17.10.2010 | 11:25
Félagshyggjan afhjúpuð
Félagshyggjan er reist á vanþekkingu og skilningsskorti. Hún varð til í hópum afæta á kaffihúsum Evrópu. Misbrestir hennar og hrein heimska hefur hvarvetna komið í ljós, þar sem hún hefur fengið að grassera, nær og fjær. Hún hefur leitt til þjóðargjaldþrots, þar sem forsprakkar hennar hafa verið við völd áratugum saman. Til að bæta kjör alþýðunnar þarf annað og meira en kaffihúsagutl.
Þjóðargjaldþrot átti sér stað í Rússlandi, og það blasti við Svíum við lok valdaskeiðs Jafnaðarmanna. Kratar leiddu Stóra-Bretland, Grikkland og Spán á heljarþröm. Þetta er á góðri leið með að gerast í olíulandinu Venezúela og mun gerast á aðeins einu kjörtímabili hérlendis, ef félagshyggjustjórn Jóhönnu Sigurðardóttur heldur völdum út kjörtímabilið.
Vanþekking á mannlegu eðli og skilningsskortur á mikilvægi tækniþróunar og á lögmálum efnahagslífs og fjármála hafa alls staðar og alltaf staðið forkólfum félagshyggjunnar algerlega fyrir þrifum. Á Íslandi hefur þetta lýst sér með eftirfarandi hætti:
- Afturhaldsöfl Samfylkingar og Vinstri-grænna hafa staðið gegn allri nýsköpun í atvinnustarfsemi. Þetta hefur tafið sumar erlendar fjárfestingar og komið í veg fyrir aðrar. Afturhaldsöflin standa alls staðar gegn tæknivæðingu iðnaðarins, sem hlýzt af alþjóðavæðingunni (erlendum fjárfestingum).
- Skattahækkunum hefur verið dembt yfir fyrirtæki og einstaklinga. Þetta hefur hefur riðið sumum fjölskyldum að fullu fjárhagslega, eyðilagt sum fyrirtæki endanlega og dregið stórlega úr atvinnu og eftirspurn almennt í þjóðfélaginu, þ.e. magnað kreppuna. Skattstofnar hafa þess vegna skroppið saman og tekjur hins opinbera minnkað af sumum sköttum og vaxið aðeins lítillega af öðrum, en eftirtekjan, þ.e. skatttekjur í hlutfalli við skattheimtu, rýrnað gríðarlega.
- Miðstýringaráfergja félagshyggjunnar og ofurtrú á opinbera forsjá hefur leitt til fjölgunar embætta, en lausnir á vanda heimilanna hafa verið í skötulíki, þó að félagshyggjustjórnir Jóhönnu hafi haft yfir 20 mánuði til að fást við vandann. Útrásarafglöpum er hyglað á meðan gengið er á milli bols og höfuðs á illa skuldsettum fjölskyldum og fyrirtækjum.
- Kúgunartilhneiging, kaldlyndi og þekkingarleysi ríkisstjórnar félagshyggjunnar hefur nú leitt til forkastanlegs frumvarps til fjárlaga, þar sem rústa á heilbrigðiskerfi landsins með afnámi tiltölulega hagkvæmra sjúkrarúma á landsbyggðinni, en lengingu biðlista við rándýrt sérhæft sjúkrahús í Reykjavík. Félagshyggjan hefur nú þegar gengið næstum af Landspítalanum dauðum; hann ræður ekki við meira álag og stefnir í að þurfa að leggja af hjartaaðgerðir, sem þó hafa reynzt ríkissjóði og þjóðfélaginu afar hagkvæmar. Læknar flýja landið unnvörpum, en nýjum tækifærum í heilbrigðisþjónustu, t.d. þjónustu við útlendinga, er kastað fyrir róða. Allt er njörvað niður í saman súrrað ríkisbákn, sem félagshyggjuforkólfar trúa á, en er glatað form.
- Félagshyggjuforkólfar eru nú á barmi örvæntingar, því að þeir klúðra öllu, sem þeir koma nálægt. Þá kemur þeim til hugar að éta útsæðið. Það er mjög félagshyggjulegt. Undanfarin ár hafa nytjastofnar á Íslandsmiðum eflzt, af því að aflareglan var lækkuð í 20 %. Þá minnkuðu veiðarnar úr 25 % - 30 % af stofni í 20 % - 25 %. Sóknarþunginn var minnkaður af sjávarútvegsráðherranum, Einari K. Guðfinnssyni, að ráði Hafrannsóknarstofnunar, til að búa í haginn fyrir framtíðina. Nú ætlar hinn skammsýni og þröngsýni þvergirðingur í embætti sjávarútvegsráðherra, félagshyggjumaðurinn Jón Bjarnason, að auka sóknarþungann þvert ofan í ráðleggingar Hafró. Þar með ætlar félagshyggjustjórnin að hefja ósjálfbærar veiðar á Íslandsmiðum. Skerðing aflaheimilda lenti auðvitað á þeim, sem aflaheimildir höfðu, en þeir eiga ekki að fá að bjóða í nýjar heimildir. Þannig er engan veginn tryggt, að hámarks arðsemi náist út úr viðbótar aflanum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að helztu útgerðir landsins eru útflytjendur hágæðamatvæla, sem framleiða samkvæmt pöntun viðskiptavina með svipuðum hætti og álfyrirtækin. Skussar kunna lítt með viðkvæm matvæli að fara, þeir hafa engin markaðssambönd erlendis, og afleiðingin verður sóun verðmæta.
Það ber vitni um algert dómgreindar-
leysi félaghshyggjustjórnarinnar að fjölga afætum á ríkisjötunni, ráða eftir flokksskírteini, láta silkihúfurnar áfram fara sínu fram með gagnslitla vinnu sína í ráðuneytum og stofnunum ríkisins á meðan blýantsnögurum líðzt að brjóta niður grunnþjónustu velferðarkerfisins, sem snýr að umönnun við skjólstæðingana, sem höllustum standa fæti í þjóðfélaginu.
Það er algerlega siðlaust af félagshyggjuforkólfum að ætla á sama tíma að kasta 0,5-1,0 milljarði kr í vanbúið Stjórnlagaþing. Aðferðafræði þessi til að semja nýja Stjórnarskrá er andvana fædd og allt of dýr. Einfaldara hefði verið að fá valinkunna háskólamenn til starfans, t.d. lögspekinga, heimspekinga, stjórnmálafræðinga og siðfræðinga, sem leggja mundu tillögur sínar fyrir Alþingi.
Alþingi þyrfti að koma málum þannig fyrir, að stjórnarskráarbreytingar yrðu lagðar beint fyrir þjóðina, en ekki eins og nú er, að tvö Alþingi samþykki með þingkosningum á milli. Þannig mætti jafnvel leggja fleiri en einn kost fyrir þjóðina.
Á sama tíma og velferðarkerfið er rústað, er fleygt 7 milljörðum króna í glannaför til Brüssel, sem engu mun skila, nema skömminni. Þetta er algerlega óverjanlegt.
Gríðarlegur óbeinn kostnaður hlýzt af þessu feigðarflani félagshyggjunnar, því að embættismannakerfið er undirlagt af aðlögun, sem nú er lætt inn bakdyramegin og ekki var minnzt á einu orði, þegar Alþingi fjallaði um umsóknina í júlí 2009. Félagshyggjumenn eru, eðli málsins samkvæmt, hallir undir forræðishyggjuna, sem tröllríður húsum í Berlaymont. Þeir telja stjórnarhættina á Íslandi munu batna, ef fleiri blýantsnagarar véla um málefni landsins. Ekki er nóg með, að blýantsnagarar Brüssel séu skilningsvana á aðstæður hér og þarfir almennings, heldur eru þeir hallir undir aðra og mun valdameiri hagsmuni en hagsmuni okkar Íslendinga. Bezt er, að valdið sé hjá fólkinu sjálfu.
Við fjárlagagerðina þarf að taka upp núllgrunnsáætlunargerð, þar sem hver útgjaldaliður er rýndur, en ekki aðeins horft á útgjöld síðasta árs. Þessi aðferð hvetur til að skoða, hvort spara megi ríkisútgjöld með öðru fyrirkomulagi á framkvæmdinni. Með steinrunnum aðferðum félagshyggjunnar, þröngsýni og fordómum, næst enginn árangur. Afleiðingin er hrun innviðanna, eins og nú blasir við.
Sé nútímalegri stjórnunarþekkingu beitt, bæði á útgjalda-og tekjuhlið fjárlaga, er auðvelt að ráða við vandann á tveimur árum, þannig að ráðast megi gegn stærsta vandanum, sem er feiknarleg skuldasöfnun ríkis og sveitarfélaga og ráða bug á honum á um einum áratugi. Það er þegar fullreynt, að félagshyggjan ræður hvorki við fjárlagavandann, skuldavandann né peningamálastjórnunina. Þetta grunaði marga, en reynslan ætti að hafa sannfært flesta um, að félagshyggjuleiðin er ófær og hefur aldrei verið annað en draumórar letingja, sem breyttust í martröð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)