26.3.2011 | 19:48
Vantraust
Ríkisstjórnin er trausti rúin, enda klúðra ráðherrar hennar öllu, sem þeir koma nálægt. Forsætisráðherra, sem henti frá sér efnahagsmálunum og tók til sín jafnréttismálin í staðinn, tókst ekki að ráða skrifstofustjóra án þess að brjóta jafnréttislög að dómi jafnréttisráðs.
Umhverfisráðherra er margdæmdur fyrir brot í starfi; kosningar til stjórnlagaþings, aðalhugðarefni forsætisráðherrans, voru ógiltar af Hæstarétti vegna óvandaðrar lagasetningar og klúðurs við framkvæmd, en þá gerði Alþingi sér lítið fyrir og skipti um nafn á fyrirbærinu, eins og aðrir skipta um brók. Nú býr stjórnlagaráð sig undir að heimta stjórnarskrárbrot með því að Alþingi láti tillögur þess, órýndar af því sjálfu, ganga til þjóðarinnar beint. Þetta er alger farsi og lágkúran helber.
Atvinnurekendur og verkalýðshreyfing hafa lýst örvæntingu sinni yfir verkleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart öllu, er til framfara og atvinnusköpunar kann að horfa. Samtök sveitarstjórna hafa gefizt upp á ríkisstjórninni. Aðeins féttastofan RÚV-TASS styður ríkisstjórnina. Réttasta lýsingin á stöðunni er sú, að ríkisstjórnin er dauð, en afturgangan er enn með tilburði til að þvælast fyrir.
Talsmenn höfuðatvinnuvega landsins hafa lýst hneykslun sinni á niðurrifsstarfsemi ríkisstjórnarinnar gagnvart atvinnuvegunum. Ríkisstjórnin sýnir iðnaðinum, sér í lagi stóriðju, beinan fjandskap, hvað sem innantómum fagurgala iðnaðarráðherra líður. Ríkisstjórnin hótar að eyðileggja áratuga uppbyggingarstarf í sjávarútvegi og að tortíma lífsnauðsynlegum viðskiptasamböndum, sem reist eru á stöðugleika, t.d. á afnotarétti aflahlutdeilda (kvóta).
Minnzt var á framkomu ríkisstjórnarómyndarinnar við atvinnuvegina hér að ofan. Engan þeirra hefur hún leikið jafngrátt og sjávarútveginn. Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, gefur dauðann og djöfulinn í allt, sem snertir arðsemi greinarinnar. Hann, eins og flokkssystir hans í umhverfisráðuneytinu, er í stjórnmálum og stundar stjórnmál með gerðum sínum í ráðuneytum sínum. Þetta er stjórnsýslubrot og má flokka til siðrofs,sem er einkenni alræðissinnaðra stjórnmálamanna, sem hatast við einkaframtakið og einstaklingsfrelsi, en láta tilgang stjórnmálastefnu sinnar helga meðalið.
Í góðri grein prófessors Ragnars Árnasonar í Morgunblaðinu 7. marz 2011 sýnir hann með gildum rökum og tilvísunum í aðra fræðimenn, að það eru allt önnur öfl að baki byggðaröskunar á Íslandi og annars staðar en kvótakerfi sjávarútvegs. Kvótakerfið var sett á í neyð til að mæta þeirri stöðu, sem upp var komin í sjávarútvegi í upphafi 9. áratugar 20. aldarinnar, er sóknarþunginn var orðinn langt umfram veiðiþol miðanna. Aflamarkskerfið reyndist bjarga sjávarútveginum og þar með íslenzka þjóðfélaginu frá efnahagshruni, þegar leyfilegur þorskafli var minnkaður úr um 320 kt/a á áratugunum 1970-1990 í um 200 kt/a 1991-2009. Kvótakerfi með framsalsrétti veiðiheimilda hefur jafnframt komið fótunum undir sjávarútveginn að nýju þrátt fyrir þennan gríðarlega aflasamdrátt. Grundvöllur þessa góða árangurs er langtíma afnotaréttur útgerðar á miðunum, sem gerir langtíma áætlanagerð, viðskiptasambönd og fjárfestingar kleif. Ríkisvaldið, aftur á móti, hefur með ákvæðinu um þjóðareign í kvótalögunum rétt til að stjórna veiðunum í því augnamiði að hámarka veiðiþol miðanna til lengdar þjóðinni allri til hagsbóta. Neyðarúrræði hefur reynzt furðuvel, og íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið ber höfuð og herðar yfir önnur slík kerfi, þegar árangur og arðsemi er lagður til grundvallar. Það þjónar þess vegna hagsmunum almennings vel, þrátt fyrir sögulega agnúa, og má alls ekki rífa það niður með gerræðislegri forræðishyggju, sem auka mun tilkostnaðinn og minnka afrakstur útgerðarinnar auk þess að gera henni ókleift að standa við langtímasamninga sína við birgja og viðskiptavini.
Ríkisstjórnin gengur í berhögg við samtök bænda, þegar hún undirbýr aðlögun landbúnaðarins að landbúnaðarstefnu ESB, sem leikið hefur landbúnað Evrópu grátt og mundi ganga af íslenzkum landbúnaði dauðum í sinni núverandi mynd, en við tækju einhvers konar risabú og gervibú með kostum þeirra og göllum og byggðamynztri, sem fæstum Íslendingum er að skapi. Eðlileg þróun og framleiðniaukning íslenzks landbúnaðar mundi stöðvast og sérstaða hans hverfa. Spurning, hvort gæðunum yrði fórnað fyrir magnið, eins og reyndin er í ESB. Ferðamennskan kvartar sáran undan þungum álögum, sem skekkja samkeppnistöðu hennar. Atvinnuleysi er tekið að vaxa á ný.
Við þessar ömurlegu aðstæður, sem lýsa má í einu orði, þjóðfélagshrörnun, er einn aðili í þjóðfélaginu stunginn líkþorni. Það er hinn sögufrægi vinnustaður við Austurvöll, Alþingi. Í Hrunskosningum fyrir tæpum tveimur árum varð hann reyndar með endemum illa skipaður, eins og hrakfarir þingmeirihlutans við lagasetningu bera vott um. En er minnihlutinn beysnari ? Hvernig í ósköpunum stendur á því, að hann hefur enn ekki lagt fram vantraust á einstaka ráðherra og/eða á ríkisstjórnina sem heild ? Hvar er og hvað er Sjálfstæðisflokkurinn ? Eftir atkvæðagreiðslu sína á Alþingi verður forysta hans, sem valdið hefur vonbrigðum með deyfð og lélegri herstjórnarlist, að svara þessari spurningu á næsta Landsfundi. Árangur Sjálfstæðisflokksins er ófullnægjandi. Sjálfstæðisflokkurinn á að vera baráttutæki fyrir frelsi einstaklingsins og mannsæmandi kjörum allra landsmanna. Hvernig í ósköpunum er unnt að samræma þetta markmið þeim gjörningi að styðja stórskaðlega ríkisstjórn við að leggja 100 milljarða króna helsi á skattborgara landsins að óþörfu ?; og það ofan í óþverrabragð Breta að beita hryðjuverkalögum á þjóðina, sem ollu henni svipuðu tjóni og Icesave. Sigurbjörn Svavarsson hefur sýnt fram á með glöggum rökum, að 100 milljarðar verði upphæðin með vöxtum, sem greiða þarf. Síðast reit hann um þetta í Morgunblaðið þann 26. marz 2011 í greininni "Rangir útreikningar samninganefndar ríkisins".
Eitt kjörið mál til vantrausts á þingi er umsóknin um aðildina að ESB. Það mál hefur allt til að bera, sem vantraust þarf: forsendubrest, fjáraustur, óvinsældir á meðal almennings, heitar tilfinningar og klofning í stjórnarliði. Samt bólar ekki á vantrausti. Getur verið, að aumingjaskapurinn tröllríði húsum víðar en í stjórnarráðinu ? Það eru undanvillingar í stjórnarandstöðuliðinu, sem óttast er, að veita mundu ríkisstjórninni brautargengi í atkvæðagreiðslu um vantraust vegna ESB-umsóknar. Það er nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn að fá á hreint, hvorum megin hryggjar þetta fólk ætlar að liggja. Þá verður hægt að taka á því, eins og það verðskuldar, í flokksráðum og á landsfundum flokkanna með lýðræðislegum hætti, svo að ekki sé nú talað um undirbúning næstu þingkosninga. Því verður ekki trúað, að þingmenn stjórnarandstöðu yrðu til að framlengja líf lamaðrar ríkisstjórnar félagshyggjunnar, sem aðeins nær samstöðu um auknar skattbyrðar og hefur þegar kostað samfélagið 300 milljarða króna í glötuðum hagvexti og ætlar að taka 100 milljarða króna út úr hagkerfinu og senda til Breta og Hollendinga að óþörfu. Það er kysst á vöndinn.
Ríkisstjórn, sem lafir við völd á óttanum einum við kjósendur, á ekkert annað skilið en náðarhöggið með vantrausti. Að láta slíkt hjá líða verður að túlka sem annað tveggja: stjórnmálalegan lydduhátt eða óbeinan stuðning við stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og undirmáls stjórnarhætti.
Út er komið vorhefti ársfjórðungsritsins Þjóðmál. Er unnt að komast á vefsvæði tímaritsins frá tengli hér á síðunni. Í vorheftinu er grein eftir höfund þessa vefseturs, "Viðreisn-víðtækar umbætur", þar sem viðfangsefnið er að varða veginn út úr núverandi hrörnunarástandi íslenzka þjóðfélagsins. Það er óþarfi að taka það fram, að áður en slík viðreisn getur hafizt er nauðsynlegt að setja núverandi stjórnvöld til hliðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2011 | 21:18
Ríkis-Bakkabræður
Alan Greenspan (AG), seðlabankastjóri Bandaríkjanna (BNA) í áraraðir, var lengi átrúnaðargoð margra hagfræðinga. Töldu þeir hann hafa fundið hagstjórnaraðferð eilífs hagvaxtar, sem girti fyrir kreppur. Greenspan féll af stalli 2008 og var kennt um kreppuna, sem reið yfir seinni hluta þess árs, með því að hafa ofspennt hagkerfið og látið hjá líða að slá á eignabóluna.
Frægur er fundur, þar sem AG gerði grein fyrir peningamálastefnu Seðlabanka BNA og blaðamaður sagði:"Ég tel mig hafa skilið rétt, það sem þú varst að segja ...", og AG greip þá fram í fyrir honum: "Sé svo, hef ég ekki hagað orðum mínum með þeim hætti, sem ég hugðist".
Fyrirbrigðið, sem nú vermir stól seðlabankastjóra Íslands, verður að vísu aldrei kallaður "meistarinn", eins og AG, en hann gerir engu að síður sitt ýtrasta til að rugla fólk í ríminu. Í fersku minni eru launamál þessa seðlabankastjóra Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra enn, þar sem hann vildi, að bankaráðið hækkaði laun sín um 400 kkr/mán, en kvað þessa hækkun þó vera lækkun frá umsömdum kjörum við drauginn í forsætisráðuneytinu.
Enn sannaðist þetta dularfulla samband seðlabankastjórans við forsætisráðuneytið, þegar hann spáði Móðuharðindum af manna völdum, ef Icesave#2 yrði hafnað. Icesave#2 var kolfellt í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. marz 2010, og ekkert gerðist. Reynslan síðan er sem sagt sú, að ekki stóð steinn yfir steini af málflutningi seðlabankastjóra, sem reyndist hafa farið með eintómt fleipur. Slíkir menn eru réttilega nefndir ómerkingar.
Enn er sami trúður kominn af stað og spáir nú óáran í hagkerfinu, verði Icesave#3 hafnað. Ekkert er fjær lagi en að taka mark á þessum þvættingi. Hvernig í ósköpunum getur það styrkt íslenzka hagkerfið, að ríkið gangist við skuldum vegna innlána gjaldþrota einkabanka í útlöndum ?
Píslarvættishugmyndir skjóta reyndar upp kollinum í þessu sambandi. Fólki blöskrar með réttu framferði ósvífinna fjárglæframanna íslenzkra á erlendri grundu og vill friðþægja fyrir ófyrirleitna landsmenn sína með því að axla þessar byrðar. Þetta er á miklum misskilningi reist.
Landsmönnum ber hvorki siðferðileg, lagaleg né stjórnmálaleg skylda eða nokkur önnur kvöð til að samþykkja Icesave#3. Með því væru þeir að játa sig sigraða gagnvart auðvaldi fjármálageirans og embættismönnum Evrópusambandsins (ESB), og þeir mundu gera öðrum þjóðum í svipaðri stöðu mun erfiðara fyrir við að standa á rétti sínum til að forðast ríkisgjaldþrot.
Að hafna Icesave#3 er þar að auki í takti við tíðarandann nú í Evrópu, þar sem almenningur, t.d. á Írlandi og í Þýzkalandi, er búinn að fá sig fullsaddan af að axla byrðar óreiðumanna fjármálageirans norðan og sunnan Alpanna, sem þar með valda almenningi stórfelldri kjaraskerðingu. Það er og að renna upp fyrir æ fleiri hagfræðingum og stjórnmálamönnum, að öryggisnet af þessu tagi undir fjármálafyrirtækjunum ýtir stórlega undir áhættusækni á þeim bænum; óráðsíu og vöxt út yfir allan þjófabálk. Það er þess vegna til vitnis um kolrangt stöðumat að halda því nú fram, að sérstakar refsiaðgerðir umheimsins séu handan við hornið, felli þjóðin hin illræmdu Icesave-lög úr gildi.
Afar leiðigjörn er að verða tugga annars Ríkis-Bakkabróðurins, forstjóra Landsvirkjunar, að þungt muni verða undir fæti að sækja til erlendra lánamarkaða þangað til gengið hafi verið að afarkostum Breta og Hollendinga. Veit hann ekki, að fjármálamarkaðir Evrópu eru nú í herkví evruvandræðanna, þar sem séð er fram á gjörningaveður bankahruns og/eða gríðarlegra fjármagnsflutninga, af því að Suður-Evrópa er komin að leiðarlokum evruævintýris með lágum vöxtum og mikilli þenslu ? Afleiðingin er algerlega ósamkeppnihæfir útflutningsatvinnuvegir þar á evruslóðum.
Á Landsvirkjun sannast, að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Hvers vegna horfir Landsvirkjun ekki til vesturs og austurs ? Í Kanada ríkir grózka og í BNA er hagkerfið að hjarna við. Þar stendur mönnum nákvæmlega á sama um Icesave, og hafa trúlega fæstir heyrt á hörmungina minnzt. Í Kína er gríðarlegt fé á lausu, og Kínverjar hafa áður sýnt góðan hug til Íslands, t.d. innan stjórnar AGS.
Veit forstjóri Landsvirkjunar, að Icesave#3 er lánasamningur fjármálaráðherra Íslands við brezka og hollenzka fjármálaráðuneytið að upphæð GBP 2,235 mia með 3,3 % vöxtum og EUR 1,332 mia með 3,0 % vöxtum og að þessi lán verða notuð til að greiða brezka og hollenzka innistæðutryggingsjóðunum strax til baka greiðslur þeirra á lágmarkstryggingu til innistæðueigenda Icesave-reikninga á Bretlandi og í Hollandi og að með þessum gjörningi verður Icesave-ævintýrið að skuldabagga íslenzka ríkisins með vöxtum frá 9. október 2009 ? Ímyndar hann sér, að væntanlegir lánadrottnar Landsvirkjunar muni telja bakhjarl hennar, ríkissjóð Íslands, verða betur í stakk búinn að hlaupa undir bagga með henni, ef hún lendir í kröggum, með þennan viðbótar skuldabagga á bakinu, sem eykur skuldirnar verulega, því að ekki má gleyma því, að ríkið verður að fleyta skuldasúpunni á undan sér með nýjum lánum á e.t.v. 7 % vöxtum ?
Þriðji Ríkis-Bakkabróðirinn er arminginn Árni, efnahagsráðherra. Hann upphefur vart raust sína á mannamótum öðruvísi en til að hallmæla íslenzku krónunni. Hann er ekki einn um það, og er Kögunarþúfa Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu 19. marz 2011 sorglegt dæmi um það. Hvað segir þessi Ríkis-Bakkabróðir þá um það, að hafni landsmenn Icesave-ánauðinni 9. apríl 2011, og verði síðan svo nefnd dómstólaleið farin, mun málið hafna fyrir íslenzkum dómstóli, sem mun dæma ríkissjóð til greiðslu í íslenzkum krónum, ef hann þá dæmir ríkissjóð til einhverra greiðslna, sem er ólíklegt, þar sem í augum uppi liggur, að kröfur Breta og Hollendinga eru löglausar og alfarið stjórnmálalegs eðlis.
Stjórnmálamenn þessara þjóða þrjózkast við að viðurkenna að hafa hlaupið á sig og ESB vill ekki, að í ljós komi veila í löggjöf sinni um innistæðutryggingasjóðinn. Samt er viðurkennt, m.a. af núverandi bankastjóra Evrópubankans, ECB, Jean-Claude Trichét, að kerfið var aldrei sniðið við hrun heils bankakerfis. Lagalega og siðferðislega standa Íslendingar með pálmann í höndunum, ef þeir hafna Icesave-vitleysunni enn og aftur, en dæma sig til verulegrar kjaraskerðingar og ýta ríkissjóði jafnvel fram af bjargbrúninni, ef þeir axla ábyrgð á vitleysunni.
Á áratuginum 2001-2010 nam meðalhagvöxtur evru-svæðisins aðeins 1,2 % á ári. Hagvöxtur Íra var þá mestur eða 2,5 % og hagvöxtur Ítala minnstur eða 0.3 %. Hagvöxtur evrusvæðisins var og er miklu minni en Ísland þarf á að halda nú til að rjúfa vítahring skuldasöfnunar og skattahækkana. Við verðum að ná 3 % - 5 % árlegum hagvexti á þessum áratugi til 2020 til að reisa efnahag landsins við. Verði ofangreindum 100 milljörðum króna bætt við skuldasúpu ríkissjóðs við útlönd, getur slíkt orðið dropinn, sem fyllir mælinn og keyrir ríkissjóð í greiðsluþrot. Þá verðum við ekki tekin neinum vettlingatökum, heldur verðum bónbjargarmenn í a.m.k. áratug með staðnað þjóðfélag.
Innri markaður Evrópu og evran áttu að leiða Evrópuríkin til forystu í heiminum á efnahagssviðinu. Innri markaðurinn hefur staðið undir væntingum, þó að hann þurfi að þróa betur, t.d. á sviði þjónustu, en evran hefur valdið miklum vonbrigðum. Forysta ESB telur framtíð hennar vera í uppnámi, nema evrusvæðið verði þróað í átt að sambandsríki. ESB er þess vegna orðið tveggja teina fyrirbæri, sem er allt annað en Alþingi samþykkti umsókn að 16. júlí 2009. Helztu rök Árna Páls og kumpána fyrir inngöngu eru að skipta um mynt. Með evru yrði Ísland lágvaxtarland, og því höfum við engan veginn efni á, enda alger óþarfi með gríðarlegar ónýttar orkulindir. Myndin hér að neðan sýnir þó leið, sem eindregið á að forðast við orkunýtingu. Landsvirkjun fjármálaráðherra vinstri-grænna (hann er eini hluthafinn) gælir nú við lagningu 1600 km sæstrengs til flutnings á 600 - 1000 MW afli til Bretlands. Orkan er sögð eiga að koma úr jarðgufuverum. Hér er um fásinnu að ræða. Sóun orku yrði gríðarleg vegna tapa í orkuverum, þar sem aðeins næst 10 % nýtni við einvörðungu raforkuvinnslu úr gufu, og mikil töp verða óhjákvæmilega í afriðlum, sæstreng og áriðlum. Þegar vindar blása fellur orkuverðið vegna vindmyllanna niður fyrir kostnaðarverð orku um sæstreng frá Íslandi, svo að léleg nýting á mannvirkjunum mundi gera út af við arðsemi þeirra. Eftir stæði mikil fjárfesting, sem skapar aðeins vinnu í útlöndum, og hærra orkuverð til almennings og fyrirtækja á Íslandi. Þetta er spákaupmennska af versta tagi með íslenzkar orkulindir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2011 | 22:31
Öll vötn til Dýrafjarðar
Á foreldrafundum í borginni hafa verið uppi raddir um, að stjórnun hennar nú einkennist af gerræði og sýndarmennsku. Sömu sögu er að segja af ráðherrum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Allt er þetta félagshyggjufólk og/eða stjórnleysingjar þar að auki ótrúlega illa að sér um flesta hluti.
Hið síðast talda virðist reyndar eiga við um stóran hluta þingheims. Það má heita með eindæmum, að á sama tíma og Landhelgisgæzlan hefur ekki úr nægu fé að spila til að halda úti lágmarkseftirliti í íslenzku efnahagslögsögunni, heldur verður að leggjast í verktöku á fjarlægum hafsvæðum, þá samþykkir drjúgur meirihluti þingheims að leggja andstyggilega klafa á íslenzka skattgreiðendur, sem nú eru taldir geta numið á bilinu 47-470 milljörðum kr.
Hvernig stendur á þessari firringu ? Hér hrundi heilt bankakerfi haustið 2008, og í rétt stofnaðan Tryggingasjóð innistæðueigenda hafði tæpast safnazt fé til að tryggja inneignir í þokkalegum sparisjóði á Íslandi. Tryggingasjóðir Breta og Hollendinga áttu fullt í fangi með riðandi bankakerfi, innlend, og bar ekki skylda til að tryggja innistæðueigendur í hinum fallna Landsbanka. Mikill ótti við hrun evrópska bankakerfisins hafði grafið um sig í London, den Haag, Brüssel og víðar í Evrópu, og þess vegna afréðu fjármálaráðherrar í Hollandi og í Bretlandi að beita sér fyrir útlátum úr ríkissjóðum sínum til að gera upp við innistæðueigendur Icesave. Síðan hafa þessir aðilar ekki linnt látunum að fá ríkisstjórn Íslands og Alþingi til að fallast á að bæta þeim þessar greiðslur með vöxtum.
Allir réttsýnir menn sjá, að þessar málalyktir eru fáheyrðar, ólögmætar og afspyrnu ósanngjarnar vegna hruns heils bankakerfis á Íslandi og þar af leiðandi mjög slæmrar stöðu íslenzka ríkissjóðsins, sem aðeins um 200 þúsund hræður standa undir. Ofan á þetta bætist ríkisstjórnarnefna, sem í á þriðja ár hefur reynzt algerlega um megn að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur. Hana skortir meira að segja viljann til þess. Hún hefur ekkert gert af viti, en axarsköptin eru legíó. Síðustu fréttir af vinnumarkaðinum eru voveiflegar; fjöldi atvinnulausra vex nú síðvetrar og enginn hagvöxtur er í hagkerfinu. Ríkisstjórnin lafir á óttanum einum. Stjórnarráðið er nú Musteri óttans. Hún þorir ekki að berjast fyrir barninu sínu, Icesave-lögunum, sem forseti lýðveldisins synjaði staðfestingar, heldur sigar rökkum sínum á kjósendur.
En nú falla öll vötn til Dýrafjarðar. Þýzkur almenningur hefur fengið nóg af að vera beitt fyrir vagn Brüssel. Kjósendur veittu ríkisstjórnarflokkunum þýzku ráðningu í síðustu fylkiskosningum í Hamborg, og einar 6 fylkiskosningar eru framundan á þessu ári í Þýzkalandi. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands mun telja skuldbindingar þýzku ríkisstjórnarinnar um að senda þýzkt skattfé í sukk og svínarí til suðurhluta álfunnar, án undanfarandi samþykktar Bundestags, stríða gegn stjórnarskrá. Þeim vex nú ásmegin í Þýzkalandi, sem hvorki telja rétt að nota þýzkt skattfé til að bjarga erlendum ríkissjóðum frá greiðsluþroti né að bjarga bönkum, innanlands sem utan, frá gjaldþroti. Þess má geta, að þýzkir bankar hafa fest fé þýzkra sparifjáreigenda með töluverðri áhættu á erlendri grundu.
Neyðarlög ríkisstjórnar Geirs H. Haarde voru sett til að bjarga Íslandi frá gjaldþroti og allsherjar öngþveiti. Þar var gripið til neyðarréttar til bjargar litlu þjóðfélagi. Það er ekki með sanngirni né lagalegri skírskotun hægt að halda því fram, að full ríkistrygging innistæðna innanlands hefði átt að þýða ríkistryggingu íslenzka innistæðutryggingasjóðsins á inneignum á Icesave-reikningunum. Það er ekki verið að mismuna eftir þjóðernum, því að útlendingar á Íslandi nutu trygginga á við innfædda og Landsbankinn í Bretlandi og Hollandi var ekki endurreistur. Bankahrunið íslenzka olli öllum landsmönnum peningalegu tapi, annaðhvort á peningalegum eignum eða með rýrnun lífeyrissjóða þeirra, nema hvort tveggja væri, svo að ekki sé nú minnzt á lækkun fasteignaverðs og aðra óáran. Hér er þó lagalagur vafi, sem andstæðingum okkar gefst kostur á að fá úrskurðað um, en litlar líkur, e.t.v. 10 %, eru á, að þeir kæri sig um þessa dómstólaleið, sem enda mundi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og síðan e.t.v. Hæstarétti Íslands. "Ískalt mat" er, að dómstólaleiðin verði oss hagfelldari en sá samningur, sem nú hefur verið samþykkt ríkisábyrgð á, en þjóðin fær tækifæri til að tjá sig um þann 9. apríl 2011. "Ískalt mat" er líka, að annarleg sjónarmið ráði stuðningi við hin afleitu lög, þ.e. hreinn undirlægjuháttur og þrá eftir að þóknast Brüssel-valdinu í von um greiðari inngöngu í herlegheitin þrátt fyrir, að rýnivinna hagsmunaaðila og samninganefndar hafi nú leitt í ljós, að kröfur ESB um aðlögun og hagsmunir íslenzkra undirstöðuatvinnuvega eru ósamrýmanlegir.
Hagkerfi Íslands hefur dregizt saman um 10 % frá Hruni. Svipað hefur gerzt á Írlandi, en Írar eiga sér ekki viðreisnar von og eru komnir í snöruna ásamt Grikkjum og Portúgölum eftir að hafa sett um 40 % af landsframleiðslu sinni til bjargar bönkum landsins. Þetta er mesti samdráttur, sem þekkist á þessum tíma. Staða gjaldeyris Íra, evrunnar, tekur ekkert mið af bágstöddu hagkerfi Íra, og þess vegna mun koma til ríkisgjaldþrots Írlands. Það lýsir sér þannig, að afskrifuð verða 25 % - 50 % af skuldum ríkissjóðs, en skuldatryggingarálag á Íra og aðra, sem í svipuðum hremmingum lenda, mun verða hræðilega hátt, e.t.v. hærra en 10 %, fyrstu árin á eftir, jafnvel í heilan áratug.
Af þessu sést, að höfnun Íslendinga á að greiða skuldir íslenzku bankanna erlendis, þ.m.t. innlán, jafngildir ekki lengur því að synda á móti strauminum. Segja má, að straumhvörf séu að verða að þessu leyti í Evrópu og að nú falli öll vötn til Dýrafjarðar. Að eiga einn bandamann í Berlín er betra en að eiga tíu í Brüssel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.3.2011 | 21:36
Neisti verður að báli
Bylting Araba veturinn 2011 hófst með því, að hinn túniski götusali, Muhammad Bouazizi, kveikti í sér í mótmælaskyni við túnísk yfirvöld, sem kippt höfðu undan honum afkomugrundvellinum með því að heimta af honum umsókn um leyfi til að stunda ávaxtasölu. Hann vissi, að hann gat ekki uppfyllt kröfur yfirvalda, sem þannig settu þessum unga manni stólinn fyrir dyrnar við að sjá sér farborða.
Atvinnuleysi á meðal ungmenna í arabalöndunum nemur víðast hvar yfir þriðjungi undir þrítugu, en það er víðar pottur brotinn. Á Spáni, sem ESB reisti við eftir einræðisstjórn Francisco Francos, nemur atvinnuleysi ungmenna 40 %, á Bretlandi 20 %, og ætli það sé ekki svipað á Íslandi. Atvinnuleysi ungmenna er þjóðfélagsböl, sem hvergi ræðst við án hagvaxtar. Á Íslandi er enginn hagvöxtur og mun ekki verða með núverandi stjórnarflokka við stjórnvölinn. Það er þversögn fólgin í áróðri já-manna við Icesave, að hagvöxtur geti hafizt við að borga vexti, og e.t.v. hluta af tryggingarfénu, til Breta og Hollendinga, af upphæð, sem ríkissjóðir þeirra lögðu fram af ótta við bankahrun í eigin löndum.
Lífskjörum á Íslandi hrakar óðum undir félagshyggjustjórninni, og eru aðstæður bágstaddra átakanlegar. Þessari óheillaþróun verður aðeins snúið við með því að virkja markaðsöflin til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Það mun félagshyggjustjórnin aldrei gera. Það mun aðeins borgaraleg ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gera. Hún verður að byrja á því að afnema skatta félagshyggjunnar og hefja virkjanaframkvæmdir og nýja orkusölu.
Eftir að Hæstiréttur dæmdi, að hinn forstokkaði og ofstækisfulli umhverfisráðherra hefði brotið lög á Flóahreppi, lurðaðist ráðherrann til að staðfesta aðalskipulag hreppsins. Með þessu er rudd brautin að hagkvæmasta virkjunarkosti landsins, Urriðafossvirkjun, 980 GWh/a, ásamt Hvammsvirkjun, 665 GWh/a og Holtavirkjun, 415 GWh/a, í Neðri-Þjórsá. Á þessum áratug ætti einnig að reisa Arnardalsvirkjun í Jökulsá á Fjöllum, 4000 GWh/a, en samkvæmt Rammaáætlun hefur sú virkjun minnst umhverfisáhrif á hverja orkueiningu í för með sér. Hún er næsthagkvæmust virkjana í röð Rammaáætlunar. Með því að lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í írskt gildi, 12 %, munu orkukaupendur standa í biðröð eftir að gera langtímasamninga (20-30 ár) um kaup á "grænni" orku. Arðsemi slíkra samninga getur í núverandi efnahagsumhverfi orðið svo há, að virkjunarfyrirtæki og Landsnet geti greitt upp allan kostnað á innan við 20 árum, en mannvirkin endast í 40-100 ár og eru afturkræf.
Ofangreindar virkjunarframkvæmdir ásamt því að reisa iðnaðarfyrirtæki, sem nýta munu þessa orku til framleiðslu á útflutningsvörum, munu útrýma atvinnuleysinu, laða brottflutta "heim ins Reich" og skjóta traustum stoðum gjaldeyrisöflunar undir greiðslu erlendra skulda hins opinbera.
Það er hins vegar á fleiri sviðum, sem þarf að taka til hendinni. Peningamálastjórn ríkisins er eitt af mikilvægustu sviðunum. Það verður að afnema gjaldeyrishöftin hið bráðasta. Í því sambandi er málflutningur seðlabankastjóra ekki hjálplegur. Hvort hann er rugludallur skal ósagt láta, en hann ruglar a.m.k. fólk í ríminu. Að halda því fram, að samþykki Icesave-samningsins, sem að öllum líkindum verður okkur dýrari kostur en að hafna honum, sé skilyrði fyrir afnámi haftanna í náinni framtíð, er þvættingur. Eftir að náðst hafa samningar við erlenda iðnjöfra um verulegar fjárfestingar á Íslandi, mun verða unnt að afnema höftin án þess að krónan lækki verulega eða varanlega.
Efnahags-og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, er enn við sama heygarðshornið í evrumálum. Gildir þá einu, þó að framtíð hennar hafi aldrei verið óvissari en nú og tekið sé til við að spá nýju bankahruni í Evrópu, bæði á Bretlandi og á evrusvæðinu. Að þessu sinni munu ríkissjóðir Evrópu ekki hafa ráð á að dæla skattfé í bankana. Hvort vilja menn þá heldur bankahrun eða þjóðagjaldþrot ? Er hroðaleg spennitreyja evrunnar á Írum okkur ekki nægt víti til varnaðar ? Lítum til Svíþjóðar. Það er óvíða jafnmikill hagvöxtur og þar og verðbólga er þar minni en víða á evrusvæðinu. Þennan frábæra árangur þakka Svíar sinni krónu, og þetta getum við líka með því að stokka upp hagstjórnina og nota Stjórnarskrána til að skapa stjórnmálamönnum aðhald við meðferð opinberra fjármuna og löggjöfina til að skapa Seðlabankanum viturlegar og faglegar reglur til að vinna eftir.
Stjórnarskráin er ekki vandamálið, en hana má virkja til að skapa hér nútímalega og góða stjórnarhætti og til að stuðla að stöðugleika hagkerfisins og stjórnmálanna. Aðferðarfræði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við þetta er þó jafnvonlaus og hún er forkastanleg. Aðferð ríkisstjórnarinnar nefnist hrakval. Hún ætlar að velja til verksins fólk, sem eðli málsins samkvæmt vanvirðir núverandi Stjórnarskrá, og er þess vegna vanhæft til að smíða nýja. Hæstiréttur dæmdi sem sagt, að fólkið, sem á stjórnlagaþingið var kosið, sé engu rétthærra en annað kjörgengt fólk á Íslandi til að gegna þessu hlutverki. Niðurlæging Alþingis verður kvíðvænleg, samþykki það tillögu dómgreindarleysis um að fara á svig við dóm Hæstaréttar með "kennitöluflakki". Þegar reiðin út í stjórnvöld Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs brýst út á Íslandi, verður þessum flokkum sópað út í yztu myrkur, þó að með friðsamlegum hætti verði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)