Flugvöllur í klóm forræðishyggju

"Vér einir vitum - "end of discussion"(umræðum lokið)", sögðu einvaldar forðum tíð.  Núverandi borgarstjórnarmeirihluti virðist fylgja sömu hugmyndafræði gagnvart flugvellinum í Vatnsmýri, því að borgarfulltrúar meirihlutans leggja kollhúfur, þegar þeim er bent á, að með því að taka hann út af Aðalskipulagi og þrengja stöðugt að starfsemi hans, séu þeir að vinna gegn vilja greinilegs meirihluta borgarbúa og landsmanna allra. 

Það er alls ekki hægt að halda því fram, að borgarfulltrúar meirihlutans hafi verið kosnir til að eyðileggja starfsemi Vatnsmýrarvallar og þröngva honum til lokunar, því að þeir forðuðust umræður um völlinn í kosningabaráttunni.  Flærð, undirlægjuháttur og svik einkenna meirihluta Dags B. Eggertssonar í flugvallarmálinu. Munu þessi vinnubrögð verða sem myllusteinn um háls honum um ókomin ár í pólitíkinni. 

Hjálmar Sveinsson, formaður Hverfa-og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, er nú um stundir handbendi Dags, borgarstjóra, við að lama Reykjavíkurflugvöll með því að gefa út framkvæmdaleyfi til Valsmanna.  Hann kastar stríðshanzkanum í Flugvallarvini með því að halda því fram, að nokkur tími muni líða áður en þessar framkvæmdir hafi áhrif á nothæfni flugbrautar 06/24, sem nota þarf í SV- og NA-áttum, sem eru allalgengar, t.d. síðast liðinn vetur.

Þorkell Á. Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi, var borinn fyrir því í Morgunblaðinu 20. febrúar 2015, að þá þegar hafi sjúkraflugvél Mýflugs þurft á téðri Neyðarbraut að halda 12 sinnum frá áramótum. Þetta jafngildir 1,6 skiptum á viku, sem sýnir í hnotskurn, að verði flugvöllurinn sviptur þessari flugbraut, mun það hafa grafalvarlegar afleiðingar fyrir notagildi flugvallarins, lendingaröryggi sjúkraflugvéla og líf sjúklinga í lífsháska.  Hegðun Hjálmars, þessa, Sveinssonar, áhugamanns um borgarskipulag og þéttingu byggðar, og handlangari borgarstjóra í herferð hans á hendur samgöngum í lofti innanlands, er með öllu óafsakanleg, af því að hér snýst málið um líf eða dauða.

Í höfuðborgum Evrópu er ólíkt meira landleysi og hærra verð á lóðum en í Reykjavík.  Samt dettur borgaryfirvöldum þar ekki í hug að gera borg, sem er svo vel í sveit sett að hafa innan borgarmarkanna flugvöll, flugvallarlausa. Flugvöllum er e.t.v. fækkað, en að skera algerlega á tengingu höfuðborgarinnar við aðra landshluta og útlönd loftleiðis þykir hvergi borga sig né koma til mála fyrir höfuðborg. Tekjur af slíkum flugvöllum og hærra þjónustustig borgarinnar við íbúa sína og aðra íbúa viðkomandi lands þykja alls staðar vega þyngra en verðmæti landsins, sem þeir spanna, sem lóðir undir íbúðir.  Þetta krambúðarhugarfar núverandi stjórnenda Reykjavíkurborgar er þeim til minnkunar og sæmir engan veginn stjórnendum höfuðborgar. 

Í borgarstjórn Reykjavíkur er þessu öðru vísi farið en í öllum öðrum borgarstjórnum höfuðborga.  Þar sitja að völdum sérvitringar, sem hafa bitið í sig fordild, sem heitir "þétting byggðar".  Fyrir henni verður allt að víkja og þar á meðal flugvöllurinn í Vatnsmýrinni fyrir íbúðum. Þó að "þétting byggðar" sé afar óyndislegt fyrirbrigði vegna fækkunar bílastæða og grænna svæða, hávaða, titrings og þungaumferðar á meðan á framkvæmdum stendur, þá væri hún skiljanleg, ef Reykjavík mundi vanta land undir lóðir, en sú er alls ekki raunin.  Meirihlutinn í borginni vill bara fremur byggja nálægt miðborginni en í úthverfum, aðallega af umferðartæknilegum ástæðum að því, er virðist.  Það er meinloka, því að fæstir eiga að jafnaði erindi við miðborgina, heldur við vinnustað sinn og skóla barnanna, sem líklegra er en ekki, að séu báðir staðsettir utan póstnúmers 101.

Nýtt Háskólasjúkrahús við Hringbrautina mun auka umferðarálagið gríðarlega á og við Hringbraut, og þar er Vatnsmýrin í næsta nágrenni.  Það stefnir í langvarandi umferðaröngþveiti, þegar sjúkrahúsið og íbúðir í Vatnsmýrinni verða risnar.  Það er flótti, sem ekki sæmir valdhöfum í Reykjavík, að stinga hausnum í sandinn og reikna með gríðarlegri fjölgun hjólreiðafólks, sem leysa muni fyrirsjáanlegan umferðarvanda allan ársins hring.  Fyrir Háskólasjúkrahús er hins vegar flugvöllur ákjósanlegur nágranni. Fyrir fólk í neyð getur sú grennd skipt sköpum. 

Vatnsmýrin er órjúfanlega tengd flugsögu Íslendinga, sem hófst árið 1919 og er gagnmerk.  Þar eru flugskólar og flugklúbbar, og þar er miðstöð innanlandsflugs.  Að úthýsa þessari mikilvægu starfsemi jafngildir að greiða samgöngukerfi landsmanna bylmingshögg.

Hvernig dettur stjórnmálamönnum í hug að haga sér með svo yfirgengilegum fautahætti í máli, sem snertir mjög marga borgarbúa og aðra landsmenn ?  Þessir stjórnmálamenn ættu að vita, að fólki er ekki sama um flugstarfsemina í Vatnsmýrinni.  Árið 2014 voru borgarstjóranum í Reykjavík afhentar undirskriftir um 70 000 landsmanna, sem tjáðu yfirvöldum borgar og lands með undirskrift sinni þann vilja sinn, að ekki yrði hróflað við flugvellinum.  Það þýðir, að þeir vilja eindregið hafa 3 flugbrautir í Vatnsmýrinni og að flugvöllurinn verði þar áfram ótímabundið á meðan þörf er fyrir hann og annar flugvöllur leysir hann ekki af hólmi. Hið síðar nefnda verður að telja ólíklegt af flugtæknilegum og fjárhagslegum ástæðum, enda er ekki langt síðan ráðizt var í dýrt viðhald á flugbrautunum. 

Í apríl 2015 gerði MMR skoðanakönnun á meðal landsmanna um það, hvort þeir teldu verjanlegt að vængstífa völlinn og afnema eina flugbrautina, umrædda Neyðarbraut.  Niðurstaðan var með þeim hætti, að ljóst er, að sérvitringar borgarstjórnar eru að vaða út í kviksyndi ólýðræðislegra stjórnarhátta í stórmáli, þar sem þeir munu engri fótfestu ná í pólitíkinni, nema þeir láti af villu síns vegar.  Tæplega 71 % borgarbúa eru þeirrar skoðunar, að ekki skuli hrófla við Neyðarbrautinni.  Tæplega 90 % íbúa landsbyggðarinnar eru líka þessarar skoðunar.  Í ljósi þessarar niðurstöðu er fáheyrt, að stjórnmálamenn, sem eru í vinnu hjá þessu sama fólki, skuli gjörsamlega ætla að sniðganga vilja þess. "Vér einir vitum." 

Ríkisvaldið og þar með að öllum líkindum meirihluti Alþingis er andvígt því að skerða notagildi flugvallarins og draga þar með úr öryggi notenda hans og árangri sjúkraflugsins við að koma sjúklingum í tæka tíð í lækningaaðstöðu, sem ekki er fyrir hendi annars staðar á landinu en í Reykjavík.  Ríkisvaldið gerði á sínum tíma það að skilyrði fyrir því að fallast á lokun SV/NA-brautar Reykjavíkurflugvallar, að sams konar braut yrði opnuð á Keflavíkurflugvelli.  Það hillir ekkert undir hana, enda yrðu það slæm skipti, því að sjúkraflug/innanlandsflug og millilandaflug/herflug fer illa saman, svo að ekki sé nú minnzt á hagsmuni sjúklinganna, sem lending á Suðurnesjum getur skipt sköpum fyrir á verri veginn. Í stefnu núverandi stjórnvalda felst, að þau vilja áframhaldandi rekstur allra flugbrautanna þriggja í Vatnsmýrinni, og að þar verði reist sómasamleg aðstaða fyrir áhafnir, flugvallarstarfsfólk og flugfarþega.  Núverandi borgaryfirvöld eru hins vegar ákveðin í að fremja gerræðislegt óhæfuverk, sem flestir hagsmunaaðilar, nema "Valsmenn", einhverjir byggingameistarar og húsagerðarlistamenn, eru andvígir.  Þar með er allri starfseminni haldið í gíslingu, sem hefur varað lengur en góðu hófi gegnir og binda verður endi á strax.

Í ljósi þessarar alvarlegu stöðu, sem hér hefur verið rakin, á Alþingi ekki annars úrkosta en að tryggja framtíð flugvallarins að sínum hætti, svo að allir hagsmunaaðilar flugvallarins og nágrennis hans geti farið að gera áætlanir af öryggi til skamms og langs tíma. Það kunna að verða málshöfðanir út af slíkum gerningi, og verður þá fróðlegt að sjá, hvernig dómstólar taka t.d. á þeim gerningi Reykjavíkurborgar að ganga freklega á atvinnufrelsi í fluggeiranum og taka ákvörðun, sem að beztu manna yfirsýn verður til þess, að innanlandsflugið leggur upp laupana í sinni núverandi mynd.  Þar fara borgaryfirvöld offari og valda miklu tjóni á lögaðilum, sem hagsmuni hafa af flugvellinum í sinni núverandi mynd, svo að ekki sé minnzt á hagsmuni starfsfólks flugrekendanna, flugfarþeganna og flugnemendanna. Vaxandi ferðaþjónusta er undirstaða fjölgunar flugfarþega í innanlandsflugi, Grænlands- og Færeyjaflugi undanfarið.  Innanlandsfarþegarnir flytjast þá á þegar oflestað vegakerfið og valda meiri umferðarhættu og viðhaldskostnaði á vegunum, svo að mengunin sé nú látin liggja á milli hluta.

Til að árétta afstöðu stjórnvalda í þessu máli reit innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, bréf til borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, höfuðpaursins í samsærinu gegn Reykjavíkurflugvelli, þann 17. apríl 2015, þar sem hún kveður með öllu ótímabært að gefa út framkvæmdaleyfi og hefja framkvæmdir á umráðasvæði Valsmanna við Hlíðarenda. 

Niðurstaða Verkefnisstjórnar um greiningu á flugvallarkostum á höfuðborgarsvæðinu er enn á huldu. Flugtæknilega er hins vegar ekki vitað um betra flugvallarstæði en Vatnsmýrina, enda fór það val fram að vel yfirlögðu ráði á sínum tíma áður en innrásarher Stóra-Bretlands gekk á land 10. maí 1940, en sem kunnugt er hóf innrásarliðið þegar jarðvegsskipti í Vatnsmýrinni, þar sem flugbrautirnar áttu að koma.    Mælingar bentu þá þegar til, að tiltækileiki ("availability")sambærilegs flugvallar yrði hvergi meiri á höfuðborgarsvæðinu og þótt víðar yrði leitað.  Staðsetningin er einstaklega vel heppnuð.

Ólöf gat þess jafnframt í bréfi sínu, að Samgöngustofa væri enn að rannsaka afleiðingar lokunar flugbrautar 06/24, á starfsemi flugvallarins og flugöryggi.

Það hrannast upp rökin fyrir Alþingi að grípa í taumana.  Það verður jafnframt að álykta sem svo, að sveitarfélagið sé að baka sér skaðabótaskyldu bæði gagnvart Valsmönnum og flugrekendum á Reykjavíkurflugvelli með því að gefa út framkvæmdaleyfi, sem að öllum líkindum mun verða afturkallað og jafnvel dæmt ólöglegt, því að almannaheill sé stefnt í voða með því að rýra á nokkurn hátt notagildi flugvallarins.  Þá þarf ekki að orðlengja það, að almannaheill er stefnt í voða með því að taka flugvöllinn smátt og smátt út af Aðalskipulagi.

Óheillakrákur núverandi borgarstjórnarmeirihluta stefna hagsmunum Reykjavíkurborgar í óefni. Það gátu kjósendur sjálfir sagt sér, þegar þeir kusu þá, því vinstri mönnum hættir mjög til að láta stjórnast af þröngsýni og sérhagsmunum.  Þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum.  Varizt vinstri slysin.

   

   

 

 

 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Kommúnismi er ekki smíðaður handa fólki heldur stjórnendum þess. Í upphafi varð kommúnistaflokkur  og hann klofnaði og þeir klofnuðu og  klofnuðu og klofnuðu.  Svo varð sameining og hún klofnaði og klofnaði svo nú eru á þingi þrír kommúnista flokkar og svo uppsóp af dollubönkurum af Austurvelli  en í þeim stjórnleysingjum eru sömu komma genin.

Þar sem leiðin er léttust um skarðið þar fóru skinsamir og þar sem flugvöllurinn er þar lenda skinsamir.   Þar sem flugvöllurinn er þarna þá þarf ekki annan og því hægt að snúa sér að því að byggja sjúkrahús.  

Hrólfur Þ Hraundal, 22.5.2015 kl. 23:12

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Eins og þjóðvegir landsins  þá eiga megin flugvellir að vera á forsjá ríkisins, enda kostaðir af ríkinnu. 

Hrólfur Þ Hraundal, 22.5.2015 kl. 23:19

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hrólfur;

Það má fullyrða það, að sá þröngsýni valdahópur, eiginlega klíka, sem nú myndar meirihluta í borgarstjórn, án þess að stjórna þar af nokkru viti, á það sameiginlegt meö kommúnistum, sem þú nefnir hér að ofan, að fótumtroða lýðræðið.  Hún á það líka sameiginlegt með þeim að telja lýðnum fyrir fyrir beztu að vera teymdur af forystu, nómenklatúrunni, sem ráði ráðum sínum í nafni lýðsins og þar af leiðandi með lýðskrum á vörunum, en hefur í raun engan áhuga á öðru en viðhalda völdum sínum og helzt að auka þau.  Þessi öfl skriðu saman í eina sæng eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar í borginni og tóku með sér léttadreng, nytsaman sakleysingja í pólitískum efnum.  Hér er í raun um afturhaldsöfl að ræða, sem sjá ógnun við sig í einstaklingsfrelsi.  Einkabíllinn, svo að ekki sé nú minnzt á hlutdeild í lítilli flugvél, hefur verið gerður að blóraböggli valdaklíkunnar, því að lýðurinn á að nota opinber samgöngutæki, og þar af leiðandi hefur klíkan sérstaklega horn í síðu samgöngukerfis, t.d. vega og flugvalla.

Bjarni Jónsson, 23.5.2015 kl. 14:26

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni

Aldeilis frábær samantekt hjá þér.

"Flærð, undirlægjuháttur og svik" er í stuttu máli kjarni umsagnar þinnar um framgöngu Dags borgarstjóra í þessari ótrúlegu atlögu meirihlutans í höfuðborginni að stórum vinnustað, en sérstaklega þó að flugöryggi allrar þjóðarinnar.

Það sem eftir stendur, er að Dagur og Hjálmar "Wannabe" auk annara í þessum niðurrifs meirihluta geta ekki fríað sig frá fullri ábyrgð vegna vanþekkingar og skorts á aðvörunum í hvert sinn sem þessi hrapalega framkvæmd þeirra á eftir að kosta líf og limi.

Þó þessi meirihluti hljóti að fá nokkuð fyrir sinn snúð, þá er máttleysi annara en Framsóknarkvennanna í minnihlutanum til háborinnar skammar.

Jónatan Karlsson, 24.5.2015 kl. 10:29

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónatan;

Það er flotið sofandi að feigðarósi með þennan blessaða flugvöll.  Stjórnmálamenn, margir hverjir, gera sér því miður enga grein fyrir því, hversu gríðarlega verðmætur hann er, og það þarf sem fyrst að "friða" hann fyrir skemmdarvörgum með annarlegar skipulagshugmyndir, sem engan veginn eru til þess fallnar að þjóna íbúunum, heldur þjóna þær lund "amatöra", sem fyrir slysni hafa komizt til valda og hafa alltaf ætlað sér að nota völdin til að koma eigin sérvizku að, en hún er meir í ætt við "homo sovieticus" en "homo sapiens".  Ef náttúruhamfarir, t.d. eldgos, brjótast út nærri eða á höfuðborgarsvæðinu, eða vegtengingar borgarinnar rofna af einhverjum ástæðum, þá yrði öllum ljóst, hversu mikilvægt er, að borgin hafi flugvöll.  Við venjulegar aðstæður er Vatnsmýrin djásn borgarinnar með allri þeirri fjölbreytni, sem þar er nú.  Það þarf að hefja Vatnsmýrarvöll til þess vegs, sem honum ber.

Bjarni Jónsson, 24.5.2015 kl. 16:50

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Thakka góda grein. Undarlegt er athafnaleysi Althingis í thessu máli. Thad hlýtur ad thurfa ad taka á thessu fyrr en seinna, svo ekki hljótist óbaetanlegur skadi af. Herra Lubbi laeknir og Hjalli "wannabí" eiga ekki ad fá ad vada med thetta verkefni áfram eins og enginn sé morgundagurinn.

Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 24.5.2015 kl. 19:42

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Halldór Egill;

Téðir kumpánar, læknirinn og vonarpeningurinn, eru búnir að spila rassinn úr buxunum í máli, sem varðar borgarbúa og landsmenn alla mjög miklu.  Þeir eru eins og námuhestar, sem halda beint af augum, hvað sem tautar og raular.  Fyrir vikið hafa þeir glatað trausti í svo miklum mæli, að löggjafinn getur ekki látið sem ekkert sé, heldur verður að setja lög um forræði ríkisins yfir málefnum flugvalla, sem eru alþjóðavellir eða varavellir fyrir slíka.  Hönnun og skipulag þessara flugvalla fylgi með í þessari lagasetningu, svo að staðbundnir sérhagsmunir og sérvizka nái ekki að skaða almannahagsmuni.  Kærendur slíkrar lagasetningar munu ekki ríða feitum hesti frá slíkum viðskiptum.

Bjarni Jónsson, 25.5.2015 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband