Mundi aðild bæta hag eða þjóðaröryggi hérlendis ?

Þegar ákveða á, hvort endurlífga á aðlögunina að Evrópusambandinu (ESB), sem horfið var frá í raun 2011 og formlega síðar, verður að vega og meta kosti og galla aðildar.  Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar, hæstaréttarlögmanns, í Morgunblaðinu 06.08.2025 var mikilvægt innlegg í þessa átt.  Þar rakti hann í raun og veru, hvers vegna ekkert mælir með inngöngu í þennan klúbb fyrir Ísland. 

 Nú eru EFTA-löndin, nema Sviss, með aðild að Innra markaði ESB síðan 1994, en blikur eru á lofti um, að vera EFTA-landanna utan tollabandalags ESB þýði, að bandalagið telji sig þurfa að meðhöndla EFTA-ríkin eins og önnur lönd utan tollabandalagsins, þegar kemur að tollaákvörðun.  Í því tollastríði, sem Bandaríkjastjórn hefur hrundið af stað, er þessi staða óviðunandi.  Fríverzlunarsamningur hjálpar væntanlega ekki heldur. Svisslendingar eru með margháttaða samninga við ESB, og nú eru í gangi viðræður þeirra á milli um nýtt fyrirkomulag. Verður fróðlegt að sjá, hvað út úr þeim samningaviðræðum kemur.  Eins og kunnugt er varð tollsetning Trump-stjórnarinnar (39 %) reiðarslag fyrir Svisslendinga, sem sjá fram á hrun Bandaríkjamarkaðar fyrir vörur sínar.  Það er með endemum, hvernig Bandaríkjastjórn leyfir sér að haga sér, brjótandi niður það alþjóðakerfi, sem Bandaríkjamenn hafa öðrum fremur byggt upp. 

EFTA-ríkin verða að reyna að sækja rétt sinn til ESA og EFTA-dómstólsins, ef ESB ætlar að halda tollastefnu sinni til streitu. 

Ákafi Viðreisnar er mikill að koma Íslandi í ESB, og eru rökin aðallega nú öryggislegs eðlis, en það er hæpið, að her ESB bæti nokkru við varnir Íslands umfram aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin, þótt haldið í honum sé umdeilanlegt með Trump við völd. 

Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar nefndist:

"Ísland á ekki að íhuga aðild að ESB".

Hann tíndi til nokkrar staðreyndir þessari fullyrðingu til stuðnings:

  1. "Hagvöxtur á Íslandi hefur verið mun meiri en hjá ESB-ríkjum, eftir að aðildarviðræðum var hætt:

 ATH.: Evran á þátt í að halda aftur af hagvexti ríkja á evrusvæðinu, því að skráning hennar tekur ekkert tillit til framleiðni og samkeppnishæfni ýmissa ríkja á evru-svæðinu. 

  2. Kaupmáttarvöxtur á Íslandi hefur hefur verið mun 

     meiri en innan ESB frá sama tíma.

ATH.: Ísland náði sér hraðar upp úr bankakreppunni en flest önnur lönd og sökk líka dýpra en flest.  Íslenzka hagkerfið er að mestu reist á náttúruauðlindum, sem voru gjöfular mestan hluta tímabilsins.  Á síðustu árum hafa launahækkanir verið umfram framleiðniaukningu, sem grefur undan kaupmáttaraukningu og gjaldmiðlinum.

    3. Íslenzka krónan hefur verið stöðugri en evran 

       gagnvart bandaríkjadollar.

ATH.: ISK gæti senn lækkað að verðgildi m.v. helztu gjaldmiðla vegna kjarasamninga, sem flest fyrirtæki ná ekki að standa undir með framleiðnivexti.  

    4. Íslenzkt atvinnulíf hefur aldrei verið 

       fjölbreyttara, og nýsköpun blómstrar. 

 ATH.: Þetta stafar aðallega af öflugum grundvallargreinum, t.d. sjávarútvegi, sem stundað hafa vöruþróun til að auka verðmæti afurðanna og draga úr kostnaði með aukinni sjálfvirkni. Upp úr þessum jarðvegi hafa sprottið sprotafyrirtæki, sem sumum hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg.  Með nýrri vinstri stjórn eru viðsjár í þessum efnum, því að ríkisstjórnin veikir mjög öflugustu fyrirtækin, sem leitt hafa tækniþróunina, með gjörsamlega hömlulausri og stórskaðlegri skattheimtu.  Þessi óheillaþróun mun leiða til minni verðmætasköpunar en ella, sem er alvarlegt mál fyrir hagkerfið í heild. 

   5. Atvinnuleysi mælist varla.  

ATH.: Atvinnuleysi mælist vissulega á Íslandi, og fer vaxandi undir vinstri stjórn.  Það mun þó vonandi lagast með virkjunarframkvæmdum.  Atvinnuleysi á Íslandi er miklu minna en í ESB og sérstaklega m.v. evrusvæðið, enda eru hagsveiflur þar teknar út á atvinnustiginu.

   6. Ísland er í fyrsta sæti á lista Sameinuðu 

      þjóðanna yfir lífskjör (Human Development 

      Index ).

ATH.: Mundi Ísland halda sæti sínu á þessum lista að öðru óbreyttu en aðild að ESB ?  Það er ekki víst í ljósi mikils útjöfnunarkostnaðar lífskjara, sem leggjast mundi á Ísland eftir aðild, og vegna mikilla útgjalda til varnarmála, sem blasa við löndum ESB.

   7. Jafnrétti er hvergi meira en á Íslandi; sama 

      gildir um kaupmátt lægstu launa og bóta, 

      atvinnuþátttöku kvenna og launajöfnuð.

ATH.: Þessi atriði munu væntanlega draga dám af því, sem tíðkast í ESB eftir hugsanlega inngöngu Íslands í ESB.  

   8. Varlega áætlað eru Íslendingar 9. ríkasta þjóð 

      heims. " 

ATH.: Þetta getur breytzt til verri vegar með aðild, því að landsmenn munu þá þurfa í einhverjum mæli að deila landhelgi sinni með öðrum aðildarþjóðum, þar sem hin sameiginlega fiskveiðistefna ESB mun ríkja hér. Þá mun væntanlega koma þrýstingur á Alþingi að innleiða 4. orkupakka ESB og að samþykkja lagningu aflsæstrengs hingað, sem hækka mun raforkuverðið enn meir, og rýrir það samkeppnihæfnina. 

"Það er ekki síður áhugavert að skoða, hversu mikið landsframleiðsla hefur aukizt á Íslandi á tímabilinu 2010-2024 m.v. vöxtinn í Evrópu og í Bandaríkjunum á sama tíma:

   9. Landsframleiðsla í ESB-ríkjunum hafur á tímabilinu vaxið um 15 %. 

ATH.: Þetta er óeðlilega lítill vöxtur, og Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri evrunnar, sá ástæðu til að kryfja þetta til mergjar í langri skýrslu fyrir um 2 árum.  Hann komst m.a. að þeirri niðurstöðu, að reglugerðafargan ESB væri dragbítur á fyrirtækin.  Þá má nefna lokun kjarnorkuvera í Þýzkalandi, öldu flóttamanna frá Sýrlandi og víðar, áherzlu á óhagkvæma orkugjafa á borð við vind og sól og hátt raforkuverð, sem leitt hefur af orkuskorti.  Það virðist mega draga þá ályktun, að innganga Íslands í ESB mundi leiða til versnandi lífskjara hérlendis.  

   10. Á sama tíma hefur hún vaxið um 35 % - 40 % í Bandaríkjunum.

ATH.: Í Bandaríkjunum hefur verið lifað um efni fram, eins og gríðarlegar erlendar lántökur á formi ríkisskuldabréfa gefa til kynna, og eiga þær sennilega þátt í lágu gengi USD.  Nú er frumstæð og í alla staði mjög undarleg efnahagsstjórnun við lýði í Bandaríkjunum, sem snýst um háa tolla á vörur frá ríkjum með jákvæðan viðskiptajöfnuð við Bandaríkin.  Þessi kaupauðgistefna hefur fellt gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum, veikt gengi USD og kynt undir verðbólgu um leið og kaupmáttur almennings minnkar. Hvíta húsið boðaði í upphafi, að hagur almennings mundi batna við þennan fíflagang, sem sýnir, hvers konar vitsmunaverur eru nú þar við völd, enda hrapar fylgi forsetans í skoðanakönnunum. 

   11. Á Íslandi hefur hún vaxið um u.þ.b. 50 %.  Á

   mælikvarðanum verg landsframleiðsla á mann er

   Ísland í 5. sæti allra ríkja heims."

ATH.: Samanburðartímabilið er auðvitað hagstætt Íslandi, því að hér varð einna mest fall landsframleiðslu á mann í heiminum í fjármálakreppunni 2007-2009. Hins vegar ber staða VLF/íb órækt vitni um árangur efnahagsstjórnunar hér, og það verður ekki annað séð en innganga í ESB bjóði þeirri hættu heim, að hér verði efnahagsstöðnun og versnandi lífskjör.  Í þessu ljósi er óskiljanlegt, hvað þeim stjórnmálamönnum gengur til, sem nú vilja dusta rykið af aðildarumsókn Íslands frá 2009.  Að benda á ný viðhorf til öryggismála í Evrópu heldur ekki vatni.  E.t.v. er ESB orðið þreytt á EES-samninginum, en þá er lausnin ekki sú að hverfa í þjóðahafið, heldur að leita fríverzlunarsamnings við ESB, jafnvel á grundvelli EFTA-aðildarinnar.  Í Noregi virðist afstaðan til ESB lítið hafa breytzt, svo að samflot með Norðmönnum og jafnvel Svisslendingum við gerð fríverzlunarsamnings virðist blasa við, ef ESB vill henda okkur út fyrir tollmúrana, þegar svo býður við að horfa.   

 

 


Loftslagsútgjöld og ávinningur

Fyrirferð loftslagsmála á þessum áratugi í umræðunni hefur minnkað m.v. við síðasta áratug.  Fyrir því eru ýmsar ástæður, en ein er sú, að búið er að hrópa úlfur, úlfur allt of oft án tilefnis og önnur sú, að æ fleiri gera sér grein fyrir, að kostnaðurinn við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er ekki í neinu samræmi við ávinninginn.  Þetta hefur Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnar hugveitunnar, gestafræðimaður við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Kaliforníu og höfundur bókarinnar Best Things First, sýnt fram á.  

Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 20. janúar 2025 undir fyrirsögninni:

"Það sem loftslagsútgjöld kosta heiminn".

Hún hófst þannig:

"Um allan heim eru fjármál hins opinbera nálægt hættuæastandi.  Vöxtur á hvern einstakling heldur áfram að lækka, á meðan kostnaður eykst vegna ellilífeyris, menntunar, heilsugæzlu og varnarmála.  Þessi brýnu forgangsatriði gætu auðveldlega krafizt 3-6 % til viðbótar af landsframleiðslu.  Samt kalla grænir aðgerðasinnar hávært eftir því, að stjórnvöld eyði allt að 25 % af landsframleiðslu okkar í að kæfa vöxt í nafni loftslagsbreytinga.

Ef dómsdagur vegna loftslagsbreytinga væri yfirvofandi, væri sú stefna ekki svo vitlaus.  Sannleikurinn er þó ekki eins dramatískur. Nýlega hafa verið birtar 2 stórar vísindalegar áætlanir um heildarkostnað við loftslagsbreytingar á heimsvísu.  Þetta eru ekki einstakar rannsóknir, sem geta verið mismunandi (þar sem dýrustu rannsóknirnar fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum).  Þess í stað eru þær meta-rannsóknir, byggðar á öllum tiltækum ritrýndum rannsóknum.  Önnur rannsóknin [skýrslan-innsk.BJo] er rituð af einum þeirra loftslagshagfræðinga, sem mest er vitnað í, Richard Tol; hin er eftir eina loftslagshagfræðinginn, sem hefur hlotið Nóbelsverðlaunin, William Nordhaus.

Rannsóknirnar benda til þess, að 3°C hitahækkun í lok aldarinnar - sem er dálítið svartsýnisleg spá m.v. núverandi þróun - muni [hafa í för með sér] alþjóðlegan kostnað, sem jafngildir 1,9 %-3,1 % af vergri heimsframleiðslu.  Til að setja þetta í samhengi áætla SÞ, að í lok aldarinnar verði meðalmaðurinn 350 % ríkari en hann eða hún er í dag.  Vegna loftslagsbreytinga verður það eins og að vera aðeins 335 % - 340 % ríkari en í dag." 

M.ö.o. mun jarðarbúa muna sáralítið efnalega um heildarafleiðingar hitastigshækkunar á jörðunni á þessari öld, þótt tjón og ávinningur dreifist ójafnt á landsvæði jarðar.  Þá er eftir að taka tillit til mótvægisaðgerða, sem áreiðanlega munu eiga sér stað og draga úr tjóninu.  Loftslagspostular minnast ekki á þetta, heldur boða í raun dómsdag yfir mannkyni vegna núverandi hitastigsstiguls. Þeir boða, að kasta skuli perlu fyrir svín;  fara í gríðarlega umfangsmiklar og kostnaðarsamar aðgerðir með látum.  Hæst ber þar orkuskiptin, þótt í raun vanti enn þá "réttu" tæknina til að taka við af jarðefnaeldsneyti.  Orkuskipti eru sjálfsögð, en tæknin þarf að vera fyrir hendi.

"Raunverulegur kostnaður við óhagkvæma loftslagsstefnu er, að hún dregur auðlindir og athygli frá öðrum forgangsatriðum.  Evrópa býður upp á ömurlega lexíu.  Fyrir 25 árum lýsti Evrópusambandið því yfir, að með stórfelldum fjárfestingum í rannsóknum og þróun  um allt hagkerfið myndi það verða "samkeppnishæfasta og öflugasta þekkingarhagkerfi í heimi".  Það mistókst algjörlega: útgjöld til nýsköpunar jukust varla, og ESB er nú langt á eftir Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og jafnvel Kína.  

Þess í stað skipti ESB um áherzlur og knúið af loftslagsþráhyggju valdi það "sjálfbært" hagkerfi fram yfir traust hagkerfi.  Ákvörðun ESB um að auka markmið sín um að draga úr losun árið 2030 var hrein dyggðaflöggun.  Líklegt er, að kostnaðurinn fari yfir nokkrar trilljónir evra, en samt sem áður mun allt átakið aðeins lækka hitastigið í lok aldarinnar um 0,004°C."

Þetta dæmi kastar ljósi á það, hvers vegna það er óskynsamlegt af Íslendingum að ganga þessu ríkjasambandi á hönd.  Dagleg stjórnun þar er á höndum embættismannabákns, sem mótar og semur reglugerðafargan, sem tekur ekki alltaf mið af heilbrigðri skynsemi, heldur setur "dyggðaflöggun" framar í forgangsröðina, þótt hún dragi úr velmegun borgaranna og samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þessi 25 ára yfirlýsing ESB, sem Lomborg nefnir, minnir á yfirlýsingu aðalritara sovézka kommúnistaflokksins, Nikita Krútsjoff, á sínum tíma um, að Sovétríkin mundu grafa Bandaríkin og átti þá við, að kommúnistarnir færu fram úr kapítalistunum á öllum sviðum innan tiltölulega skamms tíma. 

Lenín talaði á sínum tíma um "gagnleg fífl" - "useful idiots".  Efir Alaska-fund Trumps og Pútíns 15. ágúst 2025 hvarflar að manni, að þannig líti rússneskir ráðamenn á núverandi forseta Bandaríkjanna.  Framvindan þar var með ólíkindum, og Evrópuleiðtogarnir á nálum.  Hins vegar getum við litið okkur nær í nútímanum.  Málflutningur aðildarsinna að ESB hérlendis um, að Íslendingar einir mundu sitja að veiðum innan efnahagslögsögu Íslands vegna veiðireynslunnar fær ekki staðizt. Fiskveiðistjórnun innan lögsögu ESB er óskilyrt á höndum framkvæmdastjórnar ESB.  Vegna mikils þrýstings um að komast inn í efnahagslögsögu Íslands frá ríkjum á borð við Spán mun verða brýnt fyrir framkvæmdastjórn og leiðtogaráð að semja nýja reglu um aðgang ríkja að efnahagslögsögu ESB. Fiskveiðilögsagan er lífakkeri Íslendinga og ræður hún afkomu landsmanna.  Það má því heita fíflagangur að ætla inn í ESB án nokkurrar niðurnjörvaðrar sérreglu fyrir Ísland í þessum efnum. Slík sérregla yrði sennilega ekki samþykkt af leiðtogaráðinu.    

 

 


Fjandskapur við atvinnulífið

Fjandskapur við atvinnurekstur hefur ætíð legið þeim stjórnmálamönnum nærri, sem aðhyllast forræðishyggju hins opinbera, enda er hámark forræðishyggjunnar ríkisrekstur atvinnulífsins.  Á Íslandi sjáum við ýmsar birtingarmyndir þessarar afdönkuðu hugmyndafræði.  Á viðsjártímum í efnahagsmálum heimsins, þegar forðast ber af innlendum stjórnvöldum að íþyngja atvinnurekstri í erlendri samkeppni, er ríkisstjórn Íslands á þeim buxunum að hækka opinber gjöld svo stórlega á sjávarútveginn, að hann neyðist til að draga saman seglin og þar með að draga úr nýsköpun, "grænum" lausnum og samfélagsþátttöku.  Aðgerðin er forkastanleg, því að hún mun draga úr verðmætasköpun og hagvexti í landinu. 

Á ferðageiranum dynja skyndihækkanir, t.d. á farþegaskip, sem draga úr aðsókn.  Meira mun vera í pípunum.

Þann 2. júlí 2025 birtist Innherjagrein í ViðskiptaMogganum, þar sem geðsveiflur innviðaráðherra, tengdar fiskeldinu, gefa til kynna undarlega afstöðu lögfræðingsins til valdmarka ráðherra:

"Ummæli innviðaráðherra, Eyjólfs Ármannssonar, í kjölfar ákvörðunar Arctic Fish um að flytja fóðurstöð sína frá Þingeyri til Ísafjarðar, hafa vakið athygli.  Ráðherrann gagnrýnir fyrirtækið harðlega fyrir skort á samfélagslegri ábyrgð.  Samhliða því hefur hann gefið í skyn, að rekstrarskilyrði fyrirtækisins kunni að verða endurskoðuð, enda muni hann beita sér fyrir því að snúa þessari ákvörðun við. 

Þessi orð ráðherrans eru ekki einungis til marks um óánægju með einstaka ákvörðun fyrirtækisins, heldur má skilja þau sem óbeina hótun.  Ráðherrann gefur í skyn, að fyrirtæki, sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, þurfi að lúta boðvaldi og þóknun stjórnmálamanna.  Slíkt setur hættulegt fordæmi og skapar óvissu í atvinnulífinu." 

Fyrirtæki í landinu verða að búa við atvinnufrelsi til að gera þær ráðstafanir, sem forysta þeirra telur henta þeim bezt.  Þannig verða hagsmunir hluthafa, launþega og samfélagsins í heild bezt tryggðir, því að verðmætasköpun er hámörkuð.  Nú búum við hins vegar við ríkisstjórn, sem þekkir ekki sinn vitjunartíma, en er illa haldin af gömlum grillum, sem hana fýsir að hrinda í framkvæmd, þótt erfitt sé að sjá, að hún hafi verið kosin til þess. 

Þarna endurlífgar Eyjólfur Ármannsson t.d. gamlan draug, sem tröllreið húsum á Íslandi fyrir mörgum árum með hrikalegum afleiðingum. Landsmönnum er enginn greiði gerður með slíku afturhvarfi til fortíðar.  Framferði ráðherrans stríðir sennilega gegn EES-samninginum, sem gerir ekki ráð fyrir slíkum valdboðum ríkisins í garð sjálfstæðra fyrirtækja í samkeppnisrekstri.  Úr því mætti fá skorið með því að færa málið fyrir ESA.  Segja má, að ráðherrann sé utan gátta í nútímanum, en þetta á sennilega að vera lýðskrumsgjörningur hjá honum. Væri ekki ráð, að hann héldi sig við verkefni ráðuneytis síns og hugsaði meira um að hlúa að atvinnulífinu í stað þess að rífa það niður ?

"Það skapar ekki störf, styrkir ekki byggðir og eflir ekki samfélagið að beita fyrirtæki þrýstingi eða gefa í skyn, að rekstrarskilyrði þeirra ráðist af því, hvort ákvarðanir þeirra falla í kramið hjá ráðherrum landsins.  Slíkt viðhorf dregur úr fjárfestingu og býr til óvissu, sem skaðar ekki aðeins einstök fyrirtæki, heldur samfélagið í heild." 

Þessi ríkisstjórn fordæðanna er uppvakningur grillupúka, sem veikir undirstöður íslenzks atvinnulífs og vinnur að því, að stórríki Evrópu nái til Íslands.  Allt þetta vinnur gegn hagsmunum landsmanna í bráð og lengd.  Það eru engin viti borin rök færð fyrir þessari stefnumörkun.  Hér er villuljósum beint að landsmönnum.  Heilbrigð skynsemi segir mönnum, að öflugt atvinnulíf efli hag almennings meira en veikt atvinnulíf og að fullvalda heimastjórn við Lækjartorg og Austurvöll sé líklegri til að efla hag almennings en framkvæmdstjórn og leiðtogaráð í höfuðstöðvum ESB (Berlaymont), þar sem taka þarf tillit til margra ólíkra sjónarmiða og hagsmuna.   

 

 


Ráðherrar seilast langt

Tveir Viðreisnarráðherrar hafa nú þjófstartað endurnýjuðu aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu - ESB.  Formaðurinn, Þorgerður Katrín, hefur skuldbundið landið til að fylgja utanríkisstefnu ESB,  og atvinnuvegaráðherrann H.K. Friðriksson hefur skuldbundið landið til að fylgja sjávarútvegsstefnu ESB.  Hvort tveggja eru skerðingar á sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar, sem þýðir fullveldisframsal. Svona gjörninga ráðherra þarf Alþingi að staðfesta, ef nokkurt "system á að vera í galskapet". 

Þann 29.07.2025 reit Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóða stjórnmálafræðingur, um málefnið í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

 "Felur í sér pólitíska skuldbindingu".

"Með samkomulagi um utanríkismál, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra [og varnarmálaráðherra - innsk. BJo] og formaður Viðreisnar undirritaði við Evrópusambandið 21. maí [2025], ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein, er Ísland, ásamt hinum 2 ríkjunum, pólitískt skuldbundið til þess að fylgja og innleiða ákveðna þætti utanríkisstefnu sambandsins.  Þetta kemur fram í svari frá upplýsingaskrifstofu Evrópusambandsins við fyrirspurn, sem ég sendi henni nýverið.  

Fram kemur, að svarið hafi verið unnið í samráði við utanríkisráðuneyti Evrópusambandsins (European External Action Service), en Kaja Kallas, utanríkisráðherra sambandsins, undirritaði samkomulagið fyrir hönd þess.  Í samkomulaginu segir m.a.:

"Aðlögun að utanríkisstefnu ESB [...], aðlögun EFTA/EES-ríkjanna að ákvörðunum, yfirlýsingum og refsiaðgerðum ESB." 

Ljóst er, að annað í samkomulaginu tekur mið af því meginatriði.  T.d. samráð utanríkisþjónusta.  

Fyrirspurn mín var á þá leið, með hvaða hætti bæri að skilja áður nefndan texta úr samkomulaginu í framkvæmd.  Svarið var svo hljóðandi:

"Aðlögun felur í sér pólitíska skuldbindingu landanna 3, sem nefnd eru, Íslands, Liechtensteins og Noregs, til þess að fylgja og innleiða ákveðna þætti utanríkisstefnu Evrópusambandsins." 

Vísað er síðan til yfirlýsinga utanríkisráðherra sambandsins fyrir hönd þess í þeim efnum og ákvarðana leiðtogaráðs þess um refsiaðgerðir."

Hvað rekur utanríkisráðherra Íslands til að afsala ríkisstjórninni og Alþingi frelsi til að móta utanríkisstefnuna að eigin höfði.  Það er ekki víst, að hagsmunir Íslands og ESB muni alltaf fara saman, þótt þeir geri það í helztu utanríkismálum nú.  Í ljósi áhuga utanríkisráðherra á inngöngu Íslands í ESB verður að álykta, að hér sé um ótímabæra aðlögun til undirbúnings aðildar að ræða.  Þetta er óþolandi bráðræði.  Hafði Alþingi ályktað um þetta ? Það er lágmark í afsalsmálum fullveldis, þótt ekki sé um bindingu að þjóðarétti að ræða. 

"Komið hefur fram, að Þorgerður Katrín hafi ekki upplýst utanríkismálanefnd Alþingis um þetta meginatriði samkomulagsins.  Hvorki fyrir né eftir undirritun þess.  Enn fremur var hvergi minnzt á það í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um undirritunina.  Feluleikurinn vegna málsins hefur ekki leynt sér.  Hins vegar breytir auðvitað engu, hvað Þorgerður segir í þessum efnum, þegar fyrir liggur, að það er ekki í samræmi við það, sem hún hefur beinlínis skrifað undir."

Pukrið og óhreinskilnin í þessum ESB-tengdu málum er Akkilesarhæll ríkisstjórnarinnar.  Vandræðagangurinn stafar líklega af því, að á Alþingi er ekki meirihluti fyrir ESB-aðild.  Hætt er við, að spurningin, sem lögð verður fyrir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu um, hvort greiða eigi leiðina inn í ESB í viðræðum við ESB, verði í skötulíki.  Fram þarf að koma, að Alþingi hafi ályktað um vilja sinn til að breyta stjórnarskrá, svo að heimila megi fullveldisafsalið, sem aðild útheimtir.  Atkvæðagreiðslan kann annars að verða marklaus og verða dæmd ógild. Ákafi ríkisstjórnarinnar við að koma Íslandi inn í ESB stendur á pólitískum og lagalegum brauðfótum, og hún mun ekki ríða feitum hesti frá þessari viðureign og fráleitt fá umboð til framhaldslífs á næsta kjörtímabili. 

"Hins vegar hefur ekki verið numið staðar við utanríkismálin.  Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra og þingmaður Viðreisnar, hefur þannig t.d. kynnt til sögunnar samkomulag við Evrópusambandið um sjávarútvegsmál, sem kveður á um aðlögun að stefnu sambandsins t.a.m. varðandi veiðar úr deilistofnum.  Þannig er þar kveðið á um samræmingu á afstöðu Íslands og Evrópusambandsins fyrir fundi strandríkja og innan svæðisbundinna fiskveiðistofnana."

Hingað til hefur yfirleitt ekki ríkt einhugur á milli ESB og Íslands um veiðar úr deilistofnum.  Þess vegna verður ekki betur séð en hér sé verið að hefta Ísland við að gæta hagsmuna sinna, t.d. að ákvarða veiðar úr makrílstofninum innan lögsögunna einhliða, ef ekki vill betur. Hér virðist Friðriksson setja haus sinn inn í gin úlfsins og vona síðan hið bezta.  Er ekki fráleitt af íslenzkum ráðherra að setja hagsmuni Íslands í uppnám með þessum hætti ?  Allt virðist þetta gert sem þáttur í aðlögunarferli að aðild Íslands að ESB.  Þetta er algert bráðræði.  Landsmenn hafa ekki enn greitt atkvæði um, hvort þeir vilji hefja þetta aðlögunarferli að nýju. 

"Vert er að hafa í huga í þessu sambandi, að umsóknarferli að Evrópusambandinu gengur öðru fremur út á aðlögun að regluverki og stefnum sambandsins líkt og lesa má víða um í gögnum þess.  Framganga stjórnvalda með ráðherra Viðreisnar í fararbroddi verður fyrir vikið ekki skilin með öðrum hætti en sem undirbúningur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  M.ö.o. getur einkum Viðreisn ljóslega ekki setið á sér áður en þjóðaratkvæðið fari fram."

Að þessu hugðarefni sínu starfar ríkisstjórnin umboðslaus, því að um Evrópusambandið var lítið sem ekkert rætt í kosningabaráttunni síðustu til Alþingis, og K. Frost. gaf í skyn, að ríkisstjórn undir hennar forystu héldi ekki í þessa vegferð á kjörtímabilinu, sem nú stendur yfir. Af þessum sökum er full ástæða fyrir stjórnarandstöðuna að draga fram "Stóru-Bertu" þegar nú í haust og herja með fullum þunga á þessa lánlitlu ríkisstjórn, sem svo rækilega hefur gefið höggstað á sér.    


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband