31.12.2011 | 13:56
Viðskiptajöfnuðurinn
Finna má fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ýmislegt til foráttu og þ.á.m., að hún lét gríðarlegan, allt að 25 % af VLF, viðskiptahalla viðgangast of lengi. Af þessum sökum varð hagkerfið veikt fyrir vegna mikillar skammtíma lánsfjárþarfar. Murphy´s lögmál tók að virka, því að á sama tíma lokuðust lánamarkaðir meira eða minna vegna tortryggni lánastofnana hver í garð annarrar af völdum hinna eitruðu lánavafninga. Þetta reið innanétnum bönkunum að fullu eftir fall Lehman´s bræðra 15. september 2008.
Nú er öldin önnur. Árið 2011 verður greiðslujöfnuður viðskipta við útlönd um 123 mia kr. Þetta er dágóður jöfnuður, en því miður ósjálfbær. Hann er að sönnu reistur á miklum útflutningi, en meira munar um lítinn innflutning vegna sáralítils hagvaxtar í landinu. Árið 2008 var hagvöxtur 1,3 %, árið 2009 -6,7 % og árið 2010 -4,0 %, þ.e. samdráttur tvö síðari árin. Þessar samdráttartölur eru í hnotskurn skýringin á því, að allt að 30 þúsund starfsígildi á ári hafa tapazt út úr hagkerfinu með atvinnuleysi, atgervisflótta og styttingu vinnutíma.
Téður hagstæður viðskiptajöfnuður er kreistur út úr hagkerfinu með því að þrýsta kjörum almennings langt niður fyrir það, sem Íslendingar eiga að sætta sig við eða geta sætt sig við, eins og atgervisflóttinn ber með sér. Háskaleg stöðnunar- og háskattastefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur þrýst niður lífskjörum í landinu með þessum afleiðingum. Af þessum ástæðum er núverandi viðskiptajöfnuður ósjálfbær. Til að Ísland standi sig í samkeppninni um hæft starfsfólk við nágrannalöndin, ekki sízt Noreg, verður að lyfta lífskjörum almennings upp á norrænt stig. Það mun óhjákvæmilega leiða til aukins innflutnings. Hvað er þá til ráða ? Óbjörgulegar eru í þessu sambandi ráðstafanir Jóhönnu og Steingríms að færa öll atvinnumálin undir VG og auðlindamálin undir Svandísi Svavarsdóttur í umhverfis-og auðlindaráðuneytinu. Þetta er því miður ekkert annað en ávísun á afturhald og við svo búið má ekki standa. Að setja bolsévika yfir atvinnulífið er sem eiturbyrlun fyrir það.
Það verður að skipta um ríkisstjórn og gjörbreyta um stjórnarstefnu í landinu. Í stað afturhaldsstefnu komi framfarasókn. Í stað skattahækkana komi skattalækkanir. Í stað fjandsemi í garð fjárfesta, einkum erlendra, komi hvatar og fyrirgreiðslur á almennum grundvelli. Í stað hálfkáks og lausataka á ríkisfjármálum komi markviss og öguð ríkisfjármálastefna í anda tillagna Tryggva Herbertssonar á Alþingi, er tryggi jákvæða rekstrarafkomu ríkissjóðs strax á árinu 2013.
Peningamálastefnuna verður að stokka upp, losa um verðtrygginguna, ef annar aðili viðskiptanna óskar þess, gefa kost á óverðtryggðum samningum í öllum lánaflokkum á markaðinum, en leyfa verðtrygginguna, ef báðir óska eftir henni, setja Seðlabankanum nýja löggjöf, sem gefur Seðlabankanum sjálfstæði, völd og ábyrgð til að beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja peningalegan stöðugleika, þ.e. að drepa hættulegar verðbólur í fæðingunni og að tryggja verðbólgu á bilinu 0-2 % á ársgrunni.
Afnema gjaldeyrishöft og annað neyðarbrauð í hagkerfinu með einu pennastriki, þegar forsendur þess hafa verið skapaðar með samningum um fjárfestingar í landinu, er tryggi sjálfbært gjaldeyrisflæði inn í landið, sem auka verðmætasköpun. Slíkt verður helzt að gerast innan árs frá valdatöku borgaralegrar ríkisstjórnar, en bágborið ástand heimshagkerfisins getur hugsanlega seinkað þessu.
Þegar Íslendingar hafa snúið hagþróuninni innanlands sér í vil, þ.e. komið hagvexti á góðan rekspöl, kjör almennings fara að batna og saxast tekur á atvinnuleysið, munu brottfluttir hugsa sér til hreyfings heim á leið, því að ekki er nóg með, að römm sé sú taug, sem rekka dregur föðurtúna til, heldur hefur landið sjálft og fámennið upp á margt að bjóða, sem flestir Íslendingar læra að meta í uppvexti sínum og vilja ekki vera án. Þetta þekkja allir, sem búið hafa á erlendri grundu um hríð.
Þetta er hið raunverulega viðfangsefni stjórnmálanna. Núverandi ríkisstjórn JS+SJS veldur ekki þessu viðfangsefni og hefur raunar ekki uppi neina tilburði til þess. Hún er áhugalaus um allt, sem til lífskjarabata almennings horfir, en upptekin við að fóðra eigin jötugemlinga og alls kyns þjóðfélagslega tilraunastarfsemi úr bókasafnshugarheimi Karls Marx, sem ekki getur skilað neinu í raunheimi, og sumt er stórhættulegt afkomu almennings.
Úr grilluheimi Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi flugfreyju, má nefna Stjórnlagaþing, hvers kosning var dæmd ólögleg af Hæstarétti. Jóhanna trompaðist og fékk meirihluta Alþingis til að virða þann úrskurð að vettugi, og var það hræðilega skammsýn ákvörðun og niðurbrjótandi fyrir formfestu stjórnvalds og þrígreiningu ríkisvaldsins.
Aðförin að sjávarútveginum er einsdæmi í atvinnusögu Vesturlanda og jafnast á við aðgerðir sameignarsinna í þriðja heiminum á borð við Mugabe. Gamla Rhódesía var matarkista, og þaðan voru flutt út ógrynni matvæla. Í Zimbabwe undir Mugabe er nú hungursneyð. Með sama hætti mundi þjóðnýting íslenzka sjávarútvegsins leiða til fjöldagjaldþrota og hruns bankakerfisins.
Síðast en ekki sízt ber að nefna garminn Ketil, skræk, en utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar er viðrini, alger bastarður. Ríkisstjórnin hefur asklok fyrir himin og gerir ekki nokkurn skapaðan hlut til umbóta á þessu sviði fremur en á öðrum. Utanríkisþjónusta Íslands er alger tímaskekkja og allt of dýr í rekstri m.v. ávinning. Það verður að straumlínulaga hana m.v. líklega framtíðarhagsmuni Íslendinga. Það þýðir auðvitað fækkun sendiráða, en jafnframt virkjun útstöðva utanríkisþjónustunnar í þágu utanríkis viðskiptahagsmuna. Þar sem lítil sem engin eru viðskiptin og lítill áhugi á slíkum, þar þarf ekki sendiráð.
Tækifærum til bættra samskipta við Bandaríkin, BNA, t.d. með skírskotun til breytinga í norðurhöfum, sem leiða munu til nýtingar norðursvæðanna og nýrra siglingaleiða, hefur verið kastað á glæ. Ekki er að sjá, að nein sérstök rækt sé lögð við opinber samskipti við rísandi stórveldi á borð við Kína og Indland né Rússland, sem í krafti auðlinda sinna mun rísa úr öskustó, þegar leifar KGB (Leyniþjónusta Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna) losa um tökin á upplýstu þjóðfélagi.
Hið eina, sem kemst að hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, er uppskafningsháttur, fleðulæti og smjaður fyrir forkólfum ESB, Barroso, Rompoy, Olla Rehn, Stefan Fühle o.fl. Þetta er grafalvarleg þröngsýni í ljósi þeirrar stöðu, sem landið er í, þ.e. málsvörn fyrir EFTA-dómstólinum út af Icesave og í svo kölluðum samningaviðræðum um inngöngu í ESB, sem er sorgarfarsi með ívafi skrípaleiks í höndum eigi smáfríðs utanríkisráðherra, því að það er ekki um neitt, nema hrein aukaatriði, að semja. Í aðalatriðum yrði Ísland, eins og öll önnur aðildarríki, að kokgleypa stofnsáttmála og alla seinni sáttmála ESB, þ.á.m. Lissabon-sáttmálann, sem er ígildi stjórnarskráar ESB, til að öðlast inngöngu. Þetta vefst ekki fyrir neinum, nema Evrópufræðingum, og starfsmönnum fræðaseturs um smáríki í Háskóla Íslands, sem lifa í gerviheimi.
Nú hefur það frétzt, að fráfarandi efnahagsráðherra, Árni Páll Árnason, hafi s.l. vetur verið í Brüssel til að leggja á ráðin um hraðupptöku evru. Er það eftir öðru hjá þeim manni og flokki hans að stunda baktjaldamakk í Brüssel um slíkt stórmál, sem er í raun örlagavaldur um hagsmuni landsmanna. Atburðirnir í ESB 2010-2011 sýna þó í hnotskurn, hvílík reginglópska er í því fólgin að taka upp evru án þess að uppfylla með láði öll Maastricht-skilyrðin. Innan skamms mundu Íslendingar við slík skilyrði lenda á vonarvöl, eins og Grikkir, Ítalir, Portúgalar og Spánverjar munu gera.
Það er afar virðingarvert að vilja skapa stöðugleika í peningamálum landsins, en það verður ekki gert með yfirborðslegri hrossalækningu að hætti Samfylkingarinnar, heldur með vandaðri, samhæfðri og agaðri stjórnun ríkisfjármála og peningamála, þar sem leggja ber árangursrík vinnubrögð Þjóðverja til grundvallar. Að taka upp evru, en vera með allt á hælunum í hagstjórnunarlegum efnum, má líkja við að ætla að laga svöðusár með heftiplástri. Algert fúsk, sem leiðir til þess eins, að hinum slasaða blæðir út.
Nú hafa forkólfar ríkisstjórnarinnar rekið rétt einn naglann í líkkistu hennar með því að sá fræjum illinda innan beggja þingflokka stjórnarinnar. Eftir þetta mun þessi ómynd verða algerlega lömuð. Skipreka ríkisstjórnin er aðeins ríkisstjórn að nafninu til, hana rekur fyrir veðrum og vindum, enda hefur hún engin markmið, nema að hanga við völd og að "leiða samningaviðræður við ESB til lykta", svo fjarstæðukennt sem það markmið er. Þessar svo kölluðu samningaviðræður eru dýrkeyptasti skrípaleikur í sögu íslenzka lýðveldisins, sem ber að stöðva í góðri samvinnu við ESB, sem yrði guðsfegið að losna við þessa lönguvitleysu, og leggja það fyrir þjóðina samhliða næstu Alþingiskosningum, sem nú fer að styttast í, þó að sumir haldi því fram, að ríkisstjórninni sé jafnvel um megn að binda endi á eigið dauðastríð, hvort halda eigi samningaviðræðum áfram eða að binda endi á þær.
Nýtt ár mun bera í skauti sér straumhvörf í íslenzkum stjórnmálum. Horft til baka munu vinstri stjórnar árin 2009-2011 verða talin martröð svika, mistaka, ábyrgðarleysis, hringlandaháttar og getuleysis, sem kom þunglega niður á almannahagsmunum á Íslandi.
Það mun hins vegar enn sannast, að máttur frelsis til orðs og æðis, einkaframtaks, þekkingar, sanngirni og agaðra vinnubragða, mun enn á ný verða aflvaki stórstígra framfara, losa þjóðfélagið úr klakabrynju hafta, skriffinnsku og forsjárhyggju stjórnmálamanna og búrókrata og gera þjóðfélagslegt kraftaverk.
Gleðilegt nýár !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2011 | 12:32
Jólasveinar sjá sæstreng í hillingum
Það hefur lítið farið fyrir arðsemiútreikningum á orkuflutningum um sæstreng til og frá Íslandi. Í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála 2010 gerði höfundur þessa vefseturs tilraun til arðsemisamanburðar á orkusölu frá vatnsaflsvirkjun á Íslandi til Færeyja um sæstreng annars vegar og til álvers á Íslandi hinsvegar. Var niðurstaðan sú, að til að ná sömu arðsemi af orkusölu um sæstreng og til álvers yrði orkuverðið til Færeyinga að verða tæplega ferfalt á við orkuverðið til álversins, sbr töflu hér að neðan. Meginástæðurnar eru 13 sinnum dýrari flutningsmannvirki og ójafnara álag sæstrengs en álvers.
Slíkt orkuverð er ósamkeppnifært við olíukynt orkuver, eins og Færeyingar nota, fyrr en hráolíuverð hefur náð 130 USD/tu (bandaríkjadölum á tunnu), en það er nú undir 90 USD/tu og fer lækkandi vegna minnkandi eftirspurnar. Olíuverð þarf að vera stöðugt 50 % hærra en nú til að sæstrengur til Færeyja frá Íslandi geti borið sig. Sæstrengur til Skotlands eða meginlands Evrópu getur aldrei orðið þjóðhagslega hagkvæmur, því að flutningsmannvirkin verða a.m.k. tvöfalt dýrari en virkjunin og enginn virðisauki af orkunni verður til í landinu. Af álveri verður 40 % af veltunni eftir á Íslandi.
Orkuverð til álvera á Íslandi er nálægt því að vera meðalorkuverð til allra álvera í heiminum eða 30-40 mill/kWh.
Hagkvæmnisamanburður orkusölu | |||
Atriði | Sæstrengur | Álver | Skýring |
Hámarks MW | 102 | 102 | Aflþörf |
Lágmarks MW | 37 | 90 | Aflþörf |
Töp MW | 18 | 1 | Heildar hámark |
Uppsett afl MW | 120 | 103 | Virkjun |
GWh/a | 800 | 841 | Árleg orkusala |
Milljarðar ISK | 65 | 5 | Flutningsvirki |
Milljarðar ISK | 31,2 | 26,7 | Virkjun |
Ár | 25 | 30 | Afskriftartími |
ISK/kWh | 17,6 | 4,5 | Kostnaðarverð |
Taflan sýnir hagkvæmnisamanburð orkusölu um sæstreng til Færeyja og til álvers á Íslandi.
Orkukostnaður álveranna með rafskatti, árstoppsgjaldi og jöfnunarorkukostnaði er nálægt því að vera eins og í töflunni hér að ofan m.v. 120 kr/USD. Arðsemi orkusölu til álvers er miklu meiri en arðsemi orkusölu um sæstreng af eftirfarandi ástæðum:
- Það þarf minna uppsett afl í virkjun til að selja sama magn.
- Nýting mannvirkjanna er mun betri
- Ending flutningsmannvirkjanna er mun lengri
- Áhættan er minni og þar af leiðandi hagstæðari fjármögnun
- Kostnaður virkjana og flutningsmannvirkja er þrefaldur fyrir sæstreng miðaður við fyrir álver.
Hér er þjóðhagslega hagkvæmnin ótalin. Ofangreind atriði þarfnast útskýringa:
Álag álvera er svo jafnt yfir árið, að toppálagið í MW (megawöttum) er aðeins um 3 % hærra en meðalálagið. Sæstrengur af því tagi, sem hér um ræðir, hefur aldrei verið hannaður eða lagður áður, svo að búast má við mun hærri bilanatíðni en í hefðbundnum flutningsmannvirkjum. Tiltækileikinn gæti orðið takmarkaður og flutningurinn strjáll. Það má ætla, að toppálag strengs til Evrópu verði allt að 50 % hærra en meðalálagið, þ.e. s.k. nýtingartími verði um 6000 klst.
Óvíst er, hvernig orkusamningum yrði háttað. Annaðhvort verða tryggð ákveðin orkukaup á meðaltalsmarkaðsverði, eða eigandi mannvirkjanna ákveður að freista gæfunnar og selja á markaðsverði hvers tíma. Þá yrði vinnslu-og flutningsgetan fullnýtt á tímum orkuskorts hjá kaupandanum og góðar tekjur fengjust, en nýting mannvirkjanna gæti orðið léleg, því að dregið yrði úr vinnslu og flutningi á tímum orkugnóttar.
Eftir kjarnorkuslysið í Japan í marz 2011 lokuðu Þjóðverjar nokkrum kjarnorkuverum, og lokun fleiri kjarnorkuvera hefur verið boðuð. Þetta gæti skapað tímabundinn orkuskort, sem þó hefur ekki valdið verðhækkun orku enn, því að eftirspurnin hefur minnkað. Mótvægisaðgerð Þjóðverja verður að reisa gaskynt orkuver, enda er verið að leggja lokahönd á afkastamikla jarðgaslögn á botni Eystrasalts frá Rússlandi framhjá Austur-Evrópulöndunum í óþökk þeirra.
Furðuhugmyndir hafa skotið upp kollinum hérlendis um, að Íslendingar ættu að hlaupa í skarðið og brúa bil tímabundins orkuskorts í heiminum með orkusölu um sæstreng. Þegar þess er gætt, að 1000 MW afl er mikið á íslenzkan mælikvarða, en jafngildir u.þ.b. hálfu kjarnorkuveri í Evrópu, sést, að nánast ekkert munar um sæstreng frá Íslandi til meginlands Evrópu; þar af leiðandi væri enginn áhugi fyrir honum og sala á orku um hann yrði algerlega háð duttlungum markaðarins.
Hér skal draga í efa, að nokkurt einkafyrirtæki fáist til að fjárfesta í svo vafasömu ævintýri. Það er eftir öðru, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun gæli við slíkt og beri fyrir sig aukið orkuöryggi á Íslandi. Það er hláleg röksemd, því að myndarlegt varaafl í landinu mundi kosta aðeins brot af sæstreng, og það mætti selja slíka orku sem afgangsorku til íslenzkra fyrirtækja öllum til hagsbóta.
Ef einhver lánastofnun fæst til að lána fé til svo áhættusamrar fjárfestingar, sem hér um ræðir, verður það gegn svo háum vöxtum, að ólíklegt er, að framkvæmdin geti borið sig.
Orkulindir Íslands eru litlar á erlendan mælikvarða, en þær eru miklar á íslenzkan mælikvarða vegna fámennis þjóðarinnar. Spákaupmennska með orkulindirnar á illa við, en sæstrengur er óneitanlega í ætt við spákaupmennsku, enda er meiningin að gera út á markaðsverð í Evrópu, sem er mjög sveiflukennt, ekki sízt vegna óreglulegrar vinnslu vindmyllanna. Fram að þessu hefur verðið að jafnaði numið um 80 USD/MWh, en það dugar engan veginn til að sæstrengur geti borið sig.
Það er áhættuminnst og þjóðhagslega hagkvæmast að nýta orkuna til verðmætasköpunar innanlands. Um þetta er fjallað í grein, sem finna má undir tengli með þessari vefgrein, "Um sæstrengi til aflflutnings á milli Íslands og Evrópu", sem birtist á Evrópuvaktinni 19. desember 2011.
Að svo rituðu máli eru jólasveinum, grýlum, leppalúðum og öllum öðrum færðar hugheilar hátíðarkveðjur um þessi sólhvörf um leið og bornar eru fram óskir um, að búið verði að hreinsa alræði örvitanna út úr Stjórnarráði Íslands fyrir næstu sólstöður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.12.2011 | 21:12
Allt annað ESB
Dagana 8.-9. desember 2011 var haldinn 4. neyðarfundur leiðtoga ESB-ríkjanna út af bágu efnahagsástandi á árinu. Þar var Evrópueinteinunginum skipt í tvennt og er nú tvíteinungur, sem heldur í sitt hvora áttina, en ríkin 17 eru reyndar með lík í lestinni, sem heitir evra.
Leiðtogarnir, Merkel og Sarkozy, eða Merkozy, lofuðu fyrirfram heildstæðri lausn á vanda evrunnar, en niðurstaðan varð klofningur ESB. Bretar gætu fallið úr skaptinu eða leitt ríkin 10 inn á nýjar brautir. Enn á ný endurtekur sagan sig um andstöðu Breta við sameiningu Evrópu. Því skal spá hér, að enn á ný dragi Bretar lengsta stráið út úr þessum heystakki. Er ekki vafi, að Íslendingar eiga meiri samleið með ríkjum Evrópu í viðskiptabandalagi undir leiðsögn Lundúna en í Sambandsríki Evrópu undir leiðsögn Berlínar, þó að góð sé.
Það er borin von, að Merkozy hafi tekizt að sannfæra fjárfesta, matsfyrirtæki og kjósendur um, að þetta tvíeyki sé á réttri leið. Þvert á móti má nú búast við hörðum árásum á Ítalíu og Spán, gengisfellingu Frakklands og annarra ríkja með bágstadda banka innanborðs að hálfu matsfyrirtækjanna og höfnun kjósenda á Merkozy í næstu kosningum.
Þegar íslenzkir kjósendur fá tækifæri til, munu þeir sömuleiðis hafna núverandi ömurlegum valdhöfum sínum og hefja vegferðina löngu upp úr öldudal skuldasúpunnar með þýzkum aga í peningamálum, jákvæðum jöfnuði ríkisfjármálanna og uppgreiðslu skulda, sem enn eru auknar af getulausri og tvístraðri ríkisstjórn.
Þýzkaland er tekið að nota Frakkland sem strengjabrúðu sína. Frakkar gegna nú því hlutverki að dylja þá stöðu, sem upp er komin, að Þjóðverjar skipa fyrir um, hvað gera skuli í ESB. Leiðtogar þessara nágranna eru á öndverðum meiði um markmið og leiðir, og Þjóðverjar móta meginstefnuna, sem Frakkar blúnduleggja. Stefnumörkunin er viðrinisleg, því að velja þarf stærsta samnefnara Merkozy, og hann æði lítill.
Sex ESB-ríki eru enn með hæstu lánshæfiseinkunn, AAA, en tæpast verður næsti janúarmánuður á enda runninn, þegar matsfyrirtækin láta til skarar skríða gegn Frökkum. Hið einkennilega er, að Bretar eru með sömu einkunn, meiri halla á fjárlögum og meiri ríkisskuldir sem hlutfall af VLF, en samt ekki komnir á athugunarlista matsfyrirtækjanna. Gæti skýringin á þessu misræmi verið evran, sem er eins og snara um háls Frakkanna, en Bretar fljóta á pundinu ?
Barnaskapur er að halda því fram, að evran sé ekki orsök vandans. Lágir vextir evrusvæðisins og mikið framboð lánsfjár leiddi til skuldasöfnunar vegna óhagkvæmra fjárfestinga, þar sem arðsemiskrafan var lítil. Lönd hömluleysisins fengu í kjölfarið yfir sig meiri kostnaðarhækkanir, verðbólgu, en lönd aðhaldsins. Þetta misræmi er nú orðið gríðarlegt, svo að talið er, að tækju Grikkir upp Dröchmu, mundi hún falla um 80 % og með sama hætti peseti Spánverja um 50 %, ítalska líran um 30 % og franski frankinn um 20 % frá lokagenginu við upptöku evru. Þetta skýrir, hvers vegna vandi evrunnar er nú orðinn óviðráðanlegur, og hvers vegna upptaka evru væri fjárhagslegt glapræði að hálfu Íslendinga, nema þeir nái jafngóðum tökum á hagþróun og Þjóðverjar. Þar á bæ leggja menn allt í sölurnar til að forðast verðbólgu. Þjóðverjar munu fremur láta evruna sigla sinn sjó en að hætta á verðbólgu (yfir 2 % p.a.)
Lækki lánshæfismat Frakklands, munu vextir þar hækka. Með staðnað hagkerfi, hagvöxt 0,3 %, halla á fjárlögum síðan 1974 og aukin útgjöld til EFSF-björgunarsjóðs Evrópu, verður erfiðleikum bundið fyrir Frakka að standa í skilum. Það stefnir í, að þeir verði á framfæri Þjóðverja. Þá fer nú að styttast í sælunni hjá Merkozy, sem er auðvitað í raun engin sæla, heldur eru þau eins og hundar og kettir, þegar að er gáð.
Annað er uppi á teninginum utan evrusvæðis. Svíar, sem höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu 2003 með 56 % atkvæða gegn elítunni í landinu, eru gott dæmi um þetta. Mælikvarði á traust markaða á hagkerfi er vaxtakrafan til ríkisskuldabréfa. Hún er nú aðeins 1,7 % í Svíþjóð borin saman við a.m.k. 2,2 % í Þýzkalandi. Eftirfarandi er haft eftir Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar:
"Ríki, sem stendur utan evru, verður að tryggja samkeppnihæfni sína og ríkisfjármál. Við höfum orðið að stunda sjálfsaga, sem ríki í evrulandi töldu sig ekki þurfa. Ef þú veizt, að veturinn verður mjög kaldur, verður þú að ganga úr skugga um, að húsið þitt sé vel byggt. Annars verður þér kalt."
Þetta gildir einmitt um aðstæður hérlendis. Það skiptir engu máli, hvort við stefnum á upptöku erlends gjaldmiðils eða ætlum að halda krónunni. Úrræðin eru þau sömu og í Svíþjóð. Að reka ríkissjóð með jákvæðum jöfnuði, lækka skuldir ríkissjóðs um 50-100 milljarða kr á ári á árabilinu 2015-2025, halda verðbólgu í skefjum, svo að hún verði ekki hærri en í viðskiptalöndunum, og framkalla og viðhalda 3 % - 6 % hagvöxt. Hið síðast nefnda fæst aðeins með miklum fjárfestingum, um 25 % af VLF á ári. Erlendar fjárfestingar eru þar algert lykilatriði, því að eins með miklu innstreymi gjaldeyris verður unnt að afnema gjaldeyrishöftin með einu pennastriki, eins og Dr Ludwig Erhard, efnahagsmálaráðherra V-Þýzkalands gerði með glæsibrag um 1955 í óþökk hernámsveldanna. Auðvitað er hægt að stjórna íslenzka hagkerfinu af skynsamlegu viti líka, ef margir leggjast á árarnar.
Í Svíþjóð er 0,1 % jákvæður jöfnuður á ríkisbúskapi, skuldir ríkisins fara minnkandi og eru nú 36 % af VLF og árið 2010 nam hagvöxtur 5,7 %. Árið 2011 er búizt við 4,4 % hagvexti. Íslenzka hagkerfið hefur alla burði til að sýna svipaðar tölur og hið sænska, en munurinn er sá, að á Íslandi ríkir afturhaldsstjórn, sem ekkert kann til verka og er með böggum hildar sökum úreltrar hugmyndafræði um auðvaldshatur og græningjasérvizku, sem engu skilar. Í Svíþjóð er nú borgaraleg ríkisstjórn, sem hefur reist landið við úr öskustó jafnaðarmennskusukks. Hið sama þarf að gerast á Íslandi, og meirihluti þjóðarinnar virðist vera að gera sér glögga grein fyrir því.
Af síðustu skoðanakönnunum er hægt að draga tvær ályktanir. Straumurinn liggur nú til Sjálfstæðisflokksins, og margir hugsa sér nú til hreyfings í stjórnmálalegu tilliti. Það er komið rót á kjósendur og skyldi engan undra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2011 | 21:30
Á síðasta snúningi
Á jólaföstu 2011 er óvenjumargt á síðasta snúningi á Íslandi og í heiminum öllum. Það er ástæða til að fjalla um þessa þróun mála, sem vonandi ber í sér kím betri tíma fyrir Íslendinga og mannkyn allt.
Stærst þessara mála er fjárhagsvandi heimsins. Hagkerfið hökti fyrst 2007, en ári síðar voru nokkrir stórir bankar við dauðans dyr. Var þeim mörgum bjargað með fjárframlögum og skuldbindingum ríkissjóða til bankanna, sem reyndist Phyrrosarsigur, þ.e. of dýru verði keypt, eins og nú er að koma í ljós. Íslenzka leiðin, leið Geirs Hilmars Haarde, út úr vandanum varð affarasælli. Evrópa á fallanda fæti er ágætt dæmi um þetta.
Nokkrir bankar fengu náðarhöggið, og munaði þar mestu um Lehmans Brothers 15. september 2008. Gjaldþrot bræðranna stöðvaði fjármagnsflæði til Íslands, og hrukku útblásnir og innanétnir íslenzkir bankar upp af í kjölfarið í október 2008. Hvergi í heiminum, nema á Íslandi, er einum stjórnmálaflokki, Sjálfstæðisflokkinum, kennt um þetta. Nær væri að kenna EES-aðildinni um, en það er álíka viturlegt og að kenna þingræðinu um ófarirnar.
Nú er sennilegt, að stórbankar á evrusvæðinu, líklega í Frakklandi, séu að komast í þrot. Þess vegna flýr fé frá Evrópu, svo að evruland er nú fjárvana, nema Þýzkaland, Austurríki og Holland, og AGS býr sig til neyðarhjálpar, en getan er ófullnægjandi, því að Kína hefur neitað. Evrópa er algerlega hjálparvana, en Merkel og Sarkozy dansa einhvers konar óskiljanlegan menúett án hljómsveitarleiks.
Plástrun ríkissjóðanna gekk ekki upp. Ríkissjóðir Vesturlanda og Japans voru svo þandir upp af lánum og höfðu þanizt svo út í hagkerfinu, að staða þeirra varð ósjálfbær eftir yfirtöku bankaskuldanna. Þýzka ríkið skuldar um 80 % af VLF og Frakkar munu innan skamms hrapa niður í svaðið eftir lækkun á vitlausu lánshæfismati, AAA. Þar með mun Þýzkaland taka forystuna í Evrópu. Ef Merkel og þýzka þingið hefðu samþykkt ákall Sarkozys um útgáfu evru-skuldabréfa með tryggingu allra í evrulandi, þá væri Þýzkaland í stórhættu að dragast með niður í lægra lánshæfismat. Sarkozy er þegar í raun fallinn, og Merkel hefði þá örugglega fallið í næstu kosningum til Reichstag.
Það gleymdist að taka háan meðalaldur Evrópuþjóðanna með í reikninginn, lítinn hagvöxt þeirra og stirðbusalegt samningafyrirkomulag á vinnumarkaði. Ríkissjóðirnir eru í raun komnir í þrot. Bandaríkjamenn virtust um sinn ætla að losa sig úr prísundinni með verðbólgu af völdum peningaprentunar, en virðast hafa hægt á henni, og í október 2011 varð verðhjöðnun í BNA. Ekki mun slíkt auðvelda Bandaríkjamönnum að fást við 100 % skuldir ríkissjóðs af VLF og ofboðslegan ríkissjóðshalla.
Marskálkur ríkisfjármála og peningamála framkvæmdastjórnar ESB og næstráðandi Barrosos, Finninn Olli Rehn, gaf 1. desember 2011 út stórkallalega yfirlýsingu: "Það eru 10 dagar til stefnu til að bjarga evrunni." Steingrímur J. tók hann á orðinu og sagði við Jóhönnu, að nú væru góð ráð dýr; þau yrðu að fórna efnahagsmálaráðherranum og Steingrímur að sölsa undir sig efnahagsmálin á Íslandi, auk ríkisfjármálanna, en slíkt kann ekki góðri lukku að stýra fremur en í Brüssel, þó að því sé sleppt, að téður SJS hefur hvorki vit á ríkisfjármálum né efnahagsmálum og er alls ekki treystandi fyrir öðrum þessara málaflokka, hvað þá báðum, eins og dæmin sanna.
Ofangreind yfirlýsing innsta kopps í búri evrunnar sýnir betur en orð fá annars lýst, að evran er á síðasta snúningi. Þjóðverjar tala og skipuleggja nú, eins og nægur tími sé til stefnu. Tíminn er samt út runninn, eins og orð Olla Rehn sýna, og Þjóðverjar safna nú glóðum elds að höfði sér fyrir að vernda hagsmuni síns eigin lands. Þeir gera sér vel grein fyrir þessari stöðu. Það er nóg að horfa á þýzkar sjónvarpsstöðvar til að átta sig á því.
Þýzkir stjórnmálamenn þora ekki að leyfa nú peningaprentun, því að þeir vita mætavel, að það yrði þeirra banabiti í næstu kosningum til Sambandsþingsins. Peningaprentun er til skemmri tíma að míga í skóinn sinn, og til lengri tíma er hún ávísun á kjaraskerðingu almennings. Verðstöðugleiki er réttlætismál og mikilvægur hagvextinum. Að leyfa peningaprentun ECB, Seðlabanka ESB, er þess vegna ávísun á langtíma kjaraskerðingu almennings í Þýzkalandi, og Þjóðverjar eru ekki tilbúnir til þess. Lái þeim það, hver sem vill. Slíkt mundi ekki leysa grundvallarvanda evrulands, heldur einvörðungu kaupa evrunni tíma og mundi reynast ESB Phyrrosarsigur.
Svo virðist sem félag Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík sé á síðasta snúningi, enda alvarlegur tilvistarvandi augljós af völdum svikahrappa, sem farið hafa á bak við félagsmenn í hverju málinu á fætur öðru. Sálarháski steðjar þess vegna að félögunum. Allt er réttlætt með nauðsyninni á að halda íhaldinu frá kjötkötlunum. Úrræði garmanna er að leita til stjórnmálalegs uppruna síns, sem er Kommúnistaflokkur Íslands, sem fjarstýrt var af Komintern í Moskvu undir stjórn Jósefs Djughawilis Stalíns. Þar á bæ samþykktu menn í viku 48/2011 svohljóðandi yfirlýsingu:
"Stjórn Vinstri-grænna í Reykjavík lýsir yfir létti og ánægju með þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar að synja Huang Nubo leyfis til uppkaupa á íslensku landi. Megi þetta verða vísir þess, sem koma skal, að eignarhald á jarðnæði verði úr höndum auðmanna, hverrar þjóðar sem þeir eru, og að einkaeignarhald á jarðnæði heyri almennt sögunni til."
Hér að ofan er boðuð þjóðnýtingarstefna á landi, stefna, sem leitt hefur hvað mestar hörmungar yfir þjóðir á 20. öldinni. Þjóðnýting lands leiddi til hungursneyðar í Ráðstjórnarríkjunum og í öðrum sameignarríkjum, þar sem hún var innleidd, svo að tugir milljóna manna dóu af þeim sökum. Að boða nú þessa stefnu árið 2011 á Íslandi sýnir, að vinstri grænir eru að örvænta og koma nú út úr skápinum, enda finna þeir feigðina á sér; það styttist til endaloka valdaferils þeirra.
Icesave-maðurinn á myndinni hér til vinstri er þó ekki af baki dottinn. Nú ætlar hann í hrossakaup við "heilaga Jóhönnu". Hann ætlar að fórna eina ráðherranum, sem stendur í ístaðinu gagnvart hinni forkastanlegu aðlögun að ESB, fyrir peð í Efnahagsráðuneytinu, og þannig að svæla efnahagsmálin undir fjármálaráðuneytið, sem er algerlega glórulaus valdasamþjöppun í einu ráðuneyti. Með þessu móti mundi honum (SJS) takast að læsa klónum í Icesave-málið á ný og klúðra því, eins og hægt er úr þessu, en SJS mun vera fýldur út af því að missa málið frá sér á sínum tíma og að nýir herrar skuli hafa sýnt burði til að taka til nokkurra varna í málinu fyrir Íslands hönd. Kommúnistaklíkan Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon og Indriði H. Þorláksson vilja hindra, að Icesave-málið fái farsælan endi, svo að ömurlegur hlutur þeirra verði síður að sögulegum minnisvarða um alvarlegustu mistök í stjórnmálum lýðveldisins. Þá væri enn einu sinni hægt að kenna íhaldinu um.
Núverandi fjármálaráðherra þreytist ekki á að greiða fyrirtæki Ásgeirs Jónssonar og Sigurðar Jóhannssonar, Sjónarrönd, þóknun fyrir áróðursrit. Enn fjallar Sjónarrönd, sem er handan heilbrigðrar skynsemi, þegar kemur að orkumálum, um arðsemi Landsvirkjunar og arð af orkusölusamningum við stóriðju. "Gutta cavat Lapidem" sögðu Rómverjar til forna, og hagfræðingarnir á Sjónarrönd virðast vera þeirrar skoðunar, að ítrekaðar blekkingar í boði Fjármálaráðuneytis Rauðstakkanna Steingríms og Indriða muni að lokum síast inn í fólk sem sannleikur.
Áhættugreining þeirra félaga á orkusamningum við stóriðjufyrirtækin er kolröng og annaðhvort reist á dómgreindarskorti eða vanþekkingu á samningunum, nema hvort tveggja sé. Þeir halda því t.d. fram, að samningum við álfyrirtækin um raforkusölu fylgi meiri áhætta en samningum við almenningsveitur. Hvernig í ósköpunum er unnt að komast að þeirri niðurstöðu, þegar haft er í huga, að kaupskylda upp á tæp 90 % af heildarorkumagni er fólgin í orkusölusamningum við álverin ? Þetta þýðir, að þótt álverksmiðjurnar mundu enga orku nota, mundu þær samt þurfa að greiða fyrir tæplega 90 % orkunnar út samningstímabilið. Ekkert sambærilegt ákvæði er í samningunum við almenningsveitur, og allir vita, að álag þeirra er mjög sveiflukennt og ræðst af árstíma, veðurfari og árferði.
Í þessu ljósi er sá málflutningur þeirra félaga afar kindarlegur, að óeðlileg áhætta sé fólgin í því fyrir eigendur opinberu orkufyrirtækjanna, ríki og borg, að ábyrgjast lántökur þeirra gegn lægri vaxtabyrði. Eigendurnir, skattborgararnir, hagnast á því, og áhættan er sáralítil, eins og afkoma Landsvirkjunar er ljós vottur um. Allur málatilbúnaður félaganna á Sjónarrönd er faglega mjög veikur og klisjukenndur og svo fótalaus, að borin von er, að þeim verði að trú sinni.
Um 80 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar er selt til stóriðju. Eigið fé Landsvirkjunar var um 200 milljarðar króna í árslok 2010. Stóriðjufyrirtækin greiða upp mannvirki á 15-30 árum, sem hafa tæknilegan endingartíma 40-200 ár. Það er nánast engin áhætta fólgin í orkusölusamningum við álfyrirtækin, því að sala á megninu af orkunni er tryggð í 25-40 ár óháð því, hvort hún er notuð eður ei.
Orkuverðið er í bandaríkjadölum, USD, og ýmist tengt við neyzluverðsvísitölu í BNA eða við markaðsverð á áli. Áhættudreifing er þess vegna fyrir hendi. Spáð er, að á næstu áratugum muni álverð hækka meira en neyzluverðsvísitalan eða um 4 %- 5 % á ári að jafnaði. Það liggur þess vegna í augum uppi, að samningar Landsvirkjunar við stóriðjuna hafa verið fyrirtækinu afar hagfelldir, og stóriðjan hefur reynzt vera feiknarlega hagkvæm, þjóðhagslega. Að halda því fram, að 5,5 % arðsemi Landsvirkjunar sé slæm er rógburður manna með alvarlega slagsíðu til vinstri í garð iðnaðaruppbyggingar í landinu og í garð samningamanna hins opinbera fyrirtækis, Landsvirkjunar.
Nú hefur ný stjórn og forstjóri tekið við Landsvirkjun, og hafa þau ýmislegt undarlegt gert og sagt. Eitt er að stórhækka verð á afgangsorku. Það er illa rökstudd aðgerð, enda engin skynsamleg rök til fyrir svo þjóðhagslega óhagkvæmri aðgerð. Ættu fulltrúar eigenda, þ.e. þjóðarinnar, á Alþingi, að grípa í taumana, svo að skammsýn einokunarhyggja verði kæfð í fæðingunni.
Forræðishyggja stjórnvalda hefur keyrt um þverbak. Sagt er, að fjórðungi bregði til fósturs. Umhverfisráðherrann, núverandi, er af kommúnistum kominn og að auki alinn upp á leikskóla miðstjórnarmanna austur-þýzka kommúnistaflokksins. Hún ætlar nú að fyrirskipa umhverfismat á skógrækt sem skyldu. Kommúnistar kunna sér ekkert hóf, þegar þeir komast til valda, en sýna þá á sér algerlega ómennska hlið. Þetta einkenni gæti bent til geðklofa. Hvað sem þeirri sjúkdómsgreiningu líður, verður að telja kommúnista vera almennt siðblinda. Einstaklingurinn skiptir kommúnistann engu máli, enda eru hagsmunir hans fótum troðnir.
Búrókratar umhverfisráðuneytisins hljóta að átta sig á því, að það að skylda áhugafólk, félagasamtök og fyrirtæki til lögformlegs umhverfismats mun stórlega draga úr skógrækt í landinu. Það hlýtur þess vegna að vera vilji téðs umhverfisráðherra að draga verulega vaxtarmáttinn úr skógrækt í landinu. Þarna gengur kommúnistinn enn einu sinni erinda fámenns hóps sérvitringa í landinu, sem ekkert vill af skógrækt vita, heldur telur til dyggða að rífa hana niður og "varðveita landið í sinni núverandi mynd". Þetta eins og annað réttlætir þessi endemis umhverfisráðherra með klisju sinni: "náttúran verður að njóta vafans". Hefur nokkurn tímann heyrzt heimskulegra slagorð ?
Ísland þoldi ekki sambýlið við manninn í bland við kólnandi veðurfar og eldgosavirkni. Landið missti gróðurhulu sína og er nú sem flakandi sár á stórum svæðum; stærsta eyðimörk í Evrópu. Mesta umhverfisvandamál Íslands er uppblástur landsins. Það ber að efla skógrækt og landgræðslu í landinu og hvetja einkaframtakið til dáða í þeim efnum fremur en að letja það og svæla svo alla starfsemi af þessu tagi undir ríkið með skrifræðislegum bolabrögðum, boðum og bönnum.
Stjórnvald, sem leggur sig í framkróka við að hefta uppgræðslu landsins og endurheimt skóganna er á síðasta snúningi. Um það er engum blöðum að fletta. Sannað er, að skógur breytir veðurfari til hins betra. Hann veitir skjól og hitastigið á viðkomandi svæði hækkar. Landið verður byggilegra en ella, en náttúran verður víst að njóta vafans, sem jafngildir því, að öll mannanna verk séu forkastanleg, breyti þau núverandi ásýnd landsins.
Ekki leikur á tveimur tungum, að lífríkið tekur stakkaskiptum með skógrækt og landgræðslu. Nýjar tegundir setjast að og aðrar hopa. Markmiðið ætti að vera að bæta búsetuskilyrðin í landinu þannig, að hér verði blómlegt mannlíf í skjóli vaxtar, sem kenndur er við hag og skóg, og dýrategundir verði sem flestar, t.d. fuglar, sem á annað borð geta verið í sambýli.
Þessar hugrenningar leiða hugann til járnkanzlarans, þess er sameinaði þýzku ríkin með eldi og blóði, "mit Feuer und Blut", á síðari hluta 19. aldar, undir Prússakonung, er varð Þýzkalandskeisari með aðsetri í höfuðborg Prússlands, Berlín, en hann lét hafa eftirfarandi eftir sér:" Lagasetning er eins og pylsugerð. Bezt er að sjá ekki, hvernig hún fer fram".
Bloggar | Breytt 9.12.2011 kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2011 | 20:35
Kolefnisleki og spekileki
Snemmárs 2011 innleiddi hrikalegasta skattlagningarstjórn lýðveldistímans svokallaðan kolefnisskatt á fljótandi eldsneyti á Íslandi. Var það gert undir því yfirskyni, að verið væri að aðlaga Ísland að regluverki Evrópusambandsins, ESB. Í raun er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur aðeins að framfylgja eigin duttlungum um að sölsa æ stærri hluta þjóðarkökunnar undir forsjá ríkisins. Vinstri flokkarnir hafa lengi séð ofsjónum yfir bíleign landsmanna og setja sig aldrei úr færi að reka hornin í bíleigendur. Þetta ásamt öðru ættu bíleigendur að hafa í huga við kjörborðið.
Þetta var glórulaus skattlagning af tveimur ástæðum. Efnahagur landsins er í rúst, og hvorki atvinnulífið né heimilin máttu við hærra eldsneytisverði, sem var í hæstu hæðum fyrir. Þessi aðgerð var fallin til þess að draga úr umsvifum í hagkerfinu, enda gerði hún það. Hátt eldsneytisverð hamlar hagvexti. Vinstri grænir hata hagvöxt, svo að allt fellur að sama brunni.
Hin ástæðan fyrir því, að tiltæki ríkisstjórnarinnar var glórulaust, er, að almenningur og fyrirtækin geta ekki farið í neina aðra orkugjafa, sem máli skipta hér á landi. Þetta geta þó þjóðir ESB. Þær hafa allar rafknúnar járnbrautarlestir, nema e.t.v. Malta, sem neytendur geta nýtt í meira mæli í stað eldsneytis. Stjórnvöld reyna að beina fleirum í járnbrautirnar, sem víðast hvar eru reknar með tapi. Þó að mörg orkuveranna séu kola-eða gaskynt, er hægt að sýna fram á meiri mengun eldsneytisknúinna ökutækja per mann en járnbrautarlesta.
Kolefnisskattur á fljótandi eldsneyti er ótímabær á Íslandi fyrr en hagur Strympu vænkast og neytendur eiga raunhæfa valkosti. Vinstri stjórnin gengur þvert á heilbrigða skynsemi, eins og hún er vön, enda eru vitsmunir núverandi ráðamanna ekki meiri en Guð gaf og þekkingin af ákaflega skornum skammti. Dæmi um þetta má finna af öðrum orkugeira, raforkugeiranum, þar sem glórulaus áform ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar um stórhækkun á verði afgangsorku hafa verið kynnt til sögunnar. Á tímum raforkugnægðar, kreppu og verðbólgubaráttu er þessi fyrirætlun eins gæfu-og vizkusnauð og hugsazt getur.
Ríkisstjórnin ætlar nú að hækka skatt á fljótandi kolefniseldsneyti um 32 % í ársbyrjun 2012. Segja má, að ekki verði á þessa ríkisstjórn logið. Þvílíkt gerir einvörðungu vitstola fólk í lömuðu hagkerfi. Eitt skref í þá átt að koma hjólum efnahagslífsins í gang er að afturkalla gildistöku þessarar kolefnisskattlagningar frá 2011 tímabundið þangað til skattlagningin hefur sömu möguleika á að virka og annars staðar innan EES. Innan EES verður að gæta jafnræðis, en jafnaðarmennirnir Íslandi eiga erfitt með að skilja það. Verður að binda vonir við, að sjálfstæðismennirnir á nýju Alþingi kunni betur til verka í baráttunni við kreppuna. Þá verða ytri aðstæður mun erfiðari en undanfarin ár.
Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir að hefja stighækkandi skattlagningu kola og koks, en helztu notendur eru stóriðjan vegna forskauta og bakskauta í rafgreiningarkerum og ljósbogaofnum. Enn nota fjármálaráðherra og umhverfisráðherra þau rök, að þetta sé aðlögun Íslands að ESB, þó að þau hafi dregið í land um sinn. Þetta eru falsrök og mætti kalla umhverfisvernd andskotans.
Hér kennir fingraför Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns Svavars Gestssonar í Icesave 1 samningunum, einum hrikalegasta afleik Íslandssögunnar, en IHÞ hefur samið þvættingsritgerð um það, að stóriðjan leggi nánast ekkert til þjóðarbúsins. Afætur Íslands láta sannarlega ekki deigan síga og ekki dónalegt að hafa slíkar mannvitsbrekkur á spena ríkisins.
Sannleikurinn er sá, að ráðherrar vinstri grænna sjá sér hér leik á borði að koma höggi á iðnfyrirtækin í landinu, sem myndað hafa vaxtarsprota hagkerfisins í kreppunni, því að þau hafa öll staðið undanfarið og standa enn í umtalsverðum framkvæmdum. Þau munu missa allan áhuga á frekari fjárfestingum hér, og sum munu leggja upp laupana. Áformin ein skapa tortryggni fjárfesta í garð stjórnvalda. Skemmdarverk Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs heppnaðist, þótt ekkert kunni að verða úr framkvæmdinni vegna skorts á stuðningi.
Fjárfestingar stóriðjufyrirtækjanna verða fyrir vikið annars staðar, þar sem raforkuvinnsla á sér stað með jarðefnaeldsneyti og ekkert kolefnisgjald er við lýði. Þetta er kolefnisleki. Stjórnmálaöfl, sem honum valda, eiga ekkert skylt við umhverfisvernd, enda hefur umhverfið aldrei orðið fyrir öðru eins áfalli og valdatöku vinstri grænna. Þegar Steingrímur J. Sigfússon segir: "Landið er engin skattaparadís fyrir mengandi starfsemi", er hann að segja stóriðjunni að fara þangað, sem piparinn vex, þ.e. annað, þar sem starfsemi þeirra er alfarið reist á ósjálfbærum orkugjöfum. Gagnvart náttúrunni sýnir neiaragrímurinn algert ábyrgðarleysi, en fullnægir nú gamalli þrá sinni um að sparka í athafnalífið. Maðurinn er lágkúran helber og hrikalega dýr á fóðrum. Vonandi losa Þingeyingar okkur við fyrirbrigðið í næstu Alþingiskosningum. Landsdómur þarf svo að taka við honum.
Ekki má túlka ofangreint svo, að stóriðjan eigi að vera undanþegin takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda. Því fer víðs fjarri. Í ársbyrjun 2013 verður evrópska viðskiptakerfið með loftmengunarkvóta, "Emission Trading System-ETS", innleitt á Íslandi. Að undirgangast ETS er hluti af skuldbindingum okkar gagnvart EES, Evrópska efnahagssvæðinu, um að draga úr losun stóriðju á gróðurhúsalofttegundum. Lakari fyrirtækin í þessum efnum munu þá þurfa að greiða fyrir losun yfir viðmiðunarmörkum, en hin beztu þurfa ekkert að greiða. ISAL er t.d. í þessum hópi, enda hefur fyrirtækið trónað á heimstoppinum eða við hann undanfarin ár, hvað lágmörkun losunar koltvíildisjafngilda per áltonn út í andrúmsloftið varðar. Fyrirtækið hefur náð þessum frábæra árangri með fjárfestingum, samhentu átaki starfsmanna og beitingu beztu tækni við gjörnýtingu möguleikanna, sem núverandi búnaður býður upp á. Eins og menn sjá, felur ETS í sér hvata til að standa sig. Það er nokkuð annað en dratthalarnir, heimaalningarnir í ríkisstjórn Íslands setja á koppinn.
Spekileki er óhjákvæmilegur í stöðnuðum þjóðfélögum. Þar sem fjárfestingar eru af skornum skammti, eins og á Íslandi, þar sem aðeins er fjárfest fyrir um 13 % af VLF (vergri landsframleiðslu) undir vinstri stjórninni, skortir allar stéttir viðfangsefni við hæfi og leita þangað, sem tækifærin eru talin vera. Á næsta ári, 2012, reiknar ASÍ aðeins með 1 % hagvexti, og þar sem þjóðinni fjölgar meir, verður augljóslega kjararýrnun alls almennings það, sem eftir lifir valdatíma verstu ríkisstjórnar Íslandssögunnar.
Við þessar aðstæður er höfnun innanríkisráðherra á beiðni Huang Nubos um undanþágu fyrir kínversk hlutafélag við lög um landakaup lögaðila utan EES óviturleg, svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið. Lögin veita ráðherra fullt svigrúm til að vega og meta áhættu og nytsemi slíkrar undanþágu í hverju tilviki. Áhættan er hverfandi, því að jörðin, sem var til sölu og Nubo bauð í, er í óskiptri eign á móti ríkinu. Nubo hefði þurft að kljást við íslenzka búrókrata um allar framkvæmdir á jörðinni, og ráðherra hefði haft neitunarvald um allt.
Ávinningurinn fyrir Þingeyjarsýslur gat hins vegar orðið gríðarlegur; reyndar svo mikill, að allt íslenzka hagkerfið hefði notið góðs af. Verður nú viðbúið, að Þingeyingar gjaldi Steingrími J. Sigfússyni rauðan belg fyrir gráan. Atvinnuleysið á landsmælikvarða getur farið í 10 % í vetur, og samt velur ráðherra þá leið að þjóna duttlungum sínum og hatri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á erlendum fjárfestum, hverju nafni sem þeir nefnast. Flokkurinn er haldinn einangrunarhyggju af sjúklegu tagi, sem ekki verður lýst öðru vísi en heimóttarlegri og verulega kindarlegri árið 2011, en við hverju er að búast af flokki, sem gerir í nóvemborlok 2011 samþykkt um, að einkaeignarhald á jarðnæði heyri almennt sögunni til" ?
Það var fullt tilefni fyrir ráðherra að veita Huang Nubo undanþáguna í ljósi efnahagsástandsins í landinu, vegna landeigendanna sjálfra, sem vildu selja, og vegna afstöðu heimamanna almennt og viðkomandi sveitarfélags. Lögin eru beinlínis sniðin fyrir slíkt hagsmunamat og "ad hoc" ákvarðanatöku án fordæmisgjafar. Auðvitað ákvað ráðherra vinstri grænna að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Bolsévikar voru vanir að gera það. Hvernig endaði það ?
Heimóttarskapur vinstri grænna kostar ríkisstjóð a.m.k. 200 milljarða kr á ári í útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og glataðra tekna af erlendum fjárfestingum og síðar af sölu alls konar vöru og þjónustu til erlendra fyrirtækja, skattlagningar rekstrar og launatekna beinna og óbeinna. Sveitarfélögin gætu verið að tapa allt að 50 milljörðum kr á ári vegna glataðra fasteignagjalda og útsvars af sömu tækifærum, sem vinstri grænir hafa fórnað. Alls gæti samfélagslegt tap af stjórnarsetu vinstri grænna numið 250 milljörðum kr á ári. Öll eymdin og baslið í rekstri hins opinbera er í boði forstokkunar vinstri grænna. Ægilegur niðurskurður í heilbrigðisgeiranum, skólastarf í svelti, samgönguframkvæmdir í lágmarki, Hafrannsóknarstofnun í lamasessi, Landhelgisgæzla í skötulíki, skattheimta á einstaklinga og fyrirtæki undir drep, og þannig mætti lengi telja, er allt saman bein afleiðing stjórnarstefnu viðrinisins í hegningarhúsinu gamla við Lækjargötu.
Ríkisstjórnir í Evrópu eru margar óbeysnar, en sú íslenzka er sú alversta, þegar tekið er mið af hagsmunum þegnanna og þeim valkostum, sem í boði eru. Þegar tekið er mið af því, að sá litli hagvöxtur, sem nú má mæla, er froða, ósjálfbærar launahækkanir og úttektir úr lífeyrissjóðum og varasjóðum fjölskyldna, má ljóst vera, að þær háu tölur, sem tilfærðar eru hér að ofan um samfélagslegan kostnað af vinstri grænum við völd eru sízt ofmetnar og vaxa með hverju árinu, sem þeir hanga lengur við völd og fleiri tækifæri fara forgörðum. Vinstri hreyfingunni grænu framboði á að stinga undir stól hið allra fyrsta og ekki að hafa í valdastólum næstu tvo áratugina hið minnsta. Sagan mun fara um þá ómjúkum höndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)