Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig var hægt að eyðileggja grunnskólann - og hvers vegna ?

Þegar höfundur gekk í grunnskóla, var öldin önnur.  Námið hófst í sjálfseignarstofnuninni Skóla Ísaks Jónssonar í Hlíðunum í Reykjavík, enda bjó fjölskylda höfundar þá í Eskihlíðinni.  Lestrarkennsluaðferðin þótti foreldrum nýstárleg og framandi.  Hún var nefnd hljóðlestur og var kveðið að og hafði hver bókstafur sitt hljóð. Af þessum sökum var aðstoð við lestrarnámið heima við takmörkuð, en það kom ekki að sök, því að mjög góður kennari í skólanum sá vel um nemendur, sem þó voru af misjöfnu sauðahúsi. 

Strax var líka hafizt handa við að kenna skrift, reikning og teikningu.  Fyrir alla vinnu var veitt umbun, hálf stjarna, heilstjarna eða 2 stjörnur, og einkunn var gefin fyrir frammistöðuna strax á fyrsta ári. Allt var þetta örvandi og efldi vilja til að standa sig vel í samanburðinum og veitti foreldrum yfirsýn.  

Íslenzka skólakerfið hefur síðan orðið fórnarlamb ábyrgðarlausrar tilraunastarfsemi, sem eftir á að hyggja virðist hafa verið hreinræktað fúsk, því að afraksturinn er miklu ófróðari nemendur en áður og nemendur, sem engan veginn standast jafnöldrum sínum á hinum Norðurlöndunum og víðar snúning í færni á mikilvægum sviðum.  Öðru vísi mér áður brá. Það er auðvitað eftir öðru, að ríkisvaldið, sem þessu stjórnar, stendur hvumsa og hefur engin raunhæf  umbótaáform á takteinum. Hvernig væri hreinlega að játa mistökin, stokka upp og leita faglegrar ráðgjafar, hvar sem hana er að finna á meðal þeirra, sem vel hafa staðið sig á PISA ? 

Auðvitað verður að gæta þess, að menningarheimar eru ólíkir, og sinn er siður í hverju landi.  Það er þó klárt, að meiri kröfur verður að gera til nemenda um þekkingaröflun og hana verður að mæla reglubundið, bæði innan skóla og á samræmdum prófum á landsvísu. Svara verður þeirri spurningu, hvernig blöndun nemenda með ólíka frammistöðu í deildir hefur tekizt, hver er árangur hennar, og hverjar eru afleiðingarnar fyrir kennara og nemendur m.t.t. álags í starfi og námsárangurs nemenda. 

Meyvant Þórólfsson, háskólakennari á eftirlaunum, hefur skrifað af viti um íslenzka skólakerfið og PISA.  Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 02.12.2023, áður en niðurstaða PISA 2022 var birt, undir fyrirsögninni:

"OECD PISA - Vísindalegt læsi".

  Hún hófst þannig:  

"Fátt bendir til, að viðsnúningur muni sjást í árangri íslenzkra unglinga, þegar niðurstöður OECD PISA munu birtast okkur hinn 5. desember n.k. Íslenzkum þátttakendum á síðasta ári skyldunáms hefur hrakað jafnt og þétt frá upphafi PISA-mælinganna árið 2000, einkum í náttúruvísindum og almennum lesskilningi.  Árið 2018 mældist Ísland neðst á Norðurlöndum og undir meðaltali OECD.  Að auki hefur íslenzkum nemum farið fjölgandi, sem lenda undir hæfniþrepi 2, og þeim fækkar, sem ná afburðahæfni á þrepum 5 eða 6.  Viðvörunarbjöllurnar hafa því ómað um nokkurt skeið, sbr skýrslur OECD (PISA og TALIS) síðustu ára, Eurodice og fleiri gögn."   

Skólakerfið íslenzka er ein rjúkandi rúst, eftir að illa gefnir sósíalistar hafa farið um það höndum, drepið þar niður allan metnað og gert foreldrum og öðrum örðugt um vik að fylgjast með námsárangri barnanna, því að próf má helzt ekki nefna lengur, og þess vegna skortir íslenzka PISA-þátttakendur það, sem kalla má próftækni, sem kemur sér vel síðar á lífsleiðinni í atvinnuviðtölum, og þegar skila þarf af sér tilteknu verkefni innan ákveðins tíma.  Sósíalistarnir halda því fram, að prófin trufli skólastarfið, en þau, þ.m.t. skyndiprófin, eru eðlilegur þáttur í náminu.  Það segir sína sögu um gæðarýrnunina, sem átt hefur sér stað í skólakerfinu, að afburðanemendum hefur fækkað hlutfallslega mest.  Þeir komu vanalega úr öllum stéttum þjóðfélagsins, og skólakerfið hefur nú svikið þá um tækifæri til að njóta sín og svikið um leið samfélagið um að njóta krafta þeirra, sem dregið geta verðmætasköpunina áfram.  Án þeirra mun einfaldlega kakan aldrei geta orðið jafnstór og ella, sem til skiptanna er.

"Því miður verður ekki sagt, að stefnumótun í menntamálum hérlendis hafi byggzt á langtíma sjónarmiðum.  Sífelldar skyndibreytingar á námsskrám, námsefni og námsmati hafa líkzt öfgahreyfingum pendúls í takti við ólíkar stefnur pólitískt kjörinna ráðherra."

Þarna lýsir Meyvant fúski og ábyrgðarleysi yfirstjórnar menntamála í tímans rás. Þetta hringl með menntastefnuna er skaðlegt, enda eru ábyggilega ýmsar ástæður fyrir hinni hrikalegu útreið, og ekki virðist núverandi yfirstjórn líkleg til að sigla skútunni gegnum skerjagarðinn klakklaust. 

""Síðasta menntastefnubreytingin kom í kjölfar efnahagshrunsins með tilkomu svo nefndra grunnþátta og andstöðu við hefðbundnar námsgreinar.  "Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar, heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska."  (Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 51.)"

Þarna var Katrín Jakobsdóttir að verki, alger fúskari með miklar hugmyndir um sjálfa sig, sem snýr einfaldlega öllu á haus í aðalnámskrá með þeim afleiðingum, að skólinn hætti að vera menntastofnun og varð geymslustaður ungviðis.  Ef það varð ekki lengur hlutverk kennaranna að kenna nemendum námsgreinar, þá var náttúrulega fokið í flest skjól og afleiðingin fyrirsjáanleg. 

 "Undirritaður [Meyvant] telur menntun reyndar óhugsandi án námsgreina á borð við náttúruvísindi, sem eru reyndar án nokkurs vafa lykilnámsgrein til að mennta nemendur, koma þeim til þroska og búa þá undir líf og starf í nútímaþjóðfélagi.  Þetta hafa fjölmargir sérfræðingar bent á með gildum rökum.  Þrátt fyrir það hafa náttúruvísindi átt undir högg að sækja í íslenzku skólakerfi alla síðustu öld og fram á okkar daga í samanburði við húmanískar greinar.  Samkvæmt úttekt OECD fyrir tæpum 40 árum þótti íslenzka námskráin skera sig úr vegna mikils tíma, sem hér væri varið í kennslu móðurmáls á kostnað náttúruvísinda (OECD, 1987, bls. 23).  Sú staða hefur ekki breytzt."

Það sýnir, hversu lítið aðhald er að mistækum ráðherrum, að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, skyldi komast upp með að snúa öllu á haus í aðalnámskrá grunnskóla án þess að hafa hugmynd um, hvað hún var að gera, og eyðileggja þar með þetta skólastig.  Ríkisvald lýðveldisins er því hættulegt.  Það er rétt hjá Meyvant, að steingelt húmanistískt stagl tók of langan tíma á kostnað t.d. eðlisfræði og efnafræði í grunnskóla í gamla daga. 

"Í nýlegum gögnum OECD (2018) og Eurydice (2022) kemur fram, að hlutfall náttúruvísinda á unglingastigi er lægst hér [á] meðal Evrópulanda.  Menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 fylgdi tillaga um að auka þetta hlutfall á unglingastigi úr 8 % í 11 %, og færa þannig vægi þessa mikilvæga námssviðs nær því, sem þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar.  Viðvarandi slakt gengi í PISA var jafnframt nefnt sem rök með breytingunni. Þegar tillagan birtist í samráðsgátt, reyndust mótbárur svo ákafar, að tillagan missti óðara flugið; síðan hefur ekki til hennar spurzt." 

Þarna sést, hvað við er að eiga.  Sósíalistar og jafnaðarmenn eru búnir að draga námsgæðin niður fyrir það, sem þekkist í nágrannalöndunum, og þegar á að reyna einhverjar mótvægisaðgerðir, er því borið við, að ekki sé til nóg af menntuðum kennurum á raungreinasviði.  Það er nóg til af raunvísindamönnum, sem geta hlaupið undir bagga, á meðan kennarar afla sér nauðsynlegrar menntunar.  Nú dugir enginn bútasaumur, heldur róttækar endurbætur í átt að fyrirkomulagi hinna Norðurlandanna, en ekki róttækni út í loftið, eins og hjá tækifærissinnanum Katrínu Jakobsdóttur.  


Grunnskólakerfið: keisarinn er ekki í neinu

Heildarniðurstöður PISA-prófa 2022 leiða í ljós, að grunnskólakerfi landsmanna, sem kostar 200 mrdISK/ár, eru umbúðir án innihalds.  Hver voru fyrstu viðbrögð æðsta strumps menntamálanna við þessum grafalvarlegu tíðindum ?  Að nú þyrfti að koma á laggirnar stofnun með nýju nafni í stað Menntamálastofnunar, sem verið er að leggja niður.  Æðsti strumpur er ófær um að setja sig inn í ógöngurnar, sem ríkisvaldið hefur átt dágóðan þátt í að valda menntakerfinu.  Honum væri nær að kalla saman fólk, sem nú hefur tjáð sig af viti um þessar ógöngur, t.d. Jón Pétur Zimsen og Meyvant Þórólfsson, til að semja leikskólastiginu og grunnskólastiginu gagnlega námsskrá, en sú núverandi er frá dögum Katrínar Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra 2013 og er hvorki fugl né fiskur, eins og eftirfarandi krúsidúlla þaðan ber með sér: "Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar, heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska." [Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 51.]  Á grundvelli þvaðurs af þessu tagi verja skólarnir drjúgum tíma í umbúðir án innihalds, sem mörgum nemendum finnst skemmtilegt, en er hrein tímasóun og gagnast hvorki á PISA-prófi né í skóla lífsins.  Þarna liggur hundurinn grafinn (einn af þeim).

Einkennandi fyrir skólakerfið hérlendis er, hversu einsleitt rekstrarformið er.  Í samanburði við önnur Evrópulönd vantar hér önnur eignarform en opinbera eign á skólum.  Þessi einsleitni dregur úr samkeppni í kerfinu.  Strax mætti þó örva samkeppnina með öðru móti. Það er algerlega sjálfsagt að nota PISA-prófniðurstöðurnar og tölfræðilega úrvinnslu þeirra til að gefa hverjum þátttökuskóla kost á að skipuleggja starf sitt með því að afhenda honum tiltækan tölfræðilegan samanburð.  Ekki nóg með það, heldur ætti tölfræðileg samantekt fyrir hvern skóla að vera aðgengileg foreldrum og nemendum og raunar að vera opinber gögn, þar sem skólakerfið er á framfæri hins opinbera.

  Þetta er sjálfsögð þjónusta við nemendur og getur ýtt undir metnað í skólastarfi.  Það er eftir öðru hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, að undirstofnun þess, Menntamálastofnun, kemst upp með það að sitja á þessum gögnum og neitar að afhenda þau.  Viðbáran er tilbúningur einn, þ.e. að prófið sé bara mælikvarði á kerfið.  Það er alrangt, því að þá væru allir skólar eins, sem eðlilega er ekki raunin.  Það verður að reyna að nýta prófniðurstöðurnar til hins ýtrasta, en ekki að stinga hausnum í sandinn og gera ekki neitt, nema kannski hrinda af stokkunum einhverju vanhugsuðu lestrarátaki.  

Vert er að gefa gaum að því, að það er sama tilhneiging á öllum Norðurlöndunum, þ.e. til lakari árangurs á PISA-prófum, en sýnu verst er hún á Íslandi.  Þetta bendir til sameiginlegs þáttar, sem gæti verið síma- og tölvunotkun nemenda, sem leiðir til minni bóklestrar og minni ástundunar náms.  Hérlendis bætist svo umbúðakennsla ofan á í stað staðreyndafræðslu (stagls), sem tölvutæknin úreldir ekki, þótt einhverjir ímyndi sér það. Að láta sér detta í hug, að staðreyndaöflun sé þarflaus, af því að nú er hægt "að fletta öllu upp á netinu", er grundvallar misskilningur á sígildu eðli náms.  

Nefna má fleiri blóraböggla.  Árangri íslenzkra nemenda á PISA-prófum tók að hraka, eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, aflagði samræmd lokapróf árið 2008, og núverandi aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur er gjörsamlega haldlaust plagg og sennilega stórskaðlegt vegna algers metnaðarleysis fyrir hönd kennara og nemenda. Aðalnámskrá ætti að tilgreina nokkur samræmd próf, og hvaða þekkingu nemendur þurfi þá að geta staðið skil á.  Skyndipróf ættu að vera framlag skólanna til að þjálfa nemendur í próftöku og gefa þeim til kynna stöðu þeirra í hverri grein og hjálpa kennaranum við mat á kunnáttu nemandans í lok annar. 

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, var ómyrkur í máli í viðtali við Morgunblaðið, sem birtist 06.12.2023 undir hinni skuggalegu fyrirsögn:

 "Rúmlega heilt ár farið í súginn"

"Niðurstöðurnar koma mér bara akkúrat ekkert á óvart - ekki neitt.  Þetta er algjörlega það, sem ég bjóst við.  Þetta var í farvatninu og verður áfram."

Það hlýtur að vera ömurlegt fyrir menn á borð við Jón Pétur að starfa við skilyrði, þar sem hann horfir upp á árangursleysi síns fólks í starfi án þess að geta spyrnt við fótum, því að þá fara alls kyns þokulúðrar í gang, varðhundar stöðnunar, sem eru ekki hrifnir af því, að neinn skari fram úr.  

"Þú hefur sem sagt orðið var við, að færni nemenda hafi hrakað svona mikið og á svona skömmum tíma ?

"Já, þessu er búið að hraka frá aldamótum.  Árin 2009  og 2018 komu smá uppsveiflur, en þessu er búið að hraka frá aldamótum, og það er ekkert, sem bendir til þess, að þetta sé að fara að batna.  Það er ekkert í spilunum með það.  Það er bara sama stefna, sem er búin að vera nokkurn veginn frá aldamótum eða síðan sveitarfélögin tóku við grunnskólunum.""

Það er athyglisvert, að þessi skólamaður tengir hrakfallabálk grunnskólanna við eignarhald sveitarfélaganna.  Þegar lélegt taumhald er úr mennta- og barnamálaráðuneytinu og aðalnámskrá einkennist af fullmomnu metnaðarleysi, er jarðvegur fyrir ringulreið í grunnskólum landsins. 

""Það er náttúrulega í raun brot á grunnskólalögum [léleg kennsla - innsk. BJo].  Þar stendur, að við eigum að búa nemendur undir að taka þátt í lýðræðissamfélagi.  Og þegar við erum með rétt rúmlega 50 % drengja, sem geta skilið það, sem fer fram í fjölmiðlum, í töluðu máli og í rituðu máli, þá er það bara ávísun á, að nemendur geti ekki tekið þátt í lýðræðissamfélagi.  Ekki þegar þeir skilja ekki, hvað er í gangi í kringum þá", segir Jón Pétur."

Það er mjög loðið og teygjanlegt, hvað þarf til að geta skammlaust tekið þátt í lýðræðissamfélagi, og þess vegna er ekkert hald í lagatexta af þessu tagi.  Þetta er angi af þeirri tilraunastarfsemi, sem hefur tröllriðið grunnskólum landsins með þeim afleiðingum, að þeir eru að lenda á botninum í Evrópu.  Ef að er gáð, blasir við metnaðarleysið og útjöfnun (andskotans) niður á við, sem endar með því, að íslenzka grunnskólakerfið verður Júmbó Evrópu, og framhaldsskólakerfið dregur dám af því, sem frá grunnskólanum kemur. 

""Þetta er alveg grafalvarlegt."  Spurður um orsakir þessa nefnir hann, að umbúðanám, eins og hann kýs að kalla það, hafi færzt í aukana.  

"Það er nám, sem lítur vel út á pappírunum, en innihaldið er ekkert.  Það er ríkjandi allt of víða og hjálpar ekki til.  En það bitnar síðan mest á þeim, sem standa höllustum fæti.  Bitnar mest á þeim, sem hafa slakasta félagslega, fjárhagslega bakgrunninn, þeim, sem fá minnstu hjálpina heima.  Þar sem skólinn á að vera jöfnunartæki - þar bregst skólinn algjörlega.""

Þetta er harðari gagnrýni starfandi skólamanns á skólakerfið en höfund rekur minni til að hafa barið augum.  Hún passar við það, sem höfundur hefur séð nýlega til skólakerfisins (sem afi).  Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur á drjúgan þátt í metnaðarleysinu, sem hrjáir skólakerfið, eða hvað segja menn um eftirfarandi holtaþokuvæl í aðalnámskrá leik- og grunnskóla frá 2011, þar sem læsi á að heita  skilgreint á eftirfarandi hátt, en textinn uppfyllir ekkert skilyrða fyrir skilgreiningu, heldur er algerlega út og suður og fjarri því að vera leiðbeinandi sem færnimælikvarði á læsi:

"Meginmarkmið læsis er, að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því, sem þeir lesa, með hjálp þeirra miðla og tækni, sem völ er á."

Þarna er sullað saman fjölmörgum óskyldum atriðum, sem eru gagnslausir við mat á læsi nemandans. Hvernig væri eftirfarandi viðmiðun ?:  Lesfærni spannar bæði leshraða og lesskilning.  Lesfærni nemanda telst ágæt (hæsta ágætiseinkunn), ef hann getur lesið rétt a.m.k. n orð á 3 mínútum og endursagt textann merkingarlega án vantana í töluðu eða rituðu máli á 6 mínútum.  Síðan má kvarða endurgjöf niður á við, eftir því sem fleiru er áfátt. 

"Tæknin er orðin þannig, að þú getur púslað saman verkefni, sem lítur út fyrir að vera gott, þó að þú vitir eiginlega ekki neitt."

Þarna er hættan, og hún steðjar að öllum þjóðum, þar sem tölvu- og símanotkun er orðin útbreidd.  Ef marka má niðurstöðu PISA, hafa aðrar þjóðir haft meiri vara á sér en Íslendingar og ekki hundsað grundvallar þekkingaröflun.  Þegar nám er orðin sýndarmennska eða umbúðir utan um loftið eitt, þá er ekki seinna vænna að staldra við. Lélegar leiðbeiningar til kennara á borð við þokukennd plögg frá menntamálaráðuneytinu, vöntun á prófum og metnaðarleysi í skólakerfinu, leggjast á eitt og úr verður handónýtt grunnskólakerfi. 

 "Á sama tíma séu grunnatriði námsins og sterkari grundvöllur frekara náms virt að vettugi í kennslu.  

"Þessi grunnhugsun um hvað nám gengur út á, orðaforða og hugtakaskilning, það þykir bara ekkert fínt.  En orðaforði er algjör grunnur að öllum greinum.""

Kennara virðist vanta skýr viðmið, og þeir hafa ekki hugmynd um, hvar þeir eru staddir með nemendur sína í samanburði við aðra skóla. Úr þessu má bæta með almennilegri námskrá, fleiri samræmdum prófum, og það á að birta skólum og nemendum alla þá tölfræði, sem unnt er að vinna úr niðurstöðunum, þótt eitthvað annað sé ríkjandi viðhorf innan OECD.

Í lokin gaf aðstoðarskólastjórinn til kynna, að eftir þessa útreið þyrfti einhver, sem ábyrgð ber á þessu meingallaða menntakerfi, að axla sín skinn.  Í þessu kerfi kunna viðkomandi þó ekki að skammast sín.

"Ef eitthvert fyrirtæki sýndi þennan árangur, þá væri einfaldlega búið að láta alla fara.  Þetta er bara ekki boðlegt.  Að bjóða börnum upp á þetta í 10 ára skyldunámi."

 

 

 

 

 


Loftslagsráðstefnan er dæmd til að missa marks

Hvers vegna eru allar loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna dæmdar til áhrifaleysis, þ.e. að verða orðin tóm ?  Það eru nokkrar ástæður fyrir því, en nefna má, að skuldbindingar þar eru ekki lagalega bindandi, og þeir, sem mest tala þar, hafa ekki nægilega góða yfirsýn og skilning á þeim tæknilegu og efnahagslegu viðfangsefnum, sem úrlausna krefjast, ef árangur á að nást við að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

  Fullyrða má, að blaður þjóðarleiðtoga breytir engu fyrir loftslagið.  Að fjöldi ráðstefnugestanna á 28. loftslagsráðstefnunni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum (Dubai) frá Íslandi skuli nema 0,1 % af heildarfjölda segir meira um ferðagleði og hégómagirni landsmanna en gagn, sem Ísland eða aðrir nokkru sinni geta haft af að hafa þarna fleiri en 0,01 % þátttakenda. 

Meginástæða árangursleysis þessara fjöldasamkoma (80-90 k viðstaddir) er þó líklega sú, að enginn þar virðist hafa velt fyrir sér kostnaðinum af áætlaðri hlýnun umfram 1,5°C og borið hann saman við kostnaðinn við að halda hlýnun í skefjum við 1,5°C.  Í staðinn fljúga orðaleppar um salina, sem eiga að hræða fólk til fylgilags við loftslagstrúboðið.  Það dytti sennilega dautt niður, ef kostnaðarupplýsingar frá Copenhagen Consensus fengju einhverja athygli á þessum dæmalausu blaðurskjóðu fundum stjórnmálamanna og embættismanna. 

Björn Lomborg, stofnandi téðrar hugveitu, skrifaði nýlega grein um þetta, og birtist hún í Morgunblaðinu 4. desember 2023.  Þar kemur nefnilega fram, að kostnaðurinn af baráttunni við hlýnun er margfaldur á við kostnaðinn af afleiðingunum.  Opinberu fé verður bezt varið til mótvægisaðgerða, nema viðskiptalega hagkvæmar lausnir séu fyrir hendi.  Þegar kemur að orkuöflun, eru þær fyrir hendi með jarðgufu og fallvatni hérlendis, en það á varla við um vindinn vegna lágs nýtingartíma, lítilla eininga og mikils umhverfiskostnaðar við að nýta hann til raforkuvinnslu. 

Nú skal grípa niður í grein Björns Lomborg, sem bar fyrirsögnina:

"Þegar loftslagspáfar vilja ekki hlusta á vísindin".

"Næstum öll ríku löndin prédika mun meira en þau standa síðan við.  Dæmi um þetta er Evrópusambandið, sem hefur lofað meiru en nokkur annar, en fór þó að leita að meiri olíu, gasi og kolum í Afríku, þegar það var nauðbeygt til að stöðva gasinnflutning frá Rússum í kjölfar villimannslegrar innrásar þeirra í Úkraínu.  Á sama tíma setja næstum öll fátæk ríki skiljanlega eigin velmegun í forgang, sem þýðir næga ódýra og áreiðanleg orku - sem þýðir enn sem komið er jarðefnaeldsneyti [þar á bæ - innsk. BJo]."   

Þetta þýðir, að ráðstefnublaðrið um, að nú sé ekki eftir neinu að bíða, mundi hafa afar neikvæðar afleiðingar á lífskjör í heiminum, sérstaklega á meðal þjóða, sem verst eru settar, ef úr yrði.  Jarðarkringlan og allt, sem á henni er, yrði miklu betur sett, ef SÞ mundu hætta að boða til þessara árlegu funda.  Fjarfundir hljóta að duga á milli staðfunda á 10 ára fresti til að bera saman bækur.

Það er vita vonlaus aðferðarfræði að setja einhver markmið án skuldbindinga.  Miklum hræðsluáróðri er dembt yfir heiminn, en hann hrín ekki á olíuvinnslulöndunum og stærstu notendunum í fjölmennustu löndunum, Indlandi og Kína.  Vesturlönd geta ekki dregið þennan vagn ein og verða að gæta að sér að missa ekki kostnað atvinnuvega sinna úr böndunum fyrir vikið. 

"Undirstaða skrípaleiks loftslagsráðstefnunnar er lygi, sem er endurtekin aftur og aftur: að græn orka sé alveg við það að koma í stað jarðefnaeldsneytis á öllum sviðum lífs okkar.  Þessum ýkjum er [núna] haldið á lofti af Alþjóðaorkumálastofnuninni, sem hefur snúið sér frá hlutverki hlutlauss úrskurðaraðila um orkugögn yfir í talsmann þeirrar langsóttu spár, að notkun jarðefnaeldsneytis muni ná hámarki innan aðeins 7 ára."   

Þarna er um einfaldan blekkingarleik að ræða, sem stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa margþvælt um, en þegar til á að taka, er gripið í tómt.  Þetta er meginskýringin á því, að framkvæmd orkuskipta er langt á eftir áætlun alls staðar.  Katrín Jakobsdóttir talar, eins og lausnir séu "hilluvara", en hvernig eiga útgerðarfélög og flugfélög og verktakar að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi ?  Það vantar jarðtengingu tækninnar inn í þessa umræðu. Glæpasagnahöfundur hrekkur skammt. Almenningur hefur áttað sig á innihaldsleysi orðaflaums og ósvífins hræðsluáróðurs. 

"Það, sem verður ekki viðurkennt í Sameinuðu arabísku furstadæmunum - vegna þess að það hefur aldrei verið viðurkennt á alþjóðlegum loftslagsráðstefnum - er hinn óþægilegi veruleiki, að þótt loftslagsbreytingar hafi raunverulegan kostnað í för með sér, þá hefur loftslagsstefnan það líka."   

Það hefur aldrei gagnrýnin og fræðileg umræða farið fram í miðlum fyrir almenning um raunverulegar afleiðingar af hækkandi styrk koltvíildis í andrúmslofti af mannavöldum, kostnaðinn af að stemma stigu við þessari losun, kostnaðinn af tiltækum mótvægisaðgerðum og kostnaðinn af aðgerðaleysi.  Það hefur bara verið hamrað á nauðsyn orkuskipta í samgöngum og iðnaði og landbúnaði og þá litið fram hjá því, að tæknin fyrir stórfelld orkuskipti er enn ekki fyrir hendi, enda fer notkun jarðefnaeldsneytis vaxandi víðast hvar í heiminum og toppinum á brennslu jarðefnaeldsneytis verður líklega ekki náð fyrr en á næsta áratugi.  Loftslagspostular hafa skotið sig í fótinn með árlegum dómsdagsspádómum, og er formaður Loftslagsráðs Íslands dæmi um slíkan hamfarapostula, sem hefur gert sig að ómerkingi.  Hver lofslagsráðstefna (COP) er sögð sú síðasta fyrir mannkynið til að bjarga sér.  Ef raunveruleg hætta væri á ferðum, hefði ekki þótt verjanlegt að setja þessum ráðstefnum algerlega ófaglega og óskilvirka umgjörð. 

"Loftslagsaðgerðasinnar, sem krefjast þess, að við hlustum á vísindin, hafa sjálfir stöðugt hundsað þessar rannsóknir og hvatt ríka leiðtoga heimsins  til að gefa sífellt meiri loftslagsslagorð.  Margir leiðtogar heimsins hafa jafnvel gengið svo langt að lofa núll-marki í kolefnislosun fyrir árið 2050. [Katrín Jakobsdóttir stökk snemma á þann vagn, en hún gösslast áfram án þess að kynna sér málin út í hörgul, þegar kemur að því, að skuldbinda Ísland og ríkiskassann, þótt enginn sé hún heimsleiðtoginn - innsk. BJo.]

Þrátt fyrir að þetta sé líklega dýrasta stefnan, sem leiðtogar heimsins hafa lofað, var hún sett fram án þess að gera nokkurt ritrýnt mat á heildarkostnaðinum.  Fyrr á þessu ári fjallaði sérútgáfa Climate Change Economics um fyrstu slíkar greiningar. 

Þetta undraverða verk hefur nánast hvergi verið kynnt af neinum stórum fréttamiðlum.  Það sýnir, að jafnvel með mjög rausnarlegum forsendum muni ávinningurinn af því að sækjast eftir hreinu núlli aðeins mjakast upp mjög hægt og rólega á öldinni.  Um miðja öld gæti ávinningurinn  - þ.e. kostnaður vegna loftslagsbreytinga, sem verður forðað - orðið um 1 TriUSD/ár.

En kostnaðurinn yrði miklu, miklu hærri.  Þrjú mismunandi líkön sýna sýna öll kostnað langt umfram ávinning hvert einasta ár alla 21. öldina og langt inn í þá næstu.  

Þetta hafa menn upp úr því að láta hjarðeðlið leiða sig í gönur.  Í upphafi skyldi endinn skoða.  Ef menn hefðu setzt niður um 1990 og gert kostnaðarútreikninga, eins og Climate Change Economics hefur nú birt, í stað þess að reka hræðsluáróður um óafturkræfa ofurhlýnun jarðar, þá hefði mátt frelsa mannkynið undan miklu fári falsspámanna og loddara. 

 "Alla öldina er ávinningurinn [árlega - innsk. BJo] 1,4 % af VLF, á meðan kostnaðurinn er að meðaltali 8,6 % af VLF.  Hver króna í kostnaði [við að ná 0 nettó losun CO2 - innsk. BJo] skilar kannski 16 aurum af lofslagsávinningi.  Ljóst er, að þetta er skelfilega illa farið með fé.

Það eina, sem getur komið í veg fyrir, að þessi leiðtogafundur verði endurtekning á 27 öðrum mistökum er, að stjórnmálamenn viðurkenni rauverulegan kostnað af hreinni núllstefnu og í stað þess að lofa meiri kolefnisskerðingu [að] heita því frekar að stórauka rannsóknir og þróun á grænni orku."

Varðandi hið síðast nefnda er brýnt að þróa raunverulega valkosti við jarðefnaeldsneytið, t.d. þóríum-kjarnorkuver, sem skrýtið er, að ekki skuli vera tekið að hilla í. Þess má geta, að þýzkir stjórnmálamenn ræða nú enduropnun úraníum-kjarnorkuvera í Þýzkalandi.  Ef Græningjar samþykkja það, hafa þeir snúizt í hring. 

Hræðsluáróður loftslagspostula er reistur á spá um þróun hitastigs á jörðunni.  Loftslagsfræðingurinn dr John Christy o.fl. hafa sýnt fram á með hitastigsmælingum gervihnatta og loftbelgja, sjá Earth and Space Science við The University of Alabama  á tímabilinu 1979-2014, að líkan IPCC er rangt, sem leiðir til allt of mikillar framreiknaðrar hlýnunar.  Villan er fólgin í endurgeislun frá jörðu og út í geiminn, sem í líkaninu er aðeins helmingur af raunverulegu hitatapi.   

 

                                   

 

                                                                                                      

  


Forræðishyggjan framkallar óhjákvæmilega skort

Kenningasmíði Karls Marx og Friedrichs Engels reyndust vera eintómir hugarórar, sem gátu ekki gengið upp í raunheimum og framkölluðu alls staðar, þar sem reynt var að koma kommúnísku þjóðskipulagi á, ómældar mannlegar þjáningar, kúgun, réttindaleysi almennings, spillt stjórnkerfi og dómskerfi vöruskort og  hungursneyð.

Alræmd er hungursneyðin í kornforðabúri Evrópu, Úkraínu 1931-1932, Holodomar, þegar alræðisherrann í Kreml, aðalritari sovézka kommúnistaflokksins, Georgíumaðurinn Stalín, lét flokkspótintáta flytja kornbirgðir Úkraínu til borga Rússlands og Síberíu, þar sem fólki hafði fjölgað mikið vegna iðnvæðingar Ráðstjórnarríkjanna samkvæmt áætlun allsráðandi ríkisvalds.  Fyrir vikið sultu Úkraínumenn heilu hungri, og allt að 5 milljónir manna dóu af næringarleysi.  Þetta var þjóðarmorð.  Flokkurinn ákvað að svelta Úkraínumenn til hlýðni. Framkoma rússneskra stjórnvalda gagnvart nágrannanum í vestri hefur löngum verið glæpsamleg. 

Útþynntar útgáfur af kommúnismanum, sósíalisminn og jafnaðarstefnan (sosialdemokratí) skapa líka skort.  Fylgifiskur hvers konar vinstri stefnu er skortur.  Í raforkumálum Íslands ríkir skortur, þótt landið bjóði upp á gnótt orku til að virkja. Hér er við lýði úrelt löggjöf Evrópusambandsins (ESB), s.k. Orkupakki 3, þótt Orkupakki 4 hafi fyrir löngu leyst hann af hólmi á orkumarkaði ESB. Þrátt fyrir OP#3 hefur Landsreglarinn (Orkumálastjóri) hvatt orkuráðherrann til að leggja fram frumvarp á Alþingi, sem augljóslega brýtur í bága við frjálst markaðskerfi raforku, sem er hornsteinn OP#3, því að einum hópi er samkvæmt frumvarpinu veittur forgangur að forgangsorku, þ.e. þeim, sem skipta við almenningsveiturnar og hafa ekki gert langtímasamning við orkubirgi.  Eina ráðið til að koma í veg fyrir skömmtunarástand, sem ekki stafar af óviðráðanlegum öflum ("force majeur"), er að virkja, en á það mega vinstri grænir ekki heyra minnzt.  Samt þeytist forkólfur þeirra alla leið til Arabíuskagans til að predika yfir heimsbyggðinni nauðsyn þess að hætta að nota jarðefnaeldsneyti.  Það dettur þó engum heilvita manni í hug að gera án þess, að aðrir orkugjafar komi í staðinn.

  Landsvirkjun hefur sýnt vilja til að virkja og verkhannað Hvammsvirkjun, en í tvígang hefur Orkustofnun verið gerð afturreka með leyfisveitingu um þetta til Landsvirkjunar.  Var a.m.k. í fyrra skiptið vísað til vatnalöggjafar ESB, sem er út í hött í tilviki Hvammsvirkjunar í Þjórsá. 

Orkuráðherrann vælir og leggur svo fram ofangreint frumvarp, sem er örverpi.  Hann á í staðinn að stokka upp spilin og einfalda leið virkjunarfyrirtækjanna að framkvæmdaleyfi, en láta lagalega hæpinn bútasaum Orkustofnunar lönd og leið. Sérvitringar, sérhagsmunaaðilar og landeyður á borð við Landvernd, sem er útibú frá Vinstri hreyfingunni grænu framboði, VG, mega ekki lengur fá að vaða uppi og ógna almannaheill. Raforkukerfið er orðið ofþanið yfir vetrartímann og þar með komin upp hætta á kerfishruni, af því að vélar (rafala) og öflugar flutningslínur vantar.  Orkumálastjóri og orkuráðherra eru með óleyfilegum aðferðum að forða því, að hér myndist suður-afríkanskt ástand í raforkumálum.  Fyrir 20 árum var gnótt raforku í Suður-Afríku, og landið flutti út raforku til nágrannaríkjanna.  Nú er rafmagn skammtað þar og straumlaust í hverri viku einhvers staðar í landinu vegna ónógs framboðs. 

Úr því sem komið er verður að setja sérlög um Hvammsvirkjun og Suðurnesjalínu 2 til að forða landsmönnum frá hallæri í boði vinstri aflanna.  

Annað skortsvið, sem hér verður gert að umræðuefni, eru lóðir undir íbúðarhúsnæði.  Vinstri meirihlutanum í Reykjavík hefur tekizt að braskvæða lóðaframboðið, minnka það langt niður fyrir árlega þörf og skekkja þar með húsnæðismarkaðinn á svæði, þar sem a.m.k. 70 % landsmanna búa.  Morgunblaðið gerði þessa skortstefnu vinstri meirihlutans í borgarstjórn að umræðuefni í forystugrein blaðsins á fullveldisdeginum 2023:

"Lóðabrask í boði borgar"

Þar stóð m.a. þetta:

"Í fróðlegu viðtali Morgunblaðsins við Kristin Þór Geirsson, framkvæmdastjóra Snorrahúsa, sem m.a. hefur byggt mikið í Úlfarsárdal, kemur fram, að byggðin þar hafi átt að vera 6 sinnum meiri en raun varð á undir núverandi meirihluta í borginni.  "Samkvæmt eldra skipulagi áttu þar að vera 6 skólahverfi og 25-30 þúsund manna byggð.  Núverandi meirihluti setti það skipulag hins vegar til hliðar.  Þar er land, sem Reykjavíkurborg getur auðveldlega úthlutað, og ef litið er á land sem hilluvöru í stað þess að reka þessa gróðastefnu, er þar mikið framboð af lóðum.  Þetta átti að vera risahverfi.  Hjálmar [Sveinsson, borgarfulltrúi Sf] hefur talað fjálglega um það. Ég varð vitni að þessu á sínum tíma.  Hann talaði um hverfið, eins og það væri úti á landi.  Þetta væri svo langt í burtu, að það væri ekki hægt að kosta almenningssamgöngur þangað upp eftir", segir Kristinn."  

Vinstra fólkið í borgarstjórn mun ekki láta af trú sinni á þéttingarstefnu sína, þótt hún hafi gengið sér til húðar og hafi verið sérvizkan ein frá upphafi, eins og Hjálmar & Co. hafa rekið hana.  Hún þrýstir upp húsnæðisverði og skapar húsnæðisskort, sem magnar verðbólguna.  Hún gengur þess vegna beint gegn hagsmunum launamanna og alls almennings.  Fólk verður að átta sig á því, að þessi sérhagsmunastefna er runnin undan rifjum Samfylkingarinnar, sem nú fer með himinskautum í skoðanakönnunum.  Sú fylgisaukning er áreiðanlega ekki á eigin verðleikum, heldur vegna óánægju með aðra.  Að kjósa yfir sig skortstefnu á öllum sviðum væri ekki reist á upplýstri ákvörðun, heldur upplýsingaóreiðu.

"Það á við flestar af lóðunum, sem eru byggingarhæfar, að það tekur líklega 3 ár að fara í gegnum skipulagsferlið, þótt búið sé að deiliskipuleggja lóðina.  Þá á eftir að koma byggingarhæfum teikningum í gegnum skipulagið, sem er með ólíkindum erfitt.  Ég fæ ekki séð, að með þéttingarstefnu geti lóðir nokkurn tímann orðið hilluvara eða tryggt nægt framboð lóða", segir Kristinn."

Stjórnkerfi Reykjavíkur í höndum vinstra fólksins er ónýtt.  Það er ónothæft, af því að það er illa samhæft og þungt í vöfum.  Svona stjórnkerfi, sem vinnur gegn hagsmunum umbjóðendanna, er ungað út af vinstri pólitíkusum til að raða eigin gæðingum á jötuna.  Það er óskiljanlegt, hvernig það getur tekið 3 ár fyrir útlitsteikningu að fara um skipulagsfrumskóginn og síðan ótal snúninga umsækjanda að fá verkhönnun samþykkta af borginni.  Þarna er búið að búa til kerfi fyrir sjálft sig, en viðskiptavinurinn verður hornreka.

Allt er þetta dæmigert fyrir kommúnisma og útþynningar af honum. Stjórnkerfið þarf að stokka upp, straumlínulaga það, kasta þéttingarstefnunni á haugana og gera lóðir að hilluvöru, eins og stjórnkerfi borgarinnar gerði á dögum Davíðs Oddssonar sem borgarstjóra. 

"Afleiðingin af skortstefnu borgarinnar í lóðamálum er ekki aðeins, að verktakar eigi erfitt með að fá lóðir til að byggja á.  Vandinn er, að fólk, ekki sízt ungt fólk, fær ekki íbúðir á viðráðanlegu verði til að búa í, og það er vitaskuld stóri vandinn.  Annar stór vandi er, að þessi lóðaskortur ýtir með mjög hækkandi fasteignaverði undir þá verðbólguþróun, sem við höfum búið við um allt of langt skeið, nú síðast með verðbólgumælingu upp á 8,0 %.  

Þegar horft er á breytingu á milli mánaða, þá hækkar vísitala neyzluverðs um 0,38 %, en án húsnæðis lækkar vísitalan lítillega [sbr alla afsláttardagana í nóvember - innsk. BJo].  Það þýðir, að verðþróun húsnæðis er alfarið skýringin á hækkuninni í nóvembermælingunni [2023], sem verður svo aftur til þess að ýta undir hærri stýrivexti, hærri verðbætur og þann kostnað, sem heimili og fyrirtæki bera af þeim sökum [auk hækkaðra fasteignagjalda að óbreyttum reiknistuðlum - innsk. BJo]."

Afrekaskrá Samfylkingarinnar er með þvílíkum endemum, að það skyti stórlega skökku við, ef kjósendur hyggjast nú reisa þennan útþynnta kommúnistaflokk úr öskustó, þar sem hann hafnaði eftir að hafa veitt "fyrstu tæru vinstri stjórninni" forystu 2009-2013. Síðan hefur ekkert breytzt hjá þessum flokki annað en að fá nýjan formann sendan úr bankakerfinu (Kviku), sem ber kápuna þokkalega á báðum öxlum. 

Í lokin sagði í téðri forystugrein:

 "Nauðsynlegt er að brjótast út úr þessum vanda.  Borgaryfirvöld mega ekki komast upp með að valda ekki aðeins lóðaskorti, heldur beinlínis efnahagsvanda, sem þegar hefur kostað þjóðina mikið.  Það stefnir í vaxandi kostnað og með kjarasamninga fram undan, háa verðbólgu og eftir því háa vexti, er ekki hægt að bíða lengur.  Brjóta verður nýtt land undir byggð, og ábyrg stjórnvöld hljóta að boða slíkar aðgerðir án tafar."

Það er tómt mál að tala um, að vinstri meirihlutinn í borgarstjórn láti af skortstefnu sinni.  Þá er eina úrræðið, að innviðaráðherra beiti sér fyrir lagasetningu á Alþingi um að þegar í stað skuli brjóta land undir byggð til að afnema lóðaskortinn á SV-landi.  Það mun formaður Framsóknarflokksins ekki gera, því að nýjasta strengjabrúða Samfylkingarinnar í borgarstjórn kemur úr Framsóknarflokknum og á að heita næsti borgarstjóri Reykjavíkur.  Allar bjargir eru bannaðar, á meðan meirihluti kjósenda lætur fagurgala falsspámanna vinstrisins villa sér sýn.  

 

  


Eftirlitsstofnanir leika lausum hala

Stjórnendur eftirlitsstofnana eru margir hverjir með ranghugmyndir um hlutverk stofnana sinna í samfélaginu.  Þeir virðast ekki telja, að stofnunum sínum sé skylt að hlýða lögum frá Alþingi, nema þeim bjóði svo við að horfa sjálfum.  Þeir láta starfsmenn sína fínkemba umsóknir með mikilli tímanotkun, en sáralitlum afrakstri, enda standa starfsmenn eftirlitsstofnananna höfundum umsóknanna iðulega talsvert að baki sem sérfræðingar í viðkomandi grein, sem er skiljanlegt.  Þess vegna á rýnirinn að einbeita sér að aðalatriðum, innbyrðis samræmi og samræmi við lög og reglugerðir. Stofnanir mega ekki undir neinum kringumstæðum draga afgreiðsluna fram yfir lögboðinn frest.  Yfirmaður stofnunarinnar á að ganga úr skugga um það í upphafi verks, að starfsmenn anni verkefninu innan setts tímaramma. Að öðrum kosti þarf að leigja inn sérfræðinga til aðstoðar við verkið.  Með einum eða öðrum hætti verður stofnunin að afgreiða málið innan tímamarka, enda skal það vera fest í starfslýsingu forstjórans og hafa neikvæð áhrif á árslaun hans, ef út af bregður. 

 

Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við íslenzka eftirlitsiðnaðinn, sem með óheyrilegu hangsi hefur haft veruleg áhrif á viðskiptaáætlanir fyrirtækisins.  Tafir af völdum eftirlitsstofnana eru óheyrilegar, hafa bakað mikið tekjutap og aukakostnað, sem gera ætti stjórnir viðkomandi stofnana ábyrgar fyrir.  Svona stór frávik, eins og Halldór lýsir í viðtalinu við Kristján Jónsson, má alls ekki líða.  Losarabragurinn hjá ríkisvaldinu er til skammar.  

Fyrirsögn fréttarinnar var:

"Starfsemin gæti hafist 2027 eða ´28"

Þar gat m.a. að líta þetta:

"Framkvæmdirnar eru mun seinna á ferðinni en forráðamenn fyrirtækisins höfðu vonazt eftir, og Halldór er óhress með, hversu lengi mál, eins og leyfismál, eru til meðferðar í stjórnsýslunni.

"Þetta hefur tekið miklu lengri tíma en nokkurn tíma var reiknað með.  Þetta átti að vera tilbúið í Súðavík árið 2018 og hefði getað verið, ef opinberar stofnanir hefðu farið eftir laganna bókstaf.  Þegar pressan var farin að aukast á okkur, þá fórum við í að stækka á Bíldudal, enda þurftum við að sinna mörkuðunum", segir Halldór, en ákveðið var að stækka verksmiðjuna á Bíldudal í Arnarfirði, þegar tafir urðu á uppbyggingu í Súðavík."

Hér er um að ræða eins áratugs seinkun á fremur litlu og alveg sjálfsögðu verkefni á Súðavík, þ.e.a.s. verksmiðju, sem nýtir hráefni úr Ísafjarðardjúpi og vinnur úr því fæðubótarefni til útflutnings. 

"Frá 2007 hefur verið rekin verksmiðja á Bíldudal, og hún er nærri hámarksafköstum.  Við höfum alltaf hugsað okkur, að verksmiðja í Súðavík gæti komið inn sem viðbót, en það tók svo rosalega langan tíma fyrir opinberar stofnanir að afgreiða leyfismál, umhverfismál og slíkt.  Við urðum því að fara í stækkun á Bíldudal, eins og við gerðum.  Hægði það á öllu varðandi uppbyggingu í Súðavík, en vonandi getum við byrjað að byggja þar eftir 2-3 ár. Eins og staðan er núna, reiknum við með að vera með verksmiðjur á báðum stöðum.  Við munum fara rólega af stað í Súðavík, en auðvitað veltur þetta einnig á eftirspurninni", segir Halldór, en mesta samkeppnin kemur frá Brasilíu.  Íslenska kalkþörungafélagið [ÍKF] er með starfsleyfi í Arnarfirði til 01.12.2033, en með leyfi í Ísafjarðardjúpi til 2051."

Með sleifarlagi sínu kollvörpuðu íslenzkar eftirlitsstofnanir viðskiptaáætlunum þessa félags (ÍKF).  Það er fullkomlega óboðleg framkoma hins opinbera.  Gallinn er sá, að engar refsingar virðast vera við þessum lögbrotum (að hundsa afgreiðslufresti).  Þá ættu viðkomandi ráðuneyti að koma til skjalanna og að láta hina ábyrgu sæta ábyrgð.  Hvað hafa stjórnir og forstjórar þessara stofnana gert til að kippa þessum málum í liðinn ?  Að bera við manneklu er ekki gjaldgengt.  Hverri stofnun ber að sníða sér stakk eftir vexti og halda sig innan laganna, þ.m.t. fjárlaganna. Annað verður að skrifa á reikning æðstu stjórnenda, en þeim virðist gæðastjórnun vera ærið framandi hugtak mörgum hverjum.  

 

                                                                                                                                                                                      


Einelti gegn völdum atvinnugreinum

Sú var tíðin, að vinstri sinnaðar listaspírur og nokkrir fleiri, aðallega á opinberri jötu, lögðu ISAL í Straumsvík í einelti og hrakyrtu fyrirtækið fyrir að vera til.  Sannleikurinn var sá, að sósíalistar óttuðust, að fyrirtæki í erlendri eign yrði öðrum góð fyrirmynd um rekstrarhætti og góðan viðurgjörning við starfsmenn sína og óttuðust líka, að styrkur atvinnurekendasamtakanna ykist mjög, ef þetta stórfyrirtæki gengi í þau.   

Það varð einmitt reyndin, að þetta brautryðjandi fyrirtæki braut blað á mörgum sviðum tækni og stjórnunar.  Gerður var einn sameiginlegur kjarasamningur við alla starfsmenn, sem þessir sömu starfsmenn greiddu atkvæði um í einu lagi. Hver starfsmannahópur gat sagt sig frá samkomulaginu, en meirihlutinn réð gildistöku. Þetta leiddi til góðs vinnufriðar í fyrirtækinu og hærri launa en þekktust annars staðar á landinu hjá sömu stéttum. Málstaður sósíalistanna að sverta þetta fyrirtæki var reistur á ótta við hið óþekkta, fordómum og skipun frá Brésneff, þáverandi Kremlarbónda, um að berjast gegn erlendum fjárfestingum í landinu.

Nú er öldin önnur.  ISAL og önnur stórfyrirtæki í erlendri eigu gengin í Samtök atvinnurekenda og aðeins hjáróma raddir úr útibúi VG, Landvernd, reka áróður fyrir því að loka álverunum, svo glórulaus sem sá áróður er. 

Nú beinist meginandróðurinn gegn sjávarútveginum, þótt hann virðist sá bezt heppnaði í heimi hér, og þá sérstaklega að sjókvíaeldinu.  Þar er fyrirbærið smjörklípuaðferðin á ferðinni, en veiðiréttarhafar í ám og vötnum Íslands standa frammi fyrir minnkun laxfiskastofnanna, en mega ekki heyra minnzt á ofveiði sem skýringu, þótt hún blasi við um laxastofnana íslenzku. 

Það þarf að setja nýtingu þessara stofna undir sömu vísindalegu ráðgjöf og nytjafiskana í landhelginni og veiðarnar undir eftirlit Fiskistofu. 

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, var á Sjónarhóli Morgunblaðsins 15. nóvember 2023 með ágæta grein:

 "Síðustu ár er eins og ákveðinn hluti af þjóðinni hafi tapað tengslum við það, sem skapar okkur þau lífsskilyrði, sem við búum við.  Það er engu líkara en sumir hafi gleymt því, að við þurfum að skapa og framleiða til að geta viðhaldið því lífi, sem okkur finnst [vera] orðið sjálfsagt. Á meðan fólki hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu, megum við ekki gleyma því, hve mikilvæg landsbyggðin er, sérstaklega þegar kemur að grunnatvinnuvegum okkar. 

Grindavík er dæmi um bæjarfélag, sem hefur í [áranna rás] lagt feikilega mikið til íslenzks samfélags.  Og gerir enn.  Í bænum er hjarta sjávarútvegs á suðvesturhorni landsins, og þar hófst landeldið og hefur verið í örum vexti. 

Þar hafa líka nýsköpunar- og líftæknifyrirtæki komið sér fyrir og skapað drjúgar tekjur fyrir íslenzka þjóðarbúið.  Það er ekki víst, að almenningur geri sér grein fyrir því, hversu mikið högg það væri fyrir íslenzkan efnahag að missa það, sem Grindavík hefur gefið íslenzku samfélagi."   

Þetta er allt hárrétt hjá Heiðrúnu Lind.  Sá hópur ungs fólks stækkar stöðugt, sem aldrei hefur tekið þátt í neinni verðmætasköpun úr skauti náttúrunnar og aldrei ýjað heilli hugsun að samhengi verðmætasköpunar (gjaldeyrisöflunar) og velmegunar í landinu. Þess vegna hefur afturhaldið í landinu komizt upp með að girða fyrir nýjar umhverfisvænar virkjanir af þokkalegri stærð síðan Þeistareykjavirkjun var tekin í brúk.  Sá óskiljanlegi doði stjórnvalda að láta þessa hörmung viðgangast nú á tímum orkuskipta hefur leitt af sér mikla brennslu í olíukötlum, og þann 28.11.2023 bárust af því fréttir, að hið glæsilega fyrirtæki á Höfn í Hornafirði (þar sem landsins beztu humarréttir fást), sem sett hefur upp rafmagnskatla fyrir sína vinnslu, yrði nú undir skóslit og beinbrot að útvega sér olíukatla, eftir að Landsvirkjun tilkynnti daginn áður um afnám ótryggðrar orku til fyrirtækisins og annarra svipaðra og að engin ný forgangsorka væri föl.  Þessari stöðu hefur verið varað við, og hún mun koma upp alla vetur, þar til virkjun, 50 MW eða stærri, bætist við landskerfið, og ekkert slíkt verkefni er í gangi.  Það þýðir, að í fyrsta lagi veturinn 2028 mun ekki þurfa að brenna gjaldeyri til að framleiða hita og rafmagn.  Er þessi skammarlega staða ekki einnar messu virði á Alþingi ?  Það er ástæða til að grípa til örþrifaráða með lagasetningu um virkjanir til að forða þjóðinni sem fyrst frá þessari hneisu.  Útibú VG mun þá tryllast og móðurfélagið ekki styðja málið, en kannski skila auðu. 

Nú er bjartara yfir Grindavík en verið hefur frá ósköpunum 10.11.2023.  Eftir því sem athugunum á innviðunum vindur fram, kemur góð þolni þeirra gagnvart jarðhræringum betur í ljós.  Atvinnustarfsemi hófst að nýju 28.11.2023, þar sem innviðir leyfa, og ætlunin er í kjölfarið að hefja landanir í Grindavíkurhöfn. Þetta eru ljómandi góð tíðindi. Jarðeðlisfræðiprófessorinn Tumi Guðmundsson, sem kjaftar ekki frá sér allt vit, hefur varað við að flytja of snemma inn í ósködduð hús, og það er skiljanlegt m.v. kvikuinnstreymi norðan Grindavíkur, á meðan varnargarðarnir eru ekki tilbúnir.  Hins vegar er það mikið fagnaðarefni og andle upplyfting fyrir íbúa, að líf færist í bæinn með verðmætasköpun að nýju a.m.k. hluta úr sólarhringnum.    


Forsjálni Orkustofnunar

Það er átakanlegt að horfa upp á ríkisapparatið Orkustofnun í höndum Höllu Hrundar Logadóttur setja saman áætlun um neyðarviðbrögð með Almannavörnum, HS Orku, HS Veitum og ráðgjafarverkfræðistofu nú í miðjum jarðhræringum, sem leiddu til rýmingar Grindavíkur.  Hvers vegna í ósköpunum var ekki hafizt handa um þetta lífsnauðsynlega verkefni strax og jarðvísindamenn kváðu upp úr með, að eldsumbrotahrina væri hafin á Reykjanesi, og myndi hún standa yfir um aldaraðir, ef dám væri dregið af sögunni.  Þetta er ömurlegt dæmi um ríkjandi sofandahátt hins opinbera.  Það sefur yfirleitt á verðinum, og þar er lítið frumkvæði að finna. 

Kristján Jónsson birti Baksviðsviðtal við Höllu Hrund, Orkumálastjóra, í Morgunblaðinu 21. nóvember 2023:

""Óhjákvæmilega myndi slík niðurstaða [Svartsengisvirkjun óvirk] setja meiri þrýsting á raforkukerfið í heild sinni.  Núna liggur frumvarp fyrir Alþingi, sem snýr að raforkuöryggi almennings og er í meðferð Atvinnuveganefndar.

Stuðla á að því, að almenningur lendi ekki undir í samkeppni um raforku, en um er að ræða breytingartillögu, þar sem frumvarpið óbreytt tryggir almenningi ekki slíkan forgang.  Hættan er sú, að almenningur lendi undir í samkeppni um raforku, og þá er ég ekki að tala um vegna náttúruhamfara, heldur bara við aðstæður, sem við köllum venjulegar.  Samkeppni um raforku er mjög mikil, enda vilja margir kaupa raforku á Íslandi. Ef virkjunin í Svartsengi verður óstarfhæf í ofanálag, þá er enn mikilvægara, að breytingarnar á frumvarpinu nái fram að ganga til að styrkja stöðu almennings á öllu landinu varðandi aðgengi að raforku.  Við leggjum því áherzlu á, að breytingarnar nái í gegn og að frumvarpið verði afgreitt fyrir jól.""

 Frumvarp orkuráðherra í sinni núverandi mynd er runnið undan rifjum Orkustofnunar, enda er það vanhugsað og reist á vanþekkingu. Skömmtun rafmagns allt frá árinu 1969 hefur verið framkvæmd þannig hérlendis, að fyrst hefur s.k. ótryggð raforka, áður afgangsorka, verið tekin af fyrirtækjum með slíka samninga við orkubirgjana. Síðan hefur skömmtun forgangsorku verið látin bitna hlutfallslega jafnt á öllum, og um það eru ákvæði í langtíma raforkusamningum. Þessu vill Orkumálastjóri umturna og hefur talið orkuráðherrann á það, en það er ekki hægt með lagasetningu, því að það er bundið í samningum, þ.á.m. í langtímasamningum við stóriðjufyrirtækin.  Hlýtur hvert barn að sjá, að slík lagasetning felur í sér stórfellt brot á samningum ríkisins við m.a. erlend stórfyrirtæki, sem getur skapað ríkinu stórfellda skaðabótaskyldu og fyrirgert trausti á milli samningsaðila. Ætlar orkuráðherrann að láta draga sig á asnaeyrunum út í þetta Höllufen ?

Hin hlið þessa  máls snýr að þeim uppboðsmarkaði raforku, sem dótturfélag Landsnets undirbýr nú að innleiða á Íslandi samkvæmt Orkupakka #3 frá Evrópusambandinu.  Að undanskilja einn hóp viðskiptavina með lagaboði frá þessum markaði gengur ekki lagalega og er í andstöðu við Orkupakka #3, enda tíðkast slíkt hvergi annars staðar innan EES. Það sætir furðu, að Orkumálastjóri og Landsreglari ACER - Orkustofnunar ESB, sem á Íslandi er sama persónan, láti sér detta í hug, að þessi hugmynd gangi upp.  Miklu nær væri fyrir Landsreglarann (National Regulator) að taka það upp á vettvangi ACER, þar sem hún hefur seturétt án atkvæðisréttar með öðrum Landsreglurum EES, að vegna smæðar og fárra birgja á íslenzka orkumarkaðinum séu fleiri gallar en kostir við að innleiða uppboðsmarkað fyrir raforku á Íslandi og þess vegna leggi hún til, að á meðan Ísland er ótengt raforkukerfi EES þá þrýsti ESB ekki á um að koma þessum markaði á þar. 

Þetta væri ólíkt affarasælli stefnumörkun hérlendis en sú vegferð, sem Orkumálastjóri og orkuráðherra eru á núna með bútasaumi úr Orkustofnun til Alþingis. 

""Æðar raforkukerfisins eru ekki nógu sverar til að geta pumpað rafmagni af fullum krafti til að hita öll hús á Reykjanesi.""

Þetta er afleitt orðalag frá tæknilegu sjónarmiði, því að leiðarinn knýr ekki orkuflutninginn; hann er bara farvegur raforkunnar.  (Ef höfundur man líffræðina rétt, hreyfast hins vegar veggir slagæðanna til að auðvelda blóðstreymið.) Það er auðvitað í virkjununum, sem rafaflið verður til, og þær eru um þessar mundir svo mikið lestaðar, að ekki yrði hægt að bæta því álagi við, sem nemur rafhitunarþörf 10 þús. íbúða, jafnvel þótt Svartsengisvirkjunar nyti að einhverju leyti við.  Hvers vegna nefnir Orkumálastjóri þetta ekki ?

""Því sverari sem æðarnar eru [og hærri spenna á leiðurunum - innsk. BJo], [þeim mun] betur geta þær sinnt þörfum á ólíkum svæðum.  Dreifikerfið ber ekki, að allir íbúar færi sig úr hitaveitu yfir í að fullhita híbýli með rafhitun.  Dreifikerfið er ekki með nógu sverar æðar til að anna slíku [hústöflurnar eru ekki gerðar fyrir slíka álagsaukningu - innsk. BJo], enda kerfið ekki hannað til að fara yfir í rafhitun.  [Það er þjóðhagslegur sparnaður af hitaveitum - innsk. BJo.]  Þess vegna höfum við unnið markvisst með fyrirtækjunum á svæðinu, HS Orku, HS Veitum og Verkís og einnig Almannavörnum að tillögum að neyðarviðbrögðum.  [Hér er um að ræða skjal, sem ætti fyrir löngu að vera tilbúið og farið að vinna eftir.  Í stað þess að viðurkenna framkvæmdaleysi Orkustofnunar reynir Orkumálastjóri að skreyta sig með annarra fjöðrum - innsk. BJo.]  

Þau viðbrögð fela í sér aðgengi að hitagjöfum, eins og litlum rafmagnsblásurum, sem dreifikerfið þolir án þess að slá út, og geta þá haldið húsum fyrir ofan frostmark til að koma í veg fyrir skemmdir.  Í tillögunum er hvatt til þess, að aðgengi að búnaði sé tryggt bæði fyrir rafhitun og einnig fyrir s.k. neyðarhitaveitu.  Þar er átt við varmaskipta annars vegar, sem eru eins konar millistykki, sem tekur einhverjar vikur að smíða, og hins vegar, að hitagjafar, eins og olíukatlar, séu fyrir hendi.  Hluti þess búnaðar er til í landinu, eins og hjá Landsvirkjun og RARIK, en annað væri hægt að nálgast í gegnum leigu í neyð.  Við leggjum áherzlu á að tryggja aðgengi að búnaði strax, en um leið þarf að horfa á frekari nýtingu jarðhita á fleiri stöðum á Reykjanesi." 

Orðasúpa af þessu tagi er svo almenns eðlis og ómagnbundin, að varla getur talizt frambærileg ráðgjöf í neyð.  Mega íbúarnir ekki setja upp hitöld í íbúðum sínum, sem raftafla íbúðarinnar þolir ?  Allt þetta tal um getuleysi dreifikerfisins hjálpar íbúunum ekki neitt. 

Hvers konar varmaskipta á Orkumálastjóri við ?  Hver er varmagjafinn, og hver er varmaþeginn, og hvaða stærð er á þessum gripum ? 

Hvaða olíukatla í eigu Landsvirkjunar á Orkumálastjóri við. Landsvirkjun hefur svo lítinn áhuga á varaafli nú orðið, að hún lét rífa niður 2x35 MW eldsneytisknúna neyðarrafstöð í Straumsvík um 2015, og engum gagnast nú. Líklegt er, að grípa þurfi til olíukatla RARIK og OV, þar sem þeir eru staðsettir, ef Svartsengisvirkjun verður óvirk, svo að þetta er alls ekki tiltækur búnaður.  Orðagjálfur Orkumálastjóra um neyðarviðbúnað á Suðurnesjum sýnir aðeins, að ekkert bitastætt var til hjá Orkustofnun til að grípa til, ef í neyðirnar rekur í Svartsengi. Örlagadaginn 10.11.2023 var rokið upp til handa og fóta og gripið í tómt.  Nú er reynt að breiða yfir það.   

 

 


Meinsemdir opinbers rekstrar

Opinber starfsemi virðist hafa tilhneigingu til að fara úr böndunum, og hún ber þess víða merki í samfélaginu, að um hana gildi Lögmál Parkinsons, sem segir, að viðfangsefni aukist að umfangi í sama mæli og tíminn, sem ætlaður er til að leysa þau af hendi.  Þessa óstjórn má greina víða, þar sem opinberar stofnanir eiga í samskiptum við einkarekið atvinnulíf.  Þetta á t.d. við um stofnanir, sem sjá um leyfisveitingar og eftirlit með atvinnulífinu.  Þar virðist lítið fara fyrir tímaskyni starfsmanna, þótt lög kveði á um annað. 

Kostnaður skattborgaranna af hinu opinbera er of mikill og óþarflega mikill.  Einkaaðilar geta leyst betur af hendi margt það, sem hið opinbera er að vasast í.  Nú er ljóst, að eitt öflugasta útgerðarpláss landsins hefur orðið fyrir alvarlegu tjóni af völdum náttúruhamfara.  Við þessar aðstæður er það siðferðisleg skylda samfélagsins að hlaupa undir bagga með Grindvíkingum, kaupa af þeim verðlausar eignir, e.t.v. á brunabótamatsverði, ef Náttúruhamfaratryggingar bæta aðeins sýnilegt tjón.  Þetta er þess vegna tjón alls samfélagsins, sem væntanlega verður fjármagnað með blöndu af skattahækkunum og lántökum ríkissjóðs, en til viðbótar þarf að leita allra leiða til sparnaðar í opinberum rekstri og koma böndum á hömlulausan vöxt. Þegar í stað á að skrúfa fyrir allar fjárveitingar ríkisins til vanhugsaðra gæluverkefna á borð við borgarlínu og Hvassahraunsflugvallar, sem bæði eru eftirlæti Samfylkingar.  Þá er rétt að hætta akstri strætisvagna hringinn í kringum landið.  Önnur fyrirtæki sjá um rekstur langferðabifreiða. 

Örlagadaginn 10. nóvember 2023 birti Morgunblaðið  viðtal við Gunnar Úlfarsson, hagfræðing Viðskiptaráðs.  Þar er umræðuefnið Stuðningsstuðull Viðskiptaráðs Íslands.  Hann sýnir, hversu margir einstaklingar njóta opinbers fjárhagslegs stuðnings eða fá millifærslur reiknað á hvern vinnandi einstakling á almenna vinnumarkaðinum. Hann gefur góða mynd af byrði hins opinbera fyrir verðmætasköpunina. Þessi stuðull var orðinn ískyggilega hár árið 2022 eða 1,3. Þetta merkir t.d., að fyrir hverja 10, sem störfuðu í einkageiranum, voru 13, sem gerðu það ekki, og eru þó þeir, sem störfuðu í sjálfstæðum opinberum fyrirtækjum, t.d. í Landsvirkjun eða Landsbankanum, taldir til einkageirans.  Þessi hái stuðull er sjúkdómseinkenni á íslenzku hagkerfi. 

""Að mati Viðskiptaráðs ætti að vera keppikefli stjórnvalda að ná stuðlinum enn frekar niður [eftir Kófið-innsk. BJo], enda er einkageirinn drifkraftur verðmætasköpunar og þar með bættra lífskjara.""   

Með öldrun þjóðarinnar hækkar stuðullinn, nema mótvægisaðgerðum sé beitt, og þar þarf að berjast við vinstri græna, sem reka ósjálfbæra og verðbólguhvetjandi efnahagsstefnu. Með þá við stýrið verður torsótt að skapa heilbrigt jafnvægi í hagkerfinu, sem skapar aðstæður fyrir vaxtalækkun, enda mátti skilja Peningastefnunefnd Seðlabankans svo 22.11.2023, að hún hefði hækkað stýrivexti bankans þá, ef hinir ófyrirséðu atburðir 10.11.2023 í Grindavík, sem leiddu til allsherjar rýmingar bæjarins, hefðu ekki orðið.   Spennan á húsnæðismarkaði, sem Samfylkingin ber töluverða ábyrgð á vegna lóðaskortsstefnu og þéttingarstefnu sinnar í höfuðborginni, vex í kjölfar Grindavíkurhörmunganna, þar sem 1200 íbúðir hverfa af markaðinum, a.m.k. um sinn.  Vextir í hæstu hæðum eru líka teknir að hamlega byggingarstarfsemi.  Þetta ástand kallast vítahringur.

Starfsmenn hins opinbera eru í 28 % af heildarstörfum á vinnumarkaði.  Sjúklingum fjölgar og öryrkjum fjölgar miklu örar en á hinum Norðurlöndunum.  Þeim hefur fjölgað um 30 % frá 2012 á Íslandi, um 15 % í Noregi, fækkað um 16 % í Danmörku og 23 % í Finnlandi og 30 % í Svíþjóð.  Hvað er það við lífernið hér, sem fjölgar öryrkjum svona ótæpilega ? Þáttur í sparnaðarviðleitni er að rannsaka það.  Er VG á móti því ?

""Í fyrra [2022] fjölgaði starfandi í einkageiranum um 7 %, en starfandi hjá hinu opinbera fjölgaði um 6,5 %.  Þá fækkaði atvinnulausum um 35 %, og dróst fjöldi utan vinnumarkaðar saman um 1 %", segir Gunnar og bætir við, að hlutfall opinberra starfsmanna sé enn fremur hátt, en á meðan starfandi fjölgaði um 6 % á almennum vinnumarkaði, fjölgaði stöðugildum hjá hinu opinbera um 15 % á árunum 2019-2022 [Kófið-innsk. BJo].

""Fjöldi starfandi hefur aukizt mikið í opinberri stjórnsýslu, en það vekur athygli, að sú þróun endurspeglist ekki í aukinni skilvirkni hins opinbera .  Lögbundnir tímafrestir leyfisveitinga standast ekki, reglubyrði mælist há, og skilvirkni hins opinbera er lág í alþjóðlegum samanburði."

Af þessu má ráða, að Parkinson gamli grasseri hjá hinu opinbera, og stjórnmálamenn þyrftu að láta fara fram faglega rýni á störfum, þar sem þensla í starfsmannahaldi hefur orðið og láti fara fram hagkvæmnimat á úthýsingu á starfsemi.  Virðingarleysi fyrir lögboðnum tímafrestum er plága fyrir þá, sem þurfa að sækja til opinberra stofnana með umsóknir, t.d. um leyfisveitingar.  Þetta sýnir virðingarleysi gagnvart viðskiptavinum stofnananna og embættishroka.

"Gunnar segir, að miklar áhyggjur vakni, ef þróun á fjölda þeirra, sem þiggja örorkulífeyri, er sett í alþjóðlegt samhengi, þar sem á sama tíma og kerfið hér á landi verður dýrara og örorkulífeyrisþegum fjölgar, hefur þeim fækkað á [hinum] Norðurlöndunum um 2 % að jafnaði árlega og útgjöldin til kerfanna dregizt saman um 0,4 % að raunvirði.  Á sama tíma sé staðan sú á Íslandi, að fólki, sem fær örorkulífeyri, hafi fjölgað um tæp 3 %/ár árin 2012-2020, en útgjöldin hafi vaxið mun hraðar eða um 6 %/ár að raunvirði. 

Gunnar bendir jafnframt á, að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hafi lengi bent á, að ekki aðeins sé hægt að ná fram hagræðingu í tilfærslukerfum, og þ.á.m. í örorkukerfinu, heldur sé það einnig nauðsynlegt. 

"Helztu tillögurnar snúa að því, að kerfin [verði] endurskipulögð og að aukin áherzla [verði] lögð á stuðning til aukinnar virkni, en einnig að ráðizt verði í fyrirbyggjandi aðgerðir, sérstaklega á meðal ungmenna. Við eigum að vera stolt af stuðningskerfunum okkar, en við þurfum líka að tryggja, að þau séu skilvirk.  Það ætti að vera sameiginlegt markmið okkar allra að draga úr brotthvarfi [af] vinnumarkaði." 

Það þarf að læra af t.d. Svíum við endurskoðun á örorkumatsaðferðum og að rótargreina ástæðurnar fyrir öfugþróun í fjölda öryrkja á Íslandi m.v. hin Norðurlöndin.  Tengist hún samfélagsmeinum á borð við mikla lyfjaneyzlu hérlendis ? 

 

 


Þjóðaröryggisráð

Núverandi Þjóðaröryggisráð virðist aðallega fást við landvarnir, en þeim málum er eins traustlega fyrir komið og hugsazt getur með varnarsamningi við mesta herveldi heims og aðild landsins að NATO.

Almannavarnir ríkisins (Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra) virðist aðallega fást við yfirvofandi vá og viðbrögð við yfirstandandi vá.  Það vantar langtímasýn um varnir gegn náttúruvá og fyrirbyggjandi aðgerðir til að stemma stigu við afleiðingum þeirra.  Þarf ekki að endurskipuleggja og endurmanna Þjóðaröryggisráð til að taka að sér þetta hlutverk ?  Utanríkisráðuneytið getur sjálft séð um samskiptin við BNA og NATO vegna landvarnanna. 

 Óðagot við varnargarða í kringum mannvirkin í Svartsengi og eftiráupplýsingar um, að Grindavíkurbær standi á flekaskilum, sem kvika hefur nýlega (10.11.2023) flætt inn í, að því er virðist öllum að óvörum, hefur sýnt fram á veikleika í viðbúnaði við líklegri vá, sem þarf að taka á kerfisbundið í stað þess að þverskallast við að viðurkenna alvarlega ágalla.  

Jarðvísindamenn má suma kenna við "dramadrottningar", því að þeir hafa gengizt upp í að draga upp dökkar sviðsmyndir og spá fyrir um eldgos "innan sólarhrings", eða flöktandi líkindi, sem engin þekkingarleg innistæða hefur reynzt fyrir, hvað þá líkindareikningur.  Hvernig stendur á því, að enginn þeirra dró upp dekkstu sviðsmyndina, sem sé þá, að kvika hlypi úr kvikuþrónni, sem safnazt hefur upp undir Svartsengi, og í ganginn á flekaskilunum, sem liggur 15 km leið að norðan, undir Grindavík og fram í sjó ? Þessi staða var ekkert í umræðunni fyrr en hún raungerðist 10.11.2023, þegar allt lék á reiðiskjálfi í Grindavík.  

Ef gýs í sjó á þessu svæði, lokast líklega fyrir millilandaflug um Keflavíkurflugvöll.  Þetta sannar gildi Reykjavíkurflugvallar, þar sem uppbygging ætti að vera hafin fyrir löngu, ekki á íbúðarhúsnæði til að þrengja að vellinum í tilraun til að hrekja hann burt, heldur á aðstöðu til að taka við og afgreiða millilandavélar.  Hver hefur staðið sem þurs gegn því ?  Núverandi borgarstjóri og stjórnmálaflokkurinn hans, Samfylkingin, sem enn vill henda fjármunum í rannsóknir í Hvassahrauni vegna framtíðarflugvallar. Vandlætingarfullur formaðurinn hefur ekki snúið ofan af þessari vitleysu og getur það sennilega ekki.  

Ritstjórn Morgunblaðsins hefur rýnt þessi mál og afraksturinn gat að líta í forystugrein blaðsins 15. nóvember 2023:

"Rýming Grindavíkur og Reykjaneseldar".

Hún hófst þannig:

"Grindvíkingar hafa mátt búa við miklar landskjálftahrinur í hartnær 4 ár, en aldrei sem nú, eftir að kvika hefur leitað upp og undir bæinn, yfirborð jarðar sprungið og bókstaflega brotnað; svo bráð hætta yfirvofandi, að Grindavík hefur nú verið rýmd í tvígang."

 

 

Góð fiskimið í grennd, hafnaraðstaðan, höfnin og glæsileg fyrirtæki í Grindavík, hafa léð bænum gildi og gert hann eftirsóknarverðan til búsetu.  Nú hefur undirstaða bæjarfélagsins verið skekin vegna skemmda á mannvirkjum og innviðum og óvissu um, hvenær bann yfirvalda við búsetu og starfsemi í bænum tekur enda. Að einhverju leyti stafa skemmdirnar af nándinni við flekaskilin og að öðru leyti af innstreymi kviku í þá sprungu með víkkandi áhrifum.  Spurning er, hvar yfirvöld munu vilja leyfa byggð á svæðinu í ljósi reynslunnar, og hvernig markaðurinn metur verðmæti fjárfestinga þar.  Grindavík verður aldrei söm eftir og er í raun fyrsta fórnarlamb Reykjaneseldanna hinna nýju og nr 2 í röðinni eftir landnám.  

"Það er ekki heldur annað hægt en að dást að fórnfýsi björgunarsveitarmanna í Grindavík, sem hafa lítil hlé fengið í 3 ár.  Framganga annarra, sem þar um halda - á Veðurstofu, hjá lögreglu og Almannavörnum og öðrum stoðsveitum - hefur einnig að flestu verið til fyrirmyndar."

Um þetta er það að segja, að álagið, sem lagt er á björgunarsveitina og -sveitirnar, keyrir úr hófi fram, enda eru þær farnar að gegna lögreglustörfum.  Það er hlutverk lögreglu að sinna stjórnun umferðar inn á rýmt svæði, bannsvæði, en í þessi verkefni eru björgunarsveitir settar.  Þetta er fremur léleg frammistaða lögreglu í ljósi þess, að um sjálfboðaliðssveitir er að ræða, sem ávallt hlýða kalli.  Hér verður ríkissjóður að koma til skjalanna, ef vel á að vera, og bæta bæði vinnuveitendum og björgunarsveitarmönnum, sem í hlut eiga, vinnutapið, sem þannig verður til.   

"Taki að gjósa í næsta nágrenni Grindavíkur, verður það ekkert "túristagos".  Það er því ekki að undra, að stjórnvöld hafi afráðið að grípa til ráðstafana um liðna helgi, þegar í skyndingu var lagt fram stjórnarfrumvarp um gerð varnargarða. 

Það mátti ekki seinna vera, en áherzlurnar eru samt skrýtnar.  Af hverju ákváðu stjórnvöld að nota þessar viðsjár til þess að leggja á nýjan skatt fyrir varnargörðunum ?  

Skatturinn er til gamans sagður tímabundinn og á að afla mrdISK 3 á þremur árum.  Í Reykjavík var haldinn alþjóðlegur montfundur í vor fyrir sömu upphæð, án þess að lagður væri á skattur [og er þó ríkissjóður rekinn með halla - innsk. BJo].  Í frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir mrdISK 7,5 í viðbót vegna hælisleitenda, án þess að lagður sé á aukaskattur.  Við blasir, að ríkisstjórnin sólundar umhugsunarlaust stærri fúlgum án nýrra skatta, en henni væri nær að neita sér um óþarfa gæluverkefni frekar en að hækka skatta.  Af nógu er að taka."

Seinlætið við að hefja gerð varnargarðanna er ótrúlegt m.v. við verðmætin, sem í húfi eru, og tjónið, sem hlýzt af heita- og kaldavatnsskorti og rafmagnsleysi, sem líklega hlýzt af gosi í grennd við Svartsengi áður en tekst að ljúka gerð varnargarðanna.  Landskerfi raforku er þanið til his ýtrasta og má ekki við að missa Svartsengisvirkjun út af kerfinu.

Líklegasta skýringin á deyfðinni við að hefja gerð varnargarðanna er, að rétt einu sinni hafi vinstri hreyfingin grænt framboð þvælzt fyrir þjóðþurftarverki, en ekki treyst sér til þess lengur, eftir að ósköpin dundu yfir Grindavík síðdegis föstudaginn 10.11.2023.  Þetta er í raun óstjórntækur stjórnmálaflokkur, en formaðurinn treður sér nú alls staðar að með sín góðverk og samkennd.

  VG kom af stað furðuumræðu um það, hvort eðlilegt væri, að ríkið kostaði varnir utan um einkafyrirtæki.  Slík umræða er eingöngu til að drepa nauðsynjamáli á dreif.  Auðvitað má ríkisvaldið ekki mismuna fyrirtækjum eftir eignarhaldi.  Það mundi skekkja samkeppnisstöðuna stórlega og er ólöglegt og gæti skapað ríkisvaldinu stórfellda skaðabótakröfu ofan á allt saman.  Umræða á þessum nótum er hrein heimska vinstri manna.   

Löggjöfin um hælisleitendur er einstaklega illa úr garði gerð og hefur flækt ríkissjóð í risaútgjöld, um 20 mrdISK/ár, auk álags á heilbrigðiskerfi, félagsþjónustu og menntakerfi, sem þessi kerfi eru ekki undirbúin fyrir.  Löggjöfin sker sig úr löggjöf annarra þjóða um þessi efni og ber að kasta á haugana, spara stórfé, sem skynsamlegra og nytsamlegra er að nota til að styðja við bændur landsins, sem nú eiga mjög á brattann að sækja vegna stórhækkaðs verðs aðfanga og mikilla krafna löggjafans um fjárfestingar til að bæta aðbúnað dýranna. 

Núverandi dómsmálaráðherra er tekin til við að moka flórinn, enda skelegg, vel að sér og dugnaðarforkur úr atvinnulífinu.  Er óskandi, að borgaralegu flokkarnir styðji við bakið á henni og nýti sér, að VG þorir ekki í kosningar fyrr en kjörtímabilið er á enda.

"En svo má líka spyrja, hvort stjórnvöld hafi ekki verið allt of værukær.  Öllum hefur verið ljóst í 2-3 ár, að frekari óróa væri að vænta á Reykjanesskaga og það miklu stærri gosa, mögulega um alda skeið (sem þyðir ekki, að lengri tími sé til stefnu).

Mörgum þykir skrýtið, að Landvernd hafi lagzt gegn mannvirkjum á borð við varnargarða og sagt "óþarfa rask", þó að við blasi, að raskið úr iðrum jarðar verður ævinlega þúsundfalt.  Hitt er þó meiri ráðgáta, hverju afstaða samtakanna skiptir stjórnvöld, þegar náttúruvá vofir yfir almenningi."

Það er einmitt viðeigandi nú að draga það fram nú, að náttúrurask mannsins á Íslandi hverfur algerlega í skuggann af "raski" náttúrunnar sjálfrar á eldfjallaeyjunni.  Hins vegar kemur þeim, sem urðu vitni að kjánaskap "náttúruverndarsinna", þegar leggja átti núverandi afleggjara að Blá lóninu.  Þá lögðust þeir fyrir vélarnar og hófu að tína upp mosann "til að bjarga honum".  Það fer engum sögum um, hvað um mosann varð, sem rifinn var upp. Fíflagangurinn hefur engu breytt fyrir þennan mosa. Fáfræðin og vitleysan á sér engin takmörk í þjóðfélagi nútímans, þar sem borgarbörnin hafa glatað öllu jarðsambandi.  Þess ber að geta hér, að Landvernd er útibú frá VG, og verður aðgerðarleysi á mörgum sviðum þá skiljanlegra. 

 "Áhyggjur af orkuöryggi eru af svipuðum meiði, en eldgos á Reykjanesi gætu truflað starfsemi orkuvera HS Orku og afhendingu á bæði raforku og heitu vatni, eins og oft hefur verið bent á.  Það gerir tafirnar á lagningu Suðurnesjalínu 2 enn óskiljanlegri, að ekki sé minnzt á þvermóðsku vinstri grænna til þess að viðurkenna þörfina á frekari orkuöflun."

Um nokkurra missera skeið hafa jarðvísindamenn haldið því fram, að árið 2021 hafi hafizt eldsumbrotatímabil á Reykjanesi, sem staðið geti yfir öldum saman.  Uppi eru þar af leiðandi gjörbreyttar aðstæður varðandi byggð og tæknilega innviði.  Núna mundi engum detta í hug að virkja í Svartsengi eða að hafa þar baðstað og fjölmenn hótel.  Sú er hins vegar staðan, og þá er verkefnið að verja þessi mannvirki eftir mætti, en ríkisstjórn og Almannavarnir hafa gjörsamlega brugðizt þessu hlutverki sínu þar til jarðskjálftafár ríður yfir Grindavík og Svartsengi af völdum kvikuinnskots í litlu dýpi.  Núna væri ekki vanþörf á lagasetningu um að leggja Suðurnesjalínu 2 tafarlaust til að auka þolgæði raforkuafhendingar til Suðurnesja, ef afkastageta virkjana þar minnkar.  

Það þarf að meta, hvar í sveitarfélaginu Grindavík er ráðlegt að halda búsetu áfram, og þau svæði þarf að verja með varnargörðum, og Viðlagatrygging að kaupa húsnæði, sem er staðsett, þar sem áhætta fyrir búsetu af völdum jarðskjálfta og/eða hraunflæðis er metin of mikil, óháð ástandi húsnæðis.  Þessu þarf nýskipulagt Þjóðaröryggisráð að hafa umsjón með og sömuleiðis að áhættugreina aðra byggð og önnur mannvirki á Suðurnesjum í ljósi gjörbreyttrar stöðu.  

"Nú hafa stjórnvöld látið rýma 12. stærsta byggðarlag landsins, og á 4. þúsund manns eru á vergangi.  Engar ráðstafanir höfðu verið gerðar til hýsingar þeirra, þó [að] vitað væri, að Grindavík gæti orðin í sérstakri hættu, húsnæðiskreppa á höfuðborgarsvæðinu og allt tiltækt húsnæði gleypt af félagsmálaráðherra undir hælisleitendur, sem flestir eru hér í erindisleysu.  

Allt þetta bendir til einkennilegs tómlætis um ljósa og yfirvofandi hættu, sem við vitum fyrir víst, að verður ekki umflúin, hvort sem það gýs í dag eða á morgun, á næsta ári eða þarnæsta.  Séu Reykjaneseldar hafnir, þá verða gosin mörg og fæst til skrauts."

Þetta er réttmæt og hörð gagnrýni Morgunblaðsins á yfirvöld fyrir andvaraleysi.  Það var farið að tala um varnargarða norðan Grindavíkur, en hin miklu mistök jarðvísindamanna voru að taka ekki með í reikninginn, að flekaskil liggja í gegnum Grindavík til sjávar og, að þessi neðanjarðargjá gæti fyllzt af hrauni og það streymt þar upp, en mjög stutt er þar nú niður á kviku.  Ef innrennslið stöðvast, gýs þar ekki að þessu sinni, en jarðvísindamenn þurfa að svara því, hvort þetta geti endurtekið sig, því að það skiptir öllu máli varðandi varnaraðgerðir. 

Þrumuritstjórnargrein Morgunblaðsins lauk þannig:

"Á Reykjanesskaga eru 6 eldstöðvakerfi, en þegar þau rumska eftir 8 alda hlé, geta afleiðingarnar orðið gríðarlegar áður en yfir lýkur.  Ekki er hægt að útiloka, að Keflavíkurflugvöllur lokist um skemmri eða lengri tíma, útflutningsatvinnuvegir gætu orðið fyrir miklum skakkaföllum; það er ekki óhugsandi, að hraun gæti aftur runnið inn á höfuðborgarsvæðið með geigvænlegu eignatjóni fyrir utan bein áhrif á mannfólkið og annað lífríki.

Það er ekki seinna vænna að fara að draga upp slíkar myndir, hvernig megi bregðast við þeim og fyrirbyggja mestu ósköpin.  Til þess duga engar skyndilausnir og nýir skattar helgina fyrir gos."

Til að standa fyrir nauðsynlegum umbótum á viðbúnaðar sviðinu þarf að endurskipuleggja Þjóðaröryggisráð, skipa því sjálfstæðan fjárhag og ríkar valdheimildir í ljósi gjörbreyttrar stöðu á Suðurnesjum.  Ráðið þarf að kortleggja sprungumyndanir, gera nákvæmt jarðskjálftakort og setja upp rennslislíkön fyrir mismunandi sviðsmyndir eldsumbrota.  Á þessum grundvelli verði öll íbúa- og mannvirkjasvæði áhættugreind og viðbúnaðar áætlanir settar upp og æfðar í kjölfarið. 

Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að öll flugumferð um Keflavíkurflugvöll getur stöðvazt af völdum sprengigoss, og einn jarðfræðingur hefur heyrzt telja gos í hafi líklegasta gosstaðinn í yfirstandandi hrinu.  Rökrétt afleiðing af þessu er að efla varaflugvellina, ekki sízt Reykjavíkurflugvöll, og sveimhuga hugmyndir um nýjan flugvöll á Suðurnesjum (í Hvassahrauni) á að slá út af borðinu strax, um leið og Reykjavíkurflugvelli verði gert hærra undir höfði en verið hefur hjá borgaryfirvöldum Reykjavíkur undir hræðilegri forystu Samfylkingar.    

 

 

 

   

 

 

 


Dragbítur og skeldýr

Þegar embættismönnum hefur loksins tekizt að reyra atvinnustarfsemi í þvílíka reglugerðarfjötra, að starfsemin fær sig ekki hrært, þá fyrst verður sósíalistinn ánægður, telur endamarkinu náð og ekki einu sinni þörf á að taka greinina með í stefnumörkun ráðuneytisins, af því að lög og reglur þurfi ekki lengur að herða utan um greinina. Er hægt að hugsa sér nokkurn ráðherra meir skyni skroppinn en að hleypa embættisvarginum í óhefta reglusmíði um starfsemi, sem vargurinn ber ekkert skynbragð á ?  Þannig hagar sér sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir. 

Hún hefur verið sett yfir landbúnaðinn.  Ráðuneyti hennar tregðast við að gera upp skelfilegt tjón bænda, sem allt sauðfé hefur verið skorið niður hjá á grundvelli sýnatöku úr örfáum ám, sem riða greindist í.  Þetta eru óviðunandi og úrelt vinnubrögð, og loksins núna er yfirdýralæknir búinn að óska heimildar til að taka vægilegar á bændum, sem riða greinist hjá, vegna erfðaræktunar á ónæmi, sem fyrir dyrum stendur. Ráðuneytið er komið langt yfir lögboðna fresti og er með ótilhlýðilegan nánasarhátt við bændur í stað þess að greiða þeim fullt framleiðslutjón og endurstofnverð. Ætli væri annað hljóð í strokkinum, ef um samyrkjubú væri að ræða ? 

Í fersku minni er vorið 2023, þegar þessi ólánsráðherra skrifaði undir svo stífa reglugerð um hvalveiðar, að þar mátti greina vilja ráðherrans til að kodda þessari atvinnustarfsemi með snúinni reglugerð, en útgerðin, sem í hlut átti, lét ekki bugast þá. 

Morgunblaðið hefur haldið úti fréttum af skeldýrarækt, sem hefur lognazt út af í landinu vegna íþyngjandi reglufárs, sem er starfseminni mun meira fjárhagslega íþyngjandi hérlendis en annars staðar á EES-svæðinu, og ráðherrann lætur sér vel líka, því að lokatakmarki embættisvargs og sósíalista hefur verið náð. Er téð hegðun ráðherrans í embætti ekki sönnun þess, að það er ekkert vit í að leiða sósíalista til valda á Íslandi ? 

Sviðsljósgrein Önnu Rúnar Frímannsdóttur í Morgunblaðinu 13. nóvember 2023 bar fyrirsögnina:

"Snýst eingöngu um, að stjórnvöld vakni". 

Það er mikil bjartsýni að halda, að þessi stjórnvöld muni sjá að sér og slaka á klónni.  Þvert á móti telja þau sósíalisma sínum náð á þessu sviði, með því að skeldýrarækt var drepin í dróma með reglusetningu.  Þetta er sósíalistísk dýrð.  Enginn græðir hérlendis á skeldýrarækt, og enginn fær við hana vinnu. Fullkomin jöfnun niður á við, nema sum svín eru, eins og alltaf, jafnari en önnur.   

Anna Rún hefur eftirfarandi eftir Sævari Inga Reynissyni, formanni stjórnar Skelræktar:

""Þeim [ráðuneytisstjórum] fannst áhugaverðara að skoða möguleikana í þörungarækt heldur en skeldýrarækt, sem eru náttúrulega á gjörólíkum stað í þjóðfélaginu í dag. Það eru miklu, miklu meiri möguleikar í skeldýrarækt, og vinnan í kringum hana er miklu lengra komin heldur en nokkrn tíma í þörungaræktinni", segir hann.

Skelrækt eru samtök skelræktenda, og er tilgangur þeirra að vinna að hagsmunum skelræktenda, kynna greinina og stuðla að vexti skelrækrar á Íslandi.  

"Félagar í Skelrækt eru ýmist þeir, sem hafa verið í skeldýrarækt eða eru að vonast til þess að geta byrjað í skeldýrarækt", segir Sævar."

Framkoma yfirvalda, ráðuneytis Svandísar og undirstofnana, við skelræktendur hefur verið til háborinnar skammar, og nú hefur þessu fyrirbrigði tekizt að ganga af greininni dauðri.  Leyfisveitingafarganið er svo yfirgengilegt og kostnaður við sýnatökur og rannsóknir á þeim svo fjárhagslega íþyngjandi, að menn gáfust upp.  Það vantar rannsóknarbúnað inn í landið, og skelræktendur þurftu að borga kostnaðinn sjálfir af efnagreiningu á rannsóknarstofu erlendis.  Það er annað en samkeppnisaðilarnir á hinum Norðurlöndunum. 

Þetta er dæmi um skilningsleysi íslenzkra þingmanna og embættismanna á því hlutverki ESB-reglugerða og tilskipana að jafna samkeppnisstöðu á milli aðildarlandanna (hér:EES). Þegar ríkið borgar þessar efnagreiningar á hinum Norðurlöndunum, samkvæmt téðum Sævari Inga, þá mega íslenzk stjórnvöld ekki íþyngja greininni hérlendis með því að láta hana greiða, sízt af öllu, þegar senda þarf sýnin utan.  Þetta er dæmi um hættulega blýhúðun ESB-ákvæða hérlendis.  Ráðherranum dettur auðvitað ekki í hug að leiðrétta óréttlætið.  Hún er ekki í starfi fyrir atvinnugreinina, heldur snýst stefnumörkunarárátta hennar um að auka reglugerðafarganið og skattheimtuna af atvinnugreinunum, sem hún fær tangarhald á. Þessi ráðherra er til algerrar óþurftar.    

"Matvælaráðuneytið birti nýlega stefnu um lagareldi í samráðsgátt stjórnvalda, og er hún sett til ársins 2040.  Stefnan tekur á öllu lagareldi og byggist á úttekt, sem Boston Consulting Group gerði fyrr á þessu ári, en hvorki í henni né í stefnunni er minnzt á skeldýrarækt.  Gerði Matvælastofnun m.a. athugasemdir við bæði þessi skjöl í sínum umsögnum.  Líkt og áður hefur komið fram, er staðan sú, að enginn ræktar krækling til sölu á markaði lengur hér á landi. Þegar Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, var innt eftir því á dögunum, hvort til greina kæmi að  endurskoða lögin um skeldýrarækt frá árinu 2011, svo [að] greinin gæti lifnað við á nýjan leik hér á landi, svaraði hún því til, að engin ákvörðun hefði verið tekin um að endurskoða þá löggjöf, en hún teldi tækifæri vera í skeldýrarækt á Íslandi."

 Svandís Svavarsdóttir hefur hvorki áhuga á né hefur hún vit á skeldýrarækt, og þess vegna er sú skoðun hennar, að tækifæri séu hér í skeldýrarækt, markleysa.  Vera hennar í ráðuneytinu snýst ekki um annað en að þrengja á allan hátt að atvinnulífinu, þótt það brauðfæði hana jafnt sem aðrar afætur, og þess vegna þykir henni toppurinn á reglusetningum vera þær, sem beinlínis kyrkja viðkomandi atvinnugrein til ólífis, enda var þessi sett á dögum hinnar alræmdu "fyrstu tæru vinstri stjórnar".  

Spyrja má, hvort meiri og raunhæfari þekking á lagareldi sé hjá Boston Consulting Group en hjá innlendum ráðgjöfum, eða treystir sósíalistinn hinum síðar nefndu ekki ?

""Það þarf náttúrulega að byrja á viðhorfinu.  Það er látið eins og við [skeldýraræktendur] séum ekki til, og á meðan matvælaráðuneytið svarar ekki fyrirspurnum, vill ekki taka okkur með í rannsóknir, þá breytist ekkert.  Mér [Sævari Inga] hefur verið sagt, að þessi skýrsla frá Boston Consulting Group hafi kostað um MISK 90, og þeir láta eins og við séum ekki til.  Þessi skýrsla snýst eingöngu um laxeldi, en ég þori að fullyrða, að ef áhugi væri fyrir hendi, þá gætu á fáum árum orðið ekki minni atvinnumöguleikar í kringum kræklingarækt hér á landi en í laxeldinu.""

Sú framganga matvælaráðuneytisins, sem (óhæfur) sósíalisti stjórnar, að útiloka (slaufa) eina undirgrein lagareldis, sem gæti blómstrað hér með skynsamlegri lagasetningu og heiðarlegri framkomu stjórnvalda, er forkastanleg og með ólíkindum.  Ráðuneytið hefur gefið rándýrum ráðgjafa þá forskrift að fjalla ekki um skeldýrarækt, e.t.v. svo að vandi greinarinnar yrði ekki krufinn, því að þá kæmi í ljós mjög íþyngjandi lagasetning og framkvæmd yfirvalda, sem er ekki í samræmi við framkvæmdina annars staðar í EES.  Ráðherrann stendur vörð um óbrúkleg lög og viðamikið og dýrt eftirlitskerfi.  Reynslan vítt og breitt um heiminn sýnir, að það eru engin verðmæti svo mikil, að sósíalistum takist ekki með skrifræði, óréttlæti og yfirgangi (í nafni alþýðu) að drepa þau í dróma.   

 

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband