24.6.2010 | 22:43
Hundshaus
Að setja upp hundshaus er aðalsmerki hinnar verklausu vinstri stjórnar, þegar hún mætir óvæntum atburðum eða andbyr. Hún situr þá með hendur í skauti og lætur sem ekkert hafi gerzt. Þetta gerðist fyrir og efir þjóðaratkvæðagreiðsluna um þrælalög hennar, og þetta gerðist nú eftir uppkvaðningu Hæstaréttardóms um ólögmæti þess að vísitölutengja höfuðstól lána í íslenzkum krónum við myntkörfu. Ríkisstjórnin þóttist fyrirfram vera tilbúin með aðgerð í kjölfar dóms, en sennilega hefur þar verið rétt einn óvitaskapurinn á ferðinni, sem hún heyktist á. Axarsköpt þessara furðufugla eru "legio".
Hin furðulega staða hefur síðan myndazt, að efnahags-og viðskiptaráðherra fær hland fyrir hjartað af tilhugsuninni um, að hinn sakfelldi taki út fulla refsingu. Algilt hefur þó hingað til verið, að einu gildi, þótt einhver telji þann dæmda ekki hafa efni á að greiða refsinguna; sá seki verður samt að standa skil á refsingu samkvæmt dómi. Hið sama á auðvitað að gilda um lánastofnanir, sem frömdu hinn refsiverða verknað og höfðu í mörgum tilvikum í frammi gylliboð og fullyrðingar um, að áhætta lánþega og lánveitanda væri svipuð. Rangsleitni ráðherrans ríður ekki við einteyming.
Vegna hringlandaháttar ríkisstjórnarinnar er nú komin upp óvissustaða um túlkun á skýrum Hæstaréttardómi. Fyrrverandi Hæstaréttardómari, Magnús Thoroddsen, telur þó engum vafa undir orpið, að þessi gjörningur lánastofnana sé ólöglegur og að hafa verði í huga, hver hafi verið ríkjandi aðili í þessum viðskiptum. Auðvitað verður sá aðili að bera tjónið.
Þá kemur gamli, þurftarfreki Trotzky-istinn í Seðlabankanum til skjalanna og fullyrðir, að þetta muni hafa neikvæð áhrif á þjóðarhag, sliga bankana og hamla viðreisn. Það er með ólíkindum, að seðlabankastjóri skuli reyna að grafa undan gildi Hæstaréttardóms og jafnvel verða valdur að ótta fólks um innistæður sínar með slíku tali. Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaust hjal hjá Trotzky-istanum gamla og algerlega órökstutt og stenzt ekki skoðun.
Samkvæmt athugun, sem Pétur Blöndal, tryggingastærðfræðingur og Alþingismaður hefur gert og tjáð sig um á sjónvarpsstöðinni ÍNN, hafa bankarnir burði til þess arna, a.m.k. ef annað heldur. Það er tóm vitleysa hjá efnahags-og viðskiptaráðherra, að Hæstiréttur þurfi að dæma um, hvaða vexti téð lán eigi að bera. Í dómi Hæstaréttar er ekki minnzt á vexti, aðeins höfuðstól; þess vegna skulu vextir verða óbreyttir fram að uppkvaðningu dóms varðandi skuldabréf, sem sambærileg eru þeim, sem dómurinn fjallaði um.
Hins vegar er ríkisstjórninni í lófa lagið að kalla Alþingi saman strax til að ræða það, hvaða vexti þessi lán eigi að bera frá uppkvaðningu dóms, eða gildistöku slíkra laga, og jafnframt, að lántaka verði þá í lófa lagið að binda endi á lánssamninginn og greiða upp lánið samkvæmt dómi Hæstaréttar.
Ríkisstjórninni hugkvæmist ekki að höggva á hnútinn, sem flækjufætur bankavaldsins hnýta. Ríkisstjórnin getur aldrei neitt annað en flækzt fyrir þjóðþrifamálum og stundað gæluverkefnadekur. Vandamálum er mætt með hundshaus. Hún er stjórn aðgerðaleysis, þegar hæst á að hóa.
Alvarlegustu gæluverkefnin eru úr smiðju afdankaðrar sameignarstefnu og er beint að stjórnarskráarvörðum rétti - sjálfum eignarréttinum.
Bent var á dæmi um þetta í grein í Morgunblaðinu um sólstöður 2010, "Um eignarrétt á vatni", eftir formann Landssambands veiðifélaga og formann Landssamtaka landeigenda á Íslandi. Þar var bent á þá hégilju þingmanna Samfylkingar og vinstri-grænna, að hætta væri á, að vatnsforði Íslendinga kæmist í hendur útlendinga og að landsmenn kynnu að þurfa að kaupa vatn af erlendum auðhringjum. Hér er um glórulausan áróður vinstri flokkanna að ræða. Um 3/4 vatnsforðans á Íslandi er nú á höndum ríkisins, og um 1/4 eru háður nýtingarrétti, sem fylgja landeign eða fasteign.
Sameignarsinnar undirbúa nú aðför að þessum einkaeignarrétti, sem er jafngamall Grágás. Þeir reyna að fegra yfirganginn með blaðri um "þjóðareign", en þjóðin er ekki lögaðili, svo að sá fagurgali gengur ekki upp. Þetta ógæfulega gæluverkefni aðdáenda Karls, gamla, Marx er þó hjóm eitt hjá hinum þjóðhættulegu hugmyndum sameignarsinna um "fyrningu aflaheimilda".
Prófessor Ragnar Árnason hefur með glöggum hætti sýnt fram á, að "fyrning aflaheimilda" mun leiða til efnahagshruns á Íslandi, því að hún mun leiða til gjaldþrots útvegsins, sem bankarnir munu ekki geta staðið af sér. Gangi Ísland í ESB, sem sömu aðilar róa öllum árum að, munu veiðiheimildarnar hafna hjá erlendum útgerðum, segir Ragnar. Var þessari fáránlegustu og skaðlegustu hagstjórnarhugmynd síðari tíma plantað í höfuð Samfylkingarinnar af ríkisstyrktri útgerð í Evrópu ?
Kenning Ragnars er sú, að í hugarheimi sameignarsinnans ríki algert skilningsleysi á hagfræðilegum "lögmálum". Hann skilji ekki, að sjálfur einkaeignarrétturinn knýr kerfið áfram og er sjálf undirstaða verðmætasköpunarinnar og arðsemi greinarinnar. Innköllun aflaheimilda jafnast á við stórfellda skattlagningu, sem strax mun eyðileggja arðsemi fyrirtækjanna og rýra verðgildi þeirra hrapallega. Vanhugsuð jafnaðarmennska undir áróðursheitinu "kvótann í þjóðareign" getur hæglega gert út af við efnahagslegt og þar með stjórnmálalegt sjálfstæði landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2010 | 23:28
Úr Dýrafirði
Aldrei hefur nokkur forsætisráðherra fallið á Íslandssögu á sjálfan þjóðhátíðardaginn fyrr en auðvitað forystusauður hinnar fyrstu tæru vinstri stjórnar Íslandssögunnar þann 17. júní 2010 á Austurvelli. Að geta ekki farið rétt með fæðingarstað sjálfstæðishetju Íslendinga, Jóns Sigurðssonar, forseta, hið fornfræga höfðingjasetur Hrafnseyri við Arnarfjörð, vitnar um djúpstæða vanþekkingu forsætisráðherra og aðstoðarmanna hennar í Stjórnarráðinu á sögu þjóðarinnar.
Þessi atburður sýnir jafnframt, hversu fáfróða og yfirborðskennda aðstoðarmenn forsætisráðherrann hefur valið sér. Hún hefur það e.t.v. sér til málsbóta í þessu tilviki, að hún meini aldrei neitt með því, sem hún lætur út úr sér; það sé annaðhvort lýðskrum eða lygi.
Hátíðarræða forsætisráðherra einkenndist af innihaldslausu blaðri, en stórmál lágu óbætt hjá garði. Hún hrósaði sunnlenzku bændfólki réttilega, en sýndi hún því einhvern samhug í verki, þegar mest á reyndi í öskufallinu ? Markaði hún einhverja stefnu ríkisvaldsins í kjölfar nýfallins dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána ? Nei. Hún ræddi heldur ekkert um það hneyksli, sem málsmeðferð utanríkisráðherra á umsókn ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB er orðin. Að hinn kjaftgleiði utanríkisráðherra Íslands skuli hafa móðgað meirihluta landsmanna með því að róa að því öllum árum að leiðtogaráð ESB fjallaði um umsókn Íslands á þjóðhátíðardegi landsins verður í minnum haft. Með bolabrögðum virðist eiga að hindra umfjöllun Alþingis um þingsályktunartillögu Unnar Bráar Konráðsdóttur, þingmanns Sunnlendinga, um afturköllun umsóknarinnar. Það eru gjörbreyttar forsendur frá 16. júlí 2009 innanlands og utan, þannig að Alþingi ber að fjalla núna um málið og staðfesta eða afturkalla umsóknina. Alls konar óaðgengileg skilyrði ESB fyrir samningaviðræðum eru nú að koma fram.
Sami veruleikafirrti utanríkisráðherrann er nú tekinn til við að bera víurnar í borgaralegu flokkana á þingi um myndun þjóðstjórnar. Sú hugdetta hans er andvana fædd, því að Samfylkingin er óstjórntæk; hún er eins máls flokkur, sem nú gengur með steinbarn í maganum. Borgaralegu flokkarnir eiga ekki að reyna að blása lífi í liðið lík. Það verður að fækka verulega gaddfreðnum afturhaldsseggjum á þingi áður en næsta ríkisstjórn verður mynduð, svo að von verði um vitræna viðreisn.
Vinstri stjórnin hefur glatað stuðningi verkalýðshreyfingarinnar. ASÍ hefur formlega losað sig undan aðild að "Stöðugleikasamkomulaginu" vegna svika ríkisstjórnarinnar. Vinstri flokkarnir hafa engin raunveruleg tengsl lengur við verkalýðshreyfinguna. Haldreipi þeirra eru svo kallaðar kjaftastéttir þjóðfélagsins, fjölmiðlungar ýmiss konar, félagsfræðingar, kennarar og stjórnmálafræðingar. Hinar svo kölluðu vinnandi stéttir þjóðfélagsins, sem eru hryggjarstykkið í einkageiranum, sem heldur þessu þjóðfélagi uppi, eiga ekki málsvara í vinstri flokkunum. Áhugaleysi, getuleysi og beinn fjandskapur og andróður vinstri flokkanna við nýja atvinnusköpun er til vitnis um þetta. Hinar vinnandi stéttir þessa lands eiga samleið með borgaralegu öflunum. Stétt með stétt er gott og gilt einkunnarorð úr þeim herbúðum.
Með því að segja "pass" við dómi Hæstaréttar um ólögmæti gengisviðmiðunar lánasamninga, bítur ríkisstjórnin endanlega höfuðið af skömminni. Fjármálastofnanirnar, þ.á.m. ríkisstofnanir, eru hvumsa og vita ekki í hvora löppina þær eiga að stíga. Efnahags-og viðskiptaráðherra gumaði af því fyrir uppkvaðningu, að ríkisstjórnin væri tilbúin með útspil á hvorn veginn, sem dómurinn félli. Það reyndust innantóm orð og eigi hið fyrsta sinni. Bankar eru farnir að tala um, að reikna eigi afturvirkt með óverðtryggðum vöxtum, sem Seðlabanki Íslands gefur út. Það er algerlega úr lausu lofti gripið og styðst engan veginn við dóminn. Bankar hafa enga heimild til að breyta vaxtakjörum lánasamninganna einhliða. Ef eitthvert bein væri í nefi ríkisstjórnarinnar, mundi hún kveða upp úr um þetta, og Alþingi mundi væntanlega staðfesta með lögum. Þrætubókarmenn ætla að gera einfalt mál flókið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2010 | 19:52
Stórveldi leitar hófanna
Þann 9. júní 2010 varð allnokkur opinber atburður, kyrfilega sviðsettur. Fulltrúi í stjórnmálaráði miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins var hér með 80 manna fylgd í boði utanríkisráðherra Íslands. Hinn þurftarfreki gamli Trotzky-isti skrifaði undir gjaldeyrisskiptasamning fyrir hönd Seðlabanka Íslands við seðlabanka Kína. Óvíst er, hvaða ávinningur er fólginn í þessum samningi fyrir Ísland, en hins vegar er ljóst, að slíkur samningur getur orðið forleikur að lánalínu og lántökum.
Þá skrifaði hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar undir viljayfirlýsingu um fjármögnun Búðarhálsvirkjunar gegn því, að kínverskt verktakafyrirtæki, CWE, öðlist forgang að verkefninu.
Þessum gjörningi hefur verið leikstýrt út iðnaðarráðuneytinu, en dáðleysi og ákvarðanafælni hafa einkennt feril ráðherra Samfylkingarinnar, sem þar situr nú að völdum. Nú gæti hins vegar svo farið, að hún skildi eftir sig sviðna jörð.
Óþarfi er að taka fram, að gjörningar af þessu tagi eru óhugsandi alls staðar annars staðar innan "Festung Europa" eða á Innri markaði Evrópu.
Ljóst er, að Kínverjar hafa gert langtíma áætlun um að öðlast ítök á Íslandi. Kínverskir stjórnmálamenn og embættismenn hugsa ekki í kjörtímabilum, heldur í mannsöldrum. Utanríkisstefna Kínverja er heimsvaldastefna í þeim skilningi, að þeir leggja áherzlu á að ná tökum á auðlindum jarðar, vinna þær úr jörðu eða framleiða landbúnaðarvörur og senda hráefni til Kína til frekari úrvinnslu. Þessi hegðun þeirra er afar áberandi í Afríku, þar sem þeir hafa t.d. keypt mikið land til námugraftrar og landbúnaðar, en þeir láta líka að sér kveða í Suður-Ameríku. Nú stunda 40 % íbúa Rauða-Kína landbúnaðarstörf, en áætlað er að þeim fækki í 24 % á næstu 10 árum. Framleiðni er lág, og Kínverjar óttast matvælaskort, sem gæti valdið miklum innanlandsóróa.
Hvað fyrir þeim vakir hérlendis, er ekki ljóst. Langtíma markmiðið kann að vera að ná tökum á matvælaframleiðslu landsins, en til skemmri tíma beinist áhuginn að orkulindunum og nýtingu þeirra. Í þessu sambandi er vert að minnast, að siglingaleiðin á milli Íslands og Kína mun styttast umtalsvert, þegar norðurleiðin opnast, sem talið er muni verða á þessum áratug. Aðgengi að auðlindum á sjávarbotni, iðnvæðing Íslands og tenging Íslands við markaði ESB kunna og að vekja áhuga þeirra.
Viljayfirlýsingin, sem hinn nýbakaði forstjóri Landsvirkjunar undirritaði, er með algerum ólíkindum og fullkomin fásinna. Yfirlýsingin hlýtur að hafa verið samþykkt af stjórn Landsvirkjunar og er þar með á ábyrgð iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sem Samfylkingin ber stjórnmálalega ábyrgð á. Þessum ráðherra virðist engan veginn vera sjálfrátt og ómögulegt að sjá, hvaða erindi hún á í ráðherrastól, jafngagnslítil og hún hefur reynzt. Afskipti Samfylkingarinnar af orku-og iðnaðarmálum landsins eru ein samfelld hrakfallasaga. Er skemmst að minnast fáránlegs úrskurðar Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, um sameiginlegt umhverfismat allra tengdra framkvæmda álveri Alcoa á Bakka við Húsavík. Hefði sá biðleikur ekki verið leikinn, væri öðru vísi umhorfs á atvinnumarkaðinum á Íslandi nú um stundir, og um 100 milljarðar króna í vændum í auknum útflutningstekjum. Dýrir ætla sameignarsinnarnir í Stjórnarráðinu að verða landsmönnum, og mun hið fyrra hrunið verða barnaleikur hjá sjálfskaparvítum vinstri flokkanna við völd.
Þetta síðasta útspil Samfylkingarinnar í orkumálum tekur þó út yfir allan þjófabálk. Verkalýðshreyfingin (ASÍ)hefur fordæmt verknaðinn, og skal taka heils hugar undir þá fordæmingu. Segja má, að betra er heima setið en af stað farið, ef virkja á með kínversku vinnuafli á meðan yfir 20 þúsund Íslendingar hafa ekki vinnu við hæfi. Kínverja má ekki ráða hér til vinnu, ef vinnuafl fæst á Innri markaðinum. Þetta er "Festung Europa".
Kínverjar unnu hér við Kárahnjúkavirkjun og ber ekki að vanþakka framlag þeirra þar, en þá ríkti efnahagsþensla, og ekki fékkst nægt vinnuafl á Innri markaði EES. Þetta er ófrávíkjanleg forgangsregla hins Innra markaðar og með algerum ólíkindum, að ríkisstjórnin hætti nú á hörð viðbrögð frá Evrópu og víðar, þegar okkur ríður á að bæta samskiptin við þessar þjóðir án þess að leggjast þó í duftið og sleikja skósóla "Brüssel-búrókrata", eins og utanríkisráðherra er tamt.
Það verður ekki á Samfylkinguna logið. Ísland er innan "Festung Europa" með kostum þess og göllum, og ESB mun ekki líða það, að kínverskt vinnuafl njóti réttinda til vinnu á Íslandi umfram vinnuafl á innri markaði EES. Þegar horft er til þess með hvaða hætti þessi forréttindi skapast, er ljóst, að gjörningurinn er þar að auki brot á samkeppnireglum Innri markaðarins, þar sem einu fyrirtæki er keyptur aðgangur að verki með lánveitingu eða fjármögnun hins opinbera í viðkomandi landi (Kína) til verkkaupans.
Hér er satt að segja um alveg glórulausan gjörning að ræða og heimskulegan í alla staði. Gjörningurinn, sem viljayfirlýsingin fjallar um, stenzt ekki einfaldasta próf á sviði tilskipana og laga ESB að ekki sé nú minnzt á íslenzk lög og reglur.
Téð viljayfirlýsing er svo vitlaus, að með ólíkindum er, að nokkur hérlandsmaður skyldi ljá nafn sitt við hana. Hún mun þar að auki skaða okkur erlendis, bæði vestan hafs og austan, þar sem menn gjalda mikinn varhuga við ásókn kínverska stórveldisins.
Íslenzka ríkisstjórnin er hins vegar þeirrar gerðar um þessar mundir, að hún telur sér alla viðhlæjendur vini. Allt vitnar þetta mál um ótrúlega skammsýni, þekkingarleysi og dómgreindarleysi, þ.e. óhæfni vinstri stjórnarinnar og trúnaðarmanna hennar. Kostnaðurinn af afglöpum, úrræðaleysi og fordómum vinstri stjórnarinnar er svo hár, að þjóðin hefur ekki lengur efni á, að hún hangi hálfdauð við völd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2010 | 23:22
Að ná vopnum sínum
Merkasta niðurstaða nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga er, að það sannaðist, að Sjálfstæðisflokkurinn er að ná vopnum sínum. Fylgi hans nú varð að vísu minna en í sveitarstjórnarkosningunum 2006, en meira en í þingkosningunum 2009. Þetta sýnir, að hann er á leið upp úr öldudalnum og skyldi engan undra m.v. það, sem í boði er fyrir kjósendur. Að frambjóðendur flokksins til sveitarstjórna skuli á landsvísu ná u.þ.b. 35 % fylgi eftir það, sem á undan er gengið, veitir von um, að næstu þingkosningar muni færa flokkinum fylgi yfir 40 %, eins og hann naut á sínum beztu stundum.
Ríkisstjórnarflokkarnir guldu afhroð, og töpuðu t.d. hvor um sig um 12 þúsund atkvæðum í Reykjavík. Hækja Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingin grænt framboð, galt reyndar afhroð um allt land, og Samfylkingin er á hraðri niðurleið.
Stjórnleysingjarnir, sem unnu sigur í höfuðborginni með tilstyrk fjölmiðlunga, sáu sér strax leik á borði að leggja upp í Dag B. Eggertsson, varaformann, Samfylkingarinnar, sem ella hefði strax hrökklazt út úr stjórnmálum. Hinn fádæma loðmullulegi og þokulegi Dagur, sem er alræmdur af ákvarðanafælni sinni, rak misheppnaða kosningabaráttu og rak þar nagla í líkkistu síns stjórnmálaferils. Stjórnleysingjarnir munu hafa hann og flokk hans að háði og spotti, gera hann að hirðfífli sínu og binda enda á stjórnmálaferil hans. Fíflagangurinn í kringum Bezta flokkinn, sem er allra flokka leiðinlegastur, er rétt að hefjast.
Þetta eru aðrar kosningar ársins 2010, þar sem þjóðin lýsir yfir fullkomnu vantrausti á vinstri flokkana. Þeir hafa reyndar virzt vera sem lamaðar flugur eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um synjun forseta lýðveldisins um staðfestingu á þrælalögum Steingríms Jóhanns, fjármálaráðherranefnu. Ekki er ósennilegt, að halda þurfi haustkosningar á þessu ári, því að landið er stjórnlaust.
Nú ætlar ríkisstjórnin að senda Alþingi heim eftir fáeina daga. Þingmenn eiga ekki að láta bjóða sér þetta. Þeir eru að ræða mikilvæg mál, eins og skjaldborg um heimilin, sem ríkisstjórnin hefur með hálfkáki sínu breytt í tjaldborg heimilanna. Fjöldi fólks og fyrirtækja verður gjaldþrota í haust, ef ekkert verður að gert. Þá mun ríða yfir hið seinna hrunið, sem verður algert sjálfskaparvíti volaðrar og verklausrar vinstri ríkisstjórnar. Það er þess vegna nauðsynlegt að flýta skapadægri hennar eins og kostur er. Hún hefur svikið samninga sína við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur; hún hefur svikið kjósendur sína og landslýð allan með þjónkun sinni við ESB og undirlægjuhætti við Breta og Hollendinga í Icesave-málinu. Frumvarp hennar um fjármálastofnanir er örverpi og tekur ekki á neinum málum af viti; t.d. er ekki kveðið á um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Þá grefur ríkisstjórnin undan öryggi innistæðueigenda, en hyglir skuldabréfaeigendum. Ríkisstjórnin er trausti rúin innanlands sem utan, þreklaus og getulaus, og það á að kippa undan henni fjölunum hið fyrsta.
Engin leiðsögn er veitt að hálfu valdhafanna, og enginn veit, hvert stefnt er. Verkstjórnin á Alþingi er í skötulíki, og þannig hefur þjóðin ekki efni á að halda áfram. Ríkisstjórnin lafir á eiginn ótta við kosningar og sjúklegri Þórðargleði yfir því að geta haldið borgaralegum öflum frá landsstjórninni og þar með flækzt fyrir raunverulegri viðreisn hagkerfisins.
Vinstri flokkarnir hafa kennt Sjálfstæðisflokkinum um Hrunið. Svo heimskuleg ásökun að kenna einum stjórnmálaflokki um hrun fjármálakerfis eins lands þekkist hvergi á byggðu bóli og fær engan veginn staðizt, enda var Sjálfstæðisflokkurinn aldrei einráður hér. Ef einum aðila er um að kenna, er það meingölluð tilskipun ESB um erlenda banka og bankaútibú erlendis ásamt aðild Íslands að innri markaði EES. Án þessarar aðildar hefðu bankarnir ekki náð að vaxa hér eins og krabbameinsæxli. Sjálfstæðisflokkurinn vildi dreifða eignaraðild bankanna, en Framsóknarflokkurinn með bankamálaráðherrann og Samfylkingin með stóran þingflokk vildu kjölfestufjárfesta. Það fór sem fór, og vítin eru til þess að varast þau.Þetta þýðir þó ekki, að lausnin sé einangrunarstefna. Lausnin er að virkja allar vinnufúsar hendur og efla Ísland sem framleiðslusamfélag fyrir útflutningsvörur sóttar úr hafinu og til íslenzkrar náttúru og orkulinda. Mun þá hagur strympu skjótt skána og betri dagar birtast með blóm í haga. Þannig losnum við úr erlendum skuldafjötrum og gjaldmiðillinn mun hjarna við, e.t.v. með svo nefndu myntráði, sem gefizt hefur t.d. Eistlendingum vel.
Hagvöxtur á heimsvísu er að ná sér eftir fyrra hrunið með hagvöxt upp á 4 % að jafnaði, en honum er afar misskipt. Eignabóla er nú í Kína og þar af leiðandi vaxandi verðbólga. Eignabólu verður að hemja til að hindra hrun hagkerfisins, en líklegt er, að verðbólgan hafi nú meira fóður í Kína en við verði ráðið. Hagkerfi Evrópu er í ömurlegu ástandi og nýting vinnuafls bágborin, sem endurspeglast í 10 %-30 % atvinnuleysi.
Þungbærastar eru skuldir ríkissjóðanna, sem ríkisstjórnirnar lögðu á þá til að bjarga bönkunum. Þær munu míga í skóinn sinn með því að prenta peninga, sem verður verðbólguvaldur. Hérlendis var það lán í óláni, að ríkið hafði ekki burði til að bjarga úttútnuðu bankakerfi. Hins vegar er skuldasöfnun vinstri stjórnarinnar svo geigvænleg, að hratt stefnir í erlenda skuldasúpu ríkisins yfir 100 % af VLF, en fjárhagshætta hefst við 60 %. Ríkisstjórnin er þjóðhættuleg, af því að hún flýtur sofandi að feigðarósi. Alþingi þarf þess vegna að losa þjóðina við þessa óværu hið allra fyrsta og boða þarf til þingkosninga. Þar munu þingflokkar ríkisstjórnarinnar fá makleg málagjöld og þingmenn þeirra týna tölunni niður í e.t.v. fimmtung þingliðs, en kjósendur halla sér að borgaralegum öflum og e.t.v. stjórnleysingjum um sinn.
Þegar pappírstígrisdýrum ríkisforsjárhyggju, sem sífellt mála skrattann á vegginn og sjá fjandann í hverju horni í stað tækifæranna, sem við blasa, hefur verið rutt úr vegi, mun athafnalífið á ný taka að ráða til sín fólk, og atvinnuleysinu verður útrýmt. Þetta verður ekki gert með því að fá ísbjörn í Húsdýragarðinn, enda varðar það við dýraverndunarlög að pína dýr við svo óeðlilegar aðstæður. Eftirfarandi er hins vegar bæði nauðsynlegt og nægjanlegt til að koma hjólum efnahagslífsins í gang:
- afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar
- afnema öll höft á athafnalíf og fjármagnsflæði
- fella Fjármálaeftirlitið undir Seðlabankann og setja honum hagvaxtarmarkmið í stað verðbólgumarkmiða. Þar með lækkar hann vextina.
- endurskipuleggja fjármálakerfi landsins, þannig að það þjóni fyrirtækjum og heimilum landsins sem bezt, en ríkið lágmarki vaxtagreiðslur sínar til erlendra fjármagnseigenda.
- laða erlenda fjárfesta að íslenzku athafnalífi í miklum mæli og vinna gegn áhrifum ábyrgðarleysis fjármálaráðherra vinstri stjórnarinnar, sem lýsir sér í orðum hans: "you ain´t seen nothing yet".
- eyða ótta sjómanna og útgerðarmanna með kistulagningu áforma um þjóðnýtingu aflaheimilda, og leggja grunn að nýju framfaraskeiði íslenzks sjávarútvegs með áframhaldandi tæknivæðingu og framleiðniaukningu hans.
- hætta við auðlindagjald á sjávarútveginn þar til auðlindarentan finnst þar
- falla umsvifalaust frá öllu flaðri upp um pótintáta Brüsselvaldsins og afturkalla með ákvörðun Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu hina lánlausu umsókn ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB.
- hefja "Icesave" málið upp á forsætisráðherrastig, þegar Ísland hefur eignazt forsætisráðherra, sem bæði getur og vill berjast fyrir land sitt. Þannig voru landhelgisstríðin leidd til lykta. Samningurinn verði lagður fyrir þing og þjóð.
- hætta stórhættulegum niðurskurði heilbrigðisgeirans, en spara hinu opinbera fé með einkavæðingu, sjálfseignarstofnunum og samkeppni í þessum geira, sem bæti gæði þjónustunnar við almenning.
- ýta undir einkarekna skóla til að bæta menntunarstig í landinu, sem er nú svo lélegt, að fjöldi nemenda út úr grunnskóla er ótalandi og óskrifandi á móðurmálinu, hvað þá á öðrum tungum.
- koma á persónukjöri til Alþingis, svo að gullgrísir geti ekki smyglað sé upp eftir listum flokkanna í öruggt skjól í krafti gjafa og styrkja, sem gera stjórnmálamenn í raun að mútuþegum.
Aldrei aftur vinstri stjórn !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)