28.10.2011 | 18:33
Vafstur í kringum ekki neitt
Öllum er nú orðið ljóst, að við völd hérlendis hangir verklaus ríkisstjórnarómynd, sem ekkert kann til verka. "It is the economy, stupid", var haft eftir bandarískum forsetaframbjóðanda fyrir nokkrum árum, eða "það eru efnahagsmálin, bjáni", sem skipta kjósendur mestu máli, þegar á móti blæs. Það er engu líkara en dulið stefnumið ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sé að halda landsmönnum sem lengst á botni kreppunnar og sjúga þannig merginn úr þjóðinni.
Það er áreiðanlega mikið til í því, að efnahagsmálin séu mál málanna í huga flestra kjósenda, og það vita gamlingjarnir, sem fyrir núverandi ríkisstjórn fara. Þess vegna hafa þau í óþokkaskap sínum stöðugt fitjað upp á nýjum deilumálum í þjóðfélaginu til að leiða kjósendur á villigötur; kasta ryki í augu almennings. Nægir að nefna stjórnlagaþing-ráð, umsókn um aðildarviðræður við ESB (Evrópusambandið) og þjóðnýtingu aflaheimildanna, sem er svíðingsleg framkoma handahafa ríkisvaldsins í garð þeirra, sem í góðri trú keyptu sér aflahlutdeild á Íslandsmiðum á frjálsum markaði. Sú aðgerð mun setja útgerðina á hausinn samkvæmt úttekt þekkts endurskoðunarfyrirtækis. Öllu er snúið á haus að hálfu þingmeirihlutans, alið á öfundinni að hætti Marxista, skáldskapur borinn á borð sem sannleikur í nafni réttlætis og síðan á að láta kné fylgja kviði og drepa aðalmjólkurkú landsins vegna öfundar og í nafni sameignarstefnunnar.
Öll þessi deilumál eru til þess fallin að drepa umræðu um efnahagsmálin á dreif og ömurlegri aðkomu forræðishyggjuflokkanna að þeim. Vinstri flokkarnir starfa algerlega í anda atvinnueyðingar, enda hefur öll starfsemi þeirra miðað að niðurrifi atvinnulífsins. Það er brennt fyrir, að þeir hafi skilning á hagsmunum atvinnulífsins, og þeir hatast við sjávarútveg og orkukræfan iðnað. Þeim er þess vegna um megn að leiða nokkra framfarasókn. Það var nauðsynlegt fyrir kjósendur að sannreyna þetta til að mynda ónæmi gegn fagurgalanum um eitthvað annað, sem er eitthvert innihaldslausasta og falskasta áróðursbragð fátæktarflokkanna, sem um getur.
Þeir ætluðu sér aldrei að gera neitt uppbyggilegt í atvinnumálum, og niðurrifstilburðum þeirra í garð atvinnulífsins hefur ekki linnt. Hefur þetta skaðræði í garð hverrar einustu fjölskyldu í landinu gengið svo langt, að heildarsamtök verkalýðsfélaganna, Alþýðusamband Íslands, ASÍ, hafa séð sig knúin til að andmæla framferði ráðherranefnanna. Af þessum ástæðum verður að dæma vinstri flokkana úr leik. Hvorugur þeirra er stjórntækur. Þar fara einvörðungu blaðurskjóður og svikahrappar. Vitneskjan um það hefur heldur betur orðið landsmönnum dýrkeypt.
Er þess skemmst að minnast, að Samtök atvinnulífsins, SA, og ASÍ gerðu með sér griðasamning til eflingar atvinnulífs og atvinnusköpunar. Svikahrapparnir í ríkisstjórn áttu aðild að fögrum fyrirheitum, reistu loftkastala, og sviku allt saman með framlagningu þjóðnýtingarfrumvarps aflaheimilda á Alþingi og áframhaldandi moldvörpustarfsemi í garð virkjanaáforma og erlendra fjárfestinga á sviði iðnaðar, sem leiddi til upplausnar samningaviðræðna áhugasams álframleiðanda og Landsvirkjunar í fyrsta sinn í sögunni að sögn forstjóra fyrirtækisins, sem að vísu samt er sennilega rangt, sbr viðræðurnar við Alumax o.fl. um álver á Keilisnesi á sínum tíma.
Á Evrópuvaktinni 21. október 2011 er frá því sagt, að talsmenn ESB hafi tekið áróðursmálaráðherra Þriðja ríkisins, Dr Josef Göbbels, fram, þegar þeir matreiddu ofan í almenning það, sem nú er að gerast innan ESB. Þó að áróðursmeistarar ESB snúi öllu á haus, þegar lýst er samskiptum, sem réttara er að kalla viðureign, Angelu Merkel, kanzlara, og Nicolasar Sarkozy, forseta 5. lýðveldisins, þá er nú hæpið, að þeir komist með tærnar, þar sem Dr Göbbels hafði hælana. Honum tókst að blekkja Þjóðverja til fylgilags við ógnarstjórn og tókst lengi vel að fegra hana í augum umheimsins, svo að nazistar, eins og kommúnistar, áttu skoðanabræður og -systur lengi vel um allan heim. ESB mun senn líða undir lok í sinni núverandi mynd, vegna innanmeina lýðræðishallans, þó að ósanngjarnt sé að líkja því við Þriðja ríkið eða Ráðstjórnarríkin. Yfirstandandi sprikl eru dauðateygjur gagnslauss skrímslis.
Umheiminum, ekki sízt fjármálaheiminum, dylst ekki, að evran, og þar með ESB í sinni núverandi mynd, eru komin á leiðarenda. Veikleikar Frakklands eru að opinberast, og Þjóðverjar ætla nú að gjalda Frökkum rauðan belg fyrir gráan enn einu sinni, og þó að fyrr hefði verið. Belgar þurftu nýlega að setja um 15 % af ríkistekjum sínum til björgunar fransk-belgískum banka. Franskir bankar standa á brauðfótum vegna mikillar afskriftaþarfar í Grikklandi og annars staðar í Suður-Evrópu, og franskur þjóðarbúskapur höktir vegna hárra skatta, hallarekstrar ríkissjóðs og hrikalegrar miðstýringar frá París.
Rauðvínslegnir loftkastalar hugumstórra Gallanna munu hrynja eins og spilaborg, en völdin í Evrópu flytjast til Potzdamer Platz. Þetta er óhjákvæmileg þróun, því að Germanirnir hafa teflt þessa skák betur en Gallarnir. Meira að segja Bretar eru nú farnir að tala um að taka upp Berlínartíma, og hefði einhverjum þótt það vera sem að bölva í kirkju. Vöxtur og viðgangur Þýzkalands er ekki slæm þróun fyrir Íslendinga, því að Þjóðverjar hafa alla tíð frá dögum kristnitökunnar á Alþingi haft taugar til Íslands og ótrúlega mikil og góð samskipti jafnan verið á milli Íslands og þýzku ríkjanna. Nægir að minna á frásagnir Adams frá Brimum og kristniboðann Þangbrand, sem hingað var sendur, auk vígsluferða íslenzkra biskupa til Þýzkalands og sambands katólsku biskupanna við höfðingja í Þýzkalandi, t.d. þess síðasta, Jóns Arasonar á Hólum.
Framferði ríkisstjórnar Jóhönnu jafngildir viðurstyggilegri sóun á fjármunum íslenzka ríkisins og tíma íslenzku stjórnsýslunnar til að slá ryki í augu íslenzkra kjósenda, svo að þeir nái ekki að greina aðalatriðin frá aukaatriðunum. Íslenzkum heimilum og íslenzkum fyrirtækjum er mörgum hverjum að blæða út vegna stefnu ríkisstjórnarinnar um að gera ekki neitt á kostnað fjármálavaldsins og ekkert til sköpunar nýrra starfa. Þvert á móti er róið á bæði borð gegn alvöru atvinnuuppbyggingu í landinu, eins og aðförin að sjávarútveginum og Bakkaáformum ásamt Helguvík er lýsandi dæmi um.
Ljós í myrkrinu er dómur Hæstaréttar, sem kveðinn var upp 28. október 2011, um það, að neyðarlögin frá kvöldi dags, 6. október 2008, standist ákvæði stjórnlaga og almennra laga. Höfuðábyrgð á þessum lögum bar Geir Hilmar Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og var hann flutningsmaður frumvarpsins. Neyðarlögin björguðu Íslandi frá gjaldþroti. Með þeim bjargaði Alþingi því, sem bjargað varð, í öngþveiti fjármálalegrar og stjórnmálalegrar einangrunar landsins. Núverandi fjármálaráðherra og flokkur hans, Vinstri hreyfingin grænt framboð, greiddi ekki atkvæði með neyðarlögunum. Þar með gengu vinstri grænir, með sínum hætti, erinda alþjóðlegs bankaauðvalds, þó að Steingrímur játi nú, að ríki eigi rétt á því að fara "íslenzku leiðina", sem hver þekkti erlendi hagfræðingurinn um annan þveran keppist nú við að bera lof á. Rökrétt áhrif téðs Hæstaréttardóms á Landsdóm er að sýkna fyrrverandi forsætisráðherra. Það yrði óviðunandi hneisa fyrir landsmenn og mundi reisa hefndarskyldu að dæma hann sekan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2011 | 20:49
Volæði eða velmegun
Á Vesturlöndum á sér nú stað meiri þjóðfélagsgerjun en orðið hefur á síðastliðnum 40 árum eða síðan á dögum Víetnam-stríðsins. Þjóðfélagsþróunin síðan þá er komin í öngstræti. Vestræn þjóðfélög mörg hver eru ósjálfbær í orkulegu, umhverfislegu og fjárhagslegu tilliti, samfélagsauðurinn eða eignamyndunin leitar víðast hvar á æ færri hendur og meðalaldur þjóðanna hækkar ískyggilega vegna fárra fæðinga. Mikið langtíma atvinnuleysi hrjáir flestar þjóðirnar og kemur hrikalega illa niður á unga fólkinu. Hagkerfin eru í uppnámi og virðast ekki lengur geta bætt afkomu gömlu iðnveldanna.
Við hrun fjármálakerfisins, sem oft er miðað við gjaldþrot "Lehman brothers", 15. september 2008, tapaði almenningur miklum fjármunum á formi falls verðgildis hlutabréfa og fasteignaverðslækkunar, sem að meðaltali nam um 40 % á alþjóðlega vísu. Hrun fjármálamarkaðanna er rakið til furðulegra gjörninga fjármálafyrirtækja, sem juku peningamagn í umferð mikið, hækkuðu hlutabréf og fasteignaverð og skópu þenslu, eignabólu og tilfinningu almennings fyrir velsæld. Þjóðirnar dönsuðu í kringum gullkálfinn í boði fjárfurstanna, sem voru í hlutverki sirkusstjóra og höfðu almenning að fífli.
Allt var þetta reist á sandi. Um var að ræða eitraða lánavafninga og afleiðuviðskipti, sem voru reist á sviksamlegu athæfi og blekkingum. Spilaborgin féll, bankar urðu ósjálfbjarga, en var víðast hvar bjargað með mikilli innspýtingu fjármuna úr ríkissjóðunum. Undantekning var Ísland, þó að íslenzka ríkið vissulega yrði fyrir miklum skelli. Þetta leiddi til aukins atvinnuleysis, skattahækkana og niðurskurðar ríkisútgjalda, sem herti mjög að hag almennings. Skuldirnar hlóðust upp.
Ríkin ná sér ekki upp úr kreppunni vegna gríðarlegra skulda fjölskyldna, fyrirtækja og hins opinbera. Fífldjörf stórmennskutilraun stjórnmálamanna Frakka og Þjóðverja með viðrinismynt, evruna, sem skortir haus og hala og nauðsynlegan bakhjarl á formi sameiginlegs ríkisvalds, setti í maí 2010 af stað seinni fjármálakreppuna að þessu sinni, og kann sú að verða sýnu verri hinni fyrri fyrir ýmsar þjóðir. Frakkar bera mikla ábyrgð á því, hvernig komið er fyrir Evrópu, því að þeir kúguðu Þjóðverja til að afsala sér Deutsche Mark og taka upp evru gegn samþykki hernámsveldis á endursameiningu Þýzkalands. Einkenni kreppunnar er yfirvofandi hætta á ríkisgjaldþroti allra Suður-Evrópuríkjanna, sem var smyglað óverðskuldað inn í evrusamstarfið á stjórnmálalegum forsendum. Þá er og í fersku minni leikur bandarískra þingmanna síðast liðið sumar með fjöregg bandaríska ríkissjóðsins. Það á að taka þann kaleik frá stjórnmálamönnum, sem er stjórnun peningamála. Þeir eiga nóg með ríkisfjármálin.
Nú segir almenningur um gjörvallan heim hingað og ekki lengra. Háskalegri fjármunamyndun og óréttlátri skiptingu auðævanna er mótmælt á götum borga með ofbeldisfullum hætti. Traust á stjórnmálamönnum, sem stutt haf leynt og ljóst við myndun þessa úrkynjaða kerfis, hefur hrapað niður undir núllið. Sums staðar, t.d. í Grikklandi, er byltingarástand og eigi að ófyrirsynju. Viðrinið hefur snúizt gegn eigendum sínum.
Einkennandi fyrir þessi mótmæli, enn sem komið er, er, að þau eru mótmæli gegn ríkjandi valdakerfi án þess að benda á það, sem koma skal. Það er ekki hrópað, að stjórnleysi eða sameignarstefna, einhvers konar Marxismi, skuli taka við. Það er hins vegar andstaða við sérhagsmunagæzlu fjármálafursta, sífellt ójafnari eignaskiptingu og sósíalisma andskotans, sem þjóðnýtir tapið og einkavæðir gróðann. Það er hrópað á slíkt réttlæti, að sérhver vinnandi maður og kona skuli bera úr býtum eðlilegan skerf af virðisauka vinnu sinnar, þ.e.a.s. að ekki sé hirtur vaxandi hluti virðisaukans af starfsmönnum og mun meiri en þarf til viðgangs fyrirtækisins og 10 % - 20 % arðgreiðslu til eigenda.
Það er fremur hrópað á meira og virkara lýðræði, e.t.v. meiri áherzlu á beint lýðræði, en umfram allt meiri fjárhagslegan stöðugleika og réttlátari skiptingu auðævanna. Fjármálakerfið verður að endurskipuleggja, og það ber að setja stærð peningastofnananna skorður, t.d. með því að banna fjárfestingarfyrirtækjum að stunda inn-og útlánastarfsemi. Ríkistrygging á starfsemi fjármálastofnana verður að heyra sögunni til, en eðlilegt er að skylda banka til að tryggja innlán upp að ákveðnu marki, t.d. MISK 10 á mann.
Á Íslandi er alveg ljóst, að við munum dansa á botni kreppunnar á meðan vinstri flokkarnir eru við stjórnvölinn. Fjandsemi þeirra í garð grundvallar atvinnuveganna allra, sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og ferðamennsku, er með þeim hætti, að atvinnuvegirnir eiga sér ekki viðreisnar von, nema söðlað verði um. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú kynnt til sögunnar leiðarvísi inn í framtíðina með því að senda Framtíðina inn á hvert heimili.
Nú hefur fólk mjög skýrt val: að beita beztu þekkingu á öllum sviðum þjóðlífsins og virkja kraftinn, sem býr í einkaframtakinu, til hagsbóta fyrir heildina og undir styrkri stjórn með heildarhagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi - eða að erfiða eins og færilús á tjöruspæni í stöðnuðu hagkerfi og í hrörnandi þjóðfélagi, þar sem innviðirnir eru að grotna niður fyrir tilverknað forstokkaðra forsjárhyggjusinna.
Dekur vinstri flokkanna við fjármagnseigendur er og með eindæmum. Þeir bugtuðu sig og beygðu fyrir AGS og ESB, þegar þessir aðilar reyndu að tukta Íslendinga til uppgjafar fyrir peningavaldi Bretlands og Hollands í Icesave-málinu. AGS og ESB eru handbendi þess fjármálavalds, sem nú er mótmælt hvarvetna í Evrópu og um gjörvallan heim. Upp um þetta flaðra vinstri flokkarnir á Íslandi, algerlega utan gátta. Er þetta hægt, Matthías ?
Ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde, sem núverandi þingmeirihluti ofsækir nú fyrir Landsdómi, sjálfum sér til ævarandi skammar, hitti í tímaþröng á rétta leið, þegar ofvaxnir íslenzkir bankar hrundu í október 2008. Íslendingar sluppu þess vegna tiltölulega vel út úr Hruninu, þó að áfallið yrði gríðarlegt. Það hefði hæglega getað steypt landinu í glötun, þegar Geir bað Guð að blessa Ísland. Síðan sú stjórn hrökklaðist frá, hefur enn sigið á ógæfuhlið, enda eintóm handabakavinnubrögð viðhöfð. Vesalings sameignarsinnarnir kunna ekkert til verka, enda aldrei þurft að dýfa hendinni í kalt vatn.
Fjölskyldur, fyrirtæki og hið opinbera urðu hérlendis fyrir gríðarlegum skelli með skuldahækkun og þyngri greiðslubyrði auk minni vinnu og í mörgum tilvikum vinnumissi. Það verður að hafa endaskipti á stjórn landsins og fara að stjórna Íslandi með hagsmuni almennings að leiðarljósi, en ekki peningafursta innanlands og utan og viðrinislegrar sérvizku á borð við umhverfisofstæki. Þegar Alþingi er þannig skipað, að þingmenn meirihlutans fagna því, að Þingeyingar og aðrir íbúar á Norð-Austurlandi verði fyrir áfalli í atvinnulegu tilliti, þegar stórfyrirtæki hætti við uppbyggingu á Bakka, þá er dagljóst, að íbúarnir eiga aðeins eitt svar:
að sópa þessu sama liði út af Alþingi. Það á að þurrka Vinstri hreyfinguna grænt framboð og Samfylkinguna út í Norð-Austurkjördæmi. Þá er hlutur hræsnarans á stóli iðnaðarráðherra kapítuli út af fyrir sig. Óheiðarleiki og sviksemi skín út úr hverjum andlitsdrætti ráðherranna. Þeim er ekki treystandi fyrir horn og verður goldið með rauðum belg fyrir gráan.
Lykilatriði er efling atvinnustarfsemi með nýjum fjárfestingum til langs tíma til að auka útflutningstekjurnar. Peningamálastjórnunina og ríkisfjármálin þarf að taka föstum tökum til að skapa hér stöðugleika í anda Wirtschaftswunder, efnahagsundursins þýzka, sem reist var á markaðshyggju með félagslegu tryggingakerfi. Verðtrygging á ekki heima í slíku kerfi. Með því að létta byrðum af almenningi, sem rekja má til Hrunsins, með almennum afskriftum og sameiginlegu átaki, t.d. skattalækkunum, og efla jafnframt tekjuhlið heimilisbókhaldsins, má hressa upp á neyzlu almennings og endurlífga fjárfestingar. Umfram allt þarf að losna við viðundrin úr Stjórnarráðinu og sækja fram í einni fylkingu til hagvaxtar, sem bætir hag allra. "Að vera eða að vera ekki, þar er vafinn", sagði Hamlet eða Amlóði. Menn verða að leggja fortíðina að baki og gera upp hug sig sinn um, hvernig þeir vilja hafa framtíðina. Borgaralegu flokkarnir hafa nú stigið myndarleg skref í þá átt að auðvelda fólki ákvörðun sína um, hvernig haga skuli stjórnun ríkisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.10.2011 | 20:51
Fjármálavaldið
Eftir hinar óhugnanlega háu afskriftir skulda íslenzku bankanna, e.t.v. um 10 þúsund milljarða kr eða um 100 milljarða bandaríkjadala, sem aðallega Þjóðverjar máttu súpa seyðið af, við gjaldþrot íslenzku bankanna þriggja fyrir 3 árum, haustið 2008, var sennilega fljótvirkasta aðferð endurreisnar sú, sem ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde valdi, að leita ásjár Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS.
Þar fengust lán til að mynda hryggjarstykki í gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans, sem er öryggi að og nauðsynlegur bakhjarl krónunnar, þegar hún fer aftur á flot. Með samstarfinu við AGS vaknaði að nýju nokkur trúverðugleiki í garð fjárhagslegrar endurskipulagningar Íslands eftir hið nánast algera hrun fjármálakerfis landsins.
Hins vegar var að hálfu vinstri stjórnarinnar, sem við völdum tók eftir mikinn undirróður sömu flokka og óeirðir á götum úti, sem jafna má við ofbeldisfulla byltingu, staðið aulalega að því að ná endum saman í ríkisrekstrinum. Þumalfingursregla við slíkar aðstæður, til að lágmarka samdráttaráhrifin á hagkerfið, er, að 1/3 af bilinu sé brúaður með skattahækkunum og 2/3 með sparnaði ríkisútgjalda. Vinstri stjórnin fór alveg öfugt að og framfylgdi þar með skattahækkunarstefnu, sem forkólfar vinstri flokkanna, alveg sérstaklega fjármálaráðherrann, höfðu boðað og barizt fyrir árum saman. Skal fullyrða hér, að skattahækkanir í fjármálaráðherratíð Steingríms Jóhanns Sigfússonar hefðu orðið svipaðar, þó að ekkert Hrun hefði orðið.
Fjármálaráðherra, sem tók barnatrú á Karl Marx og Vladimir Lenin, og gengur með úreltar og afskrifaðar kenningar þeirra sem steinbarn í kviði, neitar að viðurkenna einföld lögmál hagfræðinnar um samband eftirspurnar og verðs. Þegar hann var búinn að hækka eldsneytisverð upp fyrir þolmörk neytenda, minnkuðu eldsneytiskaupin og dróg úr skatttekjum ríkissjóðs samkvæmt lögmálinu. Gamall sameignarsinni í stóli fjármálaráðherra lét samt ekki að sér hæða og boðaði enn meiri skattheimtu til að vinna upp lækkun skatttekna. Allt er á sömu bókina lært hjá þessum vesalings manni, sem vistast mun í sögunni með ömurlegum og óafturkræfum hætti.
Nauðsynlegur liður í langtímaáætlun AGS var sú að laða að erlenda fjárfesta til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Slíkt átti að skapa þjóðinni viðspyrnu til að endurgreiða hin miklu lán, sem tekin höfðu verið, og nema skuldbindingar ríkissjóðs líklega um 110 % af VLF (vergri landsframleiðslu) nú, sem er hættulega hátt hlutfall.
Örvun fjárfestinga upp í 20 % -30 % af VLF á ári er einnig á stefnuskrá borgaralegu flokkanna í stjórnarandstöðu. AGS átti ekki von á því, að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands væru á öndverðum meiði um þetta langtímaráð. Það átti þó heldur betur eftir að koma á daginn. Vinstri flokkarnir lifa í núinu og éta útsæðið í stað þess að gera áætlun til a.m.k. 5 ára um endurreisn hagkerfisins.
Aðferð vinstri flokkanna er sú að setja upp hundshaus við hvern þann fjárfesti, sem rekur á fjörur hennar. Þeir sjá alltaf einhvern meinbug á honum. Hann er e.t.v. ekki af EES svæðinu, eða starfsemi hans er ekki forræðishyggjuflokkunum þóknanleg. Ef hann vill eiga viðskipti um mikla orku og reisa hér iðjuver, er farið að tuða um "eitthvað annað", sem væri þessum sjálfskipuðu sérfræðingum um gæði atvinnuuppbyggingar á Íslandi þóknanlegra. Síðan er jarmað undir, að náttúran skuli njóta vafans. Allt eru þetta þvílík undirmálsrök, að jafna verður við rökleysu. Í ljósi hinnar brýnu almannaþarfar á öflugra atvinnulífi og hagvexti, er ljóst, að blása verður nýju lífi í framkvæmdir og þar með verktakastarfsemina, sem vinstri stjórnin hefur næstum gengið af dauðri, enda er hún víst ekki "eitthvað annað". Vinstri flokkarnir eru getulausir, enda stefnulausir, þegar kemur að endurreisn landsins.
Svo þegar "eitthvað annað" holdi klætt í gervi kínversks auðjöfurs og ljóðskálds rekur á fjörur ríkisstjórnarinnar, þá sýnir hún honum fálæti, ef ekki dónaskap, leggst á umsókn hans um fjárfestingarleyfi undir yfirskini rannsóknar og ætlar greinilega að þreyta hann, svo að hann verði afhuga miklum fjárfestingum hér í ferðamannageiranum. Þessi ríkisstjórn vinnur allt með öfugum klónum, og þess vegna berjumst við enn um á botni kreppunnar, ef honum er þá náð. Vingulsháttur stjórnvalda er til háborinnar skammar. Afar þröngir sérhagsmunir fámennrar sérvitringaklíku virðist ráða för Bakkabræðra.
Framtíðarsýn forkólfa vinstri flokkanna er engin, sem heitið getur. Um þetta er yfirlýsing utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, í Frankfurt am Main þann 12. október 2011, ljóst dæmi um. Þar var hann staddur á meiri háttar bókasýningu, þeirri stærstu, sem um getur, ásamt utanríkisráðherra Sambandslýðveldisins Þýzkalands, Guido Westerwelle. Hvort sem Herr Westerwelle hefur verið búinn að bjóða ÖS þrisvar upp á líterskrús af "deutschem Bier" eður ei, þá vall ótrúleg og allsendis óviðeigandi þvæla út úr ÖS. Hann sagði, að framtíðarsýn Íslands væri Evrópusambandið. Hvílík endaleysa og öfugmæli. Forkólfar ESB hafa sjálfir, eins og nú er komið málum, enga framtíðarsýn. Það veit enginn, hvað um ESB verður. Hvernig er hægt að hafa eitthvað að framtíðarsýn, sem enginn getur sagt um á hvaða vegferð verður eftir 2 ár ? Það hefði verið miklu áhugaverðara, ef Össuri hefði ratazt á munn, að framtíðarsýn Íslands væri að verða 17. ríkið í Sambandslýðveldinu. Yfirlýsingin hefði verið fótalaus, en hefði hugsanlega kætt Herrn Westerwelle. Hann og flokkur hans, die FDP, eiga nú í umtalsverðum stjórnmálalegum kröggum og veitir ekki af huggun harmi gegn.
Forverar núverandi valdhafa á vinstri kanti stjórnmála komu fram að sumu leyti hreinni og beinni en núverandi trúðar. Þeir sögðu blákalt sína skoðun, að auðvaldinu á Íslandi yxi við það fiskur um hrygg, ef erlendir fjárfestar skytu hér rótum, og þá mundi halla á verkalýðsflokkana í stéttabaráttunni. Þess vegna var það þáttur í stéttastríði Kommúnistaflokks Íslands, Sameiningarflokks alþýðu-sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins, að koma í veg fyrir erlendar fjárfestingar. Dæmi um þetta er, að vinstri menn börðust hatrammari baráttu gegn stofnun Íslenzka Álfélagsins í Straumsvík og fyrstu stórvirkjun landsins, Búrfellsvirkjun, en gegn hersetunni. Nefndi Einar Olgeirsson Straumsvík "hausaskeljastaði". Nú er ISAL öruggasti vinnustaður á Íslandi og þótt víðar væri leitað með yfir 5 milljónir vinnustunda án slyss, er leiðir til fjarveru úr vinnu.
Hið einkennilega er, að Samfylkingin, sem kennir sig við jafnaðarstefnu, berst með oddi og egg fyrir innlimun Íslands í mestu auðvaldssamsteypu, sem stofnað hefur verið til í Evrópu, Evrópusambandsins, ESB. Það er tóm vitleysa, sem sagt er, að ESB hafi verið stofnað til að varðveita landamæri Evrópu með friðsamlegum hætti, sem ákveðin voru í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Þess gerðist engin þörf. Svo var kjarnorkuvopnunum fyrir að þakka. Nei, ESB var stofnað til að veita evrópsku auðvaldi hámarkssvigrúm án landamæra til að leika sér að örlögum alþýðu Evrópu, eins og nú er að koma á daginn. Það er hulin ráðgáta, hvers vegna hinir siðspilltu íslenzku vinstri flokkar sitja froðufellandi af löngun við borgarhlið Brüssel bíðandi eftir að verða hleypt inn í Berlaymont. Þeir munu verða að gjalti, eins og önnur tröll við dagrenningu.
Báðir íslenzku vinstri flokkarnir hafa fórnað hagsmunum íslenzks almennings á altari evrópsks auðvalds oftar en tvisvar. Haninn gól þrisvar, og téðir vinstri flokkar guggnuðu í öll skiptin. Þar sitja eintómar undirlægjur og heybrækur á fleti fyrir um þessar mundir, eins og dæmin sanna. Þeir ætluðu að henda íslenzkum skattborgurum fyrir ljónin í Icesave-málinu, en forseti lýðveldisins þekkti þessa fugla og blöskraði aðfarir sinna gömlu samstarfsmanna og stöðvaði þá háskaför.
Vinstri flokkunum tókst að færa erlendu kröfuhöfunum tvo íslenzka banka á silfurfati, og nú er margur berskjaldaður í baráttunni við vogunarsjóðina eða aðra eigendur bankanna, sem ekki er almennt vitað um, hverjir í raun og veru eru. Þarna véluðu um "alþýðuhetjurnar miklu", svikahrapparnir Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann Sigfússon, Þistilfirðingur.
Tugum milljarða hefur verið kastað á glæ í glópskulegu írafári, sem Bakkabræðurnir á vinstri bakkanum nefna björgun Sjóvár og sparisjóðanna. Sameignarsinnarnir eru í essinu sínu, þegar þeir fá tækifæri til að kasta peningum skattborgaranna á glæ.
Vinstri flokkarnir eru þannig sérstakir verndarar og talsmenn peningavaldsins. Um þetta er ekki lengur neinum blöðum að fletta. Þetta kom t.d. berlega í ljós, þegar Samfylkingin tók málstað mesta auðhrings Íslands 2003 og gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn fyrir andóf hans gegn auðjöfrunum. Starfsemi og málflutningur vinstri flokkanna er einn samfelldur öfugmælaóður, sem sumir mundu kalla lygavef.
Þegar hins vegar kemur að hinum, sem vilja setja fé í að skapa áþreifanleg verðmæti, hafa til þess tæknilega burði og vilja til að fylgja ströngustu mengunarvarnarkröfum og reglum um heilbrigði, hollustu og öryggi á vinnustað, þá fara Bakkabræðurnir í að bera ljósið inn í kofa sinn í kirnum og hafa engan tíma til viðræðna um að endurreisa íslenzkt athafnalíf. Fyrir þessa þröngsýni, sérvizku og hreina glópsku líður landslýður allur og mest fjölmennur hópur atvinnulausra og flóttafólks til útlanda. Sköpun handfastra verðmæta úr hafinu og með tilstuðlan endurnýjanlegrar orku með sjálfbærum hætti er sú leið, sem landsmenn eiga að einbeita sér að í stað loftkastalasmíða og draumóra kaffihúsasnata um "eitthvað annað". Fyrirmyndin í þeim efnum er Sambandslýðveldið Þýzkaland", sem reisti Austur-Þýzkaland úr rústum sameignarstefnunnar, tapaði sér aldrei í framleiðslu peninga með peningum án þess að fara framleiðsluleiðina. Þjóðverjar hafa alla tíð lagt áherzlu á verkmenntun, iðni, framleiðniaukningu og sköpun handfastra verðmæta. Þetta getur verið framtíðarsýn Íslendinga.
Það, sem þarf að gera, er að losna við handbendi erlends peningavalds úr ráðherrastólunum og taka hér upp sjálfstæða íslenzka stefnu á öllum sviðum. Það á að losa um höftin, afnema vísitölutengingar, binda endi á heimskulegan og rándýran látbragðsleik við blýantsnagara í Brüssel, sem heitir "Að kíkja í pakkann" og er að breytast úr "tragíkomedíu" í sorgarleik, leysa einkaframtakið úr læðingi til sköpunar áþreifanlegra verðmæta, helzt útflutningstekna, sem okkur ríður á að auka til að skapa efnahagslegan stöðugleika hér. Vegna skýlausrar kröfu um stöðugleika verður að taka upp stranga stjórnun ríkisfjármála og peningamálastjórnun í anda Bundesbank. Uppgjafarvæl vinstri flokkanna á að kveða í kútinn strax.
Plan B þarf að vera til í þessu sambandi sem oft endranær. Ef misheppnast að fleyta krónunni, þrátt fyrir vandaðan undirbúning, þarf að vera unnt að grípa til plans B. Það getur t.d. verið þannig, að samið verði við Merwyn King, formann bankastjórnar Englandsbanka, um aðstoð og stuðning við að tengja krónuna við brezka sterlingspundið.
Gangi þetta eftir, mun hagur strympu brátt vænkast, og landið verða komið í hóp þriggja tekjuhæstu landa Evrópu árið 2020 í krafti sjálfbærrar og vaxandi útflutningsstarfsemi. Snögg umskipti geta ekki orðið í afkomu landsmanna vegna skuldaklafans, sem vinstri stjórnin gerir sífellt illviðráðanlegri, en allir munu fá vinnu við sitt hæfi og á áratugi mun mikið breytast með nýjum stjórnarháttum, nema verðfall verði mikið og langvarandi á erlendum mörkuðum Íslendinga. Fjárglæfrar hins alþjóðlega fjármálavalds hafa leitt til hrikalegs verðmætabruna, sem efnahagskerfi heimsins á í mesta basli með að fást við. Hlutverk fjármálastofnana á að vera að taka við sparifé og ávaxta það með útlánum til hagkvæmra verkefna, en ekki loddaraleikur með fjármálavafninga, afleiður og að blása út efnahagsreikninginn með naglasúpugerð, sem dæmd er til að misheppnast fyrr en síðar, eins og hrakfallasaga fjármálakerfisins sýnir ljóslega.
Segja má, að íslenzka krónan hafi aldrei fengið að njóta sín. Það hefur oftast ríkt óstjórn í efnahagsmálum á Íslandi, annaðhvort í ríkisfjármálum, launamálum eða peningamálum og stundum í öllum þessum þáttum samtímis. Jóhanna Sigurðardóttir kennir krónunni um þetta, en ekki þarf að eyða mörgum orðum að jafneinfeldningslegri skýringu og þeirri. Nóg er að minna á málsháttinn:"Árinni kennir illur ræðari".
Satt er, að hagkerfið er lítið, svo að það er berskjaldað gegn árásum spákaupmanna, en sé hagkerfið heilbrigt, má búa svo um hnútana, að ávinningur verði hverfandi af spákaupmennsku með myntina. Dæmin sanna, að hagkerfi með sterka mynt getur hæglega verið óheilbrigt og jafnvel helsjúkt. Slíkt endar með ósköpum, eins og við horfum nú upp á í Evrópu, sérstaklega á evrusvæðinu, og ekki er bandaríkjadalur beysinn eða bandaríska hagkerfið um þessar mundir. Þess vegna er vert að freista þess að setja krónuna á flot, en að baki verður að búa prússneskur agi í ríkisfjármálum og peningamálum. Stöðugleika verður að tryggja með öllum ráðum og öllu til að kosta. Takist það ekki, má gera tilraun með tengingu við sterlingspundið, eins og áður er nefnt. Það var reynt um 1930 og misheppnaðist, en nú eru breyttir tímar á Bretlandseyjum og á Íslandi.
Nú er svo komið, að evran hefur verið dæmd af. Þjóðverjar líta á hin veiku hagkerfi evrulands sem botnlausa hít og munu ekki ausa meiru fé í hana en þeir hafa þegar skuldbundið sig til. Schäuble, fjármálaráðherra, minnir nú að mörgu leyti á Martein Luther, sem gagnrýndi sölu aflátsbréfa Rómarkirkjunnar. Sagan endurtekur sig. Það er þá eins og við manninn mælt, að forystusauður Bakkabræðrastjórnarinnar á Íslandi boðar, að nú sé eina haldreipi Íslendinga "að ganga í ESB og taka upp evru". Enginn með öllum mjalla mundi halda slíku fram nú.
Það eru að verða straumhvörf í hinum vestræna heimi ekki síður en t.d. í arbaheiminum. Fólkið hefur þyrpzt út á götur Suður-Evrópu og sums staðar hefur komið til bardaga. Ekki má gleyma uppþotunum í London nú síðsumars. Bandaríkjamenn eru nú teknir að hópast saman á götum stórborganna með kröfuspjöld og í vígahug. Alls staðar er viðkvæðið hið sama, þ.e. að mótmæla harðlega hinu vanheilaga bandalagi stjórnmálamanna og peningafurstanna. Meinvörp ofvaxins fjármálakerfis hafa grafið um sig í flestum löndum hins vestræna heims og víðar. Þessi þróun mun leiða til þess, að þessir sömu, spilltu stjórnmálamenn munu neyðast til að láta af völdum eða að fara íslenzku leiðina, leiðina, sem Geir Hilmar Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, varðaði á ögurstundu í íslenzkri sögu haustið 2008; að láta kröfuhafana gjalda áhættusækni sinnar og éta það, sem úti frýs, ef banki kemst í þrot, en tryggja innistæðurnar, í stað þess að hella skattpeningum ofan í götótta vasa peningafurstanna. Almenningur er búinn að fá sig fullsaddan af jafnaðarmennskunni, sem felst í því að bjarga allt of áhættusæknum og gírugum fjármálafyrirtækjum. Siðleysi og spilling tröllríður húsum þessara fyrirbrigða og tími kominn til að láta þau standa á eigin fótum. Þetta verður siðbót nútímans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2011 | 22:14
Forseti gefur merki
Framganga forsetahjónanna var hið eina virðulega og ánægjulega við setningu Alþingis 1. október 2011. Allt annað bar merki afleiðinga stjórnarsetu afturhaldsins, doðans og sundurlyndisins, sem einkennt hefur allan feril þessarar voluðu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.
Forseti lýðveldisins taldi ekki við hæfi að tilkynna um hug sinn til framboðs að nýju við þetta þinglega tækifæri, en framganga og látæði forsetahjónanna bar þess merki, að þau væru komin í framboðsham. Forsetafrúin vakti alveg sérstaka athygli fyrir hugrakka framgöngu sína og vilja til að styðja málstað réttlætisins, sem er hið eina, sem almenningur fór fram á á Austurvelli þennan fagra haustdag.
Boðskapur forsetans inni í þinghúsinu var engu að síður athygliverður. Hann benti þinginu á, að lagt hefði verið í hálfs milljarðs kr kostnað við að setja saman hugmyndir að stjórnarskráarbreytingum. Á næsta ári, 2012, yrði efnt til kjörs á forseta lýðveldisins, og það yrði þinginu til mikillar minnkunar, ef því tækist ekki að setja saman og ganga frá breytingum á þessu þingi á Stjórnarskrá, er forsetaembættið vörðuðu. Aðrar breytingar geta í raun og veru beðið. Að öðrum kosti renna kjósendur blint í sjóinn um eðli forsetaembættisins lungann úr næsta kjörtímabili. Það er óboðlegt, en ríkisstjórn Bakkabræðranna er trúandi til þess.
Stjórnarskráarráðið hefði komið frá sér hugmyndum um aukin völd forseta Íslands, sagði forseti, þó að einstaka ráðsliði hafi síðan þrætt fyrir það. Satt er, að það er ógæfulegt upphaf umræðu. Þjóðin yrði að fá um það vitneskju fyrir kjördag, hver staða embættisins í stjórnkerfinu ætti að vera, a.m.k. næsta kjörtímabil. Þetta eru réttmætar ábendingar hjá forseta lýðveldisins til þingsins, sem þó er líklegt til að setja upp hundshaus gagnvart þessu undir núverandi forystu.
Hér skal taka undir það, að líklega verður það stjórnarfarinu til bóta að veita forseta formleg völd, en þau hefur hann vart núna, og kveða skýrt á um synjunarrétt hans og að hann geti þar með framkallað þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg ágreiningsefni. Þetta yrði gert í nafni valddreifingar og aðhalds með ríkisstjórn. Forseti ætti og, eins og í stjórnarskráarhugmyndunum er gert ráð fyrir, að leika stærra hlutverk við ríkisstjórnarmyndanir með útnefningu forsætisráðherraefnis eftir þingkosningar. Þingrofsheimildina skal afnema, þannig að Alþingiskosningar verði ætíð á 4 ára fresti. Forseti geti útnefnt forsætisráðherra utan þings, ef honum býður svo við að horfa. Forsætisráðherra velur meðráðherra sína, sem geti sagt tímabundið af sér þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherrastörfum, kjósi þeir svo, en þeir þurfa ekki að koma úr hópi þingmanna. Ríkisstjórnin skal hins vegar vera þingbundin, þ.e. starfa í umboði þingsins, sem getur sett hana af, hvenær sem er.
Forseti þarf líka að hafa formlegt sjálfstæði til að tjá sig opinberlega um hvað sem er, innanlands og utan, þ.e. hann á að mega vera opinberlega á öndverðum meiði við ríkisstjórnina, og hann ætti að skrifa undir alla samninga við erlend ríki, stofnanir, bandalög eða sambönd, ásamt utanríkisráðherra, enda sæki forseti vald sitt beint til þjóðarinnar. Þetta merkir, að slíkir samningar öðlast ekki gildi án samþykkis forseta. Forseti skal einnig staðfesta lagasetningu með forseta Stjórnlagadómstólsins, sem þarf að setja á legg til að rýna ný lög m.t.t. Stjórnarskráar og til að skera úr um ágreining að þessu leyti varðandi eldri lög. Hvor um sig, forseti eða Stjórnlagadómstóll, geti hafnað lagasetningu.
Forseti lýðveldisins ætti jafnframt að skipa Hæstaréttardómara í embætti, og innanríkisráðherra á ekki að koma nálægt því verkefni. Sama á að gilda um skipan ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og sérstakan saksóknara og dómara á millidómsstigi, ef þeir verða einhvern tíma skipaðir. Það ætti líka í Stjórnarskrá að segja fyrir um stofnun, hlutverk og starfssvið Stjórnlagadómstóls, sbr hér að ofan.
Með þessu og öðru skal tryggja sem skýrastan aðskilnað hinna þriggja meiða ríkisvaldsins, löggjafans, framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins og koma í veg fyrir hortitti og hrákasmíði löggjafans. Það ætti líka að gera Seðlabankann að sjálfstæðu stjórnvaldi undir forseta lýðveldisins, þannig að sjálfstæð peningamálastefna verði rekin í landinu án afskipta stjórnmálamanna í anda Bundesbank í Þýzkalandi á dögum Deutsche Mark. Tillaga sjálfstæðismanna á Alþingi um aðhaldsreglur á stjórn og þing um aukningu ríkisútgjalda er angi af sama meiði, þ.e. styrkingar efnahagsmálastjórnunar landsins.
Það er mikilvægt, að menn skilgreini í upphafi meginhlutverk Stjórnarskráar. Hún er réttindaskrá borgaranna, sem á að tryggja þeim hámarksfrelsi frá afskiptum, ofríki og óréttlæti að hálfu ríkisvaldsins. Þannig á hún að segja fyrir um valddreifingu í stað valdasamþjöppunar. Hún á aðeins að innihalda ótvíræð réttinda-og ábyrgðarákvæði, sem hægt er með skýrum hætti að reisa lagasetningu á og dæma eftir. Hún á ekki að innihalda loðnar stefnuyfirlýsingar, sem hlaðnar eru stjórnmálalegu gildismati um hitt og þetta. Það er útþynning á réttindum borgaranna, því að slíkt kallar á aukin ríkisafskipti. Stjórnarskrá á að veita stjórnmálamönnum aðhald og að veita almenningi hámarksfrelsi, en ekki að draga taum sérhagsmuna að neinu leyti. Hún á að vera frelsisskrá, sem tryggir einstaklingunum hámarksathafnafrelsi, en setur ríkisvaldinu þröngar skorður. Þess vegna á ekki að setja loðmullulega hugmyndafræði í Stjórnarskrá, sem útheimtir aukið eftirlitshlutverk ríkisins á kostnað frelsis borgaranna.
Staðgengill forseta skal vera forseti Alþingis, eins og stjórnlagaráð leggur til, en stofna skal Ríkisráð, þar sem forseti lýðveldisins boðar fundi og ákveður dagskrá. Þar skulu auk hans eiga sæti: forsætisráðherra, forseti Alþingis, forseti Hæstaréttar, forseti Stjórnlagadómstóls og formaður bankastjórnar Seðlabankans, alls 6 manns, og skal forseti lýðveldisins fara með oddaatkvæði. Ríkisráð skal koma saman á válegum tímum farsótta, náttúruhamfara, ófriðar, efnahagskreppu o.s.frv., sem og í tilefni annarra stórviðburða, og þann 17. júní ár hvert skal Ríkisráð birta skýrslu sína um þróun þjóðmála undangengið ár og birta framtíðarsýn og stefnumið fyrir þjóðina á næsta ári. Forseti lýðveldisins skal vera aðalræðumaður við hátíðarhöldin á Austurvelli þann 17. júní, sem forsetaembættið skal skipuleggja, og gera þar m.a. grein fyrir helztu atriðum í skýrslu Ríkisráðsins. Verður þá ekkert Dýrafjarðarþvaður borið á borð, þó að sýnt sé, að nú falli öll vötn til Dýrafjarðar.
Ef Alþingi tekur áskorun forseta lýðveldisins og gengur frá stjórnarskráarbreytingum, er lúta að æðstu stjórn landsins, sem er brýnt, í tæka tíð, svo að halda megi Alþingiskosningar vel fyrir forsetakosningar í júní 2012, er loksins komin viðspyrna til að hverfa af núverandi hnignunarleið stjórnvalda og sækja fram til bættra kjara almenningi til handa. Það verður að reisa við traust á milli þings og þjóðar, og það gerist aðeins, ef efnahagsstaða fjölskyldnanna verður endurreist. Slíkt er jafnframt grundvöllur þess, að hagkerfið taki við sér og dafni. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að kalla Hagsmunasamtök heimilanna að viðræðuborðinu stefnumótunar. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, heyktist á að afnema verðtrygginguna haustið 2008, þegar það var til skoðunar á hennar vegum. Þá var það nauðsynlegt til að draga úr kreppunni. Hún sýndi þar af sér heigulshátt og vingulshátt í varðstöðunni um hagsmuni almennings, og fyrir vikið magnaði hún kreppuna og olli mikilli og langvarandi óhamingju, sem mál er að linni. Hún tók þá stöðu með fjármagnseigendum, eins og hún hefur ítrekað gert sem forsætisráðherra, t.d. í Icesave-málinu, sem verður henni og Bakkabræðrastjórninni til ævarandi skammar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)