Biðin mikla

Þeir, sem ferðazt hafa um suðræn lönd, hafa upplifað hægagang tímans þar og biðina, eftir að eitthvað gerist.  Karlpeningurinn þar situr, reykir og malar á meðan kvenfólkið vappar um og/eða puðar.  Einkennandi er þó, að samfélagið virðist standa í stað eða vera að bíða.  Eftir hverju það er að bíða, áttar ferðamaður að norðan sig aldrei á.

Mallorca september 2007 014Svipað á sér nú stað með lungann úr íslenzka þjóðfélaginu.  Það er að bíða eftir vitrænni leiðsögn. Samtök atvinnulífsins og nú jafnvel ASÍ hafa gjörsamlega gefizt upp á þessari bið, eftir að ríkisstjórnin rumski.  Það mun hins vegar aldrei gerast.  Ríkisstjórnin er í heljargreipum sérvizku og fordóma gagnvart atvinnulífinu.  Hún setur sig á háan hest og þykist þess umkomin að ákveða fyrir atvinnulífið, hvað má framkvæma og hvað ekki.  Ef það er ekki opinbert eignarhald og rekstur, þá er því fundið allt til foráttu.  Afturhald og fordómar ríkisstjórnarinnar eru fyrir neðan allar skriður.  Þeir eru gróft brot á atvinnufrelsi og jafnrétti til atvinnurekstrar og skaða efnahag almennings.

Ráðherrana skortir flesta getu til að stjórna.  Sumir þeirra eru gerðir afturreka af samráðherrum með það, sem þeir sömdu um við hagsmunaaðila.  Umboðsleysi og vantraust einkennir vinnubrögðin. Af öllu þessu leiðir, að ríkisstjórnin sem heild, og forsætisráðherra sérstaklega, er rúin trausti innanlands sem utan.  Þvílíkir dragbítar á framfarir landsins hafa ekki vélað um málefni íslenzku þjóðarinnar, frá því að Skúli, fógeti, Magnússon, taldi rentukammerið á að fjárfesta í "Innréttingunum", sem voru þeirra tíma iðnvæðing, og er mál, að linni.

Forystukreppa hrjáir þjóðina.  Eftir "sunami" Hrunsins skolaði til valda naflaskoðurum og nöldrurum af verstu gerð, sem aldrei hafa sett fram framfaravænlega framtíðarsýn, heldur verið límdir við baksýnisspegilinn og verið fulltrúar stöðnunar og afturhalds.  Fólk án grasrótarsambands finnur framkvæmdum allt til foráttu og ber fyrir sig náttúruvernd með sefasýkislegum hætti án nokkurrar haldbærrar röksemdafærslu.  Upp á þessa hörmung er ekki hægt að horfa lengur.  

Segja má, að núverandi stjórnarflokkar séu hrein eyðimörk nýrra hugmynda.  Það fáa, sem þaðan kemur, er afturúrkreistingur úreltrar hugmyndafræði.  Að auki er þessum vesalings vinstri mönnum með öllu fyrirmunað að leiða nokkurt mál til lykta.  Allt þetta er nú að verða lýðum ljóst og ekki seinna vænna.  Við þessar aðstæður verða borgaraleg öfl að hysja upp um sig brækurnar og blása til sóknar á hugmyndafræðilegum grunni.

Heiðarlegt markaðshagkerfi með hæfilegu opinberu aðhaldi á að marka sóknina til bættra kjara.  Dr Ludwig Erhard, efnahagsmálaráðherra og síðar kanzlari, afnam á einni nóttu öll markaðsleg höft í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi og upprætti þannig á svipstundu allt svartamarkaðsbrask í Vestur-Þýzkalandi, sem hafði verið landlægt frá lokum styrjaldarinnar 7. maí 1945.  Daginn eftir gekk á fund hans yfirmaður hernámsliðs Bandaríkjamanna, ávarpaði Erhard og sagði: Herra efnahagsmálaráðherra; ráðgjafar mínir tjá mér, að ráðstafanir yðar í efnahagsmálum muni leiða til öngþveitis í öllu Sambandslýðveldinu.  Þá svaraði Dr Erhard: Herra yfirhershöfðingi; ég undrast ekki þessi ummæli.  Þetta er nákvæmlega það, sem ráðgjafar mínir tjá mér.

Það er ráðsmennska af þessu tagi, sem vantar hér á Íslandi.  Forystumenn með þekkingu og þor til að taka djarfar ákvarðanir, sem eru fallnar til að brjótast út úr þeim vítahring, sem Hrunið hefur leitt yfir okkur og sem vinstri stjórnin hefur magnað afleiðingarnar af.  Til að rjúfa þennan vítahring þarf að:

  • afnema öll höft á hagkerfinu
  • afnema skrifræðishindranir fyrir erlendar fjárfestingar
  • ýta undir nýsköpun fyrirtækja með lækkun tryggingargjalds og lækkun skattheimtu af hagnaði fyrirtækja
  • ýta undir frumkvæði og bætt skattskil með afnámi þrepaskipts tekjuskatts á einstaklinga
  • endurskoða peningamálastefnu Seðlabankans með róttækum hætti og setja honum markmið um hámörkun hagvaxtar í landinu næstu 10 árin
  • hlutverk Seðlabankans verði m.a. að girða fyrir sveiflur af völdum eignabóla o.þ.h., sem leiða til mikilla yfirskota og undirskota í hagkerfinu
  • fara að dæmi Þjóðverja, er ætla að færa í lög hjá sér miklar skorður við skuldasöfnun og hallarekstri hins opinbera
  • færa hlutdeild ríkisrekstrar niður í 30 % af VLF á 5 árum, þó að hlutfall ríkisútgjalda verði hærra (útboð verka)
  • halda rekstri ríkissjóðs innan fjárlaga 2010 og eyða hallanum á árunum 2011-2012, enda verði hagvöxtur þá hafinn
  • erlendar skuldir ríkissjóðs, sem samkvæmt nýlegum tíðindum jafngilda aðeins fimmtungi VLF eða um 300 milljörðum króna, verði greiddar niður á 5-10 árum, háð afkomu þjóðarbús

Gangi ofangreint eftir, mun íslenzka krónan hafa tilhneigingu til að vaxa að verðgildi að nýju.  Það á þess vegna að verða unnt fyrir Seðlabankann að halda vöxtunum lágum í þágu markmiðsins um hámörkun hagvaxtar.  Þegar líður að því, að hámörkun afkastagetu þjóðfélagsins verði náð, þ.e. allar vinnufúsar hendur hafa fengið vinnu, þarf að draga úr peningamagni í umferð með fjárbindingum af ýmsu tagi og einhverjum vaxtahækunum til að múlbinda verðbólguna.  Þá verður að takmarka innstreymi gjaldeyris með skattlagningu til að takmarka hækkun gengis um of.  Allt verður þetta hlutverk Seðlabankans.

Seðlabanka og Fjármálaeftirlit á að sameina að nýju og veita Seðlabankanum heimildir til raunverulegs eftirlits og viðurlaga gagnvart fjármálageiranum.  Seðlabankinn fái svipað sjálfstæði gagnvart stjórnmálamönnum og "Die Bundesbank" og Evrópubankinn.  Aðgreina ber hefðbundna bankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi.  Hagkerfið á að verða framleiðsludrifið af náttúruauðaævum landsins til sjávar og sveita.  Að beizla 40 TWh/a til viðbótar eða að 2,5 falda núverandi virkjað afl á ekki að tvínóna við.  Með núverandi tæknistigi er unnt að gera þetta þannig, að vel falli að umhverfinu, ef vandað er til hönnunar.  Allflestar íslenzkar virkjanir bera hönnuðum sínum, framkvæmdaaðilum og eigendum fagurt vitni.  

Umræður hafa spunnizt af mikilli vanþekkingu og þröngsýni um orkuverð til stórkaupenda.  Er þar að ósekju gert afar lítið úr þeim, sem sömdu um orkuverðið fyrir hönd virkjanafyrirtækjanna.  Það er auðvelt að sýna fram á, að þessir langtímasamningar hafa og munu greiða upp virkjanakostnaðinn á skömmum tíma m.v. endingartíma virkjananna.  Þá er einnig auðvelt að sýna fram á (og verður gert), að mun hagkvæmara er, þegar allt er tíundað, að nýta orkuna innanlands en að senda hana úr landi.   

budarhals_landsnet

 

 


Margt er skrýtið í kýrhausnum

Bert er orðið, að of margir ráðherranna hafa vart gripsvit.  Þeir kvarta um þreytu, en komast hvorki lönd né strönd með nein mál, sem létta kunna undir með fólkinu í landinu, heldur spóla í sömu hjólförunum mánuð eftir mánuð.  Þreytan stafar væntanlega mest af heimilisböli á stjórnarheimilinu og átökum innan stjórnarflokkanna.  Árangurinn út á við er núll og nix. 

AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) hefur beitt Íslendinga fjárkúgun, en ríkisstjórnin hefur ekki dug til að segja upp samstarfinu við hann.  Samt er ljóst, að samstarfið við hann er dýrkeypt.  Lán frá AGS eru geymd í bandarískum banka á mjög lágum innlánsvöxtum, líklega um 1 %, en íslenzki ríkissjóðurinn fær þessi lán á rúmlega 4 % vöxtum.  Þetta er glórulaus fjármálastefna að hálfu ríkisstjórnarinnar.  Binda ber endi á þessi viðskipti hið snarasta, og snúa sér að raunverulegum úrlausnum í anda Alex Jurshevski.  

Laugardaginn 13. marz 2010 birtist í Morgunblaðinu athyglivert viðtal við Alex Jurshevski, "sérfræðing í skuldavanda fullvalda ríkja".  Hann telur vandamál Íslands ekki munu verð leyst með lánum frá AGS; þvert á móti verði hið snarasta að stöðva skuldasöfnun íslenzka ríkisins og að beita viðeigandi "skuldastýringu", sem þýðir endurskipulagningu á skuldastokkinum með lágmörkun vaxtakostnaðar og jöfnun afborganabyrðanna að markmiði.  Jurshevski gefur kurteislega í skyn, að íslenzkir ráðamenn viti ekkert í sinn haus, þegar að fjármálum kemur, og séu gjörsamlega úrræðalausir.  Hann segir:

"Almennt séð þá tel ég, að menn átti sig ekki til hlítar á þeim vanda, sem er við að etja, og að sama skapi þá sjái þeir ekki, hvaða raunhæfu valkostir standi til boða, þegar kemur að úrlausn skuldavanda ríkisins." 

Jurshevski hefur jafnframt greint "Icesave"-blaður ráðamanna um, að nauðsyn beri til samninga sem fyrst, sem kolrangt stöðumat, sem leitt geti til óviðráðanlegrar skuldabyrðar.  Jurshevski kveður stærð gjaldeyrisvarasjóðsins duga til að standa straum af hinni þungu greiðslubyrði lána næstu tvö árin, 2011-2012, sem mun nema um USD 2,5 milljörðum.  Jafnframt þurfi Íslendingar að leggja áherzlu á að laða að landinu erlendar fjárfestingar, sem hann telur vel gerlegt með lagni og kunnáttu.  Þetta er rödd skynseminnar, sem stjórnarandstaðan vonandi ljær eyra við, því að stjórnarflokkarnir munu vart bera gæfu til þess. 

Það eru tvö mál, sem öllu skipta um Viðreisnina, þ.e.a.s. hagvöxtur og stöðvun skuldasöfnunar ríkissjóðs.  Um hagvöxtinn er það að segja, að með atvinnufjandsemi núverandi ríkisstjórnar verður hagvöxtur minni en 1 %.  Hlálegt er að heyra fjármálaráðherranefnuna hreykja sér af því, að skekkja í áætlanagerð fjármálaráðuneytis hafi valdið því, að hagkerfið hafi verið um 100 milljörðum stærra í árslok 2009 en búizt var við.  Þetta er um 7 % skekkja, sem breytir því ekki, að það varð stórfelldur samdráttur hagkerfisins árið 2009, sem enn heldur áfram.  Hinar hrikalegu afleiðingar félagshyggjunnar birtast í æ meiri fjölda atvinnulausra.  Samt ríghalda sameignarsinnarnir í þá þráhyggju sína, að verst af öllu sé, að einhver græði á vinnu annarra, og þess vegna heldur ríkisstjórnin atvinnulífinu í heljargreipum, og sparar sem minnst í ríkisrekstrinum. 

Samtök atvinnulífsins vilja setja Viðreisninni göfugt markmið um 5 % hagvöxt á ári.  Þetta mundi þýða, að eftir 10 ár yrði hagkerfið 63 % stærra en það er nú.  Landsframleiðslan væri þá tæpum 900 milljörðum verðmætari en árið 2009.  Þetta verður einvörðungu hægt með því að þrefalda núverandi orkusölu til stóriðju og að tvöfalda núverandi verðmætasköpun sjávarútvegs auk aukningar í landbúnaði og ferðamennsku og margvíslegs annars.  Allt er mögulegt, ef vilji er fyrir hendi og skynsemi ræður för.  Aðeins einkaframtakið getur þetta, því að ríkissjóði er þröngur stakkur skorinn.  Þar stendur hnífurinn í kúnni. 

Hitt meginviðfangsefnið eru ríkisfjármálin.  Ekkert mun fást við þau ráðið með viðhorfum núverandi stjórnvalda til ríkisrekstrar í öndvegi.  Í stuttu máli snúast þau um að auka hlutdeild ríkisrekstrar í hagkerfinu á kostnað einkaframtaks og einkaneyzlu.  Svo langt gengur fjandskapur vinstri-grænna í garð einkaframtaksins, að þeir þverskallast enn við að samþykkja Vaðlaheiðargöng í framkvæmd, af því að um einkaframkvæmd átti að verða að ræða. 

Þetta eru þeirra ær og kýr, eins og glögglega kom fram í forystugrein Morgunblaðsins 13.03.2010.  Þar er vitnað í ræðu Margrétar Kristmannsdóttur, formanns Samtaka verzlunar og þjónustu.  Þar kom fram, að OECD hefði fyrir tveimur árum gert úttekt á heilbrigðisþjónustunni á Íslandi og fundið út, að hún væri að sönnu góð, en væri 40 % dýrari en hún þyrfti að vera.  

Ráðið til að lækka tilkostnað án þess að skerða þjónusta er að einkavæða starfsemina.  Þetta er hins vegar eitur í beinum heilbrigðisráðherra Vinstri grænna, sem níðist á því litla einkaframtaki, sem leyft er nú í geiranum, 4 %, með því að krefjast þar allt að 30 % niðurskurðar á meðan ríkisreksturinn á að sleppa með 6 %.

Ríkisstjórnin kennir sig við norræn velferðarkerfi.  Þau eru tálsýn og reyndar engu meiri í Svíþjóð og Finnlandi en annars staðar í ESB, eftir hrun velferðarkerfanna í þessum tveimur löndum.  Danir eru í stórvandræðum, og Norðmenn halda sínu kerfi gangandi með olíupeningum. Á Norðurlöndunum utan Íslands nemur einkarekstur heilbrigðisgeirans á bilinu 18 % - 25 %.  Nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi bíður þess vegna að sexfalda einkarekstur innan heilbrigðisgeirans hið minnsta.  Þjónustan mun batna, og hún verður áfram greidd úr sameiginlegum sjóði landsmanna.  Atvinna í geiranum fyrir lækna mun vaxa, t.d. við það að leyfa einkarekstrinum að flytja inn sjúklinga.  Þar með mun fást betri nýtni á mannafla, tækjabúnaði og húsnæði.  Með einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum verður biðröðum útrýmt, en þær eru alls staðar fylgifiskur ríkisrekstrar.  Því miður er landflótti lækna af völdum stjórnarstefnunnar nú hafinn, og hann verður að stöðva með því að veita þeim störf við hæfi í krafti einkaframtaks.  Til þess að svo verði, þarf að sópa vinstri-grænum nautgripum út úr ríkisfjósinu.  

Heilbrigðisgeirinn er ekki sá eini, þar sem einkaframtakið getur átt þátt í sparnaði á skattfé án þess að um umtalsverða þjónusturýrnun verði að ræða.  Erlendar fjárfestingar, aukin auðlindanýting til lands og sjávar ásamt einkavæðingu og samkeppni og skuldastýring í anda téðs Jurshevskis eru lykilatriði við lausn peningamálavanda og hagstjórnarvanda landsmanna.  Þessi atriði öll samþætt fela í sér einu meðulin, sem duga til að skapa hér 35 þúsund störf, sem nauðsyn ber til á næstu 10 árum til að útrýma atvinnuleysi.    

Á meðan Samfylkingin gengur með steinbarn sitt í maganum, er sá stjórnmálaflokkur í raun einsmálsflokkur og ósamstarfshæfur.  Hann verður ekki til viðtals um að hverfa frá AGS- og Brüsselþjónkun sinni, nema kjósendur veiti honum ærlega ráðningu.  Ýmislegt bendir til, að svo verði fyrr en síðar.  Með hverjum mánuðinum, sem frá umsókninni um ESB aðildarviðræður líður, verður ljósara, hvílíkt feigðarflan hér var á ferð.  Umsóknarferlið sjálft útheimtir her manns í vinnu á vegum Stjórnarráðsins, og þykir skrifræðisveldinu í Brüssel samt enn ekki nóg að gert.  Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra blöskrar, að ríkið skuli þurfa að leggja í feiknarkostnað vegna aðlögunar að ESB áður en þing og þjóð hafa ákveðið að ganga í björgin í Brüssel.  Bragð er að, þá barnið finnur. Það eru sáralitlar líkur á, að þing eða þjóð muni nokkru sinni fá gáning á ESB.  Það er ekki aðeins, að hér sá um grafalvarlega sóun á skattfé að ræða, heldur verður ríkisstjórnin landinu herfilega til minnkunar með fleðulátum sínum í Brüssel, sem eiga sér enga aðra skírskotun á Íslandi en í draumum "socialdemókrata og býrókrata" um þægileg embætti á vegum ESB.  

Dagar evrunnar eru taldir.  Tilraunin með eina mynt og án einna ríkisfjárlaga mistókst.  Á þessu ári munu mikil tíðindi verða á evrusvæðinu.  Það mun sjóða upp úr í hverju evrulandinu á fætur öðru.  Reglur Maastricht kveða á um, að ekki megi koma einu ríki til bjargar.  Grikkir svikust inn á evrusvæðið með því að fegra þjóðhagsreikninga.  Mútum er þar beitt til að draga úr skattheimtu. Með því að telja vændi og annan svartan markað með þjóðarframleiðslu, juku þeir hana um fjórðung á pappírnum.  Þar með tókst þeim að reikna ríkishallann undir 3,0 % af landsframleiðslu.  Þjóðverjum er kunnugt um alla þessa óráðsíu og kæra sig eðlilega lítt um að skera skúrkinn úr snörunni; að koma Grikkjum til hjálpar, svo að þeir geti áfram farið á eftirlaun 61 árs, mun yngri en þýzkir eftirlaunaþegar.  Auk þess vita Þjóðverjar mætavel, að með björgun Grikklands yrði sett hrikalegt fordæmi.  Þýzkaland hvorki getur né vill bjarga öllum evruþjóðunum, sem lenda munu í greiðsluþroti á næstu misserum og árum.  Angela Merkel boðar nú brottrekstur þeirra landa úr evrusamstarfinu, sem árum saman gefa skít í reglurnar.  Afstaða Berlínar er réttlætismál, því að eitt verður yfir alla að ganga í slíku samstarfi.  Af menningarlegum ástæðum mun þetta samstarf hins vegar springa í loft upp fyrr en seinna.    

Falli evran svo, að til verulegrar verðbólgu horfi, mun Þýzkaland láta hana róa og taka upp Deutsche Mark.  Það er stórfurðulegt, að nokkur heilvita maður á Íslandi skuli láta sér til hugar koma, að Ísland geti búið við mynt, hverrar gengi markast af meðalhagsveiflu hagkerfis meginlands Evrópu, eins og Evrópubankinn í Frankfurt metur hana hverju sinni.  Til að Ísland geti þrifizt með evru, þurfa hagkerfi Þýzkalands og Íslands að ganga í takt, og hvenær verður það ?         

Í gini ljónsins


Lýðræðisslys

Ríkisstjórn Jóhönnu er mesta stjórnmálalega slys lýðveldissögunnar, og eftir uppákomur þjóðaratkvæðagreiðslunnar má spyrja sig, hvort forkólfar þessarar ríkisstjórnar gangi heilir til skógar.

Þeir eru augljóslega innantómir lýðskrumarar af versta tagi, sem meina ekkert með því, sem þeir segja.  Þeir hafa t.d. í orði kveðnu þótzt berjast fyrir beinu lýðræði, en er á hólminn kemur, sést, að pukur, undirferli og leyndarhyggja er þeim meir að skapi. 

Á sama tíma og ráðherrarnir hafa dregið lappirnar og beinlínis slævt bitið í vopninu, sem bezt bítur á útlendinga í deilunni um "Icesave"-reikningana, hefur forseti lýðveldisins heldur betur tekið til kostanna á vettvangi erlendra fjölmiðla í baráttunni fyrir málstað Íslands.  Hefur þessi framganga forsetans verið með glæsibrag og vakið aðdáun í mörgum ranni, en framganga forkólfa ríkisstjórnarinnar hins vegar vakið á henni fyrirlitningu.   

Það er einsdæmi, að erlendir viðsemjendur geri það að skilyrði fyrir áframhaldandi samningaviðræðum, að stjórnarandstaðan verði dregin að samningaborðinu.  Svo yfirþyrmandi var hins vegar vantraust ríkisstjórna Breta og Hollendinga á ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, að þeir kröfðust aðkomu Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar.  Aldrei hefur ein ríkisstjórn þurft að lúta jafnherfilega í gras; ekki einu sinni ríkisstjórn Þýzkalands eftir uppgjöf keisarans 1918, sem settir voru afarkostir í Versölum árið 1919, enda hafa verið leiddar líkur að því, að byrðar "Icesave"-samnings Steingríms á hvert mannsbarn á Íslandi séu talsvert meiri en álögur Versalasamninganna á hvern íbúa Weimar-lýðveldisins.  Sjá þá allir, hvílíka óhæfu fjármálaráðherra framdi með áritun sinni 5. júní 2009.  Er það verðugur bautasteinn um skammæja stjórnarsetu vinstri-grænna.    

Grikkland á barmi gjaldþrotsÞað eru tvær ólíkar meginástæður hinnar arfaslöku frammistöðu skötuhjúanna í viðræðunum við Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á innistæðum Landsbankans Bretlandi og í Hollandi á áhættureikningum (hávaxtareikningum).

Ástæða Jóhönnu og Samfylkingarinnar er umsóknin um aðlögunarviðræður við ESB (Evrópusambandið), en þau óttast eins og pestina, að ríkisstjórnir  þjóðanna tveggja seinki ferlinu og tefji viðræðurnar og jafnvel, að ESB stöðvi ferlið, ef Íslendingar sýna yfirganginum andóf. Vegna þessa glórulausa ótta um afdrif steinbarns Samfylkingarinnar er hún fús til að framselja ríkisstjórnum þessara landa væna sneið af skattheimtu íslenzka ríkisins næstu tvo áratugina.  Verði farið að vilja hennar, munu Íslendingar ganga hoknir af skuldum inn í ESB, með sífallandi gjaldmiðil vegna sömu skulda, óðaverðbólgu af sömu ástæðum og fjöldaatvinnuleysi vegna upplausnar í sjávarútvegi og landbúnaði af völdum aðildar.  Evran, verði hún áfram við lýði, verður ekki í sjónmáli á Íslandi, því að engin Maastricht-skilyrðanna um upptöku evru geta Íslendingar uppfyllt við téðan óstöðugleika og jafnvel nýtt hrun, sem þrælahelsi Icesave-upphæðanna með vöxtum Jóhönnu & Co. mun leiða yfir landslýð.

Ástæða Steingríms, fjármálaráðherra, er af öðrum toga.  Dómgreindarleysi hans og fákunnátta leiddi til þess, að hann, öllum að óvörum, framdi það axarskapt að skrifa undir alla skilmála Breta og Hollendinga 5. júní 2009, af því að gamall vopnabróðir hans hafði ekkert úthald til samningaviðræðna við sleipa útlendinga, heldur lagði strax niður laupana og nennti ekki að veita andóf.  Steingrímur, sem veitti Alþingi fáeinum dögum áður þær hæpnu upplýsingar, að aðeins væru þreifingar í gangi um "Icesave", hélt því fram, að betri samningum gætu Íslendingar ekki náð.  Þetta var auðvitað tóm vitleysa, enda kom strax í ljós og fagmenn voru sendir á vettvang og baklandið í Hollandi og á Bretlandi hafði verið mýkt með réttum upplýsingum, að Bretar og Hollendingar hörfuðu úr einu víginu í annað. 

Þetta er svo þungur áfellisdómur yfir stjórnmálamanninum Steingrími Jóhanni Sigfússyni, að hann á sér ekki viðreisnar von fremur en nokkur annar stjórnmálamaður í sporum hans mundi eiga.  Þess vegna beitir hann nú öllum brögðum til að þvælast fyrir góðum árangri og til að hætta sókninni til sigurs í miðju kafi.

Ljóst er af því, sem hér hefur verið tínt til, að axarskaptsparið í forsystu ríkisstjórnarinnar, Steingrímur og Jóhanna, eru afspyrnu illa fallin til að gæta hagsmuna Íslands út í yztu æsar í "Icesave"-málinu.  Jóhanna óttast refsiaðgerðir að hálfu ESB í inngönguferlinu þar, og því betri árangur, sem næst, þeim mun meiri hafa augljóslega verið mistök Steingríms, Svavars og Indriða í samningunum, sem ríkisstjórn þeirra keyrði með offorsi gegnum þingið.  Hagsmunir skötuhjúanna fara þess vegna ekki saman við hagsmuni íslenzkra skattborgara. 

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um staðfestingu eða synjun þrælalaga ríkisstjórnarinnar var með mun skýrari hætti en flestir bjuggust við.  Hún er ákall um sanngjarnari dreifingu byrðanna af "Icesave" á milli þjóðanna þriggja, sem hlut eiga að máli, en samningsnefna ríkisstjórnarinnar kveður á um.  Nú er komið í ljós, ofan á allt annað, að Steingrímur, fjármálaráðherra, áritaði lögin án lýðræðislegs umboðs.  Þingmenn stjórnarandstöðu og nokkrir VG-þingmenn munu hafa tjáð honum andstöðu sína á undan áritun, svo að honum mátti vera kunnugt um, hvílíkar ógöngur hann væri að leiða Alþingi og þjóðina í með áritun sinni.  Áritun Steingríms vitnar um ólýðræðislegt hugarfar og kolrangt stöðumat.

Það, sem var ríkisstjórninni um megn, gerðu 63 % atkvæðisbærra manna, er um 93 % þeirra höfnuðu þrælalögum Steingríms eða fast að 60 % atkvæðisbærra manna.  Þetta jafngildir falleinkunn fyrir ríkisstjórnina, sem ekkert getur skammlaust gert.

Annað er að segja um forseta lýðveldisins.  Sá maður fer nú hamförum í sókn og vörn fyrir málstað Íslands á erlendum vettvangi.  Þar hamlar hvorki málhelti, þekkingarskortur né viljaleysi för.  Forsetinn sýnir yfirburði sína á öllum þessum sviðum og fær hæstu einkunn fyrir frábæra frammistöðu sína.  Fer nú að verða tímabært, að tossarnir dragi sig í hlé og hleypi öðrum að til að vinna verkin, sem þeir hafa aldrei verið nálægt því að ráða við.  

Það standa engin rök til þess, að íslenzkir skattborgarar taki að sér að greiða allar eftirstöðvarnar eftir uppgjör Landsbankans með vöxtum.  Vaxtalaus kjör og deiling byrðanna í hlutfalli við metna ábyrgð yfirvalda í viðkomandi þremur löndum á óförunum, þar sem til hliðsjónar verði jafnframt jöfnun greiðslna á hvern íbúa, eru sanngirnikröfur að hálfu Íslendinga og eitthvað, sem ætla mætti, að meðbyr fengi í nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Víða var fylgzt með téðri þjóðaratkvæðagreiðslu.  Meðfylgjandi er mynd af einni veizlu í Sviss í tilefni úrslitanna.  

veizla-sviss-07-03-2010

  


Hviklyndi leiðir til kviksyndis

Hviklyndi ríkisstjórnarinnar stendur öllum málum fyrir þrifum, sem hún kemur nálægt.  Hún hefur jafnvel slegið úr og í varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna um staðfestingu eða synjun á þrælalögunum, sem hún þrælaði gegnum Alþingi í lok árs 2009, en forseti lýðveldisins synjaði staðfestingar.  Svo langt hefur hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar gengið, að oddviti hennar spurði á Alþingi, þegar minna en vika var til atkvæðagreiðslu, til hvers þessi atkvæðagreiðsla væri eiginlega. 

Segja má, að ekki verði á þessa ríkisstjórn logið.  Það er sama, hvaða asnastrik væri framið eða dómgreindarleysi sýnt, því væri trúandi á þessi endemis stjórnvöld landsins.  Hvers á Ísland að gjalda að sitja uppi með slíka hryggðarmynd í stjórnarráðinu, þegar hæst á að hóa ?  Ríkisstjórninni væri trúandi til að fremja hvaða heimskupör, sem hugsazt gæti.  Slík er af henni reynslan.

Þá má spyrja: til hvers situr þessi ríkisstjórn ?  Hún er klofin í herðar niður í öllum meginmálum, frá Brüssel til Bakka, og algjörlega óhæf til að stjórna.  Afturhaldsstjórnin átti að segja af sér, þegar forseti synjaði þrælalögum hennar staðfestingar, úr því að hún dró lögin ekki til baka.  Sú staðreynd, að lögin eru enn í gildi, er nægt svar við spurningu forsætisráðherra um ástæður atkvæðagreiðslunnar. 

Ríkisstjórnin hefur líka þruglað um að seinka þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Það væri hins vegar stjórnarskráarbrot, því að kveðið er á um, að skera skuli úr um ágreining þings og forseta svo fljótt sem verða má með þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þangað til ríkir stjórnlagakreppa í landinu ofan á aðra eymd.

Úrtölumenn þessarar atkvæðagreiðslu hafa allt á hornum sér og telja málefnið illa fallið til þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem um þjóðréttarlegan samning sé að ræða og fjalli um fjármál.  Hvort tveggja er tóm vitleysa.  Samningurinn er einkaréttarlegs eðlis; það var hin mikla meinloka vinstrigræningjanna Steingríms, Svavars og handbendis þeirra, Indriða.  Þá má benda á, að Svisslendingar efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um skatta til kantóna og ríkis, og hefur slíkt fyrirkomulag gefizt þeim vel, þannig að óvíða eru skattar lægri en í Sviss. 

Ánægður Svisslendingur að störfum

Svisslendingar eru svo ánægðir með þjóðfélag sitt, að þeir vilja alls ekki ganga í ESB, þó að þeir séu staðsettir inni í ESB, landfræðilega.  Þeir vildu ekki einu sinni vera í EFTA/EES.  Til gamans er hér til hliðar sýnt eintak af lukkulegum rafmagnsverkfræðingi, svissneskum, Max Wiestner, að störfum í frítíma sínum. 

Það hefur komið berlega fram í viðtölum við útlendinga og af viðbrögðum Hollendinga og Breta, að téðar kosningar á Íslandi eru heimssögulegar og munu þess vegna styrkja íslenzkan málstað, þó að ríkisstjórn Íslands setji upp hundshaus og reyni að gera lítið úr þessu beittasta vopni, sem Íslendingum er tiltækt í núverandi stöðu.  Þessu er þannig varið, að víðast hvar á Vesturlöndum jusu ríkisstjórnir úr fjárhirzlum og yfir í svarthol fjármálageirans, sem fallinn var að fótum fram með skuldavafninga, afleiður og önnur uppátæki af fjölbreytilegasta tagi, sem losað höfðu um mikið fé og þanið út fjármálageirann án nokkurrar innistæðu.  Gissur gullrass var að falli kominn, þegar "Samfylkingarleiðtogi" Bretaveldis, hinn viðskotailli Gordon Brúnn, sem reyndar er hrossheiti á Íslandi, bjargaði honum frá gjaldþroti á Bretlandi með feiknarlegum austri skattfjár í vasa Gissurar gullrass.  Brezka þingið var ekki spurt um þetta.  Skotinn Gordon Brúnn, sem að sögn brezkra blaða hagar sér þannig á vinnustað, að starfsfólk þarf áfallahjálp, sparkaði reyndar í liggjandi íslenzka banka í Lundúnum og gaf þannig íslenzka bankakerfinu náðarhöggið, sem ella hefði þó að líkindum orðið sjálfdautt vegna alvarlegra innanmeina. 

Eðlilega er kraumandi óánægja í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar með þjóðnýtingu taps fjármálastofnana.  Íslenzka þjóðin er sú fyrsta, sem tækifæri fær til að tjá hug sinn til slíks.  Til landsins er komið a.m.k. hálft hundrað (jafnvel stórt hundrað) fréttamanna hvaðanæva að úr heiminum til að segja fréttir af þessum heimssögulega atburði, sem hér er í uppsiglingu.  

Skrifræðisveldi ESB er skíthrætt við þá lýðræðisvakningu, sem orðið getur í Evrópu í kjölfarið.  Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.  Af þessum ástæðum er Samfylkingin eins og hænurass í vindi um þessar mundir og slær úr og í.  Talsmenn Brüsselfylkingarinnar tuða um markleysi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og frestun, en það er brennt fyrir, að ríkisstjórnin grípi gullið tækifæri til gagnsóknar. 

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gætti hagsmuna íslenzku þjóðarinnar hraksmánarlega illa með samkomulaginu 5. júní 2009 við Breta og Hollendinga.  Alþingi sætti sig ekki við gjörninginn og setti margvíslega fyrirvara í lögin um ríkisábyrgð þessa óþurftarsamkomulags.  Andstæðingarnir höfnuðu þessum lögum, og þar með áttu þau að falla úr gildi.  Samt er sagt í bæklingi Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem sendur hefur verið inn á hvert heimili í landinu í tilefni kosninganna, að téð lög taki gildi, hafni þjóðin þrælalögunum, sem nú eiga að koma til atkvæðagreiðslu.  Þetta fær ekki staðizt, og ljóst er, að deilumál þetta fær nýtt upphaf, ef þjóðin tekur fram fyrir hendur óhæfrar ríkisstjórnar og Alþingis með böggum hildar.  

Allt, sem ráðherrar hafa sagt þjóðinni um "Icesave" málið, orkar mjög tvímælis, svo að vægt sé til orða tekið.  Fullyrðingin um, að lengra verði ekki komizt í samningaviðræðunum en að samningi þeim, sem nú á að greiða atkvæði um ríkisábyrgð á, er augljóslega tóm vitleysa.  Framganga ríkisstjórnar Íslands í þessu árans "Icesave"-máli er frá upphafi til enda með þeim hætti, að hún hefur sýnt eindæma undirlægjuhátt gagnvart erlendu ofríki og sett sjálfa sig að veði fyrir framgangi vilja ESB (Evrópusambandsins) hérlendis, þó að hún þori ekki að kannast við það.  Öll hennar dagskrá hefur verið undirlögð þessu viðundri í samningsmynd.  Meira að segja umsóknin um aðlögunina að ESB er í uppnámi, og er hollast að eyða ekki meira púðri í þá sjálfstortímingu en orðið er. 

Þingmenn Samfylkingar og vinstri grænna hafa í raun afsalað Alþingi lunganum úr fullveldinu í hendur Breta og Hollendinga með því að fela þeim hér skattheimtuvald.  Þetta er fullkomlega forkastanlegur gjörningur, sem ætti að dæma þessa stjórnmálaflokka út í yztu myrkur um langa framtíð.  Ríkisstjórnin reyndist fullkomlega ófær um að leiða samningaviðræður við Hollendinga og Breta, og viðreisn hagkerfisins og efnahags heimilanna er henni algerlega ofviða.  Hún er fallin á prófinu með 0,0 og á ekki að fá að reyna aftur. 

Gold Diplom Blauburgunder 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband