11.6.2010 | 19:52
Stórveldi leitar hófanna
Þann 9. júní 2010 varð allnokkur opinber atburður, kyrfilega sviðsettur. Fulltrúi í stjórnmálaráði miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins var hér með 80 manna fylgd í boði utanríkisráðherra Íslands. Hinn þurftarfreki gamli Trotzky-isti skrifaði undir gjaldeyrisskiptasamning fyrir hönd Seðlabanka Íslands við seðlabanka Kína. Óvíst er, hvaða ávinningur er fólginn í þessum samningi fyrir Ísland, en hins vegar er ljóst, að slíkur samningur getur orðið forleikur að lánalínu og lántökum.
Þá skrifaði hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar undir viljayfirlýsingu um fjármögnun Búðarhálsvirkjunar gegn því, að kínverskt verktakafyrirtæki, CWE, öðlist forgang að verkefninu.
Þessum gjörningi hefur verið leikstýrt út iðnaðarráðuneytinu, en dáðleysi og ákvarðanafælni hafa einkennt feril ráðherra Samfylkingarinnar, sem þar situr nú að völdum. Nú gæti hins vegar svo farið, að hún skildi eftir sig sviðna jörð.
Óþarfi er að taka fram, að gjörningar af þessu tagi eru óhugsandi alls staðar annars staðar innan "Festung Europa" eða á Innri markaði Evrópu.
Ljóst er, að Kínverjar hafa gert langtíma áætlun um að öðlast ítök á Íslandi. Kínverskir stjórnmálamenn og embættismenn hugsa ekki í kjörtímabilum, heldur í mannsöldrum. Utanríkisstefna Kínverja er heimsvaldastefna í þeim skilningi, að þeir leggja áherzlu á að ná tökum á auðlindum jarðar, vinna þær úr jörðu eða framleiða landbúnaðarvörur og senda hráefni til Kína til frekari úrvinnslu. Þessi hegðun þeirra er afar áberandi í Afríku, þar sem þeir hafa t.d. keypt mikið land til námugraftrar og landbúnaðar, en þeir láta líka að sér kveða í Suður-Ameríku. Nú stunda 40 % íbúa Rauða-Kína landbúnaðarstörf, en áætlað er að þeim fækki í 24 % á næstu 10 árum. Framleiðni er lág, og Kínverjar óttast matvælaskort, sem gæti valdið miklum innanlandsóróa.
Hvað fyrir þeim vakir hérlendis, er ekki ljóst. Langtíma markmiðið kann að vera að ná tökum á matvælaframleiðslu landsins, en til skemmri tíma beinist áhuginn að orkulindunum og nýtingu þeirra. Í þessu sambandi er vert að minnast, að siglingaleiðin á milli Íslands og Kína mun styttast umtalsvert, þegar norðurleiðin opnast, sem talið er muni verða á þessum áratug. Aðgengi að auðlindum á sjávarbotni, iðnvæðing Íslands og tenging Íslands við markaði ESB kunna og að vekja áhuga þeirra.
Viljayfirlýsingin, sem hinn nýbakaði forstjóri Landsvirkjunar undirritaði, er með algerum ólíkindum og fullkomin fásinna. Yfirlýsingin hlýtur að hafa verið samþykkt af stjórn Landsvirkjunar og er þar með á ábyrgð iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sem Samfylkingin ber stjórnmálalega ábyrgð á. Þessum ráðherra virðist engan veginn vera sjálfrátt og ómögulegt að sjá, hvaða erindi hún á í ráðherrastól, jafngagnslítil og hún hefur reynzt. Afskipti Samfylkingarinnar af orku-og iðnaðarmálum landsins eru ein samfelld hrakfallasaga. Er skemmst að minnast fáránlegs úrskurðar Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, um sameiginlegt umhverfismat allra tengdra framkvæmda álveri Alcoa á Bakka við Húsavík. Hefði sá biðleikur ekki verið leikinn, væri öðru vísi umhorfs á atvinnumarkaðinum á Íslandi nú um stundir, og um 100 milljarðar króna í vændum í auknum útflutningstekjum. Dýrir ætla sameignarsinnarnir í Stjórnarráðinu að verða landsmönnum, og mun hið fyrra hrunið verða barnaleikur hjá sjálfskaparvítum vinstri flokkanna við völd.
Þetta síðasta útspil Samfylkingarinnar í orkumálum tekur þó út yfir allan þjófabálk. Verkalýðshreyfingin (ASÍ)hefur fordæmt verknaðinn, og skal taka heils hugar undir þá fordæmingu. Segja má, að betra er heima setið en af stað farið, ef virkja á með kínversku vinnuafli á meðan yfir 20 þúsund Íslendingar hafa ekki vinnu við hæfi. Kínverja má ekki ráða hér til vinnu, ef vinnuafl fæst á Innri markaðinum. Þetta er "Festung Europa".
Kínverjar unnu hér við Kárahnjúkavirkjun og ber ekki að vanþakka framlag þeirra þar, en þá ríkti efnahagsþensla, og ekki fékkst nægt vinnuafl á Innri markaði EES. Þetta er ófrávíkjanleg forgangsregla hins Innra markaðar og með algerum ólíkindum, að ríkisstjórnin hætti nú á hörð viðbrögð frá Evrópu og víðar, þegar okkur ríður á að bæta samskiptin við þessar þjóðir án þess að leggjast þó í duftið og sleikja skósóla "Brüssel-búrókrata", eins og utanríkisráðherra er tamt.
Það verður ekki á Samfylkinguna logið. Ísland er innan "Festung Europa" með kostum þess og göllum, og ESB mun ekki líða það, að kínverskt vinnuafl njóti réttinda til vinnu á Íslandi umfram vinnuafl á innri markaði EES. Þegar horft er til þess með hvaða hætti þessi forréttindi skapast, er ljóst, að gjörningurinn er þar að auki brot á samkeppnireglum Innri markaðarins, þar sem einu fyrirtæki er keyptur aðgangur að verki með lánveitingu eða fjármögnun hins opinbera í viðkomandi landi (Kína) til verkkaupans.
Hér er satt að segja um alveg glórulausan gjörning að ræða og heimskulegan í alla staði. Gjörningurinn, sem viljayfirlýsingin fjallar um, stenzt ekki einfaldasta próf á sviði tilskipana og laga ESB að ekki sé nú minnzt á íslenzk lög og reglur.
Téð viljayfirlýsing er svo vitlaus, að með ólíkindum er, að nokkur hérlandsmaður skyldi ljá nafn sitt við hana. Hún mun þar að auki skaða okkur erlendis, bæði vestan hafs og austan, þar sem menn gjalda mikinn varhuga við ásókn kínverska stórveldisins.
Íslenzka ríkisstjórnin er hins vegar þeirrar gerðar um þessar mundir, að hún telur sér alla viðhlæjendur vini. Allt vitnar þetta mál um ótrúlega skammsýni, þekkingarleysi og dómgreindarleysi, þ.e. óhæfni vinstri stjórnarinnar og trúnaðarmanna hennar. Kostnaðurinn af afglöpum, úrræðaleysi og fordómum vinstri stjórnarinnar er svo hár, að þjóðin hefur ekki lengur efni á, að hún hangi hálfdauð við völd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)