Finnsku hrossin og markaðirnir

Á fjölum Þjóðleikhússins er nú finnska verkið, "Finnski hesturinn".  Þar greinir frá örlögum finnskrar bændafjölskyldu eftir inngöngu Finnlands í Evrópusambandið, ESB.  Er þar skemmst frá að segja, að allri framleiðslu á búinu hefur verið hætt, en gert er út á styrkveitingar ESB til finnskra bænda til aðgerðarleysis.  Þetta leiðir auðvitað til siðferðisupplausnar í rótgrónu bændasamfélagi og endar með gjaldþroti og því, að bændurnir flosna upp af jörðum sínum.

Kveður hér við töluvert annan tón en Finnar láta uppi opinberlega, en þó er þetta í samræmi við málflutning íslenzku bændasamtakanna, sem kynnt hafa sér stöðu landbúnaðar á Norðurlöndum út í hörgul.  Er einboðið, að innganga Íslands í ESB væri líkleg til að leiða svipuð örlög yfir íslenzka bændur og þá finnsku.  Slíkt viljum við alls ekki hafa, heldur kaupa innlendar landbúnaðarafurðir sem einhverja þá mestu gæðavöru á sviði matvæla, sem fáanleg er.  Með útflutningi til þjóða, sem komnar eru í álnir, en anna þörf sinni á sviði matvæla ekki lengur, má auka framleiðni og lækka framleiðslukostnað íslenzks landbúnaðar á hverja framleidda einingu.

Nei við ESBFeðgarnir í téðu leikverki reyna fyrir sér með hrossaprangi innan Evrópu, langt suður í álfu, með hrapallegum afleiðingum.  Nú hefur forstjóri Landsvirkjunar tjáð áhuga sinn á, að Landsvirkjun reyni fyrir sér með orkuviðskiptum á meginlandi Evrópu eða á Stóra-Bretlandi.  Hér verður sýnt fram á, að sæstrengur þangað yrði skelfilegt útrásarævintýri, þ.e. þetta er hugmynd, sem tiltölulega auðvelt er að reikna út, að hæglega getur orðið að martröð gríðarlegs taps, verði hún að veruleika.  Er ömurlegt til þess að vita, að Landsvirkjun skuli nú vera á braut spákaupmennsku með orkulindir landsins í stað þess að nýta þær með öruggum og traustum hætti innanlands til framleiðslu á útflutningsvörum eða gjaldeyrissparandi vörum til eflingar íslenzku athafnalífi og hagkerfi. 

Af þessu tilefni er rétt að rifja upp, það sem ritað var um þennan forstjóra í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 19.11.2010, "Draugurinn vakinn upp":  "Steingrímur J. er aftur tekinn til við að panta yfirlýsingar frá stórforstjórum, þ.á.m. frá ríkisforstjóranum í Landsvirkjun.  Sá setti ofan með undirlægjuhætti sínum.  Forstjórinn vildi, að þjóðin tæki á sig tugi eða hundruð milljarða, svo að hann gæti átt þægilegra spjall við erlenda bankamenn.  Yfirlæti stórforstjóra í garð íslensku þjóðarinnar hefur lítið breyst frá 2007.  Og kanski hafa slíkir ekki áttað sig á, að virðing hennar fyrir slíkum er minni en hún var." 

Hér er vitaskuld Icesave umræðuefnið, en það er margt fleira skrýtið í kýrhausnum.  Eitt er undirbúningur Landsvirkjunar að uppsetningu vindmylla á Íslandi, en hitt eru gælur forstjórans við hugmyndina um sæstreng til meginlands Evrópu eða Stóra-Bretlands.  Það skýtur skökku við, að ríkisfyrirtæki á Íslandi sé að eyða fé í andvana fæddar hugmyndir fyrir íslenzkt umhverfi.

Engin þjóð, með alla sína raforkuvinnslu úr afar samkeppnihæfum og sjálfbærum orkulindum, lætur sér til hugar koma að setja upp vindmyllur, sem eru svo óhagkvæmar, að orkan frá þeim er alls staðar niðurgreidd, þó að þar sé að stofni til um að ræða eldsneytisknúin raforkuver og þar af leiðandi hærra raforkuverð en á Íslandi.  Vindmyllur á Íslandi, þar sem raforkuverð er nú einna lægst í heiminum, mundu einvörðungu leiða til hækkunar raforkuverðs til notenda eða útgjalda úr ríkissjóði.  Rætt er um, að vindmyllur gætu sparað vatn í miðlunarlónum, en þá er hinn kosturinn ólíkt hagkvæmari og umhverfisvænni að auka miðlunargetu safnlónanna. Vindmyllur mundu verða til mikilla lýta, þær valda fugladauða og eru hávaðasamar í grennd.  Fyrir ferðamennskuna væru þær fráhrindandi, en ekki aðdráttarafl, eins og vatnsafls-og jarðvarmavirkjanir þó klárlega eru.

norned_hvdc-cable-work-3Á vegum Pöyry Management Consulting (Norway) AS og Thema Consulting Group í Noregi hefur verið gerð mjög ítarleg skýrsla um viðskipti á milli norræna og evrópska raforkumarkaðarins á meginlandinu, sem heitir: Challenges for Nordic Power: How to handle the renewable electricity surplus. 

Þar eru leidd rök að því, að 20-20-20 markmið ESB, þ.e. lækkun orkunotkunar um 20 %, aukning orkunýtni um 20 % og minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu um 20 %, allt á árinu 2020, muni leiða til virkjunarátaks á Norðurlöndunum og umframorku þar af þeim sökum um allt að 46 TWh/a, sem er 2,7 sinnum núverandi raforkuvinnsla Íslands.  Verðið, sem skýrsluhöfundar telja, að fengist á hinum evrópska markaði meginlandsins árið 2020 er afar breytilegt eða á bilinu 29 evrur/MWh - 76 evrur/MWh, allt eftir árferði. 

Við þessar markaðsaðstæður mundi Landsvirkjun þurfa að keppa, ef hún sendir orku um sæstreng niður til Evrópu.  Sæstrengur er feiknadýr, á öðrum enda hans þarf að reisa afriðlavirki og á hinum áriðlavirki.  Auk virkjana að afli á borð við Kárahnjúkavirkjun þarf að styrkja stofnkerfið, þ.e. meginflutningskerfi raforkunnar, umtalsvert.  Gríðarleg orkutöp, í heild e.t.v. um 20 %, verða í öllum þessum mannvirkjum.  Bilunum má búast við í búnaði, sem er í raun í þróun og á mörkum tæknigetunnar.  Af öllum þessum ástæðum mundi Landsvirkjun þurfa 130 - 150 evrur/MWh, eða tvöfalt til fimmfalt verðið, sem í boði verður. 

Landsvirkjun hefur gert ofurbjartsýnilega frumkostnaðaráætlun um sæstreng til Skotlands, 1170 km að lengd.  Við gerð þessarar áætlunar er teflt á tæpasta vað, reiknað með 700 MW flutningsgetu og orkusölu 5200 GWh/a, sem jafngildir 7430 klst (85 %) nýtingartíma á ári, töpum í streng 6 %, strengendingu 30 árum og raforkuverði 60 EUR/MWh.  Telja verður hæpið að reisa arðsemiútreikninga á rauðlituðu tölunum.  Jafnvel að þeim forsendum gefnum fær höfundur þessa pistils, að verð raforkunnar við móttökuenda verði að ná 130 EUR/MWh.  Græna talan hér að ofan, sem Landsvirkjun gefur sér sem fáanlegt verð, er alveg út í hött árið 2020 m.v. niðurstöður téðrar norsku skýrslu um fáanlegt orkuverð á meginlandinu 2020, sem er þó mun hærra en verðlag orku á Skotlandi. 

Það er erfiðleikum háð að senda orkuna áfram suður frá Skotlandi vegna takmarkaðrar flutningsgetu.  Landsvirkjun virðist ekki hafa reiknað með neinum kostnaði við styrkingu flutningskerfisins á Skotlandi vegna þessara 700 MW.  Einfaldir útreikningar sýna, að enginn viðskiptalegur grundvöllur er fyrir sæstreng frá Íslandi, hvorki til Noregs, Skotlands né meginlands Evrópu.  Norska skýrslan gerir ráð fyrir orkuverði 60-89 EUR/MWh á meginlandinu árið 2030, og það er langt undir lágmarksverðinu, sem Landsvirkjun þyrfti. Landsvirkjun undir nýrri stjórn virðist ekki þekkja sinn vitjunartíma.  

norned_hvdc_europeRíkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á aðeins að fást við þjóðhagslega hagkvæm verkefni.  Það gefur t.d. auga leið, að miklu hagkvæmara er að framleiða ál á Íslandi og að flytja það með skipi til meginlandsins en að flytja orku um streng til Evrópu og framleiða þar ál með "sömu" orku.  Ástæðan er sú, að flutningskostnaður raforku um sæstreng er margfaldur á við flutningskostnað áls með skipi. 

Hér hefur verið sýnt fram á, að stórkostlegt þjóðhagslegt tap yrði af raforkuútflutningi um sæstreng, en að sama skapi er verulegur þjóðhagslegur gróði af sölu raforku til álvera og af starfsemi þessara sömu álvera á Íslandi.  Ástæðan er sú, að féð, sem eftir verður af veltu álvers innanlands, nemur a.m.k. tvöföldun þess fjár, sem einvörðungu fæst fyrir orkuna.  Frá sjónarmiði samfélagshagkvæmni er þess vegna einboðið, að Landsvirkjun á að einhenda sér í að virkja og selja meiri orku til álvera, og landsmenn að styrkja viðskiptastöðu sína gagnvart Evrópu með því að selja þangað meira af áli í takti við samdrátt álframleiðslu annars staðar í Evrópu vegna skorts þar á sjálfbærum og hagkvæmum orkulindum. 

Landsvirkjun virðist nú um stundir vera sama markinu brennd og ríkisstjórnin.  Forgangsröðunin er óskiljanleg og áherzlurnar virðast vera á gæluverkefnum, sem eiga hvergi annars staðar heima en í ruslafötunni.

 

 

 

 

 

 

 

 

       


Bloggfærslur 23. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband