Færsluflokkur: Menntun og skóli
12.6.2013 | 20:21
Einstrengingsháttur í atvinnumálum
Frjálslynd ríkisstjórn hefur tekið við völdum í landinu af forpokuðu afturhaldi. Það eru himinn og haf á milli stjórnarhátta slíkra afla. Borgaralega viðhorfið er að leyfa þúsund blómum að blómstra, þó að þetta sé haft eftir illvígum fjöldamorðingja, Mao Tse Tung, fyrrverandi formanni kínverska kommúnistaflokksins, á meðan forpokunin felst í að fordæma vissar atvinnugreinar, leggja stein í götu atvinnulífsins almennt og leika hvern tafarleikinn á fætur öðrum, eins og Svandís Svavarsdóttir varð alræmd fyrir.
Afleiðingin af þessu eru fjárfestingar í sögulegu lágmarki, hagkerfisstöðnun og geigvænlegur halli á rekstri ríkissjóðs með botnlausri skuldasöfnun hins opinbera sem afleiðingu. Hrokagikkir afturhaldsins á borð við téða Svandísi reyna enn að þyrla upp moldviðri til að hylja sporin og tuða um góðan viðskilnað hjá sér, þegar hið sanna er, að þjóðfélagið er á bjargbrún greiðslufalls hins opinbera vegna óstjórnar, þröngsýni í stjórnarháttum, mistaka og getuleysis við að leiða vandasöm viðfangsefni til lykta. Eitt viðfangsefnanna er að straumlínulaga stjórnkerfið. Umhverfisráðuneytinu hefur verið misbeitt til að þvælast fyrir, og það hefur ekki aukið við faglega umfjöllun, heldur aukið andstæðurnar í stjórnkerfinu. Auðvitað er það rétt hjá dýralækni framsóknarmanna í ríkisstjórn, að hafa þarf umhverfislegar afleiðingar í huga við allar ákvarðanir í öllum ráðuneytum, en ekki að kasta málefnum á milli ráðuneyta og láta hina umhverfislegu ábyrgð aðeins liggja á einum stað. Með því að leggja umhverfisráðuneytið niður má spara í rekstri ríkisins og flýta fyrir afgreiðslu mála, sem sparar öllu þjóðfélaginu stórfé. Umhverfismeðvitund þarf að vaxa í stjórnsýslunni. Hún hefur t.d. ekki verið upp á marga fiska varðandi ferðamennskuna, eins og æ betur er að koma í ljós. Lausnin er hins vegar ekki að banna fólki að njóta náttúrunnar, heldur að sjá til, að slíkt gerist með sjálfbærum og afturkræfum hætti.
Annað dæmi um öfugsnúna umhverfisvernd er glannaskapur R-listans, sem fór með völdin í Reykjavík, þegar Orkuveita Reykjavíkur (OR) tók áhættu í blóra við greinargerðir jarðvísindamanna og viðvaranir sjálfstæðismanna í minnihluta borgarstjórnar, sem nú er að koma fyrirtækinu, OR, og Reykjavíkurborg hroðalega í koll. Stjórnmálamenn hafa riðið OR svo á slig, að óvíst er, að fyrirtækið ráði við þá stöðu, sem nú er komin upp, þegar ofan á geigvænlega skuldastöðu bætist tekjumissir og jafnvel útgjaldaauki við orkukaup af Landsvirkjun eða öðrum til að standa við gerða orkusölusamninga. Það er alveg ljóst, að stjórnmálamenn ráða ekki við að stunda fyrirtækjarekstur af þessu tagi einir. Þar að auki brýtur vinnslumynztur OR gegn samkeppnireglum á raforkumarkaði, þar sem einokunarstarfsemin hitaveiturekstur er stunduð af sama fyrirtæki. Nú ógnar ofnýting jarðhitasvæða á Hellisheiði í þágu raforkuvinnslu hitaveitustarfseminni, sem er þó hið mikla hagsmunamál íbúa höfuðborgarsvæðisins, að sé sjálfbær.
Að fást við kröfuhafa föllnu bankanna var ekki á færi vinstri manna, enda verður sú viðureign Heljarslóðarorrusta. Afturhaldið hafði ekki einu sinni manndóm í sér til að krefjast þess með lagasetningu frá Alþingi að skrá um nöfn, kennitölur og heimilisföng kröfuhafanna verði birt opinberlega. Þetta er þó fyrsta atriðið í viðureigninni við kröfuhafanna. Þeir, sem leggjast gegn slíkri lagasetningu, munu óhjákvæmilega liggja undir grun um að ganga erinda þeirra, sem makað hafa krókinn á þrotabúunum. Slitastjórnirnar ná ekki máli. Þær skammta sér þóknun, sem virðist ekki standa í réttu hlutfalli við árangurinn af störfum þeirra. Hvers vegna er vinnu þeirra ekki lokið ? Slitastjórn "Lehman Brothers", sem keyrðir voru í gjaldþrot 15. september 2008 af Seðlabanka Bandaríkjanna og fjármálaráðuneyti ríkisstjórnar BNA, hefur þegar lokið störfum. Starfi slitastjórnanna á Íslandi má hins vegar helzt líkja við skít, sem sígur fyrir barð.
Hér til hliðar er graf um álverð samkvæmt stöðunni 7. júní 2013. Grafið sýnir rísandi álverð með afhendingartíma, sem gefur til kynna væntingar markaðarins um hærra álverð í nánustu framtíð. Verðið 2300 USD/t, sem vænta má um næstu áramót, er viðunandi fyrir alla álframleiðendur á Íslandi. Fyrir nýtt álver á Íslandi er lágmarksverð 2500 USD/t til að standa straum af miklum stofnkostnaði fyrstu 5 rekstrarárin. Að 1-2 árum liðnum má gera ráð fyrir hærra verði en téðu lágmarki vegna aukinnar eftirspurnar og lokunar gamalla úreltra álvera.
Það er þess vegna ólíklegt, að afturhaldinu verði að von sinni um, að enginn fjárfestir hafi hug á að kanna möguleika á frekari orkukaupum til álvinnslu. Þá veltur mest á stjórnvöldum um niðurstöðuna. Ríkið á stærsta orkuframleiðandann með húð og hári, og sá á meirihlutann í flutningsfyrirtækinu. Það er réttmæt gagnrýni, sem sett hefur verið fram á flutningsfyrirtækið, að það stundi bútasaum, þegar kemur að umhverfismati. Landsnet hefur gefið út kerfisáætlun með ýmsum sviðsmyndum, sem háðar eru þróun orkumarkaðar, og eðlilegt næsta skref til að vinna tíma er að kynna áætlun um umhverfismat á hagkvæmustu lausnunum m.v. fyrirsjáanlega þörf, s.s. Sprengisandslínu til að tengja saman meginorkuvinnslusvæðin með öflugum hætti, en öflug lína á milli landshluta er brýn nauðsyn til að draga úr tjóni vegna orkuskorts og til að stofnkerfið sé ekki dragbítur á atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.
Landsnet hefur líka verið gagnrýnt fyrir að fara með úreltar tölur um kostnaðarmun á 220 kV loftlínu og jarðstreng. Það er tiltölulega auðvelt að fá óvilhallt mat á þessum kostnaðarmun. Nú eru Danir að færa loftlínur sínar í jörðu að miklu leyti. Þessu verkefni stjórnar Íslendingur, Dr Unnur Stella Guðmundsdóttir. Það ættu að vera hæg heimatökin að leita í smiðju til hennar.
Í hönnun eru líka lítt áberandi möstur fyrir loftlínur með nýjum tökum á burðarþolsfræði. Það er áreiðanlega með góðum vilja unnt að ná samkomulagi um jarðstrengi á viðkvæmustu svæðunum og jarðstrengjavæðingu upp í 132 kV á næstu 25 árum.
Eigandi Landsvirkjunar, fjármála-og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins, þarf að berja í brestina í stjórn Landsvirkjunar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að gæluverkefni þar á bæ hafa vakið undrun margra, svo og verðlagningarstefna fyrirtækisins, sem hvorki tekur tillit til jaðarkostnaðarverðs raforku í landinu né þróunar orkuverðs á heimsvísu. Sem dæmi um hið síðast nefnda má nefna, að vegna nýrrar tækni við gasöflun úr jörðu í Bandaríkjunum og Kanada hefur gasverð í Norður-Ameríku lækkað um 70 % á fáeinum árum. Eigandinn verður að fá viðskiptalega sinnað fólk í stjórn fyrirtækisins, þ.e. fólk, sem hefur getið sér gott orðspor í viðskiptum, og forystu með jarðsamband, sem eyðir ekki kröftunum í sýndarmennsku.
Næsta skrefið varðandi Landsvirkjun þarf síðan að verða að gera hana óháðari ríkisvaldinu en nú er til að skapa meiri stöðugleika við stjórnun hennar og efla langtímasýn stærsta orkuvinnslufyrirtækis landsins. Það verður hins vegar alltaf að vera grunnstef fyrirtækisins að þjóna þjóðinni og atvinnuvegum landsins með hagstæðustu þjónustu í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Núverandi forstjóri hefur ekki fylgt þessari línu, heldur boðað spákaupmennsku. Ef sæstrengshugmyndir hans yrðu að veruleika, mundi orkuverð á Íslandi stórhækka til almennings og samkeppnistaða atvinnuveganna stórversna. Að mismuna þegnum á EES-svæðinu með einhvers konar millifærslum úr sjóðum Landsvirkjunar stríðir gegn reglum ESB um jafnræði.
Á næstu árum verður verðmæti Landsvirkjunar líklega metið 400-500 milljarðar kr. Til að bæta rekstur fyrirtækisins, eins og að framan var tíundað, þarf að fá nýja eigendur inn og draga eignarhlut ríkisins niður í 60 % - 75 % í byrjun. Með þessu móti verður dregið úr stjórnmálalegu reiptogi um fyrirtækið og meira hugað að arðsemi, þó að girt verði fyrir spákaupmennsku og sett í stefnumörkun, að hlutverk fyrirtækisins sé að vera íslenzku athafnalífi og fyrirtækjum bakhjarl fremur en að skara eld að eigin köku. Arðsemin þarf þannig að koma frá arðsömum samningum við stóriðjuna og frá aðhaldi í rekstri. Landsvirkjun getur selt almenningsveitum í landinu orku á lægsta verði, sem þekkist, vegna hagkvæmra virkjana sinna og hagstæðra samninga við stóriðjuna, sem skapa tekjur í gjaldeyri og greiða upp virkjanirnar á um 20 % af endingartíma mannvirkjanna.
Grundvöllur sóknar í atvinnumálum, sem Laugarvatnsstjórnin hefur boðað, hvort heldur er á sviði fiskeldis, sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, er menntun. Þar hefur nýr menntamálaráðherra heldur betur verk að vinna, því að sjónhverfingameistaranum, forvera hans, var síður en svo annt um, að menntakerfið þjónaði þörfum atvinnulífsins. Menntakerfi landsins hefur dregizt aftur úr menntakerfi annarra þjóða, eins og alþjóðlegar kannanir á borð við PISA o.fl. hafa sorglega sýnt.
Nýr mennta-og menningarmálaráðherra ætti af siglfirzkri seiglu og vestfirzkri vígfimi að róta upp í stöðnuðu kerfi, sem álfur út úr hól hefur stjórnað allt of lengi, hækka laun duglegra kennara, sem sýna betri árangur en aðrir, og ekki vera feiminn við að auka samkeppni innan kerfisins, t.d. á milli skóla. Hann ætti að einbeita sér að því að auka bæði magn og gæði verklegs náms og gæta vel að því, að engin námsbraut sé botnlangi. Tilraunastofur þarf að reisa og tæknivæða aðstöðu til verklegs náms. Mesta sinnuleysi Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, kom fram í því að láta stórfellt brottfall, einkum drengja, viðgangast. Þetta jafngildir hræðilegri sóun hæfileika og er hrikalegur áfellisdómur yfir kerfinu og stjórnendum þess. Lausnin er að auka veg verklegs náms og tæknináms, þ.e. að auka raunverulega fjölbreytni, en hún sé ekki bara látbragðsleikur í ræðupúlti einhverra búálfa, sem hafa veruleikafirrtar hugmyndir um hlutverk menntakerfisins.
Illugi Gunnarsson þarf ekki að finna upp hjólið, enda hefur hann ekki tíma til þess. Teikningin er til, og hún er með þýzkum texta. Þýzka meistarakerfið, sem aðlaga má íslenzkum aðstæðum, fóðraði þýzka efnahagsundrið, "Wirtschaftswunder", og er enn undirstaða útflutningsdrifinnar kraftvélar þýzka iðnaðarins. Gæðastimpill kerfisins er, að atvinnuleysi þýzkrar æsku er meðal hins lægsta, sem þekkist, eða 7,6 % um þessar mundir.
26.4.2013 | 23:43
Brýn þörf breytinga
Íslenzka hagkerfið hefur enn ekki náð sér á strik eftir bankahrunið haustið 2008. Hagkerfið er enn 5 % minna en það var árið 2007, er það náði hámarki. Þessi kreppa Íslendinga er þess vegna orðin ein langdregnasta efnahagskreppa síðari tíma á Vesturlöndum. Ástæðurnar eru tvíþættar:
Aðalástæðan er sú, að landsmenn hafa frá 1. febrúar 2009 búið við stjórnvöld, sem hafa framfylgt afar andframfarasinnaðri stefnu, ótrúlega þröngsýnni afturhaldsstefnu, sem lýsir sér í því, að þau hafa beitt skattkerfinu ótæpilega til að drepa niður framtak einstaklinga og fyrirtækja, smárra sem stórra, og þau hafa beinlínis fjandskapazt við atvinnulífið í landinu og unnið gegn nýfjárfestingum erlendra sem innlendra aðila. Nóg er að nefna beinan hernað gegn sjávarútveginum, sem er þess vegna, því miður, tekinn að drabbast niður, og fáránlega stefnumörkun ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem hefur af ótrúlegri afdalamennsku verðlagt sig út af markaðinum. Þrátt fyrir lækkandi orkuverð í heiminum vegna aukins framboðs jarðgass og minnkandi eftirspurnar vegna bættrar nýtni og efnahagserfiðleika hvarvetna, hefur Landsvirkjun spennt bogann svo hátt, að hún hefur ætíð skotið yfir markið í viðræðum sínum við fjárfesta undanfarin ár, sem flestir hafa hrökklazt burt.
Hin ástæða erfiðleikanna á Íslandi er, að hagkerfi heimsins er að mestu staðnað, og sums staðar ríkir kreppa. Evrópa er á hrörnunarbraut vegna spennitreyju evrunnar, og ESB, Evrópusambandið, býr við vaxandi vantraust íbúanna í ESB-löndunum, þannig að hátt yfir helmingur íbúanna vantreystir nú Berlaymont , Bandaríkin eru í langvarandi stöðnun undir demókratanum Obama, og Kína er statt í minnkandi hagvexti vegna óhemju sóunar í ríkisstýrðu auðvaldskerfi. Þetta hefur leitt til lækkunar á afurðaverði Íslendinga. Ferðamennskan lofar þó enn góðu, og er það ánægjulegt, þó að kaupmáttur erlendra ferðamanna fari minnkandi.
Íslenzka hagkerfið er allt of lítið til að geta séð öllum landsins börnum fyrir atvinnu, sem kæra sig um að vera á vinnumarkaðinum. Vinnumarkaðurinn þarf að stækka um 10 % á tveimur árum til að fullnægja eftirspurninni. Gjaldeyrisöflunin er allt of lítil, og þarf að aukast um a.m.k. 20 % á 4 árum. Að öðrum kosti mun landflótti halda hér áfram og landið lenda í greiðsluvandræðum gagnvart lánadrottnum. Það er lífsnauðsynlegt að hverfa frá afturhaldsstefnu í landsmálum á Alþingi og til framfarastefnu á öllum sviðum. Hvernig ?
- Endurskoða Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda, þar sem hlutlægt mat sérfræðinga ráði. Til að kveða niður ýfingar út af þessu máli mætti leyfa þjóðinni að velja á milli gömlu og nýju Rammaáætlunarinnar. Íhlutunarsamir stjórnmálamenn vinstri vængsins eyðilögðu Rammaáætlun undir kjörorðinu: "vér einir vitum". Ef slagorðið um náttúruna, sem á að njóta vafans, á að leggja til grundvallar, þá er hægt að stöðva öll framfaramál. Skynsamlegra er, að almannahagsmunir njóti vafans.
- Endurnýja stjórn Landsvirkjunar og setja henni ný markmið um öflun nýrra viðskiptavina og aukningu á viðskiptum við þá gömlu. Landsvirkjun sem ríkisfyrirtæki ber að leggja rækt við þjónustu við allar framleiðslugreinar í landinu, landbúnað, sjávarútveg/vinnslu og iðnað, en hverfa frá þóttafullri framkomu við þessa aðila og daðri við gæluverkefni á borð við vindmyllur og sæstreng. Ný ríkisstjórn á að hafa frumkvæði að sjóðstofnun fyrir þrífösun sveitanna á 10 árum með jarðstrengjum og niðurrifi loftlína, sem margar eru afar hrörlegar. Þetta þýðir flýtingu á jarðstrengjaáætlun RARIK um 15 ár og framtíðarfjárfestingu hins opinbera í miklum tækifærum landbúnaðarins í eldsneytisframleiðslu (repja, nepja), fóður- og matvælaframleiðslu.
- Stjórnvöld verða að taka af skarið um uppbyggingu raforkuflutningskerfisins. 400 kV hálendislína er bezta lausnin. Með framförum í burðarþolsfræði eru að koma fram línustólpar, sem eru lítt áberandi eftir að hafa verið málaðir í felulitum. Með þessum hætti verður flutningsgetan tryggð á milli landshluta og stöðugleiki kerfisins í bilunartilvikum tryggður, en hann er ekki fyrir hendi með núverandi álagi og veikri Byggðalínu. Þessi lausn dregur úr þörf á stórum línum í byggð, sem t.d. Skagfirðingar hafa áhyggjur af.
- Vestfirðir eru framtíðar vaxtarsvæði vegna gjöfulla fiskimiða í grennd, gríðarlegra möguleika í fiskirækt og í ferðamennsku á sjó og landi. Innviðir þeirra hafa verið skammarlega vanræktir. Koma þarf á uppbyggðum hringvegi um Vestfirði, svo að komast megi eftir nútímalegum vegum um sunnanverða Vestfirði til Ísafjarðar og til baka um Djúpið og Steingrímsfjarðarheiði. Raforkukerfi og ljósleiðarakerfi Vestfjarða þarf líka að vera hringtengt til að ná viðunandi afhendingaröryggi.
- Illgirni í garð sjávarútvegs í bland við fjárhagslega og rekstrarlega fávísi hefur tröllriðið húsum, þegar stjórnvöld hafa sífellt aukið afskipti sín af sjávarútveginum að því er virðist til að brjóta hann á bak aftur. Vinstri flokkarnir hafa alið á úlfúð og öfund í garð útgerðarmanna, eins og kommúnistar gerðu alltaf til að "réttlæta" þjóðnýtingu. Látið er í veðri vaka, að útgerðarmenn njóti sérstöðu umfram þann atvinnurekstur, sem þarf að kaupa hráefni sitt af öðrum. Þetta er dauðans vitleysa, og stjórnvöld verða að taka þveröfuga stefnu og vinna með sjávarútveginum. Það er dýrt að sækja sjóinn, og útgerðarmenn þurfa að leggja í miklar fjárfestingar til að nýta miðin. Þar að auki ganga réttindin til að nýta miðin kaupum og sölum, og flestir útgerðarmenn hafa keypt þann kvóta, sem þeir ráða yfir núna. Þess vegna er tómt mál að tala um auðlindarentu í þessari grein, og slíkt er aðeins gert í áróðursskyni, en engin hagfræðileg rök búa að baki. Þó að í lögum standi, að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar, má ekki misbeita skattlagningarvaldinu með herfilegum hætti í nafni þjóðareignar. Hverjir hafa hætt fé sínu til að sækja sjóinn ? Téð lagagrein færir ríkinu rétt til að stjórna veiðunum, hversu mikið, hvar og hvenær úr hverjum stofni. Markmiðið er að hámarka afrakstur auðlindarinnar, og það er alþjóðlega viðurkennt, að íslenzka kerfið er þar í fremstu röð, og æ fleiri taka það nú upp. Flaustursleg tilraunastarfsemi með þessa grundvallaratvinnugrein landsins er óábyrg og óverjanleg í ljósi þess, að íslenzki sjávarútvegurinn á í höggi við meira eða minna niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa, og engum dettur þar í hug að setja á auðlindagjald, hvað þá með þeim búrókratísku afglöpum, sem viðvaningar í íslenzku stjórnsýslunni hafa gert sig seka um.
- Menntakerfið íslenzka er óskilvirkt og beinir nemendum á rangar brautir, sem eru þjóðhagslega óhagkvæmar og henta þeim ekki. Það verður að fjárfesta meir í verkmenntun og tæknimenntun landsmanna til að sjá vaxandi framleiðslugreinum fyrir fagþekkingu og sérþekkingu í fremstu röð. Ísland á að verða framleiðsludrifið hagkerfi, og í þeim efnum eigum við að leita fyrirmynda hjá vinum okkar Þjóðverjum, hverra nákvæmni, skipulag og tækniþróun er undirstaða öflugusta framleiðsluhagkerfis í heimi, þegar framleiðni og gæði eru tekin með í reikninginn. Við getum átt gott samstarf við þá, þó að við göngum ekki ESB á hönd, sem sumir segja jafngilda því að játast undir agavald Berlínar.
- Öflugt, gjaldeyrisskapandi atvinnulíf, er undirstaða velferðarsamfélags á Íslandi. Til þess að knýja áfram athafnalífið þarf markaðshagkerfi og þar með frjálsa samkeppni, þar sem henni verður við komið. "Marktwirtschaft" kalla Þjóðverjar þetta, og eftir hrun Þriðja ríkisins varð þetta að "Wunderwirtschaft" eða efnahagsundri. Íslendingar geta eignast sitt efnahagsundur, ef þeir kjósa til Alþingis fordómalaust fólk gagnvart athafnalífinu ("no nonsense persons") og jafnframt fólk með þekkingu á lögmálum hagkerfisins.
Hlustum ekki á niðurrifsraddir nöldurseggja. Veitum Sjálfstæðisflokkinum og glæsilegri og þróttmikilli ungri forystu flokksins tækifæri til að sýna, hvað í henni býr.
14.3.2013 | 21:04
Á vegum vinstri grænna
Stjórnarflokkarnir hafa troðið einstrengingslegum og skaðlegum stefnumálum sínum upp á landsmenn í skjóli alþjóðlegrar peningakreppu, sem reið þremur bönkum hér að fullu haustið 2008. Þó að þessum bönkum væri stjórnað af sjúklegri áhættusækni, er kollhnís banka ekki einsdæmi á Norðurlöndunum eða annars staðar í seinni tíð, nema síður sé.
Norska bankakerfið lagðist á hliðina árið 1990, og uppdráttarsýki herjaði á sænska bankakerfið um sömu mundir. Munurinn á Íslandi og Noregi var, að norsku bankarnir voru ekki jafnsvakalega þandir (uppgíraðir) og íslenzku bankarnir, og vegna olíuauðsins hafði norska ríkið meira svigrúm til að hlaupa undir bagga. Neyðarlögin voru hin íslenzka sérlausn. Allar bólur ber að forðast og kæfa í fæðingunni.
Alþekkt er andstaða vinstri manna gegn bifreiðum, vegalagningu og brúarsmíði. Aðalfórnarlambið undir niðurskurðarhnífi Steingríms, þáverandi fjármálaráðherra, varð Vegagerð ríkisins, og voru græningjar þar samir við sig. Fjárveitingar til hennar voru fundið fé fyrir vinstri menn, og þar var höggvið í sama knérunn hvað eftir annað í algerri blindni forstokkaðra stjórnmálamanna gegn viðvörunarorðum sérfræðinga og ýmissa stjórnmálamanna. Mun niðurskurður til viðhalds vega hafa numið 15 milljörðum kr á ári, og blasir nú við, hvílíkt fádæma glapræði það var, enda vöruðu verkfræðingar Vegagerðarinnar alvarlega við þessari skómigu ríkisstjórnarinnar. Hún fussaði og kvað þá bara míga upp í vindinn.
Ríkisstjórn Jóhönnu hefur stöðvað nánast allar vegaframkvæmdir í landinu og skorið viðhaldsfé Vegagerðarinnar niður um helming. Þetta hefur valdið stórtjóni og aukið slysahættu. Á sama tíma hefur sú arma ríkisstjórn hækkað álögur á bifreiðaeigendur og á eldsneyti upp úr öllu valdi. Þessu verður að linna, og þessari öfugþróun verður að snúa við. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar 2013 hét að hefja þá vegferð við fyrsta tækifæri. Lætur nærri, að ríkissjóður hafi hirt árlega um 10 milljarða kr af viðbótar skattfé, sem renna ætti í viðhaldssjóð Vegagerðarinnar. Þar með hefur hún rænt ökutækjaeigendur 25 milljörðum kr á ári, og er þá vægt reiknað. Svo berja þessir garmar sér á brjóst og þykjast erfiða við að bjarga þjóðinni, þegar sannleikurinn er sá, að þetta kann ekkert til verka, og öll orkan fer í innbyrðis deilur. "Hvílíkur Jón í Hvammi."
Ríkisstjórnin, sem virðist vera skipuð óvitum, sem engan gaum gefa að afleiðingum gjörða sinna, heldur setja undir sig (heimskan) hausinn og kæra sig kollótta. Hún skal aldrei greina afleiðingar gjörða sinna áður en haldið er af stað, og þess vegna er undir hælinn lagt, hvort hún lendir úti í mýri með mál eða ekki. Oftast fréttist af þessu fyrirbrigði utan vegar. Síðast var Guðmundur Steingrímsson gerður út af örkinni frá hjáleigunni til að ýta. Það breytti þó engu.
Nú blasir við, að téður "sparnaður" ríkisstjórnarinnar var tóm tjara. Undirlag veganna er að brotna undan umferðarþunganum og vegna hönnunar þeirra og öldrunar. Upp vellur tjara. Styrkja verður vegina umtalsvert, svo að þeir þoli þungaflutninga til samræmis við þá, sem leyfðir eru á vegum Evrópu, 49 t. Til þess þarf að endurhanna þá áður en að viðhaldi þeirra kemur. Að þessu verður næsti samgönguráðherra að snúa sér af alvöru, láta Vegagerðinni í té allt fé, sem eyrnamerkt er bílum og umferð á vegum skattheimtunnar og gefa skýr fyrirmæli um að uppfylla Evrópustaðla í vegagerð. Þetta er stórfellt öryggis-og hagsmunamál, og fátt er jafnarðsamt og fjárfesting í vegaumbótum.
Innanríkisráðherra er að gæla við strandsiglingar m.a. til að hlífa vegunum. Ef hann kemst að því, að þær beri sig, er það gott og blessað, en eftir því sem næst verður komizt hafa engar grundvallarbreytingar orðið á hagkvæmni strandsiglinga síðan Ríkisskip voru lögð niður vegna taprekstrar í tíð Halldórs Blöndals, þáverandi samgönguráðherra, ef þann, sem hér heldur á fjaðurstaf, misminnir ekki.
Vegakerfi Íslands er landsmönnum enn ekki sæmandi, og verður svo ekki fyrr en vegirnir standa tæknilega og öryggislega undir þeirri umferð, sem þar er og verður. Einbreiðum brúm á hringveginum og á öðrum þjóðvegum verður að útrýma á næstu 10 árum öryggisins vegna. Þjóðvegirnir eru skammarlega mjóir víða, krókóttir og mishæðóttir, og víða vantar vegrið við kanta, þar sem bratt er niður. Aðgreining umferðarstefna með vegriði hefur aukið öryggið mikið, þar sem slíkt hefur verið sett upp. Það er engin goðgá að gera slíkt á milli einfaldra akreina á hættulegum köflum. Markmiðið hlýtur að vera 0 dauðaslys á vegum landsins.
Á skattasviðinu hefur vinstri stjórnin farið hamförum og fengið Alþingi til að samþykkja gamla drauma flokka sinna um skattlagningu, sem hafa valdið stórtjóni á hagkerfinu og keyrt það í stöðnun, ef ekki samdrátt árið 2012, sem slær öll met niður á við norðan Alpafjalla. Vinstri flokkarnir líta ekki á skattkerfið sem tekjuöflunarkerfi hins opnbera, heldur tekjujöfnunarkerfi yfirvalda á þegnana. Ríkisstjórnin hefur ekki sniðið skattheimtuna við hámörkun opinberra tekna, heldur við mismunun þegnanna eftir tekjustigi. Þetta glapræði að hálfu ríkissjóðs hefði engum getað dottið í hug, nema hagfræðingi menntuðum í austur-þýzka alþýðulýðveldinu. Þetta hefur komið alveg einstaklega illa við ungt fólk, sem er að koma undir sig fótunum í atvinnulífinu og að stofna til heimilis. Þessi hópur þarf mest á háum ráðstöfunartekjum að halda, og þessi hópur er dýrmætastur hverju samfélagi. Einmitt þessi hópur hefur flúið land. Afleiðingin af óréttlátri og óhóflegri skattheimtu ríkisstjórnarinnar er, að hagkerfið hjakkar í sama farinu og nær sér alls ekki á strik, þar sem umgjörð yfirvaldanna er afar letjandi. Þetta er skýringin á langvinnustu kreppu í vestrænu samfélagi, sem um getur á seinni tímum, ef Grikkirnir með sinn hrikalega vanda af völdum evrunnar, sem þeir tóku upp á fölskum forsendum, eru undan skildir. Þess má geta í framhjáhlaupi, að Samfylkinguna virðist dreyma um upptöku evru á fölskum forsendum, því að allar lausnir hennar á vandanum í núinu snúast um gjaldmiðilsskipti strax. Ef af því yrði, væri það algert brot á Maastricht-sáttmálanum og þar með án réttra forsendna gjaldmiðilssamstarfs ESB, EMU II. Samfylkingarmenn halda því líka fram, og benda þá á Eystrasaltslöndin, að við það að taka stefnuna á evruna muni efnahagsstjórnunin lagast. Hér skal ekki mótmæla þessu, en hvað þýðir það að taka stefnuna á evruna. Það þýðir að gera Maastricht-skilyrðin að stefnumiði. Sá, hér heldur á fjaðurstaf, vill gjarna leiða Maastricht-skilyrðin til öndvegis við hagstjórnina, en þó að það sé gert, liggur ekkert á að blanda sér í þá gjörningahríð, sem væntanleg er innan ESB. Það er komið í ljós, að Þýzkaland og Frakkland geta ekki búið við sama gjaldmiðil, og skyldi engan undra, og Englendingar kunna að segja skilið við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017; spurning hvað Skotar gera.
Atvinnulífið hefur verið þrúgað undir sameignarsinnunum. Er kominn tími til, að ríkisvaldið hætti hernaði sínum gegn fólki og fyrirtækjum í landinu, sem stundaður er í nafni úreltra og heimskulegra hugmynda um stéttabaráttu og ríkiseign á öllu, smáu sem stóru. Verst hafa stjórnvöld farið með sjávarútveginn, og varðar sú mismunun í skattlagningu, m.v. fyrirtæki í öðrum greinum, sennilega við ákvæði í Stjórnarskrá um atvinnufrelsi, jafnrétti og eignarrétt. Skattheimtan á útvegsfyrirtækin og fiskvinnsluna tekur út yfir allan þjófabálk, og hún er svo þungbær, að fyrirtækin rísa ekki undir henni. Verður að afnema hið stórskaðlega og afspyrnu heimskulega veiðigjald strax og ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og þing kemur saman. Sjávarútvegurinn getur sáralítið fjárfest undir klafa sameignarsinna, en við eðlileg skilyrði þarf hann og getur fjárfest fyrir ISK 15 mia.
Íslenzki sjávarútvegurinn stendur í harðri samkeppni við norska sjávarútveginn og sjávarútveg ESB, og flausturslegt fikt við afkomu hans og stöðugleika er stórkaðlegt, og vegna umfangs hans í þjóðarframleiðslunni eru atlögur stjórnvalda gegn honum þjóðhættulegar. Það er lágmarksskylda stjórnvalda að tryggja sjávarútveginum jafna rekstraraðstöðu á við annan fyrirtækjarekstur í landinu. Túðrinu um meinta auðlindarentu verður að linna. Það mun aldrei takast að sýna fram á auðlindarentu í íslenzkum sjávarútvegi einum af allri sjávarútvegsstarfsemi við Norður-Atlantshaf. Annaðhvort er hún þar alls staðar eða hvergi.
Menn hafa velt fyrir sér, hvar fjárfestingartækifæri væru á Íslandi á næstunni. Sá, er hér heldur á fjaðurstaf enn einu sinni, telur reyndar vera gríðarleg tækifæri í nýjum orkukræfum verksmiðjum, en hér skal minnast á annað og síður umdeilt svið, þar sem er fiskeldið. Þar hentar Ísland vel frá náttúrunnar hendi, eins og Noregur, sem hefur náð góðum árangri á þessu sviði og við getum lært margt af. Fyrir 30 árum sleit þessi grein barnsskónum í Noregi og setti sér þá markmið um að framleiða 1 milljón tonna af eldisfiski um 2010, og þeir hafa nú náð þessu marki. Við erum nú að slíta barnsskónum á þessu sviði og ættum að gera áætlun um fimmtánföldun framleiðslunnar á 15 árum. Til þess þarf fjárfestingarfé, þekkingu og talsverðan mannafla, sem mun bæta hag dreifðra byggða, t.d. á Vestfjörðum. Til að komast upp úr algerri stöðnun, sem vinstri stjórnarhættir og glópahagstjórn hefur leitt yfir okkur, verður að þrefalda fjárfestingar hið minnsta frá því, sem nú er.
Menntakerfið er fjarri því að fullnægja þörfum athafnalífsins, enda hefur menntamálaráðherra engan hug á því, og hefur ekki ákvarðað forgangsröðun til menntamála með hagsmuni helztu atvinnugreina á Íslandi í huga. Landbúnaðurinn hefur sína sérskóla, og þar þarf fyrir atbeina ríkisins að efla fræðslu fyrir fiskeldið. Það er þörf á eflingu menntunar fyrir sjávarútveginn á sviði skipstjórnunar, vélstjórnunar, rafvirkjunarstarfa um borð og framleiðslustjórnunar um borð og í landi, svo að fátt eitt sé talið. Stóriðjan er alger hornreka í menntakerfinu. Áherzlur menntamálaráðherra eru á sviði hugvísinda á kostnað raunvísinda, og hún eykur einsleitni á kostnað fjölbreytni með því að þrengja að einkaskólum. Áherzlur vinstri manna eru á öllum sviðum sama markinu brenndar, þ.e. að auka miðstjórnarvald fremur en að auka heildarskilvirkni kerfisins.
Eitt ráð til að auka framleiðni er að leyfa fyrirtækjum að vaxa til að þau geti nýtt hagkvæmni stærðarinnar. Norðmenn leyfa hámarksumfang hvers útgerðarfyrirtækis í hverri tegund upp undir 25 %. Hér er markið 12 % af aflahlutdeild og er tekið að standa frekari hagræðingu fyrir þrifum. Væri rétt að tvöfalda þetta mark í 4 þrepum á 8 árum.
Framleiðni í fjármálageiranum er of lág, sem ásamt öðru veldur of háu vaxtastigi í landinu. Starfsemi bankanna er með ríkistryggingu, sem ýtir ekki undir hagræðingu. Það gengur ekki að vera með ríkistryggingu á starfsemi fjárfestingarbanka. Hana á að taka af, nema bankarnir kljúfi fjárfestingastarfsemina frá innlánastarfseminni, og Samkeppnisstofnun ætti í kjölfarið ekki að standa gegn sameiningu tveggja af þremur stærstu innlánastofnununum.
Framsóknarflokkurinn siglir nú beggja skauta byr í fylgismælingum. Hófst fylgisaukning flokksins fyrir alvöru með uppkvaðningu dóms EFTA dómstólsins í janúar 2013. Þá kom í ljós, að Framsóknarflokkurinn hafði sýnt heilsteyptustu dómgreindina í Icesave-málinu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mestu staðfestuna. Nú vill fólk veðja á þennan unga mann og láta reyna á hann og hans fólk við stjórnvöl landsins. Það er vel skiljanlegt og hægt að samfagna með Framsóknarmönnum, enda gengur ekki hnífurinn á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Það er engin þörf fyrir Sjálfstæðismenn að hengja haus, svo lengi sem summa fylgis flokkanna er vel yfir 50 %. Borgaraleg ríkisstjórn er það, sem þetta land þarf nú, og nú stefnir í, að hún verði undir forsæti Framsóknarflokksins. Í ljósi stjórnmálastöðunnar í landinu núna er það engin goðgá. Tveir jafnstórir flokkar geta myndað stálbryddaða ríkisstjórn.
Á sama tíma er formanni Samfylkingar siginn larður í 12,5 %. Sá maður er svo leiðinlegur á að hlýða, að með eindæmum er. Að annarri eins loðmullu og froðusnakki er leitun. Nýjasta spekin frá þeirri mannvitsbrekku er, að gengisfelling krónunnar hafi ekkert gagnazt sjávarútveginum, af því að útflutningsmagnið hafi staðið í stað. Þessi ESB-taglhnýtingur á bágt. Hann veit ekki, að það er fiskveiðistjórnunin, aflamarkskerfið, reist á vísindalegri ráðgjöf, sem setur veiðunum skorður. Afkastageta flotans og útflutningsgeta sjávarútvegsfyrirtækjanna er miklu meiri.
7.3.2013 | 20:24
Í kjölfar landsfunda
Nú hafa nánast allir stjórnmálamenn landsins fengið tækifæri til að ráða ráðum sínum við helztu stjórnmálaáhugamenn landsins innan vébanda stjórnmálaflokkanna. Hver er afraksturinn ?
Það, sem út á við snýr, og stjórnmálamennirnir hafa látið frá sér fara, vitnar um ónóga hugmyndaauðgi og skort á dirfsku, þó að ljóst megi vera, að arfleifð fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar er með þeim hætti, að landið færist stöðugt nær gjaldþrotsbarmi, enda allar ráðstafanir vinstri stjórnarinnar kolrangar, hafa magnað vandann, og allt of miklu hefur verið ýtt á undan sér. Af þekktum dýrategundum hefur þessi dæmalausa ríkisstjórn mest líkzt strútinum. Hún hefur, eins og hann, stungið hausnum í sandinn, þegar vandi hefur steðjað að.
Stærri stjórnarflokkurinn, sem er nú aðeins einn af stærri smáflokkunum á vinstri væng stjórnmálanna, enda býður hann fram klofið, verður æ furðulegri eftir því, sem hann eldist. Hann er ekki lengur flokkur almúgamanna, heldur menntamanna á ríkisjötunni, sem slegnir eru Evrópublindu. Forysta þessa flokks neitar að viðurkenna staðreyndir varðandi ESB, en hefur reist sér einhvers konar skýjaborg um þennan klúbb, sem horfist nú í augu við illviðráðanlegan vanda innbyrðis sundurþykkju af völdum mjög ólíkra hagsmuna. Þó að sá, er hér heldur á fjaðurstaf, vildi gjarna ganga í þennan klúbb, þá gæti hann ekki unnið sér það til lífs að útskýra á hvaða vegferð þessi klúbbur er, og er þó sæmilega upplýstur. Samfylking Árna Páls er einsmálsflokkur. Öll vandamál eru leidd í jörðu með innihaldslausum fullyrðingum, hreinræktuðu lýðskrumi, sem líkist málflutningi trúarhópa um betra líf eftir dauðann. Málflutningur af þessu tagi er fullkomlega óboðlegur hérlendis árið 2013.
Efnahagsstefna þessarar flokksónefnu malarbúa á suðvesturhorninu fjallar um frjálsan innflutning matvara og lifandi dýra til landsins og upptöku evru, eins og það er ósmekklega kallað. Nýleg dæmi sýna í hnotskurn, hversu mikil afturför yrði frá gæða-og heilbrigðissjónarmiði að flytja hingað ótæpilegt magn af kjöti frá Evrópu, en glæpasamtök hafa verið orðuð við viðskipti í þeirri grein, og þá er hvorki spurt um gæði né hollustu, heldur einvörðungu stundargróða. Þá er reynslan af innflutningi lifandi dýra svo hrikaleg vegna sjúkdómadreifingar, að menn ættu ekki einu sinni að ýja að slíku.
Talsmenn "stærsta" flokksbrotsins á vinstri vængnum, ekki sízt sá, sem nú er kallaður formaður flokksins án þess greinilega að stjórna flokkinum, því að gamla illindaskakið lætur ekki völdin eftir, láta sig hafa það að bera á borð fyrir alþjóð málflutning, sem hverju barni er samt ljóst, að gengur ekki upp. Það á sem sagt að leysa hvers manns vanda með því að skipta um lögeyri í landinu. Þetta er eins heimskulegur málflutningur og hugsazt getur. Menn skipta ekki um lögeyri eins og brókina sína. Slíkt gera menn einvörðungu eftir vandaða áhættugreiningu að beztu manna yfirsýn, þar sem menn hafa sannfærzt um, að hagvöxtur verði bezt tryggður í hagkerfinu með þeim hætti.
Hagstjórn á að snúast um að hámarka hagvöxt. Þetta eiga vinstri menn bágt með að skilja, enda eru margir þeirra hreinlega á móti hagvexti, svo að ekki er kyn, þó að keraldið leki. Ef hagsveiflan hér er ólík því, sem ríkjandi er á myntsvæði, sem Ísland væri aðili að, býður slíkt upp á vandræði; annaðhvort meiri verðbólgu hér út af of lágum vöxtum eða atvinnuleysi út af of háum vöxtum. Hins vegar dregur hagkerfisþróunin hérlendis æ meira dám af þróuninni í Evrópu eftir því sem iðnvæðingu landsins vindur fram.
Það felur í sér uppgjöf og mikinn blekkingaleik gagnvart kjósendum að halda því fram, að lausn íslenzks efnahagsvanda felist í að skipta um mynt. Lausnin felst aftur á móti í að þróa og efla hér hagstjórn, sem elur af sér stöðugleika og trausta mynt, þ.e. mynt, sem styrkist smám saman frá því, sem nú er, t.d. í u.þ.b. 100 kr per bandaríkjadal. Ef ekki er unnt að ná tökum á peningamálastjórninni og samræma hana ríkisbúskapinum, þá mun nauðsynlegar forsendur gjaldmiðilsskipta skorta.
Andróðurinn gegn formanni Sjálfstæðisflokksins er viðurstyggilegur. Hælbítar hans setja aðallega fyrir sig þátttöku hans í atvinnulífinu fyrir og í peningakerfishruninu. Fyrirtæki, sem hann var viðriðinn, lentu í vandræðum og urðu sum gjaldþrota, en það er ekki vitað til, að þau eða eigendur þeirra hafi fengið 1 kr afskrifaða af skuldum sínum. Eigendurnir, þ.m.t. ættmenni Bjarna Benediktssonar, töpuðu hins vegar stórupphæðum. Svipað var ástatt um annan formann Sjálfstæðisflokksins, Ólaf Thors. Kveldúlfur varð gjaldþrota, og áttu Thorsarar lengi vel undir högg að sækja út af því. Báðir voru þessir menn og eru taldir vera stálheiðarlegir. Það er mikill kostur fyrir stjórnmálamann að hafa tekið þátt í viðskiptalífinu. Við sjáum glópsháttinn og viðvaningsbraginn á öllum málatilbúnaði núverandi ráðherra til samanburðar. Þeir kunna ekkert til verka. Landsfundur Sjálfstæðismanna skildi þetta, og 4/5 fulltrúanna studdu formanninn til að verða sitt forsætisráðherraefni.
Formaður Sjálfstæðisflokksins er fremstur á meðal jafningja, "Primus inter Pares", í sínum flokki, og hann ber augljóslega af formönnum hinna flokkanna fyrir sakir menntunar sinnar og staðgóðrar og yfirgripsmikillar þekkingar, sem hann hefur aflað sér á landshögum og helztu hagsmunamálum þjóðarinnar. Stingur hann algerlega í stúf við gösslarahátt hinna formannanna, svo að ekki sé nú minnzt á forystu ríkisstjórnarinnar, sem veður á súðum í hverju málinu á fætur öðru og skortir augljóslega dómgreind til að leiða nokkurt mál til farsælla lykta.
Vinstri grænir settu litlausan varaformann til valda, sem óttalega lítið hefur kveðið að til þessa og ekki er hægt að búast við miklu af. Formaðurinn er kurteis, sem ber að virða, en ferillinn í menntamálaráðuneytinu er markaður tilhneigingunni til einsleitni í rekstrarformi hins opinbera og að þola illa samkeppni frá einkageiranum. Hér, eins og annars staðar, er rétt að leita sparnaðar með því að leyfa einkaframtakinu að spreyta sig. Grunnhugsunina um jöfn tækifæri til náms án tillits til efnahags ber þó að virða. Menntun í vísindum, tækni og iðngreinum, er góð og nauðsynleg fjárfesting fyrir þjóðfélagið, en við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að forgangsraða í þágu raunvísindagreina á kostnað hugvísindanna. Gæði menntunar á sumum sviðum raunvísindanna hérlendis eru óboðleg og standa framfarasókn þjóðfélagsins fyrir þrifum.
Nýlega afhjúpaði nýkjörinn formaður vinstri grænna sig sem ábyrgðarlausan stjórnmálamann, loddara. Hún lagði fram á síðustu dögum þingsins frumvarp um Lánasjóð íslenzkra námsmanna, sem er slík hrákasmíð, að jafnvel umsögn ráðuneytis nöfnu hennar Júlíusdóttur gefur frumvarpi mennta-og menningarmálaráðherra falleinkunn. Katrín kastar fram kolrangri og allt of lágri tölu um líklegan kostnað af frumvarpinu. Katrín, formaður vinstri grænna, vill hlaða undir góða og samvizkusama nemendur og gefa þeim upp skuldir við LÍN. Fjárlagaskrifstofa fjármála-og efnahagsráðuneytisins áætlar árlegan kostnað af þessu verða tæpa 5 milljarða kr, sem með vöxtum verða um 100 milljarðar að 10 árum liðnum. Þar sem hér er um útgjaldaauka að ræða hjá ríkisstjóði, sem rekinn er með halla, verður að slá lán fyrir þessu, og þess vegna er eðlilegt að reikna á upphæðina vexti. Við höfum ekki efni á slíkri greiðvikni við góða nemendur, enda mundi hún fljótt hitta þá fyrir sem bjúgverpill bágstadds ríkissjóðs. Þarna sjá menn forgangsröðun hinnar undarlegu Katrínar Jakobsdóttur í hnotskurn. Hún mun verða myllusteinn um háls hennar, það sem eftir er. Hláleg frammistaða nýs formanns.
Vinstri grænir með atvinnuvega-og nýsköpunarráðherrann í broddi fylkingar hafa tekið undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar kverkataki í nafni sameignarstefnunnar, og þeir hafa skákað í skjóli túlkunar sinnar á lagaákvæðinu um, að þjóðin eigi fiskveiðiauðlindina. Þeir hafa túlkað þetta þannig, að ríkið eigi hana, sem er tóm vitleysa, og nú stefnir í, að eigið fé sjávarútvegsins þurrkist upp fyrir tilverknað sameignarsinna, og er það vafalaust í samræmi við ætlun þeirra. Þessi eignaupptaka mun einnig leiða til stórvandræða lánastofnana. Þjóðin í heild mun bera skarðan hlut frá borði, ef þetta brölt verður ekki stöðvað og undið ofan af vitleysu vinstri grænna og annarra marða. Ef svo fer fram sem horfir, þurfa útgerðarfyrirtækin að afskrifa 11 milljarða kr á ári af bókfærðum aflaheimildum, sem hafa verið keyptar. Það er ekkert tillit tekið til fjárfestingarþarfarinnar í greininni, sem er um 20 milljarðar á ári, til að viðhalda samkeppnihæfninni við erlend fyrirtæki, og ekki heldur tekið tillit til fyrri fjárfestinga, sem vissulega hafa verið undirstaða hagræðingar í greininni, sem hefur haft mjög mikil og góð þjóðhagsleg áhrif. Tröll leika sér hér með fjöregg þjóðarinnar. Þau hafa aldrei migið í saltan sjó, en telja sig þó þess umkomin að hafa vit fyrir útgerðinni. Þetta vit er ekki meira en guð gaf, og það er mjög af skornum skammti, þegar þingmenn ríkisstjórnarinnarinnar og ráðherrarnir sjálfir eiga í hlut. Sennilega er allur þessi hrærigrautur lögleysa.
Næsta þing mun kveða upp úr um það, hvort stjórnvöld hafi rétt til að veikja stöðu íslenzks sjávarútvegs í samkeppni við Norðmenn og aðra. Næsta þing mun kveða upp úr með það, hvort það telji stjórnmálamenn og embættismenn betur til þess fallna en útgerðarmenn að hámarka framleiðni sjávarútvegsins. Næsta þing mun kveða upp úr um, hvort leita eigi að auðlindarentu í bókhaldi sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækja og aðeins þar.
Til að reikna út veiðigjaldið er notuð tölfræði frá Hagstofunni, sem er góð og gild, en hentar engan veginn til skattlagningar á fyrirtæki. Þá er veiðigjaldið lagt bæði á fiskveiðar og vinnslu, sem skýtur skökku við, því að auðlindarenta er sögð lögð til grundvallar. Hún hefur hins vegar aldrei fundizt, af því að útgerðin stendur í strangri samkeppni við erlendar útgerðir, sem ekki búa við auðlindagjald, heldur þvert á móti fá þær opinberan stuðning. Það er þess vegna engin sanngirni í að leggja veiðigjald á íslenzkan sjávarútveg með þeim hætti, sem nú er gert. Að leggja veiðigjald á íslenzkan sjávarútveg á grundvelli meintrar auðlindarentu er svipuð ósanngirni og að leggja kolefnisgjald á hann, þó að sjávarútvegur í samkeppni við þann íslenzka sleppi við slíkar álögur. Allt, sem yfirvöld aðhafast og er til þess fallið að draga úr samkeppnihæfni íslenzkra fyrirtækja, er forkastanlegt, enda jafngildir slíkt kjararýrnun hér.
Það stefnir í, að 65 % af framlegð (EBITDA) fyrirtækjanna verði tekin af þeim með þessum hætti og þar á ofan 20 % tekjuskattur, sem jafngildir þá í heildina yfir 70 % af framlegð. Þetta er óðs manns æði og mun ganga af sjávarútveginum dauðum með hrikalegum afleiðingum fyrir fólkið í landinu. Þetta er sósíalismi andskotans.
Sáttaleið getur falizt í gjaldi, sem er reiknað af tekjuafgangi fyrirtækjanna, en ekki framlegð, og þar sem skattféð sé eyrnamerkt og renni í hafnarsjóð, til Landhelgisgæzlunnar, til Hafrannsóknarstofnunar og til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna. Með öðrum hætti er ekki hægt að réttlæta sértæka skattlagningu af sjávarútveginum. Þjóðareignin er hins vegar fólgin í réttinum til að stjórna fiskveiðikerfinu og að ákvarða aflamagnið, sem er inngrip í eignarréttinn, og í lagaákvæðinu um þjóðareign á fiskimiðunum er jafnframt fólginn réttur stjórnvalda til að verjast ásókn erlendra fyrirtækja og ríkja í téða auðlind.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2011 | 09:43
Lýðveldisdagurinn 2011
Að þessu sinni er þess minnzt á Þjóðhátíðardeginum, að 200 ár eru liðin frá fæðingu þjóðhetjunnar, Jóns Sigurðssonar, forseta Alþingis, að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Hlutur Jóns í sjálfstæðisbaráttunni við Dani var svo mikill, að fullyrða má, að framlag hans skipti sköpum um þróunina til fullveldis og lýðveldis, eins og hún varð, þó að hún hefði e.t.v. orðið með meiri krókaleiðum seinna án hans. Í þessu sambandi má þó ekki gleyma forgöngumönnunum, sem skópu frjóan jarðveg, Fjölnismönnum, og öðrum, sem fram úr sköruðu, þ.á.m. Skúla Magnússyni, landfógeta, sem var fyrsti forgöngumaður iðnvæðingar Íslands með Innréttingunum (af þýzka orðinu Einrichtungen). Allir voru þessir menn afburðamenn 18. og 19. aldar.
Jón Sigurðsson var einnig mikill hvatamaður framfara og atvinnufrelsis í landinu, og taldi verklegar framfarir og verzlunarfrelsi mundu verða undirstöðu sjálfstæðis landsins. Þarf ekki mikið hugmyndaflug til að láta sér detta í hug, hvar í flokk Jón Sigurðsson mundi skipa sér nú á tímum. Ólíklegt verður að telja, að hann mundi verða upprifinn af hugmyndum nútímans um að binda trúss sitt við nokkuð, sem hæglega getur orðið að risaríki Evrópu, ESB, eins og ráða má af eftirfarandi tilvitnun í ræðu formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á Alþingi nýlega í tilefni afmælisins:
...,þegar Íslendingum bauðst að kjósa fulltrúa á danska þingið og njóta þannig jafnræðis á við danska þegna, hafnaði Jón því alfarið. Það gerði hann meðal annars í þeirri vitneskju, að örfáir þingmenn á þingi, sem átti að stýra öllum löndum dönsku krúnunnar, hefðu lítil áhrif á hagi landsins og slíkir þingmenn yrðu ekki í tengslum við stöðu mála á Íslandi; ekki frekar en þeir embættismenn, sem fóru með málefni landsins á skrifstofu í ráðuneyti fjærri Íslandsströndum."
Á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar er vert að huga að hlutskipti æskunnar. Þar skipta menntamálin sköpum. Hvernig er búið að æskunni í skólum landsins ? Athugun á kunnáttunni sýnir því miður, að gæðum kennslunnar er stórlega ábótavant. Hlustum á málfarið og lítum á ritsmíðarnar. Hvorugt heldur máli í of mörgum tilvikum. Framburður er slæmur, orðaforði lítill, allt morar í hortittum og ambögum, og stafsetningin er í molum. Ekki þarf annað en að líta með öðru auganu á bloggið til að sjá, hvílíkur voði er á ferð. Margir, sem rembast við að tjá sig á ritvellinum, hafa til þess enga burði og allsendis ófullnægjandi kunnáttu. Kennslunni hefur stórlega hrakað, frá því að höfundur þessa vefpistils sat við fótskör merkra lærifeðra í Ísaksskóla, Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar (landspróf) og MR.
Nýlega kvörtuðu nemendur opinberlega undan því að fá ekki kennslu í Stjórnarskránni. Þeir voru þá að afhenda Stjórnlagaráði hugmyndir sínar. Þegar þessi höfundur var í Laugarnesskólanum var kennt þar fagið Félagsfræði, og þar var Stjórnarskráin hluti af námsefninu. Hinn frábæri kennari, Pálmi Pétursson, hlýddi nemendum yfir hana.
Handabakavinnubrögð hafa tekið við við skipulagningu námsskráa og skólastarfs, frá því að höfundur var í barnaskóla, gagnfræðaskóla og menntaskóla, og þar til börn hans fetuðu síðan sömu slóð, þ.e. afturför í gæðum kennslunnar hefur aðallega átt sér stað á tímabilinu 1970-1990.
Tungumálakunnáttan er sama markinu brennd. Stúdentar í raungreinum geta flestir lítið sem ekkert tjáð sig á þýzku eða á öðrum málum en ensku, og geta vart haldið uppi samræðum á ensku. Þetta er mikil afturför. Sama má segja um þekkingu á sögu Íslands og mannkynssögu. Þessi þekking er algerlega í molum hjá mörgum stúdentum.
Hvernig er þá fagþekkingunni háttað ? Þjóðfélagi okkar ríður á, að skólarnir skili frá sér fólki, sem fullnægir þörfum atvinnulífsins. Því fer fjarri, að svo sé. Fjöldi iðnaðarmanna er of lítill, og þekking þeirra er ekki í nógu miklum mæli sniðin við þarfir nútíma athafnalífs. Vinnubrögð nýsveina eru yfirleitt ekki nógu vönduð, og þeir hafa hlotið ófullnægjandi þekkingu í notkun og bilanagreiningu á iðntölvum, svo að eitthvað sé nefnt. Skólakerfið er 10-20 árum á eftir tímanum. Það verður að auka gæði kennslunnar í grunnskólum, á menntaskólastigi og ekki sízt á iðnskólastigi. Alveg sérstaka rækt þarf að leggja við verknámsbrautir. Setja þarf fé í að reisa æfingaaðstöðu og tilraunaaðstöðu fyrir fólk í verknámi til sveinsprófs, iðnfræði, tæknifræði og verkfræði. Verklegri þjálfun allra þessara hópa er áfátt, ekki sízt verkfræðinga í samanburði við starfsbræður þeirra erlendis, og slíkt er hneisa fyrir þjóðfélag, sem ætlar að verða öflugt, útflutningsdrifið framleiðsluþjóðfélag.
Það verður að auka sjálfstæði skólanna í stað þess að drepa þá í dróma samræmingar og miðstýringar. Þannig myndast samkeppni á milli þeirra. Rekstrarform skólanna þarf að vera mismunandi, t.d. sjálfseignarstofnanir og einkaskólar auk skóla í eigu sveitarfélaga og ríkis. Þeir eiga að keppa um nemendur og keppa um að skila frá sér nemendum sem hæfustum fyrir næsta skólastig fyrir ofan og/eða atvinnulífið. Gæði menntunar skiptir sköpum fyrir hagfellda þróun þjóðfélagsins og samkeppnistyrk.
Hvernig er atvinnulífið í stakk búið að taka við nemendunum ? Því miður er nú við völd ríkisstjórn, sem lætur hvert tækifærið af öðru á sviði framfara framhjá sér fara. Engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum hefur glutrað niður jafnmörgum tækifærum og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þótt valdaferillinn sé skammur. Þar sem þetta er ekki einvörðungu klaufaskapur, heldur meðvitað háttarlag, verður að kalla þessa ríkisstjórn afturhaldsstjórn. Af glötuðum tækifærum um sinn má nefna einkasjúkrahús á Miðnesheiði í húsnæði reist af Bandaríkjaher, gagnaver á svipuðum slóðum, álver þar skammt frá við Helguvík sem og á Bakka við Skjálfanda, milljarðafjárfestingar í sjávarútvegi, sem útgerðarmenn hafa frestað vegna vingulslegs tals stjórnvalda og frumvarps um þjóðnýtingu í greininni og nú síðast lagasetningar, sem grefur undan aflahlutdeildarkerfinu. Sams konar tal var reyndar haft uppi um orkuiðnaðinn og virkar mjög fælandi á fjárfesta. Skattastefna stjórnvalda hefur og gert illt verra og kæft athafnalífið og einkaneyzluna. Allt eru þetta sjálfskaparvíti fólks, sem heltekið er af stjórnmálalegum kreddum, en hefur engan gáning á hagsmunum athafnalífsins.
Af þessum sökum er mikill hörgull á boðlegum tækifærum fyrir æskuna, þegar hún kemur út úr íslenzka skólakerfinu, enda er geigvænlegt, e.t.v. 20 %, atvinnuleysi á meðal ungs fólks á bilinu 18-29 ára. Þetta er sjálfskaparvíti þröngsýnna, einstrengingslegra og fákænna stjórnvalda, sem fyrir slysni skolaði hér á valdastólana eftir Hrunið, en verða senn send á ruslahauga sögunnar, ef forsjónin lofar.
Alls staðar í Evrópu eiga jafnaðarmenn og sameignarsinnar undir högg að sækja. Öllum kosningum eftir Hrunið hafa þeir tapað, nema á Íslandi. Líklegt má heita, að repúblikanar (lýðveldissinnar) hreppi Hvíta húsið í BNA í næstu forsetakosningum þar m.v. ástandið í hagkerfi BNA núna og mikið atvinnuleysi. Það er þó að sumu leyti skárra en í ESB.
Ástæðan fyrir óförum félagshyggjunnar er einföld. Það liggur í augum uppi, að vinstri úrræðin duga ekki, þegar á herðir. Á meðan allt leikur í lyndi og hægt er að slá lán fyrir sukki og óráðsíu í opinberum rekstri, sem jafnan fylgir stjórnmálaflokkum vinstra megin við miðju í ríkisstjórn, hanga lýðskrumarar og loddarar við völd á kostnað komandi kynslóða.
Í höfuðvígi jafnaðarmanna, Svíþjóð, var þeim ekki hleypt í valdastólana í síðustu kosningum til Riksdagen, en í Noregi er að vísu enn við völd ríkisstjórn með sama flokkamynztri og hér, en það er einvörðungu vegna olíusjóðsins, sem ríkisstjórnin sáldrar úr og smyr opinberan rekstur með. Í Noregi er hlutur hins opinbera orðinn geigvænlega stór hluti þjóðarkökunnar, og það eru ótrúlega fáir í einkageiranum, sem halda þjóðfélaginu uppi. Sagt er, að alls kyns bætur úr opinberum sjóðum standi undir fylgi félagshyggjuflokkanna. Það eru ær og kýr vinstri manna að taka úr einum vasa til að setja í annan, jafnvel vasa sömu persónunnar. Þetta felur í sér rýrnun verðmæta og sóun.
Þrátt fyrir tímabundna velferð í Noregi, er norska þjóðfélagið ósjálfbært. Norðmenn lifa nú á kostnað komandi kynslóða í boði lýðskrumara og loddara. Hið norræna velferðarkerfi á að verða okkur víti til varnaðar.
Hvað er til ráða á Íslandi ? Það hafa tapazt um 30 000 störf á Íslandi frá Hruni, sem þýðir, að nýting athafnalífsins er aðeins um 85 % um þessar mundir. Þetta er meiri sóun auðlinda en við höfum ráð á og með svo lágri nýtni nær hagkerfið sér ekki á strik. Ráðið við þessu eru mjög auknar fjárfestingar, enda eru þær mjög litlar og minnkandi nú. Núverandi ríkisstjórn hefur engin áform um neitt slíkt og engan áhuga, nema síður sé; hún þvælist endalaust fyrir. Það er nákvæmlega sama staðan hér og annars staðar í Evrópu að þessu leyti; félagshyggjuflokkarnir duga ekki til stórræða. Þeir hugsa mest um skiptingu auðsins, en minna um sköpun hans. Þegar öllu skiptir að stækka þjóðarkökuna, eyðir félagshyggjan tímanum í eitthvað annað, oftast er það kostnaðaraukandi í stað tekjuaukandi, og stjórnin skilar þess vegna í raun auðu við úrlausn á vandamálum samfélagsins í bráð og lengd.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur valdið stuðningsmönnum sínum gríðarlegum vonbrigðum. Flokkarnir halda hvor öðrum í heljargreipum, og hrossakaupin sjúga merginn úr beinum beggja flokka. Samfylkingin fékk leyfi til að sækja um aðild að ESB. Áhugi Samfylkingarinnar á inngöngu Íslands í ESB er þó torskiljanlegur, því að hún virðist standa langt til vinstri við stefnu framkvæmdastjórnar ESB á flestum sviðum.
Umsókn og aðlögun var of mikil fórn á grunngildum VG, enda troðið ofan í kokið á flokksmönnum af valdasjúkum formanninum. Í staðinn fékk VG þó stöðvunarvald á öllum stórframkvæmdum, sem ríkið átti nokkurn kost á að stöðva. Þetta veldur krötum miklum áhyggjum, og í heild er þessi samsuða banvæn fyrir flokkana, sem að ríkisstjórninni standa. Það er bara tímaspurning, hvenær upp úr sýður, og annað þessara atriða mun valda stjórnaslitum áður en kjörtímabilið verður á enda runnið.
Þá mun margur anda léttar, og þá þarf heldur betur að taka til hendinni í viðreisn á öllum sviðum. Það er skylda borgaralegu flokkanna að búa sig vel og vandlega undir valdatökuna, kynna almenningi markmið sín og leiðir að þeim, og hrinda strax eftir stjórnarmyndun af stað aðgerðum til að ná settum markmiðum. Öll markmið ættu að stuðla að aðalstefnumiðinu, að Ísland verði í hópi þriggja landa með beztu lífskjörin í Evrópu árið 2020. Minna sættum við okkur ekki við. Ljúfan lýðveldisdag !
14.7.2010 | 21:46
Skussasafn
Af asnaspörkum og verkleysi vinstri stjórnarinnar má ráða, að þar fari ófélegt safn skussa. Doði og drungi einkennir hana og setur að sama skapi mark sitt á allt þjóðlífið. Asnaspörk hennar einkennast flest af þrá eftir að þurrka út alla hvata fyrir einstaklingana til að standa sig, að gera betur í dag en í gær og betur en aðrir.
Þetta kemur illilega fram í breytingum vinstri manna á skattakerfinu, þar sem álögur voru ekki aðeins hækkaðar, heldur var hugmyndafræðin greinilega sú að baki breytingunum að refsa þeim sérstaklega, sem meira bera úr býtum fyrir vinnu sína, og þar með að draga úr hvatanum til að standa sig og að fá umbun í launum, að ekki sé nú minnzt á hvatann til að telja rétt fram allar tekjur til skatts. Þegar áætlun fjármálaráðuneytis um skatttekjur stóðst ekki, eins og reyndar var búið að segja fyrir um, þá var gripið til sértækra ráðstafana, er snúa að viðhaldi eigin húsnæðis, en auka tekjur samfélagsins ekki neitt.
Nýjasta dæmið er úr menntageiranum. Þar hefur rýr menntamálaráðherra í roði vinstri grænna gert sitt til að draga úr árangri nemenda í grunnskólum landsins, og máttu þeir þó alls ekki við því, með því að draga úr hvata kerfisins til þeirra að leggja sig fram til að ávinna sér rétt til inngöngu í þá skóla, sem hugur þeirra stendur til. Þetta er stórlega ámælisverður gjörningur að hálfu hins vinstri sinnaða og snautlega menntamálaráðherra. Hún bakar nemendum og þjóðfélaginu tjón með sérvizkulegu niðurrifi grunnskólans.
Það er brýn þörf á að hrista upp í grunnskólanum til að þekking nemenda á sögu þjóðar sinnar, móðurmáli, landa-og jarðfræði lands síns, talna-og bókstafareikningi og erlendum tungumálum verði frambærileg, en það er hún alls ekki nú um stundir. Getur hver og einn sannfært sig um sannleiksgildi þessarar fullyrðingar með því að ræða við 16 ára unglinga. Allt of margir þeirra eru úti á þekju varðandi söguna, tala bjagað og eru næstum óskrifandi á móðurmálinu, eiga erfitt með óhlutbundna hugsun og eru ósjálfbjarga í erlendum málum.
Þessa stöðu menntamálanna verður að lagfæra, og það verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að koma samkeppni að á milli nemenda, kennara og skóla og að ýta undir fjölbreytileg rekstrarform. Hver getur verið á móti innleiðingu hvata til að standa sig ? Doðinn verður dýrkeyptur hér. Leið glötunar er sú, sem nú er farin, að forðast að gera metnaðarfullar kröfur um árangur og að leggja nokkurt gæðamat að ráði á starf skólanna.
Það verður að auka veg verkmennta til mikilla muna. Kerfið er úrelt, því að það er um of sniðið við að framleiða embættismenn, þegar þjóðfélaginu ríður á að auka veg iðngreina og tæknigreina. Verður að fjárfesta í búnaði til að gera þetta kleift og að auka kynningu og hvata til ungmenna að leggja þessar greinar fyrir sig, enda sé ekki um neinar blindgötur að ræða í menntakerfinu. Hinn athafnalífs fjandsamlegi vinstri söfnuður hefur hins vegar engan áhuga fyrir því að efla hag atvinnulífsins með því að styrkja undirstöður þess með bættri menntun.
Ef einhver túlkar ofangreind orð sem forsögn um forréttindi, veður sá hinn sami í villu og svíma. Þvert á móti er jöfnun tækifæranna markmið í sjálfu sér fyrir hvert heilbrigt nútíma samfélag, þ.á.m. til menntunar. Forréttindi í krafti auðs, uppruna eða sambanda, t.d. stjórnmálalegs eðlis, eru fyrirlitleg og siðlaus. Dr Bjarni Benediktsson, fyrrverandi varaformaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, mótaði Sjálfstæðisflokkinn öðrum mönnum fremur að öðrum þó ólöstuðum. Hann þótti vera kröfuharður húsbóndi, en viðurkennd var réttsýni hans og sanngirni. Af engum krafðist hann þó meira en af sjálfum sér. Slíkir menn virka mannbætandi á félagslegt umhverfi sitt, því að þeira ganga á undan með góðu fordæmi; á slíkum er hörgull.
Svo uppsker hver sem hann sáir. Á öllum sviðum þarf að hefja þetta gildismat til vegs á ný. Álnir, sem fólk kemst í í sveita síns andlitis með því að gjalda keisaranum, það sem keisarans er og guði, það sem guðs er, eru samfélagslega æskilegar og eftirsóknarverðar. Auður eins, sem þannig verður til, er ekki skortur annars, eins og kenning sameignarsinna kveður á um. Að níða skóinn niður af heiðarlegu fólki, sem vel vegnar, er viðbjóðslegt. Öfundin er beittasta vopn vinstri manna, en hún er þjóðfélagslegt niðurrifsafl, og hefur reynzt illa sem undirstaða svo nefndrar jafnaðarstefnu.
Sérstaklega verður að telja jafnaðarmenn á rangri braut í utanríkismálum. Á Íslandi hafa þeir bitið í sig, að innganga í klúbbinn ESB tryggi gildi jafnaðarstefnunnar á Íslandi og hag almennings. Þetta er grundvallarmisskilningur. Auðurinn getur ekki komið að utan, nema hann verði fyrst skapaður innan íslenzkrar lögsögu. ESB hefur að sönnu að mörgu leyti bætt og tryggt hagsmuni almennings í Evrópu, en ekkert umfram það, sem Íslendingar njóta nú þegar með aðild að EES og að Atlantshafsbandalaginu. Mesti gallinn við ESB er ólýðræðislegt eðli þess og fjarlægð embættismanna þess og framkvæmdastjórnar frá almenningi í löndum ESB. Þessir aðilar standa ekki almenningi reikningsskap gerða sinna í kosningum og eru ekki á sömu bylgjulengd og almenningur í ESB-löndunum. Almenningur er t.d. andsnúinn æ nánari samruna ríkjanna.
Enn einu sinni hafa jafnaðarmenn á Íslandi sýnt, að þeir eru fúsir til að beygja reglur innri markaðar EES að duttlungum sínum og að hagsmunum útvalinna fyrirtækja. Með vissum hætti eru kaup Magma Energy á hlut í HS orku framhald hins svo kallaða REI-hneykslis, þegar litlu munaði, að FL-Group tækist að læsa klóm sínum í OR. Æðsti prestur jafnaðarmanna, Össur Skarphéðinsson, og "svæfingalæknirinn" Dagur B. ætluðu af göflunum að ganga, þegar Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík stöðvaði hættulegt ferli. Nú má jafnvel eiga á hættu kæru frá ESA, af því að ráðuneyti iðnaðarmála á Íslandi hefur lagt á ráðin um að hleypa fyrirtæki utan EES að íslenzka orkugeiranum án útboðs innan EES. Með svona siðlitla jafnaðarmenn í hagsmunagæzlu fyrir Ísland, hvernig halda menn, að færi, ef Ísland gengi í ESB og stórþjóðir og/eða stórfyrirtæki ESB færu að banka upp á um eignarhald á Íslandi ?
Gríðarlegar innri mótsetningar og hrossakaup herja á ESB. Einna mest er spennan á milli Frakka og Þjóðverja. Þarf engan að undra slíkt í sögulegu samhengi. Berlín og París líta gjörólíkum augum á lausn flestra viðfangsefna. Dýpst er gjáin í afstöðunni til gengis-og peningamála og ríkisfjármála. Þjóðverjar vilja mikinn aga í ríkisfjármálum og ætla að innleiða í stjórnarskrá takmörk á halla fjárlaga. Þá vilja þeir varðveita algert sjálfstæði seðlabanka frá stjórnmálamönnum. Frakkar vilja meiri miðlæga stjórnun og aukin völd til stjórnmálamanna. Í þennan suðupott á Ísland ekkert erindi. Smæð þjóðarinnar getur hæglega orðið til þess, að hún, með miklar auðlindir á hvern íbúa, verði leiksoppur í hráskinnaleik stórveldanna í Evrópu. Að deila fullveldi sínu með risunum og öðrum getur engan veginn orðið Íslendingum til hagsbóta. Gefur það ekki auga leið ? Ef utanríkismál eru hagsmunabarátta, er ljóst, að varðveizla fullveldis er hagsmunamál.
Menntun og skóli | Breytt 15.7.2010 kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)