessu leyti. Taka skal heils hugar undir þessi viðhorf Önnu Hrefnu, því að núverandi tenging við loftslagsmarkmið EES er algerlega vanhugsuð og mun valda íslenzku atvinnulífi og íslenzka ríkissjóðinum tugmilljarða ISK tjóni að þarflausu. Þarna hafa ósjálfstæðir íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn vélað um málafylgju, sem er illa fallin til árangurs, en afar kostnaðarsöm. Hvað verður um sektarféð vegna markmiða, sem ekki náðust ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)