24.6.2025 | 14:55
Evrópa á tímamótum
Evrópa stendur nú skyndilega frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd að geta ekki lengur reitt sig á hernaðarlegan stuðning Bandaríkjanna, ef ráðizt verður á eitthvert NATO-land. Þar af leiðandi er hafin hervæðing í Evrópu, sem sumpart beinist að því að styrkja Úkraínuher og sumpart að eflingu eigin hers. Þetta mun hafa mikla útgjaldaaukningu ríkissjóða í för með sér, enda ætla NATO-ríkin að stefna að 5,0 % af VLF til hernaðartengdra mála, 3,5 % til að efla herina sjálfa og 1,5 % til innviða tengdra landvörnum.
Hvernig ætlar ríkisstjórn Íslands að verða við þessum gríðarlegu kröfum ? Það verður tæpast liðið öllu lengur, að eitt ríkasta land Evrópu sé stikk frí, þegar kemur að eflingu varna Evrópu. Sú starfsemi á Íslandi, sem næst kemst hernaði, þótt hún sé það alls ekki, Landhelgisgæzlan og Víkingasveitin, er fjársvelt. Skattfé verður væntanlega ekki vel varið með því að stofna íslenzkan her, en það þarf að halda utan um það fé, sem varið er til varnarmála með miðlægum hætti, svo að hægt sé að gefa NATO trúverðugar upplýsingar um fjárveitingarnar. Innviðirnir, sem flokka má til varnarmála, eru væntanlega aðallega flugvellir, hafnir og vegir. Allir þessir þættir eru nú sveltir, svo að veruleg útgjöld ríkisins virðast nú framundan, ef landinu á að verða vært í NATO.
Núverandi ríkisstjórn virðist ekkert vita, hvað hún er að gera verðmætasköpun, samkeppnishæfni og opinberum tekjum, þegar hún dembir miklum kostnaðarauka á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Henni er þess vegna ekki treystandi til að standa undir þeim mikla útgjaldaauka, sem hér um ræðir, af einhverju viti. Landinu er ekki stjórnað af heilbrigðri skynsemi til að hámarka verðmætasköpun, heldur af gömlum fordómum í garð ákveðinnar starfsemi og skilningsleysi á hagfræðilegum hugtökum á borð við auðlindarentu, sem forsætisráðherra segir markast af "huglægu mati", sem er kolrangt mat hjá henni.
Þann 3. desember 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Kenneth Rogoff, prófessor í hagfræði við Harvard-háskóla, undir fyrirsögninni:
"Efnahagur Evrópu er að staðna".
"Er efnahagsleg stöðnun í Evrópu afleiðing ófullnægjandi keynesískra efnahagshvata, eða er þrútnun og hnignandi velferðarkerfum um að kenna ? Í öllu falli er ljóst, að þeir, sem trúa því, að einfaldar aðgerðir, eins og að auka fjárlagahalla eða lækka vexti, geti leyst vandamál Evrópu, eru raunveruleikafirrtir.
T.d. hefur ágeng örvunarstefna Frakklands þegar þrýst fjárlagahallanum upp í 6 % af landsframleiðslu, og skuldahlutfall landsins hefur farið úr 95 % árið 2015 í 112 %. Árið 2023 stóð Emmanuel Macron, forseti, frammi fyrir víðtækum mótmælum vegna ákvörðunar sinnar um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 64 - en þótt sú ráðstöfun væri þýðingarmikil, dugði hún skammt til að mæta áskorunum í ríkisfjármálum. Eins og Christine Lagarde, forseti Seðlabanka Evrópu, varaði nýlega við, eru efnahagsmál franska ríkisins á ósjálfbærri vegferð, ef ekki verða gerðar víðtækar umbætur."
Þetta er ekki dæmigerð lýsing fyrir ESB-löndin, heldur er Frakkland óvenju djúpt sokkið í skuldafen vegna ofþenslu ríkisbáknsins. Hins vegar gefur þetta til kynna veikleika Evrópusambandsins-ESB, sem er grafalvarlegt á viðsjárverðum tíma í Evrópu, þar sem Bandaríkjaforseti sýnir henni kuldalegt þel og hefur hótað að verja hana ekki, verði á hana ráðizt, og Pútín, Rússlandsforseti, stendur blóðugur upp að öxlum í stríði við Úkraínumenn og beitir þar ótrúlega lúalegum brögðum á borð við eiturefnaárásir og eldflauga- og drónaárásir á íbúðarhús og barnaheimili.
"Þar sem búizt er við, að raunvextir á háþróuðum ríkisskuldum verði áfram háir - nema kreppa gangi í garð - getur Frakkland ekki einfaldlega klórað sig út úr skulda- og lífeyrisvandamálum með hagvexti. Þess í stað mun þung skuldabyrði landsins nánast örugglega skerða langtímahorfur í efnahagsmálum. Árin 2010 og 2012 birtum við Carmen M. Reinhart 2 greinar, þar sem við héldum því fram, að óhóflegar skuldir væru skaðlegar hagvexti. Syfjuleg og skuldsett hagkerfi Evrópu eru gott dæmi um þetta, eins og rannsóknir hafa síðan sýnt fram á. Þung skuldabyrði hindrar hagvöxt með því að takmarka getu ríkisstjórna til að bregðast við samdrætti og kreppu. Þar sem hlutfall skulda af landsframleiðslu er aðeins 63 %, hefur Þýzkaland nægt svigrúm til að hressa upp á brakandi innviði sína og bæta menntakerfi sitt, sem er ekki að skora hátt."
Þetta er óbjörguleg lýsing á Evrópu nútímans, sem nú stendur á tímamótum. Bandaríkin eru hætt stuðningi sínum við Úkraínu, sem berst fyrir tilveru sinni. Sá lúalegi gjörningur verður lengi í minnum hafður, enda stílbrot á stefnu Bandaríkjamanna um að verja lýðræðisþjóðir og sjálfsákvörðunarrétt þeirra, þegar hart er að þeim sótt af heimsvaldasinnuðum einræðisríkjum. Smjaður og undirlægjuháttur Bandaríkjaforsetans Trumps gagnvart Rússlandsforsetanum Pútín er blaut tuska í andlit flestra forystumanna Evrópuríkjanna. Úr því að Bandaríkjaþing ekki stöðvar þessa ósvinnu, er Bandaríkjunum héðan af ekki treystandi. Ísraelsmenn treystu ekki Bandaríkjastjórn fyrirfram fyrir upplýsingum um 200 flugvéla loftárás sína á Íran aðfararnótt 13. júní 2025 af ótta við, að upplýsingarnar lækju til Kremlverja, bandamanna Írana. Þetta ástand er algerlega óeðlilegt og óviðunandi.
Við þessar örlagaríku aðstæður rísa Þjóðverjar upp og hlaupa í skarð Bandaríkjamanna í stuðningi við Úkraínumenn. Í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu var hlutfallið á milli fjölda sprengikúlna rússneska og úkraínska hersins 10:1, en er nú 2:1 og fer minnkandi. Rheinmetall hefur tífaldað framleiðslu sína á sprengikúlum á 3 árum.
Efnahagur Þjóðverja er ótrúlega öflugur. Þeir hafa losað sig úr viðjum rússneskrar orkuafhendingar og við það a.m.k. tvöfaldaðist orkukostnaður heimila og fyrirtækja. Nú eru þeir að umbylta Bundeswehr og halda Úkraínu uppi fjárhagslega og hernaðarlega. Rússar senda hverja bylgjuna á fætur annarri af illa þjálfuðum og illa búnum hermönnum út í opinn dauðann án þess að verða nokkuð ágengt. Loftvarnir Úkraínumanna fara batnandi, þótt enn sleppi of mikið í gegn. Má þar nefna IRIS-T þýzka skammdræga loftvarnakerfið, sem þegar hefur gert mikið gagn. Þá eflist úkraínskur vopnaiðnaður með hverjum mánuðinum, og eru t.d. nú jafngildi þýzku Taurus-flauganna í fjöldaframleiðslu. Bundnar eru vonir við úkraínska gagnsókn á 4. ársfjórðungi 2025.
"Mitt í þessu pólitíska umróti glímir Þýzkaland við vaxandi áskoranir, sem ógna stöðu þess sem efnahagslegs stórveldis Evrópu. Þar sem stríðið í Úkraínu heldur áfram að draga úr trausti fjárfesta, hefur þýzkur iðnaður enn ekki náð sér á strik, eftir að hætt var að flytja inn ódýra rússneska orkugjafa. Á sama tíma hefur bílaiðnaðurinn verið eftirbátur erlendra keppinauta í skiptum frá bensínknúnum bílum yfir í rafbíla og útflutningur til Kína - þar sem hagkerfið er einnig í hnignun - hefur dregizt verulega saman."
Við þessar aðstæður hefur þýzki ríkissjóðurinn aukið skuldsetningu sína, enda nýtur hann beztu kjara. Friedrich Merz losaði um skuldabremsuna, enda liggur nú mikið við. Framtíð Evrópu er í húfi. Evrópuleiðtogar ætla ekki að leggja örlög hennar í hendur Trumps. Evrópa er nú fjárhagslegur og hernaðarlegur bakhjarl Úkraínu. Úkraínumenn sýna mikla sköpunargleði í hernaðinum gegn innrásarlandinu og hergagnaiðnaðinum, sem Evrópa hefur eflt mjög.
"Þó að flest önnur evrópsk hagkerfi [en það þýzka-innsk.BJo] standi frammi fyrir svipuðum áskorunum, gæti Ítalía staðið sig aðeins betur með Giorgiu Meloni sem forsætisráðherra - en færa má rök fyrir því, að hún sé áhrifaríkasti leiðtogi álfunnar. Spánn og nokkur smærri hagkerfi, sérstaklega Pólland, gætu fyllt upp í tómarúmið, sem Þýzkaland og Frakkland skilja eftir sig. En þau geta ekki að fullu vegið upp á móti slæmu ástandi efnahagslegu stórveldanna tveggja innan ESB."
Eftir að Friedrich Merz tók við kanzlaraembætti Þýzkalands eftir sambandsþingskosningarnar í febrúar 2025 á það ekki lengur við, að Meloni sé áhrifaríkasti leiðtogi leiðtogi Evrópu. Skeleggur og einarður málflutningur Merz hefur orðið ríkjum Evrópu hvatning til mikils stjórnmálalegs og efnahagslegs átaks til að frjáls og lýðræðisleg Evrópa geti staðið á eigin fótum hernaðarlega og komið á friði í Evrópu, sem tryggi landamæri Úkraínu, aðild landsins að Evrópusambandinu og öryggi landsins gagnvart innlimunaráráttu og útþenslustefnu Rússlands. Bandaríkjamenn standa gegn aðild Úkraínu að NATO, og er það enn eitt dæmið um þjónkun stjórnvalda þar í landi við Kremlarherrana. Kreml kemur ekki við, hvernig Úkraína hagar varnarmálum sínum. Í þeim efnum hafa Finnar sýnt fagurt fordæmi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2025 | 16:39
Furðulegt framferði hunds um nótt
Nú hafa orðið vinslit á milli Rússadindilsins Elons Musks og forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, og mun Elon vinna að því að bola Trump úr embætti með löglegum leiðum. Elon gegndi í upphafi seinna kjörtímabils Trumps hlutverki niðurskurðarmeistara á rekstri alríkisins. Niðurskurður hans olli fjölda uppsagna og jafnvel niðurlagningar stofnana með miklu uppnámi í samfélaginu. Elon varð óvinsæll, og óvinsældirnar bitnuðu á sölu Tesla-bifreiðanna. Elon sá sér vænzt að hætta þessu pólitíska stússi fyrir óútreiknanlegan vingul sem yfirmann eftir fáeina mánuði í starfi, en um mánaðamótin maí-júní 2025 urðu vinslit, þegar Elon gagnrýndi harkalega fjármálaáætlun Trump-stjórnarinnar. Í fyrra varð halli á fjárlögum Bandaríkjanna trnUSD 1,83 og í ár stefnir í trnUSD 1,9 halla (trilljón = 1000 milljarðar). Þessi gríðarlegi halli ógnar nú fjármálastöðugleika Bandaríkjanna, enda fer notkjun bandaríkjadals í gjaldeyrisvarasjóðum ríkja minnkandi og verðgildi dalsins rýrnar.
Við þessar aðstæður brýtur Bandaríkjastjórn blað í viðskiptasögu og viðskiptastefnu Bandaríkjanna frá 1945 og fer í tollastríð við viðskiptalönd sín. Þekkingarleysi og dómgreindarleysi ráða hér för. Ætlunin er að enduriðnvæða Bandaríkin með því að fá fjárfesta til að reisa verksmiðjur, sem framleiða vörur, sem þróunarlönd og miðlungi iðnvædd lönd framleiða nú, svo og að verja verksmiðjur, sem eiga erfitt uppdráttar nú. Þetta er allt saman borin von hjá MAGA (Make America Great Again) fólkinu. Bandaríkin eru með þessu og öðru framferði Trump-stjórnarinnar að glata trausti margra þjóða heims, þ.á.m. hefðbundinna bandamanna sinna, sem forysturíki hins vestræna heims. Þjóðir selja nú bandarísk ríkisskuldabréf, sem hefur neikvæð áhrif á stöðu og styrk bandaríkjadals.
Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, gerði alþjóðaviðskipti að umfjöllunarefni í Morgunblaðinu 3. júní 2025 undir fyrirsögninni:
"Frjálsari viðskipti, meiri velmegun".
Greinin hófst þannig:
"Um allan heim eru menn að vakna til vitundar um kosti frjálsra viðskipta [ekki þó MAGA - innsk. BJo]. Eftir margra ára fríverzlunarþreytu og vaxandi verndarstefnu segir meirihluti Bandaríkjamanna nú, að Bandaríkin ættu að sækjast eftir alþjóðlegum fríverzlunarsamningum, á meðan Evrópusambandið gerir fríverzlunarsamninga eins hratt og það getur, og jafnvel nágrannar og keppinautar á borð við Kína, Suður-Kóreu og Japan hafa samþykkt aukið samstarf."
Hjörtur J. Guðmundsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, hefur um árabil fært sín rök fyrir því, að víðtækur fríverzlunarsamningur við Evrópusambandið verði Íslandi hagfelldari en aðildin að EES. Ísland er í fríverzlunarsamtökunum EFTA. Þetta er athygliverð umræða, t.d. ef Íslendingar hafna nýjum aðlögunarviðræðum við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem Sólhvarfastjórnina fýsir að kasta Íslendingum út í og virðist ætla að nota varnarmálin sem rök fyrir. Það hefur enn engin umræða farið um það hérlendis, hvort Íslendingar kjósi að gegna herskyldu í Evrópuher.
"Ávinningur og kostnaður fríverzlunarstefnu koma ekki jafnt niður. Auðug lönd njóta tiltölulega minna góðs af af frjálsari viðskiptum, og hluti vinnuafls þeirra ber óhóflega byrði. En þrátt fyrir þetta sýna ritrýndar rannsóknir hagfræðinga frá Kaupmannahafnarhugveitunni, að frjálsari viðskipti eru enn yfirgnæfandi ábatasöm, jafnvel fyrir rík lönd."
Í fyrri hluta þessa texta er skýringin á fljótræðislegum ákvörðunum núverandi forseta Bandaríkjanna, sem var fremur frambjóðandi MAGA en Repúblikanaflokksins, sem hefðbundið hefur stutt frjálsa samkeppni og óheft viðskipti, um tollastríð gegn flestum ríkjum heims. Í anda undirlægjuháttar síns gagnvart Rússlandi Pútíns, sleppti hann Rússlandi, en gæti þó með viðskiptalegum ráðstöfunum kippt fótunum undan hernaði Rússlands í Evrópu.
Seinni hluti textans sýnir, að rannsóknarvinna bandarísku stjórnarinnar á afleiðingum frjálsra viðskipta hefur nánast engin verið. Þetta er í anda vinnubragðanna, sem nú tíðkast í Washington. Það er eins og sirkusstjóri stjórni nú Bandaríkjunum til að hafa mikil læti og fjör, en vel ígrunduð stjórnarstefna hefur horfið í skuggann.
"Þegar við teljum ávinninginn af fríverzlun í ríkum OECD-löndum, er hann mun hærri en kostnaðurinn: trnUSD 6,7. Samtals þýðir þetta USD 7 ávöxtun fyrir hvern USD kostnaðar. Já, stjórnvöld ættu að vinna meira að því að hjálpa þeim launþegum, sem myndu verða fyrir mestum skaða af frjálsari viðskiptum, en jafnvel eftir að hafa tekið á næstum trnUSD 1 í kostnaði, eru yfir trnUSD 6 í ávinningi, sem allur ríki heimurinn getur notið. Engin ríkisstjórn getur leyft sér að hunza þennan mun stærri ávinning þrátt fyrir verulegan kostnað."
Í sögu forseta Bandaríkjanna úr Repúblikanaflokkinum skera verk Donalds Trump sig algerlega úr. Hann beitir alríkisvaldinu með svo stórkarlalegum og grófum hætti, að líklegast hefur hann farið út fyrir lagaheimildir sínar, og hann tekur afstöðu með heimsvaldasinnuðum einræðisherra Rússlands gegn lýðræðisþjóð í Úkraínu, sem berst fyrir tilveru sinni. Hann hefur jafnframt grafið undan NATO, svo að fælingarmáttur og trúverðugleiki þessa varnarbandalags er í uppnámi. Hér er um einstæða atburði í sögu Vesturlanda að ræða, og það er bara tímaspurning, hvenær bremsur lýðræðiskerfisins í Bandaríkjunum stöðva niðurrifsstarfsemi og einræðistilburði þessa manns.
"Lág- og lægri miðtekjulönd heimsins, sem eru heimili mrd 4 manna, munu þola einhvern kostnað af frjálsari viðskiptum, en sá kostnaður er tiltölulega lítill eða mrdUSD 15. Samt sem áður væri ávinningurinn af frjálsari viðskiptum frábær, trnUSD 1,4. Þar sem hagkerfi fátækari [hluta] heimsins eru mun minni, er þetta mun stærra mál. Og, vegna þess að kostnaður þeirra er mun lægri, skilar hver USD í kostnaði USD 95 í ávinningi. Það er ótrúleg ávöxtun fjárfestingarinnar."
Ekkert hefur stuðlað meir að jöfnun lífskjara í heiminum en fjárfestingar auðvaldsins á Vesturlöndum í framleiðslufyrirtækjum í fátækum löndum. Þessar fjárfestingar leiddu til niðurlagningar ýmissa framleiðslustarfa á Vesturlöndum, sem ekki voru lengur samkeppnisfær í heimi frjálsra viðskipta, en í fátækum löndum tóku lífsskilyrðin stakkaskiptum, þótt illa sé sums staðar farið með vinnuaflið. Að forseta Bandaríkjanna úr röðum Repúblikana skuli detta í hug að beita ríkisvaldinu til að snúa þessari þróun við, sýnir grundvallar skilningsleysi þar á bæ og grafalvarlega meinloku MAGA-hreyfingarinnar.
"Með næstum USD 7 í ávöxtun fyrir hvern USD í kostnaði fyrir ríkar þjóðir og ótrúlegum USD 95 í ávöxtun fyrir fátækari lönd bera frjálsari viðskipti hagnað með sér fyrir alla. Leiðin áfram er ekki verndarstefna, heldur umbætur til að tryggja, að ávinningur af viðskiptum verði ekki aðeins meiri, heldur að honum verði einnig betur skipt."
Skoðanir og orðfæri Donalds Trumps eru oftast hreinræktað lýðskrum, þekking og staðreyndir eru ekki innan getusviðs hans og fasistísk hegðun gera hann í raun óhæfan til að gegna stöðu Bandaríkjaforseta. Traust til Bandaríkjanna hefur beðið hnekki, og spurning, hversu langan tíma tekur að endurvinna traustið, og hvort næstu forsetar hafa mikinn áhuga á því. Trump hefur ráðizt gegn háskólasamfélaginu og innflytjendum, tekið sér vald yfir þjóðvarðliðinu, sem vanalega er á hendi hvers ríkis, og hann hefur sent landgönguliða til að skakka leikinn í mótmælum í Kaliforníu. Allt virðist snúast í höndunum á forsetanum, sem lítt kann til verka, og ýmsar forsetatilskipanir hans hafa verið dæmdar ólöglegar. Afskipti hans af óeirðunum í Kaliforníu hafa hellt olíu á eldinn, og mótmælin gegn honum hafa nú dreifzt um öll Bandaríkin. Að vera með illa gefinn gösslara í æðsta embætti Bandaríkjanna á eftir að reynast Bandaríkjunum og heiminum öllum dýrkeypt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2025 | 16:33
Áttavillt ríkisstjórn
Forgangsröðun verka hjá núverandi ríkisstjórn er í skötulíki. Hún virðist ekki vita í hvaða erindum hún er. Athygli vekur mikil ferðagleði forsætis- og utanríkisráðherra, en meira fer á milli mála, hvað þær eru að fara með málflutningi sínum á erlendri grundu. Forsætisráðherra hitti nýlega Mark Rutte í Brüssel, framkvæmdastjóra NATO, og var mikið í mun að komast upp í 1,5 % í hernaðarútgjöld af VLF. Til þess taldi hún með ýmsar innviðaframkvæmdir. Nú stefna ýmsar aðildarþjóðanna á 5 %. Skyldu ekki tilburðir af þessu tagi virka broslegir fyrir Rutte, Pólverja, Eystrasaltsþjóðirnar og Kaju Kallas, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins ?
Þann 17. febrúar 2025 birtist forystugrein í Morgunblaðinu, sem hét:
"Hættuleg forgangsröðun".
Þar var vitnað í Jón Pétur Zimsen, þingmann Sjálfstæðisflokksins:
""Enginn sómi er að þingmálaskrá hæstvirtrar ríkisstjórnar, hvað menntun og líðan barna varðar. Er bráðavandinn virkilega ekki ljós ? Við erum sem samfélag að bregðast börnum og ungmennum. Í málaflokkinum ríkir neyðarástand. Íslenzka æskulýðsrannsóknin staðfestir það. Með leyfi forseta: 75 % stúlkna í 10. bekk finna fyrir kvíða vikulega eða daglega." 75 %, þar af 34 % daglega. 40 % stúlkna í 10. bekk finna fyrir depurð vikulega eða daglega. Þar af 17% daglega. Ungmenni eru meira einmana heldur en elzti aldurshópurinn á Íslandi. Er þetta ávarpað í þingmálaskrá ? Svarið er nei. Hornsteinn íslenzkunnar, lýðræðis og nýsköpunar, er lesskilningur. Hvar standa íslenzk 15 ára börn, hvað þetta varðar samkvæmt OECD ? Tæp 50 % drengja er ekki með grunnfærni í lesskilningi. Um helmingur drengja er ekki með grunnfærni í lesskilningi í gnægtalandinu Íslandi. Og rúm 30 % stúlkna er á sama stað. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá eru tæp 30 % 15 ára barna ekki með grunnfærni í skapandi hugsun. Og skapandi hugsun er það, sem getur skapað mikla fjármuni fyrir okkur. Þessi vinnubrögð hæstvirtrar ríkisstjórnar auka stéttaskiptingu og aðra misskiptingu í samfélaginu. Ólíkt þeim erum við í Sjálfstæðisflokkinum tilbúin með aðgerðir í þessum málaflokki. Við í Sjálfstæðisflokkinum viljum lyfta öllum börnum og hámarka möguleika allra til jafnra tækifæra. Börn eiga ekki að gjalda stöðu sinnar og stéttar.""
Hér er vitnað til frammistöðu nemenda við lok grunnskólanáms. Frammistaðan sýnir, að árangur grunnskólans hefur hríðversnað og er fyrir neðan allar hellur um þessar mundir. Bent hefur verið á skýringar á þessu, s.s. afleita námsskrá frá tíð Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra 2009-2013, skort á almennu hlutlægu mati - samræmdum prófum og skóla án aðgreiningar. Hið síðast nefnda er illframkvæmanlegt án þess, að komi niður á gæðum kennslunnar og gerir kennarastarfið nánast óbærilega erfitt. Grunnskólinn svíkur nemendur og samfélagið um góðan undirbúning fyrir sérhæfingu á framhaldsstigi. Það þarf að stokka grunnskólann upp, svo að hann gegni sínu hlutverki, eins og hann gerði t.d. á 7. áratug 20. aldar.
Það er ánægjulegt, að Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa greint vanda grunnskólakerfisins og sé með úrbótatillögur. Við svo búið má ekki standa, því að gríðarleg sóun á hæfileikum virðist eiga sér stað núna, þar sem skólakerfinu mistekst að veita þriðjungi til helmingi nemenda grundvallarþekkingu til að byggja á. Þjóðfélagið getur ekki haldið svona áfram, en valdhafarnir í Stjórnarráðinu kæra sig kollótta. Það bendir til dómgreindarleysis þeirra og kolrangrar forgangsröðunar. Hagvöxtur og velmegun í þessu þjóðfélagi verða aðeins reist á þekkingu, og sé jafn hátt hlutfall æskunnar útilokað frá þekkingaröflun og hér virðist vera, er voðinn vís.
"Ríkisstjórnin hefur sett ýmis mál í forgang, svo sem að auka álögur á helztu útflutningsgreinar þjóðarinnar og veikja þær með því og öðrum ráðum. Hún vill vinna ötullega að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið með öllum þeim mikla tilkostnaði, sem slíku feigðarflani fylgir, og hún vill veikja helztu einkareknu fjölmiðla landsins, þá einu, sem eru líklegir til að geta fjallað um störf hennar á gagnrýninn hátt. En eins og Jón Pétur bendir á, þá sýnir ríkisstjórnin engan áhuga á að bæta hag nemenda í skólum landsins, sem margir hverjir mega búa við óviðunandi kennslu og jafnvel ótta við ástand, sem ekkert er gert til að takast á við. Þetta er forgangsröðun, sem er ekki aðeins öfugsnúin; hún er stórhættuleg."
Sú meinsemd í menntakerfinu, sem hér er fjallað um, hefur fengið að grafa um sig allt of lengi, og ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja til atlögu við hana. Þess í stað leggur hún sig fram við lýðskrumsmál, eins og að hækka skattheimtu af atvinnuvegunum. Hún er þar með að saga í sundur greinina, sem hagvöxtur og velmegun hvíla á. Þegar nógu mörgum kjósendum verða afleiðingarnar ljósar, mun refsingin verða óvægin.
Niðurstaðan er sú, að ríkisstjórnin hefur ekki bein í nefinu. Utanríkisráðherra er skelegg um innrásarstríð Rússa í Evrópu, og dregur þá ályktun, að Íslendingum megi aðild að ESB helzt verða til halds og trausts. Er hún þá að hugsa um Evrópuher, sem Íslendingar yrðu herskyldir í ? Er hún búin að leysa vandann, sem af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni leiðir fyrir Ísland ? Fljótfærni og gösslaragangur einkenna um of þessa ríkisstjórn, og þess vegna verður Alþingi að halda í eyrun á henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)