17.2.2010 | 22:16
Fimman aðeins hjá SA
Samtök atvinnulífsins (SA) lýstu því yfir í viku 06/2010, að hagkerfi Íslands yrði að vaxa um 5 % að jafnaði á næstu 5 árum til að jafna um samdráttinn á tímabilinu 2008-2010. Gangi þetta eftir, verður hagkerfið 28 % stærra árið 2015 en árið 2010. Það er hægt að taka heils hugar undir með SA um þetta markmið, og að það sé brýnt fyrir velferð Íslendinga, að þeir nái þessu markmiði.
Hins vegar verður að hafa endaskipti á landsstjórninni til að minnstu líkur verði á að ná þessu verðuga markmiði. Landsmenn eru með lík í lestinni. Með kreddum sínum, framtaksleysi og misheppnuðum úrræðum gerir ríkisstjórn félagshyggjunnar þjóðinni lífsbaráttuna miklu erfiðari en efni standa til.
Algert þekkingarleysi ráðherranna á efnahagsmálum lýsir sér með því, að þegar nauðsynlegt er að gefa í til að ná landinu upp úr kreppunni, þá stíga þeir á bremsurnar. Afleiðingin er sú, að efnahagslífið er nú að stöðvast. Við aðstæður sem þessar á að liðka til fyrir fjárfestingum og fremur að lækka skatta en að hækka þá. Þegar hagvöxtur hefur tekið vel við sér, má hugleiða skattahækkanir. Annars eru þær stórskaðlegar fyrir skattgreiðendur og rýra í raun skattstofninn. Glópska þingliðs vinstri flokkanna á sér engin takmörk.
Frá Hruninu hefur orðið samfelld hnignun á Íslandi og keyrt hefur um þverbak með afturhaldinu, sem að völdum settist 1. febrúar 2009 og festi sig algerlega ómaklega í sessi með Hrunskosningunum í apríl 2009. Síðan hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina, enda fer því víðs fjarri, að valdhafar vinstri stjórnarinnar valdi verkefni viðreisnarinnar. Þeir hafa lagzt þversum gegn breytingum til batnaðar, en lagt lóð sitt á vogarskálar versnandi lífskjara með afar íþyngjandi og óþörfum skuldbindingum gagnvart Hollendingum og Bretum, hótandi eignarupptöku hjá útvegsbændum, sem setja mun bankakerfið aftur á hliðina, eyðileggjandi skilvirkt skattkerfi og standandi í rándýrum og gagnslausum, ef ekki skaðlegum, umsóknarviðræðum við ESB. Þessi umsókn um viðræður við ESB er eindæma illa ígrunduð og tímasett, og hún felur í sér ábyrgðarlausa sóun á skattfé og er á niðurskurðartímum fullkomlega siðlaus. Umsóknina ber að afturkalla strax.
ESB stendur á krossgötum. Nú er komið í ljós, að tilraunin með sameiginlega mynt, evruna, hefur mistekizt. Tveir kostir eru til. Annaðhvort liðast myntsamstarfið í sundur eða stofnað verður stórríki Evrópu með ein fjárlög. Íslendingar eiga að doka við og halda síðan þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn, þegar staðan hefur skýrzt. Skýr þjóðarvilji og þingvilji verður að vera fyrir umsókn. Annars er verr farið en heima setið.
Aðeins á 4 árum undanfarin 20 ár hefur hagvöxtur landsins náð 5 % markinu. Bóluárin 2006 og 2007 nam hagvöxturinn t.d. "aðeins" 4,4 % og 4,9 %, en 2008 var hann 1,3 % af VLF (verg landsframleiðsla - GDP á ensku, sbr graf að ofan). Árið 2009 var hins vegar samdráttur um 8 % af VLF.
Til að knýja áfram 5 % hagvöxt á ári þarf gríðarlegar fjárfestingar. Þær námu t.d. 28 % af VLF árið 2007. Á næstu árum munu þær þurfa að nema a.m.k. 30 % eða um ISK 450 milljörðum til að ná 5 % markmiði SA. Miðað við stöðu mála verður bróðurparturinn af þessum fjárfestingum að vera beinar erlendar fjárfestingar eða um MUSD 4 þúsund. Af þessu sést, hversu óraunhæf framsetning SA er. Eina ráðið til að ná þessu markmiði er, að ASÍ og SA taki höndum saman um að reka ráðleysið og dáðleysið af höndum landsmanna og að síðan verði rutt úr vegi hindrunum við verðmæta-og atvinnusköpun.
Það heyrast hins vegar úrtöluraddir í ýmsum kimum, þegar orkusölu til stóriðju ber á góma. Orkuverðið er talið vera of lágt; það standi aðeins undir kostnaði án nægilegrar arðsemi. Hvernig skyldi þá standa á því, að orkuverð (án skatta) til almennings er óvíða jafnlágt og á Íslandi, þó að dreifingarkostnaður á mann sé óvíða jafnhár og hér af náttúrulegum orsökum ?
Það er vegna þess, að stóriðjan hefur skuldbundið sig til að greiða megnið af umsaminni orku í 30-40 ár. Þar með kemur til skjalanna hagkvæmni stærðarinnar og trygg tekjulind fyrir allri fjárfestingunni með vöxtum og rekstrarkostnaði, og lánveitendur hafa treyst sér til að taka lágmarks vexti. Þetta er tryggt m.v. lágmarks álverð, og samningarnir veita orkufyrirtækjunum vænan arð, þegar álverð er yfir 2000 USD/t. Til lengdar er álverði spáð um 2500 USD/t. Er einhver annar orkukaupandi, sem kemst með tærnar, þar sem stóriðjan hefur hælana í þessum efnum ? Auðvitað ekki. Þeir hefðu þá nú þegar komið fram í dagsljósið. Einhver kann að bjóða hærra einingarverð til skamms tíma, en enginn hefur enn boðið virkjunarfyrirtækjunum betri kjör til langs tíma, t.d. á afskriftartíma virkjunar.
Kvisazt hefur um einingarverðið 40 mill/kWh til gagnavers. Við fyrstu sýn virðist þetta vera ótrúlega lágt verð, en einingarverðið segir lítið, eitt sér, um hagkvæmnina fyrir orkuseljandann. Önnur atriði verða að fylgja með til að vitrænn samanburður fáist. Nefna má afhendingarspennu, nýtingartíma afltopps, aflstuðul, afhendingarstað orku (er flutningskostnaður innifalinn ?), kaupskyldu og samningstíma.
Hræsnarar og beturvitar ("kverúlantar") orkuumræðunnar láta jafnan að því liggja, að "eitthvað annað" sé handan við hornið og bjóði betur. Jafnoft er gripið í tómt. Kjörin, sem þeir bjóða orkuseljendum, hafa reynzt lakari, þegar dæmið er reiknað til enda, og áhætta viðskiptanna fyrir virkjunar-og línueigendur hefur verið tekin með í reikninginn.
Stóriðjusinnar hafa þó ekki lagt það í vana sinn að gera lítið úr öðrum orkukaupendum, þó að ýmislegt, sem á fjörur orkufyrirtækjanna hefur flotið, sé óbeysið. Stóriðjusinnar frá Einari, skáldi Benediktssyni, og fram á þennan dag, vilja alls ekki leggja stein í götu neinnar atvinnustarfsemi; þvert á móti telja þeir fjölbreytni eftirsóknarverða og ákjósanlega fyrir íslenzkt þjóðfélag.
Þeir eiga að ná viðskiptunum, sem bezt bjóða, en klisjukenndur áróður gegn stóriðjunni er reistur á yfirgripsmikilli vanþekkingu á eðli hennar og innviðum í nútímanum ásamt forstokkuðum fordómum í garð einnar atvinnugreinar, sem hvergi er annars staðar á byggðu bóli að finna og jaðrar við brot á atvinnurétti.
Það verður að draga lærdóma af mistökum fortíðar. Bankaendurreisnin er prófsteinn á þetta. Vinstri stjórninni hefur tekizt eins óhönduglega til við þessa endurreisn og hugsazt getur, enda hefur engin heildstæð ný löggjöf litið dagsins ljós enn þá fyrir fjármálakerfið. Vinstri stjórnin virðist vera í helgreipum gróðapunga, en leggja hins vegar fæð á framleiðendur handfastra verðmæta, eins og iðnrekendur, bændur, útgerðarmenn og fiskverkendur, því að hún ofsækir þessar greinar og leggur stein í götu framþróunar þeirra eftir fremsta megni. Ríkisstjórnin hjarir í heimi hugaróra og veruleikafirringar "nómenklatúrunnar", sem engin tengsli hefur við hinn vinnandi mann.
Það er grundvallaratriði, að ný bankalöggjöf kveði á um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Þetta er lærdómur margra þjóða af fjármálakreppunni, en vinstri stjórnina hérlendis skortir áræði, vit, vilja til að leggja þetta til við Alþingi.
Menn mega samt reka eins marga fjárfestingarbanka og þeim sýnist, en verða þá að gera það á eigin ábyrgð og ekki á kostnað almennra innistæðueigenda. Hrægömmunum á alls ekki að líðast að sölsa tryggingastarfsemi undir sig og tengja hana braski Hún á að starfa á sínum eigin forsendum. Það verður að verja viðinn, svo að hann verði ekki maðksmoginn, sundurétinn og grautfúinn. Nóg er af ormunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)