Færsluflokkur: Fjármál

Strandkapteinn hverfur frá borði

Reykvíkingum og landsmönnum öðrum má vera ljóst, að fjármálamarkaðurinn er hættur að treysta því, að Reykjavíkurborg geti staðið í skilum með fjárhagslegar skuldbindingar sínar.  Að lána höfuðborg landsins undir stjórn Samfylkingarborgarstjóra er að taka áhættu með stórfelldar afskriftir lána.  Fjármál borgarinnar hafa tekið allt aðra stefnu en fjármál tveggja næstu sveitarfélaganna að stærð, Kópavogs og Hafnarfjarðar, enda eru bæjarstjórar þar sjálfstæðismenn og fylgja þar af leiðandi sjálfbærri fjármálastefnu, en hjá meirihluta borgarstjórnar rekur allt á reiðanum, stjórnkerfið lamað, óreiðan alger og ráðleysið sömuleiðis. Þar fer höfuðlaus her.

Það er þó ekki nóg með þessa ömurlegu stöðu, heldur hafa heybrækurnar í meirihlutanum, sem leiddur hefur verið lengi af Samfylkingunni, ekki enn þá mannað sig upp í að greina borgarbúum satt og rétt frá stöðunni.  Borgarstjóri stingur höfðinu í sandinn við óþægilega atburði eins og að fá alvarlegar athugasemdir frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og talar um "rútínubréf".  Það eru ill örlög Reykvíkinga að þurfa að lúta stjórn svo dáðlauss borgarstjóra.  Þar er alger "gúmmíkarl" á ferð, og hætt er við, að á landsvísu sé staðan engu skárri hjá Samfylkingunni.  Þar vantar hryggjarstykkið.  

Það, sem heyrzt hefur frá borgarstjóra, er, eins og vænta mátti, að kenna öðrum um.  Hann kennir verðbólgunni um og kostnaði við fatlaða.  Þegar frammistaða borgarinnar er borin saman við næstu sveitarfélög í stærðarröðinni, fellur þessi hráskinnaleikur Samfylkingarborgarstjórans um sjálfan sig. Ef frammistöðuvísitölur eru settar á 100 árið 2014 og þær kannaðar árið 2022, sést, að vísitala skulda A-hluta borgarsjóðs hafði hækkað í 194, bæjarsjóðs Kópavogs í 107 og bæjarsjóðs Hafnarfjarðar í 109.  Sú síðast nefnda hafði lækkað síðan 2020.

Vísitala skulda á hvern íbúa Reykjavíkur hefur farið stöðugt hækkandi og var 169 árið 2022, en hún hefur lækkað í Kópavogi í 89 í Hafnarfirði í 98.  Þessi seinni vísitala sýnir, að fjármál Reykjavíkur eru ósjálfbær - stjórnlaus, en í báðum hinum bæjarfélögunum er þeim stjórnað í æskilegan farveg. 

Umfjöllun Viðskipta Moggans 12.04.2023 sýndi svart á hvítu, að markaðurinn er búinn að gera sér grein fyrir þessu og hefur afskrifað Reykjavíkurborg sem traustvekjandi skuldara.  Þegar lánalínur borgarinnar í bönkum verða upp urnar, mun styttast mjög í greiðsluþrot borgarinnar, og henni verður þá væntanlega skipaður tilsjónarmaður.  Um svipað leyti mun strandkapteinn Samfylkingarinnar hverfa frá borði, enda verri en enginn, þegar á reynir.

"Viðmælendur ViðskiptaMoggans telja auðsýnt, að ástæða þess, að borgin hefur nú í tvígang fallið frá útboði, sé, að ekkert bendi til þess, að eftirspurn eða kjör á markaði hafi batnað, frá því [að] borgin greip því sem næst í tómt á markaði í síðasta útboði.  Ætla megi, að vænt áhugaleysi á fyrirhugaðri útgáfu myndi reynast borginni niðurlægjandi, enda felist í því ákveðið vantraust á fjárhagsstöðu hennar og greiðslugetu.  Síðasta skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar fór fram í febrúar [2023], en þá reyndist eftirspurn dræm, og þau kjör, sem buðust, þóttu síður en svo gæfuleg."

Þetta þýðir í raun, að skuldabyrði borgarinnar er orðin henni ofviða.  Veltufé frá rekstri er of lítið, til að hún geti staðið undir fjárhagsskuldbindingum sínum, og þá reynir hún að fleyta sér áfram á lánum.  Hvers vegna ?  Bíður Samfylkingarfólkið og meðreiðarpakkið eftir kraftaverki til að komast hjá þeirri niðurlægingu, að Samfylkingin verði dæmd í sögunni sem sá stjórnmálaflokkur, sem rústaði stjórnkerfi borgarinnar, kom þar að getulitlum og sérlunduðum pólitískum silkihúfum og hefur nú keyrt höfuðborg landsins í fjárhagslegt þrot ? 

Það má vissulega segja, að nú sé hún Snorrabúð stekkur, því að fyrir um 30 árum, áður en ruglið hófst í borgarstjórn, stóð fjárhagur borgarinnar í blóma, þar var mikið framkvæmt, og borgin var eftirsótt starfsstöð fyrirtækja og sem sveitarfélag til að stofna heimili í og búa í.  Allt ber þetta stjórnarháttum Samfylkingarinnar ömurlegt vitni.  Fyrir þá á hún flengingu skilda frá kjósendum.  Svona gera menn ekki. 

Borgin hyggst á fyrri hluta 2023 fá lánveitendur til að lána sér mrdISK 21 bæði með skuldabréfaútgáfu og bankalánum.  Á þetta fé að fara í arðbærar framkvæmdir eða til að borga vexti og afborganir lána, sem eru ódýrari en það, sem borginni býðst nú ?  Það er engin leið að sjá, að nokkur glóra sé í að íþyngja borgarsjóði æ meir.  Hann er nú þegar ósjálfbær. Stöðva verður skuldasöfnunina. Samfylkingin hefur stefnt fjárhag borgarinnar í slíkar ógöngur, að hún verður nauðug viljug að selja eignir til að létta á skuldabagganum.  Hvað skyldi verða fyrir valinu ?  Orkuveita Reykjavíkur ?

 

  


Samfylkingin sinnir almannahagsmunum með ömurlegum hætti

Segja má, að víðast hvar á landinu, þar sem brölt Samfylkingarinnar hefur skilað liðsmönnum hennar í stjórnunaraðstöðu, hafi hagsmunamál almennings í byggðarlaginu þróazt mjög til verri vegar og fjármálin snarazt undir kvið drógarinnar. Verst og afdrifaríkast er þetta í stærsta sveitarfélaginu, en þar hefur verið rekin sérvizkuleg, raunar fávísleg skipulagsstefna, sukk og svínarí, sem nú virðist ætla að enda með skipbroti og greiðsluþroti borgarsjóðs. Það er saga til næsta bæjar. Í Reykjavík hefur læknir með strútsheilkenni farið með völdin fyrir hönd Samfylkingarinnar í meira en áratug með grafalvarlegum afleiðingum fyrir borgarbúa og landsmenn alla. Þessu ættu landsmenn að gefa gaum, þegar þeir íhuga stuðning við stjórnmálaflokka á landsvísu og staðbundið.  Vítin eru til þess að varast þau. 

Morgunblaðið hefur gert óstjórninni í Reykjavík rækileg skil í leiðurum, enda þar á bæ kunnáttumenn um málefni Reykjavíkur og fjármál almennt.  Einn slíkur leiðari birtist 14. apríl 2023 og hét:

"Afneitun borgarstjóra".

Þar stóð m.a.:

"Því trúir enginn lengur, nema mögulega borgarstjóri sjálfur, sem lætur augljósar staðreyndir og opinberar aðfinnslur sem vind um eyru þjóta.  Jafnvel umsögn borgarinnar sjálfrar árið 2020: "Vandinn snýst [...] ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda, heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára.". 

Afleiðingarnar blasa nú við, þó [að] sennilega muni þær reynast enn kaldranalegri við birtingu ársuppgjörs borgarsjóðs undir lok þessa mánaðar [apríl 2023].  Allt bendir til þess, að enn frekar og hraðar hafi sigið á ógæfuhliðina síðustu mánuði. 

Skýr vísbending um það kom á þriðjudag [11.04.2023], þegar Reykjavíkurborg læddi út tilkynningu að loknum starfsdegi um, að fyrirvaralaust væri hætt við annað skuldabréfaútboð hennar í röð, en borgin hyggst afla sér mrdISK 21 á fyrri hluta ársins [2023] með þeim hætti. Á því komu engar skýrar skýringar, en augljóst er, að borgin óttaðist, að henni byðust aðeins niðurlægjandi afarkjör.  Hversu lengi hún getur afþakkað þau án þess að eiga greiðsluþrot á hættu, er önnur saga."

Nú er öldin önnur en þá er Gaukur bjó á Stöng.  Sú var tíðin, að Reykjavíkurborg var orðlögð fyrir góða og trausta fjármálastjórn.  Þá stjórnuðu sjálfstæðismenn málefnum hennar, og þá var enginn fíflagangur á ferð á borð við lokun Reykjavíkurflugvallar, þéttingu byggðar, þrengingar gatna, risavaxið strætókerfi staðsett á miðjum núverandi akbrautum, sniðið að útlendum fyrirmyndum við ósambærilegar aðstæður, snjóruðningsviðbúnaður vanbúinn og stjórnlaus (og vitlaus), lóðahörgull og lóðaokur og svo mætti lengi telja.  Nú er Samfylkingarfólk í forystu borgarinnar ásamt auðsveipum liðleskjum búið að keyra málefni höfuðborgarinnar gjörsamlega út í eitt fúafen.  Þetta flokksafstyrmi, sem segir eitt og gerir annað, talar fjálglega um opna stjórnsýslu, en stundar meiri leyndarhyggju og þöggun umræðu en nokkur annar. Samfylkingarpótintátinn Dagur B. Eggertsson hefur brugðið upp Pótemkíntjöldum kringum fjármál borgarinnar og jafnan látið sem allt sé í himnalagi.  Að afneita staðreyndum er einkenni þeirra, sem búnir eru með andvaraleysi og mistökum að klúðra málum og hafa enga burði til að greiða úr þeim.  Eftirmæli þessa borgarstjóra Samfylkingarinnar verða ömurleg.

Þetta er ekki pólitískt tuð sjálfstæðismanna, ætlað til að koma höggi á Samfylkinguna.  Nei, þetta er dómur markaðarins.  Markaðurinn stingur ekki hausnum í sandinn, heldur greinir stöðuna af vandvirkni og kemst að þeirri niðurstöðu, að áhættan við að kaupa skuldabréf af borginni sé meiri en við flest önnur viðskipti hérlendis nú um stundir, og neitar að eiga í þessum viðskiptum, nema gegn niðurlægjandi háu áhættuálagi.  Þegar svona er komið, er orðið stutt í lokadóminn yfir starfsháttum Samfylkingarinnar og liðsodda hennar. Vilja menn þetta í landsmálin ? 

"Hinar hrollvekjandi staðreyndir málsins birtust með enn eindregnari hætti í bréfi, sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi til borgarstjórnar í lok febrúar [2023] vegna fjárhagsáætlunar fyrir 2023, þar sem fram kom, að borgin uppfyllti ekki lágmarksviðmið fyrir A-hluta rekstrar hennar.  Þar skeikar miklu.

Fyrir sitt leyti er borgarstjóri enn í afneitun, en í viðtali við mbl.is sagði hann:

"Þetta er bara rútínubréf frá eftirlitsnefndinni."  

Þessi orð þarf borgarstjóri að skýra betur og án tafar.  Hafa Reykjavíkurborg borizt mörg slík bréf frá eftirlitsnefndinni ?"  

Sú tilhneiging borgarstjórans að slá bara hausnum við steininn, þegar hann stendur frammi fyrir krefjandi og jafnvel óþægilegum viðfanfsefnum, fer langt með að útskýra þær ógöngur, sem borgina hefur rekið í. Skútan er í raun stjórnlaus.  Þar er enginn "skipper", bara gúmmíkarl á launum hjá borgarbúum án þess að skila neinu, sem ætlast mætti til af honum. Það er stórhættulegt að hafa svona lyddur við stjórnvölinn, en þetta er eftirlæti Samfylkingarinnar. 

Engum dettur í hug, að fréttamaðurinn fyrrverandi af RÚV snúi stöðunni hratt við.  Það er þó hægt, eins og dæmið frá Árborg 2010 sýnir. Þar höfðu Samfylkingin o.fl vinstri spekingar gengið allt of hratt um gleðinnar dyr, farið óvarlega með fé, svo að sveitarfélagið var komið í klær téðrar eftirlitsnefndar.  Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá hreinan meirihluta þar og viti menn; hann sneri stöðunni við á einu ári með sársaukafullum aðgerðum, sem voru þó nauðsynlegar.  

Aftur gerðist hið sama í Árborg.  Það er engu líkara en Samfylkingin megi ekki koma nálægt stjórnvelinum, og aftur hafa sjálfstæðismenn forgöngu um að koma lektunni á réttan kjöl. Þeir vita, að skilningur og heiðarleg upplýsingagjöf til íbúanna er grundvöllur úrbótanna, og þess vegna var haldinn íbúafundur í Árborg til að útskýra stöðuna.  Öðru vísi ferst leyndarhyggjuflokkinum Samfylkingunni í Reykjavík, eins og reifað var í téðri forystugrein Morgunblaðsins:

"Í bréfi eftirlitsnefndar kom fram, að fjalla þyrfti um það í borgarstjórn.  Þrátt fyrir að umræddir 2 mánuðir verði liðnir 28. apríl [2023], hefur efni þess ekki enn verið tekið á dagskrá borgarstjórnar, en hún kemur saman næsta þriðjudag [18. apríl 2023], svo [að] enn er von."

Það er ekki nóg með, að stefna Samfylkingarinnar leiði til glötunar, heldur eru vinnubrögðin afkáraleg og kolómöguleg.  Ekkert hefur í þessum efnum breytzt með tilkomu nýja formannsins beint úr bankanum.  Kristrún Frostadóttir, sem nú er í foreldraorlofi, virðist ekki hafa nægt bein í nefinu til að knýja Samfylkjarana til sómasamlegra vinnubragða.  Samfylkingarfólkið í borgarstjórn hefur lagt sig í framkróka við að fegra ömurlega fjárhagsstöðu og látið hjá líða í lengstu lög að gæta þeirrar lýðræðislegu skyldu sinnar að ræða fjárhagsstöðuna á hinum rétta opinbera vettvangi, sem er borgarstjórnin.  Þar með ljóstar Samfylkingin upp um sitt rétta eðli, sem er leyndarhyggja og hrossakaup á bak við luktar dyr.  Tal forsprakkanna um, að flokkurinn vilji hafa allt uppi á borðum og stjórna fyrir opnum tjöldum, er froðusnakk helbert.  Það er einkenni spilltra stjórnmálaflokka að reyna að telja kjósendum trú um, að flokkurinn standi fyrir einhver allt önnur gildi en reynslan sýnir, að eru í öndvegi þar.  Þannig er það líklega bara pólitískt "trix" hjá nýja formanninum að flíka ekki lengur trúaratriðinu um að halda áfram aðlögunarferlinu fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu.  Samfylkingunni er ekki unnt að treysta fyrir horn.  

 

 

 

 


Þróun fjárfestinga í fiskeldi

Nöldrarar, sem allt hafa á hornum sér, en leggja lítið vitrænt til mála, hafa gagnrýnt norskt eignarhald á fyrirtækjum, sem stunda laxeldi í sjó hér við land. Staða þeirra mála er þó að því leyti sambærileg við orkukræfa málmframleiðslu landsins, að lífvænlegur stóratvinnurekstur á þessu sviði hefði aldrei orðið barn í brók án fjárfestinga erlendra þekkingarfyrirtækja á þessum sviðum atvinnurekstrar. Í tilviki laxeldisins urðu Norðmenn fyrir valinu í krafti umsvifa sinna við Norður-Atlantshafið, og af því að þeir voru þá þegar í útrás. (Minnir dálítið á landnám Íslands.) 

 Laxeldið er fjármagnsfrekt, og til að fjárfestingar nýtist, þarf framleiðsluþekkingu, sem reist er á vísindalegum rannsóknum og reynslu af rekstri eldiskera við fjölbreytilegar aðstæður.  Það þarf líka markaðsþekkingu, bæði fyrir aðföng og afurðir.  Þessa grunnþætti til árangurs skorti hérlendis, þegar Norðmenn hófu uppbyggingu sína hér, og síðast en ekki sízt skorti hér fjármagn, því að lánstraust innlendra aðila, sem fengizt höfðu við starfsemina, var ekki fyrir hendi hjá innlendum lánastofnunum. 

Gagnrýni á erlent eignarhald er þess vegna gagnrýni á uppbyggingu þessarar efnilegu starfsemi í heild sinni.  Af henni hefði alls ekki orðið án erlends eignarhalds.  Úrtöluraddirnar eru eins og venjulega á vinstri kanti stjórnmálanna, en þar liggja málpípur Evrópusambands aðildar Íslands á fleti fyrir, sbr umsókn ríkisstjórnar Samfylkingar og VG 2009.  Þarna er á ferðinni einhvers konar pólitískur geðklofi, þegar kemur að erlendum fjárfestingum.   

Í Morgunblaðinu 18. marz 2023 birtist afar greinargóð baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar um þetta efni undir fyrirsögninni:

"Hlutur íslenzkra fjárfesta eykst".

Fréttin hófst þannig:

"Íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að koma sterkt inn í laxeldi.  Með því eykst hlutur Íslendinga í vissum félögum verulega.  Með kaupum Ísfélags Vestmannaeyja á hlut í eignarhaldsfélagi um meirihlutaeign í Ice Fish Farm á Austfjörðum á félagið 16,44 % hlut í félaginu og íslenzkt eignarhald [þá] komið upp í um 42 %.  Síldarvinnslan á rúmlega þriðjung í Arctic Fish á Vestfjörðum.  Þá eiga íslenzk útgerðarfélög eða hafa átt að fullu vaxandi fiskeldisfyrirtæki eins og Háafell í Ísafjarðardjúpi og Samherja fiskeldi.  Íslenzkir lífeyrissjóðir, sérstaklega Gildi, hafa verið að fjárfesta í fiskeldi.

Rökrétt virðist, að sjávarútvegsfyrirtæki, sem búa við kvótaþak og ýmsar takmarkanir, og í ljósi þess, að ekki eru líkur á auknum veiðum, hugi að fjárfestingum í fiskeldi.  Nokkur ár eru síðan framleiðsla eldisfisks í heiminum varð meiri en veiðar skila á land og ljóst, að heimurinn hefur þörf fyrir aukna matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum. 

Sigurður Pétursson, stofnandi Lax-inn, fræðsluseturs í fiskeldi, telur það jákvætt fyrir íslenzkt fiskeldi að fá sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri íslenzka fjárfesta í hluthafahópinn.  Það sé gott fyrir ímynd atvinnugreinarinnar, sem gagnrýnd hefur verið fyrir erlent eignarhald.  Það hafi ekki síður þýðingu, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi þekkingu á og reynslu af fullvinnslu og sölu sjávarafurða, sem geti nýtzt fiskeldinu."

Ímynd fyrirtækja vegna eignarhalds verður varla í askana látin.  Meira virði eru samlegðaráhrifin, sem af þessum innlendu fjárfestingum hljótast.  Það er ekki hægt að hugsa sér eðlilegri íslenzka fjárfesta í laxeldinu, hvort sem er í sjó við Ísland eða á landi, en íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin.  Það er t.d. vegna tækniþróunar þeirra á sviði fullnýtingar hráefnisins, tilreiðslu og pökkun og markaðssetningar.  Það er líklegt, að einhverjir viðskiptavina þeirra vilji líka kaupa íslenzkan eldislax.  Að geta boðið hann styrkir markaðsstöðu íslenzku sjávarútvegsfyrirtækjanna í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar.  Þessi samlegðaráhrif munu styrkja íslenzkan þjóðarbúskap, því að framleiðnin getur vaxið og afurðaverð jafnvel hækkað fyrir vikið. 

"Aðild stórs framleiðanda fiskimjöls og lýsis að fiskeldisfyrirtæki, sem notar mikið fóður, er einnig rökrétt skref í þróun sjávarútvegsfyrirtækjanna.  Megnið af fóðrinu, sem notað er í sjóeldi hér á landi, er framleitt í Noregi, m.a. úr hráefni frá íslenzkum framleiðendum. Það hlýtur að vera skynsamlegra út frá umhverfissjónarmiðum og hagkvæmara að framleiða fóðrið hér á landi.  Síldarvinnslan á meirihlutann í stærstu fóðurverksmiðju landsins, Laxá á Akureyri, og tilkynnti á síðasta ári, að fyrirtækið og fóðurframleiðandinn BioMar Group hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um að byggja fóðurverksmiðju hér á landi." 

Fjárfestingar íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja í fiskeldisfyrirtækjum hérlendis opna möguleika á innlendri samþættingu allrar framleiðslukeðju fiskeldisins.  Það er verðugt stefnumið að samþætta framleiðslukeðju laxeldisins innlendum iðnaði, og það ætti vissulega að verða þekkingargrundvöllur í landinu til þess, því að aðgangur að framleiðslutækni og framleiðsluleyfum batnar til muna við tengt eignarhald. Samkeppnisgrundvöllurinn ætti og að vera fyrir hendi vegna mun minni flutningsþarfar innlendrar framleiðslu.

Aðeins rafkynt framleiðsla þessa mjöls kemur til greina, og þar rekst iðnaðurinn enn og aftur á þá nöturlegu staðreynd í landi náttúrulegrar og endurnýjanlegrar orkugnóttar, að raforku vantar fyrir nýja notendur. Engu er líkara en hin forpokaða og glórulausa skoðun Landverndar, að nóg sé komið af virkjunum og flutningslínum, af því að raforkunotkun á mann sé hér meiri en annars staðar, tröllríði húsum leyfisveitingavaldsins á Íslandi, svo að hér ríkir nú raunverulega "virkjanastopp".  Þetta er ömurlegt sjálfskaparvíti, þar sem hvorki Landsvirkjun né orkuráðherrann hafa uppi sjáanlega tilburði til lausnar. Sérvizka og beturvitablæti Landverndar o.fl. kostar samfélagið nú þegar tugi mrdISK/ár í beinum útgjöldum og glötuðum atvinnutækifærum.  Þetta er óviðunandi með öllu og ábyrgðarleysi af Alþingi og stjórnvöldum að láta þetta viðgangast.  

Þessari fróðlegu baksviðsgrein lauk þannig:

"Fyrirtækin, sem eru að byggja upp landeldisstöðvöðvar, eru í fjármögnunarferli og þess vegna óvíst um endanlegt eignarhald.  Samherji fiskeldi hefur verið hreint dótturfélag Samherja.  Það var gert að sjálfstæðu félagi vegna fjárfrekrar uppbyggingar á Reykjanesi og víðar. Í tengslum við mrdISK 3,5 hlutafjáraukningu var tilkynnt um, að Alf-Helge Aarskog, fyrrverandi forstjóri Mowi, hefði tekið þátt í hlutafjáraukningunni og verið kosinn í stjórn.  

Fjárfestingafélagið Stoðir er stærsti einstaki hluthafinn í Landeldi með um þriðjungs eignarhlut, en Landeldi er að byggja stóra stöð í Þorlákshöfn.  Stofnendur félagsins og starfsmenn eru enn með meirihluta hlutafjár á sínu valdi.  Virðast stjórnendur horfa meira til íslenzkra fjárfesta en erlendra.  Íslenzk og sænsk félög, sem tengjast Aðalsteini Gunnari Jóhannssyni, athafnamanni, eru eigendur að Geo Salmo, sem er að undirbúa landeldisstöð í Þorlákshöfn.  Félagið lítur til norskra fjárfesta og íslenzkra í þeirri vinnu við fjármögnun, sem nú stendur yfir, að því er fram hefur komið í Morgunblaðinu. 

Icelandic Land Farmed Salmon (ILFS), sem er að byggja landeldisstöð í Vestmannaeyjum, er í eigu fjölskyldu úr sjávarútvegi í Eyjum, sem ætlar að taka fyrstu skrefin í verkefninu, hvað svo sem síðar verður."

Það er ótrúlega mikill áhugi á meðal innlendra fjárfesta á landeldi laxins.  Það virðist samt vera á brattann að sækja með fé, enda vextir alls staðar óvenju háir, verkefnin fjármagnsfrek, rekstrarkostnaður hár og lítil tæknileg reynsla af þessum rekstri. Óvissa um arðsemi er þess vegna fyrir hendi.  Markaðirnir munu hins vegar reynast gjöfulir.  Einkar athyglisvert er, að tekin er sú áhætta að reisa landeldisstöð í Vestmannaeyjum í ljósi mikillar raforkuþarfar og þarfar á hitaveituvatni.  Þessi starfsemi krefst mikils áreiðanleika í afhendingu hvors tveggja, en hörgull hefur verið á þessum gæðum í Vestmannaeyjum, sem þó stendur til bóta.  Raforkuafhending til þessarar starfsemi verður að lúta (n-1) reglunni, sem þýðir, að stærsta einingin má falla úr rekstri án þess afhending verði rofin, nema örstutt.

Það verður tæplega jafnarðsamur rekstur í landeldi og í sjóeldi, en viðskiptahugmyndin er virðingarverð og áhugaverð í ljósi próteinþarfar heimsins, einkum þar sem áreiðanlegur aðgangur er að rafmagni og heitu vatni.  Vindrafalaraforka kemur hér ekki til greina.     

 


Meinsemdin er kratismi úr hófi fram

Nýlega vakti 1. þingmaður Suðurkjördæmis þarfa og tímabæra athygli á meinsemd í hagkerfinu, sem er offjölgun opinberra starfsmanna, ríkis og sveitarfélaga. Það er samhengi á milli þessarar offjölgunar og mikils hallarekstrar á ríkissjóði og sjóðum margra sveitarfélaga.  Í síðari hópnum vegur borgarsjóður þyngst.  Í Reykjavík hefur Samfylkingin farið með stjórnartaumana í meira en áratug í mismunandi samkrulli.  Óstjórnin er þar verri en í nokkru öðru sveitarfélagi, og nú hótar Samfylkingin að halda með gjaldendur í Reykjavík og reyndar skattgreiðendur alla í landinu út á algert fjárhagslegt og tæknilegt forað, sem hún kallar Borgarlínu.  Borgarlína Samfylkingarinnar er óskapnaður, sem enginn innlendur samgönguverkfræðingur hefur sézt mæla með.  Fær og reyndur samgönguverkfræðingur hefur hins vegar gagnrýnt Borgarlínufyrirkomulagið eindregið og bent á aðra eðlilegri og ódýrari leið.  Borgarlína Samfylkingar verður sorgarlína og mikill baggi á rekstri Reykjavíkur og sveitarfélaganna, sem þátt í glapræðinu taka, mun auka hallarekstur ríkissjóðs og tefja stórlega arðsamar og nauðsynlegar framkvæmdir á samgöngusviði um land allt. 

Fjöldaframleiðsla fólksbílsins var mikið framfaraskref, sem gerði almenningi kleift að eignast vélknúinn fararskjóta og fara sínar eigin leiðir.  Í samanburði við einkabílinn eru strætisvagnar og sporvagnar/járnbrautarlestir óttalegt neyðarbrauð í þéttbýli, nema þar sem gatnakerfið er yfirlestað og rými er ekki fyrir hendi til útvíkkunar.  Við slíkar aðstæður hefur verið lagt neðanjarðar sporvagnakerfi eða jafnvel einteinungar ofanjarðar.  Hér hefur hin andframfarasinnaða og bílfjandsamlega Samfylking beitt sér fyrir því að oflesta samgöngukerfið með því að þvælast fyrir lögn Sundabrautar með skipulagslegum skemmdarverkum og með því að taka hagkvæmustu framkvæmdir til afkastaaukningar samgöngukerfisins, mislæg gatnamót, út af aðalskipulagi Reykjavíkur, svo að ekki sé minnzt á kjánalegar þrengingar gatna (fækkun akreina) og krúsídúllur.  Hér er um forheimskulega stjórnvaldsaðgerð að ræða, sem gerð er í blóra við vilja Vegagerðarinnar, sem sjá mundi um  nauðsynlegar umbótaframkvæmdir á borð við Sundabraut og mislæg gatnamót.  

Menn geta nú rétt ímyndað sér, hvers konar fíflagangur yrði uppi á teninginum, ef þetta krataóbermi (Samfylkingin) kæmist að kjötkötlum ríkisins.  Alls konar vitleysa fengi að viðgangast, vanhugsuð gæluverkefni, og ríkið mundi þenjast enn meira út með ráðningum út og suður, lamandi skattahækkunum á hagkerfið og samt skuldasöfnun ríkissjóðs. Þjóðin kannast við tilburði Samfylkingarinnar.  Þar á bæ er hegðunin þannig, að þau virðast halda að fyrirtæki og heimili séu bara mjólkurkýr hins opinbera. Þar sem Samfylkingin er við völd, þar er hætt við sukki og svínaríi. 

Þann 27. febrúar 2023 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Alþingismann, sem áður var getið, undir fyrirsögninni:

"Sláandi tölur, sem kalla á umræðu".

Hún hófst þannig:

"Opinberum starfsmönnum fjölgaði um 11.400 á árunum 2015-2021 eða um 21,4 %.  Á sama tíma fjölgaði starfsfólki á almennum vinnumarkaði um 4.200 eða um 3 %." 

Þetta er órækt dæmi um ofþenslu hjá hinu opinbera, sem á hlut í miklum hallarekstri ríkissjóðs og margra sveitarfélagssjóða. Hinn mikli hallarekstur er einn af efnahagsþáttunum, sem kyndir undir of mikilli verðbólgu nú um stundir.  Prófessor emeritus í hagfræði við HÍ, Ragnar Árnason, kallar núverandi verðbólgu eftirspurnarverðbólgu, enda varð gríðarlegur hagvöxtur í fyrra, 2022, eða yfir 6 %. Það ríkir þensla í hagkerfinu og talsverð spurn eftir vinnuafli, jafnvel umfram framboð á ýmsum sviðum.  Hallarekstur og skuldasöfnun opinberra  aðila virkar sem olía á eldinn við þessar  aðstæður.

Núverandi verðbólga á Íslandi er samsett fyrirbrigði, enda er há verðbólga í helztu viðskiptalöndum, t.d. yfir 10 % á Bretlandi, og í nokkrum löndum evrusvæðisins er hún um og yfir 20 %. Hérlendir loddarar, einkum áhugamenn um ESB-aðild Íslands, hafa flíkað hreinni vanþekkingu og/eða vísvítandi blekkingu um það, að innleiðing evru sem lögeyris á Íslandi myndi virka sem töfrasproti til að þrýsta verðbólgu og vöxtum á Íslandi niður í þýzk gildi.  Þetta er bull og vitleysa.  Landsmenn verða sjálfir að koma jafnvægi á fjárhagsbúskapinn hjá sér og efla útflutningsgreinarnar og eigin framleiðslu til að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd skili aftur drjúgum (jákvæðum) afgangi.  

Það er hættulegt villuljós, sem vinstri sinnaðir og yfirborðskenndir hagfræðingar hafa undanfarið haldið á lofti hérlendis, t.d. á Gufunni (RÚV-1), að launahækkanir innanlands umfram launahækkanir í helztu viðskiptalöndum okkar hafi lítil áhrif á innlenda verðbólgu.  Þar sem 2/3 hlutar verðmætasköpunar fyrirtækjanna fara í launakostnað, eins og hérlendis, sem er eitt hæsta þekkta hlutfall í þessum efnum í heiminum, verður að mæta raunlaunahækkunum með framleiðniaukningu í sama mæli.  Annars neyðast fyrirtækin til að velta aukningunni út í verðlagið og samkeppnishæfni þeirra mun versna að sama skapi, einkum við innflutning og á erlendum mörkuðum.  Þetta veikir viðskiptajöfnuðin, sem fellir verðgildi ISK, og slíkt kyndir undir verðbólgu.

"Mesta athygli vekur nefnilega sú niðurstaða, að störfum í opinberri stjórnsýslu hafi fjölgað mest.  Þar bættust við 4.600 starfsmenn á árunum 2015-2021, sem jafngildir fjölgun um 60 % !"

Það er ei kyn, þótt keraldið leki.  Þetta er ósjálfbær fjölgun, því að hún er baggi, sem dregur úr lífskjarasókn í landinu, þar sem þessi mikla fjölgun er langt umfram fjölgunina í einkageiranum, sem stendur undir kostnaðinum af hinum.  Byrði einkageirans af hinum opinbera þyngist, og er hún þó nú þegar á meðal þeirra þyngstu í Evrópu.  Þess vegna þarf nú að vinda ofan af þessari óheillaþróun og útvista verkefnum frá hinu opinbera til einkageirans.  Þetta getur gerzt á heilbrigðissviði, kennslusviði, eftirlitssviði o.fl. Hið opinbera getur áfram borið ábyrgðina á þjónustunni, en fengið aðra í framkvæmdina og sparað fé, því að opinberir starfsmenn eru dýrir og ekki alltaf jafnskilvirkir og þeir í einkageiranum. 

Guðrún gerði þróun launakostnaðar á hvern starfsmann í opinbera geiranum m.v. í einkageiranum að umræðuefni í téðri Morgunblaðsgrein: 

"Merkilegt er annars til þess að hugsa, að á undanförnum árum og áratugum hafi vinnumarkaðurinn okkar þróazt með þeim hætti, að einkageirinn á oft í vandræðum með að fá fólk til starfa í samkeppni við opinbera geirann og kjaraþróunina þar.  Samt heldur einkamarkaðurinn opinbera kerfinu uppi eðli máls samkvæmt !

  • Laun eru orðin hærri víða í opinbera kerfinu en á einkamarkaði.
  • Lífeyrisréttindi eru orðin jöfn í opinbera geiranum og á einkamarkaði.
  • Vinnutíminn er styttri hjá hinu opinbera.
  • Starfsöryggið er meira með ráðningarvernd hins opinbera.
  • Verðmætin verða til í einkageiranum til að standa undir stjórnsýslu og opinberri starfsemi að stórum hluta."

Þetta er uppskrift að spennu á vinnumarkaði, þegar hagvöxtur er góður, eins og um þessar mundir.  Við slíkar aðstæður er hætt við launaskriði, sem kyndir undir eftirspurnarverðbólgu, hvað sem líður kratískum viðhorfum sumra hagfræðinga, sem eru blindaðir af eigin predikunar- og áróðursþörf.  Það tíðkast hvergi í vestrænum samfélögum, a.m.k. ekki, þar sem efnahagslegur stöðugleiki ríkir, að hið opinbera sé leiðandi í launakjörum á vinnumarkaði.  Hér er enn komin uppskrift að efnahagslegum óstöðugleika hérlendis, sem er sjálfskaparvíti auðvitað.

"Eina leiðin og eina ráðið til að auka verðmætasköpun er að örva einkaframtakið, enda verður nánast allur útflutningur til í einkageiranum.

Straumurinn liggur hins vegar í aðra átt í samfélaginu okkar, og það er með miklum ólíkindum.  Það birtist ekki sízt í stórfjölgun starfa hjá ríki og sveitarfélögum á sama tíma og störfum fjölgar takmarkað á almennum markaði." 

Nú lítur vel út með spurn eftir Íslandi sem áfangastað ferðamanna frá Bandaríkjunum, Evrópu og víðar að þrátt fyrir bölsýni vegna versnandi lífskjara á þessum svæðum vegna hárrar verðbólgu. Hún er svipuð í BNA, ESB og á Íslandi, en matvöruverð hefur hækkað minna á Íslandi en á evrusvæðinu, eins og Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sýndi glögglega fram á í Morgunblaðsgrein sinni 8. marz 2023.  Engu að síður er verðlag hátt á Íslandi fyrir ferðamenn frá þessum svæðum, og stafar það af hárri skattheimtu og háum launum, en lágmarkslaun eru hérlendis þau hæstu, sem þekkjast.  Hins vegar er uppistaðan í ferðamannastrauminum lífeyrisþegar og annað fólk, sem hefur getað lagt fé til hliðar til að geta ferðazt.

Sökin á ofangreindri öfugþróun í atvinnulífinu, sem veldur óstöðugleika, liggur að nokkru hjá skólakerfinu, sem ekki útskrifar fólk með þá þekkingu og færni, sem atvinnulífið á einkamarkaði þarf á að halda.  Þá þrýstir fólkið á um að komast að í opinbera geiranaum, þótt það fái þar ekki störf alls kostar við hæfi m.v. menntun sína. Í öðrum tilvikum er staðan þó sú, að það kýs fremur að starfa í opinbera geiranum en hjá fyrirtækjum, þar sem samkeppnin knýr á um að sýna frumkvæði og aukna skilvirkni á hverju ári og vegna þeirrar stöðu, sem nú ríkir í opinbera geiranum og 1. þingmaður Suðurkjördæmis telur upp í tilvitnaðri grein. 

"Hvað sem hver segir, þá ber brýna nauðsyn til þess að stíga á bremsur, stöðva þenslu opinbera kerfisins, koma á það böndum og draga úr umsvifum þess með því að flytja þaðan verkefni og störf til einkageirans í mun meira mæli en gert hefur verið.  Í þeim efnum höfum við ekki val." 

Í sumum tilvikum er búið að kostnaðargreina verk hjá hinu opinbera, sem einkaframtakið getur unnið.  Þá er hægt að bjóða verkið út til að sannreyna, að spara megi fé skattgreiðenda (útsvarsgreiðenda), með því að færa verkefni frá hinu opinbera til einkageirans.  Þannig hafa Sjúkratryggingar Íslands nú boðið út liðskiptaaðgerðir á mjöðm og hné.  Landsspítalinn fær greiddar ISK 1.985.694 fyrir mjaðmaraðgerð, en lægsta tilboð einkageirans hljóðaði upp á ISK 1.070.000.  Mismunurinn er ISK 915.694 eða 46 % af verði Landsspítalans.  

Fyrir hnéð fær Landsspítalinn ISK 2.024.481, en lægsta tilboðið hljóðaði upp á 1.070.000. Mismunurinn  er ISK 954.481 eða 47 %.  Í þessum tilvikum fer ekki á milli mála, að það er í almannaþágu að fylgja ráðum 1. þingmanns Suðurkjördæmis og færa öll þessi verkefni frá Landsspítalanum og til einkageirans.  Vegna mikils álags á Landsspítalann, sem er á mjög erfiðu skeiði núna vegna frestunar vinstri stjórnarinnar 2009-2013 á öllum framkvæmdum við nýja Landsspítalann, er þetta sjálfsagt mál, en mikilvægast er þó að leysa úr brýnum vanda sjúklinganna, sem eru fórnarlömb biðlistanna, sem eru fylgifiskur opinbers eignarhalds og rekstrar.

Í lokin skrifaði þingmaðurinn:

"Við verðum í raun að starfa í samræmi við þá staðreynd, að verðmætin skapast í atvinnurekstri einkaframtaksins, en ekki í skrifborðsskúffum opinberra embættismanna.  Mörg dæmi eru hins vegar um, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi sannfæringu fyrir því, að verðmætin skapist innan skrifstofuveggja hins opinbera.  Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra."

Þarna skilur einmitt á milli hægri og vinstri manna. Kratar trúa því, að sem mestur opinber rekstur og eignarhald sé í þágu almennings, þótt dæmin sýni annað.  Þetta eru trúarbrögð kratanna, og þess vegna berja þeir hausnum við steininn, þegar staðreyndirnar tala sínu máli. Leiðin til fátæktar og ánauðar liggur um leiðir vinstri manna í efnahagsmálum og fjármálum hins opinbera.   

 

 


Úldinn smjörþefur

Nú hafa íbúar höfuðborgarsvæðisins, sem standa munu þurfa straum af rekstri borgarlínu, fengið smjörþefinn af því, sem koma skal.  Strætó stefnir í gjaldþrot, af því að þar standast engar fjárhagsáætlanir, en borgarlínan hlýtur að lenda í fjárhagslegu kviksyndi. Sveitarfélögin veigra sér við hella fé skattborgaranna í þessa botnlausu hít án uppstokkunar.  Það hefur verið reynt að auka framboð á akstri Strætó, en það hefur bara leitt til aukins taps.  Það, sem nú blasir við, er þó á að gizka innan við 1/10 þess halla, sem verða mun af borgarlínunni (sorgarlínunni). 

Í grundvallaratriðum er ástæðan sú, að þetta kosningaloforð Samfylkingarinnar er risavaxin draumsýn hennar, flutt inn úr miklu fjölmennari borgarsamfélögum, þar sem annað skipulag og annað veðurfar ríkir en hér. Það er sem sagt engin spurn í samfélaginu eftir "strætó á sterum", sem taka á 2 miðjuakreinar og hafa forgang á þverandi umferð.  Þetta er þannig atlaga gegn einkabílnum og mun leiða til enn aukinna tafa í bílaumferðinni með vaxandi tjóni fyrir ökumenn og vaxandi þjóðhagslegum kostnaði, sem dregur niður lífskjörin.

Sú draumsýn Samfylkingar og meðreiðarsveina í borgarstjórn að fækka bílum í umferðinni árið 2040, svo að þeir verði þá 20 % færri en 2020, er eintóm óskhyggja, en er þó forsenda þessara stórkarlalegu fjárfestinga.  Borgarlínan mun aldrei standa undir neinum fjárfestingum.  Það opinbera fé mun glatast að eilífu.  Hún mun aðeins standa undir broti af rekstrarkostnaðinum, og verða sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þvílíkur myllusteinn um háls, að þau munu gefast upp á þessu hugmyndafræðilega örverpi Samfylkingarinnar og senda það í gjaldþrot. 

Nú hefur kostnaðaráætlun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hækkað um 50 % og er komin í mrdISK 180.  Ríkisvaldið getur ekki haldið áfram og látið sem ekkert sé.  Það verður að endurskoða þennan sáttmála og koma vitglóru í hann, slá af "þunga" borgarlínu og stokkavæðingu gatna, tryggja vegagerðinni rétt til uppsetningar mislægra gatnamóta samkvæmt tillögum hennar og tryggja lagningu Sundabrautar og léttrar borgarlínu.  Létt borgarlína samkvæmt tillögu Þórarins Hjaltasonar, samgönguverkfræðings, o.fl. er sérrein hægra megin vegar, og umferð á henni á ekki að tefja aðra umferð. 

Forystugrein Morgunblaðsins á kyndilmessu 2023 var helguð þessum málefnum.  Í úrdrætti sagði: 

"Strætó stefnir að óbreyttu í þrot, en samt er borgarlínan keyrð áfram."  

Hér sjá menn steinrunna nauðhyggju Samfylkingarinnar.  Hún neitar að laga stefnu sína að staðreyndum, en er staðráðin í að keyra draumsýn sína áfram, þótt það muni fyrirsjáanlega valda skattborgurum landsins gríðarlegu fjárhægstjóni og draga úr getu hins opinbera til að fjármagna vitræn verkefni. 

"Að bregðast eða bregðast við" 

Í þessari forystugrein stóð m.a.:

"Nú segja stjórnendur fyrirtækisins [Strætós], að endurskoðunarfyrirtækið KPMG hafi verið fengið til að greina fjárþörfina og niðurstaðan hafi verið, að mrdISK 1,5 vantaði inn í reksturinn í formi fjárframlega, en töluvert vantar upp á, að eigendurnir, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, hafi greitt þá upphæð inn í fyrirtækið.  Og sum þeirra eiga ekki auðvelt með að leggja Strætó til fé.  Það á einkum við um höfuðborgina, sem á 60 % í Strætó og glímir sjálf við gríðarlegan rekstrar- og skuldavanda og er ekki aflögufær."

Ef ríkið ekki kyrkir þessa endaleysu (sorgarlínu) í fæðingu, þá munu viðkomandi sveitarfélög kikna undan fargi rekstrarins, eftir að ríkissjóður verður búinn að sóa upp undir mrdISK 100 í stofnframlag.  Hér er með öðrum orðum um botnlaust sukk og svínarí í boði Samfylkingar að ræða.  Ætla ríkisstjórnarflokkarnir að láta þessa óráðsíu viðgangast, þegar betri og ódýrari lausnir eru í boði, og verða þannig samábyrgir Samfylkingu um eitt versta fjármálahneyksli sögunnar ?  Það er löngu tímabært að spyrna við fótum.

Lok forystugreinarinnar voru þannig:

"Allt gefur þetta auga leið, þeim sem ekki er blindaður af draumsýninni, sem meirihlutinn í borgarstjórn hefur verið að teikna upp á síðustu árum.  Engin von er til þess, að sá meirihluti átti sig á, út í hvaða fen hann er að aka, en ákveðin vonarglæta er um, að einhverjir þeirra, sem stýra nágrannasveitarfélögunum, skilji slíkar staðreyndir og hafi burði til að stíga niður fæti áður en allt er komið í enn meiri óefni. 

Kópavogsbær á t.a.m. 15 % í Strætó og Hafnarfjörður litlu minna.  Íbúar þessara bæjarfélaga hafa mikilla hagsmuna að gæta, að ekki verði anað áfram út í skuldafenið.

Nú er að störfum hópur fjármálastjóra, sem vinnur að framtíðarlausn um fjárhag Strætó.  Það er eflaust þörf vinna.  Enn mikilvægara er þó að horfa á heildarmyndina og skoða vanda Strætó í samhengi við borgarlínuáformin.  Það er verkefni kjörinna fulltrúa, og skattgreiðendur munu horfa mjög til þess, hvort þeir munu nú bregðast við eða bregðast."

Það er hægt að binda vonir við, að leiðtogi sjálfstæðismanna í Kópavogi, sem jafnframt er þar bæjarstjóri og hagfræðingur, og aðrir forystumenn sjálfstæðismanna í bæjarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, taki höndum saman við ríkisvaldið um endurskoðun umferðarsáttmálans, þar sem þunga borgarlínan og vegstokkar verði slegin af, en reist mislæg gatnamót og fjölgað akreinum.  "Framtíðarlausn um fjárhag Strætó" verður ekki mótuð í tómarúmi, heldur þarf fyrst að móta stefnu um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, "Létta borgarlínu", og síðan að fjármagna hana.  

Sá, sem hefur tjáð sig opinberlega af mestri þekkingu um umferðarmál höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum er Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur. Ein fróðlegra Morgunblaðsgreina hans um umferðarmál birtist 2. febrúar 2023 undir fyrirsögninni: 

"Um veggjöld og hagkvæmni samgöngumannvirkja".

Undir millifyrirsögninni: "Mikilvægi góðra samgöngumannvirkja" stóð þetta:

"Greið umferð í allar áttir er hjartsláttur hvers þjóðfélags og mjög varhugavert að trufla hann eða tefja að ósekju.  Á suðvesturhorninu búa um 3/4 hlutar landsmanna, og þar þurfa því að vera greiðfærir og öruggir þjóðvegir til að tryggja gott flæði vöru- og farþegaflutninga um svæðið.  Um höfuðborgarsvæðið liggur hringvegurinn, svo og Reykjanesbraut.  Framtíðarsýn Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir, að hringvegur að Hvalfjarðargöngum til norðurs og til austurs að Selfossi verði s.k. meginstofnvegur, þ.e. vegur með mislægum gatnamótum.  Sama gildir um Reykjanesbreut frá höfuðborgarsvæðinu að Reykjanesbæ og Keflavíkurflugvelli. 

Sundabrautin fellur vonandi að þessari framtíðarsýn á þessum áratugi, en meirihluti borgarstjórnar hefur engan áhuga fyrir að standa við sinn hluta umferðarsáttmála höfuðborgarsvæðisins og hefur hvorki tekið Sundabrú né mislæg gatnamót inn á aðalskipulag Reykjavíkur, heldur heldur uppi uppteknum hætti um að leggja steina í götu þessara framkvæmda. Borgarstjóri vill velja dýrasta kostinn, sem eru jarðgöng.  Þar með veldur hann mestum töfum og tjóni. 

Tilefni þessarar greinar Þórarins Hjaltasonar segir hann vera viðtal við Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóra Betri samgangna o.h.f., í Kjarnanum 27. desember 2022.

"Í viðtalinu er þetta haft eftir framkvæmdastjóranum: "En ef menn hafa metnað fyrir því að draga úr umferðartöfum, þá er þetta, flýti- og umferðargjöld, einfaldasta og fljótlegasta leiðin til þess. Það er eina leiðin, sem skilar hagnaði, því að aðrar framkvæmdir, sem við förum í til að stuðla að minnkandi töfum, þær auðvitað skila engum ágóða, heldur bara kosta sitt."

Þarna tekur téður Davíð mikið upp í sig án rökstuðnings, enda er hann fúskari í umferðarfræðum, sem ljóslega hefur verið heilaþveginn af Holu-Hjálmari og öðrum vinstri sinnuðum fúskurum á umferðarsviðinu. Tafakostnaður í umferðinni í Reykjavík hefur verið áætlaður a.m.k. 50 mrdISK/ár, svo að allar ódýrar úrbótaaðgerðir til að auka hreyfanleika umferðarinnar, s.s. mislæg gatnamót og fjölgun akreina, eru líklegar til að skila þjóðhagslegum hagnaði öfugt við nauðhyggjuskraf Davíðs Þorlákssonar. Aðrar leiðir til að auka hreyfanleika umferðar (draga úr umferðartöfum) eru í raun ekki fyrir hendi, eins og Þórarinn Hjaltason hefur sýnt fram á.  Þar með er borgarlína úr leik:

"Fyrir nokkrum árum var því haldið fram, að ef markmiðið í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins um breyttar ferðavenjur árið 2040 næðust, myndu ferðir með fólksbílum verða 20 % færri en með óbreyttum ferðavenjum.  Markmiðunum á að ná með borgarlínu ásamt ofurþéttingu byggðar meðfram samgönguásum hennar og átaki í uppbyggingu innviða fyrir hjólandi og gangandi.  Borgarlínan er sögð hryggjarstykkið í aðgerðum til að stuðla að breyttum ferðavenjum.  Áróðurinn var svo lævís, að töluverður hluti almennings skildi boðskapinn þannig, að ef borgarlínan kæmi ekki, myndu ferðir með fólksbílum verða 20 % fleiri en ella."

Þá gleymdist að taka tillit til þess, að bætt ferðaaðstaða gangandi og hjólandi mun fækka bílafarþegunum, en bílstjórunum mun lítið fækka.  Rafskutlurnar munu ekki síður fækka farþegum Strætó og borgarlínu en bílanna og kunna að eiga þátt í slæmu gengi Strætó nú.

"Ef við tökum orð framkvæmdastjórans bókstaflega, þá verða þau ekki skilin öðru vísi en svo, að borgarlínan muni ekki hamla gegn aukningu umferðartafa.  Ef það er réttur skilningur, þá hefur aldeilis orðið viðsnúningur á skoðunum samgönguyfirvalda [og forsenda borgarlínu brostin - innsk. BJo].  Reyndar hættu samgönguyfirvöld að ræða um 20 %, eftir að umferðarspár fyrir árið 2034 í nýju samgöngulíkani voru birtar fyrir um 2 árum. Þær spár benda eindregið til þess, að markmið svæðisskipulagsins um breyttar ferðavenjur séu ekki raunhæf. Ef spárnar fyrir 2034 eru réttar, mun borgarlínan aðeins leiða til þess, að bílaumferð árið 2040 verði um 2 % minni en ella.  Skiljanlega hafa samgönguyfirvöld ekki viljað ræða mikið um þessar gerbreyttu niðurstöður !"  

Það hrúgast upp gild rök fyrir því, að borgarlínan sé illa til þess fallin að breyta ferðavenjum fólks, hvað sem gerræðislegum ráðstöfunum á borð við fækkun bílastæða eða tafagjöld líður.  Það er kominn tími til að hætta við þessar dauðvona hugmyndir um að fækka bílum í umferðinni með ofurfjárfestingum, sem samfélagið hefur hvorki ráð á né óskar eftir. 

"Á síðustu árum hafa sumir fulltrúar samgönguyfirvalda haldið því fram, að ekki sé unnt að byggja sig frá umferðartöfum vegna þess, að ný vegamannvirki myndu fyllast jafnóðum af bílum.  Þarna er vísað til fyrirbæris, sem má kalla orsakaða umferð (e. induced demand).  Það eru flestir sammála um, að í þéttbýlum milljónaborgum sé ekki unnt að byggja sig frá umferðartöfum.  Hins vegar á þetta engan veginn við um höfuðborgarsvæðið.  Ég mun rökstyðja það nánar í annarri grein." 

Það mun verða fengur að þeim rökstuðningi Þórarins, því að þessi nauðhyggja Samfylkingarinnar, sem hún hefur flutt hráa inn frá milljónasamfélögum í landþröng án þess að skilja forsendurnar, en amatörborgarskipuleggjandi hennar, Holu-Hjálmar, vitnaði margoft hreykinn í kenninguna um snöggmettun nýrra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót eða viðbótar akreinar. Þetta er einfaldlega falskenning við íslenzkar aðstæður, en þetta er samt önnur meginstoðanna, sem glæfraverkefni Samfylkingarinnar - borgarlína hvílir á.  Hin er, að bílafjöldi á höfuðborgarsvæðinu verði 20 % minni árið 2040 en ella vegna borgarlínu og göngu- og hjólastíga.  Forsendurnar eru fallnar, eins og spilaborg, en samt er haldið áfram með verkefnið óbreytt og stefnir beint út í fjárhagslegt kviksyndi.  Það verður að stöðva ósómann.  

Að lokum sagði í þessari stórgóðu grein samgönguverkfræðingsins:

"Flestir fræðimenn eru sammála um, að veggjöld séu áhrifarík leið til að hamla gegn umferðartöfum í borgum.  Hins vegar er sá galli á gjöf Njarðar, að þau verða að vera mjög há á mesta álagstíma umferðar til að draga umtalsvert úr umferðartöfum.  Auk þess þurfa gjaldtökustöðvar að vera staðsettar þannig, að þær [a.m.k. umljúki] svæðið, þar sem umferðartafirnar eru mestar. Veggjöldin eru þá kölluð tafagjöld (e. congestion charges). 

 Tafagjöldin hafa ekki verið lögð á heilu borgarhlutana í mörgum borgum vegna þess, að þau eru óvinsæl.  Á Stavangersvæðinu [á SV-strönd Noregs] voru veggjöld tvöfölduð á álagstíma haustið 2018.  Ráðstöfunin mætti víðtækri andstöðu, og voru tafagjöldin afnumin snemma árs 2020.  Síðast en ekki sízt er rétt að benda á, að markvissara er að setja markmið um aukinn hreyfanleika (e. mobility) fremur en minnkun umferðartafa.  M.ö.o.: ljúkum sem fyrst gerð mislægra gatnamóta og nauðsynlegra breikkana á helztu þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu." (Undirstr. BJo.)

Taka skal heilshugar undir undirstrikaða kaflann um að auka hreyfanleikann í stað nauðhyggju Samfylkingarinnar og "Betri samgangna" um tafagjöld og borgarlínu, sem eru lélegar lausnir í íslenzku umhverfi, enda keyrðar áfram af annarlegum hugmyndum fúskara í umferðarlegum efnum.

 

 

 

 


Niðurlæging höfuðborgarinnar

Það er alveg sama, hvar borið er niður.  Niðurlæging höfuðborgarinnar á þeim tíma, sem "good for nothing persons" undir forystu Samfylkingarinnar hafa verið þar við völd, er alger, og þessi sjálfhælna einskis nýta stjórnmálahreyfing, sem í krafti forsjárhyggju sósíalismans þykist vera í stakk búin að hafa vit fyrir öðrum, kann ekki fótum sínum forráð, þegar til kastanna kemur. 

Ef mótdrægir atburðir verða, sem krefjast skjótra og fumlausra viðbragða stjórnendanna, er það segin saga, að allt fer í handaskolum.  Samfylkingin er búin að ganga af stjórnkerfi borgarinnar dauðu.  Nú eru hæfileikasnauðir stjórmálamenn sem stjórnendur yfirgripsmikilla málaflokka látnir stjórna málaflokkum, sem öflugir embættismenn með fullt vald á tæknihliðum sinna málaflokka, stjórnuðu áður af röggsemi undir beinni stjórn borgarstjóra. Það er borin von um breytingar til batnaðar í borginni, á meðan ráðstjórnarfyrirkomulag Samfylkingarinnar er þar við lýði.   

Dæmi um þetta er embætti borgarverkfræðings, sem aflagt var, og við tók m.a. umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur.  Þetta er í anda gömlu sovétanna eða ráðanna, sem kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna raðaði sínu fólki í.  Hvernig fór fyrir Ráðstjórnarríkjunum ?  Þau hrundu 1991 vegna rotnunar innan frá.  

Eftir mikla snjókomu, hvassviðri og kulda helgina 18.-19. desember 2022 kom í ljós alvarleg brotalöm í snjómokstri borgarinnar.  Hún stóð sig miklu lakar en nágrannasveitarfélögin.  Var þá m.a. kallaður til útskýringa formaður ofangreinds ráðs borgarinnar, sem virtist vera nýdottinn ofan úr tunglinu og ekki vita í þennan heim né annan.  Varð þessari formannsdulu það helzt fyrir að leita blóraböggla utan borgarkerfisins, og urðu verktakar fyrir valinu og þvaðraði um handbók, sem væri í smíðum. Meiri verður firringin (fjarlægðin frá raunveruleikanum) ekki.  Allt er þetta eins lágkúrulegt og hugsazt getur.  

Lítið skánaði málið, þegar leitað var ráða hjá nýjustu mannvitsbrekkunni, sem inn í þetta sovétkerfi borgarinnar gekk eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar með slagorð á borð við breytum borginni, varð óðara formaður borgarráðs og á að taka við borgarstjóraembættinu af fallkandidatinum Degi B. Eggertssyni.  Verkvit væntanlegs borgarstjóra  lýsti sér mjög vel með þeirri uppástungu, að borgin skyldi kaupa nokkra pallbíla með tönn framan á.  Hjá borginni leiðir blindur haltan, og firringin er allsráðandi.  

Ekki verður hjá því komizt í kuldakastinu í desember 2022 að minnast á hlut Orkuveitu Reykjavíkur-OR og dótturfélaga í velferð íbúa höfuðborgarsvæðisins. Nýlega kom framkvæmdastjóri ON, dótturfélags OR, sem sér um orkuöflun og hefur algerlega látið hana sitja á hakanum undandarinn áratug, með spekingssvip í  fréttatíma sjónvarps allra landsmanna og boðaði þar þá  kenningu í tilefni vetrarkulda, að óskynsamlegt væri að afla heits vatns til að anna toppálagi hjá  hitaveitunni.  Þetta er nýstárleg kenning um hitaveituþjónustu fyrir almenning.  Tímabil með -5°C til -10°C, eins og var á jólaföstunni á höfuðborgarsvæðinu, getur varað vikum saman.  Ef ekkert borð er haft fyrir báru, eins og nú virðist vera uppi á teninginum hjá OR og dætrum, gerist einmitt það, sem gerðist í aðdraganda jóla, að ein bilun veldur svo stórfelldum vatnsskorti (20 %), að loka verður öllum útilaugum á höfuðborgarsvæðinu í 2 sólarhringa og hefði getað varað lengur.  Þetta er óboðleg stefna.  Miða á við s.k. (n-1) reglu, sem þýðir, að í kerfinu er borð fyrir báru til að halda uppi fullri þjónustu, þótt ein eining bili á háálagstíma.  Þá er líka nauðsynlegt svigrúm til fyrirbyggjandi viðhalds fyrir hendi á hverjum tíma. 

Hér gætir fingrafara Samfylkingarinnar, eins og alls staðar í borgarkerfinu.  Hún lætur borgarsjóð blóðmjólka OR til að standa straum af gæluverkefnum sínum og silkihúfum, en fórnar fyrir vikið hagsmunum íbúanna, sem ekki hafa í önnur hús að venda, nema að flytjast um set a.m.k. 50 km. 

Þarna er Samfylkingunni rétt lýst.  Hún smjaðrar fyrir almenningi og þykist allt vilja gera fyrir alla á kostnað sameiginlegra sjóða, en hikar ekki við að fórna hagsmunum almennings til að geta haldið uppi sukkinu, sem völd hennar í Reykjavík hvíla á. Stefna Samfylkingarinnar er reist á botnlausri skattpíningu og skuldasöfnun, sem er eitruð blanda, sem getur ekki gengið upp til lengdar, enda er nú komið nálægt  leiðarenda og allt í hönk.

Morgunblaðið gerði sorglegum stjórnarháttum Samfylkingarinnar verðug skil í forystugrein 20. desember 2022:

"Grátlegt að horfa upp á niðurlæginguna".

Hún hófst þannig:

"Það er sárt til þess að vita, hvernig komið er fyrir borginni okkar, höfuðborginni. Það er sama, hvert litið er. Hvernig gat þetta farið svona illa ?  Stóru málin sýna þetta og sanna.  Fjármál borgarinnar og þá ekki síður vandræðin í skipulagsmálum hennar.  Þetta tvennt er auðvitað nægjanlega yfirþyrmandi, enda mun hvert það sveitarfélag bágt, þar sem bæði fjárhagsstaða og skipulagsmál hafa verið keyrð í þrot af fullkomlega óhæfum stjórnendum, sem hafa ekki auga fyrir slíkum þáttum og sitja þó keikir í stólunum í Ráðhúsinu, sem þeir voru á móti því, að yrði byggt og þar með fyrir þeim, sem gætu gert betur, en aldrei verr."

Samfylkingin hefur eyðilagt stjórnkerfi borgarinnar með sovétvæðingu sinni, ráðsmennsku, og þar með varðað leið höfuðborgarinnar til glötunar.  Stjórnmálamennirnir, sem öllu ráða í ráðum borgarinnar, eru óhæfir stjórnendur; það er ekki ofmælt hjá ritstjóra Morgunblaðsins, enda sýna  verkin merkin.  Það er sama, hversu hæfir embættismenn eru ráðnir inn í svona kerfi.  Þeir fá ekki tækifæri til að njóta sín undir ráðunum, eins og samanburður á frammistöðu Véladeildar borgarverkfræðings forðum tíð og umhverfis- og skipulagssviðs nú í snjómokstri sýnir glögglega. 

Ritstjórinn vék að mannvitsbrekkunni, sem nú er afleysingaborgarstjóri og hefur valdið villuráfandi kjósendum Framsóknarflokksins ómældum vonbrigðum á undraskömmum tíma:

"En ásamt borgarfulltrúum minnihlutans hefur formaður borgarráðs, sem vann óvæntan sigur og hefur á örfáum mánuðum siglt með málefni borgarinnar úr öskunni í eldinn, látið óhæfan borgarstjóra, sem keyrt hefur fjármál og skipulagsmál í rjúkandi rúst, teyma sig út á berangur spillingur.  Allt er þetta með ólíkindum."  

Þeim mun verr gefast heimskra manna ráð, sem þeir koma fleiri saman, var einu sinni sagt, og það hefur berlega sannazt í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Það gafst afleitlega að fjölga borgarfulltrúum og hefur reynzt rándýrt.  Miðað við meginkosningaloforð Framsóknar í borginni hefur efsti maður listans reynzt ómerkur orða sinna.  Engin breyting til batnaðar hefur orðið á högum borgarinnar við komu hans í pólitíkina.  Hann lætur ferðaglaða lækninn teyma sig á asnaeyrunum, hvert sem er.

"En tilfallandi mál opinbera einnig stjórnleysi og aumingjadóm.  Og það gerði svo sannarlega snjóhríð og erfið átt, sem hvorugt var af verstu gerð, þótt slæmt væri.  Þegar í stað varð algerlega ófært um alla borg !  Ríkisútvarpið "RÚV" spurði mann hjá borginni, sem var sagður eiga að bregðast við atvikum eins og þessum, út í öngþveitið, sem varð.  Hann viðurkenndi aftur og aftur, að þetta hefði ekki verið nægjanlega gott, og var sú játning þó óþörf.  En hann bætti því við til afsökunar, að borgin hefði aðeins "tvær gröfur" - "TVÆR GRÖFUR", sem nota mætti í verkefni af þessu tagi, og hefðu þær ekki haft undan.  Engu var líkara en "RÚV" hefði farið þorpavillt og náð sambandi við 150 manna sveitarfélag úti á landi, þar sem alls ekki væri útilokað, að tvær gröfur hefðu getað hjálpað til að halda 200 m aðalgötu sveitarfélagsins opinni."

Það er deginum ljósara nú í skammdeginu, að viðbúnaðaráætlun borgarinnar gagnvart hríðarviðri er hvorki fugl né fiskur eða innleiðing hennar hefur farið fyrir ofan garð og neðan, nema hvort tveggja sé.  Við blasir ónýtt stjórnkerfi borgarinnar, enda er þetta ráðstjórn með silkihúfum stjórnmálanna, sem hefur safnað öllum völdum í sínar hendur og lagt sína dauðu hönd þekkingarleysis og ráðleysis á verkstjórn borgarinnar.  Tiltækur tækjafloti borgarinnar núna er miklu minni en á dögum borgarverkfræðings og gatnamálastjóra, sem áður fyrr voru ábyrgir fyrir snjómokstri í borginni undir yfirstjórn borgarstjóra.  Að venju, þegar eitthvað bjátar á, hvarf borgarstjóri, og mun Dagur hafa skroppið til Suður-Afríku.  Ráðstjórnarkerfi hans er ónýtt, og það verður að fleygja því á öskuhaugana áður en nokkur von getur vaknað um tök á þessum málum.  Síðan verður að ráða menn með bein í nefinu og verkþekkingu til að skipuleggja viðbúnað og framkvæma hann eftir þörfum.  Stjórnunarleikir silkihúfanna eru dramatískir sorgarleikir óhæfra leikara. 

Að lokum sagði í téðri forystugrein:

"Á meðan borgin var og hét og var ekki stjórnað af óvitum, þá hafði hún öfluga sveit Véladeildar borgarinnar, sem búin var beztu tækjum, sem völ var á í landinu.  Einatt, þegar von var atburða, eins og urðu í gær, þá færði borgarstjórinn í alvöru borg sig inn í höfuðstöðvar Véladeildar borgarinnar, sem var hið næsta höfuðstöðvum borgarverkfræðings, og fylgdist með viðbrögðum öflugra sveita fram eftir nóttu.  En nú þarf ekki annað en smáa snjósnerru og goluþyt, til að öllu sé siglt í strand í borg manna, sem treysta á 2 litlar gröfur í veðurneyð.

Niðurlæging borgarinnar í fjármálaólestri og strandi skipulagsmála, sem eru þó helztu afreksverk Dags. B. Eggertssonar, er bersýnileg, en þegar fjármálabrall leggst við umferðaröngþveiti, sem sífellt versnar, er orðið fátt um fína drætti."

Þetta er athygliverð frásögn fyrrverandi borgarstjóra um stjórnarhætti í skilvirku stjórnkerfi borgarinnar, eins og það var áður en vinstri menn rústuðu því og stofnuðu ráðin, þar sem stjórnmálamenn Samfylkingar og fylgifiska fara með öll völd án þess að hafa nokkra stjórnunargetu eða verksvit.  Borgarstjórinn móðgar ekki afæturnar í ráðunum með því að taka fram fyrir hendur þeirra og setja þar með hagsmunabandalag vinstri klíkanna í uppnám. Þó er til neyðarstjórn í borginni, þar sem borgarstjóri er í formennsku, en hún var ekki kölluð saman, þótt ástæða hefði verið til, enda borgarstjóri að spóka sig á suðurhveli jarðar. 

Menn taki eftir því, að hinir hæfu embættismenn, borgarverkfræðingur og gatnamálastjóri, sáu ástæðu til þess, að borgin réði sjálf yfir öflugum tækjaflota af beztu gerð.  Amlóðar Samfylkingarinnar og fylgitunglanna reiða sig hins vegar alfarið á verktaka án þess að hafa gengið frá almennilega öruggum samningum við þá.  Hvers vegna er dæminu ekki snúið við til öryggis og verktökum leigðar vélarnar með áhöfn á sumrin, þegar borgin þarf ekki á þeim að halda, en yfirleitt er törn hjá verktökum ?  Að auki þarf sérútbúnað, eins og snjóblásara, sem blása  snjónum upp á vörubílspalla, því að mikil vandræði myndast annars við heimreiðar aðliggjandi lóða og á gangstéttum.   

 

 

  

 


Reginhneyksli ríkisrekstrar á fjármálastofnun

Af einhverjum undarlegum ástæðum er hópur manna í þjóðfélaginu á þeirri skoðun, að ríkisrekstur á fjármálakerfinu eða drjúgum hluta þess sé heppilegasta rekstrarformið fyrir hag almennings.  Ekkert er fjær sanni en stjórnmálamenn séu öðrum hæfari til að móta  fjármálastofnanir og stjórna þeim. Dæmin þessu til staðfestingar eru mýmörg, en nýjasta dæmið er af Íbúðalánasjóði, sem stjórnmálamenn og embættismenn komu á laggirnar til að keppa við almenna bankakerfið um hylli húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda.  Þar tókst ekki betur til en svo, að gjaldþrot blasir við með um mrdISK 450 tjóni fyrir ríkissjóð [reiknað til núvirðis mrdISK 200].  Fjármála- og efnahagsráðherra ætlar að koma í veg fyrir þetta mikla tjón með viðræðum við lánadrottnana og viðeigandi aðgerðum í kjölfarið. 

 Margir hafa fundið sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka allt til foráttu.  Ýmist er það aðferðin, sem Bankasýslan mælti með, eða tímasetningin, sem látið er steyta á.  Allt er þetta þó skálkaskjól fyrir þau, sem eru með sem mest ríkisafskipti og ríkisrekstur sem einhvers konar trúarsetningu í lífi sínu, alveg sama hversu misheppnað þetta fyrirkomulag er í raun, hvað sem heimspekingar segja um það á pappírnum. 

Kaffihúsasnatinn Karl Marx var enginn mannþekkjari, heldur draumóramaður og "fúll á móti", sem hélt hann hefði fengið bráðsnjalla hugmynd, sem kölluð hefur verið kommúnismi.  Kommúnisminn í einhverri mynd hefur alls staðar leitt til kollsteypu, og þarf ekki að tíunda það frekar. 

Ríkisrekin fjármálafyrirtæki eru þar engin undantekning, eins og hrakfallasaga Íbúðalánasjóðs er gott dæmi um. Hætta ber vífilengjum og staðfesta  síðasta söluferli Íslandsbanka og bjóða það, sem eftir er af ríkiseign í bankanum, til sölu. Það er afleitt, að ríkisfyrirtæki séu á samkeppnismarkaði og að ríkissjóður standi fjárhagslega ábyrgur fyrir glappaskotum stjórnmálamanna og ríkisstarfsmanna í bankageiranum. 

Þóra Birna Ingvarsdóttir birti fróðlega baksviðsumfjöllun í Morgunblaðinu 24. október 2022 undir fyrirsögninni: 

"Svarti sauðurinn, Íbúðalánasjóður".

Þar stóð þetta m.a.:

"Árið 2011 beindi eftirlitsstofnun [EFTA] ESA tilmælum að íslenzkum stjórnvöldum, þar sem lánsfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs samrýmdist ekki reglum EES-samningsins um bann við ríkisaðstoð á samkeppnismarkaði.  Í tilmælunum fólst, að breyta þyrfti lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs þannig, að hann byði ekki lán til kaupa á dýrara húsnæði, takmarka þyrfti lán til leigufélaga og aðgreina þyrfti hina ríkisstyrktu starfsemi frá öðrum þáttum starfseminnar."

EES-samningurinn er ekki alslæmur, því að hann veitir ríkisrekstrarsinnuðum stjórnmálamönnum aðhald, eins og í þessu tilviki, þótt Samkeppniseftirlitið mundi geta tekið í taumana, ef það væri virkt til annars en að þvælast fyrir lúkningu stórsamninga og valda eigendum (hluthöfum) stórtjóni, eins og í tilviki sölu Símans á Mílu.  Þar er ekki hægt að sjá, að nokkurt vit hafi verið í tafaleikjum og kröfum Samkeppniseftirlitsins um breytingar á sölusamningi, en hluthafar Símans misstu af of mörgum milljörðum ISK vegna óhæfni embættismanna.

Í lokin sagði í téðri baksviðsfrétt:

"Ríkið ber ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðsins.  Um er að ræða einfalda ábyrgð, en ekki sjálfskuldarábyrgð.  Í einfaldri ábyrgð felst, að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á nafnvirði skulda auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags. Hefði verið um sjálfskuldarábyrgð að ræða, hefði ábyrgð ríkisins gagnvart kröfuhöfum í megindráttum verið sú sama og ábyrgð sjóðsins.

Til þess að reka sjóðinn út líftíma skulda [hans] þarf ríkissjóður að leggja til um mrdISK 450 eða um mrdISK 200 á núvirði.  Ef sjóðnum yrði aftur á móti slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða hans nema mrdISK 47."

Þetta sýnir í hnotskurn, hversu glórulaust fyrirkomulag það var að láta fólk á vegum ríkisins, sem var vitsmunalega og þekkingarlega alls ekki í stakkinn búið til að móta og reka fjármálastofnun, bauka við það viðfangsefni með baktryggingu ríkissjóðs Íslands á fjármálagjörningum sínum.  Það á að láta einkaframtakinu þetta eftir á samkeppnismarkaði, þar sem hluthafarnir standa sjálfir fjárhagslega ábyrgir fyrir gjörningunum og veita stjórnendum fyrirtækisins aðhald. Að ímynda sér, að viðvaningar úr stjórnmálastétt og embættismannastétt geti á einhvern hátt staðið betur að þessum málum, er draumsýn, sem fyrir löngu hefur orðið sér til skammar, og almenningur má þá borga brúsann fyrir óhæfnina.  Í þessum sósíalisma felst hvorki skynsemi né réttlæti.   

 

 


Fúsk og bruðl í umferðarmálum býður hættunni heim

Nýlega greindi einn ráðherranna frá því í viðtali í fréttum Ríkissjónvarpsins, að í undirbúningi væri að setja upp gjaldtöku á bifreiðir á leið til höfuðborgarinnar, og væri ætlunin með henni að stýra umferðinni framhjá mesta tafatímanum og að fjármagna framkvæmdir, sem eiga að greiða úr umferðarhnútunum.  Þótt þessi aðferð sé viðhöfð víða erlendis, er ekki þar með sagt, að hún sé skynsamleg og réttlætanleg hérlendis.  Umferðarhnútarnir í Reykjavík eru vegna  vanfjárfestinga í umferðarmannvirkjum á stofnleiðum í Reykjavík, en gjöld á bifreiðaeigendur hafa þó ekki lækkað. Það er órökrétt og ósanngjarnt að taka gjald af umferðinni til að fjármagna það, sem vanrækt hefur verið, og að auki að fjármagna allt of viðamikla og dýra Borgarlínu. Strætó á í fjárhagslegum rekstrarerfiðleikum, en tapið af Borgarlínu, sem er "ofurstrætó, sumir segja strætó á sterum, verður fyrirsjáanlega margfalt, því að spár um þróun hlutdeildar Strætó í heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu með tilkomu Borgarlínu úr núverandi 4 % í 12 % eru draumórar einir. Borgarlínan er afsprengi fúskara í umferðartæknilegum efnum og stjórnmálamanna, sem haldnir eru slíkri andúð á einkabílnum, að þeir vilja hrekja almenning út úr honum, þarfasta þjóninum.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, skrifar iðulega fróðlegar greinar í Morgunblaðið. Ein slík birtist 6. október 2022 undir fyrirsögninni:

"Stefnuleysi og óráðsía".

Hún hófst þannig:

"Núverandi borgarlínutillögur munu aldrei ganga upp.  Kostnaður við þá framkvæmd var áætlaður um mrdISK 120, líklega nú kominn í mrdISK 130-140, sem er óheyrilegur og gott dæmi um óráðsíu borgarstjórnarmeirihlutans í fjármálastjórn undanfarin kjörtímabil.  Ýmsar borgir, sem upphaflega ætluðu að byggja borgarlínu í háum gæðaflokki, hættu við það og byggðu þess í stað miklu ódýrari borgarlínu, stundum nefnd BRT-Lite [Bus Rapid Transit-innsk. BJo] eða létt borgarlína. Sýnt hefur verið fram á, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir, að kostnaður við létta borgarlínu sé rúmar mrdISK 20." 

Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, o.fl. hafa komið fram með þessa Léttlínulausn, sem eru sérreinar hægra megin, en ekki fyrir miðju.  Léttlausnin skerðir hvergi venjulegt umferðarflæði, en hætt er við, að Draumóralínan geri það, og hún mun valda gríðarlegri umferðarröskun á framkvæmdatíma. 

Það eru engin haldbær rök fyrir því að kasta mrdISK 120 af aflafé almennings út um gluggann í glórulaust gæluverkefni, þegar hið opinbera vanhagar alls staðar um fjármuni. Það er óviðunandi, að hið opinbera ætli nú að forgangsraða fjáröflun sinni til bruðlverkefna, sem engin þörf er á og sem verður viðkomandi sveitarfélögum myllusteinn um háls, þegar kemur að rekstrinum, eins og botnlaus hít Strætó er forsmekkurinn að. Hér hafa fúskarar um samgöngutækni látið eigin forræðishyggju um lifnaðarhætti almennings fengið að ráða för, fólk, sem er svo raunveruleikafirrt, að það gerir sér enga grein fyrir bruðlinu eða er nógu siðlaust til að láta sér það í réttu rúmi liggja. 

Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, skrifaði góða grein í Morgunblaðið 28. september 2022 undir fyrirsögninni:

"Samgöngumál í strjálbýlu landi".

 

 Þar stóð m.a. þetta:

"Þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu hafa líka goldið þess, að vegafé hefur verið af skornum skammti.  Á undanförnum áratugum hafa árlegar fjárveitingar til þjóðvega á svæðinu að jafnaði verið um 2 mrdISK/ár, en hefðu þurft að vera 5 mrdISK/ár.  Það skýrir, hvers vegna umferðartafir eru óeðlilega miklar á höfuðborgarsvæðinu saman borið við önnur borgarsvæði af svipaðri stærð."  

  Tekjur ríkisins á þessu tímabili af ökutækjaeigendum hafa verið meiri en útgjöld til vegaframkvæmda- og viðhalds.  Í ljósi þess er óásættanlegt, að borg og ríki skuli hafa leyft núverandi umferðarhnútum að myndast í stað þess að t.d. reisa mislæg gatnamót.  Borgin á höfuðsök á þessu með því að taka þau út af aðalskipulagi og þvælast fyrir raunverulegum framfaramálum umferðar, t.d. Sundabraut, og til að kóróna vitleysuna hefur áhugafólk um bíllausan lífsstíl vísvitandi og að óþörfu skert umferðarþol gatna borgarinnar með fækkun akreina, þrengingum og álíka ónytjungslegum aðgerðum undir yfirskini umferðaröryggis. 

Þetta er fullkomin hræsni, því að þau, sem látið hafa ljósastýrð gatnamót viðgangast á fjölförnum og varasömum gatnamótum, þótt fyrir löngu sé tímabært að setja þar upp mislæg gatnamót, bera ábyrgð á alvarlegum slysum á fólki og stórfelldu fjárhagstjóni. Það er ófært, að ökumenn, sem hafa verið snuðaðir um nauðsynlegar framkvæmdir í öryggisskyni og til tímasparnaðar, eigi nú að borga viðbótar gjald fyrir löngu tímabærar framkvæmdir og að auki fyrir gjörsamlega óþarft bruðlverkefni, sem mun valda bílaumferð auknum vandræðum og soga til sín fjármagn frá öðrum og þarfari verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og reyndar um allt land (vegna þátttöku ríkisins). 

"Árið 2019 gerðu ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með sér samgöngusáttmála um, að á 15 ára tímabili, 2019-2034, yrðu byggð samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu fyrir mrdISK 120.  Þessi framkvæmdapakki er myndarlegt átak að því leyti, að á 15 ára tímabili á að verja jafnmiklu fé og samsvarar hefðbundnu framlagi ríkisins til þjóðvega á svæðinu í 50 ár. Þegar nánar er skoðað, kemur í ljós, að framkvæmdaáætlun sáttmálans mun ekki minnka umferðartafir.  Skýringin er einföld.  Borgarlínan mun ekki leysa neinn umferðarvanda.  Stokkar og/eða jarðgöng eru tvöfalt til þrefalt dýrari en hefðbundnar lausnir með mislægum gatnamótum.  Umferðartafir á höfuðborgarsvæðiu munu því halda áfram að aukast, ef ekki er breytt um stefnu."  

Það, sem samgönguverkfræðingurinn Þórarinn upplýsir þarna um, er reginhneyksli.  Í stað þess að beita beztu verkfræðilegu þekkingu til að hanna lausn á umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins, þar sem fjármagnið nýtist bezt til að greiða fyrir umferðarflæðinu og hámarka öryggi vegfarenda, eru fúskarar, draumóramenn og sérvitringar látnir ráða ferðinni.  Það verður viðkomandi stjórnmálamönnum til ævarandi hneisu að standa svona að verki. 

Þarfri grein sinni lauk Þórarinn þannig:

"Vegna fámennis verðum við að gæta ýtrustu hagkvæmni við uppbyggingu samgönguinnviða.  Við höfum einfaldlega ekki efni á rándýrri útfærslu á borgarlínu.  Við höfum heldur ekki efni á því að setja þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu að óþörfu í stokka eða jarðgöng. Við þurfum að fara vel með fjárveitingar til samgönguinnviða.  Veljum því tillögu SFA (Samgöngur fyrir alla) https://www.samgongurfyriralla.com um létta borgarlínu (BRT-Lite) og höfum Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni."

Þetta eru hógvær lokaorð samgönguverkfræðingsins, en þeim fylgir mikill þungi og undir hvert orð er hægt að taka.  Samgöngumál höfuðborgarinnar eru í fullkomnum ólestri, af því að þar hefur verið látið reka á reiðanum og látið hjá líða að beita beztu fáanlegu samgöngutækni til að leita hagkvæmustu lausna, sem þó losa vegfarendur undan umferðarhnútum, auka öryggi vegfarenda og tryggja snurðulaust umferðarflæði um langa framtíð. 

Í staðinn sitja íbúar höfuðborgarsvæðisins og aðrir vegfarendur þar uppi með rándýrt örverpi, sem leysir ekki nokkurs manns vanda, en mun valda fjársvelti til margra þarfra verkefna, ef því verður hleypt áfram, eins og yfirvöld borgarinnar berjast fyrir. 

Það verður ekki af Samfylkingunni skafið, að hún er trú skortstefnu sinni á öllum sviðum.  Hér slær hún 2 flugur í einu höggi: skapar skort á fé til gagnlegra samgönguverkefna og skort á frambærilegum umferðaræðum í Reykjavík, m.a. með úreltum ljósastýrðum gatnamótum í stað mislægra gatnamóta, sem svara kalli nútímans. Stefna Samfylkingarinnar er í raun að stöðugt vaxandi óreiðu, af því að getuna til að standa uppbyggilega og af ábyrgð að málum skortir.   

 

 

   


Geðshræring, þegar yfirvegunar er þörf

Ótrúlegu moldviðri hefur verið þyrlað upp vegna sölu á 22,5 % eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.  Þar eru lítilsigldir stjórnmálamenn að fiska í gruggugu vatni í ljósi sveitarstjórnarkosninganna 14. maí 2022, og ofan á bætist innbyrðis ómerkingakeppni þeirra um athygli og vegsemd innan eigin stjórnmálaflokka. Þetta er frumhlaup stjórnarandstöðunnar í ljósi þess, að Seðlabankinn og Ríkisendurskoðun eru með undirbúning og söluferlið sjálft til skoðunar.  Ófáir gagnrýnendanna hefðu notað hvaða fjöður, sem þeir komust yfir, til að búa til 10 hænsni, svo að úthúða mætti þeim gjörningi per se að selja ríkiseignir.  Forstokkaðir sameignarsinnar eru ófærir um að draga rökréttar ályktanir af atburðum, gömlum og nýjum, sem sýna glögglega, að binding á ríkisfé í banka í miklum mæli er engu þjóðfélagi til heilla, enda er slíkt yfirleitt ekki tíðkað.

 Kolbrúnu Bergþórsdóttur blöskrar framganga stjórnarandstöðunnar í þessu bankasölumáli, enda í raun ótímabær, þar til málið hefur verið krufið til mergjar af til þess settum aðilum.  Skýring á þessari hegðun gæti verið tilraun til að draga athygli kjósenda frá gjörsamlega óboðlegum kreddum meirihluta borgarstjórnar, sem hafa valdið stórvandræðum á húsnæðismarkaðnum og fullkominni stöðnun í umferðarmálum, sem auðvitað jafngildir afturför. Gatnakerfi Reykjavíkur er með öllu óboðlegt fyrir þá umferð, sem það þarf að þjóna, það er tæknilega aftarlega á merinni og býður hættunni heim með frumstæðum gatnamótum.  Hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar um að fækka bílunum með ofurstrætó á miðju vegstæði eru andvana fæddar skýjaglópahugmyndir. Ofan á þessa hörmung bætist óstjórn fjármála og leynibrall borgarstjóra með "útrásarvíkingi", sem nú er stærsti hluthafi Skeljungs.

Kolbrún ritaði forystugrein Fréttablaðsins 6. maí 2022, sem hún nefndi því lýsandi nafni:

"Vanstilling".

Forystugreinin hófst þannig:

"Það er örugglega ekki vinsæll þankagangur nú um stundir, en samt skal spurt, hvort æsingurinn vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka sé ekki fullmikill ? [Þetta mætti Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, hugleiða sérstaklega, en hún hefur flestum öðrum átt auðveldan leik við ávöxtun hlutabréfa, sem henni hafa áskotnazt á sérkjörum sem starfsmaður í banka - innsk. BJo.]

Djöfulgangur stjórnarandstöðunnar er skiljanlegur, þótt erfitt sé að hafa þolinmæði með honum.  Stjórnarandstaðan þráir ekkert meir en að fella ríkisstjórnina og virðist tilbúin að grípa til hvaða ráða sem er til að það markmið náist.  Um leið verða ýkjur, gífuryrði og útúrsnúningar sjálfsagður hluti af málflutninginum.  Einmitt þetta gerir stjórnarandstöðuna ótrúverðuga í þessu ákveðna máli, eins og reyndar ýmsum öðrum.

Vissulega blasir við, að í Íslandsbankamálinu var sumu klúðrað.  Það jafngildir hins vegar ekki siðleysi, spillingu og svikum við þjóðina, þótt fjölmargir haldi því fram.  Það hentar stjórnarandstöðunni t.d. afskaplega vel að nota sem sterkust orð um söluna og sá fræjum tortryggni [á] meðal almennings. 

Í mótmælum á Austurvelli sjást margir þeir, sem höfðu sig hvað mest í frammi í skrílslátum á þessum stað eftir bankahrun ["the usual suspects"-innsk. BJo]. Það hvarflar jafnvel að manni, að þetta fólk sakni tímans, þegar það gat æpt sem hæst og barið í potta og pönnur, og sé nú að reyna að endurskapa hann.  Þótt slatti af fólki sé á Austurvelli, þá eru mótmælin nú ekki verulega fjölmenn.  Það hljóta að vera umtalsverð vonbrigði fyrir æsingafólkið."

 Þessi mótmæli í hlaðvarpa Hallveigar og Ingólfs eru óttalega hvimleið og skilja ekkert annað eftir sig en svigurmæli og annan sóðaskap. Þetta fólk hefur lítið fyrir stafni, úr því að það finnur sér ekkert annað til dundurs en að misþyrma vikulega þessum hlaðvarpa fyrstu skrásettu landnámshjónanna á Íslandi og verða til almennra leiðinda með ópum og skrækjum.  Það ætti að finna sér einangrað rými og fá þar útrás með því að syngja "Nallann" nokkrum sinnum.  Boðskapurinn er enginn, nema almenn samfélagsleg vonbrigði. 

Lok þessarar forystugreinar Kolbrúnar voru þannig:

"Spyrja má, hvort það hafi ekki alltaf legið fyrir, að þetta fólk færi upp á háa c-ið, hvernig sem hefði verið staðið að sölu Íslandsbanka.  Það hefði ætíð þefað uppi tækifæri til að öskra uppáhaldsorð sín: Spilling ! Vanhæf ríkisstjórn ! [meinar líklega "óhæf ríkisstjórn" !?-innsk. BJo].  Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að fara ofan í saumana á sölu Íslandsbanka, en þeir, sem fá það hlutverk, verða að búa yfir yfirvegun, en ekki lifa í stöðugri vanstillingu."

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa opinberað vangetu sína (óhæfni) til að taka við upplýsingum og vinna úr þeim, en það er grundvallar atriði fyrir þingmenn að ráða við þetta.  Þeir hafa eftir söluna komið eða þótzt koma af fjöllum um aðferðina, sem beitt var, en formaður og forstjóri Bankasýslunnar voru þó búnir að gera þingnefndum ítarlega grein fyrir aðgerðinni og þingmenn ekki gert athugasemdir, nema til að gera sölu ríkiseigna yfirleitt tortryggilega.  Morgunblaðið gerði grein fyrir þessu 7. maí 2022 undir fyrirsögninni:

"Fengu kynningu á tilboðsleiðinni".

Fréttin hófst þannig:

"Á fundum með fjárlaganefnd Alþingis 21. febrúar [2022] og með efnahags- og viðskiptanefnd þremur dögum síðar kynntu fulltrúar Bankasýslu ríkisins með ítarlegum hætti, hvaða leið stofnunin legði til við við sölu á frekari hlut ríkisins í Íslandsbanka.  Þar var helzt lagt til, það sem kallað er "tilboðsfyrirkomulag", sem var sú leið, sem farin var í útboðinu 22. marz [2022], þegar ríkið seldi 22,5 % hlut í bankanum fyrir um mrdISK 53."

Það er þess vegna helber hræsni stjórnarandstöðunnar á Alþingi, að sú leið, sem farin var, hafi komið þinginu í opna skjöldu.  Að einhverju leyti kann sofandaháttur og misskilningur þingmanna að hafa ráðið för, en árásir á ríkisstjórnina í kjölfar útboðsins bera aðeins vitni ómerkilegri tækifærismennsku.  Í sumum tilvikum notuðu sameignarsinnar tækifærið til að koma höggi á ríkisstjórnina fyrir yfirleitt að dirfast að koma eigum ríkisins í verð í stað þess að liggja aðgerðalitlar og með talsverðri áhættu sem eigið fé banka.  Engum rekstri hentar ríkiseign og ríkisafskipti, og bankastarfsemi er þar engin undantakning. 

 "Eins og fram kom í úttekt ViðskiptaMogga, fór mikil umræða fram um málið á fundum nefndanna, en enginn nefndarmaður gerði þó efnislega athugasemd við þá leið, sem farin var, þ.e. tilboðsfyrirkomulagið. Þá var heldur ekki gerður fyrirvari um það, hverjir mættu eða mættu ekki fjárfesta í útboðinu. 

Í fyrrnefndum glærum kemur fram, að bankasýslan leggi til tilboðsfyrirkomulag í þeim tilgangi að fá sem hæst verð fyrir eignarhlutinn með sem minnstum tilkostnaði.  Þótt deilt hafi verið um fyrirkomulagið eftir á, þá gekk þetta markmið eftir."

(Undirstr. BJo)   Þar sem söluferlið var með blessun Alþingis og megináformin gengu eftir, er engin málefnaleg ástæða fyrir þingmenn að hneykslast á ferlinu eftir og því síður er ástæða fyrir þingið að haga sér, eins og himinninn hafi hrunið, og að þingið þurfi strax að skipa "óháða" rannsóknarnefnd með öllum þeim tilkostnaði.  Rétt bærir eftirlitsaðilar ríkisins fara nú yfir þessa hnökra. Geðshræring þingmanna og vanstilling hefur smitað út frá sér.  Fullyrðingar loddara í þeirra röðum um, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi átt að hindra föður sinn í að neyta réttar síns til viðskipta í þessu tilviki eru svo ósvífnar og heimskulegar, að engu lagi er líkt.  Bankasýslan upplýsti engan um viðskiptamenn á meðan á viðskiptunum stóð og taldi sig ekki einu sinni mega upplýsa ráðuneytið eftir á.  Ráðherrann sjálfur skarst þá í leikinn, fékk skrá um kaupendur og opinberaði hana umsvifalaust. Hvernig getur nokkur verið svo skyni skroppinn, að kaup þessa ættmennis ráðherrans hafi farið fram með vitund hans og vilja ? Uppþotið væri of dýru verði keypt.  Upphæðin var lág, en öllum mátti vera ljóst, að það er fátt og lítið, sem hundstungan finnur ekki.    

 

  h_my_pictures_falkinn

 


Kúvending við örlagaþrungna atburði

Í fyrsta sinn frá Heimsstyrjöld 2 hefur stórveldi ráðizt með hervaldi á fullvalda nágranna sinn í því skyni að ná tökum á öllu landinu. Það gerðist 24.02.2022 með innrás Rússlands í Úkraínu, þrátt fyrir fullyrðingar forseta Rússlands um, að liðssafnaðurinn við landamæri Úkraínu væri þar í æfingaskyni. Sannleikurinn vefst ekki fyrir þessum fyrrum leyniþjónustumanni, sem Kasparof, fyrrum heimsmeistari í skák, líkti nýlega við mafíuforingja. 

Sovét-Rússland réðist að vísu með her inn í Ungverjaland og hertók Búda-Pest 1956 og inn í Tékkóslóvakíu árið 1968, en varla er hægt að kalla fórnarlömbin þá fullvalda ríki, enda voru þau á bak við járntjald alræðis kommúnismans í þá daga.  Þá horfði Evrópa og upp á hin hræðilegu Balkanstríð á 10. áratugi 20. aldarinnar, þegar Serbar reyndu að sameina ríkin, sem áður voru hluti Júgóslavíu, undir veldi sitt, en Serbar voru ekki stórveldi.  Þannig er hinn voveiflegi atburður að næturlagi 24. febrúar 2022 einstakur í sögunni og mun eðlilega hafa gríðarlegar, jafnvel geigvænlegar, afleiðingar. Miklar afleiðingar hafa þegar komið í ljós.  Núverandi atburðir munu móta söguna í mannsaldur eða meir. Af afstöðu Kínverja að dæma til hinnar villimannlegu innrásar í Úkraínu, er Rússland að einangrast á öllum sviðum.  Ríkisstjórn og herráð Rússlands hafa gert herfileg mistök með innrásinni í Úkraínu, herinn hefur lent í kviksyndi stríðsglæpa með árásum, einnig eldflaugaárásum, á saklausa borgara, íbúðarhús, skóla og sjúkrahús, og vakið viðurstyggð umheimsins. Óskandi væri, að bardagaþrek þessa rússneska innrásarhers þryti alveg og að hann hundskaðist heim til sín með skottið á milli lappanna.  

Við sjáum nú, að glæpsamlegt atferli lygalaupsins og ómerkingsins, sem situr enn með valdataumana í Kreml, hefur ekki aðeins náð að sameina Úkraínumenn í blóðugri baráttu gegn ofurefli liðs einræðisseggsins, heldur einnig Vesturlönd og bandamenn þeirra. Þau hafa sameinazt um hörðustu refsiaðgerðir á fjármálasviðinu, sem þekkjast, með þeim afleiðingum, að rússneska rúblan hefur hrunið ásamt rússneska verðbréfamarkaðinum, ýmsum ólígörkum í kringum forseta Rússlands hefur verið meinaður aðgangur að fjárhirzlum sínum á Vesturlöndum, bankaviðskipti Rússa hafa verið torvelduð verulega (SWIFT-takmarkanir) og síðast en ekki sízt hafa eigur rússneska seðlabankans á Vesturlöndum verið teknar eignarnámi um sinn (á meðan Vladimir Putin er við völd). Það er athyglisvert, að Svissland, með alla sína bankaleynd, tekur þátt í ströngum refsiaðgerðum gegn téðum Pútin og hirðinni í kringum hann. 

Téður Vladimir Pútín greip þá til vitlausasta svarsins, sem hugsazt gat, þ.e. að hóta kjarnorkustríði.  Rússar eiga nú engra annarra kosta völ en að fjarlægja þennan mann úr valdastóli. Æ fleiri valdamönnum í Rússlandi hlýtur að verða það ljóst, að héðan af liggur leiðin bratt niður á við fyrir Pútín, og Rússland má ekki við því að verða dregið lengra ogan í svaðið. Það er þó hægara sagt en gert að losna við einræðisseggi, eins og sannaðist með hetjulegri tilraun Claus von Stauffenbergs og félaga 20. júlí 1944 í Úlfsgreninu í Austur-Prússlandi. 

Vesturlönd standa nú sameinuð gegn Rússlandi.  Þjóðverjar hafa gert sér grein fyrir áhættunni, sem fylgir kaupum á jarðeldsneytisgasi frá Rússlandi og stöðvað leyfisveitingaferli fyrir Nord Stream 2 gasleiðslu Gazprom á botni Eystrasalts.  Þeir hafa kappkostað viðskipti við Rússa í nafni friðsamlegrar samvinnu, en hafa nú áttað sig á því, að hagsmunirnir fara ekki saman.  40 % af orkunotkun Þjóðverja á uppruna sinn í jarðgasi, og u.þ.b. helmingur þessa gass kemur frá Rússlandi.

Skyndilega er rússneska ríkið orðið fjandmaður Sambandslýðveldisins, þar sem sú ógn liggur í loftinu eftir ritgerðaskrif og ræðuhöld forseta Rússlands undanfarna mánuði, að hann sé haldinn einhvers konar köllun um að endurreisa rússneska ríkið með landvinningum, þar sem taka Úkraínu væri bara forsmekkurinn að því, sem koma skal.  Fyrir vikið hefur Sambandslýðveldið nú orðið við beiðnum Úkraínustjórnar um að senda Úkraínuher öflug varnarvopn, og munar þar e.t.v. mest um handhæg flugskeyti gegn skriðdrekum og herflugvélum/herþyrlum. Ekki hefur þó frétzt af Leopard 2. skriðdrekanum enn í Úkraínu. Er þó um að ræða hressilega viðbót við þá 5000 hjálma, sem ríkisstjórn Olaf Scholz áður sendi, og sumir litu á sem lélegan brandara, en reyndist síðasti liðurinn í friðþægingarferli Þjóðverja gagnvart Rússum, sem mafíósar túlka bara sem veikleikamerki.  Friðþægingarstefnan heyrir nú sögunni til. 

Þá var sunnudaginn 27. febrúar 2022 tilkynnt í Berlín um, að ríkisstjórnin hygðist leggja fram fjáraukalagafrumvarp fyrir Bundestag, sem kveður á um mrdEUR 100 eða rúmlega 14 trilljóna ISK (tæplega 5-föld VLF Íslands) viðbótar fjárveitingu til Bundeswehr á örfáum árum til að fullnægja strax viðmiðum NATO um a.m.k. 2,0 % af VLF til hermála á ári.  Það mundi svara til mrdISK 60 til varnarmála hérlendis. 

Þjóðverjar gera það ekki endasleppt, þegar þeir finna, að að þeim er sorfið.  Um þessa sömu helgi söðlaði ríkisstjórnin í Berlín um í orkumálunum.  Í stað þess að hvetja til fjárfestinga í vindmyllum og sólarhlöðum, sem eru í senn lítilvirk, plássfrek og óáreiðanleg framleiðslutæki, sem krafjast gasorkuvera með til að fylla í eyður slitrótts rekstrar, þá var ákveðið að leysa raforkuvanda landsins með því að flýta fyrir því að reisa kjarnorkuver, en eins og mörgum er kunnugt, ákvað Bundestag 2011 að tilhlutan fyrrverandi kanzlara CDU, Angelu Merkel, í kjölfar Fukushima hamfaranna í Japan, að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands í síðasta lagi 2022.  Þarna hafa Þjóðverjar loksins tekið raunhæfa stefnu um að verða sjálfum sér nógir með rafmagn án þess að brenna jarðefnaeldsneyti. 

Með þessum 3 ákvörðunum ríkisstjórnar og þings í Berlín, þ.e. að senda vopn til stríðandi aðila, að gera Bundeswhr vel bardagahæfan á ný og að reisa kjarnorkuver, hafa Jafnaðarmenn (SPD) kastað friðþægingarstefnu sinni gagnvart Rússum á haugana, og Græningjar hafa kastað friðarstefnu sinni (uppruni þessa flokks eru friðarhreyfingar í Þýzkalandi á 8. og 9. áratug 20. aldar) og hatrammri andstöðu við kjarnorkuver fyrir róða.  Miklir atburðir hafa orðið, og er þó innan við vika síðan hinir örlagaþrungnu atburðir hófust.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband