Færsluflokkur: Umhverfismál

Af framtíð heimsins

Enn á ný er barizt á banaspjótum út af yfirráðum lands í Evrópu og stjórnarfyrirkomulagi í því landi og víðar, í þessu tilviki einræði að rússneskri fyrirmynd eða lýðræði að vestrænum hætti.  Úkraínumenn hafa sýnt það að fornu og nýju, að þjóðfélagsleg viðhorf þeirra eru gjörólík Rússanna.  Úkraínumenn eru einstaklingshyggjumenn, sem er annt um frelsi sitt og lands síns og eru búnir að fá sig fullsadda á yfirráðum Rússa og frumstæðum stjórnarháttum þeirra.

  Úkraínumenn ganga ekki að því gruflandi núna, að þeir verða hnepptir í þrældóm, ef Rússar munu ná fram vilja sínum á þeim. Rússar eru forræðishyggjumenn, sem taka festu og stöðugleika í þjóðfélaginu fram yfir persónulegt frelsi sitt.  Þeir hafa jafnan í sögunni sýnt sínum zar hollustu. Hafi þeir velt honum, hafa þeir einfaldlega tekið sér nýjan zar.

Núverandi zar, sem af tali sínu og gjörðum að dæma gengur alls ekki heill til skógar, stundar nú þjóðarmorð í Úkraínu og er einn grimmasti stríðsglæpamaður seinni tíma. Hann hefur opinberað veikleika rússneska hersins á vígvellinum og með framferði sínu innan lands og utan skipað Rússlandi á ruslahauga sögunnar. Nú eru Pótemkíntjöldin fallin og eftir stendur agalítill og lítt bardagahæfur her án góðrar herstjórnar og herskipulags, sem níðist miskunnarlaust á varnarlausum óbreyttum borgurum.  Með falli téðra Pótemkíntjalda opinberast um leið siðblinda Kremlarherra, sem vekur fyrirlitningu um allan heim, einnig á meðal undirsáta Rússanna innan ríkjasambandsins.   

Úkraínska þjóðin er nú með eldskírn sinni endurfædd til sögunnar.  Hún hefur skipað sér í raðir vestrænna ríkja og ætlar að reka ræfildóminn úr austri í eitt skipti fyrir öll af höndum sér.  Vonandi hafa Vesturveldin manndóm í sér til að standa svo myndarlega við bakið á hinni hugdjörfu og einbeittu úkraínsku þjóð, að henni takist ætlunarverk sitt í nafni fullveldis, frelsis og lýðræðis, og vonandi ber NATO-ríkin gæfa til að veita Úkraínu vernd gegn látlausum yfirgangi úr austri með því að veita landinu aðild að varnarsamtökum vestrænna ríkja.  Að láta einræðisherrann í Kreml ráða því, hvaða lönd eru tekin inn í NATO að þeirra beiðni, gengur ekki lengur. 

Hryðjuverkamennirnir við stjórnvölinn í Rússlandi nútímans reyna nú í vanmætti sínum á vígvellinum að sprengja íbúa Úkraínu langt aftur í aldir og svipta þá lífsnauðsynjum s.s. vatni og rafmagni.  Þetta er gjörsamlega ófyrirgefanleg hegðun nú, þegar vetur gengur í garð.  Orkuskorts gætir líka um alla Evrópu.  Evrópa sýpur nú seyðið af draumórum sínum um, að gagnkvæmir hagsmunir vegna viðskiptatengsla ráði meiru um stefnumörkun í hefðbundnu einræðisríki en aldalöng útþensluhefð ríkisins. 

Það, sem á við um Þýzkaland í þessu samhengi, á einfaldlega ekki við um Rússland, og við mun taka áralöng einangrun Rússlands fyrir vikið. 

Um alla Evrópu, nema á Íslandi, mun verða gripið til viðarkyndingar í vetur til að halda lífi, og kolaorkuver hafa verið endurræst.  Það hillir ekki undir, að markmið Parísarsamkomulagsins náist árið 2030, enda fer losun flestra ríkja á koltvíildi vaxandi. 

Við þessar ömurlegu aðstæður og misheppnaða stefnumörkun stjórnmálamanna á flestum mikilvægustu sviðum tilverunnar, er hressandi að lesa boðskap Björns Lomborg, sem andæfir bölmóði heimsendaspámanna  með talfestum rökum. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22.10.2022 undir fyrirsögninni: 

"Af svartagallsrausi heimsendaspámanna".

Þar gat m.a. þetta að líta:

  "Ósköpin dynja á okkur í síbylju, hvort sem þar er á ferð seinasta hitabylgja, flóð, skógareldar eða gjörningaveður.  Engu að síður sýnir sagan okkur, að síðustu öldina hafa válynd veður haft æ minni áhrif á mannskepnuna.  Á 3. áratug síðustu aldar lézt 1/2 M [manns] af völdum veðuröfga, en aðeins 18 k allan síðasta áratug [þ.e. þ.e. 3,6 % af fjöldanum fyrra tímabilið - innsk. BJo].  Árin 2020 og 2021 kröfðust svo enn færri mannslífa á þessum vettvangi.  Hvers vegna ?  Jú, vegna þess að því loðnara sem fólk er um lófana, þeim mun öruggar býr það."

Nú eru strax fluttar fréttir af vettvangi með myndaefni, þar sem veðuröfgar verða.  Fjölmiðlum hættir mjög til að gera mikið úr frásögnum sínum í sögulegu samhengi og kenna síðan hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum um.  Þetta er innistæðulaus bölmóður, hræðsluáróður, ætlaður til að koma sektarkennd inn hjá almenningi, hræða hann til að breyta neyzluvenjum sínum og lifnaðarháttum. Allt væri það unnið fyrir gýg. Samkvæmt gervihnattamælingum er hlýnun andrúmsloftsins miklu minni en IPCC (Alþjóðaráð Sþ um loftslagsbreytingar) heldur fram í skýrslum sínum og hleypir þar engum gagnrýnisröddum að.  Öfgar veðurfarsins eru iðulega ýktar í sögulegu tilliti og sérstaklega afleiðingar þeirra, eins og Björn Lomborg er óþreytandi við að rekja: 

"Sjónvarpsfréttir, sem fjalla um veður, gefa hins vegar til kynna, að allt sé á heljarþröm.  Það er rangt.  Árið 1900 var fátt talið eðlilegra en 4,5 % alls þurrlendis á jörðunni brynni ár hvert.  Síðustu öldina er þetta hlutfall komið niður í 3,2 %.  Sé að marka myndir frá gervihnöttum, hefur hlutfallið enn minnkað á síðustu árum.  Í fyrra var það 2,5 %.  Rík samfélög fyrirbyggja eldsvoða; svo einfalt er það.  Spár gera ráð fyrir því, að við lok þessarar aldar [21.] verði brunar enn færri, hvað sem hnattrænni hlýnun líður."

Fréttamenn hafa tilhneigingu til að slengja fram getgátum einum sem staðreyndum án þess að grafast fyrir um hinar raunverulegu staðreyndir.  Ef þeir ná óskiptri athygli "fréttaneytenda" í nokkrar mínútur, eru þeir nokkuð ánægðir með vaktina.  Fyrir vikið úir og grúir af misskilningi og rangfærslum, og allt er hengt á hlýnun af mannavöldum.  Úr henni er of mikið gert, og við á Norðurlöndunum getum nánast engin áhrif haft á koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, sem er meintur sökudólgur, en hvað með önnur efni þar ? Öll er þessi saga of áróðurskennd og æsingakennd til að vera trúverðug, enda eru menn á borð við Björn Lomborg búnir að höggva stór skörð í trúverðugleikann. 

"Ekki dregur þó úr veðurtjóni einu þrátt fyrir spár um annað.  Ekki er nema áratugur síðan umhverfisverndarfólk boðaði endanlegan dauða stóra kóralrifsins við Ástralíu vegna loftslagsbreytinga.  Brezka blaðið Guardian ritaði jafnvel minningargrein um það.  Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á, að rifið er í góðum gír - raunar betri en síðan 1985.  Þau skrif las auðvitað enginn." 

 Það væri til að æra óstöðugan að afsanna allan fullyrðingaflauminn, sem streymir frá froðuframleiðendum, sem kenna sig við umhverfisvernd, og eru illa að sér um lögmál náttúrunnar og hafa hvorki getu né vilja til að kynna sér þau mál til hlítar, sem þau gaspra um í tíma og ótíma.  Þarna tíundar Björn Lomborg eitt dæmið, en hann hefur hrakið marga bábiljuna úr smiðju þeirra.  Verst er, að hræðsluáróður dómsdagsspámanna nær eyrum stjórnmálamanna á Vesturlöndum, sem við stefnumörkun sína, t.d. í orkumálum, hafa mótað stefnu, sem er ekki aðeins vita gagnslaus og kostnaðarsöm, heldur einnig stórhættuleg fyrir lífsafkomu almennings í bráð og lengd. 

"Önnur algeng tækni umhverfisverndarsinna var að nota myndir af ísbjörnum í áróðursskyni.  Meira að segja var þeim beitt í kvikmynd Al Gore, Óþægilegur sannleikur.  Raunin er hins vegar sú, að ísbjörnum fjölgar.  Á 7. áratuginum [20. aldar] voru þeir [á] milli 5 og 10 þús., en eru í dag um 26 þús. að öllu töldu.  Þetta eru fréttir, sem við fáum aldrei.  Þess í stað hættu sömu umhverfisverndarsinnar bara hægt og hljótt að nota ísbirni í áróðri sínum."

Þegar þekking og yfirsýn ristir grunnt, gerist einmitt þetta, sem Björn Lomborg lýsir.  Ísbjörninn þarf aðgang að sjó til að leita ætis.  Þess vegna hefst hann við nálægt ísröndinni.  Sú ísrönd færist til eftir árstíðum, árum, áratugum og öldum.  Á norðurhveli hefur áður verið hlýrra en nú, t.d. á blómaskeiði víkinganna, þegar Ísland var numið.  Ísbjarnarfjölskyldur hafa væntanlega dafnað vel þá í miklu æti ekki síður en nú.  Hvernig fengu unhverfiskjánarnir þá flugu í höfuðið, að afkoma ísbjarna væri bundin við breiddargráðu ?  Ísbjörninn er stórkostlegt dýr, sem hefur alla tíð þurft að aðlagast breytilegu umhverfi. 

Síðan bendir Björn okkur vinsamlegast á, að kuldi sé manninum meiri skaðvaldur en hiti, og það á alveg sérstaklega vel við núna í orkuskortinum í Evrópu, þegar sumir hafa ekki efni á að kynda og hafa ekki aðgang að eldiviði:

"Á sama tíma horfum við fram hjá stærri vandamálum.  Lítum á alla athyglina, sem hitabylgjur hljóta í Bandaríkjunum og víðar. Dauðsföllum af völdum hita fækkar einmitt í Bandaríkjunum, aðgangur að loftkælingu hjálpar meira en hár hiti skaðar.  Kuldi kostar hins vegar mun fleiri mannslíf.  Í Bandaríkjunum einum deyja 20 k [manns] á ári vegna hita, en 170 k [manna] vegna kulda - við spáum ekkert í það.  Dauðsföllunum vegna kulda fjölgar í Bandaríkjunum, en við einblínum á hlýnun jarðar vegna þess, að stjórnmálamenn tönnlast á grænum lausnum, sem gera ekkert annað en að hækka orkuverð með þeim afleiðingum, að færri hafa efni á kyndingu.  Við skellum skollaeyrunum við því, hvar við gætum í raun hjálpað mest."  

Það er athyglisvert, að í BNA deyja næstum áttfalt fleiri úr kulda en hita.  Það má ætla, að ýmist sé það fólk, sem hefur ekki efni á að kynda húsnæði sitt, eða útigangsfólk.  Á Íslandi er líka útigangsfólk, sem hefur króknað úr kulda, en sem betur fer eru landsmenn langflestir í þeirri stöðu að hafa aðgang að orku á viðráðanlegu verði, svo að þeir geti haldið á sér nægilegum hita í verstu vetrarhörkunum.  Hættan er hins vegar sú, að ekki sé fjárfest nægilega í tæka tíð til að hindra, að framboðið ráði ekki við eftirspurnina.  Þetta kann að eiga við um hitaveitur vegna mikillar mannfjölgunar og rafmagn vegna vanfjárfestinga í nýjum virkjunum.  Kveður svo rammt að hinu síðar nefnda núna, að klárlega má segja, að orkuyfirvöldin fljóti sofandi að feigðarósi.   


Vaxtarskeiði fiskeldis er hvergi lokið hérlendis

Nú er saman komin sú þekking og fjármagn í fiskeldi hérlendis, sem saman mynda grundvöll heilbrigðs vaxtar í atvinnugreininni.  Við blasir atvinnugrein, sem með þessu móti býr sig í stakkinn til að verða ein af undirstöðum íslenzkrar útflutningsstarfsemi. 

Eins og við hlið hinna undirstaðanna, sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar, flutnings erlendra ferðamanna til og frá landinu og sölu gistingar til þeirra, þróast alls konar starfsemi við hlið fiskeldisins, t.d.  hönnun og framleiðsla á sjálfvirkum búnaði og fóðurframleiðsla. Sú síðast nefnda á mikla framtíð fyrir sér vegna möguleika á hráefni, sem að öllu leyti getur orðið innlent, og vegna hagstæðrar raforku úr endurnýjanlegum orkulindum.  Það, sem þarf til að skjóta stoðum undir innlenda fóðurframleiðslu, er að stórefla kornrækt í landinu. Einkaframtakið er fullfært um það, ef hið opinbera aðeins hefur manndóm í sér til að bjóða kornbændum áfallatryggingu gegn uppskerubresti.  Með þessu fæst heilnæmara fæði og fóður með minna kolefnisspori en samsvarandi innflutningur og gjaldeyrissparnaður, sem styrkir ISK að öðru óbreyttu og eykur verðmætaskapandi vinnu í landinu, sem er ígildi útflutningsiðnaðar. 

Íslenzkt fjármagn og þekking koma nú af vaxandi krafti inn á öllum sviðis fiskeldis við og á Íslandi ásamt hliðargreinum.  Það er eðlileg þróun, en hvaðan kemur þetta fjármagn og þekking ?  Hvort tveggja kemur aðallega frá íslenzkum sjávarútvegi, sem er afar ánægjuleg þróun. Ef hins vegar niðurrifspúkar í íslenzkri stjórnmálastétt, gjörsneyddir þekkingu á þörfum atvinnulífsins, hefðu ráðið för á Alþingi, væri nú íslenzkur sjávarútvegaður sá eini í heiminum, sem væri ofurskattlagður, væri þannig í hrörnun og ekki í neinum færum til að hleypa lífi í sprotagreinar. Fyrirtækið, sem hér á eftir kemur við sögu, Laxá fiskafóður á Akureyri, er dótturfélag almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, svo að saga auðhyggju og atvinnusköpunar verður ekki betri.  Afætur og skattheimtuskúmar á Alþingi og víðar geta étið það, sem úti frýs, á meðan þekking og fjármagn einkaframtaksins leggur grunn að auðsköpun þjóðar í vexti. 

Þann 18. október 2022 birti Gunnlaugur Snær Ólafsson viðtal í Morgunblaðinu við hinn stórhuga Gunnar Örn Kristjánsson (GÖK), framkvæmdastjóra Laxár fiskafóðurs á Akureyri, undir fyrirsögninni:

"Innlend verksmiðja anni eftirspurn":

"Hann segir áherzlu fyrirtækisins vera að framleiða fóður fyrir fiskeldi innanlands."Laxá er með 80 % hlutdeild í sölu fiskafóðurs á landeldismarkaðinum, þannig að við erum með seiðastöðvarnar almennt, landeldisstöðvar fyrir lax og bleikju og svo sjóeldi á regnbogasilungi fyrir vestan. Hvað sjóeldi á laxi varðar, erum við í dag ekki ekki tæknilega útbúnir til að framleiða þetta fituríka fóður, sem notað er, og voru því flutt inn 60 kt á síðasta ári [2021] af fiskafóðri frá Noregi og Skotlandi."" 

Það liggja greinilega ónýtt, fýsileg þróunartækifæri til atvinnusköpunar og aukinnar verðmætasköpunar úr afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar til að framleiða meira en 100 kt/ár af fóðri í vaxandi sjókvíalaxeldi og spara þannig um 25 mrdISK/ár af gjaldeyri, er fram líða stundir. Að gera íslenzka fæðuframleiðslu sem sjálfbærasta og sem óháðasta erlendum aðföngum er verðugt verkefni, og með orkuskiptunum og fjölbreyttri ræktun innanlands við batnandi náttúruleg skilyrði hillir undir aukið sjálfstæði innlendrar matvælaframleiðslu.  Annað mál er, að ætíð verður við venjulegar aðstæður þörf á innflutningi matvæla, sem ekki eru framleidd hérlendis í neinum mæli.

"Eftirspurn eftir fóðri, sem er umhverfisvænna og með minna kolefnisspori, hefur aukizt í takti við kröfur neytenda til eldisafurða.  "Við erum að flytja maís frá Kína og soja frá Suður-Ameríku.  Soja skilur eftir sig mikið kolefnisspor vegna skógareyðingar og flutninga.  Þannig að við erum að vinna að því að finna eitthvað, sem getur komið í staðinn fyrir þetta jurtamjöl, sem við getum fengið hér innanlands eða innan Evrópu.""

Þetta er heilbrigð og ánægjuleg viðskiptahugmynd, sem verður æ raunhæfari með tímanum vegna vaxandi eftirspurnar og bættra ræktunarskilyrða og þekkingar á Íslandi á því, sem komið getur í staðinn. Það er til mikils að vinna að færa aðfangakeðjur matvælaiðnaðarins í mun meira mæli inn í landið en verið hefur. Það helzt í hendur við aukna meðvitund um nauðsyn bætts matvælaöryggis og auðvitað hollustu um leið. 

"Hann bendir einnig á, að unnið sé að sambærilegu verkefni [nýting úrgangs frá skógariðnaði] hér á landi, þar sem fyrirtæki í samstarfi við Landsvirkjun á Þeistareykjum er að skoða notkun koltvísýrings til próteinframleiðslu úr einfrumungum og einnig smærri MATÍS-verkefni, þar sem nýttar eru aukaafurðir úr kornrækt til að búa til prótein með einfrumungum.  "Þetta er mjög spennandi verkefni líka.  Það væri mikill munur að geta fengið fleiri umhverfisvæn hráefni innanlands."" 

Þetta sýnir þróunarkraftinn í fyrirtækjum í fóður- og matvælaiðnaði hérlendis, og það er ekki sízt að þakka afli sjávarútvegsins og fiskeldisins.  Hreint koltvíildi, CO2, verður verðmætt hráefni í fóðurgerð og eldsneytisframleiðslu, enda er dýrt að vinna það úr afsogi.  Það er þess vegna sóun fólgin í að dæla koltvíildinu niður í jörðina með ærnum tilkostnaði, eins og gert er á Hellisheiði og áform eru um að gera í Straumsvík, en verður sennilega aldrei barn í brók, af því að miklu hagkvæmara er að selja CO2 sem hráefni í framleiðsluferla framtíðarinnar.

"Hann [Gunnar Örn] kveðst eiga sér draum um, að kornrækt hér á landi verði einnig mun meiri í framtíðinni, þar sem núverandi framleiðsla sé langt frá því að svara hráefnisþörf fóðurfyrirtækja.  "Það þyrfti ekki endilega að styrkja bændur til að hefja kornrækt.  Það þarf bara einhvers konar bjargráðasjóð þannig, að [verði] uppskerubrestur, færu þeir ekki í gjaldþrot.  Síðan þyrfti að vera eitthvert söfnunarkerfi í anda kaupfélaganna, svo [að] hægt yrði að kaupa í miklu magni."" 

Þarna er að myndast innanlandsmarkaður fyrir kornbændur.  Annaðhvort mundu þeir mynda með sér félag um söfnunarstöðvar eða fjárfestar koma þeim á laggirnar.  Aðalatriðið er, að eftirspurnin er komin fyrir kornbændur.  Það er varla goðgá að tryggja þá gegn áföllum, eins og gert er sums staðar erlendis. Þetta er hagsmunamál fyrir landið allt. 

Að lokum kom fram hvatning Gunnars Arnar Kristinssonar:

 "Íslendingar ættu að vera fullfærir um að framleiða allt sitt fiskafóður sjálfir og með umhverfisvænni hætti en innflutt, að mati hans.  Það skilar mun lægra kolefnisspori og ekki sízt betri sögu um sérstöðu íslenzkra fiskeldisafurða, sem hefði jákvæð áhrif á viðhorf neytenda á erlendum mörkuðum."

Hér er stórhuga sýn um þróun fiskafóðurframleiðslu í landinu sett fram af kunnáttumanni í þeirri grein.  Hér er ekkert fleipur á ferð , og GÖK færir fyrir því sannfærandi rök, hvers vegna fiskeldisfyrirtækin hérlendis ættu að taka innlenda framleiðslu fiskafóðurs fram yfir erlenda.  

 

 

  


Kaflaskipti í virkjanasögunni

Ef yfirvöld hér ætla að hleypa vindmyllutindátum á íslenzka náttúru, þá hefja þau þar með svartan kafla í virkjanasögu landsins.  Ástæðan er sú, að jarðrask á ósnortnum víðernum eða annars staðar og herfileg ásýndarbreyting landsins til hins verra mun ekki vera í neinu ásættanlegu samræmi við ávinningin, sem af bröltinu hlýzt fyrir almenning.  Þegar bornir eru saman debet- og kredit-dálkar bókhalds vindmylluþyrpingar í íslenzkri náttúru, stendur eftir einn stór mínus. 

Þessu er allt öðru vísi varið með hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Þær eru allar í stórum plús, þegar bornir eru saman debet- og kredit-dálkar þeirra að teknu tilliti til landverndar.  Nú verða þau, sem lagzt hafa gegn nánast öllum hefðbundnum virkjunum hérlendis, að draga nýja varnarlínu vegna harðvítugrar ásóknar fyrirbrigða, sem engum þjóðhagslegum hagnaði geta skilað að sinni. 

Virkjanaandstæðingar verða nú að fara að líta jákvæðum augum á nýtingu innlendra orkulinda fallvatna og jarðgufu og á flutningslínurnar, enda fer nú stöðugt fækkandi km loftlína flutnings og dreifingar í heild sinni, en aftur á móti ættu þessir aðilar nú að beita öllu afli sínu til að koma í veg fyrir stórfellda afurför, hvað varðar jarðrask og ásýnd lands vegna virkjana í samanburði við ávinninginn af þeim.

  Fjárhagslegur ávinningur fyrir almenning er enginn af vindmylluþyrpingum, af því að þær munu ekki geta keppt við hagkvæmni hefðbundinna íslenzkra virkjana.  Landþörf vindmylluþyrpinga er margföld á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á hverja framleidda raforkueiningu, og ásýndin er fullkomlega herfileg, sama hvar á er litið, enda falla vindmyllurnar eins illa að landinu og hægt er að hugsa sér, öfugt við hefðbundin íslenzk orkumannvirki. 

Þau, sem leggjast gegn lögmætum áformum um jarðgufuvirkjun eða vatnsfallsvirkjun, eru að kalla yfir okkur óhamingjuna, sem af vindmylluþyrpingum leiðir.  Þar er ekki einvörðungu um að ræða mikið jarðrask, hávaða á lágum tíðnum, sem langt berst, örplastmengun jarðvegs frá vindmylluspöðunum og jafnvel fugladauða, ef höfð er hliðsjón af reynslu t.d. Norðmanna, heldur óhjákvæmilega hækkun rafmagnsreikningsins, og mun keyra þar um þverbak eftir innleiðingu uppboðsmarkaðar dótturfélags Landsnets, sem mun aðeins gera illt verra á Íslandi og verða eins konar verkfæri andskotans í þeirri skortstöðu orku, sem iðulega kemur upp á Íslandi. 

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, ritar iðulega einn eða með öðrum áhugaverðar og bitastæðar greinar í blöðin.  Þann 24. ágúst 2022 birtist í Fréttablaðinu ein þessara greina undir fyrirsögninni:

"Virkjum fallega".

Hann víkur þar að þjóðgarðinum Khao Sok í Tælandi:

"Stöðuvatnið, lífríkið og landslagið hefur gríðarlegt aðdráttarafl, og fyrir vikið er Khao Sok vinsæll ferðamannastaður.  En það er nýlega til komið. 

Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að stöðuvatnið, sem má segja, að sé þungamiðja þjóðgarðsins, er manngert.  Það heitir Cheow Larn og þekur um fjórðung garðsins.  Vatnið er uppistöðulón Ratchaprapha stíflunnar, sem var tekin í gagnið 1987.  Framleiðslugetan er 240 MW af hreinni, endurnýjanlegri orku, sem slagar [upp] í uppsett afl Búrfellsvirkjunar, 270 MW.  Þrátt fyrir óspillta náttúru hafði Khao Sok ekki það aðdráttarafl, sem [hann] nú hefur, eftir að stíflan var reist."

Svipaða sögu má segja um margar vatnsaflsvirkjanir heimsins, einnig á Íslandi. Það er alls ekki slæmt í sjálfu sér, að landnotkun breytist, og miðlunarlón eru víða til bóta, hækka grunnvatnsstöðu í grennd, og þar þróast lífríki, enda draga þau til sín ferðamenn. 

Góð hönnun gerir gæfumuninn.  Einhverjar fórnir eru þó óhjákvæmilegar, þegar vatnsfall eða jarðgufa eru virkjuð, en það má nú á dögum gera þannig, að það, sem í staðinn kemur, vegi upp tapið og jafnvel vel það.  Þá hefur verið gætt hófs hérlendis og mannvirki felld vel að landinu.  Það virðist og hafa verið gert í þeirri vatnsaflsvirkjun í Tælandi, sem Jóhannes Stefánsson gerir þarna að umfjöllunarefni, og þess var líka gætt við Búrfellsvirkjun og allar aðrar virkjanir á Þjórsár/Tungnaársvæðinu. 

"Mannleg tilvera útheimtir orku, hvort sem hún fer fram í hellum eða háhýsum.  Orkan er notuð til þess að búa til heimili, vegi, skóla, lyf og lækningatæki.  Lífskjör og velferð okkar allra eru enn sem komið er í órjúfanlegu samhengi við orkuna, sem við beizlum.  Lífið er orka, og orka er lífið."

 Þau, sem leggjast gegn hefðbundnum íslenzkum virkjunum, þótt þær hafi verið settar í nýtingarflokk Rammaáætlunar, hafa annaðhvort ekki áttað sig á þessum almennu sannindum eða þau reyna meðvitað að stuðla að minnkun neyzlu, sem er annað orðalag fyrir lífskjararýrnun. Fulltrúar fyrirtækja hafa tjáð skilning sinn á þessu rökræna samhengi, en fulltrúar launafólks hafa verið furðulega hlédrægir og orðfáir um málefnið m.v. það, sem í húfi er fyrir umbjóðendur þeirra. 

Nú er það svo, að Íslendingar eiga úr tiltölulega fleiri virkjanakostum endurnýjanlegrar orku að velja en líklega nokkur önnur þjóð.  Þegar af þeirri ástæðu er enn úr mörgum kostum að moða, sem ekki geta talizt ganga á einstök náttúruverðmæti eða verið til verulegra lýta í landinu, eins og samþykktur 3. áfangi Rammaáætlunar um vatnsfalls- og jarðgufuvirkjanir er til vitnis um.

Þess vegna sætir furðu, að yfirvöld séu að íhuga að kasta stríðshanzkanum að meirihluta þjóðarinnar með því að leyfa uppsetningu dýrra, afkastalítilla og forljótra mannvirkja með afar ágengum og áberandi hætti í íslenzkri náttúru. Hér er auðvitað átt við risastórar vindmyllur til að knýja rafala, í mörgum tilvikum á heiðum uppi til að ná í hraðfara vind. Það yrði stílbrot í sögu rafvæðingar á Íslandi að leyfa þau ósköp, sem ekki munu auðga almenning, eins og þó hefur gilt um allar virkjanir á Íslandi fram að þessu, því að þessi fyrirbrigði munu leiða til gjörsamlega óþarfra verðhækkana á rafmagni hérlendis. 

"Baráttan við óreiðuna fer fram með inngripum í náttúruna.  Það fylgir því samt alltaf fórnarkostnaður að raska óspilltri náttúru.  Það veit sennilega enginn nákvæmlega, hver sá fórnarkostnaður var í Khao Sok, og þrátt fyrir mótvægis- og björgunaraðgerðir er ljóst, að fjöldi dýra af ólíkum tegundum lifði framkvæmdina ekki af, enda breytti hún vistkerfi stórs hluta þjóðgarðsins verulega. 

Í þessu [tilviki] var ávinningurinn talinn meiri en fórnarkostnaðurinn.  Þrátt fyrir allt þrífst fjölbreytt lífríki áfram í Khao Sok.  Svæðið tók stakkaskiptum og er í dag gríðarfallegt og laðar að sér fjölda gesta árlega.  Tælendingar búa nú einnig yfir hreinni, endurnýjanlegri orku.  Þessi orka er svo undirstaða verðmætasköpunar, sem aftur er órjúfanleg forsenda velferðar. 

Það skal ósagt látið, hvort virkjunin í Khao Sok hefði getað orðið að veruleika í íslenzku laga- og stofnanaumhverfi.  Sennilega ekki.  Hvað, sem því líður, má samt færa sannfærandi rök fyrir því, að ákvörðun um að reisa Ratchaprapha stífluna hafi verið skynsamleg, þótt hún hafi ekki verið sársaukalaus."

Það er hægt að reikna út þjóðhagslegt gildi virkjunar, hagvaxtaráhrif hennar og áætluð framleiðsluverðmæti rafmagns frá henni. Ef hún er hagkvæmasti virkjunarkostur landsins, er þjóðhagslegt gildi hennar ótvírætt, en ef rafmagnsvinnslukostnaður hennar er 40-50 % hærri en annarra aðgengilegra kosta, þá er þjóðhagsgildi hennar ekkert, og ætti að hafna henni jafnvel áður en lagt er í vinnu við að meta fórnarkostnaðinn.  

Það eru til aðferðir við að meta fórnarkostnað við virkjun, en engin þeirra er einhlít.  Landþörf virkjunar í km2/GWh/ár er þó óneitanlega mikilvægur mælikvarði og annar vissulega sá, hversu langt að heyrist í og sést til virkjunar.  Allir þessir mælikvarðir gefa til kynna mikla landkræfni vindmylla, og kann hún að vera meðvirkandi þáttur í ásókn erlendra fyrirtækja í framkvæmdaleyfi fyrir vindmylluþyrpingar erlendis, en andstaða almennings við uppsetningu þeirra á landi fer nú vaxandi þar.

"Dæmið um Khao Sok þjóðgarðinn á brýnt erindi við þau okkar, sem hafa bæði áhuga á velferð og náttúruvernd.  Það eru líklega flestir Íslendingar, sem falla þar undir.  Saga okkar, afkoma og lífsgæði, eru svo nátengd íslenzkri náttúru, að það eru harla fáir, sem skilja ekki mikilvægi hennar.  Að sama skapi er sá vandfundinn, sem segist ekki vera umhugað um velferð.  En það er ekki síður mikilvægt að skilja, hvað velferð er, og hvernig hún verður til.

Velferð okkar sem þjóðar byggir ekki sízt á gæfu okkar til þess að virkja náttúruöflin til orkuframleiðslu.  Það er jafnvægislist að gæta að náttúrunni, en beizla krafta hennar á sama tíma, eins og dæmið um Khao Sok sýnir okkur.  Þetta er vel hægt með skynsemi að leiðarljósi, og við eigum aldrei að raska óspilltri náttúru meira en þörf krefur. 

Við eigum alltaf að velja þá kosti, sem veita mestan ávinning með minnstum fórnarkostnaði.  Það er líka mikilvægt að nýta orkuna skynsamlega, og að sama skapi eru einhverjir hlutar náttúrunnar, sem við viljum af góðum og gildum ástæðum ekki undir neinum kringumstæðum hrófla við."

  Þarna hefur lögfræðingurinn mikið til síns máls.  Við verðum að ganga út frá því sem gefnu, að nútíma- og framtíðarþjóðfélagið útheimta a.m.k. tvöföldun á virkjuðu afli, ef hér á að vera hægt að halda í horfinu með tekjur á mann, sem nú eru á meðal hinna hæstu í Evrópu, svo að ekki sé nú minnzt á blessuð orkuskiptin og kolefnishlutleysið 2040.

Innan íslenzku verkfræðingastéttarinnar er fólk, sem hefur sérhæft sig í virkjunum við íslenzkar aðstæður, og þetta sama fólk leggur auðvitað metnað sinn í að leggja fram góðar lausnir, sem hafa verið beztaðar (optimised) til að gefa kost á hámarksorkuvinnslu á viðkomandi stað innan ramma hófsamlegrar breytingar á náttúrupplifun á athafnasvæðinu.  Sé litið til baka, sést, að íslenzkir arkitektar og verkfræðingar hafa staðið undir kröfum, sem gerðar eru til þeirra um ásýnd mannvirkjanna. 

Við val á næsta virkjunarkosti er það gullvæg regla, sem lögfræðingurinn nefnir, að hlutfall ávinnings og fórnarkostnaðar á að vera hæst fyrir valinn kost úr hópi virkjunarkosta, sem virkjunarfyrirtækin leggja fram. Sé þessi gullvæga regla höfð að leiðarljósi, geta yfirvöld hætt að klóra sér í skallanum út af regluverki, sem þau eru að bögglast við að koma á koppinn um vindmylluþyrpingar, því að röðin mun þá ekki koma að þeim fyrr en að a.m.k. tveimur áratugum liðnum.

Undir lokin skrifaði lögfræðingurinn:

"En það er aldrei hægt að fallast á, að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum hrófla við neinum hluta náttúrunnar.  Ef náttúran á alltaf að njóta vafans, þá er engin mannleg velferð í boði og rangt að halda öðru fram.  Svo öfgakennd afstaða getur ekkert annað leitt af sér en versnandi lífskjör okkar allra til langrar framtíðar.  Þá neitum við okkur og afkomendum okkar um lífskjörin, sem við þekkjum í dag.  Þeim mun hratt [hraka], nema ófyrirséðar tækniframfarir séu handan við hornið.  

Vonandi bíður okkar bylting í orkuframleiðslu, t.d. með kjarnasamruna.  Það gæti breytt dæminu verulega.  Við getum hins vegar ekki stefnt inn í framtíðina upp á von og óvon um, að það gerist einhvern tímann á næstunni."

Það er nú sennilega styttra í nýja og öruggari kynslóð kjarnakljúfandi orkuvera en samrunavera.  Þótt ábyrgðarlaust og glórulaust sé að leggjast gegn nánast öllum virkjanahugmyndum á Íslandi, sé höfð hliðsjón af tilvitnunum í téðan lögfræðing, þá er samt talsverður fjöldi landsmanna í þessum hópum ofstækisfullra náttúruverndarsinna.  Mörgum þeirra gengur hrein afturhaldssemi til.  Þeir vilja ekki sjá nein mannleg inngrip í náttúruna, sem heitið geti, og þeir eru "mínímalistar" um lifnaðarhætti.  Fjölskyldubíllinn er þar á bannlista, og kannski vilja þau innleiða þvottabrettið í stað þvottavélarinnar.  Þau hafa talið sér trú um, að stórfelld neyzluminnkun verði að eiga sér stað til að bjarga jörðunni, andrúmsloftinu og lífríkinu. Þessar öfgaskoðanir eru keyrðar áfram sem trúarbrögð, svo að mótrök komast ekki að.

Þjóðfélagið á ekki að færa slíku jaðarfólki og sérvitringum alls konar vopn í hendur til tafaleikja og hindrana á framfarabrautinni.  Ein afleiðingin af því er, að ekkert virkjanaleyfi hefur enn fengizt fyrir virkjun, sem leyst getur íslenzkt efnahagslíf úr viðjum orku- og aflskorts.  Íslendingar missa þar með af mikilvægri atvinnuþróun í a.m.k. einn áratug og eiga á hættu orkuskömmtun að vetrarlagi, eins og fiskbræðslur, hitaveitur með lítinn eða engan jarðvarma og orkusækinn útflutningsiðnaður fengu að kenna á veturinn 2021-2022. Enginn er bættari með afl- og orkuskorti.    

     

 

 


Skref aftur á bak - Járnsíða og vindmylluþyrpingar

Að kvöldi 12. október 2022 var haldinn fundur í glæsilegum sal Tónlistarskóla Akraness undir yfirskriftinni: Vindmyllur - fyrir hverja [og] til hvers ?  Fundarstjóri var Jón Magnússon, hrl., og fórst honum það vel úr hendi, eins og hans var von og vísa. 

Höfundur þessa vefpistils flutti þarna erindið, sem sjá má í viðhengi þessa pistils.  Aðrir frummælendur þessa fundar voru Arnar Þór Jónsson, sem kveikti neista baráttuanda í brjósti fundarmanna í nafni sjálfstæðrar hugsunar og leyfis til gagnrýninnar tjáningar með haldföstum rökum, Kristín Helga Gunnarsdóttir, sem sýndi með fjölmörgum fallegum náttúrumyndum úr sveitum Vesturlands, hversu gróft og yfirþyrmandi inngrip í náttúruna um 200 m háar (spaðar í hæstu stöðu) vindmyllur yrðu í náttúru Íslands.  Ólafur Ísleifsson rifjaði upp umræðuna, sem varð í landinu í aðdraganda innleiðingar Alþingis á s.k. Orkupakka 3-OP3, lagabálki Evrópusambandsins (ESB) um orkumál, sem hann o.fl. telja á meðal lágpunktanna í sögu Alþingis.  

Nú er spurningin sú, hvort, samkvæmt OP3, Íslendingum beri að verða við óskum fyrirtækja af EES-svæðinu um leyfi til uppsetningar vindmylluþyrpinga í landi sínu á forsendum atvinnufrelsis á EES-svæðinu og jafnræðis á milli orkufyrirtækja á Innri markaði EES, enda sé raforkan frá vindmylluþyrpingunum "græn" samkvæmt skilgreiningu ESB. Íslendingum finnst mörgum hverjum lítið til koma þeirrar grænku.

Á þetta kann að reyna fyrir dómstólum, enda mætast í þessu máli stálin stinn. Þetta minnir okkur á, að Íslendingar hafa ekki ætíð talið sér henta að starfa eftir erlendum lagabálkum. Magnús, konungur lagabætir, vildi samræma löggjöf í gjörvöllu norska konungsríkinu, sem var víðfemt og spannaði eyjar úti fyrir Skotlandi, Færeyjar og Ísland, og e.t.v. Dublin og héruðin í kring á Írlandi, en um þetta leyti hafði Skotakonungur líklega náð tökum á fastlandi Skotlands. 

Magnús, konungur, lét leggja lögbók sína, Járnsíðu, fyrir Alþingi 1271, en Íslendingar sáu meinbugi við að umturna lagaumhverfi sínu og laga það að norskum rétti.  Þá fékk konungur lögfróðan Íslending, Jón Einarsson, til að sníða vankantana af Járnsíðu fyrir Íslendinga, og smíðaði hann nýja lögbók upp úr Grágás og Járnsíðu, sem kölluð var Jónsbók og hlaut samþykki Alþingis 1281 og var lögbók landsins, þar til Íslendingar sóru einvaldskonunginum, danska, hollustueið á Kópavogsfundi 1661. Eftir það breyttist Alþingi að mestu í dómstól.

Hvað sem þessu líður, þá ber Íslendingum nútíðarinnar að vega og meta gaumgæfilega kosti og galla vindmyllanna í íslenzkri náttúru og á íslenzka raforkumarkaðinum. Tilraun til þess er gerð í téðu viðhengi með pistli þessum. Hættan er sú, að þessi óskilvirka og ágenga leið til raforkuvinnslu komi óorði á íslenzkan orkuiðnað og jafnvel orkunotkunina, af því að raforkuvinnslan gangi of nærri landinu og gíni hvarvetna yfir landsmönnum og erlendum gestum þeirra. Það yrði afleit staða fyrir landsmenn að sitja uppi með, og ekkert var fjær forgöngumönnum rafvæðingar Íslands en slíkt. Vindmylluforkólfar eru af öðru sauðahúsi.

Raforkunotkun landsmanna er sú mesta í heimi, og er höfundur þessa vefpistils fyrir sína parta stoltur af því, enda er þessi mikla orkunotkun ásamt sjávarútvegi og ferðaútvegi undirstaða íslenzka velferðarþjóðfélagsins.  Varla hefur farið fram hjá nokkrum manni, að hrópað er úr öllum áttum á meira fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Við slíkum óskum er ómögulegt að verða án hagvaxtar í landinu. Stækkun hagkerfisins er nátengd aukinni orkunotkun í samfélaginu.  Því er tómt mál að stöðva allar nývirkjanir í landinu, þótt sú óskilvirkasta og fórnfrekasta sé látin eiga sig.    

Áður var drepið á vindmyllufund á Akranesi.  Akraneskaupstaður er velferðarsamfélag, sem stendur traustum fótum í sjávarútvegi og iðnaði á Grundartanga, þar sem öflug útflutningsfyrirtæki nýta mikla raforku.  Sjávarútvegurinn íslenzki hefur getið sér gott orð fyrir sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og gjörnýtingu hráefnisins við framleiðslu á útflutningsvörum. 

Nýting íslenzkra orkulinda hefur verið sjálfbær fram að þessu og hófsemi og aðgátar verið gætt, þar sem kappkostað er að fella mannvirkin sem bezt að landinu. Notkun orkunnar hefur verið með glæsilegum hætti, eins og framsæknir auðlindagarðar og tækniþróuð iðnfyrirtæki, þar sem mest munar um álverin þrjú, bera glögglega vitni um. 

 Hvers vegna jafngilda vindmyllur afturför í þessum efnum ?  Það er vegna þess, að vindmyllur eru afkastalítil framleiðslutæki m.v. allan efniviðinn, sem þarf til að fá fram afleininguna MW.  Við nýtingu vindorkunnar myndast óhjákvæmilega lofthvirflar.  Ef þeir ná til næstu vindmyllu, hraðfellur vinnslugeta hennar, hávaði frá henni eykst og titringur myndast, sem eykur bilanatíðnina umtalsvert.  Þess vegna þurfa vindmylluþyrpingar að flæmast yfir margfalt landsvæði á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir m.v. sambærilega orkuvinnslugetu, eins og rakið er hér í viðhenginu.

  Þessi frumstæða aðferð við raforkuvinnslu er einfaldlega fjarri því að geta réttlætt þær miklu landfórnir, sem háar vindmylluþyrpingar fela í sér.  Þjóðhagslegt gildi þeirra er ekkert, af því að aðrir endurnýjanlegir orkukostir í landinu eru miklu hagkvæmari, fjárhagslega. 

Það, sem nú eykur ásókn orkufyrirtækja, innlendra og erlendra, í að leggja "ósnortin" íslenzk víðerni undir ferlíki, sem gjörbreyta mundu ásýnd landsins, er ekki sæstrengur, enda styrkir ESB ekki lengur slíkan til Bretlands, heldur uppboðsmarkaður raforku í skortástandi á Íslandi, þar sem eigendur vindorkuþyrpinga munu verða ráðandi fyrir endanlegt verð á markaðinum samkvæmt jaðarkostnaðarreglu OP3.  Hér er rétt að hafa í huga, að þrátt fyrir eindregin tilmæli í þá veru í OP3 að innleiða slíkan uppboðsmarkað raforku, er það ekki skylda aðildarlandanna. 

Forseti framkvæmdastjórnar ESB hefur nú gefið þetta kerfi upp á bátinn, því að framboðshliðin brást niðri í Evrópu.  Á Íslandi er framboðshliðin háð duttlungum náttúrunnar, og þess vegna er innleiðing þessa kerfis reist á misskilningi um áhrif þess á hagsmuni neytenda.  Að segjast ætla að innleiða þetta uppboðskerfi raforku í nafni hagsmuna almennings er léleg öfugmælavísa í ljósi skortstöðunnar á markaði.

  Þegar í stað á að hætta við afritun úrelts ESB-markaðar hjá dótturfélagi Landsnets og hefja þess í stað þróun á markaðskerfi raforku, sem sérsniðið sé við íslenzkar aðstæður.  Hugmynd að slíkri hönnun er þegar fyrir hendi í riti eftir íslenzkan verkfræðing, sérfræðing í orkumálum.    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gönuhlaup í loftslagsmálum

Engu máli skiptir fyrir þróun hitastigs á jörðunni, hversu fljótir Íslendingar verða að ná kolefnishlutleysi.  Engu að síður hafa leiðandi stjórnmálamenn á Íslandi á borð við forsætisráðherra fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar, Katrínu Jakobsdóttur, beitt sér fyrir því, að Íslendingar verði á undan öðrum þjóðum í heiminum að ná þessu marki. Þetta er sem sagt "futile" eða marklaust markmið.  Innihaldsleysið og tvískinningurinn við þessa markmiðssetningu er síðan, að græningjarnir grafa undan þessu markmiði með því að leggjast gegn því, sem er forsenda markmiðsins, að til sé næg áreiðanleg virkjuð orka til að framleiða raforku til að koma í stað jarðefnaeldsneytisins, sem óhjákvæmilegt er að stórminnka notkun á til að ná kolefnishlutleysi.  Markmiðið er þannig ómarktækt. Síðan er vaðinn elgurinn í kringum þessi orkuskipti, sem þar að auki eru óraunhæf innan settra tímamarka, af því að nauðsynlegar þróaðar tæknilausnir vantar. Blindur leiðir haltan.   

Þann 3. október 2022 birti Morgunblaðið viðtal við forstöðumann Grænvangs, þar sem kenndi ýmissa grasa:

""Loftslagsmál þurfa hvarvetna að vera efst á blaði", segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir.  "Græn orkuskipti byggjast á samvinnu fjöldans, þannig að um verkefni ríki samfélagsleg sátt. Umskipti, sem nú eiga sér stað í heiminum, fela í sér mörg sóknartækifæri fyrir Ísland.  Munu geta aukið samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi, en jafnhliða þurfa umskiptin að vera sjálfbær og réttlát.  Því eru fram undan spennandi tímar í umbreytingum, þar sem Íslendingar ætla að ná forystu á heimsvísu.""

Hér orkar æði margt tvímælis og annað svo loftkennt, að erfitt er að festa fingur á því.  Hvers vegna þurfa loftslagsmál hvarvetna að vera efst á blaði á Íslandi, þótt ljóst sé, að losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi manna hérlendis hafi engin mælanleg áhrif á meinta hlýnun jarðar af mannavöldum og sé ekki umfangsmikil í samanburði við losun náttúrunnar sjálfrar án tilstillis "homo sapiens", m.a. frá eldstöðvum landsins ?  Þá hafa landsmenn þegar staðið sig betur en flestar þjóðir aðrar við að sneiða hjá jarðefnaeldsneyti við rafmagnsframleiðslu og upphitun húsnæðis.  Hvers vegna liggur svona mikið á, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun landsmanna er nú þegar lægra (15 %) en víðast hvar annars staðar ?

Hefði forstöðumanni Grænvangs ekki verið nær að hefja mál sitt á nauðsyn þess að leggja traustan og sjálfbæran grunn að orkuskiptum á Íslandi ?  Sá grunnur felst í að afla raforku úr vatnsföllum landsins og iðrum jarðar.  Á meðan það er ekki gert, er allt tal um hröð orkuskipti hérlendis fleipur eitt. Hér stendur upp á stjórnvöld, því að stofnanir ríkisins hafa ekki verið hjálplegar í þessu tilliti, og nægir að nefna Orkustofnun, sem legið hefur nú á umsókn Landsvirkjunar um virkjanleyfi í Neðri-Þjórsá í hálft annað ár. Þetta heitir að draga lappirnar og stuðla að langvarandi raforkuskorti í landinu, sem hamlar hagvexti stórlega og þar með kjörum almennings   og afkomu hins opinbera. 

""Orkunýting með virkjunum bætti þjóðarhag.  Hún styrkti sjálfstæði þjóðarinnar, skapaði meiri stöðugleika og jók samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi.  Það sama er að gerast núna.  Verkefnið í dag er stærra og snýr að öllum heiminum, sbr fyrirheit þjóða um að draga úr mengun og halda hlýnun andrúmsloftsins undir 1,5°C, sbr Parísarsamkomulagið.  Stærðargráða viðfangsefna er því allt önnur en áður, auk þess sem lönd og jafnvel atvinnugreinar eru tengdari nú en áður.  Orkuöflun og -skipti eru alþjóðleg verkefni.""  

Það er jákvætt, að þarna er viðurkennt, að virkjanir landsins eru hornsteinn velmegunarinnar í nútímasamfélaginu á Íslandi, en annað þarfnast skýringa af hendi höfundarins.  Hvernig getur orkuskiptaverkefnið verið stærra núna en áður, þegar aðeins 15 % heildarorkunotkunarinnar er úr jarðefnaeldsneyti ?  Hvernig leggjum við mest af mörkum á heimsvísu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ?  Það er með því að virkja sem mest af stöðugum orkulindum landsins til að verða við óskum stóriðjufyrirtækja um ný orkukaup á Íslandi, hvort sem það eru núverandi stóriðjufyrirtæki á landinu eða önnur.  Það er hins vegar ekki á döfinni samkvæmt forstjóra Landsvirkjunar á Haustfundi fyrirtækisins í október 2022.  Það fer víða ekki saman hljóð og mynd, þegar umræðan snýst um orkumálin á Íslandi, þ.e.a.s. hún er handan raunveruleikans, enda ríkir stöðnun á því sviði, sem mestu máli skiptir; á sviði stórfelldrar nýrrar hagnýtingar náttúrulegra, hefðbundinna orkulinda landsins.   

    


Hræsni loftslagspredikara

Gríðarlegt magn af metangasi (CH4) hefur mælzt stíga upp frá jarðgaslindum Rússa og talsvert er um leka á löngum lögnum, sem lítið virðist vera gert með. Þeir, sem létu sprengja í sundur báðar Nord Stream 1 lagnirnar og aðra Nord Stream 2 lögnina, ekki fjarri þverun nýrrar norskrar gaslagnar til Póllands á þessum lögnum [var hún e.t.v. skotmarkið ?], víluðu ekki fyrir sér að valda umhverfisslysi í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar í september 2022 og valda hættuástandi fyrir sæfarendur á Eystrasalti. Nú streymir sjór inn um rifurnar, sem mynduðust, og mun tæring gera skemmdu lagnirnar 3 af 4 ónothæfar.

Norðmenn eru nú aðaleldsneytisgasbirgjar Bretlands og Evrópusambandsins og sjá ESB fyrir 25 % af núverandi þörf.  Á sama sólarhring og skemmdarverkið var unnið, var ný gaslögn frá borpöllum Norðmanna úti fyrir ströndinni og um Danmörku alla leið til Póllands tekin í notkun. Þær kenningar eru á lofti, að hin kaldrifjaða aðgerð úti fyrir Borgundarhólmi sé undan rifjum Kremlar runnin í ógnunarskyni við þennan mikilvægasta eldsneytisbirgi frjálsrar Evrópu um þessar mundir. 

Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, ritaði eina af athyglisverðum greinum sínum í Morgunblaðið 8. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:

"Að leika sér með líf annarra".

Þar stóð m.a. þetta:

 "Þjóðverjar endurræsa kolaorkuver sín á meðan Spánverjar og Ítalir tala fyrir aukinni gasframleiðslu í Afríku.  Þá er fjöldi Evrópuríkja, sem beðið hafa Botsvana að auka afköstin í kolanámum þarlendum, slíkur, að reikna má með þreföldun í umfangi kolaútflutnings þaðan.

Einn einasti þegn [á] meðal auðþjóða notar meira jarðefnaeldsneyti en samsvarar þeirri orku, sem stendur 23 Afríkubúum til boða.  Auður þessara þjóða spratt af umfangsmikilli vinnslu jarðefnaeldsneytis, sem um þessar mundir sér þeim fyrir rúmlega 3/4 þeirrar orku, sem þær nota. Innan við 3 % orku auðþjóðanna rekja uppruna sinn til framleiðslu með sólskini og vindi." 

Það er sláandi og varpar ljósi á rangar og óskilvirkar fjárfestingarákvarðanir að setja gríðarupphæðir, oftast með styrkjum úr opinberum sjóðum, í efnismiklar og landfrekar vindmyllur og sólarhlöður, sem þó skila innan við 3 % af orkuvinnslu s.k. auðugra þjóða nú, þegar hæst á að hóa.  Forgangsröðunin er kolröng. Nær hefði verið að setja allt þetta opinbera fé í rannsóknir og þróun á kjarnorkutækninni, öruggari tækni með úraníum kjarnakljúfum og þóríum kjarnorkuverum.  Vindmyllur eru frumstæð og óskilvirk aðferð við raforkuvinnslu.  Þá var glapræði að afhenda Rússlandi allan spilastokkinn og banna jarðgasvinnslu ("fracking") og kjarnorkuver víða í Evrópu.  Klóför græningjanna eru alls staðar sama markinu brennd.  Til lengdar skaða þau vestræn samfélög.  Annars staðar er lítið hlustað á bullið í þeim. Það á ekki að halda dýrum og óáreiðanlegum orkukostum að þjóðum, sem eiga langt í land með að byggja upp raforkukerfi sitt, og það er argasta hræsni að gera það í nafni loftslagsvár.  Þessi mistök eru af svipuðu bergi brotin og þau að flýta orkuskiptum á Vesturlöndum, þótt tæknin sé ekki komin á viðunandi stig fyrir þau.  

"Nú er lag að rifja upp reynslu indverska þorpsins Dharnai, sem Grænfriðungar einsettu sér árið 2014 að gera að fyrsta sólarorkusamfélagi landsins.

Augu allra fjölmiðla stóðu á Grænfriðungum, þegar þeir lýstu því yfir, að Dharnai neitaði að "falla í gildru jarðefnaeldsneytisiðnaðarins".  Daginn, sem skipt var yfir í sólarorku, tæmdust rafhlöðurnar svo á fáeinum klukkustundum.  Eftirminnileg er frásögn af dreng nokkrum, sem gat ekki sinnt heimanámi sínu, þar sem rafmagnið dugði ekki til að knýja eina lampa heimilisins.  

Þorpsbúum var bannað að nota kæliskápa sína og sjónvarpstæki, þar sem raforkukerfið stæði ekki undir notkuninni.  Ekki var heldur hægt að nota rafknúnar eldunarhellur, svo [að] fólkið neyddist til að snúa aftur í hitun með eldiviði, sem olli skelfilegri loftmengun. Um gervöll þróunarríkin deyja milljónir úr innanhússmengun, sem að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar jafnast á við að reykja 2 pakka (af vindlingum] á dag." 

Þetta er gott dæmi um skelfilegar afleiðingar þess að hleypa forræðishyggjufólki í hópi fúskara um orkumál að ákvarðanatöku.  Þeir skoða engin mál til hlítar, vita vart, hvað áhættugreining felur í sér, en láta stjórnast af blindu hatri á því, sem þeir ímynda sér, að sé hættulegt, í þessu tilviki jarðefnaeldsneyti og í öðrum tilvikum kjarnorkan.  Þess eru líklega engin dæmi, að ráð hjátrúarfullra fúskara hafi gefizt vel á nokkru sviði, sem skipta samfélag manna máli.  Svipuðu máli gegnir um braskara, sem nota vilja uppboðsmarkað raforku til að græða.  Í Noregi ætlar ríkisstjórnin að lina þjáningar raforkukaupenda með niðurgreiðslum á raforkukostnaði, en engu að síður er búizt við mikilli viðarbrennslu á norskum heimilum í vetur til upphitunar húsnæðis.  Um rafmagn geta ekki gilt sömu viðskiptalögmál og um vörur, því að það er ekki hægt að safna saman og geyma í umtalsverðum mæli.

"Rafmagn, framleitt með sól og vindi, getur ekki staðið undir iðnaðarframleiðslu né knúið vatnsdælur, dráttarvélar og aðrar vélar - allt það, sem þörf er á til að leysa fólk úr fjötrum fátæktar.  Eins og auðþjóðunum er nú að skiljast, eru þessir orkugjafar í grundvallar atriðum ekki til að treysta á.  Sólarleysi og logn táknar rafmagnsþurrð.  Rafhlöðutækni býður heldur engin svör.  Þær rafhlöður, sem til eru í heiminum í dag, nægðu eingöngu til að standa undir orkunotkun heimsbyggðarinnar í 1 mín og 15 sek.  Jafnvel árið 2030, í kjölfar umfangsmikillar rafhlöðuframleiðslu, yrði þessi tími ekki orðinn [lengri] en tæpar 12 mín.  Til hliðsjónar má hafa vetur í Þýzkalandi, þegar sólarorkuframleiðsla er hvað minnst.  Á sama tíma tíma koma [a.m.k.] 5 daga [samfelld] tímabil, rúmar 7000 mín, þegar framleiðsla vindorku er við 0."

Það liggur í augum uppi, að téðir orkugjafar einir og sér eru ónothæfir fyrir notendur, sem reiða sig á áreiðanlega raforkuafhendingu, þegar þeir þurfa á henni að halda, hvenær sem er sólarhringsins. Þar er komið að þeim eiginleikum raforkunnar, sem peningaumsýslumenn, sem hannað hafa markaðskerfi margra landa með raforku, og græningjar, sem predika bráðan heimsendi vegna losunar koltvíildis við bruna jarðefnaeldsneytis, hafa flaskað á: raforkuna verður að framleiða á sama andartaki og aflþörfin í tengdum búnað myndast.  Annars rýrna gæði rafmagnsins til allra tengdra notenda á áhrifasvæði skortsins, og hætta getur myndazt á kerfishruni, ef ekki er brugðizt skjótt við. 

"Hér eru komnar skýringarnar á því, hvers vegna auðugri þjóðir heimsins munu áfram reiða sig á jarðefnaeldsneyti um áratugi.  Alþjóða orkustofnunin spáir því, að jafnvel þótt öll loftslagsumbótaloforðin verði efnd, muni jarðefnaeldsneyti enn verða uppspretta 2/3 hluta orku þessara þjóða árið 2050. Þróunarríkjunum dylst ekki hræsnin í orkuumræðunni, og e.t.v. hefur enginn orðað hlutina haganlegar en Yemi Osanbajo, varaforseti Nígeríu: "Engum í heiminum hefur auðnazt að iðnvæðast með endurnýjanlegri orku einni saman, [þó hafa Afríkuþjóðirnar] verið beðnar að gera það, þótt öllum öðrum í heiminum sé fullkunnugt, að við þurfum gasdrifinn iðnað fyrir viðskiptalífið.""

Þessi alhæfing Nígeríumannsins er röng.  Svisslendingar, Norðmenn og Íslendingar iðnvæddust með því að knýja iðnverin með raforku úr vatnsaflsvirkjunum, og það má örugglega finna fleiri slík dæmi.  Mikið óvirkjað vatnsafl er enn í Afríku, en sá hængur er á þessum virkjunum, að söfnun vatns í miðlunarlón bregst oftar í Afríku en í Noregi og á Íslandi.  Þar með er kominn upp óstöðugleiki á framboðshlið, sem atvinnulífið má ekki við. Það er þó himinn og hafa á milli óstöðugleika raforkuframboðs frá vindorkuverum og sólarhlöðum annars vegar og vatnsorkuverum, a.m.k. hér norðan Alpafjalla, þar sem spáð er vaxandi úrkomu með auknum hlýindum.  

Að setja upp vindorkuver á Íslandi er meinloka.  Vindorkuver mundu hérlendis hafa hækkunaráhrif á raforkumarkaðinn, og þau draga úr aðdráttarkrafti íslenzkrar náttúru á innlenda og erlenda ferðamenn vegna augljósra lýta á landinu langar leiðir og óþægilegs hávaða.  Vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir hafa hins vegar aðdráttarafl fyrir ferðamenn víða. Í upphafi skyldi endirinn skoða, en ekki apa allt eftir útlendingum, þótt þar séu aðstæður ósambærilegar orkuaðstæðum á Íslandi.    


Sókn eftir vindi

Vindorkuforkólfar sækja nú í sig veðrið og reyna að fá aukinn byr í seglin sökum þess, að orkustjórnkerfi landsins hefur brugðizt þeirri frumskyldu sinni að útvega þjóðinni næga orku hverju sinni til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu og hagvexti. Þessa ásókn mátti t.d. greina í Morgunblaðinu 21. september 2022 undir fyrirsögninni:

"Tugmilljarða tekjur af vindorku".

Þar er greining á efnahagslegum áhrifum þessarar uppbyggingar, sem munu hafa komið fram í kynningu í Hljóðakletti í Borgarnesi 19.09.2021.  Um er að ræða 9 vindorkuver á Vesturlandi að uppsettu afli 687 MW og orkuvinnslugetu 2885 GWh/ár á vegum Qair, Hafþórsstaða, Zephyr og EM Orku.  Þessar tölur gefa til kynna áætlaðan nýtingartíma á fullu afli í 4200 klst/ár eða 48 % á ári að jafnaði, sem er ólíklegt að náist, enda verður að reikna með viðhaldstíma og viðgerðartíma, sem lækka munu þennan meðalnýtingartíma. 

Ólíkt öðrum þjóðum hafa Íslendingar val um tvenns konar endurnýjanlegar orkulindir auk vindorku, og gefa þær báðar kost á ódýrari raforku en hægt er að fá úr vindorkunni.  Vinnsla raforku með smáum og gríðarlega plássfrekum rafölum mun því fyrirsjáanlega hækka rafmagnsverð til almennings á Íslandi og mynda óeðlilega háan gróða hjá eigendum vatnsorkuvera og jarðgufuvera, þegar áform dótturfélags Landsnets um innleiðingu raforkukauphallar að hætti Evrópusambandsins (OP3) hafa rætzt. Þar ræður jaðarverðið, þ.e. næsta verðtilboð ofan þess hæsta, sem tekið er, ákvörðuðu verði fyrir tilboðstímabilið.  Jaðarverðtilboðið mun væntanlega koma frá vindmylluþyrpingum, og þannig munu vindmyllueigendur verða mótandi fyrir verðmyndun á markaði, sem er fullkomlega óeðlilegt hérlendis.    

 Það er þó af landverndarástæðum, sem ótækt er að hleypa vindorkuframkvæmdum af stað í íslenzkri náttúru fyrr en samanburðarathugun hefur farið fram á milli virkjanakosta um landþörf í km2/TWh endingartímans (búast má við, að landþörf fyrir 687 MW vindmyllur nemi 35 km2). Þótt Ísland sé ekki þéttbýlt, eru landsmenn viðkvæmir fyrir gjörbreyttri landnýtingu, eins og orkulindanýting úr náttúru Íslands felur í sér.  Þess vegna hlýtur þessi kennistærð, km2/TWh (landþörf m.v. orkuvinnslu á endingartíma virkjunar) að vega þungt, og þar með er hægt að skipa landfrekustu orkuverunum á orkueiningu aftast í röð við leyfisveitingar.  Þar virðast vindorkuverin munu skipa sér í þéttan hnapp.  Með sama hætti má reikna út kolefnisspor virkjunar með því að taka tillit til framleiðslu á helztu hlutum hennar, uppsetningar og rekstrar.  Fljótt á litið skipa vindorkuverin sér þar efst á blað, og ekki bætir plastmengun spaðanna umhverfis vindmyllurnar úr skák. Vindmyllur eru þá ekki sérlega umhverfisvænar, þegar allt kemur til alls. 

Hraði mylluspaðaendanna er svo mikill, að fuglar eiga erfitt með að forðast þá, ef þeir eru í grennd.  Þessi mikli hraði veldur hvirflum og miklum hávaða, sem berst langar leiðir.  Þetta er umhverfisbaggi, sem Íslendingar eiga ekki að venjast frá sínum hefðbundnu virkjunum. 

Það er ekkert, sem mælir með leyfisveitingum til raforkuvinnslu af þessu tagi, á meðan fjöldi álitlegra kosta liggur enn ónýttur á formi vatnsafls og jarðgufu.  Ásókn vindmyllufyrirtækja eftir framkvæmdaleyfum hérlendis er þess vegna tímaskekkja, og vonandi þurfa landsmenn aldrei að fórna miklu landi undir það gríðarlega umrót, sem vindmyllugarðar hafa í för með sér, enda verður komin ný orkutækni, þegar heppilegir virkjanakostir fallvatns og jarðgufu verða orðnir upp urnir. 

Í téðri Morgunblaðsgrein voru tíundaðir tekjustraumar frá 9 vindorkuvirkjunum á Vesturlandi án þess að geta um áætlaðar heildartekjur á tímabilinu 2026-2052.  Þeir voru tekjuskattur af raforkuframleiðendum, staðgreiðsla, útsvar til sveitarfélaga, tryggingagjald, umhverfis- og auðlindaskattur, fasteignagjöld og lóðaleiga.  Vegna þess að vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir eru hagkvæmari rekstrareiningar en vindorkuver með svipaðri orkuvinnslugetu, hér 2885 GWh/ár, og miklu áreiðanlegri aflgjafar, þá er langlíklegast, að í heildina séð verði þessir tekjustraumar hærri frá hinum hefðbundnu virkjunum Íslendinga. 

Frambærileg rök fyrir uppsetningu vindorkuvera á Íslandi eiga enn eftir að koma fram í dagsljósið.     


Að skreyta sig með annarra orkufjöðrum

Í forystugrein Morgunblaðsins 15. september 2022 var orkumálaþáttur stefnuræðu forsætisráðherra kvöldið áður gerður að umfjöllunarefni, eins og verðugt er.  Þar blasti við sá tvískinnungur, hræsni og óheilindi, sem einkennir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) til orkumála, landverndar og loftslagsmála hérlendis. Skörin færist þó upp í bekkinn, þegar formaður VG afneitar sögu sinni, flokksins og rótum þessa flokks (Alþýðubandalagsins).  Það er jafnan ógeðfellt að verða vitni að því, þegar fólk, ekki sízt stjórnmálafólk, með einfeldningslegum hætti tekur að grobba og skreyta sig með annarra manna fjöðrum.  Morgunblaðið benti kurteislega á þetta, en það er engin ástæða til að skafa utan af þessum þætti í fari formanns VG. 

Forystugreinin nefndist:

"Orkumál og skautun",

og gerði stefnuræðu forsætisráðherra nokkur skil:

"Í hinu hnattræna samhengi gat forsætisráðherra ekki stillt sig um að minnast á loftslagsmálin, en í þeim efnum hefði hin endurnýjaða ríkisstjórn sett sér ný markmið til þess að minnka útblástur og sagði landið á "fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu - inn í nýtt, grænt hagkerfi, en þar voru Katrínu efst í huga orkuskipti í samgöngum og [á] öðrum sviðum raunar einnig, þar sem öld grænna orkugjafa væri hafin."

Þetta er bölvað fleipur hjá forsætisráðherra.  Losun gróðurhúsalofttegunda 2022 verður sennilega meiri en 2021, svo að ferðin er aftur á bak, ef þetta er ferð.  Það vantar enn forsenduna um "öld grænna orkugjafa".  Hérlendis eru þeir fyrir hendi í náttúrunni, og u.þ.b. helmingur fýsilegra virkjanakosta hefur verið virkjaður, flestir þeirra í andstöðu við vinstri græna og forvera þeirra.  Ekki gleymist hatrömm andstaða Alþýðubandalagsins við virkjun Þjórsár við Búrfell, og sú virkjun er varla til, sem vinstri grænir hafa ekki lagzt gegn. Hvers vegna leyfist Orkustofnun að draga Landsvirkjun á virkjanaleyfi í Neðri-Þjórsá nú í 15 mánuði ?  Það vantar raforku nú í orkuskiptin og eflingu gjaldeyrissköpunar og atvinnu, og þannig verður það fyrirsjáanlega allan þennan áratug.  Þess vegna eru orkuskipti í samgöngum og öðru strönduð, og þessi fagurgali forsætisráðherra um losun koltvíildis og orkuskipti er gjörsamlega innantómur.  Hún talar tveimur tungum og sitt með hvorri og meinar ekkert með öllu saman.  Þetta er ábyrgðarlaust hjal hjá formanni VG. 

"Forsætisráðherra sagði, að Íslendingar væru "í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu vegna þess, að réttar ákvarðanir hafa verið teknar".  Undir það má taka, þótt Katrín hafi raunar vanrækt að geta þess, að hún og hennar fólk lögðust gegn öllum þeim framsýnu ákvörðunum á sínum tíma.  Hún rakti og, að það væri mikil gæfa, að Landsvirkjun og Landsnet - helzta orkufyrirtæki landsins og mikilvægasta innviðafyrirtæki þess - væru í almenningseigu."

Hvaða þokuhjal er þetta hjá Katrínu um "réttar ákvarðanir" ?  Er hún að afneita fortíð VG og viðurkenna, að flokkurinn og forveri hans hafi allan tímann haft rangt fyrir sér ?  Það jafngildir sprengingu í herbúðum þursanna, sem leggjast gegn öllum framförum.  Líklegra er, að hún eigi við einhverjar ótaldar ákvarðanir í tíð VG, sem auðvitað þarfnast þá skýringa.  Á hvaða vegferð er þetta furðufyrirbrigði eiginlega, sem hefur jafnan stimplað sig inn sem andstæðingur íslenzks atvinnulífs. 

Hlutverk Landsvirkjunar við stofnun hennar 1965 var að virkja stórt og reisa öflugt flutningskerfi raforku frá virkjunum til notenda, fyrirtækja og almennings.  Hugmyndin var, að stórsala raforku til áliðnaðar mundi fjármagna bæði virkjanir og flutningskerfi.  Það gekk eftir, en þessari hugmyndafræði lagðist Alþýðubandalagið, forveri VG, algerlega gegn. Ef afturhaldsstefna þessara vinstri afla hefði ráðið ríkjum allan tímann, væri hér engin Landsvirkjun og ekkert Landsnet í sinni núverandi mynd.  VG getur ekki einu sinni með réttu þakkað sér, að þessi fyrirtæki bæði eru í ríkiseigu.  VG - flokkur embættismanna og draumóramanna - telur sér nú sæma að skreyta sig með stolnum fjöðrum borgaralegra afla.

""Eins hljótum við að þakka fyrir, að orkukerfið hér á landi er sjálfstætt og undir innlendri stjórn.  Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt - þegar almenningur í Noregi, Þýzkalandi, Bretlandi er jafnvel að borga margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur - er augljóst, að við erum í öfundsverðri stöðu", sagði forsætisráðherra, en lét að vísu alveg vera að ræða um orkupakkann í því sambandi."  

Hræsnin lekur af þessum orðum forsætisráðherra.  Hún er svo tvöföld í roðinu, að til háborinnar skammar er. Hún, flokkur hennar og forverar, hafa barizt hatrammlega gegn framförum, sem leitt hafa Íslendinga til núverandi stöðu í orkumálum, og hún situr enn við sinn keip, þegar kemur að leyfisveitingum til nýrra virkjana og flutningslína.  Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, lyfti ekki litla fingri til að koma í veg fyrir lögleiðingu þess Orkupakka 3, sem nú veldur því, að tíföldun hefur orðið í fjölmennustu fylkjum Noregs á verði rafmagns til heimila, þ.m.t. húshitunar, og til fyrirtækja án langtímasamninga. Hvað ætlar þessi dr Jekyll og Mr Hyde í stóli forsætisráðherra Íslands að gera, þegar Landsnet og Landsreglari ACER á Íslandi hyggjast hrinda af stokkunum kauphöll raforku á Íslandi, þar sem tiltæk raforka verður falboðin á uppboðsmarkaði með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum, að raforkuverð til almennings mun snarhækka samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn ?

"Aftur ítrekaði hún, að þetta væri vegna þess, að góðar og framsýnar ákvarðanir hefðu verið teknar hingað til, þótt Vinstri-græn hafi verið á öndverðum meiði.  Það er ekki nefnt forsætisráðherra og flokki hennar til lasts.  Þvert á móti ber að fagna aukinni samstöðu um þessi grundvallarmál, því [að] Ísland á, líkt og önnur lönd, allt sitt undir orkugnægð og enn frekar, þegar horft er til framtíðar og bættra lífskjara til frambúðar.  

Þessu virðist forsætisráðherra átta sig á og eins hinu, að miklu skipti, hvernig fram verður haldið.  Katrín sagði, að þegar kæmi að orkuskiptum og orkuframleiðslu væri frumskylda stjórnvalda við íslenzkan almenning."

Það er óráðlegt að ráða svona bjartsýnislega í orð forsætisráðherra, sem er hræsnari af Guðs náð og tvöföld í roðinu.  Hvað meinti hún með ræðunni.  Var verið að boða stefnubreytingu VG, "die Wende", eða vendipunkt, eins og hjá Olaf Scholz, kanzlara ?  Það er hægt að túlka loðmullu, eins og að "frumskylda stjórnvalda [sé] við íslenzkan almenning" með ýmsu móti.  Nema hvað ?  Hingað til hefur þessi skylda VG verið, að standa vörð um óraskaða náttúru Íslands, sem er della, því að þessi náttúra er sífelldum breytingum undirorpin, en Mogginn er yfir sig bjartsýnn og spáir vendipunkti hjá VG.  Guð láti gott á vita, en VG er forstokkaður ríkisafskipta- og afturhaldsflokkur, sem hefur ekki enn orðið fyrir vitrun: 

"Þarna er um afar afdráttarlausa stefnumörkun að ræða, og hún sætir nokkrum tíðindum, ekki sízt fyrir Vinstri-græn.  Þar á bænum hafa menn verið ákaflega tvístígandi í þessum efnum, þar sem á togast ýmis illsamrýmanleg grundvallarmarkmið um loftslag eða landvernd, bætt kjör almennings eða skerta neyzlu hans.  Nú hefur það skýrzt til muna, og það er vel."

Höfundur þessa vefpistils er engu nær og spáir engum breytingum hjá afturhaldinu.  Forsætisráðherra gasprar og geiflar sig.  Þegar hún hittir Jens Stoltenberg, er hún ötull baráttumaður bættra varna Vesturlanda gegn ofbeldinu í austri, sem engu eirir, þótt hún pakki umræðunni inn í óskiljanlegt jafnréttismálskrúð um jafnrétti innan NATO.  Hér heima er hún á móti þátttöku Íslands í NATO.  Þessi ruglandi nægir til að æra óstöðugan. Formaður VG hefur reynzt ófær um að marka flokkinum skýra stefnu í orkumálum, enda gerast kaupin ekki þannig á eyrinni þar á bæ, en Mogginn hefur tekið það að sér í lok forystugreinarinnar.  Forsætisráðherra ætti að vera þakklát fyrir:

"Af fyrrnefndum varnagla [forsætisráðherra, ábyrg orkunýting í sátt við náttúruna og í þágu almennings] má einnig draga ályktanir um, að Vinstri-græn geri ekki athugasemdir við orkuöflun fyrir landsmenn, en vilji síður, að hún komi útlendingum til góða.  Það vekur hins vegar spurningar um, hversu mikil alvara fylgir heitstrengingum Vinstri-grænna um loftslagsmálin eða vorkunn vegna orkukreppu í Evrópu.  Nú eða hvernig eigi að tryggja bætt lífskjör til frambúðar. 

Undir lok stefnuræðunnar sagði forsætisráðherra, að á "tímum skautunar og einstefnustjórnmála [skipti] miklu að ná saman um framfaraskref fyrir samfélagið allt".  Það er ánægjulegt, að ríkisstjórnin gangi þar á undan með góðu fordæmi málamiðlunar og miklu skiptir, hvernig verður fram haldið."

Það er smásmyglislegt útúrborusjónarmið VG, sem býr að baki einhvers konar útilokunarþörf gagnvart eðlilegri þróun og viðgangi erlendra fjárfestinga í landinu. Þetta er gamalkunnugt stef frá Alþýðubandalaginu, en stingur auðvitað gjörsamlega í stúf við inntak EES-samningsins.  Vinstri-grænir lögðust ekki gegn Orkupakka 3, sem þó fól útlendingum mikilvæg ítök í íslenzkum orkumálum, en nú á að mismuna fyrirtækjum í erlendri eigu á Íslandi, þegar kemur að orkuafhendingu hérlendis.  Þessi tvískinnungur forsætisráðherra í orkumálum er fyrir neðan allar hellur, gjörsamlega óboðlegur, enda siðlaus.

Það fylgir alls engin alvara heitstrengingum vinstri-grænna, sem Morgunblaðið gerir hér að umræðuefni.  Nýjar og miklar virkjanaframkvæmdir eru forsenda allra framfara á sviði orkuskipta og loftslagsmála á Íslandi, og hjá VG hefur alls engin afstöðubreyting orðið til þessara mála, hvað sem túðri forsætisráðherra í ræðustóli Alþingis líður.      

 

 


Áhættugreiningu vantar fyrir flutningana

Stórfelldir vikurflutningar eru ráðgerðir frá námu austan Hafurseyjar austan Víkur í Mýrdal og til Þorlákshafnar.  Sveitarfélagið Vík leggst ekki gegn námuvinnslunni sjálfri, en á bágt með að sætta sig við fyrirhugað flutningsfyrirkomulag á vikrinum.  Ráðgert  er að flytja um 1,0 Mt/ár úr námunni eftir þjóðvegum Suðurlands, sem liggja til Þorlákshafnar. Samráð skortir við sveitarstjórnina þar um endastöð þessara flutninga, og hefur sveitarstjórinn lýst því yfir, að ekki komi til mála að samþykkja opinn haug þar, enda skorti lóð undir hann. 

 Einar Freyr Elínarson tjáði sig með skynsamlegum hætti fyrir hönd sveitarfélagsins Víkur í Mýrdal um þessi efni í viðtali við Morgunblaðið 15. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:

"Efasemdir um stórfellda landflutninga".

Viðtalið hófst þannig:

"Við leggjumst ekki gegn námuvinnslu; þarna er skilgreind náma.  En við verðum að sjá útfærsluna öðruvísi", segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi í samtali við Morgunblaðið um áform og mat á umhverfisáhrifum mikilla þungaflutninga með vikur í gegnum sveitarfélagið. Hann segir, að sveitarstjórnin hafi ekki enn fjallað um umhverfismatsskýrsluna, en ljóst sé, að miklar efasemdir séu uppi um þessa landflutninga. 

Þá dregur hann í efa það mat, sem lýst er í skýrslunni á áhrifum flutninganna á umferð.  Þar eru þau metin óverulega neikvæð." 

Hvað liggur að baki þeirri umsögn verkfræðistofunnar, sem ráðin var í þá rannsókn, sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eða athafna jafnan er, að áhrifin á umferðina verði óverulega neikvæð ?  Var gerð áhættugreining til að leiða líkum að áhrifum 30 % aukningar á þungaaumferð, sem Vegagerðin telur, að þessi áform jafngildi, og áhrifin á öryggi vegfarenda af völdum aukins vegaslits og meiri viðhaldsþarfar ? Var lagt mat á afleiðingar aukinnar tilhneigingar til erfiðs aksturs fram úr löngum farartækjum á öllum tímum sólarhrings ?  Að öllum þekktum áhættuþáttum meðreiknuðum, hvað má ætla, að slysatíðnin á leið langra flutningabíla aukist mikið með mismunandi örkuml eða jafnvel dauða af völdum þessara flutningabíla með vikur til Þorlákshafnar og til baka til námunnar austan Hafurseyjar ?  Hvaða auknum árlegum kostnaði má búast við vegna slysa, dauðdaga og tjóns á farartækjum og aukins vegviðhalds af þessum völdum ?

Af orðalaginu "óverulega neikvæð" mætti ætla, að áhættugreining verkfræðistofunnar hafi leitt í ljós, að vegfarendur framtíðarinnar á leið téðra þungaflutninga og íbúar í grennd við leiðina verði ekki fyrir mælanlegu tjóni eða áreiti af völdum þessara þungaflutninga, heldur aðeins óþægindum og minni háttar töfum á sinni leið.  Hér skal varpa fram þeirri tilgátu, að sú niðurstaða standist ekki verkfræðilega rýni, heldur beri vitni um flaustursleg vinnubrögð. Það virðist vanta, það sem við á að éta, í þessa rannsókn. 

Miðað við umferðartalningar og upplýsingar um þetta verkefni má áætla, að með viðbótarflutningum um meira en  1,0 Mt/ár (að þunga farartækjanna meðreiknuðum fram og til baka) muni slitið á vegunum verða svipað og frá umferð, sem er 2,5 sinnum meiri en núverandi umferð. Þá vaknar lykilspurningin í þessu máli: hverjar voru hönnunarforsendur leiðarinnar um umferð, sem vegurinn ætti að þola, svo að þáverandi öryggisstöðlum væri fullnægt.  Líklegt er, að í tímans rás hafi sú árlega hámarksumferð, sem vegurinn átti að þola, þegar hann var hannaður, lækkað.

Ef verkefnið stendur og fellur með svona miklu álagi á samfélagsinnviði landsmanna, og hér er lagt upp með, á það ekki rétt á sér.  Þar með er það þó ekki dauðadæmt, því að aðrar flutningaleiðir eru til, og hafa sumar verið nefndar, enda gætu útflutningsverðmætin frá fullri starfsemi á Mýrdalssandi (vikur og sandblástursefni) numið vel yfir 200 MEUR/ár. 

Ein er, að fyrirtækið leggi fram áætlun um lestarteina frá námunni og til Þorlákshafnar.  Önnur er viðleguaðstaða úti fyrir ströndinni og dæling efnisins með þrýstilofti úr landi og út í skip.  Þriðji möguleikinn er svo að koma upp einhvers konar hafnaraðstöðu í grennd við námuna í samstarfi við sveitarfélagið Vík í Mýrdal. 

Nokkrir hafa fjallað um þetta verkefni í fjölmiðlum.  Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur gert þetta verkefni að umfjöllunarefni á vefsetri sínu, og Friðrik Erlingsson, rithöfundur á Hvolsvelli hefur fengið birta grein um efnið í Morgunblaðinu.  Þann 16. ágúst 2022 birtist svo forystugrein um efnið í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: 

"Á 7 mínútna fresti í öld".

Þar sagði m.a.:

"Það eru ótal dæmi til um það, gömul sem ný, hversu sárgrætilega auðvelt er að fá keyptar umsagnir, sem eiga að vera veittar í krafti sérfræðiþekkingar, þótt þær sýnist vera öndverðar öllu því, sem blasir við hverjum manni, að fái staðizt.  Hinu er ekki að leyna, að skýrsla af slíku tagi gæti geymt vott um ólíkindalega gamansemi, þegar niðurstaða hennar er, "að aukning umferðar og hljóðvistar vegna malartrukkanna "hafi nokkuð neikvæð áhrif" eða svo sem miðlungsáhrif m.v., að flokkarnir fyrir ofan heita: "Talsvert neikvæð áhrif, Verulega neikvæð áhrif og Óvissa".  

Það er varla hægt að gera því skóna, að höfundum skýrslunnar sé grín í huga, því að málefnið snýst um dauðans alvöru á þjóðvegunum og mögulega verulega skert lífsgæði þeirra, sem vinna og/eða búa í slíkri grennd við flutningaleiðina, að áhrif hefur á hljóðvist á vinnustað eða á heimili.  Þetta huglæga mat um nokkuð neikvæð áhrif eða svo sem miðlungsáhrif er svo fljótandi, að það er óboðlegt sem niðurstaða í skýrslu frá verkfræðistofu, enda er lesandinn litlu nær með slíka einkunnagjöf höfundanna. 

Hvers vegna var t.d. ekki gerð söfnunarmæling á hávaða við akstursbrautina, þar sem ætla má, að áhrif á hljóðvist verði mest, og viðbótar hávaðinn síðan áætlaður út frá tíðni ferða, hraða og hávaða frá sambærilegum flutningatækjum og búast má við, að verði í þessum vikurflutningum ?  Þá væri eitthvað handfast fyrir þá, sem þurfa að fjalla um málið, og hægt að bera niðurstöðuna saman við staðla, sem um hljóðvist fjalla. 

Það fara senn að æsast leikar á Mýrdalssandi, því að fyrirtæki er að koma þar upp búnaði til vinnslu efnis úr sandinum til yfirborðshreinsunar.  Morgunblaðið sagði frá þessu 18. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:

"Tæki til vinnslu sandblástursefnis".

Fréttin hófst þannig:

Tæki til að vinna sandblástursefni eru komin á lóð fyrirtækisins Lavaconcept Iceland ehf við Uxafótarlæk austan við Vík í Mýrdal.  Áætlað er að hefja vinnslu og útflutning á næsta ári [2023]. Unnið hefur verið að þessu verkefni frá árinu 2008, og nú er skipulagsferli lokið.  Aðstandendur verkefnisins leggja áherzlu á að fá heimamenn í Mýrdal til að vinna sem mest að undirbúningi og síðan vinnslu, þegar þar að kemur, enda var til verkefnisins stofnað til að skapa atvinnu á svæðinu.  Steypa þarf undir tækin og leiða rafmagn á svæðið.  Áætlað er, að 15-20 störf skapist síðan við vinnsluna."

Með aukinni starfsemi í sveitarfélaginu Vík í Mýrdal, sem þarf að koma framleiðslu sinni um borð í skip til útflutnings, eru vaxandi líkur á, að fjárhagsgrundvöllur verði fyrir hafnargerð, viðleguaðstöðu úti fyrir ströndinni eða lagningu járnbrautarteina frá athafnasvæðunum á Mýrdalssandi og til Þorlákshafnar, ef flutningsgeta þjóðvegarins reynist ekki anna fullri flutningsþörf umræddrar starfsemi á Mýrdalssandi til Þorlákshafnar samkvæmt athugun Vegagerðarinnar eða ef áhættugreining leiðir í ljós óásættanlega meiri slysatíðni á leiðinni eða hávaða í grennd við hana. 

 

 

 


Að finna fjölina sína

Þremur dögum eftir upphaf innrásar Rússlands í Úkraínu hélt kanzlari Þýzkalands, kratinn Olaf Scholz , ræðu í þýzka Sambandsþinginu í Berlín, Bundestag, sem kennd er við "Zeitenwende" eða tímamót.  Þýzka þjóðin hafði líklega orðið fyrir meira áfalli við þennan glæpsamlega gjörning Kremlarstjórnarinnar en aðrar vestrænar þjóðir fyrir utan auðvitað saklaus fórnarlömbin, Úkraínumenn sjálfa. Ástæðan var sú, að Þjóðverjar höfðu a.m.k. frá kanzlaratíð kratans Willys Brandts lagt sig fram um að efla vinsamleg samskipti við Rússa og treystu því, að gagnkvæmir viðskiptahagsmunir myndu halda rússneska birninum í skefjum.

Þjóðverjar höfðu í þessu skyni tekið mikla áhættu í orkumálum og reitt sig á ábyrga afstöðu Rússa og áreiðanlega afhendingu kola, olíu og jarðgass, þannig að árið 2021 nam t.d. hlutdeild rússnesks gass af þýzka gasmarkaðinum um 55 % og hafði þá hækkað úr 30 % um aldamótin 2000.  Nú um miðjan ágúst 2022 nemur þessi hlutdeild um 25 %, en samt hækkar í birgðatönkum Þjóðverja fyrir jarðgas.  Þeir hafa aðlagað sig stríðsástandinu furðufljótt. 

Þjóðverjar hafa löngum verið veikir fyrir ævintýrum. Á Íslandi og miklu víðar eru Grímsævintýri alþekkt eða hluti þeirra.  Þetta er safn ævintýra hinna ýmsu germönsku ættbálka, sem tala þýzka mállýzku, og safnararnir hafa samræmt mismunandi útgáfur og jafnvel sniðið að eigin höfði. 

Eitt ævintýranna fjallar um Karl Katz, geitahirði í Harz-fjöllum í Mið-Þýzkalandi. Dag einn leiðir villuráfandi geit téðan Karl inn í langan helli, þar sem hann hittir skrýtna karla, sem freista hans með drykk, og hann lætur ánetjast og fellur í djúpan svefn.  Þegar hann vaknar, skynjar hann fljótt, að svefntími hans verður ekki talinn í klukkustundum, heldur í árum.  Heimurinn er breyttur.

Margir Þjóðverjar finna sig nú í sömu stöðu og Karl.  Þjóðin hafi verið eins og svefngenglar.  Eftir Endursameiningu Þýzkalands voru þeir ánægðir með árangur sinn á sviði efnahagsmála og utanríkismála og trúðu því til hægðarauka, að kerfi þeirra virkaði nánast fullkomlega.  Stjórnmálamenn þeirra töldu þeim trú um ævarandi velgengni með lágmarks núningi við umheiminn og auðvitað núll-losun gróðurhúsalofttegunda í nánustu framtíð. 

 

Að vakna síðan upp með andfælum við hávaðann frá rússneskum skriðdrekum, sem héldu með offorsi innreið sína í Evrópuríkið Úkraínu, var hræðileg reynsla. Þjóðverjar upplifa sig ekki, eins og Karl, stadda í framtíðinni, heldur áratugum aftur í fortíðinni.  Í stað þess að þeysa á hraðbraut (Autobahn) inn í víðsýnt lýðræðiskerfi, hefur stór hluti heimsins hallazt í átt til ómerkilegs lýðskrums, sem Þjóðverjar þekkja allt of vel úr eigin fortíð.

Í stað þess að njóta tímabils friðsamlegrar samvinnu, sem Þjóðverjar töldu, að þeir hefðu lagt grunninn að, reka Þjóðverjar sig nú á, að krafizt er vopna og hermanna af þeim. Auðlegð Þýzkalands reynist nú ekki stafa einvörðungu af dugnaði íbúanna, eins og ævintýraútgáfan af þýzku þjóðfélagi skáldaði, heldur á ódýrri orku og ódýru vinnuafli, og auðvitað hefur nú komið á daginn, að þessi Vladimir Putin, sem skenkti Þjóðverjum 2 gaslagnir undir Eystrasalti frá Rússlandi, hefur nú reynzt vera úlfur í sauðargæru, einn af grimmustu og miskunnarlausustu úlfum Evrópusögunnar, sem ekki vílar fyrir sér að hóta að sprengja stærsta kjarnorkuver Evrópu í loft upp og staðfestir þannig glæpsamlegt eðli sitt. 

Allt, sem forveri Olaf Scholz á kanzlarastóli, Angela Merkel, beitti sér fyrir í orkumálum Þjóðverja, var eins og eftir pöntun frá téðum Putin.  Hún "flippaði út-flippte aus" eftir stórflóðið í Fukushima 2011 og lét loka helmingi kjarnorkuvera Þjóðverja strax og setti lokadag á 3 síðustu 31.12.2022, og hún fékk Bundestag til að banna jarðgasvinnslu með vökvaþrýstiaðferð (fracking).

Þjóðverjar hafa ekki farið sömu leið og nágrannarnir í Hollandi, sem nýta enn Groningen gaslindirnar, sem hafa gefið af sér mrdUSD 500 síðan 1959.  (Í The Economist var af þessu tilefni 1977 skrifað um hollenzku veikina. Hér er stuðzt við The Economist-23.07.2022-Let the sleeper awaken.) Samt eru gasbirgðir Þjóðverja alls ekki litlar.  Um aldamótin 2000 dældu Þjóðverjar upp 20 mrdm3/ár af jarðgasi, sem nam um fjórðungi af gasnotkun Þjóðverja.  Þótt jarðfræðingar meti nýtanlegan jarðgasforða Þjóðverja um mrdm3 800, hefur vinnslan hrapað niður í 5-6 mrdm3/ár, sem nemur um 10 % af innflutningi jarðgass frá Rússlandi til Þýzkalands fyrir Úkraínustríð. 

Það er sorgleg skýring á þessu.  Af jarðfræðilegum ástæðum er nauðsynlegt að beita vökvaþrýstingi á jarðlögin til að ná upp nánast öllu þýzku jarðgasi, en þýzkur almenningur er haldinn óraunhæfum ótta við þessa aðferð, og á þessum tilfinningalega grundvelli tókst Merkel árið 2017 að fá Bundestag til að banna í raun vinnslu jarðgass með vökvaþrýstiaðferð í ábataskyni, þótt þýzk fyrirtæki hafi frá 6. áratugi 20. aldar notað þessa tækni við jarðgasvinnslu án nokkurs skráðs tilviks um umhverfistjón. 

Það er ekki erfitt að rekja ástæður téðs ótta almennings. Árið 2008 sótti stórt bandarískt olíufélag, Exxon, um stækkun athafnasvæðis fyrir gasvinnslu fyrirtækisins í Norður-Þýzkalandi með þessari vökvaþrýstiaðferð.  Þegar s.k. umhverfisverndarsinnar hópuðust saman til mótmæla, hoppaði Græningjaflokkurinn, sem nú er í ríkisstjórn og þá var í sókn, um borð í mótmælafleyið. Hið sama gerði "Russia Today", málpípa Kremlar, og spann upp aðvaranir um, að þessi tegund gasvinnslu leiddi til geislavirkni, fæðingargalla, hormónaójafnvægis, losunar gríðarlegs magns metans, eitraðs úrgangs og eitrunar fiskistofna.  Ekki minni sérfræðingur en náungi að nafni Vladimir Putin lýsti því yfir í ræðustóli á alþjóðlegri ráðstefnu, að téð vökvaþrýstiaðferð gasvinnslu mundi valda því, að  sótsvart sull spýttist út um eldhúskrana almennings. Þjóðverjar virðast ginnkeyptir fyrir ævintýrum, en það eru margir aðrir. 

Hræðsluáróður af þessu tagi á greiða leið að eyrum almennings.  Augljóst er nú til hvers refirnir voru skornir hjá Putin.  Hann vildi drepa gasvinnslu Þjóðverja í dróma til að gera þá háða Rússlandi um þennan mikilvæga orkugjafa, og kanzlarinn sjálfur, prestsdóttirin frá Austur-Þýzkalandi, beit á agnið.  Það er alls ekki einleikið. 

"Að þessu búnu gáfumst við hreinlega upp við að útskýra, að vökvaþrýstivinnsla jarðgass er algerlega örugg", andvarpar Hans-Joachim Kümpel, fyrrverandi formaður meginráðgjafarráðs ríkisstjórnarinnar um jarðfræði.  "Ég get í raun ekki áfellzt fólk, sem hefur enga þekkingu á jarðfræði, ef allt, sem það heyrir um viðfangsefnið, eru hryllingssögur." 

Þýzkir gasframleiðendur segja, að í ljósi þróaðri,  hreinni og öruggari vinnsluaðferða nútímans, gætu þeir tvöfaldað vinnsluafköstin á 18-24 mánuðum, ef þeir fengju tækifærið.  Með slíkum afköstum gætu Þjóðverjar dælt upp gasi fram á næstu öld.  Slíkt mundi draga úr innflutningsþörf að jafngildi u.þ.b. 15 mrdUSD/ár. Það er ekkert ævintýri.  Núverandi ríkisstjórn Þýzkalands er ekki líkleg til að slaka á hömlunum í þessum efnum, þótt hart sverfi að Þjóðverjum, en væri Friedrich Mertz kanzlari væri meiri von til, að heilbrigð skynsemi og öryggishagsmunir væru í fyrirrúmi, en ekki tvístígandi og hálfgerður rolugangur.  

Friedrich Mertz er formaður stjórnarandstöðuflokksins CDU, sem er miðhægriflokkur Konrads Adenauers og dr Ludwigs Erhards, og hann er tilbúinn til að leiða Þýzkaland til forystu í Evrópu gegn árásargirni Rússlands undir forystu hins siðblinda Putins, sem nú bítur höfuðið af skömminni með því að setja stærsta kjarnorkuver Evrópu í uppnám, láta rússneska herinn hafast þar við og skjóta þaðan eldflaugum og úr sprengivörpum. Öfugmælin og ósvífnin nálgast hámark, þegar sami Putin sakar Bandaríkjamenn um að lengja í Úkraínustríðinu og efna til ófriðar um allan heim.  Margur heldur mig sig.  Hann þarf ekki annað en að gefa rússneska hernum fyrirmæli um að hætta blóðugu og illa ígrunduðu árásarstríði sínu í Úkraínu og hverfa inn fyrir rússnesku landamærin til að binda endi á þessi fáránlegu átök, sem hafa gjörsamlega eyðilagt orðstír Rússa.  Þrátt fyrir "vatnaskil" hjá kratanum Olaf Scholz, er hann enginn bógur til að finna fjölina sína sem leiðtogi frjálsrar Evrópu við gjörbreyttar aðstæður. 

ukrainian-cloth-flags-flag-15727Þýzkt ESB  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband