15.2.2025 | 17:09
Staðsetning virkjana skiptir máli
Það eru margir þættir, sem gera staðsetningu virkjana mikilvæga. Þar má nefna orkutöp frá virkjun til notenda, hættu af völdum náttúruhamfara, rekstrarstöðugleika vegna náttúrufars, hvort raforkuinnflutningur eða -útflutningur er af svæði virkjunar, og kostnað íbúa á svæðinu vegna truflana á raforkuafhendingu til þeirra. Út frá þessum atriðum má segja, að eitt landsvæði beinlínis hrópi á nýjar virkjanir inn á svæðið. Þetta eru Vestfirðir, en einnig má benda á öra uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum sem viðbótar rök fyrir því, að landsfeður og -mæður veiti nýjum Vestfjarðavirkjunum vissan forgang á framkvæmdalista. Tala ekki málpípur nýrrar ríkisstjórnar fjálglega um að styðja við verðmætasköpun í landinu ? Eru það bara orðin tóm ?
Elías Jónatansson, orkubússtjóri, reit dágóða grein um þetta málefni í Morgunblaðið 14.01.2025, sem hann nefndi:
"Skipta virkjanir og staðsetning þeirra máli ?"
Þar mátti m.a. lesa:
"Orkubú Vestfjarða hefur sýnt fram á, að bæta má afhendingaröryggi á Vestfjörðum um 90 % með byggingu tveggja virkjana. Annars vegar Kvíslatunguvirkjunar í Selárdal í Steingrímsfirði, 9,9 MW, sem vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við á þessu ári [2025] og gangsetja á árinu 2027. Virkjunin er sérlega mikilvæg fyrir 10 % Vestfirðinga, sem búa í grennd við virkjunina.
Þá hefur Orkubúið lagt til, að skilmálum friðlands í Vatnsfirði við Breiðafjörð, sem er í eigu ríkisins, verði breytt til að hægt verði að taka 20-30 MW virkjunarkost þar til skoðunar í rammaáætlun. Þar er um að ræða kost, sem hefði afgerandi jákvæð áhrif á raforkukerfið hjá 90 % Vestfirðinga. Virkjunin getur orðið hryggjarstykkið í vestfirzka raforkukerfinu, og 2 fyrr nefndar virkjanir gætu, ásamt Mjólkárvirkjun, sem er 11 MW, tryggt Vestfirðingum raforku, þótt tenging við meginflutningskerfið væri rofin, jafnvel vikum saman. Virkjanirnar 3 væru samtals 51 MW í uppsettu afli og með mjög góða miðlunargetu. Um leið og virkjanirnar styrkja raforkukerfi svæðisins verða þær grænt varaafl fyrir Vestfirði, þegar Vesturlína er straumlaus."
Hér er um skynsamlega tillögugerð að ræða, sem nýr loftslags-, orku- og umhverfisráðherra ætti að taka upp á arma sér og flytja lagafrumvörp um á Alþingi, eins og margir Vestfirðingar ætlast til af honum. Þar með slægi hann forvera sínum í embætti við, en nokkur metingur hefur verið á milli þeirra undanfarið. Verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, gagnast afhendingaröryggi í landinu öllu sem nemur framleiðslugetu þessara tveggja virkjana og dregur talsvert úr olíubrennslu. Það, sem Orkubússtjórinn kynnir þarna til sögunnar, er framfaramál fyrir Vestfirði og landið allt, og nú reynir á nýja ríkisstjórn "að láta verkin tala".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2025 | 17:49
Vatnshlot og þvíumlíkt frá ESB
Það kennir margra grasa í reglugerða- og tilskipanafargani ESB, sem hér er innleitt vegna EES-aðildar Íslands. Gagnrýnileysi og flaustur við þessa innleiðingu og jafnvel blýhúðun getur og hefur þegar orðið Íslandi afar dýrkeypt.
Það vantar í umræðuna um þetta mál, hvað átti raunverulega að verja með þessari lagasetningu um "vatnshlot". Á hún yfirleitt við á Íslandi ? Það virðist sem öll inngrip í árfarvegi séu óleyfileg, þ.m.t. brúargerð. Hvaða aðstæður voru það í ESB, sem kölluðu á þessa lagasetningu ? Þegar svona mikil óvissa ríkir um tilurð og hlutverk lagasetningar frá ESB, er það skylda stjórnvalda og Alþingis að taka af lagaleg tvímæli um túlkunina.
Fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra brást þar bogalistin og sama má segja um þingnefndina, sem um málið fjallaði. Þetta verður vonandi víti til varnaðar, því að óvönduð lagasetning hefur oft kostnaðarsamar afleiðingar í för með sér.
Þann 16. janúar 2025 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í uppnámi"
Þar kom m.a. fram:
"Samkvæmt dómnum gerði löggjafinn Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Tilskipunin var sett í lög árið 2022, en sótt var um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021.
Breyting á vatnshloti þýðir, að verið er að breyta t.d. rennsli, sem gerist, þegar vatnsaflsvirkjanir eru byggðar. Heimild til breytingar á vatnshloti er forsenda þess að fá virkjunarleyfi frá Orkustofnun.
"Hann túlkar lagasetninguna þannig, að Umhverfisstofnun sé ekki heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti fyrir vatnsaflsvirkjun, sem þýðir bara, að það er óheimilt að virkja vatnsafl á Íslandi samkvæmt þessari túlkun", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við Morgunblaðið, en tekur fram, að þetta sé mat lögmanna Landsvirkjunar á dómnum við fyrstu sýn."
Það er ástæða til að spyrja um erindi þessarar ESB-löggjafar til Íslands. Streymisstjórnun margra Evrópuþjóða á ám sínum er ekki til fyrirmyndar. Víða hefur verið þrengt svo að ánum, að við miklar rigningar flæða þær yfir bakka sína og valda tjóni og stundum dauða fólks og dýra. Á þessi löggjöf yfirleitt við á Íslandi, þar sem streymi áa hefur í langflestum tilvikum verið breytt með ábyrgum hætti á afmörkuðum stöðum til að nýta fallorkuna til raforkuvinnslu og til að brúa ána ? Áttuðu þingmenn sig á því, hvað þeir gerðu með þessari innleiðingu ? Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar bendir ekki til þess. Það verður að gera þessa evrópsku lagasetningu óskaðlega hérlendis.
""Ef túlkunin er svona, þá setur það allar vatnsaflsvirkjanir í uppnám", segir Hörður. Hann segir ljóst, að lögunum sé ekki ætlað að vinna gegn vatnsaflsvirkjunum, en dómurinn sé frekar að segja, að annmarkar hafi verið á meðferð málsins á Alþingi. Nefndin, sem var með málið til umfjöllunar, hafi að mati dómsins ekki gert það nógu skýrt, hver vilji stjórnvalda væri - að heimila vatnsaflsvirkjanir. Spurður, hvort ríkisstjórnin þurfi að leggja fram nýtt frumvarp, segir Hörður:
"Ef þau [stjórnvöld] eru sammála þessari túlkun dómarans, að það séu ágallar á frumvarpinu, sem séu þannig, að vilji stjórnvalda sé ekki að koma þar fram, þá held ég, að það sé einboðið, að það þurfi að skoða það", svarar Hörður."
Dómurinn er hæpinn. Að dæma vatnsaflsvirkjunina af á þeim forsendum, að ekki sé í lögunum sérstaklega heimilað að virkja vatnsföll, stangast á við hina hefðbundnu lagatúlkun um, að það, sem ekki er bannað, sé leyfilegt. Að dómaranum detti í hug, að ESB-rétturinn setji hömlur á breytingu streymisþátta til að virkja endurnýjanlega orku eða að Alþingi hafi umræðulaust söðlað um og ákveðið að hverfa af braut vatnsaflsvirkjana, er sérkennilegt. Svona lögfræðilegir loftfimleikar eru óverjandi í ljósi þeirra þjóðarhagsmuna, sem í húfi eru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)