Er kolefnisbinding í bergi fýsileg ?

Carbfix hefur stundað niðurdælingu á uppleystum gastegundum í vatni við Hellisheiðarvirkjun.  Tekizt hefur að draga úr mengun af völdum hinnar ætandi gastegundar H2S, sem er þarfur gjörningur.  Meiri áhöld eru um að festa stórfelldar fjárhæðir í bindingu CO2, koltvíildis, í jarðlögum í Straumsvík á vegum Carbfix, og fyrirtækið undirbýr nú móttöku- og geymslustöð fyrir CO2 þar, s.k. Coda Terminal. Viðskiptahugmyndin er, að útlendingar sendi gasflutningaskip frá sér til Straumsvíkur.  Þar verði því dælt í geymslurými, gasið leyst upp í vatni og síðan dælt niður í bergið.

  Ef tekið er mið af Morgunblaðsviðtali við fjölfræðinginn David Friedman, sem lagt var út af í síðasta pistli á þessum vef, "Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar", er engin glóra í þessari hugmynd, hún er "futile" eða gagnslaus, af því að afleiðingar hlýnunar verða ekki sérlega alvarlegar og kostnaður við mótvægisaðgerðir viðráðanlegar.  Það er hins vegar ein lykilbreyta á markaði, sem öllu máli skiptir fyrir arðsemi þessa verkefnis, og hún er verðið á markaði fyrir koltvíildisheimildir í EUR/t CO2.  Ef kostnaður við að einangra CO2, flytja það til Coda Terminal og kostnaðurinn við bundið fé í Coda Terminal ásamt upplausn gassins og niðurdælingu, er hærri en þessi markaðsbreyta, þá verður tap á þessari starfsemi og betur heima setið en af stað farið.  Fjárfestingar eru miklar, orkuþörf mikil og vatnsþörf mikil og það er dýrt að ná CO2 út úr efnaferli verksmiðja.  Þess vegna er augljós fjárhagsleg áhætta á ferðum, sem minnkar þó eitthvað, ef styrkveitingar úr vösum skattborgara fást, en hversu siðlegt er það ?

Þann 2. maí 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir 2 höfunda, sem ætla má, að viti mest um þessi mál, en þar var þó ekkert minnzt á auðlindaþörfina (vatn, rafmagn) á hvert t koltvíildis, sem sent hefur verið niður í iður jarðar, né áætlaðan kostnað við það.  Þetta er galli á annars góðri grein höfundanna Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix, og Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur, yfirvísindakonu Carbfix.  Greinin bar yfirskriftina: 

"Raunverulegar loftslagsaðgerðir í hlýnandi heimi".

Þar stóð þetta m.a.:

"Jafnvel þótt hraði hlýnunar haldist óbreyttur, er aðeins tímaspursmál, hvenær við þurfum að takast á við afleiðingarnar af fullum þunga.  [Afleiðingarnar eru óvissar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en virðast verða tiltölulega auðveldar viðfangs á Íslandi, sbr David Friedman - innsk. BJo.]

Hlýnun jarðar heldur áfram.  Viðbrögðin við þessari stærstu ógn samtímans [!?] eru hins vegar ekki í neinum takti við alvarleikann.  [Coda Terminal á að taka til starfa á fullum afköstum árið 2032, sem eru áætluð allt að 3 Mt/ár CO2.  Um þessa niðurdælingu munar ekkert, þ.e. engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar - innsk. BJo.] 

Á meðan hitametin falla, er losun Íslands á koldíoxíði  (CO2) enn að aukast, þvert á öll markmið, og losun á hvern íbúa með því mesta, sem gerist í heiminum."  

Þetta er villandi framsetning, sem setur Ísland í verra ljós en efni standa til.  Ísland er strjálbýl eyja með háa landsframleiðslu á mann, og miklar fiskveiðar eru stundaðar við landið.  Af þessu leiðir tiltölulega mikla jarðefnaeldsneytisnotkun, en hún er þó með tiltölulega hárri nýtni í alþjóðlegum samanburði.  Stóriðjan (málmframleiðslan) í landinu sparar losun á meira en 12 Mt/ár af koltvíildi út í andrúmsloftið, sem eru ferföld áætluð hámarksafköst hjá stöllunum í Straumsvík.  Til hvers eru þær með þennan málflutning ?

"Lausnin við [svo ?] loftslagsvánni er til: Hún felst m.a. í því að beita fjölmörgum lausnum, sem allar miða að því að koma í veg fyrir losun milljarða tonna af gróðurhúsalofttegundum, aðallega CO2, út í lofthjúpinn.  Til að sporna við þessari hamfarahlýnun þurfum við að breyta okkar neyzlumynztri. [David Friedmann segir tal um hamfarahlýnun af mannavöldum vera "þvætting".  Það er skrýtið af stöllunum að skipa sér í slíkan hóp - innsk. BJo.]
Orkuskipti vega þar þyngst, auk bættrar orkunýtni, enda er stærsti orsakavaldur loftslagsbreytinga gríðarlegur bruni jarðefnaeldsneytis, en auk þess þarf að fanga, binda og hagnýta CO2 og bæta landnýtingu.  Loftslagsmarkmiðum verður ekki náð, nema með umfangsmiklum aðgerðum og samstarfi þvert á landamæri."
Mikilvægasta framlag Íslands núna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda væri að virkja fleiri vatnsföll og meira í sömu á, þar sem þess er kostur, og meiri jarðgufu, en alger doði ríkir á þessu framfarasviði um þessar mundir.  Ástæðan fyrir aukningu losunar undanfarið er raforkuskortur í landinu, en afturhaldið lemur hausnum við steininn og viðurkennir engan raforkuskort.  Það sýnir við hvílíka hrímþursa er að eiga.  Þegar þursaflokkurinn missti forsætisráðherrann yfir í forsetaframboð, var mynduð ný ríkisstjórn, sem setti 3 mál á oddinn, þ.á.m. orkumálin.  Ef enn fæðist bara lítil mús, verða margir vonsviknir.  

 

 


Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar

Á baksviði Morgunblaðsins birtist 4. maí 2024 athyglivert viðtal Baldurs Arnarsonar við fjölfræðinginn David Friedman, sem er sonur hins góðkunna hagspekings Miltons Friedman.  Karlinn er fræðasjór, eins og titillinn gefur til kynna, og hann fer ekki með neitt fleipur.  Hann bendir á, að hlýnun jarðar hefur bæði kosti og galla í för með sér fyrir lífið á jörðunni, og hann telur kenningar um hamfarahlýnun hreina bábilju. Viðtalið birtist undir fyrirsögninni:

"Himinn og jörð eru ekki að farast".

Um hlýnun jarðar hafði D. Friedman þetta að segja:

"Það er líklegt, að meginskýringin sé umsvif mannsins, þótt kerfið sé afar flókið, og því er erfitt að vera fullviss.  Það er skoðun rétttrúnaðarins um áhrifin.  Raunar eru 2 rétttrúnaðarskoðanir.  Önnur er helber þvættingur, og sú, sem ég tel, að sé sennilega röng.  Það er hugmyndin um hamfarahlýnun.  Séu alvöru rannsóknir hjá IPCC [milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar] eða [hagfræðinginum William] Nordhaus skoðaðar, virðast hin spáðu áhrif ekki ýkja mikil."

Því er yfirleitt ekki mótmælt, að maðurinn eigi hlut að máli, en áhöld eru bæði um raunverulega hitastigshækkun í lofthjúpi jarðar og hversu stór hluti hennar stafar af umsvifum manna.

"Nordhaus áætlar í bók sinni, að verði ekkert að gert, muni heimsframleiðslan í lok þessarar aldar verða nokkrum % minni en ella vegna loftslagsbreytinga.  Og séu áætlanir IPCC skoðaðar, þá kemur í ljós, að þær benda til, að sjávarmál muni hafa hækkað um 0,5 m í lok þessarar aldar.  Og sé málið hugleitt, er það töluvert mikið minna en munurinn á flóði og fjöru [að meðaltali - innsk. BJo].  Svo að það hefur vissulega áhrif, en þau eru lítil.

Því tel ég, að hugmyndin um yfirvofandi hamfarir, sem muni þurrka út siðmenninguna, sé hreinlega þvættingur.  Sú hugmynd, að þeim fylgi veruleg útgjöld, sem ættu að vera okkur áhyggjuefni, er ekki þvættingur, en ég er ekki viss um, að hún sé rétt.  Sé málið skoðað vandlega, er engin ástæða til að gefa sér, að hlýnun sé slæm ...  .  Og maðurinn býr við mismunandi hitastig, svo að munað getur 20°C.  Sé hitakort af jörðinni skoðað og kort, sem sýnir íbúaþéttleikann, þá virðist ósennilegt, að það muni hafa ógnvænleg áhrif, ef meðalhitinn hækkar um 2°C.  Síðan, ef raunáhrifin eru skoðuð, þá mun hækkun sjávarmáls hafa neikvæð áhrif, en mjög lítil.  Lækkandi pH-gildi hafanna [eða súrnun hafanna] kann að hafa neikvæð áhrif og það veruleg, en við vitum ekki, hversu mikil.  Margar lífverur í höfunum eru viðkvæmar fyrir breytingum á sýrustigi hafsins."

Niðurstaða þessa virta fræðimanns stangast alveg á við gasprið í formanni Loftslagsráðs Íslands af grafalvarlegum afleiðingum losunar Íslendinga og annarra á koltvíildi út í andrúmsloftið.  Viðráðanlegt verður að verjast hækkun sjávarborðs.  Ísland verður gróðursælla með hækkandi hitastigi, landbúnaður braggast og kornræktun ætti að verða auðveldari og geta sparað innflutning fóðurvara.  Mesta óvissan er um lífríki sjávar, og þar geta orðið afdrifaríkar breytingar til hins verra fyrir Íslendinga, sem gerir fiskeldi á landi og úti fyrir ströndu enn mikilvægari útflutningsstoð en ella.  Líklegt er, að rennsli í ám fari vaxandi og þar með geti raforkuvinnslan vaxið með bættri nýtingu vatnsaflsvirkjana. 

"Það teljast líka vera neikvæð áhrif, að fellibyljir séu að verða öflugri.  Fækkun fellibylja, sem veikari teljast, eru jákvæð áhrif.  Eitt af því, sem fór í taugarnar á mér í samantekt fyrir stefnusmiði í síðustu skýrslu IPCC, er, að þar segir, að öflugri fellibyljir verði hlutfallslega tíðari en veikari.  Þ.e.a.s. fellibyljir í flokkum 4 og 5 í samanburði við flokka 1-3.  Draga á þá ályktun, að öflugri fellibyljir verði tíðari.  Það þarf að lesa skýrsluna til að komast að því, að ástæða þess, að hlutfallið er að hækka er, að veikari fellibyljir eru að verða sjaldgæfari.  Ég tel einnig, að öflugri fellibyljir séu að verða dálítið öflugri, og það eru neikvæð áhrif.  Á hinn bóginn eru nokkur jákvæð áhrif [af hlýnun].  Koldíoxíð kemur við sögu í ljóstillífun.  Sýnt hefur verið fram á áhrifin á uppskeru með mörgum tilraunum.  Þannig að í grundvallar atriðum gera spár ráð fyrir, að áhrifun [af hlýnun] á framboð matvæla verði mjög jákvæð."

 

 

 


Jákvæð þróun laxeldis

Laxeldi í sjókvíum er með minnst kolefnisspor allra eldisaðferða, sem framleiða dýraprótein.  Með miklu ofstæki og fjáraustri hefur verið efnt til harðvítugs samblásturs gegn þessari fullkomlega löglegu atvinnugrein, sem sennilega fellur undir stjórnlagagrein um atvinnufrelsi.  Svo rammt kveður að þessu, að vart getur verið þar allt með felldu, enda er beitt fullyrðingum, sem eru algerlega út í loftið, t.d. að íslenzku laxastofnarnir séu í þeirri hættu að verða fyrir erfðamengun og verði þess vegna að víkja af búsvæðum sínum fyrir "úrkynjuðum" eldislaxi.  Það er alveg nýtt af nálinni, ef sterkari tegund þarf að víkja fyrir veikari tegund, enda skrifa erfðafræðingar Hafrannsóknastofnunar ekki undir þessa kenningu.  Þvert á móti.  Þeir strika yfir hana.

Íslenzku laxastofnarnir eiga undir högg að sækja, en það á sér allt aðrar skýringar, sem þarf auðvitað að komast til botns í.  Ein af aðferðunum til að rétta stofnana af er að setja þá undir vísindalega veiðistjórnun í stað þess að láta græðgi veiðiréttarhafa ráða ferðinni.  Rannsaka þarf, hvort veiða og sleppa aðferðin geri illt verra og geti jafnvel í sumum tilvikum flokkazt undir dýraníð.

Það er hér verulegur maðkur í mysunni, enda er engu líkara en verið sé með herferðum að hengja bakara fyrir smið.  Með öðrum orðum er auglýsingaherferð og undirskriftasöfnun til að hvetja Alþingi til að leggja niður trausta starfsgrein á Vestfjörðum og Austfjörðum ein risavaxin smjörklípa. Hver fjármagnar þá smjörklípu ?

Í 200 mílum Morgunblaðsins 2. maí 2024 er gerð grein fyrir einni af mörgum endurbótum, sem fyrirtæki í greininni með gæða- og umhverfismetnað til að bera, standa að.  Svo vel vill til, að sjókvíaeldið á Íslandi nýtur tæknilegs og markaðslegs stuðnings frá bakhjörlum sínum í Noregi, sem ofstækismenn í hópi sefasýkislegra andstæðinga þessarar starfsemi hafa farið ósvífnum orðum um.  Skýtur hatur á erlendu eignarhaldi skökku við úr þeim herbúðum, þar sem í hópi veiðiréttarhafa eru moldríkir, erlendir landeigendur á Íslandi.  Allar vestrænar þjóðir fagna erlendri fjárfestingu í atvinnustarfsemi landa sinna, en gagnvart fjárfestingu í landi hafa víða verið settir meiri varnaglar en hér eru við lýði. Ætlar afturhaldið aldrei að láta af órökréttum andróðri sínum gegn beinum erlendum fjárfestingum í atvinnulífinu ?

Verður nú vitnað í téðar 200 mílur:

"Hröð tækniþróun á sér nú stað innan fiskeldis í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem bætt nýting skilar betri umgengni [við] náttúruna og aukinni þjóðhagslegri hagkvæmni. Eitt af merkilegustu verkefnum í þeim efnum eru eru tilraunir í Noregi með samþættingu þararæktunar og laxeldis.

Fóður er einn stærsti kostnaðarliður í laxeldi, og í Noregi fást fyrir hvert kg af fóðri um 0,86 kg af laxi, en þar eru framleidd um 1,3 Mt/ár af laxi.  Hér á landi er framleiðslan í kringum 45 kt/ár [3,5 % af norsku framleiðslunni], og má því reikna með, að fóðurþörfin sé [rúmlega] 52 kt/ár. 

Framleiðsla fóðurs, rétt eins og í öðrum búskap, krefst hráefnis og orku með tilheyrandi umhverfisáhrifum.  Það er því óæskilegt, að um helmingur [?] næringarefna í laxafóðri glatast og dreifist um nærliggjandi svæði við sjókvíarnar.  En hvað, ef það væri hægt að nýta þessi næringarefni í aðra framleiðslu ?

Það er einmitt spurningin, sem norska nýsköpunarfyrirtækið Folla Alger AS leitar nú svara við í samstarfi við rannsóknarfyrirtækið SINTEF [Senter for industriell teknologisk forskning-2200 manna brimbrjótur norskrar tækniþróunar í Þrándheimi], fiskeldisfyrirtækið Cermaq, norska tækniháskólann NTNU [áður NTH-Norsk teknologisk höyskole - innsk. BJo] og Háskóla Norður-Noregs (Nord Universitet)." 

Hér er um gríðarlega áhugavert verkefni að ræða, einnig fyrir Íslendinga, sem geta orðið sjálfum sér nógir um framleiðslu dýrafóðurs.  Með því að nýta þarann eru slegnar 3 flugur í einu höggi.  Botnfall minnkar og hvíldartími eldissvæðisins getur stytzt, við þarasláttinn fæst efniviður í fóðurgerð og kolefnisspor fiskeldisins, sem var lítið, minnkar enn.

"Framleiddur hefur verið þari hér á landi með slætti, en aðeins tilraunir hafa verið gerðar með þararæktun á Íslandi.  Nordic Kelp, sem hefur gert tilraunir með ræktun beltisþara í Patreksfirði, hóf tilraunina vegna vaxtar laxeldis á Vestfjörðum með von um, að þarinn mundi draga úr umhverfisáhrifum sjókvíaeldisins.  Hafa stofnendur vísað til þess, að þara-, skeldýra og lindýraræktun gæti virkað sem náttúrulegt síukerfi fyrir úrgang, sem fellur til við sjókvíaeldi."

 

"Reynist svo, að þararæktun geti einnig nýtzt í fóðurgerð, gæti slíkt skapað fjölda möguleika hér á landi, en uppi er áform um að reisa á Íslandi gríðarstóra fóðurverksmiðju fyrir fiskeldi.  Hafa Síldarvinnslan og BioMar unnið að því að skipuleggja uppbyggingu fóðurverksmiðju, en Síldarvinnslan er framleiðandi fiskimjöls og lýsis, sem er dýrasta hráefnið í fóðurgerð." 

Það virðist sjálfsagt að reikna með ræktuðum þara frá fiskeldinu inn í þessa nýju fóðurverksmiðju, svo og úrgang frá íslenzka matvælaiðnaðinum, ef hann er talinn heppilegur í laxafóður. 

"Við þetta bætast tilraunir vísindamanna við tækniháskólann NTNU, sem hafa gert tilraunir með að nýta afskurð og annan afgang, sem fellur til við vinnslu laxafurða í framleiðslu á laxamjöli og -lýsi.

Ljóst þykir, að samþætt hringrásarhagkerfi í laxeldinu geti skilað mun minna umhverfisspori sem og fleiri störfum auk umfangsmikils sparnaðar fyrir þjóðarbúið [með gjaldeyrisskapandi dýrafóðurverksmiðju - innsk. BJo]."
 
Þetta er gott dæmi um það, hversu vel sjókvíaeldi á laxi á leyfilegum stöðum fyrir það á Íslandi fellur að íslenzku athafnalífi og verðmætasköpun.  Það er kjörin atvinnugrein á Vestfjörðum samhliða útgerð, landbúnaði og þjónustu við ferðamenn.  Greinin er rekin undir strangri löggjöf og vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.  Mjög varlega er farið af stað, og með tæknibúnaði í stöðugri þróun og meiri þekkingu og reynslu starfsmannanna batnar reksturinn stöðugt, sem mun m.a. koma fram í minni sleppingum.  Eftir því, sem bezt er vitað, hafa þær hingað til engin skaðleg, langtíma áhrif haft á íslenzku laxastofnana.  Vegna meira rekstraröryggis mun hættan á slíku áfram verða hverfandi, þótt framleiðslan á landsvísu fari upp í 100 kt/ár.  
Á Austfjörðum er einnig rekið ábyrgt og framsækið laxeldi í sjókvíum, en þar hefur sú starfsemi minna vægi í heildaratvinnustarfsemi landshlutans en á Vestfjörðum, t.d. vegna öflugs iðnaðar og sjávarútvegs.  
 
 

 

 

 


Orkumál Íslendinga í öngstræti

Á tímabilinu 2017-2024 var hér við völd forsætisráðherra, sem fylgdi þeirri línu flokks síns, VG, og útibúsins, Landverndar, að búið sé að virkja nóg á Íslandi.  Hvernig í ósköpunum geta stjórnmálamenn verið svo fullkomlega úr tengslum við samfélag sitt að gera þessa fráleitu fullyrðingu, sem er algerlega úr lausu lofti gripin, að sinni pólitísku möntru ?  Þegar þeim er bent á mótsögnina, sem felst í því annars vegar að nota olíukatla í fiskimjölsverksmiðjum og hitaveitum í stað rafskautakatla, þar sem þeir eru fyrir hendi, og skerða orkuafhendingu ár eftir ár til stórnotenda, þá hrökkva þeir í gamla afturhaldsgírinn, að stjórnvöld geti bara lokað grónum verksmiðjum. 

 Sá er hængurinn á, að þetta geta stjórnvöld ekki gert, því að þessar verksmiðjur eru með lagalega skuldbindandi samninga um orkuafhendingu og margt fleira, sem stjórnvöld í réttarríki geta ekki rift á þeim grundvelli, að þau vilji ekki virkja meira.  Þessir samningar eru heldur ekki að renna út.  Hjá elztu verksmiðjunni gerist það t.d. ekki fyrr en árið 2035.  Hugarfar þeirra, sem láta sér svona lagað um munn fara, er ekki hægt að kenna við lýðræðisríki, sem kennt er við lög og rétt frjálsra ríkja, heldur er hægt að kenna málflutning af þessu tagi við einræði og lögleysu.  Ber það hugarfari þessa hóps ófagurt vitni, enda er málflutningurinn til skammar, hvernig sem á hann er litið.  

Í Morgunblaðinu 16. apríl 2024 birtist neðan Staksteina athyglisverð frétt um orkumál undir fyrirsögninni:

"Virkjanakostir duga ekki til".

"Þeir virkjanakostir, sem eru í rammaáætlun munu ekki duga til að mæta orku- og aflþörf til framtíðar, en í virkjanaflokki áætlunarinnar eru 1299 MW tilgreind og í biðflokki 967 MW til viðbótar.  Samtals gera þetta 2266 MW, en samkvæmt raforkuspá Landsnets mun [viðbótar - innsk. BJo] aflþörfin til ársins 2050 aukast í 3300 MW. 

Þeir virkjanakostir, sem eru í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar, munu því í mesta lagi skila 2/3 þess afls, sem þarf til að mæta [viðbótar] eftirspurn framtíðarinnar.  Í raforkuspánni [réttara er hér að nota hugtakið rafaflsspá] er gert ráð fyrir 135 % aukningu eftirspurnar frá því, sem nú er, til ársins 2050, og því liggi ljóst fyrir, að aukin orkuvinnsla [og uppsett aflgeta - innsk. BJo] verði nauðsynleg til að mæta eftirspurn.  
Án vindorku og annarra breytilegra orkugjafa munu markmið stjórnvalda um orkuskipti og skuldbindingar í loftslagsmálum ekki nást."
 
Það er nú þegar búið að sólunda svo miklum tíma í aðgerðaleysi, að það er kýrskýrt, að markmið stjórnvalda fyrir árið 2030 í þessum efnum eru runnin út í sandinn með afl- og orkuskort og stórfelld útgjöld til kaupa á koltvíildiskvótum í mörg ár sem afleiðingu.  Þetta er kostnaðurinn við að leyfa jaðarstjórnmálaflokki á borð við VG að vera í ríkisstjórn og að vera með meingallaða löggjöf um feril virkjanaumsókna, sem er hönnuð til að auðvelda sérvitringum að henda sandi í tannhjólin.
Orkuskipti munu einfaldlega aldrei ná fram að ganga með þessu framhaldi, en það er hins vegar ótímabært að fullyrða, að grípa verði til þess neyðarbrauðs, sem vindorkan er, til að fullnægja afl- og orkueftirspurn 2050.  Allar rammaáætlanir hafa ekki enn séð dagsins ljós, og landsmenn kunna að þurfa að velja á milli vindorku og vatns- og/eða gufuorkuvera úr orkulindum, sem nú eru í s.k. verndarflokki. Í stuttu máli eru vindknúnu rafalarnir tiltölulega litlir og flæmast yfir víðáttumikil svæði með mjög áberandi hætti með miklum hávaða, raski og mengun, á meðan orkuvinnslugeta vatnsafls- og jarðgufuvirkjana er iðulega 50 sinnum meiri og vel hægt að fella þær að landslaginu, svo að lítið fari fyrir þeim.  Vindorkuver eru þannig stílbrot á Íslandi m.v. þróun verkfræðilegra lausna á sviði virkjana. 
 
"Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu Landsnets, þar sem fjallað er um mögulegan ábata af virkum raforkumarkaði."
 
 
Verður raforkumarkaður á Íslandi nokkurn tíma virkur sökum fákeppni og eins ríkisrekins risa á markaði ?  Öll stærstu orkuvinnslufyrirtækin, nema eitt, eru alfarið í opinberri eigu.  Orkuverðið ræðst af meðalvinnslukostnaði fyrirtækjanna.  Mikið af virkum eignum er afskrifað, og stórnotendur borga megnið af heildarkostnaði raforkukerfisins.  Hinn almenni notandi rafmagns og heits vatns nýtur góðs af þessu fyrirkomulagi í lágu orkuverði. 
Dótturfélag Landsnets undirbýr uppboðsmarkað raforku á Íslandi.  Þar mun verðið verða ákvarðað með hliðsjón af jaðarkostnaði á kWh, sem er allt önnur Ella en að ofan er lýst og yfirleitt miklu hærri. Það er vandséð, að slíkur uppboðsmarkaður geti þjónað íslenzkum neytendum, þótt orkufyrirtækin muni maka krókinn.  Vegna samsetningar íslenzka raforkumarkaðarins verður þessi uppboðsmarkaður eins og örverpi í íslenzku umhverfi og á hingað ekki erindi, en Orkureglari Evrópusambandsins á Íslandi (Orkumálastjórinn) mun í krafti löggjafarinnar umdeildu, Orkupakka #3, hafa þrýst á um þessa stofnsetningu.  Hún hlýtur að valda usla, þegar hún kemur til framkvæmdar. 
 
"Þar segir enn fremur, að lokun eins eða fleiri stórnotenda raforku muni ekki duga til að mæta orkuþörf til framtíðar, en virkari þátttaka stórnotenda á raforkumarkaði gæti aftur á móti dregið úr virkjanaþörf. Virk þátttaka þeirra á markaði gæti aukið aflöryggi á hagkvæmari hátt en fjárfesting í afli til að mæta aflþörf."
 
Þetta er fótalaus draumsýn á Íslandi, þótt fyrirkomulagið tíðkist erlendis.  Ástæður þessa munar eru aðallega þessar:  Mest munar hér um álag álveranna, en þau eru viðkvæm fyrir álagsbreytingum, og þær eru þeim dýrkeyptar.  Þau þyrftu þess vegna að fá mjög hátt verð fyrir hvert MW, sem þau láta af hendi, líklega hærra verð en nemur jaðarkostnaði á MW í íslenzka raforkukerfinu, og það er hærra en gildandi verð á markaðinum.  Það eru auðvitað margs konar öðruvísi fyrirtæki á markaðinum, og þau kunna sum hver að vera fús til að láta afl af hendi tímabundið gegn gjaldi, sem rúmast á íslenzka markaðinum, en hversu snögglega þau geta brugðizt við, er annað mál.  Þegar vanda hefur borið að höndum í raforkukerfi landsins vegna bilana, hafa álverin alltaf verið liðleg með  álagslækkanir. 
 
 "Í skýrslunni kemur fram, að núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta sé úr sér gengið, valdi fákeppni og sé hindrun í vegi orkuskipta og skilvirks raforkukerfis, en sú sé niðurstaða starfshóps Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Landsnets um orkuöryggi á heildsölumarkaði. Einungis 1/10 hluti raforku fer á virkan heildsölumarkað, og viðskipti milli raforkusala, annarra en Landsvirkjunar, séu nánast engin."
 
 Þetta er nokkuð fálmkenndur texti og vitnar fremur um draumsýn en raunsætt mat á raunveruleikanum.  Það er einmitt sérkenni íslenzka raforkumarkaðarins, að megnið af honum er ákvarðað með tvíhliða langtímasamningum, og það mun ekkert breytast, þótt uppboðsmarkaði verði hleypt hér af stokkunum.  Það er ekki hægt að reka gríðarlega fjárfreka og orkukræfa starfsemi með orkuöryggi undir hælinn lagt frá degi til dags.  Þessum sömu stóriðjusamningum er það að þakka, að almenningur á Íslandi býr við einna bezt raforkukjör í heimi, og að setja þá stöðu í uppnám með orkumarkaði að hætti Evrópusambandsins, þar sem eðli orkumarkaðarins er gjörólíkt okkar aðstæðum, er blinda og jaðrar við að leika sér að óþörfu með fjöregg þjóðarinnar. 
 
Í lokin kemur kafli, sem geimvera gæti hafa samið, sem hvorki þekkir haus né sporð á íslenzka raforkukerfinu og er á engan hátt meðvituð um, að allt um lykjandi vandamál geirans er afl -og orkuskortur vegna virkjanastopps í anda afturhaldsins:
 
"Núverandi fyrirkomulag skapi aðgangshindranir fyrir nýja aðila og standi í vegi nýsköpunar.  Virkari raforkumarkaður skapi aftur á móti tækifæri fyrir nýja aðila til þess að koma inn á markaðinn sem og fyrir þá, sem fyrir eru, til að virkja nýja tekjustrauma með því að veita nýjar tegundir þjónustu.  Hann muni og leiða til nýrra og hagkvæmari lausna."
 
Þetta er fagurgali, girnilegar umbúðir utan um ekki neitt.  Helzt virðist þetta vera áróður fyrir innleiðingu spákaupmennsku með orkuna, einhvers konar krambúðarhugsjón, sem ekki mun bæta neinni orku inn á kerfið.  Nær væri að gera tillögur til stjórnvalda um einföldun leyfisveitingaferlis fyrir nýjar hefðbundnar virkjanir og stofnlínulagnir á milli landshluta.  Það er ekki fjarri því að fullyrða megi, að ástand orkumála landsmanna sé til skammar.  Nú á sér stað stórfelld olíubrennsla víða um land vegna raforkuskorts.  Þá er réttilega borið við vatnsskorti í miðlunarlónum, en ástæða hans er ekki einvörðungu óvenju lítið innrennsli, heldur í vaxandi mæli mikið álag á kerfið, sem útheimtir mikið útrennsli.  Sýnidæmi um þetta er, að væri nú búið að fullvirkja Neðri-Þjórsá, þá þyrfti enga raforkuskerðingu á vesturhluta landsins, og sú á austurhluta landsins yrði mun minni að því gefnu, að ný 220 kV Byggðalína væri komin í gagnið.    
 

 


Forsetaembætti í mótun

Segja má, að forsetaembættið á Íslandi sé dálítið kindugt m.v. það, sem annars staðar þekkist.  Þar sem meginhlutverkið er þjóðhöfðingjahlutverkið (head of state), en pólitísk völd afar takmörkuð, þar er yfirleitt hafður sá háttur á, að þjóðþingið velur forsetann, og gefur þá auga leið, að stjórnmálaflokkarnir hafa þar hönd í bagga, og það getur sett sitt óheppilega mark á störf forsetans.  Í frumvarpi til Alþingis um stofnsetningu forsetaembættis var m.v. þennan hátt, en þingið breytti þessu fyrirkomulagi við sína umfjöllun og gerði forseta þjóðkjörinn í lögunum. Það breytir stöðu forsetans til hins betra og styrkir hann í aðhalds- og eftirlitshlutverki með Alþingi.

Síðan 1952 hafa stjórnmálaflokkarnir reynt að halda sig til hlés við val á forseta, en það þýðir ekki, að frambjóðendur hljóti að vera ópólitískir.

Það er einsdæmi á Íslandi, og þótt víðar væri leitað, að forsætisráðherra stigi niður af valdastóli og sækist eftir þjóðhöfðingjaembætti með afar takmörkuð völd.  Þennan fordæmalausa gjörning framdi Katrín Jakobsdóttir um páskana 2024 og hefur síðan lýst því yfir, að hún vilji sameina þjóðina að baki sér.  Það er útilokað, að fyrrverandi ráðherra, sem stóð að lagasetningu um Icesave-nauðungina tvisvar sinnum að þarflausu, eins og síðar kom í ljós við úrskurð EFTA-dómstólsins í janúar 2013, og sem er andsnúin aðild Íslands að NATO, njóti nægilegs trausts þorra þjóðarinnar.  Borgaraleg öfl ættu að hugleiða rækilega, að einstaklingur með slíka fortíð og pólitískar jaðarhugmyndir um lífshagsmuni elur í raun á sundrungu á meðal þjóðarinnar, ekki sízt með búsforræði á Bessastöðum. 

Framganga umdeilds stjórnmálafræðings við Háskóla Íslands, Baldurs Þórhallssonar, hefur að vonum ekki verið hnökralaus, en gengi sitt í skoðanakönnunum má hann sennilega þakka PR-kæti sinni og landsþekktum makanum Felix Bergssyni, en Baldur verður þó aldrei "forsetalegur" talinn og skortir fyrirmannafas.  Hann beit höfuðið af skömm sinni um daginn, þegar hann var spurður, hvernig hann hafi greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunum tveimur um Icesave.  Hann bar þá við minnisleysi, þannig að svar kom ekki.  Hvort sem hér er um óheilindi að ræða hjá Baldri eða alvarlega heilahrörnun, dæmir þetta atvik hann úr leik, ef allt er með felldu. 

Baldur hefur lengi verið ötull talsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB).  ESB var meðflutningsaðili Breta og Hollendinga að þessu máli gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólinum, og ýmsir fylgjendur ESB-aðildar fylgdu vinstri stjórninni 2009-2013 að málum í afstöðunni til Icesave-deilunnar.

Forstjóri Orkustofnunar (OS), Halla Hrund Logadóttir, er í framboði og hefur hlotið ótrúlega gott gengi í skoðanakönnunum.  Skyldi hún hafa verið krufin um stjórnmálaskoðanir sínar, t.d. um afstöðuna í utanríkismálum ?

Morgunblaðið brá birtu yfir kynningarmál þessa frambjóðanda með frétt 27. apríl 2024, sem setur stjórnarhætti Höllu Hrundar ekki í gott ljós, en forsetaframbjóðandi ætti að þurfa að hafa flekklausa ferilskrá til að ná góðum árangri í kosningum:

"Samskiptastjóri OS í frí og kosningastarf":

"Meginreglan hjá ríkinu er, að auglýsa beri laus störf og að þau séu ótímabundin, en í afmörkuðu verkefni má nota tímabundnar ráðningar eða þjónustu verktaka, yfirleitt til tveggja mánaða.

Ekki er ljóst, hvort það eigi við Karen [Kjartansdóttur, samskiptastjóra OS [Orkustofnunar] í verktöku - innsk. BJo], sem þar hefur starfað samkvæmt samningi OS við fyrirtækið Langbrók ehf., þar sem hún er einn eigenda.  [Það er ljóst, að starf samskiptastjóra OS er ekki tímabundið verkefni til 2 mánaða eða annars stutts tíma, og þess vegna hefur Orkumálastjóri farið á skjön við ráðningareglur ríkisins með þessum gjörningi gagnvart Langbrók ehf.  Þegar greiðsluupphæð OS fyrir þessa þjónustu er skoðuð, virðist vera komið efni í úttekt Ríkisendurskoðanda á stjórnarháttum í OS - innsk. BJo.]

Ekki liggur heldur fyrir, hvort verkefnið var auglýst, eins og venja er [vildargjörningur ?], en það er ekki að sjá á vef OS eða félagsmiðlum, þar sem vakin er athygli á lausum störfum.

Samningurinn var gerður til eins árs hinn 31. marz 2023 og var nýlega framlengdur um annað ár og er enn í gildi.  Aðrir starfsmenn Langbrókar munu sinna verkefnum OS [á] meðan Karen er í leyfi, en ljóst, að hún hefur a.m.k. í tæpar 3 vikur samtímis sinnt störfum fyrir bæði Orkustofnun og forsetaframboð Höllu Hrundar."

Þarna er flett ofan af of veikri hagsmunagæzlu Höllu Hrundar fyrir ríkissjóð, sem hún er á launum hjá, þegar einkahagsmunir hennar sjálfrar eru annars vegar.  Þetta er merki um siðferðisbrest, sem taka ber alvarlega hjá einstaklingi í forsetaframboði, og rétt fyrir kjósendur að taka sem viðvörun um, að þeir kunni að vera að kaupa köttinn í sekknum með því að kjósa þann sama einstakling sem forseta lýðveldisins. 

 "Í samninginum er sérstaklega kveðið á um hagsmunaárekstra, og að það sé á ábyrgð Langbrókar ehf. og Karenar að fyrirbyggja slíkt.  [Í þessu tilviki fær Halla Hrund Karen til að starfa að kynningarmálum framboðs síns, þótt Halla viti ósköp vel, að Karen vinnur áfram sem verktaki fyrir Orkustofnun.  Þetta er fingurbrjótur Höllu Hrundar - innsk. BJo.]

Allt frá því, að fyrrgreindur samningur var gerður, hefur Orkustofnun greitt Langbrók MISK 12,8 samkvæmt opnum reikningum ríkisins.  Langbrók hefur unnið að ráðgjöf fyrir ýmsa aðila aðra, þ.á.m. Landsvirkjun, Landsnet, Norðurál og Alcoa Fjarðaál. 

Í samninginum var kveðið á um, að Langbrók héldi sundurliðað verkbókhald, en við eftirgrennslan OS kom í ljós, að slíkt yfirlit hefur ekki fylgt með reikningum.  Stofnunin hyggst framvegis fylgja því eftir, að verkbókhald og/eða tímaskýrslur fylgi reikningum."

Hver hefur heimild til að samþykkja reikninga frá verktakanum Langbrók ehf. án fylgiskjala, sem áskilin  eru í pöntuninni ?  Hér er um að ræða meiri háttar lausatök í stjórnsýslu OS á ábyrgð forstjórans, Höllu Hrundar Logadóttur.  Upphæðin, MISK 12,8, er þó ekki smáræði fyrir vinnu Karenar í heilt ár, sem enginn veit í hverju var fólgin.  Hefur einhver heyrt þennan samskiptastjóra koma fram fyrir hönd OS ?

Nú er ljóst, að frambjóðendur í forsetakjöri 2024 verða 12 (postulatalan).  Starfslýsing forsetans er ófrágengin í stjórnarskránni, og ekki hefur reynzt ráðrúm á lýðveldistímanum til að gera hana skýrari.  Þó er ljóst, að forseti á að forðast að blanda sér í ríkisstjórnarmálefni, nema hann telji ríka ástæðu til, t.d. að ríkisstjórn og Alþingi brjóti ákvæði stjórnarskrár eða hafi samþykkt mál að óþörfu í andstöðu við verulega hagsmuni þjóðarinnar.  Þá getur hann gripið til neyðarúrræðis, sem er að vísa ágreiningsefni forseta og ríkisstjórnar/meirihluta þings í dóm kjósenda.

Ef forseti stendur sig vel í starfi, er hann aðhalds- og eftirlitsaðili með löggjafar- og framkvæmdavaldinu.  Hann fylgist með störfum þeirra og kemur sínum sjónarmiðum á framfæri við forsætisráðherra reglubundið og les allt rækilega yfir áður en hann staðfestir skjöl með undirritun sinni.  Þá eru ótaldir Ríkisráðsfundirnir, þar sem forseti hittir alla ríkisstjórnina. 

 

Þótt sviptingar við ríkisstjórnarmyndun séu ótaldar, er ljóst, að forseti, sem ætlar að vera miklu meira en upp á punt, þarf að hafa bein í nefinu og leggja fram mikla vinnu.  Hann þarf að hafa ferilslýsingu, sem styður, að hann geti leyst þetta af hendi. 

Það blasir við, að einn frambjóðendanna er sem sniðinn í þetta alvöru hlutverk æðsta embættis landsins. Hann er vel að sér um stjórnskipun landsins og landshagi, gagnmenntaður innan lands og utan og hefur setið á Alþingi (sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en er ekki lengur flokksbundinn), og hann er þjálfaður við að kryfja mál til mergjar.  Nú ríkir þingræði á Íslandi að forminu til, en það hefur verið útþynnt allrækilega með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, sem leiðir til innleiðingar afar viðamikillar löggjafar Evrópusambandsins (ESB) í íslenzka lagasafnið um málefni, sem ESB telur eiga við um Innri markað EES.  Íslenzkir embættismenn hafa tekið upp á því að blýhúða þessa löggjöf, þ.e. að gera hana meira íþyngjandi fyrir atvinnulíf og almenning en efni standa til, en verst er, að sumt frá Brüssel samræmist illa stjórnarháttum hér og stjórnarskrá.  Neyðarhemil væri ómetanlegt að hafa í þessum efnum á Bessastöðum, en af 12- menningunum, sem valið stendur um 2024, er aðeins einn, sem líklegur er til að koma að haldi í þeim efnum, og hann heitir Arnar Þór Jónsson. Þetta fékkst rækilega staðfestst í Sjónvarpsumræðum allra frambjóðendanna hjá Ríkisútvarpinu föstudagskvöldið 3. maí 2024.  

 

 

  

 


Sérvizka Samfylkingar við stjórnun borgarinnar

Ný forysta Samfylkingar reynir að hrista af sér fortíðardraugana og er nú t.d. orðinn virkjanasinnaður stjórnmálaflokkur með tölusett markmið um 5,0 TWh/ár nýja raforku á næstu 10 árum.  Það er u.þ.b. 25 % aukning frá núverandi málgetu virkjana, sem jafngildir 500 GWh/ár árlegri aukningu framleiðslugetu að jafnaði.  Alls ekki slæm byrjun á þessu sviði hjá Samfylkingunni, en mun hún geta myndað ríkisstjórn með þetta í farteskinu ?

Í Reykjavík hefur Samfylkingin haft undirtökin í borgarstjórn í á annan áratug með skelfilegum afleiðingum.  Þar hefur stöðnun tekið völdin, hvar sem niður er borið, m.a. á sviði virkjana.  Borgin blóðmjólkar orkufyrirtæki sitt, OR, með háum arðgreiðslum, svo að lítið bolmagn er til að afla nýrrar orku, enda hefur það ekki verið gert í neinum mæli undanfarinn áratug, og fyrrverandi forstjóri þar á bæ predikaði stefnu Landverndar um orkugnægð. 

Þegar menn virða fyrir sér, hvernig Samfylkingin hagar sér, þar sem hún er í valdaaðstöðu, þá fyllast þeir tortryggni gagnvart boðaðri stefnu Samfylkingar við næstu ríkisstjórnarmyndun.  

Alræmd er stefna Samfylkingar í umferðarmálum borgarinnar.  Í stuttu máli snýst hún ekki um heilbrigðar lausnir á umferðarteppum með hliðsjón af beztu þekkingu erlendis frá litlum, ungum borgum, heldur fávizku amatöra í skipulagsmálum á borð við talsmann Samfylkingar í skipulagsmálum, Holu-Hjálmar, sem hefur haldið þeirri fásinnu að almenningi, að s.k. "induced demand" ylli því, að engin lausn væri fólgin í að greiða úr umferðarteppum með nýjum mannvirkjum á borð við nýjar akreinar eða mislæg gatnamót, því að þau mundu bara fyllast af bílum.  Gallinn við þessi rök Holu-Hjálmars gegn góðum og gildum verkfræðilausnum hér á umferðarteppunum er sá, að lögmálið gildir alls ekki um smáborgir á borð við Höfuðborgarsvæðið á Íslandi, heldur um mjög fjölmennar borgir.  Samfylkingin, sem nú burðast við að búa til af sér nýja ímynd, sem á að vera af ábyrgum og stjórntækum stjórnmálaflokki, ætti áður en lengra er haldið út í fjárhagslegt fúafen borgarlínunnar að kynna sér, hvað gerzt hefur í umferðarmálum á Eugen-svæðinu í Oregon í Bandaríkjunum.  Aðeins þar af 40 bandarískum og kanadískum borgum með íbúafjölda 200-300 k var gert ráð fyrir uppbyggingu 100 km langs hraðvagnakerfis og þreföldun farþegafjölda (eins og hér) með almenningssamgöngum.  Þegar menn sannfærðust um, að þetta væri draumsýn ein, brugðust yfirvöld snöfurmannlega við og stöðvuðu glapræðið og fóru umbótaleið á umferðarmannvirkjum bifreiða. 

Öllu þessu gerir Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, skilmerkilega grein fyrir í Morgunblaðsgrein 17. apríl 2024:

"Samgönguskipulag lítilla bílaborga".

Hún hófst þannig:

"Sumir fulltrúar samgönguyfirvalda hér á höfuðborgarsvæðinu hafa bæði leynt og ljóst talað gegn bílaborgum og fullyrt, að tilgangslaust sé að fjölga akreinum á höfuðborgarsvæðinu, þær fyllist jafnóðum vegna "induced demand" (ID).  Flestir eru sammála um, að æskilegt sé að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar, m.a. með því að stuðla að breyttum ferðavenjum, en deilt er um leiðir.  Nærtækt er að kanna, hvort draga megi lærdóm af samgönguáætlunum lítilla bílaborga."

 

Fulltrúar Samfylkingar í borgarstjórn hafa misnotað þetta hugtak, "induced demand", annaðhvort vegna vanþekkingar eða til að leiða almenningsálitið á villigötur.  Þeir hafa ofureinfaldað málið og sagt það gildi almennt og þar með um höfuðborgarsvæðið á Íslandi, en svo er alls ekki.  Til þess er það allt of lítið og fámennt.  Grundvöllur Holu-Hjálmars fyrir harðvítugri andstöðu hans gegn öllum raunhæfum framkvæmdum í þágu greiðari og öruggari bílaumferðar hefur einmitt verið þessi falskenning.  Öll rökleysa Samfylkingar í þessum málum er nú hrunin fyrir tilstilli Þórarins Hjaltasonar, umferðarverkfræðings. Þá er óhætt og réttast að skrínleggja rándýrt og stórskaðlegt ofurborgarlínuverkefnið og snúa sér að raunhæfum, gagnlegum og viðráðanlegum verkefnum í staðinn á borð við léttlínuverkefnið, sem er ný akrein hægra megin fyrir strætó, og svo auðvitað mislæg gatnamót og nýjar akreinar.  Þannig fæst verkfræðileg lausn á lélegt umferðarflæði og tugir milljarða ISK sparast. Grein sinni lauk Þórarinn þannig:

 "Fyrirbærið "induced demand", sem hér á landi hefur verið nefnt framboðsstýrð eftirspurn, er þekkt og viðurkennt í samgöngufræðum.  Fyrirbærið er ekki vandamál í litlum bílaborgum.  Það hefur fyrst og fremst þýðingu fyrir samgönguskipulag þéttbyggðra milljónaborga, þar sem hlutur ferða með almenningssamgöngum er hár.  Fullyrðingar sumra ráðamanna um tilgangsleysi nýrra akreina vegna "induced demand" er því hræðsluáróður. 

Það er vítaverð blekking af hálfu samgönguyfirvalda - hvort sem hún er meðvituð eða ekki - að halda því fram, að ID hafi mikla þýðingu fyrir skipulag á höfuðborgarsvæðinu. 

Á borgarsvæðum Phoenix, Houston, Dallas-Fort Worth og Atlanta búa á bilinu 5-7 milljónir manna.  Íbúafjöldinn er að meðaltali 10 sinnum meiri í dag en árið 1950.  Ekta bílaborgir.  Hlutur almenningssamgangna er aðeins á bilinu 2 %-3 %.  Þrátt fyrir að borgirnar séu 20-30 sinnum fjölmennari en höfuðborgarsvæðið, eru umferðartafir þar ekki meiri en hér.  Sú staðreynd afsannar ein og sér þá kenningu sumra, að "induced demand" sé vandamál hér á höfuðborgarsvæðinu."

 Þórarinn Hjaltason er jafnframt búinn að sýna fram á, hversu arfavitlaus stefna Samfylkingar í skipulags- og umferðarmálum í Reykjavík með sínu framkvæmdastoppi á mislæg gatnamót og nýjar akreinar hefur verið.  Reykjavík er bílaborg og bæirnir í kring sömuleiðis vegna ungs þéttbýlis, veðurfars og löngunar íbúa til að búa tiltölulega dreift.  Í forsjárhyggjugrenjum, eins og Samfylkingunni, getur fávíslegum hugmyndum, úr tengslum við sögu og tækniþróun, vaxið fiskur um hrygg.  Nýr formaður Samfylkingar, sem virðist hafa gengið í vitlausan flokk, þegar hún kom út úr bankanum með feitan bónus fyrir lítið, er ekki búin að breyta innmat flokksins, heldur aðeins áferðinni á yfirborðinu.  Hún er búinn að "sminka" flokkinn, svo að hann gangi í augun á kjósendum.  Þeir, sem koma frá hægri til liðs við þennan giftusnauða flokk, munu verða fyrir gríðarlegum vonbrigðum með vinnubrögð þessa afstyrmislega flokks, komist hann að matarkötlum ríkisins.  

 

 


Vaxtarmöguleikar, framleiðni og samkeppni

Hver "spekingurinn" étur upp eftir öðrum, að neytendum sé hætta búin vegna nýlegra breytinga Alþingis á búvörulögum.  Samkeppnisstofnun trommar undir, og aðrir vitna til hennar, en þar eru menn hrikalega þröngsýnir og misskilja oft hlutverk sitt illilega með þeim afleiðingum, að neytendur hafa haft allt of lítið fyrir sinn snúð af öllu brölti Samkeppnisstofnunar.  Alþingi tókst vel upp með sínar leiðréttingar á gölluðu frumvarpi meingallaðs fyrrverandi matvælaráðherra.  Þeir, sem gerzt þekkja til, vita, að vaxtarmöguleikar og þar með svigrúm til framleiðniaukningar vega miklu þyngra við að ná niður verði til neytenda en innlend samkeppni ein og sér.  Erlend samkeppni verður eftir sem áður fyrir hendi fyrir kjötvörurnar.  

Að venju leggur Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, þarft til mála, þá er hann stingur niður penna, en það gerði hann á bls. 13 í Morgunblaðinu 17.apríl 2024 undir fyrirsögninni:

"Heimild til samvinnu afurðastöðva í kjötvinnslu er þjóðhagslegt framfaraskref".

"Með breytingu á búvörulögum, sem samþykkt var á Alþingi 21. marz sl. [2024], var afurðastöðvum í kjötvinnslu veitt undanþága frá þeim ákvæðum samkeppnislaga, sem lúta að sameiningu, samvinnu og verkaskiptingu fyrirtækja. Þessi breyting hefur vakið hörð viðbrögð vissra hagsmunasamtaka sem og Samkeppniseftirlitsins.  Þá hefur matvælaráðherra stigið það óvenjulega skref að senda atvinnuveganefnd alþingis sérstakar athugasemdir vegna málsins. 

Ég tel, að ofangreind viðbrögð sniðgangi meginatriði málsins og ofmeti auk þess áhrif samkeppni á vöruverð.  Í þessari grein leitast ég við að útskýra þetta nánar."

Þetta er hárrétt mat fræðimannsins á opinberum viðbrögðum við sjálfsagðri meðferð Alþingis á gallagrip úr matvælaráðuneytinu.  Viðbrögðin einkennast af hroka og yfirborðsmennsku.  Hroka ráðuneytisins er við brugðið.  Það snupraði Alþingi fyrir gagngerar breytingar á frumvarpi Svandísar, fór þar algerlega yfir strikið, og væri nýjum ráðherra sæmst að senda afsökunarbréf til þingsins fyrir hönd ráðherra, en spilltur stjórnmálaflokkur leyfir henni ekki að gera það.  Samkeppniseftirlitið, SKE, fellur á prófinu og þar neita menn að átta sig á lögmálum verðlagningar, sem eru sterkari en þess konar meint samkeppni, sem SKE hélt að ríkti á milli afurðastöðva kjötvinnslu.  Sannast þar enn, að þeir, sem bara svamla á yfirborðinu og hengja sig í formsatriði í stað þess að kafa til botns í málum, eru gagnslitlir og oft á tíðum skaðlegir fyrir þá hagsmuni, sem þeim er ætlað að verja, hér neytendahagsmuni.

"Það er samfélagslegt grundvallaratriði að reka alla atvinnuvegi á eins hagkvæman hátt og unnt er.  Það hámarkar tekjur landsmanna og auðlegð þjóðarinnar.  Hagkvæmasti rekstur þýðir jafnframt lægsta mögulega framleiðslukostnað og þar með lægsta mögulega vöruverð í landinu."

Það eru þessar hagfræðilegu staðreyndir, sem valda því, að SKE er á algerum villigötum í sinni afstöðu til nýsamþykktra undanþágureglna frá samkeppnislögum fyrir afurðastöðvar kjöts.  Búrókratar verða að fara átta sig á, hvaða lögmál vega þyngst í þeirra málaflokkum.  Þá er ljóst, að ekkert mark er takandi á gösprurum í pólitíkinni á borð við Viðreisn, sem virðast ekki einu sinni kynna sér, hvernig kaupin gerast á eyrinni innan Evrópusambandsins, sem er fyrirheitna landið þeirra.  Skelfilegir yfirborðssvamlarar, gagnslausir fyrir fólkið í landinu.

"Alkunna er, að nútímatækni í framleiðslu er oft þannig, að lægsti mögulegi framleiðslukostnaður krefst tiltölulega stórra fyrirtækja m.v. stærð viðkomandi markaðar.  Til að ná sem lægstu vöruverði er því af tæknilegum ástæðum óhjákvæmilegt að notast við tiltölulega stór fyrirtæki.

Stór fyrirtæki geta haft markaðsaðstöðu umfram það, sem fullkomin samkeppni gerir ráð fyrir.  Það væri hins vegar þjóðhagslegt glapræði að banna stór fyrirtæki af þessari ástæðu. Þegar fyrirtæki öðlast markaðsaðstöðu í krafti stærðarhagkvæmni eða annarra hagkvæmnisyfirburða, þarf einungis að gæta þess, að sú markaðsaðstaða sé ekki misnotuð.  Þetta er einmitt verkefni samkeppnisyfirvalda."

  Þetta er hárrétt athugað hjá Ragnari Árnasyni, en Samkeppniseftirlitið hérlenda virðist vera mótað af smásmyglislegri þröngsýni og ekki sjá skóginn fyrir trjánum.  Þannig fara hagfræðilögmálin fyrir ofan garð og neðan hjá SKE, en af þeim má ráða, hver eru aðalatriði máls fyrir neytendur.  Þau eru ekki fjöldi fyrirtækja á markaði, eins og SKE jafnan rembist við að hafa sem mestan, heldur framleiðslukostnaðurinn hjá hagkvæmast rekna fyrirtækinu á markaðinum.  SKE hefur undir núverandi stjórn stofnunarinnar og forstjóra hvað eftir annað tekið kolrangan pól í hæðina, ef miða skal við hagsmuni neytenda.  

"Í þessum skilningi er lágur framleiðslukostnaður mikilvægari þáttur í að skapa lágt vöruverð en samkeppni.  

Það er af þessum ástæðum, sem skynsöm samkeppnisyfirvöld beita sér fyrir lækkun framleiðslukostnaðar og forðast að koma í veg fyrir, að stærðarhagkvæmni sé nýtt.  Þegar markmiðið er sem lægst vöruverð, eru það einfaldlega mistök að einblína á samkeppni."

Það er mjög bagalegt, að SKE skuli vera svo aftarlega á merinni að skilja ekki grundvallaratriðið, sem ræður verði til neytenda.  Þess vegna hittir þessi gagnrýni Ragnars Árnasonar beint í mark, og SKE getur tekið hana beint til sín.  Forstjórinn á þeim bænum er með þvergirðingshátt í blóðinu og þess vegna ólíklegur til að fallast á mistök og leiðrétta kúrsinn.  Hvað á að gera við slíka embættismenn ?

"Bændur eru eigendur meginhluta afurðastöðvanna og ráða úrslitum um það verð, sem þær bjóða bændum.  Á neytendamarkaði eru aðstæður þannig, að stór hluti kjötvörunnar er nú þegar innfluttur.  Þar að auki er nóg af öðrum staðgönguvörum fyrir kjöt á innlendum neyzlumarkaði. Hugsanlegar tilraunir til að hækka verð á kjöti leiða því til miklu minni sölu og eru því ekki vænlegar fyrir kjötvinnslufyrirtækin.

Komi engu að síður í ljós, að endurskipulagðar afurðastöðvar leitist við að nota aðstöðu sína til verðstýringar, er auðvitað sjálfsagt, að Samkeppniseftirlitið grípi í taumana.  Samkeppnislög gilda áfram og þar með talið bann við að nýta markaðsstöðu til að lækka verð til birgja og hækka til neytenda.  Slíkt verður jafnólöglegt eftir sem áður."

Í grein sinni sýnir Ragnar Árnason ljóslega fram á, að þeir, sem snúizt hafa öndverðir gegn nýrri lagasetningu Alþingis um að opna afurðastöðvum kjöts leið til hagræðingar hérlendis, allt frá ráðuneyti matvæla, ýmsum þrýstihópum og til pólitískra loddara og lýðskrumara stjórnarandstöðunnar á Alþingi, eru algerlega úti að aka í verðlagningarmálum.  Ragnar byrjar greinina með fræðilegum útskýringum á lögmálunum, sem gilda í þessum málum, og endar með því að heimfæra raunstöðuna á Íslandi upp á þessi fræði.  Allt fellur þar í ljúfa löð, en eftir situr þurs SKE með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða um þá, sem hafa orðið berir að kolröngu mati og einstrengingshætti, sem jaðrar við fáfræði. 

 

 

 


Framkvæmdavald setur sig á háan hest

Það er að sumu leyti tímanna tákn, að innlent framkvæmdavald og erlendar stofnanir reyni að segja Alþingi fyrir verkum.  Alþingi virðist hafa sett niður, sem er ekki einsdæmi um þjóðþing, og það er nauðsynlegt að hefja það til vegs og virðingar á ný sem handhafa lagasetningarvalds á Íslandi, sem fólkið í landinu hefur falið þingmönnum að fara með fyrir sína hönd.  Forsetaframbjóðandinn eini, þ.e. sá eini með erindi, hefur í nokkur ár verið iðinn við að benda á þessa varasömu þróun fyrir lýðræðið í landinu. Hann væri líklegur til að brýna þingið til dáða, næði hann kjöri til Bessastaða.  

Nýlega kom upp alveg sláandi dæmi sem eitt síðasta embættisverk Svandísar Svavarsdóttur í matvælaráðuneytinu, þótt hún þykist hvergi nærri hafa komið, heldur hafi starfsmenn ráðuneytisins framið afglöpin upp á eigin spýtur, sem er trúlegt eða hitt þó ... .  Morgunblaðið gerði þennan fingurbrjót ráðuneytisins að umfjöllunarefni í forystugrein sinni 12. apríl 2024:

"Framkvæmdavaldið sussar á Alþingi".

"Atvinnuveganefnd Alþingis barst bréf frá matvælaráðuneytinu hinn 8. apríl [2024], þar sem nefndin var harðlega átalin fyrir að hafa breytt frumvarpi um búvörulög á annan hátt en ráðuneytið hafði hugsað sér.  Og Alþingi svo bitið höfuðið af skömminni með því að samþykkja það og afgreiða sem lög frá Alþingi."
 
Þessi ósvífna framkoma framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu er enn einn fingurbrjótur Svandísar Svavarsdóttur, sem enn var ráðherra, þegar bréfið var sent frá ráðuneytinu.  Svandís þorir ekki að kannast við gjörninginn og skýtur sér á bak við 2 lögfræðinga matvælaráðuneytisins, sem undirrituðu bréfið.  Svandís heldur uppteknum hætti og traðkar í salatbeðinu.  Svona gera menn ekki, og það var engin málefnaleg ástæða til að skrifa þetta bréf.  Fyrir því gerir formaður atvinnuveganefndar þingsins, Þórarinn Ingi Pétursson, rækilega grein í Morgunblaðinu 19.04.2024.  Það var einfaldlega nauðsynlegt að útvíkka gildissvið laganna, sem leyfa samráð og sameiningu afurðastöðva, út fyrir alifugla og svín. 
 
Þótt matvælaráðuneytið hafi þarna gjörsamlega misskilið stöðu sína gagnvart þinginu, þá ætlar arftakinn, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, ekki að leiðrétta þessi mistök með því að draga þetta bréf til baka og biðjast afsökunar fyrir hönd ráðuneytisins.  Það er leitt, en sýnir, að VG er í raun óstjórntækur flokkur, sem virðir leikreglur lýðveldisins um jafnvægi á milli þriggja greina lýðveldisins að vettugi.  Á þessa tilhneigingu innlends og erlends framkvæmdavalds til að valta yfir Alþingi hefur forsetaframbjóðandinn, Arnar Þór Jónsson, margsinnis bent.  Hann mun standa vörð um gildandi stjórnarskrá lýðveldisins með sínum hugsjónum og lagaþekkingu. 
 
Það hefur orðið uppi fótur og fit í þjóðfélaginu vegna laganna um afurðastöðvar, sem Alþingi samþykkti á dögunum, en lætin lýsa vanþekkingu á eðli málsins og því, sem viðgengst á þessu sviði í EES.  Neytendasamtökin, heildsalafélagið, VR og Viðreisn hlupu á sig í þessu máli, því að það er verið að opna fyrir framleiðniaukningu með því að leyfa stöðvunum að stækka, eins og Ragnar Árnason, prófessor emeritus við HÍ, benti rækilega á í góðri grein í Morgunblaðinu 17.04.2024.
 
Áfram með forystugreinina:
"Þetta bréf er ótrúleg nóta, óskammfeilin [ósvífin] og óþolandi umvöndun framkvæmdavaldsins við löggjafann í berhögg við stjórnskipan landsins. 
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hinn nýi matvælaráðherra, hlýtur að draga bréfið til baka og biðja Alþingi afsökunar.  
Ekki vegna efnis laganna - á því má hafa ýmsar skoðanir - heldur vegna hins, að það er ríkisstjórnin, sem situr í friði Alþingis, ekki öfugt.  Ríkisstjórninni, framkvæmdavaldinu, ber að fara að og framkvæma vilja Alþingis.  Það má ekki segja þinginu fyrir verkum.
Nú vill svo til, að bréfið var sent á síðasta degi Svandísar Svavarsdóttur á stóli matvælaráðherra, en þar var henni ekki vært lengur vegna yfirvofandi vantrauststillögu sakir ólögmætrar embættisfærslu.  Og bréfið, það var sent til atvinnuveganefndar, þar sem Bjarkey, arftaki hennar, er meðal nefndarmanna.  Það kemur því í hennar hlut að biðja sjálfa sig afsökunar á oflæti Svandísar !" 
 
Það er alveg makalaust, að einum ráðherranna virðist algerlega umhendis að starfa lögum og almennum siðareglum samkvæmt.  Annars staðar væri fyrir löngu búið að setja henni stólinn fyrir dyrnar, en í umboði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kemst hún upp með hvaða ósóma sem er.  Nú hefur VG tekið ábyrgð á hegðun hennar, því að frú Olsen ætlar að láta sem ekkert sé.  Hún heldur líka áfram biðleiknum gagnvart umsókn Hvals hf um leyfi til tiltekinna hvalveiða í sumar, en ráðuneytið hefur dregið fyrirtækið á svari í um 3 mánuði.  Með þessari ólöglegu stjórnsýslu (stjórnsýslulög) dæmir VG sig úr leik sem óstjórntækan stjórnmálaflokk, þótt honum verði út úr neyð leyft að hanga í stjórnarráðinu enn um hríð. 
 
 
 
 
 
 

 


Af forsetaframboði

Gríðarlegt framboð er á forsetaefnum fyrir lýðveldið Ísland árið 2024, án þess að komið verði auga á erindi flestra frambjóðendanna við embætti Bessastaðabóndans.  Túlkun margra frambjóðenda á völdum og skyldum forsetans er undarleg í mörgum tilvikum, svo að ekki sé nú tekið dýpra í árinni.  Sumir frambjóðendanna virðast hafa ruglað saman Austurvelli og Bessastöðum og ættu betur heima á Alþingi en í virðulegu embætti þjóðhöfðingjans.  Sumir frambjóðenda eru með hástemmdar yfirlýsingar um að beita sér fyrir friði í heiminum.  Embættið, sem hér um ræðir, hefur nákvæmlega ekkert vægi til slíkra verka.  Persónan í embætti forseta Íslands þarf að skilja inntak stjórnarskrárinnar út í hörgul, hafa getið sér gott orð fyrir störf sín, og hún þarf að eiga mikilvægt, raunhæft og helzt brýnt erindi við þjóð sína um þjóðþrifamál. 

Meyvant Þórólfsson, háskólakennari á eftirlaunum, hefur ritað gagnlegar og rökfastar greinar í Morgunblaðið um menntamál og þá lærdóma, sem hægt er að draga af útkomu PISA-prófanna.  Þann 13. apríl 2024 birtist skemmtileg grein eftir hann um "sjálfhverfusóttina, sem nú geisar meðal frumbyggjanna".  Hægt er að taka undir allt, sem Meyvant ber á borð með þessum skrifum.  Hann skrifar m.a.:

"Hvað hvetur svo stóran hóp ólíkra persóna til að veita okkur hinum slíkan "heiður" að velja sig sem þjóðhöfðingja með tilheyrandi kostnaði, fórnum og mögulegu mannorðstjóni ?"

Að mati þessa blekbónda hér býr hégómagirnd að baki hjá þeim, sem hafa ekkert raunverulegt erindi fram að færa við þjóðina.  Í boði er auðvitað þægilegt starf með hlunnindum og góðum launakjörum.  "Sjálfhverfusóttin" hefur orðið til þess, að fólk án forystuhæfileika og snautt af þjóðhöfðingjasnyk hefur sýnt dómgreindarleysi sitt og ofmetið hæfileika sína.  Það gildir t.d. um þau 3, sem nú tróna efst í skoðanakönnunum um fylgi við forsetaframbjóðendur.

Áfram með skeleggan Meyvant:

"Trú á eigin getu ?  Íslendingar eru vissulega [á] meðal hamingjusömustu þjóða heims, sbr skýrslu World Happiness Report, fullir af sjálfsöryggi, frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og áhugaverðum viðhorfum til spillingar.  Samkvæmt hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði er sjálfstraust grundvöllur velgengni, en innistæðulaus sjálfsánægja er varasöm.  Spilling hefur einatt leikið okkur grátt.  Jónas, heitinn, Kristjánsson tók svo til orða, að hinn dæmigerði Íslendingur hefði þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur."

Sú breyting virðist hafa orðið í tíð fráfarandi forseta á afstöðu manna til embættisins, að hver sem er geti gert lukku þar, hversu álappalegur og trúðslegur sem hann er, og hvernig sem klæðnaðurinn er. Forseti geti bara "snobbað niður á við", ef eitthvað vantar upp á virðuleikann. Það er afar ósennilegt, að hægt sé að leika þennan leik aftur og aftur.

Aðeins einn frambjóðandi er gæddur því andlega og líkamlega atgervi, sem hæfir vel og er til sóma fyrir Bessastaðabóndann, svo að þjóðin geti verið stolt af forseta sínum, en það er afar æskilegt.  Að þurfa að skammast sín fyrir forseta lýðveldisins er afleitt.

Þessi eini er jafnframt sá eini, sem segist vilja eiga áríðandi samtal við þjóðina um málefni, sem brennur honum á hjarta og sem hann hefur kynnt rækilega með skrifum sínum.  Hann skrifar þetta í auglýsingu um fundarhöld sín á 23 stöðum á landinu:

"Þess vegna gef ég kost á mér til starfans.  Ég tel, að ýmsar ógnir þöggunar og skautunar steðji að málfrelsi okkar og um leið lýðræði.  Það er afar mikilvægt, að hvert og eitt okkar hafi kjark til þess að þroska sína eigin sjálfstæðu afstöðu - og tala fyrir henni - í stað óttans, sem svo oft hvetur okkur til rétttrúnaðar og hjarðhegðunar.

Fyrir vikið er lýðveldið okkar veikara en ella, og brestir eru komnir í fullveldi þjóðarinnar.  Víða sjást merki þrýstings í formi lítt dulbúinna þvingana, ásælni og ágengni erlendra hagsmunaafla.  Íslenzkir stjórnmálamenn virðast á stundum komnir í hlutverk embættismanna og viljalausra verkfæra í höndum erlends valds.  Ég hef margsinnis tjáð mig um þessar áhyggjur mínar á undanförnum árum, bæði í sölum Alþingis og með greinaskrifum, fyrirlestrum og bókaútgáfu. 

Aðeins einn forsetaframbjóðandi gæti ritað þetta, og þess vegna sker hann sig algerlega úr framboðskraðakinu, sem er litlaust og gjörsamlega óáhugavert af mismunandi ástæðum.  Þessi frambjóðandi er gagnmenntaður, einnig erlendis, og fer hvorki með fleipur né byggir skýjaborgir.  Hann stendur með báða fætur á jörðunni, meðvitaður um, hvað er þjóðinni fyrir beztu og hefur jafnan gagnazt henni bezt.  Hann er laus við grillur um að reyna að nota forsetaembættið til að leika hlutverk á alþjóðavettvangi, sem það er í engum færum til.  Hlutverk forseta er að verja stjórnarskrána, eins og hún er á hverjum tíma (hafna lagasetningu, sem hann telur brot á stjórnarskrá), en það er hlutverk annarra að breyta henni, og það má telja hlutverk forsetans að efla skilning þjóðarinnar á þýðingu fullveldis fyrir sjálfsákvörðunarréttinn, og hvar mörkin liggja að þessu leyti í samstarfinu við aðrar þjóðir. 

Það er t.d. svo mikilvægt fyrir öryggi þjóðarinnar að vera aðili að varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO, að fullveldisafsal í því samhengi kemur ekki til álita.  Þess vegna er með öllu ótækt, að andstæðingur aðildar Íslands að NATO sitji á stóli forseta.  Það er jafnframt mjög óeðlilegt, að forseti lýðveldisins fari að predika undir rós, að Íslendingar ættu að leita aftur hófanna um inngöngu í Evrópusambandið, því að slíkt fullveldisframsal er óleyfilegt samkvæmt núverandi stjórnarskrá. 

Nú verður áfram vitnað í Meyvant:

 "Að mati undirritaðs er Arnar Þór Jónsson sá frambjóðandi, sem hefur burði til að mæta erfiðum úrlausnarmálum að hætti Sveins Björnssonar.  Hann er staðfastur og laus við "hégómlegar hugargælur", sbr orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur um sjálfhverfa frambjóðendur.  Og hann sækist sízt af öllu eftir sviðsljósinu, svo [að] notuð séu hans orð.

Rök Arnars fyrir ákvörðun um framboð eru skýr og sannfærandi.  Fulltrúalýðræðið hefur að hans mati veikzt í mikilvægum málum og því brýnt að efla beint lýðræði.  Sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar stendur ógn af síbreytilegri túlkun EES-samningsins og um leið vaxandi afskiptum ESB o.fl. alþjóðlegra stofnana.  Arnar hefur t.d. bent á skert raforkuöryggi vegna evrópskra tilskipana, hættur, sem stafa af bókun 35, og síðast en ekki sízt þá undarlegu skoðun tiltekinna ráðamanna hér, að ástæðulaust sé, að almenningur tjái sig um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu." 

Forseti með skoðanir Arnars Þórs mun brýna Alþingismenn, hvar í flokki, sem þeir standa, á að standa vörð um fulltrúalýðræðið með því að vanda vel til verka, hvort sem í hlut eiga þingsályktanir, þingmannafrumvörp, frumvörp frá ríkisstjórninni eða löggjöf frá ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd ESB og EFTA hefur samþykkt til lögleiðingar í EFTA-löndunum þremur.  Í lýðræðisríki þarf að ríkja nokkurt jafnræði með öllum þremur greinum ríkisvaldsins.  Þetta er hárfínt mat, og enginn núverandi frambjóðenda til forsetaembættisins er betur fallinn til eftirlits með slíku en Arnar Þór Jónsson.

"Fjórða valdið hefur ekki verið Arnari hliðhollt. Ríkismiðillinn RÚV hefur ítrekað hneigzt til að veikja málstað hans, tvívegis með hæðni í Fréttum vikunnar hjá "fyndnasta föstudagssófa" veraldar og að auki með samtölum við valda álitsgjafa um niðurstöður samkvæmisleiks Prósents.  Miðvikudagskvöldið 3. apríl [2024] tilgreindi svo stjórnandi Kastljóssins þau Jón Gnarr, Höllu Tómasdóttur og Baldur Þórhallsson sem "sterka" frambjóðendur auk Katrínar Jakobsdóttur. Vill þjóðin, að RÚV segi henni, hverjir komi til greina sem forsetaefni ?"   

Þegar einhverjum fréttabörnum þóknast að láta ljós sitt skína í stað þess að tíunda með hlutlægum hætti nýja atburði, þá er nú ekki eins og Guð, almáttugur, sé þar á ferð.  Erindi allra þessara háttvirtu frambjóðenda, ef eitthvert er, bliknar fullkomlega í samanburði við erindi þess frambjóðanda, sem við Meyvant Þórólfsson viljum sjá fyrir enda Ríkisráðsborðsins á komandi kjörtímabili forseta lýðveldisins.  


Vanstilltur fullyrðingaflaumur

"Opið bréf til Alþingismanna frá forystufólki í íslensku þjóðlífi og landeigendum" birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024 undir ábúðarmikilli fyrirsögn: 

"Fimm staðreyndir um Ísland".

Þar gat að líta eftirfarandi:

"01 Sjálfsmynd Íslands tengist náttúruauðlindum og legu landsins órjúfanlegum böndum.  Þegar horft er til jarðfræðilegs mikilfengleika eldgosa og heitra lauga, stórbrotinna norðurljósa, villts dýralífs og ósnortinnar náttúru, er Ísland einstakt á heimsvísu."

Lönd hafa enga sjálfsímynd.  Það er hæpið að alhæfa með þessum síðrómantíska hætti um sjálfsímynd þjóðar, sem orðin er fjölmenningarleg, enda kemur þetta hástemmda náttúrublaður laxeldi í sjó við fáeinar strendur Íslands ekkert við, nema höfundarnir kjósi helzt, að fólkið í landinu verði bara sýningargripir í þjóðgarði fyrir túrhesta af malbiki stórborganna. 

"02 Í dag byggir Ísland sjálfstæð þjóð, sem trúir á sjálfsákvörðunarrétt sinn. Íslendingar mótuðust í deiglu sjálfstæðisþrár (sic ! - þráar) og ættu aldrei að láta erlenda hagsmuni ganga í berhögg við sína eigin."

Þetta er algerlega úrelt viðhorf.  Aðeins elztu núlifandi frumbyggjar mótuðust af sjálfstæðisþrá.  Nú er alþjóða samvinna komin á slíkt stig, að það að etja saman erlendum og innlendum hagsmunum í landi, sem er á Innri markaði Evrópusambandsins, þar sem "frelsin fjögur" eru grundvöllur EES-samningsins, sem Alþingi hefur fullgilt, er fullkomin tímaskekkja.  Þarna er verið að bera brigður á erlendar fjárfestingar og gildi þeirra fyrir hagkerfi landsins, sem fjárfest er í.  Erlendar fjárfestingar í löglegri atvinnustarfsemi eru alls staðar, nema í Norður-Kóreu og ámóta ríkjum, mikið keppikefli.  Þær eru reyndar allt of litlar á Íslandi.  Fjárfestingar Norðmanna í sjókvíaeldi við Ísland hafa komið fótunum undir laxeldi í sjó hérlendis, sem á sér brösuglega fortíð, þegar frumkvöðlarnir börðust í bökkum við þetta.  Laxeldi í sjó hefur leitt nýtt blómaskeið yfir byggðir Vestfjarða og styrkt byggðir Austfjarða í sessi.  Sefasýkislegur atvinnurógur í garð þessarar starfsemi er sorglegur upp á að horfa.  

"03 Við hvetjum heimsbyggðina til að sækja okkur heim, njóta gæða landsins og fjárfesta af ábyrgð, fremur en að ganga á auðlindir þessa stórkostlega lands.  Við getum ekki látið það viðgangast, að erlend fyrirtæki hagnýti meira af arfleifð okkar og þjóð en þau skila til baka."

Þarna er verið að hvetja til aukinnar ferðamennsku, en í ljósi þess, sem nú er að gerast á Kanaríeyjum, þar sem ferðamennskan er yfirþyrmandi og hefur leitt til fátæktar frumbyggjanna, sem reyna að lifa á sínum hefðbundnu atvinnugreinum.  Það er með öllu ósannað og verður að telja til ósanninda, að sjókvíaeldið gangi á auðlindir Íslands.  Landeigendur og veiðiréttarhafar ættu að líta sér nær varðandi mikla fækkun villtra laxa í íslenzkum ám.  Miðað við veiðiálagið og viðmiðanir vísindamanna um sjálfbært veiðiálag í íslenzkri lögsögu á sér stað rányrkja úr íslenzkum ám, en ástandinu er reynt að klína á sjókvíaeldið, sem er einfaldlega algerlega úr lausu lofti gripið og virðist vera ein rándýr smjörklípa. Það er tímabært, að Alþingi fjalli um að setja nytjar dýralífs í ám á Íslandi undir vísindalega stjórnun Hafrannsóknastofnunar. 

"04 Hagkerfi eyríkis á borð við okkar þarfnast þess að hugsa og skipuleggja langt fram í tímann.  Auðlindir eru alls staðar dýrmætar, en eyþjóð verður að standa dyggan vörð um þær, sem hún sjálf býr yfir. 

 Þetta er skrýtinn texti.  Hagkerfi hvorki hugsa né skipuleggja.  Þurfa ekki jafnvel fjölskyldur að hugleiða framtíðina og skipuleggja langt fram í tímann ?  Þarna virðist vera reynt að segja, að eyþjóð þurfi að standa dyggari vörð um auðlindir sínar en aðrar þjóðir.  Engin rök eru færð fyrir því, bara fullyrt.  Það er í anda þeirra smjörklípumanna, sem ofsækja sjókvíaeldi hér við land og kenna því um ófarir sínar.  Þarna á við hin kristna speki.  Þú sérð flísina í auga samferðarmanns þíns, en ekki bjálkann í eigin auga.  

Það hefði verið eðlilegra og nærtækara áður en vaðið var fram með órökstuddum fullyrðingum, svívirðingum og dylgjum, í garð heillar atvinnugreinar, að þau sem hér eiga í hlut mundu hafa gert mótvægisáætlun við hraða hnignun villtra laxastofna í ám Íslands, sem fæli í sér stórfelldan niðurskurð eða jafnvel friðun stofnanna, þar til þeir næðu sér á strik að nýju.  Ofstækið, sem felst í eftirfarandi málsgrein þeirra, er ekki aðeins forkastanlegt, heldur kann að vera brot á stjórnarskrárreglu um atvinnufrelsi á Íslandi:

"Við biðlum því til Alþingismanna okkar og ráðherra að vinna að því að draga úr og stöðva að lokum sjókvíaeldi."

Það hafa engin haldbær rök og gögn verið lögð fram, sem réttlæta mundu frekleg og rándýr stjórnvaldsinngrip af þessu tagi langt úr meðalhófi fram og án viðeigandi rannsóknarniðurstaðna, sem væru einstæð í sögunni og mundu draga dilk á eftir sér um langa framtíð.  Það lýsir dómgreindarleysi að senda þvílíka beiðni frá sér.  Ef flugufótur væri fyrir hrikalegum ásökunum hópsins, sem að þessari öfugsnúnu herferð stendur gegn lögbundinni atvinnustarfsemi í landinu, þá væru starfsmenn eftirlits- og ráðgjafarstofnana ríkisins, sem komið hafa að leyfisveitingum, eftirliti og ráðgjöf með þessari starfsemi, með öllu óhæfir og ekki starfi sínu vaxnir.  Það er fásinna að halda slíku fram og jafgildir atvinnurógi.  Þetta er mjög ljótt mál. 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband