Af hlerunum og fleiri óyndisúrræðum

Engir atburðir hafa haft verri áhrif á samskipti forystumanna Vesturveldanna og reyndar um heimsbyggð alla um áratuga skeið en uppljóstranir Bandaríkjamannsins Edwards Snowdens.  Edward vann hjá verktaka á mála hjá NSA, National Security Agency, sem mun hafa verið stofnað til eftir 9/11 2001, en þá losnaði djöfullinn úr grindum.

Uppljóstranir ES bera vott um væskilsleg viðhorf í Washington DC, þar sem svikizt er aftan að nánustu bandamönnum, hvað þá öðrum, með vægðarlausum hlerunum frá kanzlara og niður úr.  Þeir, sem njósnað er um, eru auðvitað ekki allir hvítþvegnir englar, og stunda vafalítið margir hverjir svipaða iðju sjálfir, þó að líklega ekki í svo miklu umfangi sem bandarísk stjórnvöld. 

Hvar er keppnisandinn og íþróttamennskan að gera sig sekan um slíka lágkúru ?  Siðleysið og tvískinnungurinn í Guðs eigin landi ríður ekki við einteyming.  Sízt skal þó halda því fram hér, að aðrir séu með englavængi.  Sé svo, eru þeir a.m.k. anzi sviðnir orðnir.  Í Lundúnum hafa menn t.d. löngum ærið kræfir verið á sviði njósna og afkóðunar dulmáls, eins og frægt er frá viðureigninni við Þriðja ríkið, en radarinn, leyniþjónustan og ráðning á dulkóða Wehrmacht áttu drjúgan þátt í að snúa taflinu við í hildarleik Síðari heimsstyrjaldarinnar.  

Edward Snowden virðist nú vera orðinn óvinur Bandaríkjanna nr 1 og var fyrir vikið um tíma eins og hundeltur héri, og forkólfur Pírata hérlendis lét um tíma sem hún ynni að því að útvega honum landvistarleyfi á Íslandi.  Hvers konar stjórnmálaástand hefði þá myndazt á milli BNA og Íslands ?  Frá því að Bandaríkjaher hvarf af Miðnesheiði, hefur vinskapurinn ekki verið upp á marga fiska, og engu var líkara en Íslendingar væru í ónáð hjá Seðlabanka Bandaríkjanna árið 2008, þegar hæst átti að hóa og landið var skilið eftir á flæðiskeri statt á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir, sem um það báðu, fengu opna lánalínu frá "Federal Reserve" og til seðlabanka sinna. 

Framkoma Engilsaxa í Whitehall, í Englandsbanka, í Hvíta húsinu og Seðlabanka BNA gagnvart íslenzku ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands í október 2008 var fyrir neðan allar hellur og hefur enn ekki verið skýrð að neinu marki fyrir íslenzku þjóðinni. 

Það verður ennfremur að fást útskýring á því, hvers vegna brezka Verkamannaflokksstjórnin gerði sér far um að gera Íslendingum allt til miska, sem hún gat, og magna þann vanda, sem að fjármálakerfi Íslands steðjaði.  Brezka ríkisstjórnin lagði lykkju á leið sína með virkjun hryðjuverkalaga til að koma Íslandi á kné, á sama tíma og hún bjargaði öllum öðrum bönkum á brezkri grundu.  Þetta er almenningi enn ráðgáta.  Bretar verða að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum til að um heilt geti gróið á milli þjóðanna.  Hafði brezka leyniþjónustan upplýsingar, sem mönnum eru ekki haldbærar á Íslandi enn þann dag í dag ?  Það er ekki allt sem sýnist og ekki unnt að útiloka neitt í þessum efnum.     

Bandaríkjastjórn reyndi mikið til að hafa hendur í hári téðs Snowdens, en án árangurs, og leikur kattarins að músinni endaði með því, að sjálfur Vladimir Putin skaut yfir Snowden tímabundnu skjólshúsi.  Niðurlæging hins hnignandi vesturheimska stórveldis varð enn sárari fyrir vikið. 

Það þarf enga mannvitsbrekku til að geta sér til um fyrirætlun Rússa.  Hún er að reka fleyg í samstöðu Vesturveldanna.  Þjóðverjar eru mjög sárir vegna þess vantrausts og jafnvel tortryggni, sem njósnir NSA og MI5 sýna, að ríkir í garð endursameinaðs Þýzkalands á meðal Engilsaxa, þrátt fyrir fagurgala þeirra.  Þeir íhuga þess vegna að skjóta yfir Snowden skjólshúsi, þegar tími hans hjá Rússum verður á enda runninn.  Það yrði óneitanlega sterkur leikur í þeirri refskák, sem uppljóstranir Snowdens hafa fram kallað, en yrði fleinn í holdi vestrænnar samvinnu, sem leitt gæti til upplausnar NATO.  Slíkur gjörningur þjónar varla langtíma hagsmunum Þýzkalands. 

Nú er komið í ljós, hverju þessi ákafi við að handsama þrjótinn Snowden sætti.  Það er svo mikið í húfi, að nauðsynlegt er að koma þeim boðskapi greinilega til skila, að þeir, sem íhuga að leka viðkvæmum upplýsingum út um hegðun bandarískra stjórnvalda, skuli hundeltir, ofsóttir og handteknir og Guð má vita hvað, hvar sem til þeirra næst. Þetta er ófélegt viðhorf forystumanna forysturíkis lýðræðisríkjanna í heiminum, ef satt er.

Um mánaðamótin nóvember-desember 2013 kynntust Íslendingar því á eigin skinni, hvað það getur þýtt, að persónulegar upplýsingar um fólk verði fyrir hunda og manna fótum.  Ábyrgðarlaus varzla persónulegra gagna er hneyksli, en hvað má þá segja um tilraun til að breiða yfir ósómann, sem virtist vera á ferðinni í upphafi ?  Allt verður þetta mál mun ömurlegra, þegar fréttir berast af því 3. desember 2013, að tvisvar - þrisvar sinnum á tveggja ára tímabili hafi með nokkrum árangri verið ráðizt til atlögu við tölvukerfi viðkomandi símafyrirtækis án þess að gripið væri til teljandi varna í kjölfarið.  Slíkt andvaraleysi er vítavert og verður að draga hæfni stjórnenda, sem slíkt láta henda sig, til að bera ábyrgð á tæknilegri starfsemi og umsýslu viðkvæmra gagna fyrir fjölda fólks, í efa. Enn og aftur opinbera opinberir eftirlitsaðilar algert haldleysi sitt.  Vissi Póst-og fjarskiptastofnun ekkert um fyrri árásirnar ?  Póst- og fjar virðist ekki hafa rennt grun í slælega frammistöðu undir sínum verndarvæng.  Svarið á ekki að vera að ausa fé í eftirlitið.  Þvert á móti.  Það á að draga úr fjárveitingum þangað, en auka kröfur um innra eftirlit og herða viðurlög við brotum leyfishafa.  Lagarammi starfsemi símafyrirtækjanna ber vott um veiklyndi.  Fyrir vanrækslu af þessu tagi eiga að liggja viðurlög um háar fébætur til viðskiptavina og heimild til sviptingar rekstrarleyfis, ef allt keyrir um þverbak.  Markaðurinn mun reyndar vafalaust refsa viðkomandi grimmilega fyrir amlóðaháttinn.   

Bandaríkjamenn hafa bakað grundvelli vestræns lýðræðis, frelsi einstaklingsins til athafna án þess yfirvöldin horfi beinlínis yfir öxlina á honum, ómælanlegt tjón.  Stóri bróðir Orson Wells frá 1984 er á meðal vor í öllum sínum ömurleika.  Hvílík niðurlæging og siðleysi. 

Leyniþjónustur hafa stundað þennan óskunda að hlera símtöl frá því, að nýting á gagnmerkri uppfinningu Bells hófst.  Margir fleiri hafa gerzt sekir um hleranir og einnig sá, er hér knýr lyklaborð.  Það var fyrir hálfri öld, þegar stráksi af einhverjum ástæðum var inni í bæ og ekki sást til.  Þá var lyft upp tóli og hlustað á samtöl, einkum ef hringt var á vissa bæi þar í Vatnsdalnum, og förum ekki nánar út í það, að hætti Kristjáns Ólafssonar.

Hérlendis þarf að sýna dómara fram á, að ríkir hagsmunir séu í húfi við rannsókn sakamáls og að líklegt sé, að hlerun símtala einstaklinga geti auðveldað rannsókn og/eða sönnunarfærslu.  Ef rök eru tilfærð um, að ríkir almannahagsmunir séu í húfi, er líklegt, að dómari hlusti á það og taki tillit til í dómsúrskurði. 

Það gefur auga leið, að hlerun hins opinbera á símtölum og samtölum innan veggja heimila með upptökutækjum, er alvarleg árás á friðhelgi einkalífs.  Persónuvernd er á yfirborðinu með strangar kröfur um lögmæti símtalaupptöku og myndatöku hvers konar, en þegar til kastanna kemur, er einkalíf almennings berskjaldað og nánast ekkert einkalíf, ef einhverjum þursum dettur í hug, að það kunni að vera áhugavert fyrir hið opinbera að komast að, hvers kyns er.  Þursar misnota hér tæknina skefjalaust, og hérlendis hafa ýmsir á tilfinningunni, að dómarar séu nokkuð lausbeizlaðir, þegar saksóknarar standa andspænis þeim með beiðni um rof á friðhelgi einkalífs.  Hér eru menn komnir út á hættulega braut, og ekki sér fyrir endann á þessari öfugþróun.   

Þjóðverjar eru mörgum öðrum viðkvæmari í þessum efnum, þó að þeir láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna.  Það stafar af fortíð þýzku þjóðarinnar á 20. öldinni, sem var rysjótt og stormasöm undir heimsveldissinnuðum keisara, foringja og þýlyndra alræðissinnaðra stjórnmálaflokka, enda lénsskipulagið þá að líða undir lok, og hinar vinnandi stéttir borgara og verkamanna að taka við valdataumunum.  Miðstéttin var að brjótast til valda og ýta aðlinum til hliðar.  Það kostaði blóð, svita og tár. 

GESTAPO (Leyniþjónusta ríkislögreglunnar) hélt uppi öflugri upplýsingaöflun og persónunjósnum í Þriðja ríkinu og hernumdum löndum Wehrmacht undir stjórn Heinrichs Himmlers, Ríkislögreglustjóra og æðsta stjórnanda SS-varnarsveitanna (Schutzstaffel).  Með þessum hrikalegu valdatækjum Þriðja ríkisins var megnið af Evrópu tekin hreðjataki á stríðsárunum og þjóðernishreinsanir framkvæmdar.  Það eimir enn eftir af hugarfari þjóðernishreinsana í Evrópu, sbr Balkanstríðið, hræðilega, í lok 20. aldarinnar, og meðferðina á Sígaunum (Rómafólki) víða um Evrópu í upphafi 21. aldarinnar.     

STASI (Öryggislögregla ríkisina) í leppríki Ráðstjórnarríkjanna á hernámssvæði Rússa í Þýzkalandi var með nefið ofan í hvers manns koppi í DDR og hélt uppi miklu snuðri vestan megin einnig.  Almenningur fór ekki varhluta af þessu og var ákaflega var um sig og varkár í orðavali.  Að búa í einræðisríki er þrúgandi, af því að engum er að treysta, og Stóri bróðir gat leynzt alls staðar, og það hefur verið gríðarlegur léttir fyrir þýzku þjóðarsálina að losna við þessa andlegu kúgun.  Allt var það framferði valdhafanna fyrirlitlegt.  

Þess vegna hefur það verið reiðarslag fyrir Þjóðverja nútímans að frétta af hlerunum Bandaríkjastjórnar á einkasíma kanzlara Þýzkalands, hvað þá öðrum, öflugasta og einum nánasta bandamanni sínum.  Hvað mega kaþólikkar heimsins segja núna, þegar komið hefur í ljós, að páfinn í Róm er einnig fórnarlamb þessara dæmalausu hlerana ?  Hvað á þetta eiginlega að þýða ?  Er þetta fíflagangur óvita, sem kunna ekki með öfluga tækni að fara, svo að siðlegt sé ? 

Allt spratt þetta upp eftir hryðjuverk ofstækisfullra hatursmanna vestræns frelsis og lýðræðis, en viðbrögðin, hnýsnin, sem nú hefur verið flett ofan af, grefur undan grunngildum hins vestræna heims.  Það eru grunngildin, sem hryðjuverkamenn vilja feig.  Sjálfir eru þeir andlega á steinaldarstigi.  Það mun reynast skammgóður vermir að hafa yfirburði í tækni, vísindum og hergögnum, ef sálarlífið er morkið og andinn vesæll.  

Umfang hlerana Bandaríkjamanna er með ólíkindum og opinberar siðlausa embættismenn í Guðs eigin landi.  Þetta framferði vitnar um rotnun og heigulshátt í forysturíki hins vestræna heims.  Málið er þess vegna grafalvarlegt, vegna þess að engrar iðrunar og yfirbótar sér merki, eins og Þjóðverjar þó höfðu manndóm til að sýna, eftir að þeir stofnuðu sitt Sambandslýðveldi árið 1949, Bundesrepublik Deutschland.  Forystumenn Þjóðverja með Dr Konrad Adenauer, kanzlara og fyrrverandi borgarstjóra í Köln, tóku af skarið og lýstu óbeit og andúð á gjörðum fyrirrennara sinna, og þjóðin tók undir með þeim.  Engrar iðrunar verður á hinn bóginn vart í Hvíta húsinu.  Slíkt er ills viti.  Forseti BNA varð sér og þjóð sinni til minnkunar, þegar hann sagðist vera hættur í bili að hlera síma Angelu Merkel, en ekki sýndi hann iðrun, þó að hann léti sem hann mundi ekki taka upp sömu háttsemi á ný.  Það er vel skiljanlegt, að Þjóðverjar kunni ekki að meta þessa framkomu.      

Heimurinn allur er nú í hlutverki indíánanna, frumbyggja Norður-Ameríku, sem áttu sér stórmerkilega menningu, en kúrekarnir léku hörmulega og kúguðu illilega.  Í þetta sinn er þó líklegast, að hin svívirðilega árás á einkalíf bandamanna Bandaríkjamanna verði að bjúgverpli, sem hitti þá sjálfa illa fyrir.  Hver þarfnast óvina, sem á slíka vini ?  Siðbótar er þörf.  Hvar er Marteinn Lúther nútímans ?  Er hann á róandi lyfjum og mun þess vegna aldrei hafa sig neitt í frammi ?  Gerilsneyðing, andleysi og flatneskja rétttrúnaðarins tröllríður húsum.

Nú á vel við Heimsósómakvæði Skáld-Sveins frá 1614 með þessu erindi:

"Vesöl og snauð er veröld af þessu klandri,

völdin efla flokkadrátt í landi,

harkamálin hyljast mold og sandi,

hamingjan bannar, að þetta óhóf standi."

Heimsósómi Skáld-Sveins 1614

 

  

Þýzkaland eftir 1989

 

    

      

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband