Skrattinn úr Svörtuloftum

Segja má, að tilkynning Seðlabankans í viku 33/2011 um 0,25 % vaxtahækkun hafi komið eins og skrattinn úr sauðarleggnum á landslýð.  Svo kölluð Peningastefnunefnd Seðlabankans tók þessa ákvörðun, sem virðist gjörsamlega úr lausu lofti gripin.  Dettur manni í hug hið fornkveðna að þessu tilefni, að því verri eru heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.

Stöðu íslenzka hagkerfisins nú um stundir má kenna við stöðnunarverðbólgu (e. stagflation), og við slíkar aðstæður hefur engum hvítum manni hingað til dottið í hug að hækka vexti, en mannvitsbrekkurnar í Svörtuloftum riðu á vaðið.  

Millibankavextir Seðlabanka ákvarða vaxtastig í landinu.  Vaxtahækkun er við vissar aðstæður rétt að nota til að slá á fjárfestingar og/eða einkaneyzlu.  Hvorugu er til að dreifa nú, enda er hagvöxtur nánast enginn.  Mikið atvinnuleysi er í landinu (a.m.k. 8 %), og nýting framleiðslutækjanna er lág.  Það eru engin grundvallarskilyrði vaxtahækkunar uppfyllt um þessar mundir.  Engu er líkara en gamli Trotzkyistinn í Svörtuloftum sé að apa nýlega vaxtahækkun eftir ECB (Seðlabanka ESB), en þar á bæ voru áhyggjur af langvinnri verðbólgu yfir markmiði og þenslu í þýzkumælandi löndum.  Nú virðist hafa verið um gönuhlaup ECB að ræða, hvað þá Seðlabanka Íslands.

Peningastefnunefnd varð að almennu athlægi í landinu með ákvörðun sinni, og ekki fór betur, þegar Trotzkyistinn rembdist við að útskýra fíflaganginn.  Verðhækkanir í kjölfar vonlausra kjarasamninga og innfluttrar verðbólgu, m.a. vegna lækkandi gengis, eru algerlega utan seilingar Seðlabankans.  Að hækka vexti vegna lækkandi gengis á tímum gjaldeyrishafta er fáránlegt.  Það er ætíð mjög varasamt að reyna að stjórna genginu með vöxtum, eins og dæmin sanna.  Það verður að stokka spilin algerlega upp á nýtt í Svörtuloftum, þegar glóra kemst í landsstjórnina. Það leysir í þessu samhengi ekki nokkurn vanda að hrópa á upptöku annars gjaldmiðils, því að hagstjórninni verður að koma í jafngott lag og tíðkast í því hagkerfi, sem mótar viðkomandi gjaldmiðil áður en til greina kemur að ganga í myntbandalag.  Annars gerist einmitt það, sem Grikkir súpa nú seyðið af. 

Einfeldningar á Íslandi, sem hrakyrða krónuna og halda að með einu pennastriki sé hægt að leysa gjaldmiðilsvandann með samningum við ESB, hafa fjargviðrazt út í andstæðinga ódýrs fullveldisafsals fyrir að vilja svipta þá réttinum til að kjósa um samningsskilmálana.  Ekkert er fjær sanni, en fyrst er þó nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvort þjóðin treystir núverandi stjórnarskrípi til að standa í slíku samningaferli.  Allt bendir til, að þjóðin muni hafna aðildarsamningi, og þess vegna ber brýna nauðsyn til að veita henni ráðrúm til að stöðva feigðarflan ríkisstjórnarinnar.     

Svörtuloftaformaðurinn sker sig algerlega úr hópi starfsbræðra sinna í öðrum löndum.  Hann á það til að toppa aðra álfa út úr hólum.  Það gerði hann á dögunum.  Þá var hann beðinn um að leggja mat á ástand evrunnar.  Þjónn Jóhönnu svaraði þá, að hann vonaði, að ástandið varaði ekki lengi.  Svona svarar enginn viti borinn seðlabankastjóri.  Hvert mannsbarn veit, að ástand evrunnar er grafalvarlegt, og það er ekkert annað en kraftaverk, sem getur bjargað henni nú.  Það er útilokað, að núverandi 17-landa evruvandi verði leystur á skömmum tíma, t.d. 12 mánuðum.  Warren Buffet spáir evrulandi vanda í 10 ár, en flest bendir til klofnings evrulands með einum eða öðrum hætti.  Þýzkaland og norðrið á móti Frakklandi og suðri eða afturhvarf til þjóðmyntanna í einhverjum mæli hillir undir.  

Víkjum nú að furðufyrirbrigðinu, sem síðan 1993 hefur rembzt eins og rjúpan við staurinn við að flokka virkjunarkosti landsmanna. Þegar loks kom að verklokum Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar má segja, að fjallið tók jóðsótt, en fæddist lítil mús.  Verkefnisstjórn þessi stendur ekki undir nafni.  Stjórnmálalegur hrærigrautur ofstækisgræningja var það, sem reitt var fram á formi draga til frumvarps.  Hræðileg moðsuða.

Það, sem gott þriggja manna teymi verkfræðings, jarðfræðings og hagfræðings, hefði getað leyst á tveimur vikum, tók þessa endemis verkefnisstjórn 18 ár að koma á koppinn.  Var króinn þó ærið óburðugur, svo að hann getur ekki orðið komandi kynslóðum að nokkru gagni. Notagildið er aðallega fólgið í forgangsröðun virkjana, en hver kynslóð mun virkja í þeim mæli, sem hagkvæmt og skynsamlegt þykir á hverjum tíma án tillits til þessa vanskapnings.  Að takast þar að auki ekki að ljúka verkinu, en setja upp biðflokk, er til skammar.  Hér hefur afætum verið gefið ótæpilega á garðann.

Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar á aðlögunarferlinu að ESB er fyrir neðan allar hellur.  Til að leyna þjóðinni aumkvunarverðri framgöngu samningamanna og embættismanna ríkisstjórnarinnar, sér ríkisstjórn opinnar stjórnsýslu og gegnsæis í málatilbúnaði, en þannig lýsti hún sér í upphafi, til þess, að þjóðin fær engar upplýsingar um gang mála í þessu brýnasta hagsmunamáli sínu, sem er varðveizla fullveldis.  Stjórnarómyndin ætlar ekki að láta steyta á neinu máli í viðræðunum, hvorki um sjávarútveg né landbúnað.  Síðan á með áróðursvél ESB, sem stjórnað er frá bökkum Spree í hinni fornu höfuðborg Prússlands, að freista þess að blekkja þing og þjóð til fylgilags við fullveldisafsal í fögrum umbúðum. 

Ef einhver töggur er í stjórnarandstöðunni á Alþingi, ber henni að vekja máls á þeirri ólýðræðislegu málsmeðferð, sem hér er á ferðinni, og á þeim óeðlilega farvegi, sem þetta ólánsmál, skammarlega mál, er í.  Enn er því haldið fram af töskuberum Össurar Skarphéðinssonar í öllum flokkum, að leiða þurfi viðræðurnar til lykta til að þjóðin geti lagt mat á afraksturinn.  Þetta er svo þrátt fyrir þá staðreynd, að meirihluti þings og þjóðar er á móti aðild óháð því, hvað kemur upp úr poka jólasveinsins.  Það vita allir heilvita menn, hvað upp úr pokanum mun koma.  Það verður allt núverandi regluverk ESB með tímabundnum umþóttunum og einstaka undanþágum, sem ekkert hald verður í gagnvart Evrópudómstólinum, kæri einhver aðildarþjóðin síðar. 

Þess vegna á Alþingi nú snarlega að stöðva þetta ferli með kurteislegri ályktun án þess að styggja viðmælendurna, Stefan Füle, og hans menn í Brüssel.  Þar með sparast stórfé, og stjórnkerfi landsins getur snúið sér að uppbyggilegri málum.  Þetta mun þó ekki gerast fyrr en Alþingi nær vopnum sínum, og tæpast verður það án kosninga. Þar mun fylgi stjórnarflokkanna fara niður fyrir björtustu vonir stjórnarandstæðinga.  Svo verður nýjum stjórnmálaflokkum fyrir að þakka, sem munu reyndar verða áhrifalausir eftir kosningarnar, en ná að róta fylginu til.  Ný forysta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fær þá tækifæri til að hefja og leiða mikla framfarasókn landsmanna eftir eyðimerkurgöngu félagshyggjuaflanna, sem munu hafa valdið hér meira tjóni á þremur árum en varð í fjármálakreppunni á Íslandi í október 2008.  Það verður að hrista kerfið rækilega, sópa út úr stjórnarskrifstofunum og hleypa þar inn fersku lofti og fólki, sem þorir og kann eitthvað til verka í stað taðskegglinga og þöngulhausa, sem félagshyggjuflokkarnir hafa af stökustu ósvífni raðað á garðann.  Nú dugir ekkert minna en áfallsmeðferð (sjokkterapía), afnám gjaldeyrishafta og allra annarra stjórnvaldshafta, afnám verðtryggingar, stórfelld skattalækkun og samningar um stórframkvæmdir. "You ain´t seen nothing yet."  

Berjatími            


Meinsemd

Alvarleg meinsemd hefur grafið um sig víða og ekki sízt í vestrænum samfélögum.  Hér er átt við langvarandi fjöldaatvinnuleysi og lága nýtni framleiðsluaflanna.  Þessi meinsemd hefur grafið um sig á löngu tímabili og valdið óhamingju og þjóðfélagsspennu, sem getur leystst úr læðingi snögglega, ef neisti kemst í púðurtunnuna.  Þetta hafa Englendingar mátt reyna á eigin skinni undanfarið, en staðan er þannig, að óeirðir vegna innibyrgðrar gremju stórra utanveltuhópa geta brotizt út hvar sem er fyrirvaralaust.  Þessi sóun á kröftum, sem gætu skapað verðmæti, er ennfremur rót grundvallarvandans í vestrænum samfélögum, sem er of lítil verðmætasköpun m.v. útgjöld og þar af leiðandi viðvarandi hallarekstur á sameiginlegum sjóðum. 

Þetta á ekki sízt við um Evrópu, þar sem atvinnuþátttaka er víða ótrúlega lítil, og 40 % atvinnuleysi á meðal fólks undir þrítugu er ekki óalgengt.  Það er gríðarlegur áfellisdómur yfir einu þjóðfélagi og ber vott um skeytingarleysi valdhafa að geta ekki fengið nánast öllum þegnum sínum eitthvað að sýsla við.  Þetta er því alvarlegra í Evrópu, þeim mun hærri, sem meðalaldur viðkomandi þjóðar er.  Ef meðalaldur er hár, er viðkoma lítil og tiltölulega fátt ungt fólk.  Ef þar á ofan skortir verkefni fyrir stóran hluta þessa fólks, er ljóst, að viðkomandi þjóðfélag er algerlega misheppnað.  Margt bendir til, að ofsköttun fyrirtækja og fjölskyldna ásamt skrifræðisbákni og þunglamalegu stjórnkerfi eigi mikinn þátt í þessu vandamáli.  Ljóst er, að ESB hefur ekki bætt hér úr skák, nema síður sé.

Grundvallarforsenda fyrir háu atvinnustigi og þar af leiðandi útrýmingu langtíma atvinnuleysis er fjölbreytni atvinnuveganna og góður hagvöxtur, þ.e. yfir 3 % á ári.  Hagvaxtarleysi eða lágur hagvöxtur er einmitt einkenni margra Evrópulanda.  Hver skyldi vera skýringin á því ?  Sem dæmi má nefna, að frá Hruni hefur hagkerfi Vesturlanda í heild nánast ekkert vaxið, en hagkerfi iðnvæðingarlanda Asíu hefur vaxið um 20 % á sama tíma.

Skýringarnar á ofangreindu eru aðallega tvær.  Annars vegar mjög umsvifamikill ríkisbúskapur með þeirri sóun fjármagns, sem er fylgifiskur slíks ásamt háum sköttum, sem draga mátt úr athafnalífinu og draga úr neyzlu almennings, og hins vegar hallarekstur ríkisins, sem veldur hárri skuldabyrði, miklum vaxtagreiðslum úr viðkomandi ríkissjóði og samkeppni ríkisins við einkaframtakið um lánsfjármagn.  Þetta er í fáum dráttum vandi margra hagkerfa heimsins, þ.á.m. í Evrópu, sem er orðinn svo svæsinn, að kreppa er yfirvofandi. Fjármálakerfi heimsins er í raun búið að missa trú á, að leiðtogum ESB takist að koma evrunni fyrir vind.

Í ESB (Evrópusambandinu) er vandinn mjög alvarlegur af þremur ástæðum:

  1. Á vegum ESB starfa hundruðir þúsunda blýantsnagara við að semja íþyngjandi reglugerðir og fylgja þeim eftir og leggjast ofan á fjölmennt lið á ríkisjötu aðildarríkjanna.  Allt þetta verður atvinnulífið að bera uppi og jafngildir lakari samkeppnistöðu fyrirtækjanna í ESB. 
  2. Aldurssamsetning í Evrópu er orðin mjög óeðlileg vegna lítillar viðkomu lengi.  Þetta veldur æ þyngri opinberum byrðum á tiltölulega fátt vinnandi fólk.
  3. Glannalegri peningalegri tilraun var hleypt af stokkunum um aldamótin 2000 að frumkvæði franskra stjórnmálamanna án rétts undirbúnings og samræmingar í ríkisbúskapi aðildarlandanna.  Tilraunina um hina sameiginlegu mynt, evruna, skortir nauðsynlegar fjárhagslegar forsendur til að heppnast.  Franskir stjórnmálamenn eiga mesta sök, því að miklu veldur sá, er upphafinu veldur, og þeir hafa brotið Maastrichtsamkomulagið, sem átti að koma í stað sameiginlegra ríkisfjármála og veita ríkisstjórnunum nægan aga í anda Bundesbank Otmars Issings. Frakkar hafa ekki burði til að leika í úrvalsdeild hagkerfa með Þjóðverjum og munu fyrr eða síðar falla fyrir borð með brauki, bramli og miklu handapati. Eigum við Íslendingar erindi í úrvalsdeild með Þjóðverjum, í aðra deild með Frökkum, eigum við að tengjast sterlingspundinu eða norrænu krónunum eða reyna að standa í lappirnar með eigin, sjálfstæða mynt ? 

 

          Hagvaxtarspá 2011                            Hér á Íslandi er mikið atvinnuleysi eða um 8 % þrátt fyrir hræðilegan fólksflótta, svo að fækkun á vinnumarkaði nemur líklega um 15 %. Eins og annars staðar er atvinnuleysið mest á meðal ungs fólks.  Ástandið er svona slæmt, þrátt fyrir að ekkert ofangreindra þriggja skilyrða eigi við Ísland.  Ástæðurnar fyrir því eru tvær.  Annars vegar hrikalegur fjármunabruni í bankahruninu í október 2008, þegar gjaldmiðillinn hrundi einnig, allt vegna glæpsamlegs framferðis óreiðumanna, og hins vegar vegna ráðstjórnarinnar, sem ríkt hefur á Íslandi síðan 1. febrúar 2009 og slysalegrar samsetningar Alþingis frá hrakfarakosningum í apríl 2009, þegar hrakval kjósenda átti sér stað. 

Þessi ríkisstjórn hefur bætt gráu ofan á svart með því að hrinda í framkvæmd svakalegum skattahækkunum, sem forkólfar hennar hafa predikað nauðsyn á, frá því að þeir hrökkluðust úr ríkisstjórn árið 1991.  Þar á ofan hefur ráðstjórnin, eins og búast mátti við , fjandskapazt leynt og ljóst við athafnalífið og lagt helztu útflutningsgreinarnar, sjávarútveg og stóriðju, í einelti.  Sjávarútvegurinn hefur þar af leiðandi verið í vörn og lítið fjárfest, og ekkert nýtt álver hefur litið dagsins ljós.  

Fjárfestingar eru af þessu tilefni helmingi minni en þær þyrftu að vera eða aðeins um 200 milljarðar króna á ári eða um 12 % af VLF.  Hvort tveggja, skattpíning og litlar fjárfestingar, hafa dýpkað og lengt í kreppunni, því að þetta er eitruð blanda fyrir hagvöxt.  Ráðstjórnin hefur meðvitað rekið hér hagvaxtarfjandsamlega stefnu, enda hafa sumir forkólfar hennar lýst því yfir, að þeir séu á móti hagvexti. Þetta er vel þekkt græningjasjónarmið, t.d. í Evrópu, en á engan veginn við hérlendis, þar sem allir atvinnuvegirnir eru reknir með sjálfbærum hætti.  Bjálfayrðing á borð við "látum náttúruna njóta vafans" eða "náttúran hefur sjálfstætt gildi", sem umhverfisráðherra ráðstjórnarinnar viðhefur oft, lýsir vel þokukenndum viðhorfum núverandi stjórnvalda.

Flestar ríkisstjórnir setja í öndvegi sinnar stefnumörkunar að viðhalda góðum hagvexti og að koma í veg fyrir samdrátt hagkerfisins.  Er þetta víðast hvar látið ganga fyrir samdrætti á umsvifum ríkissjóðs, þó að það jafngildi tímabundnum hallarekstri hans.  Ástæðan er sú, að umsvif ríkisvaldsins eru yfirleitt svo stór hluti af landsframleiðslu, 35 % - 55 %, að aðgerðir í ríkisfjármálum hafa mikil áhrif á þjóðarbúskapinn.  Hérlendis er þessu öðru vísi farið undir ráðstjórn.  Ríkisstjórnin hefur engan áhuga á hagvexti og hefur ekkert gert til að efla hann með þeim afleiðingum, að ekki hefur enn tekizt að vinna upp tapaða landsframleiðslu í raunkrónum frá Hruni, heldur hjakkar hagkerfið í sama farinu og er nú svipað að stærð í raunkrónum og árið 2005, þ.e.a.s. síðastliðin 6 ár hefur okkur ekkert miðað fram á við.  Svona langt tímabil án nokkurs nettóhagvaxtar er grafalvarlegt mál og vitnar um mikla meinsemd.  Hún er stjórnmálalegs eðlis, því að ráðstjórnin hefur farið öfugt að öllu miðað við það, sem gengur og gerist í hinum vestræna heimi.  Hún hefur ofan í kreppuna hækkað skatta og skorið niður ríkisútgjöld án þess að fara í nokkra hagvaxtarhvetjandi aðgerð.  Þetta er stórskaðlegt hagkerfinu og þjóðfélagslega stórhættulegt, því að ráðstjórnin hefur með þessu sett hagkerfið í spennitreyju og hrakið 30 þúsund manns út af vinnumarkaðinum.  Þannig mun þetta ganga valdatíma ráðstjórnar á enda, því að þessi fáránlegu og forkastanlegu vinnubrögð eru samofin gjaldþrota stjórnmálastefnu félagshyggjunnar á Íslandi.  

Borgaraleg ríkisstjórn með heibrigða skynsemi að leiðarljósi hefði sett í forgang að koma hjólum atvinnulífsins af stað með tvöföldun fjárfestinga upp í 400 milljarða á ári, svo að koma mætti í veg fyrir fjólmörg gjaldþrot, sóun verðmæta með flutningi stærstu atvinnutækjanna úr landi og atgervisflótta ("brain drain").  Síðan hefði hún snúið sér að sparnaði í ríkisrekstri með því að fá einkaframtakinu tiltekin verkefni og hreinsa út af atvinnuleysisskránni, því að þeir, sem fúlsa við vinnu, sem þeim býðst, eiga ekki að vera þar. 

Borgaraleg ríkisstjórn hefði ekki migið í skóinn sinn með stórfelldum skattahækkunum, sem hafa gefið ríkissjóði miklu minna en stjórnin reiknaði með, því að hún hefur með þessu skapað víðtækan svartan markað; stórfellt neðanjarðarhagkerfi.  Glataður tími og tækifæri verða ekki endurheimt, og viðreisnin verður því erfiðari þeim mun lengri, sem stöðnunartímabilið varir.  Til að koma hjólunum í gang á ný ríkisstjórn ekki annarra kosta völ en að birta í upphafi ferils síns stefnuyfirlýsingu, sem afnemur þá miklu óvissu, sem nú ríkir um afstöðu ríkisvaldsins til athafnalífsins og til skattlagningar fyrirtækja og fólks.  Til að gefa stefnumörkuninni trúverðugleika þarf að lækka alla skattheimtu strax samkvæmt áætlun og að flýta samningum um nýja stóriðju, svo að hefjast megi handa við nýjar virkjanir og iðnaðaruppbyggingu. 

Fyrirtæki landsins á að meðhöndla skattalega með sama hætti, þ.e. auðlindagjald á að afnema, nema auðlindarentan alræmda finnist.  Hins vegar gæti sjávarútvegurinn staðið straum af kostnaði við þjónustu, sem hann nýtur að hálfu hins opinbera, t.d. á formi veiðiráðgjafar og hafnarþjónustu.  Vinda þarf ofan af mismunun innan sjávarútvegsins, sem t.d. er fólgin í strandveiðum, en þar fá menn kvóta endurgjaldslaust og af þeim er ekki innheimt veiðigjald.

Ferðamennskuna verður að endurskipuleggja til að koma í veg fyrir náttúruspjöll, sem jaðra við hreina villimennsku.  Gjald verður að taka af ferðamönnum á viðkvæmum stöðum til að stemma stigu við fjöldanum og til að kosta stíg-og slóðagerð ásamt ströngu eftirliti.  

Tækifærin á Íslandi eru meiri en í nokkru öðru Evrópulandi.  Við höfum alla burði til að vaxa út úr núverandi vanda, en frumskilyrði er þá að velja til forystu fólk með bein í nefinu, víðsýni og þekkingu, en umfram allt fólk, sem stendur með báða fætur á íslenzkri jörð, en er ekki heltekið af evrópskum grillum, sem það sjálft botnar hvorki upp né niður í.      

       

                                                                                                


Evrópusambandið í herkví

Fyrr en margur hugði er nú komið að ögurstundu á vegferð Evrópusambandsins (ESB), sem er orðið mikill baggi á veikburða ríkissjóðum aðildarlandanna.  Óhætt er að segja, að evran er dragbítur á hag margra landa Evrópu nú í efnahagskreppunni seinni í byrjun 21. aldarinnar, því að þau eru ósamkeppnihæf vegna hennar. 

Jafnvel er nú skuldatryggingarálag Sambandslýðveldisins tekið að hækka, og hlutabréfaverð í frönskum bönkum lækkar eðlilega ört vegna mikilla útlána þeirra til Grikklands og fleiri senn gjaldþrota landa evrulands. Lánshæfismat franska ríkisins, AAA, er of hátt m.v. 82 % skuldir þess af VLF.  Varnarlína ESB liggur ekki lengur um Madríd og Róm, heldur um París. Slagorðið um æ nánari samruna (an ever closer union) skortir nú innihald, því að stefnuna hefur steytt á skeri.  

Með útgáfu ESB-ríkisskuldabréfa átti að bjarga Suður-Evrópu, en úr því verður ekki, því að Þjóðverjar neita að verða drógin, sem dregur þann vagn á gjöktandi nöfum.  Þar með verður feigum ekki forðað, né ófeigum í hel komið.  Þjóðverjar sáu skriftina á veggnum í þessu sambandi, þ.e. að þeir mundu verða blóðmjólkaðir, en sökudólgarnir mundu að mestu komast upp með léttúðuga lifnaðarhætti.  Þjóðverjar eru sem betur fer teknir að leggja við hlustir, þegar fyrrverandi yfirhagfræðingur Bundesbank, þýzka seðlabankans, Otmar Issing, hefur upp raust sína.  Í forystugrein Morgunblaðsins, miðvikudaginn 10. ágúst 2011, "Aðvörunarorð úr innsta hring", er haft eftir Herrn Issing, "að ráðagerðir valdamanna í Brüssel um að búa til pólitískt sambandsríki, svo að verja megi evruna, feli dauðann í sér." 

Það eru komnir upp þverbrestir í samstarfi evru-ríkjanna, og þar ríkir glundroði sem á sökkvandi skipi væri.  Bréf Barroso til forystumanna ESB og ofanígjöf Olla Rehn við hann ásamt silalegum og fálmkenndum viðbrögðum og algeru frumkvæðisleysi varpar ljósi á þetta.  

Hvers konar klúbbur er það þá, sem Samfylkingin og handbendi hennar eru blygðunarlaust að troða Íslandi í ?  Svarið á skrifandi stundu er, að það veit enginn.  Samt er haldið áfram með ærnum tilkostnaði.  Samfylkingin hefur tekið trú og getur ekki játað á sig mistök með því að láta af henni. Þessu fyrirbrigði verður hegnd grimmilega fyrir þrákelkni sína í næstu Alþingiskosningum, því að flokkurinn tekur Brüssel-trú sína fram yfir þjóðarhagsmuni. 

Væri nokkur mannsbragur að forystu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, mundi hún fara að ráðum Nestors síns, Hjörleifs Guttormssonar, er hann setti fram í Morgunblaðsgrein 10. ágúst 2011, "Alþingi stöðvi gönuhlaupið til Brussel", en þar sýnir hann fram á, að umsóknin, sem Alþingi samþykkti með semingi 16. júlí 2009, var sett fram á röngum forsendum.  Það er hægt að taka undir hvert orð í þessari grein Hjörleifs, t.d.:"Það er niðurlægjandi fyrir Íslendinga, að stjórnvöld skuli standa í aðildarviðræðum við Evrópusambandið þvert á vilja meirihluta þjóðarinnar."  Hann biðlar síðan til Alþingis, sérstaklega flokksmanna sinna, að söðla nú um og samþykkja að draga umsóknina til baka. Þessi flokksómynd hefur reyndar þegar glutrað niður öllum trúverðugleika sínum fyrir tilstilli Steingríms Sigfússonar og Svandísar Svavarsdóttur.    

Ljóst er, að gríðarlegt tap er framundan.  Trilljónir evra og trilljónir bandaríkjadala (trilljón=þúsund milljarðar) munu tapast á mörkuðum.  Þetta verður svo tilfinnanlegt tap, að koma mun við buddu hvers einasta manns austan hafs og vestan, sem á annað borð á buddu.  Enn einu sinni tapa íslenzku lífeyrissjóðirnir hluta af 500 milljarða kr eign í hlutabréfum.  Það liggur ekki í augum uppi, hvers vegna lífeyssjóðirnir hafa sett fjórðung eigna sinna í hlutabréfakaup.  Að mati höfundar þessa vefseturs er það óafsakanleg glæfrahyggja með langtímasparnað landsmanna.  Hámark hlutabréfaeignar ætti að vera 10 %. 

Verðfallið hefur þegar haft áhrif á verðlag útflutningsafurða Íslendinga til lækkunar og áhrif til fækkunar ferðamanna eru líkleg.  Þetta mun jafngilda áframhaldandi kjaraskerðingu á Íslandi. Við þessar aðstæður gælir farlama ríkisstjórn við hugmyndir um aukna skattheimtu af útflutningsgreinunum, sem er fullkomlega forkastanleg stefna, sem gæti stórskaðað hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma litið (og skamms). Að éta útsæðið eru ær og kýr sameignarsinna.  

Nú ríður okkur á sparnaði og aðhaldi á öllum sviðum, en á sama tíma er ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs mjög útbær á opinbert fé, sem sólundað er m.a. í aðlögun að ESB og í aðildarviðræður að því.  Þetta er því forkastanlegra, þeim mun augljósara sem það verður, að Ísland verður aldrei aðili að því ESB, sem við þekkjum núna, einfaldlega af því að það er á fallanda fæti.

Það er mjög óvenjulegt skeið í alþjóða stjórnmálum að renna upp núna, sem kallar á óvenjuleg, frumleg og djarfleg viðbrögð íslenzkra stjórnmálamanna.  Því miður er Alþingi með endemum aftarlega á merinni og ógæfulega saman sett nú, og óskandi væri, að gamla settinu yrði einfaldlega settur stóllinn fyrir dyrnar, svo að kosningar verði ekki umflúnar, í von um, að breyta megi atburðarásinni til betri vegar.  Þá verða stjórnarandstæðingar í öllum þingflokkunum og stjórnmálaflokkunum að leggjast á eitt til að svo megi verða.  Ekki er loku fyrir það skotið, að slíkt megi verða þegar í haust 2011, því að ríkisstjórnin er lömuð á strandstað.  

Evran bendir til nánara sambandsÞað er til of mikils mælzt, að Samfylkingin sjái að sér og skipti um skoðun á nauðsyn þess að ganga í ESB, enda hefur jafnan legið í landi, að sú stefnumörkun héldi vart vatni.  Frá þessum blinda einsmálsflokki hefur aldrei komið neitt annað en kratablaður um Evrópuhugsjónina, sem á ekki upp á pallborðið hjá eyjarskeggjum. Þessi sama Evrópuhugsjón verður fyrsta fórnarlambið, þegar harðnar á dalnum, og hver þjóð mun bjarga sér sem bezt hún getur.  Evrópumenn munu ekki láta bjóða sér að verða undirsátar ólýðræðislegs bákns í Brüssel, sem hæglega getur tekið myndbreytingu í átt að Sovétbákninu hryllilega, sbr viðvörunarorð eins traustasta varðar og bakhjarls þýzka marksins, Otmar Issing.

Ákall og draumórar græningjans, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, Joschka Fischer, sem berja mátti augum í Morgunblaðinu þriðjudaginn 9. ágúst 2011, er andvana fætt.  Greinin ber fyrirsögnina, "Fullveldiskreppan í Evrópu", og þar á höfundurinn við, að Evrópuríkin búi nú við of mikið fullveldi og að vandamálið sé fólgið í þvergirðingi margra við fullveldisafsali.  Um þetta sjónarmið má segja, að sínum augum lítur hver á silfrið.  Joschka Fischer vill leggja allt í sölurnar til að bjarga evrunni, en höfundur þessa vefseturs er þeirrar skoðunar, að farið hafi fé betra og að í því sé fólgin allt of mikil áhætta að auka enn við miðstýringarvald og forsjárhyggjuáráttuna í Brüssel.  Það gengur heldur ekki upp, hagfræðilega.  Joschka Fischer skrifar m.a.:

"Í öðru lagi mun stökkið inn í gjaldeyrissjóð og sameiginlega stjórn efnahagsmála leiða til frekari og víðtækrar skerðingar á fullveldi í þágu evrópskrar lausnar á vettvangi sambandsins.  Má t.d. nefna, að innan myntbandalagsins munu fjárlög einstakra aðildarríkja heyra undir evrópska eftirlitsstofnun."

Svo mörg voru orð þýzka græningjans, en því fer víðs fjarri, að meirihluti landsmanna hans deili með honum skoðunum um Sambandsríki Evrópu, enda mundi slík ríkismyndun verða á kostnað lýðræðis og sjálfsákvörðunarréttar almennings.   Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe mun og verða græningjum og krötum Þýzkalands óþægur ljár í þúfu, því að svo heiftarlegt fullveldisframsal stríðir gegn Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins. Almenningur í Þýzkalandi er meðvitaður um, hvað sameining Evrópu í eitt ríki hefur í för með sér fyrir efnahag sinn.  Hann hefur nýlegt dæmi frá endursameiningu Þýzkalands.  Hinum ráðdeildarsama þýzka skattgreiðanda verður beitt fyrir Evrópuvagninn og látinn "halda uppi" sukksamari ríkjum með einum eða öðrum hætti. Þetta er kjarni samrunaferlisins.  Lýðræðið í Þýzkalandi mun hindra þessa þróun, og þess vegna stendur evran og ESB á brauðfótum um þessar mundir. Veikleikar Frakklands í þessu sambandi eiga eftir að koma betur í ljós. 

Við þessar aðstæður er tal sanntrúaðra ESB-sinna Samfylkingarinnar sorglegt.  Þeir opinbera sig sem þekkingarlitla (sbr evran er ekki sökudólgurinn) og dómgreindarlausa varðandi núverandi stöðu Evrópu, og afleiðingar þess fyrir Ísland að sækjast eftir aðild að ESB. 

Samfylkingin hefur ekki annað samningsmarkmið en að skrifa undir allt, sem ESB fer fram á.  Síðan eiga spunaþrælarnir að klæða kvikindið í búning, sem þeir telja unnt að selja það þjóðinni í.  Engin efnisleg umræða fer fram á þingi eða í fjölmiðlum um framvindu samninganna.  Þetta er viðbjóðslegur málatilbúnaður og ber vitni um einbeitt andlýðræðislegt hugarfar.  Ofan af þessum viðbjóði verður flett og ESB-draugarnir verða teknir viðeigandi glímutökum og brotnir á bak aftur.  Myndin hér að neðan sýnir þróun hlutabréfamarkaðar í frönsku kauphöllinni í byrjun ágúst 2011.    

    Fall markaða í ágúst 2011          

  

   


Sukk og svínarí í ríkisbúskapi

Það eru ár og dagar síðan gæzlumaður ríkisfjárins hefur haft jafnlítið til brunns að bera sem slíkur og nú.  Þessi ríkisfjósamaður skilaði ríkissjóði með 123 milljarða kr halla árið 2010, sem er 41 milljarði kr verri útkoma en áætlanir hans gerðu ráð fyrir og ráða mátti lengi vel af orðum hans sjálfs.  Segja má, að ekki sé orð að marka úr munni þessa fármálaráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Í sveit væri honum ekki treyst fyrir starfi kúarektors.  Hann hefur hins vegar kjaftað sig inn á kjósendur og í núverandi stöðu sína.    

Gjörningar þessa lánlausa manns í nafni ríkisins eru vart hafðir í frammi með hagsmuni ríkissjóðs fyrir augum.  Þeir lýsa endemis flumbrugangi og dómgreindarleysi, og er Icesave-hneykslið stærst og alvarlegast á brotaferli ráðherrans, en stöðugt skjóta önnur mál og minni í sniðum upp kollinum, þótt dýr séu skattgreiðendum.  SpKef sukkið er með þeim hætti, að spyrja verður, hvað í ósköpunum þessum félagshyggjumanni gengur til með því að vera sjálfur að ráðskast með það í stað þess að eftirláta það Bankasýslu ríkisins, sem þó mun kosta um 100 milljónir kr á ári í rekstri.  Svipuðu máli gegnir um örlög Byrs.  Sjóvá var mergsogin af hýenum, og síðan hljóp þessi vitsmunabrekka í fjármálaráðuneytinu undir bagga á þeim bæ og kastaði fyrirtækinu síðan í fang Seðlabankans.  Þar á bæ kunna menn ekki til verka við sölu á fyrirtækjum, enda andstætt lögum um Seðlabanka, að starfsmenn hans fáist við slíkt, og virðist persónuleg andúð Trotzkýistans í Svörtuloftum hafa borið skynsemina og rétt viðskiptasiðferði ofurliði. 

Kæmi ekki á óvart, þó að þessir fjárglæfrar fjármálaráðherra og handbenda ríkisstjórnarinnar hafi kostað skattborgarana um 50 milljarða kr, og er þó margt ótalið af viðvaningshætti og hreinu glapræði ráðherrans, ef hann þá ekki beinlínis hefur gert sig sekan um að draga taum skjólstæðinga sinna á kostnað skattborgara.  Er ekki annað að sjá en vanheilagt bandalag félagshyggjuflokkanna við óprúttin fjármálaöfl sé við lýði, og er það í samræmi við ályktanir, sem draga má af yfirlitsritinu "Rosabaugur yfir Íslandi"  eftir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra.  

Týr undir ESB-fánaÁ sama tíma er staða ríkissjóðs svo bágborin, að hann getur ekki haldið úti eðlilegri starfsemi Landhelgisgæzlu, heldur leigir hún skip utan til gæzlu á ófriðarsvæðum.  Meðferð ríkisstjórnarinnar á fangelsismálum sýna handabakavinnubrögð hennar í hnotskurn.  Dómar fyrnast vegna vöntunar á betrunarhúsi, og um 500 manns bíður betrunarhússvistunar.  Við þessu bregðast ráðherrar með þrefi í ríkisstjórn um það, hvort gera eigi fjármögnunar-, framkvæmda- og leigusamning við einkaframtakið, eins og eðlilegast er í stöðunni, eða hvort ríkið á að reisa fangelsið með fjármögnun af fjárlögum, sem jafngildir lántöku sjóða með mikinn halla.

Ekki þarf að tíunda niðurrifsstarfsemi ríkisstjórnarinnar gagnvart heilbrigðisgeiranum.  Þar er undirmönnun slík, að starfsfólk er oft að niðurlotum komið og biðlistar lengjast ískyggilega.  Fjölbreytni vantar í rekstrarformin vegna steinrunninna hugmynda og  frumkvæðisleysis ríkisstjórnarinnar.  Meira mætti gera fyrir minna, ef markaðsöflum væri hleypt að.   

Allt verður þessum lánlausu ráðherrum að fótakefli.  Þó var sú tíðin, að allar tillögur hins langsoltna og valdasjúka fjármálaráðherra um skattahækkanir voru samþykktar af þingflokkum vinstri flokkanna með glotti.  Enn ætlar glórulaus og hugmyndasnauður fjármálaráðherra að höggva í sama knérunn, þó að tölulegar staðreyndir sýni fram á, að sá málflutningur stjórnarandstöðunnar er réttur, að greiðsluþol skattgreiðenda er nú svo laskað af óhæfri ríkisstjórn, að sérhver skattahækkun dregur úr neyzlu, herpir þar með saman hagkerfið, sem dregur úr skatttekjum og færir æ stærri hluta hagkerfisins undir yfirborðið.  Einhverjir stjórnarliða eru að fá kalda fætur af þessu tilefni, svo að fjárlagagerðin er í uppnámi ofan á alla aðra óreiðu.   

Í forystugrein Morgunblaðsins, "Hótunum andmælt", þann 26. júlí 2011, er eftirfarandi tilvitnun í formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, sem útilokar frekari skattahækkanir: "Það þarf að vinda ofan af skattahækkunum, sem hafa þegar átt sér stað."  Þarna á formaðurinn við allar skattahækkanir hinnar misheppnuðu og getulausu ríkisstjórna Jóhönnu Sigurðardóttur frá Hruni.  Þetta mun fara inn í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar eftir næstu Alþingiskosningar, fái Sjálfstæðisflokkurinn nokkru um ráðið.

Hjálparfoss 20.07.2011Nokkru síðar segir í tilvitnaðri forystugrein:"Núverandi ríkisstjórn hefur setið að völdum í hálft þriðja ár.  Á þeim tíma hefur hún valdið gríðarlegri eyðileggingu í hagkerfinu og hindrað uppbyggingu og hagvöxt." Hér er ekkert ofsagt.  Staða hagkerfisins nú er miklu verri en hún þyrfti að vera, þegar senn verða liðin 3 ár frá hruni bankakerfisins. Við erum þess vegna í veikari stöðu en ella til að fást við komandi kreppu, sem óráðsía í ríkisfjármálum margra landa er að leiða yfir heiminn.   

Þessa slæmu stöðu verður að skrifa alfarið á störf ríkisstjórnarinnar og þingflokkanna að baki henni.  Hún hefur sýnt, að hún kann ekkert til verka við endurreisn þjóðarhags, stráir sandi í tannhjól athafnalífsins og þvælist endalaust fyrir þjóðþrifamálum, sem líkleg eru til tekjuöflunar.  Allt má skýra þetta með löngu úreltri hugmyndafræði um nauðsyn á útþenslu ríkisbáknsins og skaðsemi erlendra fjárfestinga, sem forpokaðir foringjar stjórnarinnar eru með á heilanum og hafa verið með í hálfa öld eða meir.  Hún er í verki lengra til vinstri en nokkur önnur ríkisstjórn Evrópu, og er þá langt til jafnað. Þessi ríkisstjórn er ótrúlega aftarlega á merinni, og hana skipar ótrúlegt glópasafn, ólíkindatól.

Dæmi um þetta blasti við á forsíðu Morgunblaðsins þann 29. júlí 2011: "Hafa misst af tækifærinu - Velferðarráðuneytið hefur heimilað Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að leigja út tvær skurðstofur, en tilboð, sem barst í þær, rann út fyrir þremur mánuðum."

Þetta er það, sem átt er við, þegar því er haldið fram, að núverandi stjórnvöld þvælist fyrir, þegar landsmenn sýna vilja til nýrrar tekjuöflunar.  Alveg sérstaklega virðist þessum vonlausu stjórnvöldum vera uppsigað við aukna gjaldeyrisöflun, eins og hér var um að ræða. Mönnum er enn á okkar dögum hegnt fyrir að útvega sér snæri og öngul til að sjá sér farborða. Afleiðinguna af forræðishyggju stjórnvalda sér hvarvetna stað, ekki sízt í rýrum tekjum hins opinbera.

Ráðherrann, sem hér átti í hlut, Guðbjartur, velferðar, varð alræmdur fyrir það, þegar Icesave-deilan stóð sem hæst á Alþingi, að hreyta út úr sér, þegar nýjar upplýsingar birtust um málið, að hann fengi ekki séð, að neitt nýtt hefði gerzt í málinu.  Nú er komin skýring á þeim endemis viðbrögðum.  Maðurinn hefur ekkert tímaskyn.  Tíminn stendur kyrr hjá Guðbjarti Hannessyni, og þess vegna gerist náttúrulega aldrei neitt hjá honum.

Það er svívirðileg framkoma ráðherra við Suðurnesjamenn að draga afgreiðslu heimildarumsóknar þeirra svo mjög, að þeir verða fyrir tekjutapi, og málið ónýtist jafnvel alveg fyrir þeim. 

Þessi afgreiðsla er vafalaust brot á stjórnsýslulögum, og málarekstur á hendur ráðuneytinu mundi líklega enda með sektardómi.  Ráðherrarnir eru svo forstokkaðir, sbr tafir umhverfisráðherra á afgreiðslu skipulags Flóahrepps, að þeir virðast telja sig geta farið með þegna sína eins og borðtusku, eða er skýringanna einfaldlega að leita í almennu getu-, þekkingar- og sinnuleysi ?  Þessi þrenning og hvert atriði um sig gerir ráðherrana óhæfa til leiðsagnar.

Hvað halda menn, að óstjórn af þessu tagi kosti samfélagið ?  Það er hægt að slá á, hvaða tekjutap hlýzt af, en að auki er svo um að ræða ábyrgðarlaus og óþörf útgjöld, eins og vikið var að í upphafi vefgreinar.  Ef allt hefði verið með felldu um stjórn landsins frá Hruni og viðreisn hagkerfisins hefði verið sett í öndvegi, hefði samdrátturinn orðið minni árið 2009, hagvöxtur hefði orðið 2010 og drjúgur hagvöxtur væri nú árið 2011.  Að jafnaði má ætla, að hagvaxtarmismunurinn næmi 3 % á ári eða um einni milljón króna í tekjur samtals þessi 3 ár á hverja meðalfjölskyldu í landinu.

Það er ekki nóg með, að þessi endemis ríkisstjórn hafi af almenningi brúttótekjur, heldur veldur verðbólgan og skattpíningarstefna hennar minnkandi ráðstöfunartekjum löngu eftir, að slíkt getur talizt eðlilegt og verjanlegt eftir hrun bankanna.  Þar að auki bindur ríkisstjórnin framtíðar skattgreiðendum stóra skuldabagga með gegndarlausum útgjöldum og hallarekstri á ríkissjóði. Ríkisstjórnin situr að völdum til þess eins að sitja, tryggja afturhaldssjónarmiðum sínum sess og þar með að girða fyrir framfarir. Mál er, að linni. 

  Ásalóð (Oslo)

       

  

 

 

  

  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband