Depurð umhverfis

Nýlega fann umhverfisráðherra Íslands þörf hjá sér til að upplýsa landslýðinn um sálarástand sitt, sem hún kvað þá stundina einkennast af depurð. 

Þessi einstæði umhverfisráðherra, hvers helzta minnismerki verður hernaðurinn gegn landinu, sem fólginn er í að fyrirskipa eitrun fyrir tveimur tilteknum jurtategundum í yfir 400 m hæð, er ekki dapur yfir því, að fólk kunni að bíða tjón á heilsu sinni af völdum þessa eiturefnahernaðar í íslenzkri náttúru.

Blómaskrúð

Er hún e.t.v. döpur út af því, að hátt í 30 þúsund mannár tapast árlega út úr íslenzku atvinnulífi frá 2008 og ekki hillir undir viðsnúning á þeirri óheillaþróun, nema síður sé ?  Ekki aldeilis.  Allt hennar þóf, þvergirðingsháttur, fyrirsláttur og aðgerðarleysi hefur m.a. leitt til þessarar afturfarar og eymdar.  

Er hún döpur vegna þess, að allt stefnir í nýja gjaldþrotahrinu, þegar úttektir tugþúsunda launþega á séreignarlífeyrissparnaði sínum verða upp urnar ?  Öðru nær.  Umhverfisráðherra virðist  engan raunverulegan gáning hafa á afkomu fólks.  Um það vitnar allt hennar tal og framferði.  Það er dæmigert fyrir sameignarsinna.  Slíkir stjórnmálamenn hafa villt á sér heimildir, fengið stuðning upp í valdastóla á fölskum forsendum og valdið almúganum stórtjóni, en hampað flokksgæðingum (nómenklatúrunni). 

Það, sem veldur hins vegar umhverfisráðherra depurð, er, að erlendur fjárfestir hefur keypt sig inn í orkugeirann íslenzka og öðlazt þannig nýtingarrétt á jarðvarma í Svartsengi og víðar.  Þar með gæti hillt undir nýja verðmætasköpun í landinu með nýtingu jarðvarma fyrir tilstuðlan erlends áhættufjármagns, sem langflestar þjóðir reyna að laða til sín og Íslendinga vanhagar um. 

Ráðherrann lætur eins og Magma Energy muni fara með þennan jarðvarma úr landi og jafnvel selja hann þar á svörtum.  Þá er nú betra, að láta jarðhitann liggja áfram ónýttan djúpt í jörðu en útlendingar hætti fé sínu til atvinnuuppbyggingar á Íslandi og græði hugsanlega á því að framleiða rafmagn o.fl. úr frumorkunni.  Þetta er svartagallsraus vinstri-grænna.

Málflutningur sameignarsinna um orkumál ber þess keim, að þeir telji orkufyrirtækin lúta öðrum lögmálum en önnur fyrirtæki.  Þetta er argasta firra og sýnir í hnotskurn, að forkólfar Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs vita ekkert í sinn haus um hagræn efni, eru algerlega úti að aka og kunna nákvæmlega ekkert til verka, enda leggja þeir sig ekki eftir neinu því, er til hagvaxtar getur horft í þjóðfélaginu.  Með þá í brúnni verður þjóðarskútunni senn siglt í strand.   

Flokksbróðir Svandísar, Ögmundur, stúdent, Jónasson, spurði nýlega, eins og aðeins Þórálfur, hagfurðufræðingur, hefði getað spurt, hvers vegna ætti að leyfa einkafjármagn í orkugeiranum ?  Marxistinn, gamli, heldur greinilega, að nú sé lag til að koma því inn hjá fólki, að sameignarstefnan, sem varð siðferðilega gjaldþrota snemma á 20. öldinni og seinna efnahagslega gjaldþrota, beri af einkaframtaki og frjálsum markaði hagrænt og siðferðilega.  Þessu er eftirfarandi til að svara:

Í fyrsta lagi er hið opinbera á Íslandi, ríki og flest sveitarfélög, skuldsett upp fyrir haus og hafa ekki efni á neinum fjárfestingum, sem um munar.  Óhóf og stöðugar kröfur þrýstihópa um framlög af skattfé landsmanna við trumbuslátt fyrirhyggjulausra vinstri manna á Alþingi og í sveitarstjórnum ásamt óstjórn og skuldasöfnun vinstri stjórnanna frá Hruni hafa leitt landið fram á hengiflug Álftanessástands.  Ef á að rífa atvinnulífið upp úr núverandi eymdarástandi, verður þess vegna að veita alþjóðlegu einkaframtaki frelsi til athafna í landinu.  Kerfisbundin skemmdarverk VG í ríkisstjórn og á Alþingi benda hins vegar til, að þessi stjórnmálahreyfing leggi allt í sölurnar til að koma í veg fyrir slíkt.  Til harðvítugs uppgjörs hlýtur senn að koma, þar sem baráttan stendur um þjóðfélagsgerðina sjálfa, þ.e. valddreift og opið markaðshagkerfi með burði til hagvaxtar og vinnu fyrir alla annars vegar, en hins vegar lokað og staðnað og algerlega ósamkeppnihæft einokunarhagkerfi með allsráðandi stjórnmálamenn í fjármála-og athafnalífi, fjöldaatvinnuleysi og vaxandi opinberan rekstur, sem fljótlega mun leiða til þjóðargjaldþrots.  

Varpa má ljósi á hinn hluta svarsins með því að taka dæmi af sjávarútveginum.  Bæjarútgerðir gáfust herfilega hér á árum áður og skiluðu eigendum sínum ævinlega tapi.  Þetta er í reynd það, sem stjórnarflokkarnir ætla að innleiða með hinni afdæmingarlegu fyrningarleið sinni, sem hefur hlotið falleinkunn við hverja faglegu úttektina á fætur annarri.  Þegar horfið var frá þessari vonlausu sameignarstefnu á Íslandi með einkavæðingu sjávarútvegsins, hófst mikið hagræðingarferli og tæknivæðing, sem leiddi til þess, að íslenzki sjávarútvegurinn er nú sennilega með hæstu framleiðni í heimi.  Mikil framleiðni í samanburði við samkeppniaðilana er grundvöllur þjóðhagslegrar hagkvæmni sjávarútvegsins og þess, að hann geti framvegis verið ein af þremur megingjaldeyrislindum landsmanna.

Með því að hleypa erlendum fjármagnseigendum að orkugeiranum er opnað fyrir aukna samkeppni þar, fjárfestingar, tækniþróun, framleiðniaukningu og fjölbreytni, sem skila mun sér til íslenzkra heimila og fyrirtækja og leggja grunn að aukinni orkukræfri starfsemi í landinu.  Allt mun þetta verða hagvaxtarhvetjandi.  Allt eru þetta hin almennu og vel þekktu hagfræðilegu sannindi, að almenningi vegnar bezt innan hagkerfa, þar sem stjórnmálamenn láta einkaframtakið um athafnalífið, en láta duga að setja sanngjarnar leikreglur, koma á fót öflugu eftirlitskerfi með miklum rannsóknarheimildum ásamt ströngum viðurlögum við brotum.

Þar sem vel tekst til, leiðir þetta fyrirkomulag til valddreifingar í þjóðfélaginu, en þrúgandi vald stjórnmálamanna yfir fjármálastofnunum og öðru athafnalífi felur í sér hættulega valdsamþjöppun og einokun og er ógnun við lýðræðisþróunina í landinu.

Landsmenn ættu að hafa í huga hið fornkveðna á kjördag, að skamma stund verður hönd höggi fegin.  Að refsa ábyrgum sveitarstjórnarmönnum borgaralegra afla með því að kjósa gosa, loddara og lýðskrumara mun hitta þá sjálfa fyrir sem slíkum bjúgverpli beita, og eru vítin til að varast þau. 

Stétt með stétt.   

falkinn1_444247

 

 


Fordæmanleg utanríkisstefna

Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar vitnar um kálfslegt eðli.  Óvarlegt er að hyggja alla viðhlæjendur vini.  Betur hefði Alþingi samþykkt þann 16. júlí 2009 að veita þjóðinni kost á að tjá sig beint um jafnafdrifaríka stefnumörkun og umsókn að Evrópusambandinu, ESB, er.  Þá hefði að öllum líkindum verið forðað stórslysi, sem nú er í uppsiglingu. 

Samfylkingin, með alla sína grunnristu hlöðukálfa, hélt því fram, að umsókn jafngilti ósk um könnunarviðræður.  Nú er komið í ljós, það sem andstæðingar aðildarumsóknar vöruðu við, að hér er í raun um aðlögunarferli umsækjenda að ræða.  Ríkisstjórnin er þar með búin að skrifa upp á víxil, sem enginn samþykkjandi er að.  Þetta er lítilsvirðing við lýðræðislega stjórnarhætti, ábyrgðarleysi gagnvart íslenzku þjóðinni, og viðsemjendurnir eru hafðir að fíflum.  Ríkisstjórnin er hagsmunum þjóðarinnar hættuleg.

Það nær engri átt að halda þessu ferli áfram.  Vinstri stjórnin hefur hvorki þrek né vilja til að játa mistök sín.  Eitt fyrsta verk nýs Alþingis verður að stöðva vitleysuna á þeim grundvelli, að þetta hafi verið kosningamál, eða að fresta umsóknarferlinu fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Umsóknin mun e.t.v. kosta um 3 milljarða króna, þegar upp verður staðið, og tekur mikinn kraft úr stjórnkerfi, sem er veikburða í samanburði við önnur lönd og embættisbákn ESB.  Í ljósi þess, að umsóknin er andvana fædd, er hún forkastanleg sóun almannafjár, rekin á erlendum lánum við háum vöxtum.  Á tímum stórfelldrar erlendrar skuldasöfnunar ríkissjóðs eru þessi útgjöld óverjanleg.  Vinstri stjórnin mun verða að gjalti, ef hún lifir það að ljúka viðræðum, því að uppkastið mun verða kolfellt bæði af þingi og þjóð.  Verst er, að þetta mun bitna á orðstýr íslenzku þjóðarinnar í Evrópu, þegar það kemst í hámæli, hvers konar loddara hún hefur valið til valda. 

Aðalröksemd aðdáenda og smjaðrara fyrir ESB fyrir aðild Íslands var, að þá mundu gjaldmiðilsmálin verða leyst í eitt skipti fyrir öll.  Flestum er þó að verða ljóst, að með upptöku evru færu landsmenn úr öskunni í eldinn.  Evran virkar sem óþolandi spennitreyja á öll lönd, nema hinar framleiðsluknúnu germönsku þjóðir Mið-Evrópu.  Allsherjarverkföll og blóðsúthellingar eru hafin í Grikklandi, af því að ráðin hafa í raun verið tekin af grísku ríkisstjórninni.  AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) setti sína menn í grísku ráðuneytin, þannig að niðurlæging Grikklands er algjör.  Er þetta langversta ástand Grikklands frá því að Wehrmacht hertók Grikkland 1941 skömmu fyrir "Operation Barbarossa" eða "Aðgerð rauðskegg" eftir að Grikkir höfðu með hetjuskap hrakið her Mússólínis af höndum sér.  Þessir atburðir töfðu innrás Þjóðverja í Rússland, svo að hetjuleg vörn Grikkja kann að hafa reynzt örlagarík. 

Evrópa 1945Um þessar mundir minnast menn þess, að 65 ár eru frá lokum hildarleiksins mikla í Evrópu, þó að enn geisaði styrjöld í Asíu.  Á þessum tímamótum refsuðu kjósendur í Nordrhein-Westphalen ríkisstjórninni í Berlín fyrir að samþykkja flutning á fjármunum þýzkra skattborgara í grísku hítina.  Hér er um að ræða um EUR 10 Mia í fyrsta áfanga, sem þýzkur almenningur telur vera hreina sóun á skattfé sínu, enda sé gríska ríkissjóðinum ekki við bjargandi.  Allt bendir til, að þetta sé rétt mat Þjóðverja og að ríkisgjaldþrot blasi nú við Grikkjum.  Hver evra þangað er töpuð evra. Tilburðir til að forða ríkisgjaldþrotum Miðjarðarhafslandanna, sem eru ósamkeppnishæf á erlendum mörkuðum með evruna, af því að þau hafa ekki tekið til í sínum ranni, munu verða dýrkeyptir og hagvaxtarhindrandi í Evrópu. 

Gjaldþrot eins evrulands mun hins vegar hafa keðjuverkandi áhrif og Suður-Evrópa mun öll falla í valinn á endanum.  Afleiðingin verður hrun evrunnar og líklega mun hún líða undir lok.  Þetta mun lama ESB, en gömlu þjóðarmyntirnar munu líta dagsins ljós að nýju.  Ekkert er nýtt undir sólunni, og líklega munu verða til viðskiptabandalög að nýju, sbr Hansasambandið, en sameiningartilraunir lagðar á hilluna.  

Íslenzkir vinstri menn geta ekki lengur réttlætt áframhaldandi viðræður um aðild að þessu öngþveiti.  Þó að stjórnarfar hafi reynzt óbeysið á Íslandi, getur það staðið til bóta án þess að kalla yfir landsmenn skrifræðisbákn ESB og fjarlægt stjórnvald. Það verður að stöðva svo kallaðar aðildarviðræður hlöðukálfa vinstri flokkanna við ESB strax.  Þeir brenna upp skattfé og valda þjóðinni orðstýrshnekki, sem seinlegt verður að bæta.  Sannast á þessu ESB-flaðri ríkisstjórnarinnar, að sjaldan verður flas til fagnaðar.  

Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar ber öll merki þess að hafa komið undir hjá fólki með asklok fyrir himin.  Það er ógæfuleg tilurð, og getur aldrei orðið barn í brók.  Nú þarf að snúa við blaðinu.  Forseti lýðveldisins hefur lengi verið óþreytandi að benda á mikilvægi markaða í Asíu og menningarsamskipti þangað.  Enn mikilvægara er að hleypa nýju lífi í fyrrum góð samskipti Bandaríkjanna, BNA, og Íslands og að rækta sambandið við Kanada.  Samskiptin við BNA mótuðust að vísu af hernaðarhagsmunum stórveldisins, en opnun siglingaleiða við ísbráðnun, nýting náttúruauðlinda undir hafsbotni, rísandi Rússland og vaxandi upplausn í Evrópu kunna að stuðla að meiri áhuga í Washington á Íslandi, þó að vart verði um hernaðarumsvif að ræða.

Nú hníga öll vötn til Dýrafjarðar.  Þýzkaland ber ægishjálm yfir önnur Evrópulönd á efnahagssviðinu, og sú staðreynd verður stöðugt meira áberandi á stjórnmálasviðinu.  Íslendingar hafa jafnan átt mikil og góð samskipti við hinar þýzkumælandi þjóðir.  Viðskipti á milli landanna hafa verið blómleg, og þangað hafa margir Íslendingar leitað sér menntunar og getið sér gott orð; ekki sízt á sviði verkfræði og raunvísinda.  Þýzkumælandi þjóðir hafa litið til norrænnar menningar með velþóknun frá dögum Napóleóns Bonaparte, sem þær áttu í vök að verjast gegn. Engum vafa er undir orpið, að hagsmunir Íslendinga og hinna þýzkumælandi þjóða fléttast saman í bráð og lengd.  Með þetta í huga ber að vinna að myndun öxulsins Reykjavík-Berlín, sem kann að verða smíðaður úr hágæðaáli.

Mál af þessu tagi þarf að móta af mikilli framsýni, og gösslaragangur í ætt við ESB-umsókn eða framboð til setu í Öryggisráði SÞ á engan veginn við.  Allt var það reist á fúafeni fáfræði og ofvöxnum, en samt vanþroska "egóum".  

Utanríkisstefnuna á að miða við að tryggja frelsi Íslands til langs tíma í stjórnmálum, viðskiptum og menningu.  Að binda trúss sitt um of við einn aðila er of áhættusamt.  Til skemmri tíma á utanríkisstefnuna að miða við sífellda sókn íslenzkra vöru-og þjónustuútflytjenda inn á markaði, sem hagkvæmastir eru á hverjum tíma, og að því að skapa hagsmunatengsl, sem leiða til umtalsverðra og stöðugra erlendra fjárfestinga í framleiðslufyrirtækjum á Íslandi.  

Til að laða að erlent fjármagn er grundvallaratriði að skapa traust fjárfesta til íslenzks stjórnarfars; ekki sízt réttarfarsins.  Prófsteinn nú á réttarfarið er, hvort tekst að ganga á milli bols og höfuðs á fjárglæframönnunum, sem léku þjóðina og erlenda lánadrottna svo grátt á undanförnum árum sem raun ber vitni um.  Ef það tekst má draga þá ályktun, að heiðarleiki sé enn í öndvegi hafður á Íslandi í orði sem á borði.    

  Dem deutschen Volke


Eftirlæti ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórn stöðnunarinnar hangir yfir engu.  Helzt finnur hún sér það til dundurs eftir synjun forseta lýðveldisins á þrælalögunum að snupra hann fyrir ummæli, sem hún heldur, að valdið hafi samdrætti í ferðamannaiðnaðinum.  Skýring samdráttarins er þó önnur en upplýsingar forsetans gefnar í viðtölum við erlenda fjölmiðla.  Skýringin er fólgin í rétt einum herfilegum mistökum embættisbákns Evrópusambandsins, ESB.  Það hafði sett reglu um "zero tolerance" eða stöðvun flugs við minnsta öskustyrk á flugleiðum.  Þessi regla er algerlega út í hött, því að hún stingur í stúf við þol hreyflanna, sem áratuga reynsla er af, og hún er ekki reist á faglegri áhættugreiningu.  Hefði hún farið fram, hefði komið í ljós, að alvanalegt er, að þotur fljúgi í rykmistri frá eyðimörkum, þar sem rykstyrkur er svipaður og öskustyrkur á flugleiðum.  Hættan er mismikil eftir bræðslumarki efnisins og tjón og hætta af völdum stöðvunar mestalls flugs í heilli heimsálfu er svo mikið, að það dregur úr hagvexti heimsins.  

Eftir að vitleysan hafði viðgengizt í viku, flugmálayfirvöldum í einstökum löndum til mikillar gremju, t.d. í Þýzkalandi, var reglunum breytt og viðmið sett við 2000 ug/m3.  Styrkur gosösku frá Eyjafjallajökli fór aldrei yfir þetta viðmið á flugleiðum og var yfirleitt undir 100 ug/m3.

Gos á Fimmvörðuhálsi 2010 017Ferðamenn með bókað flug komust ekki til landsins, og það er eðlilegt, að þeir hætti ekki á að verða tepptir á flugvöllum eða innlyksa á Íslandi, þegar stöðvun flugs vofir yfir.  Regluverk ESB er ekki aðeins misheppnað fyrir sjávarútveginn og fjármálageirann.  Það lamaði Evrópu í kjölfar lítils eldgoss á Íslandi. 

Nú horfum við á upphaf dauðastríðs sameiginlegu myntarinnar, sem er afsprengi stjórnmálamanna og embættismanna ESB, en fær ekki staðizt vegna innbyrðis andstæðna á evrusvæðinu.  Sjaldan er ein báran stök, og ESB siglir nú mjög krappan sjó.  Nýju efnahagshruni er spáð í sumar, og skammvinnt hrun bandarísku verðbréfavísitölunnar í viku 18/2010 vitnar um óvissu markaðarins.  Það kastar tólfunum, að á sama tíma er íslenzka ríkisstjórnin í mjög kostnaðarsömu aðlögunarferli að þessu fyrirbrigði, þar sem aðalhagstjórnarvandamálið nú um stundir herjar, þó að samningaviðræður íslenzku vinstri stjórnarinnar við ESB geti aldrei orðið barn í brók.  Ríkisstjórnin vinnur allt með öfugum klónum og virðist hvorki vita í þennan heim né annan.  Það er engin vitglóra í stefnumörkuninni.  Hún er algerlega úti að aka.

Stjórnmálamenn vinstri flokkanna og vinstri sinnaðir embættismenn horfa löngunar- og öfundaraugum til Brüssel.  Þar er Mekka reglugerðafargans og gagnslítils eftirlitsiðnaðar.  Ráðherrar vingulslegrar vinstri stjórnar telja, að betra sé að veifa röngu tré en öngu.  Þeir eru nú teknir til við að unga út lagafrumvörpum um aukinn eftirlitsiðnað og nýjar eftirlitsstofnanir.  Þetta er eftirlæti forræðishyggjunnar, og þetta er kolröng stefna.  Það má alls ekki auka ríkisbáknið frá því, sem nú er.  Þvert á móti verður að draga verulega úr því, því að það er nú skattborgurunum allt of dýrt miðað við gagnsemina. Umsvif ríkisins verður að skera niður um fjórðung strax og hagkerfið fer að taka við sér að nýju.  Aðeins einkageirinn getur skapað heilbrigðan hafvöxt, og með þessu móti fær hann starfsfólk án þess að valda þenslu á vinnumarkaðinum.  Það er reyndar mjög mikið svigrúm í hagkerfinu fyrir ný störf, því að 26 þúsund mannár hafa tapazt úr athafnalífinu frá Hruninu.  Eftirlitsiðnaðurinn á að vera "lean and mean", þ.e. mjósleginn og grimmur.  

Í stað þess að setja á stofn nýjar stofnanir, sem meira eða minna skara starfsemi þeirra, sem fyrir eru, á að breyta lögum um þær og veita þeim ótakmarkaðar rannsóknarheimildir.  Heiðarlega rekin fyrirtæki og stofnanir hafa ekkert að fela, og litlu breytir fyrir þau, hvort þau eru rannsökuð ofan í kjölinn við úrtaksskoðanir yfirvalda.  Slíkt fyrirkomulag virkar hins vegar mjög fyrirbyggjandi á þá, sem erfitt eiga með að rata veg dyggðanna.  Þessi leið jafngildir ekki útþenslu ríkisbáknsins, og þess vegna fer ríkisstjórnin hana ekki.  Þess í stað hyggst hún fjölga silkihúfum, sem sitja og fægja á sér neglurnar á hlýlegum stöðum, en vinna ekki fyrir kaupinu sínu.  Þetta er jafnaðarmennska andskotans.

Hlálegt dæmi er fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar.  Samkvæmt því á að setja á stofn Fjölmiðlastofu.  Þessi stofnun mun eiga að fylgjast með því, sem matreitt er ofan í landsmenn á prentmiðlum og ljósvakamiðlum, og gæta þess, að hæfilegur skammtur berist frá "norrænu velferðarþjóðfélögunum" af hrútleiðinlegri félagsmálakrufningu.  Hér tröllríður forræðishyggja vinstri-grænna húsum, enda er þetta eftirlætismál menntamálaráðherrans.  Kippist hún til í allar áttir, þegar talið berst að þessu efni.  Öll er þessi stefna stórlega sjúkleg.

Þetta er eins vitlaus útgjaldaaukning á krepputímum og hugsazt getur.  Sem betur fer er unnt að forðast eymdardagskrá RÚV og fylgjast með eðalefni frá Stóra-Bretlandi, Þýzkalandi, Bandaríkjunum og víðar.  Vinstri-grænir væru líklegir til að skipa stóra nefnd til að stoppa í þau göt. 

Handarverk ríkisstjórnarinnar vitna um einstakan aulahátt, þröngsýni, athafnalífs fjandsemi og skaðlega forsjárhyggju.  Afgreiðsla fallins bankakerfis án lýðræðislegrar umræðu í hendur huldumanna og ónefndra vogunarsjóða ásamt síðbúnum aðgerðum með beitingu 18 mánaða gamalla neyðarlaga til yfirtöku sparisjóðanna eru stórfelld fjármálaleg mistök.  Að standa gegn nýrri atvinnusköpun með orkunýtingu er aðför að 17 þúsund atvinnuleysingjum og þúsundum, sem hrakizt hafa úr landi.  Skattahækkanir á fyrirtæki, launþega og sparifjáreigendur hafa dregið allan mátt úr hagkerfinu, svo að það hjakkar nú í sömu förunum án nokkurs hagvaxtar. 

Þetta er hinn beiski kaleikur tærrar vinstri stjórnar.  Dýr lexía hefur kennt landsmönnum, hvað vinstri stefna í stjórnarráðinu hefur í för með sér.  Aldrei aftur vinstri stjórn.    

 

  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband