Færsluflokkur: Löggæsla

Vesaldómur og vöxtur

Út er komin á vegum Landssambands lífeyrissjóða, LL, viðamikil skýrsla um starfshætti framkvæmdastjóra og stjórna lífeyrissjóðanna í landinu fyrir Hrun.  Tilefnið var brotlending og hrikalegt tap þeirra við fall bankanna haustið 2008, sem nú hefur verið upplýst, að nam 480 miö kr eða um fjórðungi af eignum þeirra.  Þetta er reyndar hlutfallslega svipað og tap norska olíusjóðsins og sýnir í hvílíkar ógöngur íslenzku lífeyrissjóðirnir eru komnir með fjárfestingarstefnu sína, sem reyndar er mótuð með ófélagslegum hætti af löggjafanum, en það ber að hafa efst í huga félagslegt inntak lífeyrissjóðanna við stefnumótun þeirra og lagasetningu um þá.  Lífeyrissjóðirnir eru komnir í öngstræti, lífeyrisþegar rændir lífeyri almannatrygginga að miklu leyti á móri greiðslu úr lífeyrissjóði, stærð og fyrirferð sjóðanna orðið efnahagsvandamál á Íslandi, eins og dæmin sanna.   

Tap sjóðanna nam mest rúmlega helmingi eigna, og var það hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga, Lífsverk, og olli átakanlegri skerðingu reiknaðra framtíðar lífeyrisréttinda sjóðsfélaga.  Lífsverk var og er með lýðræðislega kjörna stjórn.  Lýðræði er engin trygging gegn óvönduðum vinnubrögðum, hrösun á vegum dyggðarinnar og mistökum, eins og alkunna er.   

Mest var þó sukkið og svínaríið í Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, LRS, í krónum talið.  Þar og víðar hefur þó enn ekki verið hreinsað til, og kemur það spánskt fyrir sjónir.  Félagarnir vita, að þeir fá allt bætt með skattfé.  Þetta er óþolandi. Að skattborgarar landsins skuli vera látnir ábekja glannalegar gjörðir þessa sjóðs, nær engri átt.  Slík ábeking leiðir einvörðungu til enn glannalegri meðferðar fjár að hálfu sjóðsins en ella.  Upphæð ábekingarinnar mun vera 8 mia kr á ári næstu 40 árin.  Það verður að vinda ofan af þessum spillingarhvata með lagasetningu, því að hann felur í sér mikið óréttlæti á formi mismununar þegnanna.  Minni hagsmunir verða hér að víkja fyrir meiri.  Ný lagasetning um lífeyrissjóði þarf að losa um heljartök "aðila atvinnulífsins" á lífeyrissjóðunum og lífeyrissjóðanna á félagsmönnum.  Lýðræðisvæðingu og valfrelsi þarf að innleiða hér.   

Þekktur stjórnmálamaður, núverandi innanríkisráðherra, var stjórnarformaður LRS árið 2007.  Skrýtið, að enginn rannsóknarblaðamaður skuli hafa kannað, hversu mikið af þessu stærsta tapi lífeyrissjóðs í sögunni megi rekja til gjörninga ársins 2007.  Sameignarsinnum getur sem sagt orðið hált á svellinu í auðvaldsþjóðfélaginu.  Það þarf reyndar ekki að koma á óvart.  

Þetta ævintýri fjár án hirðis er grafalvarlegt mál fyrir alla þjóðina og hlýtur að hafa miklar afleiðingar í för með sér fyrir þá, er hér eiga hlut að máli.  Hér gæti ljót blanda búið að baki, blanda spillingar og glópsku, þar sem glópagullsmenn gerðu sig seka um vítaverða vanrækslu.

Leitt hefur verið í ljós, að stjórnendur og eigendur bankanna, sem reyndust vera bankaræningjar af verstu sort, gengu um lífeyrissjóðina, skyldusparnað landsmanna, á skítugum skónum, og rændu þá líka.  Þar er um að ræða 324 mia. (250+74 mia.) kr af þessum 480 miö eða 2/3 hluta, þegar tap á bankabréfum og pappírum tengdra félaga eru talin.  Stjórnendur lífeyrissjóðanna reyndust vera svo ósjálfstæðir í starfi, að þeir lýsa sjálfum sér í téðri skýrslu LL sem fórnarlömbum bankamanna.  Í skýrslunni er talað um meðvirka stjórnendur lífeyrissjóðanna.  Hvers konar Disneyland er þetta eiginlega ?  Hafa menn ekkert bein í nefinu ?  

Lítið sem ekkert fór fyrir sjálfstæðu áhættumati Mikka músar, heldur nutu hann og félagar hans ráðgjafar bankanna, "röverbanden", og afleiðingin varð, eins og til var sáð, afspyrnu léleg áhættudreifing og engin áhættustýring.  Starfshættir af þessu tagi eru svik við eigendur lífeyrisins, alger undirmálsframmistaða og ekki unnt að nefna vinnubrögðin annað en hreinræktað fúsk.  Þarna hefur annaðhvort legið að baki (eða á bakinu) mikil einfeldni, trúgirni og fáfræði eða beinlínis óheiðarleiki og maðkað mjöl í pokahorninu.  Úr þessu verður að fást skorið fyrir dómstólum.  Þeir verða að fá mál lífeyrissjóðs til meðferðar.       

Það verður enginn friður í landinu, nema gerð verði gangskör að því fyrir dómstólum að varpa ljósi á atburðarásina, sem leiddi til þess, að lífeyri landsmanna var sólundað á altari Mammons.  Hvar eru þessir peningar okkar núna, 25 % af eignum lífeyrisjóða landsmanna ?  Eru þeir á Tortólu ? Eru þeir á Guernsey ? Eru þeir í vösum Gissurar gullrass eða Jóakims frænda ?  Þó að féð sé líklega týnt og tröllum gefið, er algert lágmark að leita sannleikans fyrir dómstólum. Það er engin hemja, hvað hvítflibbaglæpamenn komast upp með á Íslandi án þess að hljóta makleg málagjöld.  Er réttvísin tannlaus ?  Það er kominn tími til, að hún sýni tennurnar, ef einhverjar eru og þá vonandi ekki falskar.  

Útlínur og meginniðurstöður þessarar sögu eru svo yfirgengilegar, að öllu réttsýnu fólki blöskrar og getur ekki búið við óbreytt fyrirkomulag.  Fram kemur í 800 síðna skýrslunni um 480 milljarðana, að verklagsreglur hafi skort um starfsemi lífeyrissjóðanna.  Mann setur hljóðan.  Menntunarleysið virðist hafa tröllriðið metnaðar- og getuleysi og siðleysið svifið samtímis yfir og allt um kring.  Ekki tók betra við, þegar kom að eftirlitinu.  Úttektarskýrslan gefur endurskoðendum sjóðanna falleinkunn.  Hvernig er nú komið fyrir faglegum metnaði þeirrar stéttar ?  Fyrst útreið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og svo aftur núna.  Úttektarnefnd Hrafns Bragasonar lagði til, að Fjármálaeftirlitið skipaði lífeyrissjóðunum þessa endurskoðendur, en Fjármálaeftirlitið brást hlutverki sínu gersamlega í þessu reginhneyksli Hrunsins. Kratar og sameignarsinnar halda, að unnt sé að gera við margháttaða galla auðvaldsskipulagsins með regluverki og eftirliti.  Slíku er ekki að treysta. Ekki vantaði hér regluverkið fyrir fjármálageirann, og Fjármálaeftirlitið hafði skyldum að gegna.  Setja þarf lífeyrissjóðunum kröfur um gæðastjórnunarkerfi, innra og ytra eftirlit.  Fjármálaeftirlitið á ekki að láta nægja að taka við pappírum og raða þeim í rétta möppu.  Það verður að framkvæma sjálfstæðar rannsóknir.  

Stjórnarfyrirkomulag og fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna hefur algerlega gengið sér til húðar.  Það verður að finna lífeyrissjóðunum verðug viðfangsefni, en fyrirferð þeirra í íslenzka samfélaginu er orðið sjálfstætt vandamál. Núverandi ríkisstjórn hefur ekkert þrek til að taka á þessum málum.  Ný ríkisstjórn í landinu verður á fyrsta ári sínu við völd að stjórna smíði frumvarps til nýrra laga um lífeyrissjóði í landinu, sem setur sjóðsstarfsmönnum og stjórnum hæfiskröfur og hæfniskröfur og dregur upp útlínur gæðastjórnunar á ávöxtun sjóðanna, sem samræmist félagslegu hlutverki þeirra og útilokar tjón af græðgislegum áhættufjárfestingum, sem fulltrúar vinnuveitenda og launþega, sem nú sitja í stjórnum þeirra flestra með þessari ömurlegu niðurstöðu, hafa blessað yfir.  Það þarf að ræða um ávöxtunarkröfu sjóðanna, þvingaða félagsaðild, og hvernig á að beina ávöxtun sjóðanna í farveg, sem veldur ekki bólumyndun í eignaverði og hagrænum óstöðugleika í landinu. 

Ekki reyndist nokkurt minnsta hald í Fjármálaeftirlitinu, og sannaðist þar enn einu sinni, að eftirlitsstofnanir eru almenningi gagnslausar, þegar hæst á að hóa.  Næsta ríkisstjórn mun vafalaust gjörbreyta Seðlabankanum með nýrri lagasetningu, sem færir Fjármálaeftirlitið til Seðlabankans og leggur grunn að traustri peningamálastjórnun að hætti Bundesbank.  Lífeyrissjóðirnir eru sökum stærðar sinnar ríki í ríkinu og þar verður að ríkja festa, félagsleg ráðdeild, fagmennska og stöðugleiki.

Það er rétt, að lífeyrissjóðir með lýðræðislega kjörnum stjórnum beint af eigendunum urðu sízt fyrir minna tjóni en hinir.  Það er hins vegar tímanna tákn að efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku um eigin mál.  Þegar ný og vönduð löggjöf um lífeyrissjóðina, sem eru og verða haldreipi okkar í ellinni, verður samin, verður væntanlega skorið á tengslin við atvinnulífið, því að ekki verður séð, að þessi tengsl hafi gagnast eigendunum, núverandi og tilvonandi lífeyrisþegum, nema síður sé.

Lífeyrissjóðirnir tóku, illu heilli, fullan þátt í bóluhagkerfinu.  Það er út af fyrir sig óskiljanlegt, að mönnum skuli detta sú firra í hug, að breyta lífeyrissjóðum í vogunarsjóði.  Aðalsmerki lífeyrissjóða á að vera mikil áhættudreifing, innan lands og utan, og örugg ávöxtun í stað hárrar ávöxtunar.  Að sjálfsögðu eru lífeyrissjóðir háðir hagsveiflu.  Þeir ganga betur í hagvexti en í stöðnun.  Það er út af því, að þá streymir inn meiri skyldusparnaður frá launþegunum, og hlutafé gefur meiri arð.  Hlutafé, innan lands og utan, ætti þó ekki ekki að nema yfir 25 % af eignum, 10 % innanlands og 15 % erlendis.  Það eru þó um 525 mia. kr alls m.v. núverandi stöðu.   

Nú eru að koma skilyrði til öflugs hagvaxtarskeiðs eftir tímabil samdráttar og stöðnunar.  Þetta má ráða af því, að á árinu 2011 varð dálítill hagvöxtur þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem allar voru hagvaxtarhamlandi, enda eru vinstri grænir, flokkur allsherjarráðherra, á móti hagvexti per se.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, telur, að aukning útflutningsverðmæta sjávarútvegs og iðnaðar hafi valdið um 2 % aukningu landsframleiðslu árið 2011, og ferðamenn og þjónusta við heimilin hafi skilað um 1 % aukningu.  Þetta gefur til kynna, að íslenzka hagkerfið geti hæglega náð lífvænlegum hagvexti, 4 % - 6 % á ári á næstu árum, með eðlilegri uppbyggingu atvinnulífsins með erlendum fjárfestingum.  Lífeyrissjóðir geta tekið þátt í uppbyggingu landsins með öruggum hætti, t.d. í orkugeiranum og í sjávarútvegi, með kaupum á hlutabréfum og skuldabréfum.  Þróun fjárhags Landsvirkjunar gefur til kynna, að hún er álitlegur fjárfestingarkostur lífeyrissjóða. 

Takist að ná sjálfbærum hagvexti, mun hagur strympu skána til lengdar, atvinnuleysi minnka, sparnaður, þar með lífeyrissparnaður, aukast, og svigrúm myndast til að grynnka á skuldum hins opinbera, sem er lífsnauðsyn.  Það verður þess vegna að róa öllum árum að öflugum og varanlegum hagvexti.

Téður Ragnar hefur þetta að segja um hagstjórnina:                "Í fyrsta lagi þarf að endurskoða skattkerfið.  Háir skattar draga úr vinnuframlagi einstaklinga og framtaki fyrirtækja.  Í öðru lagi þarf að afnema gjaldeyrishöftin hið fyrsta, þar sem þau standa litlum og meðalstórum fyrirtækjum fyrir þrifum.  Og síðast en ekki sízt þarf að búa svo um hnútana, að lög og reglur ásamt umgjörð efnahagsstefnunnar verði stöðugri en verið hefur síðustu árin.  Það er ljóst, að enginn mun vilja fjárfesta í okkar helztu atvinnuvegum - sjávarútvegi og orkuiðnaði - samfara þeirri pólitísku áhættu, sem nú ríkir í þessum atvinnugreinum."

Prófessor Ragnar mundi ekki halda þessu fram án veigamikilla og traustra hagfræðilegra raka að baki staðhæfingum sínum.  Hinn tilvitnaði texti er efnislega samhljóma stefnu Sjálfstæðisflokksins til viðreisnar þjóðarhag.  Þetta er einfaldlega rödd heilbrigðrar skynsemi, sem Sjálfstæðisflokkurinn mun framkvæma svo skjótlega sem verða má.  Sé rýnt í textann, kemur í ljós, að í hverri málsgrein felst stefnumörkun, sem er algerlega á öndverðum meiði við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Frá lokum kalda stríðsins hafa aldrei verið jafnskýrir valkostir fyrir hendi í íslenzkum stjórnmálum.  Annars vegar er daður við ESB og langdregin og dýrkeypt aðlögun að þessum risa á brauðfótum, sem virðist dæmdur til hnignunar, ásamt klúðurslegri stjórnsýslu, sem einkennist af undirmálum og leyndarhyggju.  Lausatök verða á hagstjórninni undir vinstri stjórn, bæði ríkisfjármálum og peningamálum, skattpíng í algleymingi, atvinnuleysi, verðbólga, landflótti og stöðnun, jafnvel hnignun.

Fái kjósendur sig fullsadda á þessum afurðum villta vinstrisins, verður stefna borgaralegra afla leidd til öndvegis, þar sem hætt verður skammarlegu daðri við ESB, lagaleg og stjórnlagaleg  undirstaða lögð undir trausta hagstjórn, sem skapar ekki minni stöðugleika en Maastrichtskilyrðin, og feitletruðu atriðin hér að ofan framkvæmd.

Afleiðing af nýjum stjórnarháttum verður sanngjarnara samfélag, betra líf í landinu vegna bætts hags heimilanna, færra fólk í þrengingum og örbirgð, fleiri og fjölbreytilegri atvinnutækifæri fyrir karla og konur, unga og aldna, og fleiri fjárfestingartækifæri lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Á einu kjörtímabili verður unnt að gjörbreyta stöðunni, svo að brottfluttir af öllum stigum samfélagsins geti séð sér hag í að snúa heim.  Hvað dvelur orminn langa ?  

 

  

  

 

   

        

      Snaefellsjökull 2                                                                           h_my_pictures_falkinn


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband