Ölmusuþegar

Nú hefur verið boðað, að styttast muni í svo nefnda aðlögunarstyrki frá ESB til Íslands.  Sannast þar, hvað haldið hefur verið fram, að Ísland er í boði ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri grænna að hefja aðlögunarferli fyrir fulla Evrópusambandsaðild.  Evrópusambandið hefur breytzt frá því Noregur stóð í samningaþrefi við ESB 1972 og 1994.  Nú göngum við inn í ferli, sem sniðið var fyrir Austur-Evrópu.  Umsóknarlandið getur fengið mislangan aðlögunartíma, en það verður að innleiða öll lög og tilskipanir ESB á endanum.  Allt hjal um eitthvað annað er rándýr og stórhættulegur loddaraleikur ábyrgðarlausra manna.   

Til þess fær umsóknarlandið fjárhagsstyrk frá ESB, og það er hægt að taka undir það með Ögmundi Jónassyni, Alþingismanni, að þetta er alveg sérstaklega ógeðfelld tilhugsun

Æ sér gjöf til gjalda segir hið forna máltæki, og þetta er sérlega varasamt í ljósi þess, að flest bendir til, að umsóknarferli þetta verði stöðvað af Alþingi áður en því lýkur, og vonandi áður en það kemst á fullt skrið.  Alþingi mun síðan óska eftir beinum úrskurði þjóðarinnar til að fá þennan dæmalausa tvístíganda endanlega út úr heiminum. Það verður líka nauðsynlegt til að taka af allan vafa gagnvart útlendingum um afstöðu landsmanna.  Hinn kratíski draugur verður niður kveðinn.   

Um þessa stefnumörkun tók Landsfundur Sjálfstæðisflokksins af skarið í júní 2010.  Á hann heiður skilinn fyrir skelegga ályktun.  Enginn getur lengur vænt Sjálfstæðisflokkinn um að bera kápuna á báðum öxlum í mesta sjálfstæðismáli vorra tíma.  Afstaða Landsfundar var fullkomlega rökrétt, því að annaðhvort eru menn fylgjandi inngöngu eða ekki.  Sjálfstæðisflokkinum verður ekki beitt fyrir ESB-vagninn. 

Það er blekking eða barnaleg fáfræði um eðli ESB, að Ísland geti annað hvort samið um varanlega sérstöðu innan ESB eða sveigt stefnu ESB þangað, sem okkur hentar.  Allt slíkt er fullkomið óráðshjal, og þeir, sem gera sig seka um slíkan málflutning, dæma sig sjálfir (úr leik). Landsfundur sendi jafnframt gullgrísum á meðal trúnaðarmanna flokksins einörð skilaboð að hætti Rangæinga.  Ef hinir fyrr nefndu sjá ekki skriftina á veggnum núna, eru þeir stjórnmálalega ólæsir.  Slíkir eru flokkinum byrði og valda því, að sókn hans er ekki hraðari en raun ber vitni um.   

Herðubreið sumarið 2009Merki Sjálfstæðisflokksins

 Nú hefur verið birt ný skoðana-

könnun um afstöðu Íslendinga til aðildar að ESB.  Svo virðist sem fjórðungur þjóðarinnar sé enn fylgjandi aðild.  Ef og þegar menn sjá inngönguskilmálana svarta á hvítu, mun saxast verulega utan af þessum fjórðungi, og e.t.v. mun hann verða 15 %.  Rímar það nokkurn veginn við hefðbundið kratafylgi í landinu. 

Það er hópur í landinu þeirrar skoðunar, að bezt henti landinu að vera í ríkjasambandi.  Hann hefur fullan rétt til þeirrar skoðunar, og við sum asnaspörk stjórnvalda getur einmitt hvarflað að fólki, að e.t.v. gæti ákvarðanataka ekki orðið verri fjarri fósturlandsins ströndum. 

Ekkert land í Evrópu, og þó að víðar væri leitað, hefur hins vegar tekið jafnmiklum stakkaskiptum frá 1904, er Ísland fékk heimastjórn, og land vort.  Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að þeir sem börðust fyrir afnámi ríkjasambandsins við Danmörku, af því að þannig yrði hagsmunum landsmanna bezt borgið, höfðu á réttu að standa, en hinir máttu lúta í gras. 

Hrunið 2008 breytir engu um þá heildarmynd.  Ef kraftur einkaframtaksins verður virkjaður á ný, og erlendum fjárfestum skapað traust umhverfi í öllu tilliti (þar veltur á ýmsu), þá mun íslenzka hagkerfið ná sér á strik á tveimur árum með blússandi hagvexti og nægri atvinnu.  Að öðrum kosti verður hér fjöldi manns í fátæktarfjötrum á framfæri hins opinbera.  Það eru ær og kýr krata að þenja báknið út.  Báknið getur hæglega orðið okkur ofviða, ef erlendar skuldir verða ekki greiddar hratt niður, og þá verðum við öll ölmusufólk. 

Við öll vatnaskil í sjálfstæðismálum landsins hefur verið á kreiki hópur efasemdarmanna um aukið sjálfstæði.  Árið 1943 voru kratar andvígir lýðveldisstofnun árið eftir.  Árið 1918 voru þeirra tíma kratar andvígir fullveldistökunni með sambandsslitum við Dani (aðeins konungur og utanríkismál urðu sameiginleg).  Mjótt var á munum árið 1903 varðandi heimastjórn eða ráðherra í Danmörku árið eftir.  Þannig má áfram telja.  Alltaf hafa úrtölumenn gert lítið úr getu þjóðarinnar til að rísa undir auknu sjálfræði um eigin mál.  Nú telja þeir sig hafa himin höndum tekið og ætla að snúa þróuninni við með því að færa okkur aftur inn í ríkjasamband.  Öfugmælavísur kveða þeir margar, en sú er sýnu verst, er kveður svo á um, að hollast sé smáþjóð að deila fullveldi sínu með stórþjóðum og öðrum. 

Þessum minnihluta landsmanna, sem nú njóta forystu litla, ljóta eldfjallsins, svo að lagt sé út af orðum ESA-forsprakkans, sem hér var um daginn, mun ekki verða kápan úr því klæðinu.  Þeir munu verða gerðir afturreka með það allt saman og einangraðir í stjórnmálum.  Þeir hafa sýnt sitt rétta andlit, og það er svo ófrýnilegt, að það á ekkert erindi í stjórnarráði landsins.  Fimmta herdeildin var nefnd í því sambandi, og vinstri-grænir hafa leitt hana til öndvegis á Íslandi.  Mikil er skömm þeirra og mun uppi verða á meðan sú flokksómynd er við lýði.  

Vinstri hreyfingin grænt framboð er þess vegna algerlega ótrúverðug, þegar kemur að varðstöðu um sjálfstæði landsins.  Hún selur það, sem talið var vera henni kærast, fyrir baunadisk.

Núverandi ríkisstjórn er örverpi (bastarður), sem virðist ekki njóta óskoraðs þingmeirihluta, heldur lafa á ótta ráðstjórnarinnar við að missa völdin.  Nú fjarar hratt undan ríkisstjórninni, og um þessar mundir er fylgið um 2/5.  Stjórnarandstaðan á þingi verður nú að girða sig í brók og taka höndum saman við samtök launþega og vinnuveitenda og losa þjóðina við þessa óværu fyrir veturnætur.  Annars verður hún vart á vetur setjandi.        

 

  

  


Bloggfærslur 2. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband