12.3.2010 | 16:22
Lýðræðisslys
Ríkisstjórn Jóhönnu er mesta stjórnmálalega slys lýðveldissögunnar, og eftir uppákomur þjóðaratkvæðagreiðslunnar má spyrja sig, hvort forkólfar þessarar ríkisstjórnar gangi heilir til skógar.
Þeir eru augljóslega innantómir lýðskrumarar af versta tagi, sem meina ekkert með því, sem þeir segja. Þeir hafa t.d. í orði kveðnu þótzt berjast fyrir beinu lýðræði, en er á hólminn kemur, sést, að pukur, undirferli og leyndarhyggja er þeim meir að skapi.
Á sama tíma og ráðherrarnir hafa dregið lappirnar og beinlínis slævt bitið í vopninu, sem bezt bítur á útlendinga í deilunni um "Icesave"-reikningana, hefur forseti lýðveldisins heldur betur tekið til kostanna á vettvangi erlendra fjölmiðla í baráttunni fyrir málstað Íslands. Hefur þessi framganga forsetans verið með glæsibrag og vakið aðdáun í mörgum ranni, en framganga forkólfa ríkisstjórnarinnar hins vegar vakið á henni fyrirlitningu.
Það er einsdæmi, að erlendir viðsemjendur geri það að skilyrði fyrir áframhaldandi samningaviðræðum, að stjórnarandstaðan verði dregin að samningaborðinu. Svo yfirþyrmandi var hins vegar vantraust ríkisstjórna Breta og Hollendinga á ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, að þeir kröfðust aðkomu Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar. Aldrei hefur ein ríkisstjórn þurft að lúta jafnherfilega í gras; ekki einu sinni ríkisstjórn Þýzkalands eftir uppgjöf keisarans 1918, sem settir voru afarkostir í Versölum árið 1919, enda hafa verið leiddar líkur að því, að byrðar "Icesave"-samnings Steingríms á hvert mannsbarn á Íslandi séu talsvert meiri en álögur Versalasamninganna á hvern íbúa Weimar-lýðveldisins. Sjá þá allir, hvílíka óhæfu fjármálaráðherra framdi með áritun sinni 5. júní 2009. Er það verðugur bautasteinn um skammæja stjórnarsetu vinstri-grænna.
Það eru tvær ólíkar meginástæður hinnar arfaslöku frammistöðu skötuhjúanna í viðræðunum við Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á innistæðum Landsbankans Bretlandi og í Hollandi á áhættureikningum (hávaxtareikningum).
Ástæða Jóhönnu og Samfylkingarinnar er umsóknin um aðlögunarviðræður við ESB (Evrópusambandið), en þau óttast eins og pestina, að ríkisstjórnir þjóðanna tveggja seinki ferlinu og tefji viðræðurnar og jafnvel, að ESB stöðvi ferlið, ef Íslendingar sýna yfirganginum andóf. Vegna þessa glórulausa ótta um afdrif steinbarns Samfylkingarinnar er hún fús til að framselja ríkisstjórnum þessara landa væna sneið af skattheimtu íslenzka ríkisins næstu tvo áratugina. Verði farið að vilja hennar, munu Íslendingar ganga hoknir af skuldum inn í ESB, með sífallandi gjaldmiðil vegna sömu skulda, óðaverðbólgu af sömu ástæðum og fjöldaatvinnuleysi vegna upplausnar í sjávarútvegi og landbúnaði af völdum aðildar. Evran, verði hún áfram við lýði, verður ekki í sjónmáli á Íslandi, því að engin Maastricht-skilyrðanna um upptöku evru geta Íslendingar uppfyllt við téðan óstöðugleika og jafnvel nýtt hrun, sem þrælahelsi Icesave-upphæðanna með vöxtum Jóhönnu & Co. mun leiða yfir landslýð.
Ástæða Steingríms, fjármálaráðherra, er af öðrum toga. Dómgreindarleysi hans og fákunnátta leiddi til þess, að hann, öllum að óvörum, framdi það axarskapt að skrifa undir alla skilmála Breta og Hollendinga 5. júní 2009, af því að gamall vopnabróðir hans hafði ekkert úthald til samningaviðræðna við sleipa útlendinga, heldur lagði strax niður laupana og nennti ekki að veita andóf. Steingrímur, sem veitti Alþingi fáeinum dögum áður þær hæpnu upplýsingar, að aðeins væru þreifingar í gangi um "Icesave", hélt því fram, að betri samningum gætu Íslendingar ekki náð. Þetta var auðvitað tóm vitleysa, enda kom strax í ljós og fagmenn voru sendir á vettvang og baklandið í Hollandi og á Bretlandi hafði verið mýkt með réttum upplýsingum, að Bretar og Hollendingar hörfuðu úr einu víginu í annað.
Þetta er svo þungur áfellisdómur yfir stjórnmálamanninum Steingrími Jóhanni Sigfússyni, að hann á sér ekki viðreisnar von fremur en nokkur annar stjórnmálamaður í sporum hans mundi eiga. Þess vegna beitir hann nú öllum brögðum til að þvælast fyrir góðum árangri og til að hætta sókninni til sigurs í miðju kafi.
Ljóst er af því, sem hér hefur verið tínt til, að axarskaptsparið í forsystu ríkisstjórnarinnar, Steingrímur og Jóhanna, eru afspyrnu illa fallin til að gæta hagsmuna Íslands út í yztu æsar í "Icesave"-málinu. Jóhanna óttast refsiaðgerðir að hálfu ESB í inngönguferlinu þar, og því betri árangur, sem næst, þeim mun meiri hafa augljóslega verið mistök Steingríms, Svavars og Indriða í samningunum, sem ríkisstjórn þeirra keyrði með offorsi gegnum þingið. Hagsmunir skötuhjúanna fara þess vegna ekki saman við hagsmuni íslenzkra skattborgara.
Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um staðfestingu eða synjun þrælalaga ríkisstjórnarinnar var með mun skýrari hætti en flestir bjuggust við. Hún er ákall um sanngjarnari dreifingu byrðanna af "Icesave" á milli þjóðanna þriggja, sem hlut eiga að máli, en samningsnefna ríkisstjórnarinnar kveður á um. Nú er komið í ljós, ofan á allt annað, að Steingrímur, fjármálaráðherra, áritaði lögin án lýðræðislegs umboðs. Þingmenn stjórnarandstöðu og nokkrir VG-þingmenn munu hafa tjáð honum andstöðu sína á undan áritun, svo að honum mátti vera kunnugt um, hvílíkar ógöngur hann væri að leiða Alþingi og þjóðina í með áritun sinni. Áritun Steingríms vitnar um ólýðræðislegt hugarfar og kolrangt stöðumat.
Það, sem var ríkisstjórninni um megn, gerðu 63 % atkvæðisbærra manna, er um 93 % þeirra höfnuðu þrælalögum Steingríms eða fast að 60 % atkvæðisbærra manna. Þetta jafngildir falleinkunn fyrir ríkisstjórnina, sem ekkert getur skammlaust gert.
Annað er að segja um forseta lýðveldisins. Sá maður fer nú hamförum í sókn og vörn fyrir málstað Íslands á erlendum vettvangi. Þar hamlar hvorki málhelti, þekkingarskortur né viljaleysi för. Forsetinn sýnir yfirburði sína á öllum þessum sviðum og fær hæstu einkunn fyrir frábæra frammistöðu sína. Fer nú að verða tímabært, að tossarnir dragi sig í hlé og hleypi öðrum að til að vinna verkin, sem þeir hafa aldrei verið nálægt því að ráða við.
Það standa engin rök til þess, að íslenzkir skattborgarar taki að sér að greiða allar eftirstöðvarnar eftir uppgjör Landsbankans með vöxtum. Vaxtalaus kjör og deiling byrðanna í hlutfalli við metna ábyrgð yfirvalda í viðkomandi þremur löndum á óförunum, þar sem til hliðsjónar verði jafnframt jöfnun greiðslna á hvern íbúa, eru sanngirnikröfur að hálfu Íslendinga og eitthvað, sem ætla mætti, að meðbyr fengi í nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Víða var fylgzt með téðri þjóðaratkvæðagreiðslu. Meðfylgjandi er mynd af einni veizlu í Sviss í tilefni úrslitanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)