30.3.2025 | 18:13
Er ríkisstjórn K. Frost. frá sólhvörfum 2024 útibú frá Berlaymont ?
Nú er tekið að sverfa til stáls á íslenzka stjórnmálasviðinu. Ríkisstjórnin hyggst draga burst úr nös íslenzka sjávarútvegsins með tvöföldun aðstöðugjalds fyrir veiðar í íslenzkri lögsögu. Þetta er mjög óeðlileg skattheimta fyrir ýmissa hluta sakir. Hún mun auka skatttekjur ríkissjóðs á kostnað fjárfestingargetu sjávarútvegsins og á kostnað sveitarfélaga sjávarbyggðanna og á kostnað hagsmunaaðila í heimabyggð. Sjávarútvegurinn veikist verulega og kann að enda sem þurfalingur á samfélaginu vegna veikrar samkeppnisstöðu líkt og tíðkast í Evrópusambandinu - ESB.
Ríkisstjórn K. Frost. hyggst láta algerlega undan kröfum ESA um samræmt lagaumhverfi við ESB í þeim skilningi, að ESB-löggjöf hafi fortakslausan forgang á alla íslenzka lagasetningu, sem ekki kemur frá Berlaymont. Þetta er þvert gegn niðurstöðu ríkisstjórnar og þings 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur af Alþingi, og þvert á viðvaranir lögspekinga um, að gjörningur af þessu tagi stríði gegn Stjórnarskrá Íslands. Er ekki skynsamlegra að reyna að finna milliveg, sem stenzt Stjórnarskrá og fullnægir ESB-kröfum um einsleitni.
Í grein Stefáns Más Stefánssonar, prófesssors emeritus, við lagadeild Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 17. febrúar 2025, er vakið máls á þessum atriðum. Greinin nefndist:
"Bókun 35 við EES-samninginn".
Hún hófst þannig:
"Utanríkisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp, sem bætir sérstakri forgangsreglu við lög nr 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem yrði ný 4. gr. laganna. Ákvæðið hljóðar svo:
"Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði, sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samninginum, er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði, skal hið fyrr nefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar, sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum."
Vakin er athygli á, að yrði slík regla að lögum, fælist í því talsverð breyting, þar sem EES-reglur, sem innleiddar væru í íslenzkan landsrétt, fengju svo nefnd forgangsáhrif gagnvart öðrum íslenzkum lögum, en af því gæti leitt réttaróvissu, eins og síðar verður drepið á."
Það er augljós og óviðunandi galli við lagasetningu, að hún leiði til réttaróvissu. Þar af leiðandi þarf að breyta frumvarpinu. Það er verkefni Alþingis og lögspekinga Stjórnarráðsins að koma fram með frumvarp, sem lágmarkar réttaróvissu og hámarkar líkur á, að EFTA-dómstóllinn telji það ásættanlegt.
Það eru hins vegar fleiri agnúar á þessu frumvarpi, og sá neðangreindi er af stærra taginu:
"Ef veita á lögum, sem stafa frá erlendu réttarkerfi, forgang í umtalsverðum mæli, kynni slíkt að fela í sér framsal löggjafarvalds, sem væri andstætt fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar."
Hér virðist "í umtalsverum mæli" opna leið til samkomulags, ef breytingin væri skilyrt verulega.
"Löggjafinn getur aðeins brugðizt við þessu, þ.e. að ákveða, hvort forgangsreglan eigi að gilda, með síðari aðgerðum, en á meðan ríkir réttaróvissa. Þetta rímar ekki vel við kröfur réttarríkisins um skýra og skiljanlega löggjöf. Því er varhugavert, að löggjafinn setji almenna og opna forgangsreglu, sem veitir öllum innleiddum EES-reglum forgang fram yfir önnur landslög, án þess að löggjafinn hafi glögga yfirsýn yfir, hvaða áhrif forgangsreglan muni hafa á þá löggjöf, sem er nú þegar í gildi."
Undirstrikunin er pistilhöfunfdar. Hún myndar kjarnann í varnaðarorðum Stefáns Más og e.t.v. gæti breytt frumvarp um þessa forgangsreglu miðað við, að draga úr fortaksleysi þessara heimilda, svo að verjanleg verði gagnvart íslenzku stjórnarskránni. Það er lögspekinga á borð við Stefán Má að gera tillögu um slíkt að beiðni Alþingis eða stjórnvalda.
"Í fyrri hluta bókunar 35 kemur skýrlega fram, að löggjafarvaldið er ekki framselt til stofnana EES og að markmiðinu um einsleitni verði að ná með þeirri málsmeðferð, sem gildir í hverju ríki um sig. Þetta fyrirkomulag er í grundvallaratriðum ólíkt því, sem Evrópusambandið byggist á. Þar gildir meginreglan um forgangsáhrif ESB-réttar innan aðildarríkja sambandsins, sem einnig hafa með skýrum hætti framselt hluta löggjafarvalds síns til stofnana þess. Aldrei kom til álita að veita EES-reglum forgang við gerð samningsins með líkum hætti og innan ESB, og er fyrri hluti bókunar 35 staðfesting þess. Framsal ríkisvalds, hér löggjafarvaldsins, til stofnana EES hafði því ákveðin takmörk."
Það er ekki eðlilegt, að ESA - eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, þrýsti nú á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá þessu grundvallaratriði við gerð EES-samningsins. Í stað þess að gefast upp og verða að öllu leyti við þessari óeðlilegu kröfu ESA, ber utanríkisráðuneytinu að leita lögfræðilegra lausna, sem takmarka forgangsáhrifin nægilega til að verða samrýmanleg stjórnarskránni. Á það verður síðan að reyna fyrir EFTA-dómstólinum, hvort samrýmanlegt er EES-samninginum. Fyrir dómstólinum á ekki að spyrja, hvort íslenzka lagasetningin sé samrýmanleg ESB-löggjöfinni, því að EES er ekki sama og ESB.
Í þessum anda er lokahluti greinar Stefáns Más. Greinin er merk og þakkarverð, og íslenzkum stjórnvöldum ber að leggja hana til grundvallar vinnu sinnar með þetta mál til að komast megi hjá réttaróvissu, sem annars stefnir í:
"Af þessum sökum má varpa fram þeirri spurningu, hvort frumvarpið gangi lengra en nauðsynlegt er til að ná fram þeirri einsleitni, sem krafizt er samkvæmt bókun 35. Einnig má spyrja, hvort unnt sé að uppfylla skuldbindingu bókunar 35 um forgang EES-reglna með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir, t.d. með annars konar og vægari lausn en almennri forgangsreglu, sem nær þvert yfir öll almenn lög Alþingis.
Í grein þessari er ekki vikið að enn annarri spurningu, sem kann að verða áleitin, þ.e. hvort það fái staðizt, að Alþingi geti, að óbreyttri stjórnarskrá, sett almenn lög, sem geyma ákvæði um, að þau gangi framar öllum öðrum lögum, sem ekki eru nánar tilgreind, jafnt eldri lögum sem yngri."
Frumvarp utanríkisráðherra býður augljóslega hættunni heim um árekstra við stjórnarskrá. Það virðist vera augljós kostur í stöðunni að koma fram með nýtt frumvarp, sem býður upp á "vægari lausn en almenna forgangsreglu", og sætti ESA sig ekki við hana, verði EFTA-dómstóllinn fenginn til að úrskurða um málið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2025 | 18:00
Metnaðarlaust viðhorf til samræmds námsmats
Þann 23.03.2025 var Ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem hinn hvatvísi 1. þingmaður Suðurlands, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, úr Flokki fólksins, lét af embætti. Hún hafði orðið ber að dómgreindarbresti bæði fyrr og síðar. Viðhorf hennar til menntamála eru með þeim hætti, að segja má, að farið hafi fé betra. Hún hefði ekki unnið þeim málaflokkum, sem hún var sett yfir, nokkurt gagn.
Í Morgunblaðsgrein 1. marz 2025 vitnaði fyrrverandi háskólakennari og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum, Meyvant Þórólfsson, til þessa lánlausa og e.t.v. hæfileikalausa þingmanns Sunnlendinga í grein sinni:
"Samræmt námsmat við lok skyldunáms".
Greinin hófst þannig:
"Í viðtali við mbl.is 12. febrúar síðastliðinn [2025] sagðist nýskipaður ráðherra menntamála ætla að fylgja fordæmi forvera síns [framsóknarmannsins Ásmundar Einars, sem féll af þingi í síðustu Alþingiskosningum] og mæla gegn fyrirlögn samræmdra prófa, enda teldu "allir sérfræðingar" slík próf óheppileg, þau hefðu lítinn tilgang og væru flókin og dýr."
Þessi alhæfing og fimbulfamb án rökstuðnings er dæmigert fyrir þennan þingmann, sem aldrei átti neitt erindi á Alþingi. Þessi málflutningur kennarans er óvandaður og sæmir ekki ráðherra. Mun betra taka við hjá Flokki fólksins ? Meyvant færir gild rök gegn staðleysum fyrrverandi ráðherra:
"Daginn eftir viðtalið var nýtt frumvarp kynnt á vef Stjórnarráðsins um svonefndan Matsferil, sem á að koma í stað "gömlu samræmdu prófanna, sem voru hætt að þjóna sínum tilgangi", eins og það var orðað þar.
Allt voru þetta kostulegar fullyrðingar ráðherra og meintra sérfræðinga hennar um eina árangursríkustu leið, sem völ er á til að meta námsstöðu og námsárangur á heiðarlegan hátt. Gildi hennar hefur verið staðfest með fjölda rannsókna. Athyglisverðar niðurstöður Ludger Wössmann, háskólaprófessors í München, byggðar á gögnum úr PISA og TIMSS, leiddu í ljós jákvæða fylgni á milli miðlægrar stýringar (samræmds námsmats samfara hóflegri sjálfstjórn skóla) annars vegar og markverðs námsárangurs hins vegar. Kerfi, eins og það íslenzka, án miðlægrar stýringar og samræmds námsmats, bjuggu á hinn bóginn við slakan námsárangur samkvæmt þessum stóru samanburðarrannsóknum."
Þarf frekari vitnana við ? Ásmundur Einar og Ásthildur Lóa eru algerlega úti að aka í þessum efnum, éta upp innantómar fullyrðingar hlaðnar skammsýnu pólitísku gildismati, sem ekki styðst við vandaðar rannsóknir. Þegar metnaðarleysi af þessu tagi ríður húsum í menntamálaráðuneytinu, er ekki kyn, þótt keraldið leki, og botninn sé suður í Borgarfirði í íslenzla grunnskólanum, eins og PISA-prófin gefa til kynna.
Skilningsleysið í menntamálaráðuneytinu og víða í skólakerfinu opinberast í tali um, að "Matsferill" (hugbúnaðarkerfi fyrir kennara) geti komið í stað lokaprófs. Hér er um ósambærilega þætti að ræða, sem einhverjum pólitískum blekkingameisturum hefur tekizt að leggja að jöfnu. Ef "Matsferill" kemst á koppinn, getur hann reynzt kennurum og nemendum gagnlegur, en hann getur aldrei orðið jafngildi lokaprófs nemenda.
"Árið 1990 skiluðu 2 starfshópar Menntamálaráðuneytisins áliti, annar um framkvæmd og tilgang "samræmdra könnunarprófa". Könnunarprófin voru hugsuð sem stuðningur við skólastarf eða leiðsagnarmat. Hlutverk lokaprófa var að veita áreiðanlegar upplýsingar um námsárangur við lok grunnskóla, vera viðmið við inntöku í framhaldsnám og gefa vísbendingar um, hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár hefði verið náð. Lokapróf hafa ekki verið haldin hér á landi síðan 2007 og könnunarpróf ekki síðan 2021.
Nú hefur Seðlabanki Íslands gert athugasemdir við, að haldfastar mælingar skorti, sem gefið geti til kynna nýtingu opinbers fjármagns í skólakerfinu, aðallega grunnskólakerfinu. Þetta er rétt og réttmæt ábending. Fjármagn til grunnskólakerfisins hefur á síðast liðnum 15 árum aukizt langt umfram nemendafjölgun, en eini mælikvarðinn á þróun námsárangurs eru PISA-prófin, og þau benda til, að námsárangur fari greinilega versnandi. Það er makalaust, hvernig menntayfirvöldum og skólafólki dettur í hug að reka skólakerfi í blindni, hafandi engar árlegar samræmdar mælingar á árangri nemenda. Að skilja ekki mikilvægi samræmdra lokaprófa í grunnskóla er grafalvarlegt og aumlegt að mikla fyrir sér framkvæmdina árið 2025, þótt próf eins og Landsprófið hafi gengið snurðulaust áratugum saman á 20. öldinni.
"Í staðinn á að koma Matsferill, sem mun innihalda "fjölda tækja og tóla fyrir kennara til að nota reglulega í skólastarfi", svo [að] aftur sé vitnað í tilkynninguna á vef Stjórnarráðsins. M.v. lýsingar mun Matsferill virka eins og svissneskur vasahnífur, gæddur óteljandi notkunarmöguleikum og ævinlega með rétta tólið, þegar á þarf að halda. Munurinn er þó sá, að svissneski hnífurinn leit dagsins ljós fyrir löngu, en Matsferill er enn hugsýn í mótun; ef maður líkir honum við fjölnota vasahnífinn, mætti segja, að tappatogarinn væri kannski rétt farinn að skjóta upp kollinum.
M.v. lýsingar á Matsferill að leysa samræmd könnunarpróf af hólmi, þ.e. ef hann þá lítur einhvern tíma dagsins ljós. En hann mun ekki koma í stað samræmdra lokaprófa sem heiðarlegt, áreiðanlegt og réttmætt mat við lok skyldunáms, sem hver og einn nemandi á heimtingu á að gangast undir til að fá vottun um námsstöðu áður en hann sækir um framhaldsskólanám.
Orð [fyrrverandi] ráðherra og sérfræðinga hennar um slík próf eru eru varhugaverð að mati undirritaðs, þ.e. að þau séu gagnslaus fyrirbrigði úr fortíðinni, hætt að þjóna tilgangi sínum."
Höfundur þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um þessi atriði. Skólayfirvöld og kennaraforystan skáka í því skjólinu, að Matsferill muni koma í stað samræmdra lokaprófa. Það er reginmisskilningur, sem sýnir, að pólitík ræður för í stað málefnalegrar hlutlægni og rökhyggju.
Úr öllum áttum berast nú vísbendingar um, að árangur íslenzka menntakerfisins sé í engu samræmi við opinberar fjárveitingar til þess. Nú síðast (26.03.2025) benti frumkvöðull PISA-prófanna á þá augljósu staðreynd, að ómögulegt er að vinna markvisst að endurbótum, ef engin árangursmæling er fyrir hendi. Hann benti á margvíslega nytsemi samræmdra árangursmælinga, t.d. fyrir skóla og foreldra. Jafnframt, að námsárangur er að jafnaði betri þar, sem samræmd lokapróf eru viðhöfð.
Núverandi mennta- og barnamálaráðherra segist munu einbeita sér að því verkefni að gera grunnskólanemendur læsa áður en kemur að útskrift. Hvernig ætlar hann að vinda ofan af núverandi óframdarástandi ? Ef hann hefur enga róttæka framkvæmdaátlun, mun honum ekkert ágengt verða. Undanfarin ár hefur forystuleysi ráðuneytisins staðið menntun á Íslandi fyrir þrifum. Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur frá um 2010 er ónýtt og skaðlegt plagg. Mun nýi ráðherrann gera gangskör að því að gefa út mjög endurbætta aðalnámskrá ? Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með málefni fjöreggs þjóðarinnar. Þetta fjöregg, æskan, á á brattann að sækja um þessar mundir og rótleysi hrjáir hana með þeim afleiðingum, að margir óttast nú um afdrif móðurmálsins. Mun nýr ráðherra leggja þung lóð á vogarskálar með æskunni eða á móti henni ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2025 | 10:46
Yfirgangur Bandaríkjanna keyrir um þverbak
Þann 28.02.2025 varð heimsbyggðin vitni að óheyrilegum lygum og dónaskap forseta og varaforseta Bandaríkjanna í garð gests síns í forsetaskrifstofu ("Oval Office") í Hvíta húsinu. Gesturinn að þessu sinni var Volodimir Zelensky, rétt kjörinn forseti Úkraínu og með nýlega einróma stuðningsyfirlýsingu úkraínska þingsins í farteskinu. Framkoma bandarísku ráðamannanna var ruddaskapur og dónaskapur af verstu gerð, sem sýnir, að nú hafa Bandaríkin tekið sér stöðu með Rússlandi og fleiri einræðisríkjum um þá nýju skipan heimsmálanna, að í stað laga og réttar, sem Bandaríkin hafa stutt af kostgæfni hingað til, skuli ráða réttur hins sterka. Þetta þýðir í raun klofning NATO, og að Evrópa stendur nú ein og verður að sjá um varnir sínar sjálf og taka að sér að standa ein með Úkraínu gegn innrás Rússa í landið, sem er þáttur í heimsvaldastefnu Kremlar.
Það er orðin spurning, hvort varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 er Íslandi byrði eða ávinningur, því að forseti Bandaríkjanna virðist meta allt til fjár án þess að ráða við það. Þetta eru firn mikil, og það hlýtur að ríkja hneykslan, fordæming og reiði í mörgum ranni fyrir vestan núna, einnig á Bandaríkjaþingi. Það, sem gerzt hefur, að forseti Bandaríkjanna gerist málpípa og bandamaður stríðsglæpamannsins á æðsta valdastóli Kremlar, er svo alvarlegt, að það hlýtur að vekja marga þingmenn á Bandaríkjaþingi upp við vondan draum, svo að unnt verði að virkja reglur um brottvísun úr starfi forseta Bandaríkjanna. Hér er alls ekki allt með felldu, svo að lögsókn gegn forsetanum verður ekki útilokuð.
Þann 25.02.2025 birtist fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi sendiherra, undir lýsandi fyrirsögn:
"Nýlenduveldið Rússland"
Hún hófst þannig:
"Stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu er landvinningastríð. Rússar hafa stundað hliðstæðan stríðsrekstur í mörg hundruð ár. Þetta gleymist gjarnan í umræðu um stríðið í Úkraínu, þar sem athyglinni er beint að samskiptum Rússlands við vestræn ríki og sér í lagi við Bandaríkin vegna aðildarumsóknar Úkraínu að NATO. Það, sem gleymist, er ekki sízt að huga að því, hvers konar land Rússland er."
Rússland er og hefur verið frá 17. öld heimsvaldasinnað ríki í nánast stöðugri útþenslu. Ef þessi útþensla verður ekki varanlega stöðvuð núna í Úkraínu, mun hún halda áfram að Eystrasalti og til vesturs. Árásargjarnt ríki á ekki að fá að ráða örlögum nágrannaríkja sinna. Þannig á ekki að hlusta á gjammið í Kreml, þegar NATO-aðild og ESB-aðild Úkraínu er til umræðu. Donald Trump hefur valdið straumhvörfum í alþjóðamálum. Hann hefur tekið sér stöðu með Rússlandi Pútíns og þvertekið fyrir aðild Úkraínu að NATO. Bandaríkin glata þessa dagana trúverðugleika sínum og trausti vestrænna bandamanna sinna með því að taka afstöðu með Rússlandi við atkvæðagreiðslur innan Sameinuðu þjóðanna. Evrópa virðist standa ein uppi í baráttunni gegn árásargjörnu og glæpsamlegu Rússlandi. Með framferði stjórnvalda í Bandaríkjunum munu þau standa uppi vinalaus og verða innlendri upplausn að bráð, en Evrópa mun axla sína ábyrgð og taka forystu á meðal lýðræðisþjóða í baráttunni gegn landvinningum einræðisríkisins Rússlands.
Hvernig mun núverandi Bandaríkjastjórn taka á Kína ? Gort Bandaríkjaforseta um eigið ágæti og samningatækni er innantómt bull og ekkert skárra en aðrar lygar hans.
"Mikið hefur verið rætt og ritað um ástæður þess, að Rússar beiti hervaldi gagnvart Úkraínu greinilega með það að markmiði að leggja landið undir sig. Þegar horft er til sögunnar, má sjá, að ríki fara ekki í stríð, nema þau telji fullreynt að ná pólitískum markmiðum með öðrum hætti en vopnavaldi. Rússar reyndu í mörg ár, en tókst ekki að ná tökum á Úkraínu með efnahagslegum og pólitískum þrýstingi.
Það, sem hvað oftast hefur verið nefnt sem ástæða fyrir innrás Rússlands í Úkraínu, er aðildarumsókn landsins að ESB og NATO. Efalítið eru það þættir, sem haft hafa áhrif á ákvarðanatöku Vladimirs Pútins. En þegar litið er til sögu samskipta Rússlands og Úkraínu, verður ekki hjá því komizt að álykta, að skýringanna er ekki sízt að leita í nýlendustefnu, sem nær mörg hundruð ár aftur í tímann. Stríðið í Úkraínu sýnir, að nýlenduveldið Rússland er enn til staðar og nálgast nærliggjandi lönd og svæði á sömu nótum og það hefur alltaf gert."
Það er þyngra en tárum taki, að fyrrverandi forysturíki hins vestræna heims skuli nú hafa svikið lit og tekið sér stöðu með þessu árásargjarna og frumstæða ríki, Rússlandi, sem leynt og ljóst reynir að grafa undan lýðræðinu í heiminum. Hvað í ósköpunum kom fyrir ? Hvers vegna gengur forseti Bandaríkjanna nú erinda Kremlverja ? Eru það hagsmunir Bandaríkjanna ? Það verður ekki séð. Eru það hagsmunir Donalds Trumps ? Það á eftir að koma í ljós, og þar eru ekki öll kurl komin til grafar.
Nýjasta illvirki Bandaríkjastjórnar gagnvart Úkraínu er að hætta að deila upplýsingum til Úkraínumanna um eldflaugar og herflugvélar, sem hefja sig á loft frá yfirráðasvæði Rússlands ásamt upplýsingum um herflutninga Rússa á landi. Þetta hefur valdið því, að Úkraínuher á erfiðara með að verjast árásum Rússa, einnig á borgaraleg skötmörk. Þá hafa Bandaríkjamenn dregið úr notagildi F16 herflugvéla flughers Úkraínu með því að gera óvirkan truflanabúnað þeirra fyrir rafeindamerki. Það mun taka Evrópu a.m.k. 2 mánuði að fylla þetta skarð, en mrdUSD 800 viðbótar fjárveiting ESB á 4 árum er skýrt merki frá ESB um, að þar á bæ er ætlunin að verða óháður Bandaríkjunum í öryggismálum, enda er augljóslega ekki hægt að treysta Bandaríkjunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2025 | 13:58
Á að hafa fé af ríkissjóði með kattarþvotti
Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, er á hálum ísi með því að nota 2 hæpin lögfræðiálit til að mismuna þegnum landsins stórlega varðandi endurgreiðslu á ofgreiddu fé úr ríkissjóði. Téðu hæpnu lögfræðiálitin fría Flokk fólksins þeirri skyldu að endurgreiða ríkissjóði fé, sem engin lagaheimild var til að greiða flokknum. Þetta er hæpið, því að það gengur í berhögg við lagaákvæði og Hæstaréttardóm. Engu breytir um stöðu Flokks fólksins gagnvart lögunum, að starfsmönnum ríkisins urðu þarna á mistök. Það bætir ekki úr sök Flokks fólksins, að honum mátti vera ljóst, að hann skorti lagaheimild til að taka við téðu fé úr ríkissjóði, enda samþykktu þingmenn hans lagasetninguna.
Þann 12. febrúar 2025 birtist skýr grein í Morgunblaðinu frá Einari Geir Þorsteinssyni, lögfræðingi, sem varpar ljósi á lagalega hlið hins s.k. "Styrkjamáls" undir fyrirsögninni:
"Ólögmæt greiðsla til Flokks fólksins - ríkissjóður á endurkröfurétt".
Hún hófst þannig:
"Flokkur fólksins hefur fengið samtals MISK 240 úr ríkissjóði á árunum 2022-2024, þrátt fyrir að hafa ekki verið skráður í stjórnmálasamtakaskrá, eins og lög kveða á um. Þrátt fyrir að greiðslurnar hafi verið ólögmætar frá upphafi, virðist ekki standa til að krefja flokkinn um endurgreiðslu.
Ef einstaklingur fær ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun eða opinber starfsmaður fær ofgreidd laun, er ætlazt til þess, að fjármunirnir verði endurgreiddir. Þegar stjórnmálaflokkur fær hins vegar ofgreitt fé úr ríkissjóði, virðist fjármálaráðherra líta svo á, að aðrar reglur eigi við. Ríkissjóður virðist tilbúinn að afsala sér lögmætri kröfu um endurgreiðslu um MISK 240 af opinberu fé - án þess að láta reyna á endurkröfurétt sinn."
Með þessu slær Viðreisnarmaðurinn og fjármálaráðherra afar varhugaverðan tón í íslenzkum stjórnmálum, sem gengur þvert á grundvallarregluna um jafnræði þegnanna gagnvart lögunum. Það er í raun algerlega ótækt, þótt hann með því sé að bjarga skinni sólhvarfastjórnarinnar, sem er á hverfanda hveli út af þessu spillingarmáli. Þar að auki hefur nú komið fram, að ríkið leiðbeindi Flokki fólksins um frágang gagna til að sýna fram á hæfi til að taka við ríkisstyrk til stjórnmálaflokks. Þetta gerði Skatturinn í janúar-febrúar 2024. Ekki ætti að skipta máli, hvaðan gott kemur. Haustið 2024 þvertók Inga Sæland fyrir, að flokkurinn hefði fengið slíkar leiðbeiningar. Hvernig er eiginlega háttað umgengni þessa ráðherra við sannleikann ?
Trúverðugleiki þessa ráðherra er enginn orðinn, og nú verður að fara fram ítarleg rannsókn á því, hvernig ólögmætu fé úr ríkissjóði, var ráðstafað. Var þar farið að lögum, sem gilda um stjórnmálaflokka og styrkveitingar til þeirra, eða kemur hér til kasta refsilöggjafarinnar ?
"Álitsgerð ríkislögmanns byggist á því, að bæði ríkið og Flokkur fólksins hafi verið í góðri trú. Slík rök standast ekki. Grandleysi ræðst ekki af því, hvort ríkið hafi gert mistök í verklagi, heldur af því, hvort Flokkur fólksins hafi mátt vita, að greiðslan væri ólögmæt. Þar sem lagaskylda var skýr og skráningarskyldan ótvíræð, verður ekki annað séð en flokkurinn hafi borið fulla ábyrgð á því að hafa tekið á móti greiðslunum, sem voru ólögmætar frá upphafi."
Þingflokkur Flokks fólksins samþykkti lögin, sem hér um ræðir. Það er ótrúlega ósvífið að halda því fram, að flokkinum hafi verið ókunnugt um efni þeirra og afleiðingar fyrir stjórnmálaflokkana. Að boðið sé upp á svona hundakúnstir af einum ríkisstjórnarflokkanna, er trúlega einsdæmi í fullveldissögu landsins. Ríkisstjórnin er sködduð með lík í lestinni.
"Í íslenzkum rétti gildir meginreglan, að þeim, sem fær ranglega greidda peninga, ber að endurgreiða þá. Þetta er m.a. staðfest í dómi Hæstaréttar frá 13. september 2007 í máli nr 32/2007, en þar segir orðrétt í niðurstöðu Hæstaréttar.
"Í íslenzkum rétti gildir meginregla um, að þeir, sem fá fyrir mistök greidda peninga, sem þeir eiga ekki rétt til, skuli endurgreiða þá."
Það fer vart á milli mála, hvernig málshöfðun gegn Ingu Sæland mundi lykta í réttarkerfinu.
"Fjármálaráðherra, Daði Már Kristófersson, hefur sagt, að málið sé "ekki á hans borði", nema að því leyti, sem varðar vinnubrögð ráðuneytisins. Sú afstaða stenzt ekki skoðun, enda á ríkissjóður lögmæta endurgreiðslukröfu á hendur Flokki fólksins."
Ómálefnalegt er, hvernig fjármálaráðherra gerir vinnubrögð fjármálaráðuneytisins, sem kannski má nefna mistök, að aðalatriði málsins. Það er "smjörklípuaðferð" til þess gerð að reyna að bjarga skinni ríkisstjórnarinnar. Engin ríkisstjórn getur afborið spillingarmál af þessu tagi af hálfu eins ríkisstjórnarflokksins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)