4.11.2011 | 18:59
"Að verma sitt hræ við annarra eld"
Það hefur aldrei stórmannlegt þótt að skreyta sig með annarra fjöðrum. Það er þó í raun það, sem forysta hinnar verklausu og dæmalausu vinstri stjórnar gerir, purkunarlaust. Meginlínur viðreisnar voru lagðar af ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde með neyðarlögunum, sem Hæstiréttur staðfesti í viku 43/2011, og með samningunum við AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, en í fang hans vorum við hrakin af "vinum" okkar austan hafs og vestan. "Maðurinn er alltaf einn", sagði höfundur tilvistarstefnunnar, Jean-Paul Sartre. Skyldi það gilda líka um þjóðir.
Hins vegar hefur útfærslu samkomulagsins við AGS verið mjög ábótavant að hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem annaðhvort hefur ekki skilið inntak hans, eða hún hefur ákveðið að hunza þann þátt, sem hagvöxt gæti gefið, enda er það inntak efnahagsstefs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, að hagvöxtur á Íslandi, sem og í heiminum öllum, sé ósjálfbær, og þess vegna sé hann af hinu illa, sem beri að forðast. Er þetta ein fáránlegasta stefnumörkun stjórnmálaflokks á Íslandi frá upphafi vega og jafngildir atvinnufjandsemi, hruni innviða og fátæktarbasli alls þorra manna, er fram líða stundir. Er þetta svartasta afturhaldsstefna, sem nokkur stjórnmálastefna hefur boðað Íslendingum.
Það er engin tilviljun, að hér hefur aðeins ein fjárfesting orðið í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar, sem orð er á gerandi, þ.e. 80 milljarða fjárfesting í Straumsvík og við Búðarháls, enda voru þau verkefni komin á rekspöl fyrir Hrun. Nú hefur gamli Trotzkyistinn í Svörtuloftum hækkað aftur stýrivexti, öllum að óvörum, og stærir sig af. Þessi "lækning" er eins og blóðtaka úr sjúklingi með magasár. Hvar er þenslan í þjóðfélaginu, sem vöxtum er ætlað að slá á ? Peningastefnunefnd Seðlabankans virðist telja sig sjá verðbólgu að ári. Er líklegt, að tortíming evrunnar, sem Grikkir hafa nú algerlega í hendi sér, og hrun fjármálakerfis Evrópu, muni leiða til þenslu hérlendis ? Svörtuloftamenn eru illilega úti að aka og ekki í fyrsta skipti.
Á vefmiðli Evrópuvaktar birtist í viku 43/2011 greinaflokkur um áliðnað á Íslandi og framtíð hans. Þar eru því gerðir skórnir, að ekki verði reistar fleir álverksmiðjur hérlendis vegna stjórnmálaástandsins innanlands, hærra orkuverðs á Íslandi en álfyrirtækin geti sætt sig við og áforma um að reisa álver á Grænlandi.
Evrópuvaktin á þakkir skildar fyrir þetta framtak og hlutlæga frásögn af málefnum áliðnaðarins. Það er meira en unnt er að segja um aðra fjölmiðla. Þar má nefna Fréttablaðið og RÚV, en ýmsir fréttamenn þar, þó ekki allir, eru með hræðilega andiðnvæðingarlega slagsíðu, sem er torskiljanlegt, því að þjóðfélagsleg grózka er allra hagur, ekki sízt opinberra starfsmanna.
Áliðnaðurinn leggur til fjórðung útflutningsteknanna og veitir 10-20 þúsund manns lífsviðurværi sitt, þegar allt er talið. Íslenzki áliðnaðurinn er svo vel rekinn tæknilega og fjárhagslega, að jafnað er til hins bezta, sem gerist í heiminum. Heilbrigðis-, öryggis- og umhverfismál eru í algerum sérflokki innan áliðnaðarins á Íslandi. Beztu þekktu aðferðum er beitt til að ná bezta árangri á heimsvísu á þessu sviði. T.d. hafa verið unnar yfir 5 milljónir vinnustunda í Straumsvík án slysa með fjarveru sem afleiðingu. Geta aðrir vinnustaðir á Íslandi státað af einhverju viðlíka ? Engin mengun hefur verið greind úti fyrir strandlengju álversins í Straumsvík. Það er staðfest af innlendum rannsóknarstofnunum. Það er líka frábær árangur. Losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn framleidds áls er sú minnsta, sem um getur í heiminum. Losun flúors og brennisteins er lítil og aðeins brot af því, sem eldgos hafa leyst úr læðingi á Íslandi síðan land byggðist. Starfsemin í Straumsvík er þess vegna bæði sjálfbær og afturkræf. Þetta er tromp Íslands gagnvart fjárfestum álfyrirtækjanna, sem þeir geta ekki staðizt.
Súluritið hér að ofan sýnir viðskiptahalla nokkurra ríkja á tímabilinu 2000-2007. Til að skapa hér stöðugleika er íslenzka hagkerfinu alger nauðsyn að sýna hagnað á viðskiptum við útlönd, helzt yfir 5 % á ári að jafnaði. Þar þurfa allir atvinnuvegirnir að leggjast á eitt, en mesta aukningin getur komið frá áliðnaðinum. Þá vaknar spurningin, hvort grundvöllur er fyrir frekari fjárfestingum í áliðnaði ? Því er til að svara, að svo er. Áliðnaðurinn getur og vill greiða á bilinu 30-40 mill/kWh, verðtryggt, að flutningskostnaði og rafskatti meðtöldum. Virkjun íslenzkra fallvatna útheimtir ekki hærra verð, ef full nýting nývirkja, stöðugt álag, mjög hár aflstuðull og langtímasamningur með mikilli kaupskyldu er annars vegar, eins og álverin bjóða.
Enn er hagkvæmt, óvirkjað vatnsafl í landinu til þessara nota, er nemur a.m.k. 13 TWh/a, sem svarar til um einnar milljónar tonna af áli. Það svarar til ríflega tvöföldunar áformaðrar framleiðslugetu núverandi þriggja álvera í landinu eftir stækkun þeirra og mundi jafngilda um 300 milljarða aukningu útflutningsverðmæta á ári, sem er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu samfélagsinnviða og greiðslu afborgana og vaxta af erlendum lánum.
Í sambandi við nýjar virkjanir er rétt að benda á grein Jakobs Björnssonar, "Slæmar fréttir-Alcoa hættir við að reisa álver við Húsavík", í Morgunblaðinu á bls. 33, þann 29. október 2011. Það er vert að benda á, að virkjun Jökulsár á Fjöllum er tæknilega framkvæmanleg í Þingeyjarsýslum án skerðingar á mikilfengleika Dettifoss og óþarfi að senda hana niður á Hérað.
Grunnur orkuöflunar til álvera á Íslandi þarf að vera vatnsaflið. Jarðvarmasvæðin tekur of langan tíma að nýta, þau eru of mikilli óvissu undirorpin, mengunarmál þeirra eru óleyst og orkunýtni þeirra við raforkuvinnslu einvörðungu er óásættanlega lág (rúm 10 %).
Það er alger óþarfi að vera með svartsýnistal um, að iðnvæðingartækifæri séu okkur varanlega úr greipum gengin, þó að vargar í véum hafi reynt eftir megni að eyðileggja traustið til valdastofnana og stjórnsýslu, sem verður að vera fyrir hendi, svo að miklar fjárfestingar eigi sér stað. Núverandi ráðherrar verða senn pokaðir, enda eru þeir forpokaðir og forkastanlegir.
Eins og margoft hefur verið bent á, hefur ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms alls ekki brotið blað í stjórnsýslunni í þeim skilningi, að þau hafi fitjað upp á nýjungum, sem marka stefnuna fram á veginn. Þvert á móti. Þau hafa þó farið inn á 3 óvenjulegar brautir. Búið er vinda ofan af einni vitleysunni úr þeim, þ.e. Icesave, með tilstyrk forseta lýðveldisins, en hinar tvær bíða stjórnarskipta, e.t.v. undir forsögn nýs formanns Sjálfstæðisflokksins, þ.e.a.s. mjög sligandi aukning skattheimtu og umsókn um aðild að ESB, Evrópusambandinu, með hið háleita markmið um upptöku evru, sem enn er haldið til streitu. Það eitt segir meiri sögu um viðundrin, sem með völdin fara, en mörg orð. Verst er, að þetta lið er og verður þjóðinni til skammar.
Hér voru í viku 43/2011 miklir erlendir hagspekingar í heimsókn. Fyrstan má þar frægan telja Martin Wolf, aðalhagfræðing Financial Times. Martin Wolf er gagnkunnugur málefnum Evrópu, og hann hefur kynnt sér málefni Íslands ótrúlega vel. Martin Wolf sagði:
"Hvers vegna í ósköpunum ættuð þið að ganga í samtök, sem flaskað hafa jafnillilega og ESB ? Hafið þið alls ekki tekið eftir, hvað er að gerast þar ? Ísland mundi að sjálfsögðu ekki hafa nein áhrif, málflutningur þess og atkvæði yrði einskis virði í ákvörðunum sambandsins, og svo gæti farið, að landið mundi glata yfirráðum mikilvægra náttúruauðlinda sinna vegna þess, að ESB-löndin vilja ólm komast í þær."
Hér tjáir sig víðsýnn og fróður Englendingur um aðildarviðræður Íslendinga við ESB og um afleiðingar inngöngu. Ríkisstjórnin hefur með flónshætti sínum gert Íslendinga að athlægi í augum heimsins. Það kemur æ betur í ljós, að umsóknin um aðild að ESB var algerlega vanreifuð, og hún var feigðarflan, sem aðeins getur endað í öngstræti, eins og núverandi þingmeirihluta var bent á í upphafi. Ósk Alþingis um aðildarviðræður þann 16. júlí 2009 lýsir fullkomnu dómgreindarleysi. Það dettur engum í hug að hefja aðildarviðræður við ESB með þverklofna ríkisstjórn að baki beiðnarinnar. Annar ríkisstjórnarflokkurinn hefur lýst því yfir, að hann muni berjast gegn samþykkt samningsins, þannig að samningurinn mun kolfalla á Alþingi. Það er glórulaus sóun fjármuna að standa nú í aðlögunarviðræðum og aðlögun stjórnsýslunnar að regluverki ESB. Allt þetta framferði er óheiðarleg framkoma gagnvart ESB og aðildarríkjum þess og er íslenzka ríkinu til stórskammar. Valdhafarnir berja samt hausnum við steininn.
Það er mjög ósmekklegt af ESB að skipuleggja nú rándýra áróðursherferð á Íslandi fyrir sínum málstað. Réttast væri af ESB við þessar aðstæður að fara sér hægt hérlendis, því að hættan er sú, að andrúmsloftið gagnvart ESB gæti orðið eitrað hérlendis. Þetta eru vissulega ótilhlýðileg afskipti erlends valds af innanlandsmálum hér, sem gætu komið sem bjúgverpill í fang Berlaymontmanna.
ESB er í algerum ógöngum með sína evru. Björgunarsjóður evruríkjanna var í viku 43/2011 ríflega tvöfaldaður upp í 1000 milljarða evra. Sú ákvörðun ESB-leiðtoganna er veik, því að fjórföldun er lágmark þess, sem talið er duga til að verja Ítalíu og Spán, og sennilega þarf 4000 milljarða evra til að verja evruna, því að Frakkland stendur á brauðfótum líka, eins og koma mun í ljós, þegar afskriftir lána fara að bíta á bankana. Þar að auki hefur þessi síðasta aukning ekki verið fjármögnuð enn, og umræðan um hana á eftir að valda mikilli ólgu í Þýzkalandi, Austurríki, Hollandi og Finnlandi og víðar.
Það er verið að laumast aftan að kjósendum með því að stofna eins konar ríkissjóð ESB sem bakhjarl evrunnar án þess að um slíkt hafi farið nokkur lýðræðisleg umræða fram í Evrópu. Samfylkingin, með samþykki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, berst fyrir því að troða Íslandi inn í sambandsríki Evrópu, sem nú er á hverfanda hveli, þar sem við verðum eins og krækiber í helvíti, fórnum fullveldi okkar fyrir engan ávinning og verðum selstöð og handbendi auðlindanýtingar Evrópu. Sú staða, sem vinstri stjórnin er búin að koma Íslandi í, er fáránleg, og í stefnumörkuninni að baki þessari stöðu er ekki heil brú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)