29.7.2025 | 16:58
Reginmisskilningur forsætisráðherra
Á óvissutíma í efnahagsmálum reynir á ríkisstjórn að létta fremur undir með atvinnulífi og heimilunum í landinu. Ríkisstjórn K. Frost. hagar sér eins og óviti og gerir hið þveröfuga. Hún boðar mikla útgjaldaaukningu ríkissjóðs, t.d. vegna varnarmála og aðildar Íslands að Evrópusambandinu, sem verður Íslandi fjárfrek (allt að 30 mrdISK/ár), og auknar byrðar á atvinnulífið, sem vinna mun gegn hagsæld heimilanna. Við þessar aðstæður ætti ríkisstjórnin að róa öllum árum að auknum hagvexti og verðmætasköpun, eins og hún vakti vonir um í stjórnarsáttmála, en það er einfaldlega ekkert að marka orð hennar. Ríkisstjórnin hellir nú olíu á verðbólgubálið með skuldasöfnun sinni. Allt bendir til, að útgjöldin til varnarmála eigi að fjármagna með lántöku. Þótt Þjóðverjar geti réttlætt slíkt núna á miklum viðsjártímum í Evrópu, þar sem mikill hluti útgjaldaaukningarinnar fer til margháttaðrar aðstoðar við Úkraínu, gegnir öðru máli um Ísland, sem engin áhrif getur haft á hernaðarframvinduna í Evrópu. Að kjósa yfir sig vinstri stjórn, býður jafnan hættunni heim. Kjósendum til afturbata má þó segja, að þeir hafi keypt köttinn í sekknum. Hver hefði t.d. trúað því, að Flokkur fólksins myndi setjast í ríkisstjórn, sem þegar á fyrsta starfsári sínu hefur hafizt handa um að aðlaga stefnumörkun Íslands að stefnu ESB, t.d. í sjávarútvegsmálum ?
Í forystugrein Morgunblaðsins, 2. júlí 2025, "Fjölskyldurnar", átaldi ritstjórnin forsætisráðherra harðlega fyrir fráleitan og ofstækisfullan málflutning í garð sjávarútvegsins. Forsætisráðherra grefur skotgrafir að frumstæðum hætti í stað þess að leggja sig fram um góðar lausnir í samráði við atvinnulífið, vinnuveitendur og launþega. K. Frost. mun ekki ríða feitum hesti frá þessu máli, enda hefur hún nú opinberað fávísi sína á efnahagsmálum og skort á samráðshæfileikum, sem góður forsætisráðherra þarf að hafa til að bera. Téð forystugrein hófst þannig:
"Mörgum hnykkti við orð Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra, í viðtali við Ríkisútvarpið í fyrri viku [v.26/2025 - innsk.BJo], þegar hún, þvert á fyrri orð upplýsti, til hvers ríkisstjórnin áformaði svo snögga og skarpa hækkun veiðigjalda:
"Það verða alltaf einhverjir hagsmunaaðilar, sem að mínu mati ... að okkar mati eru fyrst og fremst að berjast fyrir hagsmunum 4-5 fjölskyldna í landinu; við skulum bara hafa það alveg á hreinu."
Þess eru engin dæmi í stjórnmálasögunni, að forsætisráðherra, ráðherrar hans eða stjórnarlið í þinginu lýsi því yfir, að fyrirætlanir um skattaálögur beinist að tilteknum borgurum landsins og öðrum ekki.
Þetta voru ekki orð mælt í hita leiksins, heldur var þetta hluti af skipulögðum málflutningi Samfylkingar, beint úr talpunktum handritshöfundar hennar, en ómurinn af þeim heyrðist einnig í þingræðum og óútþynntur í langlokum framkvæmdastjóra þingflokksins.
Engin tilraun hefur verið gerð til að draga þau orð til baka eða skýra þau nánar, en í þeim felst annarlegur misskilningur á grundvelli íslenzks stjórnarfars, jafnræðisreglunni og eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.
Hann leggst þá ofan á pólitískan misskilning á eðli aflahlutdeildarkerfisins og þann hagfræðilega misskilning, að leggja megi á tugmilljarðaskatta án þess að það hafi minnstu áhrif á neitt, nema fjárhag ríkissjóðs."
K.Frost. reiðir hátt til höggs og brýtur siðferðisreglur forsætisráðherra og ber enga virðingu fyrir lögum, sem um starfshætti hans gilda. Hún er í kviksyndi margháttaðs misskilnings og reisir ógeðfelldan málflutning sinn á lýðskrumi, öfund, og illgirni. Allt ber þetta vott um grunnfærni, sem er svo þungur áfellisdómur yfir henni, að hafa má áhyggjur af afleiðingum starfa hennar, t.d. í viðleitni til að koma Íslandi í faðm Evrópusambandsins. Önnur vinstri stjórn gafst upp á því viðfangsefni árið 2011. Hvers konar lúabrögðum á að beita núna til að breyta niðurstöðunni ?
"Sá skaði, sem skattagleði ríkisstjórnarinnar hefur þegar valdið skráðum sjávarútvegsfélögum á markaði og þar með hluthöfum þeirra, þ.á.m. lífeyrissjóðfélögum, mun ugglaust reynast þeim meiri, þegar upp er staðið. Við það verða sjávarútvegsfélög ekki viljugri til skráningar á markað eða fjárfestingarkostir lífeyrissjóða landsmanna fleiri.
Að ógleymdum þeim skaða, sem skattagleðin mun valda verðmætasköpun og og efnahagslífinu í heild. Hún mun bitna á öllum fjölskyldum landsins.
Lífeyrissjóðirnir hafa haldið sér mjög til hlés í þessari umræðu til þessa. En nú, þegar tjónið blasir við, geta þeir ekki lengur staðið þöglir hjá, [á] meðan eignir og réttindi sjóðfélaga rýrna; framtíðar framfærslu fjölskyldnanna í landinu er ógnað, af því að Kristrún Frostadóttir segist vilja sýna 4-5 fjölskyldum í tvo heimana. Fyrir þá heiftrækni eiga eiga ekki 225 þúsund heimili að gjalda."
Ríkisstjórnin sýnir mjög mikla óvarkárni í efnahagsmálum. Hún hættir á hrun gengis ISK með því að tefla grunnatvinnuvegum í uppnám og þar með að grafa undan gjaldeyrisöflun. Ef hún með flumbruhætti missir tökin á genginu, verður hér mikið verðbólgustökk, sem leitt getur af sér vaxtahækkanir, sem núverandi hagkerfi má ekki við. Evrópusambandið (ESB) fótumtreður nú EES-samninginn, svo að Ísland getur misst aðgengi að Innri markaði EES fyrir mikilvægar útflutningsvörur fyrirvaralítið, af því að landið er utan tollabandalags ESB. Þá kann að verða nauðsynlegt að velja á milli víðtæks fríverzlunarsamnings við ESB og aðildar. Utanríkisráðherra og atvinnuvegaráðherra hafa varðað síðari leiðina með því að svipta landið sjálfstæðri utanríkisstefnu og sjálfstæðri fiskveiðistjórnunarstefnu. Hafa þær svo víðtækar lagaheimildir til embættisverka, eða er kominn tími til að sækja þær til saka fyrir dómstólum ? Fyrst þarf Alþingi að fjalla um þessi mál og væntanlega að leggja fram vantrauststillögur á þessa ráðherra, sem virðast hafa farið offari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2025 | 16:45
Glapræði ríkisstjórnar
Með því að draga kraftinn úr grundvallar atvinnugrein landsmanna fremur ríkisstjórnin alvarlegan fingurbrjót, sem allir munu finna fyrir. Með því að draga stórfé út úr sjávarútveginum og flytja yfir í ríkissjóð versnar samkeppnisstaða atvinnugreinarinnar á erlendum og innlendum vettvangi, fjárfestingar og nýsköpun dragast saman, tekjur ríkis og sveitarfélaga minnka, hagvöxtur minnkar og gengi ISK gæti rýrnað vegna minni gjaldeyristekna, sem eykur verðbólgu. Ragnar Árnason, prófessor emeritus, hefur varað við þessu, en ríkisstjórnin skellir skollaeyrum. Henni mun hefnast fyrir allan þennan flausturslega og einstrengingslega málatilbúnað, og vonandi kemur fljótlega hér ríkisstjórn, sem leiðréttir þetta óréttlæti (sérsköttun) og skaðlega inngrip í atvinnustarfsemi.
Svanur Guðmundsson, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf, ritar talsvert um sjávarútvegsmál, og ein greina hans birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2025 undir fyrirsögninni:
"Skattur eða sátt" ?
"Umræðan um sértæka skattlagningu á sjávarútveginn hefur harðnað að undanförnu. Forsætisráðherra hefur haldið því fram, að sjávarútvegurinn eigi ekki að skila arði til eiganda fyrirtækja í sjávarútvegi, heldur greiða sérstakan skatt til samfélagsins. Þessi nálgun virðist byggð á misskilningi á því, hvernig greininni er háttað. Arðgreiðslur eru tiltölulega hóflegar í sjávarútvegi, lægri en t.d. í orkugeiranum, og mestur hluti afkomunnar fer í nýfjárfestingar, tækni og þróun. Fjármunir eru ekki teknir út - þeir eru lagðir inn. M.ö.o.: sjávarútvegurinn greiðir þegar til samfélagsins með skattgreiðslum, með störfum og með verðmætasköpun. Að reyna að "taka til baka" verðmæti, sem enginn annar en fyrirtækin hafa skapað úr hráefnum hafsins - það þjónar hvorki réttlæti né hagsmunum landsins til lengri tíma."
Síðan þetta fár "verkjastjórnarinnar" gegn sjávarútveginum brast á, hefur verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja á markaði rýrnað um tugi milljarða ISK, e.t.v. 20 %. Markaðurinn hefur lagt mat á aðgerðir ríkisstjórnarinnar og metið þær til eignaupptöku starfseminnar. Hér er um að ræða þjófnað ríkisvaldsins um hábjartan dag á verðmætum, sem einkaframtakið hefur aflað án nokkurrar mælanlegrar aðkomu "auðlindarentu" í sjávarútvegi, sem lýðskrumarar staglast á án þess að vita, hvað þeir eru að fjalla um. Þessi "verkjastjórn" veit heldur ekkert hvað hún er að gera, því að hún heldur því fram, að skattahækkun hennar sé óskaðleg fyrir fyrirtækin. Það er hrein fásinna, eins og verðmætafall þeirra á markaði gefur glögglega til kynna. Ríkisstjórnin er landinu hættuleg, því að þar ráða óvitar ferðinni.
"Unbroken, með sölusamninga við Lidl, gæti orðið verðmætara fyrirtæki en öll hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki samanlagt - og sýnir, hvernig bætt virðisaukning, úrvinnsla og útflutningur á vöru fremur en hráefni getur skilað gríðarlegum verðmætum."
Ríkisstjórnin hefur engan skilning á mikilvægi fjárfestingargetu sjávarútvegsins fyrir vöxt hans, viðgang, samkeppnishæfni og nýsköpun. Á grundvelli ímyndaðrar auðlindarentu í sjávarútvegi (forsætisráðherra viðurkennir, að auðlindarenta sé "huglægt mat") geldir ríkisstjórnin útgerðarfélögin með ofurskattlagningu skattstofns, sem er líka ímyndaður, þ.e. kemur aldrei inn í félögin, því að um er að ræða vafasamt jaðarverð á bolfisktegundum, sem getur verið undir áhrifum erlendra (niðurgreiddra fiskverkenda), og norsks verðs, sem er fjarstæðukennt að miða við hér. Hér er um svo vafasama skattheimtu vinstri stjórnar K. Frost. að ræða, að telja má líklegt, að látið verði á réttmæti hennar reyna samkvæmt skattarétti.
Ríkisstjórnin og þingmenn héldu því fram, að þessi skattheimta muni engin áhrif hafa á fyrirtækin og heimabyggð þeirra, þ.e. að hegðun fyrirtækjanna muni ekkert breytast við þessa viðbótar skattheimtu, enda næmi skattheimtan lægri upphæð en auðlindarentunni næmi. Nú er komið í ljós, að verðmæti sjávarútvegsfyrirtækjanna á markaði hefur lækkað mikið, og mun það óhjákvæmilega breyta hegðun fyrirtækjanna. Lífeyrissjóðirnir hafa af þessum orsökum tapað háum fjárhæðum. Það veit enginn, hver þessi títt nefnda auðlindarenta er, enda er hún ómælanleg. Af þessum sökum hangir málstaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli algerlega í lausu lofti.
"Í stað þess að ýta undir þessar sóknarleiðir [nýsköpun - innsk. BJo] virðist ríkisvaldið kjósa að rífast við landsbyggðina og sjávarútveginn um það, hver eigi arðinn. Í þessari nálgun gleymist, að það var ekki ríkið, sem skapaði verðmætin - heldur þau fyrirtæki, sem unnu hörðum höndum úr því hráefni, sem auðlindin veitir. Ef við viljum áfram vera leiðandi sjávarútvegsþjóð, þurfum við að byggja upp traust, samvinnu og sátt - ekki sundrungu og refsistefnu."
Ríkisvaldið er á kolrangri braut með því að leggja sjávarútveginn í einelti á fölskum forsendum og undir því yfirskini, að aðeins 4-5 fjölskyldum muni blæða. Hvers konar götustráks hugsunarháttur er það eiginlega, sem nú ræður ferðinni við stjórn landsins ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2025 | 15:32
"Viðrinishugtakið" auðlindarenta
Hugtak, sem erfitt hefur verið að henda reiður á, "auðlindarenta", hefur verið notað til að réttlæta viðbótar skattheimtu af fyrirtækjum í vissum greinum, einkum sjávarútvegi. Raunverulega er ekki mögulegt að greina, hversu stór hluti hagnaðar fyrirtækis stafar af aðgangi að auðlind, hvort sem hann er keyptur, leigður eða gjaldfrjáls. Þess vegna er mikill misskilningur á ferð um hugtakið auðlindarenta og kalla má það "viðrinishugtak". Mjög gróf einföldun við að leggja mat á þetta er að athuga mun á hagnaði atvinnugreinar með aðgang að takmarkaðri auðlind og hagnaði annarra atvinnugreina. Þegar sjávarútvegur á í hlut, hefur þessi aðferð aldrei gefið til kynna umframhagnað yfir 5 ára tímabil eða lengur. Þess vegna er það þjóðsaga, að í íslenzkum sjávarútvegi leynist auðlindarenta.
Óvitaskapur fyrstu ríkisstjórnar K. Frost. felst í því að nota augljóslega falskar forsendur til að hækka hagnað útgerðanna með verðviðmiðun á bolfiski frá uppboðsmörkuðum á Íslandi, sem eru jaðarmarkaðir undir áhrifum verðtilboða erlendra, niðurgreiddra fiskverkenda og á uppsjávarfiski með tilvísun til ósambærilegrar verðmyndunar í Noregi, sem er ekki frjáls. Þetta eru lúalegar aðfarir ríkisvalds, sem er beinlínis í herleiðangri gegn grunnatvinnuvegi landsins og þar með gegn sjávarbyggðum vítt og breitt um landið.
Þann 7. júlí 2025 birtist grein í Morgunblaðinu eftir þann, sem mest fræðilegt vit hefur á þessum málum hérlendis að beztu manna yfirsýn. Þetta er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði, sem sérhæft hefur sig í fiskihagfræði. Greinin bar yfirskriftina:
"Kvótaverð, renta og meint auðlindarenta - Ásgeiri Daníelssyni svarað".
Þar er ýmis gullkorn að finna fyrir leikmann á þessu sviði, sem engan á kvótann:
"ÁD (Ásgeir Daníelsson) byggir mjög á því, sem hann kallar auðlindarentu í grein sinni. Gallinn við þann málflutning er, að hagnað í atvinnuvegum er ekki unnt að rekja til þeirra náttúruauðlinda, sem þeir kunna að nýta. Ástæðan er einföld. Þegar aðföng eru mörg, eins og alltaf er í framleiðslu og svo sannarlega í fiskveiðum, er það alþekkt hagfræðileg niðurstaða, að ekki er unnt að heimfæra hagnaðinn eða hluta hans til einhverra einna aðfanga, eins og tiltekinnar náttúruauðlindar. Öll aðföng, þ.m.t. vinnuaflið, tæknin, fjármunirnir og stjórnunin, eiga hér sameiginlegan hlut að máli, og þáttur hverra og einna er ekki aðgreinanlegur og því ekki mælanlegur. Af þessari ástæðu er það afar villandi, svo [að] ekki sé meira sagt, að kenna hagnað við einhver tiltekin aðföng, sem notuð eru í framleiðslunni, hvort sem það er vinnuaflið í s.k. vinnugildiskenningu sósíalismans áður fyrr eða náttúruauðlindir nú á dögum.
Til að sjá, hversu fráleitt það er að telja, að hagnaður í fiskveiðum stafi frá auðlindinni og engu öðru, nægir að leiða hugann að því, að þessi hagnaður var sáralítill á 6. og 7. áratug síðustu aldar, þegar fiskistofnar voru miklu stærri en nú."
Ráðherrarnir, t.d. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, bera greinilega ekkert skynbragð á þessi mál og hafa ekki helztu hugtök á valdi sínu. Hrokinn og einfeldnin eru of mikil til að leita sér ráðgjafar hjá fiskihagfræðingum, sem henni væri þó í lófa lagið, áður en vaðið er áfram út í óvissu stefnumáls, sem orðið hefur til í lýðskrumi og einhvers konar refsiáráttu gagnvart atvinnurekstri, sem staðið hefur sig vel í alþjóðlegri samkeppni, en er einmitt undir hæl samkeppni mjög stórra fyrirtækja, sem að hluta njóta fjárhagslegrar fyrirgreiðslu opinberra aðila í landi sínu. Þessi samkeppni er ein af ástæðum þess, að engin merki um auðlindarentu hafa fundizt í íslenzkum sjávarútvegi. Það er dæmigert fyrir ríkisstjórn vinstri manna að gera sér enga grein fyrir, hversu hættulegt það er þessum grunnatvinnuvegi, að ríkisvaldið skuli nú ætla að höggva í knérunn hans. Þar eru ljóslega óvitar á ferð eða stjórnmálamenn, sem finna ekki til ábyrgðar gjörða sinna.
"Renta [hagræn renta] getur bæði verið meiri og minni en hagnaður. Renta getur t.d. verið jákvæð, þótt hagnaður sé neikvæður. Tilvera rentu er því ekki mælikvarði á getu til að greiða skatta. Því er það einungis til að flækja málið og villa fólki sýn að blanda rentu, svo [að] ekki sé minnzt á viðrinishugtakið auðlindarentu, inn í umfjöllun um skattlagningu á sjávarútveg."
Með þessu hrekur Ragnar Árnason meginrökin að baki s.k. auðlindagjöldum eða viðbótar skattheimtu af sjávarútvegi. Það er ekki hægt að mæla rentu fyrirtækjanna af aðgangi að takmörkuðum auðlindum eða auðlindum yfirleitt. Þar að auki er ekkert, sem bendir til, að nokkur renta stafi af hinni takmörkuðu auðlind sjávarútvegsins, sem aðgangur hefur verið keyptur að á markaði vegna þess, að hagnaður þessara fyrirtækja er engu meiri en annarra hérlendis að jafnaði. Það eru til rökréttar skýringar á því. Önnur er hörð samkeppni á erlendum mörkuðum, þar sem um 95 % framleiðslunnar er umsett. Hin er sveiflukennd fiskgengd á miðunum og í raun minnkandi leyfilegur afli undanfarið.
Af þessum sökum er hækkun veiðigjaldanna alger óvitaskapur. Ríkisvaldið í óvitaskap sínum sagar í sundur greinina, sem það situr á, og með fylgja sjávarútvegssveitarfélögin og þjóðarhagur allur. Þetta eru dæmigerðir sósíalistískir stjórnarhættir, sem alltaf leiða til aukinnar fátæktar almennings.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2025 | 10:40
Stjórnarflokkunum eru mjög mislagðar hendur - einnig í orkumálum
Það fara ekki saman orð og athafnir hjá Samfylkingunni í veigamiklum málum. Þannig hafði hún á orði fram yfir síðustu Alþingiskosningar, að hún hygðist "rjúfa kyrrstöðu" orkumálanna. Þegar til kastanna kom, heyktist hún svo rækilega á því, að orkuskortur blasir við a.m.k. næsta áratuginn.
Svo virðist sem ráðherrana skorti allan dug til að taka til hendinni og gera það, sem gera þarf til að viðhalda traustum hagvexti í landinu. Þess í stað hengja þau sig í gamlar bábiljur vinstrisins. Þriðji áfangi rammaáætlunar var nýlega til umræðu á Alþingi, og þar heyktust stjórnarliðar á að tryggja landinu næga raforku næsta áratuginn. Um var að ræða vatnsaflsvirkjanir með orkugetu samtals 3517 GWh/ár. Minni hluti Umhverfis- og samgöngunefndar vildi setja allar virkjanirnar í nýtingarflokk, en meiri hlutinn samþykkti aðeins 760 GWh/ár í nýtingarflokk og heyktist þar með á að "rjúfa kyrrstöðuna". Þetta er upp í nös á ketti m.v. við viðbótar þörfina á næstu 10 árum til 2035 samkvæmt Landsneti, sem nemur 5000 GWh/ár. Vinstri flokkarnir féllu á orkuöflunarprófinu og kom engum á óvart.
Þann 21. júní 2025 birtist stutt og fróðleg grein í Morgunblaðinu eftir varaformann Sjálfstæðisflokksins, þingmanninn Jens Garðar Helgason. Hún hófst þannig:
"Í ræðu og riti hefur ráðherrum, þingmönnum og talsmönnum ríkisstjórnarinnar orðið tíðrætt um að rjúfa "kyrrstöðuna" í orkumálum. Vakti það von í brjósti, að flokkar, sem margir hverjir hafa áður barizt gegn frekari orkuöflun á Íslandi, væru búnir að sjá ljósið í þessum efnum. En svo er hins vegar ekki. Flokkarnir eru samir við sig, þá ekki sízt flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin."
Einu sinni afturhald, ávallt afturhald, má segja um þá vinstri moðsuðu, sem nú er við stjórnvölinn á Íslandi og hefur ekki áhuga á öðru, eðli sínu samkvæm, en að kasta skít í tannhjól atvinnulífsins og skilur ekki frekar en Karl Marx, hvað knýr áfram þessi tannhjól og þar með hag almennings í landinu. Forystusauðir ríkisstjórnarinnar eru sljóir og hafa enga grein gert sér fyrir því, hvaða áhrif gríðarlegar skattahækkanir á grunnatvinnuvegina hafa á hagvöxt í landinu. Sauðirnir drepa efnahagslífið í dróma með því að fara ránshendi um fjármuni grunnatvinnuveganna og í tilviki sjávarútvegsins er það gert undir yfirskini auðlindarentu, sem ríkissjóður eigi rétt á. Ekkert er fjær lagi. Hvorki skilja sauðirnir hugtakið auðlindarenta né kunna þeir að reikna, hvað af hagnaði sjávarútvegsins stafar af henni. Sósíalistarnir ala á öfund og hrifsa auð frá sjávarútvegsbyggðum til ríkisins. Þetta er sósíalistísk forsjárhyggja, sem er ekki þjóðhagslega hagkvæm hugmyndafræði og leiðir yfirleitt til fátæktar.
"Í dag eru á sjóndeildarhringnum 5 virkjanakostir og stækkanir hjá Landsvirkjun. Þeir eru:
- Stækkun Þeistareykjavirkjunar (590 GWh/a)
- Stækkun Sigöldu (10 GWh/a)
- Vaðölduver (440 GWh/a)
- Blöndulundur (350 GWh/a)
- Hvammsvirkjun (720 GWh/a)
Samtals eru þetta 2110 GWh/a.
Að viðbættum 760 GWh frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þá eru þannig alls 2870 GWh/a í nýtingarflokki. Til samanburðar gerir spá Landsnets ráð fyrir því, að orkuþörf til ársins 2035 muni aukast um 5000 GWh/a."
Frammistaða stjórnarmeirihlutans er enn algerlega ófullnægjandi fyrir áætlaða orkuþörf landsins næsta áratuginn. Með því að lúta leiðsögn þessa meirihluta um málefni landsins stefnir í háa verðbólgu m.v. mörk Seðlabankans, mikinn halla á ríkissjóði og þar með skuldasöfnun á kostnað komandi kynslóða, minni fjárfestingar atvinnuveganna en undanfarin ár og lítinn hagvöxt. Ofan á þetta bætist orkuskortur, sem leiða mun til hækkunar raforkuverðs og mikils tekjutaps atvinnuvega og samfélags. Allt eru þetta gamalkunnir fylgikvillar sósíalismans, en núverandi stjórnarflokkar villtu á sér heimildir í aðdraganda Alþingiskosninga og þóttust mundu standa að nýju framfaraskeiði í sögu þjóðarinnar, eftir að afturhaldið VG hafði staðið allt of lengi á bremsunum. Nú sitja landsmenn uppi með viðbrunninn graut sósíalismans, þar sem kokkarnir ætla að eyða fé og tíma í innanlandsdeilur um Evrópusambandið og bjölluat í Berlaymont.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)