Múhameðstrú og Vesturlönd

Múhameðstrúarmenn, Islamistar, hafa eldað grátt silfur við kristna Evrópumenn síðan Márar réðust inn í Spán og lögðu megnið af Pýreneaskaganum undir sig á árunum 711-718.  Kristnir höfðingjar náðu ekki að jafna hlut sinn þar fyrr en á 13. öld, og nokkru lengur héldu Márar nokkrum borgum í Andalúsíu.

Á 8. öld og lengur má hiklaust telja, að Márarnir hafi haft á valdi sínu meiri þekkingu en kristnir Evrópumenn.  Ástæðan er sú, að þeir höfðu í herförum sínum, t.d. í Norður-Afríku, tekið menningarborgir herskildi og slegið eign sinni á forn bókasöfn og tileinkað sér speki fornaldar, sem þar var að finna, þ.á.m. um byggingarlist. 

Afrakstur þessa var meiri þekking á stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og verkfræði en þá var fyrir hendi í Evrópu.  Áhrifaríkt dæmi um þetta er kastalinn, Alhambra-Rauði kastalinn, í Granada, sem engan lætur ósnortinn, sem áhuga hefur á húsagerðarlist og verkfræði.  Þar var og er rennandi vatn notað á snilldarlegan hátt til loftkælingar.

Á miðöldum stóð kristinni Evrópu mikil ógn af Ottomanaveldinu, tyrkneska, sem stundaði útþenslustefnu og gerði usla á Balkanskaga, þar sem leifar áhrifa þeirra eru enn. Hluti af illindunum á milli þjóða og þjóðabrota þar stafar af því, að þeir, sem gengu á mála hjá Tyrkjum tóku upp trú þeirra, og voru hataðir sem svikarar eftir það af öðrum íbúum svæðisins.   

Eftir Heimsstyrjöldina síðari hófst mikill straumur Múhameðstrúarmanna til Evrópu, t.d. sem "Gastarbeiter" (farandverkamenn) til Vestur-Þýzkalands frá Tyrklandi og frá frönskum áhrifasvæðum í Austurlöndum nær og Norður-Afríku til Frakklands.  Er nú svo komið, að fjöldi Múslima í nokkrum ríkjum Evrópu er eins og að neðan greinir sem hlutfall af íbúatölu viðkomandi lands.  Í svigum er hlutfallið, sem aðrir íbúar landanna telja, að eigi við fjölda Íslamista í sínu heimalandi:

  • Frakkland    8 % (31 %)
  • Belgía       6 % (29 %)
  • Þýzkaland    6 % (19 %)
  • Bretland     5 % (21 %)
  • Svíþjóð      5 % (17 %)
  • Ítalía       4 % (20 %)
  • Spánn        2 % (16 %)

Tvennt vekur athygli við þessa töflu.  Annars vegar gríðarlegur fjöldi múhameðstrúarmanna í fjölmennustu löndum álfunnar og hins vegar, hversu gríðarlegt ofmat ríkir í öllum þessum löndum, og reyndar, þar sem mælt hefur verið, á fjölda múhameðstrúarmanna í viðkomandi landi.  Aðrir íbúar telja múslima í sínu landi vera þrefalt til áttfalt fleiri en þeir þó enn eru, en það ber að hafa í huga, að fæstir tileinka þeir sér vestræna siði alfarið, og sumir alls ekki, svo að þeim fjölgar margfalt hraðar en kristnum frumbyggjum landanna. Þetta vekur mörgum ugg í brjósti, og er PEGIDA-hreyfingin í Evrópu skilgetið afkvæmi islamvæðingar Evrópu.  Hugmyndin er sú, að það sem herjum soldánsins í Miklagarði ekki tókst með innrás í Evrópu, það eigi nú að raungera með því að taka völdin innanfrá.

Þetta ofmat á núverandi fjölda islamista í Evrópu má þannig skýra með almennri tortryggni íbúanna í garð fólks með framandi og í augum margra Vesturlandabúa frumstæða trúarsiði.  Evrópumenn finna sig í varnarstöðu gagnvart ágengum trúarbrögðum, sem beita miskunnarlausu ofbeldi í baráttu sinni við vestræna menn og vestræna menningu, sem þeim þykir einkennast af trúleysi. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að íslam eru engin venjuleg trúarbrögð, heldur blanda af stjórnkerfi heimilis og þjóðfélags með fastmótuðum siðum, t.d. um klæðaburð, og trúarsiðum.  Þetta veldur því, að í ríkjum múslima eru engin skil á milli ríkis og trúarbragða, nema helzt í Tyrklandi.  Þetta stendur þessum ríkjum fyrir þrifum, því að fyrir vikið verða þau auðveldlega fórnarlömb afturhalds og ofstækis, sem hamlar þróun í anda Vesturlanda eða Kína. Stjórnmál og trúmál eru eldfim blanda.

Bretar voru spurðir að því árið 2003 og aftur árið 2013, hvort Bretar mundu glata þjóðareinkennum sínum, ef fleiri múhameðstrúarmenn flyttust til landsins.  Í fyrra skiptið svöruðu 48 % þessu játandi og í seinna skiptið 62 %.  Þetta undirstrikar gríðarlega samskiptaörðugleika "frumbyggja" við þetta aðkomufólk, sem heldur fast í sína trúarsiði og neitar að laga sig að almennum siðum innfæddra, t.d. klæðaburði, svo að áberandi einkenni sé nefnt. 

Það, sem alvarlegast er við skort á aðlögun múhameðstrúarmanna að háttum, siðum og löggjöf Vesturlanda, er að viðhalda forneskjulegum lögum Kóransins, s.k. sjaría-lögum.  Beiting þeirra er grimmdarleg, í mörgum tilvikum níðingsleg, og felur í sér mannréttindabrot af grófasta tagi.  Það er algerlega óásættanlegt, að einhver trúarhópur taki upp á því að stunda lögbrot og mannréttindabrot að því er virðist vegna sjúklegrar kúgunarþarfar og ofbeldishneigðar gagnvart safnaðarmeðlimum. Það er enn í fullu gildi, sem Þorgeir, Ljósvetningagoði, kvað upp úr með á þingi forðum, að ef við slítum í sundur lögin, þá munum við og friðinn í sundur slíta.  Þarna ættu Vesturlönd að draga línu í sandinn, og einfaldlega að vísa þeim til föðurhúsanna, sem ekki vilja þíðast þessi skilyrði.

Í Evrópu hafa stjórnmálaleiðtogar, margir hverjir, lagt sig í framkróka við að breiða yfir það ginnungagap, sem skilur að gildismat múhameðstrúarmanna og flestra annarra íbúa Evrópu, hvort sem þeir telja sig kristna eður ei. Dæmi um slíkt eru ummæli fyrrverandi forseta Sambandslýðveldisins Þýzkalands, Christian Wulff, árið 2010, nokkru áður en hann hrökklaðist úr embætti sökum spillingarmála á meðan hann var forsætisráðherra eins þýzka fylkisins.  Wulff sagði í ræðu:

"Íslam er hluti af Þýzkalandi".

Margir Þjóðverjar eru ósammála þessari fullyrðingu, og til marks um það er hin sjálfsprottna grasrótarhreyfing, PEGIDA - Patriotische Europäer gegen die Islamisierung des Abendlandes - Föðurlandsvinir í Evrópu gegn Íslamsvæðingu Vesturlanda.  Síðan í október 2014 hefur hún nánast á hverjum mánudegi staðið fyrir fjöldagöngum og útifundum í mörgum borgum Þýzkalands, þar sem lýst er áhyggjum af Íslam sem ríki í ríkinu, þar sem íbúunum fjölgar mun hraðar en öðrum hópum Þýzkalands. PEGIDA leggur áherzlu á friðsamleg mótmæli.  Það er ekki hægt með hlutlægum hætti að kalla þetta öfgahreyfingu, þó að hún tjái þá skoðun með áberandi hætti, að islamistum ætti ekki að líðast að mynda ríki í ríkinu, heldur verði að gera þá kröfu til þeirra, að þeir lagi sig að lögum og rétti Vesturlanda og afleggi þá kvennakúgun og karlaharðræði, sem nú viðgengst í "gettóum" islamista í Evrópu.

Kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, ávarpaði þjóðina 11. janúar 2015, þegar hún var í losti eftir hryðjuverkin í París, sem framin voru sem hefndarráðstöfun i nafni Allah fyrir skopteikningar, sem islamistar tóku ákaflega nærri sér. Þar rákust illilega saman vestrænar hugmyndir um tjáningarfrelsi og trúartilfingar múhameðstrúarmanna og sú hefð þeirra, að láta vera að gera hvers konar myndir eða eftirlíkingar af Múhameð spámanni og Allah. 

Eðlilega vissu Evrópumenn ekki í kjölfar hryðjuverkanna, hvaðan á þá stóð veðrið, og ótti greip um sig. Frú Merkel sagði við það tækifæri: 

"Ég er kanzlari allra Þjóðverja"     

og átti þar greinilega við islamista, búsetta í Þýzkalandi, 4-5 milljónir talsins.  Samt gætir ótta og haturs i garð islamista í Evrópu, en það er einmitt keppikefli jihadistana, sem eru i heilögu stríði gegn kristnu fólki og vestrænum gildum, að skapa andrúmsloft tortryggni og heiftar. Það verður að sigla á milli skers og báru, ef ekki á að sjóða illilega upp úr, og þess vegna er ástæðulaust að storka islamistunum á trúarsviðinu, en standa þeim mun keikari á kröfum um jafnræði kynjanna, almenn mannréttindi öllum til handa og, að allir séu jafnir fyrir lögunum. 

Það hefur vakið furðu margra i Evrópu, hversu margt ungt fólk, fætt og uppalið í Evrópu af kristnum eða trúlausum foreldrum, hefur gengið til liðs við ISIS, hryðjuverkasamtök, sem fremja hryllilega glæpi og skemmdarverk á fornum menningarverðmætum í nafni Múhameðstrúarinnar, og styður baráttu þessa hryllingsanga jihadistanna með vopnavaldi við að koma á kalífadæmi í Írak, Sýrlandi og víðar.  Hvernig í ósköpunum má þetta vera ?

Böndin berast að trúboði islamistanna og þeim heilaþvotti, sem fram fer í sumum moskum Evrópu. Það setur óneitanlega að manni ugg varðandi fyrirhugaða mosku í Reykjavík, að frétzt hefur, að hún verði fjármögnuð af Saudi-Aröbum, en í Saudi-Arabíu hefur ofstækisfullur islamista-söfnuður töglin og hagldirnar í trúarlegum og veraldlegum efnum. Sjeikarnir óttast þennan söfnuð og stunda grimmdarstjórnun í anda Kóransins, eins og margoft hefur komið fram varðandi refsingar fyrir meint afbrot. Má þá geta nærri, hvers konar boðskapur kann að verða fram reiddur í téðri Reykjavíkur-mosku. Það er furðulega grunnfærið af borgaryfirvöldum Reykjavíkur að setja, að því er virðist, engin skilyrði fyrir byggingu þessarar mosku, önnur en hefðbundna lóðaskilmála og byggingarreglugerð.  Þetta er alvarlegt mál, því að vitað er, að moskur eru bæði andlegar og veraldlegar miðstöðvar múhameðsmanna og hættan er sú, að þetta verði einhvers konar útungunarstöð ofbeldis og ofstækis, eins og dæmin um stuðninginn við ISIS á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi og víðar, sanna.

Þann 22. apríl 2015 birtist í Morgunblaðinu fréttaskýring eftir Boga Þór Arason, sem varpar ljósi á, að jihadistar islamistanna eru í útrýmingarherferferð gegn kristnu fólki.  Þeir myrða fólkið og eyðileggja kirkjurnar.  Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að islamistar samþykkja ekki, að kristnir söfnuðir reisi kirkjur í löndum islamista, svo að engin gagnkvæmni á sér stað varðandi það að veita leyfi fyrir tilbeiðslubyggingum.  Það ætti að gjalda mikinn varhug við moskum á Vesturlöndum um þessar mundir.  Verður nú vitnað í frétt Boga Þórs:

"Óttast að samfélög kristinna hverfi".

"Milljónir manna hafa þurft að flýja heimkynni sín í Sýrlandi, þeirra á meðal hundruð þúsunda kristinna manna, sem hafa flúið stríðshörmungar og árásir liðsmanna Ríkis islams, samtaka islamista, sem hafa náð svæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald.  Óttast er, að samfélög kristinna manna hverfi í löndunum tveimur, m.a. trúarhópar, sem tóku kristni á fyrstu öld eftir Krist og eiga sér því um 2000 ára sögu.  Á meðal þeirra er hópur, sem talar aramísku, forna tungumálið, sem kristur talaði.

Á yfirráðasvæðum islamistanna hafa vígamenn samtakanna drepið kristna íbúa, sem hafa neitað að snúast til islamskrar trúar.  Óttast er, að vígamennirnir hafi rænt hundruðum kristinna manna í árásum í norðurhluta landsins [Írak] í febrúar [2015].  Önnur samtök islamista, Nusra-fylkingin, er einnig talin hafa rænt kristnum prestum í Sýrlandi."

Það dylst engum, sem horfir yfir sviðið, að islamistar eru nú í jihad-hami, heilögu stríði gegn kristnum mönnum hvarvetna um heim.  Islamistaríki hafa ekki lyft litla fingri til að stöðva þessar vitfyrringslegu ofbeldisaðgerðir trúbræðra sinna, hafa ekki heyrzt fordæma þær heldur og virðast þar með styðja þær.

Aftur á móti stóð ekki á súnnítunum í Sádi-Arabíu að beita hervaldi í Jemen nú um daginn, þegar önnur grein islamista, sótti þar fram til áhrifa með hervaldi, sjítar, studdir af ajatollum í Íran. 

Í þessu ljósi ber að skoða gjörninginn í Feneyjum, þar sem íslenzka ríkið tók þátt í fjármögnun á uppsetningu mosku í afhelgaðri kirkju í þessari sökkvandi borg.  Þetta var gert í trássi við vilja borgaryfirvalda þar, sem ásamt kaþólsku kirkjunni höfðu sett skilyrði fyrir afnotum kirkjubyggingarinnar, sem þarna voru brotin. Endaði þetta með þeirri hneisu, að íslenzka sýningarskálanum í Feneyjum var lokað af yfirvöldum með skömm.

 Það er alveg dæmalaust, að íslenzka ríkið skuli með þessum hætti taka þátt í að storka kirkjunni og Feneyingum, sem um aldir bárust á banaspjótum við Ottómanaveldið, og urðu iðulega fyrir blóðsúthellingum af völdum hins ottómanska ríkis Tyrkja. 

Við þessar aðstæður eru Ísraelsmenn, þótt mannfræðilega séu skyldir aröbum, einu bandamenn vestrænna þjóða í Austurlöndum nær.  Á sama tíma hefur kastazt í kekki á milli Bandaríkjamanna, hefðbundinna bakjarla Gyðinga, og Ísraelsmanna.  Staðan í samskiptum kristinna og frjálslyndra Vesturlanda annars vegar og forstokkaðra islamista í miðaldamyrkri er einstaklega viðkvæm og flókin.  Þá er rétt af Vesturlandamönnum að átta sig á því, að yfirleitt greina islamistar ekki á milli ríkis og trúarbragða (Kemal Ataturk reyndi þó að koma á þessum aðskilnaði í Tyrklandi), og þess vegna birtist útþenslustefna islamista sem heimsyfirráðastefna, sem Vesturlandamönnum er nauðugur einn kostur að andæfa á heimavelli og alls staðar annars staðar.  

 

  

       

       

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband