28.8.2010 | 21:41
Asni klyfjaður gulli
Evrópusambandið (ESB) hefur nú verið þanið yfir alla Evrópu allt austur að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Enginn veit, hvernig ESB mun þróast, enda er það í skipulagslegum og fjárhagslegum ólgusjó sundurlyndis, en hitt er þó vitað, að róið er að því öllum árum í Þýzkalandi og í Frakklandi að þróa það, a.m.k. evrusvæðið, í átt að sambandsríki með ein fjárlög að baki evrunni. Sambandi ríkjanna yrði þá háttað með svipuðum hætti og tíðkast innan Sambandsríkisins Þýzkalands. Í Sambandsríkinu tíðkast ekki neitunarvald. Þetta sjónarmið er skiljanlegt að hálfu meginlandsríkja, en hagsmunir smáríkis með ráð yfir gríðarlegu hafsvæði í Norður-Evrópu fara ekki saman við hagsmuni meginlandsins.
Nú hefur þetta verðandi stórríki litið til norðurs. Þar eru feikna hafflæmi og mikil auðævi í hafi og undir hafsbotni, og menn vænta vaxandi siglinga, þar sem nú er heimskautsís. Síðasta sókn ESB til norðurs stöðvaðist árið 1994, þegar norska þjóðin felldi aðildarskilmála, sem Stórþingið þó var hliðhollt. Í kjölfarið (1995) var aðlögunarferli innleitt fyrir umsækjendur, og felast samningaviðræður síðan í að aðlaga stjórnkerfi umsóknarríkis að ESB-kerfinu.
Eftir hrun fjármálakerfisins, þar sem íslenzkir ævintýramenn léku ótrúleg hlutverk, lítur ríkjasamband í vanda til norðvesturs og ætlar sér að gleypa smáríki í einum munnbita og gera olíuríkinu Noregi tilveruna þungbæra utan við. Forkólfar ESB vita sem er, að lítið er um varnir á Íslandi um þessar mundir og hagsmunagæzla fyrir hönd landsmanna öll í skötulíki. Ríkisstjórn landsins er siðlítil og þröngsýn, og ekki reiðir hún vitið í þverpokum.
Samfylkingin þvingaði með offorsi fram heimild Alþingis til umsóknar um aðild að ESB 16.07.2009. Þessa heimild notuðu forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann síðan til að semja eitthvert ómerkilegasta plagg, sem sézt hefur í Íslandssögunni. Það var svo einfeldningslegt, snubbótt og skilyrðalaust, að hefði ráðherraráðið einfaldlega svarað með jái á þeim grundvelli, að Ísland væri þegar í EES, þá hefðu Íslendingar orðið aðilar strax. Svona fortakslaus fleðulæti sýndu forkólfar Samfylkingar væntanlegu stórveldi í júlí 2009. Verður það talið á meðal verstu glappaskota lýðveldisins.
Fyrir löngu er komið í ljós, að þessi gösslaragangur mun valda okkur stórtjóni. Ríkisstjórnin er klofin í málinu, og minnihluti á þjóðþinginu styður nú umsóknarferli, sem hefur tekið allt aðra stefnu en lagt var upp með 16. júlí 2009. Þjóðin kærir sig ekki um að verða útnári stórríkis Evrópu, svipt forræði yfir eigin lögsögu og áhrifalaus við ákvarðanir um eigin hagsmuni eða stefnumótun stórríkis um hermál og hvaðeina. Sviksemi og blekkingaleikur einkenna þetta umsóknarferli, sem lagt var upp með sem könnun á, hvað byðist. Verður þetta talin ein versta lágkúra Íslandssögunnar.
Furstar ESB láta ekki að sér hæða, heldur ætla þeir að brjóta andstöðu þjóðarinnar á bak aftur með því að bera fé á landsmenn. Stofna á skrifstofu að hálfu ríkisins til að taka við fénu og dreifa því til upplýsingaherferðar og aðlögunar hins opinbera að reglum og hefðum skrifræðisbáknsins í Brüssel og annars staðar á snærum ESB.
Það er ljóst, að ríkisstjórn, sem samþykkir þvílíkt löngu áður en samningaviðræðurnar eru leiddar til lykta, hefur glatað sómatilfinningu sinni. Ríkisstjórnin í Reykjavík, ringluð, vingulsleg og sem í vímu, virðist vera herfilega misnotuð af biskupinum, stækkunarstjóranum í Brüssel. Nú á við að taka sér í munn orð Oddaverjans, Jóns Loftssonar, um gagnrýni Niðaróssbiskups á líferni höfðingja 12. aldar Íslands: "Heyra má ek erkibiskups boðskap, en ráðinn em ek í að hafa hann að engu."
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dagsettu 27.08.2010, er utanríkisráðherranum, Össuri Skarphéðinssyni, líkt við prest, sem heldur minningarræðu yfir ættingjum og vinum hins framliðna án þess að hafa hirt um að kynna sér æviferil viðkomandi. Þessi samlíking varpar ágætu ljósi á þekkingarleysi og óraunsæi skötuhjúanna Jóhönnu, sem er ólæs á regluverk ESB, og Össurar, sem talar sem trúmaður með glýju í augum, blindaður af trú sinni.
Við ofangreinda líkingu höfundar Reykjavíkurbréfs má bæta við sögu, sannri. Ættingjar hlýddu á minningarræðu prests nokkurs um framliðna frænku sína. Þar kom ræðunni, að viðstaddir litu hver á annan í undrun yfir því, sem þeir heyrðu. Að ræðunni lokinni stungu þeir saman nefjum um innihaldið, en enginn kannaðist við að hafa gaukað fram komnum upplýsingum að presti. Afréðu þau loks að spyrja prestinn, hver hefði verið heimildarmaður hans um tiltekið efni. "Elskurnar mínar, ég þurfti engan slíkan heimildarmann. Ég var í beinu sambandi við þá framliðnu."
Össur Skarphéðinsson er í hlutverki þessa prests gagnvart þjóðinni, þegar hann lýsir fyrir henni ESB og aðildarviðræðunum. Hann heldur því fram, að unnt sé að sveigja ESB til að hleypa Íslendingum inn með alls kyns undanþágur frá sáttmálum og lögum ESB.
Við skulum gefa okkur, að ESB sé svo mikið í mun að ná Íslandi inn, að þeir samþykki t.d. óskertan yfirráðarétt Íslendinga yfir fiskveiðilögsögunni. Þá mun sannast, að allt orkar tvímælis, þá gert er. Ágreiningur, sem einhver fiskveiðiþjóðin mun gera við Íslendinga vegna veiða innan íslenzku lögsögunnar, verður lagður fyrir Evrópudómstólinn. Fordæmi sýna, að hann ógildir hiklaust samninga, ef þeir stríða gegn grundvallarreglum ESB. Þannig er ljóst, að áhættan við inngöngu er allt of mikil til að taka hana.
Sumir tala um, að þeir vilji taka "upplýsta ákvörðun" um það, hvort Ísland gangi í ESB eða haldi áfram fullveldi sínu með kostum þess og göllum. Til að unnt verði að taka þess konar ákvörðun, verði að ljúka vegferð þeirri, sem téð skötuhjú hófu í júlí árið 2009. Þetta fólk gengur að því sem vísu, að allar nauðsynlegar upplýsingar verði þá fyrir hendi til að taka rétta ákvörðun. Í raunveruleikanum er þetta aldrei svo. Einhver áhætta fylgir öllum ákvörðunum, og var tilgreint dæmi um eina slíka hér að ofan, þar sem eru úrskurðir Evrópudómstólsins.
Þessu aðildarmáli fylgir gífurleg áhætta, því að afleiðingar aðildar fyrir hag landsmanna geta orðið hrapallegar. Það er rétt, að við eigum ríkra hagsmuna að gæta í Evrópu. Hins vegar hefur sambandið við Evrópu verið ærið stormasamt. Hefur t.d. verið deilt um þorsk, skuldbindingar íslenzka ríkisins vegna fallins einkabanka og nú síðast makríl. Síðast nefnda deiluefnið er afar lærdómsríkt. Breytingar í hafinu hafa leitt til mikilla makrílgangna inn í íslenzku lögsöguna. Sem fullvalda þjóð getum við nýtt þessa nýju tegund að vild innan lögsögunnar. Jafnljóst er, að ESB vill meina okkur það og mundi vafalaust neyta aflsmunar, ef Ísland væri innan "Festung Europa".
Það má nærri geta, að við hrossakaup innan ESB yrðu hagsmunir smáþjóðar úti í reginhafi að láta í minni pokann gagnvart ofurefli fjölmennis í auðlindanauð. Hin rökrétta ályktun er sú, að umsóknin sé leikur að eldi, hún hafi í för með sér sóun mikilla fjármuna og tímasóun í stjórnkerfi ríkisins. Síðast en ekki sízt rýrir umsóknin trúverðugleika landsmanna erlendis, þar sem hugur fylgdi í raun aldrei máli, og viðsemjendum okkar mun finnast þeir hafi verið dregnir á asnaeyrunum, því að um aðild að ESB sækja einvörðungu þeir, sem tilbúnir eru til að taka upp lög og reglur sambandsins í heild sinni á ákveðnu árabili. Aukaaðild er ekki til.
Bloggar | Breytt 29.8.2010 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2010 | 13:13
Skæruliðinn
Enn hefur þvergirðingslegur umhverfisráðherra lagt sig þversum á veg framfara. Hún virðist að þessu sinni hafa óttazt, að Norðlingaölduveita yrði, samkvæmt Rammaáætlun, dæmdur fýsilegur orkunýtingarkostur vegna tiltölulega lítilla umhverfisáhrifa af 5 km2 lóni sunnan marka friðlandsins, sem Héraðsdómur dæmdi árið 2006, að gilda skyldu, og vegna afar ódýrrar viðbótar orku. Að líða þessa hagkvæmu nýju orkuvinnslu hefði verið algert stílbrot sannkallaðs afturhalds.
Hér er um afar hagkvæman og umhverfisvænan virkjunarkost að ræða, því að fjárfesting er lítil, en nokkur rekstrarkostnaður mun af hljótast vegna nauðsynlegrar tímabundinnar dælingar á vatni upp í Þórisvatn. Þar með eykst vinnslugeta Vatnsfells, Sigöldu, Hrauneyja og Búðarháls, þegar sú virkjun kemst í notkun, en þungt mun vera fyrir fæti um fjármögnun hennar, þó að engin áhætta fylgi fjármögnun virkjunarinnar, þar sem langtíma orkusölusamningur er þegar fyrir hendi, sem greiða mun virkjunina upp á skömmum tíma m.v. endingartíma hennar.
"Röksemdir" ráðherrans eru honum einum líkar, fáránlega firrtar og fullkomlega óboðlegar fullorðnu fólki, að ekki sé nú minnzt á þá í þessum hópi, sem misst hafa vinnu sína vegna athafnaleysis, skattahækkana og sérvizku vinstri stjórnarinnar, sem lengt hefur stórlega í kreppunni með kolrangri efnahagsstefnu.
Forystumenn vinstri-grænna framfylgja af algeru purkunarleysi í skjóli Samfylkingar stefnu sinni um andstöðu við öll tekjuaukandi verkefni fyrir samfélagið, svo að ekki sé nú minnzt á nýja gjaldeyrissköpun.
Viðbáran er jafnan sú endileysa, að núverandi kynslóð hafi ekki til þess siðferðilegan rétt að ákveða nýtingu orkulinda. Ráðherra umhverfismála ætti "að anda með nefinu" og kynna sér rannsóknarskýrslu, sem samin var af kennara við Verkfræðideild Háskóla Íslands fyrir fáeinum árum um afturkræfni virkjana á Íslandi með alþjóðlegri viðmiðun. Niðurstaðan var sú, að þær eru allar afturkræfar, og Norðlingaölduvirkjun felur í sér svo takmörkuð umhverfisáhrif, að víst má telja, að hún verði engin undantekning í þessum efnum. Hvers vegna fer ráðherra offari ?
Til þess liggja stjórnmálalegar ástæður. Vinstri hreyfingin grænt framboð er í tætlum eftir hálfs annars árs sambúð við eins máls flokkinn, sem miðar allt við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið (ESB), jafnvel á fölskum forsendum kynningarviðræðna, sem eru í raun aðlögun að ESB. Það er reyndar óskiljanlegt, hversu hart Samfylkingin berst fyrir því að kasta Íslandi í fang auðvalds Evrópu, þó að ýmsir merðir þeirrar fyrr nefndu megi vart heyra minnzt á erlendar fjárfestingar á Íslandi.
Ljóst má vera, að téð rökleysa ráðherrans, um vísun til næstu kynslóða, felur í sér algera stöðnun þjóðfélagsins, því að engin rök standa til þess, að næsta kynslóð hafi til þess meiri siðferðilegan rétt en núverandi, eða þarnæsta, að hefja framkvæmdir við eitt eða neitt. Miklu fremur ber núverandi kynslóð til þess siðferðisleg skylda að búa í haginn fyrir næstu kynslóð, eins og kynslóðirnar á undan okkur gerðu. Til að standa straum af öllum þeim erlendu lánum, sem ríkisstjórn vinstri flokkanna hefur tekið, m.a. fyrir tilstuðlan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, dugar ekki, að landsframleiðslan hjakki í sama farinu, eins og fyrirsjáanlegt er með afturhald í Stjórnarráðinu, heldur verður að auka landsframleiðsluna um 5 % á ári að jafnaði á þessum áratugi.
Ef hins vegar á að fylgja fram téðu grundvallarmáli vinstri-grænna um rétt kynslóðanna, mun íslenzka þjóðfélagið breytast á örskotsstundu úr nútímalegu velferðarþjóðfélagi með öflugar gjaldeyrislindir í fátæktarbæli hafta og ofríkis stjórnmálamanna. Hver kærir sig um slíkt ? Þetta eru valkostir kjósenda nú. Skýrari geta þeir vart verið. Það verður aðalarfleifð vinstri stjórnarinnar að skerpa skilin á milli framfaraafla og afturhalds.
Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma átti að leggja fram á vorþinginu 2010 samkvæmt áætlun, en það var ekki gert. Hvers vegna ? Deilurnar í ríkisstjórninni lama hana algerlega, svo að landið er í raun stjórnlaust. Fyrir tilverknað stjórnvalda er eignarhald HS orku í uppnámi. Skipulag sveitarfélagsins Ölfuss, þar sem Hverahlíðarvirkjun kemur við sögu, situr fast í Umhverfisráðuneytinu. Svipaðri valdbeitingu óvandaðs, öfgafulls og ólýðræðislegs stjórnvalds hafa sveitarfélögin við Neðri-Þjórsá mátt sæta, og þar með er virkjun hennar sett í herkví, 3 hagstæðar virkjanir með lágmarks lónum og línum.
Öllum brögðum er beitt til að tefja frekari rannsóknir og þróun Kröflusvæðis, Gjástykkis og Þeistareykja. Með ríkisstjórnaraðild sinni hafa vinstri-grænir í skjóli Samfylkingar sett þumalskrúfu á þjóðfélagið, hindrað hagvaxtarhvetjandi framfarir, komið helzta hugðarefni sínu, skattahækkunum, til framkvæmda, og komið fyrirtækjum á vonarvöl með því að viðhalda langvarandi efnahagskreppu í landinu. Afleiðingin verður vaxandi atvinnuleysi, landflótti og minnkandi skattstofnar.
Allt þetta kemur illilega niður á hag almennings í landinu. Skjaldborgin fyrir kosningarnar síðustu varð gjaldborg heimilanna eftir þær. Vinstri flokkarnir hafa svikið öll sín fögru fyrirheit. Þeir hafa reynzt gjörspilltir, þegar til átti að taka, og getulausir til róttækrar uppstokkunar, sem leitt gæti til heilbrigðara þjóðfélags. Vinstri vítin eru til að varast þau.
Samfylkingin gerir fátt annað en að smjaðra fyrir Evrópusambandinu, ESB, með öllum þeim tilkostnaði, sem af því leiðir fyrir íslenzka ríkið. Verður að átelja hana fyrir offors, sem vart getur flokkazt til lýðræðislegra vinnubragða, þar sem minnihluti á Alþingi er nú fylgjandi áframhaldandi aðlögun og þjóðinni er enn neitað um að tjá sig beint í atkvæðagreiðslu um hið örlagaríka mál. Tal utanríkisráðherra um stórfelldan sparnað af evruupptöku fær ekki lengur staðizt í ljósi reynslunnar frá Suður-Evrópu og Írlandi, sem búa við miklu hærri vexti en Þýzkaland og eiga í vandræðum með of dýran útflutning sinn. Þjóðverjar hertu sultarólina í meiri mæli en aðrir og njóta nú ávaxtanna með spáný framleiðslutæki í austurhlutanum og gríðarlega mikla samkeppnihæfni á útflutningsmörkuðum og lága vexti.
Hver er sinnar gæfu smiður, og Evrópubankinn mun ekki leysa efnahagsvanda Íslendinga. Það mun enginn gera fyrir þá. Þeir verða að leysa vanda sinn sjálfir með því að leggja hart að sér. Að ímynda sér annað er flótti frá veruleikanum. Það, sem máli skiptir fyrir hagkerfið, er heilbrigð hagstjórn, framfarahvetjandi og ábyrgt ríkisvald, sem ver tekjum sínum, af hóflegri skattheimtu, til skuldalækkunar, þróunar á innviðum samfélagsins og inneigna (gjaldeyrisvarasjóðs) hjá Seðlabanka, og full nýting alls tiltæks vinnuafls og framleiðslutækja.
Frelsisbaráttu frjálshuga og framfarasinnaðs fólks er þörf gegn spilltum og þröngsýnum valdhöfum ("nómenklatúru"), sem engan áhuga hafa á kjörum almennings í landinu, en telja öllu skipta fyrir stjórnmálalega hagsmuni sína, að einangra Ísland frá innstreymi alþjóðlegs fjárfestingarfjármagns, sem forsjárhyggju stjórnmálamenn munu aldrei geta ráðskast með.
Þessi stefna krystallast í "Saving Iceland" samtökunum, og fylgismenn hennar, hvort sem eru stjórnleysingjar í Bezta flokkinum eða ríkisforsjárhyggjufólk í VG, eru þess vegna rétt nefndir skæruliðar gegn íslenzka lýðveldinu. Uppreisnar borgaralegra afla er þörf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2010 | 12:00
Fingurbrjótar ríkisstjórnar
Afleikir klúðraranna í Stjórnarráðinu eru legió. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur lýst yfir stuðningi við vafagemlinginn, efnahags-og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússon, í kjölfar fingurbrjóts hans í umgengni við sannleikann.
Téður Gylfi þorði ekki, sumarið 2009, að upplýsa þing og þjóð um greinargerð yfirlögfræðings Seðlabankans, sem reist var á annarri frá lögfræðistofu í Reykjavík. Viðbára um trúnaðarskjal frá bankanum var orðhengilsháttur, því að trúnaðarskyldan lá á greinargerð lögfræðistofunnar. Yfirlýsing um þessa trúnaðarskyldu hefur enda verið borin til baka af Seðlabankanum og Efnahags-og viðskiptaráðuneytinu.
Hvers vegna blekkti ráðherrann Alþingi sumarið 2009 og áhorfendur Kastljóss RÚV 10. ágúst 2010 ? Skoðum fyrst, hvernig ráðherrann gerði þetta.
Spurning þingmannsins var skýr og einföld. Hún var um lögmæti myntkörfulána. Ráðherrann afvegaleiddi þingið með því að svara annarri spurningu. Hann sagði lögfæðiálit ráðuneytisins og stofnana hníga til þess, að lán í erlendri mynt væru lögleg. Með þessu lét hann líta þannig út, að tvö hugtök, myntkörfulán og gjaldeyrislán, þýddu hið sama og gaf þar með í skyn, að myntkörfulán væru lögleg að beztu manna yfirsýn.
Þessum leik hélt hann áfram í tilvitnuðum Kastljóssþætti. Dósentinn vissi allan tímann betur, en komst upp með blekkinguna í bæði skiptin, sem er miður. Eftir dóm Hæstaréttar um þetta efni 16. júní 2010 rann upp fyrir fólki lögfræðilegi mismunurinn á þessum tveimur hugtökum. Sekt ráðherrans er núna augljós. Seta slíks manns á ráðherrastóli er móðgun við þjóðina. Honum er ekki treystandi til að fara með forræði opinberra málefna. Forsætisráðherra lagði hins vegar blessun sína yfir setu hans, þegar málið komst í hámæli. Hvers vegna ?
Svarið er hið sama og við spurningunni um það, hvers vegna efnahags-og viðskiptaráðherra lagði út á sína blekkingabraut. Ef hann hefði svarað sannleikanum samkvæmt, á grundvelli beztu, fáanlegu upplýsinga, á Alþingi, þá hefði komið í ljós stórfelldur afleikur ríkisstjórnarinnar með fjármálaráðherra og efnahagsmálaráðherra, sem þá var Jóhanna, í broddi fylkingar, við stofnun nýju bankanna, því að þar var ein forsendan til grundvallar flutningi lánasafns til nýju bankanna sú, að myntkörfulánin væru lögleg og mundu skila sér að mestu leyti gengistryggð til baka.
Fjármálaráðherrann og þingmenn vinstri stjórnarinnar hafa hingað til vísað til þessa bankauppgjörs sem nánast einu rósarinnar í hnappagati ríkisstjórnarinnar. Nú er komið í ljós, að hún klúðraði þessu máli herfilega, eins og flestum öðrum málum, sem hún hefur komið nálægt. Er getuleysi, dómgreindarleysi og lánleysi þessarar dæmalausu langs-og þversumklofnu ríkisstjórnar með algerum endemum. Viðvaningshátturinn, þvergirðingurinn, þröngsýnin og leyndarhyggjan ríða ekki við einteyming í Stjórnarráðinu nú um stundir. Allt rekur þar á reiðanum.
Mál er að linni. Óhæfnin er ekki ein á báti, heldur er óheiðarleikinn með í för. Það sannar myntkörfuhneykslið, sem hér hefur verið reifað. Ekki tekur betra við, þegar litið er til þriðja hjólsins undir stjórnarskriflinu, utanríkisráðherrans. Hann varð að athlægi á blaðamannafundi í Brüssel nýlega með stækkunarstjóranum, Stefan Füle. Blaðamenn rak í rogastans við þá séríslenzku kenningu, að evran mundi hafa orðið Íslendingum hjálparhella í hinni alþjóðlegu bankakreppu, sem leiddi til bankahruns hér, af því að ríkið hafði ekki bolmagn til að bjarga bönkunum hér, eins og það gerði t.d. á evrusvæðinu, einnig á Bretlandi og í BNA. Þýzkir blaðamenn sperrtu eyrun, því að þeir voru vanari því að heyra evrunni kennt um vandræðin, t.d. á Írlandi og í Suður-Evrópu. Hinir einu, sem blómstra nú á evrusvæðinu, eru Þjóðverjar, með sitt sterka framleiðslukerfi og útflutningsknúna hagkerfi, sem nú er að springa út í fyrsta skipti eftir "die Wende" eða endursameiningu Þýzkalands.
Þá fimbulfambaði utanríkisráðherra Íslands um bjartsýni sína á, að Ísland fengi hagstæða samninga við ESB. Það mátti stækkunarstjórinn eiga, að hann leiðrétti þetta snarlega. Engar varanlegar undanþágur yrðu veittar. Þetta á ekki síður við um hvalveiðar, nýtingu á lögsögu Íslands, innflutning landbúnaðarafurða, herskyldu í væntanlegum Evrópuher en hvað annað, sem á fjörurnar kann að reka í aðlögunarviðræðunum. Þá er vitað, að sérsamningar án lagalegs stuðnings sáttmála ESB eru haldlausir, ef hagsmunaárekstrar verða, sem leiddir eru til lykta fyrir Evrópudómstólinum.
Taka má dæmi af sjávarútveginum. Blekið verður ekki þornað á samninginum við ESB, þegar spænskur togari fer inn í landhelgina. Varðskip mun taka hann og færa til hafnar við Ísland. Spánverjar kæra fyrir Evrópudómstólinum, sem dæmir samkvæmt sáttmálum og lögum ESB, að lögsaga ESB sé ein og óskiptanleg. Samningurinn við ESB haldlaus og Ísland breytist í verstöð Evrópu.
Það, sem í boði er í Brüssel, er ESB með sáttmálum þess, lögum og tilskipunum. Annað er blekking og/eða blindni, og er hvort tveggja ófyrirgefanlegt.
Af þessum sökum, sem hér hafa verið tíundaðar, og er þá margt óupptalið af ávirðingum ríkisstjórnarinnar, er hún ekki á vetur setjandi, heldur ber að setja hana af hið fyrsta og kjósa til Alþingis. Nú er búizt við nýrri holskeflu hagkerfissamdráttar erlendis, og þá er nauðsynlegt, að við stjórnvöl þjóðarskútunnar íslenzku séu hvorki heybrækur né hugstola fólk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.8.2010 | 13:27
Dansað við úlfa
Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, fullyrti nýlega í fjölmiðlaviðtali, að aðrir erlendir fjárfestar mundu ekki kippa sér upp við það, þó að Magma Energy hrykki úr skaptinu. Þessi fullyrðing var órökstudd, og hún á sér enga stoð í veruleikanum. Þá má spyrja, hvaða augum Alcoa-menn líti á framkomu iðnaðarráðherra við þá út af Bakkaverkefninu. Sjaldan er ein báran stök.
Framferði ríkisstjórnarinnar er grafalvarlegt og hefur ótvíræð fælingaráhrif. Ríkisstjórnin er skaðvaldur almannahagsmunum og atvinnutortímandi, nema fyrir eigin hlöðukálfa á ríkisjötunni, sem ekkert vinna af almennilegu viti og skapa þess vegna engin verðmæti, nema síður sé. Klúðurstjórnin viðheldur kreppunni.
Til þess eru refirnir skornir hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði og viðlíka mörðum að tefja öll framfaramál í landinu eða að drepa þeim á dreif, þar sem einkaframtakið er annars vegar. Bakkamálið sýndi reyndar, að Samfylkingin hefur lítinn sem engan skilning á nauðsyn iðnvæðingar til að skapa hér traust, evrópskt nútímaþjóðfélag, því að umhverfisráðherra hennar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hvítabjarnarbani, gerði sitt til að eyðileggja málið með svo kölluðu sameiginlegu umhverfismati.
Nú um stundir háttar þannig til, að eina einkaframtakið, sem dregið getur strandaða íslenzka þjóðarskútu á flot, er erlent. Af einskærri forpokun, fordild og forheimskun mega vinstri grænir ekki heyra á slíkt minnzt. Það er athyglivert, að einu umtalsverðu erlendu fjárfestingarnar á Íslandi eru vesturheimskar enn sem komið er, þ.e. frá Kanada og Bandaríkjunum (BNA). Hvernig víkur því við, að alþjóðleg fyrirtæki Evrópu hafa ekki fjárfest hér neitt að ráði þrátt fyrir EES ? Mundi innganga í ESB og upptaka evru í fyllingu tímans greiða fyrir því ? Það er ekki að sjá, að hin vinstri sinnaða Samfylking sé hrifin af erlendum fjárfestingum. Á hvaða leið er hún eiginlega, ef hún vill fyrir alla muni troða landinu inn í ESB, en er á sama tíma með alls kyns vífilengjur gagnvart frjálsu flæði fjármagns ? Stefna Samfylkingarinnar gengur ekki upp. Hún er í blindgötu og hefur glatað öllum trúverðugleika.
Ísland hefur aldrei efni á slíkum yfirgengilegum hringlandahætti í viðskiptum við erlenda fjárfesta, sem opinberazt hefur undanfarið, og sízt af öllu nú, þegar landinu ríður á skjótri og varanlegri viðreisn atvinnulífsins til að vinna bug á atvinnuleysinu, ná jafnvægi í ríkisbúskapinum, auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til að greiða niður erlendar skuldir og að skjóta stoðum undir traustan hagvöxt öllum til hagsbóta.
Samskipti stjórnmálamanna í valdastólum og embættismanna þeirra við fjárfesta eru viðkvæm, og oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Í hópi fjárfestanna getur gætt hjarðhegðunar, eins og í öðrum hópum, og verði þeir varir við hringlandahátt eða lítt dulbúna andúð í garð eins, má búast við, að þeir bíði ekki boðanna, heldur leiti annað. Ísland á í harðri samkeppni við mörg önnur lönd um erlent áhættufé, og t.d. lönd, sem óska eftir orkukræfum iðnaði, eru ýmis til, og bjóða þau m.a. orkuverð, sem Ísland getur ekki keppt við. Ísland verður þá að geta boðið eitthvað annað á móti, t.d. úrvals starfsfólk, þróaða innviði, traust stjórnarfar og markaðsaðgengi. Umhverfisvænar orkulindir eru viðbótar kostur.
Traustvekjandi framkoma valdhafa skiptir í þessu sambandi sköpum. Það er t.d. skaðlegt í þessu sambandi, þegar ráðherra, í þessu tilviki Jón Bjarnason, lýsir því yfir, að verja þurfi íslenzkt athafnalíf gegn erlendum fjárfestingum. Hér glittir í þann með horn, hala og klaufir upp úr skurðkjaftinum, en þar mun vera komin afstaða Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til erlendra fjárfestinga á Íslandi í hnotskurn. Það er von, að hrikti í stjórnarskriflinu, þegar svona er í pottinn búið.
Samfylkingin berst í orði kveðnu fyrir bættum stjórnarháttum á Íslandi og kveður bezta ráðið til bættra stjórnarhátta vera að ganga í ESB (Evrópusambandið). Þó er vandséð, að þjóðin þurfi að taka slíkt örlagaskref til að Samfylkingarráðherrar sýni gott fordæmi í þessum efnum. Ráðherrar Samfylkingarinnar eru þvert á móti með asklok fyrir himin og nota aðstöðu sína með óbilgjörnum hætti í þágu hlöðukálfa sinna. Fagmennskan er í sumum tilvikum fólgin í því, að ráðherrann er viðstaddur ráðningarviðtöl ráðningarstofu og getur þannig með nærveru sinni framkallað niðurstöðu með slagsíðu. Í stuttu máli mundu stjórnarhættir Samfylkingarinnar hvergi sóma sér, nema í bananalýðveldi. Hverjum dettur í hug, að þetta ástand mundi batna við inngöngu í ESB ? Ráðherrarnir yrðu þá strengjabrúður Brüssel í öllum hagsmunamálum ríkjasambandsins, en fengju í staðinn að leika lausum hala með frændhygli sína og ofdekur við hlöðukálfa. Á Íslandi yrði tilveran óbærileg öllu heiðvirðu og frjálshuga fólki fyrir vikið.
Það sætir furðu, hversu mjög vinstri grænum hefur tekizt að beygja iðnaðarráðherra afturhaldsstjórnarinnar af leið. Má segja, að hún sé komin í skeifu miðað við það, sem hún lagði upp með í ráðherradómi sínum. Allir vita, að Samfylkingin er eins máls flokkur, þ.e. að troða sálu landsins í poka og fleygja honum inn um gullna hliðið í Berlaymont/Brüssel eru hennar ær og kýr. Þess vegna hefur hún enga stefnu í orkumálum aðra en þá, sem rituð er í sáttmálabók ESB. Þar stendur, að í raforkuvinnslu skuli ríkja frjáls samkeppni og að öll fyrirtæki innan ESB (og þá EES) skuli njóta jafnstöðu í samkeppninni, hvar sem er innan EES, og njóta sömu tækifæra til fjárfestinga. Upphaflega virtist núverandi iðnaðarráðherra "vinna" samkvæmt þessari stefnu, en nú er skeifan staðreynd, þ.e. viðsnúningur. Þessi iðnaðarráðherra mun aldrei leggja grunn að neinum verkefnum, sem um munar fyrir athafnalíf landsins. Hún slær bara úr og í.
Nú segjast formenn Samfylkingar og VG ætla "að vinda ofan af þessari stefnu" og eiga þá við fjárfestingar annarra en opinberra fyrirtækja í orkugeiranum. Forpokun einangrunarsinnanna í VG tröllríður húsum ríkisstjórnarinnar, svo að allt leikur á reiðiskjálfi. Fórnarlamb einokunar í orkuvinnslu verður almenningur nú sem endranær. Þegar rjáfur ríkisstjórnarinnar, en hún er sem fjörulús á tjöruspæni í öllum málum, brotnar, verða framfaraöfl í þessu landi að sameinast um að smyrja athafnalífið í skyndingu með erlendu fé, ekki lánsfé, enda er það illfáanlegt, heldur fjárfestingarfé, og að koma eftirspurn eftir vörum og þjónustu í gang aftur með eftirfarandi hætti:
- Semja við alþjóðlegu álfyrirtækin um nýjar fjárfestingar. Hagur þessara fyrirtækja er nú að vænkast eftir bankahrun, efnahagslægð í kjölfarið og mikla skuldsetningu við fyrirtækjakaup. Spár um álmarkað benda til skorts á áli á markaðinum á næstu 20 árum vegna aukinnar markaðshlutdeildar áls, t.d. í samgöngugeiranum, og þróunar málmfræðinga á nýjum álmelmum.
- Semja um sölu afnotaréttar af orkulindum eða einkaframkvæmd við virkjanir, eins og iðnaðarráðherra mælir með, til að sjá álverunum og öðrum fyrir orku.
- Afnema alla skatta vinstri stjórnarinnar strax og gera áætlun um enn meiri tekjuskattslækkun, er miði að því að laða hingað atgervisfólk, sem flúði kreppu og afturhald, og að hámarka stærð skattstofnsins.
- Ná jafnvægi í ríkisbúskapinum á þremur árum með auknum tekjum frá vaxandi hagkerfi og samkeppni til kostnaðarlækkunar við að veita þjónustu, sem hið opinbera kostar. Dæmi um þetta er stærsti útgjaldaliðurinn, heilbrigðisgeirinn, þar sem snarlega verður að vinda ofan af groddalegum einokunartilburðum sameignarsinnans Álfheiðar Ingadóttur, sem valda mun viðkvæmum innviðum heilbrigðisgeirans og þjóðinni allri stórtjóni, ef svo fer fram sem horfir. Leita má fyrirmynda um þetta innan EES.
- Leggja verður strax fyrir róða fíflagang þann með undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sem nefndur er "fyrning aflaheimilda" útgerðarinnar, en virkar eins og ofurskattlagning á útgerðina, sem eyðir eiginfé hennar á svipstundu og er þess vegna ígildi þjóðnýtingar, eins og búið er að sýna fram á með óhrekjanlegum, hagfræðilegum rökum. "Fyrning aflaheimilda" er hugarfóstur kaffihúsakomma og annarra afæta á ríkisjötunni án snefils af skynsemi.
- Útgerðin hefur tekið á sig skerðingu aflaheimilda vegna minnkandi hrygningarstofna, t.d. þorsks. Nú er komið að því að snúa við blaðinu með aukningu, sem eitthvað hægir á vexti stofnsins, en stöðvar hann þó ekki að mati Hafrannsóknarstofnunar. Þetta er ekki áhætta, heldur yfirveguð efnahagsleg og stjórnmálaleg aðgerð til stuðnings viðreisn hagkerfisins.
- Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hefur lýst því yfir, að engar varanlegar undanþágur standi Íslendingum til boða. Ekkert hald er í sérlausnum, þegar farið er með ágreining fyrir Evrópudómstólinn. Þetta sannar reynsla Finna og annarra, sem höfðu skrifað undir samning án skuldbindingar að hálfu samningamanna ESB, er reist væri á Rómarsáttmálanum eða seinni sáttmálum ESB. Því miður gera þessi atriði ESB með öllu ófýsilegt fyrir Ísland til inngöngu. Bezt er, að nýtt Alþingi horfist í augu við þetta strax og feli nýjum utanríkisráðherra að biðja forseta ráðherraráðs ESB afsökunar á frumhlaupi fyrirrennarans um leið og óskað er hlés á viðræðum vegna óvissu um Icesave-deiluna og óvissu um þróun ESB. Síðan fái þjóðin að tjá sig um það í næstu kosningum á eftir, hvort hefja eigi leikinn að nýju eða að afturkalla illa ígrundaða umsókn.
- Engum dylst, að köldu andar til Íslands frá ýmsum ríkisstjórnum Evrópu, jafnvel frá einstökum ráðherrum ríkisstjórnar Noregs, eins og fram hefur komið í Makrílsmálinu, en Evrópuþjóðirnar berjast um veiðihlutdeild í þessum stofni. Svarið við þessu er að afla annarra bandamanna. Kínverjar hafa sýnt okkur vinarþel, t.d. innan AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) og ber að þakka það, svo og Japanir. Það liggur hins vegar beint við að leita til vesturs, til Norður-Ameríku, þ.e. BNA og Kanada, til þjóða, sem aldrei hafa rekið í okkur hornin í líkingu við Evrópuþjóðir ýmsar. Þaðan hafa helztu fjárfestingarnar hérlendis síðustu 20 árin komið, og þar er fjöldi fólks af íslenzku bergi brotið. Í Eystrasaltslöndunum og í Mið-og Austur-Evrópu eru og efnilegir bandamenn. Nauðhyggjan ein rekur okkur í fang kvalaranna. Móta þarf nýja og víðsýna utanríkisstefnu, er tekur mið af hagsmunum okkar í bráð og lengd, en setur ekki öll eggin í eina körfu, sem aðrir halda á en við sjálf.
- Lega landsins reynist enn tromp á hendi. Í þetta sinn eiga í hlut miklar auðlindir í norðurhöfum, t.d. eru taldar þar á umráðasvæði Íslands um 10 milljarðar tunna af jarðolíu undir hafsbotni. Norðmenn eru taldir eiga svipað magn á sömu slóðum. Fylgjast þarf náið með atferli þeirra þar norður frá, en Norðmenn hafa aflað sér gríðarlegrar þekkingar á olíuvinnslu á hafi úti. Við þurfum að vera tilbúin að gera samning við leitarfyrirtæki, þegar tæknin leyfir og markaðir fyrir olíu gera svo dýra vinnslu arðbæra.
- Landbúnaður hefur verið í umræðunni undanfarið. Hér er um að ræða kjarnagrein í íslenzku athafnalífi, og flest bú á Íslandi eru rekin af miklum dugnaði, útsjónarsemi og þekkingu. Þau framleiða hágæða vöru, sem höfundur þessa pistils vill ekki fyrir nokkurn mun skipta á. Kornyrkja fer vaxandi, hana þarf að tífalda á 15 árum og spara þannig mikinn gjaldeyri. Framleiðslu-og markaðskerfi landbúnaðarins er hins vegar niður njörvað í gildandi búvörulögum. Framleiðslukvótinn er hér ekki settur á til að vernda auðlindina, heldur til að hindra offramleiðslu. Hinn tæknivæddi og stórglæsilegi íslenzki landbúnaður þarf nú að hrista af sér þessar viðjar og sækja fram í heimi sívaxandi matarskorts, einnig á meðal þjóða, sem eru að komast í álnir, þökk sé miklum fjárfestingum alþjóðlegra fyrirtækja. Aukin framleiðsla og frjálsari verðmyndun mun leiða til aukinnar framleiðni landbúnaðarins, sem þegar er gríðarleg, neytendum og bændum til hagsbóta.
Bloggar | Breytt 8.8.2010 kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)