Færsluflokkur: Mannréttindi

Líður EES senn undir lok ?

Engum blöðum er um það að fletta, að BREXIT hefur mikil áhrif á forsendur EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem eru ESB-ríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein. Ástæðan er sú, að Bretland er helzta viðskiptaland Íslands og Noregs.

Þann 25. nóvember 2017 birtist þörf hugvekja um EES í Morgunblaðinu eftir Norðmanninn, Morten Harper, rannsóknarstjóra Félags norskra andstæðinga ESB, "Nej til EU".  Í ljósi þess, að EES var sett á laggirnar sem fordyri að ESB, eins konar biðsalur væntanlegra aðildarlanda í aðlögun, þá er tímabært að vega og meta alvarlega útgöngu Noregs og Íslands úr EES, af því að aðild landanna er engan veginn á dagskrá um fyrirsjáanlega framtíð. Áhuginn fyrir inngöngu í ESB fer minnkandi í báðum löndunum og efasemdir um heildarnytsemi EES fara vaxandi.

Það, sem kemur þessari umræðu af stað núna, er vitaskuld útganga Bretlands úr ESB, en Bretland er mesta viðskiptaland Noregs og Íslands.  Bæði löndin undirbúa tvíhliða viðræður um framtíðar viðskiptasambönd landanna, og þá er jafnframt eðlilegt að íhuga tvíhliða viðskiptasamband við ESB, eins og t.d. Svisslendingar notast við. E.t.v. væri samflot EES-landanna utan ESB gagnlegt, ef ESB verður til viðræðu um endurskoðun á EES-samninginum, sem er undir hælinn lagt.

Morten Harper er fullveldisframsalið til ESB ofarlega í huga.  Það er fólgið í flóði reglna og tilskipana frá framkvæmdastjórn ESB; 12´000 slíkar hefur Noregur tekið upp frá árinu 1992.  Hvað skyldi Ísland hafa tekið upp margar af þessum toga frá 1994 ? 

Þá felur valdaframsal til eftirlitsstofnunarinnar ESA og EFTA-dómstólsins klárlega í sér fullveldisskerðingu landanna þriggja utan ESB í EES, og nú virðist eiga að troða hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB ríkjanna upp á hin EES ríkin (utan ESB).  Skemmst er að minnast nýlegs dómsorðs EFTA-dómstólsins, þar sem leitazt er við að þvinga Ísland til að láta af varúðarraáðstöfunum sínum til varðveizlu á heilsufari manna og búfjár í landinu.  

Nú skal vitna í ágæta grein Mortens Harper, 

"Af hverju Norðmenn vilja atkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins":

"Lykilatriði í nýju skýrslunni, "25 ár í EES" [okkur Íslendinga vantar vandaða úttekt af þessu tagi], er, hvernig EES-samningurinn veldur einkum skaða á norska atvinnulífinu.  EES-skýrslan sýnir, hvernig norsk lög, kjarasamningar og ILO-samningar (Alþjóða vinnumálastofnunin) víkja fyrir reglum ESB/EES.  [Hér má minna á megna óánægju innan verkalýðshreyfingarinnar íslenzku með skuggahliðar frjáls flæðis vinnuafls innan EES.]  

Í umdeildum úrskurði í lok síðasta árs fylgdi Hæstiréttur [Noregs] ráðgjöf EFTA-dómstólsins og setti reglur ESB um frelsi fyrirtækja framar rétti verkamanna og 137. ákvæði Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um hafnarverkamenn.  Nokkur verkalýðsfélög krefjast þess nú, að Noregur yfirgefi EES."

Það má furðu gegna, að slík krafa varðandi aðild Íslands að EES skuli enn ekki hafa birzt opinberlega frá neinu íslenzku verkalýðsfélagi.  Starfsmannaleigur, sem eru regnhlíf yfir þrælahald nútímans á Norðurlöndunum og réttindalausir iðnaðarmenn að íslenzkum lögum, ættu að vera nægilega ríkar ástæður til að segja sig úr lögum við þetta furðufyrirbrigði, sem ESB er.  

Svo kom rúsínan í pylsuendanum hjá Morten Harper:

"Noregur er mikill framleiðandi [raf]orku.  Framkvæmdastjórn ESB vill tengja Noreg eins náið og unnt er við ESB-orkukerfið og stefnir að fimmta frelsinu: frjálsu orkuflæði [undirstr. BJo].  Meirihluti ESB-orkulöggjafarinnar er talinn falla undir EES, [sem] gerir samninginn að verkfæri ESB til að samþætta Noreg í orkukerfið.  

Nánast ekkert hefur meiri þýðingu fyrir norskan iðnað en langtíma aðgengi að raforku á samkeppnishæfu verði.  Sífellt meiri útflutningur rafmagns til meginlandsins og Bretlands getur leitt til þess, að Noregur þurfi að greiða hærra raforkuverð fyrir sín not.  Aðeins við þjóðarorkukreppu getur Noregur komið í veg fyrir útflutning raforku.  Að öðru leyti er öllu stjórnað af samkeppnisreglum ESB/EES."

Blekbóndi þessa vefseturs hefur verið ólatur við að vara við samtengingu raforkukerfa Íslands og ESB með sæstreng til Skotlands vegna þeirrar sannfæringar, á grundvelli útreikninga, að þjóðhagslega hagkvæmast sé að nýta íslenzka raforku innanlands til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar.  Lýsing Mortens Harper bendir til, að Norðmenn finni nú á eigin skinni gallana við útflutning á raforku úr sjálfbærum orkulindum Noregs (fallorku vatnsfalla) á svipuðum grundvelli og blekbóndi hefur varað hérlandsmenn við raforkuútflutningi frá Íslandi um sæstreng á þessu vefsetri.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur verið helzti hvatamaður slíkrar tengingar hérlendis, en hefur samt aldrei fengizt til að sýna á spilin sín, enda sennilega ekkert til að sýna.  Blekbóndi þessa vefseturs hefur út frá tiltækum gögnum sýnt fram á með útreikningum, hversu ókræsileg þessi viðskipti yrðu, og hversu alvarlegir tæknilegir annmarkar eru á þeim. 

Nú rifjast það upp, að Hörður Arnarson var einn þeirra, sem málaði skrattann á vegginn um afleiðingar þess að hafna Icesave-samningunum við Breta/Hollendinga/ESB, þegar sú deila var hvað hatrömmust á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar 2009-2013.  Ályktunin nú er þess vegna sú, að umræddu sæstrengsverkefni sé ætlað af ESB að verða farvegur fyrir innleiðingu 5. frelsis Innri markaðarins á Íslandi.  Þar með mundi Ísland lenda í sömu stöðu og Morten Harper lýsir fyrir Noreg um hækkun raforkuverðs af völdum mikils raforkuinnflutnings vegna innlends orkuskorts (tæmd miðlunarlón af völdum mikils raforkuútflutnings).  

Hvernig á að standa að endurskoðun á EES-samninginum ? Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála í Noregi.  Ein leið er sú að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor, um aðild eða úrsögn.  Önnur leið er, að ríkisstjórnin reyni að tryggja fullveldi Íslands gagnvart ESB undir hatti EES og hugsanlegur nýr samningur verði síðan borinn undir þjóðaratkvæði til synjunar eða samþykkis.  Allur norðurvængur Evrópusambandsins kann að verða í uppnámi á næstu misserum.  

Brezki fáninn-Union JackÞýzkt ESB

 


Óviðunandi staða Seðlabanka Íslands

Bankastjóri Seðlabankans og nokkrir æðstu stjórnendur bankans hafa nú að upp kveðnum sýknudómi yfir Samherja í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. apríl 2017, þar sem allur málflutningskostnaður var felldur á Seðlabankann, orðið uppvísir að mestu afglöpum embættismanna í starfi á landi hér um langa hríð.  Kostnaður brambolts Gjaldeyriseftirlitsins fyrir Seðlabankann fer að slaga í miaISK 2,0 án nokkurs árangurs.  Kostnaður og miski fjölmargra fórnarlamba er allt of mikill og algerlega óþarfur.  Þetta kallar á ávítur og brottvikningu.

Það er með öllu óviðunandi fyrir almenning í þessu landi að búa við það, að peningamálastjórnun landsins sé í höndum fólks, sem hefur verið dæmt óhæft til að fara með mikil völd.  Peningamálastjórnunin sjálf sætir víðtæku ámæli, og hér kom dropinn, sem fyllir mæli Seðlabankans. Traust almennings er Seðlabanka nauðsyn, eigi hann að virka vel. Hvarvetna mundu hausar fjúka eftir slíkan dóm í tilraun til að endurvinna glatað traust. Hér eru mikil firn á ferð, sem ástæða er til að reifa í pistli.

Óðinn á Viðskiptablaðinu gerir þetta alræmda mál að umfjöllunarefni sínu 27. apríl 2017, og hefst greinin þannig:

"Fyrir rétt rúmum 5 árum, nánar tiltekið í lok marz 2012, lét Seðlabanki Íslands framkvæma húsleit á skrifstofum útgerðarfélagsins Samherja í Reykjavík og á Akureyri.  Starfsmenn Seðlabankans ásamt lögreglufulltrúum frá embætti Sérstaks saksóknara höfðu flogið norður daginn áður og fóru leynt áður en þeir gerðu atlögu að fyrirtækinu daginn eftir.  Þó ekki það leynt, að fjölmiðlar væru ekki ræstir út á sama tíma, og voru [þeir] mættir á staðinn rétt áður en húsleitin hófst.  Reyndar voru það ekki fjölmiðlar í fleirtölu, heldur aðeins fréttastofa RÚV-en húsleitin var gerð í nánu samstarfi við RÚV, svo eðlilegt sem það er."

Þetta er lýsing á kommúnistískri tilraun Seðlabankans til að knésetja öflugt einkafyrirtæki. Már, bankastjóri, kom fram í fjölmiðlum við þetta tækifæri, og gaf í skyn, að bankinn hefði rökstuddan grun um sök á alvarlegu gjaldeyrismisferli. Varaði hann erlenda viðskiptavini fyrirtækisins við samskiptum við þetta fyrirtæki með yfirlýsingu á ensku. Íslendingar máttu eftir allar þessar aðfarir halda, að Hrói höttur hefði nú haft hendur í hári auðmannsins og mundi senn rýja hann inn að skinninu og dreifa gullinu á meðal fátækra.  

Aðförina sjálfa reyndist samt við rannsókn annarra embætta skorta allan lagalegan grundvöll, og sú ákvörðun bankans að gera aðförina í beinni útsendingu Sjónvarps og gefa í kjölfarið út fréttatilkynningu á ensku fyrir alþjóðlegar fréttaveitur sýnir algert dómgreindarleysi forystu Seðlabankans. Hún er heillum horfin, enda Trotzky slæmur lærifaðir.   

Seðlabankaforystan kann með þessum fréttasendingum að hafa ætlað að nýta aðgerðina til að fæla aðra í brotahugleiðingum frá að brjóta lög og reglur gjaldeyrishaftanna, en forysta bankans hafði ekki siðferðilegan rétt til að ganga þar með svo freklega gegn hagsmunum hins grunaða.  Í þessu birtist mikið ofríki og sannarlega fór Seðlabankinn þarna offari.

Seðlabankinn sýndi svo einbeittan brotavilja gegn téðu fyrirtæki, að óbeit vekur, og aðfarirnar á öllum stigum málsins sýna óyggjandi, að seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og yfirmenn gjaldeyriseftirlits og lögfræðisviðs bankans, verða að víkja úr embættum, ef dómur Héraðsdóms mun standa.  Að öðrum kosti verður girt fyrir, að Seðlabankinn öðlist traust á ný á næstunni, og það er nokkuð borðleggjandi, að höfðað verður skaðabótamál á hendur bankanum, ef þessi forysta nýtur stuðnings bankaráðs og ríkisstjórnar. 

Bankaráð Seðlabankans og ríkisstjórnin verða að gera sér grein fyrir, að enginn friður fæst um bankann án þess, að ráðamenn hans verði látnir axla ábyrgð með því að axla sín skinn.  Að öðrum kosti sitja bankaráðið og viðkomandi ráðherrar uppi með Svarta-Pétur. 

Ferill málsins var í grófum dráttum þannig:

  1.  Dómari þurfti að veita húsleitarheimildina, og það væri fróðlegt að lesa rökstuðning dómara fyrir henni.  Dómarar eiga ekki að veita sjálfsafgreiðsluþjónustu. Gögn málsins voru eftir rannsókn Seðlabankans send til Sérstaks saksóknara, af því að, Guði sé lof, Seðlabankanum hefur ekki verið veitt ákæruvald.  Sérstakur stöðvaði rannsókn málsins, þegar starfsmönnum embættisins þótti orðið ljóst, að engar líkur væru á sakfellingu.  Þess vegna var engin ákæra gefin út eftir allt brambolt, reykbombur og skothríð Seðlabankans út í loftið.  Seðlabankinn mótmælti frávísuninni, en Ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun Sérstaks.  Þegar svo var komið, mundi dómgreind segja stjórnendum Seðlabanka með heilbrigða skynsemi að láta málið niður falla, en þar á bæ er hvorugu til að dreifa.
  2. Seðlabankinn var ekki af baki dottinn og sendi nú hluta rannsóknargagna til Skattrannsóknarstjóra, þótt húsleitirnar hefðu ekki verið gerðar vegna gruns um skattalagabrot.  Þetta hálmstrá Seðlabankans brást líka, því að Skattrannsóknarstjóri fann ekkert athugunarvert við skattframtöl og skattskil Samherja á grundvelli rannsóknargagnanna, endursendi gögnin og gaf enga ákæru út.  Hernaðurinn leiddi ekki til neinnar ákæru. Hvers konar lögfræði er eiginlega stunduð í Seðlabanka Íslands ?  Á meðan þessi staða er uppi, og enginn er dreginn til ábyrgðar, verður að kenna vinnubrögðin við fúsk. Þjóðin getur ekki setið uppi með fúskara í fílabeinsturni við Arnarhól.
  3. Nú var hverju barni orðið ljóst, að engin ákæra yrði gefin út á hendur nokkrum starfsmanni hins ofsótta fyrirtækis. Þá bauð Seðlabankinn fram "sátt" í málinu, sem fælist í greiðslu MISK 8,5 til bankans.  Heilbrigð skynsemi segir þó, að tjónþoli hefði átt að fá greiðslu í sáttaskyni, reyndar miklu hærri en þetta, enda var þessari "sátt" hafnað.  Þá setti bankinn upp á sig snúð og lagði á stjórnvaldssekt að upphæð MISK 15 á fyrirtækið.  Hún var kærð, og þann 24. apríl 2017 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur sektina úr gildi, m.a. með þeirri röksemd, að Seðlabankinn hafi ekki heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna máls, sem hann hefur áður fellt niður.  Enn kemur í ljós, að annaðhvort er lögfræðisvið bankans hunzað af yfirmönnum hans eða þar er allsendis ófullnægjandi lagaþekking fyrir hendi. Embættisdrýld og hroki tröllríður Seðlabankanum um þessar mundir.  

Hér er stórmál á ferðinni fyrir persónuvernd og einstaklingsfrelsi í landinu gagnvart ríkisvaldinu. Einstaklingurinn á undir högg að sækja gagnvart útblásnu ríkisvaldi, þar sem offors við að knésetja fórnarlambið ræður of oft för.  Út yfir allan þjófabálk tekur, þegar þetta sama ríkisvald verður uppvíst að svo bágborinni lagaþekkingu, að það er gert afturreka með allar kröfur sínar á hendur einstaklingum og félögum þeirra.  Þá er búið að draga hið sama ríkisvald niður í svað götustráka, sem stunda einelti gegn þeim, sem þeir telja sig eiga í fullu tré við.  Mál er að linni. 

Jóni Steinari Gunnlaugssyni, hrl., er einnig nóg boðið og fær ekki orða bundizt.  Hann ritar í Morgunblaðið 1. maí 2017:

"Aðför án ábyrgðar":

"Nýjasta dæmið er löglaust framferði stjórnenda Seðlabankans gegn útgerðarfyrirtækinu Samherja, sem staðið hefur yfir um nokkurra ára skeið.  Komið er í ljós, að þar var valdi gróflega misbeitt.  Nú ætlar Már, bankastjóri, bara að sitja þetta af sér, og þá helzt án þess að þurfa að segja mikið.  Og hann mun komast upp með það, því að þeir, sem um eiga að þinga, munu ekkert gera."

Því skal ekki trúa fyrr en á verður tekið, að "þeir, sem um eiga að þinga", láti kyrrt liggja.  Heiður Seðlabankans og alls stjórnkerfis ríkisins er í húfi.    


Alvarlegar ásakanir

Mjög óþægilegt mál fyrir þjóðina hefur undanfarin misseri grafið um sig varðandi 3. stoð ríkisvaldsins, dómsvaldið, en það eru ásakanir hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi dómara við Hæstarétt, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, JSG, í garð fyrrverandi meðdómara sinna, sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma hafa verið vanhæfir til að dæma um lögbrot fyrrverandi bankamanna og virðast hafa beitt sér með ósæmilegum hætti gegn honum í aðdraganda skipunar hans í stöðu hæstaréttardómara. 

Jón Steinar hefur birt nokkrar greinar í Morgunblaðinu og skrifað bækur um efnivið, sem er þess eðlis, að ekki er hægt að láta liggja í þagnargildi, nema enn meira tjón hljótist af.  Ef Alþingi og Innanríkisráðherra ætla á nýju ári, 2017, að stinga höfðinu í sandinn, þegar jafnalvarlegar ásakanir eru hafðar uppi af fyrrverandi innanbúðarmanni í Hæstarétti í garð nokkurra dómara æðsta dómstigs landsins, einkum þess áhrifamesta og langvarandi forseta réttarins, þá bregðast hinar stoðir ríkisvaldsins líka skyldum sínum.  Er þá fokið í flest skjól, og ekki verður þá önnur ályktun dregin en alvarleg meinsemd (rotnun) hafi náð að grafa um sig á æðstu stöðum.  Það er óhjákvæmilegt að stinga á slíku kýli, þótt sársaukafullt verði,  og fjarlægja gröftinn. 

Grein JSG í Morgunblaðinu 2. janúar 2017:

"Hvað láta Íslendingar bjóða sér ?",

hefst þannig:

"Fráfarandi forseti Hæstaréttar og samdómarar hans hafa brotið gegn lagaskyldum sínum og misfarið með vald sitt.  Þá þarf að kalla til ábyrgðar."

Fram kemur í greininni, að staðfest leyfi rétt bærs aðila til handa hæstaréttardómara að eiga ákveðin hlutabréf og fjalla samtímis um málefni sakborninga í sama eða tengdum félögum (banka), hafi ekki verið lagt fram. Síðan segir:

"Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að vísa skyldi ætluðum sökum hinna ákærðu í þessum málum frá dómi í stórum stíl.  Allir sáu, að hér voru á ferðinni úrlausnir, sem engu vatni héldu.  Er gerð grein fyrir þessu á bls. 378-384 í bók minni, "Í krafti sannfæringar", sem út kom á árinu 2014."

Síðan er drepið á málaferli gegn bankamönnum fyrir verknaði, er talið var, að veikt hefðu bankana í Hruninu og e.t.v. átt þátt í því:

"Sumir dómaranna höfðu verið þátttakendur í fjármálaumsvifum á vettvangi bankanna fyrir hrunið, mismiklum þó.  Þar virðist fráfarandi forseti réttarins hafa verið sýnu stórtækari en aðrir.  Þeir urðu svo fyrir umtalsverðu fjártjóni af völdum þess.  Um þetta vissi enginn. 

Þetta aftraði þeim ekki frá að taka sæti í þessum málum og fella þunga dóma yfir hinum ákærðu.  Það hefur vakið athygli, að í mörgum þessara mála hafa hinir ákærðu verið sakfelldir fyrir umboðssvik án þess, að fyrir hafi legið ásetningur þeirra til auðgunar á kostnað viðkomandi banka og án þess að sérstök hætta hafi einu sinni verið á slíku."

Í augum leikmanns eru dómarar við Hæstarétt hér sakaðir um að hafa látið sín viðskiptatengsl við fjármálastofnun hafa veruleg áhrif á úrskurð sinn í mikilsverðum dómsmálum.  Eins og allt er í pottinn búið, gefur augaleið, að ekki verður undan því vikizt að fá botn í málið og leiða það til lykta, svo að þeir axli sín skinn, sem brotið hafa af sér, en hinir verði sýknir saka. 

Síðan skýrir JSG frá illvígri aðför dómara við Hæstarétt að sér í þremur liðum til að hræða hann frá að sækja um embætti hæstaréttardómara 2004 með hótunum um misbeitingu meirihluta dómaranna á umsagnarrétti sínum um umsækjendur.  Þetta er gjörsamlega siðlaust athæfi dómaranna, ef satt er, og rýrir svo mjög traust til þeirra, að Alþingi og Innanríkisráðherra er með engu móti stætt á öðru en að hleypa opinberri rannsókn af stokkunum til að komast til botns í málinu. 

Nú skal ekki fella dóm hér, enda engin efni til þess, en ef samsæri á vinnustað gegn umsækjanda um starf á sama vinnustað kæmist upp og sannaðist, væri það hvarvetna talið ólíðandi óþokkabragð, þar sem vegið væri freklega að borgaralegum réttindum einstaklings og að orðstír hans, og einnig vinnur einelti af þessu tagi augljóslega gegn hagsmunum vinnustaðarins og vinnuveitandans, sem kappkostar að ráða starfsmann með eftirsótta hæfileika, getu og þekkingu, en alls ekki þann, sem líklegastur er til að falla bezt í klíkukramið á vinnustaðnum og láta bezt að stjórn klíkustjórans á hverjum tíma, ef slíkur er á viðkomandi vinnustað.  Ef rökstuddur grunur kemur upp um, að eitthvað þessu líkt viðgangist í Hæstarétti Íslands, eins og nú hefur komið á daginn, eru viðkomandi stjórnvöld, Alþingi og Innanríkisráðherra, að lýsa yfir blessun sinni á slíku ófremdarástandi með aðgerðarleysi. Slíkt hlýtur þá að lokum að hafa stjórnmálalegar afleiðingar.

"Dómarar við Hæstarétt hafa ekki hikað við að brjóta gegn lagaskyldum sínum og misfara með vald sitt til að koma fram niðurstöðum, sem þeim hafa fundizt æskilegar, hvað sem réttum lagareglum líður.  Þeir hafa þá að líkindum treyst því, að þeir gætu farið fram í skjóli leyndar um atriði, sem skipt hafa meginmáli fyrir dómsýslu þeirra." 

Nú stendur svo á, að þetta er líklega harðasta og alvarlegasta gagnrýni, sem komið hefur fram á störf hæstaréttardómara frá stofnun Hæstaréttar Íslands.  Væri þá ekki við hæfi, að yfirvöldin rækju af sér slyðruorðið og gripu til réttmætra aðgerða til að komast til botns í málinu og bæta orðstír Hæstaréttar í bráð og lengd ?

Lokahluti greinar JSG ber einmitt yfirskriftina:

"Glataður orðstír":

"Það er nauðsynlegur þáttur í aðgerðum til að endurvekja traust þjóðarinnar til Hæstaréttar Íslands, að dómarar við réttinn verði, þar sem það á við, látnir bera ábyrgð á afar ámælisverðu háttalagi sínu á undanförnum árum."rosabaugur251px1

 

 


Andstæð stjórnkerfi

Mannkynið hefur séð margs konar stjórnkerfi fyrir þjóðfélögin koma og fara og fyrir um aldarfjórðungi hvarf eitt þeirra, sovézki kommúnisminn, í aldanna skaut.  Þá hafði þetta eins flokks miðstýrða kúgunarkerfi gengið sér siðferðislega og fjárhagslega gjörsamlega til húðar. Í kjölfarið urðu til nokkur sjálfstæð ríki, sem í Mið-Evrópu tóku upp þingræðisstjórn að hætti Vesturlanda og gengu Evrópusambandinu og NATO á hönd. Segja má, að fullreynt sé með miðstýrt þjóðfélag eins flokks, þar sem öll helztu atvinnutæki og fjármálastofnanir eru á höndum ríkisins að hætti hagfræðingsins Karls Marx. Siðferðislegt og fjárhagslegt gjaldþrot Venezúela nú eftir um 15 ára vinstri stjórn sannar, að daufari útgáfur af Karli Marx en ráðstjórnin virka ekki heldur.

Kínverjar hafa þróað sérútgáfu af einræði kommúnistaflokks, þar sem þeir hafa virkjað auðhyggjuna, kapítalismann, í atvinnulífinu, til að knýja fram mikinn hagvöxt með miklum lántökum og bætt lífskjör allra, og þá hafa auðvitað orðið til allmargir auðmenn um leið. Kínverska kerfið er líklega komið á endastöð núna, því að fjölmennasta miðstétt heims, sem orðið hefur til frá þessari umbyltingu Li Hsiao Pin fyrir aldarfjórðungi, krefst nú meira andlegs frelsis og valds yfir eigin lífi og stjórnun nærumhverfis og ríkis en kommúnistaflokkurinn er reiðubúinn til að láta af hendi. 

Í ágúst 2015 tók hlutabréfavísitalan í Shanghai að falla og þar með orðstír kínversku ríkisstjórnarinnar sem stjórnvald rökhyggju, hæfileika og jafnvel heilbrigðrar skynsemi, sem hún hafði innprentað lýðnum.  Það, sem verra var: vonlaus viðbrögð stjórnvalda, þegar loftið fór úr hlutabréfablöðrunni, sem þau höfðu með áróðri sínum átt þátt í að þenja út, voru aðeins ein af mörgum mistökum valdhafanna.  Miklum fjármagnsfótta frá Kína í kjölfarið hefur fylgt gengissig kínverska gjaldmiðilsins, yuan (renminbi), og stjórnvöldum hefur ekki tekizt vel upp við að ná tökum á þessari neikvæðu þróun kínverskra fjármála, sem endað getur með ósköpum.  Hún leiðir til kjaraskerðingar almennings og vaxandi atvinnuleysis, þó að stjórnvöld reyni nú að söðla um frá gegndarlausri og víða glórulausri iðnaðaruppbyggingu flokkspótintáta í héruðum landsins til þjónustustarfsemi.  Flokksforkólfarnir hafa verið metnir eftir framleiðsluaukningu, en ekkert verið hugað að arðseminni, og nú er skuldabyrðin tekin að sliga efnahaginn. 

Grafalvarleg sprenging í hinni norðlægu borg Tianjin leiddi í ljós ógnvekjandi óstjórn.  Allar ríkisstjórnir gera mistök, en sú kínverska reisir tilverurétt sinn á færni sinni fremur en umboði frá íbúunum.  Nú spyrja útlendingar og kínverskir borgarar sig þeirrar spurningar, hvort ríkisstjórnin hafi misst taumhaldið á þróun ríkisins ? 

Fáeinar slæmar vikur eiga þó ekki að verða allsráðandi um um mat á kínverska kerfinu, sem hefur náð ágætum efnahagslegum árangri undandarin 25 ár.  Það sem réttlæta á þetta valdboðna eins flokks kerfi er röð og regla í þjóðfélaginu og vitur forysta, sem tryggi hagvöxt og almenna velmegun.  Stuðningsmenn þessa kerfis bera gjarna saman feril kínverskra leiðtoga og leiðtoga lýðræðisríkjanna, t.d. Bandaríkjanna, BNA.  Barack Obama segja þeir hafa orðið forseta út á lítið annað en hrífandi mælskulist og getu til að safna í kosningasjóð. Eftir á að hyggja er erfitt að andmæla því. Andstætt þessu hafi Xi Jinping, þegar hann varð flokksformaður 2012, unnið sig upp eftir metorðastiga flokks og ríkisstjórnar og hafi unnið bæði í miðlægri stjórnsýslu flokksins og í 4 fylkjum, sem hvert um sig er stærra en mörg ríki heims.

Aðdáendum Kommúnistaflokksins finnst, að Hr Xi sitji á toppi pýramída, þar sem prelátar hljóta framgang á grundvelli eigin verðleika við að leysa verkefni og próf.  Þetta sé kerfi, sem verðlaunar hæfileika og hafi marga kosti umfram lýðræðislegar kosningar.  Kerfið verði ekki fórnarlamb skammtíma lýðskrumsfreistinga, þegar nálgist næstu kosningar.  Þá hafi kerfið enga hagsmuni af að fiska í gruggugu vatni þjóðfélagslegrar spennu til að afla atkvæða.  Það hafi heldur ekki tilhneigingu til að verða andsnúið þeim, sem ekki hafa kosningarétt, t.d. framtíðarkynslóðum og útlendingum.  Um þetta er fjallað í nýútgefinni bók eftir Daniel Bell, kanadískan háskólamann, sem kennir við Tsinghua háskólann í Beijing ("The China Model: Political Meritocracy and the Limits of Democracy").  Kínverska líkanið kann að henta Kínverjum um takmarkaðan tíma, en það á áreiðanlega ekki erindi við Vesturlönd.

Ef áfram heldur að fjara undan efnahag Kínverja allt þetta ár og jafnvel inn í næsta, þá mun molna undan kínverska stjórnkerfinu, því að það mun þá renna upp fyrir fólki, að stjórnendur ríkisins eru ekki starfi sínu vaxnir, þó að höfuðáherzla hafi verið lögð á að telja almenningi trú um hið gagnstæða.  Af þessum ástæðum má búast við vaxandi hernaðarbrölti Kínverja, eins og merki sjást nú þegar um á Suður-Kínahafi, í tilraun til að beina athygli almennings að málefnum, sem líkleg eru til að þjappa þjóðum Kína saman að baki valdhöfunum.  

Vesturlönd, Japan, Eyjaálfa o.fl. búa við mismunandi útgáfur af þingræðisfyrirkomulagi.  Í BNA er valdamikill forseti, forsetaræði, þar sem meirihluti þingsins getur þó sett honum stólinn fyrir dyrnar. Á Íslandi situr tiltölulega valdalítill, þjóðkjörinn forseti, og Stjórnarskráin er of loðin um valdsvið hans.  Þess vegna er nauðsynlegt að taka öll ákvæði hennar, er varða forsetann til endurskoðunar, og þar sem hann er og væntanlega verður þjóðkjörinn, er eðlilegt að fela honum veigameiri hlutverk en hann hefur nú.  Þau geta t.d. verið á sviði öryggismála ríkisins, utanríkismála, og hægt er að búa svo um hnútana, að ríkisstjórnin starfi í raun á pólitíska ábyrgð forsetans, eins og í Frakklandi. 

Á Norðurlöndunum ríkir hefð um þingbundnar ríkisstjórnir, en forseti Finnlands hefur samt nokkur völd, einkum á sviði utanríkismála, þó að hluti þeirra hafi síðar verið færður til þingsins.  Á Íslandi er eðlilegt að fela valinkunnum stjórnlagafræðingum að taka til í Stjórnarskránni, þegar forsetaembættið er annars vegar, og kveða skýrt á um valdsvið og valdmörk embættisins.  Forseti á að fela þeim, sem hann telur njóta mests stuðnings kjósenda að afloknum Alþingiskosningum, ríkisstjórnarmyndun, og forseti lýðveldisins ætti einn að hafa þingrofsheimildina.  Nýleg tilraun til misbeitingar á þessari heimild til skylminga á þinginu styður þessa skoðun. 

Forsetinn á að vera verndari Stjórnarskráarinnar, og með undirskrift sinni við ný lög á hann að staðfesta, að lagasetning sé í samræmi við Stjórnarskrá.  Sé hann í vafa, á hann að geta vísað lögum, fyrir undirritun sína, til úrskurðar Hæstaréttar , en hann á ekki að geta synjað lögum staðfestingar, ef Hæstiréttur telur þau í lagi, nema 40 % þingmanna fari fram á það. Ef forseti synjar lögum staðfestingar að beiðni þessa drjúga minnihluta þingheims, sem skal þó vera hans val, verður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi lög, nema meirihluti Alþingis afturkalli þau. 

Ennfremur er rétt að þróa hérlendis annars konar beint lýðræði og setja ákvæði þar að lútandi í Stjórnarskrá að fengnum tillögum stjórnlagafræðinga.  Þannig geti ákveðinn fjöldi kjósenda farið fram á við forseta lýðveldisins, að haldin verði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, og annað hærra hlutfall kjósenda geti farið fram á, að haldin verði ákvarðandi atkvæðagreiðsla um tiltekið mál.  Til að draga úr kostnaði er rétt að taka tölvutæknina í þjónustu lýðræðisins. 

Frelsi eintaklinganna fer alltaf til lengdar saman við lífskjör þeirra. Það hefur verið sýnt fram á skýra fylgni á milli frelsis í þjóðfélögum og velmegunar þar. Hluti af frelsinu felst í að ráðstafa tekjum sínum að vild.  Þess vegna er sjálfsagt stefnumál, að launþegar haldi sem mestu af tekjum sínum til eigin ráðstöfunar og rekstur og umsvif hins opinbera sé að sama skapi í lágmarki.  Samt hefur gefizt illa, t.d. í Kaliforníu, að kjósendur megi kjósa um tekjuöflun ríkisins, en það mætti íhuga að veita þeim rétt til að kjósa á milli einkarekstrar og opinbers rekstrar, einkafjármögnunar framkvæmda hins opinbera o.s.frv.  Allar tilraunir með Stjórnarskrárbreytingar verður þó að framkvæma af varfærni og að beztu manna yfirsýn.   

 


Hefðbundin viðhorf á hverfanda hveli

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkjandi stjórnmálaviðhorf eru í uppnámi. Þegar breyttur samskiptamáti fólks og bætt aðgengi að upplýsingum eru höfð í huga, þarf ekki að undra, að viðhorf almennings til stjórnmálanna breytist samhliða.  Víða erlendis bætast við afkomuleg vandamál af völdum stöðnunar hagkerfanna, og sums staðar er atvinnuleysið tvímælalaust hátt yfir þeim mörkum, sem við Íslendingar mundum kalla þjóðfélagsböl.  Hérlendis er mjög á brattann að sækja fyrir ungt fólk með fjármögnun húsnæðis, svo að nokkrar rætur þjóðfélagsumróts séu tíndar til.

Vaxandi urgur í miðstéttinni hefur víða leitt til aukins fylgis jaðarflokka á báðum vængjum stjórnmálanna.  Í Noregi er flokkur hægra megin við Hægri flokkinn í ríkisstjórn, og í Danmörku hefur róttækur hægri flokkur töluverð áhrif á stjórnarstefnu ríkisstjórnar í minnihluta á danska þinginu. 

Svíar og Finnar hafa enn ekki hleypt Svíþjóðardemókrötunum og Sönnum Finnum til valda, en hinir fyrr nefndu hafa hlotið fylgi í skoðanakönnunum á borð við Pírata á Íslandi.  Í Bretlandi hafa róttækir vinstri menn lagt undir sig Verkamannaflokkinn, og reyna mun á málstað Brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að Evrópusambandinu, ESB.  Í Þýzkalandi vex Alternative für Deutschland ásmegin, en hann er hægra megin við CDU/CSU, flokka Angelu Merkel og Horst Seehofers, sem að sama skapi missa fylgi. Fylgi sópaðist að AfD í þremur fylkiskosningum í marz 2016, og var úrslitum kosninganna líkt við stjórnmálalega jarðskjálfta í Þýzkalandi.  Þar er þó efnahagur góður og atvinnuleysi tiltölulega lítið, en lítt heftur straumur flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sem flestir aðhyllast Múhameðstrú, er tekinn að valda almenningi í Þýzkalandi áhyggjum, og yfirvöldin ráða ekki við móttöku þess yfirþyrmandi fjölda, sem komizt hefur inn fyrir landamæri Þýzkalands, sem hafa verið opin samkvæmt Schengen-ráðslaginu. Komið hefur í ljós, að upp til hópa er um að ræða lítt menntað, jafnvel ólæst fólk, sem gríðarlega dýrt yrði, og sennilega ómögulegt í flestum tilvikum, að aðlaga þýzku þjóðfélagi, enda er Mutter Merkel farin að tala um, að fólkið verði að fara til baka til síns heima, þegar friðvænlegra verður þar.  Þetta var líka ætlunin með "Gastarbeiter", sem tóku þátt í uppbyggingu Vestur-Þýzkalands eftir heimsstyrjöldina seinni, en flestir þeirra ílentust með fjölskyldum sínum í Vestur-Þýzkalandi, en hafa aðlagazt misvel að þýzku samfélagi, en hafa myndað þar sín eigin samfélög. 

Í Frakklandi stefnir formaður Þjóðfylkingarinnar, Marie Le Pen, á forsetabústaðinn, Elysée, og gæti hreppt hann í næstu forsetakosningum miðað við ástandið í Frakklandi. 

Í Grikklandi hefur róttækur vinstri flokkur verið við völd um hríð, en Grikkland er efnahagslega ósjálfbært og er eins og tifandi tímasprengja. 

Á Spáni er stjórnarkreppa eftir síðustu þingkosningar, og Katalónar í Norð-Austurhorni Spánar, sem tala frönskuskotna spænska mállýzku, vilja aðskilnað frá ríkisheildinni.  Á Spáni sækir systurflokkur Syriza, Podemos, í sig veðrið. 

Í Bandaríkjunum, BNA, hefur vinstri öldungurinn Bernie Sanders náð eyrum ótúlega margra, einkum ungra Demókrata, og velgt Hillary Clinton, mótframjóðanda sínum, undir uggum.  Hefur Bernie náð óvæntum árangri í forkosningum margra ríkja BNA. Repúblikanamegin eru róttkir hægrimenn atkvæðamestir. Donald Trump er ólíkindatól, sem kann að spila á mikla þjóðfélagsóánægju í BNA, sem stafar m.a. af töpuðum störfum til Kína og víðar og (ólöglegra) innflytjenda frá Mexikó.

 Allt hefðu þetta þótt vera firn mikil um síðustu aldamót, en fyrri hluti 21. aldarinnar býður greinilega upp á meiri þjóðfélagsróstur á Vesturlöndum en seinni hluti 20. aldarinnar gerði. 

Á Íslandi blasir eftirfarandi staða við samkvæmt skoðanakönnunum:

  • Vinstra mixið:            25 %
  • Borgaraflokkarnir:        40 % (tæplega)
  • Píratar (sjóræningjarnir) 35 % (rúmlega)

Hvaða ályktun og lærdóm skyldi nú mega draga af þessum tölum, sem eru ískyggilegar fyrir stjórnmálalegan stöðugleika á Íslandi ? 

Blekbóndi túlkar þær þannig, að þær séu ákall kjósenda um nývæðingu lýðræðis í átt að auknu beinu lýðræði á kostnað hins hefðbundna fulltrúalýðræðis.  Kjósendur vilja fá beinan aðgang að ákvarðanatöku í einstökum málum, ef þeim býður svo við að horfa.  

Ríkisstjórnarflokkarnir eiga að bregðast við þessum breytta tíðaranda með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, sem þýðir, að breyta þarf Stjórnarskránni.  Blekbóndi telur, að slá eigi tvær flugur í einu höggi og gjöra umgjörð forsetaembættisins á Bessastöðum skýrari og embættið veigameira en nú er án þess að hreyfa við meginstjórnarfyrirkomulaginu, sem er þingbundin ríkisstjórn:

  1. Aðalhlutverk forseta lýðveldisins verði að gæta þess, að lagasetning þingsins sé í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins. Hann verði þannig eins konar verndari Stjórnarskráarinnar. Ef hann telur vafa á því, að lögin standist Stjórnarskrá, skal hann fresta staðfestingu laganna með því að vísa þeim til þriggja manna Stjórnlagaráðs, þar sem hann skipar formann, Hæstiréttur annan og háskólarnir, þar sem lagadeildir eru, skipa þriðja, til þriggja ára í senn. Stjórnlagaráð skal úrskurða innan viku um vafamál, sem forseti lýðveldisins vísar til þess, og ef úrskurður er á þá lund, að lögin standist Stjórnarskrá, ber forseta að staðfesta þau samdægurs með undirskrift sinni, annars vísar hann þeim aftur til þingsins.  Forseti getur ekki vísað máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema hann fái um það skriflega áskorun frá fjölda, sem nemur 20 % af atkvæðisbæru fólki í síðustu Alþingiskosningum.
  2. Kjósendur til Alþingis skulu geta farið fram á það við forseta lýðveldisins, að hann láti semja frumvarp til laga um tiltekið efni í ákveðnu augnamiði.  Ef fjöldi, sem nemur 20 % kjósenda í síðustu Alþingiskosningum, hvetur hann til þess skriflega, skal hann verða við því og fela forseta Alþingis að leggja málið fyrir þingið.  Slíkum lögum frá Alþingi skal hann geta synjað staðfestingar og fara þau þá í endurskoðun hjá þinginu, eða þingið efnir til þjóðaratkvæðis um þau.   
  3. Að afloknum Alþingiskosningum metur forseti lýðveldisins, hverjum er eðlilegast að fela stjórnarmyndunarumboð með tilliti til úrslita kosninganna.  Ef ekki tekst að mynda starfhæfa ríkisstjórn innan 6 vikna frá kjördegi, fellur stjórnarmyndunarumboð til forseta, sem þá skal skipa ríkisstjórn og hefur til þess frjálsar hendur.  Þingrofsvaldið skal aðeins vera hjá forseta lýðveldisins. 
  4. Forseti Alþingis er staðgengill forseta lýðveldisins og aðrir ekki.  Forseti Alþingis ræður dagskrá þingsins og getur stytt umræðutíma eða tekið mál af dagskrá, ef honum þykir þingmenn misnota starfstíma þingsins, t.d. með því að setja á ræður um mál utan dagskrár eða með því að teygja lopann. Hann getur hvenær sem er takmarkað ræðutíma einstakra þingmanna í hverri umræðu, eins og hann telur nauðsynlegt fyrir eðlilega framvindu frumvarps eða þingsályktunartillögu. Forseta Alþingis ber að hlúa að virðingu þingsins í hvívetna. 
  5. Ef minnihluti Alþingis, 40 % þingmanna eða 25 þingmenn hið minnsta m.v. heildarfjölda þingmanna 63, samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, þó ekki um fjárlög, þá skal sú tillaga fara til forseta lýðveldisins til samþykktar eða synjunar.  Í tillögunni skal setja fram nákvæmt orðalag á spurningum, sem leggja skal fyrir þjóðina.  Synjun forseta skal fylgja rökstuðningur til Alþingis, en samþykkt tillaga fer til ríkisstjórnarinnar til framkvæmdar.
  6. Annað meginhlutverk forseta lýðveldisins skal vera að varðveita stöðugleika, þjóðfélagslegan og efnahagslegan.  Ef honum virðist Alþingi vera þar á rangri leið, skal hann leysa þingið upp, og verður þá efnt til kosninga.  Kjörtímabil forseta skal vera 6 ár, en hann skal geta stytt það, kjósi hann svo, og hann má ekki sitja lengur en 12 ár.  

Hér er aðeins drepið á örfá atriði.  Réttast er að fá hópi stjórnlagafræðinga slíkt afmarkað verkefni um Stjórnarskrárbreytingar.  Þeir yfirfara þá alla Stjórnarskrána m.t.t. til breytinga, sem óskað er eftir, til að tryggja innbyrðis samræmi í Stjórnarskránni, og senda tillögurnar síðan Alþingi til umfjöllunar.  Í þessu tilviki þarfnast allir liðir um forseta lýðveldisins og þjóðaratkvæðagreiðslur endurskoðunar. 

Stjórnarskráin er m.a. til að tryggja frelsi og mannréttindi einstaklingsins gagnvart hinu opinbera valdi og gagnvart öðrum einstaklingum og félögum.  Í þessu sambandi er rétt að hafa ákvæði í 65. grein frá árinu 1995 í huga, en það hefur jafnvel verið sniðgengið við lagasetningu síðan:

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti,  Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna." 

Það kemur einnig til greina við næstu endurskoðun Stjórnarkráar að setja þar inn ákvæði um skipan þriggja dómsstiga í landinu, og hvernig ráðningu dómara skuli haga á öllum þremur dómsstigum. Þá þarf að skilgreina verkaskiptingu á milli Stjórnlagaráðs og Hæstaréttar varðandi lög, sem kunna að brjóta í bága við Stjórnarskrána. Til álita kemur, að forseti lýðveldisins skipi Hæstaréttardómara með sjálfstæðum hætti. 

Þann 1. desember 2015 ritaði Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, mjög góða grein í Morgunblaðið:

"Hverju megum við ráða". 

Í niðurlagi greinarinnar sagði hann:

"Á meðan báknið vex, þá minnkar sífellt vald einstaklingsins yfir eigin lífi.  Þegar haft er í huga, hversu óvinsælir gömlu fjórflokkarnir eru, þá verður að telja með ólíkindum, að fólk hafi gefið yfirvöldum slíkt vald yfir lífi sínu og raunin er.  Ef við eigum ekki að enda sem þjóð, sem ávallt er undir þumlinum á duttlungum síðasta hæstbjóðanda í kosningum, þá verður að eiga sér stað grundvallar hugarfarsbreyting um, að snúa þurfi þessari þróun við.  Þörf er á, að fólk geti valið stjórnmálamenn, sem lofa að gera minna og leyfa meira.  Fimmföld laun hljóma hreint ekki illa."

Sé þetta sett í samhengi stjórnarskrárbreytinga, er þörf á breytingu reglna um kjör til Alþingis í þá veru að gefa kjósendum kost á að kjósa bæði flokk og einstaklinga á öðrum listum en þeim, sem kosinn er, þ.á.m. af landslista óháðum stjórnmálaflokkunum.Fyrirmyndir um persónukjör má t.d. finna í Þýzkalandi.

Jóhann J. Ólafsson, stórkaupmaður, ritaði 3. desember 2015 grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:

"Útrýmum fátækt - gerum lýðræðið nothæft". 

Þar segir svo m.a:

""James Harrington (1611-1677), enskur stjórnmálamaður, sagði á sinni tíð: "Einveldi ríkir, þegar krúnan á allt eða í það minnsta 2/3 af öllum landauði.  Höfðingjaveldi ríkir, ef aðalsmenn eiga svipaðan hlut.  Eigi almenningur 2/3 eða meira, ríkir lýðræði."

Þótt margt sé breytt síðan á 17. öld, er kjarni þessarar hugsunar í fullu gildi.  Í stað krúnunnar kemur ríkið, í stað aðalsins koma auðmennirnir, en almenningur er enn almenningur.  Í stað landauðs koma allar eignir, allur auður þjóðfélagsins.

Þau sannindi eru enn góð og gild, að eignum og útdeilingu þeirra fylgja völd, en lýðræðið byggist á því, hversu vel tekst til með eignadreifingu í þjóðfélaginu. 

Valdið leitar fyrr eða síðar þangað, sem auðurinn er.  Þess vegna er tiltölulega jöfn dreifing auðsins meðal landsmanna forsenda lýðræðis. 

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er allur þjóðarauður Íslendinga (allar eignir landsmanna, einkaeignir og opinberar eignir, samanlagt) 23,3 trilljónir (þúsund milljarðar) kr.  Af þeim eru u.þ.b. 4,4 trilljónir í einkaeign, en u.þ.b. 18,9 trilljónir í opinberri eigu.  Lýðræði í skilningi Harringtons er því víðs fjarri, því að eignir einstaklinga eru ekki nema um 19 %, en opinberar eignir um 81 % af heildareignum þjóðfélagsins.  Ef lýðræði ætti að vera raunverulegt, þyrfti almenningur, þ.e. einstaklingarnir sjálfir, að eiga 15,5 trilljónir til að leiðrétta þennan lýðræðishalla.  Ásættanlega jöfn dreifing eigna á milli einstaklinga innbyrðis yrði svo einnig að vera fyrir hendi til að treysta lýðræði og sátt í þjóðfélaginu." 

Á Íslandi eiga 30 % þjóðarinnar tæplega 80 % allra einkaeigna, en þær nema einvörðungu rúmlega 15 % heildareigna í landinu.  Við þessar aðstæður blasir við, að það er engin ástæða til að festa í sessi eða auka enn við eignarhald hins opinbera með nýjum ákvæðum í Stjórnarskrá.  Slík þjóðnýting mundi draga enn úr lýðræðislegu valdi almennings, en það er ekki einvörðungu fólgið í kosningarétti og aðkomu að einstökum ákvörðunum, heldur ekki síður, eins og Jóhann J. Ólafsson bendir á, fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinganna og olnbogarými í samfélaginu án afskipta annarra innan marka laga og réttar, sem gilda um farsæl samskipti manna. 

Samkvæmt Hagstofunni eru um 80´000 framteljendur án nettóeignar og skulda 87 milljarða kr.  Það er miklu brýnna þjóðfélagslegt viðfangsefni að koma fleiri einstaklingum til bjargálna með möguleikum á eignamyndun en að auka við eignir ríkisins á kostnað einstaklinga og frjálsra félaga. Til að auðvelda ungu fólki þetta hefur verið bent á þá leið, að ríkissjóður leggi fram styrk til fólks, sem er að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð, allt að Mkr 10, en hætti að veita vaxtabætur og dragi úr peningaaustri í Íbúðalánasjóð.  Þetta mundi gera fleirum kleift að losna úr fátæktargildru, en fara þess í stað að safna eignum, sem veita ómetanlegt afkomuöryggi í ellinni.

 

 


Seðlabankinn og samkeppnin

Engum blöðum er lengur um það að fletta, að Seðlabankann hefur sett verulega niður undir stjórn núverandi Seðlabankastjóra. Þar virðist verkstjórn vera verulega ábótavant, því að ekki er gætt nægilega að lögum, t.d. um gjaldeyrismál, og lagaheimildum bankans, þegar gerð er atlaga að einstökum fyrirtækjum, heldur virðist ríkja innan veggja Svörtulofta miðaldahugarfar um óskoraðan rétt yfirvalda til að fara sínu fram gegn þegnunum, og refsigleði Seðlabankans hefur nú farið yfir mörk réttarheimilda hans. Ítarleg rannsókn á gögnum Seðlabankans um gjaldeyrisskil Samherja-samstæðunnar leiddi ekki í ljós nein lögbrot þvert ofan í niðurstöðu Seðlabankans. 

Hér hagar Seðlabankinn sér eins og fíll í postulínsbúð, og framferði hans hefur kostað fyrirtæki stórfé og álitshnekki, heima og erlendis, þó að Sérstakur saksóknari hafi látið kærur bankans niður falla, af því að lagastoð til sakfellingar skorti.  Niðurlægingin verður þess vegna Seðlabanka Íslands á endanum.  Þetta er svo alvarlegur áfellisdómur yfir æðsta handhafa peningamálastjórnar landsins, þar sem helzt engan skugga má á bera, að engan veginn verður við unað. Hinir seku á Svörtuloftum, sem valdið hafa fyrirtækjum og einstaklingum stórtjóni, skulu sæta ábyrgð. Annars leggur bankaráðið blessun sína yfir lagatæknilegt klúður á klúður ofan, sem er svo ófaglegt, að jafna verður við hreinræktað fúsk, og bankaráðið væri þá að bregðast skyldum sínum. Niðurlæging bankans yrði þá djúpstæð fyrir aðra starfsemi og hlutverk bankans líka og gæti orðið langvinn. Það verður að taka á þessu máli strax í haust, enda er mikið í húfi núna, að í stafni Seðlabankans sé aðeins fólk, sem hafið er yfir allan vafa í siðferðislegum og faglegum efnum.  

Seðlabankinn hefur og sætt harðri gagnrýni fyrir meðferð sína á svo kölluðu Sjóvármáli, sem einnig er kennt við Úrsus ehf.  Baldur Arnarson, blaðamaður, skrifar baksviðsumfjöllun í Morgunblaðið 7. október 2015 undir fyrirsögninni:

"Starfsmennina skorti þekkingu"

og hefur eftir Birgi Tjörva Péturssyni, héraðsdómslögmanni, um alvarlegar athugasemdir Umboðsmanns Alþingis við embættisfærsluna í Seðlabankanum:

"Þannig sé ekki fjallað nægjanlega um, að æðstu yfirmenn bankans hafi flutt trúnaðarupplýsingar úr gjaldeyriseftirlitinu í einkahlutafélagið Eignasafn Seðlabanka Íslands [ESÍ] og látið hafa áhrif á ákvörðun um viðskipti með bréf í Sjóvá, sem Úrsus hafði samið um að kaupa, í félagi við aðra fjárfesta, um haustið 2010. 

"Umboðsmaður gerði hins vegar athugasemd við meðferð trúnaðarupplýsinga í máli Úrsusar.  Félagið hafi þannig þurft að sæta því, eftir að hafa fengið veður af rannsókn máls í fjölmiðlum og haft samband við aðallögfræðing bankans til að skýra sína hlið vegna viðskiptanna með bréfin í Sjóvá, að upplýsingarnar urðu hluti rannsóknar málsins og voru notaðar gegn félaginu.""

""Seðlabankinn fór með þessar trúnaðarupplýsingar í hring.  Því var þannig haldið fram, að einkahlutafélag bankans gæti ekki átt viðskipti við Úrsus [með bréfin í Sjóvá], af því að Úrsus væri til rannsóknar.  Fyrirsvarsmaður Úrsusar taldi félagið í fullum rétti og veitti upplýsingar í tengslum við viðskiptin.  Þær voru þá notaðar gegn félaginu við rannsókn máls hjá gjaldeyriseftirlitinu og svo aftur sem frekari rök fyrir því að eiga ekki viðskiptin.  Við teljum, að þetta hafi verið forkastanleg málsmeðferð",

segir Birgir Tjörvi."

Það er fyllilega hægt að taka undir það, að þessi lýsing sýnir fram á forkastanleg vinnubrögð og siðferðisbrest í Svörtuloftum, sem engum Seðlabanka í lýðræðisríki, sem virðir þrígreiningu ríkisvalds og nútímalega stjórnsýsluhætti, er sæmandi.  Þetta er eins og lýsing úr bananalýðveldi eða ráðstjórnarríki, en er langt fyrir neðan virðingu Seðlabanka í réttarríki. 

Líklegt er, að aðallögfræðingur Seðlabankans beri hér ábyrgðina, og hann (hún) verður þá skilyrðislaust að víkja, og Seðlabankinn verður að læra sína lexíu um grundvallarreglur réttarríkisins.

 Húsrannsókn í höfuðstöðvum Samherja á Akureyri og í Reykjavík, haldlagning bókhalds og tölvugagna og harkaleg framganga og langdregin rannsókn á gjaldeyrismeðferð Samherja-samstæðunnar skilaði engu öðru en miklum kostnaði fyrir Seðlabankann og ekki síður fórnarlambið, sem allt of lengi mátti liggja undir grun um gjaldeyrissvik og lögbrot án þess þó, að Sérstakur saksóknari kæmi auga á neitt refsivert, þegar hann fékk málatilbúnaðinn frá bankanum. Þegar Sérstakur saksóknari fann engin sakarefni í garð fyrirtækisins, reyndi Seðlabankinn að koma sök á einstaklinga innan fyrirtækisins. Til slíks stóðu þó engar sakir og lagaheimildir til slíkrar sakfellingar voru ekki fyrir hendi. 

Þetta eru algerlega ótæk vinnubrögð stjórnvalds, sem valdið geta fyrirtækjum, stórum og smáum, í harðri samkeppni markaðsmissi og skekkt samkeppnisstöðu þeirra. Í Samherjamálinu er eins og refsigleði miðalda tröllríði húsum, því að gengið er fram með offorsi í húsrannsókn hjá félaginu og ekki hikað við að setja orðstýr þessa mikilvæga útflutningsfyrirtækis bæði innanlands og utan í uppnám.  Síðan er refsivöndurinn reiddur hátt til lofts af Gjaldeyriseftirliti bankans án þess, að það hafi til þess nokkra lagaheimild.  Hlýtur framkvæmdastjóri Gjaldeyriseftirlits Seðlabankans að bera á þessu verklagi ábyrgð og þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna. Að bera ábyrgð merkir einmitt að taka afleiðingum gjörða sinna, fá umbun, ef vel er gert, og refsingu, ef illa tekst til.  Hér eru svo stórfelld brot á ferð, að líklegt er, að leiði til málaferla, og stöðumissir er viðeigandi refsing að hálfu bankaráðsins. Öðru vísi verður ekki traust til bankans endurreist. 

Nú hefur Umboðsmaður Alþingis kveðið upp svo þungan áfellisdóm yfir stjórnun Seðlabankans, að af þeirri ástæðu einni saman verður einhver að axla ábyrgð af mistökunum, hvort sem það verður bankastjórinn, yfirlögfræðingurinn, yfirmaður gjaldeyriseftirlitsins eða öll þessi þrenning.  Ef bankaráð Seðlabankans ætlar að skrifa undir þau ótæku vinnubrögð, sem viðgengizt hafa hjá Seðlabankanum, þá missir það allan trúverðugleika, og þar með rýkur traustið á Seðlabankanum og peningastefnu hans út í veður og vind. 

Embættisfærsla Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi ráðherra, í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur komið við sögu þessara alræmdu mála Seðlabankans og hefur einnig orðið fyrir gagnrýni Umboðsmanns Alþingis, og má segja, að losarabragur Árna sem ráðherra sé upphafið að umboðsleysi Seðlabankans við rannsókn og álagningu refsinga vegna brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Samkvæmt lögum varð ráðherra bankamála að staðfesta reglugerð um gjaldeyrisbrot og refsingu við þeim, en engin gögn finnast í ráðuneyti né í Seðlabanka um þessa staðfestingu ráðherra. Umboðsmaður kvartar undan röngum upplýsingum frá þessum aðilum í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur til sín, og það er auðvitað önnur grafalvarleg hlið þessa máls.   

Baldur Arnarson, blaðamaður, ritar baksviðs í Morgunblaðið 8. október 2015 greinina:

"Ráðuneyti afhenti ekki umbeðin gögn". 

Hún hefst þannig:

"Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, gerir athugasemdir við, að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi í ársbyrjun 2011 ekki veitt honum réttar upplýsingar um, hvort ráðherra hafi samþykkt reglur Seðlabanka Íslands (SÍ) um gjaldeyrismál, þegar hann leitaði eftir þeim. 

Seðlabankinn lét rannsaka meint brot fjölda aðila á þessum reglum, og úrskurðaði ákæruvaldið síðar, að þær teldust ekki gild refsiheimild." 

Umboðsmaður Alþingis bendir á, að Seðlabankinn hafi tekið sér vald til rannsóknar á gjaldeyrisbrotum og ákvörðunar viðurlaga, sem hann hafði enga lagaheimild til án þess að afla sér staðfestingar ráðherra. Viðkomandi ráðherra, Árni Páll Árnason, gaf aldrei nauðsynlegt samþykki sitt. 

Þetta er grafalvarlegt glappaskot Seðlabanka, sem Seðlabankastjóri sjálfur verður að taka ábyrgð á og taka hatt sinn og staf fyrir.  Mundi þá einhver segja, að farið hafi fé betra.

Baldur Árnason vitnar enn í Tryggva, umboðsmann, í téðri grein:

""Þegar reglur um gjaldeyrishöft voru lögfestar í nóvember 2008 með lögum nr 184/2008 um breytingu á lögum nr 87/1992, um gjaldeyrismál, var ekki tilgreint með beinum ákvæðum í lögunum, hvaða skorður væru settar við fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum."

Á grundvelli þessara lagabreytinga hafi Seðlabankinn gefið út reglur um gjaldeyrismál nr 1082/2008.  Telur umboðsmaður leika vafa á því, að þetta uppfylli kröfur, sem leiða af reglum um lögbundnar refsiheimildir." 

Að gæta sín ekki á því áður en látið er með viðurhlutamiklum hætti til skarar skríða gegn einstaklingum og lögaðilum að afla sér fyrst til þess traustra lagaheimilda er full ástæða brottvikningar.

Yfirgangur og jafnvel ofsóknir yfirvalda gagnvart borgurum og einkafyrirtækjum er vandamál, sem ógnar samkeppnisstöðu og réttarstöðu þeirra.  Þetta gerði Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, að umræðuefni í miðvikudagsgrein sinni í Morgunblaðinu, 7. október 2015:

"Hvað er ríkið alltaf að vasast". 

Greinin hefst þannig, og eru þau orð verðug niðurlagsorð þessarar vefgreinar:

"Engu er líkara en við Íslendingar séum búnir að missa sjónar á hlutverki ríkisins, markmiðum, skyldum og verkefnum þess.  Afleiðingin er sú, að ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki, eru stöðugt að vasast í hlutum og verkefnum, sem þau eiga ekki að koma nálægt, og það sem verra er; skipulega er sótt að einstaklingum og einkafyrirtækjum í skjóli ríkisrekstrar.

Í orði hefur löggjafinn reynt að koma málum þannig fyrir, að leikreglur á samkeppnismarkaði séu skýrar, gagnsæjar og stuðli að jafnri og heiðarlegri samkeppni.  Í reynd blasir önnur mynd við.  Samkeppnishindrunum hefur verið komið upp.  Regluverkið hyglar fremur þeim stóru í stað þess að tryggja samkeppni, stöðu lítilla fyrirtækja og hagsmuni neytenda.  Undan verndarvæng ríkisins herja ríkisfyrirtæki á einkafyrirtæki í viðleitni sinni til að vinna nýja markaði og afla sér aukinna tekna."

Takmörkuð samkeppni í hagkerfinu er alvarleg meinsemd í þjóðfélaginu, sem kemur hart niður á hagsmunum almennings. Kröftum, sem varið er til að jafna samkeppnisstöðu og efla samkeppni á markaði, er vel varið.  Það fer allt of mikil orka í hið mótsetta hjá hinu opinbera og einokunarfyrirtækjum, þ.e. að kæfa samkeppni og jafnvel að klekkja á einkaframtakinu, óháð stærð fyrirtækjanna, eins og lýst er í frásögn af tveimur málum Seðlabanka Íslands hér að ofan.  Þau bera vitni um þekkingarleysi og/eða dómgreindarskort, sem verður að bæta úr nú þegar í æðstu peningamálastofnun landsins.   

 

 


Borg í basli

 

Það gengur flest á afturfótunum hjá Reykjavíkurborg þessi misserin af fréttum að dæma. Er ástæða til að óttast, að höfuðborgin stríði við alvarlegat innanmein stjórnunarlegs eðlis, sem Dagur B. Eggertsson, læknir og borgarstjóri, ræður ekkert við.  Er ástæða til að ætla, að vinstri flokkarnir og píratar, sem nú standa að stjórn borgarinnar, séu búnir að koma sér upp þvílíku stjórnkerfisbákni búrókrata í anda stjórnlyndra, að enginn hafi þar í raun yfirsýn lengur og hæfileikarnir í ráðum og nefndum borgarinnar séu svo útþynntir, að vart dugi til annars en að fægja neglurnar.  Það þarf örugglega ekki að skafa undan þeim. Silkihúfurnar eru legio, en fjöldinn magnar vandann, þegar þær eru utan gátta.

Merki um óstjórnina má sjá á fjárhagnum.  Fjárhagsáætlun borgarinnar er fjarri því að standastst, og borgarsjóður er rekinn með halla, þó að útsvarið sé skrúfað í botn.  Stjórnkerfið er allt of dýrt og getulítið, kostnaður hefur þanizt út, en tekjugrunnur tæpur.  Dæmigerður stjórnunarvandi jafnaðarmanna. 

Það er sláandi munur á fjárhag Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna.  Sérstaklega er jákvæður viðsnúningur í Kópavogi eftirtektarverður.  Þar hallaðist heldur betur á merinni undir vinstri stjórn, en það var eins og við manninn mælt, þegar sjálfstæðismenn tóku við stjórn Kópavogs, að þá spruttu þar upp byggingarkranar og fé af framkvæmdum og nýjum húseigendum streymdi í hirzlur bæjarins, svo að skuldasöfnun sukkara forræðishyggjunnar var stöðvuð.  Hún heldur áfram í höfuðborginni, enda neita jafnaðarmenn að skilja lögmál efnahagslífsins. Þeir eru alltaf utan gátta við stjórnvölinn.     

Stærstu mistök Dags B. Eggertssonar, DBE, borgarstjóra, eru að keyra Reykjavíkurflugvöll í algert óefni í bullandi ágreiningi við ríkisstjórn, Alþingi, borgarbúa og landsmenn alla.  Þar virðist hann láta annarleg sjónarmið ráða ferðinni á kostnað flugrekenda, sjúklinga, sem þurfa á sjúkraflugi að halda, ferðaþjónustunnar, flugklúbbanna og flugnema, svo að nokkrir séu nefndir, en í raun er það gríðarlegt hagsmunamál og öryggismál fyrir landið allt, að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fái að haldast óskertur.  Dagur B. Eggertsson hefur algerlega hunzað fjölmennustu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar, þó að hann yrði maður að meiri af að gefa gaum að rödd þjóðarinnar, því að borgin sjálf yrði miklu betri, ef Vatnsmýrarvellinum yrðu búin örugg rekstrarskilyrði til frambúðar.  Áhugaverð skipulagsverkefni mundi þá þurfa að leysa, s.s. varanlega flugstöð og tengingu hennar við aðra umferð, innanborgar og utan.  Það væri þá loksins hægt að skipuleggja Vatnsmýrina með langtíma sjónarmið í huga, og það er verðugt verkefni fyrir borgaryfirvöld að samþætta háskólana, Erfðagreiningu, veitingastaðina, Háskólasjúkrahúsið, byggðina, flugstöðina og flugbrautirnar þrjár og allt annað, sem nú þegar er í Vatnsmýrinni og mun flytja þangað. Einhæft íbúðahúsnæði kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við þróun þeirrar kraftmiklu starfsemi, er nú þegar hefur aðsetur í Vatnsmýrinni.

Í staðinn hefur DBE kosið stríð við þjóðina.  Það er fullkomið dómgreindarleysi af honum að fara í slíkt stríð, því að á slíkum vígvelli mun hann þurfa að lúta í gras fyrr en síðar.  Verður þá skömm hans mikil og dómur sögunnar óvæginn.

Mesta stjórnunarklúður Reykjavíkurborgar fyrr og síðar var í sviðsljósi alþjóðar í mest allan vetur, og hefur ekki séð fyrir endann á því enn.  Er það skólabókardæmi um, að Péturslögmálið er tekið að gilda um stjórnmálamenn og búrókrata í valdastöðum borgarinnar, og er þá æðsti koppur í búri eigi undan skilinn.  Péturslögmálið segir, að fólk á uppleið endi að lokum í stöðu, sem það ræður ekki við.  Það er deginum ljósara, að þetta á við í borgarstjórn núna og stjórnkerfi borgarinnar. 

Um þetta fjallaði eina forystugrein Morgunblaðsins 20. maí 2015, "Blettur á borginni":

"Breytingarnar í vetur á ferðaþjónustu fatlaðra eru svartur blettur á borgaryfirvöldum.  Við innleiðingu breytinganna voru gerð yfirgengileg mistök, sem leiddu til þess, að notendur þjónustunnar voru strandaglópar um allan bæ.  Allt klúðraðist, sem klúðrast gat og gott betur.  Dag eftir dag birtust dapurlegar fréttir af þjónustu, sem fram að því hafði vart sézt í fréttum.  Á þessu gekk, svo að vikum skipti." 

Hið dapurlega við verkstjórnarleysi DBE er, að hann virðist engan láta sæta ábyrgð, hvorki í þessu máli né öðrum. Er það ótrúlegur vingulsháttur af borgarstjóra að láta svo óskýrar línur viðgangast í stjórnkerfi borgarinnar, að sökudólgur eða sökudólgar mesta klúðurs í manna minnum sé ekki látinn sæta ábyrgð. 

Hvers vegna er formaður velferðarráðs borgarinnar ekki látinn sæta ábyrgð ?  Er lýsingin hér að ofan ekki næg sönnun þess, að hún hefur gjörsamlega brugðizt skjólstæðingum sínum og á ekki að fara með forráð eins né neins í borginni ? Dagur gerir sér greinilega ekki grein fyrir skyldum stjórnandans, sem verður ætíð að vera tilbúinn að grípa inn í óheppilega eða hættulega framvindu og gera fleira en gott þykir. Þetta vita góðir læknar og allir, sem nærri stjórnun hafa komið. Dagur vill  hins vegar bara vera "góði gæinn" og nennir ekki að stíga út fyrir þægindarammann sinn.  Hvorki borgarbúar né nokkrir aðrir þegnar landsins ættu að þurfa að hafa aðrar eins afætur á fóðrum og nú stjórna höfuðborginni aðeins að nafninu til.

Í téðri forystugrein eru leiddar líkur að því, að lufsurnar við stjórnvöl Reykjavíkurborgar hafi ekki einu sinni manndóm í sér til að reyna að læra af mistökum sínum:

"Athygli vekur, að í kynningu á skýrslunni [um breytingastjórnunina hjá borginni] á heimasíðu Reykjavíkurborgar er hlutlaus fyrirsögn um útkomu hennar. "Margt til fyrirmyndar í ákvarðanatöku", segir síðan í millifyrirsögn.  Neðst segir síðan:"Stjórnun breytinga misfórst", líkt og það sé eitthvert aukaatriði.  Þessi framsetning ber því vitni, að hjá borginni sé skortur á skilningi á alvöru málsins.  Undirbúningstíminn skiptir engu máli, ef liðið tapar öllum leikjunum."

Hjá öllum betri meðalstórum og stórum fyrirtækjum hefur verið innleitt breytingastjórnunarferli.  Það hjálpar til við að koma í veg fyrir óánægju og vandræði vegna nýs búnaðar eða stjórnkerfis, jafnvel notað við starfaskipti.  Amlóðarnir í Ráðhúsinu í Tjörninni virðast aldrei hafa heyrt á slíkt minnzt eða telja sig hafna yfir viðteknar góðar viðmiðanir við stjórnun.  Slík viðhorf hafa aldrei kunnað góðu að stýra.  Það rekur allt á reiðanum hjá Reykjavíkurborg.

 

 

 


Múhameðstrú og Vesturlönd

Múhameðstrúarmenn, Islamistar, hafa eldað grátt silfur við kristna Evrópumenn síðan Márar réðust inn í Spán og lögðu megnið af Pýreneaskaganum undir sig á árunum 711-718.  Kristnir höfðingjar náðu ekki að jafna hlut sinn þar fyrr en á 13. öld, og nokkru lengur héldu Márar nokkrum borgum í Andalúsíu.

Á 8. öld og lengur má hiklaust telja, að Márarnir hafi haft á valdi sínu meiri þekkingu en kristnir Evrópumenn.  Ástæðan er sú, að þeir höfðu í herförum sínum, t.d. í Norður-Afríku, tekið menningarborgir herskildi og slegið eign sinni á forn bókasöfn og tileinkað sér speki fornaldar, sem þar var að finna, þ.á.m. um byggingarlist. 

Afrakstur þessa var meiri þekking á stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og verkfræði en þá var fyrir hendi í Evrópu.  Áhrifaríkt dæmi um þetta er kastalinn, Alhambra-Rauði kastalinn, í Granada, sem engan lætur ósnortinn, sem áhuga hefur á húsagerðarlist og verkfræði.  Þar var og er rennandi vatn notað á snilldarlegan hátt til loftkælingar.

Á miðöldum stóð kristinni Evrópu mikil ógn af Ottomanaveldinu, tyrkneska, sem stundaði útþenslustefnu og gerði usla á Balkanskaga, þar sem leifar áhrifa þeirra eru enn. Hluti af illindunum á milli þjóða og þjóðabrota þar stafar af því, að þeir, sem gengu á mála hjá Tyrkjum tóku upp trú þeirra, og voru hataðir sem svikarar eftir það af öðrum íbúum svæðisins.   

Eftir Heimsstyrjöldina síðari hófst mikill straumur Múhameðstrúarmanna til Evrópu, t.d. sem "Gastarbeiter" (farandverkamenn) til Vestur-Þýzkalands frá Tyrklandi og frá frönskum áhrifasvæðum í Austurlöndum nær og Norður-Afríku til Frakklands.  Er nú svo komið, að fjöldi Múslima í nokkrum ríkjum Evrópu er eins og að neðan greinir sem hlutfall af íbúatölu viðkomandi lands.  Í svigum er hlutfallið, sem aðrir íbúar landanna telja, að eigi við fjölda Íslamista í sínu heimalandi:

  • Frakkland    8 % (31 %)
  • Belgía       6 % (29 %)
  • Þýzkaland    6 % (19 %)
  • Bretland     5 % (21 %)
  • Svíþjóð      5 % (17 %)
  • Ítalía       4 % (20 %)
  • Spánn        2 % (16 %)

Tvennt vekur athygli við þessa töflu.  Annars vegar gríðarlegur fjöldi múhameðstrúarmanna í fjölmennustu löndum álfunnar og hins vegar, hversu gríðarlegt ofmat ríkir í öllum þessum löndum, og reyndar, þar sem mælt hefur verið, á fjölda múhameðstrúarmanna í viðkomandi landi.  Aðrir íbúar telja múslima í sínu landi vera þrefalt til áttfalt fleiri en þeir þó enn eru, en það ber að hafa í huga, að fæstir tileinka þeir sér vestræna siði alfarið, og sumir alls ekki, svo að þeim fjölgar margfalt hraðar en kristnum frumbyggjum landanna. Þetta vekur mörgum ugg í brjósti, og er PEGIDA-hreyfingin í Evrópu skilgetið afkvæmi islamvæðingar Evrópu.  Hugmyndin er sú, að það sem herjum soldánsins í Miklagarði ekki tókst með innrás í Evrópu, það eigi nú að raungera með því að taka völdin innanfrá.

Þetta ofmat á núverandi fjölda islamista í Evrópu má þannig skýra með almennri tortryggni íbúanna í garð fólks með framandi og í augum margra Vesturlandabúa frumstæða trúarsiði.  Evrópumenn finna sig í varnarstöðu gagnvart ágengum trúarbrögðum, sem beita miskunnarlausu ofbeldi í baráttu sinni við vestræna menn og vestræna menningu, sem þeim þykir einkennast af trúleysi. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að íslam eru engin venjuleg trúarbrögð, heldur blanda af stjórnkerfi heimilis og þjóðfélags með fastmótuðum siðum, t.d. um klæðaburð, og trúarsiðum.  Þetta veldur því, að í ríkjum múslima eru engin skil á milli ríkis og trúarbragða, nema helzt í Tyrklandi.  Þetta stendur þessum ríkjum fyrir þrifum, því að fyrir vikið verða þau auðveldlega fórnarlömb afturhalds og ofstækis, sem hamlar þróun í anda Vesturlanda eða Kína. Stjórnmál og trúmál eru eldfim blanda.

Bretar voru spurðir að því árið 2003 og aftur árið 2013, hvort Bretar mundu glata þjóðareinkennum sínum, ef fleiri múhameðstrúarmenn flyttust til landsins.  Í fyrra skiptið svöruðu 48 % þessu játandi og í seinna skiptið 62 %.  Þetta undirstrikar gríðarlega samskiptaörðugleika "frumbyggja" við þetta aðkomufólk, sem heldur fast í sína trúarsiði og neitar að laga sig að almennum siðum innfæddra, t.d. klæðaburði, svo að áberandi einkenni sé nefnt. 

Það, sem alvarlegast er við skort á aðlögun múhameðstrúarmanna að háttum, siðum og löggjöf Vesturlanda, er að viðhalda forneskjulegum lögum Kóransins, s.k. sjaría-lögum.  Beiting þeirra er grimmdarleg, í mörgum tilvikum níðingsleg, og felur í sér mannréttindabrot af grófasta tagi.  Það er algerlega óásættanlegt, að einhver trúarhópur taki upp á því að stunda lögbrot og mannréttindabrot að því er virðist vegna sjúklegrar kúgunarþarfar og ofbeldishneigðar gagnvart safnaðarmeðlimum. Það er enn í fullu gildi, sem Þorgeir, Ljósvetningagoði, kvað upp úr með á þingi forðum, að ef við slítum í sundur lögin, þá munum við og friðinn í sundur slíta.  Þarna ættu Vesturlönd að draga línu í sandinn, og einfaldlega að vísa þeim til föðurhúsanna, sem ekki vilja þíðast þessi skilyrði.

Í Evrópu hafa stjórnmálaleiðtogar, margir hverjir, lagt sig í framkróka við að breiða yfir það ginnungagap, sem skilur að gildismat múhameðstrúarmanna og flestra annarra íbúa Evrópu, hvort sem þeir telja sig kristna eður ei. Dæmi um slíkt eru ummæli fyrrverandi forseta Sambandslýðveldisins Þýzkalands, Christian Wulff, árið 2010, nokkru áður en hann hrökklaðist úr embætti sökum spillingarmála á meðan hann var forsætisráðherra eins þýzka fylkisins.  Wulff sagði í ræðu:

"Íslam er hluti af Þýzkalandi".

Margir Þjóðverjar eru ósammála þessari fullyrðingu, og til marks um það er hin sjálfsprottna grasrótarhreyfing, PEGIDA - Patriotische Europäer gegen die Islamisierung des Abendlandes - Föðurlandsvinir í Evrópu gegn Íslamsvæðingu Vesturlanda.  Síðan í október 2014 hefur hún nánast á hverjum mánudegi staðið fyrir fjöldagöngum og útifundum í mörgum borgum Þýzkalands, þar sem lýst er áhyggjum af Íslam sem ríki í ríkinu, þar sem íbúunum fjölgar mun hraðar en öðrum hópum Þýzkalands. PEGIDA leggur áherzlu á friðsamleg mótmæli.  Það er ekki hægt með hlutlægum hætti að kalla þetta öfgahreyfingu, þó að hún tjái þá skoðun með áberandi hætti, að islamistum ætti ekki að líðast að mynda ríki í ríkinu, heldur verði að gera þá kröfu til þeirra, að þeir lagi sig að lögum og rétti Vesturlanda og afleggi þá kvennakúgun og karlaharðræði, sem nú viðgengst í "gettóum" islamista í Evrópu.

Kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, ávarpaði þjóðina 11. janúar 2015, þegar hún var í losti eftir hryðjuverkin í París, sem framin voru sem hefndarráðstöfun i nafni Allah fyrir skopteikningar, sem islamistar tóku ákaflega nærri sér. Þar rákust illilega saman vestrænar hugmyndir um tjáningarfrelsi og trúartilfingar múhameðstrúarmanna og sú hefð þeirra, að láta vera að gera hvers konar myndir eða eftirlíkingar af Múhameð spámanni og Allah. 

Eðlilega vissu Evrópumenn ekki í kjölfar hryðjuverkanna, hvaðan á þá stóð veðrið, og ótti greip um sig. Frú Merkel sagði við það tækifæri: 

"Ég er kanzlari allra Þjóðverja"     

og átti þar greinilega við islamista, búsetta í Þýzkalandi, 4-5 milljónir talsins.  Samt gætir ótta og haturs i garð islamista í Evrópu, en það er einmitt keppikefli jihadistana, sem eru i heilögu stríði gegn kristnu fólki og vestrænum gildum, að skapa andrúmsloft tortryggni og heiftar. Það verður að sigla á milli skers og báru, ef ekki á að sjóða illilega upp úr, og þess vegna er ástæðulaust að storka islamistunum á trúarsviðinu, en standa þeim mun keikari á kröfum um jafnræði kynjanna, almenn mannréttindi öllum til handa og, að allir séu jafnir fyrir lögunum. 

Það hefur vakið furðu margra i Evrópu, hversu margt ungt fólk, fætt og uppalið í Evrópu af kristnum eða trúlausum foreldrum, hefur gengið til liðs við ISIS, hryðjuverkasamtök, sem fremja hryllilega glæpi og skemmdarverk á fornum menningarverðmætum í nafni Múhameðstrúarinnar, og styður baráttu þessa hryllingsanga jihadistanna með vopnavaldi við að koma á kalífadæmi í Írak, Sýrlandi og víðar.  Hvernig í ósköpunum má þetta vera ?

Böndin berast að trúboði islamistanna og þeim heilaþvotti, sem fram fer í sumum moskum Evrópu. Það setur óneitanlega að manni ugg varðandi fyrirhugaða mosku í Reykjavík, að frétzt hefur, að hún verði fjármögnuð af Saudi-Aröbum, en í Saudi-Arabíu hefur ofstækisfullur islamista-söfnuður töglin og hagldirnar í trúarlegum og veraldlegum efnum. Sjeikarnir óttast þennan söfnuð og stunda grimmdarstjórnun í anda Kóransins, eins og margoft hefur komið fram varðandi refsingar fyrir meint afbrot. Má þá geta nærri, hvers konar boðskapur kann að verða fram reiddur í téðri Reykjavíkur-mosku. Það er furðulega grunnfærið af borgaryfirvöldum Reykjavíkur að setja, að því er virðist, engin skilyrði fyrir byggingu þessarar mosku, önnur en hefðbundna lóðaskilmála og byggingarreglugerð.  Þetta er alvarlegt mál, því að vitað er, að moskur eru bæði andlegar og veraldlegar miðstöðvar múhameðsmanna og hættan er sú, að þetta verði einhvers konar útungunarstöð ofbeldis og ofstækis, eins og dæmin um stuðninginn við ISIS á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi og víðar, sanna.

Þann 22. apríl 2015 birtist í Morgunblaðinu fréttaskýring eftir Boga Þór Arason, sem varpar ljósi á, að jihadistar islamistanna eru í útrýmingarherferferð gegn kristnu fólki.  Þeir myrða fólkið og eyðileggja kirkjurnar.  Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að islamistar samþykkja ekki, að kristnir söfnuðir reisi kirkjur í löndum islamista, svo að engin gagnkvæmni á sér stað varðandi það að veita leyfi fyrir tilbeiðslubyggingum.  Það ætti að gjalda mikinn varhug við moskum á Vesturlöndum um þessar mundir.  Verður nú vitnað í frétt Boga Þórs:

"Óttast að samfélög kristinna hverfi".

"Milljónir manna hafa þurft að flýja heimkynni sín í Sýrlandi, þeirra á meðal hundruð þúsunda kristinna manna, sem hafa flúið stríðshörmungar og árásir liðsmanna Ríkis islams, samtaka islamista, sem hafa náð svæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald.  Óttast er, að samfélög kristinna manna hverfi í löndunum tveimur, m.a. trúarhópar, sem tóku kristni á fyrstu öld eftir Krist og eiga sér því um 2000 ára sögu.  Á meðal þeirra er hópur, sem talar aramísku, forna tungumálið, sem kristur talaði.

Á yfirráðasvæðum islamistanna hafa vígamenn samtakanna drepið kristna íbúa, sem hafa neitað að snúast til islamskrar trúar.  Óttast er, að vígamennirnir hafi rænt hundruðum kristinna manna í árásum í norðurhluta landsins [Írak] í febrúar [2015].  Önnur samtök islamista, Nusra-fylkingin, er einnig talin hafa rænt kristnum prestum í Sýrlandi."

Það dylst engum, sem horfir yfir sviðið, að islamistar eru nú í jihad-hami, heilögu stríði gegn kristnum mönnum hvarvetna um heim.  Islamistaríki hafa ekki lyft litla fingri til að stöðva þessar vitfyrringslegu ofbeldisaðgerðir trúbræðra sinna, hafa ekki heyrzt fordæma þær heldur og virðast þar með styðja þær.

Aftur á móti stóð ekki á súnnítunum í Sádi-Arabíu að beita hervaldi í Jemen nú um daginn, þegar önnur grein islamista, sótti þar fram til áhrifa með hervaldi, sjítar, studdir af ajatollum í Íran. 

Í þessu ljósi ber að skoða gjörninginn í Feneyjum, þar sem íslenzka ríkið tók þátt í fjármögnun á uppsetningu mosku í afhelgaðri kirkju í þessari sökkvandi borg.  Þetta var gert í trássi við vilja borgaryfirvalda þar, sem ásamt kaþólsku kirkjunni höfðu sett skilyrði fyrir afnotum kirkjubyggingarinnar, sem þarna voru brotin. Endaði þetta með þeirri hneisu, að íslenzka sýningarskálanum í Feneyjum var lokað af yfirvöldum með skömm.

 Það er alveg dæmalaust, að íslenzka ríkið skuli með þessum hætti taka þátt í að storka kirkjunni og Feneyingum, sem um aldir bárust á banaspjótum við Ottómanaveldið, og urðu iðulega fyrir blóðsúthellingum af völdum hins ottómanska ríkis Tyrkja. 

Við þessar aðstæður eru Ísraelsmenn, þótt mannfræðilega séu skyldir aröbum, einu bandamenn vestrænna þjóða í Austurlöndum nær.  Á sama tíma hefur kastazt í kekki á milli Bandaríkjamanna, hefðbundinna bakjarla Gyðinga, og Ísraelsmanna.  Staðan í samskiptum kristinna og frjálslyndra Vesturlanda annars vegar og forstokkaðra islamista í miðaldamyrkri er einstaklega viðkvæm og flókin.  Þá er rétt af Vesturlandamönnum að átta sig á því, að yfirleitt greina islamistar ekki á milli ríkis og trúarbragða (Kemal Ataturk reyndi þó að koma á þessum aðskilnaði í Tyrklandi), og þess vegna birtist útþenslustefna islamista sem heimsyfirráðastefna, sem Vesturlandamönnum er nauðugur einn kostur að andæfa á heimavelli og alls staðar annars staðar.  

 

  

       

       

 

 

 


Söguleg átök

Í Asíu minnir vopnaskak Kínverja og Japana út af óbyggðum eyjaklasa suðurundan Japan á argvítug stríð á milli þessara þjóða á öldum áður.  Nú hafa Suður-Kóreumenn blandað sér í þessa stöðubaráttu, og í Norður-Kóreu hafa upp hafizt hjaðningavíg, sem kunna að verða upphafið að falli illræmdustu kommúnistastjórnar heimsins nú á tímum. Í forgrunni glittir í baráttu um auðlindir, þar sem eldsneyti er talið vera undir hafsbotni Kínahafs.  

Í Evrópu fer einnig fram hörð stöðubarátta, þó að ekki sé sjáanlega um aftökur eða vopnaskak að ræða, nema á austurjaðri ESB, í Úkraínu, sem nú er aðalátakasvæðið í Evrópu og hefur svo áður áður verið.  Eftirfarandi tilvitnun í fyrstu ræðu nýskipaðs utanríkisráðherra Þýzkalands, 17. desember 2013, er til vitnis um átök Rússlands og Þýzkalands um Úkraínu:

"„Það er hneykslanlegt hvernig Rússar nýta sér efnahagsþrengingar Úkraínumanna til að koma í veg fyrir að þeir skrifi undir samstarfssamning við Evrópusambandið. Framkoma úkraínskra öryggissveita gagnvart friðsömum mótmælendum er þó ekki síður hneykslanleg,“ sagði Steinmeier. Hann viðurkenndi jafnframt að „boð ESB um fjárhagslegan og efnahagslegan stuðning dygði ekki til að tryggja samkeppnishæfni Úkraínu og tengja þjóðina efnahagslega við Evrópu“."

Í Evrópu er stunduð umfangsmikil njósnastarfsemi, hleranir og myndatökur, til að komast að fyrirætlunum jafnt bandamanna sem annarra.  Sannast þar hið fornkveðna, að enginn er annars bróðir í leik.  Er líklegt, að ormétið innbyrðis traust Vesturveldanna grafi undan nánu samstarfi þeirra, eins og við höfum kynnzt því hingað til.  Menn hlera ekki og standa á gægjum um vini sína án þess að slettist upp á vinskapinn.  Að ræna einstaklinga á Vesturlöndum einkalífi sínu mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lýðræðisþróunina, hvort sem málstaðurinn er göfugur eður ei.

Það er ekki einleikið, hvernig stríð fortíðarinnar endurspeglast í atburðum samtímans.  Enn einu sinni er Úkraína bitbeinið og aðalleikararnir eru hinir sömu, Svíar og Rússar, með Þjóðverja í bakgrunni.  Í júní 1709 var háður örlagaríkur bardagi á milli herja Péturs mikla, Rússakeisara, og Karls 12, Svíakonungs, við Poltava, sem er í Úkraínu.  Úkraínumenn börðust með báðum aðilum, alveg eins og nú, er þeir skipa sér í sveit með Rússum eða Evrópusambandinu, ESB, hvar Svíar og Þjóðverjar eru öflugir.

  Ívan Mazepa, úkraínskur kósakkahöfðingi, hafði tekið afstöðu með Svíum til að berjast fyrir sjálfstæði Úkraínu frá Rússum árið 1709.  Hið sama gerist nú með allan vesturhluta Úkraínu, sem Janukovych ræður í raun ekki yfir lengur.  Lögreglan þar neitar að berja á mótmælendum.  Bardaganum fyrir rúmum þremur öldum lauk með ósigri Svía, þó að þeir legðu hart að sér.  Rússar héldu í kjölfarið til vesturs, lögðu undir sig Eystrasaltslöndin og gerðu Pólland að hjálendu.  Þessi sigur Rússa varð afdrifaríkur fyrir þróun Evrópu.  Sagan má ekki endurtaka sig nú.  Pútin má ekki takast ætlunarverk sitt að kaupa gjaldþrota Úkraínu og hrifsa hana þannig undan vestrænum áhrifum beint fyrir framan nefið á ESB, þó að tilburðir ESB séu með eindæmum vesældarlegir og seint á ferðinni.  Lafðin, brezka, utanríkismálastjóri ESB, virðist vera úti á þekju.

Síðan 1709 hefur gengið á ýmsu, en í stórum dráttum hafa átökin í Austur-Evrópu einkennzt af því, að hún hefur ýmist verið á áhrifasvæði Berlínar/Vínar eða Moskvu/Pétursborgar.  Þau einkennilegu úrslit urðu í hildarleiknum fyrir einni öld, í Heimsstyrjöldinni fyrri, 1914-1918, að bæði Þjóðverjar og Rússar máttu lúta í gras.  Báðir hugðu á landvinninga, þegar þeir fóru í stríðið eftir dráp austurríska erkihertogans í Sarajevo.  Ástæða uppgjafar keisarans í Berlín og höfuðs Habsborgara í Vín var, að árið 1917 blandaði Norður-Ameríka sér í styrjöldina til stuðnings Bretum og bandamönnum þeirra.  Þennan liðsstyrk réðu hersveitir Germana ekki við á Vesturvígstöðvunum.  Í Rússlandi var gerð blóðug bylting og aðlinum steypt af stóli haustið 1917.  Byltingarforingin Vladimir Lenin gerði friðarsamning við þýzka keisarann í kjölfarið, enda gerður út og fluttur til Rússlands af kaffihúsum í Sviss af Berlín gagngert til að valda usla, og síðan brauzt út borgarastyrjöld í Rússlandi, þar sem Hvítliðar börðust við Rauðliða, svo að Rússland var lamað þar til kommúnistaflokkur Rússlands hóf að byggja upp þungaiðnað, sem ásamt hergagnasendingum Bandaríkjamanna reið baggamuninn í stríðinu mikla á milli Þjóðverja og Rússa 1941-1945.   

Habsborgaraveldið leið undir lok og var bútað í sundur við uppgjöfina í nóvember 1918, þó að afkomendur Habsborgarháaðalsins séu enn sterkefnaðir og hafi ítök í fjármálaheiminum.  Á rústunum reis fjöldi nýrra ríkja með stuðningi Bandaríkjaforsetans, Woodrow Wilsons.  Berlín var niðurlægð, lönd tekin af Þýzkalandi og landið sett í skuldafjötra stríðsskaðabóta til Vesturveldanna, sem hvíldu eins og mara á hagkerfinu og framkölluðu óðaverðbólgu og stjórnmálalegan óstöðugleika í Weimar lýðveldinu.  Hinn sjálfmenntaði, tilfinninganæmi og sjálfumglaði listamaður frá Linz í Austurríki, Adolf Hitler, hellti salti í sár Þjóðverja og kynti undir kraumandi óánægju þeirra með hlutskipti sitt.   

Þjóðverjar voru í áfalli eftir uppgjöfina 10. nóvember 1918, steyptu aðlinum af stóli og stofnuðu Weimar-lýðveldið.  Það var stjórnskipulega og efnahagslega veikt og vék fyrir Þriðja ríkinu, þegar Adolf Hitler var skipaður kanzlari eftir þingkosningar, þar sem flokkur hans, NSDAP, fékk um þriðjung atkvæða, í janúarlok 1933.  Rúmu ári síðar lézt Hindenburg, forseti og fyrrverandi hershöfðingi keisarahersins, og eftir það varð Foringinn alvaldur í Þýzkalandi.  Hann stefndi á heimsveldi, Imperium des deutschen Volkes, en Luftwaffe mistókst atlagan gegn Englandi sumarið 1940 og framsókn Wehrmacht var stöðvuð í Norður-Afríku og í Rússlandi árið 1942.  Eftir það tók við mikil varnarbarátta, sem grundvallaðist á ótrúlegri framleiðslugetu hergagnaiðnaðarins undir forystu ríkisarkitektsins, Albert Speer.  Sá samdi afar fróðlega og lipurlega ritaða sjálfsævisögu í fangelsinu í Spandau/Berlín.  Talið er, að hann hafi vonazt til svipaðrar meðhöndlunar Bandaríkjamanna og yfirmaður eldflaugarannsókna Þriðja ríkisins, Werner von Braun, en Bandaríkjamenn eyðilögðu öll gögn um aðild hans að NSDAP og gerðu hann að yfirmanni eldflaugarannsókna sinna.      

Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Slóvenía og Króatía eru nú gengin í Evrópusambandið.  Það þýðir, að austurmörk áhrifasvæðis Þýzkalands eru komin að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu, og nú standa átök yfir í Úkraínu um framtíð landsins.  Janukovych, forseti landsins, sem hallur er undir Putin, Rússlandsforseta, stöðvaði síðbúið ferli nánari tengsla Úkraínu við ESB, Evrópusambandið, og sigaði lögreglunni á mótmælendur athæfis síns, sem safnazt hafa saman á Maidan-torgi, eða Frelsistorginu í Kænugarði.  Óeirðalögreglan sýndi mikla harðýðgi gegn æskulýðnum, sem fjölmennti á stærsta torg Kænugarðs.  Æska Úkraínu kærir sig ekki um að búa í leppríki Rússa.   Stjórnkerfi Úkraínu er gegnumrotið, og meirihluti íbúanna, með unga fólkið í broddi fylkingar, þráir ekkert heitar en röð og reglu réttarríkisins, þar sem mannréttindi eru virt, og virðing er borin fyrir samborgurunum.   

Á fyrrnefndu aðaltorgi í Kænugarði er nú hrópað: "Út með þjófana".  Vestur-Úkraína lýtur ekki lengur boðvaldi Janukovych, forseta, og landið er á gjaldþrotsbarmi.  Af tvennu illu er nú skárra fyrir almenning í Úkraínu að halla sér til vesturs en austurs, því að ríki Pútíns er óstöðugt, og lýðræðið stendur þar enn höllum fæti.   Rússar hafa leikið mótleik með því að bjóða Úkraínu jarðgas á vildarkjörum og boðizt til að kaupa af þeim ríkisskuldabréf, sem AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) hafði hafnað kaupum á. Janukovych hefur tekið þá ákvörðun að leggjast á bakið og tifa upp tánum fyrir framan rússneska björninn.  Úkraínska þjóðin hefur tekið aðra og gagnstæða ákvörðun.  Hún er sú, að Úkraína skuli verða sjálfstætt ríki.  Önnur ákvörðunin verður að víkja fyrir hinni, og þó að frelsisandi þjóðarinnar eigi erfitt uppdráttar um sinn, þá er hann sigurstranglegri til lengdar.

Það gæti þess vegna farið að styttast í að áhrifasvæði Þjóðverja teygi sig meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands, og það er nokkuð, sem valdhafarnir í Pétursborg og Moskvu hafa alltaf barizt gegn.  Berlín gæti þess vegna virzt standa uppi með pálmann í höndunum nú um stundir, en það eru váboðar framundan fyrir Berlín, þó að þeir séu öðru vísi en forðum.  

Die Kanzlerei in BerlinBrandenborgarhliðið

 

 

 

 

 

 

 

Evrópa 1945Eva og Adolf 1941


Af hlerunum og fleiri óyndisúrræðum

Engir atburðir hafa haft verri áhrif á samskipti forystumanna Vesturveldanna og reyndar um heimsbyggð alla um áratuga skeið en uppljóstranir Bandaríkjamannsins Edwards Snowdens.  Edward vann hjá verktaka á mála hjá NSA, National Security Agency, sem mun hafa verið stofnað til eftir 9/11 2001, en þá losnaði djöfullinn úr grindum.

Uppljóstranir ES bera vott um væskilsleg viðhorf í Washington DC, þar sem svikizt er aftan að nánustu bandamönnum, hvað þá öðrum, með vægðarlausum hlerunum frá kanzlara og niður úr.  Þeir, sem njósnað er um, eru auðvitað ekki allir hvítþvegnir englar, og stunda vafalítið margir hverjir svipaða iðju sjálfir, þó að líklega ekki í svo miklu umfangi sem bandarísk stjórnvöld. 

Hvar er keppnisandinn og íþróttamennskan að gera sig sekan um slíka lágkúru ?  Siðleysið og tvískinnungurinn í Guðs eigin landi ríður ekki við einteyming.  Sízt skal þó halda því fram hér, að aðrir séu með englavængi.  Sé svo, eru þeir a.m.k. anzi sviðnir orðnir.  Í Lundúnum hafa menn t.d. löngum ærið kræfir verið á sviði njósna og afkóðunar dulmáls, eins og frægt er frá viðureigninni við Þriðja ríkið, en radarinn, leyniþjónustan og ráðning á dulkóða Wehrmacht áttu drjúgan þátt í að snúa taflinu við í hildarleik Síðari heimsstyrjaldarinnar.  

Edward Snowden virðist nú vera orðinn óvinur Bandaríkjanna nr 1 og var fyrir vikið um tíma eins og hundeltur héri, og forkólfur Pírata hérlendis lét um tíma sem hún ynni að því að útvega honum landvistarleyfi á Íslandi.  Hvers konar stjórnmálaástand hefði þá myndazt á milli BNA og Íslands ?  Frá því að Bandaríkjaher hvarf af Miðnesheiði, hefur vinskapurinn ekki verið upp á marga fiska, og engu var líkara en Íslendingar væru í ónáð hjá Seðlabanka Bandaríkjanna árið 2008, þegar hæst átti að hóa og landið var skilið eftir á flæðiskeri statt á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir, sem um það báðu, fengu opna lánalínu frá "Federal Reserve" og til seðlabanka sinna. 

Framkoma Engilsaxa í Whitehall, í Englandsbanka, í Hvíta húsinu og Seðlabanka BNA gagnvart íslenzku ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands í október 2008 var fyrir neðan allar hellur og hefur enn ekki verið skýrð að neinu marki fyrir íslenzku þjóðinni. 

Það verður ennfremur að fást útskýring á því, hvers vegna brezka Verkamannaflokksstjórnin gerði sér far um að gera Íslendingum allt til miska, sem hún gat, og magna þann vanda, sem að fjármálakerfi Íslands steðjaði.  Brezka ríkisstjórnin lagði lykkju á leið sína með virkjun hryðjuverkalaga til að koma Íslandi á kné, á sama tíma og hún bjargaði öllum öðrum bönkum á brezkri grundu.  Þetta er almenningi enn ráðgáta.  Bretar verða að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum til að um heilt geti gróið á milli þjóðanna.  Hafði brezka leyniþjónustan upplýsingar, sem mönnum eru ekki haldbærar á Íslandi enn þann dag í dag ?  Það er ekki allt sem sýnist og ekki unnt að útiloka neitt í þessum efnum.     

Bandaríkjastjórn reyndi mikið til að hafa hendur í hári téðs Snowdens, en án árangurs, og leikur kattarins að músinni endaði með því, að sjálfur Vladimir Putin skaut yfir Snowden tímabundnu skjólshúsi.  Niðurlæging hins hnignandi vesturheimska stórveldis varð enn sárari fyrir vikið. 

Það þarf enga mannvitsbrekku til að geta sér til um fyrirætlun Rússa.  Hún er að reka fleyg í samstöðu Vesturveldanna.  Þjóðverjar eru mjög sárir vegna þess vantrausts og jafnvel tortryggni, sem njósnir NSA og MI5 sýna, að ríkir í garð endursameinaðs Þýzkalands á meðal Engilsaxa, þrátt fyrir fagurgala þeirra.  Þeir íhuga þess vegna að skjóta yfir Snowden skjólshúsi, þegar tími hans hjá Rússum verður á enda runninn.  Það yrði óneitanlega sterkur leikur í þeirri refskák, sem uppljóstranir Snowdens hafa fram kallað, en yrði fleinn í holdi vestrænnar samvinnu, sem leitt gæti til upplausnar NATO.  Slíkur gjörningur þjónar varla langtíma hagsmunum Þýzkalands. 

Nú er komið í ljós, hverju þessi ákafi við að handsama þrjótinn Snowden sætti.  Það er svo mikið í húfi, að nauðsynlegt er að koma þeim boðskapi greinilega til skila, að þeir, sem íhuga að leka viðkvæmum upplýsingum út um hegðun bandarískra stjórnvalda, skuli hundeltir, ofsóttir og handteknir og Guð má vita hvað, hvar sem til þeirra næst. Þetta er ófélegt viðhorf forystumanna forysturíkis lýðræðisríkjanna í heiminum, ef satt er.

Um mánaðamótin nóvember-desember 2013 kynntust Íslendingar því á eigin skinni, hvað það getur þýtt, að persónulegar upplýsingar um fólk verði fyrir hunda og manna fótum.  Ábyrgðarlaus varzla persónulegra gagna er hneyksli, en hvað má þá segja um tilraun til að breiða yfir ósómann, sem virtist vera á ferðinni í upphafi ?  Allt verður þetta mál mun ömurlegra, þegar fréttir berast af því 3. desember 2013, að tvisvar - þrisvar sinnum á tveggja ára tímabili hafi með nokkrum árangri verið ráðizt til atlögu við tölvukerfi viðkomandi símafyrirtækis án þess að gripið væri til teljandi varna í kjölfarið.  Slíkt andvaraleysi er vítavert og verður að draga hæfni stjórnenda, sem slíkt láta henda sig, til að bera ábyrgð á tæknilegri starfsemi og umsýslu viðkvæmra gagna fyrir fjölda fólks, í efa. Enn og aftur opinbera opinberir eftirlitsaðilar algert haldleysi sitt.  Vissi Póst-og fjarskiptastofnun ekkert um fyrri árásirnar ?  Póst- og fjar virðist ekki hafa rennt grun í slælega frammistöðu undir sínum verndarvæng.  Svarið á ekki að vera að ausa fé í eftirlitið.  Þvert á móti.  Það á að draga úr fjárveitingum þangað, en auka kröfur um innra eftirlit og herða viðurlög við brotum leyfishafa.  Lagarammi starfsemi símafyrirtækjanna ber vott um veiklyndi.  Fyrir vanrækslu af þessu tagi eiga að liggja viðurlög um háar fébætur til viðskiptavina og heimild til sviptingar rekstrarleyfis, ef allt keyrir um þverbak.  Markaðurinn mun reyndar vafalaust refsa viðkomandi grimmilega fyrir amlóðaháttinn.   

Bandaríkjamenn hafa bakað grundvelli vestræns lýðræðis, frelsi einstaklingsins til athafna án þess yfirvöldin horfi beinlínis yfir öxlina á honum, ómælanlegt tjón.  Stóri bróðir Orson Wells frá 1984 er á meðal vor í öllum sínum ömurleika.  Hvílík niðurlæging og siðleysi. 

Leyniþjónustur hafa stundað þennan óskunda að hlera símtöl frá því, að nýting á gagnmerkri uppfinningu Bells hófst.  Margir fleiri hafa gerzt sekir um hleranir og einnig sá, er hér knýr lyklaborð.  Það var fyrir hálfri öld, þegar stráksi af einhverjum ástæðum var inni í bæ og ekki sást til.  Þá var lyft upp tóli og hlustað á samtöl, einkum ef hringt var á vissa bæi þar í Vatnsdalnum, og förum ekki nánar út í það, að hætti Kristjáns Ólafssonar.

Hérlendis þarf að sýna dómara fram á, að ríkir hagsmunir séu í húfi við rannsókn sakamáls og að líklegt sé, að hlerun símtala einstaklinga geti auðveldað rannsókn og/eða sönnunarfærslu.  Ef rök eru tilfærð um, að ríkir almannahagsmunir séu í húfi, er líklegt, að dómari hlusti á það og taki tillit til í dómsúrskurði. 

Það gefur auga leið, að hlerun hins opinbera á símtölum og samtölum innan veggja heimila með upptökutækjum, er alvarleg árás á friðhelgi einkalífs.  Persónuvernd er á yfirborðinu með strangar kröfur um lögmæti símtalaupptöku og myndatöku hvers konar, en þegar til kastanna kemur, er einkalíf almennings berskjaldað og nánast ekkert einkalíf, ef einhverjum þursum dettur í hug, að það kunni að vera áhugavert fyrir hið opinbera að komast að, hvers kyns er.  Þursar misnota hér tæknina skefjalaust, og hérlendis hafa ýmsir á tilfinningunni, að dómarar séu nokkuð lausbeizlaðir, þegar saksóknarar standa andspænis þeim með beiðni um rof á friðhelgi einkalífs.  Hér eru menn komnir út á hættulega braut, og ekki sér fyrir endann á þessari öfugþróun.   

Þjóðverjar eru mörgum öðrum viðkvæmari í þessum efnum, þó að þeir láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna.  Það stafar af fortíð þýzku þjóðarinnar á 20. öldinni, sem var rysjótt og stormasöm undir heimsveldissinnuðum keisara, foringja og þýlyndra alræðissinnaðra stjórnmálaflokka, enda lénsskipulagið þá að líða undir lok, og hinar vinnandi stéttir borgara og verkamanna að taka við valdataumunum.  Miðstéttin var að brjótast til valda og ýta aðlinum til hliðar.  Það kostaði blóð, svita og tár. 

GESTAPO (Leyniþjónusta ríkislögreglunnar) hélt uppi öflugri upplýsingaöflun og persónunjósnum í Þriðja ríkinu og hernumdum löndum Wehrmacht undir stjórn Heinrichs Himmlers, Ríkislögreglustjóra og æðsta stjórnanda SS-varnarsveitanna (Schutzstaffel).  Með þessum hrikalegu valdatækjum Þriðja ríkisins var megnið af Evrópu tekin hreðjataki á stríðsárunum og þjóðernishreinsanir framkvæmdar.  Það eimir enn eftir af hugarfari þjóðernishreinsana í Evrópu, sbr Balkanstríðið, hræðilega, í lok 20. aldarinnar, og meðferðina á Sígaunum (Rómafólki) víða um Evrópu í upphafi 21. aldarinnar.     

STASI (Öryggislögregla ríkisina) í leppríki Ráðstjórnarríkjanna á hernámssvæði Rússa í Þýzkalandi var með nefið ofan í hvers manns koppi í DDR og hélt uppi miklu snuðri vestan megin einnig.  Almenningur fór ekki varhluta af þessu og var ákaflega var um sig og varkár í orðavali.  Að búa í einræðisríki er þrúgandi, af því að engum er að treysta, og Stóri bróðir gat leynzt alls staðar, og það hefur verið gríðarlegur léttir fyrir þýzku þjóðarsálina að losna við þessa andlegu kúgun.  Allt var það framferði valdhafanna fyrirlitlegt.  

Þess vegna hefur það verið reiðarslag fyrir Þjóðverja nútímans að frétta af hlerunum Bandaríkjastjórnar á einkasíma kanzlara Þýzkalands, hvað þá öðrum, öflugasta og einum nánasta bandamanni sínum.  Hvað mega kaþólikkar heimsins segja núna, þegar komið hefur í ljós, að páfinn í Róm er einnig fórnarlamb þessara dæmalausu hlerana ?  Hvað á þetta eiginlega að þýða ?  Er þetta fíflagangur óvita, sem kunna ekki með öfluga tækni að fara, svo að siðlegt sé ? 

Allt spratt þetta upp eftir hryðjuverk ofstækisfullra hatursmanna vestræns frelsis og lýðræðis, en viðbrögðin, hnýsnin, sem nú hefur verið flett ofan af, grefur undan grunngildum hins vestræna heims.  Það eru grunngildin, sem hryðjuverkamenn vilja feig.  Sjálfir eru þeir andlega á steinaldarstigi.  Það mun reynast skammgóður vermir að hafa yfirburði í tækni, vísindum og hergögnum, ef sálarlífið er morkið og andinn vesæll.  

Umfang hlerana Bandaríkjamanna er með ólíkindum og opinberar siðlausa embættismenn í Guðs eigin landi.  Þetta framferði vitnar um rotnun og heigulshátt í forysturíki hins vestræna heims.  Málið er þess vegna grafalvarlegt, vegna þess að engrar iðrunar og yfirbótar sér merki, eins og Þjóðverjar þó höfðu manndóm til að sýna, eftir að þeir stofnuðu sitt Sambandslýðveldi árið 1949, Bundesrepublik Deutschland.  Forystumenn Þjóðverja með Dr Konrad Adenauer, kanzlara og fyrrverandi borgarstjóra í Köln, tóku af skarið og lýstu óbeit og andúð á gjörðum fyrirrennara sinna, og þjóðin tók undir með þeim.  Engrar iðrunar verður á hinn bóginn vart í Hvíta húsinu.  Slíkt er ills viti.  Forseti BNA varð sér og þjóð sinni til minnkunar, þegar hann sagðist vera hættur í bili að hlera síma Angelu Merkel, en ekki sýndi hann iðrun, þó að hann léti sem hann mundi ekki taka upp sömu háttsemi á ný.  Það er vel skiljanlegt, að Þjóðverjar kunni ekki að meta þessa framkomu.      

Heimurinn allur er nú í hlutverki indíánanna, frumbyggja Norður-Ameríku, sem áttu sér stórmerkilega menningu, en kúrekarnir léku hörmulega og kúguðu illilega.  Í þetta sinn er þó líklegast, að hin svívirðilega árás á einkalíf bandamanna Bandaríkjamanna verði að bjúgverpli, sem hitti þá sjálfa illa fyrir.  Hver þarfnast óvina, sem á slíka vini ?  Siðbótar er þörf.  Hvar er Marteinn Lúther nútímans ?  Er hann á róandi lyfjum og mun þess vegna aldrei hafa sig neitt í frammi ?  Gerilsneyðing, andleysi og flatneskja rétttrúnaðarins tröllríður húsum.

Nú á vel við Heimsósómakvæði Skáld-Sveins frá 1614 með þessu erindi:

"Vesöl og snauð er veröld af þessu klandri,

völdin efla flokkadrátt í landi,

harkamálin hyljast mold og sandi,

hamingjan bannar, að þetta óhóf standi."

Heimsósómi Skáld-Sveins 1614

 

  

Þýzkaland eftir 1989

 

    

      

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband