Færsluflokkur: Umhverfismál
22.2.2024 | 18:06
Orð af viti frá þingflokksformanni
Þingflokksformaður Framsóknarflokksins rekur í stuttu og lauslegu máli umræður á þingi að hennar frumkvæði um orkumál í Morgunblaðsgrein 27. janúar 2024 undir fyrirsögninni:
"Orkumál í stóra samhenginu"
Ingibjörg Ísaksen lýkur grein sinni með eftirfarandi rökréttu ályktun:
"Niðurstaðan hlýtur að vera sú, að aukin virkjun og framleiðsla á raforku ásamt betra dreifikerfi [og flutningskerfi - innsk. BJo] þjóni hagsmunum okkar allra í stóra samhenginu."
Afturgöngurnar, sem iðka það að setja sig á háan hest, afneita staðreyndum, berja hausnum við steininn, og kasta fram fullyrðingum út í loftið, komu lítillega við sögu hjá Ingibjörgu:
"Þátt fyrir að sérfræðingar innan orkuiðnaðarins hafi lengi bent á aukna orkuþöf þjóðarinnar og yfirvofandi orkuskort hér á landi, þá eru greinilega aðilar, sem enn eru ekki sannfærðir um vandann.
Eftirspurn eftir raforku hér á landi er orðin meiri en framboð, og samfélagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili. Æ oftar gerist það, að fyrirtæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda daglegri starfsemi sinni gangandi í samræmi við samninga vegna ótryggðrar orku, sem mikilvægir eru til að fullnýta kerfið. Í þessu felst kostnaður fyrir okkur öll ásamt þeim neikvæðu umhverfisáhrifum, sem slík brennsla hefur í för með sér."
Þeir, sem stinga hausnum í sandinn og afneita borðleggjandi staðreyndum um orkuskort, eru hinir sömu og enn þvælast fyrir öllum raunhæfum úrræðum til úrlausnar. Ingibjörg nefnir hér ekki þingflokk vinstri grænna, þótt þar séu "the usual suspects", en fleiri furðufugla af þessu tagi hefur flotið á fjörur Alþingis og sitja þar nú mörgum til ama.
Þessi hegðun heitir vanræksla, og hafa stjórnmálamenn hlotið dóm fyrir slíka synd gegn þjóðarhagsmunum. Nú gangast menn upp í því að vanrækja skyldur sínar og bera fyrir sig heimskuvaðal á borð við, að "náttúran verði að njóta vafans". Embættismenn margir hverjir eru lítt skárri, og mætti þar nefna Orkustofnun sem dæmi, en núverandi gagnsleysi þeirrar stofnunar fyrir fólkið í landinu hefur birzt í atburðum tengdum jarðeldunum á Suðurnesjum.
"Þó svo að heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki, verði að mestu óhult, ef til skömmtunar á raforku kemur, þá þurfum við að horfa á stóru myndina. Ef við öflum ekki meiri raforku og dreifum henni á sem beztan máta, þá mun það hafa talsverð áhrif á atvinnulíf hér á landi. Stórnotendur raforkunnar okkar bera þungann af skerðingum á raforku. Um er að ræða þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, sem skila samfélaginu talsverðum útflutningstekjum, og það kom nokkuð á óvart, að talsmenn sumra flokka á Alþingi hefðu takmarkaðar áhyggjur af því, að slíkar skerðingar eigi sér stað í rekstri þeirra með tilheyrandi áhrifum á vöru þeirra og þjónustu."
Það eru sósíalistísk viðhorf að hafa horn í síðu fyrirtækja og leggja jafnvel heilar atvinnugreinar í einelti. Þannig hefur viðhorf sósíalista hérlendis frá upphafi stóriðju á Íslandi mótazt af fordómum og fávizku, þótt þeir viti varla lengur ástæðurnar. Nú eru oft tilfærðar umhverfisástæður, sem er út í hött, því að eins og fyrrverandi Orkumálastjóri, Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðingur, þreyttist ekki á að benda á, t.d. í blaðagreinum, leggur engin hérlend atvinnugrein jafnmikið að mörkum til lofslagsmála á heimsvísu og málmiðjuverin.
Ingibjörg Ísaksen hefur með þessarri blaðagrein sýnt, að hún hefur sig upp fyrir lágkúruna á Alþingi, og gæti hæglega farizt stjórn á ráðuneyti vel úr hendi.
"Þegar öllu er á botninn hvolft, þá verðum við að ákveða í hvernig [hvers konar] samfélagi við viljum búa. Viljum við takmarka orku fyrir stórnotendur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raforkukosti í sínum rekstri, eða viljum við tryggja, að stór og stöndug fyrirtæki hafi nægjanlega orku fyrir hendi til að skapa útflutningstekjur, sem skila sér til framkvæmda á mikilvægum innviðum og í velferð samfélagsins ? Hér er átt við öflug fyrirtæki, sem flokkast sem stórnotendur og bjóða upp á haldbærar vörur og/eða þjónustu. Hér þufum við að gera greinarmun á milli slíkra fyrirtækja og annarra stórnotenda á borð við rafmyntagröft, en ekki setja alla stórnotendur undir sama hatt."
Þarna sýnir Inibjörg góðan skilning á þjóðhagslegu mikilvægi orkukræfrar starfsemi með langtíma samninga um raforkukaup, fjöldann allan af fjölbreytilegu vel launuðu starfsfólki í vinnu og mikla og vaxandi verðmætasköpun með aukinni sérhæfingu.
16.2.2024 | 18:21
Afkáraleg staða orkumála hérlendis
Sjálfskaparvítin eru verst. Íslendingum hefur borið gæfa til að nýta hluta endurnýjanlegra og nánast kolefnisfrírra orkulinda landsins til að knýja atvinnulífið að töluverðu leyti og til heimilishalds og húsnæðisupphitunar að nánast öllu leyti. Um 15 % heildarorkunotkunarinnar er enn með jarðefnaeldsneyti og fer jafnvel vaxandi þessi misserin vegna öfugsnúinnar andstöðu sérvitringa (jaðarhópa (borderline)), sem í ótrúlegri forheimskun hafa undanfarin ár lagzt gegn nánast öllum virkjunum yfir 10 MW að stærð og uppsetningu burðugra (220 kV) flutningslína á milli landshluta, sem ætlað er að auka afhendingaröryggi raforku í öllum landshlutum, draga úr orkutöpum á leiðinni og bæta nýtingu uppsafnanlegs vatns miðlunarlónanna.
Við höfum alla burði og tæknilega möguleika á að halda áfram að skjóta stoðum undir atvinnulíf og efnahagslíf landsins með því að hefja framkvæmdir af krafti við virkjanir og línur. Það er nóg til af óvirkjaðri orku fyrir landsmenn um fyrirsjáanlega framtíð. Téðir sérvitringar eiga bakhjarla á Alþingi, bæði á meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, og geta þess vegna enn flækzt fyrir framfaramálum, á meðan hinir taka sig ekki saman í andlitinu og setja þeim stólinn fyrir dyrnar að fremja óhæfuverk sín á framfarasókninni til "grænnar" orkuframtíðar. Stjórnmálamenn láta eins og þeir komi af fjöllum um orkuskortinn, og þeir forhertustu afneita honum. Þegar kemur að lausnum, sem duga, vappa þeir eins og kettir í kringum heitan graut.
Þann 27. janúar 2024 skrifaði vanur maður úr atvinnulífinu, fyrrum stórnotandi raforku og nú framleiðandi raforku, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, fróðlega grein í Morgunblaðið um skrýtna stöðu orkumálanna hérlendis undir fyrirsögninni:
"Baráttan um skortinn":
"Fyrsta útgáfa frumvarpsins [atvinnuveganefndar um heimildir til að bregðast við raforkuskorti - innsk. BJo] var gölluð. Þar var í stuttu máli kveðið á um, að í orkuskorti kæmi það nær alfarið í hlut annarra raforkuframleiðenda en Landsvirkjunar að mæta eftirspurn umfram spár á almennum markaði. Þessir framleiðendur eru HS Orka og ON. Um 60 % af allri raforkuframleiðslu landsins, sem Landsvirkjun beinir til stórnotenda, væru stikkfrí.
Þetta er ósanngjarnt,eins og lesa mátti úr flestum umsögnum, sem bárust um frumvarpið. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins segir t.a.m.: "Með hliðsjón af öllu famangreindu mælir Samkeppniseftirlitið gegn því, að fyrirliggjandi frumvarp verði óbreytt að lögum. Á þessu stigi málsins telur eftirlitið, að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, sé til þess fallið að styrkja stöðu Landsvirkjunar á kostnað minni keppinauta og vinna gegn samkeppni."
Frumvarpsdrögin komu úr Orkustofnun, en handrit hefur greinilega borizt henni frá forstjóra Landsvirkjunar, sem ekki hefur aukið hróður sinn með opinberri framgöngu sinni í þessu skortsmáli, sem hefur verið raunaleg og lítt sæmandi þeirri stöðu. Í a.m.k. eldri samningum við stórnotendur er kveðið á um, að í "force majeure" ástandi, þ.e. þegar glímt er við afleiðingar óviðráðanlegra afla, megi skerða umsamda forgangsorku til þeirra hlutfallslega jafnmikið og til almenningsveitna. Hinn lögfræðilegi vandi nú er, að raforkuskorturinn stafar af stjórnendamistökum og vanrækslu, sem ekki er sambærilegt við bilanir í búnaði eða náttúruhamfarir.
"Atvinnuveganefnd áttaði sig á vanköntunum, og fumvarpið tók góðum breytingum við 2. umræðu í þinginu. Málinu var samt frestað fram yfir áramót. Þá "var ljóst, að innan Landsvirkjunar væri vilji til að vinna að farsælli niðurstöðu, þar sem tekið yrði mið af skyldum Landsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi", eins og sagði í fréttum (mbl.is, 17.12.2023, "Afgreiðslu raforkufrumvarps festað").
Fljótlega kvað þó aftur við fyrri tón hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem talaði á ný fyrir fyrstu útgáfu frumvarpsins og tók í greinaskrifum og viðtölum að gefa í skyn "leka á milli markaða". Ráðizt var á undirritaðan og HS Orku með dylgjum og samfelldum rangfærslum í grein á visir.is, sem ekki verður setið undir."
Er of mikið að líkja Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, við fíl í postulínsbúð ? Þegar hann fær ekki yfirgangssömum vilja sínum famgengt við þingmenn, eins og við ósjálfstæða embættismenn, þá trompast hann og ber á borð þvætting og skæting í fjölmiðlum. Þessi hegðun er óeðlileg og óvenjuleg í orkugeiranum, þar sem yfirleitt sitja prúðmenni á fleti fyrir. Það er heilbrigðismerki á geiranum, að ofstopanum í forstjóra langstærsta orkufyrirtækisins skuli vera andæft og fjarstæðum hans sópað út í hafsauga.
"Enginn efast um, að orka sé orðin af skornum skammti hér á landi. Óskilvirkt leyfisveitingaferli er farið að bíta í, bæði hvað varðar virkjanir og flutningskerfi. Landsvirkjun á ekki ein að gegna því hlutverki að sinna orkuöryggi. Þvert á móti er verið að leggja til, að farið sé eftir tillögum tveggja vinnuhópa, sem hafa unnið að málinu í umboði stjórnvalda. Þar er bent á ýmsar leiðir og til þrautavara, að allir framleiðendur leggi til orku jafnt og í hlutfalli við heildarframleiðslu. Sem betur fer tók atvinnuveganefnd þá vinnu til greina og breytti frumvarpinu til samræmis. Landsvirkjun getur ekki haldið því fram, að sú útfærsla leggi fyrirtækinu óvæntar skyldur á herðar, því [að] fyrirtækið tók fullan þátt í vinnu ofangreindra vinnuhópa."
Í fyrstu málsgreininni horfir höfundurinn fram hjá sérvitringahópinum, sem grafið hefur svo undan orkugeiranum íslenzka, að hann er núna ófær um að fullnægja raforkumarkaðinum með þeim afleiðingum, að olíu er brennt í verksmiðjum, þar sem rafmagn væri notað, væri það fáanlegt.
Segja má, að Tryggvi Felixson, hagfræðingur og fyrrverandi formaður Landverndar, hefur löngum verið talsmaður þessa hóps. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 1. febrúar 2024 með yfirskriftinni:
"Yfirvegun eða óðagot í orkumálum":
"Af famangreindum tölum verður ekki annað séð en viðunandi jafnvægi sé fram undan í raforkumálum. Horfurnar í frekari orkuöflun og bættri nýtni eru ágætar. Aldrei verður hægt að útiloka tímabundnar þrengingar vegna lélegra vatnsára. Yfirdrifnar yfirlýsingar, sem fram hafa komið um, að allt sé hér á vonarvöl í raforkumálum eru einmitt það, yfirdrifnar. M.v. flestar aðrar þjóðir mætti segja, að við séum að drukkna í raforku. Að láta sér ekkert detta í hug annað en að virkja endalaust til að greiða úr meintum orkuskorti kann ekki góðri lukku að stýra. M.a. er nauðsynlegt að skoða þjóðhagslega hagkvæmni þess að nýta þá orku, sem losnar, þegar samningar við núverandi stórkaupendur renna út, til nýrri og aðkallandi verkefna í orkuskiptum."
Þarna skrifar einn af beturvitum afurhaldsins í landinu um orkumálin. Eins og hans nótar eru vanir að gera, setur hann sig á háan hest, gefur skít í áhyggjur og viðvörunarorð kunnáttumanna um orkumálin og skrifar um "meintan" orkuskort. Hann er sem sagt ímyndun starfsmanna í orkugeiranum, Samorku, Samtaka iðnaðarins og ýmissa ráðgjafa, sem gerzt þekkja þessi mál. Þá mætti spyrja forráðamenn hins glæsilega hornfirzka félags Skinneyjar-Þinganess, sem ekki fengu keypta forgangsorku á markaðinum í vetur fyrir rafskautaketil sinn og urðu með hraði að kaupa og setja upp olíukyndingu fyrir bræðsluofn sinn.
Hvernig stendur á því, að gapuxar af ólíku tagi telja, að þeir komist upp með það að hefja sig upp fyrir menntaða og virta sérfræðinga og halda því fram, að svart sé hvítt ? Þetta loðir dálítið við hér, en ætli þeir séu ekki komnir út í skurð nú, sem helzt vilja loka stærstu iðjuverum landsins ? Þetta vesalings fólk skortir allt sögulegt samhengi, er blautt á bak við bæði eyrun. Það áttar sig ekki á, að stórsala til iðjuvera myndaði grundvöll að rafvæðingu landsins hinni síðari og samtengingu landshlutanna í eitt orkusvæði.
29.1.2024 | 10:18
Hrista verður upp í leyfismálum orkuframkvæmda
Svandís Svavarsdóttir er algerlega ótækur ráðherra vegna dómgreindarbrests og einstefnu í öllum málum, sem hún kemur nálægt. Henni er fyrirmunað að vega og meta kosti og galla ráðstafana, sem henni þóknast að framkvæma, og að gæta lögmætis er ofar hennar skilningi. Hún sýndi á spilin sín (eintómir hundar), á meðan "fyrsta tæra vinstri stjórnin" sat hér að völdum, slæmrar minningar, en þá fór hún með umhverfismál og sveitarstjórnarmál. Ef rétt er munað, setti hún af stað eiturherferð gegn lúpínunni í Esjunni. Umhverfisvernd þeirrar aðgerðar er dæmigerð fyrir téða Svandísi. Viðkvæði hennar var fádæma heimskulegt: "náttúran verður að njóta vafans".
Í febrúar 2010 synjaði Svandís, umhverfis- og sveitarstjórnarráðherra, viðkomandi sveitarstjórnum um að staðfesta skipulagsbreytingar, sem fólu sér að taka tillit til virkjana í Neðri-Þjórsá. Þá eins og nú hengdi hún hatt sinn á atriði, sem kom málinu ekki við. Í september 2010 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur, að synjunin ætti sér enga lagstoð. Svandís virðist lifa í hliðarveruleika og ekki kæra sig um að setja sig inn í raunverulegar aðstæður. Hún skilur aldrei valdmörk sín, sem gerir hana að ómögulegum stjórnanda í lýðræðikommúnistaflokkarssamfélagi, en var ekki tiltökumál, þar sem réðu ferðinni.
Viðbrög hennar við þessum dómi benda til siðblindu, því að hún yppti bara öxlum og sagðist vera í pólitík. Þau orð hennar útskýra ýmislegt. Hún veður áfram beint af augum, þegar andskotinn kemur því inn hjá henni að fara nú að framkvæma pólitík vinstri grænna.
Svandísi má líkja við geimveru, sem ekur út í borgarumferð án þess að kynna sér, hvaða umferðarreglur eru í gildi. Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu Katrínar Jakobsdóttur að fela téðri Svandísi ítrekað ráðherraembætti m.v. frammistöðu hennar.
Stefán Einar Stefánsson átti viðtal við Ingibjörgu Ísaksen og Brynjar Níelsson um stjórnmálaviðhorfið, og birtist úrdráttur í Morgunblaðinu 6. janúar 2024 undir fyrirsögninni:
"Vilja lög til að ýta við virkjunum".
Úrdrátturinn hófst þannig:
""Þetta er orðið þjóðaröryggismál [...]; það þarf lagasetningu. Þess veggna er kannski líka ákall um, að ráðherrann leggi fram mál, sem tengjast þessu."
Svofelldum orðum fer Ingibjörg Ísaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, um þá stöðu, sem upp er komin í orkumálum þjóðarinnar. Hún segist bíða eftir frumvörpum frá umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra, sem greiða muni götu mála, sem tryggt geti, að frekari orkuöflun geti átt sér stað.
Bendir hún á, að langt hafi verið gengið í friðlýsingu stórra vatnasvæða, ekki sízt á tímum vinstri stjórnarinnar, sem sat á árunum 2009-2013, og að ráðherra þurfi að ráðast í að aflétta þeim miklu takmörkunum, sem settar voru á orkuöflun á þeim svæðum."
Það er löngu fullreynt, að núverandi orkuráðherra hefur ekkert bein í nefinu og enga burði til að vinda ofan af fíflagangi Svandísar Svavarsdóttur sem umhverfisráðherra í téðri alræmdu vinstri stjórn. Það þarf að stokka upp í stjórnarráðinu til að afnema þjóðhættulega stöðnun þar og herfileg mistök (Svandís). Binda má vonir við, Ingibjörg Ísaksen eða hennar líkar komi orkuöflun og nýrri Byggðalínu (220 kV) á ásættanlegan rekspöl. Það er rétt hjá Ingibjögu, að staðan er því miður svo alvarleg, að ný sérlög um þetta eru nauðsynleg.
"Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa verið gegnrýninn á ráðherra málaflokksins fyrir, að ekki hafi verið nóg að gert. Hann telur þó einsýnt, að þingmenn VG muni standa í vegi fyrir því, að hægt verði að hefja framkvæmdir við nýjar virkjanir í landinu.
Á sama tíma segir hann ekki tímabært að tala um stjórnarslit vegna þessa máls eða annarra. Telur hann hæfilegt að veita VG tímafrest fram á vorið til þess að sýna á spilin. Þá þurfi samstarfsflokkarnir að hafa fullvissu fyrir því, að kyrrstaða í þessum málaflokki verði rofin, auk þess sem tekizt verði á við stór álitamál, sem m.a. tengist útlendingamálum."
Hvernig datt mönnum það í hug fyrir 2 árum að halda þessu stjórnarsamstarfi áfram án þess að rjúfa kyrrstöðuna þá ? Það bendir ekkert til, að afturhaldið í VG verði skárra viðureignar í vor. Þessi ríkisstjórn er komin á leiðarenda. Það er ekki hægt að gera neitt af viti með litla siðspillta klíku innanborðs, sem sér ekkert athugavert við það, að ráðherra úr þeirra röðum taki lögin í sínar hendur, sýni síðan enga iðrun, en sé með hortugheit, þegar hún er staðin að verki.
26.1.2024 | 18:32
Ósvífni siðlausrar klíku
Það hefur komið berlega í ljós í Svandísarmálum, að Vinstri hreyfingin grænt framboð (VG) er lítil og siðlaus klíka, sem fer með völd, eins og ríkið sé þeirra eign og lögin séu bara bókstafir í skræðum fyrir stjórnmálamenn að hafa til hliðsjónar. Ekki þurfi að fylgja lögum, nema þau falli að hugmyndafræði VG. Kannast nokkur við þessa hegðun frá dögum byltingar bolsévíka í Rússlandi 1917 ? Viðhorf Svandísar eru af sauðahúsi bolsa, og það er ekki heil brú í réttlætingu hennar á lögleysu hennar frá 20. júni 2023, þegar hún hóf stríð við Hval hf með því að meina fyrirtækinu að stunda sína löglegu starfsemi fram að 1. september 2023. Með þessari atlögu ætlaði hún að greiða fyrirtækinu banahöggið.
Hátt var reitt til höggs og án fyrirhyggju. Nú hittir atlagan hana sjálfa og flokk hennar fyrir vegna fádæma aulaháttar forsætisráðherrans og formanns VG. Katrín Jakobsdóttir kvittaði undir frámunalegan málatilbúning Svandísar ásamt þingflokkinum. Þar með hafa stöllurnar dregið flokksnefnuna með sér ofan í svaðið, og gæti atburðurinn riðið þessari siðlausu klíku að fullu í næstu Alþingiskosningum.
Klóför hinnar siðlausu klíku sjást víða í þjóðfélaginu. Gríðarlegir erfiðleikar eru uppi í orkumálunum, þar sem VG virðist leggjast þversum bæði gegn nýjum virkjunum yfir 10 MW og nýjum flutningslínum á milli landshluta. Blýhúðun reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins er í anda VG, þótt þar eigi vafalítið embættismenn hlynntir öðrum stjórnmálaflokkum líka hlut að máli. Hvers konar lýður er þetta í stjórnarráðinu, sem tekur upp hjá sjálfum sér að auka enn á kostnað þessa litla samfélags á Íslandi með því að gera tilskipanir og reglugerðir enn meira íþyngjandi fyrir fyrirtæki og einstaklinga en efni standa til frá Brüssel ? Kærir þetta lið sig kollótt um það, að gerðir þess valda gríðarlegu samfélagslegu tapi og skerða í sama mæli lífskjör almennings á Íslandi. Þessi hegðun er ólýðræðisleg og ófélagsleg og ætti að sæta refsingu með starfamissi, nema viðkomandi ráðherra hafi samþykkt gjörninginn. Þá ber hann hina pólitísku ábyrgð.
Nú þykist umhverfis-, orku- lofslagsráðherra ætla í "afhúðun". Orðið minnir á afhausun, sem verður líklega ekki. Gangi ráðherranum vel með að flysja reglugerðabáknið með sama mannskapnum og smurði eigin geðþótta utan á það. Hér er betra að spyrja að leikslokum, því að skrattinn sér um sína.
20.1.2024 | 18:15
Vestfirðingar hart leiknir
Vestfirðingar verða illa úti í núverandi ófremdarástandi raforkumálanna. Þeim hefur stjórnvöldum með Vinstri hreyfinguna grænt framboð í fararbroddi tekizt að klúðra svo illilega, að stórfelldum kostnaðarauka veldur í samfélaginu, og vegna álagsaukningar stefnir í þjóðarvoða með straumleysi/og eða skömmtun á forgangsorku. Það er við þingið og stjórnarráðið að sakast, sem í hugsunarleysi og/eða af ráðnum hug hafa sett upp slíkar hindranir fyrir leyfisveitingum nýrra virkjana og flutningslína, að segja má, að flest hafi gengið á afturfótunum hjá virkjanafyrirtækjunum og Landsneti á undanförnum árum. Að grípa ekki inn í þessa óheillavænlegu rás viðburða er afar ámælisvert m.v. þá almannahagsmuni, sem í húfi eru.
Það gefur auga leið, að íbúar "kaldra svæða", þ.e. þar sem nýtanlegs jarðvarma nýtur ekki við,eða aðeins í litlu mæli, eiga sérstaklega undir högg að sækja, því að þeir hafa samið um kaup á ótryggðri raforku fyrir hitaveitur sínar og verða nú að kynda þær með olíu. Dæmi um orkufyrirtæki í þessari stöðu er Orkubú Vestfjarða. Orkubússtjórinn, Elías Jónatansson, hefur ritað afar fróðlegar og vel samdar greinar í Morgunblaðið um orkumál Vestfirðinga, og ein þeirra birtist 2. janúar 2024. Áður en gripið verður ofan í hana er rétt að minnast á frétt, sem birtist 4. janúar 2024 og sýnir aðra hlið á kostnaðarauka orkuskortsins. Hún er frá Vestmannaeyjum, en þar hækkaði raforkuverð til hitaveitunnar um 20 % um áramótin síðustu, og var upp gefin skýringin orkuskortur. Þarna er lögmál framboðs og eftirspurnar að verki, en niðurgreiðslur munu koma til mótvægis úr ríkissjóði, að lofað er. Orkuskortur er tvímælalaus verðbólguvaldur og gerir markmið Íslands í losunarmálum koltvíildis grátbrosleg. Hvers konar stjórnvöld eru hér eiginlega og hafa verið við völd í 6 ár ? Tvískinningurinn er yfirþyrmandi.
Grein Elíasar bar yfirskriftina:
"Orkuskortur kostar 520 milljónir".
Hún hófst þannig:
"Engum dylst, að raforkuskortur er yfirvofandi á Íslandi [skortur á þegar umsaminni forgangsorku er yfirvofandi, nú þegar vantar um 500 GWh/ár af ótryggðri orku, glataðir nýir samningar á að gizka 1000 GWh/ár -innsk. BJo.]. Ekki eru þó öll sund lokuð, því [að] við getum áfram treyst á jarðefnaeldsneyti til að þreyja þorrann og góuna og flytjum inn eina milljón tonna ár hvert [auk eldsneytis á flugvélar og millilandaskip-innsk. BJo].
Því miður stefnir í það, að á árinu 2024 15-faldist olíunotkun Orkubús Vestfjarða (OV) frá árinu 2023, fari úr 220 kl í 3,4 Ml. Aukning í losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9,2 kt. Hægt er að vinna bug á þessu vandamáli og sóun fjármuna með virkjun innlendrar orku."
Útflutningstap og viðbótar innflutningskostnaður vegna þeirra hræðilegu stjórnvaldsmistaka, sem landsmenn súpa nú seyðið af, gæti farið yfir mrdISK 10 frá áramótum til vors 2024, og nákvæmlega engum náttúrugæðum hefur verið bjargað fyrir vikið. Hér er aðeins verið að draga úr hagvexti og tefja fyrir raunverulegum kjarabótum til launþega. Hvenær verður komið nóg af vitleysu vinstri grænna ?
"Vonandi verður hægt að fasa út stórum hluta af rafmagni til rafkyntra hitaveitna á Vestfjörðum með jarðhita og forgangsaforku til að knýja varmadælur. Markmið Orkubúsins hefur verið að fasa úr 12 MW af 16 MW afltoppi rafkyntu veitnanna. Ef ekki finnst meira en 30°C heitt vatn á Ísafirði, þá væri hugsanlegt að fasa út helmingi eða 8 MW af 16 MW.
Nauðsynlegt er að auka afltopp forgangsorku á Vestfjörðum , m.a. til að knýja varmadælur á kostnað skerðanlegrar orku. Í dag er það afl ekki til innan Vestfjarða, og ef ætlunin er að streyma aukinni orku um Vesturlínu, þá er augljóst, að byggja þarf upp samsvarandi olíuknúið varaafl innan Vestfjarða, þótt ekki sé nema til að tryggja óbreytt afhendingaöryggi, þegar línan er úti."
Það er knýjandi fyrir Vestfirðinga og raforkukerfi landsins að auka verulega framleiðslugetu á raforku innan Vestfjarða úr vatnsafli, og virkjunarkostirnir eru fyrir hendi. Einn var stöðvaður í Ófeigsfirði með ofstæki nokkurra aðvífandi umhverfisöfgamanna fyrir fáeinum árum, og nú hefur OV lagt til við orku-, umhverfis og loftslagsráðherra að ryðja hindrunum ríkisins á því úr vegi fyrir virkjun í Vatnsfirði. Hvað hefur hann gert í því máli ? Ekkert hefur heyrzt af því. Er það enn eitt merkið um dauðyflishátt þessa sjálfhælna ráðherra ?
Á Vestfjörðum, eins og annars staðar á landinu, eru orkuskiptin hafin, og þar er auk þess ein mesta aukningin í umsvifum athafnalífsins á landinu með talsverðri fólksfjölgun. Allt ýtir þetta undir þörfina á því, að orkuöflun Vestfirðinga verði sjálfbær.
"Að teknu tilliti til aukningar í eftirspurn, afhendingaröryggis og stöðuleika raforkukerfisins auk raunhæfra áætlana um uppbyggingu flutningskerfisins og uppbyggingartíma virkjana, þá er það alveg ljóst, að taka þarf ákvarðanir um framhaldið fljótlega. MISK 200-500 í olíubrennslu kyndistöðva annað hvert ár er fórnarkostnaður, sem er óásættanlegur auk þess að vera algjörlega úr takti við orkustefnu stjórnvalda og við stefnu Íslands í loftslagsmálum."
Þetta er hverju orði sannara hjá Orkubússtjóranum. 100-250 MISK/ár í olíukostnað við að framleiða rafmagn á Vestfjörðum til hitunar húsnæðis er ástand, sem sýnir í hnotskurn í hvert óefni orkumál landsins undir núverandi ríkisstjórn eru komin. Að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann skuli ekki hafa brugðizt skjótlega við til að greiða veg þeirra lausna, sem Vestfirðingar hafa lagt til, sýnir, að hann er ekki vandanum vaxinn.
Það er hárrétt stefna, sem Vestfirðingar hafa markað, að færa húsnæðisupphitun sína yfir í hitaveitu með jarðvarma, þar sem það er hægt, og annars staðar yfir í forgangsrafmagn inn á varmadælur. Samfara þessu þarf að virkja vatnsföll á Vestfjörðum, svo að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir um raforku, en Vesturlína þjóni sem varaleið í bilunar- og viðhaldstilvikum ásamt innmötun á landskerfið til að auka nýtingartíma virkjana Vestfirðinga.
14.1.2024 | 09:32
Ramminn - misheppnað fyrirkomulag
Nú standa menn frammi fyrir gjaldþroti þess fyrrirkomulags að draga úr aðkomu stjórnmálamanna að vali á næstu virkjunum og að færa þetta að mestu leyti í hendur embættismanna með alls konar mótvægi á formi víðtæks kæruréttar framkvæmda. Allt of víðtækur réttur til að kæra ákvarðanatökur í öllu ferlinu hefur kyrkt það með þeim afleiðingum, að á undanförnum 10 árum hefur ekkert virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi verið veitt fyrir nýjum virkjunum yfir 10 MW, þótt stækkanir eldri virkjana hafi átt sér stað, t.d. hjá HS Orku. Skemmst er að minnast ofstækisláta aðallega aðkomumanna á Vestfjörðum út af fyrirætlunum um 50 MW virkjun þar, sem Vestfirðingar studdu, en kæfð var í fæðingu. Nú brenna Vestfirðingar dísilolíu í rafstöðvum til að anna spurn eftir raforku. Vitleysan ríður ekki við einteyming.
Vegna orku- og aflskorts þarf að brjóta kerfið upp. Orkustofnun veiti virkjunarleyfi fyrir verkefni, sem virkjunarfyrirtækin hafa rannsakað, sett í umhverfismat, hannað og sætt hefur afgreiðslu sveitarstjórnar. Orkuráðherra leggi það í hendur Alþingis að forgangsraða verkefnum og setja um þau framkvæmdalög. Eftir það sé ekki unnt að tefja málið með kærum, nema með lögbannskröfu fyrir dómstólum. Aðilar, sem hafa tjáð opinberlega fjandsemi sína gegn aukningu á framboði raforku í landinu verði úrskurðaðir vanhæfir til að standa að kærum gegn virkjana- og línuframkvæmdum.
Í Morgunblaðinu 28. desember 2023 birtist forystugrein undir heitinu:
"Orkan er okkur lífsnauðsyn".
Þar gerir höfundurinn að umtalsefni, hversu utan gátta sumir stjórnmálamenn eru í orkumálunum. Það má líklega að einhverju leyti rekja til þess, að hlutur Alþingis er minni en áður var í þessum málaflokki. Sú breyting reyndist ekki verða til góðs. Með því að þjóðkjörnir fjalli meir um þessi mál, má afnema áfrýjunarferli á gjörðum stjórnsýslunnar á þessu sviði.
Hvað sagði Morgunblaðið ?:
"Það var því ekki lítið undrunarefni, þegar orkuskorturinn var gerður opinber fyrir mánuði, að stjórnmálamenn létu margir sem hann kæmi þeim öldungis á óvart, þó að margoft hafi verið við því varað og um langt skeið, að í óefni stefndi.
Værukærðin um það er í raun óskiljanleg. Öllum hefur mátt ljóst vera, að fjölgun þjóðarinnar, mikill hagvöxtur, aukin orkunotkun, orkuskipti og öll önnur skilyrði leiddu til hins sama, að aukinnar orkuöflunar er þörf.
Það eru engar ýkjur að segja, að sú orkunýting sé ein helzta forsenda þess velmegunarþjóðfélags, sem Íslendingum hefur auðnazt að skapa í köldu og harðbýlu landi; forsenda hagvaxtar og hagsældar, fólksfjölgunar og lífskjara í fremstu röð þjóða heims.
Orkuöryggi er þjóðaröryggismál fyrir Íslendinga engu síður en aðrar þjóðir. Það er ein af frumskyldum stjórnvalda að sjá til þess, að því sé ekki ógnað og enn frekar, að það sé ekki vanrækt, eins og nú blasir við, að hefur gerzt."
Allt er þetta satt og rétt hjá Morgunblaðinu. Nú hefur þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Kragann, Jón Gunnarsson, fitjað opinberlega upp á því að mynda nýjan þingmeirihluta um nýjar virkjanir, því að VG þvælist fyrir þeim sjálfsögðu framfaramálum. Forsætisráðherra og formaður þessa óstjórntæka flokks staðfesti afturhaldssemi þessa flokks á tröppum Bessastaða á leið á Ríkisráðsfund 31.12.2023 með því að segjast ekki trúa því, að meirihluti gæti myndazt um að slá af faglegum kröfum við virkjanaundirbúning. Að valda töfum á því, að landið verði að nýju sjálfbært um raforku heitir í munni þess, sem alltaf leikur tveimur skjöldum, að uppfylla faglegar kröfur. Þetta eru alger öfugmæli. Ekki þarf að slá af verkfræðilegum kröfum né eðlilegum umhverfisverndarkröfum um að við hönnun verði beitt beztu tækni við að lágmarka inngrip í náttúruna.
4.1.2024 | 15:26
Orkumálin hér og þar
Ef mannkynið ætlar að losa sig af klafa jarðefnaeldsneytis og alls konar áhættu, sem viðskiptum með það og notkun þess (bruna) fylgir, þá er þörf á meiri endurnýjanlegri orku fljótlega. Þetta virtust trúðarnir frá 118 löndum á furðuráðstefnunni í Dubai í vetur langflestir vera sammála um, en þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Núverandi tæknistig mannsins leyfir þetta ekki, og þess vegna er tómt mál að gaspra, eins og þetta geti stjórnmálamenn einfaldlega ákveðið. Þetta er ekki hægt að svo komnu, en því fer fjarri, að dómsdægur vofi yfir lífinu á jörðunni þess vegna.
Áróðurinn um óvenjulega og mikla hlýnun andrúmslofts jarðar er úr lausu lofti gripinn. Það þarf ekki annað en að hlýða á góða tölfræðinga, sem kunna að beita tölfræðilegri greiningu á langar tímaraðir gagna, til að sannfærast um, að óvenjuleg hlýnun er ekki í gangi, heldur frávik, sem oft hefur orðið áður frá lokum síðustu ísaldar fyrir um 10 k árum. Ísaldarskeið virðist vera hið venjulega ástand jarðar, svo að rétt er oss á breiddargráðum nærri pólunum "að njóta á meðan á nefinu stendur".
Trúðarnir á stóra fundinum í Dubai, bæði þeir á náttfötunum og í jakkafötunum, hétu því þar að hafa aukið við uppsett afl virkjana orku endurnýjanlegra orkulinda upp í 11,0 TW (terawött) árið 2030 úr núverandi 3,4 TW eða nálægt 1,1 TW/ár. Til samanburðar er allt uppsett afl í Bandaríkjunum (BNA) 1,3 TW. Spyrja má á hverju trúðar eru, sem lofa öðru eins og þessu ?
Þrátt fyrir metfjárfestingar í búnaði til að framleiða rafmagn úr endurnýjanlegum orkulindum á fyrri hluta árs 2023 á sá iðnaður erfitt uppdráttar um þessar mundir þrátt fyrir gósentíma í lágvaxtaskeiðinu). Undirbirgjar íhluta vindknúinna rafala hafa átt í vandræðum vegna aukningar á afköstum rafalanna, sem ákveðin hefur verið af sölufyrirtækjunum. Í nóvember 2023 var Siemens Energy, sem er móðurfélag hönnunar- og samsetningarfélags fyrir vindorkubúnað, bjargað með láni, sem þýzka ríkið gekk í ábyrgð fyrir. Kostnaðarhækkanir, sumpart vegna hærri vaxta, hafa knúið fyrirtæki á sviði virkjanaframkvæmda fyrir hreinorku til að hætta við verkefni, sem áður voru arðsöm. Fimm vindrafalaverkefni undan ströndum Bandaríkjanna (BNA) hefur verið hætt við á árinu 2023 vegna 20 % kostnaðarhækkunar.
Meðaltalsarðsemi vind- og sólarverkefna hefur numið aðeins 6 %/ár á undanförnum árum. Þetta er ekki nægt aðdráttarafl fyrir þær TriUSD 8, sem þarf til að uppfylla loforð trúðanna á loftslagsráðstefnunni í Dubai í nóvember-desember 2023 um, að uppsett afl hreinorku verði 11 TW árið 2030. Erlendis er hæggengt samþykktarferli verkefna hindrun, þótt agaleysi embættismanna sé ekki jafnalvarlegt og hérlendis.
Evrópuþingið reyndi síðari hluta árs 2023 að berja í brestina með þingsályktun um, að virkjanir endurnýjanlegra orkulinda væru "forgangsalmannahagsmunir" ("overriding public interest"). Þetta er þó ekki talið líklegt til árangurs, og Evrópusambandið hefur þegar í gildi kröfu um, að leyfisveitingaferlið taki að hámarki 2 ár. Vita værukærir og/eða öfugsnúnir íslenzkir embættismenn af þessu ? Tillaga hefur komið um umbætur á leyfisveitingaferli alríkisins í BNA, en samþykkt hennar hefði takmarkaðar afleiðingar, nema ríkin 50 fylgi slíkum umbótum eftir. Þótt afturhaldið sé óvíða jafnsvæsið og á Íslandi, er víða pottur brotinn, og hægri höndin veit ekki, hvað sú vinstri gerir á sviði orkuskiptanna. Þau ganga þess vegna á afturfótunum, og stjórnmálamenn þvælast bara fyrir með kjánalegum vinnubrögðum.
Morgunblaðið hefur fylgzt náið með þróun orkumálanna heima og erlendis og hefur líklega frá stofnun sinni stutt hugmyndir um virkjanir fallvatna og jarðhita, sem til heilla horfðu í landinu. Blaðið hefur á stundum staðið í mikilli orrahríð við úrtölumenn framfara, t.d. vegna Búrfellsvirkjunar. Núverandi ritstjórn veit nákvæmlega, hvar skórinn kreppir pólitískt og í embættismannakerfinu. Um þetta vitnaði forystugrein blaðsins 8. desember 2023 undir fyrirsögninni:
"Raforkumálin þarf að hugsa út fyrir rammann".
Hún hófst þannig:
"Viðvarandi raforkuskortur hefur verið á Íslandi undanfarin ár, en nú blasir við neyðarástand í orkumálum, og stjórnvöld leggja í fáti á ráðin um orkuskömmtun.
Það er í flestra huga óskiljanlegt, að í okkar orkuríka landi sé skollin á orkukreppa. Hitt er þó ekki með minni ólíkindum, að ríkisstjórninni hugkvæmist engin önnur bjargráð en skömmtunarstefna með gamla laginu."
Í hálfa öld frá upphafi umtalsverðrar rafvæðingar á Íslandi var viðvarandi raforkuskortur á Íslandi, sem skrifa mátti á reikning fátæktar og umkomuleysis landsmanna. Í þessum efnum varð fyrst róttæk breyting með tilkomu Viðreisnarstjórnarinnar, en fyrsti dómsmála- og iðnaðarráðherra hennar var hinn stórhuga og víðsýni stjórnmálamaður dr Bjarni Benediktsson, sem síðar varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Á hans könnu voru líka raforkumálin, og hann beitti sér strax fyrir undirbúningi samninga um mikil raforkukaup, sem mundu gera fjárhagslega kleift að ráðast í fyrstu stórvirkjun landsins í jökulfljótinu Þjórsá við Búrfell. Í ljósi þessarar framsýnu stefnumörkunar sjálfstæðismanna á sinni tíð er það þyngra en tárum taki, að á vakt Sjálfstæðisflokksins hefur undanfarið verið flotið sofandi að feigðarósi í orkumálum landsins. Núverandi orkuráðherra flokksins nær botninum með því að fela embættismönnum skömmtunarvald til að fela vandamálið fyrir almenningi. Sá tilgangur er undirstrikaður með orðaleppinum "umframeftirspurn" í stað orku- og aflskorts.
Umframeftirspurnin er auðvitað miðuð við stöðnun, sem eru ær og kýr afturhaldsins, en helber vitleysa í landi öflugs hagvaxtar og mikillar fólksfjölgunar. Hagvöxturinn væri reyndar talsvert meiri, ef hægt hefði verið að verða við áhugaverðri og arðsamri spurn eftir raforku. Þar liggur hundurinn grafinn: afturhaldið með VG í broddi fylkingar vill hagvöxtinn feigan af nostalgíu og sérvizku einni saman.
"Það er því einkennilegt að lesa í greinargerð frumvarpsins, að Orkustofnun, sem gleggsta yfirsýn á að hafa á orkumál, hafi fyrst orðið áskynja um ástandið, þegar Landsvirkjun sendi henni bréf í október [2023]. Í ljósi annarrar embættisfærslu þar kemur það því miður ekki á óvart."
Undir núverandi forystu er Orkustofnun afar gagnslítill ráðgjafi um heillavænlega og raunhæfa stefnumörkun , eins og varað var við á þessu vefsetri við ráðningu núverandi Orkumálastjóra. Það tekur þó steininn úr, að nokkurra ára raforkuskortur í landinu skyldi hafa farið fram hjá henni og hún ekki áttað sig á grafalvarlegri stöðu fyrr en Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, bar sig illa yfir að verða að hafna góðum viðskiptum með raforku. Nú hefur verið ákveðið að sameina Orkustofnun og Umhverfisstofnun, og verður þá niðurlægingin fullkomnuð.
"Enn skrýtnara er því, að það sé einmitt orkumálastjóri, yfirmaður Orkustofnunar, sem færa á þessi fáheyrðu völd og gera að skömmtunarstjóra orkunnar í landinu. Enn frekar í ljósi vanhæfis hans vegna margvíslegra umræðna, sem Samtök iðnaðarins benda á í ítarlegri umsögn sinni.
Með frumvarpinu á að taka markaðslögmálin úr sambandi, andstætt EES-samninginum, en til þess að fara í kringum það er látið sem lögin eigi að vera tímabundin til tveggja ára.
En ástandið verður engu skárra þá; það verður verra: orkuþörfin mun meiri, en tiltæk orka engu meiri."
Hingað til hefur Stjórnstöð Landsnets annazt framkvæmd forgangsorkuskömmtunar í neyð. Það hefur verið gert samkvæmt reglum, sem ekki hefur verið ágreiningur um og njörvaðar eru niður í langtímasamningum stærstu orkunotenda landsins. Ef ríkisvaldið ætlar nú að ganga í bág við þessa samninga, sem sumir eru 55 ára gamlir og hafa staðizt tímans tönn, mun það jafngilda hruni á trausti þessara fjárfesta og annarra svipaðra í garð íslenzka ríkisins og ríkisfyrirtækja á borð við Landsvirkjun. Það má búast við lögsóknum fyrir samningssvik og jafnvel krröfu um ógildingu þeirra. Þarna er um að ræða frumhlaup viðvaninga í fílabeinsturni embættismennsku, sem getur orðið þjóðinni dýrkeypt. Allt er þetta vegna óhæfni Orkumálastjóra við að lesa í aðstæður áður en allt er komið í óefni.
Hlutur orkuráðherrans er slæmur. Hann átti að hotta á eftir Orkustofnun um útgáfu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun, strax eftir að lögboðinn frestur var liðinn (í ESB má allt umsóknarferlið með umhverfismati taka mest 2 ár), og þegar fyrri ógilding virkjunarleyfisins kom á grundvelli ófullnægjandi umfjöllunar um "vatnshlot", sem er furðuorð og fáir skilja, að blása til sóknar með sérlögum um Hvammsvirkjun. Hann skorti þrekið, þótt sjálfhælinn sé.
21.12.2023 | 18:11
Heiðarlega stunduð tölfræði andspænis gífuryrðum SÞ
Tölfræðin er fallegt fag, og vaxandi minnis- og reiknigeta tölvubúnaðar hefur eflt hana í sessi sem notadrjúga grein til að sanna eða afsanna kenningar um efni, þar sem langar raðir mæligagna eru fyrir hendi. Þetta á t.d. við um hitastig á jörðunni. Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, ritaði þungavigtar grein um meinta hlýnun jarðar, sem birtist í Morgunblaðinu 12.12.2023. Tölfræðileg greining á hitamæligögnum sýnir, að núverandi skammvint hlýskeið er aðeins eðlilegur breytileiki í hitafari jarðarinnar og að engin fylgni er á milli hækkandi styrks koltvíildis í andrúmslofti og núverandi hlýnunar. Um þetta síðasta skrifar Helgi í greininni "COP28":
"Aukning koltvísýrings í andrúmslofti, sem sést frá 1960 í röð frá Havaí, getur ekki verið mikilvæg stýribreyta."
Brezkur stjórnmálamaður sagði um miðbik síðustu aldar, að til væru 3 gerðir lyga: lygar, bölvaðar lygar og tölfræði. Enginn þarf að draga heilindi og fagmennsku Helga Tómassonar í efa, þegar hann kynnir tölfræðilegar niðurstöður sínar á hvaða vettvangi sem er, enda eru kollegar hans, t.d. norskir, sem hann tilgreinir í téðri grein, á sömu skoðun og hann. Heiðarlega og kunnáttusamlega stunduð tölfræði lýgur aldrei. Hún gefur óyggjandi niðurstöður, en áróður Sameinuðu þjóðanna, SÞ, og ráðgjafarhóps þeirra, IPCC (International Panel on Climate Change heldur fram flokki 2 í hópi lyga, sem vitnað var í hjá brezka þingmanninum. Margir stjórnmálamenn í heiminum hafa látið glepjast af hræðsluáróðri SÞ, þar sem framkvæmdastjóri þeirra hefur gengið svo langt, að mannkyns bíði stiknun í helvíti á þessari jörð, en ekki hinum megin vegna syndanna, eins og í gamla daga. Fer vel á því, að páfi nútíma ofsatrúar hræði fólk til fylgilags með sams konar hræðsluáróðri og páfar fyrri alda. Munur á staðsetning óskapanna er bitamunur, en ekki fjár.
Það, sem lygalaupar túlka sem upphaf ískyggilegrar þróunar, er aðeins ein af fjölmörgum uppsveiflum frá nánast föstu gildi (meðalgildi), sem menn geta séð í tímaröðum hitastigsmælinga andrúmslofts eða árhringjum langlífra trjáa eða með öðru móti (borkjarnar).
Athyglisverða og þakkarverða grein sína hóf prófessor Helgi þannig:
"Olíufursti Sameinuðu arabísku furstadæmanna hefur verið með varkárar yfirlýsingar um hlýnun jarðar. Varfærni furstans á fullan rétt á sér. Skoðun á tímaröðum á veðurstofugögnum síðustu 200-300 ár sýnir, að ekki er grundvöllur fyrir yfirlýsingum á borð við hamfarahlýnun allrar plánetunnar."
Þar höfum við það. Það er enginn grundvöllur fyrir líkangerð með innbyggðan marktækan hitastigul, sem gefur niðurstöður í ósamræmi við tímaröð hitastigsmælinga veðurstofanna. Þess vegna sætir furðu, að veðurfræðingar heimsins, einnig á Veðurstofu Íslands, sem eru raunvísindamenn með menntun í stærðfræði, skuli vera hallir undir hamfarahlýnunarkenningu SÞ. Eftir höfðinu dansa limirnir var löngum sagt.
Prófessor Helgi telur ósannað, að hækkun koltvíildis í andrúmslofti stafi af athöfnum manna, en hann telur freistandi að draga þá ályktun. Hins vegar veldur eldsneytisbruni ekki hlýnun andrúmsloftts. Það er ekki vegna þess, að gróðurhúsaáhrif koltvíildis séu ekki fyrir hendi, heldur vegna þess, að geislun varma út í geiminn eykst að sama skapi.
"Árangur tímaraðalíkananna stóð fyrir sínu og sýndi fram á ýkjukenndar væntingar manna um nytsemi mikils gagnamagns og flókinna líkana. Eftir 1980 fer í gang sáttaferli, sem birtist með Nóbelsverðlaunahöfum eins og Granger og Sims (hagfræðingar hafa oft fengið verðlaun fyrir tölfræðiaðferðir). Í hagrannsóknum nútímans hefur tímaraðafræðin sjálfsagðan sess. Hagrannsóknarmaðurinn T.C. Mills (hefur skrifað margar kennslubækur um hagrannsóknir) telur, að hugsanlega séu loftslagsvísindin á sama stað og hagfræðin var fyrir 50 árum. Hann segir: A new climate war brewing: forecasting versus modeling. Hann nefnir, að hagfræðingar hafi þróað með sér heilbrigðan efa um nytsemi eigin líkana."
IPCC hefur nokkuð gumað af loftslagslíkani sínu, sem mun vera samsuða úr nokkrum líkönum mismunandi landa. Líkanið er þó ekki betra en það, að stöðugt þarf að laga það að raunhitastigi á jörðunni. Spágildi þess er með öðrum orðum lítið. Meginskekkjan er fólgin í því, að endurkast varmageislunar út í geiminn er í líkaninu aðeins helmingur þess, sem er í raunveruleikanum. Þess vegna birtir IPCC allt of háa hitastigsspá. Tímaraðir Helga Tómassonar sýna nánast enga tilhneigingu til hlýnunar, eftir að koltvíildisstyrkur andrúmslofts tók að aukast hratt.
"Á COP 28 koma saman olíuframleiðendur og -kaupendur. Eflaust verður þar lagður grunnur að ýmsum olíusamningum, vopnasamningum og vonandi friðarsamningum. Þetta er [aðallega] pólitísk viðskiptaráðstefna. Allt tal um útfösun jarðefnaeldsneytis er ótímabært, þegar stærðargráðurnar í orkunotkun eru skoðaðar. Þó [að] ég sé sammála olíufurstanum, vildi ég síður vera honum háður í orkumálum (né Pútín, Írönum og hinum). Núverandi olíusvæði einkennast mörg af stjórnarfarslegum óstöðugleika. Þessi óstöðugleiki kallar á nýja valkosti, í Svíþjóð á kjarnorku, á Íslandi virkjun fallvatna, jarðhita o.fl. Hagfræðin segir, að olíufurstar muni reyna að stýra verðinu, þannig að valkostir verði ekki hagkvæmir. Selt magn er háð verði. Það er víða neyðarástand, t.d. styrjaldir og mengun í borgum, en það er ekki neyðarástand vegna þróunar og breytileika hitastigs. Í bók sinni Grænu fötin keisarans rekur danski rithöfundurinn Jens Robdrup (2015), hvernig loftslagsumræða nútímans hefur á sér yfirbragð ofsatrúar með tilheyrandi rétttrúnaði og bannfæringum. Fólk þarf að skilja stærðargráður, og þar er menntun í lestri og stærðfræði grundvallaratriði."
Þannig lauk frábærri grein. Höfundur þessa pistils hefur tekið eftir vaxandi notkun á orðskrípinu "útfösun". Í málinu er fallegt orð "samfösun" notað um að stilla saman strengi. Þegar tengja á saman 2 riðstraumskerfi, má það aðeins gerast á því andartaki, þegar kerfin "eru í fasa", þ.e. augnabliksspenna hvers fasa er jöfn. Annars verður skammhlaup yfir samtengirofann og útleysing, ef allt er með felldu. Þessi gerð samtenginga raforkukerfa kallast "samfösun".
Útfösun jarðefnaeldsneytis er nú notað um að stöðva notkun og framleiðslu þess á ákveðnu tímabili, m.ö.o. afnám þess í áföngum. Útfösun er óþarft orðskrípi. Það er hárrétt hjá prófessor Helga, að afnám 80 % af orkunotkun jarðarbúa er óraunhæft í fyrirsjáanlegri framtíð. Til að losna undan verðstýringu sjeikanna á olíuvörum með hringamyndun þeirra (kartell), sem hafa með sér samráð um framleiðslumagnið, og til að draga úr loftmengun, er góð ástæða fyrir Vesturlönd að draga úr olíuviðskiptum, þegar tækniþróun leyfir. Að skjóta sig í fótinn með refsigjöldum á sjálfan sig, ef losun er yfir mörkum, sem ákveðin eru út í loftið, er alger óþarfi. Nú þarf að fara að snúa ofan af vitleysunni.
12.12.2023 | 14:20
Loftslagsráðstefnan er dæmd til að missa marks
Hvers vegna eru allar loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna dæmdar til áhrifaleysis, þ.e. að verða orðin tóm ? Það eru nokkrar ástæður fyrir því, en nefna má, að skuldbindingar þar eru ekki lagalega bindandi, og þeir, sem mest tala þar, hafa ekki nægilega góða yfirsýn og skilning á þeim tæknilegu og efnahagslegu viðfangsefnum, sem úrlausna krefjast, ef árangur á að nást við að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.
Fullyrða má, að blaður þjóðarleiðtoga breytir engu fyrir loftslagið. Að fjöldi ráðstefnugestanna á 28. loftslagsráðstefnunni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum (Dubai) frá Íslandi skuli nema 0,1 % af heildarfjölda segir meira um ferðagleði og hégómagirni landsmanna en gagn, sem Ísland eða aðrir nokkru sinni geta haft af að hafa þarna fleiri en 0,01 % þátttakenda.
Meginástæða árangursleysis þessara fjöldasamkoma (80-90 k viðstaddir) er þó líklega sú, að enginn þar virðist hafa velt fyrir sér kostnaðinum af áætlaðri hlýnun umfram 1,5°C og borið hann saman við kostnaðinn við að halda hlýnun í skefjum við 1,5°C. Í staðinn fljúga orðaleppar um salina, sem eiga að hræða fólk til fylgilags við loftslagstrúboðið. Það dytti sennilega dautt niður, ef kostnaðarupplýsingar frá Copenhagen Consensus fengju einhverja athygli á þessum dæmalausu blaðurskjóðu fundum stjórnmálamanna og embættismanna.
Björn Lomborg, stofnandi téðrar hugveitu, skrifaði nýlega grein um þetta, og birtist hún í Morgunblaðinu 4. desember 2023. Þar kemur nefnilega fram, að kostnaðurinn af baráttunni við hlýnun er margfaldur á við kostnaðinn af afleiðingunum. Opinberu fé verður bezt varið til mótvægisaðgerða, nema viðskiptalega hagkvæmar lausnir séu fyrir hendi. Þegar kemur að orkuöflun, eru þær fyrir hendi með jarðgufu og fallvatni hérlendis, en það á varla við um vindinn vegna lágs nýtingartíma, lítilla eininga og mikils umhverfiskostnaðar við að nýta hann til raforkuvinnslu.
Nú skal grípa niður í grein Björns Lomborg, sem bar fyrirsögnina:
"Þegar loftslagspáfar vilja ekki hlusta á vísindin".
"Næstum öll ríku löndin prédika mun meira en þau standa síðan við. Dæmi um þetta er Evrópusambandið, sem hefur lofað meiru en nokkur annar, en fór þó að leita að meiri olíu, gasi og kolum í Afríku, þegar það var nauðbeygt til að stöðva gasinnflutning frá Rússum í kjölfar villimannslegrar innrásar þeirra í Úkraínu. Á sama tíma setja næstum öll fátæk ríki skiljanlega eigin velmegun í forgang, sem þýðir næga ódýra og áreiðanleg orku - sem þýðir enn sem komið er jarðefnaeldsneyti [þar á bæ - innsk. BJo]."
Þetta þýðir, að ráðstefnublaðrið um, að nú sé ekki eftir neinu að bíða, mundi hafa afar neikvæðar afleiðingar á lífskjör í heiminum, sérstaklega á meðal þjóða, sem verst eru settar, ef úr yrði. Jarðarkringlan og allt, sem á henni er, yrði miklu betur sett, ef SÞ mundu hætta að boða til þessara árlegu funda. Fjarfundir hljóta að duga á milli staðfunda á 10 ára fresti til að bera saman bækur.
Það er vita vonlaus aðferðarfræði að setja einhver markmið án skuldbindinga. Miklum hræðsluáróðri er dembt yfir heiminn, en hann hrín ekki á olíuvinnslulöndunum og stærstu notendunum í fjölmennustu löndunum, Indlandi og Kína. Vesturlönd geta ekki dregið þennan vagn ein og verða að gæta að sér að missa ekki kostnað atvinnuvega sinna úr böndunum fyrir vikið.
"Undirstaða skrípaleiks loftslagsráðstefnunnar er lygi, sem er endurtekin aftur og aftur: að græn orka sé alveg við það að koma í stað jarðefnaeldsneytis á öllum sviðum lífs okkar. Þessum ýkjum er [núna] haldið á lofti af Alþjóðaorkumálastofnuninni, sem hefur snúið sér frá hlutverki hlutlauss úrskurðaraðila um orkugögn yfir í talsmann þeirrar langsóttu spár, að notkun jarðefnaeldsneytis muni ná hámarki innan aðeins 7 ára."
Þarna er um einfaldan blekkingarleik að ræða, sem stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa margþvælt um, en þegar til á að taka, er gripið í tómt. Þetta er meginskýringin á því, að framkvæmd orkuskipta er langt á eftir áætlun alls staðar. Katrín Jakobsdóttir talar, eins og lausnir séu "hilluvara", en hvernig eiga útgerðarfélög og flugfélög og verktakar að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi ? Það vantar jarðtengingu tækninnar inn í þessa umræðu. Glæpasagnahöfundur hrekkur skammt. Almenningur hefur áttað sig á innihaldsleysi orðaflaums og ósvífins hræðsluáróðurs.
"Það, sem verður ekki viðurkennt í Sameinuðu arabísku furstadæmunum - vegna þess að það hefur aldrei verið viðurkennt á alþjóðlegum loftslagsráðstefnum - er hinn óþægilegi veruleiki, að þótt loftslagsbreytingar hafi raunverulegan kostnað í för með sér, þá hefur loftslagsstefnan það líka."
Það hefur aldrei gagnrýnin og fræðileg umræða farið fram í miðlum fyrir almenning um raunverulegar afleiðingar af hækkandi styrk koltvíildis í andrúmslofti af mannavöldum, kostnaðinn af að stemma stigu við þessari losun, kostnaðinn af tiltækum mótvægisaðgerðum og kostnaðinn af aðgerðaleysi. Það hefur bara verið hamrað á nauðsyn orkuskipta í samgöngum og iðnaði og landbúnaði og þá litið fram hjá því, að tæknin fyrir stórfelld orkuskipti er enn ekki fyrir hendi, enda fer notkun jarðefnaeldsneytis vaxandi víðast hvar í heiminum og toppinum á brennslu jarðefnaeldsneytis verður líklega ekki náð fyrr en á næsta áratugi. Loftslagspostular hafa skotið sig í fótinn með árlegum dómsdagsspádómum, og er formaður Loftslagsráðs Íslands dæmi um slíkan hamfarapostula, sem hefur gert sig að ómerkingi. Hver lofslagsráðstefna (COP) er sögð sú síðasta fyrir mannkynið til að bjarga sér. Ef raunveruleg hætta væri á ferðum, hefði ekki þótt verjanlegt að setja þessum ráðstefnum algerlega ófaglega og óskilvirka umgjörð.
"Loftslagsaðgerðasinnar, sem krefjast þess, að við hlustum á vísindin, hafa sjálfir stöðugt hundsað þessar rannsóknir og hvatt ríka leiðtoga heimsins til að gefa sífellt meiri loftslagsslagorð. Margir leiðtogar heimsins hafa jafnvel gengið svo langt að lofa núll-marki í kolefnislosun fyrir árið 2050. [Katrín Jakobsdóttir stökk snemma á þann vagn, en hún gösslast áfram án þess að kynna sér málin út í hörgul, þegar kemur að því, að skuldbinda Ísland og ríkiskassann, þótt enginn sé hún heimsleiðtoginn - innsk. BJo.]
Þrátt fyrir að þetta sé líklega dýrasta stefnan, sem leiðtogar heimsins hafa lofað, var hún sett fram án þess að gera nokkurt ritrýnt mat á heildarkostnaðinum. Fyrr á þessu ári fjallaði sérútgáfa Climate Change Economics um fyrstu slíkar greiningar.
Þetta undraverða verk hefur nánast hvergi verið kynnt af neinum stórum fréttamiðlum. Það sýnir, að jafnvel með mjög rausnarlegum forsendum muni ávinningurinn af því að sækjast eftir hreinu núlli aðeins mjakast upp mjög hægt og rólega á öldinni. Um miðja öld gæti ávinningurinn - þ.e. kostnaður vegna loftslagsbreytinga, sem verður forðað - orðið um 1 TriUSD/ár.
En kostnaðurinn yrði miklu, miklu hærri. Þrjú mismunandi líkön sýna sýna öll kostnað langt umfram ávinning hvert einasta ár alla 21. öldina og langt inn í þá næstu.
Þetta hafa menn upp úr því að láta hjarðeðlið leiða sig í gönur. Í upphafi skyldi endinn skoða. Ef menn hefðu setzt niður um 1990 og gert kostnaðarútreikninga, eins og Climate Change Economics hefur nú birt, í stað þess að reka hræðsluáróður um óafturkræfa ofurhlýnun jarðar, þá hefði mátt frelsa mannkynið undan miklu fári falsspámanna og loddara.
"Alla öldina er ávinningurinn [árlega - innsk. BJo] 1,4 % af VLF, á meðan kostnaðurinn er að meðaltali 8,6 % af VLF. Hver króna í kostnaði [við að ná 0 nettó losun CO2 - innsk. BJo] skilar kannski 16 aurum af lofslagsávinningi. Ljóst er, að þetta er skelfilega illa farið með fé.
Það eina, sem getur komið í veg fyrir, að þessi leiðtogafundur verði endurtekning á 27 öðrum mistökum er, að stjórnmálamenn viðurkenni rauverulegan kostnað af hreinni núllstefnu og í stað þess að lofa meiri kolefnisskerðingu [að] heita því frekar að stórauka rannsóknir og þróun á grænni orku."
Varðandi hið síðast nefnda er brýnt að þróa raunverulega valkosti við jarðefnaeldsneytið, t.d. þóríum-kjarnorkuver, sem skrýtið er, að ekki skuli vera tekið að hilla í. Þess má geta, að þýzkir stjórnmálamenn ræða nú enduropnun úraníum-kjarnorkuvera í Þýzkalandi. Ef Græningjar samþykkja það, hafa þeir snúizt í hring.
Hræðsluáróður loftslagspostula er reistur á spá um þróun hitastigs á jörðunni. Loftslagsfræðingurinn dr John Christy o.fl. hafa sýnt fram á með hitastigsmælingum gervihnatta og loftbelgja, sjá Earth and Space Science við The University of Alabama á tímabilinu 1979-2014, að líkan IPCC er rangt, sem leiðir til allt of mikillar framreiknaðrar hlýnunar. Villan er fólgin í endurgeislun frá jörðu og út í geiminn, sem í líkaninu er aðeins helmingur af raunverulegu hitatapi.
15.11.2023 | 17:57
Gæluverkefni að breytast í martröð
Mikið hefur verið ferðazt og mikið hefur verið skrafað og skrifað um uppáhaldsgæluverkefni stjórnmálamanna alla þessa öld og reyndar frá Kyoto ráðstefnunni áratug fyrir aldamótin, þótt ekki sé traust land undir fótum um nákvæman þátt styrks koltvíildis í andrúmslofti á hlýnun jarðar. Snorri, goði, spurði á Alþingi, er fregnir bárust þingheimi um eldsumbrot á tíma þinghaldsins, er trúskipti í landinu voru til umfjöllunar: hverju reiddust goðin, er hraun það rann, er nú stöndum vér á.
Nú spyr afkomandi hans: hverju hafa sætt fyrri hlýskeið í sögu jarðar, þegar hitastig andrúmslofts náði hærri hæðum en núverandi lífverur á jörðunni upplifa, í ljósi þess, að rannsóknir sýna, að þá var koltvíildisstyrkur andrúmslofts miklu lægri en nú er eða svipaður og í upphafi iðnvæðingar (um 1750) ?
Það skyldu þó ekki vera önnur lögmál á ferðinni en lögmál Ångströms um gróðurhúsaáhrif gastegunda á borð við CO2 ? Enginn efast um, að gróðurhúsaáhrif gastegundanna eru fyrir hendi, einna helzt H2O, en deilt er um, hversu mikil sú hlýnun raunverulega er, og er þá vísað til gervihnattamælinga (t.d. frá John Christi), sem sýna mun minni hlýnun en IPCC (Loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna) belgir sig út með af mikilli vandlætingu yfir hegðun manna í sönnum loddarastíl.
Íslenzkir stjórnmálamenn hafa farið offari í skuldbindandi markmiðasetningum á alþjóðavísu, þótt Íslendingar hafi náð mun meiri árangri á sviði, þar sem tæknilega auðveldast hefur verið um vik, þ.e. orkusviðinu, þar sem um 85 % heildarorkunotkunar landsmanna er frá endurnýjanlegum orkulindum, sem losa lítið koltvíildi við notkunina.
Tveir valinkunnir menn rituðu afar skýra og ítarlega grein um þessi efni í Morgunblaðið 4. nóvember 2023 undir fyrirsögninni:
"Heimsmet í hættu".
Þar er með talnalegum rökum sýnt fram á skýjaglópsku íslenzkra stjórnmálamanna, sem tekið hafa gæluverkefnið "Baráttuna við hlýnun jarðar" upp á arma sér af fullkominni sýndarmennsku, því að þeir hafa sett landsmönnum með öllu óraunhæf markmið með þeim afleiðingum, að ríkissjóður mun þurfa að greiða risaupphæðir til fjölþjóðlegra stofnana (ESB) í sektir. Hér hefur stjórnmálamönnum rétt einu sinni tekizt að forgangsraða með vitlausum hætti. Þeir hafa ekki tekið tillit til þess, að tækniþróun og kostnaður samfara þessum orkuskiptum útiloka, að hægt verði að ná markmiðum þeirra, og rétt einu sinni hafa þeir látið flækja ríkiskassann í stórfelld útlát, sem landsmenn hafa ekki efni á. Síðan er sú einkennilega þversögn við lýði á stjórnarheimilinu, að sá stjórnarflokkanna, sem ákafastur er í vitleysunni, þ.e. að setja óraunhæf markmið og gorta af, leggst þversum gegn útvegun sjálfbærrar, innlendrar orku í stað jarðefnaeldsneytisins og flutningi hennar á milli landshluta. Með þessu skýtur forsætisráðherra sig í fótinn, en það er í stíl við aðra ósamkvæmni í pólitískum störfum hennar, sem er ný af nálinni í íslenzum stjórnmálum. Þann skrípaleik virðast kjósendur þó ekki kunna að meta, og þarf engan að undra.
Téð grein Jóns Ólafs Halldórssonar, formanns SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, og Egils Jóhannssonar, stjórnarmanns í SVÞ og Bílgreinasambandinu, hófst þannig:
"Stjórnvöld virðast ekki vita í hvorn fótinn þau eiga að stíga, þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Glundroði ríkir.
Stjórnvöld hafa undirgengizt alþjóðlegar skuldbindingar um samdrátt losunar á beinni ábyrgð Íslands, sem nemur um 29 % árið 2030 m.v. stöðuna árið 2005. Þau hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg um 55 % samdrátt sama ár og stefna að heimsmeti með því, að Ísland verði fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land heims árið 2040. Ef illa tekst til, blasa við allt að mrdISK 10 ríkisútgjöld á ári vegna kaupa á losunarheimildum eða innflutningur á rándýrum íblöndunarefnum, sem margfalda gjaldeyrisútstreymi."
Hvað í ósköpunum gengur íslenzkum stjórnvöldum til að haga sér með svo óábyrgum hætti, sem þarna er lýst. Áður en markmið eru sett, verður sá, sem á að ná markmiðinu, að hafa aðferðarfræðina, sem beita á til að ná markmiðinu, á hreinu. Í tilviki stjórnvalda fórna þau mikilvægum stjórntækjum sínum við neyzlustýringuna áður en áratugurinn, sem skipta átti sköpum, er hálfnaður. Ríkisvaldið hefur ekki haft nægilegt úthald við að ná markmiðinu til að nokkur von sé til, að það heppnist. Hún flækir þar með landsmenn enn meir í gildru fjárhagskvaða, sem Evrópusambandinu mun þóknast að innheimta í fyllingu tímans. Þetta er léttúðug stjórnsýsla.
"Árið 2022 áttu 33 % af losun koltvísýrings á beinni ábyrgð Íslands uppruna sinn að rekja til vegasamgangna. Í þeim flokki hefur losun aukizt með auknum efnahagsumsvifum. Í vegasamgöngum liggja þó mestu tækifærin til losunarsamdráttar, þar sem nýting hreinorkutækni er þar lengst komin. Til að ná settum markmiðum hafa stjórnvöld m.a. ráðizt í aðgerðir, sem eiga að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum."
Menn sjá í hendi sér, hversu lélega leiðsögn stjórnvöld veita við að ná rándýrum loftslagsmarkmiðum þeirra, að á sviði, sem nemur þriðjungi losunar á beinni ábyrgð Íslands, höfum við fjarlægzt markmiðin, því að losun hefur aukizt, þrátt fyrir innflutning hreinorkubíla og bætta orkunýtni bíla, sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. Nú eru stjórnvöld að gera fjölmarga afhuga hreinorkubílum í bílaviðskiptum 2024-2025 með því að auka bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað kaupenda hreinorkubíla 2024-2025. Þannig skýtur ríkisstjórnin sig í fótinn og býður hættunni heim á stórútlátum í refsigjöld til ESB frá 2030.
"Þrátt fyrir ágætan árangur erum við enn langt frá fullum orkuskiptum. Hreinorkuökutæki voru aðeins 18.054 í lok árs 2022 eða 6,5 % af heildarfjöldanum. Því er ljóst, að það þarf að gera enn betur. Búast má við, að ökutækjaflotinn í landinu nemi 328 k ökutækjum árið 2030 og hreinorkubílar verði aðeins um 104 k talsins eða 32 %. Líklegt er, að losun frá vegasamgöngum nemi þá 893 kt CO2íg (koltvísýringsígildi) og verði í raun 15 % meiri en árið 2005, en ekki 55 % minni."
Þetta er átakanleg niðurstaða. Hvernig datt Katrínu Jakobsdóttur og umhverfisráðherranum úr sama flokki í hug að vaða algerlega blint í sjóinn með það, sem þau voru að gera. Þau geta auðvitað ekki reiknað dæmi af þessu tagi, en þau hafa örugglega ekki fengið neinn með viti til að gera það fyrir sig. Eini hugsanlegi ráðgjafinn í þessum efnum er Landvernd, þar sem ráðherrann gegndi framkvæmdastjórastöðu áður en hann var dubbaður upp í stjórnarráð Katrínar. Hneisan verður alger fyrir yfirvöld, þegar þau kynna þessi ósköp innanlands og erlendis. Það er bót í máli, að fyrir loftslagið skiptir þessi heimska engu máli, enda hafa eldgos 2020-2030 haft meiri áhrif en eldsneytisknúnir bílar á Íslandi á loftslagið á tímabilinu.
"Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn, og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti. Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma, þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum. Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða, sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja [á] hraða orkuskipta. Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið."
Hið opinbera vinnur flest með hangandi hendi, og þegar allt í einu rennur upp fyrir vinstri slagsíðu ríkisstjórnarinnar, að þeir eru orðnir nokkrir núna, sem aka um vegi landsins án þess að greiða allt of háar álögur til ríkissjóðs og nota raforku, sem er af skornum skammti í boði vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, þá veit ríkisstjónin ekki í hvora löppina hún á að stíga.
"Orkuskiptin eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni síðari tíma, og þau er mikilvægt að taka föstum tökum. Glundroði getur reynzt sandur í vél þeirra. Öllu skiptir, að undirbúningur og framkvæmd aðgerða helgist af jafnmiklum metnaði og markmiðin, sem að er stefnt. Þær séu í samhengi, fyrirsjáanlegar, hagkvæmar, samvirkar og mælanlegar."
Ráðherrar, Alþingi og embættismenn hafa klúðrað góðri hugmyndafræði orkuskiptanna með fljótræði, innantómum montmarkmiðum og getuleysi við skipulagningu framkvæmda. Flest þetta fólk er reynslulaust úr heimi einkaatvinnurekstrar, þar sem þekking, geta og reynsla af sviði stjórnunar með markmiðasetningum ("Management by Objectives") er fyrir hendi og hefur borið góðan árangur. Þetta þekkja þeir 2 heiðursmenn, sem tilvitnaða grein rita, vafalaust úr sínum rekstri. Þessu virðist alls ekki vera til að dreifa á meðal opinberra starfsmanna. Hugarfarið er öðru vísi, og því fer sem fer með markmið og áætlanagerð opinberra starfsmanna.
Þei, sem tekið hafa þá trú (bitið það í sig), að þjóðfélagslega sé bezt, jafnvel nauðsynlegt, að færa sem flest svið mannlegrar tilveru undir opinbera stjórn eða jafnvel í hendur hins opinbera, eru gjörsamlega veruleikafirrtir afneitunarsinnar og skapa fólki þess vegna mikil vandamál, þar sem þeir ná völdum.