Af forsetaframboði

Gríðarlegt framboð er á forsetaefnum fyrir lýðveldið Ísland árið 2024, án þess að komið verði auga á erindi flestra frambjóðendanna við embætti Bessastaðabóndans.  Túlkun margra frambjóðenda á völdum og skyldum forsetans er undarleg í mörgum tilvikum, svo að ekki sé nú tekið dýpra í árinni.  Sumir frambjóðendanna virðast hafa ruglað saman Austurvelli og Bessastöðum og ættu betur heima á Alþingi en í virðulegu embætti þjóðhöfðingjans.  Sumir frambjóðenda eru með hástemmdar yfirlýsingar um að beita sér fyrir friði í heiminum.  Embættið, sem hér um ræðir, hefur nákvæmlega ekkert vægi til slíkra verka.  Persónan í embætti forseta Íslands þarf að skilja inntak stjórnarskrárinnar út í hörgul, hafa getið sér gott orð fyrir störf sín, og hún þarf að eiga mikilvægt, raunhæft og helzt brýnt erindi við þjóð sína um þjóðþrifamál. 

Meyvant Þórólfsson, háskólakennari á eftirlaunum, hefur ritað gagnlegar og rökfastar greinar í Morgunblaðið um menntamál og þá lærdóma, sem hægt er að draga af útkomu PISA-prófanna.  Þann 13. apríl 2024 birtist skemmtileg grein eftir hann um "sjálfhverfusóttina, sem nú geisar meðal frumbyggjanna".  Hægt er að taka undir allt, sem Meyvant ber á borð með þessum skrifum.  Hann skrifar m.a.:

"Hvað hvetur svo stóran hóp ólíkra persóna til að veita okkur hinum slíkan "heiður" að velja sig sem þjóðhöfðingja með tilheyrandi kostnaði, fórnum og mögulegu mannorðstjóni ?"

Að mati þessa blekbónda hér býr hégómagirnd að baki hjá þeim, sem hafa ekkert raunverulegt erindi fram að færa við þjóðina.  Í boði er auðvitað þægilegt starf með hlunnindum og góðum launakjörum.  "Sjálfhverfusóttin" hefur orðið til þess, að fólk án forystuhæfileika og snautt af þjóðhöfðingjasnyk hefur sýnt dómgreindarleysi sitt og ofmetið hæfileika sína.  Það gildir t.d. um þau 3, sem nú tróna efst í skoðanakönnunum um fylgi við forsetaframbjóðendur.

Áfram með skeleggan Meyvant:

"Trú á eigin getu ?  Íslendingar eru vissulega [á] meðal hamingjusömustu þjóða heims, sbr skýrslu World Happiness Report, fullir af sjálfsöryggi, frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og áhugaverðum viðhorfum til spillingar.  Samkvæmt hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði er sjálfstraust grundvöllur velgengni, en innistæðulaus sjálfsánægja er varasöm.  Spilling hefur einatt leikið okkur grátt.  Jónas, heitinn, Kristjánsson tók svo til orða, að hinn dæmigerði Íslendingur hefði þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur."

Sú breyting virðist hafa orðið í tíð fráfarandi forseta á afstöðu manna til embættisins, að hver sem er geti gert lukku þar, hversu álappalegur og trúðslegur sem hann er, og hvernig sem klæðnaðurinn er. Forseti geti bara "snobbað niður á við", ef eitthvað vantar upp á virðuleikann. Það er afar ósennilegt, að hægt sé að leika þennan leik aftur og aftur.

Aðeins einn frambjóðandi er gæddur því andlega og líkamlega atgervi, sem hæfir vel og er til sóma fyrir Bessastaðabóndann, svo að þjóðin geti verið stolt af forseta sínum, en það er afar æskilegt.  Að þurfa að skammast sín fyrir forseta lýðveldisins er afleitt.

Þessi eini er jafnframt sá eini, sem segist vilja eiga áríðandi samtal við þjóðina um málefni, sem brennur honum á hjarta og sem hann hefur kynnt rækilega með skrifum sínum.  Hann skrifar þetta í auglýsingu um fundarhöld sín á 23 stöðum á landinu:

"Þess vegna gef ég kost á mér til starfans.  Ég tel, að ýmsar ógnir þöggunar og skautunar steðji að málfrelsi okkar og um leið lýðræði.  Það er afar mikilvægt, að hvert og eitt okkar hafi kjark til þess að þroska sína eigin sjálfstæðu afstöðu - og tala fyrir henni - í stað óttans, sem svo oft hvetur okkur til rétttrúnaðar og hjarðhegðunar.

Fyrir vikið er lýðveldið okkar veikara en ella, og brestir eru komnir í fullveldi þjóðarinnar.  Víða sjást merki þrýstings í formi lítt dulbúinna þvingana, ásælni og ágengni erlendra hagsmunaafla.  Íslenzkir stjórnmálamenn virðast á stundum komnir í hlutverk embættismanna og viljalausra verkfæra í höndum erlends valds.  Ég hef margsinnis tjáð mig um þessar áhyggjur mínar á undanförnum árum, bæði í sölum Alþingis og með greinaskrifum, fyrirlestrum og bókaútgáfu. 

Aðeins einn forsetaframbjóðandi gæti ritað þetta, og þess vegna sker hann sig algerlega úr framboðskraðakinu, sem er litlaust og gjörsamlega óáhugavert af mismunandi ástæðum.  Þessi frambjóðandi er gagnmenntaður, einnig erlendis, og fer hvorki með fleipur né byggir skýjaborgir.  Hann stendur með báða fætur á jörðunni, meðvitaður um, hvað er þjóðinni fyrir beztu og hefur jafnan gagnazt henni bezt.  Hann er laus við grillur um að reyna að nota forsetaembættið til að leika hlutverk á alþjóðavettvangi, sem það er í engum færum til.  Hlutverk forseta er að verja stjórnarskrána, eins og hún er á hverjum tíma (hafna lagasetningu, sem hann telur brot á stjórnarskrá), en það er hlutverk annarra að breyta henni, og það má telja hlutverk forsetans að efla skilning þjóðarinnar á þýðingu fullveldis fyrir sjálfsákvörðunarréttinn, og hvar mörkin liggja að þessu leyti í samstarfinu við aðrar þjóðir. 

Það er t.d. svo mikilvægt fyrir öryggi þjóðarinnar að vera aðili að varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO, að fullveldisafsal í því samhengi kemur ekki til álita.  Þess vegna er með öllu ótækt, að andstæðingur aðildar Íslands að NATO sitji á stóli forseta.  Það er jafnframt mjög óeðlilegt, að forseti lýðveldisins fari að predika undir rós, að Íslendingar ættu að leita aftur hófanna um inngöngu í Evrópusambandið, því að slíkt fullveldisframsal er óleyfilegt samkvæmt núverandi stjórnarskrá. 

Nú verður áfram vitnað í Meyvant:

 "Að mati undirritaðs er Arnar Þór Jónsson sá frambjóðandi, sem hefur burði til að mæta erfiðum úrlausnarmálum að hætti Sveins Björnssonar.  Hann er staðfastur og laus við "hégómlegar hugargælur", sbr orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur um sjálfhverfa frambjóðendur.  Og hann sækist sízt af öllu eftir sviðsljósinu, svo [að] notuð séu hans orð.

Rök Arnars fyrir ákvörðun um framboð eru skýr og sannfærandi.  Fulltrúalýðræðið hefur að hans mati veikzt í mikilvægum málum og því brýnt að efla beint lýðræði.  Sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar stendur ógn af síbreytilegri túlkun EES-samningsins og um leið vaxandi afskiptum ESB o.fl. alþjóðlegra stofnana.  Arnar hefur t.d. bent á skert raforkuöryggi vegna evrópskra tilskipana, hættur, sem stafa af bókun 35, og síðast en ekki sízt þá undarlegu skoðun tiltekinna ráðamanna hér, að ástæðulaust sé, að almenningur tjái sig um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu." 

Forseti með skoðanir Arnars Þórs mun brýna Alþingismenn, hvar í flokki, sem þeir standa, á að standa vörð um fulltrúalýðræðið með því að vanda vel til verka, hvort sem í hlut eiga þingsályktanir, þingmannafrumvörp, frumvörp frá ríkisstjórninni eða löggjöf frá ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd ESB og EFTA hefur samþykkt til lögleiðingar í EFTA-löndunum þremur.  Í lýðræðisríki þarf að ríkja nokkurt jafnræði með öllum þremur greinum ríkisvaldsins.  Þetta er hárfínt mat, og enginn núverandi frambjóðenda til forsetaembættisins er betur fallinn til eftirlits með slíku en Arnar Þór Jónsson.

"Fjórða valdið hefur ekki verið Arnari hliðhollt. Ríkismiðillinn RÚV hefur ítrekað hneigzt til að veikja málstað hans, tvívegis með hæðni í Fréttum vikunnar hjá "fyndnasta föstudagssófa" veraldar og að auki með samtölum við valda álitsgjafa um niðurstöður samkvæmisleiks Prósents.  Miðvikudagskvöldið 3. apríl [2024] tilgreindi svo stjórnandi Kastljóssins þau Jón Gnarr, Höllu Tómasdóttur og Baldur Þórhallsson sem "sterka" frambjóðendur auk Katrínar Jakobsdóttur. Vill þjóðin, að RÚV segi henni, hverjir komi til greina sem forsetaefni ?"   

Þegar einhverjum fréttabörnum þóknast að láta ljós sitt skína í stað þess að tíunda með hlutlægum hætti nýja atburði, þá er nú ekki eins og Guð, almáttugur, sé þar á ferð.  Erindi allra þessara háttvirtu frambjóðenda, ef eitthvert er, bliknar fullkomlega í samanburði við erindi þess frambjóðanda, sem við Meyvant Þórólfsson viljum sjá fyrir enda Ríkisráðsborðsins á komandi kjörtímabili forseta lýðveldisins.  


Bloggfærslur 19. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband