Orð af viti frá þingflokksformanni

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins rekur í stuttu og lauslegu máli umræður á þingi að hennar frumkvæði um orkumál í Morgunblaðsgrein 27. janúar 2024 undir fyrirsögninni:

"Orkumál í stóra samhenginu"

Ingibjörg Ísaksen lýkur grein sinni með eftirfarandi rökréttu ályktun:

"Niðurstaðan hlýtur að vera sú, að aukin virkjun og framleiðsla á raforku ásamt betra dreifikerfi [og flutningskerfi - innsk. BJo] þjóni hagsmunum okkar allra í stóra samhenginu."

Afturgöngurnar, sem iðka það að setja sig á háan hest, afneita staðreyndum, berja hausnum við steininn, og kasta fram fullyrðingum út í loftið, komu lítillega við sögu hjá Ingibjörgu:

"Þátt fyrir að sérfræðingar innan orkuiðnaðarins hafi lengi bent á aukna orkuþöf þjóðarinnar og yfirvofandi orkuskort hér á landi, þá eru greinilega aðilar, sem enn eru ekki sannfærðir um vandann.  

Eftirspurn eftir raforku hér á landi er orðin meiri en framboð, og samfélagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili.  Æ oftar gerist það, að fyrirtæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda daglegri starfsemi sinni gangandi í samræmi við samninga vegna ótryggðrar orku, sem mikilvægir eru til að fullnýta kerfið.  Í þessu felst kostnaður fyrir okkur öll ásamt þeim neikvæðu umhverfisáhrifum, sem slík brennsla hefur í för með sér."

Þeir, sem stinga hausnum í sandinn og afneita borðleggjandi staðreyndum um orkuskort, eru hinir sömu og enn þvælast fyrir öllum raunhæfum úrræðum til úrlausnar.  Ingibjörg nefnir hér ekki þingflokk vinstri grænna, þótt þar séu "the usual suspects", en fleiri furðufugla af þessu tagi hefur flotið á fjörur Alþingis og sitja þar nú mörgum til ama. 

Þessi hegðun heitir vanræksla, og hafa stjórnmálamenn hlotið dóm fyrir slíka synd gegn þjóðarhagsmunum.  Nú gangast menn upp í því að vanrækja skyldur sínar og bera fyrir sig heimskuvaðal á borð við, að "náttúran verði að njóta vafans". Embættismenn margir hverjir eru lítt skárri, og mætti þar nefna Orkustofnun sem dæmi, en núverandi gagnsleysi þeirrar stofnunar fyrir fólkið í landinu hefur birzt í atburðum tengdum jarðeldunum á Suðurnesjum. 

"Þó svo að heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki, verði að mestu óhult, ef til skömmtunar á raforku kemur, þá þurfum við að horfa á stóru myndina.  Ef við öflum ekki meiri raforku og dreifum henni á sem beztan máta, þá mun það hafa talsverð áhrif á atvinnulíf hér á landi.  Stórnotendur raforkunnar okkar bera þungann af skerðingum á raforku.  Um er að ræða þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki, sem skila samfélaginu talsverðum útflutningstekjum, og það kom nokkuð á óvart, að talsmenn sumra flokka á Alþingi hefðu takmarkaðar áhyggjur af því, að slíkar skerðingar eigi sér stað í rekstri þeirra með tilheyrandi áhrifum á vöru þeirra og þjónustu."

Það eru sósíalistísk viðhorf að hafa horn í síðu fyrirtækja og leggja jafnvel heilar atvinnugreinar í einelti. Þannig hefur viðhorf sósíalista hérlendis frá upphafi stóriðju á Íslandi mótazt af fordómum og fávizku, þótt þeir viti varla lengur ástæðurnar.  Nú eru oft tilfærðar umhverfisástæður, sem er út í hött, því að eins og fyrrverandi Orkumálastjóri, Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðingur, þreyttist ekki á að benda á, t.d. í blaðagreinum, leggur engin hérlend atvinnugrein jafnmikið að mörkum til lofslagsmála á heimsvísu og málmiðjuverin.

Ingibjörg Ísaksen hefur með þessarri blaðagrein sýnt, að hún hefur sig upp fyrir lágkúruna á Alþingi, og gæti hæglega farizt stjórn á ráðuneyti vel úr hendi. 

"Þegar öllu er á botninn hvolft, þá verðum við að ákveða  í hvernig [hvers konar] samfélagi við viljum búa.  Viljum við takmarka orku fyrir stórnotendur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raforkukosti  í sínum rekstri, eða viljum við tryggja, að stór og stöndug fyrirtæki hafi nægjanlega orku fyrir hendi til að skapa útflutningstekjur, sem skila sér til framkvæmda á mikilvægum innviðum og í velferð samfélagsins ? Hér er átt við öflug fyrirtæki, sem flokkast sem stórnotendur og bjóða upp á haldbærar vörur og/eða þjónustu.  Hér þufum við að gera greinarmun á milli slíkra fyrirtækja og annarra stórnotenda á borð við rafmyntagröft, en ekki setja alla stórnotendur undir sama hatt."

Þarna sýnir Inibjörg góðan skilning á þjóðhagslegu mikilvægi orkukræfrar starfsemi með langtíma samninga um raforkukaup, fjöldann allan af fjölbreytilegu vel launuðu starfsfólki í vinnu og mikla og vaxandi verðmætasköpun með aukinni sérhæfingu.  

 

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband