Orkustefna ?

Einn af fjölmörgum göllum við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er vingulsháttur hennar í orkumálum.  Sá vingulsháttur er afar aðfinnsluverður, því að hann getur haft skaðleg áhrif á viðskiptahagsmuni landsmanna til langs tíma.  Hið eina, sem hægt er að henda reiður á í orkumálum landsins nú, er þversum lega ríkisstjórnarinnar gagnvart hugmyndum um nýja atvinnusköpun með virkjun orkulindanna.  Þessa stefnumörkun hefur hún samt ekki þorað að tjá beint, en gerir það óbeint með því að þvælast fyrir alls staðar, þar sem hún fær því við komið.  

Nú hefur hið furðulega gerzt í þessu sambandi, að forstjóri Landsvirkjunar, en þar heldur Steingrímur J. Sigfússon á eina hlutabréfinu, hefur boðað nokkuð, sem kalla má framtíðarsýn Landsvirkjunar. Kveður þar við allt annan tón. Stjórn Landsvirkjunar mun standa þar að baki, og má það heita furðulegur tvískinnungur m.v. stefnu ríkisstjórnarinnar, sem í raun má lýsa með endalausum töfum á ákvarðanatöku um ný verkefni.  Hafa verður í huga í þessu sambandi, að langt getur verið á milli orða og athafna.  Nokkrir hafa látið ginnast af skýjaborgum Landsvirkjunar, en gleymzt hefur að gæta varkárni gagnvart hugsanlegum viðsemjendum um orkukaup við þessa einhliða framsetningu. 

Draumórar Landsvirkjunar hafa verið kynntir almenningi og fjalla um að virkja 11 TWh á næstu 14 árum.  Þetta jafngildir aukningu orkugetu landskerfisins um 800 GWh/a eða einni Kárahnjúkavirkjun á sex ára fresti.

Það er ábyrgðarleysi af Landsvirkjun að setja fram hugmynd af þessu tagi, sem engan veginn rúmast innan íslenzka hagkerfisins, svo að vel sé.  Þetta er u.þ.b. tvöfaldur sá fjárfestingarhraði í orkugeiranum, sem íslenzka hagkerfið þolir til lengdar, og það væri heimskulegt að haga fjárfestingum í virkjunum með öðrum hætti en þeim, sem sjálfbær getur talizt og sem raunverulega gagnast hagkerfinu. Miðað er hér við, að jafnvægi sé í hagkerfinu, ef fjárfestingar nema 25 % af vergri landsframleiðsli, VLF, og fjárfestingar í virkjunum og stóriðju u.þ.b. helmingi af öllum fjárfestingum.  


Ef þetta væru einu fjárfestingarnar utan hinna hefðbundnu hjá einstaklingum og atvinnuvegunum, mundi þessi taktur ganga upp, en það má ekki gleyma fjárfestingum í mannvirkjum til að flytja orkuna og til að nýta hana.  Þessar fjárfestingar nema öðru eins og í virkjunum.  Þess vegna yrði þessi framkvæmdahraði þjóðhagslega óhagkvæmur, er líklegur til að sprengja hagkerfið og verður reyndar að kalla þessa framsetningu Landsvirkjunar bera vitni um óvarkárni. 

Einhverjir kynnu að ætla, að hér væri Landsvirkjun að gæla við útflutning á raforku um sæstreng.  Við slíka fjárfestingu verða lítil verðmæti eftir í íslenzka hagkerfinu.  Það stenzt þó engan veginn, því að á næstu 15 árum mun engum fjárfesti detta í hug að leggja fé í sæstreng til Stóra-Betlands eða meginlands Evrópu.  Verkefnið mun einfaldlega verða metið allt of áhættusamt, bæði tæknilega og fjárhagslega.

Ef tekið er mið af reynslu Norðmanna af áhrifum sæstrengja á hagkerfið, má fullyrða, að sæstrengur frá Íslandi muni alla tíð verða þjóðhagslega óhagkvæmur, nema e.t.v. til frænda okkar Færeyinga, því að áhrifin á raforkuverðið innanlands munu verða mjög til hækkunar þess, sem hafa mun slæm áhrif á lífskjörin og á samkeppnihæfni íslenzkra atvinnuvega.  Ástæðan er t.d. sú, að virkjanaeigendur hafa ríka tilhneigingu til að selja orku úr landi, þegar hátt verð er erlendis, og lækka þá vatnsstöðu miðlunarlóna oft svo mjög, að flytja verður rándýra orku til landsins.  Þessi hefur orðið reynsla Norðmanna þrátt fyrir umsvifamikil opinber afskipti af rekstrinum þar í landi.    

 

Þá er komið að umfjöllun um hinn þáttinn í þessum farsa Landsvirkjunar.  Hann fjallar um væntingar Landsvirkjunar til verðlagningar á raforku á Íslandi og furðulega samlíkingu á arðsemi Landsvirkjunar við olíusjóð Norðmanna.  Þeir, sem sjá ofsjónum yfir olíusjóði Norðmanna, ættu að bregða sér til Noregs og kynnast verðlaginu þar.  Það er hærra en á Íslandi.  Jafnvel eldsneytisverðið er þar hærra.  Nú er til umræðu að skera niður framlög ríkisins til Landsspítalans norska, Rikshospitalet, um ISK 10 mia.  Félagshyggjan er að ganga af norsku athafnalífi dauðu.  Hrun blasir við Norðmönnum, þegar olíuna þrýtur. 

Af forstjóra Landsvirkjunar virðist mega skilja, að hann ímyndi sér, að Landsvirkjun geti samið um verð við erlenda fjárfesta, sem nemi 50 % - 100 % ofan á kostnaðarverð Landsvirkjunar.  Þetta okur eigi síðan að mynda íslenzkan sjóð, er jafna megi við norska olíusjóðinn.  Þetta lýsir viðhorfi, sem jaðrar við viðvaningshátt í viðskiptum og sem gæti gengið af íslenzku athafnalífi dauðu.  Slíkan fjárfesti er einfaldlega ekki að finna, sem léti Landsvirkjun flá sig með þeim hætti.  Hann mundi umsvifalaust leita hófanna annars staðar og hann yrði var við slíka ætlan hérlendis.  Slíkir staðir erlendis eru fjölmargir.  Næga vatnsorku er að finna í Kanada, Suður-Ameríku, Afríku, Rússlandi og í Asíu.  Raforka framleidd með jarðgasi er og samkeppnihæf við Landsvirkjun, einkum þar sem jarðgasið er aukaafurð olíuvinnslunnar.  Það eitt að setja slíka vitleysu fram opinberlega hefur í sér fólgna vissa hættu á því, að fjárfestar fælist og að nú muni sjá undir iljar þeim.  Þess vegna er nauðsynlegt fyrir sjálfstæðismenn og aðra, sem stuðla vilja að heilbrigðri, virkilegri viðreisn, að andæfa þessari sviðsetningu.  

Þessar hugmyndir Landsvirkjunar eru í senn óraunhæfar og óeðlilegar.  Alls staðar þykir 10 % arðsemi af áhættulausri fjárfestingu vel viðunandi.  Hún er nánast áhættulaus, þegar samið er um mjög háa kaupskyldu orkunnar til langs tíma, t.d. 30 ára, hvort sem orkan er notuð eður ei, eins og tíðkað hefur verið í viðskiptum við stóriðju.  

Þá verður Landsvirkjun að hafa í huga, að stofnkerfi raforkuflutnings á Íslandi er veikt miðað við það, sem víðast þekkist.  Það þýðir, að bilanir í kerfinu hafa í för með sér miklar spennusveiflur, sem geta valdið útleysingum hjá stórnotendum og öðrum, eins og nýleg dæmi sanna.  Þá má heldur ekki mikið út af bregða í virkjunum landsins til að setja verði á aflskömmtun til stóriðjunnar.  Landsvirkjun verður að taka tillit til þessa auk fjölmargra annarra þátta tengdum staðháttum og staðsetningu landsins, þegar hún hugar að verðlagningu.

Það er mikil þörf á vitrænni stefnumörkun í orkumálum á Íslandi.  Sú stefnumörkun verður að taka mið af þjóðfélagsaðstæðum á Íslandi, þörfum og þanþoli hagkerfisins.  Markmiðið á að vera að veita almenningi beztu þjónustu á raforkusviðinu, sem þekkist í Evrópu á sviði verðs og gæða, og íslenzkum atvinnuvegum sömuleiðis til að stuðla að samkeppnihæfni þeirra við útlönd.  Þegar kemur að orkusölu til stóriðju, þarf að miða við sanngjarna arðsemi orkusölunnar annars vegar og hins vegar samkeppnihæfa verðlagningu við þá staði, sem Ísland keppir við.  Þetta getur t.d. þýtt fulla endurgreiðslu afborgana og vaxta af lánum til virkjana með greiðslum frá stóriðjunni á fyrsta hluta samningstímabilsins, t.d. 30 árum, en endingartími mannvirkjanna er hins vegar a.m.k. 100 ár. 

Orkan á að geta skipt sköpum um velmegun á Íslandi á 21. öldinni, en þar gildir hið fornkveðna, að veldur hver á heldur.  Uppbyggingin verður að vera sjálfbær til langs tíma, hvort sem litið er til náttúrunnar, hagkerfisins eða sambandins við viðskiptavini orkuseljendanna.   

 

   

 


Báknið

Um allan hinn vestræna heim er nú efst á baugi að fást við ofþanið ríkisbákn og þungbærar ríkisskuldir.  Ástæðurnar eru aðallega tvíþættar.  Umsvif ríkisins eru orðin svo stór hluti vergrar landsframleiðslu, að þau standa orðið hagvexti fyrir þrifum, og í flestum ríkjum Vesturlanda hækkar meðalaldur þjóðanna ört, svo að æ færri verða til að standa undir ríkisútgjöldunum, þ.m.t. afborgunum og vöxtum.  Við þetta má bæta, að margar ríkisstjórnir á Vesturlöndum yfirfærðu feikna upphæðir frá skattborgurum til fjármálastofnana til að forða hruni hinna síðarnefndu.  Ríkisstjórn Geirs Haarde tók allt annan pól í hæðina.  Hún hlífði skattborgurunum eftir mætti, en lét lánadrottna íslenzku bankanna taka skellinn.  Þessi afstaða er nú árið 2011 óðum að öðlast alþjóðlega viðurkenningu.  

Spurningin er ekki lengur, hvort vinda verði ofan af þessari óheillaþróun ríkissjóðanna, heldur hvernig.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur tekizt einstaklega óhönduglega upp viö þann samdrátt ríkisútgjalda, sem hún skuldbatt sig til gagnvart Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, AGS.  Af þvermóðsku einni saman neitaði hún að fara mildilega í skattahækkanir, eins og Sjálfstæðisflokkurinn þó lagði til.  Ríkisstjórnin hefur lengt í efnahagskreppunni á Íslandi, sem bankakreppan ól af sér, með því að skera framkvæmdir á vegum ríkisins niður við trog og hækka skattheimtu stórlega á sama tíma.  Slíkir stjórnarhættir eru glapræði, enda hafa þeir leitt leitt yfir þjóðina óþolandi atvinnuleysi og geigvænlegan landflótta, sem er brýnt að binda endi á.

Við þær aðstæður, sem uppi voru í þjóðfélaginu eftir Hrun og eru enn, á hiklaust að setja hagvaxtarhvetjandi aðgerðir á oddinn.  Þar ber fyrstar að telja erlendar fjárfestingar, virkjanir, ný iðjuver og öruggt rekstrarumhverfi til langs tíma fyrir atvinnuvegina, ekki sízt sjávarútveginn.  Hins vegar er augljós kerfisvandi fyrir hendi í rekstri hins opinbera, sem lýsir sér í hömlulausri aukningu ríkisútgjalda.  Hvernig á að fást við þann vanda ?

Í þessum efnum er rétt að horfa til þeirra, sem náð hafa beztum árangri.  Í Singapúr nema ríkisútgjöld aðeins 19 % af VLF, en auðvitað er tiltölulega ódýrara að halda uppi þjónustu ríkisins í borgríki en í jafnstrjálbýlu landi og Ísland er.  Þó er aðalástæðan sú, að í Singapúr er notazt við allt annað kerfi ríkisútgjalda en t.d. á Íslandi.  Jafnvel Kínverjar íhuga nú að taka upp Singapúr-kerfið, því að vestræna kerfið er ósjálfbært.  Í Singapúr fá borgararnir ákveðna upphæð frá ríkinu til að standa straum af lækniskostnaði, kennslu barna og öðru, sem ríkið tekur þátt í.  Síðan hefur borgarinn frjálsar hendur með að velja aðila, sem í frjálsri samkeppni veita umbeðna þjónustu.  Ef kostnaðurinn reynist lægri en framlag ríkisins, heldur borgarinn mismuninum.  Reynist kostnaðurinn hærri, kemur til skjala trygginga, lífeyrissjóða, stéttarfélagssjóða eða sparnaðar viðkomandi.

Þetta framlagskerfi felur í sér valfrelsi fyrir borgarana um að velja þjónustu; ríkið stendur ekki að því að veita þessa þjónustu, en stendur straum af áætluðum kostnaði við kaup á henni.  Kerfið nýtir styrk frjálsrar samkeppni, sem keppir á gæðum og verði, til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar og fyrir skattborgarana.  Samkeppnin leiðir til kostnðarlækkunar fyrir hið opinbera og þróunar í stað stöðnunar.

Það er ljóst, að breytingum í þessa átt verður ekki komið í kring á Íslandi eða í öðrum löndum með umsvifamikinn ríkisrekstur í einu vetfangi.  Það þarf að velja ákveðna starfsemi til reynslu og sannreyna, að framlagskerfið virki.  Jafnframt verður auðvitað að gera einkaframtakinu og sjálfseignarstofnunum kleift að taka að sér vissa þætti, sem ríkisvaldið hefur einokað um langa hríð eða verið algerlega ríkjandi á.  Þegar árangur kemur í ljós, verður unnt að lækka skattheimtuna.

Það er alveg ljóst, að kerfisbreytingar verður að gera á ríkisrekstrinum til að hemja hann.  Umfang ríkisrekstrar á Vesturlöndum sem hlutfall af VLF hefur fimmfaldzt á eitt hundrað árum.  Það stefnir augljóslega í óefni með stöðnun og að lokum kollsteypu sem afleiðingu.  Krötum og sameignarsinnum er ekki treystandi fyrir þessu verkefni.  Ríkisrekstur er trúaratriði félagshyggjuaflanna, en allir stjórnmálaflokkar eiga nokkra sök á því, hvernig komið er.  Eitt er víst, að kropp vinstri flokkanna, sem að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur standa, í viðkvæma þjónustu heilbrigðisgeirans og annars staðar, er gjörsamlega vonlaus aðferðarfræði.  Uppstokkunar er þörf. 

 

 

 

 

 

 

 


Hangir á horriminni

Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins á hendur ríkisstjórninni leiddi í ljós, að hún höktir nú á minnsta mögulega meirihluta.  Svo mjög hefur ósvífni og tækifærismennska Steingríms Jóhanns gengið fram af flokksmönnum hans, að þrír þeirra hafa nú kastað sér fyrir borð og hyggjast synda til lands og berjast við Steingrím á flokksvettvangi og utan.  Er þá deginum ljósara, að vinstri-grænir munu ganga með böggum hildar til næstu kosninga og í mörgum kjördæmum verða þurrkaðir út vegna svika við kjósendur.  Farið hefur fé betra.

Hvers vegna lafði þessi gæfusnauða og illa mannaða ríkisstjórn ?  Guðfríður Lilja, sem fékk stöðumissi í stað blómvandar við endurkomu á þing, var á báðum áttum.  Eftir að Árni Þór hafði þó lotið í gras og afsalað sér langþráðum titli þingflokksformanns í friðþægingarskyni við skákdrottninguna að skipun húsbónda síns, beit hún höfuðið af skömminni með því að gefa ríkisstjórninni líf, þó að framferði ríkisstjórnarinnar sé í veigamiklum atriðum upp á kant við stefnuna, sem hún gekk á hönd, er hún gekk til liðs við Vinstri hreyfinguna grænt framboð. 

Það var þó eitt hálmstrá, sem hún hékk á, og var það sannarlega ekki hvönn, eins og Þorgeir Hávarsson hékk í forðum á bergbrúninni að sögn Þormóðar, Kolbrúnarskálds.  Guðfríður færði það sem sérstök rök fyrir framlengingu á dauðastríði ömurlegrar ríkisstjórnar, að hún mundi standa vörð um það hugðarefni Guðfríðar að taka enga ákvörðun um virkjun Neðri-Þjórsár.  

Hvaða skoðun skyldi iðnaðarráðherra hafa á þessu afturhaldssama sjónarmiði ?  Hún hefur líklegast lagt kollhúfur við því, eins og hún er vön.  Afturhaldið, sem nú heldur um stjórnartauma landsins, á sér samnefnara í athafnaleysi og heldur þannig athafnalífinu og vinnumarkaðinum í heljargreipum. 

Þetta er engin tilviljun.  Vinstri hreyfingin grænt framboð telur hagvöxt vera illt afsprengi auðvaldsskipulagsins og þvælist þess vegna af öllum mætti fyrir öllum ákvörðunum, sem leitt geta til þess að rífa þjóðfélagið upp úr núverandi stöðnun.  Stöðnun er óskastaða vinstri-grænna, því að þannig er girt fyrir hagvöxt. 

urridafoss_1Græningjar um allan heim eru við sama heygarðshornið.  Þeir telja hagvöxt verða á kostnað náttúrunnar.  Orkuöflun er sérstakur skotspónn græningja.  Ástæðurnar eru af tvennum toga.  Annars vegar vita græningjar, að orkuöflun er forsenda hagvaxtar.  Með því að berjast gegn orkuöflun kyrkja græningjar hagvöxt

Hins vegar fylgir orkuöflun víðast erlendis aukin mengun af einhverju tagi eða geislunarhætta.  Oftast er um að ræða aukið sót, brennistein og koltvíildi út í andrúmsloftið, en einnig getur verið um að ræða hávaða, fugladauða og sjónræn umhverfisspjöll, t.d. af völdum vindmylla.

Íslenzkar vatnsaflsvirkjanir eru allar sjálfbærar og einnig afturkræfar samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu.  Mengun af þeirra völdum er í algeru lágmarki á heimsvísu.  Það er þess vegna einboðið að nýta þessa auðlind til að útrýma atvinnuleysinu í landinu.  Neðri-Þjórsá er efst á lista um hagkvæmni og lítið umhverfisrask.  Þess vegna verður ekki séð, að þessi ríkisstjórn muni samþykkja nokkra nýja virkjun, ef hún leggst gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá.

Afstaðan til virkjana varðar grundvallar hagsmuni almennings og er þess vegna kjaramál.  Nýjar virkjanir og framhald iðnvæðingar eru grundvöllur þess, að hér verði fullt atvinnustig og og að lífskjör í landinu verði samkeppnihæf við hin beztu í Evrópu.  Helztu ástæður þessa eru eftirfarandi:

  • fjárfestingar þurfa að nema um 25 % af VLF (verg landsframleiðsla) eða tæplega ISK 400 mia. á ári til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast nægilega hratt til að þörf verði á auknu vinnuafli og saxist á fjölda atvinnulausra. 
  • helmingurinn af þessu fé gæti komið frá hefðbundnum þáttum, þegar hagkerfið fer að taka við sér, en um ISK 200 mia. á ári þurfa að verða á formi erlendra fjárfestinga.  Engar umtalsverðar slíkar eru í sjónmáli án aukinnar nýtingar á orkuauðlindinni, og aðeins stóriðja getur nýtt hana að marki.  Ísland er enn samkeppnihæft um orkuverð til stóriðju, og enginn geiri athafnalífsins hefur meiri burði til stækkunar og framlags til hagvaxtar en stóriðja.   
  • aðeins straumur erlends gjaldeyris inn í landið af ofangreindri stærðargráðu getur gert kleift að losa um og losna við gjaldeyrishöftin, en slík eru mikill áfellisdómur yfir hagstjórn í hverju ríki, sem setur þau upp og viðheldur.  Þau brjóta í bága við frelsin  fjögur á Innri markaði EES, en þessi innri markaður er ein af rósunum (ekki þó kratarós) í hnappagati ESB og styður við heilbrigða samkeppni í Evrópu. 
  • auknar gjaldeyristekjur eru skilyrði styrkingar krónunnar og greiðslu á vöxtum og afborgunum hins opinbera og einkaaðila til útlendinga með skaplegum hætti, þ.e. að koma skuldum ríkisins niður í um 30 % af VLF á 10-15 árum án þess að innviðir samfélagsins fari við það á hliðina.  

 Það er þess vegna ekkert smáræði, sem leiða kann af því, að skákdrottningin tók þá ákvörðun 13. apríl 2011 að valda eitraða peðið, sem skírt var Steingrímur Jóhann á sinni tíð.  Ákvörðun hennar jafngildir því að halda atvinnulífinu áfram í spennitreyju, lykilatvinnuvegum í uppnámi, festa atvinnuleysi í 10 %, reka ríkissjóð á heljarþröm, og að gera kjararýrnun viðvarandi í landinu frá ári til árs.  

Þetta eru ekki dyntir skákdrottningarinnar, heldur er hún með þessu trú stefnu vinstri-grænna um að koma í veg fyrir hagvöxt með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum.  Á þetta horfir Samfylkingin aðgerðarlaus og er ekki svo leitt sem hún lætur, enda er þetta verðið, sem hún greiddi fyrir að fá að sækja um aðild að ESB.  Sjá nú allir, hversu illa var stofnað til þessa stjórnarsamstarfs.  Þar haldast í hendur amlóðaháttur og afturhald, a&a, sem þó á ekkert skylt við hin ágætu AA-samtök. 

Myndin hér að neðan lýsir vel anda umræðunnar í Evrópu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Íslandi 9. apríl 2011, þegar vanda skuldugra ríkja ber á góma.  Ísland setti þá fagurt fordæmi, en hvernig á nokkur maður, innlendur eða útlendur, að geta treyst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til að framfylgja hinni skýru stefnumörkun þjóðarinnar ?      

     

      Gott fordæmi fyrir Íra 

   

 


"Hrafnaþing kolsvart í holti"

Tveir menn reyndust öðrum fremur verða örlagavaldar um farsæla og sjálfsagða afgreiðslu Icesave#3.  Er annar forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, en án hans tilstyrks hefði þjóðin ekki fengið tækifæri til að stöðva gæfusnauða vegferð vitstola stjórnvalda með auðsveipt þing í taumi, kolsvart hrafnaþing, eins og skáldmæringurinn, Jónas Hallgrímsson, kvað forðum.  

Hinn örlagavaldur málsins var ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson.  Hann hóf þegar í upphafi skelegga baráttu gegn lögunum um Icesave#3 , og atti þar kappi við ofurefli liðs og skoðanakannanir, sem bentu til, að valdastétt landsins hefði tekizt að sannfæra meirihluta landsmanna um, að skárst væri að samþykkja ófögnuðinn.  Með listfengi og meistaralegum stílbrögðum tókst Davíð fangbrögðum við réttrúnaðarfólk samfélagsins, sem með RÚV, Fréttablaðið, flesta aðra fjölmiðla , drjúgan hluta háskólasamfélagsins og aðila vinnumarkaðarins fór fram með hótunum, hálfkveðnum vísum, villandi upplýsingum og röngum ályktunum. 

Að sjálfsögðu lögðu fjölmargir mætir menn og konur hönd á plóginn, lögðu fram staðreyndir og vöktu máls á hinum augljósa undirlægjuhætti Já-sinna við Evrópusambandið, ESB, sem var allan tímann hinn raunverulegi andstæðingur í þessu máli.  Þess vegna er vegferð þessa máls jafnógæfuleg og raun ber vitni um.  Menn kunnu eki fótum sínum forráð í þjónkun sinni við hið erlenda vald. 

Ríkisstjórnin með Samfylkinguna í broddi fylkingar, ásamt öðrum áhangendum aðildar Íslands að ESB, vildu fórna hagsmunum íslenzkra skattborgara, íslenzks almennings á blótstalli ESB til að komast þar inn.  Með sigrinum 9. apríl 2011 tókst að hindra þetta og þar með vannst tvöfaldur sigur.  Draumur Össurar & Co. með Ísland inn í ESB er orðinn að martröð Samfylkingarinnar.  

Nú er sagt, að slíðra eigi sverðin.  Hvað lætur forsætisráðherra verða sitt fyrsta verk morguninn eftir niðurlægjandi ósigur sinn ?  Hún lýsir því yfir við erlenda fjölmiðla, að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi verið sú versta, sem hugsazt gat.  Af þessu er aðeins hægt að draga þá ályktun, að núverandi forsætisráðherra er sá versti, sem hugsazt getur úr hópi hins kolsvarta hrafnaþings við Austurvöll.  Hún leikur tveimur skjöldum og vinnur hagsmunum Íslands meira ógagn en gagn.

Framganga fjármálaráðherra eftir sinn bitra ósigur var ekki því markinu brenndur að taka málstað andstæðinganna að þessu sinni.  Hann hóf sig yfir lágkúrulegan málflutning sinn fyrir kosningarnar og talaði nú máli þjóðar sinnar.  Þessa óvæntu stefnubreytingu má þó rekja til afar óeðlilegs atburðar, sem hann stóð fyrir sama daginn í eigin þingflokki.  Hann setti skákmeistarann Guðfríði Lilju út af sakramentinu með því að steypa henni af stóli þingflokksformanns vinstri-grænna fyrsta daginn hennar í vinnu eftir "barnsburðarleyfi".  Fruntaháttur fjára ríður ekki við einteyming.  Nú þynnist fjanda flokkur.

Sjálfstæðismenn gengu með klofinn skjöld til þessara kosninga, og höfðu sjálfstæðismenn, þversum, betur.  Ástæðan fyrir þessum klofningi var það feigðarflan forystu Sjálfstæðisflokksins að ganga í berhögg við stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins á síðasta Landsfundi.  Þar var kveðið eins skýrt að orði og verða má um, að ekki skyldi undirgangast löglausar kröfur útlendinga.  Það er hulin ráðgáta, hvernig forystunni og sjálfstæðismönnum, langsum, datt í hug að hunza þessa samþykkt við atkvæðagreiðslu á hinu kolsvarta hrafnaþingi við Austurvöll.  Þeir verða sjálfir að útskýra þetta á réttum vettvangi, en vonandi verður ekki meira um slíka fingurbrjóta á næstunni. Formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur liðizt það að fara með stefnuskrá síns flokks, eins og brókina sína, enda er sú stefnuskrá reist á siðblindu, eignaupptöku og ófrelsi einstaklingsins á flestum sviðum, en þveröfugt á við um stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, og þess vegna gera sjálfstæðismenn háreistari kröfur til sinnar forystu. 

Einn er sá maður, sem ber höfuð og herðar yfir alla stjórnmálamenn landsins, en það er forseti lýðveldisins.  Hann boðaði til blaðamannafundar sunnudaginn 10. apríl 2011 að Bessastöðum.  Er skemmst frá því að segja, að hann fór þar á kostum.  Hann er augljóslega að blása til stórsóknar fyrir málstað Íslands á erlendri grundu.  Leikur ekki á tveimur tungum, að forsetinn fyllir upp í tómarúm ríkisstjórnarinnar á þessum vettvangi, en þar fara dæmalausar liðleskjur gagnvart útlendingum og undirlægjur gagnvart ESB.

Er ekki að efa, að forseti lýðveldisins á eftir að bregða bröndum, svo vígfimur sem hann er, og að vinna málstað Íslands fylgi á meðal lykilmanna.  Eins og Nei-sinnar (t.d. sjálfstæðismenn, þversum) þreyttust ekki á að benda á, er góður jarðvegur nú fyrir þennan málflutning í heiminum, ekki í sízt í Evrópu, þar sem sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) að bjarga lánadrottnum veikra banka og veikra ríkja er að bíða skipbrot.  Nú er Portúgal komið í gapastokkinn, og er þá Spánn næstur, en þá munu Þjóðverjar stöðva þetta óheillaferli, því að ekki er stuðningur á meðal þýzkra kjósenda við slík risaútlát í björgunarsjóð ESB, sem Spánn mun útheimta.  Gengi evrunnar mun þá falla, þrátt fyrir hækkandi vexti þar á bæ.  Allsvakalega mun þá hrikta í stoðum Evrópusamstarfsins, og verður það mikið gjörningaveður.  Verður þá smáþjóð affarasælla að standa til hlés. 

Þannig fer, þegar stjórnmálamenn fara af stað með sín stóru og illa ígrunduðu verkefni, sem eru í blóra við lögmál hagfræðinnar, jafnvel náttúrulögmál og heilbrigða skynsemi.  Þetta var einmitt upphaf evrunnar, stjórnmálagjörningur að undirlagi Frakka til að losna undan ægishjálmi þýzka marksins.  Nú standa þeir í skugga Þjóðverja, sem eru að ná aðstöðu til að deila og drottna í Evrópu í krafti eigin dugnaðar.        

 

  

 

      


Þvinganir og þumalskrúfur og svarið er NEI

Brezka ríkisstjórnin beitti íslenzka banka og íslenzka ríkið fantabrögðum í október 2008, er hún flokkaði íslenzku bankana og íslenzku ríkisstjórnina með ótíndum hryðjuverkamönnum.  Svo lítil hafa síðan verið geð guma, sem verja áttu hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, að aldrei virðist hafa verið reist burst gegn þessu óþokkabragði George Browns og Alistair Darlings, ráðherra brezka Verkamannaflokksins, systurflokks Samfylkingarinnar á Íslandi.  Lee Buchheit hefur upplýst, að ekki hafi verið vakið máls á þessu í samningaviðræðunum um Icesave#3. Hér liggja stórfelldir hagsmunir Íslendinga óbættir hjá garði, sem minnast ber 9. apríl 2011. Þess má þá jafnframt minnast, að hollenzkir ráðherrar og embættismenn hafa sýnt okkur mikla óbilgirni innan ESB, þar sem þeir eru á meðal innstu koppa í búri, og hafa löngum verið með ógeðfelldar hótanir frá því þeir greiddu hollenzkum innistæðueigendum upp inneignir sínar í hollenzka Icesave-bankanum af ótta við bankahrun vegna áhlaups á banka í eigin landi.  

Icesave-málið er dæmi um frámunalega lélegan erindrekstur íslenzkra stjórnmálamanna og embættismanna með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar.  Aldrei átti að ljá máls á vaxtagreiðslum til Breta og Hollendinga vegna útláta til að forða áhlaupi á þeirra eigin banka.  Aldrei átti heldur að ljá máls á að gangast í ábyrgð fyrir óvissa upphæð, enda stríðir slíkt gegn Stjórnarskrá. Ekki átti að hvika frá kröfunni um forgang íslenzka innlánstryggingasjóðsins í þrotabúið óskipt, því að krafan um lágmarkstrygginguna stendur á þann sjóð.

Áhættan samfara samþykki á Icesave-lögunum er gríðarleg.  Að skuldbinda ríkissjóð fyrir óvissri upphæð, sem hlaupið getur á hundruðum milljarða króna, er forkastanlegt.  Farandi dómstólaleið höfum við ekki skuldbundið okkur til eins né neins og höfum allt að vinna, en engu að tapa, í samanburðinum. Nú ganga í garð krepputímar á Bretlandi, því að Bretar eru að bíta úr nálinni með gríðarlegan fjáraustur ríkisins í brezka banka og herða þess vegna sultarólina mjög.  Hvaða áhrif halda menn, að slíkt hafi á eignaverð þrotabúsins og heimtur í það ?

Bent hefur verið á gengisáhættuna, en vegna aukins útstreymis gjaldeyris úr íslenzka hagkerfinu við fullnustu Icesave-samningsins er viðbúið, að gengi falli enn meir en þegar er orðið frá gerð samningsins. 

Icesave-samningurinn er kjánalegur séður frá íslenzkum bæjarhóli, því að yfirgnæfandi líkur standa til, að kostnaður Íslendinga af samninginum verði margfaldur á við það, sem dómstólaleiðin mundi kosta landsmenn.  Hræðsluáróður um refsingar EES eða verri lánakjör í útlöndum við höfnun Icesave er ættaður frá ESB og á ekki við nein rök að styðjast, því að heimurinn er stærri en Evrópa, og "peningar fara aldrei í fýlu".  Peningamenn líta á efnahagsumhverfið, stjórnarfarið og möguleika á samkeppnihæfri arðsemi.  

Hafa ber í huga, að nú falla öll vötn til Dýrafjarðar, þegar kemur að afstöðu Evrópumanna til ríkisábyrgðar á starfsemi fjármálastofnana.  Sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) hefur gengið sér til húðar.  Írar eru á heljarþröm vegna þumalskrúfu ESB, eins og Íslendingar mundu verða eftir samþykkt hinna illræmdu Icesave-laga, sem er skilgetið afkvæmi evrópsks bankaauðvalds, og þýzkir kjósendur hafa sýnt Merkel, kanzlara, gula spjaldið í fylkiskosningum undanfarið, sem túlkað er sem megn óánægja þýzkra kjósenda með að verja stórfelldum fúlgum þýzks skattfjár til veikra ríkja á evrusvæðinu til að bjarga bönkum, þýzkum og öðrum, frá útlánatapi. Öll stefna ESB er þjónkun við stórauðvaldið á kostnað almennings í Evrópu. 

Hans Tietmayer, fyrrverandi bankastjóri Bundesbank, þýzka seðlabankans, var búinn að vara við því, að sameiginlegur gjaldmiðill gengi ekki upp án sams konar fjárlaga í öllum evrulöndunum.  Nú er reynt að koma evrunni til bjargar með því að efla enn miðstýringuna frá Brüssel.  ESB-búrókratar mega ekki til þess hugsa, að til málarekstrar komi um ríkisábyrgð á innlánstryggingasjóðunum af eftirtöldum ástæðum:

  1. Ef dómstóll kveður upp úr um, að engin ríkisábyrgð sé fyrir hendi, sem líklegast er, þá missa bankarnir tiltrú og áhlaup verður gert á veikustu bankana, sem hafa mun keðjuverkandi áhrif og fella evrópska bankakerfið.  Það eru þess vegna miklu meiri hagsmunir í veði en þær smáupphæðir á evrópskan mælikvarða, en háar á íslenzkan mælikvarða, sem um er teflt í Icesave-málinu.
  2. Ef dómstóll kveður upp úr um ríkisábyrgð, mun slíkt magna ábyrgðarleysi bankanna, þeir verða enn áhættusæknari, gætu þanizt út og valdið eignabólu, sem síðan springur með brauki og bramli.

Það hefur frá upphafi verið ljóst, að Íslendingar væru að fást við ESB (Evrópusambandið), þegar Icesave var annars vegar.  ESB hrærði í stjórnmálamönnum á Norðurlöndum og AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum) varðandi lánveitingar, en hefur ekki lengur bolmagn til þess, vegna þess að almenningur í Evrópu er búinn að fá sig fullsaddan á þjónkuninni við bankaauðvaldið.  Tíminn hefur unnið með okkur. Með afar skýrum hætti hefur sterk tenging málsins við ESB birzt hérlendis.  Þeir sem hallir eru undir ESB, hafa stundað illvígan áróður fyrir því að gangast undir jarðarmen bankaauðvaldsins og ríkistryggja skuldbindingar fallna bankans og borga vexti í ofanálag.  Málpípur ESB hafa sumar orðið aumkvunarverðar, er þær hafa étið upp vitleysuna úr bankamönnum og skósveinum þeirra í matsfyrirtækjunum, en á þeim og greiningardeildum bankanna er harla lítill munur.  Allt étur þetta lið úr lófa bankaauðvaldsins.  Þá var og ósæmandi með öllu, að forkólfar s.k. aðila vinnumarkaðarins, SA og ASÍ, skyldu í örvæntingu kasta fram öfugsnúnum hugrenningum sínum um þróun íslenzka hagkerfisins, ef það verður losað undan Icesave-ánauðinni.  Þetta er ósæmilegur ESB-áróður úr lausu lofti gripinn. 

Nóg er nú komið af hræðsluáróðri utan þings sem innan.  Synjun um staðfestingu Icesave-laganna er um leið höfnun á leiðsögn þeirar dæmalausu ríkisstjórnar, sem nú situr.  Eftir síðustu höfnun átti hún auðvitað að sigla sinn sjó, enda hefur hún síðan staðfest, að henni er ekki treystandi til að fást af manndómi við þetta deilumál.  Eftir höfnun 9. apríl 2011 hefur ríkisstjórnin hvorki siðferðilega, málefnalega né lýðræðislega stöðu til áframhalds.  Leysa ber þá þingið upp og boða til Alþingiskosninga.  Sýnum öðrum gott fordæmi og segjum Nei.    

  Íslenzki þjóðfáninn

   

 

 

    


Stjórnlaust land

Að forminu til er ríkisstjórn í landinu, en hún er svo vingulsleg, að kalla má hana stjórnlaust rekald.  Sem stjórnvald getur hún ekki með skýrum hætti gert grein fyrir, hvort landið styður hernað NATO gegn vitstola einræðisöflum í Norður-Afríku eða er friðardúfa í NATO að hætti VG. 

Annað andlit Janusar þykist ekki hafa vitað um, hvað í bígerð var.  Þar fer konungur tvískinnungsins og kosningasvikanna. Utanríkisráðherra ráðfærði sig ekki við utanríkismálanefnd Alþingis, en gjörningur hans er samur; hann hefur skuldbundið alla ríkisstjórnina, og þar með vinstri-græna, hvað sem Steingrímur J. tautar og raular, til að styðja þennan hernað við Miðjarðarhafið með góðu eða illu.  Ríkisstjórnin er með Janusarandlit (höfuð, sem horfir til tveggja átta).  Hver treystir slíkum ?

Forystumenn á vinnumarkaði, beggja vegna borðs, kvörtuðu sáran undan ráðleysi ríkisstjórnarinnar; þaðan komi bókstaflega ekkert bitastætt.  Nú eru komin aukin ríkisútgjöld á blað.  Fyrir þeim þarf að slá lán í útlöndum á kostnað framtíðarinnar.  Það er ekki borið við að boða nýjar erlendar fjárfestingar í atvinnufyrirtækjum, en auknar gjaldeyristekjur eru hið eina, sem getur orðið til bjargar frá ríkisgjaldþroti.  Með þessu áframhaldi þarf að skera ríkisútgjöld niður um 50 milljarða króna á næsta ári.  Ríkisstjórnin stefnir þjóðfélaginu út í algert öngþveiti. Hún er með öðrum orðum vita gagnslaus, þegar kemur að úrlausn mála.  Þar eru eintómir blöðruselir á ferð, og alger tímasóun, og reyndar stórskaðlegt og ofboðslega dýrkeypt, að hafa jafndáðlaust fólk við völd í Stjórnarráðinu á tímum sem þessum.   

Í stærsta sveitarfélaginu, höfuðborginni, er hið sama uppi á teninginum.  Með ráðleysi sínu og gaspri hafa núverandi stjórnendur Reykjavíkurborgar keyrt Orkuveitu Reykjavíkur (OR) algerlega í þrot.  Auðvitað má rekja fjárhagsvandann aftur í tímann til daga R-listans og REI-klúðursins, þegar almenningur gapti af undrun yfir mörgum fjármálagjörningum, sem OR var att út í af stjórnmálamönnum í borgarstjórn og stjórnendum OR, sem allir báru merki stórmennskubrjálæðis.  Nú er svo komið, að framlegð fyrirtækisins dugir ekki fyrir vöxtum, og er þá eðlilega örvænt um, að nokkur lánveitandi þori að hætta fé sínu í slíka hít. 

Ekki bætti úr skák, þegar fyrirbærið á stóli borgarstjóra lýsti því yfir opinberlega, að OR væri gjaldþrota.  Þar með ætti hann að hafa rekið síðasta naglann í líkkistu OR þannig, að OR rísi ekki upp í sinni núverandi mynd.  OR er risi á brauðfótum, sem þarf að kljúfa.  Miðað við núverandi fyrirkomulag orkumála á Íslandi og innan EES fer ekki saman, að sama fyrirtæki stundi einokunarstarfsemi, s.s. hitaveitu og raforkudreifingu, annars vegar og raforkuvinnslu hins vegar, en hin síðast nefnda er samkeppnigrein.  Neyðin kennir nakinni konu að spinna, og nú ættu eigendur, við þessi vatnaskil, að stokka spilin og aðlaga OR umhverfinu, sem þeim er búið.  Eigendur OR geta um leið bjargað sér úr gapastokki skuldafjötra með því að selja virkjanirnar.  Þær eiga alls ekki heima í höndum stjórnmálamanna, sem í krafti bakábyrgðar skattborgaranna, haga sér eins og fílar í postulínsbúð, þegar þeir ná að læsa klónum í slík fyrirtæki. 

25. marz 2011 kom í ljós, að engin raunhæf stefna er til hjá stjórnvöldum peningamála í landinu um að afnema gjaldeyrishöftin.  Það er þvert á móti verið að festa þau í sessi, eins og vinstri stjórn einni er lagið, en höft hafa ætíð verið ær og kýr félagshyggjunnar.  Yfirlýsing Árna, efnahagsráðherra, og Más, seðlabankastjóra, sýnir fullkomna uppgjöf stjórnvalda við að draga Íslandsvagninn upp úr því fúafeni hagrænnar hrörnunar, sem samfélagið hefur sokkið æ dýpra í síðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum.  Er heldur ekki von á djarflegu og stórhuga skrefi í frjálsræðisátt, þegar þeir Bakkabræður afturhaldsins eru annars vegar. 

Það er enginn vilji fyrir hendi í ríkisstjórn til að hleypa nýju lífi í atvinnulífið.  Auðvitað er fastmótuð áætlun um mikið aðstreymi gjaldeyris með erlendum fjárfestingum í atvinnustarfsemi forsenda þess að losa um gjaldeyrishöftin.  Ríkisstjórnin leggur kollhúfur við slíkum hugmyndum, en kappkostar þess í stað niðurrif þess, sem er.  Sjávarútvegi er haldið í gíslingu eignarnámshótana, svo að þar er sáralítið fjárfest. 

Ættu útgerðarmenn ekki að ljá máls á neins konar útvötnun eignarréttarins, sem þeir langflestir hafa keypt sér, en félagshyggjan vill feigan, eins og vant er.  Þar eru vinstri bjálfarnir trúir stefnu sinni, eignaupptöku, sem er risaskref til baka og mun kippa stoðunum undan lífskjörum í landinu endanlega.  Fjöldi manns í sjávarplássum mun komast á vonarvöl og verða háður ölmusu úr hendi stjórnmálamanna, sem er einmitt markmið félagshyggjunnar.  

Stóriðjunni var hótað með ofurskatti á rafmagn, og hótun um tekjuskattshækkun fyrirtækja vofir yfir.  Gegndarlausar eldsneytishækkanir gera rekstraraðilum flutningatækja allra handa mjög erfitt fyrir, svo að ekki sé nú minnzt á eitt aðalfórnarlamb ríkisstjórnarinnar, eiganda einkabílsins.  Yfir bændum hangir fallöxi kratanna, hin sameiginlega landbúnaðarstefna ESB. 

Nú nálgast ögurstund þjóðaratkvæðagreiðslu um að takast á herðar milljarðatuga króna vaxtagreiðslur til handa Bretum og Hollendingum vegna greiðslna innistæðutryggingasjóða þeirra til innistæðueigenda.  Þar að auki var samið svo snilldarlega, að öll áhætta um hækkun höfuðstóls var lögð á okkar herðar.  Þar getur orðið um hundruði milljarða að ræða.  Neyðarlög Geirs Haarde og félaga tryggðu innistæðueigendum, einnig íslenzkra banka á Bretlandi og í Hollandi, forgang að eignum þrotabúa á kostnað annarra kröfuhafa, t.d. erlendra banka.  Verði neyðarlögin dæmd ógild, snarbreytist skuldastaðan íslenzkum skattborgurum í óhag um hundruði milljarða króna.  Það yrði algert óráð að skrifa undir þessi ósköp. 

Þvætting Moody´s og málpípa þeirra um lánshæfismat tekur enginn viti borinn maður alvarlega.  Ástæðan fyrir því, að erlendir bankar eru tregir til að lána okkur, er sú, sem nefnd er hér að ofan.  Þeir eru brenndir af neyðarlögunum, en á þeim töpuðu þeir e.t.v. 10 000 milljörðum króna eða sem nemur sexfaldri landsframleiðslu Íslands á ári.  Engum heilvita manni dettur í hug, að sú tregða lagist með aðgerð, sem mögulega keyrir ríkissjóð fram af hengifluginu.  Sú tregða mun strax lagast og hér verður sú stefnubreyting á í Stjórnarráðinu að semja um viðamikla viðreisn hagkerfisins við erlenda fjárfesta í orkukræfum iðnaði og í annarri starfsemi.  Afstaðan til Icesave er þess vegna stórfelld kjarabarátta.  Já varðar leiðina til ánauðar, en Nei mun marka nýtt upphaf sóknar til bættra lífskjara öllum til handa.    

  icesave_svidsmyndir_gamma1

Súluritið hér að ofan sýnir áhrif óvissunnar á skuldabaggann af Icesave, og grafið hér að neðan sýnir áhrif ósjálfbærrar skuldastöðu ríkissjóða þriggja landa, Grikklands, Írlands og Portúgals, á vexti, sem þeim standa til boða á markaðinum.  

 Ríkisskuldabréfavextir 2010-2011

 

      

       


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband