Færsluflokkur: Umhverfismál
29.5.2024 | 17:42
Sérstaða Vestfirðinga í orkumálum
Vestfirðingar njóta ekki teljandi jarðhita og eru þess vegna nánast alfarið háðir raforku á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkulinda landsins. Þetta er svipuð staða og Austfirðingar búa við, en mismunurinn er sá, að hinir síðarnefndu búa við öfluga vatnsaflsvirkjun, 690 MW, og hringtengingu við stofnkerfi landsins.
Núverandi aflþörf Vestfirðinga er a.m.k. 44 MW og vex hratt. Vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum gefa nú 21 MW afl, þegar bezt lætur. Þá vantar 23 MW um vetrartímann, þegar veður mæða mest á Vesturlínu, og hún lætur oft undan. Það er gjörsamlega óviðunandi, hversu oft á ári íbúar og gestir Vestfjarða þurfa að sitja í myrkrinu. Alþingismenn vita þetta. Sumir kæra sig kollótta, og hinir láta orðin tóm duga. Þetta er óskiljanlegt ábyrgðarleysi.
Þann 4. maí 2024 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Orkuskortur hrjáir Vestfirðinga".
"Jarðhitaleit á Vestfjörðum hefur litlu skilað enn sem komið er, ef frá er talinn jarðhiti, sem fannst á Drangsnesi, sem ætlað er, að geti þrefaldað afköst hitaveitunnar á staðnum. Orkusjóður greiddi tæpar MISK 20 í styrk til jarðhitaátaksins þar, þess fyrsta á öldinni."
Doði í jarðhitaleitinni er dæmi um það algera fyrirhyggjuleysi, sem ríkir í orkumálunum. Orkustofnun ætti auðvitað að vera í fararbroddi við að leggja drögin að orkuöflun með rannsóknum, þótt orkufyrirtækin sjái um virkjunarstig og rekstur. Orkustofnun virðist ekki vera þannig mönnuð, að hún sé í stakk búin til að sýna merkilegt tæknilegt frumkvæði. Æðsti koppur þar hefur ekki meiri áhuga á starfinu en svo, að hún flúði í forsetaframboð, þar sem hún dreifði um sig frösum og froðusnakki. Henni virðast vera mislagðar stjórnunarhendur, því að framboði hennar hafa orðið á 2 fingurbrjótar. Það er allt á sömu bókina lært. Almennilegar hugsjónir og verklega þekkingu vantar. Samt þenur Orkusetur, sem er á snærum Orkustofnunar, sig yfir því, að orkuskiptin skuli hafa staðnað. Það er ekki hægt í raunheimum að geyma kökuna og éta hana.
"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í nýtingarflokki rammaáætlunar eiga talsvert í land, en þar er einkum horft til Hvalárvirkjunar, sem samþykkt var í öðrum áfanga rammaáætlunar árið 2013, og Austurgilsvirkjunar, sem samþykkt var í 3. áfanga 2022. Þó eru horfur á, að úr rætist með Hvalárvirkjun á næstu árum, en HS Orka vinnur að undirbúningi virkjunarinnar og stefnir að því að sinna skipulagsmálum og verkfræðivinnu á þessu ári [2024]. "Vonandi getum við hafið framkvæmdir í lok næsta árs", segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins í samtali við Morgunblaðið. Gangi það eftir, gæti orkuframleiðsla hafizt árið 2029."
Vonandi ganga þessi áform eftir, því að hvorki Vestfirðingar né aðrir landsmenn mega við frekari töfum á verkefnum, sem uppræta munu þá ósvinnu að þurfa að brenna olíu á Íslandi til að framleiða rafmagn eða heitt vatn. Kostnaðurinn af þessu er þó aðeins brot af tekjutapinu, sem hlotizt hefur af glötuðum tækifærum til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar. Þá eru 2030 - markmiðin um losun gróðurhúsalofttegunda gjörsamlega komin í vaskinn, og mun það ástand skapa þjóðinni gríðarlegan kostnað, sem skrifa verður á kostnað hégómagirni forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur.
"Á meðan þannig háttar til, að Orkubú Vestfjarða sætir skerðingum frá Landsvirkjun, er fyrirtækið nauðbeygt til að framleiða rafmagn með með dísilolíu með tilheyrandi taprekstri."
Þetta er mótsögn aldarinnar. Silkihúfur státa af "hreinni" orku Íslands, en það má helzt ekki virkja hana til að efla velsæld í landinu og draga úr losun koltvíildis. Hvers konar sálarháski og meinlokur eru hér eiginlega á ferðinni ? Hér hefur angi sjálfseyðingarhvatar náð undirtökunum með mjög alvarlegum fjárhagslegum, umhverfislegum og félagslegum afleiðingum. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur það ekki einvörðungu á sínum svarta lista að hafa saltað umsókn Hvals hf um veiðileyfi á tilgreindum hvölum ofan í skúffu í matvælaráðuneytinu, þegar hún var þar í vetur, heldur beitti hún sér þannig sem forsætisráðherra, að hún hefur kallað stórfelldan orkuskort yfir þjóðina með viðeigandi hörmungum. Að verðlauna hana síðan sem yfirsilkihúfu Íslands á Bessastöðum væri eftir annarri dauðans dellu og er ekki einu sinni fyndið.
"Á vegum Landsnets er unnið að undirbúningi tengipunkts í Ísafjarðardjúpi um hvern raforku frá Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun verður miðlað, þegar þar að kemur, og áformar Landsnet, að tengingar verði tilbúnar, þegar þeirra verður þörf, en sú dagsetning er eðlilega óviss, enda framkvæmdir við hvoruga virkjunina hafnar."
Þetta eru góð tíðindi af Landsneti og rós í hnappagat þeirra, sem nú stjórna þar áætlanagerð. Hvernig áformað er að flytja orkuna til álagspunktsins Ísafjarðar, verður spennandi að sjá.
"Þá hefur Orkubú Vestfjarða farið þess á leit við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að aflétt verði friðlýsingarskilmálum á afmörkuðu svæði innan friðlandsins í Vatnsfirði, svo [að] unnt verði að undirbúa þar umhverfismat á 20-30 MW virkjun. Erindið er til skoðunar í ráðuneytinu. "Þetta er gott dæmi um, hvernig ástandið er á Íslandi. Þegar verkefni eru vanrækt í 15-20 ár, er engin töfralausn til", segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
"Það er í forgangi hjá okkur að leysa úr þessum málum, og við munum halda áfram að vinna að lausn þeirra með Vestfirðingum, því [að] ástandið er mjög alvarlegt. Það er hægt að leysa það, en þá þurfa allir að leggjast á eitt, sveitarfélög, orkufyrirtæki og stjórnvöld", segir Guðlaugur Þór."
Það er kominn tími til, að þessi ráðherra láti hendur standa fram úr ermum í stað þess að draga lappirnar gagnvart Vestfirðingum og bulla um, að ekkert hafi verið gert í 15-20 ár eða síðan 2004. Nær væri að segja, að engum stórum orkuframkvæmdum hafi verið hleypt af stokkunum í tíð hans sem orkuráðherra. Hins vegar komu 3 umtalsverðar virkjanir í gagnið á öðrum áratuginum, og nægir að nefna þar Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfell 2.
Það er skrýtið, að ekkert skuli heyrast af beiðni Orkubúsins til ráðherrans um Vatnsfjörðinn. Það er lítilmannlegt, ef ráðherra ætlar að skýla sér á bak við neikvæða umsögn eins sveitarfélags, sem tæplega á mestra hagsmuna að gæta í þessu máli.
24.5.2024 | 17:55
Gnægð raforku er undirstaða velferðarþjóðfélagsins
Það eru margar stoðir undir íslenzka velferðarsamfélaginu. Ein sú mikilvægasta og allt um grípandi í samfélaginu er, að nægt afl og orka sé jafnan fyrir hendi um allt land til að anna þörfum almenningsrafveitna, hitaveitna og iðnaðar hvers konar, nema í landshlutabundinni mikilli þurrkatíð, sem búast má við á 3 árum af 30. Skerðingarástand síðasta vetrar í öllum landshlutum var fullkomlega óeðlilegt og langt umfram það, sem skortur á innrennsli í lónin gaf tilefni til. Það dró hratt niður í miðlunarlónum vegna mikils álags á kerfið, sem ekki hefur verið komið til móts við með nýjum virkjunum í allt of langan tíma vegna doða á Alþingi. Alþingi hefur sett vænlega virkjunarkosti í bið, öndvert við tillögur Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun. Það segir mikla sögu um afturhaldstilhneiginguna á þeim bænum. Ólíklegt er þó, eins og nú er komið, að stjórnmálaflokkar geti lengur slegið pólitískar keilur með því að sýna framkvæmdadoða.
Þann 27.04.2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg grein efir 2 framámenn Landsvirkjunar, Einar Mathiesen, framkvæmdastjóra Vinds og jarðvarma, og Gunnar Guðna Tómasson, framkvæmdastjóra Vatnsafls, undir dramatískri fyrirsögn:
"Tryggjum súrefni samfélagsins".
Það er ekki ofsögum sagt, að samfélagið sé að kafna af orkuskorti. Kjósendur verða að gera sér grein fyrir, hvers vegna svo er komið. Það er vegna þess, að vinstra liðið, í og utan ríkisstjórnar, hefur bitið í sig, að óþarfi sé að virkja meira. Einhver afturhaldspúkinn, líklega nálægt Landvernd, hefur komið þessari flugu í koll þingmanna. Það er mikill áfellisdómur yfir "upplýsingasamfélagi" nútímans, sem líkist æ meir forheimskunarsamfélagi mismunandi bergmálshella. Greinin hófst þannig:
"Íslenzkt samfélag og atvinnulíf vex hratt, og um leið er það að umbreytast með grænum lausnum. Við vitum, að orka er undirstaða bæði vaxtarins og framtíðar lausna í loftslagsmálum. Án nýs framboðs raforku getum við ekki haldið áfram með orkuskipti bæði á landi og hafi og síðar lofti. Það er hlutverk okkar hjá Landsvirkjun að mæta þörfum íbúa samfélagsins, sem hér hefur verið byggt upp af miklu harðfylgi - þau [íbúarnir] eru eigendur orkufyrirtækja þjóðarinnar og mega gera ríkar kröfur til þess. Við hyggjumst leggja okkar af mörkum til að standa undir þeim kröfum, en þá verðum við líka að geta treyst á stuðning stjórnvalda. Raforkan er súrefni samfélagsins, og það súrefni verður að tryggja öllum til heilla."
"Hver, sem heimsækir aflstöð í eigu Landsvirkjunar, sér strax, að þar er vel hugsað um mannvirki og búnað. Skiptir þá engu, hvar er borið niður, á Þjórsársvæði, í Soginu, í Blöndu, Kröflu, Laxá, á Þeistareykjum eða í Fljótsdalsstöð. Fyrir utan reglubundið viðhald og eftirlit hefur tæpum mrdISK 25 verið varið í endurbætur á orkumannvirkjum Landsvirkjunar síðasta áratuginn. Þrátt fyrir misjafnt gengi í rekstrinum höfum við aldrei gefið neinn afslátt af viðhaldi og endurbótum.
Við höfum líka unnið samfellt að undirbúningi næstu virkjanakosta, bæði í vatnsafli og jarðvarma, en einnig í vindi. Undirbúningskostnaðurinn er þegar orðinn rúmir mrdISK 30 og löngu tímabært að hrinda einhverjum af þeim framkvæmdum í framkvæmd. Það er nauðsynlegt til að geta mætt framtíðareftirspurn á raforkumarkaði."
Það er laukrétt hjá höfundunum, að viðhald og snyrtimennska er til fyrirmyndar hjá Landsvirkjun. Ef svo má taka til orða, hefur náttúran batnað við inngrip Landsvirkjunar til að breyta orku hennar í beinhörð verðmæti í héraði og á landsvísu. Það stafar af því, að kappkostað er hvarvetna að fella mannvirkin vel að umhverfinu og áherzla hefur verið lögð á uppgræðslu og gróðursetningu. Grunnvatnsstaðan hækkar í grennd við miðlunarlónin, sem ýtir undir gróður þar. Nöldur og úrtölur um nýtingu orkuauðlinda Íslands eru hvorki reist á efnislegum dæmum né á heilbrigðri skynsemi á sviði atvinnulífs og velmegunar landsmanna.
Hins vegar sýnist of litlu vera varið til endurbóta, aðeins 2,5 mrdISK/ár að jafnaði. Það er óeðlilega lítið af andvirði eignasafnsins í ljósi þess, að vel hannaðar endurbætur á búnaði skila sér strax í aukinni nýtni og auknu rekstraröryggi.
Að sitja uppi með mrdISK 30 fjárfestingu í virkjanaundirbúningi í jafnvel meira en áratug án nokkurrar tekjuaukningar er hins vegar þungbært, og þar hafa stjórnmálamenn brugðizt fyrirtækinu og þjóðinni með allt of torsóttum leyfisveitingaferlum. Það er þyngra en tárum taki, að stjórnmálastéttin skuli unnvörpum þvælast endalaust fyrir sjálfsögðum framförum í landinu.
"Á næstu árum stefnir Landsvirkjun að mikilli uppbyggingu. 4 verkefni eru vonandi við það að komast af stað: fyrsta stóra vindorkuver landsins, Búrfellslundur, Hvammsvirkjun í Þjórsá, stækkun jarðvarmastöðvarinnar að Þeistareykjum og loks stækkun Sigöldu, samtals 335 MW aukning. Þessi verkefni munu skila um 1750 GWh/ár af nýrri raforku, sem er um 12 % aukning á raforkuvinnslu Landsvirkjunar. Okkur er ekki kunnugt um, að önnur orkuvinnslufyrirtæki hyggist bæta við framboð sitt á næstu 5 árum fyrir utan 20 MW áætlaða stækkun HS Orku í Svartsengi, sem gerir framgang þessara verkefna enn brýnni.
Landsvirkjun vinnur jafnframt að rannsóknum og undirbúningi nýrra virkjana, sem munu koma í næsta fasa orkuuppbyggingar, þegar framangreindum verkefnum er lokið."
Fram hefur komið, að Orkubú Vestfjarða hefur mikinn hug á að auka framboð sitt á raforku, enda er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga, sem verða þó að glíma við ýmsa bergþursa á leiðinni, þótt útrúlegt megi virðast á tímum brennslu jarðefnaeldsneytis til raforkuvinnslu fyrir vestfirzka notendur rafmagns. Það verða líklega einvörðungu smávirkjanir, sem komast munu í gagnið á Vestfjörðum á tímabilinu 2025-2030. Það segir alla söguna um ráðaleysi ráðamanna, að öðrum fyrirtækjum en Landsvirkjun skuli ekki hafa tekizt að koma með raunhæfar áætlanir um aukningu raforkuframboðs á næstu 5 árum, nema HS Orku í Svartsengi, sem er í uppnámi vegna kvikusöfnunar undir athafnasvæðinu, sem enginn veit, hvar á eftir að brjótast upp á yfirborðið.
"Á meðan önnur Evrópulönd vinna að því hörðum höndum að einfalda regluverk til að hraða aukinni raforkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, tekur mörg ár að fara í gegnum ferlið hérlendis [mest 2 ár í ESB - innsk. BJo]. Sömu stofnanir fá t.a.m. sömu umsókn til umfjöllunar margoft, og lögbundnir tímafrestir eru ekki alltaf virtir. Fullkomin óvissa og skortur á fyrirsjáanleika hefur gert þetta ferli að því sem næst ókleifum múr. Við viljum þó ítreka, að krafan um bætt leyfisveitingaferli snýst ekki um að draga úr kröfum eða gefa orkufyrirtækjum afslátt af þeim skilyrðum, sem þarf að uppfylla til að ráðast í virkjunarframkvæmdir. Aukin skilvirkni þýðir ekki minni kröfur."
Í því leyfisveitingakerfi, sem þarna er lýst, felst gríðarleg sóun, sem kostar samfélagið tugi mrdISK/ár. Samt aðhefst orku-, loftslags- og umhverfisráðherrann ekkert af viti, eða ræður hann ekkert við vinstri sinnaða afturhaldsklíku opinberra embættismanna ? Hvað sem því líður er núverandi doði alger falleinkunn yfir stjórnkerfi landsins.
19.5.2024 | 17:21
Er kolefnisbinding í bergi fýsileg ?
Carbfix hefur stundað niðurdælingu á uppleystum gastegundum í vatni við Hellisheiðarvirkjun. Tekizt hefur að draga úr mengun af völdum hinnar ætandi gastegundar H2S, sem er þarfur gjörningur. Meiri áhöld eru um að festa stórfelldar fjárhæðir í bindingu CO2, koltvíildis, í jarðlögum í Straumsvík á vegum Carbfix, og fyrirtækið undirbýr nú móttöku- og geymslustöð fyrir CO2 þar, s.k. Coda Terminal. Viðskiptahugmyndin er, að útlendingar sendi gasflutningaskip frá sér til Straumsvíkur. Þar verði því dælt í geymslurými, gasið leyst upp í vatni og síðan dælt niður í bergið.
Ef tekið er mið af Morgunblaðsviðtali við fjölfræðinginn David Friedman, sem lagt var út af í síðasta pistli á þessum vef, "Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar", er engin glóra í þessari hugmynd, hún er "futile" eða gagnslaus, af því að afleiðingar hlýnunar verða ekki sérlega alvarlegar og kostnaður við mótvægisaðgerðir viðráðanlegar. Það er hins vegar ein lykilbreyta á markaði, sem öllu máli skiptir fyrir arðsemi þessa verkefnis, og hún er verðið á markaði fyrir koltvíildisheimildir í EUR/t CO2. Ef kostnaður við að einangra CO2, flytja það til Coda Terminal og kostnaðurinn við bundið fé í Coda Terminal ásamt upplausn gassins og niðurdælingu, er hærri en þessi markaðsbreyta, þá verður tap á þessari starfsemi og betur heima setið en af stað farið. Fjárfestingar eru miklar, orkuþörf mikil og vatnsþörf mikil og það er dýrt að ná CO2 út úr efnaferli verksmiðja. Þess vegna er augljós fjárhagsleg áhætta á ferðum, sem minnkar þó eitthvað, ef styrkveitingar úr vösum skattborgara fást, en hversu siðlegt er það ?
Þann 2. maí 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir 2 höfunda, sem ætla má, að viti mest um þessi mál, en þar var þó ekkert minnzt á auðlindaþörfina (vatn, rafmagn) á hvert t koltvíildis, sem sent hefur verið niður í iður jarðar, né áætlaðan kostnað við það. Þetta er galli á annars góðri grein höfundanna Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix, og Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur, yfirvísindakonu Carbfix. Greinin bar yfirskriftina:
"Raunverulegar loftslagsaðgerðir í hlýnandi heimi".
Þar stóð þetta m.a.:
"Jafnvel þótt hraði hlýnunar haldist óbreyttur, er aðeins tímaspursmál, hvenær við þurfum að takast á við afleiðingarnar af fullum þunga. [Afleiðingarnar eru óvissar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en virðast verða tiltölulega auðveldar viðfangs á Íslandi, sbr David Friedman - innsk. BJo.]
Hlýnun jarðar heldur áfram. Viðbrögðin við þessari stærstu ógn samtímans [!?] eru hins vegar ekki í neinum takti við alvarleikann. [Coda Terminal á að taka til starfa á fullum afköstum árið 2032, sem eru áætluð allt að 3 Mt/ár CO2. Um þessa niðurdælingu munar ekkert, þ.e. engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar - innsk. BJo.]
Á meðan hitametin falla, er losun Íslands á koldíoxíði (CO2) enn að aukast, þvert á öll markmið, og losun á hvern íbúa með því mesta, sem gerist í heiminum."
Þetta er villandi framsetning, sem setur Ísland í verra ljós en efni standa til. Ísland er strjálbýl eyja með háa landsframleiðslu á mann, og miklar fiskveiðar eru stundaðar við landið. Af þessu leiðir tiltölulega mikla jarðefnaeldsneytisnotkun, en hún er þó með tiltölulega hárri nýtni í alþjóðlegum samanburði. Stóriðjan (málmframleiðslan) í landinu sparar losun á meira en 12 Mt/ár af koltvíildi út í andrúmsloftið, sem eru ferföld áætluð hámarksafköst hjá stöllunum í Straumsvík. Til hvers eru þær með þennan málflutning ?
15.5.2024 | 14:38
Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar
Á baksviði Morgunblaðsins birtist 4. maí 2024 athyglivert viðtal Baldurs Arnarsonar við fjölfræðinginn David Friedman, sem er sonur hins góðkunna hagspekings Miltons Friedman. Karlinn er fræðasjór, eins og titillinn gefur til kynna, og hann fer ekki með neitt fleipur. Hann bendir á, að hlýnun jarðar hefur bæði kosti og galla í för með sér fyrir lífið á jörðunni, og hann telur kenningar um hamfarahlýnun hreina bábilju. Viðtalið birtist undir fyrirsögninni:
"Himinn og jörð eru ekki að farast".
Um hlýnun jarðar hafði D. Friedman þetta að segja:
"Það er líklegt, að meginskýringin sé umsvif mannsins, þótt kerfið sé afar flókið, og því er erfitt að vera fullviss. Það er skoðun rétttrúnaðarins um áhrifin. Raunar eru 2 rétttrúnaðarskoðanir. Önnur er helber þvættingur, og sú, sem ég tel, að sé sennilega röng. Það er hugmyndin um hamfarahlýnun. Séu alvöru rannsóknir hjá IPCC [milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar] eða [hagfræðinginum William] Nordhaus skoðaðar, virðast hin spáðu áhrif ekki ýkja mikil."
Því er yfirleitt ekki mótmælt, að maðurinn eigi hlut að máli, en áhöld eru bæði um raunverulega hitastigshækkun í lofthjúpi jarðar og hversu stór hluti hennar stafar af umsvifum manna.
"Nordhaus áætlar í bók sinni, að verði ekkert að gert, muni heimsframleiðslan í lok þessarar aldar verða nokkrum % minni en ella vegna loftslagsbreytinga. Og séu áætlanir IPCC skoðaðar, þá kemur í ljós, að þær benda til, að sjávarmál muni hafa hækkað um 0,5 m í lok þessarar aldar. Og sé málið hugleitt, er það töluvert mikið minna en munurinn á flóði og fjöru [að meðaltali - innsk. BJo]. Svo að það hefur vissulega áhrif, en þau eru lítil.
Því tel ég, að hugmyndin um yfirvofandi hamfarir, sem muni þurrka út siðmenninguna, sé hreinlega þvættingur. Sú hugmynd, að þeim fylgi veruleg útgjöld, sem ættu að vera okkur áhyggjuefni, er ekki þvættingur, en ég er ekki viss um, að hún sé rétt. Sé málið skoðað vandlega, er engin ástæða til að gefa sér, að hlýnun sé slæm ... . Og maðurinn býr við mismunandi hitastig, svo að munað getur 20°C. Sé hitakort af jörðinni skoðað og kort, sem sýnir íbúaþéttleikann, þá virðist ósennilegt, að það muni hafa ógnvænleg áhrif, ef meðalhitinn hækkar um 2°C. Síðan, ef raunáhrifin eru skoðuð, þá mun hækkun sjávarmáls hafa neikvæð áhrif, en mjög lítil. Lækkandi pH-gildi hafanna [eða súrnun hafanna] kann að hafa neikvæð áhrif og það veruleg, en við vitum ekki, hversu mikil. Margar lífverur í höfunum eru viðkvæmar fyrir breytingum á sýrustigi hafsins."
Niðurstaða þessa virta fræðimanns stangast alveg á við gasprið í formanni Loftslagsráðs Íslands af grafalvarlegum afleiðingum losunar Íslendinga og annarra á koltvíildi út í andrúmsloftið. Viðráðanlegt verður að verjast hækkun sjávarborðs. Ísland verður gróðursælla með hækkandi hitastigi, landbúnaður braggast og kornræktun ætti að verða auðveldari og geta sparað innflutning fóðurvara. Mesta óvissan er um lífríki sjávar, og þar geta orðið afdrifaríkar breytingar til hins verra fyrir Íslendinga, sem gerir fiskeldi á landi og úti fyrir ströndu enn mikilvægari útflutningsstoð en ella. Líklegt er, að rennsli í ám fari vaxandi og þar með geti raforkuvinnslan vaxið með bættri nýtingu vatnsaflsvirkjana.
"Það teljast líka vera neikvæð áhrif, að fellibyljir séu að verða öflugri. Fækkun fellibylja, sem veikari teljast, eru jákvæð áhrif. Eitt af því, sem fór í taugarnar á mér í samantekt fyrir stefnusmiði í síðustu skýrslu IPCC, er, að þar segir, að öflugri fellibyljir verði hlutfallslega tíðari en veikari. Þ.e.a.s. fellibyljir í flokkum 4 og 5 í samanburði við flokka 1-3. Draga á þá ályktun, að öflugri fellibyljir verði tíðari. Það þarf að lesa skýrsluna til að komast að því, að ástæða þess, að hlutfallið er að hækka er, að veikari fellibyljir eru að verða sjaldgæfari. Ég tel einnig, að öflugri fellibyljir séu að verða dálítið öflugri, og það eru neikvæð áhrif. Á hinn bóginn eru nokkur jákvæð áhrif [af hlýnun]. Koldíoxíð kemur við sögu í ljóstillífun. Sýnt hefur verið fram á áhrifin á uppskeru með mörgum tilraunum. Þannig að í grundvallar atriðum gera spár ráð fyrir, að áhrifun [af hlýnun] á framboð matvæla verði mjög jákvæð."
11.5.2024 | 17:43
Jákvæð þróun laxeldis
Laxeldi í sjókvíum er með minnst kolefnisspor allra eldisaðferða, sem framleiða dýraprótein. Með miklu ofstæki og fjáraustri hefur verið efnt til harðvítugs samblásturs gegn þessari fullkomlega löglegu atvinnugrein, sem sennilega fellur undir stjórnlagagrein um atvinnufrelsi. Svo rammt kveður að þessu, að vart getur verið þar allt með felldu, enda er beitt fullyrðingum, sem eru algerlega út í loftið, t.d. að íslenzku laxastofnarnir séu í þeirri hættu að verða fyrir erfðamengun og verði þess vegna að víkja af búsvæðum sínum fyrir "úrkynjuðum" eldislaxi. Það er alveg nýtt af nálinni, ef sterkari tegund þarf að víkja fyrir veikari tegund, enda skrifa erfðafræðingar Hafrannsóknastofnunar ekki undir þessa kenningu. Þvert á móti. Þeir strika yfir hana.
Íslenzku laxastofnarnir eiga undir högg að sækja, en það á sér allt aðrar skýringar, sem þarf auðvitað að komast til botns í. Ein af aðferðunum til að rétta stofnana af er að setja þá undir vísindalega veiðistjórnun í stað þess að láta græðgi veiðiréttarhafa ráða ferðinni. Rannsaka þarf, hvort veiða og sleppa aðferðin geri illt verra og geti jafnvel í sumum tilvikum flokkazt undir dýraníð.
Það er hér verulegur maðkur í mysunni, enda er engu líkara en verið sé með herferðum að hengja bakara fyrir smið. Með öðrum orðum er auglýsingaherferð og undirskriftasöfnun til að hvetja Alþingi til að leggja niður trausta starfsgrein á Vestfjörðum og Austfjörðum ein risavaxin smjörklípa. Hver fjármagnar þá smjörklípu ?
Í 200 mílum Morgunblaðsins 2. maí 2024 er gerð grein fyrir einni af mörgum endurbótum, sem fyrirtæki í greininni með gæða- og umhverfismetnað til að bera, standa að. Svo vel vill til, að sjókvíaeldið á Íslandi nýtur tæknilegs og markaðslegs stuðnings frá bakhjörlum sínum í Noregi, sem ofstækismenn í hópi sefasýkislegra andstæðinga þessarar starfsemi hafa farið ósvífnum orðum um. Skýtur hatur á erlendu eignarhaldi skökku við úr þeim herbúðum, þar sem í hópi veiðiréttarhafa eru moldríkir, erlendir landeigendur á Íslandi. Allar vestrænar þjóðir fagna erlendri fjárfestingu í atvinnustarfsemi landa sinna, en gagnvart fjárfestingu í landi hafa víða verið settir meiri varnaglar en hér eru við lýði. Ætlar afturhaldið aldrei að láta af órökréttum andróðri sínum gegn beinum erlendum fjárfestingum í atvinnulífinu ?
Verður nú vitnað í téðar 200 mílur:
"Hröð tækniþróun á sér nú stað innan fiskeldis í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem bætt nýting skilar betri umgengni [við] náttúruna og aukinni þjóðhagslegri hagkvæmni. Eitt af merkilegustu verkefnum í þeim efnum eru eru tilraunir í Noregi með samþættingu þararæktunar og laxeldis.
Fóður er einn stærsti kostnaðarliður í laxeldi, og í Noregi fást fyrir hvert kg af fóðri um 0,86 kg af laxi, en þar eru framleidd um 1,3 Mt/ár af laxi. Hér á landi er framleiðslan í kringum 45 kt/ár [3,5 % af norsku framleiðslunni], og má því reikna með, að fóðurþörfin sé [rúmlega] 52 kt/ár.
Framleiðsla fóðurs, rétt eins og í öðrum búskap, krefst hráefnis og orku með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Það er því óæskilegt, að um helmingur [?] næringarefna í laxafóðri glatast og dreifist um nærliggjandi svæði við sjókvíarnar. En hvað, ef það væri hægt að nýta þessi næringarefni í aðra framleiðslu ?
Það er einmitt spurningin, sem norska nýsköpunarfyrirtækið Folla Alger AS leitar nú svara við í samstarfi við rannsóknarfyrirtækið SINTEF [Senter for industriell teknologisk forskning-2200 manna brimbrjótur norskrar tækniþróunar í Þrándheimi], fiskeldisfyrirtækið Cermaq, norska tækniháskólann NTNU [áður NTH-Norsk teknologisk höyskole - innsk. BJo] og Háskóla Norður-Noregs (Nord Universitet)."
Hér er um gríðarlega áhugavert verkefni að ræða, einnig fyrir Íslendinga, sem geta orðið sjálfum sér nógir um framleiðslu dýrafóðurs. Með því að nýta þarann eru slegnar 3 flugur í einu höggi. Botnfall minnkar og hvíldartími eldissvæðisins getur stytzt, við þarasláttinn fæst efniviður í fóðurgerð og kolefnisspor fiskeldisins, sem var lítið, minnkar enn.
"Framleiddur hefur verið þari hér á landi með slætti, en aðeins tilraunir hafa verið gerðar með þararæktun á Íslandi. Nordic Kelp, sem hefur gert tilraunir með ræktun beltisþara í Patreksfirði, hóf tilraunina vegna vaxtar laxeldis á Vestfjörðum með von um, að þarinn mundi draga úr umhverfisáhrifum sjókvíaeldisins. Hafa stofnendur vísað til þess, að þara-, skeldýra og lindýraræktun gæti virkað sem náttúrulegt síukerfi fyrir úrgang, sem fellur til við sjókvíaeldi."
"Reynist svo, að þararæktun geti einnig nýtzt í fóðurgerð, gæti slíkt skapað fjölda möguleika hér á landi, en uppi er áform um að reisa á Íslandi gríðarstóra fóðurverksmiðju fyrir fiskeldi. Hafa Síldarvinnslan og BioMar unnið að því að skipuleggja uppbyggingu fóðurverksmiðju, en Síldarvinnslan er framleiðandi fiskimjöls og lýsis, sem er dýrasta hráefnið í fóðurgerð."
Það virðist sjálfsagt að reikna með ræktuðum þara frá fiskeldinu inn í þessa nýju fóðurverksmiðju, svo og úrgang frá íslenzka matvælaiðnaðinum, ef hann er talinn heppilegur í laxafóður.
"Við þetta bætast tilraunir vísindamanna við tækniháskólann NTNU, sem hafa gert tilraunir með að nýta afskurð og annan afgang, sem fellur til við vinnslu laxafurða í framleiðslu á laxamjöli og -lýsi.
17.4.2024 | 09:52
Vanstilltur fullyrðingaflaumur
"Opið bréf til Alþingismanna frá forystufólki í íslensku þjóðlífi og landeigendum" birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024 undir ábúðarmikilli fyrirsögn:
"Fimm staðreyndir um Ísland".
Þar gat að líta eftirfarandi:
"01 Sjálfsmynd Íslands tengist náttúruauðlindum og legu landsins órjúfanlegum böndum. Þegar horft er til jarðfræðilegs mikilfengleika eldgosa og heitra lauga, stórbrotinna norðurljósa, villts dýralífs og ósnortinnar náttúru, er Ísland einstakt á heimsvísu."
Lönd hafa enga sjálfsímynd. Það er hæpið að alhæfa með þessum síðrómantíska hætti um sjálfsímynd þjóðar, sem orðin er fjölmenningarleg, enda kemur þetta hástemmda náttúrublaður laxeldi í sjó við fáeinar strendur Íslands ekkert við, nema höfundarnir kjósi helzt, að fólkið í landinu verði bara sýningargripir í þjóðgarði fyrir túrhesta af malbiki stórborganna.
"02 Í dag byggir Ísland sjálfstæð þjóð, sem trúir á sjálfsákvörðunarrétt sinn. Íslendingar mótuðust í deiglu sjálfstæðisþrár (sic ! - þráar) og ættu aldrei að láta erlenda hagsmuni ganga í berhögg við sína eigin."
Þetta er algerlega úrelt viðhorf. Aðeins elztu núlifandi frumbyggjar mótuðust af sjálfstæðisþrá. Nú er alþjóða samvinna komin á slíkt stig, að það að etja saman erlendum og innlendum hagsmunum í landi, sem er á Innri markaði Evrópusambandsins, þar sem "frelsin fjögur" eru grundvöllur EES-samningsins, sem Alþingi hefur fullgilt, er fullkomin tímaskekkja. Þarna er verið að bera brigður á erlendar fjárfestingar og gildi þeirra fyrir hagkerfi landsins, sem fjárfest er í. Erlendar fjárfestingar í löglegri atvinnustarfsemi eru alls staðar, nema í Norður-Kóreu og ámóta ríkjum, mikið keppikefli. Þær eru reyndar allt of litlar á Íslandi. Fjárfestingar Norðmanna í sjókvíaeldi við Ísland hafa komið fótunum undir laxeldi í sjó hérlendis, sem á sér brösuglega fortíð, þegar frumkvöðlarnir börðust í bökkum við þetta. Laxeldi í sjó hefur leitt nýtt blómaskeið yfir byggðir Vestfjarða og styrkt byggðir Austfjarða í sessi. Sefasýkislegur atvinnurógur í garð þessarar starfsemi er sorglegur upp á að horfa.
"03 Við hvetjum heimsbyggðina til að sækja okkur heim, njóta gæða landsins og fjárfesta af ábyrgð, fremur en að ganga á auðlindir þessa stórkostlega lands. Við getum ekki látið það viðgangast, að erlend fyrirtæki hagnýti meira af arfleifð okkar og þjóð en þau skila til baka."
Þarna er verið að hvetja til aukinnar ferðamennsku, en í ljósi þess, sem nú er að gerast á Kanaríeyjum, þar sem ferðamennskan er yfirþyrmandi og hefur leitt til fátæktar frumbyggjanna, sem reyna að lifa á sínum hefðbundnu atvinnugreinum. Það er með öllu ósannað og verður að telja til ósanninda, að sjókvíaeldið gangi á auðlindir Íslands. Landeigendur og veiðiréttarhafar ættu að líta sér nær varðandi mikla fækkun villtra laxa í íslenzkum ám. Miðað við veiðiálagið og viðmiðanir vísindamanna um sjálfbært veiðiálag í íslenzkri lögsögu á sér stað rányrkja úr íslenzkum ám, en ástandinu er reynt að klína á sjókvíaeldið, sem er einfaldlega algerlega úr lausu lofti gripið og virðist vera ein rándýr smjörklípa. Það er tímabært, að Alþingi fjalli um að setja nytjar dýralífs í ám á Íslandi undir vísindalega stjórnun Hafrannsóknastofnunar.
"04 Hagkerfi eyríkis á borð við okkar þarfnast þess að hugsa og skipuleggja langt fram í tímann. Auðlindir eru alls staðar dýrmætar, en eyþjóð verður að standa dyggan vörð um þær, sem hún sjálf býr yfir.
Þetta er skrýtinn texti. Hagkerfi hvorki hugsa né skipuleggja. Þurfa ekki jafnvel fjölskyldur að hugleiða framtíðina og skipuleggja langt fram í tímann ? Þarna virðist vera reynt að segja, að eyþjóð þurfi að standa dyggari vörð um auðlindir sínar en aðrar þjóðir. Engin rök eru færð fyrir því, bara fullyrt. Það er í anda þeirra smjörklípumanna, sem ofsækja sjókvíaeldi hér við land og kenna því um ófarir sínar. Þarna á við hin kristna speki. Þú sérð flísina í auga samferðarmanns þíns, en ekki bjálkann í eigin auga.
Það hefði verið eðlilegra og nærtækara áður en vaðið var fram með órökstuddum fullyrðingum, svívirðingum og dylgjum, í garð heillar atvinnugreinar, að þau sem hér eiga í hlut mundu hafa gert mótvægisáætlun við hraða hnignun villtra laxastofna í ám Íslands, sem fæli í sér stórfelldan niðurskurð eða jafnvel friðun stofnanna, þar til þeir næðu sér á strik að nýju. Ofstækið, sem felst í eftirfarandi málsgrein þeirra, er ekki aðeins forkastanlegt, heldur kann að vera brot á stjórnarskrárreglu um atvinnufrelsi á Íslandi:
"Við biðlum því til Alþingismanna okkar og ráðherra að vinna að því að draga úr og stöðva að lokum sjókvíaeldi."
Það hafa engin haldbær rök og gögn verið lögð fram, sem réttlæta mundu frekleg og rándýr stjórnvaldsinngrip af þessu tagi langt úr meðalhófi fram og án viðeigandi rannsóknarniðurstaðna, sem væru einstæð í sögunni og mundu draga dilk á eftir sér um langa framtíð. Það lýsir dómgreindarleysi að senda þvílíka beiðni frá sér. Ef flugufótur væri fyrir hrikalegum ásökunum hópsins, sem að þessari öfugsnúnu herferð stendur gegn lögbundinni atvinnustarfsemi í landinu, þá væru starfsmenn eftirlits- og ráðgjafarstofnana ríkisins, sem komið hafa að leyfisveitingum, eftirliti og ráðgjöf með þessari starfsemi, með öllu óhæfir og ekki starfi sínu vaxnir. Það er fásinna að halda slíku fram og jafgildir atvinnurógi. Þetta er mjög ljótt mál.
28.3.2024 | 14:03
Vatnsdalsvirkjun er upplagður kostur Vestfirðinga
Það er þekktara en frá þurfi að greina, að Vestfirðingar njóta sýnu lakasta aðbúnaðarins í orkumálum hérlendis. Þar er fyrst til að taka, að afar takmarkaðan jarðhita er þar að finna, þótt volgrur séu þar vel þekktar að fornu og nýju. Til að leysa úr upphitunarþörf húsnæðis, hafa verið settir upp rafskautakatlar og samið við ríkisfyrirtækið Landsvirkjun um kaup á ótryggðri orku til að knýja þessa katla. Til vara eru þá olíukyntir katlar. Samfélagsskyldur eru svo lágt skrifaðar á þeim bæ, að iðulega er fyrst "klippt á" þessa orkusölu að hausti, þegar orkuforði miðlunarlóna er í hættu að lenda undir lágmarki síðla vetrar.
Hugmyndir Orkubús Vestfjarða til úrbóta eru að setja upp varmadælur og kaupa forgangsorku inn á þær (raforkuþörf minnkar um 2/3 að öðru óbeyttu), en einnig að freista þess að finna meiri nýtanlegan jarðvarma.
Raforkukerfi Vestfjarða hefur sinn Akkilesarhæl, sem annars staðar á landinu er ekki lengur að finna. Hann er fólginn í einni viðkvæmri stakri tengingu við stofnkerfi landsins, en annars staðar eru þær a.m.k. 2. Hún er viðkvæm, því að veðurfarsleg áraun er mikil, stormviðri, ísing, selta, snjóþyngsli. 66 kV flutningskerfi Landsnets og dreifikerfi Orkubúsins er enn að miklu leyti ofanjarðar og að sama skapi bilunargjarnt.
Þótt talsverðar vatnsorkulindir sé að finna á Vestfjörðum, stendur raforkuvinnsla ekki undir eftirspurninni, sem fer hratt vaxandi. Af þessum ástæðum er einboðið að virkja meira á Vestfjörðum, en með glórulausu ofstæki hefur þröngsýnispúkum tekizt að tefja eða hindra það með þeim afleiðingum, að umhverfið geldur fyrir með olíubrennslu til raforkuvinnslu, og fólk og fyrirtæki geldur fyrir minnsta afhendingaröryggi raforku á landinu.
Orkubúið undir traustri forystu Orkubússtjórans hefur reynt að þoka áfram framfaramálum við takmarkaðar undirtektir Alþingismanna kjördæmisins, að því er virðist, og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra virðist þjakaður af dauðyflishætti, þegar kemur að því að bregðast við óskum Vestfirðinga um úrbætur í orkumálum. Þann 27. febrúar 2024 birtist ágæt og fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Elías Jónatansson, Orkubússtjóra, undir fyrirsögninni:
"Vatnsdalsvirkjun þarf að komast í umfjöllun í rammaáætlun".
Hún hófst þannig:
"Orkubú Vestfjarða óskaði eftir því fyrir u.þ.b. ári, að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra breytti reglum um friðlandið í Vatnsfirði í Vesturbyggð, þannig að unnt sé að taka Vatnsdalsvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun og bera saman við aðra kosti. Orkubúið lagði síðan fram greinargerð í haust, sem unnin var af VSÓ Ráðgjöf, um möguleg umhverfisáhrif af slíkri framkvæmd. Umsagnir bárust frá 12 aðilum, fagstofnunum, samtökum og einstaklingum, auk umsagnar frá Vesturbyggð.
VSÓ hefur í samráði við OV dregið saman aðalatriði umsagnanna og viðbrögð við þeim á minnisblaði, sem nú hefur veið sent ráðuneytinu. Meginviðfangsefnin snúa að birkiskógum, óbyggðum víðernum, vatnamálum, samfélagsþáttum og valkostum auk óvissu um umhverfisáhrif."
Mótbárurnar við þessari virkjun eru á gamalþekktum nótum úr smiðju staurblinds afturhalds án sýnar á heildarhagsmuni landsins. Að fetta fingur út í, að 0,2 % af birkitrjám friðlandsins raskist, sýnir algera málefnafátækt. Í nafni þess, að betra sé að veifa röngu tré en öngvu, er því haldið fram, að áhrif virkjunarinnar verði einkum neikvæð á víðerni Glámusvæðisims. Þó verða engar framkvæmdir vegna Vatnsdalsvirkjunar innan óbyggðra víðerna, en miðlunarlón verður þó innan þeirra, sem mun bara verða til bóta fyrir grunnvatnsstöðu svæðisins. Áhrifasvæði vatnsmiðlunarinnar nema þó aðeins 0,4 % af óbyggðum víðernum Vestfjarða og 0,03 % á landsvísu, sem sýnir, hvers konar smælki er reynt að tína til í tilraun til að fella þessa ágætu virkjunarhugmynd.
Samfélagslegir hagsmunir fá ekkert vægi í þessum athugasemdum, en hlutlægt mat leiðir auðveldlega í ljós, að mikilvægi þeirra er margfalt á við sparðatíninginn á móti.
"Á fyrrnefndu minnisblaði til ráðherra er lagður fram stuttur samanburður Orkubúsins við Tröllárvirkjun (13,7 MW), virkjunarkost, sem einnig er á Glámuhálendinu og hefur verið settur í nýtingarflokk í tillögu að rammaáætlun 4. Í þeim samanburði kemur fram, að margt bendi til þess, að umhverfisáhrif vegna virkjunar í Vatnsdal séu minni en umhverfisáhrif Tröllárvirkjunar, auk þess sem virkjun í Vatnsdal er hagkvæmari og staðsetning ákjósanlegri varðandi tengingar.
Til frekari skýringar þá yrði Vatnsdalsvirkjun tengd með 20 km flutningsleið í landi ríkisins og Orkubúsins beint í tengivirki Landsnets í Mjólká. Tengingin væri því óháð núverandi Vesturlínu, sem er 45 ára gömul. Tröllárvirkjun yrði hins vegar tengd við Vesturlínu, bæði vegna smæðar sinnar og meiri fjarlægðar frá tengivirkinu í Mjólká, og afhendingaröryggið yrði því minna. Þá er ósamið um land- og vatnsréttindi Tröllárvikjunar, sem eru í einkaeigu. Vatnsréttindi í Vatnsdal eru hins vegar í eigu ríkisins.
Allir aðrir virkjunarkostir á Vestfjörðum yfir 20 MW eru í mun meiri fjarlægð frá tengivirkinu í Mjólká eða u.þ.b. 100 km."
Þessi stutti samanburður virkjunarkosta á Vestfjörðum gefur glöggum lesanda ótvírætt til kynna ("som den observante læser umiddelbart ser"), hvaða virkjun er æskilegast að ráðast næst í á Vestfjörðum. Hvers vegna heyrist ekki múkk frá orkuráðherranum ? Orkubússtjórinn hefur enga sögu að segja af þessum ráðherra. Sá hefur ekki getið sér orð fyrir glöggskyggni, en hans pólitíska nef, sem er engin smásmíði, ætti að segja honum, að með því að taka þessa málaleitan Okubús Vestfjarða upp á arma sér, gæti hann markað spor í sandinn og slegið nokkrar flugur í einu höggi.
Að lokum reit Orkubússtjórinn:
"Orkubú Vestfjarða telur það vera grundvallar atriði að bera Vatnsdalsvirkjun saman við aðra kosti, sem eru í rammaáætlun, til þess að taka upplýsta ákvörðun, sem hentar hagsmunum Vestfjarða bezt.
Ákvörðun um að bera áform um Vatnsdalsvirkjun saman við aðra virkjunarkosti felur ekki í sér ákvörðun um virkjun.
Sú náttúruvá, sem að steðjar á Íslandi um þessar mundir, hlýtur enn fremur að leiða til þess, að hugað verði fekar að minni og dreifðari virkjunarkostum, utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða, eins og Vatnsdalsvirkjun."
Allt er þetta hárrétt athugað hjá Orkubússtjóranum. Æðstu yfirvöld orkumála verða sér til stórfelldrar minnkunar, ef þau reka ekki af sér slyðruorðið og taka rökstudda afstöðu með þessari tillögu Orkubús Vestfjarða, sem hér var gerð að umfjöllunaefni.
22.2.2024 | 18:06
Orð af viti frá þingflokksformanni
Þingflokksformaður Framsóknarflokksins rekur í stuttu og lauslegu máli umræður á þingi að hennar frumkvæði um orkumál í Morgunblaðsgrein 27. janúar 2024 undir fyrirsögninni:
"Orkumál í stóra samhenginu"
Ingibjörg Ísaksen lýkur grein sinni með eftirfarandi rökréttu ályktun:
"Niðurstaðan hlýtur að vera sú, að aukin virkjun og framleiðsla á raforku ásamt betra dreifikerfi [og flutningskerfi - innsk. BJo] þjóni hagsmunum okkar allra í stóra samhenginu."
Afturgöngurnar, sem iðka það að setja sig á háan hest, afneita staðreyndum, berja hausnum við steininn, og kasta fram fullyrðingum út í loftið, komu lítillega við sögu hjá Ingibjörgu:
"Þátt fyrir að sérfræðingar innan orkuiðnaðarins hafi lengi bent á aukna orkuþöf þjóðarinnar og yfirvofandi orkuskort hér á landi, þá eru greinilega aðilar, sem enn eru ekki sannfærðir um vandann.
Eftirspurn eftir raforku hér á landi er orðin meiri en framboð, og samfélagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili. Æ oftar gerist það, að fyrirtæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda daglegri starfsemi sinni gangandi í samræmi við samninga vegna ótryggðrar orku, sem mikilvægir eru til að fullnýta kerfið. Í þessu felst kostnaður fyrir okkur öll ásamt þeim neikvæðu umhverfisáhrifum, sem slík brennsla hefur í för með sér."
Þeir, sem stinga hausnum í sandinn og afneita borðleggjandi staðreyndum um orkuskort, eru hinir sömu og enn þvælast fyrir öllum raunhæfum úrræðum til úrlausnar. Ingibjörg nefnir hér ekki þingflokk vinstri grænna, þótt þar séu "the usual suspects", en fleiri furðufugla af þessu tagi hefur flotið á fjörur Alþingis og sitja þar nú mörgum til ama.
Þessi hegðun heitir vanræksla, og hafa stjórnmálamenn hlotið dóm fyrir slíka synd gegn þjóðarhagsmunum. Nú gangast menn upp í því að vanrækja skyldur sínar og bera fyrir sig heimskuvaðal á borð við, að "náttúran verði að njóta vafans". Embættismenn margir hverjir eru lítt skárri, og mætti þar nefna Orkustofnun sem dæmi, en núverandi gagnsleysi þeirrar stofnunar fyrir fólkið í landinu hefur birzt í atburðum tengdum jarðeldunum á Suðurnesjum.
"Þó svo að heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki, verði að mestu óhult, ef til skömmtunar á raforku kemur, þá þurfum við að horfa á stóru myndina. Ef við öflum ekki meiri raforku og dreifum henni á sem beztan máta, þá mun það hafa talsverð áhrif á atvinnulíf hér á landi. Stórnotendur raforkunnar okkar bera þungann af skerðingum á raforku. Um er að ræða þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, sem skila samfélaginu talsverðum útflutningstekjum, og það kom nokkuð á óvart, að talsmenn sumra flokka á Alþingi hefðu takmarkaðar áhyggjur af því, að slíkar skerðingar eigi sér stað í rekstri þeirra með tilheyrandi áhrifum á vöru þeirra og þjónustu."
Það eru sósíalistísk viðhorf að hafa horn í síðu fyrirtækja og leggja jafnvel heilar atvinnugreinar í einelti. Þannig hefur viðhorf sósíalista hérlendis frá upphafi stóriðju á Íslandi mótazt af fordómum og fávizku, þótt þeir viti varla lengur ástæðurnar. Nú eru oft tilfærðar umhverfisástæður, sem er út í hött, því að eins og fyrrverandi Orkumálastjóri, Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðingur, þreyttist ekki á að benda á, t.d. í blaðagreinum, leggur engin hérlend atvinnugrein jafnmikið að mörkum til lofslagsmála á heimsvísu og málmiðjuverin.
Ingibjörg Ísaksen hefur með þessarri blaðagrein sýnt, að hún hefur sig upp fyrir lágkúruna á Alþingi, og gæti hæglega farizt stjórn á ráðuneyti vel úr hendi.
"Þegar öllu er á botninn hvolft, þá verðum við að ákveða í hvernig [hvers konar] samfélagi við viljum búa. Viljum við takmarka orku fyrir stórnotendur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raforkukosti í sínum rekstri, eða viljum við tryggja, að stór og stöndug fyrirtæki hafi nægjanlega orku fyrir hendi til að skapa útflutningstekjur, sem skila sér til framkvæmda á mikilvægum innviðum og í velferð samfélagsins ? Hér er átt við öflug fyrirtæki, sem flokkast sem stórnotendur og bjóða upp á haldbærar vörur og/eða þjónustu. Hér þufum við að gera greinarmun á milli slíkra fyrirtækja og annarra stórnotenda á borð við rafmyntagröft, en ekki setja alla stórnotendur undir sama hatt."
Þarna sýnir Inibjörg góðan skilning á þjóðhagslegu mikilvægi orkukræfrar starfsemi með langtíma samninga um raforkukaup, fjöldann allan af fjölbreytilegu vel launuðu starfsfólki í vinnu og mikla og vaxandi verðmætasköpun með aukinni sérhæfingu.
16.2.2024 | 18:21
Afkáraleg staða orkumála hérlendis
Sjálfskaparvítin eru verst. Íslendingum hefur borið gæfa til að nýta hluta endurnýjanlegra og nánast kolefnisfrírra orkulinda landsins til að knýja atvinnulífið að töluverðu leyti og til heimilishalds og húsnæðisupphitunar að nánast öllu leyti. Um 15 % heildarorkunotkunarinnar er enn með jarðefnaeldsneyti og fer jafnvel vaxandi þessi misserin vegna öfugsnúinnar andstöðu sérvitringa (jaðarhópa (borderline)), sem í ótrúlegri forheimskun hafa undanfarin ár lagzt gegn nánast öllum virkjunum yfir 10 MW að stærð og uppsetningu burðugra (220 kV) flutningslína á milli landshluta, sem ætlað er að auka afhendingaröryggi raforku í öllum landshlutum, draga úr orkutöpum á leiðinni og bæta nýtingu uppsafnanlegs vatns miðlunarlónanna.
Við höfum alla burði og tæknilega möguleika á að halda áfram að skjóta stoðum undir atvinnulíf og efnahagslíf landsins með því að hefja framkvæmdir af krafti við virkjanir og línur. Það er nóg til af óvirkjaðri orku fyrir landsmenn um fyrirsjáanlega framtíð. Téðir sérvitringar eiga bakhjarla á Alþingi, bæði á meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, og geta þess vegna enn flækzt fyrir framfaramálum, á meðan hinir taka sig ekki saman í andlitinu og setja þeim stólinn fyrir dyrnar að fremja óhæfuverk sín á framfarasókninni til "grænnar" orkuframtíðar. Stjórnmálamenn láta eins og þeir komi af fjöllum um orkuskortinn, og þeir forhertustu afneita honum. Þegar kemur að lausnum, sem duga, vappa þeir eins og kettir í kringum heitan graut.
Þann 27. janúar 2024 skrifaði vanur maður úr atvinnulífinu, fyrrum stórnotandi raforku og nú framleiðandi raforku, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, fróðlega grein í Morgunblaðið um skrýtna stöðu orkumálanna hérlendis undir fyrirsögninni:
"Baráttan um skortinn":
"Fyrsta útgáfa frumvarpsins [atvinnuveganefndar um heimildir til að bregðast við raforkuskorti - innsk. BJo] var gölluð. Þar var í stuttu máli kveðið á um, að í orkuskorti kæmi það nær alfarið í hlut annarra raforkuframleiðenda en Landsvirkjunar að mæta eftirspurn umfram spár á almennum markaði. Þessir framleiðendur eru HS Orka og ON. Um 60 % af allri raforkuframleiðslu landsins, sem Landsvirkjun beinir til stórnotenda, væru stikkfrí.
Þetta er ósanngjarnt,eins og lesa mátti úr flestum umsögnum, sem bárust um frumvarpið. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins segir t.a.m.: "Með hliðsjón af öllu famangreindu mælir Samkeppniseftirlitið gegn því, að fyrirliggjandi frumvarp verði óbreytt að lögum. Á þessu stigi málsins telur eftirlitið, að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, sé til þess fallið að styrkja stöðu Landsvirkjunar á kostnað minni keppinauta og vinna gegn samkeppni."
Frumvarpsdrögin komu úr Orkustofnun, en handrit hefur greinilega borizt henni frá forstjóra Landsvirkjunar, sem ekki hefur aukið hróður sinn með opinberri framgöngu sinni í þessu skortsmáli, sem hefur verið raunaleg og lítt sæmandi þeirri stöðu. Í a.m.k. eldri samningum við stórnotendur er kveðið á um, að í "force majeure" ástandi, þ.e. þegar glímt er við afleiðingar óviðráðanlegra afla, megi skerða umsamda forgangsorku til þeirra hlutfallslega jafnmikið og til almenningsveitna. Hinn lögfræðilegi vandi nú er, að raforkuskorturinn stafar af stjórnendamistökum og vanrækslu, sem ekki er sambærilegt við bilanir í búnaði eða náttúruhamfarir.
"Atvinnuveganefnd áttaði sig á vanköntunum, og fumvarpið tók góðum breytingum við 2. umræðu í þinginu. Málinu var samt frestað fram yfir áramót. Þá "var ljóst, að innan Landsvirkjunar væri vilji til að vinna að farsælli niðurstöðu, þar sem tekið yrði mið af skyldum Landsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi", eins og sagði í fréttum (mbl.is, 17.12.2023, "Afgreiðslu raforkufrumvarps festað").
Fljótlega kvað þó aftur við fyrri tón hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem talaði á ný fyrir fyrstu útgáfu frumvarpsins og tók í greinaskrifum og viðtölum að gefa í skyn "leka á milli markaða". Ráðizt var á undirritaðan og HS Orku með dylgjum og samfelldum rangfærslum í grein á visir.is, sem ekki verður setið undir."
Er of mikið að líkja Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, við fíl í postulínsbúð ? Þegar hann fær ekki yfirgangssömum vilja sínum famgengt við þingmenn, eins og við ósjálfstæða embættismenn, þá trompast hann og ber á borð þvætting og skæting í fjölmiðlum. Þessi hegðun er óeðlileg og óvenjuleg í orkugeiranum, þar sem yfirleitt sitja prúðmenni á fleti fyrir. Það er heilbrigðismerki á geiranum, að ofstopanum í forstjóra langstærsta orkufyrirtækisins skuli vera andæft og fjarstæðum hans sópað út í hafsauga.
"Enginn efast um, að orka sé orðin af skornum skammti hér á landi. Óskilvirkt leyfisveitingaferli er farið að bíta í, bæði hvað varðar virkjanir og flutningskerfi. Landsvirkjun á ekki ein að gegna því hlutverki að sinna orkuöryggi. Þvert á móti er verið að leggja til, að farið sé eftir tillögum tveggja vinnuhópa, sem hafa unnið að málinu í umboði stjórnvalda. Þar er bent á ýmsar leiðir og til þrautavara, að allir framleiðendur leggi til orku jafnt og í hlutfalli við heildarframleiðslu. Sem betur fer tók atvinnuveganefnd þá vinnu til greina og breytti frumvarpinu til samræmis. Landsvirkjun getur ekki haldið því fram, að sú útfærsla leggi fyrirtækinu óvæntar skyldur á herðar, því [að] fyrirtækið tók fullan þátt í vinnu ofangreindra vinnuhópa."
Í fyrstu málsgreininni horfir höfundurinn fram hjá sérvitringahópinum, sem grafið hefur svo undan orkugeiranum íslenzka, að hann er núna ófær um að fullnægja raforkumarkaðinum með þeim afleiðingum, að olíu er brennt í verksmiðjum, þar sem rafmagn væri notað, væri það fáanlegt.
Segja má, að Tryggvi Felixson, hagfræðingur og fyrrverandi formaður Landverndar, hefur löngum verið talsmaður þessa hóps. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 1. febrúar 2024 með yfirskriftinni:
"Yfirvegun eða óðagot í orkumálum":
"Af famangreindum tölum verður ekki annað séð en viðunandi jafnvægi sé fram undan í raforkumálum. Horfurnar í frekari orkuöflun og bættri nýtni eru ágætar. Aldrei verður hægt að útiloka tímabundnar þrengingar vegna lélegra vatnsára. Yfirdrifnar yfirlýsingar, sem fram hafa komið um, að allt sé hér á vonarvöl í raforkumálum eru einmitt það, yfirdrifnar. M.v. flestar aðrar þjóðir mætti segja, að við séum að drukkna í raforku. Að láta sér ekkert detta í hug annað en að virkja endalaust til að greiða úr meintum orkuskorti kann ekki góðri lukku að stýra. M.a. er nauðsynlegt að skoða þjóðhagslega hagkvæmni þess að nýta þá orku, sem losnar, þegar samningar við núverandi stórkaupendur renna út, til nýrri og aðkallandi verkefna í orkuskiptum."
Þarna skrifar einn af beturvitum afurhaldsins í landinu um orkumálin. Eins og hans nótar eru vanir að gera, setur hann sig á háan hest, gefur skít í áhyggjur og viðvörunarorð kunnáttumanna um orkumálin og skrifar um "meintan" orkuskort. Hann er sem sagt ímyndun starfsmanna í orkugeiranum, Samorku, Samtaka iðnaðarins og ýmissa ráðgjafa, sem gerzt þekkja þessi mál. Þá mætti spyrja forráðamenn hins glæsilega hornfirzka félags Skinneyjar-Þinganess, sem ekki fengu keypta forgangsorku á markaðinum í vetur fyrir rafskautaketil sinn og urðu með hraði að kaupa og setja upp olíukyndingu fyrir bræðsluofn sinn.
Hvernig stendur á því, að gapuxar af ólíku tagi telja, að þeir komist upp með það að hefja sig upp fyrir menntaða og virta sérfræðinga og halda því fram, að svart sé hvítt ? Þetta loðir dálítið við hér, en ætli þeir séu ekki komnir út í skurð nú, sem helzt vilja loka stærstu iðjuverum landsins ? Þetta vesalings fólk skortir allt sögulegt samhengi, er blautt á bak við bæði eyrun. Það áttar sig ekki á, að stórsala til iðjuvera myndaði grundvöll að rafvæðingu landsins hinni síðari og samtengingu landshlutanna í eitt orkusvæði.
29.1.2024 | 10:18
Hrista verður upp í leyfismálum orkuframkvæmda
Svandís Svavarsdóttir er algerlega ótækur ráðherra vegna dómgreindarbrests og einstefnu í öllum málum, sem hún kemur nálægt. Henni er fyrirmunað að vega og meta kosti og galla ráðstafana, sem henni þóknast að framkvæma, og að gæta lögmætis er ofar hennar skilningi. Hún sýndi á spilin sín (eintómir hundar), á meðan "fyrsta tæra vinstri stjórnin" sat hér að völdum, slæmrar minningar, en þá fór hún með umhverfismál og sveitarstjórnarmál. Ef rétt er munað, setti hún af stað eiturherferð gegn lúpínunni í Esjunni. Umhverfisvernd þeirrar aðgerðar er dæmigerð fyrir téða Svandísi. Viðkvæði hennar var fádæma heimskulegt: "náttúran verður að njóta vafans".
Í febrúar 2010 synjaði Svandís, umhverfis- og sveitarstjórnarráðherra, viðkomandi sveitarstjórnum um að staðfesta skipulagsbreytingar, sem fólu sér að taka tillit til virkjana í Neðri-Þjórsá. Þá eins og nú hengdi hún hatt sinn á atriði, sem kom málinu ekki við. Í september 2010 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur, að synjunin ætti sér enga lagstoð. Svandís virðist lifa í hliðarveruleika og ekki kæra sig um að setja sig inn í raunverulegar aðstæður. Hún skilur aldrei valdmörk sín, sem gerir hana að ómögulegum stjórnanda í lýðræðikommúnistaflokkarssamfélagi, en var ekki tiltökumál, þar sem réðu ferðinni.
Viðbrög hennar við þessum dómi benda til siðblindu, því að hún yppti bara öxlum og sagðist vera í pólitík. Þau orð hennar útskýra ýmislegt. Hún veður áfram beint af augum, þegar andskotinn kemur því inn hjá henni að fara nú að framkvæma pólitík vinstri grænna.
Svandísi má líkja við geimveru, sem ekur út í borgarumferð án þess að kynna sér, hvaða umferðarreglur eru í gildi. Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu Katrínar Jakobsdóttur að fela téðri Svandísi ítrekað ráðherraembætti m.v. frammistöðu hennar.
Stefán Einar Stefánsson átti viðtal við Ingibjörgu Ísaksen og Brynjar Níelsson um stjórnmálaviðhorfið, og birtist úrdráttur í Morgunblaðinu 6. janúar 2024 undir fyrirsögninni:
"Vilja lög til að ýta við virkjunum".
Úrdrátturinn hófst þannig:
""Þetta er orðið þjóðaröryggismál [...]; það þarf lagasetningu. Þess veggna er kannski líka ákall um, að ráðherrann leggi fram mál, sem tengjast þessu."
Svofelldum orðum fer Ingibjörg Ísaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, um þá stöðu, sem upp er komin í orkumálum þjóðarinnar. Hún segist bíða eftir frumvörpum frá umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra, sem greiða muni götu mála, sem tryggt geti, að frekari orkuöflun geti átt sér stað.
Bendir hún á, að langt hafi verið gengið í friðlýsingu stórra vatnasvæða, ekki sízt á tímum vinstri stjórnarinnar, sem sat á árunum 2009-2013, og að ráðherra þurfi að ráðast í að aflétta þeim miklu takmörkunum, sem settar voru á orkuöflun á þeim svæðum."
Það er löngu fullreynt, að núverandi orkuráðherra hefur ekkert bein í nefinu og enga burði til að vinda ofan af fíflagangi Svandísar Svavarsdóttur sem umhverfisráðherra í téðri alræmdu vinstri stjórn. Það þarf að stokka upp í stjórnarráðinu til að afnema þjóðhættulega stöðnun þar og herfileg mistök (Svandís). Binda má vonir við, Ingibjörg Ísaksen eða hennar líkar komi orkuöflun og nýrri Byggðalínu (220 kV) á ásættanlegan rekspöl. Það er rétt hjá Ingibjögu, að staðan er því miður svo alvarleg, að ný sérlög um þetta eru nauðsynleg.
"Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa verið gegnrýninn á ráðherra málaflokksins fyrir, að ekki hafi verið nóg að gert. Hann telur þó einsýnt, að þingmenn VG muni standa í vegi fyrir því, að hægt verði að hefja framkvæmdir við nýjar virkjanir í landinu.
Á sama tíma segir hann ekki tímabært að tala um stjórnarslit vegna þessa máls eða annarra. Telur hann hæfilegt að veita VG tímafrest fram á vorið til þess að sýna á spilin. Þá þurfi samstarfsflokkarnir að hafa fullvissu fyrir því, að kyrrstaða í þessum málaflokki verði rofin, auk þess sem tekizt verði á við stór álitamál, sem m.a. tengist útlendingamálum."
Hvernig datt mönnum það í hug fyrir 2 árum að halda þessu stjórnarsamstarfi áfram án þess að rjúfa kyrrstöðuna þá ? Það bendir ekkert til, að afturhaldið í VG verði skárra viðureignar í vor. Þessi ríkisstjórn er komin á leiðarenda. Það er ekki hægt að gera neitt af viti með litla siðspillta klíku innanborðs, sem sér ekkert athugavert við það, að ráðherra úr þeirra röðum taki lögin í sínar hendur, sýni síðan enga iðrun, en sé með hortugheit, þegar hún er staðin að verki.