Færsluflokkur: Menntun og skóli

Viðskiptaráð og grunnskólinn

Þegar Viðskiptaráð tjáir sig um landsins gagn og nauðsynjar, er það alltaf að vel ígrunduðu máli og fræðandi.  Þess vegna ber að fagna Úttekt Viðskiptaráðs á grunnskólakerfinu, en Morgunblaðið, sem hefur gert vanda grunnskólakerfisins íslenzka góð skil, gerði grein fyrir úttektinni með viðtali við Björn Brynjúlf Björnsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, þann 21. október 2024, undir fyrirsögninni:

"Ísland stenzt ekki samanburð".

""Við tókum saman helztu tölfræði, sem snýr að hagkvæmni grunnskólakerfisins á Íslandi, og tölurnar sýna, að áhyggjur borgarstjóra voru ekki úr lausu lofti gripnar.  Undanfarin ár og áratugi hefur kennurum og starfsfólki skólanna fjölgað hraðar nemendum, kennsluskylda íslenzkra kennara er með því lægsta, sem þekkist innan OECD, og veikindahlutfallið er ríflega tvöfalt á við það, sem við sjáum á almennum vinnumarkaði", segir Björn."

"Skóli án aðgreiningar" stillir kennurum upp gagnvart gríðarlega erfiðum vinnuskilyrðum, sem líklega eiga drjúga sök á því, hvernig komið er fyrir grunnskólanum íslenzka, nemendum og kennurum.  Með miklum straumi útlendinga undanfarin ár til landsins hefur keyrt um þverbak.  Hvernig dettur skólayfirvöldum í hug að skella saman nemendum, sem skilja íslenzku, og hinum, sem ekki skilja hana og hverra móðurmál eru jafnvel ólík.  "Skóli án aðgreiningar" er óraunhæf hugmynd, sem veldur því, að sárafáir nemendur þrífast í skólanum og kennarar eru að niðurlotum komnir.  Það verður engin breyting til batnaðar í grunnskólakerfinu fyrr en farið verður að raða nemendum saman í deildir, sem eru nokkurn veginn á sömu blaðsíðu, hvað þekkingu, áhuga og námsgetu varðar.  Þannig var þetta í "den" og gafst vel.  Nemendur fluttust á milli bekkja, upp ef þeim vegnaði vel og niður, ef þeim vegnaði miður.  Þetta ýtti undir marga að leggja sig fram.  Sennilega fengu allir nemendur betri kennslu í þessu kerfi en nokkur leið er að koma við núna.

"Í samantakt Viðskiptaráðs kemur einnig fram, að á Íslandi er fjöldi nemenda á hvern grunnskólakennara langt undir meðaltali OECD, og aðeins á Grikklandi og í Lúxemborg er fjöldi nemenda á kennara minni. Eru tæplega 10 nemendur fyrir hvern kennara í íslenzka grunnskólakerfinu, en í OECD er meðaltalið um 14 nemendur, en í Frakklandi eru t.d. rúmlega 18 nemendur á hvern kennara á grunnskólastiginu.  Þá er kennsluskylda íslenzkra kennara með minnsta móti í samanburði við hin OECD-ríkin, og aðeins í Lettlandi, Eistlandi og Póllandi er hún minni.  Á Íslandi myndi þurfa að auka kennsluskylduna um nærri þriðjung til að ná meðaltali OECD. 

Loks eru heildarútgjöld á hvern grunnskólanemanda á Íslandi, leiðrétt fyrir verðlagi, í hæstu hæðum, en aðeins Noregur og Lúxemborg greiða meira með hverjum nemanda.  Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar er árlegur meðalkostnaður á nemanda í íslenzkum grunnskólum nú farinn að slaga hátt í 2,9 MISK/ár."

   Þarna eru ýmis sjúkleikamerki á íslenzka grunnskólakerfinu nefnd.  Fíllinn í stofunni er "kennsla án aðgreiningar".  Hún þreytir kennarana úr hófi fram og fær þá til að þrýsta á um fækkun í bekkjardeildum og styttri viðveru.  Alls konar stuðningsaðilar vinna nú með kennurunum, sem hleypir kostnaðinum upp, en allt kemur fyrir ekki. "Í den" voru gjarna 30 nemendur í bekk og stuðningsaðilar engir.  Námsárangur var samt betri en nú og þekkingarstig hærra. Kennsluárangur íslenzkra kennara er á meðal hins lakasta í OECD samkvæmt PISA-könnunum. Þetta er einfaldlega lýsing á algerlega misheppnuðu opinberu kerfi.  Það ber að veita hverjum skóla algert sjálfdæmi um það, hvernig hann raðar í bekkjardeildir, og hversu margir nemendur þar eru. Sama á við um, hvers konar stuðningsaðila hann kallar til.  Það, sem máli skiptir og á að vera mælikvarði á gæði kennslunnar, er niðurstaðan á samræmdum prófum, sem þarf að setja ákvæði um í nýrri námskrá, sem semja þarf og gefa út hið fyrsta.  Sveitarfélögin, sem skólana reka, geta síðan leitað leiða til að draga úr kostnaðinum og bæta árangurinn með einkarekstri, þar sem samið er um, að sveitarfélagið greiði skólanum ákveðna upphæð með hverjum nemanda. Skattgreiðandinn græðir á þessu, foreldrarnir koma sléttir út fjárhagslega og nemendur njóta betri kennslu. 

""Að okkar mati er vandi grunnskólakerfisins eitt stærsta kosningamálið í komandi alþingiskosningum.  Við erum með kerfi, þar sem árgangur eftir árgang klárar grunnskóla, þar sem stór hluti nær ekki grunnfærni í lestri og reikningi og það þrátt fyrir, að skólakerfið okkar sé sé það þriðja dýrasta í heimi.""

Þetta sagði Björn Brynjúlfur.  Ekki er að sjá, því miður, að Birni verði að ósk sinni um, að grunnskólavandinn verði leiddur fram í sviðsljósið í aðdraganda kosninga, enda heyrist sáralítið frá barna- og menntamálaráðuneytinu.  Ráðherra málaflokksins virðist ætíð stinga hausnum í sandinn, þegar menntunina, sem grunnskólinn veitir, ber á góma.  Slíkir forystusauðir eru ekki 5 aura virði. Síðan hann var gerður afturreka með sameiningu 2 skóla á Akureyri, hefur hann verið sleginn líkþorni.

"Að mati Björns væri gott fyrsta skref að auka kennsluskyldu kennara til samræmis við það, sem tíðkast í samanburðarlöndunum.  "Það myndi bæta nýtingu opinberra fjármuna, ef hver kennari kenndi fleiri klukkustundir á ári.  Þá þarf að finna út úr því, hvað orsakar þetta háa veikindahlutfall hjá stéttinni og leita leiða til að bæta þar úr. Aðgerðir í þá veru mundu bæta starfsumhverfi kennara og um leið gera grunnskólastigið hagkvæmara."

 Þetta er nú hægara sagt en gert.  Áður en vinnutímasamræming við kennara t.d. á hinum Norðurlöndunum á sér stað, þarf að bera saman vinnuaðstæðurnar.  Líklega glíma íslenzkir grunnskólakennarar við fjölþættari nemendahóp í deild, t.d. hvað uppruna og móðurmál varðar, en kollegar þeirra.  Líklegt er, að stefnan um "skóla án aðgreiningar" sé rót beggja viðfangsefnanna að ofan, þ.e. tiltölulega lítil kennsluskylda og hátt veikindahlutfall, því að fyrirkomulagið leggur óviðráðanlegar byrðar á herðar kennaranna, jafnvel þótt íslenzkar skóladeildir á grunnskólastigi séu fámennari en víðast hvar í OECD.  Það verður að hverfa frá illframkvæmanlegri hugmyndafræði "skóla án aðgreiningar, áður en nokkrar aðrar umbætur á grunnskólakerfinu verða raunhæfar og áður en hægt er að vonast eftir betri prófárangri.     

     

 

 


Að hrapa ekki að niðurstöðu

Það er auðvelt að draga fljótfærnislegar ályktanir út frá tölfræðilegum gögnum, ef viðmiðið er ekki ljóst.  Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, reit grein í Morgunblaðið 3. október 2024, þar sem hann t.d. varaði við að draga viðamiklar ályktanir af PISA-útkomunum í fljótu bragði.  Hins vegar þyrftu skólar að viðhafa próf.  Höfundur þessa pistils telur, að til að sanngirni við nemendur og framhaldsskólana sé gætt, sé s.k. "námsferill" ófullnægjandi. Það er síðan hægt að velta fyrir sér, hvers vegna ekki eigi að gilda hið sama um stúdentspróf, að prófað sé með samræmdum hætti í nokkrum greinum á stúdentsprófi.  Mundi það ekki vera til bóta t.d. fyrir Verkfræðideild og Læknadeild HÍ ?

Grípum niður í grein Helga, sem bar fyrirsögnina:

 "Viðmið og markmið":

"Eðlileg viðmið eru eru skynsömu fólki í blóð borin.  Þetta virðist hafa misfarizt, þegar Íslendingar voru að stilla markmið sín í Parísarsamkomulaginu. Eðlilegt viðmið hefði t.d. getað verið, að útblástur miðaðist við, að öll orka landsins væri búin til með jarðefnaeldsneyti.  Félagsfræðingurinn og tölfræðikennarinn Björn Lomborg hefur talað af skynsemi um viðmið.  Þegar sagt var, að aldrei hefðu fleiri milljónir [manna] soltið á jörðinni, benti hann á, að aldrei hefði jafn lágt hlutfall jarðarbúa soltið. (Verdens sande tilstand.)

 Í stað þess að miða við útblástur gróðurhúsalofttegunda frá heildarorkunotkun þjóða, þá var sett markmið um samdrátt m.v. ákveðið ár.  Þetta gerir Íslendingum erfitt fyrir, því að aðeins um 15 % heildarorkunotkunarinnar er jarðefnaeldsneyti, en víða erlendis er það 70 % - 80 %.  Yfirleitt verður kostnaðarsamara að draga úr þessum útblæstri, þegar hann lækkar.  Það er ekki minnzt á þetta í Parísarsamkomulaginu. Líklega eigum við ekki erindi inn í þetta Parísarsamkomulag.  

"Í skólum eru próf nauðsynleg, og kennslan þarf að fara þannig fram, að nemendur einbeiti sér.  Einhver sagði, að einstaklingur þyrfti að ná að einbeita sér í 10 þúsund tíma fyrir tvítugt.  Starf kennara þarf að verða hnitmiðaðra.  Viðleitni í þá átt reyndum við í hagfræðideild HÍ með því að vera með inntökupróf. Ýmis tæknivandræði komu þá fram.  Ég hafði t.d. kennt 200 manna hópi á 1. ári með misjafnan undirbúning.  Þriðjungurinn var óhæfur til náms, þriðjungur gat vel fylgzt með, og þriðjungur var það góður í stærðfræði, að námið var leiðinlegt.  Hér hefði mátt fara betur með mannauðinn, tíma kennarans og nemenda.  Próf þurfa að mæla réttu atriðin, og nemendur verða að leggja sig fram í prófinu.  Til að kennsla sé markviss, þurfa nemendur að vera nokkurn veginn á sömu blaðsíðunni.  Yfirfært á grunnskóla held ég, að þetta geti þýtt, að kennari lesi framhaldssögu í nestistímanum, sem nemendur skilja og hlakka til framhaldsins."

Það sýnir meinloku gallaðs menntakerfis, að prófessorinn telur þriðjung nemendanna, sem leituðu hófanna í hagfræðinni, hafa verið óhæfa til náms.  Þetta hefst upp úr þeim misskilningi skólamanna, að hlífa eigi nemendum við alvöru prófum.  Prófin eru til að leiðbeina nemendum og kennurum, en þarna bregðast skólamenn illilega nemendum og samfélaginu, þar sem óhæfir nemendur til náms banka á dyr háskólanna. Svona var þetta ekki í "den tid", þegar höfundur þessa pistils var í þessu sama skólakerfi til undirbúnings háskólanámi á 7. áratugi 20. aldar.  Að slaka á þessum kröfum er óskynsamlegt og leiðir til ófarnaðar. 

Þá er það vafalaust rétt athugað hjá prófessornum, að til að kennsla geti orðið hnitmiðuð þurfi nemendur að vera nokkurn veginn á sömu blaðsíðunni.  Þar með fellur kenningin um æskileika skóla án aðgreiningar um koll.  Þegar mikill munur er á getu og kunnáttu nemenda í deild, fer kennslan að miklu leyti fyrir ofan garð og neðan.  Hvílík endemis sóun á mannauði, tíma og fé. 

"Ef einhver óárán í náttúrunni á sér stað, er iðulega klifað á hlýnun jarðar af mannavöldum sem sökudólgi.  Í nýlegri umfjöllun CNN um slys á Breiðamerkurjökli er í 90 s innslagi þrisvar minnzt á vaxandi hitastig af mannavöldum og einnig, að hlýnun á Íslandi sé þreföld heimshlýnunin.  Til að átta sig á þeirri stærðargráðu má benda á, að þróun meðalmánaðarhita í Stykkishólmi í 200 ár sýnir ekki dramatískar hitabreytingar.

Menntun komandi kynslóða og umhverfisvernd eru mikilvæg mál.  PISA-kannanir og Parísarsáttmáli eru ekki góðir áttavitar í þeim málum, og notkun þeirra er ávísun á sóun.  PISA og Parísaraðgerðapakkar eru opinber inngrip af skaðlegri gerðinni.  Við þurfum betri viðmið, sem við skiljum betur."  

Loftslagskirkjunni er mikið í mun í áróðri sínum að benda á dæmi um öfgar í náttúrunni, en hún skýtur sig í fótinn með því að láta eins og öfgar séu nýmæli.  Öfgar í náttúrunni hafa alltaf verið fyrir hendi, og ef ástæða er til að óttast einhverjar slíkar öfgar, er það fimbulkuldi, ný ísöld.  Íslendingar fengu smjörþefinn af þessu í 500 ár á tímabilinu 1400-1900, en á því skeiði fór landið mjög illa, missti mikið af gróðurþekju sinni.  

 PISA og Parísarsamkomulagið eru dæmi um alþjóðasamstarf, sem Íslendingar taka gagnrýnilítið þátt í.  Alþjóðasamstarf er vandmeðfarið, ef það á að gagnast landsmönnum.  Samstarfið við Evrópusambandið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda sýnir það vel.  Það hefur nú leitt til kolefnisgjalda á flug til og frá Íslandi og sjóflutninga, af því að hingað ganga engar járnbrautarlestir.  Er hægt að kokgleypa hvaða vitleysu sem er frá diplómatíunni ?

 


Skólar Vesturlanda víða á villigötum

Hvergi á Vesturlöndum hefur grunnskólanum hrakað meira en á Íslandi, ef marka má PISA-niðurstöður.  Samt skellir kennaraforystan og menntamálayfirvöld skollaeyrum, og engin viðleitni er sjáanleg til úrbóta.  Af PISA-niðurstöðum er þó ljóst, að versnandi árangur grunnskólanema er þó vandamál víðar en hér, og kann einhvers konar tízkubylgju um breytta og slakari kennsluhætti að vera um að kenna.

Í leiðara The Economist um menntamál, 13. júlí 2024, mátti m.a. lesa þetta í þýðingu ritara (ekki gervigreindar):

Það er vel þekkt, að C-19 faraldurinn truflaði skólastarfið mjög.  Á tímabilinu 2018-2022 tafðist meðaltáningur í ríku löndunum um u.þ.b. 6 mánuði m.v. áætlaða framvindu í lestri og um 9 mánuði í stærðfræði samkvæmt OECD. Það, sem er á vitorði færri, er, að vandinn hófst löngu fyrir C-19.  Dæmigerður nemandi í OECD-landi stóð jafnaldra sínum 15 árum fyrr ekki á sporði í lestri og reikningi, þegar C-19 hófst.

Í Bandaríkjunum sýna próf til margra ára í stærðfræði og lestri, að árangur náði hámarki snemma á 2. áratugi 21. aldarinnar.  Síðan þá hefur meðalárangur þar annaðhvort staðið í stað eða honum hefur hrakað. Í Finnlandi, Frakklandi, Þýzkalandi og Hollandi o.fl. löndum sýna alþjóðleg próf, að árangri hefur lengi hrakað.  Hvað hefur farið úrskeiðis ? 

Ytri áföll hafa haft áhrif.  Margir hafa viljað flytja til Bretlands, og þeir tala fæstir ensku.  Farsímar trufla nemendur, svo að þeir lesa ekki heima.  C-19 faraldurinn setti allt á annan endann.  Margar héraðsstjórnir lokuðu skólum of lengi, hvattar af stéttarfélögum kennara, og börn glutruðu niður vananum að læra. Mætingar á mörgum stöðum eru lakari en fyrir C-19.  Bekkjardeildir hafa orðið hávaðasamari. 

Engu að síður bera menntayfirvöld mikla sök á stöðnuninni.  Í Bandaríkjunum t.d. voru umbætur í skólum einu sinni sameiginlegt málefni beggja stóru stjórnmálaflokkanna. Núna er hægrið heltekið af menningarstríðs málflutningi, en margir vinstra megin stunda, það sem George W. Bush nefndi "hið mjúka ofstæki lítilla væntinga" og halda því fram, að skólastofurnar séu með slagsíðu í átt að minnihlutahópum og að það sé ómögulegt og siðlaust að gera sömu kröfur til allra nemenda.  Aðrir vilja heimavinnu og próf léttari eða sleppt vegna geðheilsu nemenda. 

Tízkuhugsun er andstaða festunnar.  Ein kenning er um það, að gervigreind muni gera hefðbundinn lærdóm minna gagnlegan, svo að skólar ættu að leggja áherzlu á "að leysa viðfangsefni", "gagnrýna hugsun" og nemendur, sem gengur vel að vinna í teymi.  Á grundvelli þessa hafa lönd tekið upp námsskrár, sem einblína á óljósa "þekkingu" og gera lítið úr staðreyndalærdómi sem gamaldags.  Nokkrir, m.a. Skotar, hafa séð nemendum hraka í reikningi sem afleiðingu.  Þeim, sem staðið hafa gegn þessari nýtízku, s.s. Englendingum, hefur gengið betur.

Stjórnvöld ættu að einbeita sér að grundvallar atriðunum.  Þau ættu að verja ströng próf, vinna gegn einkunnabólgu og skapa svigrúm fyrir einkaskóla til að auka valfrelsi.  Þau ættu að greiða kennurum samkeppnihæf laun til að geta ráðið góða kennara og reka slaka kennara, þótt það stríði gegn vilja stéttarfélaga.  Þetta þarf ekki að hækka kostnað, því að fámennar bekkjardeildir eru minna mikilvægar en foreldrar ímynda sér.  Færri og betri kennarar geta náð betri árangri en margir slakir kennarar.  Japanskir nemendur slá bandarískum jafnöldrum sínum við á prófum, þótt meðalskólastofan í grunnskóla í Japan sé með 10 fleiri borð en sambærileg í Bandaríkjunum. 

Annað verkefni er að safna saman og dreifa upplýsingum um, hvers konar kennslustundir gagnast bezt - verkefni, sem margar skólastjórnir hunza.  Stéttarfélög kunna að láta sér lynda, að litið sé á góða kennslu sem of dularfulla til að mæla, en börn líða fyrir það.  Skólakerfi á heimsmælikvarða, eins og í Singapúr, eru með stöðugar tilraunir í þessum efnum, misheppnast fljótt og halda áfram.  Önnur halda áfram með það, sem ekki virkar. 

Mikið er undir.  Í ríkum löndum fækkar starfsfólki, þegar meðalaldur þjóðar hækkar.  Framleiðni verður að vaxa til að viðhalda lífskjörum.  Þörf verður á vel þjálfum hugum til að fást við ný erfið viðfangsefni af viti, frá ójöfnuði til loftslagsbreytinga.  H.G. Wells, smásagnahöfundur og framtíðarspámaður, skrifaði, að saga mannkyns væri "kapphlaup á milli menntunar og hruns".  Það er kapphlaup, sem mannkynið hefur ekki ráð á að tapa.  Þetta var leiðari úr The Economist.

Að gera lítið úr vandanum, sem íslenzki grunnskólinn stendur frammi fyrir, eru grundvallar mistök yfirvalda menntamála á Íslandi og að setjast á sundurgreindar upplýsingar um PISA-prófin er uppgjöf.  Með óbreyttri stefnu menntamálaráðuneytisins bregðast íslenzk yfirvöld æskunni og gera sig sek um vanrækslu, sem mun óhjákvæmilega leiða til hnignunar á flestum sviðum samfélagsins, minni framleiðniaukningar en nauðsynleg er, og lakari lífsgæða. 

        

 

  

 


Um próf

Í huga þessa skrifara er skóli á öllum stigum óhjákvæmilega tengdur prófum, enda þjálfa prófin nemendur í að sýna þekkingu sína á fögum heillar annar eða vetrar (tveggja anna).  Þessi þjálfun kemur sér iðulega vel í starfi síðar á ævinni.  Vitneskjan um, að próf yrði haldið til að skera úr um, hvort nemandanum yrði heimilað að færast upp um deild (og nær lokaprófi), virkaði alla tíð sem ágætis aðhald um að slaka ekki á.  Nám er ekki leikur, heldur vinna, sem krefst sjálfsaga.  Kennarar gerðu þekkingarkröfur, og nemendur lærðu að sama skapi að gera kröfur til sjálfra sín, vildu þeir á annað borð ná viðunandi árangri í skólanum.  

Engu er líkara en nú sé viðkvæðið í menntamálaráðuneytinu og á meðal kennaraforystunnar o.fl., að próf séu of íþyngjandi fyrir bæði nemendur og kennara, og bezt sé að trufla skólastarfið sem minnst með þeim.  Afleiðingin er sú, að nemendur þjálfast ekki í að taka próf, sem leiðir til þess, að þegar próf er loks lagt fyrir þá, þá verður niðurstaðan hörmuleg, eins og á PISA-prófunum, og kannski vantar líka þekkingargrunninn, a.m.k. í sumum skólum. Hverjum er greiði gerður með þessum ósköpum ?  Alla vega ekki nemendum, sem virðast koma grænir á bak við bæði eyrun út úr grunnskóla, og enginn þykist vita, hvernig á því stendur.  Enginn samanburður á milli deilda sama skóla né á milli skóla er leyfður, svo að erfitt er um vik að fá heildarsýn yfir stöðuna eða átta sig á, hvaða kennsluaðferðir eru betri en aðrar.  Þetta hlýtur hins vegar að leiða til þess, að framhaldsskólarnir fái til sín nemendur, sem eiga á brattann að sækja, ef þá hreinlega er ekki slegið af kröfum.  Samfélagslega er þetta slæmt, því að sleifarlag í grunnskóla setur tóninn um allt framhaldið, og atvinnulífið hefur úr minna bitastæðum einstaklingum að moða, og þeir munu fyrr eða síðar reka sig á vegg. 

Meyvant Þórólfsson þekkir þessi mál gjörla, enda prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum.  Af fjölmörgum greinum hans í Morgunblaðinu að undanförnu er ljóst, að hann væri vel fallinn til að leiða "grundvallarendurskoðun" á grunnskólakerfinu og til að semja nýja námsskrá, sem er bráðnauðsynlegt. 

 Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024 með því dýrafræðilega heiti:

"Landspróf og slíðurhyrnd jórturdýr - söguvitund".

Hún hófst þannig:

"Árið 1957 birtist svohljóðandi prófverkefni á landsprófi miðskóla í náttúrufræði:

"Nefnið 8 tegundir slíðurhyrndra jórturdýra.  Takið fram um hverja tegund, hvort hún er til villt eða tamin eða er aldauða og um villtar tegundir, hvar þær lifa."

Spurningin, hvort tiltekin tegund slíðurhyrndra jórturdýra finnst villt, tamin eða sé aldauða, var vissulega vel fallin til svars, þ.e. auðvelt að gefa fyrir rétt eða rangt.  Réttmætið var hins vegar lítið, af því [að] spurningin hjálpaði lítið við að meta raunverulega þekkingu og skilning nemenda á náttúruvísindum." 

Því verður þó ekki neitað, að sá nemandi, sem svarað hefur þessari spurningu rétt, hefur þetta tiltekna námsefni á valdi sínu, og fyrir það á hann skilda umbun á prófi.  Hann er jafnframt líklegur til að geta skrifað stutta ritgerð um, hvenær og hvar slíðurhyrnd jórturdýr komu fram, og hvers vegna hver tegund útdauðra dýra hafi liðið undir lok, ef um þetta var fjallað í námsbókinni.  Til að prófa þekkingu nemenda á þessu tiltekna námsefni var spurningin ekki slæm.  Er ekki lengur ætlazt til, að nemendur tileinki sér efni námsbókanna ?  Gæði námsbókanna er svo allt annað mál.

"Á 3. áratugi 20. aldar náðu breytt viðhorf yfirhöndinni, og nýjar matsaðferðir festust í sessi sbr titil ritsins "Nýjar prófaðferðir" frá 1922 eftir Steingrím Arason.  Í stað munnlegra yfirheyrslna voru tekin upp samræmd, skrifleg próf, sem ætlað var að fyrirbyggja "allt handahóf" og afstýra því, að matsniðurstöður yrðu komnar undir áliti og geðfelldni kennara og prófdómara, eins og ritstjórar Skólablaðsins bentu á.

Steingrímur og félagar vildu þannig forðast skekkjur, er fylgdu jafnan huglægu mati, einkum svonefnd geislabaugsáhrif (halo effect).  Þau lýsa sér þannig, að fyrri vitneskja um nemanda getur skekkt matsniðurstöður, hvort sem sú vitneskja er jákvæð eða neikvæð fyrir nemandann.  Í fámenni íslenzks samfélags vissu kennarar og prófdómarar töluvert um bakgrunn hvers barns eða unglings, sem metinn var, og það gat augljóslega skekkt matsniðurstöður.  Slíkur vandi þekkist reyndar enn í íslenzku skólakerfi, þegar kemur að mati og einkunnagjöf við lok grunnskóla.

Steingrímur Arason taldi taldi gerð prófa, sem hann hafði kynnzt í námi við Columbia-háskóla í New York, tryggustu leiðina til að forðast slíkar skekkjur og stuðla þannig að heiðarlegu og hlutlægu mati.  Hann barðist fyrir gildi prófanna, sem réttmætra matstækja og þar með jöfnuði, nýbreytni og afnámi kennsluhátta, er stuðluðu að "þululærdómi". 

 Það var ekki skrýtið, að viðhorfin til skólanna breyttust á 3. áratugi 20. aldar, því að þetta var fyrsti áratugurinn eftir rothöggið á lénsskipulagið, aðalskerfið, sem leið undir lok í heimsstyrjöldinni 1914-1918. Þar með leystust ný öfl úr læðingi.  Á Vesturlöndum var borgaralegt lýðræðiskerfi aðalkerfið, sem við tók, en í upplausn þjóðfélagsbreytinganna náðu ofstækisöfl sums staðar undirtökunum, t.d. kommúnistar í Rússlandi og fasistar á Ítalíu, en Bjórkjallarauppreisn nazista Adolfs Hitlers í München 1923 var kæfð í fæðingu og Adolf stungið í fangelsi, þar sem hann ritaði "Mein Kampf", stefnumörkun hins þjóðernislega sósíalistaflokks þýzkra verkamanna.

Skriflegu prófin höfðu margt til síns ágætis, sem munnlegu prófin höfðu ekki, en samt var haldið áfram með munnleg próf, t.d. í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem munnlegt próf var í öllum stúdentsprófsgreinunum ásamt skriflegu prófi 1969, ef ritari man rétt. 

Það er ekkert vit í að afnema skrifleg próf og taka þess í stað upp e.k. símat kennara, því að þá er búið að innleiða hættu, sem Steingrímur Arason vildi sneiða hjá og fólst í mögulegri óhlutlægni kennara gagnvart nemendum, t.d. frændhygli, (geislabaugsáhrif). 

Nú er íslenzki grunnskólinn í lægð, eins og PISA-prófin bera vitni um, og á meðan svo er, er mjög bagalegt að hafa ekki samræmd skrifleg próf á þessu skólastigi, en þau gætu hjálpað til við að feta umbótabraut.  Við svo búið má ekki standa. 

"Þegar leið á öldina [20.], var engu líkara en allt færi úr böndum.  Samkvæmt ákvæðum fræðslulaganna frá 1946 átti landspróf miðskóla að "jafna stöðu unglinga til aðgangs að æðri menntun" og því eðlilegt, að hlutfall þeirra, sem þreyttu prófið, færi sífellt vaxandi; í upphafi gengust færri en 10 % nemenda undir landspróf, á 6. áratuginum um 20 %, og fjöldinn var kominn í þriðjung árgangs um 1970.

En á sama tíma skaut óvæntur púki upp kollinum.  Hann birtist sem áköf bóknámsdýrkun ásamt framsetningu prófverkefna af því tagi, sem lýst var hér á undan.  Spurt var um ótal smáatriði, sem töldust vel fallin til svars, en sögðu jafnan lítið um raunverulega kunnáttu nemenda."

  Ritari þessa pistils mundi telja líklegra, að nemandi, sem kynni góð skil á smáatriðum, hefði aðalatrið fagsins á valdi sínu en sá, sem flaskar á smáatriðunum.  Á Landsprófi stóðu allir nemendur, sem vildu halda námi áfram, eins jafnt að vígi og frekast var kostur, því að þeir voru allir metnir á sama mælikvarða.  Nú er mismikil "bólga" í einkunnagjöf kennara, og kemur það niður á nemendum, þar sem "bólgan" er minni, við val inn í framhaldsskólana.  Að leggja niður "samræmd" skrifleg próf á lokaári grunnskóla er þess vegna skref aftur á bak m.v. hagsmuni nemenda.  

Að lokum skrifaði Meyvant:

"Skólafólk virðist enn brennt af þessum óförum.  Í handbókinni "Fjólbreyttar leiðir í námsmati" frá árinu 2019, sem má finna á leslista í kennaranámi nú á dögum, er því haldið fram, að margir hafi efasemdir um samræmd próf.  Þau stýri kennslu og valdi ofuráherzlu á staðreyndanám auk þess, sem þau leiði af sér einhæfa kennsluhætti.  Í skýrslu menntamálayfirvalda frá 2020 um framtíð slíkra prófa kveður við svipaðan tón: "Prófin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að stýra um of skólastarfi, að aðeins sé prófað í bóklegum greinum og þeim atriðum, sem auðvelt er að meta."

Um miðjan 8. áratuginn var landspróf aflagt og samræmd lokapróf tekin upp.  En þar með hvarf ekki púkinn, nema síður væri.  Alla tíð síðan hefur verið tekizt á um mat að loknu skyldunámi, eðli þess og þátt í aðgengi að framhaldsskólanámi.  Engum dylst, að faglega útfærð lokapróf stuðla að gæðum náms í mikilvægum námsgreinum, eins og þeim, sem prófað er úr í PISA og TIMSS.  Hvernig sem öllu er á botninn hvolft, þá á hver nemandi skilið að fá sig metinn á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt í námsgreinum, eins og stærðfræði, náttúruvísindum og móðurmáli, þegar grunnskóla lýkur.  Að mati undirritaðs virðist nýtt námsmatskerfi, Matsferill, ekki uppfylla þau skilyrði."

Ritari þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um niðurstöðu hans í lokin.  Hlutverk grunnskóla er að búa nemendur undir lífið og inngöngu í framhaldsskóla.  Grunnskólakennarar geta þess vegna ekki leikið lausum hala og kennt eins og þeim þóknast.  Það má koma til móts við þá með því að takmarka fagfjöldann, sem prófað er í samræmt, við 4 greinar, og ættu PISA-prófgreinarnar að vera þeirra á meðal.  

Með menntamálaforystu og kennaraforystu af því tagi, sem Íslendingar búa við nú um stundir, er ekki kyn, þótt keraldið leki.  

  

 

 

  

 

 


Ráðherrann ráðalausi

Ef Ísland tæki ekki þátt í PISA-prófum OECD, væri hörmuleg frammistaða íslenzka grunnskólans við menntun grunnskólabarna ekki á almennu vitorði.  Dauðyflisháttur menntamálaforystunnar gagnvart niðurstöðum PISA er hins vegar yfirþyrmandi, því að hún hreinlega stingur hausnum í sandinn og lætur eins og Ísland geti vel við unað að vera með grunnskóla í ruslflokki, hvað þekkingarmiðlun varðar á alþjóðlegan mælikvarða. Gæðum samfélagsins mun þá hraka, og þeim er þegar tekið að hraka.  Það verður dýrkeypt að láta menn komast upp með alls konar fúsk.  Eitt dæmið er Samgöngusáttmálinn.  Sýnt hefur verið fram á, að útreikningar hans hvíla ekki á réttum forsendum og almennilegt verkefnisstjórnunarskipulag er ekki fyrir hendi hjá "Betri samgöngum".  Sú ökuferð mun þess vegna óhjákvæmilega lenda úti í skurði. 

Morgunblaðið hefur ekki látið deigan síga við gagnrýni sína á þá, sem ábyrgðina bera á leikskólum, grunnskóla og framhaldsskólum. Forystugrein blaðsins 4. september 2024 bar lýsandi ástandi vitni, ástandi, sem lýsir alvarlegri þjóðfélagsmeinsemd, en er með algerum ólíkindum árið 2024:

"Menntamál í ólestri"

og undirfyrirsögnin lýsti örvæntingu ritstjórnarinnar með stöðu, sem er samfélagsógn: "Tómlæti stjórnvalda um uppfræðslu grunnskólabarna er óþolandi".

"Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað mikið um menntamál og þá fyrst og fremst málefni grunnskólans.  Þar hefur námsárangri hrakað ár frá ári í nær aldarfjórðung, og reglulegum viðvörunum þar um hefur annaðhvort ekki verið sinnt eða með augljóslega röngum aðferðum. Með hverjum deginum hafa svo birzt verri fréttir, nú síðast, að læsi barna hraki stöðugt og að hluti barna þekki ekki einu sinni stafrófið í lok 1. bekkjar."

Þögn kennara og kennaraforystunnar um þessa uggvænlegu þróun veldur ugg.  Kennaraforystan gerir lítið úr gagnsemi samræmdra prófa, en þau geta þó verið afar gagnleg fyrir nemendur og kennara og foreldra.  Kennaraforystan virðist ekki vilja sjá neinn samanburð á milli skóla, og það torveldar auðvitað umbætur á náminu.  Hún virðist neita því, að draga megi lærdóma af PISA, en hangir á, að íslenzkum nemendum líði tiltölulega vel í skóla.  Metnaðarleysið keyrir um þverbak.

"Ekki er þó unnt að bera við fjársvelti, en kennurum og öðru starfsliði hefur á þessum tíma fjölgað mun örar en nemendum.  Sérstaklega er þó kvartað undan því, að stjórnvöld hafa afnumið nær allar samræmdar mælingar á námsgetunni, en vilja hafa leynd um þær mælingar á frammistöðu nemenda og skóla, sem þó fara fram undir merkjum PISA og OECD."

Það er óvitaháttur af stjórnvöldum að gera sig sek um þetta, því að þar með taka þau sitt aðalstjórn- og eftirlitstæki með skólastarfinu og fleygja því út í hafsauga.  Það er ekki kyn, þótt keraldið leki.  Kenneraforystan er metnaðarlaus fyrir hönd nemendanna og vill hafa skólana á sjálfstýringu, þar sem þekkingarlegur árangur þeirra er aukaatriði, og menntamálaráðuneytið er gagnslaust í mótunar- og eftirlitshlutverki sínu, enda er íslenzki grunnskólinn ekki nema svipur hjá sjón frá því, sem áður var.  Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, kippti stoðunum undan honum með metnaðarlausri og skaðlegri námskrá.  

"Aftur á móti hefur tómlæti menntamálaráðherra vakið nokkra furðu; grunnskólarnir hafa tekið til starfa á ný, en ekkert bólar á viðbrögðum.  Eða jú, í gær kvaðst ráðherrann reikna með því, að senn yrði sent út fundarboð fyrir stóran vinnufund."

Þessi ráðherra er hugmyndasnauður og villuráfandi sauður, sem sýnir ekki einu sinni viðleitni til að snúa málum til betri vegar innan grunnskólans, enda skilur hann ekki, hvar skórinn kreppir. 

"Hér duga augljóslega engin vettlingatök. Hér ræðir um uppsafnaðan og vanræktan vanda grunnskólans, sem kallar á grundvallarendurskoðun hans.  En það er merkilegt, að í þeirri umræðu, sem þó hefur átt sér stað, hefur lítið borið á spurningum um ýmsa grunnþætti, s.s. skipan grunnskólans, námskrá, aðferðir eða annað af því taginu. 

Var til heilla að færa grunnskólann til sveitarfélaga ?  Var hringlið með námskrána til bóta ?  Gætu nýjar, en óreyndar kennsluaðferðir, eins og "byrjendalæsi", hafa valdið einhverju um vandræðin ?" 

Núna eru viðhöfð einskær vettlingatök, og menntamálaráðuneytið er ófært um að veita leiðsögn um "grundvallarendurskoðun" á grunnskólanum.  Þótt ætlunin með færslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga kunni að hafa verið að ýta undir fjölbreytileika, hefur lítið verið um samninga við einkafyrirtæki um að taka að sér kennsluna í verktöku fyrir sveitarfélögin með eða án aukakostnaðar fyrir foreldra.  Það þarf að koma á heilbrigðri samkeppni á milli skóla, og þá er frumskilyrði að hafa raunveruleg samræmd próf og niðurstaða þeirra niður á bekkjardeildir (ekki nemendur) ásamt PISA-niðurstöðum verði gerðar opinberar.  Um þetta þarf að kveða á um í lögum, því að menntamálaráðuneytið hefur tekið sér vald til að hindra þetta, og kennaraforystan er þversum í málinu, en á meðan "grundvallarendurskoðun" með nýrri lagasetningu og nýrri alvöru námskrá er ekki gerð, mun allt hjakka í sama farinu og Ísland jafnvel lenda á botninum í PISA. Það yrði mesta þjóðaráfall frá hruni fjármálakerfisins 2008. 

  

 


Hvernig var hægt að eyðileggja grunnskólann - og hvers vegna ?

Þegar höfundur gekk í grunnskóla, var öldin önnur.  Námið hófst í sjálfseignarstofnuninni Skóla Ísaks Jónssonar í Hlíðunum í Reykjavík, enda bjó fjölskylda höfundar þá í Eskihlíðinni.  Lestrarkennsluaðferðin þótti foreldrum nýstárleg og framandi.  Hún var nefnd hljóðlestur og var kveðið að og hafði hver bókstafur sitt hljóð. Af þessum sökum var aðstoð við lestrarnámið heima við takmörkuð, en það kom ekki að sök, því að mjög góður kennari í skólanum sá vel um nemendur, sem þó voru af misjöfnu sauðahúsi. 

Strax var líka hafizt handa við að kenna skrift, reikning og teikningu.  Fyrir alla vinnu var veitt umbun, hálf stjarna, heilstjarna eða 2 stjörnur, og einkunn var gefin fyrir frammistöðuna strax á fyrsta ári. Allt var þetta örvandi og efldi vilja til að standa sig vel í samanburðinum og veitti foreldrum yfirsýn.  

Íslenzka skólakerfið hefur síðan orðið fórnarlamb ábyrgðarlausrar tilraunastarfsemi, sem eftir á að hyggja virðist hafa verið hreinræktað fúsk, því að afraksturinn er miklu ófróðari nemendur en áður og nemendur, sem engan veginn standast jafnöldrum sínum á hinum Norðurlöndunum og víðar snúning í færni á mikilvægum sviðum.  Öðru vísi mér áður brá. Það er auðvitað eftir öðru, að ríkisvaldið, sem þessu stjórnar, stendur hvumsa og hefur engin raunhæf  umbótaáform á takteinum. Hvernig væri hreinlega að játa mistökin, stokka upp og leita faglegrar ráðgjafar, hvar sem hana er að finna á meðal þeirra, sem vel hafa staðið sig á PISA ? 

Auðvitað verður að gæta þess, að menningarheimar eru ólíkir, og sinn er siður í hverju landi.  Það er þó klárt, að meiri kröfur verður að gera til nemenda um þekkingaröflun og hana verður að mæla reglubundið, bæði innan skóla og á samræmdum prófum á landsvísu. Svara verður þeirri spurningu, hvernig blöndun nemenda með ólíka frammistöðu í deildir hefur tekizt, hver er árangur hennar, og hverjar eru afleiðingarnar fyrir kennara og nemendur m.t.t. álags í starfi og námsárangurs nemenda. 

Meyvant Þórólfsson, háskólakennari á eftirlaunum, hefur skrifað af viti um íslenzka skólakerfið og PISA.  Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 02.12.2023, áður en niðurstaða PISA 2022 var birt, undir fyrirsögninni:

"OECD PISA - Vísindalegt læsi".

  Hún hófst þannig:  

"Fátt bendir til, að viðsnúningur muni sjást í árangri íslenzkra unglinga, þegar niðurstöður OECD PISA munu birtast okkur hinn 5. desember n.k. Íslenzkum þátttakendum á síðasta ári skyldunáms hefur hrakað jafnt og þétt frá upphafi PISA-mælinganna árið 2000, einkum í náttúruvísindum og almennum lesskilningi.  Árið 2018 mældist Ísland neðst á Norðurlöndum og undir meðaltali OECD.  Að auki hefur íslenzkum nemum farið fjölgandi, sem lenda undir hæfniþrepi 2, og þeim fækkar, sem ná afburðahæfni á þrepum 5 eða 6.  Viðvörunarbjöllurnar hafa því ómað um nokkurt skeið, sbr skýrslur OECD (PISA og TALIS) síðustu ára, Eurodice og fleiri gögn."   

Skólakerfið íslenzka er ein rjúkandi rúst, eftir að illa gefnir sósíalistar hafa farið um það höndum, drepið þar niður allan metnað og gert foreldrum og öðrum örðugt um vik að fylgjast með námsárangri barnanna, því að próf má helzt ekki nefna lengur, og þess vegna skortir íslenzka PISA-þátttakendur það, sem kalla má próftækni, sem kemur sér vel síðar á lífsleiðinni í atvinnuviðtölum, og þegar skila þarf af sér tilteknu verkefni innan ákveðins tíma.  Sósíalistarnir halda því fram, að prófin trufli skólastarfið, en þau, þ.m.t. skyndiprófin, eru eðlilegur þáttur í náminu.  Það segir sína sögu um gæðarýrnunina, sem átt hefur sér stað í skólakerfinu, að afburðanemendum hefur fækkað hlutfallslega mest.  Þeir komu vanalega úr öllum stéttum þjóðfélagsins, og skólakerfið hefur nú svikið þá um tækifæri til að njóta sín og svikið um leið samfélagið um að njóta krafta þeirra, sem dregið geta verðmætasköpunina áfram.  Án þeirra mun einfaldlega kakan aldrei geta orðið jafnstór og ella, sem til skiptanna er.

"Því miður verður ekki sagt, að stefnumótun í menntamálum hérlendis hafi byggzt á langtíma sjónarmiðum.  Sífelldar skyndibreytingar á námsskrám, námsefni og námsmati hafa líkzt öfgahreyfingum pendúls í takti við ólíkar stefnur pólitískt kjörinna ráðherra."

Þarna lýsir Meyvant fúski og ábyrgðarleysi yfirstjórnar menntamála í tímans rás. Þetta hringl með menntastefnuna er skaðlegt, enda eru ábyggilega ýmsar ástæður fyrir hinni hrikalegu útreið, og ekki virðist núverandi yfirstjórn líkleg til að sigla skútunni gegnum skerjagarðinn klakklaust. 

""Síðasta menntastefnubreytingin kom í kjölfar efnahagshrunsins með tilkomu svo nefndra grunnþátta og andstöðu við hefðbundnar námsgreinar.  "Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar, heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska."  (Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 51.)"

Þarna var Katrín Jakobsdóttir að verki, alger fúskari með miklar hugmyndir um sjálfa sig, sem snýr einfaldlega öllu á haus í aðalnámskrá með þeim afleiðingum, að skólinn hætti að vera menntastofnun og varð geymslustaður ungviðis.  Ef það varð ekki lengur hlutverk kennaranna að kenna nemendum námsgreinar, þá var náttúrulega fokið í flest skjól og afleiðingin fyrirsjáanleg. 

 "Undirritaður [Meyvant] telur menntun reyndar óhugsandi án námsgreina á borð við náttúruvísindi, sem eru reyndar án nokkurs vafa lykilnámsgrein til að mennta nemendur, koma þeim til þroska og búa þá undir líf og starf í nútímaþjóðfélagi.  Þetta hafa fjölmargir sérfræðingar bent á með gildum rökum.  Þrátt fyrir það hafa náttúruvísindi átt undir högg að sækja í íslenzku skólakerfi alla síðustu öld og fram á okkar daga í samanburði við húmanískar greinar.  Samkvæmt úttekt OECD fyrir tæpum 40 árum þótti íslenzka námskráin skera sig úr vegna mikils tíma, sem hér væri varið í kennslu móðurmáls á kostnað náttúruvísinda (OECD, 1987, bls. 23).  Sú staða hefur ekki breytzt."

Það sýnir, hversu lítið aðhald er að mistækum ráðherrum, að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, skyldi komast upp með að snúa öllu á haus í aðalnámskrá grunnskóla án þess að hafa hugmynd um, hvað hún var að gera, og eyðileggja þar með þetta skólastig.  Ríkisvald lýðveldisins er því hættulegt.  Það er rétt hjá Meyvant, að steingelt húmanistískt stagl tók of langan tíma á kostnað t.d. eðlisfræði og efnafræði í grunnskóla í gamla daga. 

"Í nýlegum gögnum OECD (2018) og Eurydice (2022) kemur fram, að hlutfall náttúruvísinda á unglingastigi er lægst hér [á] meðal Evrópulanda.  Menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 fylgdi tillaga um að auka þetta hlutfall á unglingastigi úr 8 % í 11 %, og færa þannig vægi þessa mikilvæga námssviðs nær því, sem þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar.  Viðvarandi slakt gengi í PISA var jafnframt nefnt sem rök með breytingunni. Þegar tillagan birtist í samráðsgátt, reyndust mótbárur svo ákafar, að tillagan missti óðara flugið; síðan hefur ekki til hennar spurzt." 

Þarna sést, hvað við er að eiga.  Sósíalistar og jafnaðarmenn eru búnir að draga námsgæðin niður fyrir það, sem þekkist í nágrannalöndunum, og þegar á að reyna einhverjar mótvægisaðgerðir, er því borið við, að ekki sé til nóg af menntuðum kennurum á raungreinasviði.  Það er nóg til af raunvísindamönnum, sem geta hlaupið undir bagga, á meðan kennarar afla sér nauðsynlegrar menntunar.  Nú dugir enginn bútasaumur, heldur róttækar endurbætur í átt að fyrirkomulagi hinna Norðurlandanna, en ekki róttækni út í loftið, eins og hjá tækifærissinnanum Katrínu Jakobsdóttur.  


Grunnskólakerfið: keisarinn er ekki í neinu

Heildarniðurstöður PISA-prófa 2022 leiða í ljós, að grunnskólakerfi landsmanna, sem kostar 200 mrdISK/ár, eru umbúðir án innihalds.  Hver voru fyrstu viðbrögð æðsta strumps menntamálanna við þessum grafalvarlegu tíðindum ?  Að nú þyrfti að koma á laggirnar stofnun með nýju nafni í stað Menntamálastofnunar, sem verið er að leggja niður.  Æðsti strumpur er ófær um að setja sig inn í ógöngurnar, sem ríkisvaldið hefur átt dágóðan þátt í að valda menntakerfinu.  Honum væri nær að kalla saman fólk, sem nú hefur tjáð sig af viti um þessar ógöngur, t.d. Jón Pétur Zimsen og Meyvant Þórólfsson, til að semja leikskólastiginu og grunnskólastiginu gagnlega námsskrá, en sú núverandi er frá dögum Katrínar Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra 2013 og er hvorki fugl né fiskur, eins og eftirfarandi krúsidúlla þaðan ber með sér: "Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar, heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska." [Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 51.]  Á grundvelli þvaðurs af þessu tagi verja skólarnir drjúgum tíma í umbúðir án innihalds, sem mörgum nemendum finnst skemmtilegt, en er hrein tímasóun og gagnast hvorki á PISA-prófi né í skóla lífsins.  Þarna liggur hundurinn grafinn (einn af þeim).

Einkennandi fyrir skólakerfið hérlendis er, hversu einsleitt rekstrarformið er.  Í samanburði við önnur Evrópulönd vantar hér önnur eignarform en opinbera eign á skólum.  Þessi einsleitni dregur úr samkeppni í kerfinu.  Strax mætti þó örva samkeppnina með öðru móti. Það er algerlega sjálfsagt að nota PISA-prófniðurstöðurnar og tölfræðilega úrvinnslu þeirra til að gefa hverjum þátttökuskóla kost á að skipuleggja starf sitt með því að afhenda honum tiltækan tölfræðilegan samanburð.  Ekki nóg með það, heldur ætti tölfræðileg samantekt fyrir hvern skóla að vera aðgengileg foreldrum og nemendum og raunar að vera opinber gögn, þar sem skólakerfið er á framfæri hins opinbera.

  Þetta er sjálfsögð þjónusta við nemendur og getur ýtt undir metnað í skólastarfi.  Það er eftir öðru hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, að undirstofnun þess, Menntamálastofnun, kemst upp með það að sitja á þessum gögnum og neitar að afhenda þau.  Viðbáran er tilbúningur einn, þ.e. að prófið sé bara mælikvarði á kerfið.  Það er alrangt, því að þá væru allir skólar eins, sem eðlilega er ekki raunin.  Það verður að reyna að nýta prófniðurstöðurnar til hins ýtrasta, en ekki að stinga hausnum í sandinn og gera ekki neitt, nema kannski hrinda af stokkunum einhverju vanhugsuðu lestrarátaki.  

Vert er að gefa gaum að því, að það er sama tilhneiging á öllum Norðurlöndunum, þ.e. til lakari árangurs á PISA-prófum, en sýnu verst er hún á Íslandi.  Þetta bendir til sameiginlegs þáttar, sem gæti verið síma- og tölvunotkun nemenda, sem leiðir til minni bóklestrar og minni ástundunar náms.  Hérlendis bætist svo umbúðakennsla ofan á í stað staðreyndafræðslu (stagls), sem tölvutæknin úreldir ekki, þótt einhverjir ímyndi sér það. Að láta sér detta í hug, að staðreyndaöflun sé þarflaus, af því að nú er hægt "að fletta öllu upp á netinu", er grundvallar misskilningur á sígildu eðli náms.  

Nefna má fleiri blóraböggla.  Árangri íslenzkra nemenda á PISA-prófum tók að hraka, eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, aflagði samræmd lokapróf árið 2008, og núverandi aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur er gjörsamlega haldlaust plagg og sennilega stórskaðlegt vegna algers metnaðarleysis fyrir hönd kennara og nemenda. Aðalnámskrá ætti að tilgreina nokkur samræmd próf, og hvaða þekkingu nemendur þurfi þá að geta staðið skil á.  Skyndipróf ættu að vera framlag skólanna til að þjálfa nemendur í próftöku og gefa þeim til kynna stöðu þeirra í hverri grein og hjálpa kennaranum við mat á kunnáttu nemandans í lok annar. 

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, var ómyrkur í máli í viðtali við Morgunblaðið, sem birtist 06.12.2023 undir hinni skuggalegu fyrirsögn:

 "Rúmlega heilt ár farið í súginn"

"Niðurstöðurnar koma mér bara akkúrat ekkert á óvart - ekki neitt.  Þetta er algjörlega það, sem ég bjóst við.  Þetta var í farvatninu og verður áfram."

Það hlýtur að vera ömurlegt fyrir menn á borð við Jón Pétur að starfa við skilyrði, þar sem hann horfir upp á árangursleysi síns fólks í starfi án þess að geta spyrnt við fótum, því að þá fara alls kyns þokulúðrar í gang, varðhundar stöðnunar, sem eru ekki hrifnir af því, að neinn skari fram úr.  

"Þú hefur sem sagt orðið var við, að færni nemenda hafi hrakað svona mikið og á svona skömmum tíma ?

"Já, þessu er búið að hraka frá aldamótum.  Árin 2009  og 2018 komu smá uppsveiflur, en þessu er búið að hraka frá aldamótum, og það er ekkert, sem bendir til þess, að þetta sé að fara að batna.  Það er ekkert í spilunum með það.  Það er bara sama stefna, sem er búin að vera nokkurn veginn frá aldamótum eða síðan sveitarfélögin tóku við grunnskólunum.""

Það er athyglisvert, að þessi skólamaður tengir hrakfallabálk grunnskólanna við eignarhald sveitarfélaganna.  Þegar lélegt taumhald er úr mennta- og barnamálaráðuneytinu og aðalnámskrá einkennist af fullmomnu metnaðarleysi, er jarðvegur fyrir ringulreið í grunnskólum landsins. 

""Það er náttúrulega í raun brot á grunnskólalögum [léleg kennsla - innsk. BJo].  Þar stendur, að við eigum að búa nemendur undir að taka þátt í lýðræðissamfélagi.  Og þegar við erum með rétt rúmlega 50 % drengja, sem geta skilið það, sem fer fram í fjölmiðlum, í töluðu máli og í rituðu máli, þá er það bara ávísun á, að nemendur geti ekki tekið þátt í lýðræðissamfélagi.  Ekki þegar þeir skilja ekki, hvað er í gangi í kringum þá", segir Jón Pétur."

Það er mjög loðið og teygjanlegt, hvað þarf til að geta skammlaust tekið þátt í lýðræðissamfélagi, og þess vegna er ekkert hald í lagatexta af þessu tagi.  Þetta er angi af þeirri tilraunastarfsemi, sem hefur tröllriðið grunnskólum landsins með þeim afleiðingum, að þeir eru að lenda á botninum í Evrópu.  Ef að er gáð, blasir við metnaðarleysið og útjöfnun (andskotans) niður á við, sem endar með því, að íslenzka grunnskólakerfið verður Júmbó Evrópu, og framhaldsskólakerfið dregur dám af því, sem frá grunnskólanum kemur. 

""Þetta er alveg grafalvarlegt."  Spurður um orsakir þessa nefnir hann, að umbúðanám, eins og hann kýs að kalla það, hafi færzt í aukana.  

"Það er nám, sem lítur vel út á pappírunum, en innihaldið er ekkert.  Það er ríkjandi allt of víða og hjálpar ekki til.  En það bitnar síðan mest á þeim, sem standa höllustum fæti.  Bitnar mest á þeim, sem hafa slakasta félagslega, fjárhagslega bakgrunninn, þeim, sem fá minnstu hjálpina heima.  Þar sem skólinn á að vera jöfnunartæki - þar bregst skólinn algjörlega.""

Þetta er harðari gagnrýni starfandi skólamanns á skólakerfið en höfund rekur minni til að hafa barið augum.  Hún passar við það, sem höfundur hefur séð nýlega til skólakerfisins (sem afi).  Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur á drjúgan þátt í metnaðarleysinu, sem hrjáir skólakerfið, eða hvað segja menn um eftirfarandi holtaþokuvæl í aðalnámskrá leik- og grunnskóla frá 2011, þar sem læsi á að heita  skilgreint á eftirfarandi hátt, en textinn uppfyllir ekkert skilyrða fyrir skilgreiningu, heldur er algerlega út og suður og fjarri því að vera leiðbeinandi sem færnimælikvarði á læsi:

"Meginmarkmið læsis er, að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því, sem þeir lesa, með hjálp þeirra miðla og tækni, sem völ er á."

Þarna er sullað saman fjölmörgum óskyldum atriðum, sem eru gagnslausir við mat á læsi nemandans. Hvernig væri eftirfarandi viðmiðun ?:  Lesfærni spannar bæði leshraða og lesskilning.  Lesfærni nemanda telst ágæt (hæsta ágætiseinkunn), ef hann getur lesið rétt a.m.k. n orð á 3 mínútum og endursagt textann merkingarlega án vantana í töluðu eða rituðu máli á 6 mínútum.  Síðan má kvarða endurgjöf niður á við, eftir því sem fleiru er áfátt. 

"Tæknin er orðin þannig, að þú getur púslað saman verkefni, sem lítur út fyrir að vera gott, þó að þú vitir eiginlega ekki neitt."

Þarna er hættan, og hún steðjar að öllum þjóðum, þar sem tölvu- og símanotkun er orðin útbreidd.  Ef marka má niðurstöðu PISA, hafa aðrar þjóðir haft meiri vara á sér en Íslendingar og ekki hundsað grundvallar þekkingaröflun.  Þegar nám er orðin sýndarmennska eða umbúðir utan um loftið eitt, þá er ekki seinna vænna að staldra við. Lélegar leiðbeiningar til kennara á borð við þokukennd plögg frá menntamálaráðuneytinu, vöntun á prófum og metnaðarleysi í skólakerfinu, leggjast á eitt og úr verður handónýtt grunnskólakerfi. 

 "Á sama tíma séu grunnatriði námsins og sterkari grundvöllur frekara náms virt að vettugi í kennslu.  

"Þessi grunnhugsun um hvað nám gengur út á, orðaforða og hugtakaskilning, það þykir bara ekkert fínt.  En orðaforði er algjör grunnur að öllum greinum.""

Kennara virðist vanta skýr viðmið, og þeir hafa ekki hugmynd um, hvar þeir eru staddir með nemendur sína í samanburði við aðra skóla. Úr þessu má bæta með almennilegri námskrá, fleiri samræmdum prófum, og það á að birta skólum og nemendum alla þá tölfræði, sem unnt er að vinna úr niðurstöðunum, þótt eitthvað annað sé ríkjandi viðhorf innan OECD.

Í lokin gaf aðstoðarskólastjórinn til kynna, að eftir þessa útreið þyrfti einhver, sem ábyrgð ber á þessu meingallaða menntakerfi, að axla sín skinn.  Í þessu kerfi kunna viðkomandi þó ekki að skammast sín.

"Ef eitthvert fyrirtæki sýndi þennan árangur, þá væri einfaldlega búið að láta alla fara.  Þetta er bara ekki boðlegt.  Að bjóða börnum upp á þetta í 10 ára skyldunámi."

 

 

 

 

 


Staðnað og svifaseint menntakerfi

Mjög lítið er um einkaskóla á Íslandi og mun minna en í öðrum vestrænum löndum.  Hið opinbera, sveitarfélög og ríkisvald, rekur sjálft flesta skólana og árangurinn er eftir því dapurlegur í fjölþjóðlegum samanburði og m.t.t. þarfa atvinnulífsins.  Hið opinbera er afleitlega fallið til að tryggja gæði (góðan framleiðsluárangur) og að fara á sama tíma vel með opinbert fé.  Allt of margt, sem hið opinbera kemur nálægt, er í skötulíki.  Í menntakerfinu má nefna hátt brottfall, litla færni samkvæmt PISA, allt of marga án viðunandi lágmarksfærni í lykilgreinum á borð við lestur, réttritun og reikning, og hversu Háskóla Íslands gengur hægt að feta sig upp að markmiði sínu um að komast í hóp hinna beztu. Kannski er sú markmiðasetning ekki aðeins óraunhæf, heldur óskynsamleg.  

Afleiðingin af þessu er, að það vantar fólk í lykilgreinar atvinnulífsins, iðngreinarnar, og hefur svo verið svo lengi, að skólakerfið hefði fyrir löngu átt að aðlaga sig að þörfinni, en í staðinn vísar það nú frá um 600 áhugasömum nemendum, sem sækja um iðnnám árlega.  Þetta er falleinkunn fyrir stjórnun menntamála í landinu.  Hvers vegna er ekki reynt að fitja upp á nýjungum, t.d. með virku samstarfi við fyrirtækin í landinu ?

Morgunblaðið vakti rækilega athygli á þessu með viðtali við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, SI, 2. nóvember 2023, undir fyrirsögninni: 

"Skortur á vinnuafli hamlar vexti".

Fréttin hófst þannig:

"Menntakerfi landsins hefur mistekizt að sinna þeirri mannauðsþörf, sem hlotizt hefur af vexti iðnaðarins á síðustu árum að mati Samtaka iðnaðarins, SI.  Hafi stórum hluta þarfarinnar verið mætt með innfluttu vinnuafli, en meira þurfi til.  Ljóst er, að skortur á vinnuafli hafi verið dragbítur á vöxt iðnaðarins síðustu ár og tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar greinarinnar hafi verið fórnað vegna skorts á vinnuafli með rétta færni.

"Krafa iðnaðarins er alveg skýr", segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.  Það er óviðunandi, að á sama tíma og metfjöldi, eða nærri 1200 manns, hafi útskrifazt úr iðnnámi á síðasta skólaári, hafi þurft að hafna nærri 600 nemendum, sem sóttu um iðnnám í haust, vegna skorts á fagmenntuðum kennurum og viðeigandi húsnæði eða tækjabúnaði.  Úr þessu verði að bæta."

Almenningur kannast vel við grafalvarlegan skort á iðnaðarmönnum um árabil og virðist bara fara versnandi. Það er þess vegna dæmalaust getu- og forystuleysi af hálfu menntamálaráðuneytisins, að ekki skuli hafa tekizt betur en raun ber vitni um að fullnægja eftirspurn.  Þegar fátið í kringum frumhlaup menntamálaráðherrans haustið 2023 við að reyna að sameina 2 grónar og ólíkar skólastofnanir á Akureyri, menntaskólann og verkmenntaskólann, er haft í huga, er ekki kyn, þótt keraldið leki. 

Það hefur vantað hæfileika og forystu af hálfu ríkisvaldsins til að stjórna menntamálum þjóðarinnar af skynsamlegu viti.  Þess vegna eru þau í ólestri og í viðjum mistækra embættismanna og stjórnmálamanna, sem fá fyrirtæki mundu vilja hafa í vinnu til lengdar. 

Í lok téðrar fréttar stóð þetta:

"Samtökin [SI] segja, að stíga þurfi strax inn í og byrja á því að tryggja verk- og starfsmenntaskólum fjármagn og auka áherzlu á iðnnám um allt land.  "Fólk sækir í það nám, sem er í boði í sinni heimabyggð.  Skólar gætu nýtt fyrirtæki meira í kennslu, þar sem þau eru í flestum tilvikum miklu betur tækjum búin en skólarnir sjálfir.  Einnig mætti huga að auknu samstarfi [á] milli skóla og tækifærum til að innleiða nýja menntatækni og nýta fjarkennslu eða dreifnám til að gera nemendum kleift að stunda nám í heimabyggð."

Þá segjast SI telja mikilvægt, að iðnnám standi áhugasömum nemendum til boða óháð aldri.  Í því skyni mætti skoða fleiri möguleika eins og kvöldnám."  

Iðnnámið má aldrei verða endastöð og er það reyndar ekki lengur.  Það má ekki aftra nemendum frá að sækjast eftir iðnnámi, að þá sé braut frekari tæknimenntunar í tæknifræði og verkfræði, síður greið en um menntaskólana. Það er ótrúlega léleg frammistaða menntayfirvalda, sem staða menntamálanna ber vitni um.  Þarna reytir SI af sér nokkrar hugmyndir í snatri til að bæta úr skák.  Munu embættismenn og ráðherra stökkva á þær eða bara velta sér á hina hliðina ?  


Til hvers er verið að setja markmið ?

Markmið verður að vera mælanlegt og tímasett.  Annars er það eitthvað annað, t.d. stefnumið.  Þetta er þó ekki nóg.  Það verður að vera raunhæfur möguleiki á að ná markmiðinu með hnitmiðaðri áætlun og skipulegri og faglegri vinnu.  Í kjölfar samþykktrar markmiðssetningar þarf áætlunin fljótlega að fæðast og vinnan að henni að hefjast.  Þannig vinna fyrirtækin í landinu að því að bæta rekstur sinn eða fjárhagsstöðu.  Markmiðasetning er öflugt stjórntæki til að beina vinnu starfsmanna inn á umbótabrautir, sem stjórnendur telja vænlega til árangurs fyrir fyrirtækið. 

Komið hefur í ljós, að þessu er allt öðru vísi varið hjá sumum stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem stjórna mikilvægum málaflokkum á vegum ríkisins.  

Alræmdasta nýlega dæmið er af ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem á síðasta kjörtímabili fóru með umhverfismál og forsæti ríkisstjórnarinnar, þegar ákveðið var að bæta um betur, svo að um munaði, og setja markið á 55 % samdrátt koltvíildislosunar út í andrúmsloftið árið 2030 m.v. losunina árið 1990.  Það var þegar í upphafi ljóst, að í framkvæmdaáætluninni til að ná þessu markmiði yrðu að vera virkjanir endurnýjanlegrar orku, sem mundu leysa af hólmi eldsneytisorkuna, sem spöruð yrði.  Ekkert bólaði á þessu hjá Katrínu Jakobsdóttur, sem básúnaði þetta markmið hins vegar út erlendis í hópi annarra þjóðarleiðtoga, sem grunaði ekki, að manneskjan færi með fleipur. 

Nú er komið í ljós, að vonlaust er að reyna að ná þessu markmiði, því að forsendur skortir, enda hefur verið setið með hendur í skauti í orkumálunum og stóð aldrei annað til hjá Katrínu. Nú er hún búin að spila rassinn úr buxunum. Brennsla jarðefnaldsneytis á Íslandi og í íslenzkum skipum og flugvélum mun ná nýjum hæðum í ár og líklega á næstu árum ár frá ári, enda þarf að brenna tugþúsundum tonna af olíu til að framleiða rafmagn. Katrín verður þjóðinni til skammar með innihaldslausu rausi sínu á erlendri grundu. Þessi ólíkindalæti reyfarahöfundarins í forsætinu ganga ekki lengur. 

Nú hefur annarri hneykslunarhellu skotið upp á yfirborðið, nokkuð óvænt m.v. digurbarkalega markmiðasetningu þar. Það eru háskólarnir.  Þeir dala stöðugt í samanburði við marga erlenda háskóla. Sé rétt munað, setti núverandi rektor HÍ markmið um að koma HÍ í hóp 100 beztu á lista "Times Higher Education" á tilgreindu ári, en hann hefur nú fallið á botninn þar.  Það kemur höfundi þessa pistils ekki sérlega mikið á óvart, að HÍ standist ekki samanburð við háskóla nágrannalandanna.  Kennsla til fyrrihluta prófs í verkfræði tók á sínum tíma 3 ár í HÍ, en þegar kandídatarnir settust í Norðurlandaskólana, a.m.k. hinn ágæta "Norges Tekniske Högskole" - NTH í Þrándheimi, þá voru þeir settir með 3. árs nemum þar.  Ástæðan var sennilega sú, að námið á NTH var mun nær þörfum atvinnulífsins og verklegra en námið í HÍ, og sennilega er það þannig enn þá. Það kostar mikið að koma upp verklegri kennsluaðstöðu, en það skilar sér fljótt.  Það er líka dýrkeypt að útskrifa unnvörpum kandidata úr háskólum, sem atvinnulífið hefur litla eða enga þörf fyrir og á sama tíma að takmarka svo aðgengi að eftirsóttum greinum, t.d. sjúkraþjálfun, líftækni, lyfjafræði og hugbúnaðargerð, að hörgull í atvinnulífinu upp á tæplega 10 þúsund manns hefur myndazt. 

Frétt Gísla Freys Valdórssonar í Morgunblaðinu 10. marz 2023 undir fyrirsögninni:

"Þörf á orku og fjölbreyttari menntun",

hófst þannig:

""Það er ekki nóg að setja sér markmið um orkuskipti og loftslagsmál; það þarf líka að standa við þau."  

Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka Iðnaðarins (SI) í opnunarávarpi sínu á fjölmennu Iðnþingi samtakanna, sem haldið var í gær.  Þar fjallaði Árni m.a. um orkuþörfina hér á landi og benti á, að raforka á Íslandi væri nú uppseld og aflgeta kerfisins komin að þolmörkum.  Eftirspurnin eftir raforku hafi þó sennilega aldrei verið meiri og mörgum álitlegum verkefnum hafi á undanförnum árum verið ýtt út af borðinu vegna framboðsskorts."

Þetta er ófögur lýsing á stöðu orkumála í landinu og í raun alger áfellisdómur yfir yfirvöldum orkumála í landinu.  Hér á árum áður hefðu þessar lýsingar getað átt við síðasta árið fyrir gangsetningu nýrrar virkjunar, en nú er því ekki að heilsa. Næsta virkjun af þokkalegri stærð (um 100 MW) er ekki í sjónmáli, og þessi staða hefur í raun varað í meira en ár.  Samfélagið hefur orðið fyrir stórtapi, enda hægir á hagvexti, þegar innlenda orku skortir. Ástandið er grafalvarlegt, enda er markmið ríkisstjórnarinnar um minnkun koltvíildislosunar gjörsamlega komið á hliðina, og Katrín, forsætisráðherra, hefur með óraunsæi og hégómagirni sinni hengt stórskuld koltvíildisgjalda til útlanda um háls skattborgaranna.  Þessir stjórnarhættir eru óráðsía, en sennilega yppir frú Katrín bara öxlum, tekur eina eða tvær fettur og skellihlær svo að öllu saman í fullkomnu ábyrgðarleysi.  Einhver annar á að bjarga málum, þegar þar að kemur.  

""Stórnotendur þurfa að búa við mögulegar skerðingar raforku, og ekkert er til aukreitis vegna orkuskipta hérlendis né nýrra tækifæra í iðnaði.  Engu að síður eru markmið stjórnvalda skýr: að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040", sagði Árni.  "Því blasir það við, að auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi verulega, ef við ætlum að vera virkir þátttakendur í hinni grænu iðnbyltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum."  

Það væri réttara að tala hreint út.  Hér verður raforku- og rafaflskortur næstu 5 árin hið minnsta, og þess vegna er tómt mál að tala um kolefnishlutleysi og full orkuskipti árið 2040.  Reyndar er hægt að ná kolefnishlutleysi á undan fullum orkuskiptum með því að binda CO2, t.d. með skógrækt, og fá alþjóðlega vottun á þá bindingu.  Samtök iðnaðarins hefðu mátt svara spurningunni fyrir sitt leyti um, hvernig á að auka raforkuvinnslu með jarðgufu og orku fallvatna sem hraðast, því að vindknúnir rafalar koma að afar takmörkuðu gagni einir og sér og landskemmdir af þeirra völdum eru allt of víðfeðmar m.v. gagnsemina. Véfréttin í Delfí mundi svara þannig, að ríkisstjórnin og þingmeirihluti hennar verði að taka af skarið með einum eða öðrum hætti, en er þingmeirihluti fyrir hendi til þess ?  Stendur hnífurinn þar í kúnni ?

"Áslaug Arna benti þó á, að íslenzkir háskólar væru langt á eftir norrænum háskólum í menntun í svonefndum STEAM-greinum (vísinda- og tæknigreinum, verkfræði, listgreinum og stærðfræði).  Þá birti hún jafnframt tölur um samanburð á íslenzku háskólunum, þar sem fram kemur, að Háskólinn í Reykjavík (HR) er í neðsta sæti af 37 skólum á Norðurlöndum, þar sem gæði kennslu eru metin, og [að] Háskóli Íslands (HÍ) [sé] í 32. sæti.  

Þá situr HR í 301.-350. sæti á lista "Times Higher Education", en HÍ í 501.-600. sæti.  Það var á þessum lista, sem HÍ hafði sett sér markmið um að vera [á] meðal 100 beztu."

Þetta er hrikalegur áfellisdómur yfir íslenzka menntakerfinu og sérstaklega háskólastiginu.  Þó að þarna sé augljóst ósamræmi, þar sem HR liggur á botninum í samanburði innan Norðurlandanna, en HÍ hjá "Times Higher Education", er þó full ástæða til að taka mark á þessum niðurstöðum, enda eru þær samhljóma árangri íslenzkra grunnskólanemenda í PISA-könnunum. Hið alsorglegasta við að horfa upp á þessi ósköp er, að þeir, sem eiga að stjórna þessum málum, virðast  alls ekki vita, hvað til bragðs á að taka, og æpa bara á meira fé, sem annaðhvort kemur þá úr vösum stúdenta eða úr tómum ríkissjóði (auknar lántökur).  Í báðum tilvikum er verið að kaupa gallaða vöru, og það er óviðunandi.   


Stjórnmálamenn, embættismenn og rekstur fara illa saman

Það, sem talið er upp í fyrirsögninni, virðist vera eitruð blanda, þótt kaffihúsasnatinn Karl Marx hafi um miðja 19. öldina talið fyrirkomulagið varða leiðina inn í draumaríki kommúnismans, sem mundi leysa auðmagnskerfi Adams Smiths af hólmi.  Allt voru þetta ranghugmyndir raunveruleikafirrts heimspekings.

Hérlendis hafa undanfarið dunið á almenningi fréttir um ríkisrekið heilbrigðiskerfi, sem sé að hruni komið, og leikskólakerfi borgarinnar, sem annar ekki þörfinni.  Einkenni opinbers rekstrar eru óhóflegar biðraðir, sem oftast lengjast, og sú er einmitt raunin í þessum tveimur kerfum.  Samt er gríðarleg tregða hjá embættismönnum og stjórnmálamönnum að grípa til þeirra einu ráða, sem duga til að bæta þjónustuna, þ.e. úthýsingar starfsemi hins opinbera til einkaframtaksins. Á því græða bæði skjólstæðingar ömurlegrar þjónustu hins opinbera og skattborgararnir. Opinber rekstur stenzt einkaframtakinu einfaldlega ekki snúning, og það er reginhneyksli hérlendis á 21. öldinni, að stjórnmálamenn skuli standa uppi ráðþrota og bara berja hausnum við steininn. Vilji er allt, sem þarf til að berjast við embættismennina, sem standa vörð um þetta rotna kerfi.   

Þann 16. ágúst 2022 birti Morgunblaðið lýsandi viðtal um þá stöðu, sem að ofan er lýst. Þar er lýst ofan í ormagryfjuna. Fréttin hófst þannig:

"Eins og fram hefur komið, er mikill skortur á læknum á Íslandi.  Nú er svo komið, að í nokkrum sérfræðigreinum er meirihluti lækna yfir 60 [ ára] og mikill skortur á nýliðun [svo !; nýliðun er lítil].  Þannig er staðan í augnlækningum í dag.  59 % starfandi augnlækna eru 60 ára eða eldri, og meira en helmingur þeirra, sem eru eldri en 60, eru komnir yfir 70.  Ljóst er, að bregðast þarf við þessu grafalvarlega ástandi. 

Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir á augnlæknastöðinni Augljós, segir, að ekki hafi verið gerð nákvæm úttekt á því, hversu marga augnlækna þurfi, til að ástandið [verði] bærilegt. 

"Það er erfitt að meta þetta, en hins vegar er alveg ljóst, að heilbrigðisyfirvöld, og þá sérstaklega Sjúkratryggingar, hafa að mörgu leyti brugðizt sinni skyldu.  Augnlækningar eru fag, sem byggist oft eingöngu á samningum við Sjúkratryggingar, því [að] það eru ekki allir augnlæknar, sem vinna á sjúkrahúsum [betra er: ekki vinna allir augnlæknar á sjúkrahúsum-innsk. BJo].  Nú hafa samningar verið lausir í 4 ár; nýir sérfræðingar úr námi hafa átt erfitt með að komast á samning, og án samnings eru þeir ekki samkeppnishæfir við aðra augnlækna.  Þeir geta jafnvel séð hag sínum betur borgið að verða áfram erlendis eða flytja aftur út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenzkt heilbrigðiskerfi.""  

Hér er vandamál ríkisrekstrarins í hnotskurn.  Embættismenn í heilbrigðisráðuneyti og/eða hjá Sjúkratryggingum Íslands draga lappirnar við samningsgerð við sérfræðilækna, t.d. á sviði augnlækninga, og búa þar með til tvöfalt heilbrigðiskerfi og læknaskort vegna þess, að ungir læknar í sérnámi erlendis skortir réttu hvatana frá ríkisvaldinu til að hasla sér völl á íslenzkum vinnumarkaði. Aðalástæða þessarar óeðlilegu og stórskaðlegu hegðunar embættismannanna er af hugmyndafræðilegum toga.  Þeir eru illa haldnir af grillum um, að heilbrigðisþjónusta eigi hvergi annars staðar heima en á stofnun í opinberri eigu, helzt í ríkiseigu, en rekstur slíkra stofnana er nánast undantekningarlaust með þeim ömurlega hætti, að þar myndast biðraðir, jafnvel með bið í meira en eitt ár. Nýtingu tækjakosts er þar ábótavant og óánægja í starfi landlæg, sem leiðir til starfsmannahörguls og yfirálags.  Engu virðist breyta, þótt hellt sé í hítina fé úr ríkissjóði í meira mæli en nokkru sinni fyrr á alla mælikvarða.

 

Auðvitað kom þessi ömurlega hugmyndafræði alla leið frá ráðherra málaflokksins í síðustu ríkisstjórn, sem hrúgaði nýjum verkefnum á yfirlestaðan Landsspítalann glórulaust með slæmum afleiðingum.  Eins og nýr stjórnarformaður Landsspítalans hefur ýjað að, verða þessi vandamál ekki leyst, nema Landsspítalinn taki upp nýtt fjármögnunarkerfi (greiðslu fyrir verkþátt) og úthýsingu til einkarekinna læknastofa. 

Svipað vandamál er fyrir hendi í menntageiranum.  Svik borgarstjórans í Reykjavík gagnvart foreldrum með börn á 2. ári hafa verið í sviðsljósinu, enda svæsin og endurtekin.  Ástandið í Reykjavík er þannig, að augljóslega ráða stjórnmálamenn og embættismenn ekki við viðfangsefnið, enda gufaði borgarstjóri upp strax eftir fyrsta hústökufundinn í Ráðhúsinu, eins og hans var von og vísa, sbr skolpmálið alræmda, þegar hann lét ekki ná í sig.  Hvers vegna er ekki löngu búið að virkja einkageirann á þessu sviði og hætt að láta stjórnmálamenn og embættismenn borgarinnar fást við það, sem löngu er útséð með, að þeir ráða ekki við ?  Þaðan kemur ekkert annað en froðusnakk og þokulegar glærusýningar, sem foreldrar hafa ekkert gagn af og fóru þar af leiðandi í taugarnar á þeim á hústökufundi með varaborgarstjóra.  Viðbára jafnaðarmanna er jafnan sú, að enginn megi græða á þessari starfsemi.  Hvers vegna er það "tabú", ef það leysir brýnan vanda fjölda fólks og veitir samfélagslegan sparnað og/eða tekjuauka ?  Fordómar eru vandi jafnaðarstefnunnar í hnotskurn. Jafnaðarstefnan glímir við tæringu.  Farið hefur fé betra.  

"Jóhannes var yfirlæknir hjá augnlækningastöðinni Sjónlagi á árum áður. "Á árunum 2006-2008 reyndum við að koma á augnsteinsaðgerðum fyrir utan spítala í fyrsta sinn. Það hafði myndazt 2 ára biðlisti, og vandinn fór sífellt vaxandi. Við áttum samtal við 3 heilbrigðisráðherra, og það var alltaf sama sagan.  Gríðarleg tregða er gagnvart því að koma verkum út af spítalanum til að framkvæma þau í miklu ódýrara húsnæði.  Það endaði með því, að við keyptum bara inn tæki til augnsteinsaðgerða án þess að hafa fengið samning, og þau lágu nær ónotuð í 2 ár. Þetta bjó þó til þrýsting á Sjúkratryggingar og á ráðherra.  Þó var það ekki fyrr en í ráðherratíð Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, að loksins var tekin ákvörðun í málinu árið 2008.  Í kjölfarið voru augasteinsaðgerðir boðnar út, og þær voru þá framkvæmdar í fyrsta sinn utan spítala hér á landi.  Við þetta styttust biðlistarnir hratt, og viðbótar tilkostnaður varð ekki mikill.  Þessir samningar, sem verið er að gera við augnlækna utan spítalans, eru alveg gríðarlega hagstæðir.  Það er stjarnfræðilegur munur á kostnaði við að senda sjúkling til útlanda í aðgerðir eða sinna þeim hér á stofum.  Þessi tregða við að gera hlutina ódýrar og hagkvæmar er óskiljanleg."

Þetta er afar lýsandi dæmi um tregðu embættismannakerfisins til breytinga, sem leitt geta til samkeppni við ríkisstofnun.  Frumkvöðlar ræða við ráðherra og gera honum grein fyrir því, að tækniþróunin hafi nú gert kleift að auka afköstin og spara ríkissjóði fé með úthýsingu verkefna frá Landsspítala-háskólasjúkrahúsi, sem annar ekki verkefnunum og veldur þar með þjáningum fjölmargra og óþarfa samfélagslegum kostnaði.  Ráðherra talar við ráðuneytisfólk sitt, en það er í hugmyndafræðilegum viðjum ríkisrekstrar og lítur jafnvel á nýbreytni sem ógnun við kerfið fremur en tækifæri fyrir sjúklinga og skattgreiðendur. Hann talar síðan við forstjóra Landsspítalans, sem strax fer í vörn og finnur samkeppni um sjúklingana flest til foráttu.  Ráðherrann skortir sannfæringu, innsæi og/eða  stjórnunarhæfileika til að halda áfram með málið, og þingflokkur hans maldar jafnvel í móinn.  Þetta er meginskýringin á botnfrosnu kerfi, sem ræður ekkert við verkefnin sín og er að hruni komið (lýsing núverandi forstjóra Landsspítalans á stöðu spítalans var sú nú í ágúst, að staðan þar hefði aldrei verið verri og að spítalinn væri að þrotum kominn, sem þýðir , að sjúklingarnir muni ekki njóta eðlilegrar þjónustu).  Þetta hreyfir ekkert við búrókratíinu.  Það er að veita neina þjónustu.  Það er að standa vörð um kerfið sitt.

Nú er komin stjórn yfir Landsspítalann með stjórnarformann með auga fyrir skilvirkri stjórnun og rekstri.  Ráðherra er þannig kominn með viðmælanda, sem getur ráðlagt honum af viti um útvistun verkefna, og ráðherrann verður að hrista upp í gaddfreðnum Sjúkratryggingum Íslands og koma á alvöru samningaviðræðum við "stofulæknana". 

"Núna er staðan mjög slæm og líklega að verða tveggja ára bið eftir að komast í augasteinsaðgerð.  Það er bilað ástand.  Þessar hefðbundnu aðgerðir, sem flestir fara í, taka 10 mín/auga."  Hann bendir á, að önnur aðgerð, sem er nú eingöngu gerð á sjúkrahúsi, ætti betur heima utan þess.  "Það eru sprautumeðferðir í augnbotni, s.k. glerhlaupsinndælingar.  Þá er lyfi sprautað inn í augað við sjúkdómi, sem fellur undir ákveðna gerð af hrörnun í augnbotnum.  Þessi aðgerð hefur verið bylting í meðferð á þessum sjúkdómi.  Hún tekur stuttan tíma og er framkvæmd aðallega af aðstoðarlæknum á spítalanum á skurðstofu, en væri hægt að framkvæma á hvaða stofu sem er, eins og víða er gert í löndunum í kringum okkur.  Hérlendis má ekki framkvæma þessa aðgerð á stofu, því [að] lyfin, sem notuð eru til að sprauta í augun, eru með S-merkingu, sem þýðir, að eingöngu megi nota þau á spítala.

Það er engin ástæða fyrir því, að þessi lyf eru S-merkt í þessum tilvikum.  Ef því væri breytt, væri hægt að framkvæma inndælingarnar á stofu sérfræðinga og nýta skurðstofur spítalans betur til að stytta biðlista fyrir augasteinsaðgerðir."

Þetta er svakaleg lýsing á heilbrigðiskerfi í fjötrum einokunar ríkisrekstrar.  Klóför embættismanna, sem berjast með kjafti og klóm fyrir einokun Landsspítalans í smáu og stóru, má greina. Þarna binda búrókratarnir notkun lyfs við spítala í stað þess að binda hana við viðurkennda sérfræðinga.  Þessi mismunun lækna á spítala og sérfræðinga á stofu varðar líklega við lög.  Það er verið að skerða atvinnufrelsi, sem varið er í Stjórnarskrá.  Þegar svona er í pottinn búið, er aðeins von, að keraldið leki.  Ráðherrann verður að fá einhvern með rekstrarvit og auga fyrir sparnaði til að greina kerfisbundið, hvaða verkefni hins opinbera eru hæf til útvistunar og leggja tillöguna fyrir stjórn Landsspítalans og fulltrúa stofulækna til umsagnar. 

Á meðan uppstokkun verkefnaskiptingar Landsspítalans og læknastofanna er látin dankast og samningsgerð Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna á stofum er látin reka á reiðanum, lengjast biðlistar með hörmulegum afleiðingum og læknaskorturinn verður sárari.  Verknámsaðstaða Landsspítala er flöskuháls á útskriftarfjölda lækna og þar með innritunarfjölda.  Jafnframt alvöru samningaviðræðum við fulltrúa læknastofanna má ræða við þá um möguleika á að taka við læknanemum í þjálfun til að auka útskriftargetuna.  Þessi ofurtrú á stofnanaveldi og ríkisrekstur er ótrúlega lífseig tímaskekkja m.v. ömurlega reynslu hér og annars staðar af þessu trénaða fyrirkomulagi.  

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband