Á með handafli stjórnmálanna að hefta hagvöxt ?

COP-26 hófst 31. október 2021 með lúðraþyt og söng og á að ljúka 12. nóvember 2021, vafalaust með söknuði þátttakenda eftir góðar veizlur.  Það er vafasamt, að þessar ráðstefnur skili nokkrum mælanlegum árangri á formi minni aukningar koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu.  Jafnvel í fyrra, á Kófsárinu 2020, varð meiri aukning koltvíildisstyrks en nam meðalaukningu áranna 2011-2019 samkvæmt Alþjóða veðurmálastofnuninni.  Þessi metaukning varð þvert á væntingar, því að losun af mannavöldum er talin hafa minnkað umtalsvert vegna minni umsvifa, minni raforkunotkunar og hruns ferðalaga, einnig í aðallosunarlandinu, Kína. (Kína tekur ekki þátt í COP-26, og það eitt sýnir tilgangsleysi ráðstefnunnar.) Hver er skýringin á þessu ?  Verður það rætt á COP-26, hvaðan þessi aukna losun kom, sem meira en vóg  minnkun losunar mannanna ?  Það er mikilvægt að fá skýringu á þessu.  Er hafið eitthvert óstöðvandi ferli ?  Einhver Íslendinganna 50, sem sækja þetta kjaftaþing í Gljáskógum (Glasgow) á Skotlandi, getur e.t.v. útskýrt heim kominn fyrir löndum sínum, hvers vegna það er lífsnauðsynlegt, að maðurinn dragi úr losun sinni, í ljósi aukningar koltvíildisstyrks andrúmslofts í fyrra. Það er þó ólíklegt, því að augun standa í hausnum á þeim af dómsdagsangist.  Allt er það ímynduð ógn, ef marka má gervihnattamælingar (John Christy, prófessor við UAH) og Helga Tómasson, prófessor við HÍ. 

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi iðnaðarráðherra, ber í brjósti sér væntingar til þessarar ráðstefnu, þótt fortíðin lofi ekki góðu.  Þetta kemur fram í Morgunblaðsgrein hans, 25. október 2021:

"COP-26, norðurslóðir og framtíð mannkyns".

 

Þar stóð m.a.:

"Eflaust er þetta þýðingarmesti alþjóðafundur, sem haldinn hefur verið, og því eðlilegt, að með honum sé fylgzt í öllum heimshornum. Verkefni hans byggist á Parísarsamþykktinni um loftslagsmál frá COP-21-fundinum í desember 2015.  Flest ríki heims hafa gerzt aðilar að þessari samþykkt með það að markmiði að stöðva loftslagshlýnun, aðallega vegna losunar CO2, við 1,5-2,0°C að hámarki m.v. meðaltal á jörðinni.  Ráðstefnan á m.a. að innsigla bindandi samþykktir aðildarríkjanna hvers og eins um niðurskurð í losun árið 2030 og að útiloka slíka losun umfram bindingu (net zero) um miðja þessa öld.  Einnig þarf þar að staðfesta stuðning við þróunarríki til að auðvelda þeim að ná þessu markmiði." 

Þessi aðferðarfræði hefur reynzt óttalega árangurslítil, þar sem á þessu 6 ára tímabili frá Parísarfundinum hefur losun flestra ríkja aukizt, og það á við um heildarlosun ríkja heims líka. Ný yfirlýsing G20 leiðtoganna staðfestir, að stærstu ríkin hafa ekkert nýtt fram að færa í þessum efnum.

   Það eru sáralitlar líkur á, að markmiðið um 55 % samdrátt losunar CO2 árið 2030 m.v. 1990 náist, og það á ekki síður við um Ísland en önnur lönd. Samt er keifað í sama farið í Gljáskógum.  Þetta er einhvers konar skemmtiefni stjórnmálamanna að veifa innihaldslausum áætlunum sínum á ráðstefnum. Forsætisráðherra Íslands er ekki barnanna beztur og er nú farin að leika Jóhönnu af Örk í baráttunni við hlýnun jarðar, sem fjarri er, að nokkur vísindaleg eining ríki um. Minnir hún reyndar meira á riddarann sjónumhrygga.  

Aðeins á EES-svæðinu og í Bandaríkjunum hefur markaðurinn verið virkjaður í þágu loftslagsins með koltvíildismarkaði, en það er stórhætta á koltvíildisleka til svæða á jörðunni án koltvíildiskvóta og -markaðar.  Að koma upp annaðhvort samræmdum koltvíildisskatti um alla jörð eða koltvíildismarkaði og síminnkandi heimildum er ólíkt vænlegra til árangurs á heimsvísu en innantóm markmiðasetning stjórnvalda, en það er borin von, að um slíkt náist næg samstaða á milli ríkja heims. "Consensus" er kerfi COP. (Dragbítar ráða.) Það er auðveldara að hittast og vera með yfirdrepsskap og sýndarmennsku en aðgerðir, sem bíta. 

Kjarni málsins er samt sá, að afar takmarkaður árangur mun nást fyrr en tæknin gerir orkuskipti kleif í löndum án nægra endurnýjanlegra orkulinda, og þau eru  mörg. Vindur og sól henta ekki og eru alltof landfrek.  Það þarf stöðugleika, og kjarnorkan getur veitt hana.  Það er ótrúlegur tvískinnungur í orkumálum Þýzkalands og Íslands.  Í fyrr nefnda landinu hefur kjarnorkuverum verið lokað á undanförnum árum, og öllum á að hafa verið lokað fyrir árslok 2022 samkvæmt ákvörðun Sambandsþingsins í Reichstag-byggingunni í Berlín, af ótta við kjarnorkuslys. Í síðar nefnda landinu fæst þingið í virðulegri steinbyggingu við Austurvöll, Alþingi, ekki til að taka af skarið um að samþykkja virkjanakosti a.m.k. sem nemur 1,0 TWh/ár sem byrjun, svo að fyrirtækin geti fari að gerað áætlanir um virkjanir. Það verða engin orkuumskipti, nema ný og áreiðanleg orkuver leysi jarðefnaeldsneytið af hólmi. Þessu virðist Flokkur fólksins gera sér grein fyrir, en Vinstri hreyfingin græn framtíð hins vegar ekki.  Frekja og forstokkun þeirrar stjórnmálahreyfingar er í engu samræmi við stjórnmálalega stöðu hennar.

"Svo fór, að margt athyglisvert [á Hringborði norðursins] féll í skuggann að þessu sinni vegna ummæla Ólafs Ragnars í Silfri Sjónvarpsins um hugsanlegan sæstreng til raforkuflutnings frá Grænlandi um Ísland og til meginlands Evrópu.  Hugmyndin um slíkan sæstreng frá Íslandi var til umræðu fyrir skemmstu, m.a. á Alþingi, vegna tengsla við svonefndan 3. orkupakka ESB.  Alþingi samþykkti þá,að fyrir slíkri framkvæmd þyrfti sérstaka samþykkt þingsins, en aðrir töldu, að slík ákvörðun stæðist ekki stjórnarskrá. Óháð formi er ágreiningur um, hvort yfirleitt eigi að hugsa til slíkrar framkvæmdar, og sæstrengur til raforkuflutnings hefur ekki verið á dagskrá ríkisstjórna hér undanfarið. 

Ég var undrandi á málflutningi Ólafs um þetta efni og tel, að engar skynsamlegar forsendur séu til að stefna að slíkri framkvæmd.  Því þóttu mér athyglisverð viðbrögð nýs orkumálastjóra, Höllu Hrundar Logadóttur, við spurningum Sjónvarpsins 19. okt. sl. um viðhorf hennar til útflutnings raforku með streng, þar sem hún benti á önnur og langtum nærtækari verkefni hér innanlands."  

Það er hægt að taka alfarið undir með Hjörleifi og Orkumálastjóra um þetta.  Á meðan ekkert er vitað um afstöðu Grænlendinga til útflutnings á rafmagni um sæstreng frá landi sínu, verður að flokka útspil dr Ólafs Ragnars Grímssonar um þetta mál sem frumhlaup.  Það er ekki ólíklegt, að á Grænlandi séu sterkar raddir uppi um að nýta fremur orkuna innanlands til atvinnu- og verðmætasköpunar, eins og eru bæði hér á Íslandi og í Noregi. (Grænlendingar höfnuðu ESB-aðild.) Að blanda sér í hugsanlegar innanlandsdeilur um málið á Grænlandi með þeim hætti, sem ÓRG gerði sig sekan um, er óviðeigandi með öllu. 

Í lok þessarar greinar sinnar, með undirfyrirsögninni:

 "Hagvaxtarmódelið verður að endurskoða", 

fjallaði náttúrufræðingurinn um hugmyndafræðina, sem höfundur þessa vefseturs telur vera grundvöll hins skefjalausa hræðsluáróðurs um hættulega mikla hlýnun andrúmslofts jarðar af völdum aukins styrks koltvíildis frá starfsemi mannanna. Hina hugmyndafræðilegu undirstöðu þeirrar kenningar, að mannkynið væri með sívaxandi efnahagsstarfsemi sinni að ganga á auðlindir jarðar með ósjálfbærum hætti, er að finna í bókinni "Limits to Growth". 

Bókin "Limits to Growth" eða "Endimörk vaxtar" kom út um 1960, og þar var því haldið fram, að ýmsir málmar og eldsneyti yrðu uppurin fyrir 1990.  Það gekk ekki eftir, en hugmyndin um nauðsyn "núllvaxtar" fyrir lífið á jörðinni lifði áfram, alveg eins og hugmyndafræði sósíalismans lifir óháð því, hversu margar þjóðir, sem við hann hafa búið, hafa lent í örbirgð og kúgun. (Kína og Víetnam bjarga sér með kapítalisma.) Það var afar fróðlegt að sjá Hjörleif Guttormsson tengja saman "núllvaxtarkenninguna" og baráttuna við hlýnun jarðar:

"Það hefur lengi blasað við, að ríkjandi efnahagskerfi er sá mótor, sem mestu veldur um ósjálfbæran vöxt og árekstra mannkyns við umhverfi sitt.  Því er brýnt að breyta í senn viðmiðunum og takti í efnahagsstarfseminni, sem dragi úr sóun og hvetji til umskipta með minni losun gróðurhúsalofts.  [1]

Ísland er nú með einna mesta orkusóun í hópi vel stæðra þjóða, og því bíður hér afar stórt viðfangsefni. Við höfum ásamt grannþjóðum heitið því að draga saman losun um 55 % á nýbyrjuðum áratug. [2]

Til þess að það megi takast þarf í senn að skipta út olíutengdum orkugjöfum á öllum sviðum og jafnframt að draga úr óþarfa neyzlu og sóun, sem einkenna lífshætti meðal þorra fólks. [3] 

Leiðtogar þjóða heims eru þessa dagana að undirbúa á COP-26 vegferð, sem skipta mun sköpum um framtíð afkomenda okkar og alls mannkyns."  [4]

[1] Ekki fer á milli mála, hvert hugmyndafræði textans er sótt; beint í "Endimörk vaxtar" frá 7. áratug 20. aldarinnar.  Efnahagskerfi, þar sem leitazt er við að bæta stöðugt lífskjör almennings, þ.e. kaupgetu hans, með því að viðhalda góðum hagvexti, þ.e. auðhyggjukerfið (auðinn til almennings, sem eykur þá neyzlu sína) er sökudólgurinn.  Stjórnmálamenn og embættismenn verði hér að taka í taumana, stöðva neyzluaukninguna og færa hana mörg ár aftur í tímann.  Þetta er hreinræktaður sósíalismi, forræðishyggja í nútíma búningi, reistur á falsvísindum, eins og fyrri daginn.  Það er engin vá fyrir dyrum af völdum vaxandi koltvíildis að beztu manna yfirsýn (óhrekjanlegar niðurstöður raunvísindamanna), eins og lesa má um á þessu vefsetri.  Jörðin verður hins vegar grænni, af því að jurtir hennar fá meira fóður og geta aukið ljóstillífun sína. 

[2] Höfundi þessa pistils er ekki ljóst, hvað téður  Hjörleifur á við með því, að Íslendingar sói einna mestri orku í hópi vel stæðra þjóða.  Vatnsorkuverin eru rekin með hárri nýtni.  Í góðum vatnsárum rennur nokkuð úr miðlunarlónum og framhjá virkjunum, en úr því má draga með því að fjárfesta í meira vélarafli, eins og Búrfellsvirkjun 2 er dæmi um, og orkusölusamningum um meiri ótryggða orku.  Jarðgufuverin hafa lága nýtni við raforkuvinnslu, en úr því er bætt með hitaveitu til viðbótar, þar sem hægt er að koma henni við.  Átak stendur nú yfir við að efla flutningskerfi raforku, og mun það draga úr flutningstöpum.  Ef téður Hjörleifur kallar orkunotkun útflutningsatvinnuvega þjóðarinnar orkusóun, er hann algerlega úti á þekju og lítur framhjá þeirri staðreynd, sem fyrrverandi Orkumálastjóri landsins, Jakob Björnsson, rafmagnsverkfræðingur, þreyttist aldrei á að benda á opinberlega, að orkuvinnsla hérlendis fyrir orkukræfa stóriðju losar nánast ekkert koltvíildi, öfugt við megnið af orkuvinnslu heimsins vegna slíkrar framleiðslu.

[3] Það er góðra gjalda vert að flokka rusl og að draga úr sóun, þ.e. að efla "hringrásarhagkerfið", en þegar kemur að því "að draga úr óþarfa neyzlu", er komið að forræðishyggju, sem valtar yfir sjálfsákvörðunarrétt fólks og færir neyzlustýringu í hendur stjórnmálamanna og embættismanna. Þeir gætu vel ákveðið, að áhrifaríkast væri að draga úr kaupmætti launa með ofurkattheimtu.  Það er engin slík vá fyrir dyrum, að nauðsynlegt sé að afhenda yfirvöldum mikilvægt frelsi fólks til frambúðar.  Næsta víst er, að í kjölfarið mundu fylgja grundvallar mannréttindi.  Téður Hjörleifur mælir hér með að halda inn á stórhættulega braut. Vítin eru til að varast þau.  

[4] Það hefur alltaf verið sami söngurinn fyrir þessa COP-fundi.  Þeir eiga að skipta sköpum um framtíð mannkyns.  Þeir hafa alltaf mistekizt, og þessi "Gljáskógafundur" mun ekki verða nein undantekning, enda lagt upp með vitlausa dagskrá á hæpnum forsendum. Dómsdagsspámenn hafa alltaf orðið sér til skammar.

  

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband