Ofstæki í garð tiltekins atvinnurekstrar

Nýlega gætti móðursýkislegra viðbragða veiðiréttarhafa í laxveiðiám á Vesturlandi og Norð-Vesturlandi vegna fiska þar, sem ekki þóttu náttúrulegir fyrir viðkomandi á.  Var rekið upp skaðræðisöskur, að íslenzku laxastofnarnir væru í bráðri hættu frá eldislaxi, en um reyndist að mestu vera að ræða rússneskan hnúðlax, sem ekki blandast íslenzku stofnunum.  Norskir kafarar voru fengnir í árnar, og höfðu þeir upp á eldislöxum, sem námu innan við 1 % af stofnum ánna, en til að hætta á varanlegri erfðablöndun geti stafað af eldislöxum í ám, þarf fjöldi þeirra varanlega að nema yfir 4 % af stofnstærð viðkomandi ár.  Hér var því stormur í vatnsglasi.  

Þann 4. desember 2024 birtist í ViðskiptaMogganum viðtal við Róbert Róbertsson, fjármálastjóra laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur, undir fyrirsögninni:

"Séríslenzku skattarnir dragbítur á greinina".

Um neikvæða umfjöllun um atvinnugreinina hafði hann þetta að segja:

"Umræðan gegn greininni hefur verið anzi óvægin og oft og tíðum einkennzt af fullyrðingum, sem eiga ekki við rök að styðjast.  Eins og gefur að skilja þarf oft að leiðrétta rangfærslur, þar sem þekking á laxeldi er ekki mikil.  Þekkingarskortur á einhverju gerir það að verkum, að auðvelt er að setja út á og fullyrða eitthvað, sem fólk veit ekki um.  T.d., að þetta mengi firðina; það er einfaldlega ekki satt; við gerum mælingar á botni sjávar og greinum ástand fyrir, á meðan og eftir hverja eldislotu."

Þarna er farið mjúkum höndum um fólk, sem tjáir sig með tilþrifamiklum geðhrifum um sjókvíaeldi á laxi við Ísland.  Hæst nær móðursýkin við slysasleppingar eða fundna afbrigðilega fiska í ánum. Það er látið í veðri vaka, að allur frjór eldisfiskur í ánum ógni genamengi og erfðum íslenzkra laxastofna.  Svo virðist sem talsmennirnir trúi þessu sjálfir, þótt firra sé.  Eldisfiskur þarf að vera árum saman yfir 4 % af stofni í á til að hætta sé á varanlegri erfðablöndun. 

  "Róbert Róbertsson, fjármálastjóri laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur, segir, að fyrirtækið stefni að því að ná kostnaðarhlutfalli sambærilegu því, sem gerist bezt hjá keppinautum.  Stór mínus, sem íslenzk fyrirtæki glíma við, ólíkt flestum öðrum þjóðum, eru ýmsir aukaskattar á greinina.  

"Það að greiða mun hærri skatta á lax en aðrar þjóðir og aðrar vörur seldar frá landinu, er einkennileg stefna yfirvalda.  Það, að við séum að greiða hærri skatta en önnur fyrirtæki á Íslandi og okkar keppinautar á markaði, er einkennilegt, virkar ekki hvetjandi og skaðar samkeppnisstöðu okkar", segir Róbert. 

"Laxeldi á Íslandi hefur ekki fengið neina styrki eða meðgjöf í uppbyggingu.  Þvert á móti hafa verið lögð há leyfisgjöld og framleiðslugjöld, og allir vilja sinn bita.  Við erum að mæta á markað með okkar vöru í samkeppni við aðila, sem hafa engin gjöld og mun minni flutningskostnað og styttri afhendingartíma", segir Róbert." 

Af þessari frásögn að dæma hafa íslenzir stjórnmálamenn farið offari í skattheimtu á atvinnugrein, sem er í uppbyggingarfasa.  Afleiðingin af því er einfaldlega, að vöxturinn verður hægari en ella, tækniþróunin og jafnvel öryggiseftirlit lakara en efni standa til og lánsfjármagn dýrara, af því að áhugi fjárfesta minnkar.  Ríkisstjórnin, sem stöðugt er með hagvöxt og verðmætasköpun á vörunum, ætti að sníða skavankana af þessari skattheimtu og draga þá dám af öðrum löndum Evrópu, þar sem fyrirtækin eru nær markaðnum.  Þetta mun núverandi ríkisstjórn þó örugglega ekki gera, því að hún skilur ekki, hver beztu ráðin eru til að efla hagvöxt og verðmætasköpun. Hún lætur sitja við orðin tóm og nær engum árangri. Það eru slæmar fréttir fyrir hag landsmanna. 

"Í dag greiðir Kaldsvík yfir 4 % af tekjum félagsins í beina skatta, þ.e. án tillits til, hvort félagið er að fjárfesta eða skila hagnaði.  

Róbert segir, að réttast væri að gefa greininni tíma til að byggja upp starfsemina, fjárfesta í búnaði og tækjum, og þá með tímanum muni félagið greiða skatta, eins og önnur arðbær fyrirtæki."

Þessi skattheimta nær engri átt.  Kaldsvík greiðir 4 % af tekjum til hins opinbera, þótt tap sé á fyrirtækinu. Þetta er ekki leiðin til að hlúa að atvinnulífi, svo að það megi dafna og standa undir einhverjum hæstu launum í OECD.  Ísland er háskattaland, sem samkvæmt Laffler-lögmálinu þýðir, að lækkun skattheimtu mun auka tekjur allra, einnig hins opinbera.  

 


Næg fáanleg raforka er grundvöllur nýrrar verðmætasköpunar

Það er haldlaust að búast við hagvexti hérlendis, sem reistur er á nýjum eða auknum útflutningi á vörum eða þjónustu, á meðan núverandi orku- og aflskortur er við lýði, og hann virðist ekkert munu lagast, það sem af lifir þessum áratugi.  Það er afleit staða, sem hafa mun neikvæð áhrif á þróun hagkerfisins og hag fyrirtækja og heimila.  

Orkulindir landsins eru takmarkaðar, og þess vegna skiptir höfuðmáli að nýta fáanlega orku af kostgæfni.  Hún fer að mestu til iðnaðarnota núna, sem skapar fjölbreytta og vel launaða atvinnu, sem stóð undir velferð og hagvexti hér um langa hríð, en nú hafa undirboð Asíuríkja á markaði og furðuleg tollastefna Bandaríkjastjórnar sett strik í reikninginn um hríð. Hefur lágt verð á innfluttum blöndunarefnum í ál frá Kína leitt til þess, að kísilverksmiðjan á Bakka við Húsavík hefur orðið ósamkeppnishæf á innlendum markaði, og það hefur tekið fjármálaráðuneytið óratíma að komast að niðurstöðu um það, hvort um óleyfileg undirboð á markaði sé að ræða og þá e.t.v. brot á fríverzlunarsamninginum við Kína. Fyrir vikið hefur verksmiðju PCC á Bakka verið lokað, og veit enginn, hvort/hvenær hún verður opnuð aftur. Fyrir vikið hefur losnað um afl og orku í kerfi Landsvirkjunar og horfir nú vænlega með orkubúskapinn í vetur.  Eins dauði er annars brauð.

Þegar kemur að því að finna leiðir til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi hérlendis, hefur komið til tals að framleiða hér rafeldsneyti.  Slíkt útheimtir mikla raforku, því að orkunýtni framleiðsluferilsins er lág.  Vænlegra virðist vera að nota jurtaolíur á borð við repjuolíu.

Þann 9. desember 2024 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Egil Þóri Einarsson, efnaverkfræðing, undir fyrirsögninni:

"Hin leiðin í eldsneytismálum".

"Helztu sóknarfæri okkar í loftslagsmálum eru að úthýsa jarðefnaeldsneyti, sem er ábyrgt fyrir 60 % af losun okkar. Meðan áherzla stjórnvalda hefur verið á framleiðslu á vetni og tilbúnu eldsneyti, sem byggt er á vetni, eigum við gnótt hráefna, sem hægt er að nýta við framleiðslu á eldsneyti með lágmarks losunargildi.  Með því að nota innlend hráefni, eins og sorp, seyru og annað lífrænt efni, gætum við minnkað talsvert þörfina á innflutningi jarðefnaeldsneytis.  Slíkt eldsneyti, eins og metan og lífdísill, er nánast kolefnishlutlaust, en hefur sama orkuinnihald og jarðefnaeldsneyti."

Jarðefnaeldsneyti er fremur ódýrt um þessar mundir á heimsmarkaði, en það mun ekki vara til eilífðarnóns. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að draga úr gjaldeyrisnotkun til eldsneytiskaupa, en fjárfesta þess í stað í framleiðslugetu á innlendum orkugjöfum.  Rafbílavæðingin hefur öðlazt skriðþunga, en vinnuvélar og skip þurfa kolefnishlutlausa olíu.  Asnastrik ríkisstjórnarinnar að lama fjárfestingargetu sjávarútvegsins er ekki loftslagsvæn aðgerð og ekki væn að neinu leyti. 

"Knýjandi þörf er á að finna "staðgengils" eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.  Útskipti á jarðefnaeldsneyti með umhverfisvænu eldsneyti gerir okkur kleift að standa við skuldbindinggar okkar í loftslagsmálum. Að leita fanga í okkar eigin  garði er vænlegra til árangurs en að leggjast í stórframkvæmdir við framleiðslu á orkufreku eldsneyti úr vetni.  Til þess að gera það eftirsóknarvert þurfa stjórnvöld að koma til skjalanna með fjárstyrkjum og ívilnunum."

Það er fjárhagslega áhættusamt að fjárfesta í eldsneyti úr vetni.  Ferlið er orkukræft og nýtnin lág, svo að líklegt er, að slíkt eldsneyti geti ekki keppt við annars konar eldsneyti með enga nettó losun koltvíildis. Íslenzkum orkulindum er betur varið til annars konar framleiðslu eða til gagnavera fyrir gervigreind. 

Núverandi orkuráðherra er ekki mjög framsækinn fyrir hönd málaflokksins, því að hann hafnaði nýverið ósk Orkubús Vestfjarða um að breyta friðlýsingarskilmálum í Vatnsfirði til að koma mætti þar fyrir hagkvæmri virkjun með umhverfisvænum hætti.  Þessi virkjun hefði sameinað orkuvinnslu og umhverfisvernd með fögrum hætti.  Þessi vatnsaflsvirkjun hefði verið ólíkt "hlédrægari" í náttúrunni en þeir risaspaðar, sem kynntir hafa verið til sögunnar til slitróttrar raforkuvinnslu.

 

  

 


Flaustursleg innleiðing nýrrar lyfjatækni

Flestum er í fersku minni hamagangurinn við að bólusetja landslýð gegn COVID-19 (C-19), þegar ný lyf gegn sjúkdóminum hlutu bráðabirgða samþykki lyfjayfirvalda.  Þar sem hér var um nýja tækni að ræða, var afar óvarlega farið af hálfu yfirvalda, enda kom fljótt í ljós, að gagnsemin var lítil, en aukaverkanir verulegar.

Höfundi þessa pistils er ekki kunnugt um, að gagnger rannsókn hafi farið fram á viðbrögðunum við þessum faraldri, eins og þó hefur farið fram í sumum löndum og full ástæða er til hérlendis til að bezta undirbúning fyrir næsta faraldur.  

Þorgeir Eyjólfsson og Helgi Örn Viggósson hafa haldið uppi harðri gagnrýni á síðum Morgunblaðsins á framgöngu hérlendra heilbrigðisyfirvalda, sem reyndist afar kostnaðarsöm og sumum dýrkeypt.  Þann 7. janúar 2025 birtist ein þessara greina og hófst hún þannig:

"Röð mistaka og slóð eyðileggingar":

"Að hundruð Íslendinga eigi við alvarlegar aukaverkanir af völdum mRNA-bóluefna að stríða og að fjöldi landsmanna hafi mætt ótímabærum dauðdaga í embættistíð Ölmu Möller, fráfarandi landlæknis, er órækur vitnisburður þess, að landlækni hefur í mörgu mistekizt að stuðla að heilbrigði landsmanna, eins og lögin um starf hennar sem landlæknis kveða [þó] á um."

Þessar alvarlegu ásaknir á hendur fyrrverandi landlækni, sem nú stjórnar heilbrigðismálum þjóðarinnar, sýna, hversu nauðsynlegt er að komast til botns í málum stjórnsýslunnar, heilbrigðisráðuneytis, landlæknis og sóttvarnalæknis, á C-19 tímabilinu.  

Höfundarnir rekja sían málsatvik í 7 liðum; hér verða rakin fyrsta og lokaatriðið.

1.) "Strax á fyrstu dögum bólusetninga létust nokkrir einstaklingar í kjölfar bólusetninga, og því var hættan á alvarlegum aukaverkunum bóluefnanna landlækni ljós frá upphafi.  Jafnframt mátti landlækni vera fljótlega ljóst, að bóluefnin komu ekki í veg fyrir smit til eða frá bólusettum einstaklingi, og þar af leiðandi væri fullyrðing Pfizer um 95 % virkni mRNA-bóluefnanna villandi eða beinlínis röng. Ekki varð vart tilburða af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að upplýsa almenning um, að bóluefnin veittu enga vörn gegn smiti eða [um] hættuna á alvarlegum aukaverkunum, sem varð vart strax í upphafi.  Upplýst samþykki var virt að vettugi af landlækni." 

Höfundur þessa pistils telur sig geta staðfest þessa hroðalegu umsögn um vanrækslu fyrrverandi landlæknis.  Hann fylgdist hins vegar með umræðunni erlendis, t.d. í Svíþjóð, og var þess vegna ljóst, mRNA-efnin, sem hér var sprautað í fólk, voru hættulegri en ásættanlegt er m.v. afleiðingar sjúkdómsins, og að gagnsemin var lítil í upphafi og fjaraði hratt út.  Þess vegna tók höfundur þessa pistils ákvörðun um að afþakka þessar bólusetningar.  

7. "Í skýrslu OECD kom fram, að Ísland hafði annað hæsta hlutfall dauðsfalla í Evrópu í aldurshópnum 44 ára og yngri á árunum 2020-2022 að teknu tilliti til lýðfræðilegra þátta og að Ísland leiddi löndin í könnun OECD með 11,5 % aukningu á dánartíðni á milli áranna 2021 og 2022 á sama tíma og flest lönd sýndu fækkun dauðsfalla.  Skýrslan er því ekki vitnisburður um árangursríkar sóttvarnaraðgerðir eftir tilkomu bóluefnanna, eins og núverandi sóttvarnalæknir hefur haldið fram. 

Ofangreind upptalning er hvergi nærri tæmandi, en hefði átt að duga fyrrverandi landlækni fyrir misserum sem röksemd fyrir tímabundinni stöðvun á notkun mRNA-bóluefnis Pfizers, þar til gengið hefði verið úr skugga um öryggi efnisins.  Að örvunarbólusetningar gegn covid séu enn auglýstar bendir ekki til, að fyrrverandi landlæknir hafi þann sveigjanleika í hugsun, sem ætlast þarf til af þeim, sem tekst á við embætti heilbrigðisráðherra, vilji hann hafa heilbrigði landsmanna í fyrirrúmi."

Það var rekinn harðvítugur hræðsluáróður til að fá sem flesta landsmenn í bólusetningu.  Hin víðtæka og almenna bólusetning landsmanna kann að skýra það, sem að ofan greinir um tíðni dauðsfalla hérlendis. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband